Það er löngu orðin hefð hjá mér, eða kækur, að skrifa langan hlaupapistil um hver áramót til að gera upp nýliðna hlaupaárið mitt og leggja línurnar fyrir það næsta. Þessi pistill er sá nítjándi í röðinni, en fyrsti pistillinn var skrifaður í árslok 2007.
„Það er engin þörf að kvarta“
Þessi orð úr kvæði Stefáns frá Hvítadal lýsa hlaupaárinu mínu 2025 býsna vel. Þetta var sem sagt engan veginn eitt af mínum bestu hlaupaárum, en ég þarf samt ekkert að vera væla yfir bágu gengi. Árangur í keppnishlaupum var vissulega undir væntingum, en hlaupin gáfu mér margar góðar stundir á árinu – og meiri háttar skakkaföll voru fátíð.
Æfingarnar
Hlaupaæfingar ársins gengu stórslysalaust fyrir sig. Reyndar hljóp ég ekki nema 1.649 km samtals, sem þýðir að þetta var fjórða stysta hlaupaárið mitt frá (og með) 2007. Aðeins meiðslaárin 2018 og 2022 voru styttri, svo og árið 2007 þegar hlaupin voru ekki meira en svo orðin að lífsstíl. Mögulega er hægt að lesa einhverja kerfisbundna þróun út úr myndinni hér að neðan, en mér finnst skemmtilegra að gera það ekki.

Fyrstu æfingamánuðir ársins einkenndust af mikilli varfærni, en þá var ég rétt að komast af stað aftur eftir endurteknar tognanir í læri, sem byrjuðu í lok ágúst 2024 og gáfu m.a. af sér hlaupalausan desember. Einhverjar umgangspestir settu líka strik í reikninginn, þannig að það var ekki fyrr en í mars sem ég fór að ná 30-40 km hlaupavikum. Almennt finnst mér það vera lágmarksmagn til viðhalds.
Upp úr miðjum apríl fannst mér hlaupaformið vera farið að líta sæmilega út. En þá kom aftur bakslag þegar tognunin í lærinu tók sig upp á hlaupaæfingu í Danmörku 18. apríl. Í hönd fóru stuttar vikur með enn meiri varfærni og hjólaæfingum. Þær hafði ég líka stundað fyrstu vikur ársins og þegar upp var staðið náði ég samtals 514 km á hjóli á árinu. Hlaupaárið var því ekki alveg eins stutt og tölurnar hér að ofan gefa til kynna.
Seinni partinn í júní fannst mér ég loks vera kominn í nokkuð eðlilegt horf. Æfingar sumarsins gengu svo bara ágætlega og skrokkurinn þoldi vaxandi álag vel. Í júlí var hlaupamagnið komið upp í júlímeðaltal síðustu ára og ágústmánuður varð sá næstlengsti frá upphafi, 300 km samtals, og meðalvikan komin í 60-70 km. Þetta hélst fram í miðjan september, enda var ég þá að undirbúa 50 km utanvegahlaup á Gotlandi í byrjun október. Sá undirbúningur tók óvænta stefnu um miðjan september þegar ég varð mér úti um þráláta berkjubólgu með leiðinlegum aukaverkunum. Við tóku 6 vikur með litlum sem engum hlaupum, þar sem önnur verkefni í lífinu tóku líka sinn tíma eins og gengur.
Eftir þetta óvænta hausthlé, nánar tiltekið undir lok októbermánaðar, bjó ég mér til nýja æfingaáætlun sem átti að gilda næstu 4 vikur til að byrja með – og síðan í endurskoðaðri mynd aðrar 4 vikur. Áætlunin var svohljóðandi (fyrir hverja viku):
- 30-40 km
- Eitt Hafnarfjall
- Ein hröð æfing (T, I eða R í anda Jack Daniels)
- Eitt langt hlaup (að hámarki 50% af km vikunnar)
- Tvær styrktaræfingar
Með þessu móti taldi ég góðar líkur á að ég yrði allsæmilegur í árslok og tilbúinn í markvissari æfingar frá áramótum til vors. Að nafninu til hélst þessi áætlun óbreytt allar þessar 8 vikur, en framkvæmdin var ekki til fyrirmyndar. Reyndar tók ég næstum allar hraðaæfingarnar, en hitt var allt meira og minna stopult. Satt að segja nennti ég varla að leggja nógu mikið á mig til að ná forminu upp. Kannski vantaði markmið og félagsskap til að veita aðhald.
Hlaupaárið endaði með tognun í hægri kálfa á jóladag. Svoleiðis vandamál þekki ég og tel litlar líkur á að það verði lengi til trafala. Hins vegar felast í því auðskilin skilaboð um mikilvægi styrktaræfinga. Það vissi ég svo sem fyrir, en samt. Samtals tók ég 57 styrktaræfingar á árinu, flestar á fyrstu mánuðunum. Þær hefði þurft að vera miklu fleiri. Alla vega 100.
Stravamyndin (með skýringum) hér til hliðar gefur hugmynd um þróun hlaupaformsins frá ársbyrjun til ársloka, þó að hún segi auðvitað ekki alla söguna. Mynstrið er dæmigert fyrir fleiri af hlaupaárunum mínum, þ.e.a.s. tröppugangur upp á við frá áramótum til hausts, síðan einhvers konar hrun uns jafnvægi er náð í árslok. Góðu fréttirnar á myndinni eru þær að innistæðan (skv. þessu) var talsvert meiri í árslok 2025 en hún var ári fyrr.
Keppnishlaupin
Ég tók þátt í sex keppnishlaupum á árinu, sem er heldur með minna móti. Fyrirferðarmest í þessu voru utanvegahlaup sem ég hljóp fjórar helgar í röð síðsumars. Því til viðbótar mætti ég í tvö 5 km hlaup á götu.
Fyrsta keppnishlaupið var þriðja og síðasta vetrarhlaup 66°N og FH veturinn 2024/2025, sem fram fór 26. mars. Miðað við ganginn á hraðaæfingum taldi ég mig eiga að geta hlaupið þessa 5 km nokkuð þægilega á 23:35 mín, en sú varð ekki raunin. Ég náði einhvern veginn ekki að taka út þá innstæðu sem ég taldi mig eiga, enda var vindurinn óþægilega hvass (8 m/sek). Átti í mesta basli með að halda mér undir 24 mín og endaði á 23:55, næst lakasta tímanum mínum frá upphafi. En þetta var samt gaman. Fórum fjögur saman úr Flandra – og félagsskapurinn skiptir meira máli en flest annað í þessum geira. Það er „gott að mæta í keppnishlaup, hrista aðeins upp í sér og hitta fólk“, eins og ég skrifaði á Strava eftir hlaup.
Utanvegakeppnishlaupapakkinn hófst með árlegri þátttöku í Pósthlaupinu í Dölunum 26. júlí. Þetta var í fjórða sinn sem hlaupið var haldið og ég hef alltaf verið með – í 26 km útgáfunni. Pósthlaupið hefur þannig nýst mér sem eins konar „samræmt próf“ í hlaupagetu. Ég vissi sem var að formið væri ekki nógu gott til að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar ég hljóp þetta á 2:18 klst, sem var miklu betra en ég bjóst við á þeim tíma. Núna var ég staðráðinn í að sætta mig við hvað sem er, en ég hefði þó orðið leiður ef mér hefði ekki tekist að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 2:30 klst. Ég var nefnilega nálægt þeim tíma tvö fyrstu árin – og hef á tilfinningunni að þar hljóti mörk hins ásættanlega að liggja. Í stuttu máli gekk hlaupið bærilega framan af, en seinni hlutinn einkenndist af krömpum og vanlíðan. Lokatíminn var 2:28:32 klst, og ekkert annað í boði en að vera bara sáttur við það. 2:28 er alla vega betra en 2:30. En þessir krampar áttu ekkert að koma. Kannski leið mér einfaldlega betur á fyrstu kílómetrunum en ég hafði efni á. Ég hljóp eftir tilfinningunni og fylgdist ekkert með púlsinum, en sá seinna að hann var lengi vel nálægt 160 þarna á fyrri hlutanum. Ályktunin var sú að ég hefði verið of lengi á þröskuldsákefð og hefði hreinlega hlaupið mig í þrot, án þess að tilfinningin væri þannig. En þetta er allt útlistað nánar í þar til gerðri bloggfærslu sem skrifuð var skömmu eftir hlaup.
Viku eftir Pósthlaupið var komið að 29 km í Súlum Vertical á Akureyri. Mig hafði lengi langað til að mæta í Súlurnar, en aldrei komið því við áður. Veðrið þennan dag var óvenjulegt, þ.e.a.s. talsvert hvassviðri með sól og hita. Sjálfsagt hafði það sitt að segja. Þarna fór ég mjög varlega á fyrstu kílómetrunum, í samræmi við það sem ég þóttist hafa lært af reynslunni úr Pósthlaupinu. Passaði sem sagt vel að púlsinn færi aldrei neitt að ráði yfir 154. Þetta gekk eftir áætlun fyrstu 10 km, þ.e. þangað til klifrið upp á Súlur byrjaði. Ég er sérlega linur í brekkum og vissi alveg að ferðalagið þarna upp yrði seinlegt. Hins vegar ætlaði ég að jafna leikinn og gott betur á niðurleiðinni, enda eru niðurhlaup mín sterkasta hlið. Alla vega er það þannig í minningunni. En þetta gekk engan veginn eftir. Fann fyrir krömpum á uppleiðinni – og á niðurleiðinni tóku þeir alveg yfir, þannig að ég þurfti að staulast þar sem ég hafði séð mig fyrir mér þjóta niður og rétt tylla tánum á þúfnakolla. Síðustu 10 km voru skárri og þar gat ég skokkað sæmilega. Kom í mark í Göngugötunni á 4:19:48 klst, sem var 20 mínútum lakara en „vonbrigðamörkin“ sem ég hafði skilgreint fyrir hlaup. Og í þokkabót var þetta lélegasta ITRA-hlaupið mitt frá upphafi, gaf 476 stig sem var heilum 8 stigum minna en í Tindahlaupinu ári fyrr – sem var það allra lakasta til þess tíma. En þrátt fyrir slakt gengi fannst mér Súluhlaupið algjör dásemd. Stefni að því að mæta aftur næsta sumar og bæta tímann minn verulega.
Þriðja utanvegahlaupið á jafnmörgum vikum var Molduxi Trail, nýtt hlaup á Sauðárkróki sem haldið var föstudaginn 8. ágúst. Sara tengdadóttir var ein af skipuleggjendum hlaupsins – og þess vegna kom aldrei annað til greina en að mæta. Veðrið á hlaupadag var frekar óhagstætt, strekkingsvindur, kuldi og talsverð rigning, sérstaklega á fjallinu. Ég fann mig mjög vel í þessu hlaupi og var aldrei þessu vant vel tilbúinn í brekkur og rysjótt veður. Þarna hjálpaði til að ég hafði verið með í að merkja brautina upp fjallið kvöldið áður – í miklu verra veðri. Eftir á að hyggja var frammistaðan mín í þessu hlaupi samt í lakara lagi, alla vega að mati ITRA. Lokatíminn var 2:31:34 klst (á 20 km), sem gaf bara 497 ITRA-stig. Hvað sem því líður var þetta ein besta hlaupaupplifun ársins eins og ráða má að þar til gerðum bloggpistli.

Laugardaginn 16. ágúst var svo röðin komin að Trékyllisheiðinni. Þetta var í 5. sinn sem hlaupið var haldið – og alltaf hef ég náð að vera með (og alltaf nema núna skrifað langan bloggpistil um upplifunina). Að þessu sinni valdi ég 26 km leiðina, frá Djúpavík að Skíðaskálanum í Selárdal, en þessa sömu leið hljóp ég á 2:43:47 klst. fyrir tveimur árum. Núna taldi ég mig a.m.k. í jafngóðu standi og þá, en aðstæður voru hins vegar miklu erfiðari, gul veðurviðvörun í gildi vegna hvassviðris og á að giska 15 m/sek í fangið stóran hluta leiðarinnar. Verst var veðrið á leiðinni upp á heiðina – og strax þar vissi ég að ég þyrfti að gleyma öllum markmiðum öðrum en að komast alla leið. Lengst af sá ég stórhlauparann Sigurjón Sigurbjörnsson drjúgan spöl á undan mér og það var mér hvatning til að slaka aldrei á. Svo var Sara tengdadóttir ekki langt á eftir mér og ég ætlaði ekkert að fara að „tapa“ fyrir henni. Í heild gekk þetta vel eftir aðstæðum – og ég kom glaður og krampalaus í marka á 17 mín lakari tíma en í hitteðfyrra (3:00:56 klst.). Þarna náðu ITRA-stigin mín nýjum lægðum, því að þessi tími gaf ekki nema 461 stig. Það er met sem mig langar ekki að slá strax.
Sjötta og síðasta keppnishlaup ársins var Hleðsluhlaupið í Fossvogi (5 km) fimmtudaginn 28. ágúst. Þetta hlaup er alltaf eitt af þeim skemmtilegustu, sérstaklega út af gleðinni og kökuhlaðborðinu sem bíður manns eftir hlaup. Og ekki spillti fyrir að þetta kvöld var einmunaveðurblíða, vestan gola, sól og 15 stiga hiti. Ég ætlaði að gera mitt allra besta i þessu hlaupi – og reiknaði með að það myndi duga fyrir lokatíma undir 22:30 mín. Sú varð og raunin, hljóp þetta á 22:17 og var fullkomlega sáttur við það. Þetta var erfitt, en þannig eru öll hlaup þar sem ekkert er gefið eftir.
Sjöunda keppnishlaup ársins átti að vera Gotland Ultramaraton í byrjun október, 50 km utanvegahlaup sem ég hafði lengi stefnt á sem stærsta viðburð hlaupaársins. En það fór á annan veg, sem verðskuldar sérstakan aukakafla í þessum pistli.
Gotlandsferðin
Seint í september var ljóst, eftir svo sem þrjár læknaheimsóknir, að ég myndi ekki hlaupa neitt á Gotlandi í byrjun október, eins og ég hafði þó lengi látið mig dreyma um. Eins og ég var búinn að nefna tók undirbúningurinn beygju um miðjan september vegna berkjubólgu sem hafði í för með sér þrálátan hósta á öllum tímum sólarhrings. Ég missti svo sem ekki nema einn dag úr vinnu út af þessu, en hlaup voru nánast óframkvæmanleg á nokkurra vikna tímabili sem í hönd fór. Ég ákvað engu að síður, eftir dálítið sársaukafulla umhugsun, að fara til Gotlands, enda hafði undirbúningur hinna ýmsu þátta ferðalagsins staðið mánuðum saman, ég var kominn með frábæra hlaupafélaga og búinn að leggja drög að langþráðum endurfundum með sænskum vinum. Úr þessu varð 6 sólarhringa ævintýri, barmafullt af vináttu og gleði, næstum allt eins og að var stefnt. Það eina sem var öðruvísi var að ég aðstoðaði hlaupafélagana í stað þess að hlaupa sjálfur – og sænsku vinirnir voru milku öflugra stuðningslið en nokkru okkar hafði dottið í hug. Þessi ferð var uppspretta minninga, sem allar eru góðar.

Skemmtihlaupin
Helsta „Skemmtihlaup“ ársins var hið árlega Uppstigningardagshlaup, en síðan árið 2010 höfum við hjónin boðið völdum hlaupurum í hálfmaraþon, mat og heitan pott (í þeirri röð) á uppstigningardag ár hvert (að árinu 2021 frátöldu). Þetta var sem sagt í 15. sinn. Lengst af var hlaupaleiðin hinn sívinsæli Háfslækjarhringur með upphaf og endi í Borgarnesi, en eftir að við hjónin fluttum yfir á Hvanneyri haustið 2021 liggur leiðin „niður í Land“ eins og heimamenn kalla það – og síðan upp að Vatnshömrum og þar áfram Heggsstaðahringinn upp á Hvítárvallaflóa og aftur heim. Að þessu sinni bar uppstigningardag upp á 29. maí og við vorum samtals 13 sem hlupum eða hjóluðum allan hringinn. Og súpan hennar Bjarkar var ljúffeng sem aldrei fyrr.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2025 var nítjánda og næstsíðasta sumarið í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Í sumarbyrjun stóð heildarfjöldi fjallvega frá upphafi (2007) í 81, sem þýddi að ég þurfti að ná 19 fjallvegum tvö síðustu sumrin. Þetta gekk allt saman með besta móti og þegar haustaði var ég búinn að leggja 10 nýja fjallvegi að baki, sem er stærsti ársskammturinn hingað til. Ég þarf sem sagt bara að afgreiða 9 fjallvegi sumarið 2026. Hlýtur það ekki að vera auðvelt?
Fyrsta fjallvegahlaup ársins var hlaupið eftir gamalli leið yfir Hellisheiði, frá Hellisheiðarvirkjun til Hveragerðis. Hlaupið var skipulagt í samvinnu við bókaútgáfuna Sölku, sem gaf út fjallvegahlaupabókina mína 2017. Veðrið lék við okkur; logn á heiðinni, skýjað og 6-7 stiga hiti. Þetta varð langfjölmennasta formlega fjallvegahlaupið frá upphafi með samtals 62 þátttakendum – og góðri samveru í lokin. Þetta var góður dagur og þakklætið í aðalhlutverki að kvöldi.

Í byrjun júní ætlaði ég að afgreiða fimm fjallvegi á Ströndum og Norðurlandi á þremur dögum, en óvenjuágengt júníhret gerði þau áform næstum að engu, snjór fyrir norðan og afleitt veður. Frekar en að gera ekkert tókst mér þó að hlaupa yfir Marðarnúpsfjall milli Vatnsdals og Svínadals á fyrsta degi eftir hretið. Veðrið spillti hins vegar engu í fjórum fjallvegahlaupum á Austurlandi 13.-15. júlí. Þar var sól og 20 stiga hiti lengst af – og félagsskapurinn dýrmætur. Leiðirnar sem þarna voru hlaupnar voru Gönguskarð frá Unaósi á Héraði til Njarðvíkur, Sandaskörð úr Borgarfirði eystri yfir í Hjaltastaðaþinghá, Stöðvarskarð frá Fáskrúðsfirði til Stöðvarfjarðar og Gunnarsskarð þaðan yfir í Breiðdal. Tvær leiðir bættust svo í safnið í byrjun ágúst, annars vegar Flateyjardalsheiði og hins vegar Gönguskarð úr Fnjóskadal yfir í Kaldakinn. Og í september hljóp ég svo Tröllatunguheiði og Bjarnarfjarðarháls á Ströndum. Hægt er að lesa eitthvað um þessar leiðir á heimasíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins.

Í upphafi fjallvegahlaupaverkefnisins sumarið 2007 sá ég fyrir mér að þetta yrðu eftirminnilegar einverustundir á fjöllum. En þar kom Björk sem oftar með góð ráð, hlaupin myndu verða miklu skemmtilegri ef ég væri ekki einn á ferð. Nú eru liðin 19 sumur og líklega eru hlaupafélagarnir orðnir hátt í 200 talsins. Í þessum ferðum hafa skapast dýrmæt kynni sem eru einhvern veginn öðruvísi og dýpri en þau kynni sem stofnað er til á malbiki og skrifstofugólfum hversdagsins.
Markmiðin
Ég setti mér fjögur hlaupatengd markmið fyrir árið 2025 og náði bara tveimur þeirra, þ.e.a.s. að hlaupa 10 fjallvegahlaup og hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Hin markmiðin voru að hlaupa a.m.k. eitt maraþon á götu og vera í efsta sæti á ITRA-lista 65-69 ára á Íslandi í árslok. Ég hljóp síðast maraþon á götu í Tallinn haustið 2019, þannig að tíminn fyrir næsta maraþon er löngu kominn. En það bíður enn. Meira um það síðar. Og ITRA-markmiðið náðist ekki, eða öllu heldur alls ekki. Ég er líka þeirrar skoðunar að maður eigi ekki að setja sér markmið sem eru háð frammistöðu annarra. En ég gerði það nú samt.
Hér fara á eftir helstu hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2026. Þau eru flest endurnýtt og ekki endilega háleit, enda þurfa markmið ekkert að vera það. Þau þurfa hins vegar helst að vera sértæk, mælanleg, aðgengileg, raunhæf en samt krefjandi – og tímasett (SMART).
- 125 styrktaræfingar
- 20 sinnum á Hafnarfjallið
- 9 fjallvegahlaup
- 1 eða fleiri maraþon á götu
- Gleðin með í för í öllum hlaupum
Til að setja þessi markmið í eitthvert samhengi má geta þess að ég hef mest tekið 124 styrktaræfingar á einu ári (2022) og hef mest farið 13 ferðir á topp Hafnarfjallsins (2020). Markmið 1 og 2 eru þó ekki bara hugsuð til að ná fram bætingu á þessum „metum“, heldur eru þau þarna vegna gagnseminnar. Bæði þessi viðfangsefni eru til þess fallin að auka styrk – og styrkur er það sem mig vantar mest til að geta haldið sjó í hlaupunum.
Markmiðin eiga það sameiginlegt að þar er hvergi minnst á hlaupaárangur í tölum. Þarna er t.d. ekkert minnst á að hlaupa maraþon undir 3:40 klst, eða eitthvað í þá veru. Fjarvera markmiða af þessu tagi er þó ekki vísbending um að mér sé orðið sama um þessa tíma. Sú er alls ekki raunin. Vissulega eru bætingar úr sögunni, en það þýðir ekki að maður eigi að „taka tappann úr lauginni“ og vera sáttur við hvað sem er. Þvert á móti eru árangurstengd markmið jafnvel enn mikilvægari en áður. Í því sambandi er gott að íhuga orð Jeannie Rice, konunnar sem setti heimsmet í maraþoni 75-79 ára í London-maraþoninu 2024 (3:33:27 klst.):
Það hægist á öllum, en ég vil ekki hrapa niður, ég vil renna.
Ástæðan fyrir því að ég set mér ekki árangurstengd markmið á þessum tímapunkti er sú að mér finnst ég fyrst þurfa að greina stöðuna betur en ég hef gert núna lengi. (Við getum kallað það „stöðutékk“). Með fyrirvara um niðurstöðu þeirrar greiningar ættu markmiðin mín líklega að vera u.þ.b. 22 mín í 5 km, 45 mín í 10 km, 1:40 klst. í hálfu maraþoni og 3:30 klst. í heilu maraþoni. Þessi markmið eru krefjandi, en þau eiga líka að vera það. Fyrir 10 árum hefðu þessi markmið líklega verið 19:30, 40:00, 1:30 og 3:10. Ég held að munurinn þarna á milli flokkist sem rennsli en ekki hrap.
Hlaupadagskráin mín 2026
Ég er nú þegar búinn að skrá mig í tvö hlaup erlendis á árinu 2026 – og er nokkuð ákveðinn í að taka þátt í fimm tilteknum hlaupum innanlands. Reykjavíkurmaraþon (RM) er ekki á þeim lista, enda hafa vinnubrögð hlaupahaldarans (ÍBR) síðustu tvö ár gert út af við löngun mína til þátttöku. Af heimasíðu RM má ráða að svipaður bragur eigi að vera á framkvæmdinni 2026.
Hlaupadagskráin mín lítur sem sagt svona út, svo langt sem hún nær, sumt oftalið, annað vantalið:
- Tuscany Crossing, Ítalíu (53 km) 18. apríl
- Akrafjall Ultra (10 km) 16. maí
- Vesturgatan (45 km) 18. júlí (?)
- Súlur Vertical (29 km) 31. júlí
- Molduxi Trail (12 km) 7. ágúst (?)
- Trékyllisheiðin (48 km) 15. ágúst
- HCA Marathon, Odense DK (42,2 km) 27. september
Þessu til viðbótar ætla ég sem fyrr segir að hlaupa 9 fjallvegi. Megindrættir fjallvegahlaupadagskrárinnar liggja fyrir og dagskráin verður kynnt fljótlega á heimasíðu fjallvegahlaupaverkefnisins.
Svo þróast þetta bara einhvern veginn.
Þakklætið
Að kvöldi föstudagsins 11. júlí 1975 hljóp ég fyrsta 5 km keppnishlaupið mitt, (reyndar á hlaupabraut (5.000 m)). Þetta var á 15. Landsmóti UMFÍ á Akranesi og síðan þá hefur mér ekki tekist að bæta tímann sem ég náði þarna. Hljóp þetta á 17:04 mín – og minnir að mér hafi ekki þótt það neitt sérstakt. Endaði í 8. sæti af 17 keppendum. Ástæða þess að ég nefni þetta hér er ekki sú að ég sé að spá í að bæta þennan tíma á næsta ári, heldur sú að sl. sumar voru liðin 50 ár frá þessum degi – og ég er enn að. Þegar ég rifja upp þessa sögu get ég ekki annað en fyllst þakklæti í garð forsjónarinnar fyrir að leyfa mér að njóta þessa áhugamáls svona lengi. Árin eru meira að segja orðin fleiri en 50, því að þetta byrjaði ekki þarna á Skaganum 1975. Þetta þakklæti gerir vart við sig sem aldrei fyrr í hvert sinn sem ég sit við að skrifa áramótapistla.
Þakklætið sem hrannast upp þegar litið er til baka er ekki eingöngu þakklæti í garð forsjónarinnar, hver sem hún annars er, heldur einnig og ekki síður í garð alls fólksins sem hefur gert mér þetta mögulegt – og gerir enn. Þar á fjölskyldan mín stærstan hlut að máli – og þá sérstaklega Björk sem hefur umborið þetta áhugamál síðustu 48 ár eða þar um bil. Hitt fólkið í fjölskyldunni á líka inni hjá mér heilan helling af þakklæti. Á árinu 2025 hafði Sara tengdadóttir þeirra mest áhrif á hlaupasöguna, en hún fylgdi mér bæði í nokkur utanvegahlaup og keppnishlaup á árinu. Takk öll.
Filed under: Uncategorized | Tagged: Hlaup | Leave a comment »































































