• Heimsóknir

    • 127.046 hits
  • janúar 2026
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    25262728293031
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupaannáll 2025 og markmiðin 2026

Í Fjallvegahlaupabókabúðinni í Hveragerði eftir hlaup yfir Hellisheiði í maí.

Það er löngu orðin hefð hjá mér, eða kækur, að skrifa langan hlaupapistil um hver áramót til að gera upp nýliðna hlaupaárið mitt og leggja línurnar fyrir það næsta. Þessi pistill er sá nítjándi í röðinni, en fyrsti pistillinn var skrifaður í árslok 2007.

Það er engin þörf að kvarta“
Þessi orð úr kvæði Stefáns frá Hvítadal lýsa hlaupaárinu mínu 2025 býsna vel. Þetta var sem sagt engan veginn eitt af mínum bestu hlaupaárum, en ég þarf samt ekkert að vera væla yfir bágu gengi. Árangur í keppnishlaupum var vissulega undir væntingum, en hlaupin gáfu mér margar góðar stundir á árinu – og meiri háttar skakkaföll voru fátíð.

Æfingarnar
Hlaupaæfingar ársins gengu stórslysalaust fyrir sig. Reyndar hljóp ég ekki nema 1.649 km samtals, sem þýðir að þetta var fjórða stysta hlaupaárið mitt frá (og með) 2007. Aðeins meiðslaárin 2018 og 2022 voru styttri, svo og árið 2007 þegar hlaupin voru ekki meira en svo orðin að lífsstíl. Mögulega er hægt að lesa einhverja kerfisbundna þróun út úr myndinni hér að neðan, en mér finnst skemmtilegra að gera það ekki.

Hlaupaárin 2007-2025 í kílómetrum talin, ásamt 2. gráðu aðhvarfskúrvu.

Fyrstu æfingamánuðir ársins einkenndust af mikilli varfærni, en þá var ég rétt að komast af stað aftur eftir endurteknar tognanir í læri, sem byrjuðu í lok ágúst 2024 og gáfu m.a. af sér hlaupalausan desember. Einhverjar umgangspestir settu líka strik í reikninginn, þannig að það var ekki fyrr en í mars sem ég fór að ná 30-40 km hlaupavikum. Almennt finnst mér það vera lágmarksmagn til viðhalds.

Skjáskot af Instagram 1. júlí 2025.

Upp úr miðjum apríl fannst mér hlaupaformið vera farið að líta sæmilega út. En þá kom aftur bakslag þegar tognunin í lærinu tók sig upp á hlaupaæfingu í Danmörku 18. apríl. Í hönd fóru stuttar vikur með enn meiri varfærni og hjólaæfingum. Þær hafði ég líka stundað fyrstu vikur ársins og þegar upp var staðið náði ég samtals 514 km á hjóli á árinu. Hlaupaárið var því ekki alveg eins stutt og tölurnar hér að ofan gefa til kynna.

Seinni partinn í júní fannst mér ég loks vera kominn í nokkuð eðlilegt horf. Æfingar sumarsins gengu svo bara ágætlega og skrokkurinn þoldi vaxandi álag vel. Í júlí var hlaupamagnið komið upp í júlímeðaltal síðustu ára og ágústmánuður varð sá næstlengsti frá upphafi, 300 km samtals, og meðalvikan komin í 60-70 km. Þetta hélst fram í miðjan september, enda var ég þá að undirbúa 50 km utanvegahlaup á Gotlandi í byrjun október. Sá undirbúningur tók óvænta stefnu um miðjan september þegar ég varð mér úti um þráláta berkjubólgu með leiðinlegum aukaverkunum. Við tóku 6 vikur með litlum sem engum hlaupum, þar sem önnur verkefni í lífinu tóku líka sinn tíma eins og gengur.

Eftir þetta óvænta hausthlé, nánar tiltekið undir lok októbermánaðar, bjó ég mér til nýja æfingaáætlun sem átti að gilda næstu 4 vikur til að byrja með – og síðan í endurskoðaðri mynd aðrar 4 vikur. Áætlunin var svohljóðandi (fyrir hverja viku):

  • 30-40 km
  • Eitt Hafnarfjall
  • Ein hröð æfing (T, I eða R í anda Jack Daniels)
  • Eitt langt hlaup (að hámarki 50% af km vikunnar)
  • Tvær styrktaræfingar

Með þessu móti taldi ég góðar líkur á að ég yrði allsæmilegur í árslok og tilbúinn í markvissari æfingar frá áramótum til vors. Að nafninu til hélst þessi áætlun óbreytt allar þessar 8 vikur, en framkvæmdin var ekki til fyrirmyndar. Reyndar tók ég næstum allar hraðaæfingarnar, en hitt var allt meira og minna stopult. Satt að segja nennti ég varla að leggja nógu mikið á mig til að ná forminu upp. Kannski vantaði markmið og félagsskap til að veita aðhald.

Hlaupaárið endaði með tognun í hægri kálfa á jóladag. Svoleiðis vandamál þekki ég og tel litlar líkur á að það verði lengi til trafala. Hins vegar felast í því auðskilin skilaboð um mikilvægi styrktaræfinga. Það vissi ég svo sem fyrir, en samt. Samtals tók ég 57 styrktaræfingar á árinu, flestar á fyrstu mánuðunum. Þær hefði þurft að vera miklu fleiri. Alla vega 100.

Stravamyndin (með skýringum) hér til hliðar gefur hugmynd um þróun hlaupaformsins frá ársbyrjun til ársloka, þó að hún segi auðvitað ekki alla söguna. Mynstrið er dæmigert fyrir fleiri af hlaupaárunum mínum, þ.e.a.s. tröppugangur upp á við frá áramótum til hausts, síðan einhvers konar hrun uns jafnvægi er náð í árslok. Góðu fréttirnar á myndinni eru þær að innistæðan (skv. þessu) var talsvert meiri í árslok 2025 en hún var ári fyrr.

Keppnishlaupin
Ég tók þátt í sex keppnishlaupum á árinu, sem er heldur með minna móti. Fyrirferðarmest í þessu voru utanvegahlaup sem ég hljóp fjórar helgar í röð síðsumars. Því til viðbótar mætti ég í tvö 5 km hlaup á götu.

Fyrsta keppnishlaupið var þriðja og síðasta vetrarhlaup 66°N og FH veturinn 2024/2025, sem fram fór 26. mars. Miðað við ganginn á hraðaæfingum taldi ég mig eiga að geta hlaupið þessa 5 km nokkuð þægilega á 23:35 mín, en sú varð ekki raunin. Ég náði einhvern veginn ekki að taka út þá innstæðu sem ég taldi mig eiga, enda var vindurinn óþægilega hvass (8 m/sek). Átti í mesta basli með að halda mér undir 24 mín og endaði á 23:55, næst lakasta tímanum mínum frá upphafi. En þetta var samt gaman. Fórum fjögur saman úr Flandra – og félagsskapurinn skiptir meira máli en flest annað í þessum geira. Það er „gott að mæta í keppnishlaup, hrista aðeins upp í sér og hitta fólk“, eins og ég skrifaði á Strava eftir hlaup.

Utanvegakeppnishlaupapakkinn hófst með árlegri þátttöku í Pósthlaupinu í Dölunum 26. júlí. Þetta var í fjórða sinn sem hlaupið var haldið og ég hef alltaf verið með – í 26 km útgáfunni. Pósthlaupið hefur þannig nýst mér sem eins konar „samræmt próf“ í hlaupagetu. Ég vissi sem var að formið væri ekki nógu gott til að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar ég hljóp þetta á 2:18 klst, sem var miklu betra en ég bjóst við á þeim tíma. Núna var ég staðráðinn í að sætta mig við hvað sem er, en ég hefði þó orðið leiður ef mér hefði ekki tekist að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 2:30 klst. Ég var nefnilega nálægt þeim tíma tvö fyrstu árin – og hef á tilfinningunni að þar hljóti mörk hins ásættanlega að liggja. Í stuttu máli gekk hlaupið bærilega framan af, en seinni hlutinn einkenndist af krömpum og vanlíðan. Lokatíminn var 2:28:32 klst, og ekkert annað í boði en að vera bara sáttur við það. 2:28 er alla vega betra en 2:30. En þessir krampar áttu ekkert að koma. Kannski leið mér einfaldlega betur á fyrstu kílómetrunum en ég hafði efni á. Ég hljóp eftir tilfinningunni og fylgdist ekkert með púlsinum, en sá seinna að hann var lengi vel nálægt 160 þarna á fyrri hlutanum. Ályktunin var sú að ég hefði verið of lengi á þröskuldsákefð og hefði hreinlega hlaupið mig í þrot, án þess að tilfinningin væri þannig. En þetta er allt útlistað nánar í þar til gerðri bloggfærslu sem skrifuð var skömmu eftir hlaup.

Viku eftir Pósthlaupið var komið að 29 km í Súlum Vertical á Akureyri. Mig hafði lengi langað til að mæta í Súlurnar, en aldrei komið því við áður. Veðrið þennan dag var óvenjulegt, þ.e.a.s. talsvert hvassviðri með sól og hita. Sjálfsagt hafði það sitt að segja. Þarna fór ég mjög varlega á fyrstu kílómetrunum, í samræmi við það sem ég þóttist hafa lært af reynslunni úr Pósthlaupinu. Passaði sem sagt vel að púlsinn færi aldrei neitt að ráði yfir 154. Þetta gekk eftir áætlun fyrstu 10 km, þ.e. þangað til klifrið upp á Súlur byrjaði. Ég er sérlega linur í brekkum og vissi alveg að ferðalagið þarna upp yrði seinlegt. Hins vegar ætlaði ég að jafna leikinn og gott betur á niðurleiðinni, enda eru niðurhlaup mín sterkasta hlið. Alla vega er það þannig í minningunni. En þetta gekk engan veginn eftir. Fann fyrir krömpum á uppleiðinni – og á niðurleiðinni tóku þeir alveg yfir, þannig að ég þurfti að staulast þar sem ég hafði séð mig fyrir mér þjóta niður og rétt tylla tánum á þúfnakolla. Síðustu 10 km voru skárri og þar gat ég skokkað sæmilega. Kom í mark í Göngugötunni á 4:19:48 klst, sem var 20 mínútum lakara en „vonbrigðamörkin“ sem ég hafði skilgreint fyrir hlaup. Og í þokkabót var þetta lélegasta ITRA-hlaupið mitt frá upphafi, gaf 476 stig sem var heilum 8 stigum minna en í Tindahlaupinu ári fyrr – sem var það allra lakasta til þess tíma. En þrátt fyrir slakt gengi fannst mér Súluhlaupið algjör dásemd. Stefni að því að mæta aftur næsta sumar og bæta tímann minn verulega.

Þriðja utanvegahlaupið á jafnmörgum vikum var Molduxi Trail, nýtt hlaup á Sauðárkróki sem haldið var föstudaginn 8. ágúst. Sara tengdadóttir var ein af skipuleggjendum hlaupsins – og þess vegna kom aldrei annað til greina en að mæta. Veðrið á hlaupadag var frekar óhagstætt, strekkingsvindur, kuldi og talsverð rigning, sérstaklega á fjallinu. Ég fann mig mjög vel í þessu hlaupi og var aldrei þessu vant vel tilbúinn í brekkur og rysjótt veður. Þarna hjálpaði til að ég hafði verið með í að merkja brautina upp fjallið kvöldið áður – í miklu verra veðri. Eftir á að hyggja var frammistaðan mín í þessu hlaupi samt í lakara lagi, alla vega að mati ITRA. Lokatíminn var 2:31:34 klst (á 20 km), sem gaf bara 497 ITRA-stig. Hvað sem því líður var þetta ein besta hlaupaupplifun ársins eins og ráða má að þar til gerðum bloggpistli.

Nýkominn niður af Molduxa, rennblautur, með gleraugun í hendinni og regnstakkinn í bakpokanum. (Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Laugardaginn 16. ágúst var svo röðin komin að Trékyllisheiðinni. Þetta var í 5. sinn sem hlaupið var haldið – og alltaf hef ég náð að vera með (og alltaf nema núna skrifað langan bloggpistil um upplifunina). Að þessu sinni valdi ég 26 km leiðina, frá Djúpavík að Skíðaskálanum í Selárdal, en þessa sömu leið hljóp ég á 2:43:47 klst. fyrir tveimur árum. Núna taldi ég mig a.m.k. í jafngóðu standi og þá, en aðstæður voru hins vegar miklu erfiðari, gul veðurviðvörun í gildi vegna hvassviðris og á að giska 15 m/sek í fangið stóran hluta leiðarinnar. Verst var veðrið á leiðinni upp á heiðina – og strax þar vissi ég að ég þyrfti að gleyma öllum markmiðum öðrum en að komast alla leið. Lengst af sá ég stórhlauparann Sigurjón Sigurbjörnsson drjúgan spöl á undan mér og það var mér hvatning til að slaka aldrei á. Svo var Sara tengdadóttir ekki langt á eftir mér og ég ætlaði ekkert að fara að „tapa“ fyrir henni. Í heild gekk þetta vel eftir aðstæðum – og ég kom glaður og krampalaus í marka á 17 mín lakari tíma en í hitteðfyrra (3:00:56 klst.). Þarna náðu ITRA-stigin mín nýjum lægðum, því að þessi tími gaf ekki nema 461 stig. Það er met sem mig langar ekki að slá strax.

Sjötta og síðasta keppnishlaup ársins var Hleðsluhlaupið í Fossvogi (5 km) fimmtudaginn 28. ágúst. Þetta hlaup er alltaf eitt af þeim skemmtilegustu, sérstaklega út af gleðinni og kökuhlaðborðinu sem bíður manns eftir hlaup. Og ekki spillti fyrir að þetta kvöld var einmunaveðurblíða, vestan gola, sól og 15 stiga hiti. Ég ætlaði að gera mitt allra besta i þessu hlaupi – og reiknaði með að það myndi duga fyrir lokatíma undir 22:30 mín. Sú varð og raunin, hljóp þetta á 22:17 og var fullkomlega sáttur við það. Þetta var erfitt, en þannig eru öll hlaup þar sem ekkert er gefið eftir.

Sjöunda keppnishlaup ársins átti að vera Gotland Ultramaraton í byrjun október, 50 km utanvegahlaup sem ég hafði lengi stefnt á sem stærsta viðburð hlaupaársins. En það fór á annan veg, sem verðskuldar sérstakan aukakafla í þessum pistli.

Gotlandsferðin
Seint í september var ljóst, eftir svo sem þrjár læknaheimsóknir, að ég myndi ekki hlaupa neitt á Gotlandi í byrjun október, eins og ég hafði þó lengi látið mig dreyma um. Eins og ég var búinn að nefna tók undirbúningurinn beygju um miðjan september vegna berkjubólgu sem hafði í för með sér þrálátan hósta á öllum tímum sólarhrings. Ég missti svo sem ekki nema einn dag úr vinnu út af þessu, en hlaup voru nánast óframkvæmanleg á nokkurra vikna tímabili sem í hönd fór. Ég ákvað engu að síður, eftir dálítið sársaukafulla umhugsun, að fara til Gotlands, enda hafði undirbúningur hinna ýmsu þátta ferðalagsins staðið mánuðum saman, ég var kominn með frábæra hlaupafélaga og búinn að leggja drög að langþráðum endurfundum með sænskum vinum. Úr þessu varð 6 sólarhringa ævintýri, barmafullt af vináttu og gleði, næstum allt eins og að var stefnt. Það eina sem var öðruvísi var að ég aðstoðaði hlaupafélagana í stað þess að hlaupa sjálfur – og sænsku vinirnir voru milku öflugra stuðningslið en nokkru okkar hafði dottið í hug. Þessi ferð var uppspretta minninga, sem allar eru góðar.

Ég og hlaupavinirnir sem fóru með mér til Gotlands (Úlfhildur, Hildur og Rannveig). Myndin var tekin við borgarmúrinn í Visby daginn fyrir hlaup.

Skemmtihlaupin
Helsta „Skemmtihlaup“ ársins var hið árlega Uppstigningardagshlaup, en síðan árið 2010 höfum við hjónin boðið völdum hlaupurum í hálfmaraþon, mat og heitan pott (í þeirri röð) á uppstigningardag ár hvert (að árinu 2021 frátöldu). Þetta var sem sagt í 15. sinn. Lengst af var hlaupaleiðin hinn sívinsæli Háfslækjarhringur með upphaf og endi í Borgarnesi, en eftir að við hjónin fluttum yfir á Hvanneyri haustið 2021 liggur leiðin „niður í Land“ eins og heimamenn kalla það – og síðan upp að Vatnshömrum og þar áfram Heggsstaðahringinn upp á Hvítárvallaflóa og aftur heim. Að þessu sinni bar uppstigningardag upp á 29. maí og við vorum samtals 13 sem hlupum eða hjóluðum allan hringinn. Og súpan hennar Bjarkar var ljúffeng sem aldrei fyrr.

Hlauparar við veisluborð Bjarkar eftir hið árlega Uppstigningardagshlaup.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2025 var nítjánda og næstsíðasta sumarið í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Í sumarbyrjun stóð heildarfjöldi fjallvega frá upphafi (2007) í 81, sem þýddi að ég þurfti að ná 19 fjallvegum tvö síðustu sumrin. Þetta gekk allt saman með besta móti og þegar haustaði var ég búinn að leggja 10 nýja fjallvegi að baki, sem er stærsti ársskammturinn hingað til. Ég þarf sem sagt bara að afgreiða 9 fjallvegi sumarið 2026. Hlýtur það ekki að vera auðvelt?

Fyrsta fjallvegahlaup ársins var hlaupið eftir gamalli leið yfir Hellisheiði, frá Hellisheiðarvirkjun til Hveragerðis. Hlaupið var skipulagt í samvinnu við bókaútgáfuna Sölku, sem gaf út fjallvegahlaupabókina mína 2017. Veðrið lék við okkur; logn á heiðinni, skýjað og 6-7 stiga hiti. Þetta varð langfjölmennasta formlega fjallvegahlaupið frá upphafi með samtals 62 þátttakendum – og góðri samveru í lokin. Þetta var góður dagur og þakklætið í aðalhlutverki að kvöldi.

Félagsskapurinn minn á Hellisheiðinni. (Ljósm. Arna Ír Gunnarsdsóttir)

Í byrjun júní ætlaði ég að afgreiða fimm fjallvegi á Ströndum og Norðurlandi á þremur dögum, en óvenjuágengt júníhret gerði þau áform næstum að engu, snjór fyrir norðan og afleitt veður. Frekar en að gera ekkert tókst mér þó að hlaupa yfir Marðarnúpsfjall milli Vatnsdals og Svínadals á fyrsta degi eftir hretið. Veðrið spillti hins vegar engu í fjórum fjallvegahlaupum á Austurlandi 13.-15. júlí. Þar var sól og 20 stiga hiti lengst af – og félagsskapurinn dýrmætur. Leiðirnar sem þarna voru hlaupnar voru Gönguskarð frá Unaósi á Héraði til Njarðvíkur, Sandaskörð úr Borgarfirði eystri yfir í Hjaltastaðaþinghá, Stöðvarskarð frá Fáskrúðsfirði til Stöðvarfjarðar og Gunnarsskarð þaðan yfir í Breiðdal. Tvær leiðir bættust svo í safnið í byrjun ágúst, annars vegar Flateyjardalsheiði og hins vegar Gönguskarð úr Fnjóskadal yfir í Kaldakinn. Og í september hljóp ég svo Tröllatunguheiði og Bjarnarfjarðarháls á Ströndum. Hægt er að lesa eitthvað um þessar leiðir á heimasíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins.

Hlaupagleði í Stöðvarskarði 15. júlí með Söru, Saló og Hilmari.

Í upphafi fjallvegahlaupaverkefnisins sumarið 2007 sá ég fyrir mér að þetta yrðu eftirminnilegar einverustundir á fjöllum. En þar kom Björk sem oftar með góð ráð, hlaupin myndu verða miklu skemmtilegri ef ég væri ekki einn á ferð. Nú eru liðin 19 sumur og líklega eru hlaupafélagarnir orðnir hátt í 200 talsins. Í þessum ferðum hafa skapast dýrmæt kynni sem eru einhvern veginn öðruvísi og dýpri en þau kynni sem stofnað er til á malbiki og skrifstofugólfum hversdagsins.

Markmiðin
Ég setti mér fjögur hlaupatengd markmið fyrir árið 2025 og náði bara tveimur þeirra, þ.e.a.s. að hlaupa 10 fjallvegahlaup og hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Hin markmiðin voru að hlaupa a.m.k. eitt maraþon á götu og vera í efsta sæti á ITRA-lista 65-69 ára á Íslandi í árslok. Ég hljóp síðast maraþon á götu í Tallinn haustið 2019, þannig að tíminn fyrir næsta maraþon er löngu kominn. En það bíður enn. Meira um það síðar. Og ITRA-markmiðið náðist ekki, eða öllu heldur alls ekki. Ég er líka þeirrar skoðunar að maður eigi ekki að setja sér markmið sem eru háð frammistöðu annarra. En ég gerði það nú samt.

Hér fara á eftir helstu hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2026. Þau eru flest endurnýtt og ekki endilega háleit, enda þurfa markmið ekkert að vera það. Þau þurfa hins vegar helst að vera sértæk, mælanleg, aðgengileg, raunhæf en samt krefjandi – og tímasett (SMART).

  1. 125 styrktaræfingar
  2. 20 sinnum á Hafnarfjallið
  3. 9 fjallvegahlaup
  4. 1 eða fleiri maraþon á götu
  5. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Til að setja þessi markmið í eitthvert samhengi má geta þess að ég hef mest tekið 124 styrktaræfingar á einu ári (2022) og hef mest farið 13 ferðir á topp Hafnarfjallsins (2020). Markmið 1 og 2 eru þó ekki bara hugsuð til að ná fram bætingu á þessum „metum“, heldur eru þau þarna vegna gagnseminnar. Bæði þessi viðfangsefni eru til þess fallin að auka styrk – og styrkur er það sem mig vantar mest til að geta haldið sjó í hlaupunum.

Markmiðin eiga það sameiginlegt að þar er hvergi minnst á hlaupaárangur í tölum. Þarna er t.d. ekkert minnst á að hlaupa maraþon undir 3:40 klst, eða eitthvað í þá veru. Fjarvera markmiða af þessu tagi er þó ekki vísbending um að mér sé orðið sama um þessa tíma. Sú er alls ekki raunin. Vissulega eru bætingar úr sögunni, en það þýðir ekki að maður eigi að „taka tappann úr lauginni“ og vera sáttur við hvað sem er. Þvert á móti eru árangurstengd markmið jafnvel enn mikilvægari en áður. Í því sambandi er gott að íhuga orð Jeannie Rice, konunnar sem setti heimsmet í maraþoni 75-79 ára í London-maraþoninu 2024 (3:33:27 klst.):

Það hægist á öllum, en ég vil ekki hrapa niður, ég vil renna.

Ástæðan fyrir því að ég set mér ekki árangurstengd markmið á þessum tímapunkti er sú að mér finnst ég fyrst þurfa að greina stöðuna betur en ég hef gert núna lengi. (Við getum kallað það „stöðutékk“). Með fyrirvara um niðurstöðu þeirrar greiningar ættu markmiðin mín líklega að vera u.þ.b. 22 mín í 5 km, 45 mín í 10 km, 1:40 klst. í hálfu maraþoni og 3:30 klst. í heilu maraþoni. Þessi markmið eru krefjandi, en þau eiga líka að vera það. Fyrir 10 árum hefðu þessi markmið líklega verið 19:30, 40:00, 1:30 og 3:10. Ég held að munurinn þarna á milli flokkist sem rennsli en ekki hrap.

Hlaupadagskráin mín 2026
Ég er nú þegar búinn að skrá mig í tvö hlaup erlendis á árinu 2026 – og er nokkuð ákveðinn í að taka þátt í fimm tilteknum hlaupum innanlands. Reykjavíkurmaraþon (RM) er ekki á þeim lista, enda hafa vinnubrögð hlaupahaldarans (ÍBR) síðustu tvö ár gert út af við löngun mína til þátttöku. Af heimasíðu RM má ráða að svipaður bragur eigi að vera á framkvæmdinni 2026.

Hlaupadagskráin mín lítur sem sagt svona út, svo langt sem hún nær, sumt oftalið, annað vantalið:

  1. Tuscany Crossing, Ítalíu (53 km) 18. apríl
  2. Akrafjall Ultra (10 km) 16. maí
  3. Vesturgatan (45 km) 18. júlí (?)
  4. Súlur Vertical (29 km) 31. júlí
  5. Molduxi Trail (12 km) 7. ágúst (?)
  6. Trékyllisheiðin (48 km) 15. ágúst
  7. HCA Marathon, Odense DK (42,2 km) 27. september

Þessu til viðbótar ætla ég sem fyrr segir að hlaupa 9 fjallvegi. Megindrættir fjallvegahlaupadagskrárinnar liggja fyrir og dagskráin verður kynnt fljótlega á heimasíðu fjallvegahlaupaverkefnisins.

Svo þróast þetta bara einhvern veginn.

Þakklætið
Að kvöldi föstudagsins 11. júlí 1975 hljóp ég fyrsta 5 km keppnishlaupið mitt, (reyndar á hlaupabraut (5.000 m)). Þetta var á 15. Landsmóti UMFÍ á Akranesi og síðan þá hefur mér ekki tekist að bæta tímann sem ég náði þarna. Hljóp þetta á 17:04 mín – og minnir að mér hafi ekki þótt það neitt sérstakt. Endaði í 8. sæti af 17 keppendum. Ástæða þess að ég nefni þetta hér er ekki sú að ég sé að spá í að bæta þennan tíma á næsta ári, heldur sú að sl. sumar voru liðin 50 ár frá þessum degi – og ég er enn að. Þegar ég rifja upp þessa sögu get ég ekki annað en fyllst þakklæti í garð forsjónarinnar fyrir að leyfa mér að njóta þessa áhugamáls svona lengi. Árin eru meira að segja orðin fleiri en 50, því að þetta byrjaði ekki þarna á Skaganum 1975. Þetta þakklæti gerir vart við sig sem aldrei fyrr í hvert sinn sem ég sit við að skrifa áramótapistla.

Þakklætið sem hrannast upp þegar litið er til baka er ekki eingöngu þakklæti í garð forsjónarinnar, hver sem hún annars er, heldur einnig og ekki síður í garð alls fólksins sem hefur gert mér þetta mögulegt – og gerir enn. Þar á fjölskyldan mín stærstan hlut að máli – og þá sérstaklega Björk sem hefur umborið þetta áhugamál síðustu 48 ár eða þar um bil. Hitt fólkið í fjölskyldunni á líka inni hjá mér heilan helling af þakklæti. Á árinu 2025 hafði Sara tengdadóttir þeirra mest áhrif á hlaupasöguna, en hún fylgdi mér bæði í nokkur utanvegahlaup og keppnishlaup á árinu. Takk öll.

Hlaupagleði á Molduxa

Endaspretturinn. (Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Föstudaginn 8. ágúst sl. tók ég þátt í utanvegahlaupinu Molduxi Trail sem þá var haldið í fyrsta sinn. Hlaupaleiðirnar (12 og 20 km) liggja upp frá Sauðárkróki og sú lengri (sem ég valdi – með 900 m hækkun) fer alla leið upp á fjallið Molduxa (706 m.y.s.) fyrir ofan bæinn. Í stuttu máli gekk mér allt að óskum í þessu hlaupi og naut hverrar stundar, þrátt fyrir kuldalegt veður og þétta þokusúld á fjallinu. Og líkamleg heilsa á síðustu kílómetrunum var í þokkabót miklu betri en í síðustu tveimur hlaupum. Það hlýtur að vera góðs viti.

Aðdragandinn
Molduxi Trail er nýtt hlaup sem fyrr segir, að hluta til í umsjón hlaupahópsins 550 Rammvilltar á Sauðárkróki. Sara tengdadóttir mín er hluti af þeim hópi og lagði mikið af mörkum við undirbúning hlaupsins. Þess vegna kom aldrei annað til greina en að mæta og gera sitt besta í hlaupinu.

Keppnishlaupin raðast óvenjuþétt hjá mér þessa dagana. Fyrst var það Pósthlaupið (26 km) í Dölunum 26. júlí, svo Súlur (29 km) á Akureyri 2. ágúst – og svo þetta. Dagana eftir Súlur hafði ég líka hlaupið tvö fjallvegahlaup austan Eyjafjarðar, samtals rúma 50 km. Ég óttaðist að þetta væri kannski fullstór skammtur á stuttum tíma, en það virtist alls ekki vera þegar á hólminn var komið.

Merkingar á Molduxa kvöldið fyrir hlaup. (Ljósm. Sara Kr.).

Kvöldið fyrir hlaup aðstoðaði ég Söru og félaga við að merkja leiðina upp og niður Molduxa. Þetta kvöld var strekkingsvindur, þoka, rigning og kuldi á fjallinu, sem kom sér eftir á að hyggja einkar vel fyrir mig, eins og ég kem kannski aftur að síðar í þessum pistli.

Áætlun dagsins
Það getur verið snúið að setja sér markmið í nýju hlaupi, því að þá hefur maður hvorki hugmynd um hvaða lokatími teljist raunhæfur, né um hæfilega millitíma miðað við tiltekinn lokatíma. Þess vegna þurfti ég annað hvort að leggja af stað án áætlunar eða smíða mína eigin áætlun frá grunni. Ég valdi auðvitað síðari kostinn, enda eru töluleg markmið stór hluti af hlaupatilverunni minni. Þessi áætlunarsmíði hófst með því að ég skipti leiðinni upp í átta áfanga út frá GPS-ferli („trakki“) frá Söru. Síðan reyndi ég að áætla hversu hratt ég gæti hlaupið hvern áfanga miðað við vegalengd, hækkun og lauslegar hugmyndir um undirlag. Niðurstöðurnar krotaði ég svo á rúðustrikað blað, sem mér finnst stundum ágætt að nota í staðinn fyrir Excel.

Þessi áætlun skýrir sig næstum alveg sjálf. Fyrsti dálkurinn er náttúrulega vegalengdin og svo hæð yfir sjávarmáli. Og það sem þarna er kallað „Myndat.staður“ er drykkjarstöðin sem beið hlauparanna þegar Molduxi var að baki.
Við rásmarkið í 20 km hlaupinu. Ég virðist vera sá eini sem hugsaði um að klæða sig í stíl við heimavist FNV. ( Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Upp að Molduxa
Hlaupið var ræst kl. 17 aftan við heimavist fjölbrautaskólans og byrjað á að hlaupa upp Sauðárgilið í gegnum Litla-Skóg – og svo eins og leið liggur í átt að Molduxa. Eftir 4,3 km var svo komið að skilti þar sem 20 km hlaupurum var ætlað að hlaupa til hægri áleiðis í kringum fjallið, en 10 km hlauparar áttu að beygja til vinstri meðfram fjallinu. Eins og sést á rúðustrikaða blaðinu reiknaði ég með að verða allt að 43 mín. þarna uppeftir sem er reyndar bara góður gönguhraði (6 km/klst = 10 mín/km), enda hækkunin hátt í 500 m þótt hvergi sé þetta bratt. Innst inni grunaði mig reyndar að ég yrði eitthvað fljótari, sem kom líka á daginn því að þessi fyrsti millitími hljóðaði upp á 36:43 mín. Það var bara fínt, en mig grunaði að sama skapi að tíminn á næsta áfanga væri vanáætlaður og því myndi þetta jafnast út. En mér fannst mér alla vega ganga vel á þessum fyrsta áfanga, veðrið enn nokkurn veginn þurrt en líklega var ég þó búinn að setja upp bæði húfu og hanska þegar þarna var komið. Rétt eins og í Súlum hafði ég gætt þess að púlsinn færi aldrei upp fyrir þröskuldsákefð (um 154 slög/mín, þ.e. 88% af líklegum hámarkspúlsi). Sem sagt: Allt á áætlun og rúmlega það.

Hringur um Molduxa
Áður en lengra er haldið er rétt að undirstrika að áætlun þessa dags fól ekki beinlínis í sér nein markmið, heldur bara lausleg viðmið til að ég hefði eitthvað að hugsa um á leiðinni. Það að ég væri orðinn rúmum 6 mín á undan áætlun eftir fyrsta áfangann kallaði því ekki fram neina sigurtilfinningu. En hver sem áætlunin er finnst mér auðvitað betra að vera á undan henni en á eftir.

Hringurinn um Molduxa („aftur fyrir“ fjallið) er um 3,6 km, ýmist aðeins upp í móti eða aðeins niður í móti. Hluti leiðarinnar er sæmilega hlaupanlegur, einkum undir lokin þegar komið er í Molduxaskarð. Á „bakhlið“ fjallsins eru hins vegar stuttir, nokkuð tæknilegir kaflar þar sem maður getur varla farið nema fetið. Þegar þarna var komið sögu var þokan orðin þéttari og engin leið að njóta útsýnisins sem þarna kvað vera til staðar á björtum dögum. En þetta hélt samt áfram að vera skemmilegt. Þegar hringnum var lokið sýndi klukkan 1:06:10 klst, sem passaði nákvæmlega við áætlunina að teknu tilliti til fyrrnefnds gruns um skekkjur í áföngum nr. 1 og 2.

Upp Molduxa
Leiðin sem við fórum upp fjallstoppinn er tæpir 900 m og hækkunin a.m.k. 210 m, þ.e. á að giska 23% halli. Þetta er því seinfarið fyrir flesta. Þarna var þokan þykk sem fyrr, dálítill vindur og nokkuð mikil úrkoma. Við svona aðstæður er ég oftast kulvís og kvíðinn, auk þess sem gleraugu verða gagnslaus og ekkert við þau að gera nema halda á þeim í hendinni. Ég sé frekar illa frá mér gleraugnalaus og því hefur þetta atriði stundum verið til vandræða.

Þennan dag kom sér mjög vel að hafa farið þessa sömu leið við merkingar kvöldið áður í engu betra veðri. Í ljósi þeirrar reynslu vissi ég að toppnum yrði náð fyrr en varði og því óþarfi að lokast inni í óttanum, sem ég hef oft upplifað, um að á bak við næstu hæð bíði alltaf önnur hæð. Ég var meira að segja svo öruggur með mig að ég ákvað að taka ekki regnstakkinn úr bakpokanum, enda hvarflaði ekki að mér að kuldinn yrði meiri en kvöldið áður. Vitneskjan um að þetta tæki fljótt af og vissan um hærra hitastig og minni úrkomu þegar fjallið væri að baki dugði til að halda á mér hita.

Á toppnum hitti ég einkar vinsamlega brautarverði og klukkan sýndi 1:22:27 klst. Ég hafði sem sagt „grætt“ um það bil hálfa mínútu á uppleiðinni.

Niður Molduxa
Mér sóttist niðurleiðin heldur seint, enda var þar að hluta hlaupið á blautu grasi sem ég óttaðist að gæti verið hált. Þarna „tapaði“ ég hálfu mínútunni aftur og klukkan sýndi 1:31:11 klst, sem sagt alveg á pari við rúðustrikaða blaðið. Þetta fannst mér skemmtilegt, þrátt fyrir að tímarnir á blaðinu væru jú bara lausleg viðmið. Já, og vel að merkja: Ég tók blaðið ekki með mér í hlaupið, enda hefði það ekki enst lengi í rigningunni. Hluti af undirbúningnum var því að leggja á minnið allt sem á því stóð.

Að drykkjarstöðinni
Eitthvað hafði ég misreiknað fjarlægðina frá fjallinu að drykkjarstöðinni (myndatökustaðnum), því að hún reyndist bara vera um 400 m en ekki 800 m eins og ég hafði gert ráð fyrir. Á þessum stutta kafla „græddi“ ég því auðveldar 2 mín. Millitíminn var 1:33:08 klst. og 10,1 km að baki.

Alveg að koma að drykkjarstöðinni – með gleraugun í vinstri hendi, rennblautur með regnstakkinn í bakpokanum. (Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Beygja á Kimbastaðagötum
Frá Molduxa lá hlaupaleiðin eftir Kimbastaðagötum, fyrst austur og suðaustur niður hlíðina, en síðan í krappri vinstri beygja til norðurs þar sem farið er yfir drög Sauðár (ef mér skjátlast ekki). Öll niðurleiðin fylgir þokkalegum vegarslóða sem hentar býsna vel til hlaupa. Fátt finnst mér skemmtilegra á hlaupum en svona jafnt og gott undanhald, enda líkist ég líklega Steini Steinarr að því leyti að „Styrkur minn liggur allur í undanhaldinu“. Millitíminn í beygjunni var 1:44:26 klst., sem sagt hálfri mínútu á undan áætlun. 12,14 km að baki.

Sauðárkrókur
Áfram hélt ég svo niður hlíðina eftir þessum ágætu Kimbastaðagötum í minnkandi úrkomu. Fór fram úr einum hlaupara á þessum kafla, en svo fór hann reyndar fram úr mér aftur skömmu síðar. Að öðru leyti hljóp ég stóran hluta hlaupsins einn, eins og oft vill verða í fámennum og tiltölulega löngum hlaupum. Félagsskapur er góður í svona ferðalögum en einsemdin er það líka. Mér sóttist ferðin til byggða allvel, meðalhraðinn á þessum kafla var 5:04 mín/km (enda hallaði hæfilega undan fæti) og þegar niður var komið sýndi úrið 16,34 km og 2:06:02 klst. Þarna var ég sem sagt orðinn 2 mín á undan áætlun.

Endasprettur
Síðustu fjórir kílómetrarnir í hlaupinu fólust í hringhlaupi um svonefnda Skógarhlíð – og síðan aftur niður í Litla-Skóg, allt þar til hlaupið endaði á sama stað og það hófst. Eins og sést á rúðustrikaða blaðinu hafði ég áætlað einn millitíma á þessum kafla, en þegar á hólminn var komið nennti ég ekki að hugsa meira um klukkuna. Rigningin var auk þess hætt og ég gat sett upp gleraugun. Nú var bara að einbeita sér að því að njóta – og bæta svo vel í hraðann í blálokin. Ég hafði ekkert fundið fyrir krömpum allt hlaupið, ólíkt því sem gerðist í hlaupunum næstu tvær helgar á undan, og þess vegna var þetta einstaklega léttur og ánægjulegur lokakafli. Ég kom í mark á 2:31:34 klst, sem sagt einni og hálfri mínútu á undan rúðustrikuðu áætluninni. Og það er langt síðan mér hefur liðið eins vel á marklínu. Hins vegar skal ósagt látið hvort þetta telst góður eða lélegur tími í stóra samhenginu, hvaða samhengi sem það annars er, enda fátt um viðmið.

Bara nokkrir metrar eftir og Sara tengdadóttir mætt til að hvetja. Eitt af þessum augnablikum þegar maður man best hvers vegna maður er að þessu! (Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Næringin
Í þessu hlaupi hélt ég mig við sama mataræði og næstu tvær helgar á undan. Ég miðaði sem sagt við að innbyrða 80 g af kolvetnum og hálfan lítra af vökva á hverri klukkustund. Það gekk nokkurn veginn eftir, nema kannski í blálokin þegar ég vissi að það skipti ekki máli lengur. Nákvæmlega tilgreint var meðalklukkutímaskammturinn 74 g og 400 ml, auk 50 mg af koffeini. Kannski fulllítill vökvi, en það kom ekki að sök. Kolvetnin tók ég inn í formi orkudufts sem var uppleyst í drykkjarbrúsunum í hlaupavestinu mínu, að viðbættu einu geli.

Þakklætið
Þakklæti er eiginlega alltaf sú tilfinning sem situr efst í huganum í lok svona keppnishlaups. Þennan daginn sem oftar var það aðallega þakklæti til fjölskyldunnar sem skapar mér aðstæður til að stunda þetta áhugamál – og þakklæti til Birkis hlaupafélaga sem kom keyrandi norðan af Ströndum til að taka þátt í þessu. Mestar þakkir fá þó 550 Rammvilltar – og þá sérstaklega Sara tengdadóttir fyrir hennar stóra þátt í að skipuleggja þetta allt saman og fyrir að gefa mér tækifæri til að tengjast þessu aðeins á undirbúningstímanum.

Sigraður í Súlum

Ég hljóp 29 km leiðina í utanvegahlaupinu Súlur Vertical sl. laugardag (2. ágúst). Þetta var nokkuð sem mig hafði lengi langað til að gera, vitandi það að á Akureyri get ég hitt bestu hlaupavinina, besta veðrið og besta hlaupaskipulagið. Ekkert af þessu olli mér vonbrigðum á laugardaginn. Árangurinn í hlaupinu var reyndar ekki eins og ég hafði vonast til, en undir lok hlaupsins upplifði ég samt þessa einstöku hlaupasælu sem er ein af ástæðunum fyrir því að ég mæti í keppnishlaup. Kannski er það þroskamerki að hafa getað upplifða þessa sælu samhliða vonbrigðunum með frammistöðuna.

Markmiðin
Eins og ég hef oft talað og skrifað um set ég mér nánast alltaf markmið fyrir keppnishlaup, stundum bara eitt, stundum jafnvel fjögur eða fimm, allt frá villtustu draumum niður í einhvers konar vonbrigðaþröskuld. Í þetta skipti var villtasti draumurinn að geta hlaupið þessa 29 km (með næstum 1.500 m hækkun) á 3:40 klst, en vonbrigðaþröskuldurinn var við 4:00 klst. Þar sem ég hafði aldrei gert þetta áður hafði ég svo sem ekkert til að miða við, nema ITRA-stigin sem reiknast út frá lokatímanum. Tími upp á 3:40 í þessu hlaupi gefur á að giska 560 stig, sem er nálægt því sem ég hef gert best síðustu þrjú árin, en 4:00 gefur um 515 stig. Mér finnst alveg óþarfi að ná ekki þeirri stigatölu.

Til þess að hafa einhverja hugmynd um hvert stefnir finnst mér nauðsynlegt að reikna út æskilega millitíma á helstu viðkomustöðum í svona hlaupi. Þar sem ég hafði aldrei farið þessa leið áður lagðist ég í svolitlar rannsóknir á millitímum nokkurra kvenkyns hlaupara í sama hlaupi í fyrra. Nú er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ég dragi lærdóm af millitímum kvenna frekar en karla í svona útreikningum. Svarið við því er að ég held að konur séu að meðaltali skynsamari hlauparar en karlar. Ég held með öðrum orðum að þær séu líklegri til að hlaupa á jöfnu álagi í stað þess að fara allt of hratt af stað og þurfa svo að skríða síðustu kílómetrana. Þessir útreikningar mynduðu grunn að eftirfarandi áætlun, miðað við lokatímann 4:00:

StaðsetningKmTími (klst.)
Súlubílastæði (á uppleið)9,91:12:00
Súlur (Ytri-Súla (1144 m))15,42:29:00
Súlubílastæði (á niðurleið)20,93:07:00
Háskólasvæði (Kolgerði)26,83:45:00
Mark (Göngugatan)29,64:00:00

Aðstæður
Þessi laugardagur bauð upp á frábærar aðstæður til hlaupa. Sólin skein og hitinn á láglendi var 16-18°C á meðan á hlaupinu stóð. Reyndar getur þetta hitastig verið óþarflega hátt fyrir hlaupara, en á móti kom að þennan dag blés strekkingsvindur úr suðri. Þetta var sem sagt bara alveg dásamlegt.

Upphaf hlaupsins
Hlaupavinir eiga stærri þátt en flest annað í gleðinni sem umlykur mann á svona dögum. Á leiðinni inn í Kjarnaskóg hitti ég tvær úr þeim hópi, þær Hörpu Dröfn, sem er næstum því sveitungi minn, og Ingu Dísu, einn besta hlaupafélaga minn og samstarfskonu úr stjórn Hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi. Og svo var hlaupið ræst, stundvíslega kl. 10 þennan fallega laugardagsmorgun.

Með Hörpu Dröfn og Ingu Dísu í Kjarnaskógi nokkrum mínútum fyrir hlaup. (Ljósm. Inga Dísa).

Púlsinn
Að fenginni reynslu úr Pósthlaupinu á dögunum var ég staðráðinn í að halda púlsinum innan við 154 slög á fyrstu kílómetrum hlaupsins, alla vega alla leið að Súlubílastæðinu. Þessi tala er u.þ.b. 88% af hámarkspúlsinum mínum og ef púlsinn fer eitthvað að ráði upp fyrir þetta fer laktat að safnast fyrir í vöðvunum – og þá er hætt við að þreytan fari að sigrast á gleðinni. Þetta gekk alveg sæmilega hjá mér. Ég fylgdist lítið með vegalengd og hraða þarna til að byrja með en gætti þess að hægja alltaf á mér þegar úrið sýndi hærri tölu en 154. Millitíminn á Súlubílastæðinu var 1:12:11 klst, sem var algjörlega samkvæmt áætlun (sjá töflu). Ég var ekkert orðinn þreyttur og hefði alveg getað farið aðeins hraðar. Við bílastæðið hitti ég Sonju Sif og það gerði mig enn tilbúnari en ella til að takast á við næstu 5,5 km, þ.e.a.s. klifrið upp á Ytri-Súlu, með u.þ.b. 860 m hækkun. Brekkur sem hallast í þessa átt kalla alla jafna fram mína veikustu hlið sem hlaupara.

Mættur á Súlubílastæðið í góðum meðvindi. (Ljósm. Súlur Vertical og Sportmyndir.is).

Upp Súlur
Ferðalagið upp Ytri-Súlu var tímafrekt, rétt eins og ég hafði gert ráð fyrir. Bjóst reyndar við að á þessum kafla myndi fólk svoleiðis þyrpast fram úr mér, en sú varð ekki raunin. Kannski færðist ég 4-5 sætum aftar í röðina, þannig að í reynd gekk þetta bara vel. Millitíminn á fjallstoppnum var 2:33:40 klst, að vísu 4:40 mín lengri en að var stefnt (sjá töflu), en ég bjóst við að vinna það upp á niðurleiðinni endar hafa niðurhlaup lengi verið mín sterka hlið. Uppi á Súlum hitti ég Elías Bj. Gíslason, sem stóð þar vörð við tímatökuhliðið. Mér finnst alltaf gott að sjá kunnugleg og vingjarnleg andlit á svona ferðalögum.

Niðurleiðin
Á leiðinni upp Súlur var ég aðeins farinn að finna krampatilfinningu í kálfum og jafnvel lærum. Hafði samt ekki miklar áhyggjur, enn sannfærður um ágæti mitt sem niðurhlaupara. En fljótlega eftir að brekkan fór að „hallast rétt“ ágerðust kramparnir, sérstaklega á bröttustu köflunum. Þetta varð fljótlega svo slæmt að ég vissi að þetta annars hógværa markmið um lokatíma upp á 4:00 myndi ekki nást. Á sumum köflum var þetta svo slæmt að ég fór hægar niður en upp – og fólk byrjaði að streyma fram úr mér. Eiginlega leið mér eins og allir væru að fara fram úr mér – og jafnvel amma þeirra líka. Samt hélt ég í gleðina. Datt reyndar í hug að skynsamlegt væri að hætta þessu bara þegar ég kæmi aftur niður á Súlubílastæðið, en eins og einhver sagði: „Ef maður hendir inn handklæðinu hækkar bara í óhreinatauskörfunni“. Mér tókst líka að rifja upp minningar um krampa sem höfðu linast þegar lengra leið á viðkomandi hlaup. Sú varð líka raunin þegar hallinn minnkaði, en samt gat ég ekkert hlaupið að gagni. Niðurhlaupið varð sem sagt að löngum göngutúr. Áætlaður millitími á Súlubílastæðinu birtist á úrinu einhvers staðar uppi í miðri hlíð og þegar ég loksins var kominn niður sýndi klukkan 3:24:56 klst. Ég var sem sagt búinn að tapa rúmum 13 mínútum á kaflanum sem átti að vera hlutfallslega bestur og var orðinn 18 mín á eftir áætlun (sjá töflu). Öll markmið voru farin í vaskinn, en ég var samt staðráðinn í að njóta þess sem eftir var. Lokatíminn skipti ekki lengur máli.

Kominn niður af Ytri-Súlu (sem sést þarna í baksýn). Öll markmið úr sögunni. (Ljósm. Súlur Vertical og Sportmyndir.is).

Súlubílastæði – Háskólasvæði
Frá Súlubílastæðinu lá leiðin yfir Glerárgilið, eða Dauðagilið eins og það er gjarnan kallað meðal hlaupara. Þetta var svo sem ekkert meiri dauði en hvað annað – og niðri í gilinu sat líka kona og spilaði á harmoniku. Hún bætti svo sannarlega gleði í hlaupið.

Þegar upp úr gilinu var komið tóku við flatari kaflar – og þar gat ég alveg hlaupið á sæmilegum hraða þrátt fyrir krampana, bara ef ég passaði mig á öllum óvæntum upp-, niður- og hliðarskrefum. Þarna náði ég þónokkrum hlaupurum í 19 km vegalengdinni, þ.á m. Sigurbjörgu Akurnesingi, sem ég hitti síðast í Hrafntinnuskeri í Laugavegshlaupinu 2019. Allir svona fundir, þótt stuttir séu, glæða ferðalagið aðeins meiri gleði og bjartsýni. Millitíminn á háskólasvæðinu var 4:04:26, þ.e.a.s. u.þ.b. 19:30 mín lengri en að var stefnt (sjá töflu). Staðan hafði sem sagt lítið versnað frá því á Súlubílastæðinu.

Endaspretturinn
Þegar þarna var komið sögu bjó ég mér til nýtt markmið, nefnilega að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 4:20 klst. Fyrir hlaup hafði ég ekki einu sinni hugmyndaflug í svoleiðis tölur, en þegar svona er komið er eins gott að vera þakklátur fyrir það sem þó er í boði. „Endasprettur“ er kannski ekki alveg rétta orðið yfir hraðann sem ég náði á þessum síðasta 3 km kafla, en ég fór hann alla vega á 15:22 mín sem er alls enginn gönguhraði. Ég fór meira að segja fram úr a.m.k. tveimur hlaupurum sem höfðu stungið mig af á leiðinni upp Súlur. Og þegar markið nálgaðist streymdi um þig þessi einstaka gæsahúðargleði sem fylgir því að ljúka svona hlaupaáskorun, sérstaklega þegar veðrið er gott, jafnvel þó að árangurinn sé undir væntingum. Toppurinn var svo að sjá Björkina mína, Gittu og tvo þriðju af barnabörnunum í Göngugötunni rétt áður en ég skokkaði í gegnum markið á 4:19:48 klst, sem sagt alla vega undir 4:20.

Kominn í mark, glaður þrátt fyrir þessar tölur á klukkunni. (Ljósm. Súlur Vertical og Sportmyndir.is).

Hvað klikkaði?
Árangurinn í þessu hlaupi var vissulega langt undir væntingum – og ég veit svo sem alveg hvers vegna. Ég veit að ég fór ekki of hratt af stað og ég veit að ég tók inn nóg af næringu og vökva. Það eina sem vantaði voru fleiri kílómetrar í lappirnar og miklu fleiri hæðarmetrar á æfingum, sérstaklega síðusta mánuðinn. Ég var vissulega búinn að fara nokkrum sinnum á Hafnarfjallið, en ein og ein ferð á stangli dugar skammt til að geta farið almennilega upp og niður Súlur. Samt hélt ég að ég myndi ráða aðeins betur við þetta en raun bar vitni. En það gengur þá bara betur næst.

Næst!?
Strax og ég var kominn í mark langaði mig, þrátt fyrir allt, að gera þetta aftur við fyrsta tækifæri. Fyrsta tækifæri er á sama tíma að ári – og vonandi verða aðstæður mínar þá þannig að ég geti gert aðra atlögu að sömu vegalengd, betur undir búinn. Hlaupaleiðin og öll umgjörð hlaupsins toppar flest það sem ég hef upplifað í þessum efnum (sem er þó alveg slatti). Ég yfirgaf Göngugötuna stirður í fótum en lítið þreyttur að öðru leyti, enda hjarta og æðakerfi búin að hafa það frekar náðugt frá því að ferðalagið upp á Súlur hófst. Ég mæti sem sagt aftur næsta ár – og þá verður aftur sólskin á Akureyri.

Pósthlaup án væntinga

Ég tók þátt í Pósthlaupinu um daginn (26. júlí sl.) eins og ég hef reyndar gert árlega síðan þessi hlaupaviðburður var fyrst haldinn sumarið 2022. Þetta var sem sagt fjórða Pósthlaupið mitt. Og alltaf hef ég haldið mig við sömu vegalengdina, þ.e. 26 km leiðina frá Kirkjufellsrétt í Haukadal að pósthúsinu í Búðardal, (sem nú er orðið að fyrrverandi pósthúsi). Með þessu móti get ég notað Pósthlaupið sem eins konar „samræmt próf“ á hlaupagetuna.

Væntingar?
Aldrei þessu vant lagði ég af stað í Pósthlaupið án væntinga, þó að ég viðurkenni að ég hefði orðið leiður ef mér hefði ekki tekist að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 2:30 klst. Ég var nefnilega alveg við þau mörk tvö fyrstu árin – og hef á tilfinningunni að þar hljóti mörk hins ásættanlega að liggja. Í fyrra var tíminn hins vegar miklu betri, þ.e. um 2:18 klst., enda hafði ég þá náð miklu lengra og samfelldara æfingatímabili en árin á undan. Þetta árið hefur mér ekki tekist að komast í sama form og í fyrra – og þess vegna gerði ég mér engar vonir um svipaðan tíma og síðast.

Að hlaupa eftir tilfinningu
Ég er vanur að gera nákvæma áætlun fyrir hvert einasta hlaup um millitíma á hinum og þessum stöðum, en í samræmi við væntingaleysið sleppti ég því alveg í þetta skiptið. Mér finnst gaman að gera áætlanir, en mér finnst líka gaman að hlaupa eftir tilfinningunni. Og til þess að leyfa tilfinningunni að hafa völdin kíkti ég ekkert á millitímana mína úr fyrri Pósthlaupum. Mundi þó nokkurn veginn millitímann minn frá því í fyrra á þjóðveginum norðvestan við brúna yfir Haukadalsá. Þangað eru u.þ.b. 16,06 km frá réttinni og tvö síðustu ár hljóp ég þangað á 1:21:36 klst. Já, og svo mundi ég auðvitað lokatíma fyrri ára nokkurn veginn.

Hlaupið sjálft
Mér leið vel á fyrstu kílómetrum hlaupsins. Fannst ég rúlla þá ágætlega, án þess að safna þreytu í lappirnar. Meðalhraðinn á fyrstu 10 km niður að Haukadalsvatni var rétt undir 5 mín/km, sem mig minnti að væri bara svipað og venjulega. Og millitíminn á þjóðveginum var 1:21:54 klst, sem sagt bara 18 sek. lakari en í fyrra. Það fannst mér bara harla gott.

Þreyta og krampar
Spölurinn niður að þjóðveginum er nánast allur hlaupinn á bílvegi, en eftir það gjörbreytist undirlagið án þess þó að verða neitt sérlega tæknilegt. Þarna var ég farinn að finna meira fyrir þreytu, en gerði mér ekki grein fyrir hvort hún væri meiri eða minni en síðustu ár. Við Þorbergsstaði (18,8 km) var ég þó farinn að hafa það á tilfinningunni að síðustu kílómetrarnir yrðu erfiðir. Þarna var ég aðeins farinn að finna fyrir krömpum í hægri kálfa – og koffeingelið sem ég skellti í mig á reiðveginum skömmu síðar hafði ekki sömu hressandi áhrif og sams konar gel hafði í fyrra. Þetta var sem sagt orðið erfitt, kramparnir ágerðust og mér leið ekki lengur vel. Í stuttu máli voru síðustu 7 kílómetrarnir hver öðrum erfiðari og ég kom í mark á 2:28:32 klst, sem mér fannst þó svo sem allt í lagi, enda skrokkurinn almennt í toppstandi að krömpunum frátöldum. Ég náði alla vega þessu einfalda markmiði um 2:30 klst.

Af hverju fær maður krampa?
Krampar sem maður fær á hlaupum geta átt sér ýmsar skýringar (eins og ég skrifaði einhvern tímann um í pistli á hlaup.is). Í einfölduðu máli eru algengustu skýringarnar líklega annars vegar þreyta (vöðvarnir ekki tilbúnir í alla þessa samdrætti), og hins vegar vökvaskortur og/eða skortur á næringu og/eða steinefnum. Í þetta skiptið held ég að fyrrnefnda skýringin sé líklegri. Ég var einfaldlega ekki í nógu góðu formi til að ráða við álagið, (sjá umfjöllun hér að neðan). Ég þykist viss um að ég hafi innbyrt nóg af vatni og næringu, en kannski var einhver óvissa með steinefnin.

Er hægt að éta sig í form?
Síðustu misserin hefur næringarinntaka á hlaupum verið mikið í umræðunni og það sem áður þótti nóg þykir lítið í dag. Sjálfur hef ég lengst af miðað næringarinntökuna við u.þ.b. 50 g af kolvetnum (tvö gel (um 200 kcal)) og 300 ml af vökva á klukkustund, auk þess sem ég hef staðið í þeirri meiningu að þetta skipti litlu sem engu máli í hlaupum sem taka skemmri tíma en 1:30-2:00 klst. Í Pósthlaupinu um daginn ákvað ég hins vegar að láta á það reyna hvort ég gæti ekki farið upp í 80 g af kolvetnum (um 320 kcal) og 500 ml af vökva pr. klst, alveg frá upphafi til enda hlaupins. Þetta gekk nokkurn veginn eftir, en líklega vantaði þó svolítið upp á vökvann. Og svo pældi ég svo sem ekkert í steinefnunum. Meltingarfærin tóku þessu öllu mótmælalaust, enda hafa þau aldrei verið með vesen í keppnishlaupum. Þegar á heildina er litið tel ég að erfiðleikarnir á síðustu kílómetrunum hafi ekki haft neitt með næringuna að gera. Ég var einfaldlega ekki vanur að hlaupa þetta lengi á þessum hraða. Næring á hlaupum er gríðarlega mikilvæg, en það er ekki hægt að éta sig í form.

Hvað með púlsinn?
Ég hef svo sem aldrei spáð neitt í hjartsláttartíðni (púls) í keppnishlaupum, jafnvel þótt ég hafi á síðustu 2-3 árum stuðst talsvert við púlsmæli á æfingum í samræmi við fræði Jack Daniels. Í Pósthlaupinu hugsaði ég heldur ekki neitt um púlsinn, að öðru leyti en því að ég þóttist finna að álagið á fyrstu 16 km hlaupsins væri bara hæfilegt. Þegar ég skoðaði Strava að hlaupi loknu komst ég að annarri niðurstöðu. Ég fór einfaldlega of hratt af stað miðað við getu og það kom niður á mér síðar í hlaupinu. Að gamni mínu límdi ég saman púlslínuritin mín úr öllum pósthlaupunum. Þau segja sögu, sem mér finnst áhugaverð.

Þegar rýnt er í myndirnar sést að púlsinn á fyrstu 10 km hlaupsins um daginn var hærri en áður (sérstaklega samanborið við hlaupið í fyrra), þ.e.a.s. meira og minna um og yfir 160 slög/mín. Ég held að hámarkspúlsinn minn sé nálægt 175, sem þýðir að þröskuldspúlsinn (e. lactate threshold) gæti verið um 175 x 88% = 154 slög/mín. Fyrstu 10 km hlaupsins var ég lengst af yfir þessu viðmiði, sem þýðir væntanlega að þarna var laktat (sem oft er talað um sem mjólkursýru) að safnast upp í vöðvunum. Það er ástand sem maður þolir varla lengur en í klukkutíma eða þar um bil. Málið snýst ekki bara um að koma vökva og næringu inn í vöðvafrumurnar, heldur líka um að koma niðurbrotsefnum (úrgangi) út úr þeim. Ef það tekst ekki verður allt erfiðara en ella – og líklega var það nákvæmlega það sem gerðist í Pósthlaupinu.

Hvað læri ég af þessu?
Líklega þótti mér „of gaman“ í Pósthlaupinu, þannig að mér leið betur á fyrstu kílómetrunum en ég hafði í raun efni á. Mig vantar fleiri kílómetra í lappirnar til að geta búist við betri árangri og mig vantar líka fleiri æfingar á þröskuldsákefð til að auka afköst vöðvanna í næringarupptöku og úrangslosun. Í næsta keppnishlaupi ætla ég að halda púlsinum innan við 154 slög/mín fyrstu kílómetrarna og gá hvað gerist.

Lokaorð
Burtséð frá öllum krömpum og misvísindalegum pælingum um næringu og laktatþröskulda, naut ég þess virkilega að taka þátt í Pósthlaupinu. Ég vissi vel að hlaupaformið var ekki upp á það besta, en í lok dags var ég engu að síður innilega þakklátur fyrir hlaupaheilsuna sem mér hefur tekist að byggja upp, þakklátur fyrir hlaupavinina sem ég hitti í Dölunum þennan dag, þakklátur fyrir velvilja og gestrisni aðstandenda hlaupsins og þakklátur fyrir fjölskylduna mína sem gerir mér mögulegt að stunda þetta áhugamál, þrátt fyrir allan tímann sem það tekur.

Eftirmáli
Ég get náttúrulega ekki látið hjá líða að birta millitímana mína í Pósthlaupinu um daginn (sem ég skoðaði vel að merkja ekki fyrr en eftir hlaup), svo og úr hinum Pósthlaupunum. Mér finnst svona tölfræði ekki bara skemmtileg, heldur leynast líka í henni upplýsingar sem nýtast mér vel í framhaldinu.

Millitímar í Pósthlaupum SG 2022-2025. (Hlaupið var ögn styttra fyrsta árið). Grænu reitirnir minna á að fyrstu 16 km hlaupsins 2025 voru nánast endurtekning á hlaupinu 2024, en eftir það voru meiri líkindi með hlaupinu 2023.

Hlaupaannáll 2024 og markmiðin 2025

Vel sáttur og vel klæddur í Akureyrarhlaupi 4. júlí.
(Ljósm. Akureyrarhlaup).

Nú er hlaupaárið 2024 að baki og nýtt hlaupaár framundan. Í árslok 2007 tók ég upp á því að skrifa langan hlaupaáramótapistil og hef haldið þeirri venju síðan. Og jafnvel þótt ég sé sjálfur aðalmarkhópur þessara pistla dettur mér ekki annað í hug en að halda uppteknum hætti. Hér kemur sem sagt 18. árlegi pistillinn með ítarlegum frásögnum af hlaupauppátækjum síðustu 12 mánaða og yfirlýsingum um væntanleg hlaupaafrek á næstu 12 mánuðum.

Gott hlaupaár
Árið 2024 var gott hlaupaár (auk þess að vera hlaupár, sem skiptir ekki öllu máli í þessu samhengi). Reyndar var þetta mjög gott hlaupaár fyrstu 8 mánuðina, en óvenju tilkomulítið síðustu fjóra. Síðdegis laugardaginn 31. ágúst lauk nefnilega 20 mánaða meiðslalausu hlaupatímabili og við tók nánast hlaupalaust meiðslatímabil, sem stóð í það minnsta fjóra mánuði – hvað sem síðar verður.

Æfingarnar
Æfingar gengu almennt vel fyrstu fjóra mánuði ársins, þó að ég næði ekki að fylgja eftir löngum æfingavikum sem einkenndu síðustu mánuðina 2023. Hlaupamagnið þessa fyrstu mánuði var yfirleitt tæpir 50 km á viku, sem dugar mér þokkalega til viðhalds samkvæmt reynslu. Oftast náði ég 4-5 hlaupaæfingum á viku, en sinnti lítið sem ekkert um styrktaræfingar. Raunverulegar gæðaæfingar hefðu líka mátt vera fleiri, en þessir mánuðir voru frekar kaldir og vindasamir, sem nægir alveg til að halda áhuganum í skefjum. Við bættust svo einhver ferðalög og stúss sem tók tíma frá hlaupum, enda snýst lífið um fleira en hlaupaæfingar. Ég meiddist líka eitthvað smávegis seint í janúar, en það lagaðist fljótt og hafði engin áhrif á heildarmyndina.

Stravafærsla eftir lengsta hlaupið í DK. (Ensomhed er heiti á tilteknum sveitavegi á eyjunni Als).

Í lok mars skruppum við Björk í vikuferð til bróður hennar og mágkonu í Danmörku og þar átti ég bestu hlaupaviku ársins, alsæll með að vera laus við norðanáttina. Reyndar var hitastigið ekki mikið hærra en í Andakíl, en lognið gerði gæfumuninn. Þarna kynntist ég því líka í fyrsta sinn hversu gott það er að taka hraðar æfingar á „carbonplötuskóm“, Þetta voru eins og bestu æfingabúðir fyrir mig, sjö daga törn með samtals 91 km með þéttum gæðaæfingum og 30 km laugardegi á 5:13 mín/km. Eftir þessa viku fundust mér allir vegir færir.

Ég náði mér einhvern veginn ekkert á strik eftir heimkomuna frá Danmörku. Var líklega orðinn of vanur góðu veðri. Mætti samt í Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta og stóð mig betur þar en ég þorði að vona. (Meira um það síðar). Um mánaðarmótin apríl/maí lagðist ég svo í Covid og fyrir bragðið varð maí í daufara lagi í hlaupunum. Í lok mánaðarins skrifaði ég eftirfarandi á Strava eftir 8 km hlaup, undir yfirskriftinni Frumdrög að endurkomu: „Búinn að missa maí meira og minna úr vegna veikinda – og kominn tími til að reyna að snúa því við. Mjög linur af stað en leyfði mér að bæta í eftir því sem á leið. Ekki endilega skynsamlegt eftir langt hlé, en mig langaði bara svo að finna neistann. Sá glitta í hann. En hvort ég legg í Hengilinn eftir 9 daga er önnur saga. Skýrist sjálfsagt á næstu fjórum dögum“.

Þróun hlaupaformsins frá ársbyrjun til ársloka skv. Strava. Segir ekki alla sögu, en gefur samt góða yfirsýn yfir gang mála.

Þegar til kom langaði mig ekkert að mæta í Hengilinn. Fannst ég ekki tilbúinn í það. Annars var júní bara nokkuð góður – og júlí og ágúst líka. Æfingarnar á þessum tíma voru frekar frjálslegar eins og gjarnan á sumrin, en Jack Daniels var þó alltaf á borðshorninu með tilheyrandi hægum hlaupum, stílsprettum og einhverjum gæðaæfingum. Svo endaði þetta eiginlega allt saman með því að ég tognaði óvænt aftan í hægra læri í Tindahlaupinu 31. ágúst. „Óvænt“ segi ég, því að mér fannst ég ekki hafa gert neitt vitlaust. Eftir á að hyggja fólst vitleysan þó í skorti á styrktaræfingum og brekkuæfingum.

Síðustu fjóra mánuði ársins hljóp ég lítið, þ.e.a.s. samtals 202 km. Annað eins hlaupaleysi hefur ekki sést í hlaupadagbókinni minni frá því á árinu 2006. Tognunin tók sig tvisvar upp í september – og svo í þriðja skipti í löngu laugardagshlaupi í miklu frosti í Skagafirði seint í nóvember, einmitt þegar ég hélt að ég væri sloppinn og fannst ég vera kominn vel á strik. Eftir fund með Halldóru sjúkraþjálfara ákvað ég að taka mér 6 vikna hlaupafrí til að ná lærinu almennilega í lag – og þar með lauk hlaupum ársins. Við tóku ögn tíðari styrktaræfingar, auk þess sem ég keypti mér þrekhjól og átti eftir það góðar stundir í bílskúrnum í sýndarveruleika ZWIFT, þar sem aldrei er frost og mótvindur. Náði rúmum 200 hjólakílómetrum í síðasta mánuði ársins. Trúi því að þeir eigi eftir að koma sér vel.

Heildarhlaupavegalengdin þetta árið varð 1.837 km, sem er með því stysta síðustu ár. En vegalengdin segir svo sem ekki alla söguna.

Árlegar hlaupavegalengdir samkvæmt hlaupadagbókinni.

Keppnishlaupin
Ég tók þátt í 8 keppnishlaupum á árinu, sem er það mesta síðan 2019. Í rauninni má skipta þessum 8 hlaupum í tvö verkefni, sem ég bjó til sjálfum mér til gamans og hvatningar:

  1. Eiga Íslandsmetið einn (EÍE)
  2. Toppa ITRA-lista gamalla íslenskra karla (ITRA 65)

Fyrra verkefnið varð eiginlega til fyrir slysni. Í Víðavangshlaupi ÍR jafnaði ég nefnilega aldursflokkamet í 5 km götuhlaupi 65-69 ára karla (byssutími 21:52 mín) án þess að það hafi kannski verið sérstaklega á dagskránni. Eftir það lá beint við að bæta um betur til að eiga metið einn, alla vega um sinn. Til þess þurfti ég að hlaupa eitt eða fleiri vottuð 5 km hlaup til viðbótar.

Seinna verkefnið var svo sem ekkert nýtt, ég hef bara aldrei beinlínis talað um það áður. Nokkur síðustu ár hef ég sem sagt verið með flest ITRA-stig íslenskra karla á mínum aldri, fyrst í flokki 60-64 ára árið 2021 og svo í flokki 65-69 ára 2022 og 2023. Þeirri stöðu vildi ég auðvitað halda, en gerði mér grein fyrir að það yrði snúið þar sem stigaútreikningurinn nær bara þrjú ár aftur í tímann. Tvö síðustu ár voru frekar rýr hjá mér í ITRA-stigum talið, sem þýddi mikla lækkun um leið og góð hlaup frá sumrinu 2021 myndu hverfa úr reiknivélinni. Í árslok 2023 var ég með 577 ITRA-stig, en þegar komið var fram í júlí var stigatalan dottin niður í 515 stig ef ég man rétt – og ég dottinn niður í 4. sæti í aldursflokknum. Til að endurheimta toppsætið þurfti ég að komast aftur upp í u.þ.b. 570 stig – og í sumarbyrjun leit það út fyrir að verða mjög torsótt.

Með Evu Skarpaas eftir Miðnætur-hlaupið. (Ljósm. Sonja Þórólfsd.).

EÍE
Víðavangshlaup ÍR sumardaginn fyrsta var fyrsta keppnishlaup ársins. Aðalmarkmiðið mitt fyrir þetta hlaup var að ná undir 23 mín, sem var ögn betra en ég náði árið 2023. Vissi svo sem af aldursflokkametinu (byssutími 21:52 mín), en taldi það í besta falli á mörkum þess mögulega. Í stuttu máli gekk allt upp í þessu hlaupi og ég kom býsna glaður í mark á 21:44 mín (byssutími 21:52 mín), eins og ég lýsti nánar í þar til gerðum bloggpistli viku eftir hlaup. Þar með fæddist „EÍE-verkefnið.“

Næsta hlaup í „EÍE-verkefninu“ var Miðnæturhlaup Suzuki 20. júní. Ég vissi fyrirfram að markmið verkefnisins myndi ekki nást þar og þá, enda var þetta fyrsta almennilega gæðaæfingin frá því í apríl. Auk þess var svolítil rigning og leiðin blaut, sem hentar mér alltaf frekar illa af einhverjum ástæðum. En veðrið var milt og aðstæður almennt bara frábærar. Vonaðist til að geta hlaupið á 22:30 mín og lokatíminn varð ögn betri en það, sem sagt 22:21 mín. Og hápunkturinn var að Gitta mín var mætt í Laugardalinn til að hvetja pabba sinn.

Þriðja 5 km hlaupið var svo Akureyrarhlaupið 4. júlí. Þá hefði þetta svo sem getað smollið, en norðanvindur og kuldi gerðu þetta allt svolítið erfiðara. Sá fljótt hvert stefndi, endaði á 22:11 mín og var bara vel sáttur. Svo hitti ég líka slatta af góðu fólki. Það er alltaf gott að hlaupa á Akureyri!

Við Hjalti eftir fullkomið hlaup á Selfossi. (Ljósm. Björk Jóhannsd.).

Fjórða og síðasta hlaupið í „EÍE-verkefninu“ var Brúarhlaupið á Selfossi 10. ágúst. Þar hafði ég fulla trú á að markmiðið næðist, m.a. eftir að hafa fundið neistann í góðum utanvegahlaupum (sjá neðar). Veðrið var líka eins og best verður á kosið, brautin óaðfinnanleg – og fjölskylduvinurinn Hjalti Rögnvaldsson kominn alla leið frá London til að „héra“ mig. Hann stóð sig fullkomlega í því hlutverki, allir kílómetrar voru á nokkurn veginn réttum hraða (undir 4:20 mín/km) og lokatíminn 21:28 mín. Þar með átti ég Íslandsmetið einn – og verkefninu var lokið. (Reyndar er rétt að halda því til haga að svona lagað kallast að réttu aldursflokkamet en ekki Íslandsmet, en hafa skal það sem skemmtilegra reynist. Alla vega er þetta besti tími sem 65-69 ára íslenskur karl hefur náð í vottuðu 5 km götuhlaupi. Ég veit að ég mun ekki eiga þetta met lengi, en er á meðan er).

Vel varðveitt skjáskot úr Afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands.
Efst á Skálavíkurheiði. 6 km niðurhlaupsgleði framundan.
(Ljósm. Hlaupahátíð).

ITRA 65
Fyrsta ITRA-hlaup ársins, þ.e.a.s. fyrsta keppnishlaup ársins utanvega (eða fyrsta stígahlaupið eins og ég myndi frekar vilja að þetta væri kallað) var Skálavíkurhlaupið á Hlaupahátíð á Vestfjörðum að kvöldi fimmtudagsins 18. júlí. Leiðin í þessu hlaupi liggur frá Skálavík yfir Skálavíkurheiði til Bolungarvíkur og er í stuttu máli samsett úr einni 6 km brekku upp og annarri 6 km brekku niður, (sem sagt samtals 12 km). Eins og lesa má í þar til gerðum hlaupapistli var þetta hlaup eintóm gleði þrátt fyrir mikinn mótvind. Mér leið býsna vel alla leið og kom í mark á 1:04:57 klst, sem var talsvert nær draumamarkmiði en lágmarksmarkmiði. Ég þarf að fara nokkur ár aftur í tímann til að finna álíka hlaupagleði og gagntók mig á lokametrunum – og þetta kvöld rifjaðist enn einu sinni upp fyrir mér að það dýrmætasta við hlaupin eru ekki bara hlaupin sjálf, heldur líka fólkið í kringum þau. Þetta hlaup gaf mér 546 ITRA-stig, sem dugði til að laga stöðuna á topplistanum alla vega svolítið. Minnir að eftir þetta hlaup hafi ég verið kominn með 536 stig, en leiðin þó enn löng í 570 stigin.

Næsta ITRA-hlaup var Pósthlaupið í Dölunum 27. júlí. Mér var boðið í þetta hlaup, sem ég þáði með þökkum og fékk Kiddó hlaupafélaga (Kristinn Óskar Sigmundsson) með mér. Þetta var í þriðja sinn sem hlaupið var haldið og jafnfram í þriðja sinn sem ég var með – öll skiptin í 26 km vegalengdinni. Til að gera langa sögu miklu styttri en í pistlinum sem ég skrifaði eftir hlaup fór árangurinn í þessu hlaupi langt fram úr björtustu vonum. Ég bætti sem sagt tímann minn frá því í fyrra um 11:26 mín, upplifði óvenjumikla hlaupasælu og náði mér í 573 ITRA-stig. Þar með fór meðalskorið mitt upp í 556 ef ég man rétt og alls ekki útilokað að ég myndi ná markmiði ITRA-verkefnisins.

Með hlaupavinunum Jósep, Kiddó og Heiðrúnu í Búðardal að hlaupi loknu.
Í brúninni ofan við Bólstað. Bara 2 km eftir og ég búinn að renna regnjakkanum niður.
(Ljósm. G.Harpa Ingimundard.).

Næst var röðin komin að Trékyllisheiðar-hlaupinu, sem var haldið í 4. sinn 17. ágúst. Ég hef verið Skíðafélagi Strandamanna innan handar við undirbúning hlaupsins frá upphafi og hef alltaf náð að hlaupa einhverja vegalengd sjálfur. Nú reyndi ég mig í annað sinn við þá lengstu, 48,5 km fjallaleið úr Trékyllisvík til Steingrímsfjarðar. Veðrið var með hráslagalegasta móti, allhvöss norðanátt og slydda á heiðinni. En svona veður er hægt að klæða af sér að mestu og sem betur fer var vindurinn líka lengst af í bakið. Í stuttu máli gekk þetta allt mjög vel, ég bætti tímann minn frá 2021 um tæpar 20 mín og náði mér í 546 ITRA-stig, alveg eins og í Skálavíkurhlaupinu. Nú vantaði líklega bara eitt hlaup upp á rúm 570 stig, svona svipað og í Pósthlaupinu, til að planið gengi upp.

Planið gekk ekki upp. Fjórða og síðasta ITRA-hlaupið mitt á árinu var Tindahlaupið í Mosfellsbæ 31. ágúst, (3 tindar = 20 km). Þetta var óvenjuhlýr dagur, en mikið hvassviðri og úrhellisrigning. Fyrir bragðið varð hlaupaleiðin víða mjög sleip og ég sá næstum jafnilla frá mér með gleraugum og gleraugnalaus. Í stuttu máli sá ég aldrei til sólar í þessu hlaupi, hvorki í eiginlegri né óeiginlegri merkingu, og niðurstaðan varð í raun algjört hrun, fjarri öllum markmiðum og ótvírætt lakasta frammistaða mín í keppnishlaupi frá upphafi. (Þessi staðhæfing felur ekki í sér neina dramatík, heldur er hún bara niðurstaða ítarlegrar athugunar). Í þokkabót tognaði ég í læri á síðasta kílómetranum (sjá framar) – og þá vissi ég að ITRA 65 verkefnið væri endanlega farið út um þúfur. Þetta hlaup gaf mér bara 484 ITRA-stig. Svo lága tölu hef ég ekki séð áður, ekki einu sinni þegar ég var næstum orðinn úti í Henglinum 2021.

Stigahæstu Íslendingar 65-69 ára á styrkleikalista ITRA í árslok 2024.

Skemmtihlaupin
Helsta „Skemmtihlaup“ ársins var hið árlega Uppstigningardagshlaup, en síðan árið 2010 höfum við hjónin boðið í hálfmaraþon og mat (í þeirri röð) á uppstigningardag ár hvert (að árinu 2021 frátöldu). Lengst af var hlaupaleiðin hinn sívinsæli Háfslækjarhringur með upphaf og endi í Borgarnesi, en eftir að við hjónin fluttum yfir á Hvanneyri haustið 2021 þurfti náttúrulega að finna nýja og álíka langa leið. Að þessu sinni lá leiðin „niður í Land“ eins og heimamenn kalla það – og síðan upp að Vatnshömrum og þar áfram Heggsstaðahringinn upp á Hvítárvallaflóa og aftur heim. Að þessu sinni bar uppstigningardag upp á 9. maí og hópurinn taldi samtals 10 hlaupara. Veðrið lék við okkur eins og næstum alltaf og súpan hennar Bjarkar eftir hlaup var það allra besta.

Í garðinum heima á Hvanneyri eftir vel heppnað uppstigningardagshlaup. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkar).
Á leið upp að Geilinni í Hafnarfjöllum. (Ljósm. Jósep Magnússon).

Lengi vel voru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið meðal árvissu skemmtihlaupanna minna, en nú hafa þau líklega bæði runnið skeið sitt á enda. Hins vegar vildi svo skemmtilega til að í ágúst hljóp ég upp á Hafnarfjallið í 100. sinn. Tímasetning þess viðburðar var þannig að fátt fólk var í aðstöðu til að slást í hópinn með mér, en samt finnst mér þetta hlaup eiga heima í þessari umfjöllun um skemmtihlaup. Ferð nr. 101 er þó enn eftirminnilegri, en seint í ágúst buðu hlaupavinirnir Jósep og Kiddó mér í Hafnarfjallsleiðangur upp Geilina svonefndu. Þetta er svo sem vel þekkt leið, en hana hafði ég samt aldrei farið áður. Þeir félagar eiga líka sína eigin útgáfu af leiðinni upp að Geilinni, þar sem boðið er upp á mikinn bratta og hliðarhalla, sem hentar ekki lofthræddum. Þetta var án nokkurs vafa ein af skemmtilegustu hlaupaupplifunum ársins.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2024 var afskaplega rýrt fjallvegahlaupaár. Helst hefði ég þurft að hlaupa eina 7 fjallvegi til að halda nokkurn veginn í horfinu, en önnur verkefni voru látin ganga fyrir þetta sumarið. Þegar upp var staðið hafði ég sem sagt bara hlaupið eitt fjallvegahlaup, nánar tiltekið yfir Klúkuheiði milli Valþjófsdals í Önundarfirði og Gerðhamra í Dýrafirði. Þarna var ég á ferð 16. júlí á einum mesta góðviðrisdegi sumarsins (þeir voru reyndar ekki margir) – og þó að ég væri einn míns liðs var þetta einkar góð upplifun, enda er þetta stutt og þægileg leið (þrátt fyrir að hafa einhvern tímann verið kölluð versti fjallvegur á Íslandi). Klúkuheiðin var 81. fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu mínu, sem þýðir að næstu tvö sumur þarf ég að hlaupa 19 fjallvegi til að ná hundraðinu fyrir sjötugsafmælið.

Í Valþjófsdal í Arnarfirði við upphaf fjallvegahlaups nr. 91 yfir Klúkuheiði. (Hausinn á mér skyggir eiginlega á heiðina). Bærinn Tunga í baksýn og Tunguhorn upp af honum. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Markmiðin
Ég setti mér þrjú hlaupatengd markmið fyrir árið 2024 og náði bara einu þeirra, þ.e.a.s. að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Hin markmiðin voru að hlaupa a.m.k. eitt maraþon á götu og a.m.k. sjö fjallvegahlaup. Ég var svo sem lengst af í nógu góðu standi til að hlaupa maraþon – og hefði sjálfsagt gert það í Reykjavíkurmaraþoninu (RM) í ágúst ef ég hefði ekki verið í fýlu út í hlaupahaldarann (ÍBR), einkum vegna tregðu þeirra til að fá hlaupin sín vottuð af Frjálsíþróttasambandi Íslands. En það hefði þá líka þýtt að ég hefði þurft að gera mér að góðu að hlaupa eitthvað styttra í Trékyllisheiðarhlaupinu, sem fór að vanda fram viku fyrir RM. Síðast hljóp ég maraþon í Tallinn haustið 2019, þannig að mér finnst virkilega kominn tími til að taka upp þann þráð aftur.

Hér fara á eftir helstu hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2025. Þau eru flest endurnýtt og ekki endilega háleit, enda þurfa markmið ekkert að vera það. Þau þurfa hins vegar helst að vera sértæk, mælanleg, aðgengilegt, raunhæf, (krefjandi) og tímasett (SMART).

  1. Tíu fjallvegahlaup
  2. A.m.k. eitt maraþon á götu
  3. Efsta sæti á ITRA-lista 65-69 ára á Íslandi
  4. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Markmið nr. 3 hér að framan stríðir reyndar gegn þeirri meginreglu sem ég hef hingað til fylgt í svona markmiðssetningu að miða markmið aldrei við árangur annarra. Það hvernig öðrum gengur á með öðrum orðum aldrei að hafa áhrif á það hvort ég nái einhverju markmiði. Svona markmið geta samt verið svolítið skemmtileg – og í þessu tilviki vonandi líka hvetjandi fyrir jafnaldra mína.

Þessu til viðbótar kem ég eflaust til með að setja mér alls konar markmið fyrir einstakar æfingavikur og einstök keppnishlaup. Gleðin yfir því að ná markmiðum sem ég hef sjálfur sett á nefnilega stóran þátt í að halda mér við efnið í hlaupunum. Þessa gleði vil ég fá að upplifa – aftur – og aftur.

Hlaupadagskráin mín 2025
Hlaupadagskráin 2025 er lítið farin að mótast, en fjallvegahlaup hljóta þó að vega þungt í henni (sjá framar). Þar er einhverjar hugmyndir á lofti en engar komnar á blað. Hugsanlega næ ég einu hlaupi suðvestanlands í maí, einhverjum hlaupum á Norðurlandi snemma í júní og e.t.v. aftur í ágúst og hugsanlega einhverjum hlaupum á Austurlandi í júlí. Allt þetta verður kynnt með einhverju fyrirvara á Facebook og á heimasíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins. Keppnishlaup þurfa líka að fá eitthvert pláss, þó ekki væri nema út af ITRA-stigunum. Ég geri þannig ráð fyrir að taka þátt í fimmta Trékyllisheiðarhlaupinu 16. ágúst og svo kemur til greina að hlaupa eitt gott utanvegahlaup erlendis í október. Þar fyrir utan vonast ég til að hlaupa heilt maraþon í Reykjavík í ágúst. Var um tíma með hugann við Vormaraþon FM í lok apríl, en meiðslasaga síðustu mánaða gerir það að verkum að ég verð í besta falli kominn í nothæft keppnisstand fyrir styttri hlaup á þeim tíma.

Lokaorð
Rétt eins og við öll önnur hlaupaáramót er þakklætið efst í tilfinningabunkanum þegar þessi orð eru skrifuð. Fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir að geta enn stundað þetta áhugamál, sem hefur gefið mér meiri gleði síðustu áratugi en auðvelt er að lýsa. Ekkert er sjálfsagt í þessum heimi og heldur ekki þetta. Fjölskyldan mín á stærstan þátt í að gera þetta mögulegt, bæði með því að umbera þetta tímafreka áhugamál og með því að fylgja mér stundum á vettvang og vera til staðar fyrir mig þar. Allt byggir þetta líka á því að heilsan haldist bærileg – og þar skipta bæði erfðir og umhverfi máli. Fjölskyldan og heilsan eru þannig undirstöður nr. 1 og 2 og á meðan þessar undirstöður eru eins sterkar og raun ber vitni hef ég aðgang að gleðinni sem liggur í þeirri náttúruupplifun og einstöku vináttu sem hlaupin hafa fært mér. Þetta getur ekki verið mikið betra.

Slydda á Trékyllisheiði

Síðastliðinn laugardag tók ég þátt í „Trékyllisheiðin Ultra“, 48 km utanvegahlaupi á Ströndum, sem nú var haldið í fjórða sinn. Markmið dagsins var að bæta tímann minn frá 2021 um tæpan hálftíma (nánar tiltekið um 27:45 mín), þ.e.a.s. að ljúka hlaupinu á 5:30:00 klst. í stað 5:57:45 eins og raunin varð 2021. E.t.v. hljómar hálftímabæting sem nokkuð glannaleg áætlun (á „mínum aldri“). En ég taldi þetta samt alveg raunhæft, enda hefur margt jákvætt gerst á hlaupaferlinum síðustu þrjú ár. Markmiðið náðist reyndar ekki, því að lokatíminn var 5:38:17. En ég var samt alsáttur að dagsverkinu loknu.

Veðrið
Dagana fyrir hlaup hafði ég fylgst grannt með veðurspám. Hlaupið sem um ræðir er nefnilega ræst í Trékyllisvík og þar getur norðanáttin flutt með sér stærri skammt af kulda, þoku og úrkomu en mann langar til að hafa í nesti í svona löngu hlaupi. Spárnar bentu til að þannig yrði það einmitt þennan dag, en heldur bötnuðu þó horfurnar þegar hlaupadagurinn nálgaðist. Þegar hlaupið var ræst kl. 10 á laugardagsmorgni var samt allhvöss norðanátt, súld og 5 stiga hiti. Strax þá var vitað að fyrri hluti hlaupsins gæti orðið svolítill barningur, en svo yrði væntanlega meðvindur seinni hlutann og líklega minni úrkoma. Veðrinu breytir maður ekki og því ekkert annað í stöðunni en klæða sig almennilega og bíta á jaxlinn.

Markmið dagsins
Eins og ég hef margsagt í fyrri pistlum set ég mér alltaf markmið fyrir svona hlaup. Vissulega er ég enginn afrekshlaupari sem stefnir á verðlaunapall í öllum hlaupum, heldur bara síðmiðaldra skokkari sem á hlaup að áhugamáli og hleypur fyrir heilsuna og til að halda skrokknum og huganum í sæmilegu standi sem lengst. En samt set ég mér markmið, því að án þeirra finnst mér of auðvelt að leggja árar í bát og láta strauminn ráða örlögunum. Sumarið 2021 hljóp ég þessa sömu leið á 5:57:45 klst, frekar illa undirbúinn og meiddur í hné. Núna var undirbúningurinn betri að flestu leyti og hnéð í þokkalegu standi. Þess vegna fannst mér raunhæft að setja markið á 5:30 klst. Reiknaði þó með að fyrri hluti hlaupsins tæki svipað langan tíma og 2021, en svo myndi ég bæta um betur á seinni hlutanum. Árið 2021 urðu krampar og almenn bugun til þess að ég þurfti nánast að skríða síðustu kílómetrana.

ITRA-stigin
Þegar ég set mér markmið fyrir utanvegahlaup styðst ég gjarnan við stigagjöf Alþjóðautanvegahlaupasambandsins (ITRA), en hún geri manni mögulegt að bera saman árangur í hinum ólíkustu hlaupum. Allt hefur þetta auðvitað sínar takmarkanir, en markmiðið mitt um 5:30 klst. var m.a. byggt á ITRA-stigunum. Þessi tími gefur u.þ.b. 560 stig, sem er ekki fjarri því sem ég hafði fengið fyrir fyrri utanvegahlaup sumarsins. Tíminn minn 2021 gaf hins vegar aðeins 516 stig, sem mér finnst, eins og staðan er í dag, of lítið til að gleðja sálina.

Millitímar
Í Trékyllisheiðarhlaupinu (þ.e. í 48 km útgáfunni) eru fjórar drykkjarstöðvar. Sú fyrsta er norðan við fjallið Glissu (eftir u.þ.b. 13 km), sú næsta sunnan við Búrfellsvatn (25,5 km), sú þriðja við Goðdalsá (34 km) og sú fjórða inn af Bjarnarfjarðarhálsi (40 km). Ég skipti alltaf svona löngum hlaupum upp í áfanga og þá er hentugt að miða við drykkjarstöðvarnar. Ég átti (auðvitað) alla millitímana frá 2021, lagði þá á minnið og byggði áætlanir mínar á þeim.

Fyrri hlutinn
Við lögðum af stað í þetta hlaup 9 saman og norðanvindurinn lét vita af sér frá fyrsta skrefi. Fyrsta spölinn er hlaupið frá Árnesi norður með ströndinni að Melum og síðan upp á Eyrarháls og þaðan inn á heiðina. Vindurinn var í fangið lengst af og ljóst að fara þyrfti varlega til að eiga einhverja orku eftir í seinni hlutann. Þegar ég nálgaðist fyrstu drykkjarstöðina norðan við fjallið Glissu (eftir 13 km) sá ég líka að ég var aðeins hægari en 2021. Þá var hægviðri, sól og hiti (eins og lesa má um í pistlinum Sól á Trékyllisheiði sem ég skrifaði að því hlaupi loknu) og eðlilegt að hægar gengi í mótvindi, súld og kulda. Þegar ég kom að drykkjarstöðinni sýndi úrið 1:40:00 klst, sem var 2:11 mín. lakara en 2021. Það var svo sem svipað og ég bjóst við miðað við aðstæður og engin ástæða til að halda að hálftímamarkmiðið væri þar með úr augsýn.

Fljótlega eftir fyrstu drykkjarstöðina sveigir leiðin meira til suðurs, þannig að smám saman breyttist mótvindurinn í meðvind. En að sama skapi kólnaði og slydduél tóku við af súldinni. Allt var rennblaut, steinar sleipari en venjulega og sums staðar drullusvað þar sem steinunum sleppti. Ég mundi að ég var nokkuð hress á þessum kafla 2021 og fannst því vel ásættanlegt að ég myndi ekki ná að vinna upp þessar rúmu tvær mínútur fyrir næstu drykkjarstöð, hvað þá meira. Við drykkjarstöðina sunnan við Búrfellsvatn kom hins vegar í ljós að ég var búinn að tapa nokkrum mínútum í viðbót! Ég var sem sagt orðinn u.þ.b. 8 mín. á eftir sjálfum mér 2021 – og það gladdi mig ekkert sérstaklega mikið. Hugsanlega gæti ég unnið þessar 8 mín. upp á seinni partinum, en varla mikið umfram það. Líklega yrði ég að sætta mig við svipaðan lokatíma og síðast, jafnvel þótt það gæfi bara 516 ITRA-stig. Best að skrifa engan bloggpistil að hlaupi loknu.

Seinni hlutinn
Ég var ekkert sérstaklega sprækur á leiðinni frá Búrfellsvatni að Goðdalsá, en leið samt einhvern veginn betur en 2021, þ.e.a.s. ef minnið var ekki að svíkja mig. Ég hafði aðeins verið farinn að stífna í lærunum í kuldanum upp af Reykjarfirði, en það lagaðist heldur eftir því sem úrkoman minnkaði, vindurinn varð hagstæðari og landið lækkaði. Hins vegar var komin þreyta í fæturna og ég jafnvel farinn að reka tærnar í steina, sem annars hendir mig sjaldan á hlaupum. Ég hlaut samt að geta endurheimt eitthvað af þessum töpuðu 8 mínútum. Sú varð líka raunin, millitíminn við Goðdalsá var 4:05:40 klst., sem var bara 4 mín lakara en 2021. Þróunin var því í rétta átt, meðvindurinn góður og heilsan líka, svona almennt.

Fyrstu 1600 metrarnir sunnan við Goðdalsá eru á fótinn, en ég var búinn að hugsa mér gott til glóðarinnar að bæta í þegar þeir væru að baki. Ef mér tækist að éta upp þessar 4 mínútur áður en ég kæmi að síðustu drykkjarstöðinni taldi ég yfirgnæfandi líkur á að ég myndi alla vega bæta tímann frá 2021 eitthvað smávegis. Bæting er alltaf góð, þó að markið hafi verið sett hærra. Ég var því býsna kátur þegar 40 km drykkjarstöðinni var náð og klukkan sýndi 4:47:25 klst. Það var rúmri mínútu betra en 2021, sem þýddi að ég var ekki bara búinn að éta upp fjórar mínútur, heldur fimm! Nú gat ekkert nema óhapp komið í veg fyrir bætingu.

Kominn í markið við skíðaskálann í Selárdal í Steingrímsfirði – og allt í besta lagi.
(Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkar)

Áfanginn frá 40 km stöðinni í mark er hraðasti hluti hlaupsins, næstum allt á undanhaldinu og undirlagið mýkra og sléttara en norður á heiðinni. Þarna á að vera hægt að halda þokkalegum hraða ef allt er í lagi. Þetta gekk líka alveg sæmilega, þó að ég gæti ekki beitt mér almennilega vegna þreytu í fótunum og verks í vinstra hnénu, sem hefur stundum gert mér lífið leitt á síðustu árum. En þetta var samt allt annað líf en í sólinni 2021. Núna var ég nokkurn veginn laus við krampa og leið bara vel. Sá allt í einu fram á að geta klárað hlaupið undir 5:40 klst. (uppfært markmið) og jafnvel að ná 20 mín bætingu (5:37:45 = annað uppfært markmið). Síðarnefnda markmiðið gekk mér reyndar úr greipum í stífum mótvindi á tveimur síðustu kílómetrunum inn Selárdal, en hitt náðist. Lokatíminn var sem sagt 5:38:17 klst, þ.e. u.þ.b. 19,5 mín betri en 2021. Í ITRA-stigum er þetta nokkurn veginn á pari við Skálavíkurhlaupið fyrr í sumar, árangur sem var framar björtustu vonum á þeim tíma, bara fyrir mánuði síðan. Maður getur ekki kvartað yfir þessu, þó að ekki hafi allir draumar ræst.

Nokkur orð um næringu
Ég gerði óvenjunákvæmt næringarplan fyrir þetta hlaup, enda grunar mig að krampar síðustu ára, sem ég hef gjarnan skrifað alfarið á meint æfingaleysi, hafi stundum stafað af orkuskorti. Reyndur hlaupari eins og ég á náttúrulega ekki að klikka á svoleiðis löguðu. En það gerist nú samt. Fyrir þetta hlaup hljóðaði næringarplanið upp á 260 Kcal og 300 ml af vatni á klst. Nóg var af orkudufti og geli í farangrinum og auk þess bar ég með mér samtals 1,3 l af vatni. Reiknaði með að þurfa að bæta aðeins á vatnið á drykkjarstöðvum eða í lækjum þegar liði á hlaupið, en þegar til kom fann ég enga þörf hjá mér til þess enda kuldi og raki í aðalhlutverkum í umhverfinu. Kláraði vatnsbirgðirnar rétt undir lokin, sem þýðir að drykkjan var um 230 ml/klst. Og á leiðinni tókst mér að innbyrða u.þ.b. 1.100 Kcal, þ.e. rétt um 200 Kcal/klst. Það virtist alveg duga, enda ákefðin ekki mikil í svona hlaupi.

Í brekkunum upp úr Goðdalsánnni prófaði ég alveg nýjan rétt í tilefni af því að þá var komin svolítil krampatilfinning í vinstra lærið, líklega í framhaldi af kælingunni í ánni. Þessi nýi réttur var sérstaklega bragðvont gel sem ætlað er að slá á krampa. Krampatilfinningin leið að mestu hjá í framhaldi af þessari inntöku, en ég veit svo sem ekki hvort það var ógeðsgelinu að þakka eða því að ég labbaði upp þessar brekkur í stað þess að reyna að hlaupa þær. Ég mæli ekki með þessum rétti við nokkurn mann sem vill fá eitthvað gott í matinn, en ég ætla samt að taka annað svona gel með mér í næsta langa keppnishlaup. Ef það slær á krampa er það óbragðsins virði. Ef ekki, þá skilur þetta í það minnsta eftir fyndna minningu, þó að mér fyndist þetta reyndar ekkert fyndið á meðan ég var að reyna að kyngja.

Nokkur orð um keppinauta og björgunarsveitir
Ég á enga keppinauta í hlaupum að frátöldum sjálfum mér og klukkunni, heldur bara hlaupafélaga. Í þessu hlaupi var þó frekar lítið um svoleiðis, þ.e.a.s. á meðan á hlaupinu stóð. Sem fyrr segir lögðum við af stað úr Trékyllisvík níu saman þennan morgun. Þrír þeir fyrstu héldu sína leið strax í upphafi og komu lítið við (mína) sögu eftir það. Einn var lengi á svipuðu róli og ég, fyrst aðeins á undan og svo aðeins á eftir. Ég sá hann síðast tilsýndar á 26. kílómetranum, en aldrei eftir það. Hin fjögur voru einhvers staðar þar á eftir. Ég hljóp þetta því í rauninni aleinn síðustu 30 kílómetrana eða þar um bil, en það er bara hluti af upplifuninni. Maður er alltaf einn þegar á hólminn er komið. Þá er gott að vita af björgunarsveitarfólkinu, en í Trékyllisheiðarhlaupinu sjá björgunarsveitir á svæðinu um þrjár af fjórum drykkjarstöðvum, tilbúnar að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis. Þar við bætast svo eftirfarar á fjórhjólum eða sexhjólum, sem halda sig stutt á eftir síðasta hlauparanum. Maður er sem sagt aldrei alveg einn þó að maður sé einn.

Nokkur orð um félagsskap
Félagsskapurinn og vináttan eru tvær af helstu ástæðum þess að ég stunda hlaup mér til ánægju. En mér finnst félagsskapur í hlaupunum sjálfum ekki aðalatriðið, heldur félagsskapurinn í kringum þetta allt saman. Hlaupið sjálft er eins manns verk. Félagsskapurinn þennan dag var einstaklega góður, enda vinir mínir á Ströndum höfðingjar heim að sækja. Og í þokkabót fylgdi Jóhanna mín mér í þetta ferðalag, tók virkan þátt í framkvæmd hlaupsins og tók á móti mér í markinu. Betra gerist það ekki.

Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir. Besti stuðningsaðilinn!

Nokkur orð um gleðina
Ég var alsáttur að dagsverkinu loknu – og reyndar bara klökkur, Hvernig er líka annað hægt eftir 48 km utanvegahlaup í stórbrotnu landslagi á hjara veraldar við krefjandi aðstæður, umvafinn öllu þessu góða fólki. Þetta var upplifun sem er síður en svo sjálfsagt að maður eigi kost á að njóta 52 árum eftir fyrstu hlaupakeppnina sína.

Úrslit hlaupsins.

Ellefu mínútna bæting í Pósthlaupinu

Síðasta laugardag (27. júlí) hljóp ég 26 km Pósthlaup vestur í Dölum þriðja árið í röð. Ætlaði að reyna að stilla mig um að skrifa langan og sjálfhverfan hlaupapistil um þá upplifun, en eftir að hafa setið á mér í nokkra daga er mér ljóst að ég get ekki setið lengur. Ég er reyndar nýbúinn að segja frá hlaupagleðinni sem ég upplifði á Skálavíkurheiðinni fyrr í mánuðinum, en hlaupagleðin í Pósthlaupinu var engu minni. Ég hafði sett mér það metnaðarfulla markmið fyrir hlaupið að bæta tímann minn frá því í fyrra um 5,5 mínútur, en niðurstaðan var 11,5 mínútna bæting. Ég hreinlega man ekki hversu mörg ár eru síðan ég fór svona langt fram úr björtustu vonum mínum á hlaupum – og þess vegna þarf ég að viðra gleðina með pistlaskrifum.

Nokkur orð um markmið
Ég set mér alltaf markmið fyrir keppnishlaup, eða a.m.k. næstum því alltaf. Oftast er markmiðið samsett úr hámarksmarkmiði (sem ég kalla gjarnan „villtustu drauma“) og lágmarksmarkmiði, sem ég get eiginlega ekki hugsað mér að ná ekki. Þar á milli eru svo oft einhver millimarkmið. Villtastadraumamarkmiðinu næ ég eiginlega aldrei, eða kannski í besta falli á 10 ára fresti, en lágmarksmarkmiðið næst yfirleitt. Ég hef það nefnilega fyrir reglu að hafa lágmarksmarkmiðið svo viðráðanlegt að ég „búi mér ekki til vonbrigði“ með markmiðssetningunni.

Markmiðið fyrir Pósthlaupið var eiginlega markmið hinna villtu drauma. Mig langaði sem sagt að gera aðeins betur en í Skálavíkurhlaupinu, eða með öðrum orðum að fá fleiri ITRA-stig en þá. ITRA-stig eru auðvitað ekki algildur mælikvarði, en þau gera manni þó mögulegt að bera saman árangur í annars ólíkum utanvegahlaupum. Skálavíkurhlaupið gaf 546 ITRA-stig, sem var hæsta skorið mitt síðan á Laugaveginum 2021. Þess vegna miðaði ég markmiðið fyrir Pósthlaupið við 550 stig – og til að ná þeirri tölu sýndist mér ég þurfa að hlaupa þessa 26 km á u.þ.b. 2:24:30 klst. Í fyrra hljóp ég á 2:29:59 klst, þannig að markmiðið samsvaraði 5,5 mín. bætingu. Það fannst mér nokkuð bratt, þó að vissulega hafi æfingar gengið vel síðustu mánuði. En ég er auðvitað ári eldri en í fyrra – og allt það. Fólki á mínum aldri er kennt að búast ekki við framförum. Til vara setti ég mér það markmið að bæta alla vega tímann minn frá því í fyrra (sem var aðeins betri en tíminn í hitteðfyrra). Vissi að mér myndi finnast leiðinlegt að ná því ekki. Hins vegar hvarflaði ekki að mér að ég gæti gert eitthvað umfram „villtustu drauma“.

Til þess að gera leiðina að markmiðinu markvissari rýndi ég í millitímana mína frá því í fyrra og beitti hlutfallareikningi til að finna út hversu miklu hraðari ég þyrfti að vera á hverjum kafla í hlaupinu. Skekkti síðan þá stærðfræði svolítið með því að reikna með meiri framförum milli ára í seinni hluta hlaupsins en í fyrra hlutanum. Byggði það á því að núna er ég með talsvert fleiri „kílómetra í löppunum“ og því ólíklegra að ég þyrfti að skríða í mark eins og ég gerði eiginlega í fyrra (sjá þar til gerðan ársgamlan bloggpistil). Allt þetta setti ég svo upp í Exceltöflu, sem ég reyndi síðan að leggja á minnið. (Kona sem ég met mikils sagði mér einu sinni að svoleiðis nokkuð væri ekki endilega merki um taugaþroskaröskun, heldur gæti það bent til þess að ég væri svolítill „kassi“. Rengi það ekki).

Hlaupið sjálft
Langa hlaupasagan sem hér fer á eftir er gerð aðeins styttri með því að byggja hana á mörgum litlum bútum úr fyrrnefndri Exceltöflu, án þess að útskýra þá búta mikið. Hverjum búti fylgir svo upprifjun á því hvað ég var að hugsa á hverjum áfangastað um sig

Ég var svo sem ekki með neitt plan fyrir 5 km millitímann. Fannst ég samt vera óþarflega hægur af stað og varð því ekki mjög hissa þegar ég sá að ég var strax þarna orðinn rúmri mínútu lengur en í fyrra. Núna var líka mótvindur sem var ekki þá. Markmiðið var greinilega farið, en ekkert annað að gera en að halda bara áfram. Kannski myndi ég vinna þetta nógu mikið upp á seinnipartinum til að bæta mig alla vega um nokkrar sekúndur. „PB er PB og því ber að fagna“, eins og einhver sagði einhvern tímann.

Nú jæja, mér hafði alla vega tekist að halda nokkurn veginn í horfinu þrátt fyrir mótvindinn. Aldrei að vita nema ég gæti a.m.k. bætt mig aðeins. Að vísu brekkur framundan, en þær voru þarna líka í fyrra og ég var síst sterkari í brekkum þá en núna. Skálavíkurheiðin hafði auk þess gefið mér aukið sjálfstraust sem e.t.v. myndi nýtast mér.

Ég var svo sem ekkert að spá í þennan 15 km millitíma. Mundi ekki alveg töluna úr töflunni en sýndist ég mögulega vera innan við 1 mín hægari núna en í fyrra. Næsti millitími (16 km) myndi skipta meira máli, nefnilega millitíminn þar sem hlaupaleiðin fer yfir Vestfjarðaveg rétt eftir brúna yfir Haukadalsá. Þar eru alltaf ákveðin þáttaskil í þessu hlaupi.

Heyrðu, þessi millitími var bara upp á sekúndu sá sami og í fyrra, þrátt fyrir mótvindinn. Nú var ég allt í einu orðinn mjög bjartsýnn á að ég myndi bæta tímann minn frá því í fyrra. Seinniparturinn gat varla orðið verri en þá og ég var farinn að hlakka til að sjá millitímann við Þorbergsstaði (18,8 km) þar sem maður fer aftur yfir Vestfjarðaveginn.

Á þessum kafla fannst mér vera farið að hægjast á mér. Eitt merki um það var að tveir hlauparar fóru fram úr mér þarna á reiðveginum. Samt hafði ég á tilfinningunni að ég væri fljótari með þennan kafla en í fyrra. Það reyndist líka rétt, millitíminn orðinn um 1 mín betri en þá. Bæting greinilega í kortunum – og allt í lagi þótt aðalmarkmiðið næðist ekki. Maður getur ekki alltaf beðið um allt. Ákvað að skella í mig koffíngeli þegar ég væri kominn yfir veginn. Næsti millitími yrði tekinn við Laxárdalsvegamótin (22,65 km) þegar lausi reiðvegurinn yfir hæðina upp af Kambsnesi væri að baki.

Nei, heyrðu, mundi ég þetta rétt!? Gat verið að ég væri allt í einu kominn 5 mín. fram úr tímanum frá því í fyrra og heilar 3 mín fram úr villtasta draumnum!? Ég vissi alveg að mér hafði gengið vel á þessum 4 km kafla, hvort sem það var koffíngelinu að þakka eða Borghildi sem ég hitti þarna á reiðveginum. En svona óvæntar tölur hafði ég ekki séð í fjölmörg ár! Nú var staðan allt í einu gjörbreytt, villtasti draumurinn orðinn fyllilega raunhæft markmið! „Hella hratt“, sagði ég við konuna á drykkjarstöðinni sem hellti vatni í glasið mitt. Bara kílómetri í næsta millitíma undir veginum við Laxá.

Já! Þessi kílómetri bara á 4:30 mín eða eitthvað og ég kominn næstum 4 mín á undan villtasta draumnum. Svei mér þá ef 2:20 klst væri ekki orðinn raunhæfur lokatími. Bara 3 km eftir og ekkert nema gleði framundan. Engir fleiri millitímar, bara tilfinningin. Nú skyldi bara hlaupið eins hratt og fæturnir þyldu. Engir krampar farnir að gera vart við sig, ja nema kannski smá kitl á einum stað neðarlega utan á hægri sköflungnum. Hvenær leið mér síðast svona vel í keppnishlaupi!?

Hlaupið búið! Ég vissi alveg við Laxárbrúna að 2:20 væri orðið raunhæft markmið, þó að það væri langt umfram villtasta drauminn. Og síðasti kaflinn gekk vel þrátt fyrir að vera langtæknilegasti hluti hlaupsins. Mér tókst meira að segja að halda nokkuð góðum hraða á köflum þar sem ég þurfti nánast að skríða í fyrra, heltekinn af krömpum. Þess vegna var ég jafnvel farinn að hugsa um 2:19. En 2:18:eitthvað var eitthvað sem mér hafði aldrei dottið í hug! Og síðustu 3 km á rúmum 17 mín, samanborið við rúmar 22 mín í fyrra!

Hvers vegna?
Hvers vegna gekk þetta svona miklu betur en í fyrra, þrátt fyrir mótvindinn? Tja, ætli ég geti ekki nefnt alla vega þrjár skýringar, jafnvel fjórar:

  1. Lengra áfallalaust æfingatímabil
  2. Miklu fleiri kílómetrar í löppunum (tengist nr. 1)
  3. Meiri áhersla á vatn og næringu
  4. Meira sjálfstraust (eftir Skálavíkurhlaupið)

Þakklætið
Mér finnst einstaklega gott að ganga til náða að kvöldi svona daga. Þá er þakklætið fyrirferðamesta tilfinningin (alveg þangað til syfjan tekur yfir). Þetta tiltekna kvöld var ég fyrst og fremst þakklátur:

  1. Forsjóninni fyrir að leyfa mér að stunda þetta áhugamál enn, öllum þessum áratugum eftir að það gerði fyrst vart við sig. Þeir áratugir verða bráðum sex.
  2. Forsjóninni og fólkinu sem stendur mér næst fyrir að skapa mér aðstæður til að gera þetta.
  3. Ásdísi Káradóttur og félögum hennar hjá Póstinum fyrir að standa svona vel að þessum skemmtilega viðburði og láta mig finna að þátttaka mín skipti máli.
  4. Kiddó (Kristni Óskari Sigmundssyni) hlaupafélaga fyrir að koma með mér í þetta hlaup og þakklátur hinum bestu hlaupafélögunum fyrir að vera til staðar.
  5. Öllu hinu fólkinu sem jók gleði mína á leiðinni og að hlaupi loknu.

Lokaorð
Ég var í sjöunda himni að hlaupi loknu – og er það enn, enda langt síðan ég hef upplifað eitthvað svona! Með öðrum orðum er langt síðan ég hef náð hlaupaárangri sem er langt umfram villtustu drauma. Stundum hefur gengið vel, jafnvel oft, en oftast hef ég þurft að leiðrétta of villtu draumana sem vakna þá á leiðinni. Nú þurfti það ekki. Þeir urðu bara sífellt villtari og niðurstaðan betri en mér hafði nokkurn tímann dottið í hug, hvorki fyrir hlaup né í hlaupinu sjálfu.

Langt síðan ég hef upplifað eitthvað svona? Hm, ætli það hafi ekki bara verið síðast í Reykjavíkurmaraþoninu 2013 þegar ég hljóp besta maraþon lífs míns. Einu sinni á áratug? Jú, það lætur nærri. Síðan eru liðin næstum 11 ár.

Með góðum hlaupafélögum úr Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi að loknu Pósthlaupi 27. júlí 2024. F.v. Jósep Magnússon, ég sjálfur, Kristinn Óskar Sigmundsson og Heiðrún Harpa Marteinsdóttir.

(Uppfært 1. ágúst 2024 með minni háttar talnaleiðréttingu)

Hlaupagleði á Skálavíkurheiði

Um daginn (18. júlí sl.) tók ég þátt í 12 km Skálavíkurhlaupi, sem er orðinn fastur liður í árlegri Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Leiðin í þessu hlaupi liggur frá Skálavík yfir Skálavíkurheiði til Bolungarvíkur og er í stuttu máli samsett úr einni 6 km brekku upp og annarri 6 km brekku niður. Þátttaka mín í þessu hlaupi er ekkert sérstaklega fréttnæm, enda var þetta 160. almenningshlaupið mitt á ferlinum (sem er þó ekki mikið miðað við lengd ferilsins). En mér gekk vel í þessu hlaupi og náði mér í óvenjustóran skammt af hlaupagleði. Hlaupagleði er auðlind sem nýtist langt út fyrir hlaupaheiminn. Og einn af fylgifiskum gleðinnar er þörfin fyrir að deila upplifuninni með öðrum. Þess vegna skrifa ég þennan pistil, þó ekki væri nema fyrir sjálfan mig.

Undirbúningurinn
Ég ætla ekki að skrifa neina langloku um það hvernig ég æfði fyrir þetta hlaup, enda æfði ég ekkert sérstaklega fyrir það. Í stuttu máli hef ég hins vegar æft nokkuð vel og skipulega síðan í ársbyrjun 2023 og náð að halda mér algjörlega meiðslalausum allan þann tíma. Lykillinn að því felst í æfingaáherslum sem ég hef skrifað um áður og mun sjálfsagt skrifa um aftur.

Þessi litli kafli um undirbúning snýst sem sagt ekki um hlaupaæfingar, heldur um það hvernig ég er vanur að undirbúa mig fyrir þá óvissu sem fylgir því að taka þátt í tilteknu keppnishlaupi (sérstaklega utanvegahlaupi) í fyrsta sinn og geta ekki byggt áætlun dagsins á eigin reynslu. Ég skoða þá einfaldlega hvernig öðrum hlaupurum á svipuðu getustigi gekk í sama hlaupi árið áður, skoða millitímana þeirra á Strava og set mér markmið út frá því. Reyndar er líka örugglega fínt að fara í svona hlaup án nokkurs markmiðs, en það er bara ekki alveg í takti við hugsunarháttinn minn, sem á meira skylt við Excel en innsæi.

Inga Dísa, einn besti hlaupavinur minn síðustu árin, hljóp Skálavíkurhlaupið í fyrra – og þar sem hlaupagetan okkar hefur verið svolítið svipuð upp á síðkastið var nærtækt að kíkja á millitímana hennar og vinna út frá þeim. Ég ákvað sem sagt að nota tímana hennar sem lágmarksmarkmið og miða svo draumamarkmiðið við að vera 10% fljótari. Útreikningunum var ekki stillt upp í Excel, heldur var þetta allt saman skrifað aftan á miða utan af garndokku sem var tekin með í fjölskyldudvöl í bústað í Önundarfirði nokkrum dögum fyrir hlaup. Skipulagið í heild sinni má sjá á myndinni hér til hliðar.

Tölurnar á miðanum skýra sig náttúrulega næstum því sjálfar, en til frekari glöggvunar má bæta því við að þarna eru sýndir millitímar eftir hverja 3 km. Á efri hlutanum má sjá hvern 3 km áfanga um sig og á neðri hlutanum eru uppsafnaðar millitímar (sem sagt eftir 3, 6, 9 og 12 km). Vinstra megin eru svo tímarnir hennar Ingu Dísu frá því í fyrra (skv. Strava) og hægra megin 10% betri tímar. Í stuttu máli setti ég 1:10 klst sem sagt sem lágmarksmarkmið og 1:03 klst sem draumamarkmið („villtustu drauma“). Til frekari afstemmingar skoðaði ég hversu mörg ITRA-stig hvort um sig væri líklegt til að gefa og fann út að lámarksmarkmiðið gæfi u.þ.b. 507 stig og draumamarkmiðið u.þ.b. 556 stig. Þetta benti til að áætlunin væri á réttu róli, því að utanvegahlaupin mín síðustu tvö ár hafa öll gefið á bilinu 500-530 stig. Út frá þessu taldi ég líklegt að ég gæti endað þarna mitt á milli, sem sagt á 1:06:30 klst eða þar um bil. Síðasti liðurinn í undirbúningnum var svo að stilla Garminúrið mitt þannig að það gæfi mér millitíma á 3 km fresti („Auto Lap“).

Upphitunin
Við upphaf flestra hlaupaæfinga allra síðustu árin hefur mér yfirleitt liðið eins og ég hafi aldrei hlaupið áður og muni að öllum líkindum aldrei geta hlaupið aftur. Þessi tilfinning lýsir sér í miklum stirðleika út um allan skrokk, en einkum þó um miðbik líkamans og þar fyrir neðan. Undantekingarlaust líður þetta hjá á fyrsta eða öðrum kílómetranum og er sæmilegt eftir það. Þetta er meginástæða þess að ég hita alltaf upp fyrir keppnishlaup, hvort sem vegalengdirnar teljast í tugum metra eða tugum kílómetra. Ég vil sem sagt vera laus við þessa kunnuglegu tilfinningu áður en keppnin hefst. Upphitunin er einföld; bara þægilegt skokk í 15 mínútur eða meira, nokkrar liðleikaæfingar (drillur) og 4-6 hraðaaukningar og/eða aðeins lengri sprettir til að koma hjartanu almennilega í gang. „Almennilega“ í þessu samhengi þýðir að púlsinn fari í stutta stund eitthvað nálægt því sem hann er vanur að vera í keppnishlaupum. En ég er svo sem ekkert að vakta þetta í upphituninni, læt bara tilfinninguna ráða.

Hlaupið sjálft
Hlaupið hófst í Skálavík kl. 8 um kvöld. Ég tók upphitunina í Bolungarvík og þaðan var svo mannskapurinn (27 keppendur) fluttur með rútu yfir í Skálavík. Aðstæður til hlaupa voru alveg þokkalegar, nema hvað nokkuð sterkur vindur blés úr austri (líklega hátt í 10 m/sek), sem þýddi að við myndum fá mótvind alla leið. Hitastigið var nálægt 10°C og þurrt í veðri, þannig að þetta stefndi ekki í neina vosbúð. Mótvindur og brekkur upp í móti kalla fram helstu veikleika mína sem hlaupara, þannig að þegar þarna var komið sögu þóttist ég góður ef ég næði lágmarksmarkmiðinu. Planið var að skokka upp brekkurnar eins lengi og ég þyldi og taka svo vel á því á niðurleiðinni, enda hafa niðurhlaup alltaf verið mín sterkasta hlið.

Leiðin upp úr Skálavík var vissulega erfið, en mér til undrunar streymdi fólk samt ekkert fram úr mér á uppleiðinni. Ég beið náttúrulega spenntur eftir að úrið sýndi mér fyrsta 3 km millitímann. Að vísu gleymdi ég prjónagarnsmiðanum í bústaðnum, en ég mundi þetta svo sem nokkurn veginn, m.a. að fyrstu 3 km gætu jafnvel tekið rúmlega 17 mín, en ættu helst að taka innan við 16. En svo kom millitíminn bara ekki neitt – og þegar ég gat loks ekki lengur stillt mig um að kíkja á úrið var ég kominn vel yfir 3 km markið. Þá fattaði ég að þetta „Auto Lap“-dæmi virkar ekki þegar úrið er stillt á „Trail Run“. En talan sem stóð á úrinu benti til að ég væri kannski aðeins (en alls ekki mikið) á undan lágmarksplaninu. (Eftir á að hyggja var millitíminn 17:03 mín, sem sagt bara 9 sek betri en lágmarksmarkmiðið).

Góðu fréttirnar á uppleiðinni voru þær að ég náði að hlaupa alla leiðina upp (þó að munurinn á hlaupi og göngu hafi líklega stundum legið frekar í fótahreyfingunum en hraðanum). Og mér leið bara vel þrátt fyrir mótvindinn. Frá upphafi var ég u.þ.b. í 8.-12. sæti og þegar upp var komið vorum við þrjú eða fjögur saman á svipuðu róli. Millitíminn þar var eitthvað um 39:30 mín og ég þóttist muna að það væri u.þ.b. 1:30 mín betra en lágmarksmarkmiðið. Þetta gaf tilefni til bjartsýni, því að ég bjóst alltaf við að niðurhlaupin yrðu hlutfallslega betri.

Á Skálavíkurheiði með Elínu Mörtu Eiríksdóttur. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Um leið og niðurhlaupaáætlunin mín tók gildi drógust þau hin aftur úr. Ég var staðráðinn í að treysta löppunum og þær tóku því bara býsna vel – og í stuttu máli tókst mér að láta vaða niður allar brekkur. Hröðustu kílómetrarnir voru meira að segja vel undir 4 mínútum, sem telst mjög hratt fyrir mig, jafnvel niðurímóti. Þegar ég var kominn niður á móts til Hólskirkju sá ég ekkert til mannaferða fyrir aftan mig en hafði hins vegar dregið talsvert á tvo næstu hlaupara á undan. Framundan var ekkert nema gleði og ég kom í mark á 1:04:57 klst, sem var talsvert nær draumamarkmiðinu en lágmarksmarkmiðinu hvað sem öllum mótvindi leið. Og ég þarf að fara nokkur ár aftur í tímann til að finna álíka hlaupagleði og gagntók mig þarna á lokametrunum.

Lokaorðin
Hlaup eru ekki bara hlaup. Ef það væri svoleiðis, þá gæti ég allt eins látið mér nægja að hlaupa aleinn aftur og aftur áleiðis upp að Hvítárvöllum og til baka, eins og mér finnst ég gera næstum alla daga ársins. En hlaup eru líka fólk. Og fólkið á Vestfjörðum er einhvern veginn öðru vísi en annað fólk. Þrisvar áður hef ég tekið þátt í Hlaupahátíð á Vestfjörðum – og alltaf hef ég upplifað þessa einstöku gestrisni og hlýju sem þar ræður ríkjum. Þessi einstaka gestrisni og hlýja á stóran þátt í þeirri hlaupasælu sem ég tók með mér heim að lokinni þessari Vestfjarðaferð! Takk Vestfirðingar! Þið eruð einstök!

Lokaspretturinn í skógræktinni í Bolungarvík. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Víðavangshlaup ÍR – 50 árum síðar

Á sumardaginn fyrsta, nánar tiltekið fimmtudaginn 25. apríl sl., tók ég þátt í Víðavangshlaupi ÍR í 7. sinn. Það er út af fyrir sig ekki fréttnæmt, enda hefur hlaupið verið haldið nokkurn veginn á hverju vori frá árinu 1916, yfirleitt án mín. Þetta tiltekna hlaup fól hins vegar í sér ákveðin tímamót fyrir mig, því að einmitt þennan dag voru liðin 50 ár síðan ég tók fyrst þátt í hlaupinu. Já, og svo var árangurinn í þetta skiptið langt umfram væntingar.

50 ára gömul minning
Ég tók sem sagt fyrst þátt í Víðavangshlaupi ÍR 25. apríl 1974. Þá var hlaupið enn svolítið víðavangshlaup, því að við hlupum eftir einhverjum stígum í Hljómskálagarðinum og líklega í Vatnsmýrinni líka. Ég er reyndar búinn að gleyma hvernig leiðin var nákvæmlega, en skv. hlaupadagbókinni minni frá þessum tíma var vegalengdin um 3,5 km í stað 5 km eins og verið hefur síðustu áratugina. Á þessum tíma tíðkaðist ekki að hlaupa mjög langt. Samtals skiluðu 46 keppendur sér í mark, en núna voru þeir 464. Og árið 1974 endaði ég í 9. sæti og var ekkert sérstaklega kátur með það. Núna varð ég nr. 138 og hefði ekki getað verið sáttari.

Ég rifjaði upp þetta fyrsta ÍR-hlaup mitt í bloggpistli fyrir 10 árum og ætla ekki að endurtaka þau skrif hér. Langar þó að nefna að Jón G. Guðlaugsson (Jón hlaupari) var elsti þátttakandinn í hlaupinu 1974 og fyrir það afrek vann hann til eignar bikar sem gefinn var af Brunabótafélagi Íslands. Jón var að vísu ekki nema 48 ára þegar þetta var, en á þessum tíma var fáheyrt – og jafnvel talið hættulegt – að svona gamalt fólk væri að taka þátt í keppnishlaupum. Núna var elsti þátttakandinn alveg að verða 84ra ára – og Brunabótafélag Íslands ekki lengur til.

Aðdragandinn
Undirbúningurinn fyrir hlaupið um daginn var á engan hátt sérstakur, nema kannski fjórir síðustu dagarnir. Mér hafði sem sagt yfirleitt gengið prýðisvel á æfingum frá því um áramót, þó að sumar vikur hafi verið betri en aðrar eins og gengur. Engin teljandi meiðsli höfðu gert vart við sig, en stundum var veðrið til leiðinda þrátt fyrir gott tíðarfar almennt. Náði mjög góðri æfingaviku í Danmörku í lok mars og þá fundust mér allir vegir færir. Í apríl var hins vegar allt einhvern veginn erfiðara, skrokkurinn með stirðara móti og flestir mælikvarðar á niðurleið, hverju sem það sætti. Á einhverjum tímapunkti var mig alveg hætt að langa í keppnishlaup, enda bjóst ég ekki við neinu nema vonbrigðum eins og staðan var. Hef reyndar oft fundið fyrir keppniskvíða síðustu misserin, sennilega bæði kvíða fyrir sársaukanum í hlaupinu og kvíða fyrir því að sjá lokatímann. En svo hitti ég góðan hlaupavin yfir tebolla svo sem viku fyrir hlaup – og líklega fékk ég þar hvatninguna sem ég þurfti. Ég ákvað sem sagt að láta slag standa.

Á síðasta ári hljóp ég bara eitt almennilegt götuhlaup, þ.e.a.s. 5 km Fossvogshlaup í ágúst. Þar var lokatíminn 23:06 mín og eftir gott gengi í Danmörku fannst mér vel raunhæft að komast undir 22 mín í ÍR-hlaupinu. Sú hugsun dó svo eiginlega alveg í apríl – og í framhaldi af því setti ég mér þrjú markmið:

  • A-markmið: Undir 22 mín. Leit samt á þetta sem óraunsæjan draum.
  • B-markmið: Undir 23 mín. Alla vega skárra en í fyrra.
  • C-markmið: Undir 24 mín. Alveg óásættanlegt að ná því ekki, enda hljóp ég Flandrasprettsleiðina með öllum sínum hækkunum á 24 mín á æfingu síðla vetrar.

Hlaupið um daginn
Ég fann strax í upphituninni fyrir hlaupið að þetta yrði góður dagur. Mér leið vel og var allur með liprasta móti. Kannski hafði hvíldin fjóra síðustu daga virkað vel. Í hlaupinu sjálfu reyndi ég að glápa sem minnst á klukkuna, fyrir utan það að taka stöðuna við hvert kílómetramerki. Missti reyndar af fyrsta merkinu efst á Hverfisgötunni, en sýndist að ég hlyti að hafa verið nálægt 4:20 mín þar. Það leit vel út – og ég var meira að segja svolítið hraðari á kílómetra nr. 2 niður Laugaveginn. Sýndist tíminn þar vera eitthvað í grennd við 8:20 mín, sem mér fannst þó einhvern veginn ekki alveg passa, 8:40 hefði verið nær lagi. Við 3 km merkið sýndi klukkan svo 12:41 mín, sem gat alveg bent til lokatíma upp á 21:10 mín. Þarna var ég reyndar orðinn eitthvað ruglaður í útreikningunum, sem eftir á að hyggja stafaði sennilega að hluta til af því að kílómetramerkingarnar voru ekki á alveg réttum stöðum. Alla vega gerði ég mér ekki grein fyrir hvað þetta gekk í raunninni vel. Vissi bara að ég fann alls ekkert til og þetta var hreint ekkert erfitt, ólíkt því sem ég hafði kviðið fyrir. Fjórða kílómetramerkið birtist talsvert fyrr en ég hafði reiknað með. Tíminn þar var 17:02 mín, en ég var einhvern veginn alveg búinn að missa reiknigetuna. Og ég sem er yfirleitt talsvert betri í að reikna en að hlaupa! Þarna hefði ég átt að sjá fram á lokatíma upp á 21:20 mín með sama áframhaldi, sem hefði verið ótrúlega frábær niðurstaða miðað við væntingarnar. Síðasti kílómetrinn var hins vegar aðeins lengri en hinir, af því að merkið var ekki á réttum stað – og svo hægði hallinn á Skothúsveginum kannski aðeins á mér. Þegar ég sá markklukkuna í Pósthússtræti álengdar sýndi hún byssutímann 21:45 mín. Flögutíminn endaði svo í 21:44 mín og byssutíminn í 21:52 mín, en ég var orðinn of ruglaður í tölunum til að fatta hvað ég hafði mikla ástæðu til að gleðjast.

Eftir á að hyggja var þetta sennilega eitt af léttustu keppnishlaupunum mínum frá upphafi, mér tókst að hlaupa á jöfnum hraða alla leið (um 4:20 mín/km), fann aldrei fyrir neinum óþægindum og var eiginlega ekkert stirður að hlaupi loknu. Svo hitti ég líka slatta að skemmtilegu fólki á marksvæðinu og smátt og smátt síaðist gleðin inn. Villtasti draumurinn (A-markmiðið) var orðinn að veruleika – og í leiðinni hafði mér reyndar tekist að jafna skráð Íslandsmet í 5 km götuhlaupi 65-69 ára, en ég hef aldrei áður átt hlut í neinu svoleiðis meti. (Í því sambandi skiptir máli að aldursflokkaskipting öldunga miðast við fæðingardag en ekki bara fæðingarár. Kristinn Guðmundsson, sem verður 65 ára seint á árinu var nefnilega langt á undan mér).

Eftirþankar
Mér finnst merkilegt hversu miklu eitt svona hlaup getur breytt fyrir mann. Ef ég hefði látið það eftir mér að mæta ekki, hefði ég haldið áfram að vera leiður yfir meintu lélegu hlaupaformi, sem aftur hefði virkað sem hemill á eðlilegar framfarir og bjartsýni. En í staðinn finnast mér allir vegir vera færir, rétt eins og ég upplifði eftir æfingavikuna góðu í Danmörku. Það skiptir nefnilega máli að vera með hausinn rétt skrúfaðan á – og í þessu tilviki var ég svo heppinn að eiga hlaupavin sem benti mér á skrúflykilinn. Ég er í stuttu máli ótrúlega heppinn maður, bæði með hlaupaheilsuna og fólkið í kringum mig.

Skjáskot úr Afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands í sumarbyrjun 2024.

Hlaupaannáll 2023 og markmiðin 2024

Með Evu á marklínunni.
(Ljósm. Fossvogshlaupið)

Nú er einn eitt hlaupaárið á enda og þess vegna er kominn tími á enn einn hlaupaáramótapistilinn. Þetta er 17. árið í röð sem ég skrifa svona pistil þar sem ég geri upp nýliðið ár og opinbera hlaupamarkmiðin mín fyrir árið sem framundan er. Talan 17 virðist e.t.v. frekar há í þessu sambandi, en árafjöldi er afstæður eins og allt annað. Þetta eru til að mynda ekki mjög margir pistlar, svona hlutfallslega, þegar haft er í huga að ég er búinn að stunda þetta áhugamál mitt meira og minna samfellt í 55 ár eða þar um bil.

Skakkafallalaust hlaupaár
Ég get ekki annað en litið svo á að árið 2023 hafi verið eitt af góðu hlaupaárunum í löngu lífi mínu sem hlaupara. Árangur ársins, mældur í klukkutímum, mínútum og sekúndum, gefur að vísu ekki tilefni til stórra hátíðarhalda, en góðu fréttirnar eru þær að ég komst í gegnum árið frá upphafi til enda án nokkurra skakkafalla. Það er mikil breyting frá næstu misserum þar á undan, sem flest einkenndust af þrálátum meiðslum, sem sennilega má öll rekja til bakvandræða sem ég varð eftir á að hyggja fyrst var við haustið 2016 sitjandi í Toyota Yaris á leið frá Hnappavöllum í Öræfum áleiðis í Borgarnes. Meiðslasögunni sem þar hófst er svo sem ekki lokið og lýkur e.t.v. ekki á undan ævisögunni minni. Sigur í baráttunni við þessi meiðsli felst nefnilega ekki endilega í að uppræta orsökina, hver sem hún nákvæmlega er, heldur miklu frekar í að halda einkennunum nógu fjarri til að ég geti leikið mér að vild. Meðan það tekst þykist ég eygja von um framfarir, innan þess ramma sem „aldur og fyrri störf“ setja mér.

Æfingarnar
Árið 2023 hófst með alveg nýrri nálgun í hlaupaæfingum, þ.e.a.s. nálgun sem var alveg ný fyrir mér. Stóran hluta ársins 2022 var ég svo verkjaður, aðallega innanvert á hægra hnénu, að ég gat ekki einu sinni hlaupið yfir götu á gangbraut nema vera búinn að hita vel upp áður. Ég þrjóskaðist samt við og reyndi að halda sjó í hlaupaæfingum og mætti meira að segja í þrjú keppnishlaup um sumarið. Í byrjun október áttaði ég mig loks á því að ég gæti ekki haldið áfram á sömu braut. Síðustu 12 vikur ársins hljóp ég ekki neitt, en gerði þeim mun fleiri styrktaræfingar með eigin líkamsþyngd. Í desember var ég hættur að finna til í hnénu og um áramót var ég tilbúinn í nýtt upphaf.

Nýja upphafið fól í sér hlaupaæfingar sem voru ólíkar öllum mínum æfingum síðustu 50 ár. Ég lagðist sem sagt ofan í bók Jack Daniels, Running Formula, og fann þar áætlun sem ég taldi við hæfi miðað við ástand mitt á þessum tíma. Fram í miðjan maí hljóp ég yfirleitt bara þrisvar í viku og aldrei lengra en 10 km í einu. (Lengst hljóp ég 10,66 km um miðjan apríl). Og uppistaðan í öllum þessum æfingum var rólegt skokk (með púls undir 130), þó þannig að pláss væri fyrir stutta hraðari kafla einu sinni eða tvisvar í viku. Allt var þetta kryddað með stuttum (20 sek) stílsprettum sem voru samtals orðnir 437 í árslok. Löngu helgarhlaupin voru í fríi og engin áhersla lögð á hæðarmetra. Í rauninni voru þetta ekki eiginlegar hlaupaæfingar, heldur fyrst og fremst grunnæfingar til undirbúnings markvissari hlaupaæfingum. Endurteknar æfingar á svona litlu álagi eru til þess fallnar að styrkja vöðva, liði og taugakerfi, fjölga háræðum og auka afköst hjartans. Ætli þetta sé ekki eitthvað svipað og þegar maður vandar sig sérstaklega mikið við að skipta um jarðveg og þjappa undirlag áður en maður leggur hellur á bílastæði. Það er svo sem vel hægt að fara bara beint í að leggja hellurnar, en þá er hætt við að frostlyfting og aðrir náttúrulegir ferlar láti til sín taka strax og á reynir, þ.e.a.s. í fyrstu frostum.

Um miðjan maí fór ég smátt og smátt að fletta sjaldnar upp í Jack Daniels, enda langaði mig að leika mér í lengri hlaupum og þá sérstaklega fjallveghlaupum þegar sumarið kæmi. Ef ég tala um tímabilið frá janúar og fram í miðjan maí sem Jack Daniels tímabilið, gæti ég talað um tímabilið frá miðjum maí og út ágúst sem skemmtanatímabilið. Þarna var ég farinn að leyfa mér að skreppa í aðeins lengri túra með hlaupafélögunum, þá sjaldan sem færi gafst, brölta upp Hafnarfjallið, hlaupa sæmilega löng fjallvegahlaup og taka þátt í þeim keppnishlaupum sem heilluðu mest. Þau urðu að vísu ekki mörg (sjá síðar). Þegar þarna var komið sögu hafði ég ekki fundið til í hægri hnénu frá því um áramót, nema einu sinni þegar ég vaknaði um miðja nótt eftir hlaupalausan dag. En stífleikinn framan í vinstra lærinu var alltaf til staðar. Einhvern tímann í júlí áttaði ég mig svo á því að hann var horfinn líka. Ég var svo sem alltaf frekar stirður í skrokknum, en fann eiginlega aldrei neins staðar til.

Á góðu kvöldi seint í júní ákvað ég að skrá mig í Costa Blanca Trails, 41 km fjallahlaup á Spáni seinni partinn í nóvember. Þessi ákvörðun tengdist því að einn af bestu hlaupafélögunum, Bjarni Traustason, var um það bil að flytja búferlum frá Borgarnesi til Spánar – og þetta umrædda hlaup var nánast í bakgarðinum hjá honum. Þessi áform urðu kveikjan að þriðja æfingatímabili ársins sem stóð í raun mánuðina september-nóvember. Fyrir þetta tímabil bjó ég mér til mjög einfalda 9 vikna æfingaáætlun, þar sem mig minnir að ég hafi reiknað með þremur 50 km vikum, þremur 60 km vikum og þremur 70 km vikum, fimm æfingum í viku og 1.000 hæðarmetrum í viku. Inni í þessu áttu að vera nokkrar lengri og styttri sprettæfingar, auk hægra hlaupa og stílspretta í anda Jack Daniels. Bókin var jú alltaf innan seilingar. Í stuttu máli hélt ég þessu plani í öllum aðalatriðum, þó með tveimur mikilvægum frávikum. Ég trassaði sem sagt hæðarmetrana til að hafa tíma fyrir alla kílómetrana – og svo ákvað ég einhvern tímann um miðjan október að mæta ekki í hlaupið, einfaldlega vegna þess að mig langaði það ekki nógu mikið. Samt hélt ég áfram að æfa fyrir það eins og ekkert hefði í skorist. Stundum er bæði mögulegt og snjallt að blekkja sjálfan sig.

Fjórða æfingatímabil ársins hófst þegar Costa Blanca Trails var búið og stóð til áramóta. Þá hélt ég mig áfram við 70 km á viku í öllum aðalatriðum. Um miðjan desember fóru reyndar veður og hlaupafæri heldur versnandi eftir einstaklega þægilegt tíðarfar sem staðið hafði vikum saman. Hlaupaviljinn dróst þá saman í einhverju hlutfalli við veðrið, þannig að síðustu vikur ársins voru nær 50 km. Einhvern tímann á þessu tímabili setti ég mér þrjú markmið sem ætlunin var að ná áður en árið væri úti:

  1. Að seinnipartur ársins yrði lengsti seinnipartur ævinnar.
  2. Að hlaupa a.m.k. 2.000 km á árinu.
  3. Að desember yrði lengsti desember ævinnar, (enda var ég þá þegar búinn að ná sambærilegum markmiðum fyrir október og nóvember).

Framangreind markmið náðust öll, en meira um það síðar í þessum pistli. Samtals hljóp ég 2.091 km á árinu, sem var ívið minna en flest undangengin 12 ár, en bara ívið minna.

Keppnishlaupin sem ég tók ekki þátt í
Keppnishlaup ársins 2023 urðu ekki nema fjögur talsins. Ég skráði mig reyndar í önnur fjögur ef ég man rétt en hætti við þau öll af mismunandi ástæðum. Þessar ástæður voru aðallega þrjár, til viðbótar við þá algengu ástæðu að tímasetningar stönguðust á við önnur áform í lífinu:

  1. Frammistöðukvíði: Ég hef satt að segja verið pínulítið hræddur við keppnishlaup síðustu mánuði. Keppnishlaup eru svo sem alltaf frekar kvíðvænleg vegna þess að maður þekkir kvölina sem oftast fylgir manni einhvern hluta leiðarinnar. Eftirvæntingin eftir gleðinni sem fylgir því að koma í mark nær oftast að vega upp á móti þessum kvíða, en þannig var það ekki á nýliðnu ári. Ég kveið nefnilega líka fyrir vonbrigðunum sem ég bjóst við að myndu fylgja því að sjá lokatímann (og ITRA-stigin þegar um utanvegahlaup var að ræða) og bera hann saman við fyrri og miklu betri árangur. Ég hef rætt þetta við fyrrverandi keppnisfólk í íþróttum og fundið þar einhvern samhljóm, þó að ég hafi vissulega aldrei verið beinlínis í fremstu röð. Þetta vandamál stafar líklega af því að hugurinn sé skrefi á eftir líkamanum að átta sig á því að það sem var raunhæft fyrir nokkrum árum er ekki endilega raunhæft núna.
  2. Einsemd: Á Covidtímanum áttaði ég mig betur á því en áður hversu illa mér hentar að fara einn í keppnishlaup. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að hlaupa, heldur líka um að upplifa hlaup með öðru fólki. Í keppnishlaupum hitti ég alltaf margt fólk sem ég þekki, en mér finnst mikið vanta ef ég get ekki líka deilt eftirvæntingunni með einhverjum í aðdraganda hlaups. Á síðustu misserum hefur þetta oft vantað, hlaupahópurinn minn (Flandri) hefur skroppið saman og meiðsli hafa verið tíð meðal þeirra sem annars hefðu verið líklegustu ferðafélagarnir. Og þetta batnaði náttúrulega ekkert þegar ég flutti sjálfur út á jaðar félagssvæðisins (frá Borgarnesi að Hvanneyri), jafnvel þótt þessi jaðar hafi farið vel með mig að öllu öðru leyti. Fyrir mér er þátttaka í keppnishlaupi eitthvað miklu meira en dvelja einn með hugsunum mínum á leiðinni á staðinn, hlaupa svo með öðru fólki í nokkrar mínútur eða nokkra klukkutíma og vera svo aftur einn með hugsunum mínum á heimleiðinni.
  3. Æfingaleysi: Ég tel að ég hafi æft mjög skynsamlega fyrstu mánuði ársins (sjá framar), en þær varfærnislegu æfingar voru ekki sniðnar að keppnishlaupum. Að vísu átti mér, skv. Jack Daniels, að vera alveg óhætt að fara í eitt og eitt stutt keppnishlaup þegar voraði. En mér fannst samt rétt að láta maí og júní líða án þess að láta á það reyna.

Keppnishlaupin sem ég tók þátt í
Þegar komið var fram í júlí var ég enn ekki kominn með nein keppnishlaup í sigti (að frátöldum þeim sem ég hafði þá þegar hætt við), nema Trékyllisheiðarhlaupið um miðjan ágúst. En svo ákvað ég með eins og hálfs sólarhrings fyrirvara að drífa mig í Pósthlaupið í Dölunum 29. júlí. Kveikjan að því var einmitt að mér bauðst svo góður félagsskapur, þar sem Anna Berglind var stödd í Borgarnesi og fór í hlaupið þaðan. Við urðum sem sagt samferða í Dalina og til baka – og það bætti stórum skammti af tilgangi og gleði við daginn. Um leið og ákvörðunin var tekin fann ég að Pósthlaupið myndi verða góður prófsteinn á það sem ég hafði verið að bauka í hlaupaskónum frá því um áramót, ekki síst vegna þess að ég hljóp þetta sama hlaup um svipað leyti í fyrra, meiddur en líklega í betra langhlaupaformi en nú. Bæting á milli ára, jafnvel þótt hún yrði smávægileg, væri vísbending um að breyttar áherslur í æfingum hefðu skilað árangri. Ég gerði Pósthlaupið upp í þar til gerðum bloggpistli í sumar og þarf ekkert að endurtaka þar sem þar var skrifað. En í stuttu máli leið mér vel í þessu hlaupi þrátt fyrir slæma krampa undir lokin, og niðurstaðan var 2:50 mín bæting frá því í fyrra, þ.e.a.s. þegar ég var búinn að leiðrétta fyrir 300 m krók sem bættist við hlaupið vegna endurbóta á hlaupaleiðinni. Þetta voru 26,75 km á 2:29:59 klst, sem skilaði mér í 16. sæti af 44 keppendum (nr. 12 af 24 körlum). Engin stórmeistaraframmistaða, en þetta var góður dagur og sólin skein.

Í Búðardal með hlaupavinum úr Hlaupaklúbbnum Flandra að Pósthlaupinu loknu. Sigrún Sig. vann 50 km hlaupið með miklum yfirburðum og varð á undan öllum körlunum! Og Heiðrún Harpa bætti sig um heilar 5 mínútur í 26 km hlaupinu. (Ljósm.: Snæbjörn Eyjólfsson)

Annað keppnishlaup sumarsins var Trékyllisheiðin 12. ágúst. Þar var boðið upp á nýja leið, tæplega 26 km hlaup frá Djúpavík, nokkurn veginn sömu leið og Þórbergur Þórðarson gekk í framhjágöngunni miklu 30. september 2012. Hlaupið mitt þennan dag var langt frá því álíka sögulegt og framhjáganga Þórbergs, sem er hugsanlega þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta. Í stuttu máli var þetta þægilegasta hlaupið mitt í fjögur ár. Ég set mér alltaf markmið fyrir hvert hlaup og svo endurreikna ég þau markmið í huganum eftir hvern áfanga hlaupsins. Í þessu hlaupi naut ég þess í fyrsta sinn í langan tíma að geta skerpt á markmiðunum eftir því sem leið á, í stað þess að neyðast til að gefa jafnt og þétt afslátt af metnaðinum sem ég lagði af stað með. Og aftur var ég einstaklega heppinn með ferðafélaga, því að við Sonja Sif urðum samferða á Strandir. Einsemdin var þar af leiðandi víðs fjarri. Að öðru leyti má lesa allt um þessa hlaupaupplifun mína í enn einu hlaupablogginu.

Þriðja keppnishlaupið var 5 km Fossvogshlaup Hleðslu fimmtudaginn 24. ágúst. Við Gunnar Viðar ætluðum saman í þetta hlaup, en þegar á reyndi átti hann átti ekki heimangengt vegna vinnu. Ég mætti því einn til leiks, en það breyttist á leiðinni að rásmarkinu því að þar hitti ég einn allra besta hlaupavin minn, Evu Skarpaas. Hún ákvað að fylgja mér, eða kannski öllu heldur leiða mig í gegnum hlaupið, því að sjálf hefði hún vel getað hlaupið hraðar. Ég taldi mig geta hlaupið á 23:40 mín, þ.e.a.s. á 4:44 mín/km, en hafði svo sem ekki mikið við að miða þar sem þetta var fyrsta 5 km keppnishlaupið mitt í 4 ár. Ég var því býsna bjartsýnn þegar ég sá millitímann 4:36 mín eftir fyrsta kílómetrann, þrátt fyrir svolitla hækkun upp Stjörnugrófina. Mér tókst hins vegar ekki að bæta neitt í eftir það, nema þá rétt í lokin, og endaði á 23:06 mín (4:37 mín/km). Auðvitað langaði mig undir 23 mín fyrst ég var svona nálægt því, en þetta var samt 34 sek umfram markmið dagsins. Tíminn, sem er sá næstlakasti á ferlinum, dugði mér í 94 sæti af 418 keppendum og í 2. sæti af 5 í flokki 60-69 ára. Þrátt fyrir að hafa náð markmiðinu var ég ekkert sérstaklega ánægður með árangurinn, en samt mjög glaður að vera búinn að „brjóta ísinn“ í götuhlaupum og fá skráðan tíma til að miða við í framhaldinu.

Bara nokkuð kátur í Ljósanæturhlaupinu.

Fjórða og síðasta keppnishlaupið var 7 km Ljósanæturhlaup Lífstíls í Keflavík 29. ágúst – og þar tókst okkur Gunnari Viðari að mæta saman til leiks í fyrsta sinn eftir mörg mögur hlaupaár. Markmið mitt fyrir daginn var að hlaupa þetta á 32:40 mín, sem samsvarar 4:40 mín/km, sem sagt örlítið hægar en í Fossvogshlaupinu. En ég fann strax í upphituninni að þetta var ekki dagurinn og mér fannst ég vera þungur á mér frá fyrstu mínútu. Í rauninni leið mér samt vel allan tímann – og þó að ég hafi ekki náð markmiði dagsins veit ég vel að innan fárra ára mun ég öfunda sjálfan mig að hafa getað hlaupið svona hratt. Vann 60+ og varð í 6. sæti alls af 65 keppendum. Lokatíminn var 34:44 mín, sem var náttúrulega ansi langt undir væntingum, en þegar betur var að gáð var hlaupið ekki 7 km heldur u.þ.b. 7,33 km. Tíminn samsvarar því u.þ.b. 33:15 mín á 7 km (4:45 mín/km), sem var þá ekki nema 35 sek frá settu markmið. Gunnar Viðar kom hins vegar okkur báðum á óvart með frábærri frammistöðu eftir þriggja ára hlé frá alvöru keppnishlaupum, hljóp þessa 7,33 km á 33:10 mín.

ITRA-stigin
Ein helsta dægradvöl mín þessi misserin er að skoða styrkleikalista Alþjóðautanvegahlaupasambandsins (ITRA (International Trail Running Association)), enda nýtist hann mér einkar vel til að setja mér markmið í utanvegahlaupum – og gerir um leið mögulegt að bera hlaupin saman hvert við annað. Í ársbyrjun var ég með 583 ITRA-stig, en stigafjöldinn reiknast út frá vegnu meðaltali fimm bestu ITRA-hlaupa síðustu 36 mánuði. Helst vil ég náttúrulega ekki lækka mikið í stigum á milli ára, en sú barátta er orðin varnarbarátta. Pósthlaupið gaf mér 529 stig og Trékyllisheiðin 510 stig, sem hvorugt nýtist mikið í vörninni. Í árslok var stigatalan komin niður í 577 stig og um mitt ár 2024 hún mun hrapa verulega um leið og bestu hlaupin mín frá sumrinu 2021 detta út af 36 mánaða listanum. Ef ekkert annað gerist verð ég því líklega kominn niður í u.þ.b. 520 stig í lok ársins. Það eina sem getur komið í veg fyrir það er góð frammistaða í utanvegahlaupum 2024.

Þrátt fyrir að vera á öruggri niðurleið á ITRA-listanum er ég enn stigahæsti Íslendingurinn í mínum aldursflokki, þriðju áramótin í röð. Fyrsta árið var ég svo ungur að ég var í flokki 60-64 ára, en síðan kraflaði ég mig upp í 65-69 ára flokkinn. Mér finnst gaman að reyna að halda þessu toppsæti, en það gerist ekki áreynslulaust eins og fram hefur komið. Einu sinni átti ég mér þann draum að vera á Topp-100 í mínum aldursflokki í heiminum. Þetta markmið hefur hingað til verið fremur fjarlægt, en á árinu 2023 náði ég því allt í einu, ekki vegna þess að stigunum mínum fjölgaði, heldur vegna þess að aldursflokkurinn á heimsvísu er líklega aðeins tekinn að þynnast. Í árslok var ég nr. 95 af 37.639 körlum á þessum aldri.

Skemmtihlaupin
Alla jafna efni ég til eða tek þátt í á að giska tveimur skemmtihlaupum á hverju ári, að frátöldum fjallvegahlaupum og keppnishlaupum sem eru vissulega líka skemmtihlaup. Annað þessara hlaupa er hið hér um bil árlega Uppstigningardagshlaup, en síðan árið 2010 höfum við hjónin boðið í hálfmaraþon og mat (í þeirri röð) á uppstigningardag ár hvert (að árinu 2021 frátöldu). Lengst af var hlaupaleiðin hinn sívinsæli Háfslækjarhringur með upphaf og endi í Borgarnesi, en eftir að við hjónin fluttum yfir á Hvanneyri haustið 2021 þurfti náttúrulega að finna nýja og álíka langa leið. Vorið 2023 var því í annað sinn hlaupið „niður í Land“ eins og heimamenn kalla það – og svo Andakílshringurinn upp að Skorradalsvatni og heim aftur. Að þessu sinni bar uppstigningardag upp á 18. maí og hópurinn taldi samtals 8 hlaupara og einn á hjóli. Veðrið lék við okkur eins og næstum alltaf og fiskisúpan hennar Bjarkar var það allra besta. Já, og svo hafði mér tekist að koma bæði heita pottinum og kalda pottinum í gagnið kvöldið fyrir hlaup, þannig að þetta var allt eftir bókinni. Leiðin mældist rétt um 22 km og þar með varð þetta rúmlega tvöfalt lengra en lengsta hlaupið mitt það sem af var árinu. Samt var líðanin góð og eftirköstin engin.

Uppstigningardagur 2023: Fiskisúpa Bjarkar á borðinu.

Hitt skemmtihlaupið var hið hér um bil árlega Hamingjuhlaup, en ég hef staðið fyrir slíku hlaupi nokkurn veginn á hverju ári síðan 2009 í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Nú voru engir Hamingjudagar, sem þýddi einfaldlega að hamingjan flutti sig annað. Ég notaði sem sagt tækifærið til að fara með góðum hópi fólks í brautarskoðun fyrir nýju leiðina í Trékyllisheiðarhlaupinu, þ.e. frá Djúpavík að skíðaskálanum í Selárdal (sjá framar). Við hlupum þetta 8 saman í NA-strekkingi, hellirigningu framan af, þoku og 6 stiga hita. Þetta var því bæði blautt og kalt, sérstaklega fyrri hluta leiðarinnar. En hamingjan var samt vissulega til staðar – og ekki minnkaði hún þegar Skíðafélag Strandamanna tók á móti okkur í skíðaskálanum með kakói og vöfflum. Þetta var góður dagur, enda bætti félagsskapurinn veðrið upp – og gott betur!

Kjósaráin í essinu sínu í rigningunni 1. júlí.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2023 var 7. sumar síðari hluta fjallvegahlaupaverkefnisins míns. Fyrstu sex sumrin tókst mér að ljúka 23 fjallvegum af þeim 50 sem ég ætla mér að hlaupa fyrir sjötugt (til viðbótar hinum 50 sem ég kláraði fyrir sextugt). Sumarið 2023 bættust sjö fjallvegir í safnið, fyrst fjórir á Hornströndum í byrjun júlí síðan tveir við Ísafjarðardjúp í ágúst og loks einn nálægt æskuslóðunum í september. Í árslok voru því 80 fjallvegir að baki (50+23+7) og 20 eftir. Það þýðir að mér dugar að hlaupa 6-7 fjallvegi á ári þessi þrjú sumur sem eftir eru af verkefninu. Hlýtur það ekki að hafast?

Hornstrandaferðin var óneitanlega hápunktur fjallvegahlaupasumarsins. Við sigldum 13 saman frá Bolungarvík að Hesteyri mánudaginn 3. júlí, gistum þar í tvær nætur og náðum að hlaupa fjóra fjallvegi. Upphaflega áttu þeir reyndar að vera fimm, en aðstæður voru það erfiðar fyrri daginn að ég ákvað að stytta ferðalag seinni dagsins svolítið. Fyrri daginn hlupum við fyrst yfir Hesteyrarskarð frá Hesteyri að Látrum í Aðalvík, svo áfram yfir Tunguheiði alla leið að Glúmsstöðum í Fljótavík og loks þaðan yfir Háuheiði aftur að Hesteyri. Veðurspáin fyrir daginn var ekki góð; útlit fyrir hvassa norðanátt, kalsarigningu og hita rétt yfir frostmarki. Dagurinn byrjaði samt með sólskini og spáin rættist ekki fyrr en líða tók á daginn og við vorum um það bil að leggja í hann upp á Háuheiði. Sá leggur bauð upp á þoku og vosbúð í drjúgum skömmtum, en sem betur fer var veðrið í bakið og engum varð meint af. Dagleiðin öll teygði sig í 34 km og eitthvað um 1.450 hæðarmetra. Síðari daginn létum við Kjaransvíkurskarð nægja, en meiri hluti hópsins tók daginn í styttri göngur í nágrenni Hesteyrar.

Allur Hornstrandahópurinn fyrir utan Læknishúsið á Hesteyri að morgni þriðjudags.

Það sem gerði Hornstrandarferðina enn betri fyrir mig var að í hópnum voru fjögur af börnunum mínum og tengdabörnunum. Mér finnast það einstök forréttindi að geta notið svona ævintýra með mínum nánustu, að öllum öðrum ólöstuðum.

Birkir bóndi á brún Manngils innarlega í Heydal.

Seinna í júlí ætlaði ég að hlaupa tvo fjallvegi á Austfjörðum, reyndar þá sömu og árið áður. En aftur kom Austfjarðaþokan í veg fyrir það og í staðinn ákvað ég með stuttum fyrirvara að ná tveimur „auðteknum“ fjallvegum í Ísafjarðardjúpi. Hljóp þá í miðri viku í ágúst með Birki bónda, hlaupafélaga ársins nr. 1. Fórum fyrst yfir frekar hrjóstruga Skötufjarðarheiði frá Kálfavík í Skötufirði að Heydal í Mjóafirði – og síðan gamla bílveginn yfir Eyrarfjall úr Mjóafirði til Ísafjarðar. Allt gekk þetta samkvæmt áætlun og rúmlega það.

Sjöunda og síðasta fjallvegahlaup ársins voru svo Mosar frá Brekkurétt í Saurbæ að Brunngili í Brunngilsdal inn af Bitrufirði. Þar fæddist pabbi nánast sléttum 115 árum fyrr og leiðin og dagsetningin tóku mið af því. Mosar eru ekki fjölfarin leið, en pabbi fór stundum þarna yfir í gamla daga á leiðinni í smíðaverkefni í Saurbænum. Birkir fylgdi mér þennan dag eins og í öllum öðrum fjallvegahlaupum ársins. Við kynntumst þoku, kulda og bröttum brekkum á leiðinni, en allt gekk þetta eins og í sögu. Til að spara flutninga skröltum við leiðina reyndar fram og til baka – og úr þessu varð lengsta hlaupaæfing ársins, rúmir 36 km með rúmlega 1.400 m hækkun.

Birkir bóndi fyrir utan rústir Brunngilsbæjarins sem pabbi átti þátt í að byggja sumarið 1929.

Frásagnir af fjallvegahlaupunum mínum tínast smám saman inn á fjallvegahlaup.is, myndir frá ferðalögunum má finna á Facebook og þann 18. mars 2027 kemur þetta allt saman út í Fjallvegahlaupabók nr. 2.

Persónumetin
Mér reyndist óvenjuauðvelt að grafa upp einhver persónuleg met sem ég setti á árinu 2023. Þau snúast reyndar ekki um bestu tíma ævinnar á mismunandi vegalengdum, því að til að slá svoleiðis met þyrfti ég helst að finna upp einhverja alveg nýja vegalengd sem ég hef aldrei hlaupið áður.

Eftirfarandi listi sýnir þau persónuleg met (PB) frá árinu 2023 sem ég get með góðu móti tínt til:

  1. Flestir hlaupadagar á einu ári: 197 stk. Fyrra met 177 stk. 2013.
  2. Lengsti október: 268 km. Fyrra met 245 km 2016.
  3. Lengsti nóvember: 241 km. Fyrra met 209 km 2016.
  4. Lengsti desember: 270 km. Fyrra met 235 km 2012.
  5. Lengsti síðari hluti árs: 1.475 km. Fyrra met 1.304 km 2016.

Markmiðin
Ég setti mér bara eitt hlaupatengt markmið fyrir árið 2023, þ.e.a.s. að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Ég get með stolti sagt að þetta markmið hafi náðst vel og örugglega. Ég hef enga tölu á þeim hlaupaæfingum á árinu þegar mér var hugsað til þess hversu óumræðilega frábært það væri að geta stundað þetta áhugamál verkjalaust og vandræðalaust dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, ólíkt því sem var t.d. á síðasta ári.

Hér fara á eftir helstu hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2024. Þetta eru ekki markmið um bætingar í hefðbundnum vegalengdum, heldur um sitthvað annað sem ég vil gera á árinu:

  1. A.m.k. sjö fjallvegahlaup
  2. A.m.k. eitt maraþon á götu
  3. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Þessu til viðbótar kem ég til með að setja mér alls konar markmið fyrir einstakar æfingavikur og einstök keppnishlaup. Gleðin sem hlaupin gefa mér er nefnilega gleðin yfir því að ná markmiðum sem ég hef sjálfur sett. Flest er litlaust án markmiða.

Hlaupadagskráin mín 2024
Hlaupadagskráin mín er ennþá óskrifuð, en eins og sést á markmiðunum hér fyrir framan munu þó alla vega 7 fjallvegahlaup vera hluti af henni. Þar fyrir utan stefni ég að þátttöku í fjórða Trékyllisheiðarhlaupinu 17. ágúst og í Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum í júlí. Þar fyrir utan hef ég látið mig dreyma um svo sem 6 tiltekin keppnishlaup víða um land í sumar og um tvö utanvegahlaup erlendis síðla hausts. En þetta kemur allt í ljós.

Að lokum
Þegar ég lít til baka yfir nýliðið ár get ég ekki annað en verið mjög sáttur. Það er nefnilega alls ekki sjálfsagt að komast klakklaust í gegnum heilt hlaupaár. Reyndar hefði ég viljað sjá meiri framfarir, þ.m.t. aðeins betri tíma í mislöngum sprettum nálægt hámarksálagi. En mesta framförin var auðvitað að geta yfirleitt hlaupið. Allt hitt skiptir minna máli. Og þarna gildir líka það sama og í flestu öðru, að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Ég upplifði til að mynda oft á nýliðnu ári að finnast fæturnir ekki geta borið mig hraðar jafnvel þótt hjartað væri í hægagangi. Með því að liggja svolítið yfir tölum þykist ég sjá að hjarta og æðakerfi hafi verið komin í býsna gott stand eftir þrjá mánuði í fylgd Jack Daniels (jan-mars) og hafi haldist vel í horfinu eftir það. Stoðkerfið virðist hins vegar þurfa lengri tíma. Skrokkurinn er oftast stirðari en góðu hófi gegnir, ég finn oft fyrir vægum verk í grennd við spjaldliðinn, kálfarnir eru tæpir og mjaðmarbeygjararnir (e. hip flexors) of stuttir. Sjálfsagt vantar líka styrk í rassvöðva og lærvöðva (bæði að framan og aftan). Öllu þessu er hægt að vinna í – ef maður nennir og hittir á æfingar sem gera ekki illt verra.

Talandi um að gera illt verra, þá reyndi ég að byrja á markvissum styrktaræfingum í ágúst eftir að hafa lítið sinnt um slíkt frá því um vorið. Og það var eins og við manninn mælt; mér fór strax að líða verr og ganga verr á hlaupaæfingum. Þetta þróaðist svo þannig að ég tók ekki eina einustu styrktaræfingu síðustu fjóra mánuði ársins, en hljóp þess meira (eins og fram hefur komið) – og þetta varð besti tími ársins hvað líkamlega og hlaupalega heilsu varðar. Af þessu dreg ég samt ekki þá ályktun að styrktaræfingar séu óþarfar eða skaðlegar, enda stríðir það gegn flestu sem ég hef lært á þessu sviði. Ályktunin er miklu frekar sú að ég hafi ekki hitt á réttu æfingarnar eða ekki gert þær rétt. Vonandi tekst mér að nota fyrstu mánuði ársins 2024 til að finna réttu leiðina í þessu – og reyndar þykist ég vera kominn með sæmilega mynd af því sem ég þarf að gera. Og hver veit nema þetta skili sér í betri árangri á hlaupum 2024 en raunin varð 2023.

Þakklætið
Sem fyrr er þakklæti sú tilfinning sem ég finn mest fyrir þegar ég horfi til baka. Þar ber F-in þrjú hæst: Fjölskylduna, félagana og forsjónina. Ég var ótrúlega heppinn með þetta allt á nýliðnu ári. Og sama hversu mörg orð ég skrifa næ ég aldrei að lýsa þessu þakklæti af neinu gagni.