Hlaupaæfingar á útmánuðum

Vikur 1-16 2014 160Hlaupasumarið 2014 byrjar eiginlega á fimmtudaginn, rétt eins og sumarið á íslenska dagatalinu. Þá verður Víðavangshlaup ÍR haldið 99. árið í röð – og tveimur dögum síðar er röðin komin að Vormaraþoni FM. Í tilefni af þessu tel ég brýnt að upplýsa þjóðina um gang mála á hlaupaæfingum á þorra, góu og einmánuði, sem öll heyra sögunni til innan fárra daga.

Viðhaldsæfingar
Til að halda mér í þokkalegu hlaupaformi tel ég mig þurfa að hlaupa þrisvar í viku, samtals um 40 km. Svona lagað er auðvitað einstaklingsbundið og ræðst m.a. af aldri, hlaupareynslu, líkamlegu (og andlegu) ástandi og settum markmiðum. Það sem hæfir einum getur þannig verið allt of mikið eða allt of lítið fyrir einhvern annan. Í upphafi þessa árs var ég alla vega staðráðinn í að miða við þetta vikulega æfingamagn fram til 20. febrúar eða þar um bil. Stærsta hlaupamarkmiðið mitt á þessu ári er að bæta mig í Münchenmaraþoninu í október, þannig að mér liggur ekkert á. Sígandi lukka er best í hlaupum eins og flestu öðru.

Æfingarnar gengu eftir áætlun þessar fyrstu vikur ársins. Það eina sem ég þurfti að gera var að mæta á æfingar fjörlega og fallega hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi, sem hittist einmitt þrisvar í viku. Þar eru að vísu oftast hlaupnar örlítið styttri vegalengdir en svo að hinir vikulegu kílómetrar verði 40 talsins, en það get ég auðveldlega bætt upp með því að mæta aðeins fyrr eða hætta aðeins seinna en hinir. Á mánudögum eru sprettæfingar sem ég get teygt upp í 10 km eða þar um bil með góðri upphitun og aukaskokki, á fimmtudögum eru oft hlaupnir um 8 km og þá voru ekki nema 22 km eftir fyrir góða laugardagsæfingu. Reyndar vil ég helst ekki að lengsta hlaup vikunnar sé meira en helmingur af vikuskammtinum, en það er ekkert heilagt.

Vikur 1-16 2014

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan hélst vikuskammturinn nokkuð stöðugur að viku 10 frátalinni, en þá varð einhver minni háttar röskun vegna hálsbólgu eða annríkis í vinnu. Hvort tveggja getur truflað hlaupaæfingarnar þó að hvorugt setji venjulega stórt strik í reikninginn. Annríkið snýst að einhverju leyti bara um forgangsröðun í lífinu og mér er nær að halda að sama geti gilt um hálsbólgu og aðra minni háttar kvilla, svona að vissu marki. Og svo gerist svo sem ekki neitt þó að maður missi eina og eina viku úr. Skrokkurinn notar þá bara tímann til að lagfæra eitthvað sem kann að hafa gengið úr lagi dagana og vikurnar á undan.

Í byrjun mars tókst mér að koma næsta hluta æfingaráætlunarinnar í gang. Þá dró ég fram áætlun sem ég stal einhvern tímann einhvers staðar á netinu, og hefur það m.a. sér til ágætis að geta reiknað heppilegan hraða á æfingum út frá ætluðum árangri í næsta keppnishlaupi sem máli skiptir. Þessa áætlun aðlagaði ég að Vormaraþoni FM 26. apríl nk, en þá ætla ég að hlaupa fyrsta hálfmaraþon ársins. Eitt af helstu hlaupamarkmiðunum mínum þetta árið er að komast undir 1:30 klst. í þeirri vegalengd, þannig að ég stillti áætlunina miðað við það.

Í stuttu máli hefur gangur mála frá því í byrjun mars verið eins og að var stefnt, nema hvað heildarmagnið hefur ekki alveg náð þangað sem ég vildi. Tvær vikur hafa þó náð u.þ.b. 70 km, sem er svo sem alveg nóg að mínu mati. Dæmigerð vika á þessu tímabili hefur verið eitthvað á þá leið að á mánudegi hef ég tekið sprettæfingu með Flandra, allt frá 10×200 m upp í 6×1600 m. Með aukahlaupum og e.t.v. aukasprettum hef ég náð þessari æfingu upp í um 15 km. Þriðjudagur og miðvikudagur hafa svo verið frekar rólegir. Á þriðjudeginum hef ég jafnvel tekið mjög hægt hvíldarskokk til að liðka og hreinsa eftir spretti mánudagsins. Á fimmtudegi hef ég svo tekið svo sem 12-14 km – og þá gjarnan með hraðari seinni helmingi. Föstudagurinn hefur oftast verið hvíldardagur og laugardagurinn helgaður lengstu æfingu vikunnar, venjulega á bilinu 20-30 km, stundum með hraðari köflum inn á milli.

Fyrstu keppnishlaup ársins
Keppnishlaup á styttri vegalengdum eru að mínu mati einhver besta æfing sem völ er á fyrir maraþonhlaupara, bæði fyrir sál og líkama. Það sem af er árinu hef ég farið í tvö slík, fyrst 5 km Actavishlaup FH 27. mars og síðan 10 km Flóahlaup Umf. Samhygðar (Kökuhlaupið) 5. apríl. Ég fann mig engan veginn í því fyrrnefnda, en kláraði þó 5 km á 20:32 mín, sem er svo sem ekkert lakara en ég er vanur. Í Flóahlaupinu gekk hins vegar allt upp og ég kom í mark á 41:17 mín, sem var langt umfram væntingar. Á reyndar best 41:00 í 10 km götuhlaupi. Það var sumarið 1996. Hljóp á 41:03 í fyrra, þannig að þetta lítur bara frekar vel út. Hraðinn í báðum hlaupunum var eftir á að hyggja svipaður, þannig að það hvort árangurinn var góður eða slæmur er líklega meira huglægt. Alla vega bendir flest til þess að skrokkurinn sé ekki verri en vant er.

Næstu verkefni og markmið
Á sumardaginn fyrsta ætla ég að mæta í 99. Víðavangshlaup ÍR. Mætti fyrst í þetta hlaup vorið 1974 og svo aftur í fyrra. Nenni ekki að bíða í 39 ár eins og síðast, þannig að nú verður tekið á því tvö ár í röð. Markmiðið fyrir þetta hlaup er fyrst og fremst að hafa gaman af, enda stutt í næstu átök. Ég viðurkenni þó að ég verð pínulítið leiður ef ég get ekki hlaupið á u.þ.b. 20:30 mín án þess að ganga nærri mér.

Laugardaginn 26. apríl er það svo Vormaraþon Félags maraþonhlaupara (FM). Eins og fyrr segir er það eitt helsta markmið ársins að hlaupa hálft maraþon undir 1:30 klst. Ég á þó síður von á því að það gerist í þessu hlaupi. Væntingarnar eru um það bil sem hér segir:

 • 1:35 mín eða lengur = grátur og gnístran tanna
 • 1:31:12 – 1:34:59 mín = engin stórtíðindi
 • Undir 1:31:12 mín = persónulegt met og mikil gleði
 • Undir 1:30 mín = villtustu draumar

Veðrið getur sett strik í reikninginn á laugardaginn. Svoleiðis gerist stundum á vorin. Svo þarf ég að sinna vinnuerindum í Kaupmannahöfn daginn áður og kem til landsins þá um kvöldið. Svoleiðis flækingur er ekki í uppáhaldi daginn fyrir hlaup. En þetta fer allt einhvern veginn, þó að maður efist stundum um það. Ætli ég skrifi ekki eitthvað um það um mánaðarmótin…

Bara hlaupablogg?

Ég hugsa að þetta blogg sé að breytast í hreinræktað hlaupablogg. Hingað til hefur þetta verið sitthvað um umhverfismál og eitthvað um hlaup, svona hvað með öðru, nema hvað undanfarna mánuði hefur þetta eiginlega ekki verið neitt. Um þessar mundir er staðan þannig að ég fæ þokkalega útrás fyrir tjáningarþörfina á umhverfissviðinu í Sjónmálsþáttum Rásar 1 og á 2020.is. Reyndar liggja hjá mér nokkur mál sem mig langar að gera ítarlegri skil, en hvert slíkt mál útheimtir um það bil heilt dagsverk, og dagsverk eru takmörkuð auðlind. Þetta eru mál á borð við reynslu þjóða heims af því að beita varúðarreglunni samanborið við að beita henni ekki, umfjöllun um hollustu Sushi og mikilvægi þess að fólk sé gagnrýnið á það sem það lætur ofan í sig, umfjöllun um grænþvott úr hörðustu átt o.s.frv. Þessi mál bíða betri tíma eða úreldingar ef betri tími kemur ekki. Hér eftir sem hingað til verður þessi síða hins vegar helsti vettvangur fyrir vangaveltur mínar um hlaup. Þær vangaveltur eiga það til að ágerast þegar vorar.

40 ára Íslandsmeistaratitill

IMG_2409cr160Í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár frá því að ég vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn minn, já og reyndar þann eina það sem af er. Þetta var í drengjaflokki í Víðavangshlaupi Íslands sem fram fór í Vatnsmýrinni í Reykjavík 24. mars 1974. Ég var þá á fyrsta árinu mínu í menntaskóla fyrir sunnan og hafði mætt reglulega á frjálsíþróttaæfingar hjá ÍR frá því í byrjun nóvember. Var sem sagt óskrifað blað úr sveitinni.

Mér hafði aldrei dottið í hug að ég gæti unnið þetta hlaup, enda voru þarna aðrir og miklu betri hlauparar meðal þátttakenda. Langfremstur þeirra var Sigurður P. Sigmundsson, jafnaldri minn, sem þá þegar var nánast ósigrandi í sínum aldursflokki. Seinna setti hann Íslandsmet í maraþonhlaupi sem stóð í 26 ár, þ.e.a.s. alveg þangað til Kári Steinn kom til sögunnar. En það er nú önnur saga. Alla vega vissi ég að ég ætti enga möguleika á að vinna Sigga P.

Þennan vetur æfði ég oft með Gunnari Páli Jóakimssyni, sem var þá orðinn einn af bestu millivegalengdahlaupurum landsins, en er núna best þekktur sem hlaupaþjálfari. Ég held reyndar að hann hafi fæðst inn í það hlutverk! Hann tók sér það af einhverjum ástæðum fyrir hendur að telja mér trú um að ég gæti sko víst unnið þetta hlaup. Það eina sem ég þyrfti að gera væri að hanga í Sigga P. hér um bil alla leiðina og taka svo snöggt fram úr honum í blálokin. Þetta fannst mér fráleit hugmynd, en eftir að hafa heyrt hana nógu oft sá ég að það gerði náttúrulega ekkert til að prófa þetta. Ég var líka í þeirri ákjósanlegu stöðu að vera hinn óþekkti áskorandi. Þess vegna myndi enginn taka eftir því þótt áætlunin mistækist.

Svo byrjaði hlaupið. Það var ekki langt, ekki frekar en önnur víðavangshlaup á þessum tíma, þ.e.a.s. ekki nema 2.660 metrar. Framan af hlaupi vorum við nokkrir saman í hnapp, en smám saman þróaðist það þannig að við Siggi P. vorum einir í forystunni - og hann alltaf rétt á undan. Ég  man að mér fannst þetta ógeðslega erfitt, því að hraðinn var eiginlega allt of mikill. Mér tókst þó að hanga nógu lengi til að fara að ráðum Gunnars Páls og taka snöggt framúr þegar einhverjir 150 metrar voru eftir í mark. Og viti menn, þetta virkaði.

IMG_2413cr160Nokkrum vikum seinna, nánar tiltekið 14. maí, birtist frétt um þetta hlaup í Mogganum. (Líklega gefur dagsetning fréttarinnar vísbendingu um hversu gríðarlega stór viðburður þetta var)! Í fréttinni stendur m.a.: „Keppni í drengjaflokki var hin skemmtilegasta og var ekki séð fyrr en á síðustu metrunum hver yrði sigurvegari. Nýtt nafn í hlaupum, Stefán Gíslason úr Héraðssambandi Strandamanna, hreppti sigurinn, en þarna er á ferðinni bráðefnilegur piltur, sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni, haldi hann áfram æfingum og keppni“. Mogginn varð reyndar af þeirri skemmtun, því að lítið varð vart við piltinn á hlaupabrautinni næstu árin.

Þetta hlaup fyrir 40 árum er mér ekki bara minnisstætt vegna sigursins, heldur líka vegna þess að þann sama dag átti Guðmundur heitinn Þórarinsson 50 ára afmæli. Guðmundur var þjálfarinn minn þennnan vetur og sinnti mér afskaplega vel, þrátt fyrir að ég væri aðskotadýr úr allt öðru félagi.

Minningin um Víðavangshlaup Íslands 1974 skiptir mig talsverðu máli, ekki þó aðallega vegna þess að ég krækti mér í þennan eina Íslandsmeistarapening, heldur öllu frekar vegna þess að þarna lærði ég hversu miklu máli það skiptir að setja sér markmið og hvika ekki frá þeim. Og svo skiptir það mig líka afar miklu máli að þennan vetur eignaðist ég áhugamál sem ég get enn stundað mér til ómældrar gleði 40 árum seinna, jafnvel þótt æfingar og keppni hafi verið slitrótt nokkra áratugi í millitíðinni. Og nú bíð ég rólegur eftir Íslandsmeistaratitli númer tvö. :)

Stóra tækifærið á Drekasvæðinu

Dreki„Þetta land á ærinn auð, ef menn kunna‘ að nota‘ hann“, orti Jón Ólafsson fyrir margt löngu. Þessi orð eiga vel við um Drekasvæðið norðaustur af Íslandi. Þar liggur ærinn auður, sem fátt bendir að vísu til að menn kunni að nota.

Ég gæti skrifað langt mál um umhverfisþætti sem tengjast olíuvinnslu á Drekasvæðinu, langt mál um áhættuna fyrir vistkerfi þessa viðkvæma hafsvæðis, langt mál um fáránleika þess að dæla enn meiri olíu úr iðrum jarðar á sama tíma og mönnum er fullljóst að það jarðefnaeldsneyti sem þegar er tiltækt dugar til að breyta loftslagi á jörðinni svo mikið að ekki verður aftur snúið, eða langt mál um tvöfalt siðgæði þjóðar sem þykist vilja vera í fararbroddi í umhverfismálum á 21. öldinni. En það hafa aðrir gert. Og þessi grein fjallar heldur ekki um umhverfismál. Hún fjallar um efnahagsmál. Hún fjallar einfaldlega um það hvernig Íslendingar geti grætt sem mest á Drekasvæðinu og á sem stystum tíma.

„Stóra tækifærið á Drekasvæðinu“ liggur ekki í því að vinna olíu. Það liggur í því að vinna hana ekki. Það eitt að mikil líkindi séu á því að olía finnist á svæðinu er nóg til þess að skapa Íslendingum tækifæri sem er einstætt á heimsvísu. Þetta tækifæri veitist bara þjóð sem á miklar eldsneytisauðlindir í jörðu, en er ekki byrjuð að nýta þær. Og rétti tíminn er núna!

Til að nýta stóra tækifærið á Drekasvæðinu þurfa Íslendingar að lýsa því yfir í samfélagi þjóðanna að þarna sé olía sem Íslendingar ætli aldrei að nýta eða leyfa nýtingu á. Þess í stað hafi stjórnvöld ákveðið að ganga í fararbroddi til móts við nýja og bjartari framtíð án jarðefnaeldsneytis. Í ljósi þessarar ákvörðunar bjóðist Íslendingar til að gegna lykilhlutverki í samstarfi þjóða heims á sviði loftslagsmála.

Í framhaldi af ákvörðuninni um að nýta ekki olíuna á Drekasvæðinu munu opnast ný og óvænt tækifæri í rannsóknum og ferðaþjónustu, tækifæri til að byggja upp aðstöðu fyrir norðurslóðarannsóknir og tækifæri til að fá hingað alþjóðlegar ráðstefnur um loftslagsmál og um verndun hafsins, svo eitthvað sé nefnt. Um leið opnast ný tækifæri í markaðssetningu á íslenskum vörum, íslenskri þjónustu, íslenskri þekkingu og íslenskri menningu, jafnvel þótt hún tengist Drekasvæðinu ekki neitt.
Tekjurnar sem af þessu leiða verða mun fljótari að skila sér en tekjur af hugsanlegri olíuvinnslu síðar meir. Og það þarf varla að reikna lengi til að fá það út að nettótekjurnar af þessum auði verði miklu hærri en af hugsanlegri olíu. Og þetta verður ekki bara skammtímagróði fyrir mína kynslóð, heldur langtímagróði, bæði fyrir mína kynslóð og þær kynslóðir sem á eftir koma, bæði á Íslandi og í öðrum hlutum heimsþorpsins.

Ef við kunnum að nota auðinn á Drekasvæðinu mun kastljós heimsins beinast að þessari huguðu smáþjóð í norðri sem varð fyrst til þess að segja það sem allir vissu og sýna jafnframt í verki að henni væri alvara.

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu og á visir.is 17. desember 2013, en er endurbirt hér og nú í tilefni af því að í dag mun Orkustofnun gefa út þriðja sérleyfið til olíuleitar á Drekasvæðinu. Útgáfa þess leyfis er enn ein staðfesting þess að þeir sem stjórna þessu landi kunni ekki að nýta þann auð sem það á).

Fjallvegahlaupadagskrá 2014

???????????????????????????????Ég geri ráð fyrir að landsmenn allir hafi nú um nokkurt skeið beðið þess í ofvæni að fjallvegahlaupadagskrá ársins 2014 liti dagsins ljós. Nú er biðinni lokið, eða alla vega næstum því.

Sumarið 2014 verður 8. sumarið af 10 í stóra fjallvegahlaupaverkefninu mínu, enda verð ég þá á 58. aldursári. Allt byrjaði þetta á fimmtugsafmælinu mínu og síðan þá hef ég afgreitt u.þ.b. 5 fjallvegi á ári. Þeir ættu því að réttu lagi að vera orðnir 35, en eru bara 34. Í lok næsta sumars verða þeir hins vegar orðnir 40 ef áform ganga eftir. Þar með verður þetta allt á réttu róli og bara 10 stykki eftir fyrir tvö síðustu sumur verkefnisins.

Drög að fjallvegahlaupadagskránni 2014 fara hér á eftir, þó að vísu séu þar enn lausir endar sem verða bundnir áður en mjög langt um líður. Í upptalningunni er reyndar líka að finna einhver önnur hlaupaáform, þótt þau teljist ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu.

1. Leggjabrjótur, laugardag 24. maí (#35)
Ég held að Leggjabrjótur sé ágætis byrjun á vertíðinni, rétt eins og Selvogsgatan í fyrra og Ólafsskarð í hitteðfyrra. Nú ætla ég hins vegar að hlaupa þetta fyrsta hlaup ársins á helgi en ekki á virkum degi eins og tvö síðustu ár. Ég reikna með að leggja af stað frá Botnsskála eða þar í grennd kl. 10:00 og vera kominn að Svartagili í Þingvallasveit í síðasta lagi kl. 13:00. Býst við að þetta séu alveg um 20 km, þó að í bráðabirgðasamantekt á fjallvegahlaup.is sé talað um 17 km. Þetta fer allt eftir því hvaðan er mælt.

2. Þrístrendingur, laugardag 21. júní
Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í fimmta sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasöguna frá liðnu sumri er að finna á vísum stað á bloggsíðunni minni.

3. Hamingjuhlaupið, laugardag 28. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 6. sinn. Það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur, enda ekki keppt við tímann. Sagt er að hamingja þátttakenda margfaldist á leiðinni, hver sem leiðin annars er. Það er nefnilega breytilegt frá ári til árs. Hamingjuleiðin 2014 hefur ekki verið ákveðin, en heyrst hefur að hlaupið verði sunnan úr Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur, sömu leið og bræður mömmu fóru á böllin einhvern tímann eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þessi leið gæti verið svo sem 33 km og auðvelt að skipta henni í áfanga. Þetta verður betur kynnt áður en langt um líður, en frásögn af Hamingjuhlaupinu á liðnu sumri er auðvitað á sínum stað á blogginu.

4. Grárófa eða Skálavíkurheiði, fimmtudag 17. júlí (#36)
Hlaupahátíð á Vestfjörðum fer fram dagana 18.-20. júlí. Þar ætla ég að vera, og þá er náttúrulega upplagt að taka einn léttan fjallveg í sömu ferð. Upphaflega var ætlunin að hlaupa yfir Skálavíkurheiði sem er býsna viðráðanlegur og bílfær fjallvegur milli Bolungarvíkur og Skálavíkur, rétt um 12 km að lengd. En svo frétti ég af Grárófu eða Grárófuheiði milli Bolungarvíkur og Selárdals í Súgandafirði. Sú leið er álíka löng en öllu hrjóstrugri – og nafnið er forvitnilegt. Hún er því efst á listanum sem stendur. Aðrar heiðar á svipuðum slóðum gætu einnig komið til greina, en málið snýst þó bara um eina heiði í þessari ferð. Geri ráð fyrir að taka þátt í Óshlíðarhlaupinu á föstudagskvöldi og tvöfaldri Vesturgötu á sunnudegi. Hygg að þá verði ráðlögðum helgarskammti náð.

5. Hjaltadalsheiði, þriðjudag 5. ágúst (#37)
Vikuna eftir verslunarmannahelgi ætla ég að vera á ferð um miðbik Norðurlands og hlaupa þar þrjá vel valda fjallvegi. Hjaltadalsheiðin er sá eini þeirra sem ég er alveg búinn að ákveða, en hún liggur frá Reykjum í Hjaltadal að Staðarbakka í Hörgárdal. Þetta er vafalítið einn af erfiðari fjallvegunum, enda farið upp í 1.000 m hæð og yfir jökul. Leiðin er 29 km að lengd ef mér skjátlast ekki.

6. Leirdalsheiði, miðvikudag 6. ágúst (#38)
Daginn eftir Hjaltadalsheiðina langar mig að hlaupa annað hvort Leirdalsheiði frá Grýtubakka norður í Fjörður, nánar tiltekið Hvalvatnsfjörð, eða þá Flateyjardalsheiði frá Þverá í Dalsmynni að Brettingsstöðum í Flateyjardal. Býst frekar við að Leirdalsheiðin verði fyrir valinu að þessu sinni. Sú leið kvað vera 28 km að lengd. Ég hef aldrei komið í Fjörður og hlakka til að líta það svæði augum í fyrsta sinn.

7. Reykjaheiði, fimmtudag 7. ágúst (#39)
Á fimmtudeginum vil ég gjarnan taka því rólega og hlaupa einhvern stuttan fjallveg nyrðra. Þar er Reykjaheiði milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur efst á óskalistanum, en til vara kemur til greina að hlaupa um Gönguskarð ytra frá Ytra-Hóli í Fnjóskadal að Hálsi í Kinn. Reykjaheiðin er um 13 km og Gönguskarð ytra um 15. Með þessari uppröðun heiðanna fyrir norðan held ég opnum möguleikanum á að skella mér í Jökulsárhlaupið laugardaginn 9. ágúst. Sjáum til með það.

8. Skálmardalsheiði, laugardag 16. ágúst (#40)
Upphaflega ætlaði ég að hlaupa Skálmardalsheiðina frá Skálmardal í Reykhólahreppi að Gervidal við Ísafjörð síðasta haust, en hætti við það vegna leiðinlegs veðurútlits. Nú skal úr því bætt. Leiðin er um 19 km.

Þetta læt ég nægja í bili og hlakka til að heyra og sjá viðbrögðin. Ég er að sjálfsögðu opinn fyrir öllum góðum tillögum, þ.m.t. tilraunum til að sannfæra mig um að velja fleiri heiðar, eða aðrar og betri heiðar en hér hafa verið taldar upp. Sömuleiðis er fróðleikur um fjallvegi alltaf vel þeginn, bæði þá sem ég er með á lista og alla hina.

Sem fyrr vonast ég til að sjá sem flest ykkar á þessum hlaupum. Samkvæmt lauslegri talningu hafa samtals 42 manns fylgt mér til þessa í a.m.k. einu fjallvegahlaupi. Á þessum ferðalögum hafa skapast kynni sem skipta mig miklu máli og eru á einhvern hátt öðru vísi en flest önnur kynni. Og þau endast vel!

Þessa mynd tók Sævar Skaptason af Pjetri St. Arasyni, mér og Bryndísi Óladóttur norðanvert í Reindalsheiði sl. sumar í einu af eftirminnilegastu fjallvegahlaupunum.

Þessa mynd tók Sævar Skaptason af Pjetri St. Arasyni, mér og Bryndísi Óladóttur norðanvert í Reindalsheiði sl. sumar í einu af eftirminnilegustu fjallvegahlaupunum.

Hlaupaannáll 2013 og markmiðin 2014

RM 2013 Valgerður 235Nú er hlaupaárið 2013 á enda og nýtt ár framundan. Á svoleiðis tímamótum er ég vanur að horfa um öxl, velta fyrir mér því sem hlaupin hafa gefið mér og kennt á liðnu ári og íhuga hvert skuli stefnt á hlaupum á nýja árinu. Hlaup hafa verið eitt mitt helsta áhugamál og skemmtun í rúma 4 áratugi, en fyrir mér eru hlaup ekki bara hlaup. Vangavelturnar í kringum þau eru ekki síður mikilvægar. Hlaupin eru líka svolítið eins og smækkuð mynd af lífinu. Á báðum stöðum þarf úthald og seiglu til að ná árangri og á báðum stöðum skiptir máli að vita hvert maður ætlar, að setja sér markmið og vinna staðfastlega að því að ná þeim, að leggja ekki árar í bát þótt á móti blási og að skilja að ekkert hefst án fyrirhafnar, skilja að maður getur hvergi stytt sér leið. Hvorki í lífinu né í hlaupunum getur maður uppskorið án þess að sá eða fiskað án þess að róa.

Besta hlaupaárið til þessa
Ég byrjaði að hlaupa mér til gamans árið 1970 eða þar um bil og hef gert það meira eða minna allar götur síðan. En af öllum þessum árum var árið 2013 án nokkurs vafa allra besta hlaupaárið. Í stuttu máli gekk allt upp sem ég ætlaði mér – og jafnvel gott betur. Afraksturinn voru m.a. persónuleg met í hálfu maraþoni, maraþoni og á Laugaveginum og meiri gleði en ég mundi eftir að hægt væri að hafa af þessari iðju. Það er líka einhvern veginn þannig að maður kann betur að meta það sem vel gengur eftir því sem árin færast yfir. Það er nefnilega ekkert sjálfsagt að maður hafi heilsu langt fram á sextugsaldurinn til að hlaupa um hæðir og hóla að vild, hvað þá að maður fari hraðar yfir ár frá ári. Þetta eru forréttindi sem verða seint fullþökkuð.

Öll markmiðin náðust – nema það auðveldasta
Í ársbyrjun setti ég mér sjö markmið fyrir hlaup ársins, eins og lesa má um í þar til gerðum pistli frá 6. janúar 2013. Ég ætlaði sem sagt að 1) hlaupa Laugaveginn undir 6 klst, 2) hlaupa a.m.k. sex fjallvegahlaup, 3) hlaupa a.m.k. 2 maraþonhlaup, 4) bæta mig í maraþoni, 5) bæta mig í hálfu maraþoni, 6) hlaupa a.m.k. 2.500 km á árinu og 7) hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Öll þessi markmið náðust, nema það auðveldasta, þ.e.a.s. að hlaupa sex fjallvegi. Þeir urðu bara fimm.

Hvernig er þetta hægt?
Ég hef oft verið spurður að því síðustu mánuði hvernig standi eiginlega á því að ég sé enn að bæta mig, orðinn 56 ára gamall. Oftast hef ég svarað því til að þetta séu engin geimvísindi, ég hafi einfaldlega æft betur en nokkru sinni fyrr. Stundum minni ég líka á að enginn sé eldri en honum finnst hann vera, og að ég hafi auk þess gætt þess að „toppa ekki of snemma“. Vissulega keppti ég í hlaupum á mínum yngri árum, en aldrei lengra en 10 km. Þá tíma á ég ekki möguleika á að slá. Hins vegar byrjaði götuhlaupaferillinn ekki fyrr en 1985 og þar hefur árangurinn farið batnandi jafnt og þétt samfara meiri reynslu og meiri og skynsamlegri æfingum. Annars er ekki til neitt eitt rétt svar við þessari spurningu frekar en flestum öðrum spurningum. Svarið er margþætt. Ég hljóp oftar og lengra en áður og æfingarnar voru miklu fjölbreyttari, meira um sprettæfingar, styrktaræfingar, hægar æfingar og hlaup með öðru fólki. Allt þetta skiptir máli. Hér gilda engar skyndilausnir eða kínalífselexírar.

Eftirfarandi þrjár skýringarmyndir segja nokkurn veginn það sem segja þarf um lykilinn að framförum mínum á þessu nýliðna ári. Sú fyrsta sýnir hlaupamagn eftir vikum 2013, sú næsta hlaupamagn eftir mánuðum og sú þriðja samanlagt hlaupamagn á hverju ári á tímabilinu 1991-2013.

Hlaup 2013 vikur web

Hlaup 2013 mán web

Hlaup 2013 ár web

Hlaupaæfingar ársins
Grunnurinn að góðum árangri ársins var lagður með góðum æfingum fyrstu þrjá mánuðina. Þessa mánuði lagði ég samtals 922 km að baki en mest hafði ég áður hlaupið 636 km í janúar-mars 2011. Í mars 2013 hljóp ég til dæmis 324 km, sem er það mesta sem ég hef náð í einum mánuði til þessa. Og vika nr. 9, 25. febrúar til 3. mars, var sömuleiðis lengsta vikan á ferlinum, 102,11 km. En magnið er ekki allt. Fjöldi æfinga og innihald þeirra skiptir ekki síður máli. Þegar best lét hljóp ég 6 sinnum í viku, þar af eina sprettæfingu, eina langa æfingu (um 30 km), eina meðallanga æfingu, eina styrktaræfingu og tvær örhægar æfingar. Inn í lengstu æfingarnar setti ég hraðari kafla, t.d. þannig að síðari hlutinn væri um 10% hraðari en fyrri hlutinn. Allt tók þetta mið af einhverri áætlun sem ég fann á netinu og aðlagaði eigin þörfum með sérstöku tilliti til Parísarmaraþonsins sem var á dagskrá 7. apríl. Og allt byggði þetta á ákvörðun sem ég tók einhvern tímann undir lok ársins 2012, um að prófa að æfa meira og betur en fyrr og athuga hverju það myndi skila.

Eftir Parísarmaraþonið dró ég töluvert úr æfingamagninu en hélt mér þó vel við efnið með tiltölulega hröðum æfingum. Ætlaði að bæta miklum brekkuæfingum í pakkann þegar kæmi lengra fram á vorið til að undirbúa mig fyrir Laugaveginn, en minna varð úr því en áformað var. Fór þrjár ferðir á Hafnarfjallið í júní, en meira var það nú ekki.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið seint í ágúst minnkaði ég æfingarnar enn frekar. Ætlaði reyndar að halda nokkurn veginn mínu striki fram að haustmaraþoni, en annríki í vinnu kom í veg fyrir að sú áætlun gengi upp. Í raun hljóp ég því frekar lítið í september og október. Eftir haustmaraþonið í lok október tók ég mér svo þriggja vikna frí frá hlaupum, en svoleiðis nokkuð hef ég ekki gert ótilneyddur mörg síðustu ár. Þetta ákvað ég með löngum fyrirvara. Taldi rétt að hvíla skrokkinn aðeins eftir óvenjumikið hlaupaálag það sem af var árinu, jafnvel þótt ég fyndi engin merki um þreytu né krankleika. Allur er varinn góður.

Síðustu vikur ársins tók ég því áfram frekar rólega. Einsetti mér þó að hlaupa a.m.k. þrisvar í viku, samtals a.m.k. 40 km. Þann skammt lít ég á sem viðhaldsþjálfun á tímum þegar langt er í næsta stóra hlaupaverkefni. Þegar upp var staðið voru kílómetrar ársins orðnir samtals 2.731 sem gerir þetta ár að langlengsta hlaupaárinu mínu hingað til. Fyrra metið var 2.428 km á árinu 2011.

Það sem stendur upp úr þegar ég lít til baka yfir æfingar ársins er meiðslaleysið. Hlaupaárið 2012 fór að miklu leyti í vaskinn vegna meiðsla, og sú reynsla nýttist mér vel 2013. Í upphafi árs var ég orðinn nokkuð góður og tókst að verja þá stöðu með því að beita þokkalegri skynsemi. Meiðsli roskinna langhlaupara eiga sér flest eina og sömu orsök, sem heitir í stuttu máli „of mikið of fljótt“. Það er t.d. ekki góð hugmynd fyrir fólk eins og mig að taka sprettæfingar á fullu álagi daginn eftir erfið hlaup, sérstaklega þegar kalt er í veðri. Reynslan getur verið strangur kennari, en það borgar sig að taka mark á henni.

Keppnishlaupin
Árið 2007 ákvað ég að gera hlaupin að lífsstíl. Þá var ætlunin að leggja mesta áherslu á fjallvegahlaupaverkefnið mitt, en síðan hef ég í raun leiðst meira og meira út í götuhlaupin. Árið 2013 var ég t.d. að eigin mati talsvert sterkari á malbikinu en í fjalllendi. Mér finnst skemmtilegt að blanda þessu saman, því að þannig verður upplifunin fjölbreyttari.

Samtals urðu keppnishlaupin 11 talsins þetta árið og hafa bara einu sinni verið fleiri (2011). Fyrsta hlaupið var Poweradehlaup 14. febrúar. Leit á það sem góða hraðaæfingu fyrir Parísarmaraþonið, en ætlaði mér að öðru leyti ekkert sérstakt. Tíminn, 41:58 mín, kom mér þægilega á óvart, enda var þetta þriðji besti 10 km götuhlaupatíminn frá upphafi (í 25 hlaupum). Þetta var staðfesting á því að undirbúningurinn fyrir París væri á réttri leið.

Hjálparhellurnar mínar Birgitta og Jóhanna við Foch Avenue að hlaupi loknu.

Hjálparhellurnar mínar Birgitta og Jóhanna við Foch Avenue að loknu Parísarmaraþoni.

Næst var það svo sjálft Parísarmaraþonið 7. apríl. Þar stefndi ég óhikað að því að ná mínum besta maraþontíma, en áður hafði ég best hlaupið á 3:17:07 klst. í Reykjavík 2009. Miðað við gengi mitt á æfingum vetrarins átti þetta ekki að vera mikið vandamál, og ég sá jafnvel fram á að geta hlaupið nálægt 3:10 klst. Slæm kvefpest og önnur skakkaföll dagana fyrir hlaupið gerðu það þó að verkum að ég var ekkert sérlega vel upplagður þennan morgun á breiðgötunni Champs-Élysées. Væntingarnar snerust því fyrst og fremst um að ég fengi notið hlaupsins. Allt annað væri kaupauki. Skemmst er frá því að segja að allt gekk eins og best verður á kosið og ég kom í mark á 3:14:44 klst. vel studdur af dætrum mínum tveimur sem áttu stærstan þátt í að gera þessa Parísarferð að sannkölluðu ævintýri. Ferðasagan öll er skráð annars staðar á þessum vef.

Þriðja keppnishlaup ársins var Víðavangshlaup ÍR sumardaginn fyrsta, en þar mætti ég síðast til leiks fyrir 39 árum. Þarna náði ég þeim langþráða áfanga að hlaupa 5 km á skemmri tíma en 20 mínútum, nánar tiltekið á 19:59 mín. Þetta var besti tíminn minn í 5 km götuhlaupi, en síðast hljóp ég undir 20 mín í brautarhlaupi á Blönduósi sumarið 1980.

Næst var röðin komin að Icelandairhlaupinu 2. maí, en þetta er árlegt 7 km hlaup í kringum Vatnsmýrina, sem ég tók nú þátt í fjórða árið í röð. Enn gekk allt eins og í sögu og ég náði mínum langbesta tíma til þessa, 28:16 mín. Þetta var enn skemmtilegra fyrir þá sök að þrír aðrir Flandrafélagar voru með í för, auk þess sem ég hafði góðan félagsskap af Evu Skarpaas alla leiðina.

Fimmta hlaupið var 10 km styrktarhlaup fyrir Heimsleika líffæraþega (WTG). Hlaupið var haldið í Fossvogi þann 15. maí á sömu braut og árlegt Fossvogshlaup. Ég hafði verið á einhverjum misskemmtilegum fundum í Reykjavík þennan dag og var hreint ekki vel upplagður til hlaupa. Lét mig þó hafa það, en var laus við allar væntingar. Tókst þó að halda jöfnum og góðum hraða í gegnum allt hlaupið og ljúka því á 41:03 mín, sem var vel að merkja bara 3 sek. frá besta tímanum mínum í 10 km götuhlaupi frá upphafi. Þeim tíma náði ég í Ármannshlaupinu 1996.

Þann 1. júní var röðin komin að Mývatnsmaraþoninu, en ferðin norður var um leið fyrsta eiginlega keppnisferð hlaupahópsins Flandra. Ég ákvað að skella mér í heilt maraþon, ákveðinn í að spara samt kraftana til þess að taka ekki of mikinn toll af skrokknum og möguleikum á að standa sig í hlaupum næstu daga og vikur þar á eftir. Stefndi að því að hlaupa á u.þ.b. 3:20 klst. án mikillar áreynslu. Þetta gekk eftir, nema hvað áreynslan varð ívið meiri en að var stefnt, einkum vegna stöðugs mótvinds á fyrri hluta hlaupsins. Lokatíminn var 3:20:41 klst. sem dugði mér í 2. sætið á eftir Sigurjóni Sigurbjörnssyni. Það er ekki leiðinlegt að vera næstur á eftir slíkum ofurhlaupara!

Flandragleði að loknu Mývatnsmaraþoni. (Ljósm. Björk Jóhanns).

Flandragleði að loknu Mývatnsmaraþoni. (Ljósm. Björk Jóhanns).

Laugavegurinn 13. júlí var enn eitt ævintýrið. Þar stefndi ég að því að hlaupa á skemmri tíma en 6 klst. og vissi svo sem vel að það átti ekki að reynast mér mjög erfitt. Þetta var annað Laugavegshlaupið mitt, en sumarið 2007 hafði ég farið leiðina á 6:41 klst. með miklu minni undirbúning og reynslu en nú. Veðrið var að vísu ekki hagstætt, frekar kalt og blautt og vindurinn að mestu leyti í fangið. Hvað sem því líður var þetta ein stærsta upplifun ársins. Sérstaklega er mér eftirminnilegt augnablikið þegar ég kom að skálanum í Emstrum rétt áður en klukkan small í 4 klst. Því átti ég satt best að segja ekki von á. Lokatíminn var 5:52:33 klst., sem er reyndar næst besti tími sem 55-59 ára Íslendingur hefur náð á þessum spotta það sem af er. Aðeins Sigurjón Sigurbjörnsson hefur gert betur. Að hlaupi loknu kom líka í ljós að ég hafði unnið 50 ára flokkinn nokkuð örugglega. Það fannst mér heldur ekkert leiðinlegt. Og til að gera þetta enn skemmtilegra var Birkir Þór Stefánsson, skíðagöngukappi og bóndi í Tröllatungu, með mér í þessu ferðalagi. Laugavegurinn var án efa einn af hápunktum ársins, bæði í hlaupunum mínum og lífinu yfirleitt.

Síðustu skrefin á Laugaveginum, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót). (Ljósm. Hlaup.is).

Síðustu skrefin á Laugaveginum, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót). (Ljósm. Hlaup.is).

Áttunda keppnishlaup ársins var Hreppslaugarhlaupið sem var haldið í fyrsta sinn 15. ágúst. Þarna var hlaupinn 14,2 km hringur neðst í Skorradal, sem ég þekki reyndar vel. Hafði hlaupið þennan sama hring nákvæmlega 22 sinnum áður á æfingum. Ég var ekki vel stemmdur fyrir þetta hlaup, en þar gekk þó allt eftir áætlun eins og í öðrum hlaupum ársins. Ég hafði látið mig dreyma um að hlaupa hringinn á 1 klst. og var býsna nálægt því. Kom í mark á 1:00:16 klst., annar á eftir margnefndum Sigurjóni. Þessi tími lofaði góðu fyrir Reykjavíkurmaraþonið rúmri viku síðar.

Reykjavíkurmaraþonið 24. ágúst var eitt allsherjar ævintýri frá upphafi til enda. Ég fór ekki í þetta hlaup til að slá met, hvorki persónuleg né önnur, heldur fyrst og fremst til þess að njóta dagsins og gleðjast. Ég vissi alveg að ég var í góðu formi, en undirbúningurinn hafði samt ekki verið sérlega markviss. Raunhæft markmið var að ná mínum næstbesta tíma til þessa, þ.e. undir 3:17 klst, en ég gerði mér engar grillur um að bæta „metið“ frá París. Vissi þó að það gat svo sem alveg fallið ef allt gengi upp, án þess að það væri sérstaklega á dagskrá. Í stuttu máli fór þetta allt fram úr björtustu vonum. Ég lauk hlaupinu á 3:08:19 klst, en þeim tíma hafði mig eiginlega aldrei dreymt um að ná í lífinu. Þetta var svo sannarlega efni í langa bloggfærslu. Og mér sem þykir svo einstaklega gaman að spá í tölur og afrekaskrár, fannst þetta heldur ekkert verra þegar ég komst að því að þetta var þriðji besti tími 55-59 ára karls frá upphafi.

Í faðmi fjölskyldunnar eftir besta maraþon ævinnar í Rvík 2013. (Ljósm. Valgerður Gísladóttir).

Í faðmi fjölskyldunnar eftir besta maraþon ævinnar í Rvík 2013. (Ljósm. Valgerður Gísladóttir).

Eftir Reykjavíkurmaraþonið rifaði ég seglin eins og áður hefur komið fram. Gat þó ekki stillt mig um að hlaupa 10 km í Fossvogshlaupinu 5 dögum síðar. Lauk því á 41:46 mín, sem var miklu betri tími en mér hafði dottið í hug að ná með maraþonið í fótunum. Reyndar var þetta mjög óskynsamlegt, því að 5 dagar eru allt of stuttur tími til að jafna sig á maraþoni. Mér leið líka illa í fótunum á meðan á hlaupinu stóð. En ég slapp við meiðsli. Slapp með öðrum orðum með skrekkinn, en lofaði sjálfum mér að gera þetta aldrei aftur.

Síðasta keppnishlaup ársins var hálft maraþon í haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara 26. október. Þarna var ég hættur að vera í toppformi enda æfingarnar minni en æskilegt hefði verið. Bjóst samt allt eins við að ná mínum besta tíma. Það gekk eftir, því að ég lauk hlaupinu á 1:31:12 klst. og bætti þar með persónulega metið mitt frá vorinu 2010 um 1:26 mín.

Í stuttu máli gekk allt upp í keppnishlaupum ársins. Afraksturinn var besti tími ævinnar í 5 km götuhlaupi, hálfu maraþoni, heilu maraþoni og á Laugaveginum. Og í 1o km götuhlaupi vantaði bara 3 sekúndur.

Á heiðarvaði í Hrútá inn af Fáskrúðsfirði þar sem komið er niður af Stuðlaheiði. Þarna er allt sem hugur fjallvegahlauparans girnist. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Á heiðarvaði í Hrútá inn af Fáskrúðsfirði þar sem komið er niður af Stuðlaheiði. Þarna er allt sem hugur fjallvegahlauparans girnist. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Fjallvegahlaupin
Síðastliðið sumar var 7. sumarið af 10 í fjallvegahlaupaverkefninu mínu, en áður en sumrin 10 eru liðin ætla ég að vera búinn að hlaupa 50 fjallvegi. Afrakstur sumarsins á þessu sviði voru 5 fjallvegir, nánar tiltekið Selvogsgata sem ég hljóp í góðum félagsskap í maí og fjórir fjallvegir á Austurlandi sem voru lagðir að baki á tveimur hlýjum og sólríkum sumardögum í júlí. Tveir þessara fjallvega, þ.e.a.s. Stuðlaheiði og Reindalsheiði, eru án efa í hópi þeirra eftirminnilegustu það sem af er. Þar var allt sem hugurinn girnist á svona ferðalögum: Einstök veðurblíða, há fjöll, fannir, straumþung vatnsföll, einsemd og félagsskapur, auðnir og gróskumikill gróður. Sérstaklega er mér minnisstæð leiðin af Reindalsheiði niður í Fossdal, sem gengur norður úr norðurdal Breiðdals. Þarna var skjól fyrir vindi og öðru heimsins amstri, sól skein í heiði og hitamælirinn hefði sýnt 20°C ef hann hefði á annað borð verið til staðar. Og ekki spilltu upplifuninni veitingarnar sem biðu okkar heima á Gilsá að hlaupi loknu.

Þegar þetta er ritað er ég búinn með 34 fjallvegi af 50, sem er reyndar einum minna en það ætti að vera. Sú skekkja verður leiðrétt fyrr en síðar. Og af því að ég hef svo gaman að tölum sakar ekki að nefna að það sem af er hafa samtals 42 hlauparar tekið einhvern þátt í þessu með mér. Þarna hafa skapast kynni sem eru gerð til að endast. Öllum fjallvegahlaupunum mínum eru gerð skil á heimasíðu verkefnisins, fjallvegahlaup.is. Reyndar er ég á eftir áætlun með ferðasögurnar, en allt kemur þetta inn með tímanum.

Skemmtihlaupin
Árlega stend ég fyrir eða á að minnsta kosti einhvern þátt í þremur skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Síðasta vor var þetta hlaup þreytt í 4. sinn þann 9. maí. Umræddur hringur er í nágrenni Borgarness, rúmlega 21 km að lengd heiman að frá mér og heim. Þetta er eiginlega boðshlaup, því að hluti af uppákomunni er kjötsúpa sem lífsförunauturinn hún Björk galdrar fram að hlaupi loknu úr hráefni frá Rögnvaldi bróður mínum, bónda í Gröf í Bitru. Og svo er það heiti potturinn, sem nýtur sívaxandi vinsælda. Þetta árið voru þátttakendur eitthvað um 15 talsins, þar af 10 sem hlupu hringinn allan. Sjálfur var ég að hlaupa hringinn í 95. sinn, en þar hef ég eytt mörgum laugardagsmorgninum síðustu 6 ár.

Þrístrendingur er annað skemmtihlaup sem komin er ákveðin hefð á. Reyndar var það Dofri Hermannsson, frændi minn frá Kleifum í Gilsfirði, sem átti hugmyndina að þessu hlaupi og hefur haldið utan um það frá upphafi með smáaðstoð frá mér. Leiðin liggur um þrjár firði, þrjá fjallvegi, þrjár sýslur og þrjár strendur, þ.e. úr Gilsfirði norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks suður (eða vestur) Krossárdal, aftur að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en staðhættir þannig að auðvelt er að taka bara einn eða tvo áfanga af þremur ef heildarvegalengdin vex mönnum í augum. Núna var Þrístrendingur hlaupinn í 4. sinn og bar hlaupið upp á laugardaginn 22. júní. Þátttakendur voru 14 þegar allt er talið, þar af 10 sem létu sig ekki muna um að skokka alla leiðina. Veðrið var með því besta sem gerist, endalaus sól og blíða. Og ekki spilltu veitingarnar hjá Rögnvaldi og Arnheiði í Gröf upplifun dagsins.

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknum Þrístrendingi 2013.

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknum Þrístrendingi 2013.

Þriðja árlega skemmtihlaupið er Hamingjuhlaupið sem tengist bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Leiðin er mismunandi ár frá ári, en fyrirkomulagið alltaf svipað. Þarna er fylgt svipaðri áætlun og hjá Strætó, þ.e.a.s. komið við á ákveðnum stöðum á ákveðnum tíma og mikið lagt upp úr því að koma hvorki of seint né of snemma á leiðarenda. Hlaupið var nú þreytt 5. árið í röð og fór fram laugardaginn 29. júní. Lagt var upp frá Árnesi í Trékyllisvík um hádegisbil og komið til Hólmavíkur um 8-leytið um kvöldið eftir 53 km hlaup um heiðar og dali. Nánar tiltekið lá leiðin yfir Trékyllisheiði sem mörgum þykir í hrjóstugra lagi. Að minnsta kosti hélt  Jakob Thorarensen skáld frá Gjögri því fram í kvæði sem birtist í Sunnanfara árið 1914, að þar væri „jafn þurlegt og í dómssal, eins þögult og í gröf“. Það átti ekki vel við þennan dag, því að miklar fannir voru á heiðinni en veðurblíðan slík að þess gerast fá dæmi. Móttökurnar á Hólmavík voru líka höfðinglegar og sérstök forréttindi að fá að skera fyrstu sneiðina af heimsfrægu hnallþórhlaðborði heimamanna að hlaupi loknu.

Hlaupahópurinn Flandri
Ég get ekki sagt skilið við hlaupaárið 2013 án þess að minnast á þátt hlaupafélaga minna í hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi í eigin velgengni. Ég átti þátt í að koma þessum hóp á laggirnar haustið 2012 og bjóst þá við að hann myndi heldur verða til þess að hægja á mér á hlaupunum frekar en hitt. En annað kom á daginn: Flandri bætti tilgangi við hlaupin mín og veitti um leið ákveðið aðhald, því að sem einn af forsvarsmönnum hópsins bar mér viss skylda til að mæta á reglubundnar hlaupaæfingar hópsins þrisvar í viku. Þar með komst betri regla á hlaupin en áður, því að þessir tímar voru fráteknir, nánast sama hvað á gekk í vinnu og öðrum verkum. Hlaupamagnið hjá mér þurfti eðlilega að vera meira en hjá flestum öðrum í hópnum, þar sem markmiðin mín snerust um lengri hlaup en hjá hinum. En þetta var auðvelt að leysa með því að hlaupa góðan spöl áður en æfingarnar byrjuðu. Þannig náði ég líka að stytta vegalengdirnar í huganum, því að hlaup sem áður var t.d. 30 km varð allt í einu bara 20 km og síðan 10 km með félögum mínum í Flandra. Oft tók ég t.d. laugardaginn snemma, hljóp fyrst 10 km eitthvað út í buskann á frekar litlum hraða (t.d. 20% hægar en áætlaður maraþonhraði) og aðra 10 til baka á meiri hraða (10% hægar en maraþon). Svo var haldið aftur af stað eftir nokkurra mínútna hlé í þriðja 10 km spölinn með félögunum, sem sumir voru vel að merkja orðnir hraðskreiðari en ég á styttri vegalengdum.  Félagsskapurinn skiptir miklu máli, líka fyrir menn eins og mig sem hafa hlaupið einir áratugum saman!

Á fjölmennri Flandraæfingu 22. apríl 2013.

Á fjölmennri Flandraæfingu 22. apríl 2013.

Markmiðin 2014
Eins og áður sagði náði ég öllum þeim markmiðum sem ég setti mér fyrir hlaupaárið 2013, nema hvað fjallvegahlaupin urðu einu of fá. Ég horfi því fram á við fullur bjartsýni. Í samræmi við það eru markmiðin fyrir árið 2014 sem hér segir:

 1. Bæting í maraþoni (undir 3:08:19 klst).
 2. Hálft maraþon undir 1:30 klst.
 3. Bæting í 10 km götuhlaupi (undir 41:00 mín).
 4. A.m.k. sex fjallvegahlaup
 5. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Allt eru þetta kunnugleg markmið, en sum eru ívið meira krefjandi en undanfarin ár, sérstaklega það fyrsta. En ef síðasta markmiðið næst er ég sáttur, því að þar með er tryggt að ég leggst ekki í þunglyndi þótt hin markmiðin náist ekki.

Helstu dagsetningar
Til að styðja við markmiðin hér að framan og sjálfum mér til minnis datt mér í hug að bæta við nokkrum lykildagsetningum sem hafðar verða í huga á árinu 2014:

 • Laugard. 26. apríl 2014: Vormaraþon FM, stefnt að góðum tíma í hálfmaraþoni
 • Fimmtud. 29. maí 2014: Uppstigningardagur: Hinn árlegi Háfslækjarhringur og minn hundraðasti
 • Laugard. 7. júní 2014: Mývatnsmaraþon, hópferð með Flandra og heilt maraþon á rólegum nótum
 • Laugard. 21. júní 2014: Þrístrendingur í 5. sinn
 • Laugard. 28. júní 2014: Hamingjuhlaupið í 6. sinn, hugsanlega úr Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur
 • Helgin 18.-20. júlí 2014: Hlaupahátíð á Vestfjörðum, hópferð með Flandra og 45 km Vesturgata á sunnudegi
 • Laugard. 23. ágúst 2014: Reykjavíkurmaraþon: Heilt maraþon 6. árið í röð
 • Sunnud. 12. okt. 2014: Münchenmaraþon með Bændaferðum og Flandra: Bæting í heilu maraþoni
 • Júlí 2015: Laugavegurinn í 3. sinn
 • Síðsumars 2016: Fimmtugasta og síðasta hlaupið í Fjallvegahlaupaverkefninu
 • Júlí 2017: Laugavegurinn í 4. sinn
 • Sept. 2017: Berlínarmaraþon á góðum tíma miðað við aldur og fyrri störf

Þakkir
Svei mér þá ef ég verð ekki þakklátari með hverju ári sem líður. Að einhverju leyti er þetta vaxandi þakklæti eintóm eigingirni, því að þakklæti er nefnilega góð tilfinning fyrir þann sem hefur hana. En fyrst og fremst hef ég þó ærna ástæðu til að vera þakklátur; þakklátur forsjóninni fyrir að hafa leyft mér að njóta þessa áhugamáls í meira en 40 ár án nokkurra verulega skakkafalla, þakklátur Björk fyrir að umbera áhugamálið síðustu 35 ár og fyrir að styðja mig í því á alla lund, m.a. með ómældri aðstoð í tengslum við fjallvegahlaupin, þakklátur Þorkeli syni mínum fyrir að hlaupa stundum með mér og miðla mér af þekkingu sinni á þjálfun hlaupara, þakklátur dætrunum Birgittu og Jóhönnu fyrir að hafa gaman að öllu saman og sérstaklega fyrir að fylgja mér til Parísar, þakklátur hlaupafélögunum í Flandra fyrir áhuga, stuðning og samveru, þakklátur þeim sem hafa fylgt mér yfir fjallvegi í góðum veðrum og slæmum og þakklátur öllum hinum sem hafa hvatt mig og sýnt áhuga sinn í orði og verki. Ég er svo heppinn að það er ofaxið skilningi mínum. Og inn í allt þetta þakklæti blandast tilhlökkunin til alls þess sem framundan er. Árið 2014 verður gott ár, hvernig sem einstökum markmiðum reiðir af.

Í minningu vonar um betra stjórnarfar

IgnorantNú eru liðin þrjú ár frá því að íslenska þjóðin gerði tilraun til að kjósa sér stjórnlagaþing. Sú tilraun mistókst, í fyrsta lagi vegna þess að afturhaldsöflum tókst að fá niðurstöður kosningarinnar ógiltar, þrátt fyrir að ekkert benti til að ágallarnir hefðu haft áhrif á niðurstöðuna og í öðru lagi vegna þess að Alþingi skorti kjark til að þoka málinu áleiðis eftir að fulltrúar í stjórnlagaráði höfðu lagt á sig mikla og aðdáunarverða vinnu við að semja drög að þessu grunnskjali íslensks stjórnkerfis.

Þegar horft er til baka yfir þessi þrjú ár blasir við döpur mynd: Við sitjum enn uppi með úrelta stjórnarskrá sem að grunni til var samin í Danmörku á 5. áratug þarsíðustu aldar (árið átjánhundruðfjörutíuogeitthvað), stjórnarskrá sem okkur hefur allan þennan tíma skort víðsýni og samstöðu til að breyta, ef frá eru taldar nokkrar takmarkaðar leiðréttingar. Enn eru mörkin milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds svo óskýr að hætta stafar af, enn er verksvið forseta Íslands svo óljóst að sá sem gegnir því embætti getur túlkað hlutverk sitt nánast að vild og yfirtekið að hluta það vald sem aðrir eru kosnir til að fara með, enn eru úrræði til þess að leita álits þjóðarinnar á álitamálum sem upp koma í starfi löggjafans svo takmörkuð að meirihluti Alþingis á hverjum tíma getur farið fram eins og honum sýnist svo lengi sem forsetinn grípur ekki í taumana upp á sitt einsdæmi og enn leyfist mönnum að einkavæða gróða af nýtingu náttúruauðlinda og þjóðnýta tapið þegar illa fer.

Fyrir þremur árum var ég einn þeirra sem gaf kost á mér til setu á stjórnlagaþingi. Úrslit kosninga voru mér mikil vonbrigði á þeim tíma, því að 25 einstaklingar náðu kjöri og ég lenti í 27. sæti af 522 frambjóðendum. Ég var með öðrum orðum „næststigahæsta tapliðið“. Minnstu munaði að ég yrði eftir sem áður kvaddur til starfa í stjórnlagaráði eftir að einn fulltrúinn dró sig í hlé. Þar með var „stigahæsta tapliðið tekið inn í mótið“ og ég var fremstur í flokki þeirra sem stóðu fyrir utan. Eftir á að hyggja var þetta besta niðurstaða sem ég get hugsað mér, því að ég hefði ómögulega viljað leggja mig allan fram mánuðum saman til þess eins að láta hafa alla þá vinnu að engu.

Nú hefur Alþingi skipað enn eina stjórnarskrárnefndina. Hún er skipuð mætasta fólki, en samt er augljóst að þar verður engin ný nóta slegin. Enn er þar reynd sú aðferð sem hefur verið margreynd áður og ávallt mistekist.

Vonin um betra stjórnarfar lifði góðu lífi haustið 2010. Nú er sú von minningin ein. Framtíðin kemur, en þeir sem ráða ferðinni telja hag sínum betur borgið með því að sniðganga tækifærin sem gefast til að móta hana. Viðhorf fortíðar munu ráða ferðinni enn um sinn.

Follow

Get every new post delivered to your Inbox.