Maraþons notið í München

Að hlaupi loknu. (Ljósm. Inga Dís).

Að hlaupi loknu. (Ljósm. Inga Dís Karlsd.).

Síðastliðinn sunnudag hljóp ég maraþon í München og náði næstbesta tímanum mínum frá upphafi. Markmiðið var reyndar að bæta þann tíma um eina sekúndu í það minnsta, en þegar upp var staðið vantaði 12 sekúndur upp á. En maraþonhlaup er ekki bara hlaup, heldur viðburður sem á sér margar hliðar. Þetta er ekki bara líkamlegt viðfangsefni, heldur ekki síður andlegt, já og reyndar líka félagslegt því að enda þótt maður hlaupi vissulega á eigin fótum en ekki annarra, þá er maður háður mörgum öðrum um framkvæmdina og ferlið allt. Þess vegna fjallar þessi pistill ekki bara um kílómetra, mínútur, meðalhraða og svita, heldur líka um svolítið brot af öllu hinu.

Hugmyndin
Núna er liðið um það bil ár síðan ég fékk þá flugu í höfuðið að skreppa til München til að hlaupa maraþon. Ég hef kynnst nokkrum svipuðum flugum um dagana. Sumar þeirra hafa lifað en flestar hafa horfið sporlaust þegar veruleikinn bankaði á dyrnar. Þessi umrædda fluga fæddist þegar ég heyrði af hópferð Bændaferða í Münchenmaraþonið í fyrra. Hvort tveggja var að ég hafði ekki farið í þess konar hópferð áður, og eins hitt að þarna var boðið upp á 10 km hlaup og hálfmaraþon, auk heila maraþonsins. Það fól í sér tækifæri til að gera þetta jafnframt að hópferð fyrir félaga í hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi. Þegar þarna var komið sögu átti hópurinn sér aðeins eins árs sögu og fáir í hópnum höfðu látið sér detta í hug að hlaupa heilt maraþon á næstu mánuðum. Hugmyndin fékk góðar undirtektir og nokkrum dögum síðar voru nokkrir af harðsnúnustu hlaupurunum búnir að skrá sig í ferðina, enda ekki seinna vænna því að flugan hafði greinilega átt greiða leið að kollum margra annarra, bæði norðan heiða og sunnan.

Undirbúningurinn
Undirbúningur fyrir svona ferð er í raun og veru alveg tvískiptur. Annars vegar þurfti að ganga frá lausum endum varðandi ferðalagið sjálft, þ.m.t. flugi og gistingu. Þetta var auðveldi hlutinn, því að Bændaferðir sáu um allt sem að þessu sneri. Þar var allt á hreinu frá upphafi, og ef einhver vandamál komu upp voru þau leyst jafnharðan með glöðu geði. Það var greinilegt á öllu að hjá Bændaferðum vinnur fólk sem finnst gaman í vinnunni og skortir aldrei vilja til að aðstoða þá sem til þeirra leita. Hins vegar þurfti að æfa sig eitthvað fyrir hlaupið.

Maður æfir svo sem ekki í heilt ár fyrir maraþonhlaup, eða það geri ég í það minnsta ekki. Engu að síður finnst mér skynsamlegt að sjá ár fram í tímann á hlaupabrautinni, er svo má að orði komast. Þarna var sem sagt búið að taka ákvörðun um að maraþonið í München yrði aðalhlaupaverkefni ársins 2014, sem þýddi að önnur verkefni hlutu að taka mið af því eftir því sem nauðsyn krafði. Í mínu tilviki þýddi þetta að ég lagði frekar litla áherslu á löng hlaup yfir vetrarmánuðina og reyndi þess í stað að byggja upp vöðvastyrk og hraða. Aðgerðir í þá veru hefðu svo sem getað verið markvissari, en allt ræðst þetta jú að hluta til af öðrum aðstæðum, þ.m.t. heimafyrir og í vinnunni. Eina nýjungin sem ég bætti við fyrri æfingar voru 10 hnébeygjur með 12 kg ketilbjöllu inni á baðherbergi á hverjum einasta morgni, allt frá því að Þorkell sonur minn gaf mér umrædda bjöllu á jólunum 2013. Svo hljóp ég bara þessa venjulega 40-50 km á viku, ýmist með félögum mínum í Flandra eða einn míns liðs, svona rétt til viðhalds. Þetta virtist virka ágætlega. Alla vega kom ég vel undan vetri, sem endurspeglaðist í persónulegum metum (hér eftir nefnd „PB“) í 5 km og hálfu maraþoni seint í apríl. Í maí féll svo persónulega metið í 10 km (41:00 mín) sem hafði staðið sem fastast í 18 ár. Ég hlaut sem sagt að vera á réttri leið, alla vega að einhverju leyti.

Fyrirfram hafði ég gert ráð fyrir því að hlaupa þrjú maraþon á þessu ári eins og í fyrra. Það finnst mér ekkert tiltökumál, enda reyni ég yfirleitt að vera í nógu góðu standi til að geta skellt mér í svoleiðis hlaup með tveggja eða þriggja vikna fyrirvara. Ætlunin var sem sagt að taka Mývatnsmaraþonið í byrjun júní, Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og svo München í október. Eftir hálfa vormaraþonið í lok apríl, þar sem ég náði sem sagt mínum besta tíma frá upphafi (1:29:25 klst.), hitti ég jafnaldra minn Sigurð P., sem státar af meiri reynslu á þessu sviði en flestir aðrir, enda handhafi Íslandsmetsins í maraþoni í áratugi. Honum leist miðlungi vel á hugmyndina um að hlaupa maraþon bæði í ágúst og október. Ef ég liti á októberhlaupið sem aðalhlaup ársins væri skynsamlegra að taka hálft maraþon á góðum tíma í Reykjavíkurmaraþoninu. Ef ég gæti klárað það dæmi undir 1:28 klst. yrði ég í miklu betri málum fyrir München en ef ég myndi hlaupa heilt maraþon með tilheyrandi bakslagi í æfingum dagana eða vikurnar þar á eftir. Ég setti þessa ábendingu bak við eyrað og sannfærðist smám saman um að þetta væri rétta leiðin. Ég vissi vel að ég gæti hlaupið tvö maraþon með nokkurra vikna millibili, enda hef ég gert svoleiðis áður. En maraþon og gott maraþon er sitt hvað.

Sumarið leið með rysjóttu tíðarfari en mörgum og fjölbreyttum hlaupum og hlaupaæfingum. Mývatnsmaraþonið var reyndar eitt af mínum lakari hlaupum, en þar setti óvenjuhátt hitastig sjálfsagt strik í reikninginn. En ég var fyrstur allra í mark, sem var auðvitað mjög skemmtilegt. Annar sigur bættist í safnið í löngu Vesturgötunni í júlí, en þar var keppendahópurinn reyndar í fámennara lagi. Þessu til viðbótar hljóp ég nokkur götuhlaup og náði að bæta 10 km tímann minn enn frekar, eða niður í 40:09 mín. Þá eru ótalin 6 fjallvegahlaup, Þrístrendingur, Hamingjuhlaup um Vatnadal og sitthvað fleira skemmtilegt. Ég setti mér svo það markmið fyrir Reykjavíkurmaraþonið að hlaupa hálft maraþon á 1:27:55 klst., og þó að þar vantaði 18 sek. uppá þegar á hólminn var komið var ég sýnilega kominn í betra hlaupaform en nokkru sinni fyrr, ef frá eru talin nokkur unggæðingsleg millivegalengdahlaup á árunum upp úr 1970.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið voru 7 vikur til stefnu fram að hlaupinu í München. Allar mælingar bentu til að ég ætti vel að geta náð markmiðinu mínu þar, þ.e.a.s. að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en ég hafði best gert áður. Umrætt PB var 3:08:19 klst. frá því í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. Það eina sem ég taldi vanta voru nokkrar langar hlaupaæfingar. Hraðinn var sem sagt nógur en spurning hversu lengi ég gæti haldið honum.

Æfingar haustsins gengu svo sem ágætlega, en vinna og aðrar ástæður gerðu það að verkum að eilítið minna varð úr en stefnt var að. Ég hafði þó ekki yfir neinu að kvarta, því að yfirleitt gekk allt upp sem ég reyndi og líkamleg heilsa var eins og best gerist, engin meiðsli höfðu gert vart við sig í rúm tvö ár og í raun lék allt í lyndi. Ég náði bara ekki alveg að skapa rými fyrir þessar löngu æfingar sem ég taldi vanta í safnið. Meðalvikan átta síðustu vikurnar varð þannig ekki nema 64 km, sem þykir sjálfsagt heldur naumt í þessu samhengi.

Ferðalagið til München

Nýja ráðhúsið við Maríutorgið í München.

Nýja ráðhúsið við Maríutorgið í München.

Hið eiginlega ferðalag til München hófst í Borgarnesi að kvöldi miðvikudagsins 8. október 2014. Það kvöld ókum við hjónin suður á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll, þar sem við gistum í góðu yfirlæti nóttina fyrir brottför á Start Hosteli hjá heiðurshjúunum Ragnheiði og Binna. Þau voru að vísu fjarverandi þessa nótt, en það fór engu að síður ágætlega um okkur. Í bítið morguninn eftir var svo lagt af stað í loftið, burt frá kulda og gosmóðu, áleiðis í sól og yl suður í Bæjaralandi. Og auðvitað sá Sævar Skaptason, fararstjóri og framkvæmdastjóri Bændaferða, um að ekkert færi úrskeiðis, allt frá þeirri stundu er við komum í flugstöðina og til ferðaloka tæpri viku síðar.

Flugferðin til München gekk að flestu leyti eins og í sögu og ástæðulaust að fjölyrða meira um hana. Bæjaraland tók á móti okkur með sólskini og 20 stiga hita. Þá tilfinningu var gott að upplifa eftir heldur snautlegt sumar suðvestanlands, a.m.k. í sólskinsstundum talið. Og fyrr en varði var hópurinn allur kominn heilu og höldnu inn á hótel Ibis við lengstu götuna í München, (Dachauer Strasse, 11,2 km. (Ath.: Þetta eru náttúrulega gagnslausar upplýsingar, enda er þeim eingöngu ætlað að krydda frásögnina)). Og þetta var enginn smáhópur. Eitthvað um 50 manns höfðu þegið boð Bændaferða um að skipuleggja þessa maraþonferð og þar af voru hvorki meira né minna en 7 á vegum hlaupahópsins Flandra.

Dagarnir fram að hlaupi
Við komum til München síðdegis á fimmtudegi og hlaupið var ekki fyrr en á sunnudag. Því gafst góður tími til að hrista úr sér flugþreytuna og hverja þá þreytu aðra sem ef til vill hafði fylgt með í farangrinum að heiman. Tíminn var notaður til að skoða sig um í miðborginni, en þangað var um stundarfjórðungsgangur frá hótelinu. Við hjónin röltum um með félögum okkar úr Borgarnesi, horfðum á klukknaspilið framan á turninum á „nýja ráðhúsinu“, leituðum uppi nokkrar skóbúðir, litum inn í gamlar kirkjur og gerðum þokkalega við okkur í mat og drykk. Föstudagurinn hófst með mjúku morgunskokki í blíðunni og svo var tekinn sporvagn á maraþonsýninguna í einni af byggingunum frá Ólympíuleikunum 1972. Þar voru hlaupanúmerin afhent og gengið frá öllum lausum endum fyrir hlaupið, ef einhverjir voru, auk þess sem fjölmörg fyrirtæki kynntu vöru sína og þjónustu og skiptu á varningi og fáeinum evrum við þá sem áhuga höfðu. Á laugardeginum hélt Sævar fararstjóri fund með öllum hópnum og gaf nokkur góð ráð sem ég veit að nýttust mörgum, þar á meðal ráðið um að eyða ekki alltof mikilli orku á fyrstu metrum hlaupsins í að troðast fram fyrir aðra sem höfðu af einhverjum ástæðum staðsett sig helst til framarlega miðað við getu.

Beðið eftir grænu ljósi í mjúku morgunskokki í München.

Beðið eftir grænu ljósi á mjúku morgunskokki í München.

Allt tilbúið kvöldið fyrir hlaup.

Allt tilbúið kvöldið fyrir hlaup.

Að morgni hlaupadags
Sunnudagurinn 12. október rann upp bjartur og fagur. Að vísu er þessi staðhæfing ekki alveg sönn ef fyllstu nákvæmni er gætt, því að snemma um morguninn lá svolítil þoka yfir München og hitastigið var ekki nema rétt um 10°C. Þeir sem voru skráðir í heilt maraþon söfnuðust saman í anddyri hótelsins um 8-leytið, og á slaginu 8:07 var lagt af stað með sporvagninum áleiðis á Ólympíuleikvanginn þar sem hlaupið átti að hefjast kl. 10:00 og ljúka tiltölulega skömmu síðar. Við Gunnar Viðar héldum uppi merki Flandra og Borgarfjarðar í þessum hópi. Þrjú hinna stefndu á hálfa maraþonið sem átti að hefjast 4 klst. síðar og lífsförunautarnir Björk og Kristín hugðust taka sporvagn að endamarkinu í tæka tíð til að taka á móti okkur. Þetta síðastnefnda er reyndar ekki auðvelt verk í hlaupum eins og þessum þar sem maður er ókunnugur marksvæðinu og þar sem erfitt getur reynst að finna hvert annað í mannmergðinni.

Við vorum komin á leikvanginn upp úr kl. 8:30. Mér finnst afar þægilegt að vera mættur svona tímanlega. Þegar maður er á annað borð kominn á staðinn er erfitt að finna sér nokkuð til að hafa áhyggjur af. Og tíminn leið líka hratt við spjall og vangaveltur um áform dagsins. Sólin var farin að gægjast fram og hitastigið hækkaði jafnt og þétt. Kannski var hægt að búa sér til svolitlar áhyggjur af því að hitinn yrði til trafala þegar á liði hlaupið, en áhyggjur eru reyndar síst til þess fallnar að bæta árangur og upplifun í lífinu.

Um hálftíma fyrir hlaup lögðum við af stað gangandi að rásmarkinu sem var á að giska 2 km sunnan við Ólympíuleikvanginn. Þeir sem vildu voru þá búnir að skila af sér yfirhöfnum og öðrum varningi í þar til gerðum pokum í geymslu undir stúku vallarins. Ég ákvað að skilja símann minn eftir í slíkum poka til að auðveldara yrði að ná sambandi við Björk og Kristínu að hlaupi loknu.

Við rásmarkið stilltu hlauparar sér upp í þremur aðskildum hólfum eftir líklegum lokatíma. Við Gunnar fylgdumst að fram í fremsta hólfið, sem ætlað var þeim sem töldu sig geta lokið hlaupinu á skemmri tíma en 3:30 klst. Aftarlega í því hólfi skildu leiðir og ég slóst í för með Gísla Einari Árnasyni fram eftir hólfinu þar sem við stilltum okkur upp á að giska 20 metrum aftan við ráslínuna. Áform beggja voru svipuð, þ.e. að hlaupa af stað á 4:20 mín/km og sjá svo til hvað yrði í framhaldinu.

Fyrstu 5 kílómetrarnir
Hlaupið var ræst með látum stundvíslega kl. 10:00. Ég fylgdi straumnum til að byrja með og Gísli var skrefi á undan til að byrja með. Fljótlega greiddist úr hópnum og þar með var hlaupið hafið fyrir alvöru. Gísli seig fram úr og hvarf mér smám saman sjónum en ég hafði það samt á tilfinningunni að upphafið væri nokkurn veginn eins og ég hafði ætlað. Reyndar var erfitt að átta sig á hraðanum því að Garminúrið sló úr og í, ef svo má að orði komast, sýndi stundum 3:30 mín/km og stundum 4:50. Ég vissi að hvorugt var rétt, enda var Sævar búinn að vara okkur við því að gervihnattasambandið gæti verið óstöðugt inni í borginni, inni á milli húsa og inni á milli trjáa.

Ég sá fá kunnugleg andlit á fyrstu kílómetrunum, enda varla við því að búast. Þarna voru jú 6 eða 7 þúsund manns að hlaupa og flestir Íslendingarnir höfðu hógværari markmið en ég í mínútum talið. Auk Gísla vissi ég af Óskari Jakobssyni einhvers staðar á undan mér og svo hitti ég Geir Jóhannsson rétt sem snöggvast stuttu eftir að hlaupið hófst.

Snúið á punktinum á Ludvigstraße eftir 4 km. (Ljósm. Marathon Photos).

Snúið á punktinum á Ludvigstraße eftir 4 km. (Ljósm. Marathon Photos).

Fyrstu 5 kílómetrarnir áttu að taka 21:40 mín. ef ég héldi mig við 4:20 mín/km. Þegar þangað var komið sýndi klukkan 21:46 mín sem var algjörlega innan skekkjumarka og reyndar hraðasti 5 km kaflinn minn í maraþonhlaupi til þessa. Mér fannst samt einhvern veginn að ég hefði átt að vera enn fljótari miðað við það hvernig ég skynjaði álagið í líkamanum. En maður dregur engar ályktanir á þessum stað í maraþonhlaupi. Úrslitin ráðast löngu síðar. Kannski var hraðinn jafnvel óþarflega mikill.

5-10 km
Eins og ég hef lýst einhvern tímann áður, skipti ég maraþonhlaupum yfirleitt upp í 5 km kafla. Slík skipting léttir álagi af huganum og gefur líka færi á ýmsum skemmtilegum útreikningum til að glíma við á leiðinni. Ég sá fljótt að þessi 5 km kafli sóttist mér heldur betur en sá fyrsti. Ég ákvað reyndar að taka ekkert mark á kílómetratalningunni í hlaupaúrinu, því að stopult gsm-samband getur spillt mælingunni. En klukkan heldur sínu striki og eins var hver kílómetri greinilega merktur með skiltum við hlaupaleiðina. Ég gerði mér það til dundurs að reikna út eftir hvern kílómetra hversu langt ég væri frá markmiðinu um 4:20 mín/km. Sekúndurnar sex sem upp á vantaði eftir 5 km voru fljótar að skila sér til baka og fyrr en varði var ég kominn nokkrar sekúndur í plús. Það var svo sem hvorki skynsamlegt né nauðsynlegt, enda samsvara 4:20 mín/km lokatíma upp á 3:03 klst. eða þar um bil. Slíkan tíma lét ég mig ekki dreyma um, enda var markmiðið að hlaupa á 3:08:18 klst. eins og fyrr segir. Reyndar taldi ég mig geta hlaupið á 3:06:30 á góðum degi, en þá þarf maður að afgreiða hvern km á 4:25 mín. að meðaltali. Geymdi þá tölu á bak við eyrað.

Hlaupaleiðin í München er tiltölulega flöt og víðast hvar slétt malbik undir fótum. Léttari brautir eru til, en þetta var samt með því betra. Og veðrið lék við okkur enn sem komið var. Sólin var reyndar farin að skína býsna ákveðið, en lengst af gat maður hlaupið í skuggum trjáa eða húsa og fann þá ekki mikið fyrir hitanum.

Hver kílómetrinn af öðrum leið hjá á 4:20 mín eða tæplega það. Reyndar fannst mér óvenju stutt á milli kílómetramerkinga, sem þýddi náttúrulega bara að mér leið vel og að hraðinn var þokkalegur. Eftir um 7,5 km kom ég að drykkjarstöð þar sem ætlunin var að sporðrenna fyrsta orkugelinu. Slíka fæðu gleypi ég jafnan í mig í maraþonhlaupum á 5-7 km fresti og drekk svo sem 150 ml. af vatni með. Á þessari stöð ætlaði ég líka að taka inn eitt steinefnahylki, en það reyndi ég fyrst í Vesturgötunni í sumar með góðum árangri. Steinefnin eiga að draga úr líkum á krömpum á síðustu kílómetrunum, en ég hef nokkuð oft lent í þess háttar hremmingum. Nú vildi hins vegar ekki betur til en svo að ég missti tvö hylki í götuna og varð því að breyta steinefnaáætluninni dálítið til að láta lagerinn duga alla leið. Hvort þetta óhapp hafði áhrif á lokaniðurstöðuna skal ósagt látið. Held samt varla.

Eftir 10 km sýndi klukkan 43:05 mín. Að baki var langhraðasti 10 km kaflinn minn í maraþonhlaupi frá upphafi og reyndar líka hröðustu 5 km (21:19 mín). Meðaltíminn á hvern km hafði verið um 4:18 mín. þegar þarna var komið sögu og ég kominn 15 sek. í plús miðað við 4:20 áætlunina. Þessi hraði var rétt yfir skynsemismörkum, þannig að ég ákvað að reyna heldur að halda aftur af mér á næsta kafla.

10-15 km
Líðanin var áfram góð á næsta 5 km kafla og sekúnduinnistæðan breyttist frekar lítið. Fátt minnisvert bar til tíðinda, nema hvað þarna lá leiðinn í gegnum Enska garðinn og þegar ég kom að 15 km markinu sýndi klukkan 1:04:57 klst. Síðustu 5 km hafði ég lagt að baki á 21:52 og enn átti ég 3 sek. til góða miðað við 4:20 áætlunina.

15-20 km
Þetta gekk eiginlega allt eins og í sögu, en ég vissi svo sem alveg að seinni hlutinn yrði erfiðari, bæði vegna þess að seinni hlutinn er alltaf erfiðari og vegna þess að ég taldi mig vanta fleiri langar æfingar, eins og áður var getið. Á þessum kafla átti ég von að sjá Evu Skarpaas og manninn hennar hann Þórólf á hliðarlínunni. Eva var að fara að hlaupa hálft maraþon og hafði sagst myndi verða einhvers staðar ekki alllangt frá rásmarki þess hlaups, nánar tiltekið nálægt 17 km markinu í maraþonhlaupinu. Þarna var ég kannski aðeins farinn að þreytast og þá er gott að eiga eitthvert tilhlökkunarefni í pokahorninu. Það þarf heldur ekki neina stórviðburði til að lífga upp á tilveruna á hlaupum. Þetta gekk eftir. Allt í einu kom ég auga á Evu með myndavélina á lofti og handfylli af brosi og hvatningarorðum. Nokkru seinna hljóp ég fram hjá Þórólfi og sagan endurtók sig. Næstu skref voru hálfu léttari fyrir bragðið.

17 km búnir og Eva mætt með myndavélina. (Ljósm. Eva Skarpaas).

17 km búnir og Eva mætt með myndavélina. (Ljósm. Eva Skarpaas).

Þegar hér var komið sögu var fyrrnefndur sekúnduforði á þrotum og mínussekúndur farnar að safnast upp hægt og bítandi. Það skipti mig þó engu máli enda mátti ég tapa 5 sekúndum á hverjum kílómetra hlaupsins miðað við 4:20 áætlunina, án þess að meðaltíminn á km færi niður fyrir 4:25 mín. Enn væri þá draumurinn um 3:06:30 innan seilingar og bæting vissulega í kortunum þótt þetta gengi ekki eftir.

Eftir 20 km var millitíminn 1:27:17 klst., síðustu 5 km á 22:20 mín. og síðustu 10 km á 44:12 mín. Þar með var ég allt í einu kominn 37 sek. í mínus miðað við margumræddar 4:20 mín, en svo sem enn í góðum málum miðað við 4:25.

20-25 km
Hálfmaraþonmarkið er alltaf tilhlökkunarefni í maraþonhlaupum, því að þar gefst nýtt tækifæri til uppbyggjandi útreikninga. Í þessu tilviki gat ég líka hlakkað til að sjá eitthvað af hálfmaraþonhlaupurunum, sem voru sjálfsagt mættir á svæðið þótt enn væru meira en 2 klst. í að hlaupið þeirra yrði ræst. Ég kom reyndar ekki auga á marga sem ég kannaðist við, en Gunnar Atli var þó alla vega þarna á kantinum að hvetja samferðamennina. Hálfmaraþontíminn var 1:32:21 klst., sem var meira en 2 mín. betri tími en ég hafði áður náð í maraþonhlaupi. Samkvæmt því mátti halda að auðvelt yrði að bæta PB-ið, en ég bæði vissi og fann að það væri alveg á mörkunum. Reynslan sagði mér að seinni helmingurinn gæti sem best tekið um 3 mín. lengri tími en sá fyrri. Þar með væri lokatíminn kominn í 3:08 klst., sem þýddi að ekkert mátti út af bera til að markmiðið næðist. Í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra var ég reyndar talsvert fljótari með seinni helminginn en þann fyrri, hljóp á „negatívu splitti“ sem sagt, en svoleiðis gerist bara á hátíðis- og tyllidögum. Nú voru líkurnar á slíku nær engar að teknu tilliti til æfinga undanfarinna mánuða og þess hvernig hlaupið hafði þróast.

Áfram hélt ég að tapa sekúndum, enda þreytan aðeins farin að segja til sín. Mér fannst líka óþarflega heitt þar sem sólin náði að skína óhindrað. Held samt að hitastigið hafi ekki verið komið nema í 16°C þegar þarna var komið sögu. Millitíminn eftir 25 km var 1:49:37 klst., sem var eftir á að hyggja næstum 3 mín. betri tími en í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. En ég mundi það ekki svo glöggt þarna á götunni í München. Hitt vissi ég að ég var kominn 1:17 mín í mínus miðað við 4:20 og hraðinn fór minnkandi ef eitthvað var. Auðvitað hefði ég getað bætt eitthvað í til skamms tíma, en í maraþonhlaupi er slíkt varla í boði fyrr en þá í blálokin. Best er að halda svipuðu álagi í gegnum allt hlaupið og það taldi ég mig einmitt hafa gert.

25-30 km
Mér finnst 30 km markið einkar mikilvægur áfangi í maraþonhlaupi. Sumir segja að þar byrji hlaupið fyrir alvöru og ég get svo sem alveg tekið undir það. En hvað sem því líður þykist ég yfirleitt viss um að geta klárað það sem eftir er af hlaupinu á 1 klst. hvernig sem allt velkist, jafnvel þótt einhverjir krampar geri vart við sig. En maður á svo sem ekkert víst í þessum efnum. Alla vega var millitíminn þarna 2:12:10 klst., sem ég vissi að var um 2 mín. betra en í fyrra. Meðalhraðinn frá upphafi samsvaraði 4:24 mín/km og síðustu 5 km höfðu verið á 22:33 mín (4:31 mín/km). Lokatíminn í hlaupinu gat varla orðið verri en 3:12 klst., sem var náttúrulega vel ásættanlegt og PB-ið var svo sem enn raunhæfur möguleiki.

30-35 km
Rétt eftir 30 km markið hljóp ég inn í gamla miðbæinn þar sem við höfðum verið á röltinu dagana á undan. Það var gaman, sérstaklega að koma inn á Maríutorgið þar sem nýja ráðhúsið með klukkuspilinu blasti við. Þarna var líka fullt af fólki meðfram brautinni að hvetja hlauparana.

Ég fann að nú var farið að hægjast svolítið á mér en ég lét það ekki angra mig neitt sérstaklega. Einbeitti mér þess í stað að því að halda sem jöfnustu álagi. Eftir u.þ.b. 32,5 km lá leiðin inn á háskólasvæðið þar sem tekin var 4 km slaufa, að hluta til fram og til baka eftir sömu götunni. Þetta var bæði dálítið leiðinlegt og dálítið skemmtilegt, kannski aðallega skemmtilegt því að þarna mætti maður fyrst þeim sem voru talsvert fljótari í förum en maður sjálfur og síðan þeim sem voru ívíð seinni. Í þeim hópi var Gunnar Viðar. Hann leit vel út en ég gat ekki reiknað út hversu langt hann var kominn í hlaupinu. Í þessari slaufu hljóp ég líka fram úr Gísla, líklega á 34. kílómetranum. Honum hafði gengið ágætlega framan af hlaupinu en þarna sagðist hann vera „alveg búinn á því“. Seinni parturinn í maraþoni leikur marga grátt. Sjálfur var ég orðinn býsna þreyttur og farinn að hlakka mikið til að ljúka hlaupinu. En mér leið nú samt bara ágætlega.

Ég held að þessi mynd sé tekin á háskólasvæðinu. Maðurinn í græna bolnum var lengi rétt á undan mér. Ég á einmitt líka svona bol. Hann er úr Parísarmaraþoninu í fyrra. (Ljósm. Marathon Photos).

Ég held að þessi mynd sé tekin á háskólasvæðinu. Maðurinn í græna bolnum var lengi rétt á undan mér. Ég á einmitt líka svona bol. Hann er úr Parísarmaraþoninu í fyrra. (Ljósm. Marathon Photos).

Eftir 35 km sýndi klukkan 2:34:59 mín. Ég mundi ekki 35 km tímann frá „methlaupinu“ mínu í fyrra, en eftir á að hyggja var ég enn 2 mín á undan þeirri áætlun. Síðustu 5 km höfðu verið á 22:49 mín (4:34 mín/km). Vissulega var farið að hægjast á mér, en þetta var alls ekkert hrun og möguleikinn á bætingu enn til staðar. Ég hugsaði með mér að ég gæti hreinlega ekki þurft meira en 36 mín. til að klára hlaupið. Þá yrði lokatíminn 3:11. Ákvað að það væri versta mögulega niðurstaða og að líklega yrði ég alla vega undir 3:10.

35-37 km
Ég hef svolítið dálæti á 37 km markinu í maraþonhlaupi, af því að þá eru bara 5 km eftir. Millitíminn þarna var 2:44:18 klst., sem mig minnti að væri alla vega um mínútu betri tími en í fyrra. Það var rétt munað, ég var enn með 1:14 mín í plús miðað við „methlaupið“. Það gat varla verið mikið mál að ljúka þessum 5,2 km sem eftir voru á 26 mín. Ég myndi þá enda á rúmlega 3:10 hvernig sem allt slægist. Það var bara fínt.

37-40 km
Kílómetramerkin liðu enn furðu fljótt hjá. Ég tók ekki mikið eftir umhverfinu, en sums staðar var fólk meðfram brautinni og jafnvel ein og ein trommusveit. Mig minnti að tíminn minn eftir 40 km í fyrra hefði verið rúmlega 2:58 klst. Núna reyndist hann vera 2:58:21 klst. Síðust 5 km höfðu liðið á 23:22 mín (4:40 mín/km) og síðustu 10 á 46:11. Ég dró þá ályktun að til þess að bæta mig þyrfti ég að hlaupa síðasta spölinn a.m.k. jafnhratt og í fyrra. Taldi það ólíklegt eða næstum ómögulegt, því að þá var einhver óskiljanlegur léttleiki með í för sem ég fann ekki núna. Eftirá sá ég reyndar að þarna var ég enn með 34 sek. í plús. Þá tölu hefði verið gott að hafa í kollinum síðasta spölinn. Málið snýst nefnilega býsna mikið um að telja hausnum trú um að það sé vel þess virði að erfiða svolítið í stað þess að slaka á og sætta sig við orðinn hlut.

40-42,2 km
Það er ótrúlega gaman að eiga bara stuttan spöl eftir, en þessi stutti spölur getur oft reynst lengri en maður ætlar. Rétt eftir 40 km markið fékk ég smávegis krampa aftan í vinstra lærið, eitthvað sem ég hafði hreinlega ekki búist við. Þetta sló mig dálítið út af laginu, bæði andlega og líkamlega. Alla vega neyddist ég til að labba nokkur skref og eftir að krampar hafa gert vart við sig getur maður varla leyft sér miklar rósir. Hraðabreytingar eru til dæmis varasamar. Þarna fannst mér möguleikinn á bætingu gufa upp, en ég var samt bara nokkuð sáttur. Hvernig sem allt veltist myndi þetta verða næstbesta maraþonið mitt frá upphafi og lokatíminn varla langt frá 3:09 klst. Það er bara vanþakklæti að vera óánægður með það.

Ég á Excel-skjal í fórum mínum þar sem ég held m.a. utan um tímana á síðustu 2,2 kílómetrunum í öllum mínum maraþonhlaupum. Ég veit að bestu tímarnir liggja nálægt 10 mínútum, en smáatriðin mundi ég ekki þarna á götunni í München. Hvað sem því leið ákvað ég að njóta síðustu stundarinnar til hins ýtrasta. Framundan voru undirgöngin inn á Ólympíuleikvanginn og tilhlökkunin að hlaupa þar inn hafði glatt hugann allan daginn.

Hlaupið inn á Ólympíuleikvanginn í einlægri gleði og diskóljósum., (Ljósm. Marathon Photos).

Hlaupið inn á Ólympíuleikvanginn í einlægri gleði og diskóljósum., (Ljósm. Marathon Photos).

Og allt í einu var stundin runnin upp. Völlurinn opnaðist í allri sinni dýrð með háværri tónlist og fagnaðarópum. Síðustu 300 metrarnir liðu eins og í draumi og ég átti nóga orku eftir í góðan endasprett. Hræðslan við að krampinn tæki sig upp var gleymd og tilfinningin í fótunum bara eins og á góðri sprettæfingu hjá Flandra á mánudegi, enda var ég ekki nema rétt um eina mínútu að skeiða síðustu 300 metrana. Veifaði auðvitað svolítið til áhorfenda og svona, enda þess fullviss að þeir væru allir að fagna mér. Vissi að Björk sæti þarna einhvers staðar uppi í stúkunni, en mannfjöldinn og hávaðinn var miklu meiri en svo að ég kæmi auga á hana eða heyrði hvatningarhrópin. En það var svo sem aukaatriði. Aðalatriðið var að vita af henni þarna.

Kominn inn á völlinn. Um 250 m eftir í mark. Gaman hjá mér. (Ljósm. Marathon Photos).

Kominn inn á völlinn. Um 250 m eftir í mark. Gaman hjá mér. (Ljósm. Marathon Photos).

Horft yfir Ólympíuleikvanginn þar sem hlauparar hvíldu sig á (gervi)grasinu. Eitt skref eftir inn á beinu rauðu brautina. (Ljósm. Björk Jóhannsd).

Horft yfir Ólympíuleikvanginn þar sem hlauparar hvíldu sig á (gervi)grasinu. Eitt skref eftir inn á beinu rauðu brautina. (Ljósm. Björk Jóhannsd.).

Síðustu metrarnir! (Ljósm. Marathon Photos).

Síðustu metrarnir! (Ljósm. Marathon Photos).

Þegar ég kom inn á beinu brautina sá ég á markklukkunni að bæting var ekki lengur í spilunum. En þetta var samt ótrúlega gaman, algjör sigurstund barasta. Kom í markið á 3:08:30 mín, þ.e. ekki nema 11 sek frá besta tímanum mínum. Síðustu 2,2 kílómetrarnir höfðu sem sagt verið 45 sek. hægari en í fyrra, en hverjum var ekki sama. Hlaupið var búið og mér leið vel, bæði í sál og líkama.

Á Ólympíuleikvanginum
Inni á Ólympíuleikvanginum var allt fullt af hlaupurum sem ráfuðum um gervigrasið, misvel á sig komnir, að ógleymdu öllu starfsliðinu sem var boðið og búið að rétta manni hjálparhönd. Veitingaborðin biðu í röðum með vatni, léttöli, saltkringlum, ávöxtum og kökum og veðrið var eins og á besta sumardegi heima á Íslandi. Fljótlega rakst ég á Óskar Jakobsson, sem var nýkominn í mark, fyrstur Íslendinga. Hann hafði lent í erfiðleikum í síðari hluta hlaupsins rétt eins og Gísli sem kom til okkar nokkrum mínútum síðar. Líklega var hitastigið orðið aðeins of hátt fyrir Íslendingana, enda stóð mælirinn í 18-20 gráðum.

Við Óskar og Gísli komum okkur vel fyrir á gervigrasinu og smátt og smátt tíndust fleiri Íslendingar inn á blettinn sem við höfðum helgað okkur. Fæstir höfðu náð markmiðum sínum í hitanum, en á því voru þó einstaka undantekningar. Gunnar Viðar skilaði sér áður en langt um leið. Hann bætti sig um 12 mínútur og kláraði hlaupið á 3:35:33 klst. Hafði reyndar stefnt á enn meiri bætingu, en árangurinn var samt framúrskarandi miðað við aðstæður allar.

Ég vissi það ekki þá en ég veit það núna að ég endaði í 381. sæti af 4.950 körlum sem tóku þátt í hlaupinu, en í 407. sæti af 6.227 ef konurnar eru taldar með. Í flokki 55-59 ára karla var ég í 9. sæti af 324.

Endurfundir!

Endurfundir! (Ljósm. Kristín Ólafsd.).

Eftir hlaupið
Eftir að hafa notið samvistanna við hina Íslendingana á vellinum, góða veðursins og veitinganna, röltum við Gunnar af stað yfir brúna neðan af gervigrasinu út fyrir áhorfendapallana. Næsta verkefni var að finna fatapokann minn og símann sem þar var geymdur. Það gekk vel og skömmu síðar vorum við búnir að hafa upp á Björk og Kristínu sem biðu okkar á grasbala þarna rétt fyrir utan. Þar urðu fagnaðarfundir, enda ekkert sjálfsagt að maður njóti þeirra forréttinda að manns nánustu geti fylgt manni í hlaup og stutt mann á alla lund. Og þá var ekkert annað eftir en að rölta út á sporvagnastöðina og koma sér niður á hótel í sturtu og almenna slökun.

Ferðalok
Münchenferðinni lauk ekki í markinu á Ólympíuleikvanginum. Um kvöldið safnaðist hópurinn sem var þarna á vegum Bændaferða saman á veitingastað eigi alllangt frá hótelinu til að fagna góðum árangri og snæða góðan mat. Mánudagurinn var svo notaður í borgarrölt og slökun og á þriðjudagsmorgni var haldið heim á leið. Að baki var einstaklega vel heppnuð ferð. Auðvitað voru hlaupararnir eitthvað missáttir við eigin árangur eins og gengur, en allir voru þó örugglega sáttir við framkvæmdina, bæði á hlaupinu sjálfu sem var í afar styrkum höndum Þjóðverjanna og ekki síður á ferðalaginu í heild. Þar fá Bændaferðir og Sævar fararstjóri hæstu einkunn sem völ er á. Það er talsvert auðveldara að fara í svona ferð og þurfa ekki að hugsa um neitt annað en að hlaupa, heldur en að þurfa líka að vasast í að leysa öll þau mál sem upp kunna að koma og fást við öll þau óvæntu atvik sem geta angrað mann á ferðalögum um ókunnar slóðir. Sævar létti þessu öllu af okkur hinum í þessu ferðalagi.

Ketilbjalla og þolinmæði
Ég náði ekki takmarkinu mínu í þessu hlaupi, en 12 sekúndna frávik er minna en svo að það spilli gleðinni. Auðvitað getur maður alltaf valið hvort glasið sé hálffullt eða hálftómt. Mitt glas var augljóslega hálffullt, eða kannski meira. Þessar 12 sekúndur voru alla vega ekki nema 0,1% af heildartímanum í maraþoninu. Þetta gekk með öðrum orðum eins og í sögu. Og þá er eðlilegt að spurt sé hver hafi verið lykillinn að velgengninni. Vissulega vantaði mig nokkrar langar æfingar í undirbúninginn, en á móti komu ketilbjölluæfingarnar sem eflaust skiluðu sínu þrátt fyrir allan sinn einfaldleika. Og ætli þolinmæðin eigi ekki líka sinn stóra þátt í þessu. Mér liggur nefnilega ekkert á. Fyrst ég bætti mig ekki í þessu hlaupi, þá geri ég það bara seinna. Ég hef nógan tíma. Í langhlaupum er hvergi hægt að stytta sér leið, hvorki á brautinni sjálfri né í undirbúningsferlinu. Óþolinmæði kallar á meiðsli og þá frestast gamanið enn um sinn. Meira er ekki alltaf betra.

Rauði krossinn vill líka ónýt föt!

fatagamur (169x225)Sennilega fara flestir Íslendingar einhvern tímann með föt í söfnunargáma Rauða krossins og flest bendir til að þessum Íslendingum fari fjölgandi. Alla vega safnast meira og meira af fötum með hverju árinu sem líður. Fatasöfnunin er orðin eitt mikilvægasta fjáröflunarverkefni Rauða kross Íslands, og sem dæmi um það má nefna að á árinu 2013 nam afrakstur Rauða krossins af fatasöfnuninni 100 milljónum króna. Hluti af þessu fé er notaður til að fjármagna rekstur Hjálparsíma Rauða krossins 1717, hluti fer til verkefna á vegum deilda Rauða krossins um allt land og hluti nýtist til hjálparstarfs erlendis.

Í skýrslu um afdrif textílúrgangs á Norðurlöndunum sem kom út í byrjun síðasta mánaðar er að finna yfirlit um það hversu mikið af fötum Íslendingar keyptu á árinu 2012 og sömuleiðis um það hvað verður um þessi föt að notkun lokinni. Rétt er þó að taka fram að allt eru þetta áætlaðar tölur, því að ekkert nákvæmt bókhald er til um fatakaup eða fataeign Íslendinga. Skýrslan byggir á tölum frá Hagstofunni, Sorpu, Rauða krossinum og fleiri aðilum og þegar allt þetta er skoðað í samhengi kemur í ljós að á árinu 2012 voru á að giska 4.800 tonn af taui sett á markað hérlendis, þar af líklega um 3.800 tonn innflutt og 1.000 tonn sem framleidd voru innanlands. Inni í þessum tölum eru ekki bara föt, heldur líka hvers konar önnur textílvara, svo sem sængurföt, dúkar, gluggatjöld og teppi, svo eitthvað sé nefnt. Sé þessi ágiskum rétt eru þetta rétt um það bil 15 kg á hvert mannsbarn á Íslandi.

Af þessum 4.800 tonnum sem komu inn á markaðinn 2012 rötuðu um 1.400 tonn í söfnunargáma. Þar á Rauði krossinn langstærstan hlut að máli, en önnur samtök koma svo sem einnig við sögu. Hin 3.400 tonnin lentu einhvers staðar annars staðar.

Þegar afdrif 1.400 tonnanna sem rötuðu í söfnunargáma eru skoðuð nánar, kemur í ljós að þar af voru um 50 tonn endurnotuð. Þar er þá aðallega um að ræða föt sem voru seld í Rauðakrossbúðunum, en einhver lítill hluti af þessu fór væntanlega beint í hjálparstarf innanlands og utan. Eftir standa þá 1.350 tonn sem voru seld úr landi, en þessi sala er aðaltekjulind fataverkefnis Rauða krossins. Með hæfilegri ónákvæmni er hægt að slá því fram að þessi 1.350 tonn skapi stærstan hluta af 100 milljón króna tekjunum sem nefndar voru hérna áðan. Reyndar erum við þarna að tala um áætlað magn sem selt var árið 2012, á meðan tekjutölurnar tilheyra árinu 2013. En þetta er samt alveg nógu nákvæmt til að gefa hugmynd um það hvernig þetta virkar allt saman.

Jæja, það komu sem sagt 4.800 tonn inn á markaðinn og þar af skiluðu 1.400 tonn sér í söfnunargámana. Hinum 3.400 tonnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt. Um það bil 200 tonn hafa líklega safnast fyrir í fataskápum og á háaloftum landsmanna, en afganginum var einfaldlega hent. Það lítur sem sagt út fyrir að á árinu 2012 hafi hvorki meira né minna en 3.200 tonn af textílúrgangi farið endanlega í súginn, eða verið með öðrum orðum urðað með öðrum úrgangi á urðunarstöðum víða um land.

Ef við förum nú aðeins yfir þessa tölfræði aftur, en tölum núna um kíló á hvert mannsbarn í staðinn fyrir tonn á landsvísu, þá er sem sagt áætlað að á árinu 2012 hafi 15 kíló komið inn á markaðinn. Þar af fóru um 10 kíló í urðun, um 4,3 kíló voru seld til útlanda, um það bil 0,2 kíló voru seld í Rauðakrossbúðum og 0,5 kíló söfnuðust upp á heimilum. Þannig gengur bókhaldið upp. Reyndar er ekkert sjálfsagt að svona bókhald gangi upp, því að auðvitað á mikill hluti af þessari vöru lengri líftíma en svo að hún skili sér í gáma eða ruslatunnur sama árið og hún er keypt. En það er svo sem aukaatriði, því að ef innstreymið er svipað ár frá ári skekkist myndin ekki mikið.

Veltum nú aðeins betur fyrir okkur þessum 10 kílóum á hvert mannsbarn, eða með öðrum orðum þessum 3.200 tonnum samtals, sem eru urðuð á hverju ári. Allt þetta hefði betur farið í söfnunargáma Rauða krossins. Þeir taka nefnilega ekki bara við nothæfum fötum, heldur einfaldlega hvaða textílúrgangi sem vera skal, þar með töldum ónýtum rúmfötum, blettóttum borðdúkum, rifnum gallabuxum og stökum sokkum, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta getur skapað Rauða krossinum tekjur. Þetta góss er einfaldlega selt í stórar flokkunarstöðvar í Þýskalandi eða Hollandi. Þaðan fer svo besti hlutinn í endursölu í retróbúðum, en það lakasta er selt í verksmiðjur sem tæta efnið niður og framleiða úr því tvist og tuskur af ýmsu tagi. Með nýrri tækni eru líka að opnast möguleikar til að flokka textílúrgang eftir efnum og vinna nýjan þráð úr ónýtum fötum. Þannig fást enn meiri verðmæti úr lakasta hlutanum.

Ef við höldum nú áfram að leika okkur með tölur, þá nefndi ég áðan að þau 1.350 tonn sem Rauði krossinn selur úr landi árlega gefi af sér um 100 milljónir króna, með öllum þeim fyrirvörum sem ég var búinn að tína til. Ef við tækjum okkur nú öll saman í andlitunum og hættum alfarið að setja ónýt föt og annan textílúrgang í ruslið og færum þess í stað með þetta í Rauðakrossgámana, þá myndi Rauði krossinn fá 3.200 tonn til viðbótar á hverju ári. Og ef við reiknum með sama kílóaverði myndi þessi hrúga gefa af sér hvorki meira né minna en 237 milljónir til viðbótar við þá fjármuni sem Rauði krossinn fær nú þegar. Kannski er þetta samt óþarflega mikil bjartsýni. Eigum við ekki að vera hógvær og segja bara 200 milljónir?

Svo við drögum þetta nú aðeins saman í lokin, þá er boðskapur þessa pistils afskaplega einfaldur: Ef við hættum að henda ónýtum fötum og öðrum textílúrgangi og setjum hann þess í stað allan í söfnunargáma Rauða krossins, þá bætast tugir milljóna, eða jafnvel allt að 200 milljónir, við það fjármagn sem Rauði krossinn hefur til ráðstöfunar í hjálparstarf á hverju ári. Þörfin er brýn og það er náttúrulega alveg út í hött að grafa svona fjársjóð í jörðu eins og hvert annað sorp!

Því er svo við að bæta, svona rétt í blálokin, að Rauðakrossgámarnir taka líka við skóm sem við erum hætt að nota. Skór henta reyndar sjaldan vel til endurvinnslu, en skótau sem við teljum ónýtt getur nýst vel á svæðum þar sem fólk hefur ekki efni á að vera vandlátt. Þeir sem vinna í flokkunarstöðvunum í Þýskalandi og Hollandi eru betur í stakk búnir en við til þess að meta hvað sé nothæft og hvað ekki.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 fimmtudaginn 17. júlí 2014. Myndin er tekin af heimasíðu Rauða kross Íslands).

Skemmtilegt fjölskylduhálfmaraþon

RM2014 basno bakhliðÁ laugardaginn hljóp ég hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var afskaplega skemmtilegt hlaup, aðallega af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi bætti ég mig töluvert (náði sem sagt að bæta „pébéið“). Í öðru lagi voru veðrið og aðstæður allar með því besta sem gerist. Og síðast en ekki síst tóku eldri börnin mín tvö bæði þátt í hlaupinu. Það gerðist síðast árið 1994, fyrir 20 árum.

Markmið okkar þriggja voru ólík eins og gengur. Ég var búinn að lýsa því yfir að ég ætlaði að ljúka hlaupinu á 1:27:55 klst., Þorkell ætlaði að fara álíka hratt og ég af stað og sjá svo til hvað hann myndi endast og Gitta stefndi að því að hlaupa á 2:10:00 klst. Í stuttu máli var ég sá eini sem náði ekki markmiðinu. Þar vantaði 18 sekúndur upp á. Þorkell lagði af stað um leið og ég og allir hinir, en ég sá hann lítið eftir það, nema þá tilsýndar. Og hann entist alla leið á stöðugum hraða sem var talsvert meiri en hraðinn minn. Og hjá Gittu skakkaði þetta ekki svo mikið sem sekúndu. Þetta var sem sagt einkar vel heppnað hlaup hjá okkur öllum, (þrátt fyrir þetta með 18 sekúndurnar).

Fyrir þetta hlaup átti ég best 1:29:25 klst. í hálfmaraþoni síðan í vor. Markmiðið var sem sagt að bæta þann tíma um eina og hálfa mínútu. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að hlaupa hvern kílómetra á 4:10 mín. að meðaltali, þ.e.a.s. hverja 5 km á 20:50 mín. Ef ég gæti það var ég nokkuð viss um að geta klárað heilt maraþon í München 12. október á meðalhraðanum 4:25 mín/km, sem jafngildir lokatímanum 3:06:30 eða þar um bil.

Fyrir hlaupið á laugardaginn var ég viss um að geta bætt tímann frá því í vor ef ekkert óvænt kæmi upp á, en ein og hálf mínúta var kannski í bjartsýnna lagi. Oftast finn ég nokkurn veginn á fyrstu kílómetrunum hvernig horfurnar eru. Eftir þrjá kílómetra var meðalhraðinn rétt um 4:02 mín/km, sem var náttúrulega í góðu lagi. Þorkell hafði farið örlítið hraðar af stað, en ég sá hann alltaf svo sem 50 m á undan mér. Langhlaup eru formlega séð ekki hans grein. Síðustu árin hefur hann aðallega keppt í 400 m hlaupi og í samræmi við það lagt mikla áherslu á styrkæfingar og lóðalyftingar. Lengri hlaup hafa beðið betri tíma.

Þorkell (lengst til vinstri) á sprettinum eins og ekkert sé. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Þorkell spretthlaupari (lengst til vinstri) á fullri ferð með langhlaupurunum. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Á 4. kílómetranum hægðist á mér og Þorkell fjarlægðist. Enn var þó allt mögulegt. Millitíminn eftir 5 km var 20:34 mín (4:07 mín/km). Svoleiðis millitíma hef ég ekki séð áður í hálfu maraþoni, enda hefði þetta verið persónulegt met í 5 km götuhlaupi fyrir bara tveimur árum. Þarna var ég með 16 sek. í plús miðað við áætlun, en hafði samt á tilfinningunni að aðalmarkmið dagsins myndi ekki nást. Oftast hægist eitthvað á mér seinni partinn og þá er auðvelt að tapa 16 sek. forskoti.

Næstu 5 km hélt ég nokkurn veginn sama hraða. Millitíminn eftir 10 km var 41:28 mín (4:09 mín/km). Þetta var u.þ.b. 30 sek. betra en í hlaupinu í vor og enn 12 sek. undir viðmiðunartímanum. Og eftir 15 km var tíminn 1:02:21 klst., sem þýddi að ég var enn með 9 sek. í plús. Þetta var svo sem alveg mögulegt.

Á kaflanum milli 5 og 15 km bar annars margt til tíðinda. Á þessum kafla fylgdist ég lengst af með Tate nokkrum Cantrell, sem bæði hefur drjúga reynslu af hlaupum og atvinnurekstri. Hann var með svipuð markmið í hlaupinu og ég, þannig að eðlilega rökræddum við möguleikana á að ná þessum markmiðum. Þeir voru enn til staðar. Á sömu slóðum var líka annar reyndur hlaupari sem ég vissi ekki fyrr en eftir á hver var. Hann hélt sama hraða og við Tate, þrátt fyrir að vera með gervifót fyrir neðan hné vinstra megin. Við höfðum einmitt orð á því hvor við annan hvílíkur innblástur þessi maður væri okkur sem hefðum  báða fætur jafnlanga. Eftir að heim var komið um kvöldið sá ég að einmitt þessi maður, Belginn Kim de Roy, hafði sett heimsmet í sínum fötlunarflokki í hlaupinu þegar hann kláraði heila maraþonið á 2:57:09 klst. Slíkan árangur hef ég aldrei látið mig dreyma um. Á þessum sama kafla bar það líka til tíðinda að Þorkell fjarlægðist smám saman meir og meir – og einhvers staðar í kringum 13. kílómetrann var ég alveg hættur að sjá hann. Ég var auðvitað hæstánægður með það, enda gleður fátt meira en gott gengi afkvæmanna.

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Þegar ég leit á Garminúrið mitt eftir 15 km áttaði ég mig á því að ég hafði stillt það óskynsamlega fyrir þetta hlaup, því að eftir að klukkustundinni var náð hætti úrið að sýna sekúndur. Þarna stóð sem sagt bara 1:02 en ekki 1:02:21. Þetta truflaði mig dálítið það sem eftir var hlaupsins. Ég uni mér einmitt við það í svona hlaupum að reikna eitt og annað út frá millitímum, og nú var ljóst að þessir útreikningar yrðu helst til ónákvæmir. En við því var ekkert að gera. Óskynsamlegar stillingar Garminúra hljóta líka að flokkast sem lúxusvandamál, a.m.k. þegar maður hleypur við hliðina á manni með gervifót. Frómt frá sagt var sá góði maður reyndar búinn að ná dálitlu forskoti á mig þegar þarna var komið sögu, og það sama gilti um Tate Cantrell. En ég var samt alls ekki einmana. Alls staðar var fólk meðfram brautinni að hvetja hlauparana, og í þeim hópi voru furðu margir sem ég þekkti. Það var kannski ekki að undra þótt erlendir samferðamenn mínir spyrðu hvort ég þekkti alla í Reykjavík. Þetta er sjálfsagt öðruvísi í flestum borgarhlaupum erlendis.

Ég bjóst við að illa stillta Garminúrið mitt myndi sýna 1:15 klst. eftir 18 km og vissi að ef það gengi eftir myndi líklegasti lokatíminn vera á bilinu 1:28 og 1:29 klst. Þessi varð líka raunin. Þegar aðstæður eru góðar og næg reynsla með í för kemur sjaldnast margt á óvart á síðustu kílómetrunum. Þar snýst málið um nokkrar sekúndur til eða frá en mínútur eru frekar fyrirsjáanlegar. Að sama skapi er hugarreikningur í mínútum ekki sérlega spennandi eða hvetjandi tómstundaiðja.

Átján kílómetra markið í Reykjavíkurmaraþoni er í næsta nágrenni við Kirkjusand. Þá er maður búinn að hlaupa inn í Vatnagarða og hálfmaraþonhlauparar eiga  ekkert eftir nema Sæbrautina niður í bæ. Á þessu svæði mætir maður hlaupurum sem hafa farið sér ívið hægar og eru um þetta leyti búnir með 13 km eða svo. Í þeim hópi voru margir sem ég þekkti, þ.á.m. eitthvað af hlaupafélögum mínum úr Flandra og svo hún Gitta mín. Þarna var gaman að hvetja og fá hvatningu.

Síðustu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, enda sjálfsagt ekkert óeðlilegt að þá sé maður farinn að þreytast. Skemmtilegra er samt að vera í standi til að halda nokkurn veginn sama hraða á leiðarenda. Á þessum kafla létti Gottskálk Friðgeirsson, gamall skólafélagi og vinur, mér lífið um stund en hann var þarna á hjóli. Fáir Íslendingar hafa hlaupið fleiri maraþon en hann, en aldrei þessu vant gat hann ekki verið með þetta árið.

Millitíminn eftir 20 km var 1:23:43 klst. en á úrinu mínu stóð náttúrulega bara 1:23. Með einföldum útreikningi sá ég að líkurnar á því að enda undir 1:28 voru hverfandi en þó ekki alveg úr sögunni. Það færi auðvitað eftir því hvaða sekúndum úrið þegði yfir. Eftir á að hyggja missti ég einmitt af markmiðinu á kílómetrum 15-20. Sá 5 km kafli var sá langhægasti í hlaupinu (21:22 mín). En hvað um það. Ég hljóp bara eins hratt og ég gat þann spöl sem eftir var og kom í mark á 1:28:13 klst., langbesta tímanum mínum til þessa. Ég var reyndar alsæll með þann tíma „þótt mig hrakið hafi frá / hæsta takmarkinu“ eins og segir í vísunni.

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Þorkell var einn af þeim fyrstu sem ég hitti á marksvæðinu. Hann hafði haldið sama hraða í gegnum allt hlaupið, þrátt fyrir algjöran skort á langhlauparaæfingum síðustu árin. Lokatíminn hans var 1:24:48 klst. (4:01 mín/km). Ég þóttist reyndar vita að hann yrði á undan mér ef ekkert kæmi upp á, en þessi tími var enn betri en ég hafði reiknað með.

Næsta hálftímann notaði ég til að spjalla við ótrúlega margt og ótrúlega vinsamlegt fólk sem ég kannaðist við á marksvæðinu, þar með talda hlaupafélaga mína úr Flandra, þá Gunnar og Kristin sem báðir voru að enda við að stórbæta hálfmaraþontímana sína. Ætli ég sjái ekki undir hælana á þeim næsta sumar? Marksvæðið er annars heill heimur út af fyrir sig. Reykjavíkurmaraþon er nefnilega ekki bara hlaup, heldur einnig og ekki síður uppskeruhátíð og góðra vina fundur. Fátt er nú glaðara en það. Gleði dagsins var svo fullkomnuð þegar Gitta skilaði sér í markið á 2:10:00 klst. Það kallar maður að setja sér markmið og ná því! Og með þessu var hún líka að stórbæta tímann sinn frá því fyrr í sumar.

Það eru forréttindi að geta hlaupið sér til gamans. Og enn meiri forréttindi felast í því að geta hlaupið með börnunum sínum. Þetta var reyndar ekki alveg í fyrsta sinn sem við þrjú lögðum saman upp í Reykjavíkurmaraþon, því að eins og ég nefndi í upphafi gerðum við þetta líka sumarið 1994. Þá vorum við reyndar öll fimm saman í för. Við Björk og dæturnar röltum þá 3 km, enda þær ekki nema tveggja og sjö ára gamlar. Þorkell var hins vegar orðinn 9 ára og hljóp á undan okkur. Lokatíminn hans þá var 15:42 mín. (5:14 mín/km). Er ekki sagt að snemma beygist krókurinn?

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994.

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994. (Þetta var í lok Don Cano tímabilsins í tískusögunni).

Hálft maraþon nægir

21kmbadgeÉg ætla að láta mér nægja að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu næstkomandi laugardag. Hálft maraþon er vissulega ekki stutt hlaup, en eftir að hafa hlaupið heilt maraþon fimm ár í röð finnst mér samt pínulítið skrýtið að hlaupa styttra. En hér fær skynsemin að ráða, enda eflaust gott að gefa henni tækifæri annað slagið. Ástæða þess að ég ætla að bregða svona út af vananum er að ég stefni á að bæta mig í maraþonhlaupi í München í október og hálft maraþon passar betur en heilt inn í undirbúningsvinnuna.

Mér finnst út af fyrir sig ekkert tiltökumál að hlaupa tvö maraþon með tveggja mánuða millibili, enda býst ég við að líkaminn losni við þreytuna úr fyrra hlaupinu innan þriggja vikna. Hins vegar truflar fyrra maraþonið æfingar fyrir það síðara. Um þessar mundir þarf ég nefnilega að leggja áherslu á styrk og hraða og svoleiðis æfingar tekur maður ekki stuttu eftir maraþonhlaup. Ef áformin um bætingu í München eiga að ganga eftir er þetta því skynsamlegasta leiðin.

Mér finnst rétt að taka fram að staðhæfingin hér að framan um að líkaminn losni við maraþonþreytu innan þriggja vikna á ekki við um þá sem stefna að hámarksárangri í greininni í alþjóðlegum keppnum. Þar gilda allt önnur lögmál en hjá okkur skokkurunum, æfingaálagið er miklu meira og álagið í hlaupinu sjálfu sömuleiðis. Þess vegna þurfa hlauparar í þeim gæðaflokki að láta líða lengri tíma á milli keppnishlaupa á vegalengdinni.

En hvert er þá markmiðin mitt fyrir laugardaginn? Jú, ég stefni að því að hlaupa hálft maraþon á skemmri tíma en 1:28 klst., helst á 1:27:55 eða þar um bil. Ef þetta tekst veit ég að ég get bætt mig í maraþoni í München ef ekkert óvænt kemur upp á. Besti tíminn minn í hálfu maraþoni til þessa er 1:29:25 klst. frá því í vormaraþoni FM í apríl. Um það má lesa í þar til gerðum bloggpistli, þar sem hálfmaraþonævisagan mín er líka rakin í stórum dráttum.

Ég á mér líka annað markmið. Ég vil endilega nota hlaupið á laugardaginn til að safna sem mestum peningum fyrir FSMA á Íslandi, en FSMA er félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum (Spinal Muscular Atrophy). Ég hef reynt að styrkja þetta félag eftir föngum í hlaupum síðustu ára. Þetta hefur bætt tilgangi við hlaupin hjá mér, enda eðlilegt að á hlaupum verði manni hugsað til þeirra sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta sjálfir hlaupið eins og þá lystir. Tekið er við framlögum á síðunni minni á hlaupastyrkur.is. Gaman væri að sem flestir tækju þátt í því. FSMA er lítið félag. Þar munar um allt.

Þrír fjallvegir framundan

Í næstu viku ætla ég að hlaupa þrjá fjallvegi á Norðurlandi á þremur dögum. Dagskráin er nánar tiltekið á þessa leið:

  1. Þriðjud. 5. ágúst: Hjaltadalsheiði frá Reykjum í Hjaltadal að Staðarbakka í Hörgárdal. Safnast saman að Hólum í Hjaltadal kl. 10:00 og ekið þaðan að Reykjum þar sem hlaupið hefst. Um 29 km, mesta hæð um 1.030 m. Áætlaður hlaupatími um 7 klst.
  2. Miðvikud. 6. ágúst: Leirdalsheiði frá Grýtubakka í Hvalvatnsfjörð (í Fjörðum). Brottför frá Grýtubakka kl. 10:00. Um 28 km, mesta hæð um 340 m. Áætlaður hlaupatími um 3,5 klst.
  3. Fimmtud. 7. ágúst: Reykjaheiði frá Reykjum í Ólafsfjarðardal til Dalvíkur. Brottför frá Reykjum kl. 10:00. Um 13-15 km, mesta hæð um 850 m. Áætlaður hlaupatími um 2,5 klst.

Mjög snjóþungt er enn til fjalla á Norðurlandi og gildir það m.a. um allar umræddar heiðar. Samkvæmt upplýsingum kunnugra ættu snjóþyngslin þó ekki að spilla fyrir hlaupunum. Jeppavegur er yfir Leirdalsheiði og var hann ruddur í þessari viku.

Öll eru þessi ferðalög hluti af fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf 2007. Öllum er velkomið að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Nokkrir hafa þegar gefið sig fram. Ekki er nauðsynlegt að skrá sig í hlaupin, en slíkt auðveldar þó samnýtingu ökutækja.

Meðfylgjandi mynd sýnir hlaupaleiðirnar í afar grófum dráttum, en drög að leiðarlýsingum birtast ef smellt er á nöfn leiðanna hér að framan. Grunnupplýsingar er einnig að finna á hlaup.is.

3heiðarweb

Hlaupasæla á Vestfjörðum

???????????????????????????????

Með Gunnari og Klemens eftir hlaupið. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Síðastliðinn sunnudag hljóp ég lengri útgáfuna af Vesturgötunni, sem er 45 km leið frá Þingeyri, yfir Álftamýrarheiði, niður í Fossdal í Arnarfirði, út að Stapadal og áfram eftir Kjaransbraut og Svalvogavegi inn að Sveinseyri við Dýrafjörð. Vesturgötuhlaupið er árviss viðburður og var nú háð í 9. sinn. Flestir láta sér reyndar nægja að hlaupa 24 km frá Stapadal að Sveinseyri, en lengri leiðin hefur einnig verið hlaupin á hverju ári frá 2011. Þetta var því í fjórða sinn sem sá valkostur stóð hlaupurum til boða. Ég hljóp 24 km leiðina sumarið 2009 og fannst nú kominn tími til að spreyta mig á lengri útgáfunni. Það gekk allt eftir áætlun og rúmlega það. Alla vega lauk ég hlaupinu á svolítið skemmri tíma en ég hafði reiknað með og kom í mark fyrstur þátttakenda. Auk þess hentaði veðrið eins vel til hlaupa og best gerist og öll framkvæmd hlaupsins var framúrskarandi. Vesturgatan hefur síðustu ár verið hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum og þar hefur fólki tekist, þrátt fyrir fámenni, að búa til einstakan viðburð og skapa svo vinsamlegt andrúmsloft að maður getur ekki annað en farið sáttur heim að leik loknum.

Undirbúningurinn
Ég undirbjó Vesturgötuna svo sem ekkert sérstaklega. Það sem af er árinu hef ég æft mjög hóflega og líklega minna en það sem margir myndu telja nauðsynlegt fyrir keppni í löngum hlaupum. Meðalvikan síðustu tvo mánuði hefur þannig innihaldið þrjár hlaupaæfingar og um það bil 55 km. Þetta getur hvorki talist mikið magn né mikil tíðni, en hins vegar hafa gæðin verið þokkaleg. Ég hef með öðrum orðum lagt tiltölulega mikla áherslu á styrk og hraða en tiltölulega litla á þolþjálfun. Áherslan á styrkinn og hraðann hefur gefið góða raun það sem af er sumri, því að á þeim tíma hef ég sett nokkur persónuleg met í götuhlaupum frá 5 km og upp í hálft maraþon, auk þess sem tímar á sprettæfingum hafa iðulega verið þeir bestu síðan á árunum fyrir 1980. Þolþjálfun hefur þó svo sem ekki setið alveg á hakanum. Þar var Mývatnsmaraþonið 7. júní sl. t.d. mikilvægt innlegg og á þessum reikningi má sömuleiðis finna eitt og hálft fjallvegahlaup yfir Leggjabrjót, 41 km Þrístrending og 37 km Hamingjuhlaup. Ég er þeirrar skoðunar að einstakir hlaupaviðburðir af þessu tagi skili miklu. Ég upplifi það þannig að líkaminn læri að sætta sig við álagið og að undirmeðvitundin fái þau skilaboð að þetta sé allt mögulegt.

Fimmtudaginn fyrir Vesturgötuna  hljóp ég yfir Skálavíkurheiði frá Bolungarvík til Skálavíkur ásamt 8 öðrum hlaupurum víða að. Þetta var skemmtilegt og þægilegt ferðalag í góðu veðri og án nokkurra átaka. Sama gilti aðeins að hluta um Óshlíðarhlaupið degi síðar, en á föstudagskvöldinu tók ég þátt í 10 km keppnishlaupi úr Óshlíð til Ísafjarðar, sem líka var hluti af Hlaupahátíðinni. Það var líka skemmtilegt ferðalag, en aðeins í meðallagi þægilegt og alls ekki án átaka. Ég lagði mig með öðrum orðum allan fram í því hlaupi og var aðeins 17 sekúndum frá mínum besta tíma í 10 km (41:27 mín.), sem ég náði í Reykjavík rúmri viku fyrr. Óshlíðarhlaupið var mikilvægur hluti af undirbúningnum fyrir Vesturgötuna, annað hvort á jákvæðan hátt sem liður í að venja líkamann og hugann við álag, eða með neikvæðum formerkjum sem þreytuvaldur. Í öllu falli er Óshlíðarhlaupið mikilvægur hluti af góðum minningum mínum um Hlaupahátíð á Vestfjörðum 2014. Hvort afraksturinn var nokkrar sekúndur í plús eða nokkrar sekúndur í mínus í Vesturgötunni skiptir engu máli!

Væntingarnar
Í utanvegahlaupum er allt afstæðara en í hefðbundnum götuhlaupum. Hvert utanvegahlaup er einstakt og hafi maður ekki farið leiðina áður er lítið hægt að bollaleggja um hæfilegan meðalhraða, æskilega millitíma og því um líkt. Veður og færð geta líka sett miklu feitari strik í reikninginn en í götuhlaupum. Væntingarnar hljóta því aðallega að snúast um að njóta hlaupsins, náttúrunnar og samvista við hlaupafélagana, hverjir sem þeir kunna að verða. Þrátt fyrir þetta legg ég þó aldrei svo upp í  hlaup að ég hafi ekki gert einhverja áætlun um gang mála.

Helsta viðmiðið sem ég gat stuðst við í áætlunargerð fyrir Vesturgötuna var reynslan úr 24 km Vesturgötunni 2009. Henni lauk ég á 1:57:55 klst. Þá var ég í býsna góðu formi og lagði óþreyttur af stað, en núna lá fyrir að hlaupa fyrst 21 km kafla frá Þingeyri og yfir Álftamýrarheiði áður en leikurinn frá 2009 yrði endurtekinn. Mér fannst því líklegt að síðustu 24 kílómetrarnir myndu taka 2:00-2:10 klst. að þessu sinni. Fyrri hluti hlaupsins var hins vegar alveg óskrifað blað. Til að fá einhverja hugmynd um eðlilega frammistöðu á þeim hluta rýndi ég í úrslit hlaupsins frá síðasta ári og ákvað að miða við lokatíma Elísabetar Margeirsdóttur, sem þá lauk hlaupinu á 4:22 klst. Það taldi ég nokkuð raunhæfa viðmiðun. Að vísu er Elísabet ívið sterkari í svona hlaupum en ég, en hlaupið í fyrra var viku á eftir Laugavegshlaupinu sem hún lauk líka á mjög góðum tíma. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér var ég sannfærður um að ég gæti alla vega lokið hlaupinu á 4:30 klst. ef ekkert óvænt kæmi upp á. Fyrrihlutinn þyrfti þá að vera á 2:20 klst. og sá seinni á 2:10. Til að fá betri mynd af þessu skipti ég fyrri hlutanum í þrjá áfanga. Fyrsti áfanginn yrði þá frá Þingeyri að Kirkjubóli í Kirkjubólsdal. Ég áætlaði að sá spölur gæti verið um 6 km og líklega nokkuð fljótfarinn á góðum vegi. Mér fannst raunhæft að hlaupa hvern km á 5 mín og vera þannig 30 mín á leiðinni. Annar áfangi myndi svo vera frá Kirkjubóli, inn dalinn, yfir heiðina og niður á veg neðst í Fossdal í Arnarfirði. Þennan spöl var langerfiðast að spá fyrir um og því ágætt að láta hann mæta afgangi í áætlunargerðinni. Þriðji áfanginn átti svo að vera spölurinn frá Fossdal og út í Stapadal, þ.e. að startinu í 24 km hlaupinu þar sem komið yrði inn á kunnuglegri slóðir. Þessi áfangi leit út fyrir að vera um 1 km og ef hægt væri að hlaupa hann á 5 mín. væru 1:45 klst. eftir fyrir áfanga nr. 2. Dæmið leit þá þannig út: 0:30+1:45+0:05+2:10 = 4:30 klst. En allt var þetta bara leikur að tölum og útkoman ekkert nema lauslegt viðmið.

Vesturgatan eins og hún leggur sig (45 km). (Ef smellt er á myndina birtist eilítið stærri mynd).

Langa Vesturgatan eins og hún leggur sig (45 km).

Sunnudagsmorgunn
Hlaupið átti að hefjast kl. 8 að morgni, sem þýddi að ég vaknaði stundvíslega kl. 5 til að borða morgunmat. Ég fylgi núorðið alltaf þessari þriggja tíma reglu fyrir löng hlaup, því að mesta annríkið í meltingunni þarf helst að vera búið þegar lagt er í hann. Þessa nótt gisti ég í húsi ættmenna í Bolungarvík ásamt fleirum úr fjölskyldunni og hlaupafélögum úr Borgarnesi. Frá Bolungarvík er um 50 mín. akstur að rásmarki hlaupsins á Þingeyri, þannig að við sem í hlut áttum gátum sem best lagt okkur aðeins aftur eftir matinn. Um kl. 7:30 vorum við svo komin til Þingeyrar þrjú saman, þ.e.a.s. ég sjálfur, Gunnar Viðar sem var líka skráður í stóru Vesturgötuna og Birgitta dóttir mín sem átti að leggja af stað í 24 km hlaupið kl. 11:00.

Fyrstu metrarnir
Við vorum ekki nema fimm sem röðuðum okkur upp við rásmarkið framan við Þingeyrarkirkju þennan morgun, þ.e.a.s. ég, fyrrnefndur Gunnar, Klemens Sæmundsson úr Keflavík, Álfheiður Hrönn Hafsteinsdóttir og Helga Þóra Jónasdóttir. Veðrið lék við okkur, hægur vindur, þurrt, þokuslæðingur í hlíðum og hitinn líklega 12°C. Betra gat það varla verið, nema hvað ekki sást vel til allra fjalla. Og fyrr en varði vorum við lögð af stað. Framundan voru nokkrar klukkustundir af útivist og hreyfingu í stærsta líkams- og sálarræktarsal í heimi.

Á Þingeyri árla morguns: Nýlögð af stað. F.v. Klemens, Helga Þóra, SG, Gunnar Viðar, Álfheiður. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á Þingeyri árla morguns: Nýlögð af stað. F.v. Klemens, Helga Þóra, SG, Gunnar Viðar, Álfheiður. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Í upphafi svona ferðalags er hugurinn fullur af óvissu. Maður veit að framundan er tiltekinn fjöldi kílómetra og kannski veit maður líka eitthvað um leiðina, hvar eru brekkur, hversu margar drykkjarstöðvarnar eru o.s.frv. En maður veit næstum ekkert um allt hitt sem bíður manns, hvernig veðrið muni breytast, hvernig líkaminn muni bregðast við álaginu eða hvernig samspilinu með hlaupafélögunum verði háttað. Maður þarf af þreifa fyrir sér, skynja dagsformið, hlusta á líkamann og spara kraftana hæfilega mikið til að þeir endist alla leið en skili manni samt í mark á þokkalegum tíma.

Við fórum öll frekar hægt af stað, en samt býsna nálægt því sem ég hafði reiknað með fyrirfram. Mér fannst við einmitt hafa hitt á réttu hraðastillinguna miðað við vegalengdina og óvissuna framundan. Við strákarnir héldum hópinn og stelpurnar komu í humátt á eftir. Fyrstu kílómetrarnir voru hlaupnir á malbiki, sem hentar utanvegaskóm ekki sérlega vel. Sólinn á þeim er oft ívið harðari en á götuskóm og dempunin minni. En fáeinir kílómetrar gera manni ekkert til.

Á leið framhjá Kirkjubóli í Dýrafirði. (Ljósm: Sólrún Halla Bjarnadóttir).

Á leið framhjá Kirkjubóli í Dýrafirði. (Ljósm. Sólrún Halla Bjarnadóttir).

Kirkjubólsdalur
Vegalengdin frá Þingeyri að Kirkjubóli mældist 5,64 km og þegar við fórum þar um hlaðið sýndi klukkan 28:18 mín. Þetta jafngilti 5:01 mín/km, sem var nánast nákvæmlega sami hraði og ég hafði gert ráð fyrir. Þarna tók hinn hefðbundni bílvegur enda og við tók greiðfær slóði inn Kirkjubólsdal. Hjólreiðamenn sem höfðu keppt á þessari sömu leið daginn áður höfðu haft orð á því að vegurinn væri óþægilega blautur og jafnvel sleipur í hjólförunum. Þetta voru orð að sönnu, því að undirlagið var allt mjög blautt eftir langvarandi vætutíð. Nánast ómögulegt var að hlaupa í miðju hjólfari, en víðast mátti auðveldlega þræða þurrari kanta eða grasi gróna vegmiðjuna. Vegurinn inn dalinn er frekar lítið á fótinn, en leiðin liggur yfir nokkra smálæki og holt. Þarna var auðveldlega hægt að halda nokkuð jöfnum skokkhraða.

Við reiknuðum með að ómannaðri drykkjarstöð hefði verið komið fyrir neðarlega í dalnum, á að giska 7 km frá rásmarkinu. Stöðin lét bíða aðeins eftir sér en birtist svo eftir 9,24 km. Klukkan sýndi 47:16 mín, sem þýddi að meðalhraðinn frá Kirkjubóli hafði verið 5:16 mín/km. Það var betra en ég bjóst við miðað við aðstæður og greinilegt að við vorum farnir að koma okkur upp svolítilli innistæðu fyrir brekkurnar framundan. Áfram var svo haldið inn dalinn eftir vegarslóðanum sem enn var greiðfær. Smátt og smátt hækkaði landið eins og við mátti búast. Við þrír héldum enn hópinn, fórum okkur að engu óðslega, spjölluðum um daginn og veginn, gengum upp brekkur og hlupum þess á milli. Innst í dalnum tóku við sneiðingar upp á heiðina og þar gafst gott tækifæri til að líta yfir farinn veg. Stelpurnar voru enn í augsýn, kannski svona hálfum kílómetra neðar í brekkunum.

Efst í sneiðingunum var enn svolítill snjór, en ekkert þó til trafala. Og fyrr en varði vorum við komnir hæst upp á Álftmýrarheiði (544 m) og þar beið okkar björgunarsveitarbíll með drykki. Vegalengdin var komin í 13,95 km og klukkan sýndi 1:29:11 klst. Meðalhraðinn upp brekkurnar hafði samkvæmt þessu verið 8:54 mín/km, sem mér þótti harla gott. Í svona brattlendi býst ég sjaldnast við að halda meira en gönguhraða, þ.e. um 5-6 km/klst sem jafngildir 10-12 mín/km. Líkaminn var enn óþreyttur og í toppstandi að öllu leyti nema hvað ég hafði fundið fyrir óþægindum í maga á leiðinni upp brekkurnar. Datt í hug að það tengdist því að morgunmaturinn hafði verið í naumara lagi. Samt þótti mér líklegra að óþægindin stöfuðu af einhverju öðru. Naumur morgunmatur ætti ekki að valda neinum óþægindum öðrum en orkuleysi þegar líður á daginn.

Undanhaldið
Eftir stutta viðdvöl upp á heiðinni, sem er í raun ekki nema örfárra metra breið, héldum við áfram sem leið lá niður í Fossdal í Arnarfirði. Þarna var auðveldlega hægt að spretta úr spori, enda allt undan fæti. Mér duttu í hug orð Steins Steinars, „Og styrkur minn liggur allur í undanhaldinu“, enda er ég yfirleitt töluvert sprækari niður í móti en upp í móti. Á niðurleiðinni er gott að vera fótviss og þann eiginleika ræktaði maður í ósléttu landi bernskunnar. Niðurhlaup eru samt erfiðari en þau líta út fyrir að vera, sérstaklega fyrir lærin framanverð. Ég var hóflega undirbúinn fyrir undanhaldið eftir 2-3 Hafnarfjallsæfingar og fann að 2-3 æfingar í viðbót hefðu verið til bóta. Fyrir vikið fór ég örlítið varlegar en mig langaði til, því að ekki er gott að ofbjóða lærunum svona snemma hlaups. Klemens hafði greinilega sinnt þessum undirbúningi betur. Alla vega fór hann talsvert hraðar niður brekkurnar en við Borgnesingarnir. Segir nú fátt af ferðum okkar niður brekkurnar, nema hvað vegurinn var miklu betri en ég hafði búist við og enn voru óþægindin í maganum til staðar.

Rétt í þann mund sem við vorum að komast niður á þjóðveginn út með Arnarfirði renndu tvær rútur fram hjá vegamótunum. Þar var verið að flytja hlauparana sem ætluðu að hlaupa hina hefðbundnu 24 km Vesturgötu að rásmarkinu í Stapadal. Í þann mund sem við komum niður á veginn og ösluðum yfir ána sem þar varð fyrir okkur sýndi kílómetramælirinn 19,64 km og klukkan 1:54:22 klst. Meðalhraðinn ofan af heiðinni hafði verið 4:26 mín/km. Við vorum greinilega komnir langt á undan upphaflegu áætluninni minni. Ég ákvað samt að láta alla hugarreikninga bíða þar til við kæmum í Stapadal.

Stapadalur
Það var gaman að koma í Stapadal, ekki bara vegna þess að þá var hinum óþekkta kafla hlaupsins lokið og troðnari slóðir framundan, heldur aðallega vegna þess að þar var saman kominn glæsilegur og glaðlegur hópur Vesturgötuhlaupara sem spöruðu ekki brosin og hvatningarorðin. Það er magnað hvað jákvætt fólk getur gefið manni mikla orku aukreitis. Ég sá líka Gittu minni bregða fyrir í hópnum en hún var einmitt að fara að leggja upp í sína fyrstu Vesturgötu. Það er alltaf best að vita af sínum nánustu nærlendis.

Ég gaf mér góðan tíma við drykkjarstöðina í Stapadal, ekki bara til að drekka vatn heldur líka til að horfa í kringum mig og íhuga framhaldið. Úrið mitt stóð í 20,94 km. Segjum bara að 21 km hafi verið að baki og 24 km eftir, því að þannig stemmir þetta við hina opinberu tölfræði. Klukkan sýndi 2:01:38 klst., sem þýddi að ég var rúmum 18 mín. á undan áætlun. Ég hafði jú reiknað með að ferðin frá Þingeyri að Stapadal tæki um 2:20 klst. Þetta þýddi að ég átti að geta lokið hlaupinu á 4:12 klst., sem var talsvert betra en ég hafði gert ráð fyrir. En auðvitað getur margt borið til tíðinda á langri leið og betra að spyrja að leikslokum.

Út fjöruna
Gunnar og Klemens voru lagðir af stað nokkru áður en ég kvaddi drykkjarstöðina í Stapadal og það góða fólk sem þar var. Ég náði þeim þó fljótlega, nánar tiltekið við lækinn sem er þarna rétt hjá. Ég hlakkaði til að fá nú annað tækifæri til að hlaupa þessa stórkostlegu leið út fjöruna í Arnarfirðinum, fram hjá björgum og milli bjarga, upp brekkur og utan í hlíðum. Þessi leið á engan sinn líka.

Einn af uppáhaldsstöðunum mínum á leið út með ströndinni skammt fyrir utan Stapadal. Myndina tók ég sumarið 2009.

Einn af uppáhaldsstöðunum mínum á leið út með ströndinni skammt fyrir utan Stapadal. Myndina tók ég sumarið 2009.

Kannski lumuðu fæturnir á góðum minningum frá Vesturgötuhlaupinu 2009 eða kannski var það tilhlökkunin sem gerði mig léttan í spori. Alla vega var ég allt í einu kominn spölkorn á undan félögum mínum. Ákvað að bíða þeirra ekki og halda mínu striki á þeim hraða sem gleðin bauð mér. Þeir myndu sjálfsagt ná mér fljótlega aftur og kannski myndum við fylgjast áfram langleiðina. En þetta gerðist ekki. Næst þegar ég leit um öxl hafði bilið breikkað og smám saman var ég orðinn einn míns liðs.

Í löngum hlaupum finnst mér nauðsynlegt að finna eitthvert annað verkefni fyrir hugann en að hugsa um allt erfiðið framundan. Í maraþonhlaupum snúast þessi verkefni að miklu leyti um tölulegar greiningar á síðustu 5 kílómetrum og spádóma um framhaldið út frá þeim. Í hlaupum eins og Vesturgötunni eru slík viðmið hins vegar öllu meira á reiki. Enginn kílómetri er öðrum líkur og viðmiðin fá. Ég ákvað samt að skipta því sem eftir var að leiðinni niður í 5 km kafla og taka millitímann á hverjum slíkum. Ef mér ætti að takast að hlaupa síðustu 24 kílómetrana á 2:10 mín þurfti ég augljóslega að ljúka hverjum 5 km kafla á innan við 27:30 mín. Ákvað að nota þá tölu sem viðmið. Kannski var 27:25 réttari tími en þetta var alla vega innan skekkjumarka, eða með öðrum orðum hæfilega ónákvæmt. Þetta verkefni skyldi hefjast þegar 20 km væru eftir.

20 km eftir
Í Vesturgötunni er viðhaft það skemmtilega fyrirkomulag að setja upp skilti sem sýna þann fjölda kílómetra sem er eftir í stað þess að sýna kílómetrana sem lagðir hafa verið að baki. Þegar ég kom að 20 km skiltinu stóð klukkan í 2:23:48 klst. Þar tók ég millitíma til að marka upphaf 5 km verkefnisins. Og svo hélt ég bara áfram að hlaupa og njóta þessarar stórbrotnu náttúru allt um kring. Í huganum ómaði 40 ára gamalt lag Alberts Hammond, The Peacemaker. Veit ekki hvernig það læddist þarna inn, en þetta sama lag ómaði einmitt í kollinum á mér í Víðavangshlaupi Íslands vorið 1974, einu fárra sigurhlaupa á ferlinum. Kannski var þetta fyrirboði, í það minnsta fyrirboði um að tímabært væri að uppfæra lagalistann í heilabúinu.

Um það leyti sem ég var kominn fram hjá eyðibýlunum tveimur í Lokinhamradal birtist skilti sem á stóð „Drykkjarstöð – 500 m“. Þetta gladdi mig, því að mér fannst einmitt kominn tími á vökvun. Ég hafði ákveðið í upphafi hlaups að bera enga drykki með mér. Eini farangurinn minn voru 7 bréf af orkugeli og 7 hylki af Saltstick steinefnahylkjum sem innihalda natríum, magnesíum, kalíum, kalsíSaltstickum og D-vítamín. Þessi hylki hafði ég keypt hjá Daníel Smára í Afreksvörum nokkrum dögum fyrr og ætlaði nú að nota þau í tilraunaskyni. Þau eiga að geta dregið úr líkum á krömpum, en oftar en ekki hef ég glímt við þá óáran undir lok lengstu hlaupanna. Hef svo sem aldrei gert neitt til að fyrirbyggja þetta, nema þá að reyna að vera í þokkalegu formi og e.t.v. að borða salthnetur. Orkugelið og steinefnin eiga það sameiginlegt að þeim þarf að skola niður með nægu vatni og þá er maður náttúrulega háður drykkjarstöðvunum ef ekkert vatn er með í farangrinum. En í þessu tilviki var ég greinilega of snemma á ferð enda fyrsti hlaupari dagsins. Drykkjarstöðin var nefnilega ekki komin á sinn stað. Henni mætti ég utar í hlíðinni, en það kom reyndar ekkert að sök því að þá var ég búinn að finna ágætan læk með góðu vatni sem gerði sama gagn. Drykkjarstöðvar eiga auðvitað að vera þar sem þær eiga að vera, en það er jú meira en að segja það að koma öllu á sinn stað í tæka tíð þar sem samgöngur eru jafn erfiðar og á Vesturgötunni. Svona frávik geta alltaf orðið við svona aðstæður.

15 km eftir
Það er erfitt að finna orð til að lýsa leiðinni út með Arnarfirðinum. Það eru einfaldlega forréttindi að mega upplifa þetta svæði á tveimur jafnfljótum. Fyrr en varði birtist skilti með áletruninni „15 km“. Síðustu 5 km hafði ég lagt að baki á 28:04 mín. og var þar með búinn að tapa hálfri mínútu miðað við 27:30 áætlunina mína. En mér var reyndar alveg sama um það. Leiðin var líka mishæðóttari en mig minnti. Mér leið vel og hafði alls ekki yfir neinu að kvarta, alls ekki!

Þegar þreytan gerir vart við sig í löngum hlaupum geri ég mér það oft til dundurs að bera vegalengdina sem eftir er saman við þekkta spotta sem ég hleyp oft á æfingum án þess að finnast það nokkurt tiltökumál. Hvað eru t.d. 12 km á milli vina? Það er bara eins og spottinn heiman að frá mér í Borgarnesi uppundir fólkvanginn í Einkunnum og heim aftur. Þann spotta hef ég oft skroppið eftir kvöldmat á virkum degi og ekki þótt það í frásögur færandi. Þetta var hreinlega að verða búið og allt lék í lyndi.

10 km eftir
Allt í einu var ég kominn að Svalvogum. Mér fannst tíminn hafa liðið hratt og þarna rifjuðust upp fyrir mér minningar frá hlaupinu 2009. Ég mundi nákvæmlega hvernig var að hlaupa þarna í þurrum sandi eftir allt harða undirlagið í hlíðinni og ég mundi líka eftir vindsveipum sem þyrluðu sandinum upp. Nú voru engir vindsveipir, bara hægviðri og blíða. Sólin var þó enn á bak við ský, sem mér fannst bara gott því að hitastigið fór greinilega hækkandi.

Svalvogar. Myndin var tekin sumarið 2009.

Svalvogar. Myndin var tekin sumarið 2009.

Ég bjóst kannski við að hitta nýjan hóp af hlaupurum við 10 km markið, því að þar átti að ræsa Hálfa Vesturgötu. Hins vegar mundi ég ekki alveg hvenær það átti að gerast. Alla vega var enginn mættur þarna til að klappa fyrir mér þegar mig bar að garði. Það var í góðu lagi, því að ég var alveg nógu glaður í sinninu hvort sem var. Klukkan sýndi að síðustu 5 km höfðu ekki tekið nema 26:20 mín. Ég hlaut því að vera nokkurn veginn „á pari“ miðað við drauminn um 4:12 klst. Heildartíminn var kominn í 3:18:13 klst. Þá voru sem sagt um 54 mín. eftir til að ljúka þessum 10 km. Það hljómaði sem raunhæf áætlun.

Þegar þarna var komið sögu var sú hugsun tekið að gerast áleitin að ég myndi kannski bara vinna þetta hlaup. Maður á aldrei að vera sigurviss, en ég var alla vega alveg aleinn í þessu hlaupi og hafði verið það lengi. Einu mannaferðirnar sem ég varð var við voru tveir eða þrír hjólreiðamenn og kannski einn björgunarsveitarbíll eða svo. Framundan var vegagerðarafrek Elísar Kjaran sem maður þreytist aldrei á að virða fyrir sér. Það er ótrúlegt að einn maður hafi tálgað þennan veg með lítilli jarðýtu utan í þverhnípt björg, án þess svo mikið sem að fá borgað fyrir það svo orð væri á gerandi.

Einhvers staðar á leiðinni inn Dýrafjörðinn mætti ég tveimur rútum. Þarna var verið að flytja 10 km hlauparana að rásmarkinu. Það er bara gaman að mæta rútu á þessari leið ef maður er hlaupandi. Hins vegar hefði ég ekki viljað vera á annarri rútu sem kom úr gangstæðri átt.

Á Vesturgötunni á leið inn í Dýrafjörð. (Ljósmynd: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á Vesturgötunni á leið inn í Dýrafjörð. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Keldudalur
Nokkru áður en Keldudalur opnaðist kom ég að 5 km merkinu. Nú var þetta alveg að verða búið! Síðustu 5 km höfðu tekið 28:10 mín. og ég ákvað að 4:14 klst. væri vel ásættanlegur lokatími. Klukkan stóð í 3:46:22. Það átti að vera auðvelt að klára síðustu 5 km á öðrum 28 mín.

Það var gaman að koma í Keldudal. Þarna hallar undan fæti um stund og landslagið er öðru vísi en í björgunum. Brekkan upp úr dalnum að innanverðu var kannski ekkert tilhlökkunarefni, enda líklega sú lengsta og hæsta á þessum 24 km kafla. En hún er samt bara hluti af upplifuninni. Það er ekkert erfiðara að hlaupa upp brekkur en á jafnsléttu, það er fyrst og fremst bara seinlegra. Það má líka alveg labba upp svona brekkur ef maður vill. Ég gerði það reyndar ekki, heldur skokkaði ég alla leiðina. Einhvers staðar ofarlega í brekkunni var ég búinn að leggja heilt maraþon að baki frá því um morguninn. Millitíminn þar var eitthvað um 3:57 klst. Mér finnst gaman að tala um millitíma eftir heilt maraþon. Og á brekkubrúninni voru ekki nema 2,5 km í mark.

Stutt eftir. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Stutt eftir. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Kominn í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Kominn í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Lokaspretturinn
Ég get alveg viðurkennt að ég réð mér varla fyrir kæti þessa síðustu kílómetra. Hlaupið endaði á langri brekku niður að markinu við Sveinseyri. Þarna gat ég leyft mér að bæta vel í hraðann enda fann ég varla fyrir þreytu. Ég ætla ekkert að lýsa því hvað mér leið vel þegar ég hljóp yfir marklínuna. Lífið hafði leikið við mig alla leið, ég kenndi mér einskis meins og hafði náð öllum mínum markmiðum og unnið hlaupið að auki. Er hægt að biðja um meira? Lokatíminn var 4:12:03 klst.

Marksvæðið
Eitt af því skemmtilegasta við almenningshlaup er stemmingin á marksvæðinu – og þessi stemming er óvíða betri en einmitt á Vesturgötunni. Þarna hitti ég marga gamla og nýja vini og þarna voru líka Björk og samferðamenn okkar úr Borgarnesi mætt til að taka á móti mér. Gleðin var í aðalhlutverki og sólin var meira að segja farin að skína. Hitastigið var líka komið í 18 gráður, en meiri hiti en það er ekki góður fyrir hlaupara. Reyndar fagnaði ég þessum hlýindum því að þau gerðu yfirhafnir óþarfar. Ég gat sem sagt sem best ráfað um marksvæðið á stuttbuxunum og stuttermabolnum sem ég hafði hlaupið í. Og ekki spilltu veitingarnar fyrir. Bæði leyndist ýmislegt góðgæti í tjaldinu sem þarna hafði verið sett upp og eins hafði Björk útbúið ríkulegt nesti að vanda. Reynsla mín segir mér að mikil og fjölbreytt næring strax eftir löng hlaup sé lykillinn að góðri líðan dagana á eftir. Það var þetta sem brást eftir maraþonið í París í fyrra þegar stigarnir í Louvre safninu urðu nánast ófærir daginn eftir.

Þegar ég hafði notið lífsins á marksvæðinu í nokkra stund fóru aðrir hlauparar að birtast í brekkunni, þeirra á meðal Gunnar og Klemens sem leiddust yfir marklínuna 4:27 klst. eftir að við vorum ræst í hlaupið á Þingeyri um morguninn. Svo tók verðlaunaafhending við og kveðjur að henni lokinni. Verðlaunin voru þau langglæsilegustu sem mér hafa áskotnast á ferlinum, hvorki meira né minna en nýir hlaupaskór, íþróttapeysa og lopapeysa að eigin vali frá dýrfirsku handverksfólki. Þetta kórónaði frábæra framkvæmd og ómetanlegt viðmót fólksins fyrir vestan sem hafði lagt nótt við dag við að skipuleggja þessa dásemd alla.

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Lærdómurinn
Maður lærir alltaf eitthvað nýtt í hverju hlaupi, bæði um sjálfan sig, um aðra og um ýmsa þætti sem skipta máli í hlaupinu sjálfu. Einn mikilvægasti þátturinn er vökvun og næring. Reynslan hefur kennt mér að ég þurfi að drekka u.þ.b. 300 ml. af vatni á hverja 10 km. Þetta getur samt verið svolítið breytilegt eftir hitastigi, áreynslu og almennri líðan. Í þessu hlaupi voru drykkjarstöðvar á 6-7 km fresti sem hentar mér mjög vel, þar sem mér finnst einmitt best að gleypa í mig orkugel með þessu millibili. Í lengri hlaupum nota ég alltaf  38 gramma gel af gerðinni High5, sem innihalda m.a. 23 g af auðmeltum kolvetnum. Í seinni tíð freistast ég alltaf til að nota gel með koffeini, en hvert bréf inniheldur um 30 mg af því. Þessu þarf að skola niður með tveimur góðum gúlsopum af vatni. Eins og ég nefndi hér að framan gerði ég í þessu hlaupi fyrstu tilraunina til að bæta Saltstick steinefnahylkjum á matseðilinn. Þessi hylki á að taka á 30-60 mín. fresti, sem passar ágætlega við tíðni gelátsins. Með þessu er alveg nauðsynlegt að drekka vatn, þannig að e.t.v. þarf að bæta svolítilli slettu við fyrrnefnda tvo gúlsopa. Ég ákvað samt að þetta væri allt innan skekkjumarka. Vatnsglösin á drykkjarstöðvunum voru þokkalega stór, en stundum finnast mér glösin sem boðið er upp á vera í naumara lagi. Til að vera alveg viss um að ég fengi nóg vatn bætti ég oftast í glasið eins og tolldi í því og drakk svo. Best finnst mér að taka glasið með mér en þá lendir maður oft í vandræðum með að losa sig við það aftur. Ekki vill maður henda rusli út um alla Vesturgötuna! Ég fann reyndar alltaf einhverjar leiðir til að komast hjá því. Í tvö skipti bað ég meira að segja fólk sem átti leið hjá í bílum að koma glasinu fyrir kattarnef.

Eins og sjá má tók ég hluta af Vesturgötunni með mér í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Eins og sjá má tók ég hluta af Vesturgötunni með mér í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Fyrst minnst er á úrgang get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ég sá svona mörg tóm gelbréf á Vesturgötunni þennan morgun. Þau hafa væntanlega tilheyrt hjólafólki sem fór þarna um daginn áður, því að ég var vel að merkja fyrsti hlauparinn sem átti þarna leið um. Maður getur svo sem alltaf misst gelbréfin frá sér, sérstaklega ef maður er á hjóli. En unglingavinnan er fámenn á þessum slóðum og ólíklegt að nokkur sé í aðstöðu til að hirða þennan úrgang upp af götunni. Gelbréfanna bíða því þau örlög að velkjast um í náttúrunni næstu aldir í félagsskap gelbréfa fyrri ára og komandi ára. Þetta brotnar nefnilega seint eða aldrei niður!

Eins og ég nefndi var steinefnahylkjaátið framkvæmt í tilraunaskyni. Niðurstöðurnar lofa góðu, því að ég fann aldrei fyrir minnsta votti af krampa, hvorki í hlaupinu sjálfu né eftir það. Slíkt heyrir til undantekninga þegar ég á í hlut. Að hlaupi loknu gat ég setið á hækjum mér, reimað skóna og leikið ýmsar svipaðar kúnstir sem oftar en ekki hafa reynst illmögulegar eftir löng hlaup. Ég get auðvitað ekki fullyrt að þetta sé allt hylkjunum að þakka, enda gerði ég enga samanburðarrannsókn. En þetta var alla vega öðru vísi en ég á að venjast.

Þakkir og lokaorð
Ég get ekki ímyndað mér hversu margar fórnfúsar vinnustundir liggja að baki Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum þetta árið. Þarna gekk allt upp og viðmótið var svo jákvætt og vinsamlegt að manni verður orða vant. Þeir sem einhvern tímann hafa komið nálægt skipulagningu almenningshlaupa eru ekki lengi að átta sig á því að fólkið fyrir vestan vinnur ótrúlegt þrekvirki með þessari framkvæmd á hverju ári. Það er heldur ekki eins og þetta sé bara eitt einfalt götuhlaup. Þetta eru nokkur hlaup, bæði í Óshlíðinni og á Vesturgötunni, og við þetta bætist svo sjósund, hjólreiðar og skemmtiskokk. Þetta er flókin framkvæmd og enn flóknari þar sem samgöngur eru seinlegar eins og raunin er á Vesturgötunni og þar sem menn geta ekki einu sinni treyst á farsímasamband til að koma skilaboðum á milli starfsmanna.

Þessum pistli lýkur með orðlausum þökkum til allra þeirra sem gerðu Hlaupahátíðina og þá sérstaklega Vesturgötuna að því ævintýri sem hún var. Mér detta fyrst í hug nöfnin Sigmundur Þórðarson og Guðbjörg Rós Sigurðardóttir, en á bak við þetta hljóta að vera a.m.k. 250 önnur nöfn. Öllu þessu fólki þakka ég innilega fyrir allt sem þau gerðu til að gera þetta eins skemmtilegt og raun bar vitni.

Þú átt valið

Stundum fallast okkur hendur þegar talið berst að umhverfismálum, einfaldlega vegna þess að okkur þykja viðfangsefnin yfirþyrmandi og erum þess fullviss að við getum engu breytt. Hvert okkar um sig er jú bara örlítill dropi í mannhafinu, nánar tiltekið bara einn einasti dropi af rúmlega sjöþúsund milljón dropum samtals. Það er því út af fyrir sig ekkert einkennilegt að okkur finnist við vera fá og smá – og reyndar gildir það sama hvort sem við lítum í eigin barm eða hugsum fyrir íslensku þjóðina alla. Þjóðin öll er jú heldur ekki ýkja margir dropar þegar á heildina er litið.

Ég hef einhvern tímann orðað það svo að stærsta umhverfisvandamál heimsins sé, þegar allt kemur til alls, hvorki loftslagsbreytingar, eyðimerkurmyndun né mengun vatns og jarðvegs, heldur sú trú eða skoðun einstaklingsins að það sem hann gerir eða gerir ekki hafi engin áhrif á heildina. Öll hin vandamálin eru eiginlega bara afleiðing af þessu vandamáli. Sú trú að við fáum engu breytt er að mínu mati beinlínis hættuleg. Hún er eiginlega fyrsta skrefið í algjörri uppgjöf, sem væri sjálfsagt kölluð UPPGJÖF 101 ef hún væri kennd í framhaldsskólum. Við getum nefnilega vel haft áhrif – og ef við getum það ekki getur það enginn. Allir hinir milljón skrilljón droparnir eru jú bara dropar eins og við þegar allt kemur til alls.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvernig í ósköpunum við getum beitt þessari getu til áhrifa sem ég held fram að við búum yfir. Svarið við þessari spurningu er ekki einfalt, enda er auðvitað ekki til neitt eitt rétt svar hér frekar en annars staðar. En þrennt af því sem við getum gert til að hafa áhrif er alla vega að kjósa, að spyrja og að sýna. Þessi pistill fjallar um þessar þrjár mögnuðu en vanmetnu aðferðir.

Við getum sem sagt í fyrsta lagi breytt með því að kjósa. Það gerum við ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Með hverri svona ákvörðun höfum við áhrif.

Í öðru lagi getum við breytt með því að spyrja. Hér hentar aftur vel að taka Nettó og Bónus sem dæmi, já eða bara hvaða verslun sem er. Ef okkur er ekki sama um það hvaðan varan sem við kaupum kemur, hvað hún inniheldur og hvernig hún er framleidd – og ef við getum ekki fengið að vita nægju okkar um það með því að skoða merkin á umbúðunum eða lesa innihaldslýsinguna, þá eigum við að spyrja. Allar spurningar hafa að minnsta kosti tvíþættan tilgang. Tilgangurinn með því að spyrja er nefnilega ekki bara sá að fá svar, heldur líka að láta vita að manni sé ekki sama. Ef okkur vantar að vita eitthvað en spyrjum ekki, þá er okkur sama. Þá erum við með öðrum orðum að afsala okkur því valdi sem við höfum til að hafa áhrif. Nú halda kannski sumir að það sé tilgangslaust að spyrja einhverra svona spurninga í búðum, til dæmis spurninga um það hvort varnarefni hafi verið notuð við ræktun á vínberjunum eða hvort gallabuxurnar hafi verið bleiktar með nonýlfenólethoxýlötum. Fólk sem vinnur í búðum viti nefnilega ekkert um svoleiðis hluti. Þetta getur svo sem alveg verið rétt, en það er þá örugglega vegna þess að enginn hefur spurt um þetta áður. Allir hinir hafa líkast til líka haldið að það þýddi ekki neitt. Hér er vert að hafa í huga það sem almennt gildir í viðskiptum, að eftirspurn er ekki eftirspurn nema þeir sem sjá um framboðið frétti af henni.

Þriðja einfalda leiðin til að hafa áhrif er að sýna, nánar tiltekið að sýna gott fordæmi. Rannsóknir benda reyndar til að fátt eða jafnvel ekkert sé líklegra til að hafa áhrif að hegðun fólks en einmitt það hvernig fyrirmyndir þess hegða sér. Og öll erum við fyrirmyndir einhverra. Við erum til dæmis fyrirmyndir barnanna okkar, annarra í fjölskyldunni, vinnufélaganna, nemendanna og sjálfsagt margra annarra sem við vitum ekki einu sinni að líta upp til okkar og taka eftir því sem við gerum. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stöðva.

Reyndar geymir sagan ótal mörg dæmi sem ættu að duga til að sýna okkur fram á að það sem einstaklingurinn gerir eða gerir ekki getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir heildina. Hver hefur til dæmis ekki heyrt um eldhugann sem reif upp íþróttastarfið í smábænum þar sem flest hafði legið í láginni árum saman og hver hefur til dæmis ekki heyrt talað um Nelson Mandela. Allt í kringum okkur sjáum við dæmi um fólk sem tók ástfóstri við tiltekið viðfangsefni og hreif aðra með sér. Og fyrr en varði var þetta litla frumkvæði orðið að fjöldahreyfingu. Með tilkomu samfélagsmiðla gerist þetta jafnvel margfalt hraðar nú en nokkru sinni fyrr.

Niðurstaðan er í stuttu máli þessi: Hvert okkar sem er getur haft veruleg áhrif, bæði í umhverfismálum og á öðrum sviðum. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti, meðal annars með því að vera meðvitaður um að allar ákvarðanir sem við tökum fela í sér kosningu með eða á móti einhverju, með því að spyrja um allt sem við viljum vita, ekki bara til að fá svarið heldur líka til að láta vita að okkur sé ekki sama og með því að sýna öðrum gott fordæmi, því að þessir aðrir eru miklu fleiri en maður heldur. Niðurstaðan í enn styttra máli felst í orðum Edmunds Burke sem sagði á sínum tíma: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 mánudaginn 21. júlí 2014).

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.