202×2020

2020 131025Í dag birtist 202. umhverfisfróðleiksmolinn á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is. Ég skrifaði fyrsta molann á þessa síðu 30 . ágúst 2012 og síðan þá hef ég bætt við einum mola á hverjum virkum degi ef frá eru taldir þónokkrir dagar í vor, sumar og haust, þegar þetta tómstundagaman mitt varð undir í samkeppni um tímann við vinnuna mína og önnur gæluverkefni.

Moli dagsins fjallar um landbúnað í Argentínu. Málefnin eru annars álíka mörg og dagarnir sem líða. Megintilgangurinn með skrifunum er fræða um umhverfismál og sjálfbæra þróun með einföldum og auðskildum hætti, enda er fræðsla forsenda þekkingar – og þekking er forsenda framfara í umhverfismálum.

Þeir sem vilja fræðast um ritstjórnarstefnu 2020.is geta lesið sér til um hana á þar til gerðri síðu. Hinir, sem vilja bara fræðast um umhverfismál, geta hins vegar stytt sér stundir við að lesa alla 202 fróðleiksmolana, hvort sem þeir fjalla um efnavörur, erfðabreyttar lífverur, grænt hagkerfi, hafið, heilsu, líffræðilega fjölbreytni, lífræna framleiðslu, loftslagsmál, neytendamál, orku, samgöngur, siðræn viðskipti, sjálfbæra þróun, umhverfismerki, úrgang, vistkerfi eða vistvæna hönnun.

Sex mínútna bæting í 13. maraþoninu

orig-RYAB2877-200Í gær hljóp ég heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 5. árið í röð. Jafnframt var þetta 13. maraþonhlaupið mitt frá því að ég hóf þá iðju fyrir 17 árum. Hlaupið í gær gekk framar björtustu vonum og þegar upp var staðið (eða niður sest) hafði ég bætt besta árangur minn hingað til um hálfa sjöundu mínútu, án þess að hafa svo mikið sem velt þeim möguleika fyrir mér áður en lagt var af stað.

Hefði verið óhugsandi!
Reykjavíkurmaraþonið í gær var mikil hátíð, enda voru þátttakendur fleiri en nokkru sinni fyrr. Samtals hlupu rúmlega 14 þúsund manns einhverja af þeim vegalengdum sem boðið var upp á. Af þessum skara lauk 851 heilu maraþoni, þar af 162 Íslendingar. Þetta hefði ekki bara þótt ótrúlegt fyrir nokkrum árum, heldur gjörsamlega óhugsandi!

Undirbúningurinn
Þetta var þriðja maraþonhlaupið mitt á árinu, og er þá Laugavegurinn ekki meðtalinn. Þrátt fyrir að ég hefði svo sem ekki undirbúið þetta tiltekna hlaup neitt sérstaklega, var ástandið á skrokknum einkar gott eftir vel heppnuð og alveg áfallalaus hlaup síðustu mánuði. Vikurnar fyrir hlaupið hafði ég lagt að baki um 60-70 km á viku, sem telst ekki mikið á uppbyggingartímabili maraþonhlaupara, en alveg ágætt til viðhalds og jafnvel rúmlega það. Ástundunin hafði þó ekki verið neitt í líkingu við það sem var síðari hluta síðasta vetrar í aðdraganda Parísarmaraþonsins 7. apríl, þar sem ég náði mínum besta tíma til þessa, 3:14:44 klst. Ég vissi svo sem vel að ég byggi enn að þessum pakka, m.a. eftir vel heppnað Laugavegshlaup fyrir rúmum mánuði síðan og góða yfirferð í Hreppslaugarhlaupinu í síðustu viku, þar sem ég var nálægt því markmiði mínu að hlaupa 14,2 km á skemmri tíma en einni klukkustund. Aðalatriðið í þessu öllu var þó að ég kenndi mér hvergi nokkurs meins og hafði ekki gert síðustu mánuði.

Markmið dagsins
Ég fór ekki í hlaupið í gær til að slá nein met, hvorki persónuleg né önnur. Aðalmarkmiðið var að njóta dagsins og hafa gleðina með í för alla leið. Auðvitað er mér þó aldrei alveg sama á hvaða tíma ég hleyp. Þannig hefði ég orðið býsna vonsvikinn ef ég hefði ekki náð að hlaupa undir 3:20 klst. Raunhæft markmið var að ná mínum næstbesta tíma til þessa, þ.e. undir 3:17, en ég gerði mér engar grillur um að bæta Parísartímann. Þar var undirbúningurinn mun markvissari, en vissulega voru aðrar aðstæður hagstæðari nú, bæði heilsufar og annað. Því gat „metið“ frá París svo sem alveg fallið ef allt gengi upp, þó að það væri alls ekki sérstaklega á dagskrá.

Að hugsa rétt
Maraþonhlaup reynir ekki síður á hugann en líkamann. Það er t.d. ekki vænlegt til árangurs að hugsa of mikið um það á leiðinni hversu langt sé eftir og hversu erfitt þetta sé nú allt saman. Hugsunin um að eiga t.d. 39 km eftir þegar maður er orðinn þreyttur og samt ekki búinn með nema rúma 3 km er t.d. ekki mjög uppörvandi. Öllum slíkum hugsunum þarf að bægja frá en beina sjónum frekar að því hversu vel hafi gengið það sem af er, hversu veðrið sé gott og hversu mikil forréttindi það séu að geta átt svona áhugamál og stundað það án nokkurra vandræða um leið og maður nýtur samvista við stóran hóp annars forréttindafólks með svipaðar hugsanir.

Áfangaskipting
Ég hef þann hátt á í maraþonhlaupum, ekki síst til að temja hugann, að skipta hlaupinu í áfanga. Þannig verður hlaupið eiginlega aldrei lengra en 5 km. Á fyrstu kílómetrunum reyni ég að einblína ekki um of á klukkana, en láta mig þess í stað hlakka til að sjá millitímann eftir 5 km. Síðan tekur við nýtt tímabil fram að 10 km markinu, og svo koll af kolli. Það er líka góð tilfinning að komast fram yfir miðlínu, þ.e.a.s. að vera búinn með fyrra hálfa maraþonið. Eftir það styttist leiðin framundan jafnt og þétt og verður fljótt miklu styttri en sú sem búin er. Hálfmaraþontíminn gefur líka vísbendingu um líklegan lokatíma, með öllum þeim fyrirvörum sem þörf er á. Síðasta hluta hlaupsins skipti ég svo í enn styttri áfanga. Þar finnst mér 37 km markið skipta hvað mestu máli, því að þá eru ekki nema rétt rúmir 5 km eftir. Það er stutt.

Staðhættir, færð, veður og umferð
Veðrið í gærmorgun hentaði einstaklega vel til maraþonhlaupa; fremur hæg vestlæg átt, súld og 10 stiga hiti. Svona veður getur reyndar verið svolítið hráslagalegt á meðan maður er fáklæddur að bíða eftir því að hlaupið verði ræst, en eftir það er þetta með því betra sem gerist. Á sléttlendi er líka frekar auðvelt að klæða sig eftir aðstæðum, því að þar eru sveiflur í veðurfari minni en í fjöllum. Ég valdi hlýrabolinn og stuttbuxurnar í þetta sinn í þeirri vissu að úrkoman myndi ekki aukast að neinu ráði og ekki vindurinn heldur. Reyndar er mér nokkurn veginn sama þótt svolítið rigni á mig á hlaupum, en vindur er mun erfiðari viðfangs. Í þessu sambandi rifja ég oft upp eitt af mínum bestu maraþonhlaupum, sem ég hljóp í Reykjavík vorið 2011 í 0,5 stiga hita og slyddu. Þá var næstum logn og aðstæður eiginlega stórfínar, svona eftir á að hyggja, þó að hlýrabolurinn og stuttbuxurnar væru reyndar í fríi þann dag.

Ekki bara hlaup
Maraþonhlaup er ekki bara maraþonhlaup, sérstaklega þegar Reykjavíkurmaraþonið á í hlut. Að sumu leyti líkist þetta meira fjölskylduhátíð, niðjamóti eða útihátíð. Þarna hittir maður fólk sem maður hittir annars sjaldan –  og gefur og þiggur góð ráð og aðra andlega hressingu. Dagurinn í gær var dæmigerður Reykjavíkurmaraþondagur. Svoleiðis dagur hefst með því að maður vaknar 3 klst. fyrir hlaup, fær sér morgunverð, fer í hlaupafötin, kemur sér til Reykjavíkur, finnur stað til að skilja bílinn eftir á, ákveður örlög bíllyklanna og fer svo að hita upp þegar enn eru helst um það bil 40 mínútur í hlaup. Ég var kannski ekki alveg svo snemma í því í gær, en upphitunin gekk vel og mér fannst ég vera í meðallagi léttur, hvort sem litið var á andlegu eða líkamlegu hliðina. Hitti Ragnar bónda á Heydalsá í upphituninni og líka nokkra fleiri hlaupara af Ströndum og úr Grafarvogi. Fyrir neðan MR hitti ég fleiri góða kunningja og nágranna rétt áður en hlaupið hófst. Allt er þetta liður í undirbúningnum og í því að byggja upp góða skapið sem maður tekur síðan með sér í hlaupið.

Út á 4:30 mín/km
Hlaupið var ræst kl. 8:40. Í svona hlaupum lendir maður oftar en ekki í svolitlum þrengslum til að byrja með, en í þetta skipti fannst mér það litlu máli skipta. Nokkrar sekúndur til eða frá breyta heldur engu þegar upp er staðið. Það er ekki eins og maður sé að berjast um heimsmeistaratitil þar sem hvert sekúndubrot getur ráðið úrslitum. Mér leið vel á fyrstu metrunum og hlakkaði til að þess sem framundan var. Stefnan var sett á að ljúka hverjum km á u.þ.b. 4:30 mín. og sjá svo til. Þessi hraði gefur rétt um 3:10 klst. í maraþonhlaupi og honum hef ég hingað til aldrei náð að halda lengur en fram í mitt hlaup. Ég hef sem sagt áður lagt af stað með nákvæmlega sömu áætlun og gefist misvel. Í Reykjavíkurmaraþoninu 2011 var þessi hraði mér ofviða. Fyrri hluti hlaupsins gekk mjög vel, en síðari hlutinn reyndist ákaflega erfiður. Í París gekk ekki vel að halda þessum hraða framan af, en seinni hlutinn var bærilegur.

Fyrstu 5 kílómetrarnir
Fyrstu 5 kílómetrarnir voru tíðindalitlir. Ég reyndi að fylgjast sem minnst með klukkunni, enda á hún það til að valda mér óþörfum áhyggjum ef hún fær of mikla athygli. Á 5 km línunni sýndi hún 22:28 mín, sem var 2 sek betri tími en ég hafði stefnt að. Ég var sem sagt kominn með 2 sek í plús, sem var algjörlega innan skekkjumarka. Um þetta leyti hitti ég Guðmund Löve á brautinni. Hann var að hlaupa hálft maraþon og hafði sett sér sama markmið um hraðann fyrstu kílómetrana. Eftir þetta var hann ýmist rétt á undan mér eða rétt á eftir þar til leiðir skildu.

Áfangi nr. 2
Við 10 km markið sýndi klukkan 45:02 mín. Ég var sem sagt búinn að tapa þessum 2 sek sem ég átti inni og öðrum 2 sek til viðbótar. Ég var vel sáttur við þetta, leið vel og fann hvergi til þreytu eða óþæginda. Reyndar fannst mér ég eitthvað stífur í öðru lærinu þarna á fyrstu kílómetrunum, en svoleiðis smáóþægindi líða venjulega úr mér þegar ég er orðinn vel heitur. Sú varð og raunin í þessu tilviki.

15 km og allt í góðu lagi
Heldur fannst mér mér aukast ásmegin á næsta áfanga, en það þurfti þó ekki að þýða neitt sérstakt. Mér leið bara vel og var afslappaður, meira að segja svo afslappaður að ég missti af 15 km markinu inn við Sundahöfn. Með lítils háttar reiknikúnstum fann ég út að millitíminn þar hefði verið nákvæmlega 1:07:30 klst. sem var alveg upp á sekúndu samkvæmt áætlun. Mig minnti að þetta væri örlítið betri tími en í París, en svoleiðis tölfræði gefur ekki tilefni til mikilla ályktana svona snemma hlaups.

Hvatningarhróp af svölum og víðar
Af og til sá ég kunnugleg andlit meðfram brautinni. Ég hef lýst því áður hversu miklu máli það skiptir að sjá einhvern sem maður þekkir eða heyra einhvern kalla nafnið manns. Á Kleppsveginum var kallað til mín ofan af svölum fjölbýlishúss. Ég sá ekki neinn og vissi ekkert hver þetta var, nema hvað þetta var greinilega einhver sem ég þekkti. Öll hvatning léttir sporin.

Fyrri helmingur lofar góðu
Ég fann að það hægðist örlítið á mér á leiðinni frá Kirkjusandi upp Kringlumýrabrautina og upp á Suðurlandsbraut. Þetta þekki ég vel frá fyrri hlaupum og læt það ekki angra mig. Þessi spölur er heldur á fótinn, en sekúndur sem tapast þar koma sjálfsagt til baka annars staðar. Þessi tilfinning mín endurspeglaðist í 20 km millitímanum; 1:30:10 klst. Þarna var ég orðinn 10 sek. á eftir áætlun en leit engu að síður svo á að ég hefði náð að gera þetta nákvæmlega eins og ég ætlaði. Þetta frávik var vel að merkja ekki nema 0,2%. Ég var sem sagt hæstánægður með þetta. Og þegar hlaupið var hálfnað skömmu síðar sýndi klukkan 1:35:09 klst. Það var heilli mínútu betri tími en í París, en einhverjum sekúndum lakari en ég hafði best séð áður. Seinni hluti hlaupsins í París var eins og áður segir „bærilegur“, en ekkert umfram það. Með hliðsjón af því mat ég stöðu mála svo að nú ætti ég u.þ.b. 50% möguleika á að slá persónumetið mitt og að líkurnar á að þetta yrði að minnsta kosti næstbesta hlaupið mitt frá upphafi (undir 3:17) voru yfirgnæfandi. Svona niðurstöður eru hvetjandi, þó að maður þurfi líka að gæta þess að missa ekki hugann út í draumóra sem geta breyst í vonbrigði síðar í hlaupinu.

Aldur og reynsla á uppleið
Á leiðinni frá hálfmaraþonmarkinu í Laugardalnum og inn að Elliðaám hljóp ég fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum. Það benti annað hvort til þess að ég væri farinn að bæta í eða að hinir væru byrjaðir að þreytast. Þetta var reyndar ekkert nýtt fyrir mér, enda við því að búast að minna reyndir hlauparar láti heldur undan síga þegar líður á hlaupið, á sama tíma og þeir „gömlu og reyndu“ halda sínu striki. Ég tel mig eðlilega tilheyra síðarnefnda flokknum. Ég ákvað alla vega að láta allar vangaveltur um hlaupahraða bíða þar til 25 km markinu væri náð. Það er hægt að horfa á margt fallegra en skjáinn á klukkunni.

Með vaxandi hraða, alveg óvart
Tíminn við 25 km markið kom mér eiginlega alveg í opna skjöldu, því að þar sýndi klukkan 1:52:22 klst. Þarna var greinilega eitthvað að gerast. Ég mundi reyndar ekki nákvæmlega hver millitíminn hefði verið í síðustu hlaupum, en þetta þýddi að ég hafði hlaupið síðustu 5 km á 22:12 mín, sem var 18 sek. hraðara en ég hafði gert ráð fyrir. Eftir á að hyggja var þetta 1:43 mín betri tími en í París, en margt getur gerst á þeim 17 km sem eftir voru. Því var best að hrapa ekki að neinum ályktunum.

Vaxandi gleði þegar vel gengur
Nú kann einhver að skilja pistilinn svo, að ég hafi verið búinn að gleyma því göfuga markmiði að hlaupa mér til gleði í stað þess að streða við að bæta tímann minn. En þannig var það ekki. Gleðin var enn í fyrirrúmi, en eðlilega jókst hún þegar ég sá hversu vel hafði gengið. Maður slær ekkert hendinni á móti góðri bætingu þegar hún er í sjónmáli, hvort sem að henni var stefnt í upphafi eða ekki. Bæting er reyndar enn skemmtilegri en ella ef hún kemur manni á óvart.

30 km á 2:14:39!
Ég lít alltaf á 30 km markið sem ákeðin þáttaskil í maraþonhlaupum. Þá er ég oftast farinn að vita nokkurn veginn að hverju stefnir. Reynslan segir mér að mikið þurfi að bera út af til að ég ljúki ekki þessum 12,2 km sem þá eru eftir á 57-63 mínútum. Í þetta skipti kom millitíminn mér mjög verulega á óvart, svo verulega að ég fór að halda að ég hefði litið vitlaust á klukkuna. En líklega var þetta samt rétt. Í allra bestu maraþonhlaupunum mínum til þessa hefur 30 km tíminn verið um 2:17 klst., en núna var hann 2:14:39 klst. Þar með taldi ég alveg öruggt að lokatíminn yrði undir 3:17 og líkurnar á persónulega meti orðnar verulegar. Fræðilega séð var jafnvel mögulegt að lokatíminn yrði undir 3:10 klst, en það hafði mér aldrei dottið í hug. Setti þá hugsun í geymslu og ákvað að halda mig á jörðinni enn um sinn.

Óvænt ánægja á 5 km fresti
Næstu kílómetramerkingar birtust hver af annarri. Ég einbeitti mér að því að halda léttleikanum, bæði í sál og líkama, sem var reyndar auðvelt því að ég var svo sem ekkert farinn að þreytast. Fyrr en varði voru 35 km að baki og tíminn kominn enn lengra fram úr björtustu vonum en áður. Ég hafði hlaupið síðustu 5 km á 22:12 mín eins og ekkert væri og var kominn í 2:36:51 klst. samtals. Þetta var 39 sek. betri tími en svarar til 4:30 mín/km. Aldrei hafði mér dottið í hug að ég gæti haldið þeim hraða svona lengi, hvað þá aukið hann. Með sama áframhaldi voru 3:10 klst. innan seilingar. Ég ákvað samt að bíða með bjartsýnina þar til 37 km markinu væri náð. Þá yrði nokkuð ljóst að hverju stefndi.

Á leið fram úr björtustu vonum
Ekki minnkaði gleðin við 37 km línuna. Klukkan sýndi 2:45:32 klst sem þýddi að síðustu 2 km höfðu ekki tekið nema 8:41 mín í stað 9:00 mín sem mér hefði fundist eðlilegt. Svona hraða hef ég aldrei látið mig dreyma um svona seint í hlaupi. „Metið“ frá París hlaut að falla, nema eitthvað mikið færi úrskeiðis. Jafnvel minni háttar krampar í fótum á 39. kílómetranum myndu varla breyta því, en svoleiðis nokkuð hefur stundum hrjáð mig undir lokin. En kramparnir létu mig eiginlega alveg í friði að þessu sinni og hraðinn jókst bara ef eitthvað var. Gleðin var orðin svo allsráðandi að það var næstum því vandræðalegt. Þetta gat auðveldlega endað með 3:10 klst. eða þar um bil. Sú yrði alla vega raunin ef ég næði að klára 40 km á 3 klst. sléttum eins og allt stefndi í. Og viti menn, tíminn þar var ekki nema 2:58:55 klst., sem þýddi að síðustu 5 km voru á 22:04 mín. Ég skildi eiginlega ekki hvað var að gerast. Nú var bara að halda sínu striki til að komast undir 3:10. Það var allt í einu orðið fullkomlega raunhæft og jafnvel líklegt.

Algjör hátíð
Eftir þetta jókst gleðin með hverju skrefi, og ekki spillti fyrir að ég kom enn auga á kunnugleg andlit meðfram brautinni. Þetta var að verða algjör hátíð! Ég ákvað að gefa klukkunni frí og njóta augnabliksins. Fyrr en varði var ég kominn inn í Lækjargötuna og sá ekki betur en markklukkan sýndi 3:08:eitthvað. Ég vissi svo sem að 3:10 væri í höfn, en þetta hafði mér aldrei dottið í hug. Vel hvattur af vinum og kunningjum í áhorfendaskaranum kom ég í markið á 3:08:19 klst, öllu glaðari en góðu hófi gegnir. Þetta þýddi að ég hafði hlaupið síðari helminginn á 1:33:10 klst., en í allmörgum keppnishlaupum á hálfmaraþonvegalengdinni hef ég bara einu sinni náð betri tíma en það.

Að bæta tilgangi við hlaupin
Ég hef stundum haft á orði, að ef maður getur sjálfur losað tímatökuflöguna úr skóreimunum sínum, þá sé ástandið á manni eftir hlaup nokkuð gott. Þetta gekk ágætlega í þetta skiptið. Líkamlegt ástand virtist sem sagt prýðilegt, en hugurinn var í óvenjumiklu uppnámi eftir þetta vel heppnaða hlaup. Eftir hefðbundið ráf um marksvæðið, bananaát og tilheyrandi, fann ég fjölskylduna mína utan við girðinguna, meira að segja alla fjölskylduna. Það er ómetanlegt að einhver taki svona á móti manni að hlaupi loknu, því að þá hefur maður annað hvort brýna þörf fyrir að deila gleði sinni með öðrum eða þörf fyrir stuðning og umhyegggju. Ég þekki betur fyrrnefndu þörfina. Þarna var Inga Björk Bjarnadóttir líka mætt, en hún er ástæðan fyrir því að ég hef nokkur síðustu ár hlaupið fyrir FSMA á Íslandi, en FSMA er félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum (Spinal Muscular Atrophy). Fjársöfnunin fyrir FSMA hefur bætt tilgangi við hlaupin hjá mér, enda eðlilegt að á hlaupum verði manni hugsað til þeirra sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta sjálfir hlaupið eins og þá lystir.

Þakklæti
Það er ekki hægt annað en vera þakklátur að loknu svona hlaupi, þakklátur forsjóninni fyrir að leyfa manni að gera þetta, þakklátur fjölskyldunni fyrir að styðja mann í þessu, þakklátur hlaupafélögunum fyrir samveru og skemmtun, þakklátur FB-vinunum og blogglesendunum sem sýna áhugamálinu áhuga og umburðarlyndi, þakklátur fólki eins og Ingu Björk sem bætir tilgangi við hlaupin og þakklátur skipuleggjendum og starfsfólki sem leggja á sig mikla vinnu til að gera hlaupið að því sem það er. Þakklæti er góð tilfinning.

Lokaorð
Eftir hlaupið brá ég mér inn í MR til að bregða mér í föt sem ég átti þar í geymslu. Þegar ég var á leiðinni út aftur var Jónsi í svörtum fötum upp í sviði í Lækjargötunni að syngja lag sem hitti einkennilega vel í mark hjá mér á þessari stundu: „Ég er glaðasti hundur í heimi“.

Að nýliðnum yfirdráttardegi

EOD2013-A_web2Yfirdráttardagurinn 2013 var í fyrradag. Á þriðjudagskvöldið var mannkynið nefnilega búið að eyða öllu því sem náttúran getur framleitt á þessu ári, sem þýðir að frá og með gærdeginum verðum við að lifa á yfirdrætti til áramóta. Í gærmorgun stóð hinn vistfræðilegi tékkareikningur mannkynsins á núlli – og engin útborgun fyrr en á næsta ári.

Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða, eða vistspor eins og það er venjulega kallað. Út frá sömu forsendum tímasetja samtökin „yfirdráttardaginn“ (sem á ensku er kallaður „Earth Overshoot Day“). Yfirdráttardagurinn er sá dagur þegar afrakstur ársins er genginn til þurrðar. Þá er með öðrum orðum búið að nota allar þær auðlindir sem jörðin getur gefið af sér á árinu og ekki um annað að ræða en að ganga á birgðir.

Að sjálfsögðu er ekki til nein ein rétt aðferð til að tímasetja yfirdráttardaginn og þar af leiðandi enginn einn réttur yfirdráttardagur, en smátt og smátt verður aðferðafræðin betri og niðurstaðan nær því að gefa rétta mynd af ástandinu. Yfirleitt hefur þessi dagsetning færst fram um nokkra daga á ári, en stundum verða meiri sveiflur þegar unnið er að lagfæringum á aðferðafræðinni. Árið 1993 bar yfirdráttardaginn upp á 21. október, 10 árum síðar, þ.e.a.s. 2003, var hann 22. september – og núna var hann 20. ágúst. Hann hefur þannig færst fram um u.þ.b. einn mánuð á hverju 10 ára tímabili – og flest bendir til að sú þróun haldi áfram enn um sinn.

Þriðjudagurinn í fyrradag var 232. dagur ársins, af 365. Það þýðir með öðrum orðum að á þessu ári notar mannkynið 365/232 = 1,57 jörð til að framfleyta sér, samkvæmt útreikningum Global Footprint Network. Svona getur þetta augljóslega ekki gengið til lengdar.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvar fáum við þessar 0,57 jarðir sem vantar upp á? Svarið er einfalt: Þetta tökum við af höfuðstólnum, svo sem úr olíu og öðrum jarðefnum sem við höfum nurlað saman á milljónum ára, ef svo má að orði komast. Og við tökum þetta líka úr andrúmslofti og vatni, sem hafa kannski tekið við 57% meiri úrgangi en þau ráða við á einu ári, og úr jarðvegi og regnskógum, sem hafa kannski verið skert um 57% umfram það sem getur endurnýjast á einu ári.

Eins og vænta má gengur þjóðum heims misvel að lifa af því sem landið þeirra gefur af sér, já eða landið þeirra og sjórinn svo öllu sé nú haldið til haga. Þannig eru lönd á borð við Ástralíu, Brasilíu, Kanada, Svíþjóð og Madagaskar sæmilega aflögufær, því að neysla þessara þjóða hverrar um sig nemur aðeins um eða innan við helmingi af líffræðilegri getu viðkomandi lands, en með líffræðilegri getu er átt við þau gæði sem vistkerfi landsins geta gefið af sér á einu ári. Hins vegar eiga öll þessi lönd það sameiginlegt að líffræðileg geta þeirra hefur farið minnkandi á síðustu árum, í það minnsta ef tekið er til tillit til íbúafjölda. Það sem er til ráðstöfunar fyrir hvern einstakling hefur með öðrum orðum farið minnkandi ár frá ári, þó að enn sé borð fyrir báru. Væntanlega nýta aðrar þjóðir sér þessa umframgetu með einum eða öðrum hætti, sem er jú eins gott, því að víðast hvar er eftirspurn eftir landsins gæðum mun meiri en framboðið. Þannig þurfa Kínverjar um það bil tvö og hálft Kína til að framfleyta sér, Bandaríkjamenn þurfa næstum tvö Bandaríki og Japanir rúmlega sjö Japön, eða hvernig sem maður segir annars Japan í fleirtölu. Ef við lítum á þau ríki sem næst okkur standa, þá eru Norðmenn nokkurn veginn á pari, sem þýðir að þeir fullnýta auðlindir sínar frá ári til árs, Finnar nýta aðeins helming af líffræðilegri getu sinni, en Danir þurfa um það bil tvær Danmerkur til að standa undir sinni neyslu.

Sumar þjóðir eru svo heppnar, ef hægt er að orða það þannig, að vera fámennar og búa í stóru og gjöfulu landi. Mér finnst til dæmis líklegt að neysla hvers Svía sé ekki mjög frábrugðin neyslu hvers Dana. Samt gætu allir Svíar lifað á um það bil hálfri Svíþjóð á sama tíma og Danir þurfa tvær Danmerkur. Þegar neysla þjóða er borin saman er því í raun réttara að skoða hvað jarðarbúar myndu þurfa margar jarðir til að framfleyta sér ef allir lifðu eins og einstaklingar viðkomandi þjóðar. Þá kemur í ljós að Norðmenn, Svíar og Finnar eru allir á svipuðu róli. Ef allir jarðarbúar myndu lifa eins og þessar þjóðir þyrfti mannkynið líklega rétt rúmar 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir virðast reyndar örlítið þyngri á fóðrum, því að í þeirra tilviki þyrfti um 4 jarðir.

Allt það sem hér hefur verið sagt miðast við útreikninga Global Footprint Network, en þar á bæ er hins vegar ekki til nein opinber tala fyrir Ísland. Í meistararitgerð sinni 2010 skoðaði Sigurður Eyberg Jóhannesson vistspor Íslands sérstaklega, en þar kom í ljós að erfitt er að beita sömu aðferðafræði til að leggja mat á stöðu Íslands, meðal annars vegna sérstæðs orkubúskapar og þess hversu stór fiskveiðilögsagan er miðað við flatarmál landsins. En hvernig sem litið er á málið er ljóst að Íslendingar eru í hópi neyslufrekustu þjóða í heimi. Ýmsar tölur hafa verið nefndar í því sambandi, en sú lægsta sem ég hef heyrt er að jarðarbúar myndu þurfa 5-6 jarðir til að framfleyta sér ef allir lifðu eins og Íslendingar. Það setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem telst neyslufrekasta þjóð heims eins og staðan er í dag í bókhaldi Global Footprint Network. Meðaljóninn í heimsþorpinu þarf jú 1,57 jörð miðað við að afrakstur ársins sé uppurinn á 232. degi eins og ég gat um fyrr í þessum pistli.

Það má annars orða þetta með yfirdráttardaginn þannig, að nú séum við, þ.e.a.s. mannkynið, í sömu stöðu og bóndi sem er búinn að gefa ánum sínum eða kúnum allt heyið frá liðnu sumri. Hann á ekki nema um tvennt að velja; annað hvort að kaupa hey frá öðrum bændum sem eru betur settir, eða ganga á fyrningarnar, þ.e.a.s. ef hann á einhverjar fyrningar. Við erum svo heppinn að eiga enn slatta af fyrningum, en þær duga ekki endalaust, því að það eyðist jú sem af er tekið. Og fyrningarnar eru okkar eina von eins og staðan er, því að í okkar sveit er enginn annar bóndi.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 í morgun).

Skálmardalsheiði 31. ágúst

Skálmardalsheiði yfirlitskort ja 200

Laugardaginn 31. ágúst nk. ætla ég að hlaupa yfir Skálmardalsheiði, en hlaupið er liður í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf hérna um árið. Hlaupið hefst í Skálmarfirði í Reykhólahreppi kl. 12 á hádegi umræddan dag, og mér finnst líklegt að því ljúki við eyðibýlið Gervidal í Ísafirði innst í Ísafjarðardjúpi u.þ.b. þremur klukkustundum síðar. Vegalengdin er um 19 km og hækkunin rétt um 500 m. Öllum unnendum heilnæmrar útivistar og íslenskrar náttúru er meira en velkomið að slást í hópinn með mér, enda er maður alla jafna manns gaman.

Þegar þetta er skrifað er ég búinn að leggja 34 fjallvegi að baki, en sumarið í sumar er 7. sumarið síðan fjallvegahlaupverkefnið hófst vorið 2007. Verkefnið gengur út á að hlaupa 50 fjallvegi á 10 árum, þ.e.a.s. fyrir sextugsafmælið mitt á útmánuðum 2017. Skálmardalsheiðin verður sem sagt 35. fjallvegurinn – og þar með er verkefnið „á pari“, (svo gripið sé til golfmáls, sem mér er að öðru leyti ekki sérlega tamt). Síðustu 15 fjallvegirnir verða afgreiddir næstu þrjú sumur – og þar með lýkur verkefninu.

Skálmardalsheiði er ein fjölmargra heiða sem menn áttu erindi yfir fyrr á öldum en eru fáfarnar í seinni tíð. Eitt af markmiðum fjallvegahlaupaverkefnisins er að kynnast eigin landi og rifja upp söguna sem það geymir. Skálmardalsheiðin geymir sinn hluta af þeirri sögu. Þar hafa eflaust margir farið fagnandi yfir, en aðrir hafa tekið þar sín síðustu skref og mætt grimmum örlögum, sem ýmist voru spunnin af óblíðum veðrum eða vígamönnum á borð við Þorgeir Hávarsson sem batt snöggan enda á líf ribbaldans Butralda eftir stutt orðaskipti í Butraldabrekku, eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu. Þar var Butraldi önnum kafinn við að krafla sig upp brattan skafl með exi sinni og fann „eigi fyrr en Þorgeir hjó framan í fang honum og þar á hol“.

Nánari upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið er að finna á www.fjallvegahlaup.is. Ef vel er leitað má þar m.a. finna drög að leiðarlýsingu fyrir Skálmardalsheiðina. Æskilegt væri að þeir sem hafa hug á því að skokka þennan spöl með mér létu vita af sér símleiðis (í síma 862 0538), í tölvupósti (stefan[hjá]environice.is) eða á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Sem fyrr segir fagna ég félagsskapnum, en tek þó fram að þátttaka í þessum ævintýrum er ævinlega á ábyrgð hvers og eins. Hlaupið hefst á Vestfjarðavegi (þjóðvegi nr. 60)  innst í Skálmarfirði, skammt frá eyðibýlinu Skálmardal. Þangað eru um 85 km frá vegamótunum neðst í Geiradal, þar sem ekið er yfir Þröskulda til Hólmavíkur, en um 285 km frá Reykjavík. Frá endamarkinu við Gervidal eru hins vegar um 70 km til Hólmavíkur.

Sæla á blautum Laugavegi

???????Ég hljóp Laugaveginn síðastliðinn laugardag, þ.e.a.s. þann Laugaveg sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þessi pistill hefur að geyma dálitla frásögn af hlaupinu og ýmsu sem tengdist því. Tilgangurinn með pistlaskrifunum er tvíþættur. Annars vegar gæti einhver haft gaman eða jafnvel gagn af því að lesa frásögnina, (þó að til þess þurfi reyndar álíka mikið úthald og til að hlaupa Laugaveginn) – og hins vegar er bloggið býsna öruggur staður til að geyma svona pistil á, sjálfum mér til upprifjunar fyrir næsta Laugavegshlaup. Upprifjun stuðlar að því að maður endurtaki ekki fyrri mistök en byggi frekar á því sem vel tókst.

Undirbúningurinn
Ég taldi mig vera í mjög góðu formi fyrir Laugaveginn þetta árið, ekki þó vegna þess að ég hefði æft svo mikið fyrir hann, heldur vegna þess að ég æfði mjög vel sl. vetur fyrir Parísarmaraþonið, þar með taldar allmargar intervalæfingar, svo og reglulegar styrktaræfingar að ráði Þorkels sonar míns. Þessar æfingar tel ég að hafi skipt sköpum. Æfingar sumarsins höfðu verið stopulli, en þó líklega dugað að miklu leyti til að halda fengnum hlut. Helsti veikleikinn var skortur á brekkuhlaupum. Upphaflega var ætlunin að byrja að vinna í þessu í apríl, þ.e.a.s. strax eftir París, en í reynd veigraði ég mér við því vegna meiðsla frá síðasta ári, sem ég finn eiginlega aldrei fyrir á meðan ég held mig á jafnsléttu. Einu brekkuæfingarnar þegar til kom voru þrjár ferðir á Hafnarfjallið, einn Þrístrendingur og eitt Hamingjuhlaup. Hins vegar tók ég nokkrar góðar æfingar á sléttu síðustu vikurnar.

Væntingarnar
Ég hafði sett mér það markmið fyrir löngu að hlaupa Laugaveginn undir 6 klst. Þetta átti að vera mjög raunhæft, m.a. þegar haft er í huga að árið 2007 hljóp ég minn fyrsta og eina Laugaveg til þessa á 6:40:50 klst. með miklu „færri kílómetra í löppunum“ og með miklu minni reynslu í kollinum. Varamarkmiðið var að bæta þann tíma, enda getur margt gerst á Laugaveginum sem setur strik í hinn ætlaða reikning. Þriðja markmiðið var að njóta hverrar stundar og hafa gleðina með í för allan tímann. Því skyldi náð hvað sem öðrum markmiðum liði.

Stundirnar fyrir hlaup
Það vildi þannig til að ég var aleinn heima kvöldið fyrir Laugaveginn. Þennan tíma nýtti ég vel í smáatriðaundirbúning af ýmsu tagi, svo sem til að ákveða nákvæmlega hvað ég ætlaði að taka með mér og í hvaða hirslu það ætti að vera. Mér finnst gott að hafa þetta allt á hreinu áður en gengið er til náða. Annars er hætt við að hugurinn haldi fyrir manni vöku við að fara í gegnum allan pakkann aftur og aftur í leit að einhverju sem gæti hafa gleymst. Áður en þessi undirbúningsvinna hófst hafði ég reyndar keypt mér ágæta fiskmáltíð á veitingastaðnum Edduveröld í Borgarnesi. Síðasta kvöldmáltíðin skiptir máli, og þegar maður er einn heima er snarlmatur óþarflega handhægur. Ef einhvern langar að vita hvort ég hlaði mig ekki upp af kolvetnum „karbólódi“ fyrir svona hlaup, þá er því fljótsvarað. Það hef ég aldrei gert og fer varla að byrja á því „á gamals aldri“. Mig grunar jafnvel að fyrirbærið sé ofmetið, auk þess sem ég get tekið undir með ágætum fyrrum kollega mínum vestan af fjörðum: „Ég hef nú aldrei verið mikið fyrir pasta“.

Eftir allan smáatriðaundirbúninginn gekk ég til náða stundvíslega kl. 21:45. Hugsanir um hlaupið og undirbúning þess létu mig alveg í friði, en samt náði ég ekki að sofna fyrr en um kl. 23:15. Líkaminn lætur ekki alltaf snúa á sig þegar rótgrónar venjur hans eru annars vegar.

Kl. 2:15 hringdi vekjarinn minn góðlátlega. Þar með hófst næsti hluti fyrirfram ákveðinnar atburðarásar í sama smáatriðastílnum, þ.m.t. sturta, morgunmatur (full skál af AB-mjólk með múslíi), endanleg röðun smáatriða í viðeigandi hirslur o.s.frv. Kl. 3:20 var ég svo lagður af stað akandi til Reykjavíkur – með allt á sínum stað.

Rútan í Landmannalaugar lagði af stað frá Skautahöllinni í Laugardal um kl. 4:30. Þar niðurfrá hitti ég Birki Þór Stefánsson, bónda og skíðagöngukappa í Tröllatungu á Ströndum. Hann var að fara sinn fyrsta Laugaveg, en á síðustu árum höfum við hlaupið ýmsa fjallvegi saman. Þeir sem hafa farið í nokkrar Vasagöngur eins og Birkir, vita líka nokkurn veginn við hvað hugurinn þarf að glíma. Við Birkir höfðum haft samráð um ýmislegt í undirbúningi hlaupsins og höfðum í hyggju að fylgjast að svo lengi sem hvorugur tefði fyrir hinum.

Tíminn í rútunni var fljótur að líða við spjall um heima og geima – og fyrr en varði renndum við í hlað við hálendismiðstöðina í Hrauneyjum þar sem þeir sem vildu gátu fengið keyptan morgunverð. Við Birkir vorum báðir í þeim hópi. Þessum pistli er ekki ætlað að vera nein veitingahúsarýni, en það verður þó að segjast að Hrauneyjar stóðu ekki undir væntingum. Staðurinn virtist engan veginn ráða við að afgreiða þennan þó fyrirsjáanlega fjölda fólks á svona stuttum tíma. Við okkur blöstu m.a. tómir hafragrautarpottar og fátæklegt hvítt brauð, og tímans vegna varð minna úr kaffidrykkju, tedrykkju og klósettferðum en stefnt hafði verið að. Ég hefði betur látið mér nægja seinni skonsuna og ostinn sem ég átti í fórum mínum í rútunni og afganginn af appelsínusafanum sem ég hafði skolað fyrri skonsunni niður með fyrr um morguninn. En þetta var svo sem allt í lagi. Stundum tekur maður bara rangar ákvarðanir. Það eina skynsamlega sem hægt er að gera í slíkri stöðu er að taka aðra ákvörðun næst þegar svipuð staða kemur upp.

Landmannalaugar
Það var hráslagalegt í Landmannalaugum þennan morgun, einhver sunnan gola, súld og líklega um 5 stiga hiti. Allir þurftu að skrá sig áður en lagt var af stað, enda nauðsynlegt í óbyggðahlaupum að vita hverjir leggja í hann og hverjir ekki. Þetta gekk frekar hægt til að byrja með og þess vegna myndaðist biðröð sem mér fannst ákaflega kalt að standa í. En reynslan hefur kennt mér að kuldahrollur fyrir hlaup er fljótur að gleymast þegar maður er kominn af stað. Naumlega tókst að ljúka skráningunni áður en fyrsti hópurinn var ræstur af stað í hlaupið kl. 9:00. Þessi fyrsti ráshópur var með gul keppnisnúmer og var því kallaður „guli hópurinn“. Við Birkir vorum hins vegar í „rauða hópnum“ sem var ræstur kl. 9:05. Röðun í hópa ræðst af áætluðum lokatíma. Þar hafði ég gefið upp 6 klst. en Birkir 7, auk þess sem við höfðum beðið um að vera í sama ráshópi.

Í Landmannalaugum skömmu áður en hlaupið hófst. Birkir tók myndina.

Í Landmannalaugum skömmu fyrir hlaup. Birkir tók myndina.

1. áfangi: Landmannalaugar-Hrafntinnusker
Kl. 9:05 lagði „rauði hópurinn“ af stað. Við Birkir vorum framarlega í hópnum, enda bjóst ég við að við værum með þeim hraðskreiðustu meðal rauðra. Fyrsti spölurinn upp frá Landmannalaugar liggur um þrönga götu í hrauninu. Þar verður maður að halda sér rólegum í röðinni, en af og til gefast tækifæri til að skjótast fram úr ef mikið liggur við.

Fyrstu kílómetrarnir voru tíðindalitlir. Við smeygðum okkur smám saman framar í röðina, en gengum upp flestar brekkur enda varla annað hægt á þessum slóðum. Áður en langt um leið tókum við að grilla í síðustu menn úr „gula hópnum“ og eftir rúman hálftíma vorum við búnir að brúa bilið. Okkur fannst okkur miða allvel áleiðis. Þarna hefur maður reyndar litla viðmiðun, því að meðalhraðinn á hverju tilteknu augnabliki segir svo sem ekki neitt. Í bröttustu brekkunum fer maður örhægt, en getur skokkað sæmilega þess á milli.

Á uppeftirleiðinni, 3 km að baki. Lambhúshettan á sínum stað og Birkir fylgir fast á eftir. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Á uppeftirleiðinni, 3 km að baki. Lambhúshettan á sínum stað og Birkir á næstu grösum, ef svo má að orði komast. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Þegar ofar dró fórum við að fá á tilfinninguna að sumarið væri ekki komið, heldur væri ennþá mars með vægri hláku. Þarna voru allar lautir fullar af hjarni, en efst var þunnt lag af nýföllnum snjó sem rigningarúðinn bræddi smátt og smátt. Fannirnar voru sæmilega greiðfærar því að bráðnun í efsta laginu var ekki mikil. Svona færi verður fyrst erfitt þegar mikil sólbráð er, því að þá er hálfbráðna lagið miklu þykkara.

Ég hafði áætlað að ferðin frá Landmannalaugum upp í Hrafntinnusker tæki 1:12 klst., þ.e.a.s. 20% af þeim 6 klst. sem ég ætlaði í hlaupið í heild. Þetta náðist ekki alveg, því að millitíminn í Hrafntinnuskeri var 1:15 klst. Þrjár mínútur til eða frá skipta hins vegar litlu sem engu máli í þessu samhengi, og því engin ástæða til að örvænta. Til viðmiðunar hafði ég líka millitímann frá hlaupinu 2007, en þá var ég 1:20 klst. þarna uppeftir.

Áfangi Samanlagt
Landmannalaugar-Hrafntinnusker 1:15:00 1:15:00
Áætlun 2013 1:12:00 1:12:00
Hlaup 2007 1:20:00 1:20:00

Það var skrýtið að koma upp í Hrafntinnusker. Þykkt snjólag var allt í kringum skálann, en breið geil meðfram öllum veggjum. Þarna var alautt þegar ég átti leið um í Laugavegshlaupinu 2007. Þegar þarna var komið sögu hafði Birkir dregist örlítið afturúr, en ég lét ótrauður fylla á vatnsbrúsann minn og hélt svo áleiðis í áfanga 2.

2. áfangi: Hrafntinnusker-Álftavatn
Mér leið vel þegar ég yfirgaf skálann í Hrafntinnuskeri eftir örstutta viðdvöl. Þessu var allt öðru vísi varið 2007, því að þá var ég tekinn að þreytast um þetta leyti og þótti langt eftir. Veðrið var enn svipað, svolítil gola í fangið og ísköld súld, enda hitinn varla nema um 2 gráður þarna uppi. Öll gil voru full af snjó og leiðin því líklega fljótfarnari en ella, sérstaklega fyrir þá sem láta snjóinn ekki angra sig. Einhvers staðar þarna uppi á fjöllunum lenti ég í smávegis vandræðum með ruslapokabeltið sem okkur var uppálagt að vera með. Ég hafði nælt keppnisnúmerinu í beltið, og þegar ég reyndi að opna pokann með krókloppnum fingrum skemmdist ein nælan þannig að ég gat ekki lokað henni aftur. Eftir það tróð ég því rusli sem til féll í annað hólf sem ég var með á drykkjarbeltinu mínu. Þetta sérhannaða ruslapokabelti verður varla notað meira, nema þá til að festa á það keppnisnúmer. Það virkar vel til þess.

Fyrst minnst er á rusl er rétt að taka fram að ég var vel birgur af orkugeli sem ég ætlaði að nota í hlaupinu. Geláætlunin mín hljóðaði upp á eitt stykki (38 g) á u.þ.b. 35 mínútna fresti. Samkvæmt þessu hefði ég þurft um 10 gel í ferðina. Af rælni hafði ég hins vegar líka með mér um 190 g. af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað dálítið aukalega í smáatriðaundirbúningi kvöldsins áður. Seinna í hlaupinu skipti ég að miklu leyti yfir í þessa fæðu, þrátt fyrir þá almennu reglu mína að breyta áætlun um fæðuinntöku aldrei í miðju hlaupi.

Birkir náði mér aftur á meðan ég glímdi við ruslapokabeltið og saman skokkuðum við sem leið lá suður á brún Kaldaklofsfjalla og niður Jökultungur. Ég fann vel á þessum köflum að Birkir var mun sterkari en ég í brekkum, en á jafnsléttu snerist dæmið við. Þetta kom svo sem ekkert á óvart, því að æfingarnar mínar höfðu í reynd miðast við maraþonhlaup á sama tíma og brekkuæfingar höfðu orðið útundan. Það var því öllu minni völlur á mér í Jökultungum en árið 2007 þegar ég geystist þar niður í óheftum unggæðingshætti.

Skömmu eftir að við komum niður af fjöllunum lá leiðin yfir Grashagakvísl, sem er fyrsta teljandi vatnsfallið á leiðinni. Vatnið var ákaflega kalt, enda við því að búast að teknu tilliti til lofthita og snjóþyngsla á fjöllum. Þarna reyndi á ódýru Adidas utanvegaskóna sem ég var með á fótunum þennan dag. Þeir stóðust prófið að því leyti að mér gekk sæmilega að stappa úr þeim vatninu þegar yfir var komið. Sumir aðrir skór eru þó betri hvað þetta varðar. Þegar þarna var komið sögu var ég reyndar farinn að finna töluvert fyrir sandi og smásteinum í skónum, enda  í örþunnum sokkum og ekki með neinar legghlífar. Ég ákvað að láta þetta ekki angra mig að sinni, enda tefst maður talsvert við að fara úr skóm og í þá aftur. Á endanum hljóp ég reyndar alla leið með sandinn í skónum – og varð ekki meint af.

Á sléttlendinu ofan við Álftavatn drógst Birkir aftur úr á nýjan leik, enda náði ég mér vel á strik á þessum kafla. Garminúrið sýndi iðulega 4:45 mín/km og Álftavatn nálgaðist óðfluga.

Millitíminn við Álftavatn var 2:26 klst., sem var 2 mín á eftir áætluninni minni. Ég hafði sem sagt unnið upp eina mínútu af þessum þremur sem vantaði á í Hrafntinnuskeri. Þarna staldraði ég ekkert við, lét bara fylla á vatnsbrúsann og hélt svo áfram ferðinni. Birkir var rétt á eftir mér.

Áfangi Samanlagt
Hrafntinnusker-Álftavatn 1:11:00 2:26:00
Áætlun 2013 1:12:00 2:24:00
Hlaup 2007 1:16:00 2:36:00

3. áfangi: Álftavatn-Emstrur
Mér leið enn ljómandi vel þegar ég yfirgaf skálann við Álftavatn. Veðrið hafði lítið breyst, nema hvað vindurinn var orðinn ívið austlægari. Áfram ringdi smávegis annað slagið, en alls ekkert til óþæginda.

Ég var kominn að Bláfjallakvísl eftir réttar 3 klst. Þar var strengdur kaðall yfir og aðstoðarmenn til taks, enda náði áin mér hátt upp á læri. Þegar ég kom upp úr að sunnanverðu voru fæturnir mjög dofnir af kulda, en það lagaðist fljótt á hlaupunum. Í hlaupinu 2007 skipti ég um skó sunnan við Bláfjallakvísl. Þá var ég kominn með krampa í fæturna og lentur í mesta basli. Núna átti ég engan farangur þarna á miðri leið og fann enga þörf til að staldra við eða hagræða einu né neinu. Sunnan við ána hitti ég franskan hlaupara búsettan í Kanada, sem var að hlaupa Laugaveginn til að halda upp á fertugsafmælið sitt. Við fylgdumst að dálítinn spöl, en síðan drógst hann aftur úr. Birki hafði ég ekki séð í nokkurn tíma.

Þessi merkimiði var aldrei notaður, enda lífið örlítið einfaldara án hans.

Þessi merkimiði var aldrei notaður, enda lífið örlítið einfaldara án hans.

Framundan voru sandarnir og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að nýta flatlendisformið sem ég kom mér upp í æfingunum fyrir Parísarmaraþonið. Þarna bar fátt til tíðinda, ég hitti fáa og hljóp bara sem leið lá án þess að fylgjast mikið með tímanum eða hraðanum. Þannig finnst mér tíminn líða hraðar, jafnframt því sem ég nýt stundarinnar betur. Það gerði ég virkilega á þessum kafla. Hlakkaði til að koma í Emstrur og sjá millitímann þar, en hann átti helst að vera um eða undir 4:12 klst. samkvæmt áætluninni minni. Og allt í einu blasti skálinn við – og klukkan ekki einu sinni komin í 4 klst. Þetta var gleðistund, mér fannst ég vera sigurvegari og var léttstígur þegar ég kom inn á pallinn hjá skálanum. Millitíminn var nákvæmlega 3:59:58 klst! Þessi þriðji áfangi hafði tekið 14 mín. skemmri tíma en ég hafði reiknað með og 21 mín. skemmri en í hlaupinu 2007.

Áfangi Samanlagt
Álftavatn-Emstrur 1:34:00 4:00:00
Áætlun 2013 1:48:00 4:12:00
Hlaup 2007 1:55:00 4:31:00

4. áfangi: Emstrur-Húsadalur
Mér dvaldist ekkert við skálann í Emstrum, nema til að láta fylla á vatnsbrúsann. Brúsinn tekur um 600 ml, og eftir að hafa áætlað vatnsþörfina það sem eftir var hlaups sullaði ég dálitlu niður til að minnka magnið í 450 ml. Það átti að vera hæfilegt miðað við að drekka u.þ.b. 300 ml. á hverjum 10 km. Mér finnst best að vera með nokkuð fasta fyrirfram gerða áætlun um vökva og fæði, því að ályktunarhæfnin eykst síður en svo þegar á líður hlaupið. Eftir sem áður þarf maður að læra að hlusta á líkamann og reyna að skynja hvað er honum fyrir bestu á hverjum tíma.

Nokkru áður en ég kom í Emstrur var ég farinn að finna örlitla krampatilfinningu í hægri kálfanum annað slagið. Meðal annars þess vegna breytti ég um mataræði, gaf gelinu frí og fékk mér þess í stað salthnetur og rúsínur á svo sem 20 mín. fresti til að reyna að koma í mig einhverjum steinefnum. Það virtist nú svo sem ekki hafa nein afgerandi áhrif, krampatilfinningin var enn til staðar, en líðanin að öðru leyti stórgóð. Auðvitað fann ég fyrir einhverri þreytu í skrokknum, en hugurinn var í sínu besta formi. Satt best að segja hef ég sjaldan skemmt mér betur en á þessum síðasta áfanga hlaupsins. Ég var í hreinskilni sagt með tárin í augunum af gleði yfir því að geta notið einmitt þessara gæða sem skipta mig svo miklu máli, þ.e.a.s. að geta verið á hlaupum allan daginn úti í náttúrunni. Um leið varð mér hugsað til vina og kunningja sem hefðu svo gjarnan viljað vera í þessum sporum en áttu þess engan kost – og líka til minna nánustu sem hafa skapað með mér aðstæður sem gera mér kleift að sinna þessu tímafreka áhugamáli mínu. Það er ekkert sjálfsagt að lífið leiki svona við mann. Það minnsta sem maður getur gert er að fyllast þakklæti og njóta stundarinnar á meðan hún gefst.

Þegar þarna var komið sögu var ég alveg viss um að ég myndi ljúka hlaupinu á 6:10 klst. í allra mesta lagi ef ekkert stórvægilegt kæmi fyrir. Þessi vissa byggðist á því að árið 2007 skrönglaðist ég síðasta áfangann á 2:10 klst. frekar illa á mig kominn. Ef allt gengi samkvæmt áætlun gæti tíminn hins vegar farið allt niður í 5:48 klst, og ef fjórði áfanginn yrði álíka léttur og sá þriðji eygði ég jafnvel möguleika á að bæta tímann minn frá 2007 um heilan klukkutíma niður í 5:41 klst. En hvað sem lokatímanum liði stæði ég uppi sem sigurvegari í keppninni við sjálfan mig.

Um þetta leyti jókst úrkoman til muna. Fram að þessu hafði þetta bara verið einhver súld og smárigning annað slagið, en núna fór að rigna fyrir alvöru. Og mótvindurinn jókst að sama skapi. Ég var nýbúinn að taka af mér lambúshettuna sem ég hafði haft meira og minna á hausnum alla leiðina. Var búinn að koma henni svo vel fyrir á drykkjarbeltinu að ég nennti ekki að draga hana fram aftur. Enginn er verri þótt hann vökni. Ég var auðvitað orðinn alveg gegndrepa frá hvirfli til ilja, en þó að hlýindi væru af skornum skammti vissi ég að ég gæti vel haldið á mér hita svo lengi sem ég héldist á hreyfingu. Ég hef oft hlaupið óþarflega fáklæddur í verra veðri en þessu.

Þrátt fyrir að þreytan og úrkoman hertu tökin smátt og smátt kom það ekki niður á gleðinni. Hún jókst jafnt og þétt. Allt í einu voru bara 12 km eftir. Þá hlaut ég að geta klárað á 1:20 mín. Svo voru 9 km eftir, sem gátu varla tekið meira en klukkutíma. Og þannig liðu kílómetrarnir í einskærri hamingju. Á nokkrum stöðum rifjuðust upp fyrir mér augnablik úr hlaupinu 2007, þar með talin erfið augnablik þegar ég vissi ekkert hvernig ég ætti að afgreiða kílómetrana sem eftir voru. Þá var ástandið verst í Fauskatorfum, þar sem á að giska 7 km eru eftir af hlaupinu. Núna var ég hins vegar staddur í einhverri allt annarri veröld. Þessir 7 km sem virtust svo langir fyrir 6 árum voru ekkert annað en þægilegur smáspotti sem ég hlakkaði til að kynnast á nýjan leik.

Þröngá var djúp og köld í rigningunni, en ferðin yfir hana var létt. Þar stóð Ingvar Garðarsson í miðjum streng, hlaupurum til halds og trausts. Mér fannst gaman að rekast á hann þarna. Ingvar er einn fárra sem hafa verið viðloðandi hlaupin álíka lengi og ég, nema hvað hann hefur lengst af verið langtum virkari. Þar hafa fá ár dottið úr síðustu fjóra áratugi.

Skógarstígarnir frá Þröngá niður í Húsadal voru mjúkir og hálir í bleytunni, en það skipti engu máli. Þetta var að verða búið, og ekki spillti fyrir að stórir hópar íslenskra göngumanna hvöttu mig óspart á lokasprettinum. Ég veit að ég fékk enga sérmeðhöndlun, en mér fannst ég samt vera aðalmaðurinn, já eiginlega ótvíræður sigurvegari hvað sem leið öllum þeim fjölda hlaupara sem komnir voru í mark á undan mér. Ég rétt náði að harka af mér til að ég kæmi ekki hágrátandi af gleði í markið. Það er lágmark að vera sæmilega frískur á markmyndinni, þó að sjálfsagt hafi ég verið með sjúskaðra móti, svona útlitslega séð. Hvað sem því leið sýndi markklukkan 5:57 klst. þegar ég skokkaði yfir línuna, sem þýddi að ég hafði lokið hlaupinu á 5:52 klst, því að  markklukkan var stillt fyrir „gula hópinn“ sem var ræstur 5 mín fyrr en „rauði hópurinn“ minn. Öll markmið höfðu náðst!

Síðustu skrefin, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót, því að hún tók tímann á „gula hópnum“. Hér ríkir gleðin ein. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Síðustu skrefin, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót, því að hún tók tímann á „gula hópnum“). Hér ríkir gleðin ein. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Áfangi Samanlagt
Emstrur-Húsadalur 1:52:33 5:52:33
Áætlun 2013 1:48:00 6:00:00
Hlaup 2007 2:09:50 6:40:50
Sigurvegari í unglingaflokki fullorðinna. (Ljósm. Guðmundur Löve (birt í fullkomnu leyfisleysi)).

Sigurvegari í unglingaflokki fullorðinna. (Ljósm. Guðmundur Löve (birt í fullkomnu leyfisleysi)).

Hrollur og hamingja
Starfsfólk Laugavegshlaupsins á miklar þakkir skildar fyrir alla þolinmæðina og umhyggjuna sem virtist hreint óþrjótandi þennan rigningardag. Ekki voru móttökurnar í markinu sístar, þar sem hópur fólks hjálpaði manni við að upplifa sig sem sigurvegara hvernig sem ástandið annars var. Reyndar var ástandið á mér alveg prýðilegt, svona líkamlega séð, og langt fyrir ofan öll eðlileg hámörk, svona andlega séð. Ég byrjaði á að stafla í mig hinum ólíklegustu fæðutegundum og fór svo að bauka við að komast í þurrt. Ég ætla ekkert að fjölyrða um þær aðfarir, að öðru leyti en því að ég hef sjaldan skolfið eins mikið. Ekki minnkaði skjálftinn þegar ég komst að því að sturtuhausarnir á útisturtunum sem ætlaðar voru karlhlaupurum voru einmitt á þeirri stundu sem ég stóð undir þeim eini þurri staðurinn á þessum landshluta. En hvað sem sturtuferðinni leið var ég kominn í þurrt eftir nokkra stund, þurfti reyndar smáhjálp við að reima skóna, en leið að öðru leyti stórvel. Birkir skilaði sér líka fyrr en varði. Hann hafði lokið þessu fyrsta hlaupi sínu á 6:11 klst þrátt fyrir lítinn undirbúning, sem þýddi að hann hafði í raun alls ekki dregist svo mikið aftur úr. Hann var vissulega ótvíræður sigurvegari!

Nú tók við hefðbundin slökun, spjall og neysla kjöts og annarra góðra veitinga. Svo var komið að verðlaunaafhendingunni – og ekki minnkaði gleðin þegar í ljós kom að ég hafði verið fyrstur í mark af körlum á aldrinum 50-59 ára. Þessu hafði ég alls ekki reiknað með, þó að mér hefði vissulega flogið möguleikinn í hug. Þetta var gaman!

Heim á leið
Strax að lokinni verðlaunaafhendingu settist ég upp í fyrstu rútu til Reykjavíkur. Leiðin þangað leið fljótt við spjall við Birki, Guðmund Löve og fleiri góða hlaupara, og frá Reykjavík tók við hefðbundinn akstur upp í Borgarnes. Á þeirri leið rifjaðist enn upp samanburðurinn við hlaupið 2007. Þá vildi það mér til happs að vera á sjálfskiptum bíl. Hægri fóturinn var nefnilega óökufær vegna krampa, en með því að leggja þann vinstri yfir og leyfa honum að sjá um bensíngjöfina komst ég alla leið heim. Nú var aksturinn ekkert vandamál, jafnvel þótt bíllinn væri beinskiptur og því nokkurt annríki hjá báðum fótum. Reyndar lét ég ekki staðar numið í Borgarnesi, heldur hélt áfram sem leið lá til Hólmavíkur þar sem öll fjölskyldan mín var stödd. Þar gekk ég til náða réttum sólarhring eftir að ferðalagið hófst.

Lokaorð
Þetta var ógleymanlegur dagur. Kannski fannst einhverjum veðrið leiðinlegt og færðin vond, en mér fannst þetta allt vera nákvæmlega eins og best verður á kosið. Kannski hefði verið örlítið fljótlegra að hlaupa þetta við örlítið betri aðstæður, en forréttindin eru þau sömu. Meiri gleði og meira þakklæti er varla hægt að upplifa á einum sólarhring.

Örlítið velkt þátttökunúmer að hlaupi loknu. Þátttakandinn var líka örlítið velktur, en ekkert umfram það.

Örlítið velkt þátttökunúmer að hlaupi loknu. Þátttakandinn var líka örlítið velktur, en ekkert umfram það.

Eftirmáli um nesti og búnað
Þessi eftirmáli er að miklu leyti hugsaður til eigin nota, en er þó eins og sjá má galopinn hverjum sem hafa vill. Eftirmálann ætla ég að lesa í byrjun júlí 2017 í lokaundirbúningi fyrir næsta Laugavegshlaupið mitt (að öðru óbreyttu). Er þegar byrjaður að hlakka til!

Ég var kappklæddur á Laugaveginum: Langerma hlaupabolur, hlírabolur utanyfir, hlaupajakki, hlaupanærbuxur, síðar hlaupabuxur, stuttir þunnir hlaupasokkar, utanvegaskór af gerðinni Adidas Kanadia 4 TR, þunnir en nokkuð vindheldir hlaupahanskar, lambhúshetta hálfa leiðina. Ég tel þetta hafa verið alveg hæfilegan klæðnað. Léttar legghlífar gætu þó verið góð hugmynd fyrir næstu ferð. Hvað skóna varðar, þá hef ég ekki hlaupið í Adidasskóm í u.b.b. 20 ár. Keypti þessa af því að þeir voru ódýrir. Þeir reyndust prýðilega og fóru vel með fæturna.

Ég var með þrjú belti en engan bakpoka, þ.e.a.s. drykkjarbelti með einum 600 ml brúsa, gelbirgðum og sérvasa fyrir annað nesti, einfalt belti með síma og nokkrum gelum – og ruslapokabelti í boði Laugavegarins. Þetta reyndist allt vel, nema ruslapokabeltið sem hentar vel til að festa á það hlaupanúmerið en síður til annars. Enginn farangur var geymdur við Bláfjallakvísl. Það tel ég hafa verið rétta ákvörðun.

Upphaflega ætlaði ég að taka gel (38 g / 80 kcal) á u.þ.b. 35 mín. fresti. Var með nógar birgðir til þess arna. Tók líka með slatta af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað aukalega, án þess að vera ákveðinn í hvenær og hvernig það skyldi notað. Skipti um áætlun á leiðinni, (sem ég geri annars aldrei). Tók ekki nema 5 gel, einkum á fyrri hluta leiðarinnar, en skipti svo yfir í hitt. Át þó varla meira en 60 g af því. Giska á að heildarorkuinntakan hafi ekki verið nema 700 kcal. Held að það sé frekar lítið, en orkan hélst vel alla leið. Aðkenning að krömpum í kálfa var eina vísbendingin um mistök hvað þetta varðaði. Veit ekki alveg hvað ég þarf að laga til að bæta þetta. Drakk 300 ml. af vatni á hverja 10 km, eða um 1,5 l samtals. Bætti á brúsann á drykkjarstöðvum eftir þörfum. Allt bendir til að vatnsbúskapurinn hafi verið í topplagi.

Hér lýkur þessum eftirmála og þar með pistlinum öllum.

Hlaupið sér til hamingju

???????Veðrið hefur áhrif á hamingjuna. Eða hefur hamingjan kannski áhrif á veðrið? Hvernig sem þessu er háttað var hamingjan með allra mesta móti í Hamingjuhlaupinu á síðustu helgi – og veðrið eins og best varð á kosið. Þetta var fimmta formlega Hamingjuhlaup sögunnar og rétt eins og í fyrra lá leiðin frá Árnesi í Trékyllisvík til Hólmavíkur um Naustvíkurskarð og Trékyllisheiði, samtals rúmlega 53 km leið, já eða líklega 53,57 km svo hæfilegrar nákvæmni sé gætt.

Hamingjuhlaupið hefur verið fastur liður í Hamingjudögum á Hólmavík frá því á árinu 2009. Allt á þetta sér sína sögu, en hana rakti ég m.a. í samsvarandi bloggpistli á síðasta ári. Fyrsta árið var hlaupið frá Drangsnesi, næsta ár yfir Þröskulda, þriðja árið frá Gröf í Bitru og í fyrra norðan úr Trékyllisvík. Hlaupin hafa sem sagt átt sér mismunandi upphöf, en endamarkið hefur alltaf verið á Hólmavík. Að þessu sinni var hlaupaleiðin frá síðasta ári endurnotuð, meðal annars vegna þess að þá lánaðist engum að hlaupa alla leiðina. Nú skyldi úr því  bætt.

Leiðin sem farin var í Hamingjuhlaupinu 2013.

Leiðin sem farin var í Hamingjuhlaupinu 2013.

Það er óhætt að segja að laugardagurinn 29. júní 2013 hafi runnið upp bjartur og fagur. Þennan morgun vaknaði ég á Hólmavík eins og marga aðra blíðviðrismorgna. Úti blés hægur vindur, og þó að hitastigið væri ekki komið í tveggja stafa tölu benti allt til þess að þetta yrði góður dagur með þurru veðri og jafnvel sólskini. Sú varð og raunin. Um 10-leytið var allt tilbúið, þar með talið nesti og nýlegir skór, og þá var haldið af stað akandi norður Strandir með Björk undir stýri. Við hjónin vorum þó ekki ein á ferð. Birkir, skíðagöngukappi, stórhlaupari og bóndi í Tröllatungu var með í liðinu, svo og Ingimundur lyftingamaður Ingimundarson yngsti frá Svanshóli. Við Selá innst í Steingrímsfirði bættist Ragnar á Heydalsá í hópinn, en hann er rétt eins og Birkir margreyndur í erfiðum skíðagöngum og fjallahlaupum. Ferðin norður í Trékyllisvík gekk eins og í sögu og segir fátt af henni. Dagurinn lagðist vel í okkur öll. Við Birkir vorum staðráðnir í að hlaupa alla leiðina og Ragnar ætlaði að fylgja okkur úr Trékyllisvík að Selá. Björk og Ingimundur hugðu hins vegar á göngu á Reykjaneshyrnu.

Rétt um hádegisbil vorum við stigin út úr bílnum við handverkshúsið Kört í Trékyllisvík. Þar hittum við fyrir þrjá hlaupara til viðbótar, þ.e.a.s. hjónin Hauk Þórðarson og Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, Skagfirðinga úr Borgarnesi – og Hólmvíkinginn Ingibjörgu Emilsdóttur. Eftir hefðbundna (fyrir)myndatöku var svo lagt af stað í blíðunni á slaginu 12:07, 7 mínútum á eftir áætlun. Framundan voru 53 kílómetrar og 8 klukkutímar af náttúrufegurð og hamingju.

Klukkan 12:07 við handverkshúsið Kört Í Trékyllisvík. Mikil hamingja framunda. F.v.: Ragnar Bragason, Haukur Þórðarson, Birkir Þór Stefánsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Stefán Gíslason. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Klukkan 12:07 við handverkshúsið Kört Í Trékyllisvík. Mikil hamingja framundan. F.v.: Ragnar Bragason, Haukur Þórðarson, Birkir Þór Stefánsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Stefán Gíslason. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur er þar miðað við fyrirfram ákveðna tímaáætlun, sem líkist áætlun strætisvagna að því leyti að í henni eru gefnir upp komu- og brottfarartímar á ákveðnum „stoppistöðvum“. Síðasta stöðin er jafnan á hátíðarsvæðinu á Hólmavík, þar sem óþolinmóðir en afskaplega hamingjusamir hátíðargestir bíða þess að hlaupararnir skeri fyrstu sneiðina af árlegu tertuhlaðborði. Að þessu sinni var nákvæm tímasetning tertuskurðarins svolítið á reiki, en hann átti alla vega að eiga sér stað á tímabilinu 19:50-20:30 um kvöldið.

Við vorum 5 sem lögðum af stað frá Árnesi, þ.e.a.s. ég, Birkir, Ragnar, Ingibjörg og Haukur. Kríurnar í Trékyllisvíkinni fylgdu okkur úr hlaði og virtust frekar mótfallnar þessu ferðalagi. Ein þeirra gekk meira að segja svo langt að rugla hárgreiðslunni hjá mér. Eins gott að myndatakan var búin!

Eftir að hafa fylgt þjóðveginum stuttan spöl beygðum við til hægri, hlupum um hlaðið í Bæ og áfram eins og leið liggur áleiðis upp í Naustvíkurskarð. Tíminn leið fljótt við spjall um alla heima og geima, og jafnvel þótt við gengjum upp allar bröttustu brekkurnar var hæstu hæðinni náð fyrr en varði. Í ljósi reynslunnar frá því í fyrra hafði ég áætlað að fyrsti áfanginn frá Árnesi að Naustvík tæki 50 mínútur, en sú reynsla var reyndar mörkuð af heldur lélegu ástandi mínu í það skiptið. Var nýtognaður og fór yfir Naustvíkurskarð aðallega til að sýnast – og tafði auðvitað fyrir hinum. Núna voru hins vegar allir í toppstandi, og þegar við komum niður á veginn við Naustvík voru ekki liðnar nema rétt rúmar 43 mín. Þarna vorum við sem sagt strax búin að vinna upp mínúturnar 7 sem töpuðust í startinu.

Á leið upp í Naustvíkurskarð. Trékyllisvíkin í sólbaði í baksýn.

Klukkan 12:37 á leið upp í Naustvíkurskarð. Trékyllisvíkin í sólbaði í baksýn.

Í Naustvík höfðu hjónin Haukur og Sigga Júlla hlutverkaskipti, en þau höfðu þann háttinn á að meðan annað hljóp ferjaði hitt bílinn á næsta áfangastað. Við vorum því enn 5 talsins á leiðinni frá Naustvík inn í Djúpavík. Sjálfur slóraði ég reyndar svolítið við Naustvík og dróst aftur úr hinum, en með því að bæta aðeins í hraðann gekk vel að vinna forskotið upp. Notaði líka tækifærið til að fækka fötum og koma umframflíkum í geymslu í bílnum hjá Hauki.

Horft inn Reykjarfjörð af veginum ofan við Naustvík.

Klukkan 12:58: Horft inn Reykjarfjörð af veginum ofan við Naustvík. Búrfell á miðri mynd.

Spölurinn frá Naustvík að Djúpavík er rúmir 10 km eftir veginum. Það ferðalag tók okkur u.þ.b. klukkustund og á leiðarenda var klukkan orðin nákvæmlega 13:55, sem var upp á mínútu sá tími sem ég hafði áætlað. Þarna var gert ráð fyrir 10 mínútna hvíld, en hún fékk óáreitt að lengjast í 20 mín, því að ég þóttist vita að tertuskurðurinn hæfist seinna en upphaflega var ráðgert. Okkur lá sem sagt ekkert á. Gerðum góðan stans í fjörunni framan við hótelið, kíktum í nestið og hagræddum fatnaði. Framundan var lengsti og hrjóstrugasti áfanginn, þ.e.a.s. Trékyllisheiðin. Leiðin fer að vísu hvergi í meira en rúmlega 400 m hæð yfir sjó, en engu að síður getur veðurfarið þar uppi verið allt annað og kaldara en við sjóinn. Í þetta sinn bjuggum við líka svo vel að hafa trússbíl, því að Sigga Júlla gat tekið allan þann farangur sem við vildum ekki bera yfir heiðina.

KL. 14:08 í veðurblíðunni í Djúpavík. Allt að verða tilbúið fyrir Trékyllisheiðina. F.v.: Ragnar, Birkir, Sigríður Júlía, Ingibjörg, Kolbrún, Stefán og Haukur. (Ljósm.: Arnar Barði Daðason).

Klukkan. 14:08 í veðurblíðunni í Djúpavík. Allt að verða tilbúið fyrir Trékyllisheiðina. F.v.: Ragnar, Birkir, Sigríður Júlía, Ingibjörg, Kolbrún, Stefán og Haukur. (Ljósm. Arnar Barði Daðason).

Klukkan 14:15 héldum við af stað frá Djúpavík, áleiðis inn dalinn fyrir aftan byggðina. Þar er greið gönguleið inn á Trékyllisheiði. Þennan spöl hafði ég reyndar aldrei farið og hafði því sett GPS-punkta af korti inn í Garminúrið mitt til öryggis. Þessa punkti þurfti ég svo sem ekkert að nota þegar til kom, enda leiðin auðrötuð í bjartviðri eins og því sem var þennan hamingjusama dag. En í stuttu máli má lýsa leiðinni inn á heiðina þannig að hún sveigi fljótlega upp í hjalla utan í fjallinu sunnan við dalinn sem þarna opnast. Þessum hjöllum er fylgt áfram í svipaða stefnu þar til komið er að Kjósará. Þegar yfir hana er komið tekur við greinilegur slóði sem auðvelt er að fylgja áfram inn á heiðina þar sem enn greinilegri slóði tekur við.

Enn vorum við 5 sem lögðum af stað frá Djúpavík. Ingibjörg sleppti reyndar heiðinni, enda var markmið hennar að ná 30 km hlaupum út úr deginum. Heiðinni var ofaukið í þeirri áætlun. Í hennar stað slóst Kolbrún Unnarsdóttir Hólmvíkingur og fjallahlaupari úr Mosfellsbænum í för með okkur. Og nú var Haukur aftur tekinn við í hjónaboðhlaupinu.

Klukkan 14:17: Lagt af stað frá Djúpavík. Brosin voru í stöðugri notkun í þessari ferð.

Klukkan 14:17: Lagt af stað frá Djúpavík. Brosin voru í stöðugri notkun í þessari ferð.

Rétt fyrir ofan Djúpavík sat svört þyrla á hóli. Við höfðum séð hana koma á leiðinni inn Reykjarfjörðinn frá Naustvík og töldum líklegt að leit væri hafin að einhverju okkar. Þar kom ég sjálfur hvað sterklegast til greina, því að ég hafði einmitt verið að upplýsa ferðafélagana um björgunarsveitar-„appið“ í nýja símanum mínum. Kannski hafði ég rekið mig í rauða 112-hnappinn á „appinu“ og þannig ræst þyrluna út. En þegar betur var að gáð var þetta greinilega ekki björgunarþyrla heldur miklu fremur vísbending um það sem sum okkar hafði grunað, að árið 2007 væri um það bil að bresta á á nýjan leik. Þá töldust þyrlur nánast til nauðþurfta hjá fólki sem var sæmilega sjálfbjarga.

Leiðin inn hjallana innan við Djúpavík er ekki fljótfarin, en kl. 3 vorum við samt komin að Kjósaránni. Þangað eru rétt um 3,5 km frá Djúpavík og hækkunin eitthvað um 230 m. Þessi spölur hafði tekið okkur um 45 mín., sem telst ágætis yfirferð í landslagi eins og þarna er. Samkvæmt GPS-punktunum mínum virtist ráð fyrir því gert að við færum yfir ána neðst í svolitlu gili sem þarna er, þ.e.a.s. þar sem áin byrjar að dreifa úr sér. Þar hefði þó ekki verið hægt að komast yfir þurrum fótum, því að ár voru vatnsmiklar þennan dag. Því tókum við á það ráð að fara yfir ána á snjóbrú nokkru ofar.

Klukkan 15:04: Komin yfir Kjósará á snjóbrú.

Klukkan 15:04: Komin yfir Kjósará á snjóbrú. Reykjarfjörður blár í baksýn.

Eftir örstutta áningu á nyrðri árbakkanum héldum við ferð okkar áfram inn á heiðina. Þarna var víða mikil aurbleyta í holtum, enda mikið af landinu nýkomið undan snjó og enn fannir í öllum lautum. Þau okkar sem voru í nýlegum skóm urðu því að sætta sig við að óhreinka þá verulega.

Klukkan 16:03: Kolla ein í snjónum. (Munið að myndin er tekin 29. júní).

Klukkan 16:03: Kolla ein í snjónum. Aurbleyta í lágmarki þessa stundina. (Munið að myndin er tekin 29. júní).

Þegar inn á heiðina kom blöstu við enn meiri fannir. Ragnar bóndi kom strax auga á Goðdalsána, sem var vatnsmikil þar sem til sást en undir snjó þess á milli. Slóðin suður yfir heiðina, sem við sáum reyndar lítið af vegna fanna, liggur suður með ánni austanverðri og síðan yfir hana á vaði eftir að hún beygir til austurs áleiðis niður í Bjarnarfjörð. Ragnar hvatti til að við færum ofar til að nýta snjóbrýrnar sem þar var nóg af. Við fylgdum ráðum hans að nokkru leyti, fundum trausta snjóbrú um það bil 800 metrum ofan við vaðið og skelltum okkur þar yfir. Brúin hélt og enginn hvarf niður í sprungur. Ég var reyndar búinn að kvíða Goðdalsánni svolítið. Hún getur verið býsna vatnsmikil á dögum eins og þessum þegar hlýtt er og mikil snjóbráð á heiðinni. Þetta er langstærsta vatnsfallið á þessari leið. Reyndar þarf líka að fara yfir Sunndalsá. Þar var engin snjóbrú, svo við stukkum bara yfir hana.

Haukur í lausu lofti yfir Sunndalsá. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Klukkan 16:37: Haukur í lausu lofti yfir Sunndalsá. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Sunnar á heiðinni lá tófa sofandi í vegkantinum. Það er til marks um það hversu lítið er um mannaferðir á þessum slóðum að ekki rumskaði lágfóta þótt Birkir hlypi fram hjá henni í seilingarfjarlægð. Birkir er reyndar ákaflega léttstígur að jafnaði. Sama gilti ekki þegar við Ragnar nálguðumst í hrókasamræðum. Þá vaknaði tófan við vondan draum, líklega um nefndan Ragnar sem vinnur sem grenjaskytta í hjáverkum. Hún yfirgaf svæðið í snatri.

Segir nú fátt af okkur fimmmenningunum, nema hvað heldur fækkuðum við fötum eftir því sem á leið heiðina og eftir því sem sólin skein skærar. Fyrir ofan brúnir Selárdals hittum við fyrir þær frænkur frá Þorpum á Gálmaströnd, Jónínu og Höddu. Þar með vorum við orðin að 7 manna hópi sem skilaði sér niður á láglendið í botni Steingrímsfjarðar stundvíslega kl. 17:54, einni mínútu fyrr en strætisvagnaáætlunin góða gerði ráð fyrir. Við vorum sem sagt óvart búin að vinna upp tímann sem við höfðum viljandi tapað í Djúpavík, þrátt fyrir að hafa heldur haldið aftur af okkur á heiðinni.

Jónína í Bólstaðargilinu. Þarna falla öll vötn til Steingrímsfjarðar.

Klukkan 17:41: Jónína í Bólstaðargilinu. Þarna falla öll vötn til Steingrímsfjarðar.

Við gömlu brúna yfir Selá beið okkar nokkur fjöldi fólks. Þar voru um 38,5 km búnir og rétt um 15 eftir. Sú vegalengd er mun alþýðlegri en leiðin öll, auk þess sem heiðar voru að baki og ekkert nema bílvegir eftir.

Eftir nákvæmlega 13 mínútna spjall og nestishlé við Selá var lagt upp í fjórða áfangann, rétt um 4 km leið að brúnni yfir Staðará. Þarna vorum við Birkir orðnir einir eftir af upphaflega hópnum, enda engir aðrir með nein áform um að hlaupa alla leiðina. Ragnar var kominn í frí, en Ingibjörg búin að reima á sig hlaupaskóna á nýjan leik. Á þessum kafla undi ég mér helst við spjall við frænda minn Guðmund Magna, sem slóst í hópinn við Selá ásamt Lilju eiginkonu sinni. Guðmundur Magni er enginn byrjandi í hlaupum, enda félagi nr. 13 í Félagi 100 km hlaupara á Íslandi. Menn geta auðveldlega getið sér til um inntökuskilyrðin í þeim félagsskap.

Klukkan 18:30 við Grænanes. Þorsteinn Newton og Jóhanna Guðbrandsóttir eru fremst á myndinni en þar fyrir aftan Ingibjörg Emilsdóttir og Sigríður Drífa Þórhallsdóttir.

Klukkan 18:30 við Grænanes. Þorsteinn Newton og Jóhanna Guðbrandsóttir eru fremst á myndinni en þar fyrir aftan Ingibjörg Emilsdóttir og Sigríður Drífa Þórhallsdóttir.

Við Staðará bættist enn fleira fólk við. Þarna var klukkan orðin 18:36, 11 km eftir til Hólmavíkur og nógur tími til stefnu þrátt fyrir að frávikið frá upphaflegri áætlun væri komið í 9 mínútur. Hópurinn var tekinn að dreifast töluvert og ég tók ákvörðun um að fylgja fyrstu mönnum til að geta betur haft stjórn á ástandinu.

Klukkan 18:36 á brúnni yfir Staðará. Hér má sjá Hrafnhildi Þorsteinsdóttur, Rósmund Númason, Jóhönnu Rósmundsdóttur og Maríu Mjöll Guðmundsdóttur. Og enn er himinninn blár.

Klukkan 18:36 á brúnni yfir Staðará. Hér má m.a. sjá Hrafnhildi Þorsteinsdóttur, Rósmund Númason, Jóhönnu Rósmundsdóttur og Maríu Mjöll Guðmundsdóttur. Stakkanes í baksýn. Og enn er himinninn blár.

Á Fellabökum var gerður stuttur stans og lagt á ráðin um hvernig best væri að ljúka verkefninu. Klukkan var 19:12 sem þýddi að við vorum ekki nema 5 mínútum á eftir áætlun. Flest benti til að við þyrftum að seinka áætlaðri innkomu um allt að því hálftíma. Ég brá því á það ráð að drífa mig síðasta spölinn og stilla mér upp á grasflötinni vestan við Lögreglustöðina út við Hólmavíkurvegamótin, en þar skein sólin glatt og gott skjól var fyrir vindi. Þar skyldi öllum þátttakendum safnað saman og beðið eftir merki um að okkur væri óhætt að fjölmenna inn á hátíðarsvæðið. Ég var mættur þarna kl. 19:42 og á næstu 10 mínútum skiluðu allir hinir hlaupararnir sér á svæðið. Þarna var Jóhann tengdafaðir minn líka mættur með myndavélina eins og jafnan við lok Hamingjuhlaups.

Hamingjusamir hlauparar í kvöldsólinni við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði. Ef vel er talið má sjá þarna 29 andlit. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Klukkan 20:00: Hamingjusamir hlauparar í kvöldsólinni við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði. Ef vel er talið má sjá þarna 29 andlit. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Um það bil 10 mínútum eftir kl. 8 kom símtalið sem beðið var eftir. Þá lagði öll hersingin, líklega um 30 manns, af stað áleiðis niður á hátíðarsvæðið, sem að þessu sinni var ekki niður við höfnina heldur við gafl félagsheimilisins. Hlaupið þangað frá lögreglustöðinni tók ekki nema 3 mínútur. Að vanda höfðu gestir Hamingjudaganna myndað göng sem við hlupum í gegnum síðasta spölinn. Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari hafði orð á því eftir Hamingjuhlaupið 2011 að hann hefði hvergi fengið þvílíkar viðtökur að hlaupi loknu. Það segir sitt, þar sem Gunnlaugur hefur farið víða á hlaupum sínum.

Eftir stutta móttökuathöfn gafst hlaupurunum ráðrúm til að skola af sér mesta svitann og leirinn í sundlauginni á Hólmavík, og að því loknu var komið að tertuhlaðborðinu. Þar fékk ég að vanda að skera fyrstu sneiðina, sem eru vafalítið einhver mestu forréttindi sem mér hafa hlotnast á lífsleiðinni. Þar með var Hamingjuhlaupinu formlega lokið. Og það eru hreint engar ýkjur að segja að þátttakendur hafi undantekningarlaust verið einstaklega hamingjusamir þessa kvöldstund. Öll höfðum við fundið gleðina sem fylgir því að hlaupa úti í náttúrunni í svona góðum félagsskap í svona góðu veðri. Þennan dag höfðu líka ýmis markmið náðst og margir sigrar verið unnir. Okkur Birki hafði til dæmis tekist ætlunarverkið að hlaupa alla leið frá Trékyllisvík til Hólmavíkur, Ingibjörg og Haukur höfðu bæði lokið sinni fyrstu 30 kílómetra dagleið, sumir voru að hlaupa 15 km í fyrsta sinn, aðrir 11 km – og svo mætti lengi telja. Dönsk kona sem var einn af gestum Hamingjudaganna kom til mín þarna við félagsheimilið og óskaði mér til hamingju með sigurinn. Ég þakkaði auðvitað fyrir og gerði enga tilraun til að útskýra að þetta hefði ekki verið keppni. Ég var vissulega sigurvegari. Við vorum það öll.

Nokkur orð um lyfjaafganga

MedicineÁ flestum heimilum safnast upp eitthvað af lyfjum sem voru keypt á sínum tíma en ekki notuð þegar til kastanna kom. Flest lyf hafa einhver áhrif á heilsuna ef þau berast inn í líkama fólks, enda eru þau beinlínis til þess gerð. Á sama hátt er líklegt að flest lyf hafi einhver áhrif á umhverfið ef þau sleppa út í náttúruna. Þess vegna skiptir miklu máli hvað verður um ónotuð lyf.

Tveir flokkar ónotaðra lyfja
Í grófum dráttum má skipta ónotuðum lyfjum í tvo flokka eftir afdrifum þeirra, þ.e.a.s. annars vegar lyf sem skilað er til endurvinnslu eða förgunar og hins vegar lyf sem lenda í ruslafötunni. Þar ættu lyf reyndar aldrei að lenda, því að úr ruslafötunni liggur leiðin í flestum tilvikum á næsta urðunarstað, og þaðan geta efni úr lyfjunum borist út í náttúruna með tíð og tíma. Þar brotna þau seint niður, enda eru lyf yfirleitt gerð til að endast. Annars myndu þau líklega sjaldan komast óskemmd til þeirra líkamsparta sem þeim er ætlað að hafa áhrif á. En þó að ruslafatan sé slæm, þá er enn verra að sturta lyfjaafgöngum niður í klósettið eins og mér skilst að sumir geri. Úr klósettinu liggur leiðin nánast beint út í náttúruna, enda ráða hreinsistöðvar ekki við lyfjaleifar nema þá að mjög litlu leyti.

Skilið lyfjaafgöngunum!
Lyf geta gert mikinn usla úti í náttúruna, því að þegar þangað er komið halda þau áfram að sinna hlutverki sínu eins og ekkert hafi í skorist. Til að fyrirbyggja þetta er afskaplega mikilvægt að skila öllum lyfjaafgöngum í næsta apótek, sem sér um að koma þeim áfram í viðeigandi förgun. Þetta gildir jafnt um eina eða tvær töflur og um heilu lyfjapakkana. Öll apótek, lítil sem stór, hvar sem er á landinu, taka við lyfjaafgöngum og senda þau áfram til förgunar í viðurkenndri brennslustöð.

Umhverfisáhrif notaðra lyfja
Það eru ekki bara „lyf sem eru ekki notuð“ sem skipta máli frá umhverfislegu sjónarmiði. Lyf sem búið er að nota geta líka endað úti í náttúrunni. Lyfin verða nefnilega ekki að engu í líkamanum, heldur skilar drjúgur hluti þeirra sér út með þvagi. Víða í hinum vestræna heimi má finna mælanlegt magn af hinum ýmsu lyfjum í vötnum og setlögum. Sem dæmi má nefna að Ibuprofen hefur fundist í setlögum í norskum fjörðum og Diclofenac hefur líka víða greinst í fráveituvatni, en Diclofenac þekkja menn sjálfsagt best undir vöruheitinu Voltaren. Þau lyf sem oftast eru nefnd í þessu sambandi eru þó getnaðarvarnarpillur, eða nánar tiltekið ethynýlestradíól, sem er kjarninn í flestum tegundum pillunnar. Þetta efni skilar sér út í höf og vötn um allan heim jafnt og þétt alla daga ársins. Rannsóknir hafa sýnt fram á skaðleg áhrif þessa efnis á fiska sem halda til í grennd við útrásir fráveitukerfa. Einkennin birtast meðal annars í minnkandi sæðisframleiðslu og fjölgun tvíkynja einstaklinga. Innan Evrópusambandsins er rætt um að setja sérstök hámarksgildi fyrir ethynýlestradíól, Diclofenac og eitt algengt lyfjaefni til viðbótar inn í ákvæði um vatnsgæði í tengslum við vatnatilskipun sambandsins.

Lyf sem ekki eru keypt
Lítum loks aðeins á „lyf sem eru ekki keypt“. Þau hafa svo sem engin áhrif á umhverfið, nema náttúrulega þar sem þau eru framleidd. Það er sem sagt að öðru jöfnu góður kostur frá umhverfislegu sjónarmiði að sleppa því að kaupa lyf. En auðvitað er málið ekki alveg svo einfalt. Reyndar getur vel verið að við kaupum of mikið af lyfjum. Kannski hættir okkur til að líta á þau sem fyrsta valkost til meðhöndlunar á hvers konar kvillum, þó að stundum væri nærtækara að leita lækninga í bættu mataræði, útivist og hreyfingu. En það er efni í annan pistil.

Niðurstaðan
Og hver er þá niðurstaðan úr þessu öllu saman? Jú, henni má eiginlega skipta í tvö aðalatriði eða heilræði:

  • Annars vegar ættum við aldrei að kaupa lyf sem við þurfum ekki á að halda.
  • Hins vegar eigum við aldrei að henda lyfjaleifum í ruslið eða í klósettið, alveg sama hvaða lyf á í hlut og alveg sama hversu magnið er lítið.

Lokaorð um pilluna og Voltaren
Framangreindum heilræðum er auðvelt að fylgja. Þetta með getnaðarvarnarpilluna og áhrif hennar á umhverfið er hins vegar erfiðara viðfangs. Fyrsta skrefið er þó að vera meðvitaður um þessi áhrif og fylgjast vel með þróun mála, því að framleiðendur vinna stöðugt að því að þróa pillu sem gerir sem mest gagn og veldur sem minnstum skaða. Þeir sem vilja fræðast um gagnsemi og skaðsemi einstakra tegunda pillunnar ættu endilega að spyrja starfsfólk heilbrigðisstofnana og apóteka og fá þannig aðstoð við að velja besta kostinn. Ég ætla sem sagt alls ekki að leggja til að konur heimsins hætti að taka pilluna af umhverfisástæðum. Hins vegar má fólk alveg hætta að taka Voltaren mín vegna. Ef diclofenac hverfur úr skolprörunum er alla vega búið að fækka umhverfisvandamálunum um eitt.

(Þessi pistill er að mestu leyti samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 fimmtudaginn 2. maí 2013).

Follow

Get every new post delivered to your Inbox.