Fyrsti maraþonsigurinn

Sigur 160Ég bætti nýrri lífsreynslu í safnið mitt á laugardaginn þegar ég vann Mývatnsmaraþonið. Tíminn var reyndar sá lakasti í rúm 6 ár, en sigur er alltaf sigur. Og þó að tíminn væri lakari en ég hafði reiknað með, var hann í góðu samræmi við undirbúning og aðstæður.

Undirbúningur aðeins til heimilisnota
Það sem af er árinu hefur flest gengið mér í hag í hlaupunum. Fyrir Mývatnsmaraþonið var ég t.d. búinn að taka þátt í 6 keppnishlaupum á árinu og setja ný „götuhlaupa-PB“ í 5 km, 7 km, 10 km og hálfmaraþoni. Einhverjum gæti því hafa dottið í hug að „maraþon-PBið“ lægi í loftinu. En svoleiðis virkar það ekki, því að þar þarf allt öðruvísi undirbúning. Ég hef svo sem æft sæmilega frá því um áramót, en lengsta vikan var samt ekki nema um 70 km og meðaltal síðustu 6 vikna um 55 km. Þetta dugar alveg til heimilisnota en ekki sem undirbúningur fyrir maraþon. Reyndar er vegalengdin ekki allt, en æfingafjöldinn stóðst heldur ekki mál. Um miðjan maí var mér orðið ljóst að ég hefði svo sem ekkert í maraþon að gera fyrr en síðar á árinu, en félagslegar ástæður réðu mestu um það að ég stefndi eftir sem áður ótrauður á Mývatnsmaraþonið.

Að vera hluti af hópi
Nú er eðlilegt að spurt sé hvaða félagslegu ástæður geti fengið mann til að hlaupa maraþon. Svarið við því er einfalt: Ég er hluti af frábærum hlaupahópi, Flandra í Borgarfirði, og þar hafði verið tekin ákvörðun um það fyrir margt löngu að fjölmenna í þetta hlaup. Ég ætlaði ekkert að missa af því og fannst ekki alveg nógu stórmannlegt að stytta vegalengdina frá því sem ég hafði áður gefið upp. Svo fannst mér líka ágætt að „hlaupa úr mér hrollinn“ fyrir betra maraþon síðar á árinu. Ég vissi að fyrri helmingurinn yrði auðveldur og að þetta myndi allt snúast um að þrauka í gegnum þann síðari án þess að bíða tjón á sálu eða líkama. Þetta gat sem best þýtt lokatíma upp á 3:22 klst. eða þar um bil. Maður hebbði nú verið meira en sáttur við það fyrir nokkrum árum.

Við Gunnar Viðar tilbúnir að hlaupa í kringum Mývatn. Nóg af geli í beltunum og flugnanetin með í för. (Ljósm. Kristín Ól.).

Við Gunnar Viðar tilbúnir að hlaupa í kringum Mývatn. Nóg af geli í beltunum og flugnanetin með í för. (Ljósm. Kristín Ól.).

Veðurspáin
Kvöldið fyrir hlaup voru u.þ.b. 20 Flandrafélagar mættir norður á Skútustaði þar sem flestir úr hópnum gistu nóttina fyrir og eftir hlaup. Veðurútlitið var tvísýnt, en þó engar líkur á slyddu eins og þegar ég hljóp í kringum Mývatn í fyrsta sinn vorið 2007. Þvert á móti var útlit fyrir hægan vind, sólskin og hátt í 20 stiga hita. Góðviðri er gott, en samt er allt best í hófi, alla vega þegar hlauparar eiga í hlut. Í þokkabót var búist við miklu flugnageri. Hópurinn var vel birgur af flugnanetum, en það var samt ekki besta tilhugsun í heimi að hlaupa með svoleiðis á hausnum í kringum Mývatn í sólskini og 20 stiga hita. En áhyggjur hafa aldrei leyst neinn vanda. Því var tilgangslaust að kvíða morgundeginum.

Lagt af stað á 4:40
Maraþonhlaupið var ræst fyrir neðan jarðböðin kl. 12 á hádegi á laugardaginn. Veðrið var svipað og spáð var, nema örlítið meiri gola. Það var góðs viti, því að ef golan héldist myndu flugunar síður verða til trafala. Keppendahópurinn var í þynnra lagi, ekki nema 8 manns, nánar tiltekið ég sjálfur, Gunnar félagi minn úr Flandra, Þórir Sigurhansson úr Súðavík, þrír erlendir karlar og tvær íslenskar konur. Áætlun okkar Gunnars var einföld, nefnilega að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:40 mín stykkið og sjá svo til. Sá hraði samsvarar lokatíma upp á 3:17 klst. Ég þóttist viss um að geta auðveldlega haldið þessum hraða fyrri helming hlaupsins, en hjá Gunnari var óvissan meiri. Hann er sterkari en ég í styttri vegalengdum en ekki með eins marga uppsafnaða kílómetra í löppunum. Þetta var þriðja maraþonið hans en fjórtanda mitt.

Lagt af stað. (Myndin er tekin að láni af 641.is).

Lagt af stað. (Myndin er tekin að láni af 641.is).

Endurtekið efni
Fyrstu kílómetrarnir voru nánast endurtekning á Mývatnsmaraþoninu í fyrra, þar sem við Gunnar vorum líka báðir á meðal keppenda. Við fylgdumst að en Frakkinn Laurent Conseil náði fljótlega nokkur hundruð metra forskoti, rétt eins og Sigurjón Sigurbjörnsson gerði í fyrra. Millitíminn eftir 5 km var 23:45 mín. Enn bólaði ekkert á flugum, enda frekar von á þeim vestan við vatnið. Golan gerði líka sitt gagn, án þess þó að tefja fyrir, 2 m/sek í fangið.

5-15 km
Í fyrra skildu leiðir okkar Gunnars á sjöunda kílómetranum, en nú var allt annað upp á teningnum. Við bættum heldur í ef eitthvað var og fórum í gegnum 10 km á 46:58 mín sem samsvarar 4:42 mín/km. Við 12 km markið tókum við eftir því að Laurent vinur okkar var farinn að hægja á sér. Þá datt mér í hug að ég myndi kannski bara vinna hlaupið, en svoleiðis hugsanir eru alltaf ótímabærar við svona aðstæður. Margt getur gerst í löngu hlaupi, ekki síst þegar undirbúningur og aðstæður eru ekki alveg eftir bókinni.

Millitíminn á 15 km var 1:10:25 klst., sem var 15 sek. hægara en í fyrra. Þá voru aðstæður allar aðrar, vissulega mótvindur, en hæfilega svalt og engar flugur. Reyndar höfðum við lítið orðið varir við þær þegar þarna var komið sögu, en framundan voru Skútustaðir þar sem vænta mátti að flugurnar færu að sækja í sig veðrið. Við gerðum flugnanetin klár og létum sem ekkert væri.

Einn  á ferð
Eftir rúmlega 17 km tók ég eftir því að Gunnar var ekki lengur við hliðina á mér heldur nokkrum skrefum á eftir. Fyrst hélt ég að þetta væri tímabundin breyting á stöðu mála, en næst þegar ég gáði hafði bilið breikkað og Gunnar varla lengur í kallfæri. Flugnanetið var í viðbragðsstöðu í hendinni og Laurent rúmum 100 metrum á undan mér. Ég náði honum við drykkjarstöðina við 20 km markið og var allt í einu orðinn aleinn í þessu hlaupi. Millitíminn á 20 km var 1:33:56 klst, þannig að annar kílómetratugurinn hafði tekið nákvæmlega jafnlangan tíma og sá fyrsti.

Fyrr en varði var hlaupið hálfnað. Þar sýndi klukkan 1:39:14 klst., sem var 45 sek meira en í hlaupinu í fyrra. Ég var aðeins farinn að finna til þreytu, eins og ég hafði reyndar búist við. Þarna mat ég stöðuna þannig að lokatími upp á 3:24 klst. væri raunhæft markmið. Flest benti til að framundan væri langur og frekar einmanalegur kafli.

Frá jarðböðunum eru u.þ.b. 22,4 km að vegamótunum við Laxá. Þar er beygt þvert úr leið til norðausturs og þar vænti ég þess að vindurinn hætti að standa í fangið á mér. Að vísu var þetta bara smágola, en mér var samt farin að finnast hún aðeins til trafala. Það merkilega gerðist hins vegar að vindurinn virtist breyta um stefnu um svipað leyti og ég. Hann hélt áfram að reyna að standa undir nafni sem mótvindur og gott ef hann hafði ekki heldur bætt sig í því ef eitthvað var. Seinna sá ég á veðurkortum að einmitt þetta hafði gerst. Vindáttin var orðin meira norðlæg en vestlæg og vindstyrkurinn kominn í 4 m/sek. Hitinn var áfram svipaður, eitthvað um 18°C skv. mælum Veðurstofunnar.

Á Laxárbrúnni leit ég um öxl og svipaðist um eftir mannaferðum. Gunnar var þarna, líklega um 500 m á eftir mér og lengra í fjarska grillti í Frakkann. Engir aðrir virtust þarna á ferli, ef frá eru taldar nokkrar flugur sem sýndu mér þó sem betur fer engan sérstakan áhuga.

Erfiður seinni hluti framundan
Mývatn kortMér fundust næstu kílómetrar frekar erfiðir. Þarna er leiðin örlítið á fótinn, sérstaklega ef maður er tekinn að lýjast, og svo fann ég vel fyrir vindinum. Flugnanetið var aftur komið á sinn stað í drykkjarbeltinu og engin sérstök verkefni framundan nema að bíða eftir næstu drykkjarstöð. Þær voru á 5 km fresti. Ég ákvað að hætta að hugsa um lokatímann, enda vissi ég löngu fyrir hlaup að hann yrði ekki sambærilegur við það sem ég hefði best gert. Í staðinn hugsaði ég sem svo að ég væri að hlaupa þetta hlaup til sigurs, fyllilega meðvitaður um að ég ætti ekkert slíkt víst þótt forskotið væri orðið töluvert. Reyndar mat ég stöðuna svo að ég myndi vinna hlaupið þó að ég hlypi kílómetrana sem eftir væru ekki nema á 5 mín stykkið, sem er bara svipaður hraði og á venjulegri Flandraæfingu í Borgarnesi. Það átti ekki að vera neitt sérstaklega erfitt. Hins vegar hafði ég byrjað að finna fyrir krampa í vinstri kálfanum við 18 km markið eða þar um bil. Þetta angraði mig svo sem ekkert, enda var ég minnugur þess hvernig mér tókst að hlaupa með krampa í fótunum síðustu 30 kílómetrana af Laugaveginum 2007. Krampar voru líka eitthvað sem ég bjóst alltaf við að þurfa að glíma við í þessu hlaupi, einfaldlega vegna þess að ég hafði hlaupið allt of lítið síðustu mánuði. Svo hlaut hitinn líka að hafa sitt að segja. Ég hafði ekki tekið neina drykki með mér, heldur bara orkugel. Treysti að vanda á vatnið á drykkjarstöðvunum til að skola gelinu niður með og til að halda vökvajafnvæginu í lagi. Ég tók alls staðar tvö vatnsglös, en þau voru frekar smávaxin, tóku varla meira en 150 ml. af nýtanlegu vatni samanlagt þegar búið var að draga frá það sem hlaut að sullast niður. Sá skammtur á að duga mér á 5 km fresti við venjulegar aðstæður, en þarna var hugsanlega þörf á meiru, auk þess sem líklegt mátti telja að óþarflega mikið af söltum myndi tapast út með svita í hitanum. Sem sagt: Ávísun á krampa.

Millitíminn eftir 25 km var 1:58:07 klst. Þarna var ég kominn í einnar og hálfrar mínútu mínus miðað við hlaupið í fyrra, enda höfðu síðustu 5 km tekið 24:11 mín. Hraðinn var sem sagt á hraðri niðurleið, en mér var alveg sama um það. Það versta var að mér leiddist svolítið. Mér fundust þessir 17 km sem eftir voru ekki ýkja löng leið, en vissi að ég þyrfti að bíta aðeins fastar á jaxlinn en í betur undirbúnum maraþonhlaupum í örlítið minni sumarhita.

Vaxandi þreyta
Áfram pjakkaði ég eftir veginum norðvestan við vatnið og framhjá Vagnbrekku þar sem við Flandrarar höfðum setið veislu árið áður. Mætti bílum af og til, sumir ferðalangarnir veifuðu, aðrir klöppuðu og allt kom það að gagni. Þreytan ágerðist þó smátt og smátt og ég nennti þessu satt best að segja ekki alveg þegar þarna var komið sögu. Stytti mér stundir við að spila einhverja uppörvandi tónlist í huganum, því að þar á ég minn eiginn „play-lista“, margreyndan við aðstæður sem þessar. Svo ákvað ég líka að hlakka til að vera búinn með Grímsstaðabrekkuna. Þá hlyti allt að verða léttara og mótvindurinn breytast í meðvind.

Millitíminn eftir 30 km var 2:22:55 klst. Síðustu 5 km höfðu tekið 24:48 mín og síðustu 10 km 48:59 mín. Þar með var ég orðinn næstum 3 mínútum hægari en í fyrra. Þessar tölur var ég þó ekkert með á hreinu á þessum stað og þessari stundu, enda löngu hættur að hugsa mikið um slíkt. Leit bara á klukkuna annað slagið og sá að hver kílómetri var farinn að taka u.þ.b. 5 mín, rétt eins og ég hafði svo sem búist við. Og enn voru nokkrir kílómetrar í Grímsstaðabrekkuna. Þar kom þó að hún blasti við og ekkert annað að gera en að skokka upp hana. Þetta er nú svo sem ekkert fjall, hæðarmunurinn eitthvað um 30 m á tæplega 1 km kafla. Og ég veit það af reynslu að það er ekkert endilega erfiðara að hlaupa upp brekkur en á jafnsléttu. Það er bara seinlegra.

Efst í Grímsstaðabrekkunni
Það var gott að fá sér vatnssopa á drykkjarstöðinni efst í Grímsstaðabrekkunni. Framundan var kafli sem ég hafði lengi beðið eftir, enda lækkar vegurinn þarna aftur um 25 m á 700 m kafla. Mér fannst ég aftur léttur á fæti. Neðst í brekkunni kom ég að 35 km markinu og þar sýndi klukkan 2:49:30 klst. Ég var búinn að tapa um 5 mín miðað við hlaupið í fyrra. Þar sem útsýni var gott svipaðist ég um eftir mannaferðum norðan við vatnið en sá enga hreyfingu. Ekkert benti til þess að mér væri veitt eftirför svo orð væri á gerandi.

Nú voru ekki nema rúmir 7 km eftir að hlaupinu. Það þykir ekki löng æfing eftir venjulegan vinnudag. Varla yrði ég svo lemstraður að ég kæmist ekki kílómetrann á 6 mín og þar með þennan spöl sem eftir var á 42 mín. Það gæfi lokatíma upp á 3:31 klst. Ég ákvað að miða við þá tölu og allt umfram það væri bara fínt, sérstaklega ef það slyppi undir 3:30 klst.

Hugsað um sigur
Rétt fyrir norðan þorpið í Reykjahlíð stóðu tveir puttaferðalangar í kantinum. Ég ákvað að bjóða þeim ekki far enda voru þau greinilega að fara í hina áttina. Mig varðaði auðvitað ekkert um þetta fólk og það ekki um mig, en mér þótti engu að síður gott að sjá lífsmark. Auðvitað voru það forréttindi að geta hlaupið í allri þessari náttúrufegurð og þessu fallega veðri, en öll tilbreyting var samt vel þegin. Ég var eiginlega búinn að fá alveg nóg af þessu hlaupi, en tilhugsunin um líklegan sigur gladdi vissulega. Þarna voru ekki nema 4 km eftir. Það er stutt! En þessi síðasti áfangi átti eftir að reynast mér drjúgur.

Ég held að ég hafi ekki einu sinni gáð að millitímanum eftir 40 km, en eftir á að hyggja var hann 3:16:15 mín og síðustu 5 km því á 26:45 mín. Það samsvarar 5:21 mín/km, sem er afskaplega hægt miðað við það sem ég á að venjast. En hverju skipti það, ég var farinn að sjá fyrir endann á þessu. Þarna gátu varla verið meira en 12 mín eftir hvernig sem allt veltist, nema náttúrulega ef ég myndi fá alvöru krampa til viðbótar við þennan sem hafði fylgt mér síðustu 22 km. Hann hafði ég getað trampað úr mér jafnóðum með því að stíga fastar niður í hælinn í einu, tveimur eða þremur næstu skrefum. Það tafði vissulega og var til leiðinda, en þetta var bara hæfileg refsing fyrir ónógan undirbúning og ekkert nema gott um það að segja.

Hingað og ekki lengra – í bili
Við 41 km markið gerðist það sem ég hafði svo sem allt eins búist við. Fæturnir afþökkuðu frekari hlaup. Ég fékk með öðrum orðum svo heiftarlegan krampa í hægra lærið að ég gat hvorki hlaupið, gengið né staðið uppréttur. Þá var bara að vera þolinmóður og njóta útsýnisins um stund. Ég notaði tímann m.a. til að athuga hvort nokkrir hlauparar væru í sjónmáli. Svo reyndist ekki vera ef frá er talinn síðasti keppandinn í hálfmaraþoni sem var í þann mund að leggja í brekkuna upp að jarðböðunum spölkorn fyrir framan mig.

Glaður og þreyttur á síðustu metrunum. (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Glaður og þreyttur á síðustu metrunum. (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Fyrsti sigurinn í höfn
Krampar linast yfirleitt ef maður slakar á svolitla stund, reynir að teygja ofur varlega og ganga spölkorn afturábak. Þetta virkaði vel og eftir að hafa hökt næstu 300 m á gönguhraða gat ég farið að skokka aftur. Nú var bara að komast upp síðustu brekkuna og skila sér í markið. Brekkan var ekki verri en vænta mátti og ég fylltist mikilli og fyrirsjáanlegri gleði þegar upp var komið og markið blasti við. Þangað skilaði ég mér þokkalega léttur á fæti að sögn sjónarvotta, en örþreyttur, á lakasta tímanum mínum í 6 ár, 3:29:47 klst. Þar með var líka fyrsti sigurinn minn í almenningshlaupi í höfn, sem sagt 81. hlaupið, 14. maraþonið og fyrsti sigurinn. Næstu menn komu ekki fyrr en tólf og hálfri mínútu síðar, Gunnar var fjórði á sínum besta tíma, 3:47:33 klst. og Frakkinn frái langt á eftir honum.

Ómissandi samloka Bjarkar
Móttökurnar í markinu voru ekki af verri endanum. Þar var Björk auðvitað fremst í flokki, en hún hafði útbúið kynstrin öll af nesti til að tryggja skikkanlega fæðuinntöku að hlaupi loknu. Ég drakk einhver ósköp af vatni og ávaxtasafa og borðaði óvenju matarmikla langloku með kjúklingi. Reynslan segir mér að það skipti sköpum að borða vel strax eftir maraþonhlaup, helst strax á fyrstu mínútunum og helst bæði kolvetni og prótein. Í þau skipti sem ég hef sleppt þessu eða gleymt hef ég verið miklu lengur að jafna mig en í hin skiptin. Í þessu sambandi minnist ég sérstaklega Parísarmaraþonsins í fyrra, þar sem ég sat undir Sigurboganum eftir hlaupið og naut lífsins án þess að borða nokkuð af viti. Stigarnir í Louvre-safninu voru nánast ófærir daginn eftir.

Sitthvað fleira
Hér gæti ég skrifað langt mál um allt það sem gerðist þennan dag eftir að hlaupið var á enda, þ.á.m. um fagnaðarstund í jarðböðunum með hinum Flöndrururum, gestrisni Mývetninga og vel útlátinn grillmat sem mér gekk frekar illa að borða, verðlaunaafhendingu og tilfinninguna að taka bæði við bikar og blómvendi, Flandragleðina á Skútustöðum um kvöldið og sitthvað fleira. En einhvers verður maður að setja punkt. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á fjallgöngu á Vindbelgjarfjall daginn eftir, þar sem eftirköst hlaupsins öngruðu mig ekki meira en svo að ég gat hlaupið niður af fjallinu eins og ekkert væri. Þar held ég að kjúklingasamloka Bjarkar hafi skipt sköpum. Ég get heldur ekki látið hjá líða að skrifa svolitla samantekt um lærdóminn sem ég get dregið af þessu hlaupi.

Lærdómurinn
Þetta var vafalítið eitt af þremur erfiðustu maraþonhlaupunum mínum frá upphafi. Aðeins fyrsta maraþonið 1996 og Mývatnsmaraþonið 2007 voru hugsanlega erfiðari. Fyrsta maraþonið var erfitt vegna þess að það var fyrsta maraþonið, sem var í þokkabót hlaupið fyrir daga orkugels og markvissra langhlaupaæfinga. Og Mývatnsmaraþonið 2007 var erfitt vegna reynsluleysis og norðanhretsins sem blés á móti mér síðustu kílómetrana. Það átti líka bara að vera æfingahlaup.

Ástæður þess að þetta var svona erfitt núna voru að mínu mati einkum þrjár. Tvær þeirra vissi ég fyrir, en sú þriðja bættist við á staðnum.

Fyrsta ástæðan var skortur á æfingum, en eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils voru æfingarnar mínar frá áramótum og fram í maí miðaðar við 10 km hlaup og hálfmaraþon en ekki maraþon. Auk heldur voru æfingarnar í maí allt of fáar vegna annríkis í vinnu. Í fyrra var þessu allt öðruvísi varið. Þá æfði ég mjög markvisst fyrir Parísarmaraþonið og var í besta maraþonstandi lífs míns í lok marsmánaðar. Því formi var auðvelt að viðhalda fram í byrjun júní.

Ástæða númer tvö, sem ég veit þó ekki hvort skipti verulegu máli, var sú að ég gaf blóð 11 dögum fyrir hlaupið. Blóðgjöf svo skömmu fyrir maraþonhlaup er ekki „alveg eftir bókinni“, en kannski skipti það samt engu máli. Mig brestur þekkingu til að hafa mjög ákveðna skoðun á því. Alla vega valdi ég þetta sjálfur, enda taldi ég að blóðgjöfin væri mikilvægari í eilífðinni en nokkrar sekúndur til eða frá í þessu tiltekna hlaupi.

Þriðja ástæðan var hitinn og kannski vindurinn, sem hafði óvenjugott lag á því að blása alltaf í fangið á mér. Hitinn var á bilinu 18-20 stig, sem eru svo sem engin ósköp. Samt las ég einhvers staðar að geta manna í löngum hlaupum fari nokkuð hratt minnkandi eftir að hitinn fer upp fyrir 14°C. Sjálfum finnst mér frekar þægilegt að hlaupa í hlýju veðri, en æfing er eitt og keppni í maraþonhlaupi annað, jafnvel þótt ekki sé keppt í hæsta gæðaflokki eins og á Ólympíuleikum. Ég svitnaði óvenju mikið í fyrri hluta hlaupsins, en eftir á að hyggja var ég nánast hættur að svitna þegar hlaupið var hálfnað eða þar um bil. Mér er nær að halda að vökvainntakan á leiðinni hafi alls ekki verið nægjanleg, þrátt fyrir að ég sullaði í mig tveimur vatnsglösum á öllum drykkjarstöðvum. Glösin voru auk heldur í minna lagi. Niðurstaðan er sú, þangað til annað verður ákveðið, að það borgi sig að taka með sér vatn í hlaup í svona „miklum hita“. Þannig ætti að vera auðveldara að halda vökvajafnvæginu í lagi. Reyndar duga vatn og steinefnalaus orkugel líklega ekki við þessar aðstæður, því að með svitanum tapast sölt, því meiri sem maður svitnar meira. Ef steinefnabúskapurinn fer úr böndunum er eins líklegt að líkaminn nái ekki að taka upp það vatn sem í hann er hellt. Afleiðingin eru krampar, sem gera auk heldur því fyrr og því meira vart við sig sem undirbúningurinn er fátæklegri.

Lokaorð
Mývatnsmaraþonið 2014 er að baki og það sama gildir senn um þennan pistil. Eftir stendur gleðin yfir því að geta sinnt þessu áhugamáli og þakklæti til allra þeirra sem gera mér það mögulegt. Þar á Björk langstærstan hlut að máli. Flandri á líka skilinn stóran skerf af þakkarorðunum, svo og þeir sem standa að Mývatnsmaraþoninu og leggja á sig alla þá vinnu og sinna öllum þeim smáatriðum sem þarf til að gera þennan árlega viðburð af veruleika.

Sáttur með sigurlaunin. Gitta tók myndina, nýbúin að hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon.

Sáttur með sigurlaunin. Gitta tók myndina, nýbúin að hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon.

Hopað af Leggjabrjóti

Í morgun lagði ég upp í 35. fjallvegahlaupið. Ferðinni var heitið yfir Leggjabrjót, um 23 km leið frá Botnsskála að Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Ég hef stundum lent í leiðindaveðri í hinum 34 fjallvegahlaupunum, en nú þurfti ég í fyrsta sinn að játa mig sigraðan. Sneri sem sagt við eftir 8 km barning á móti suðaustan hvassviðri, rigningu og þoku. Það var í sjálfu sér ekki erfið ákvörðun. Það erfiðasta var að vita ekki með vissu hvernig samferðafólkinu myndi reiða af. Þetta fór allt vel og fól í sér holla áminningu um það hversu lítið má út af bera á svona ferðalögum.

Veðurspáin
Veðurspáin fyrir daginn var svona í meðallagi, útlit fyrir suðaustan stinningskalda og svolitla rigningu annað slagið, í það minnsta fram eftir morgni. Reyndin varð önnur, því að vindurinn var miklu hvassari en ætla mátti af spánni og úrkoman meiri allan tímann. Hitastigið var hins vegar það sama og vænta mátti, um 11°C á láglendi og sjálfsagt um 6°C uppi á Leggjabrjót. Sú tala ber engan vott um mikinn kulda, nema í roki og rigningu.

Botnsskáli árdegis
Um 10-leytið í morgun hafði allstór hópur hlaupara safnast saman við Botnsskála innst í Hvalfirði. Fáum leist vel á veðrið, því að strax þarna á hlaðinu var ljóst að vindur og úrkoma yrðu til trafala. Samt var lagt af stað í góðri trú, enda glitti í sólina í gegnum skýin annað slagið.

Efasemdir á fyrstu metrunum
Eftir um 2,5 km var komið að bílastæðinu við Stóra-Botn. Þessi spölur er svo sem auðveldur yfirferðar, en það fór ekki fram hjá mér að framhaldið gæti orðið erfitt á móti vindinum. Svo var ég frekar sparlega klæddur og auðvitað orðinn gegnblautur fyrr en varði. Strax á þessum fyrstu metrum var ég mjög tekinn að efast um að það væri góð hugmynd að stefna öllu þessu fólki til fjalla, enda hópurinn óvenju fjölskrúðugur með tilliti til hraða og reynslu. Þessi breytileiki endurspeglaðist í því að á skammri stundu teygðist mikið úr hópnum. Það þýddi um leið að erfitt kynni að reynast að smala liðinu saman ef á þyrfti að halda.

… 26, 27, 28
Ég vandaði mig við að telja fólk í gegnum hliðið við Stóra-Botn, rétt eins og kindurnar voru taldar inn og út úr fjárhúsunum heima í gamla daga. Við svona aðstæður er nauðsynlegt að hafa örugga tölu á liðinu, því að hvergi var til nein nothæf skrá yfir þátttakendur. Í hópnum reyndust vera 28 manns, eða nánast tvöfalt fleiri en í nokkru fjallvegahlaupi til þessa.

Hálf samloka og heil ákvörðun
Neðst í túninu í Stóra-Botni mætti ég ofurhlauparanum Sigurði Kiernan. Hann var að koma ofan af Leggjabrjóti ásamt þremur öðrum úr landsliði ofurhlaupara. Þau höfðu upphaflega ætlað að gera úr þessu „samloku“, þ.e.a.s. að hlaupa fyrst frá Þingvöllum í Hvalfjörð og slást svo í för með okkur á bakaleiðinni. Sigurður sagði mér að veðrið uppi á Leggjabrjóti væri afleitt, mikið hvassviðri og úrkoma og svartaþoka á köflum. Þau hefðu engan veginn getað ratað þarna yfir nema með aðstoð GPS-tækja. Eftir að ég kvaddi Sigurð var ég ákveðinn í að snúa hópnum við. Vandinn var bara sá að ég var orðinn síðastur og því varla um annað að ræða en að reyna að hlaupa hina uppi. Eflaust voru margir með síma, en ólíklegt að hringingar heyrðust í veðurhamnum.

Sammála ofurhlauparar
Skömmu síðar mætti ég hinum ofurhlaupurunum, fyrst Guðmundi Smára og síðan Elísabetu og Hlyn. Þau tóku öll í sama streng, þetta væri nógu slæmt undan veðrinu og alls ekki fyrir aðra en þaulvant fjallafólk.

Skynsamt fólk undir vörðu og skipulegt undanhald
Mér gekk misvel að elta liðið uppi, en það hafðist smátt og smátt. Lagði mikla áherslu á að vera alltaf með talninguna á hreinu. Eftir 7 km hlaup náði ég 6 manna hópi sem hafði komið sér í var undir stórri vörðu í u.þ.b. 400 m hæð. Þar var ákveðið að snúa við og smala öllum til baka, en ég hélt áfram enn um sinn til að reyna að hafa upp á þeim sem enn vantaði í töluna. Það voru þeir sex alhörðustu. Eftir áttunda kílómetrann og 100 m hækkun til viðbótar sá ég enn ekkert til mannaferða og reyndar varla til neins annars heldur. Sjálfur var ég orðinn verulega kaldur og stirður enda engan veginn búinn út í þetta veður. Miðaði auk heldur lítið áfram á móti vindinum. Ákvað því að snúa við og treysta því að allt færi vel hjá hinum. Bakaleiðin var léttari og fljótfarnari undan brekkunni, en kuldinn sótti að.

Þeir alhraustustu
Svona breytingar á ferðaskipulagi geta skapað alls konar vandamál í fólksflutningum, sem voru þó svo sem búnir að vera nógu mikið púsluspil. En allt gekk þetta einhvern veginn og innan stundar voru flestir eða allir lagðir af stað akandi í misblautum fötum og misblautum bílum í ýmsar áttir, allt eftir því hvaða verkefni þurfti að leysa til að loka málinu. Sjálfur ók ég sem leið lá til Þingvalla með afar þéttsetinn bíl. Þar beið mín bílaleigubíll sem ætlunin hafði verið að nota til að flytja hluta af hópnum til baka. Vonin var auðvitað sú að þegar þangað kæmi myndum við fá einhverjar fréttir af sexmenningunum hraustu. Það gekk eftir, því að þeir skeiðuðu í hlað við þjónustumiðstöðina hver af öðrum rétt eftir að við renndum í hlað, búnir að vera rétt um 3 klst. á leiðinni, sem var bara svipaður tími og ég hafði reiknað með að ferðin tæki í þokkalegu veðri.

Vel þegin fataskiptaskemma
Nú kom sér vel að Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, hafði góðfúslega leyft mér að hafa afnot af stórri skemmu sem þjóðgarðurinn notar undir tól sín og tæki. Þarna var einkar hentugt að hafa fataskipti. Við sem komum akandi vorum flest enn í blautum fötum því að þau þurru biðu okkar í bílaleigubílnum. Og sexmenningarnir voru auðvitað með þónokkur kíló af vatni í farteskinu.

Sexmenningasaga
Það var eðlilega töluverður léttir að hitta sexmenningana. Þeim hafði sóst ferðin þokkalega þrátt fyrir mikinn mótvind og vætu. Þrír höfðu ratað rétta leið allan tímann, enda tilbúnir með GPS-punkta í einu hlaupaúrinu. Hinir þrír villtust hins vegar af leið, en áttuðu sig á að ekki var allt með felldu þegar hvassviðrið var allt í einu farið að standa í bakið á þeim. Þar var GPS-tæki sem betur fer líka með í för, og þegar kveikt var á því kom í ljós að þeir voru langt komnir með að hlaupa hring í kringum Sandvatn. Þessi krókur bætti um 3 km við hlaupaæfingu dagsins hjá þeim.

Frá A til B með A sem Plan B
Segir nú ekki frekar af þessu ferðalagi, enda bíður hin eiginlega fjallvegahlaupasaga þess tíma þegar leikurinn verður endurtekinn með fullnaðarárangri. Eftir standa 4 heilræði:

  1. Gerið alltaf ráð fyrir að veður sé enn verra á fjöllum en í byggð.
  2. Hikið ekki við að snúa við, þó að það sé víst oftast erfiðasta ákvörðunin á svona ferðalögum.
  3. Geymið föt og vistir við báða enda fyrirhugaðra hlaupaleiða, því að það er vont að grípa í tómt ef maður neyðist til að snúa við. (Með öðrum orðum: Þegar þið hlaupið frá A til B skulið þið alltaf vera með Plan B um að enda á A).
  4. Gefið ykkur tíma til að setja GPS-punkta inn í hlaupaúrin ykkar áður en lagt er á fjallvegi.
Hlaupið mitt í dag, svo langt sem það náði.

Hlaupið mitt í dag, svo langt sem það náði.

Tvö Pébé á þremur dögum

Við Flandrararnir eftir hálfa möru sl. laugardag. (Ljósm. Kristín Gísla).

Við Flandrararnir eftir hálfa möru sl. laugardag. (Ljósm. Kristín Gísla).

Í síðasta bloggi sagði frá því að framundan væru tvö keppnishlaup, annars vegar 99. Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta og hins vegar Vormaraþon Félags maraþonhlaupara tveimur dögum síðar. Og í sama bloggi sagði frá því að líklega myndi ég skrifa eitthvað um þessi hlaup áður en langt um liði. Sú stund er nú upp runnin.

Fimmtudagur 24. apríl:
99. Víðavangshlaup ÍR

Víðavangshlaup ÍR er svo sem ekkert víðavangshlaup nú til dags, þar sem aldrei er farið út af malbikinu. En það skiptir engu máli, þetta er eitt af skemmtilegustu hlaupum ársins og formleg staðfesting þess að sumarið sé komið.

Ég tók fyrst þátt í Víðavangshlaupi ÍR vorið 1974. Skrifaði einmitt dálítið um það fyrir ári síðan í tilefni þess að þá var ég með aftur eftir 39 ára hlé. Og nú var ég mættur í þriðja sinn. Þetta er greinilega að komast upp í vana.

Markmiðið fyrir þetta hlaup var fyrst og fremst að hafa gaman af, enda bara tveir dagar í hálft maraþon. Ég taldi þó alveg ástæðulaust að vera mikið lengur en 20:30 mín að hlaupa þessa 5 kílómetra.

Dagurinn fór vel af stað, ekki síst vegna þess að hlaupafélagar mínir úr hinum rómaða hlaupahópi Flandra í Borgarnesi fjölmenntu í hlaupið. Við vorum nánar tiltekið þarna sex saman. Ég lenti í dálitlum þrengslum í startinu, en fór að öðru leyti fremur geyst af stað. Það er kækur sem ég vandi mig á þegar ég byrjaði að keppa í hlaupum sumarið 1972 og hef aldrei séð brýna ástæðu til venja mig af. Þegar ég leit á hraðamælinn einhvers staðar í Tjarnargötunni sýndi hann 3:40 mín/km. Það er alvanalegt. Maður róast fljótlega.

Ég var staðráðinn í því frá upphafi að hlaupa þetta hlaup létt, hugsa um stílinn og gleðina og gæta þess að þreyta mig ekki um of. Þetta gekk mjög vel fyrstu tvo kílómetrana. Sá fyrsti tók ekki nema 3:51 mín og sá næsti 3:59 mín, alveg átakalaust. Þetta var meira að segja meiri hraði en í sama hlaupi í fyrra. Ég var líka með ágætis héra. Hrönn Guðmunds, Friðrik í Melabúðinni, Guðmundur Löve og Ingvar Garðarsson voru rétt á undan mér, og einhvers staðar rétt á eftir mér vissi ég af Gunnari Viðari, félaga mínum úr Flandra.

Kampakátur í Vonarstræti  þegar hlaupið var hálfnað.  (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Kampakátur í Vonarstræti þegar hlaupið var hálfnað. Friðrik í Melabúðinni á sínum stað á undan mér. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Þriðji kílómetrinn var örlítið erfiðari, en hafðist samt líka á 3:59 mín – og sá fjórði á 4:01 mín. Heildartíminn eftir 4 km var sem sagt 15:50 mín. Þar með var orðið líklegt að ég myndi bæta mig í þessu hlaupi, án þess að það hefði svo sem nokkurn tímann staðið til. Þetta var hreint ekkert leiðinlegt. Ég náði svo að herða vel á í lokin, enda búinn að gleyma því að ég þyrfti að spara kraftana fyrir laugardaginn. Endaspretturinn eftir Tjarnargötunni var ljúfur og í markið kom ég á 19:39 mín, 20 sek. fljótari en í fyrra þegar ég setti persónulegt met í 5 km götuhlaupi.

Í bloggskrifum um Víðavangshlaup ÍR í fyrra rifjaði ég upp að við Jón Guðlaugsson hefðum verið einu mennirnir sem mættu í hlaupið bæði 1974 og 2013. Jón lét sig auðvitað ekki vanta núna heldur, og svo var Sigurður P. Sigmundsson líka mættur alveg eins og 1974. Hann var langt á undan mér í bæði skiptin. Jón er hins vegar orðinn enn eldri en við og eðlilega nokkuð lengur á leiðinni. Árið 1974 fékk hann reyndar sérstaka viðurkenningu sem elsti þátttakandinn. Þá var hann 48 ára, sem þótti hár aldur fyrir hlaupara á þeim árum. Margt hefur breyst síðan!

Föstudagur 25. apríl: Fundur í Kaupinhafn
Mér gafst ekki langur tími til að dást að sjálfum mér eftir hlaupið á fimmtudaginn, því að ég þurfti að ná flugrútunni skömmu síðar og koma mér til Kaupmannahafnar. Vorum þar þrjú saman á föstudeginum á stuttum fundi þar sem við reyndum að sannfæra nokkra norræna embættismenn um að kaupa af okkur hugmynd fyrir nokkra milljónkalla. Þetta voru reyndar afskaplega jákvæðir embættismenn sem höfðu sjálfir boðið okkur að koma á þeirra kostnað til að kynna hugmyndina. Við vorum einn fjögurra hópa sem hafði fengið svoleiðis boð, en samtals slógust 20 hópar um hnossið. Þetta var sem sagt keppni, rétt eins og í hlaupunum, og þegar upp var staðið komumst við á pall. Með öðrum orðum er í þessum skrifuðu orðum verið að semja við okkur um helminginn af verkinu sem um ræðir.

Þessi aukakeppni í Kaupmannahöfn var ekki beinlínis inni á hlaupaprógramminu mínu. Þar var bara Víðavangshlaup ÍR á fimmtudeginum og hálft maraþon á laugardeginum. Ferðalög milli landa eru ekki efst á óskalistanum á milli svoleiðis viðburða. En stundum þarf maður líka að vinna.

Laugardagur 26. apríl: 99. Vormaraþon FM
Ég var kominn heim frá Kaupmannahöfn og lagstur til svefns í Borgarnesi rétt upp úr miðnætti á föstudagskvöldinu og svaf vel eins og maður gerir þegar allt er rólegt og ekkert stress í gangi. Klukkan 8 um morguninn voru svo þrír alhörðustu hálfmaraþonhlauparar Flandra sestir upp í einn og sama bíl og lagðir af stað til Reykjavíkur.

Mér fannst ég svona í meðallagi léttur í upphituninni í Elliðaárdalnum á 10. tímanum. Oft finn ég nokkurn veginn á mér á fyrstu skrefunum hvernig dagurinn verður, en þarna var ég ekki viss. Vissi þó alveg eftir fimm kílómetrana á fimmtudeginum að ég væri í nógu góðu standi til að bæta mig í þessu hlaupi. Ég fann ekkert fyrir eftirköstum frá fyrra hlaupinu, en kannski sat í mér örlítill lúi eftir Kaupmannahafnarferðina. Væntingarnar voru líka hóflegar í samræmi við það. Ég vissi að þetta yrði gaman og að ég yrði ekkert leiður þótt tíminn yrði bara í kringum 1:33 mín. Villtustu draumar voru að komast undir 1:30 mín, enda var það eitt helsta markmið ársins. Ég bjóst þó miklu frekar við að það myndi bíða þangað til síðar á árinu. Ákvað engu að síður að fara nógu hratt af stað til að eiga möguleika á að láta þessa villtustu drauma rætast. Það þýddi að ég þurfti að hlaupa hvern kílómetra á u.þ.b. 4:15 mín. Ef ég fer aðeins of hratt fyrstu kílómetrana get ég bara gefið eftir þegar líður á hlaupið. Það er enginn vandi. Ef ég fer alltof hægt af stað get ég hins vegar engan veginn bætt mér það upp á seinni hlutanum. Það er ekki hægt.

Kl. 10 hófst hlaupið. Við Flandrararnir fylgdumst að til að byrja með en svo skildu leiðir smátt og smátt. Gunnar var þarna að hlaupa sitt fyrsta formlega hálfmaraþon og Kristinn sitt þriðja. Ég var hins vegar að fara í 12 sinn og hef heldur eflst með hverju hlaupi. Hef auðvitað líka elst með hverju hlaupi, en það hefur ekki komið að sök.

Mér leið vel á fyrstu kílómetrunum ef frá er talinn svolítill almennur lúi. Veðrið lék við okkur. Að vísu var vestan golan heldur í fangið í fyrri hluta hlaupsins, en hitinn var um 10 stig og jafnvel svolítið sólskin. Það gerist ekki mikið betra. Ég fylgdist ekki nákvæmlega með hraðanum, en lét mér nægja að kíkja lauslega  á klukkuna eftir hvern kílómetra. Við 5 km markið var tíminn kominn í 20:54 mín, sem jafngildir 4:11 mín/km. Þetta var fínn hraði, sérstaklega í mótvindi, og ég vissi alveg að bæting væri í spilunum ef þreytan myndi ekki gera verulega atlögu að mér undir lok hlaupsins. Maður veit aldrei, en þegar ég er á annað borð kominn á sæmilega siglingu tekst mér oftar en ekki að þrauka á svipuðum hraða í gegnum allt hlaupið.

Tíminn eftir 10 km var 41:59 mín (4:12 mín/km). Ég var aðeins farinn að finna til þreytu, en framundan var snúningspunkturinn og meðvindur til baka. Skömmu eftir snúninginn mætti ég Flandrafélögunum hvorum á eftir öðrum og sýndist þeir vera á góðri siglingu. Svona snúningar í hlaupum hafa sína kosti og galla. Gallinn er sá að það er örlítið tilbreytingarsnauðara að hlaupa aftur sömu leið, en kosturinn hins vegar að með þessu móti mætir maður næstum öllum hinum hlaupurunum einhvern tímann. Þá er tækifæri til að skiptast á hvatningu sem getur komið báðum til góða.

Þrátt fyrir meðvindinn hægðist á mér á bakaleiðinni. Á löngum kafla um miðbik hlaupsins vorum við fjórir saman í hópi, en tveimur hinna tókst að halda sínu striki þannig að ég dróst smám saman afturúr ásamt með Ásgeiri Má Arnarssyni, sem var þarna að hlaupa hálfþaraþon í annað sinn. Við fylgdumst að drjúgan spöl og ræddum málin. Slíkt styttir manni stundir og léttir á þyngstu kílómetrunum. Í hálfu maraþoni eru það gjarnan kílómetrar nr. 12-17 eða þar um bil.

Eftir 15 km var tíminn 1:03:12 klst (4:13 mín/km). Ákvað að geyma vangaveltur um líklegan lokatíma þangað til 3 km væru eftir af hlaupinu. Þá kílómetra hlyti ég að geta hlaupið á 13:30 mín hvernig sem allt veltist. Fékk eitthvert smávægilegt þreytukast á 16. kílómetranum í Öskjuhlíðinni, en náði mér fljótlega á strik aftur. Það er ekkert óeðlilegt við það að þreytast aðeins í svona hlaupi þar sem maður reynir að halda sér nálægt eigin hámarkshraða. Hvað sem því líður var klukkan komin í 1:16:55 klst þegar 3 km voru eftir. Þar með vissi ég að tíminn 1:30:30 væri í höfn ef engin slys myndu henda mig. Eftir þetta var meira gaman en áður. Ég átti best áður 1:31:12, þannig að nú var bara að njóta.

Tíminn eftir 20 km var 1:25:00 klst, sem þýddi að ég myndi örugglega hlaupa vel undir 1:30. Villtustu draumarnir voru sem sagt að fara að rætast, hvað sem allri Kaupmannahafnarþreytu leið. Og ég átti nóg eftir til að bæta vel í undir lokin. Síðasta kílómetranum náði ég undir 4 mín (3:59) og kláraði hlaupið á 1:29:25 klst, sem var miklu betri tími en ég hafði gert ráð fyrir.

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Ég hafði margar ástæður til að gleðjast að hlaupi loknu, auk pébésins (sem er lausleg þýðing á “personal best”). Eitt gleðiefnið var að félagar mínir í Flandra luku báðir hlaupinu á sínum besta tíma og annað að á marksvæðinu hitti ég ótrúlega margt fleira skemmtilegt fólk sem gaman var að sjá og spjalla við. Ég held að skemmtilegu fólki fjölgi með hverju árinu sem líður. Og enn eitt gleðiefnið var að ég skyldi enn vera að taka þátt í svona hlaupum - og jafnvel að bæta mig. Í ágúst verða t.d. liðin 29 ár frá því að ég hljóp fyrsta hálfmaraþonið mitt – og þau taka alltaf styttri og styttri tíma. Ætti ég kannski að skrifa hálfmaraþonævisöguna mína snöggvast?

Hálfmaraþonævisagan mín
Ég hljóp sem sagt fyrsta hálfmaraþonið  mitt í ágúst 1985. Man ekki í svipinn hvernig ég fékk þá flugu í höfuðið, nýorðinn faðir í fyrsta sinn og löngu búinn að gleyma öllum áformum um að verða besti hlaupari í heimi. Kannski finn ég einhverjar vísbendingar um þetta með því að rýna í samtímaheimildir. Ég man alla vega að ég fór nokkrum sinnum út að hlaupa þetta sumar, m.a. með Pétri Péturssyni þrístökkvara af Ströndum. Býst við að hann hafi hvatt mig til dáða eins og hann gerir alltaf þegar við hittumst. Á þessum árum fannst mér hálft maraþon langt og til þess að vera viss um að ég kæmist alla leið hljóp ég einhvern daginn frá Broddanesskóla þar sem ég átti heima og heim á æskuheimilið mitt í Gröf. Sú vegalengd er nálægt hálfu maraþoni og yfir einn fjallveg að fara. Fyrst ég gat það hlaut ég að vera tilbúinn.

Fyrsta hálfmaraþonið mitt tók 1:43:43 klst. Það þótti mér góður tími, enda var hann það náttúrulega. Nýir tímar eru góðir. Eftir þetta liðu svo 6 ár fram að næsta hlaupi. Þessi sex ár skiluðu mér niður á 1:39:41. Man svo sem ekkert eftir því hlaupi, nema hvað þá var ég búinn að leggja bómullargallanum frá Héraðssambandi Strandamanna sem ég skrýddist 1985 og kominn í stuttbuxur og stuttermabol. Síðan hef ég jafnan kosið að hlaupa í minni fötum en meiri ef veður hefur leyft – og stundum þó að það hafi ekki leyft það.

Sallarólegur í HSS-galla og slitnum skóm á drykkjarstöð í Reykjavíkurmaraþoninu 1985. Stutt síðan. Fátt hefur breyst. (Björk hlýtur að hafa tekið myndina).

Sallarólegur í HSS-galla og slitnum skóm á drykkjarstöð í Reykjavíkurmaraþoninu 1985. Stutt síðan. Fátt hefur breyst. (Björk hlýtur að hafa tekið myndina).

Á fullri ferð í Reykjavíkurmaraþoninu 1991. Kominn í stuttbuxur og búinn að setja upp brosið. (Ljósm. líklega Björk).

Á fullri ferð í Reykjavíkurmaraþoninu 1991. Kominn í stuttbuxur og búinn að setja upp brosið. (Ljósm. líklega Björk).

Næst liðu 10 ár. Það var sem sagt ekki fyrr en árið 2001 sem ég tókst á við þessa vegalengd í þriðja sinn. Hafði reyndar hlaupið fyrsta heila maraþonið í millitíðinni, en það á náttúrulega ekki heima í þessari ævisögu. Hlaupið 2001 var erfitt og það langhægasta í sögunni, 1:45:20 mín. Eitthvað var ég búinn að æfa um sumarið, en síðustu vikurnar fyrir hlaup voru eitthvað lélegar. Það sem var skemmtilegast við þetta hlaup var að Þorkell sonur minn hljóp með mér. Þá var hann 16 ára (fæddur rétt fyrir fyrsta hálfmaraþonið) og löngu farinn að rúlla mér upp í 10 km. Þessi vegalengd var hins vegar enn í lengra lagi fyrir hann, þannig að hann dróst aðeins aftur úr í lokin.

Fjórða hlaupið var í ágúst 2004. Það sumar höfðum við feðgarnir farið saman í nokkur hlaup og árangurinn lét ekki á sér standa. Lokatíminn var 1:36:31 og þar með búið að ná fram 7 mínútna bætingu á 19 árum. Mig minnir að ég hafi þá haldið að þarna væri ég kominn að getumörkum.

Í ágúst 2005 tók ég enn einu sinni hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Tíminn var 1:39:09, sem mér fannst svo sem allt í lagi miðað við aldur og fyrri störf. Árið 2006 var frekar lítið um hlaup, en haustið 2007 hljóp ég hálft maraþon á Selfossi á 1:38:17 mín í  dálitlum vindi. Þetta var árið sem ég varð fimmtugur og árið sem ég gerði hlaupin að lífsstíl. Tíminn var kannski ekkert sérstakur, en þarna voru samt ákveðin þáttaskil í aðsigi.

Sjöunda hálfmaraþonið hljóp ég á Akureyri í júní 2008. Brautin var aðeins of löng þannig að tíminn var ekki marktækur, en með svolitlum reiknikúnstum fékkst talan 1:35:43 klst, sem var betra en ég hafði gert áður. Þarna hljóp Þorkell þessa vegalengd með mér öðru sinni, enda hafði ég skorað sérstaklega á hann að reyna að vinna gamla manninn. Hann fór létt með það, var rúmum tveimur mínútum á undan mér.

Árið 2010 hljóp ég 8. og 9. hálfmaraþonið og bætti mig í báðum, fyrst í Vormaraþoni FM í apríl þar sem ég hljóp á 1:34:51 mín og aftur á Akranesi í júní þar sem ég náði pébéinu niður í 1:32:38 mín þrátt fyrir nokkur hvassan vind og kalsaveður. Þarna var lífsstíllinn farinn að segja til sín.

Tíunda hálfmaraþonið hljóp ég í Haustmaraþoni FM í október 2011. Tíminn var 1:33:16 klst., sem mér þótti bara gott miðað við æfingar vikurnar á undan. En þarna var ég greinilega kominn á einhverja framfarabraut. Í haustmaraþoninu tveimur árum síðar, sem sagt í fyrrahaust, bætti ég pébéið niður í 1:31:12. Og núna er það sem sagt komið niður í 1:29:25 klst. Engin áform eru uppi um að láta þar við sitja.

Hlaupaæfingar á útmánuðum

Vikur 1-16 2014 160Hlaupasumarið 2014 byrjar eiginlega á fimmtudaginn, rétt eins og sumarið á íslenska dagatalinu. Þá verður Víðavangshlaup ÍR haldið 99. árið í röð – og tveimur dögum síðar er röðin komin að Vormaraþoni FM. Í tilefni af þessu tel ég brýnt að upplýsa þjóðina um gang mála á hlaupaæfingum á þorra, góu og einmánuði, sem öll heyra sögunni til innan fárra daga.

Viðhaldsæfingar
Til að halda mér í þokkalegu hlaupaformi tel ég mig þurfa að hlaupa þrisvar í viku, samtals um 40 km. Svona lagað er auðvitað einstaklingsbundið og ræðst m.a. af aldri, hlaupareynslu, líkamlegu (og andlegu) ástandi og settum markmiðum. Það sem hæfir einum getur þannig verið allt of mikið eða allt of lítið fyrir einhvern annan. Í upphafi þessa árs var ég alla vega staðráðinn í að miða við þetta vikulega æfingamagn fram til 20. febrúar eða þar um bil. Stærsta hlaupamarkmiðið mitt á þessu ári er að bæta mig í Münchenmaraþoninu í október, þannig að mér liggur ekkert á. Sígandi lukka er best í hlaupum eins og flestu öðru.

Æfingarnar gengu eftir áætlun þessar fyrstu vikur ársins. Það eina sem ég þurfti að gera var að mæta á æfingar fjörlega og fallega hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi, sem hittist einmitt þrisvar í viku. Þar eru að vísu oftast hlaupnar örlítið styttri vegalengdir en svo að hinir vikulegu kílómetrar verði 40 talsins, en það get ég auðveldlega bætt upp með því að mæta aðeins fyrr eða hætta aðeins seinna en hinir. Á mánudögum eru sprettæfingar sem ég get teygt upp í 10 km eða þar um bil með góðri upphitun og aukaskokki, á fimmtudögum eru oft hlaupnir um 8 km og þá voru ekki nema 22 km eftir fyrir góða laugardagsæfingu. Reyndar vil ég helst ekki að lengsta hlaup vikunnar sé meira en helmingur af vikuskammtinum, en það er ekkert heilagt.

Vikur 1-16 2014

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan hélst vikuskammturinn nokkuð stöðugur að viku 10 frátalinni, en þá varð einhver minni háttar röskun vegna hálsbólgu eða annríkis í vinnu. Hvort tveggja getur truflað hlaupaæfingarnar þó að hvorugt setji venjulega stórt strik í reikninginn. Annríkið snýst að einhverju leyti bara um forgangsröðun í lífinu og mér er nær að halda að sama geti gilt um hálsbólgu og aðra minni háttar kvilla, svona að vissu marki. Og svo gerist svo sem ekki neitt þó að maður missi eina og eina viku úr. Skrokkurinn notar þá bara tímann til að lagfæra eitthvað sem kann að hafa gengið úr lagi dagana og vikurnar á undan.

Í byrjun mars tókst mér að koma næsta hluta æfingaráætlunarinnar í gang. Þá dró ég fram áætlun sem ég stal einhvern tímann einhvers staðar á netinu, og hefur það m.a. sér til ágætis að geta reiknað heppilegan hraða á æfingum út frá ætluðum árangri í næsta keppnishlaupi sem máli skiptir. Þessa áætlun aðlagaði ég að Vormaraþoni FM 26. apríl nk, en þá ætla ég að hlaupa fyrsta hálfmaraþon ársins. Eitt af helstu hlaupamarkmiðunum mínum þetta árið er að komast undir 1:30 klst. í þeirri vegalengd, þannig að ég stillti áætlunina miðað við það.

Í stuttu máli hefur gangur mála frá því í byrjun mars verið eins og að var stefnt, nema hvað heildarmagnið hefur ekki alveg náð þangað sem ég vildi. Tvær vikur hafa þó náð u.þ.b. 70 km, sem er svo sem alveg nóg að mínu mati. Dæmigerð vika á þessu tímabili hefur verið eitthvað á þá leið að á mánudegi hef ég tekið sprettæfingu með Flandra, allt frá 10×200 m upp í 6×1600 m. Með aukahlaupum og e.t.v. aukasprettum hef ég náð þessari æfingu upp í um 15 km. Þriðjudagur og miðvikudagur hafa svo verið frekar rólegir. Á þriðjudeginum hef ég jafnvel tekið mjög hægt hvíldarskokk til að liðka og hreinsa eftir spretti mánudagsins. Á fimmtudegi hef ég svo tekið svo sem 12-14 km – og þá gjarnan með hraðari seinni helmingi. Föstudagurinn hefur oftast verið hvíldardagur og laugardagurinn helgaður lengstu æfingu vikunnar, venjulega á bilinu 20-30 km, stundum með hraðari köflum inn á milli.

Fyrstu keppnishlaup ársins
Keppnishlaup á styttri vegalengdum eru að mínu mati einhver besta æfing sem völ er á fyrir maraþonhlaupara, bæði fyrir sál og líkama. Það sem af er árinu hef ég farið í tvö slík, fyrst 5 km Actavishlaup FH 27. mars og síðan 10 km Flóahlaup Umf. Samhygðar (Kökuhlaupið) 5. apríl. Ég fann mig engan veginn í því fyrrnefnda, en kláraði þó 5 km á 20:32 mín, sem er svo sem ekkert lakara en ég er vanur. Í Flóahlaupinu gekk hins vegar allt upp og ég kom í mark á 41:17 mín, sem var langt umfram væntingar. Á reyndar best 41:00 í 10 km götuhlaupi. Það var sumarið 1996. Hljóp á 41:03 í fyrra, þannig að þetta lítur bara frekar vel út. Hraðinn í báðum hlaupunum var eftir á að hyggja svipaður, þannig að það hvort árangurinn var góður eða slæmur er líklega meira huglægt. Alla vega bendir flest til þess að skrokkurinn sé ekki verri en vant er.

Næstu verkefni og markmið
Á sumardaginn fyrsta ætla ég að mæta í 99. Víðavangshlaup ÍR. Mætti fyrst í þetta hlaup vorið 1974 og svo aftur í fyrra. Nenni ekki að bíða í 39 ár eins og síðast, þannig að nú verður tekið á því tvö ár í röð. Markmiðið fyrir þetta hlaup er fyrst og fremst að hafa gaman af, enda stutt í næstu átök. Ég viðurkenni þó að ég verð pínulítið leiður ef ég get ekki hlaupið á u.þ.b. 20:30 mín án þess að ganga nærri mér.

Laugardaginn 26. apríl er það svo Vormaraþon Félags maraþonhlaupara (FM). Eins og fyrr segir er það eitt helsta markmið ársins að hlaupa hálft maraþon undir 1:30 klst. Ég á þó síður von á því að það gerist í þessu hlaupi. Væntingarnar eru um það bil sem hér segir:

  • 1:35 mín eða lengur = grátur og gnístran tanna
  • 1:31:12 – 1:34:59 mín = engin stórtíðindi
  • Undir 1:31:12 mín = persónulegt met og mikil gleði
  • Undir 1:30 mín = villtustu draumar

Veðrið getur sett strik í reikninginn á laugardaginn. Svoleiðis gerist stundum á vorin. Svo þarf ég að sinna vinnuerindum í Kaupmannahöfn daginn áður og kem til landsins þá um kvöldið. Svoleiðis flækingur er ekki í uppáhaldi daginn fyrir hlaup. En þetta fer allt einhvern veginn, þó að maður efist stundum um það. Ætli ég skrifi ekki eitthvað um það um mánaðarmótin…

Bara hlaupablogg?

Ég hugsa að þetta blogg sé að breytast í hreinræktað hlaupablogg. Hingað til hefur þetta verið sitthvað um umhverfismál og eitthvað um hlaup, svona hvað með öðru, nema hvað undanfarna mánuði hefur þetta eiginlega ekki verið neitt. Um þessar mundir er staðan þannig að ég fæ þokkalega útrás fyrir tjáningarþörfina á umhverfissviðinu í Sjónmálsþáttum Rásar 1 og á 2020.is. Reyndar liggja hjá mér nokkur mál sem mig langar að gera ítarlegri skil, en hvert slíkt mál útheimtir um það bil heilt dagsverk, og dagsverk eru takmörkuð auðlind. Þetta eru mál á borð við reynslu þjóða heims af því að beita varúðarreglunni samanborið við að beita henni ekki, umfjöllun um hollustu Sushi og mikilvægi þess að fólk sé gagnrýnið á það sem það lætur ofan í sig, umfjöllun um grænþvott úr hörðustu átt o.s.frv. Þessi mál bíða betri tíma eða úreldingar ef betri tími kemur ekki. Hér eftir sem hingað til verður þessi síða hins vegar helsti vettvangur fyrir vangaveltur mínar um hlaup. Þær vangaveltur eiga það til að ágerast þegar vorar.

40 ára Íslandsmeistaratitill

IMG_2409cr160Í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár frá því að ég vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn minn, já og reyndar þann eina það sem af er. Þetta var í drengjaflokki í Víðavangshlaupi Íslands sem fram fór í Vatnsmýrinni í Reykjavík 24. mars 1974. Ég var þá á fyrsta árinu mínu í menntaskóla fyrir sunnan og hafði mætt reglulega á frjálsíþróttaæfingar hjá ÍR frá því í byrjun nóvember. Var sem sagt óskrifað blað úr sveitinni.

Mér hafði aldrei dottið í hug að ég gæti unnið þetta hlaup, enda voru þarna aðrir og miklu betri hlauparar meðal þátttakenda. Langfremstur þeirra var Sigurður P. Sigmundsson, jafnaldri minn, sem þá þegar var nánast ósigrandi í sínum aldursflokki. Seinna setti hann Íslandsmet í maraþonhlaupi sem stóð í 26 ár, þ.e.a.s. alveg þangað til Kári Steinn kom til sögunnar. En það er nú önnur saga. Alla vega vissi ég að ég ætti enga möguleika á að vinna Sigga P.

Þennan vetur æfði ég oft með Gunnari Páli Jóakimssyni, sem var þá orðinn einn af bestu millivegalengdahlaupurum landsins, en er núna best þekktur sem hlaupaþjálfari. Ég held reyndar að hann hafi fæðst inn í það hlutverk! Hann tók sér það af einhverjum ástæðum fyrir hendur að telja mér trú um að ég gæti sko víst unnið þetta hlaup. Það eina sem ég þyrfti að gera væri að hanga í Sigga P. hér um bil alla leiðina og taka svo snöggt fram úr honum í blálokin. Þetta fannst mér fráleit hugmynd, en eftir að hafa heyrt hana nógu oft sá ég að það gerði náttúrulega ekkert til að prófa þetta. Ég var líka í þeirri ákjósanlegu stöðu að vera hinn óþekkti áskorandi. Þess vegna myndi enginn taka eftir því þótt áætlunin mistækist.

Svo byrjaði hlaupið. Það var ekki langt, ekki frekar en önnur víðavangshlaup á þessum tíma, þ.e.a.s. ekki nema 2.660 metrar. Framan af hlaupi vorum við nokkrir saman í hnapp, en smám saman þróaðist það þannig að við Siggi P. vorum einir í forystunni - og hann alltaf rétt á undan. Ég  man að mér fannst þetta ógeðslega erfitt, því að hraðinn var eiginlega allt of mikill. Mér tókst þó að hanga nógu lengi til að fara að ráðum Gunnars Páls og taka snöggt framúr þegar einhverjir 150 metrar voru eftir í mark. Og viti menn, þetta virkaði.

IMG_2413cr160Nokkrum vikum seinna, nánar tiltekið 14. maí, birtist frétt um þetta hlaup í Mogganum. (Líklega gefur dagsetning fréttarinnar vísbendingu um hversu gríðarlega stór viðburður þetta var)! Í fréttinni stendur m.a.: „Keppni í drengjaflokki var hin skemmtilegasta og var ekki séð fyrr en á síðustu metrunum hver yrði sigurvegari. Nýtt nafn í hlaupum, Stefán Gíslason úr Héraðssambandi Strandamanna, hreppti sigurinn, en þarna er á ferðinni bráðefnilegur piltur, sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni, haldi hann áfram æfingum og keppni“. Mogginn varð reyndar af þeirri skemmtun, því að lítið varð vart við piltinn á hlaupabrautinni næstu árin.

Þetta hlaup fyrir 40 árum er mér ekki bara minnisstætt vegna sigursins, heldur líka vegna þess að þann sama dag átti Guðmundur heitinn Þórarinsson 50 ára afmæli. Guðmundur var þjálfarinn minn þennnan vetur og sinnti mér afskaplega vel, þrátt fyrir að ég væri aðskotadýr úr allt öðru félagi.

Minningin um Víðavangshlaup Íslands 1974 skiptir mig talsverðu máli, ekki þó aðallega vegna þess að ég krækti mér í þennan eina Íslandsmeistarapening, heldur öllu frekar vegna þess að þarna lærði ég hversu miklu máli það skiptir að setja sér markmið og hvika ekki frá þeim. Og svo skiptir það mig líka afar miklu máli að þennan vetur eignaðist ég áhugamál sem ég get enn stundað mér til ómældrar gleði 40 árum seinna, jafnvel þótt æfingar og keppni hafi verið slitrótt nokkra áratugi í millitíðinni. Og nú bíð ég rólegur eftir Íslandsmeistaratitli númer tvö. :)

Stóra tækifærið á Drekasvæðinu

Dreki„Þetta land á ærinn auð, ef menn kunna‘ að nota‘ hann“, orti Jón Ólafsson fyrir margt löngu. Þessi orð eiga vel við um Drekasvæðið norðaustur af Íslandi. Þar liggur ærinn auður, sem fátt bendir að vísu til að menn kunni að nota.

Ég gæti skrifað langt mál um umhverfisþætti sem tengjast olíuvinnslu á Drekasvæðinu, langt mál um áhættuna fyrir vistkerfi þessa viðkvæma hafsvæðis, langt mál um fáránleika þess að dæla enn meiri olíu úr iðrum jarðar á sama tíma og mönnum er fullljóst að það jarðefnaeldsneyti sem þegar er tiltækt dugar til að breyta loftslagi á jörðinni svo mikið að ekki verður aftur snúið, eða langt mál um tvöfalt siðgæði þjóðar sem þykist vilja vera í fararbroddi í umhverfismálum á 21. öldinni. En það hafa aðrir gert. Og þessi grein fjallar heldur ekki um umhverfismál. Hún fjallar um efnahagsmál. Hún fjallar einfaldlega um það hvernig Íslendingar geti grætt sem mest á Drekasvæðinu og á sem stystum tíma.

„Stóra tækifærið á Drekasvæðinu“ liggur ekki í því að vinna olíu. Það liggur í því að vinna hana ekki. Það eitt að mikil líkindi séu á því að olía finnist á svæðinu er nóg til þess að skapa Íslendingum tækifæri sem er einstætt á heimsvísu. Þetta tækifæri veitist bara þjóð sem á miklar eldsneytisauðlindir í jörðu, en er ekki byrjuð að nýta þær. Og rétti tíminn er núna!

Til að nýta stóra tækifærið á Drekasvæðinu þurfa Íslendingar að lýsa því yfir í samfélagi þjóðanna að þarna sé olía sem Íslendingar ætli aldrei að nýta eða leyfa nýtingu á. Þess í stað hafi stjórnvöld ákveðið að ganga í fararbroddi til móts við nýja og bjartari framtíð án jarðefnaeldsneytis. Í ljósi þessarar ákvörðunar bjóðist Íslendingar til að gegna lykilhlutverki í samstarfi þjóða heims á sviði loftslagsmála.

Í framhaldi af ákvörðuninni um að nýta ekki olíuna á Drekasvæðinu munu opnast ný og óvænt tækifæri í rannsóknum og ferðaþjónustu, tækifæri til að byggja upp aðstöðu fyrir norðurslóðarannsóknir og tækifæri til að fá hingað alþjóðlegar ráðstefnur um loftslagsmál og um verndun hafsins, svo eitthvað sé nefnt. Um leið opnast ný tækifæri í markaðssetningu á íslenskum vörum, íslenskri þjónustu, íslenskri þekkingu og íslenskri menningu, jafnvel þótt hún tengist Drekasvæðinu ekki neitt.
Tekjurnar sem af þessu leiða verða mun fljótari að skila sér en tekjur af hugsanlegri olíuvinnslu síðar meir. Og það þarf varla að reikna lengi til að fá það út að nettótekjurnar af þessum auði verði miklu hærri en af hugsanlegri olíu. Og þetta verður ekki bara skammtímagróði fyrir mína kynslóð, heldur langtímagróði, bæði fyrir mína kynslóð og þær kynslóðir sem á eftir koma, bæði á Íslandi og í öðrum hlutum heimsþorpsins.

Ef við kunnum að nota auðinn á Drekasvæðinu mun kastljós heimsins beinast að þessari huguðu smáþjóð í norðri sem varð fyrst til þess að segja það sem allir vissu og sýna jafnframt í verki að henni væri alvara.

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu og á visir.is 17. desember 2013, en er endurbirt hér og nú í tilefni af því að í dag mun Orkustofnun gefa út þriðja sérleyfið til olíuleitar á Drekasvæðinu. Útgáfa þess leyfis er enn ein staðfesting þess að þeir sem stjórna þessu landi kunni ekki að nýta þann auð sem það á).

Follow

Get every new post delivered to your Inbox.