• Heimsóknir

  • 69,474 hits
 • júlí 2015
  S Þ Mi Fi L
  « júní    
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Plast er ekki bara plast

Plast 7Plast er til margra hluta nytsamlegt, enda kemur það með einum eða öðrum hætti við sögu í flestum athöfnum okkar nú til dags. En þannig hefur það ekki alltaf verið. Það var ekki fyrr en um miðja 20. öld sem farið var að fjöldaframleiða hluti úr plasti í einhverjum mæli. Núna er ársframleiðslan í heiminum hins vegar nálægt 300 milljónum tonna á ári – og sú talar hækkar að jafnaði um 4% milli ára. Með sama áframhaldi verður 400 milljón tonna markinu náð eftir 5-6 ár, þ.e.a.s árið 2020 eða þar um bil.

Plastið sem við sjáum mest af í daglegu lífi er auðkennt með tölum frá einum upp í sjö innan í þar til gerðum þríhyrningum sem prentaðir eru á plastið – og eru missýnilegir eftir því hversu sjónin er góð. Lítum nú nánar á þessa flokkun.

Plast sem auðkennt er með tölunni 1 er svokallað PET-plast eða pólýetýlen terephthalat. Það er m.a. notað í gosflöskur og hentar vel til endurvinnslu.

Plastflokkur númer 2 er pólýetýlen nánar tiltekið svokallað High Density pólýetýlen eða HDPE. Þetta er eitt algengasta og mest notaða plastefnið og er meðal annars að finna í umbúðum fyrir snyrtivörur og sitthvað fleira. Það hentar líka vel til endurvinnslu.

Plast númer 3 er svokallað PVC-plast eða pólývínýlklóríð, já eða bara vínyll. Það er notað í margs konar vörur, t.d. leikföng, regnföt, stígvél, sturtuhengi, vaxdúka, frárennslisrör (þessi appelsínugulu), rafmagnskapla og sitthvað fleira. Þessu plasti á að skila í endurvinnslu að notkun lokinni eins og öllu öðru plasti með númer frá 1 upp í 6. En PVC-plasti fylgja reyndar ýmis umhverfisvandamál sem plast númer 1 og 2 er laust við. Fyrir því eru aðallega tvær ástæður: Annars vegar inniheldur PVC-plast klór eins og nafni pólývínýlklóríð bendir til. Framleiðsla á PVC-plasti hefur meðal annars þess vegna í för með sér meiri mengun en mörg önnur plastframleiðsla og þegar PVC-plast brennur getur myndast díoxín. Meðal annars þess vegna ætti aldrei að kasta PVC-plasti á eld, né heldur að anda að sér reyk frá bruna þar sem PVC á í hlut. Hin ástæðan sem hér verður nefnd er að í PVC-plast er oft bætt hjálparefnum til að gefa plastinu þá eiginleika sem sóst er eftir hverju sinni, þannig að það verði til dæmis hæfilega hart, mjúkt eða sveigjanlegt. Þalöt eru dæmi um mýkingarefni sem oft er blandað í PVC-plast, en nokkrar gerðir þalata eru taldar raska hormónastarfsemi líkamans, auk þess sem þær geta stuðlað að ýmsum öðrum heilsuvandamálum. Af þessum sökum hefur Evrópusambandið sett reglur sem banna notkun tiltekinna þalata í leikföng, og enn strangari reglur gilda um leikföng sem gert er ráð fyrir að börn setji í munninn, þar með talda naghringi og annað slíkt. Auðvitað bragða börn stundum líka á hlutum án þess að Evrópusambandið hafi leyft þeim það, þar á meðal hlutum úr PVC-plasti, svo sem regnkápum, pennaveskjum eða þrykktum myndum á barnafötum. Þessir hlutir mega innihalda þalöt eins og reglurnar eru í dag. Líkurnar á því að börn stingi PVC-plasti upp í sig eru jafnvel meiri en fyrir annað plast, því að PVC-plasti fylgir oft forvitnilegt lykt, það er að segja það sem stundum er kallað „plastlykt“. En hér er ég reyndar kominn út á hálan ís, því að ég hef hvergi séð neinar rannsóknir á matarlyst barna á plasti. Hvað sem því líður ættu foreldrar að taka gamla naghringi og því um líkt úr umferð. Nýjar vörur af þessu tagi ættu að vera lausar við hættulegustu þalötin.

Plast númer 4 er enn ein gerðin af pólýetýlen, eða nánar tiltekið Low Density pólýetýlen eða LDPE. Þetta er eitt algengasta plastefnið, sem er m.a. að notað í alls konar plastpoka, þar á meðal innkaupapoka. Þetta efni hentar vel til endurvinnslu.

Plast númer 5 er svo pólýprópýlen eða PP. Það er algengt í umbúðum fyrir matvörur, svo sem í skyrdollum og tómatsósuflöskum – og sömuleiðis í nestisboxum og víðar, að ógleymdum frárennslisrörum (þessum gráu). Polýprópýlen hentar vel til endurvinnslu.

Plast númer 6 er pólýstýren eða PS. Það er m.a. að finna í ýmsum matarílátum, þar á meðal í frauðplastbökkum. Þessu plasti á líka að skila í endurvinnslu, en hún er þó ekki eins auðveld og þegar pólýetýlen og pólýprópýlen eiga í hlut.

Þá er bara sjöundi flokkurinn eftir. Hann er safnflokkur sem nær yfir ýmislegt annað plast, þar á meðal svokallað ABS-plast sem er notað í LEGO-kubba, pólýkarbónatplast sem hefur m.a. verið notað í mjúkar drykkjarflöskur – og líka amínóplast, þ.e.a.s. ef það er á annað borð merkt. Á Íslandi er ekki tekið við flokki númer 7 í endurvinnslu eftir því sem ég best veit, enda er flokkurinn sundurleitur og því dugar engin ein endurvinnsluaðferð á hann. Amínóplastið getur verið varasamt, sérstaklega ef það er tekið að eldast. Úr því geta melamín og formaldehýð nefnilega hugsanlega lekið í matvæli sem eru geymd í plastinu, sérstaklega ef hitastigið fer yfir 70 gráður, t.d. í örbylgjuofninum. Nýtt amínóplast ætti hins vegar að vera nokkuð öruggt, því að nýverið voru settar strangari reglur um þennan leka. Pólýkarbónatplastið er heldur ekki algott, því að það inniheldur efnið Bisfenól-A eða BPA, sem talið er geta gert ýmsan óskunda ef það berst inn í líkamann. Þessu hafa þjóðir Evrópusambandins brugðist við með því að banna notkun efnisins í barnasnuð og pela. En það leynist reyndar víðar, svo sem í vatnsbrúsum sem notaðir eru í vatnsvélar (á skrifstofum og víðar), svo og í plasthúð innan á sumum niðursuðudósum.

Til að gera langa sögu stutta er líklega best fyrir heilsuna og umhverfið að velja frekar vörur úr pólýetýleni eða pólýprópýleni heldur en úr öðru plasti, þ.e.a.s. ef maður hefur eitthvert val. Þarna er ég sem sagt að tala um plastflokka 1, 2, 4 og 5. Þetta plast inniheldur alla vega ekki klór og er að mestu laust við heilsuspillandi aukaefni.

Og að lokum þetta: Látið aldrei plast úr hendi sleppa utandyra. Af þeim 300 milljónum tonna af plasti sem eru framleidd árlega telja sumir að allt að 10%, eða um 30 milljón tonn, endi í sjónum. Þar mun allt þetta plast velkjast um aldir, því að plast brotnar seint niður í náttúrunni. Og svo má heldur ekki gleyma því, að í einu kílói af plasti er álíka mikil orka og í einu kílói af olíu, fyrir nú utan það að til að framleiða þetta eina kíló þurfti um það bil tvö kíló af olíu. Ekki hendir maður olíu. Hún er dýr.

(Þessi pistill er í öllum aðalatriðum samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í þættinum Sjónmál á Rás 1 29. maí 2013. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).

Aldarminning mömmu

Mamma á sínum yngri árum.

Mamma á sínum yngri árum.

Í dag eru liðin 100 ár frá því að mamma (Birgitta Stefánsdóttir eldri) fæddist, en það gerðist vestur á Kleifum í Gilsfirði mánudaginn 4. janúar 1915. Mamma var yngst 10 systkina, en þar af náðu 9 fullorðinsárum.

Heimilið á Kleifum var mannmargt og líklega þokkalega efnað á þess tíma mælikvarða. Þar var alltaf eitthvað um vinnufólk og mamma naut góðs af því í æsku. Anna móðir mömmu hafði nefnilega veikst af sullaveiki og barðist lengi við þann sjúkdóm áður en hann dró hana til dauða árið 1924 þegar mamma var 9 ára. En þarna voru „barnfóstrur“ sem sáu um að yngstu börnin skorti ekki neitt – og leystu það verk með prýði.

Jafnvel þótt Kleifaheimilið hafi verið talið vel efnum búið var ekki mögulegt að kosta allan barnaskarann til náms. Eftir því sem mamma sagði mér þótti Sigurkarl bróðir hennar (f. 1902) sérlega efnilegur og því lögðu foreldrarnir talsvert á sig til að stuðla að menntun hans. Seinna launaði hann greiðann með því að aðstoða yngstu systurnar tvær á mennabrautinni. Þetta varð til þess að mamma fór í Héraðsskólanum á Laugarvatni þar sem hún stundaði nám 1934-1936. Þaðan lá svo leiðin í Kennaraskólann þar sem hún lauk kennararaprófi vorið 1939. Meðan á því námi stóð bjó hún einmitt heima hjá Sigurkarli og fjölskyldu hans að Barónstíg 24 í Reykjavík.

Þá, rétt eins og nú, skipti máli fyrir námsmenn að komast í góða sumarvinnu til að eiga eitthvert skotsilfur fyrir veturinn. Hins vegar voru atvinnutækifærin á millistríðsárunum hvorki fjölbreytt né laus við kynjahalla. Strákarnir fóru í vegavinnu og stelpurnar í kaupavinnu. Mamma var kaupakona í sveit í þrjú sumur. Kaupið var 20 krónur á viku og þótti bara gott, en karlmenn fengu 40 krónur á viku.

Mamma fimmtug. Svona man ég fyrst eftir henni.

Mamma fimmtug. Svona man ég fyrst eftir henni.

Fyrst var mamma kaupakona í Hvítárholti í Hrunamannahreppi sumarið 1935. Skólasystir hennar á Laugarvatni var frá þessum bæ og útvegaði vinnuna. Þarna fannst mömmu best að vera af þessum þremur stöðum, en því miður var ekki hægt að ráða hana aftur sumarið eftir. Þá var hún í Norðtungu í Þverárhlíð ásamt Margréti systur sinni. Þarna fannst mömmu bara í meðallagi gott að vera. Hún sagði mér einu sinni að húsfreyjan í Norðtungu hefði verið ágæt, en hún hefði stundum notað tvenns konar klukkur, nefnilega búklukku á morgnana en símaklukku á kvöldin. Búklukkan var sumarklukka, því að á þessum tíma var klukkunni flýtt á vorin. Símaklukkan var alltaf á vetrartíma, sem kom sér vel fyrir vinnuveitendur síðdegis. Síðast var hún svo á Hárlaugsstöðum í Holtum, líklega sumarið 1938. Þarna sagði mamma að sér hefði svo sem þótt ágætt að vera og þetta var eini staðurinn þar sem borgað var aukalega ef unnið var á næturnar. Það var nefnilega þannig að þegar var góður þurrkur, þá var heyið oft bundið á næturnar. Vikulaunin, þ.e.a.s. 20 krónurnar, miðuðust við 10 tíma vinnu á dag 6 daga vikunnar, og venjulega var ekki um neinar aukagreiðslur að ræða þótt unnið væri á nóttunni.

Sumarið 1939 var mamma ráðskona hjá Ástu systur sinni og Þorkeli mági sínum á Óspakseyri í Bitru og hélt áfram þeim starfa eftir að hafa kennt handavinnu á Húsmæðraskólanum á Laugarvatni veturinn 1939-1940. Á Eyri kynntist hún pabba. Gamla fólkið í sveitinni sagði að Þorkell hefði lokað þau inni í hlöðu þangað til þau voru orðin par. Hvort sem það var nákvæmlega rétt eða ekki entist þetta samband þar til dauðinn aðskildi þau um aldamótin.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.

Mamma og pabbi giftu sig vorið 1944 og byrjuðu búskap hjá Sigríði systur pabba og Magnúsi eiginmanni hennar í Hvítarhlíð í Bitru. Vorið 1956 fluttust þau svo að Gröf, sem þau höfðu þá fest kaup á. Pabbi hafði reyndar sjálfur smíðað íbúðarhúsið í Gröf á fyrstu árum sínum sem húsasmiður upp úr 1930. Verkkaupinn var líklega ekki stórhuga, því að honum þótti nóg að gera ráð fyrir 180 cm lofthæð í húsinu. Pabbi náði að smygla þessu upp í 215 cm, sem kom sér vel seinna þó að ekkert okkar í fjölskyldunni hafi nokkurn tímann talist hávaxið.

Þegar mamma og pabbi settust að í Gröf áttu þau þrjú börn og fjórða og síðasta barnið, ég, bættist við ári síðar. Þessi flutningur markaði líka þau tímamót að búskapurinn varð aðalstarf pabba, en áður hafði hann aðallega unnið við smíðar víða um sveitir. Því hélt hann reyndar áfram næstu áratugi, en í minna mæli.

Ég held að mamma hafi aldrei ætlað sér að verða sveitakona að ævistarfi. Hún sagði þetta kannski aldrei berum orðum, enda fannst henni ekki borga sig að tala mikið um svoleiðis lagað, sérstaklega ekki ef það var viðkvæmt. En þetta var svo sem ekki bara eitthvert einkenni mömmu. Hennar kynslóð hafði einfaldlega ekki vanist því að tjá sig mikið um tilfinningar sínar og langanir. Mamma reyndi auk heldur yfirleitt að sneiða hjá snörpum orðaskiptum og afdráttarlausu tali. Ef einhverjum fannst eitthvað algjörlega frábært, þá reyndi hún heldur að draga úr, og sama gilti um það sem þótti algjörlega ómögulegt. Það var heldur ekki alslæmt.

Alnöfnur á fermingardegi þeirrar yngri í Óspakseyrarkirkju vorið 2001.

Birgitta Stefánsdóttir yngri með ömmu sinni og alnöfnu á fermingardegi þeirrar fyrrnefndu í Óspakseyrarkirkju vorið 2001.

Mamma hafði alltaf nógan tíma, eða þannig orðaði hún það að minnsta kosti. Pabba fannst hún hins vegar frekar seinlát þegar þau voru að fara eitthvað, sem var að vísu ekki oft. „Sjaldan skyldi seinn maður flýta sér“ var eitt af þeim orðatiltækjum sem mamma hélt hvað mest upp á. Samt var hún afskaplega afkastamikil kona, sérstaklega í hannyrðum. Þar liggur eftir hana gríðarmikið ævistarf, allt frá fínustu prjónadúkum og sjölum upp í heilu gólfteppin sem hún saumaði úr ullarbandi með góbelínsaum í strigapoka undan sykri.

Eftir að pabbi dó í ársbyrjun 2000 flutti mamma á Dvalarheimilið í Borgarnesi og dvaldist þar það sem eftir var. Þegar leið á þann tíma var getan til handavinnu upp urin og ættfræðin, sem hafði verið eitt af hennar helstu áhugamálum, var horfin til feðranna langt á undan henni. Þetta voru erfið ár og fátt eftir ógert þegar lífinu lauk 26. apríl 2008.

Hundrað ár eru einkennilega fljót að líða og ég er þakklátur fyrir að hafa náð að eiga helming af þessum tíma með mömmu. Hún hefði alveg getað verið ákveðnari í uppeldinu, en í þeim efnum verður hver að gera sitt besta miðað við þau spil sem hann eða hún hefur á hendinni. Þannig gengur þetta fyrir sig, kynslóð eftir kynslóð.

Mamma kenndi mér afskaplega margt. Sumt af því hef ég náð að tileinka mér en á öðrum sviðum hefur námið sjálfsagt ekki verið eins árangursríkt. En hún gerði alla vega sitt besta, og hennar besta var heilmikið. Þolinmæði og umburðarlyndi voru meðal þeirra grunngilda sem hún hafði í heiðri og kynnti fyrir börnunum sínum.

Takk mamma!

Sýnishorn af handavinnu mömmu. Gráa gólfteppið saumaði hún í strigapoka á árunum í kringum 1965. (Ljósm. Hallgrímur Gíslason 2002).

Sýnishorn af handavinnu mömmu. Gráa gólfteppið saumaði hún í strigapoka á árunum í kringum 1965. (Ljósm. Hallgrímur Gíslason 2002).

Hlaupaannáll 2014 og markmiðin 2015

Sigur 160

Eftir Mývatnsmaraþon 2014. (Ljósm. Birgitta Stefánsdóttir).

Enn eitt hlaupaárið er farið sína leið og nýtt hlaupaár tekið við. Við svoleiðis tímamót þykir mér við hæfi að líta um öxl og rifja upp hvernig til hafi tekist og hvaða markmið hafi náðst, en ekki síður að horfa fram á veginn og velta fyrir mér nýjum áskorunum.

Besta hlaupaárið til þessa (endurnýtt fyrirsögn frá síðasta ári)
Árið 2014 var tvímælalaust besta hlaupaárið mitt frá upphafi og hef ég þó verið viðloðandi þetta áhugamál (eða það mig) í rúm 40 ár. Ástæður þess að þetta hefur gengið svona vel eru líklega aðallega þrjár, þ.e.a.s. reynsla, þolinmæði og gott bakland. Þessir þættir eru reyndar ekki ótengdir.

Á þessu nýliðna ári lagði ég ívið meiri áherslu en áður á að auka styrk og hraða, en örlítið minni áherslu á löng hlaup. Þetta skilaði meiru en mig óraði fyrir um síðustu áramót. Þannig bætti ég 5 km tímann minn um 20 sek, 10 km tímann um 54 sek og hálfmaraþontímann um 3 mín, (já eða reyndar 2:59 mín ef ég á að vera alveg hreinskilinn). Hins vegar tókst mér ekki að bæta mig í maraþoni þrátt fyrir góðan ásetning. Árið 2013 kom ég sjálfum mér á óvart með því að hlaupa Reykjavíkurmaraþonið á 3:08:19 og helsta hlaupamarkmið ársins 2014 var að bæta þennan tíma. Það átti að gerast í München 12. október, en lokatíminn þar var 3:08:30 mín. Mig vantaði sem sagt 12 sekúndur til að ná markmiðiðinu, en það var svo sem allt í lagi. Ég ætti að hafa nógan tíma til að bæta þennan tíma seinna.

Fimm markmið sett, fjögur náðust
Á nýliðnu hlaupaári náði ég fjórum af þeim fimm markmiðum sem ég setti mér í ársbyrjun og lesa má um í þar til gerðum pistli frá 31. desember 2013. Ég ætlaði sem sagt að 1) bæta mig í maraþoni (hlaupa undir 3:08:19 klst), 2) hlaupa hálft maraþon undir 1:30 klst, 3) hlaupa 10 km götuhlaup undir 41:00 mín, 4) hlaupa a.m.k. sex fjallvegi og 5) hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Öll þessi markmið náðust, nema það fyrstnefnda þar sem mig vantaði 12 sekúndur upp á eins og áður segir. Ætli þetta megi ekki teljast 80% árangur – og ætli það megi ekki teljast viðunandi? Ég er alla vega mjög sáttur.

Hlaupaæfingar ársins
Ég keppti fyrst í hlaupum sumarið 1972 og hef sem fyrr segir verið viðloðandi hlaupin meira og minna síðan. Þó að ég hafi alls ekki verið í neinu toppformi allan þennan tíma, þá finnst mér samt að allir þeir kílómetrar sem hafa safnast í lappirnar frá upphafi eigi sinn þátt í því hvar ég er staddur í dag. Bæði líkaminn og hugurinn hafa lært eitthvað sem gleymist aldrei alveg. Mér finnst ég þannig enn búa að æfingunum hjá ÍR undir stjórn Guðmundar heitins Þórarinssonar á árunum 1973-1975. Á fimmtugsafmælinu mínu 2007 ákvað ég að gera hlaupin að lífsstíl og síðan hefur smátt og smátt byggst ofan á þennan gamla grunn. Hlaupaæfingar ársins 2014 voru auðvitað mikilvægur liður í því að ná betri árangri, en þær verður samt að skoða í „sögulegu samhengi“. Líklega byrjaði nýtt tímabil í hlaupaævisögunni minni í ársbyrjun 2013 þegar ég tók mig til og æfði óvenjumarkvisst fyrir Parísarmaraþonið. Þegar ég horfi til baka finnst mér þetta hafa verið svolítið eins og að komast „í nýtt borð“ í tölvuleik, (án þess að ég sé neitt sérlega kunnugur í þeim heimi).

Lengi lifir í gömlum glæðum en eldur logar samt ekki endalaust nema bætt sé á hann. Hvorki minningar frá ÍR-æfingum fyrir 40 árum, fyrirheit fimmtugs manns né Parísaræfingarnar hefðu skilað mér langt í hlaupum ársins 2014 ef ég hefði ekki haldið áfram að byggja ofaná, stein fyrir stein. Ég fór reyndar frekar hægt af stað í upphafi ársins, enda var stærsta verkefnið ekki á dagskrá fyrr en með haustinu. Ætlunin var því að miða hlaupaæfingarnar við það sem ég tel mig þurfa til viðhalds, þ.e. að hlaupa þrisvar í viku, samtals um 40 km. Eftir 20. febrúar ætlaði ég svo að bæta fjórðu æfingunni við og lengja vikurnar síðan smátt og smátt. Þetta gekk eftir í öllum aðalatriðum, enda þurfti ég ekkert að hafa fyrir þessu annað en að mæta á æfingar fjörlega og fallega hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi, sem hittist einmitt þrisvar í viku. Með því að mæta aðeins fyrr eða hætta aðeins seinna en flestir hinna komu þessi 40 kílómetrar nánast sjálfkrafa. Tuttugasti febrúar kom reyndar ekki fyrr en vika var liðin af mars, en eftir það var vikuskammturinn oftast í kringum 60 km í lauslegu samræmi við lauslega æfingaáætlun sem ég fann einhvers staðar á netinu og átti að geta skilað mér nálægt 1:30 klst. í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara (FM) 26. apríl. Oftast voru þetta þá 4-5 æfingar á viku, þar af ein góð sprettæfing, allt frá 10×200 m upp í 6×1600 m, og ein önnur æfing af þokkalegum gæðum, t.d. 10-20 km hlaup með hröðum seinniparti eða hröðum milliköflum. Í apríllok hafði ég lagt að baki 849 km frá áramótum. Svona tölur eru afstæðar, en á sama tímabili árið 2013 hljóp ég 1.084 km, enda miðaðist það við að vera kominn í besta maraþonform lífsins í byrjun apríl.

Yfir sumarið fækkaði æfingunum heldur en fjallvegahlaup og önnur langhlaupaverkefni gerðu það að verkum að vikuskammturinn hélst áfram í 60-70 km. Í ágúst og september ætlaði ég að fjölga kílómetrunum til að búa í haginn fyrir München, en þar setti vinnan strik í reikninginn. Meðalvikan nálgaðist reyndar 80 km, en á þessu tímabili hefði ég þurft að hlaupa meira til að geta stuggað almennilega við persónulega maraþonmetinu mínu. Það stóð af sér atlöguna eins og fyrr segir, en hefði þó líklega látið undan ef aðstæður hefðu verið enn betri.

Eftir München ætlaði ég að halda mér vel mjúkum til að geta hlaupið hálft maraþon á þokkalegum tíma í Haustmaraþoni FM 25. október og taka síðan þriggja vikna frí til að gefa líkamanum gott tækifæri til að dytta að því sem kynni að hafa látið undan á hlaupum árins. Svolítil hálsbólga setti strik í þennan reikning og sömuleiðis var frekar mikið að gera í vinnunni á þessum tíma. Þetta endaði því eiginlega með 6 vikna fríi og það var ekki fyrr en í byrjun desember sem ég náði að koma vikuskammtinum aftur í u.þ.b. 40 km, sem ég lít á sem viðhaldsskammt eins og áður segir.

Æfingayfirlit ársins birtist í styttri mynd á eftirfarandi grafi:

Hlaup 2014 mán web

Á gamlárskvöld hafði ég lagt samtals 2.556 km að baki á árinu. Þar með var þetta orðið næstlengsta ár lífs míns eins og ráða má af myndinni hér að neðan. Aðeins árið 2013 var lengra, 2.731 km.

Hlaup 2014 ár web

Jól 2013: Ketilbjöllukennslustund nr. 1.

Jól 2013: Ketilbjöllukennslustund nr. 1. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir).

Áður en ég segi skilið við æfingarnar er rétt að undirstrika að hlaupaæfingar eru ekki bara hlaupaæfingar. Ef vel á að ganga skipta styrktaræfingarnar ekki minna máli. Ég var reyndar frekar latur við þær á nýliðnu ári og ekki bætti úr skák að líkamsræktarsalurinn í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi var lokaður lengst af frá áramótum til vors á meðan unnið var að endurnýjun. Ég var hins vegar svo heppinn að Þorkell sonur minn gaf mér 12 kg ketilbjöllu á jólunum 2013 og með þessa bjöllu í höndunum tók ég 10 hnébeygjur nánast á hverjum morgni allt árið. Ég hygg að þessar æfingar hafi átt sinn þátt í hversu vel gekk í hlaupunum. Þetta var í raun það eina nýja sem ég gerði. Aðrar æfingar voru hvorki meiri né betri en árið áður.

Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2014 urðu 15 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Þessi fjölgun stafaði að einhverju leyti af stöðugri viðleitni til að sneiða nokkrar sekúndur af besta 10 km tímanum mínum og einnig og ekki síður af góðum félagsskap Gunnars Viðars Gunnarssonar, hlaupafélaga míns úr Flandra, sem fylgdi mér í flest þessara hlaupa og veitti mér aðhald og keppni. Keppnishlaupin hafa það líka sér til ágætis að í þeim hitti ég fólk úr sístækkandi hlaupavinahópi, sem ég myndi sjaldan hitta ella. Þessi samskipti eru mér mikils virði enda virðast hlaupin kalla það besta fram í fólki. Allt hitt er skilið eftir heima, ef eitthvað er.

Flandrarar og Eva heiðursfélagi eftir Actavishlaupið.

Flandrarar og Eva heiðursfélagi eftir Actavishlaupið.

Fyrsta keppnishlaup ársins var lokahlaupið í hlaupaseríu Actavis og FH í Hafnarfirði 27. mars. Ég fann mig engan veginn í þessu hlaupi, en kláraði þó 5 km á 20:32 mín, sem er svo sem ekkert lakara en ég er vanur. Og hlaupið var skemmtilegt af því að með mér var fríður hópur úr Flandra og þarna féllu þónokkur persónulegt met þó að mitt stæði.

Næst var röðin komin að 10 km Flóahlaupi Umf. Samhygðar (Kökuhlaupinu) 5. apríl. Þetta var ótrúlega skemmtilegt hlaup sem gaf, eftir á að hyggja, tóninn fyrir það sem framundan var. Þegar ég var aðeins tekinn að lýjast ákvað ég að setja aukaorku í að fylgja fyrstu konum í hlaupinu. Það gekk betur en ég þorði að vona og niðurstaðan var lokatími upp á 41:17 mín, sem var langt umfram væntingar, langbesti tíminn minn í Flóahlaupi til þessa og ekki nema 17 sek. frá persónulega metinu mínu í 10 km götuhlaupi frá því sumarið 1996. Þetta hlaut að verða gott hlaupaár!

Þriðja hlaupið var Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta. Þar ætlaði ég mér ekki stóra hluti, enda bara tveir dagar í hálft maraþon. Reiknaði þó með að geta alla vega hlaupið þessa 5 km á 20:30 mín. Lokatíminn varð 19:39 mín, þ.e.a.s. 20 sek. bæting á persónulega metinu mínu í 5 km götuhlaupi. Þarna var mikið af skemmtilegu fólki í kringum mig og þá er allt hægt!

Kampakátur í Vonarstræti þegar hlaupið var hálfnað. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Kampakátur í Vonarstræti þegar ÍR-hlaupið var hálfnað. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Daginn eftir ÍR-hlaupið þurfti ég að sinna vinnuerindum í Kaupmannahöfn, en morguninn þar á eftir var ég mættur á ráslínuna fyrir hálft maraþon í Vormaraþoni FM í Reykjavík. Fyrir þetta hlaup átti ég best 1:31:12 klst frá því í haustmaraþoninu 2013. Ég vissi að ég gæti bætt þann tíma á góðum degi og lét mig jafnvel dreyma um að hlaupa nálægt 1:30 klst. Það gekk eftir og meira til, því að lokatíminn var 1:29:25 klst og þar með var einu af helstu hlaupamarkmiðum ársins náð. Þetta kom mér þægilega á óvart, ekki síst vegna þess að ég var kannski örlítið lúinn eftir Kaupmannarhafnarreisuna.

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Fimmta hlaupið var svo Icelandairhlaupið 8. maí, en það er árlegt 7 km hlaup í kringum Vatnsmýrina, sem ég tók nú þátt í fimmta árið í röð. Enn gekk allt eins og í sögu og ég náði mínum langbesta tíma til þessa, 27:44 mín. Ein skemmtilegasta minningin úr þessu hlaupi er þegar ég sneri mér við á marksvæðinu til að svipast eftir Gunnari Viðari sem ég bjóst við að myndi skila sér í markið svo sem tveimur mínútum á eftir mér. Þá stóð hann bara þarna og hafði verið skammt undan allan tímann, langt umfram það sem nokkur hafði reiknað með.

Stundum verður maður hálfpartinn saddur á keppnishlaupum. Það kemur reyndar sjaldan fyrir mig enda hleyp ég líklega sjaldnar en margir aðrir sem teljast á svipuðu róli. En ég fann samt örlítið fyrir þessu eftir Icelandairhlaupið. Var því ekki alveg eins vel upplagður þegar röðin var komin að 10 km Styrktarhlaupi líffæraþega í Fossvoginum 20. maí. Það gekk þó ekki verr en svo að ég bætti 18 ára gamla persónumetið mitt um 14 sek. Hljóp sem sagt á 40:46 mín. Gunnar Viðar gerði enn betur og kom í mark á 40:34 mín. Það hefðu margið talið óhugsandi nokkrum mánuðum fyrr.

Flandrahópurinn eftir líffæragjafahlaupið. F.v. SG, Auður, Gunnar, Birgitta, Haukur. (Ljósm. Hrönn Guðmundsd.).

Flandrahópurinn eftir líffæragjafahlaupið. F.v. SG, Auður, Gunnar, Birgitta, Haukur. (Ljósm. Hrönn Guðmundsdóttir).

Mývatnsmaraþonið var 7. keppnishlaupið þetta árið. Það gekk bara vel framan af, en ég vissi svo sem að mig vantaði kílómetra í lappirnar til að geta verið nálægt mínu besta. Ætlaði það heldur ekki neitt. Bjóst bara við svipuðu og árið áður, þ.e. lokatíma í kringum 3:20 klst. Allt gekk skv. áætlun fyrri hluta hlaupsins, Gunnar Viðar fylgdi mér fyrstu 17 km og eftir 20 km fór ég fram úr frönskum hlaupara sem hafði leitt hlaupið fram að því. Sá aldrei til mannaferða eftir þetta, hitinn var kominn í 18°C og mýflugurnar með hressasta móti, án þess að þær öngruðu mig svo sem neitt að ráði. Ég hljóp síðustu kílómetrana á viljanum einum og kom dauðþreyttur í mark á lakasta tímanum í 6 ár, 3:29:47 klst. Það var hins vegar mikil huggun harmi gegn að ég vann hlaupið næsta örugglega þrátt fyrir allt. Næstu menn skiluðu sér tólf og hálfri mínútu síðar. Þar með var minn fyrsti sigur í almenningshlaupi í höfn.

Glaður og þreyttur á síðustu metrunum. (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Glaður og þreyttur sigurvegari á síðustu metrunum í Mývatnsmaraþoninu (í tvennum skilningi). (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Mývatnsmaraþonið sat ekki lengi í mér en nú tóku öðruvísi hlaupaverkefni við, þannig að það var ekki fyrr en 9. júlí sem ég mætti í 8. keppnishlaupið. Þetta var Ármannshlaupið, sem hefur lengi verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Fyrri hluti hlaupsins var hálferfiður, en seinni hlutinn léttari og uppskeran enn ein bætingin, 10 km á 40:27 mín. Þetta var 30. 10 km götuhlaupið mitt frá því að ég hóf þá iðju sumarið 1993.

Næst á dagskránni var Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Þangað fórum við nokkur saman, höfðum fengið lánað hús í Bolungarvík og höfðum allt sem þarf í gott ferðalag. Þessi ferð var líka algjörlega laus við vonbrigði og móttökurnar fyrir vestan engu líkar. Föstudagskvöldið 18. júlí hljóp ég 10 km í Óshlíðarhlaupinu. Við Hrönn Guðmunds fylgdumst að fyrstu kílómetrana og Gunnar Viðar var ýmist rétt á undan eða rétt á eftir. Millitíminn eftir 5 km var 19:51 mín sem var betra en besti 5 km götuhlaupatíminn minn til skamms tíma. Gerði mitt besta til að halda þessum hraða en eitthvað dró af mér á seinni hlutanum, enda leiðin örlítið mishæðótt. Lauk hlaupinu á 40:44 mín. Hafði reyndar hlaupið yfir Skálavíkurheiði daginn áður, en held varla að það hafi skipt sköpum.

Tveim dögum síðar var svo röðin komin að Stóru Vesturgötunni, 45 km hlaupi frá Þingeyri yfir Álftamýrarheiði og svo hina hefðbundu Vesturgötu frá Stapadal í Arnarfirði, út í Svalvoga og eftir Kjaransveginum inn að Sveinseyri. Ég, Gunnar Viðar og Klemens vorum einu karlarnir í þessari keppni. Fylgdumst að yfir heiðina og út fyrir rásmarkið í Stapadal, en eftir það bætti ég heldur í og var einn míns liðs það sem eftir lifði hlaups. Veðrið lék við hvern sinn fingur þennan dag og batnaði enn eftir því sem á leið hlaupið. Að öðrum stundum ólöstuðum finnst mér þetta hafa verið bestu augnablik hlaupaársins. Ég kom langfyrstur í mark á 4:12 klst, sem var talsvert betri tími en ég hafði þorað að vona. Og ég var meira að segja ekkert sérstaklega þreyttur.

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Eftir Vesturgötuna fór Münchenmaraþonið í október smám saman að taka stærra pláss í hugsuninni. Keppnishlaup nr. 11 var Reykjavíkurmaraþonið (RM) 23. ágúst en þar ætlaði ég að hlaupa hálft maraþon undir 1:28 klst. til að fullvissa sjálfan mig um að bæting væri innan seilingar í München. Þetta markmið náðist reyndar ekki alveg, því að lokatíminn var 1:28:13 klst. En þetta var samt góð bæting og engin ástæða til annars en vera bjartsýnn. Þessi dagur var enn skemmtilegri en ella vegna þess að tvö eldri börnin mín voru með í þessu sama hlaupi og bættu sig bæði talsvert meira en ég.

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tekið á því á síðustu metrunum í RM. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tólfta keppnishlaupið var Fossvogshlaupið fimm dögum eftir RM. Þennan leik lék ég líka árið áður en þá hafði ég reyndar hlaupið heilt maraþon í RM. Það var ekki skynsamlegt en slapp fyrir horn. Nú var allt öðru máli að gegna enda hálft maraþon ekki nema brot af heilu hvað líkamlegt hnjask varðar. Í Fossvogshlaupinu gerði ég fyrstu alvarlegu atlöguna að 40 mínútna múrnum. Var á 19:52 mín eftir 5 km og notaði alla orku sem afgangs var í seinni helminginn. Niðurstaðan var 40:09 mín, sem sagt þriðja 10 km bæting sumarsins. Múrinn stóð þetta af sér, sem var eftir á að hyggja bara ljómandi fínt, því að þá hef ég eitthvað að stefna að á næsta ári. Auðvitað á maður ekkert víst í þeim efnum, en tilhugsunin er alla vega ljúf.

Í byrjun september skelltum við Gunnar Viðar okkur til Keflavíkur í 10 km Reykjanesmaraþon. Þarna ætlaði ég mér ekki neitt sérstakt en þetta varð samt eitt af mínum bestu hlaupum. Hafði góðan félagsskap af Evu Skarpaas langleiðina, eins og reyndar í nokkrum öðrum hlaupum sumarsins. Svoleiðis fylgd léttir manni lífið. Þessu hlaupi lauk ég á 40:17 mín og átti nóg inni. Seinna í sama mánuði hljóp ég svo enn eitt 10 km hlaupið, nánar tiltekið Hausthlaup UFA á Akureyri að kvöldi 18. september. Lokatíminn var 40:44 mín og þar með var þetta sjötta 10 km hlaupið í röð undir gamla persónumetinu. Þarna fann ég samt að það var bæði farið að kvölda og hausta á þessu keppnistímabili. Ég hafði hugsað mér að hlaupa eitt eða tvö 10 km hlaup til viðbótar, en nú langaði mig það ekki lengur. Þess í stað stillti ég hugann á Münchenmaraþonið, enda átti það alltaf að verða aðalhlaupaviðburður ársins. Maður á ekki að fara þreyttur í svoleiðis verkefni.

Góðar móttökur eftir maraþonið í München. (Ljósm. Kristín Ólafsd.).

Góðar móttökur eftir maraþonið í München. (Ljósm. Kristín Ólafsdóttir).

Münchenmaraþonið 12. október gekk í rauninni eins og í sögu þó að ég hafi verið 11 sekúndum frá mínu besta (3:08:30 klst. í stað 3:08:19). Ég taldi mig vera í standi til að hlaupa á 3:06:30 klst, en var meðvitaður um að nokkuð hefði skort á langar æfingar vikurnar á undan. Eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið alveg raunhæft mat. Hlaupið var að flestu leyti skynsamlega útfært hjá mér og eftir maraþonhlaup er nánast ósanngjarnt að væla yfir einhverjum sekúndum til eða frá. Líklega voru aðstæður ekki eins og best gerist, sérstaklega vegna þess að hitastigið var í hærra lagi, þ.e. svipað og við Mývatn fjórum mánuðum fyrr. Alla vega rættist lítið af villtustu draumum fólks í þessu hlaupi. En þetta var alveg bráðskemmtilegt, sérstaklega að hlaupa inn á Ólympíuleikvanginn þegar 300 m voru eftir í mark. Auk þess var þetta einkar skemmtileg hópferð.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2014 var áttunda sumarið í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Alla jafna hleyp ég fimm fjallvegi á hverju sumri en af ýmsum ástæðum var ég einum fjallvegi á eftir áætlun í árslok 2013. Einsetti mér að bæta úr því með því að afgreiða sex leiðir þetta árið. Fyrsta viðfangsefnið átti að vera Leggjabrjótur laugardaginn 24. maí, um 23 km leið frá Botnsskála að Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Lagði af stað í hvössum mótvindi, rigningu og þoku ásamt 27 öðrum misvönum og misvelbúnum hlaupurum og sneri við ásamt stærstum hluta hópsins eftir 8 km barning. Ég legg alltaf mikla áherslu á það í undirbúningi fjallvegahlaupa að þeir sem slást í för með mér geri það á eigin ábyrgð. En sú firring ábyrgðar er léttvæg fyrir sálina ef eitthvað ber út af. Mér leið ekki sérlega vel með það eftir á að hafa att öllu þessu fólki út í þetta ævintýri, jafnvel þótt allt færi vel að lokum og jafnvel þótt vosbúðin sjálft sæti ekkert í mér. Leggjabrjótur var svo afgreiddur í betra veðri nokkrum vikum síðar.

Við feðginin á Leggjabrjóti. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Við feðginin á Leggjabrjóti (í betra veðrinu). (Ljósm. Sævar Skaptason).

Eins og fyrr sagði brá ég mér með fríðu föruneyti á Hlaupahátíð á Vestfjörðum í júlí. Í leiðinni hljóp ég yfir Skálavíkurheiði, sem var létt hlaup enda bílvegur alla leið. Eftirminnilegust er úr þessu hlaupi er sagan um snjóflóðið á Breiðabóli 1910, sérstaklega eftir að í ljós kom að afi eins hlaupafélagans hafði sjálfur lent í flóðinu.

Glaðir hlauparar eftir fjallvegahlaup yfir Skálavíkurheiði. Myndin er tekin á hlaðinu á Minnibakka.

Glaðir hlauparar eftir fjallvegahlaup yfir Skálavíkurheiði. Myndin er tekin á hlaðinu á Minnibakka.

Í byrjun ágúst hljóp ég þrjú fjallvegahlaup á Norðurlandi, nánar tiltekið yfir Hjaltadalsheiði, Leirdalsheiði og Tunguheiði. Allt eru þetta eftirminnileg hlaup, hvert með sínum hætti. Hjaltadalsheiðin var hæst, Leirdalsheiðin blautust og Tunguheiðin fallegust.

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014.

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014.

Síðasta fjallvegahlaup ársins og það fertugasta frá upphafi var svo yfir Skálmardalsheiði fyrir vestan um miðjan ágúst. Þar vorum við þrjú saman í ágætu veðri og þó að heiðin sé greiðfær og auðrötuð tókst mér að leiða okkur í villur, enda var hlaupaúrið með GPS-búnaðinum bilað, kortið gleymdist heima og innbyggð ratvísi forfeðranna var eitthvað tekin að fyrnast.

Hlaupafélagarnir Esther og Gunnar á Skálmardalsheiði, rétt áður en við villtumst.

Hlaupafélagarnir Esther og Gunnar á Skálmardalsheiði, rétt áður en við villtumst.

Nú eru 10 fjallvegahlaup eftir í verkefninu og ég hlakka til þeirra allra. Þessi hlaup hafa fært mér mikla gleði, kynnt mig fyrir landinu sem við eigum öll saman og komið mér í samband við einstaklega skemmtilegt fólk sem hefur auðgað líf mitt síðustu árin. Eins og ég nefni einhvers staðar hér að framan virðast mér hlaupin kalla fram allt það besta í fólki. Fjallvegahlaupin gera það enn betur og greinilegar en önnur hlaup.

Skemmtihlaupin
Árlega stend ég fyrir eða á einhvern þátt í þremur skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Síðasta vor var þetta hlaup þreytt í 5. sinn þann 29. maí. Umræddur hringur er í nágrenni Borgarness, rúmlega 21 km að lengd heiman að frá mér og heim. Þetta er eiginlega boðshlaup, því að hluti af uppákomunni er kjötsúpa Bjarkar, gerð úr kjöti af Strandalömbum sem aldrei hafa kynnst ræktuðu landi af eigin raun. Sjálfur var ég að hlaupa hringinn í 100. sinn þennan dag.

Á Háfslækjarhringnum vorið 2014.

Á Háfslækjarhringnum vorið 2014.

Næst á dagskránni var svo skemmtihlaupið Þrístrendingur sem við Dofri Hermannsson, frændi minn, stóðum nú fyrir 5. árið í röð. Leiðin liggur frá Kleifum í Gilsfirði norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en staðhættir þannig að auðvelt er að taka bara einn eða tvo áfanga af þremur ef heildarvegalengdin vex mönnum í augum. Að þessu sinni bar hlaupið upp á laugardaginn 21. júní. Þátttakendur voru 16 þegar allt er talið, þar af 11 sem hlupu alla leið. Veðrið var gott að vanda og dagurinn allur hin besta upplifun.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga í Þrístrendingi miðjum.

Sýnishorn af móttökum Hólmvíkinga eftir Hamingjuhlaupið.

Sýnishorn af móttökum Hólmvíkinga eftir Hamingjuhlaupið. Þarna er gaman að vera!

Þriðja hefðbundna skemmtunin í þessum flokki var Hamingjuhlaupið í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík 28. júní. Að þessu sinni var lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði, rétt eins og í Þrístrendingi, og svo hlaupið sem leið liggur um Vatnadal og Miðdal til Steingrímsfjarðar og þar áfram til Hólmavíkur. Þetta var 6. Hamingjuhlaupið og hreint alls ekki það síðasta.

Afrekaskráin
Ég er löngu hættur að líta á aðra hlaupara sem keppinauta, jafnvel þó að ég noti hugtakið keppnishlaup nokkrum sinnum hér að framan. Ég sjálfur er nefnilega eini keppinauturinn minn, hitt eru bara hlaupafélagar og jafnvel hlaupavinir, sem lýsa upp tilveruna og eyða einmanaleikanum. Samt sem áður hef ég gaman af afrekaskrám, þar sem alls konar fólki er raðað eftir árangri í hlaupum – og mér þar á meðal. Líklega fæddist ég með þennan áhuga, eða þá að ég varð mér úti um hann á æskuheimilinu þar sem haldnar voru skýrslur yfir flest það sem hægt var að leggja tölulega mælikvarða á, og mikið af hinu líka. Þegar ég byrjaði að keppa í hlaupum á árunum upp úr 1970 var hlaupið sjálft líklega ekki nema helmingurinn. Hinn helmingurinn, engu síður mikilvægur, var skráningin sem fór fram að hlaupi loknu með öllum þeim útreikningum og samanburðarrannsóknum sem völ var á hverju sinni. Strandamet voru í miklu uppáhaldi hjá mér, en draumurinn var náttúrulega að komast á skrá yfir 100 bestu Íslendinga sögunnar í einhverri greininni. Man ekki lengur hvort nafnið mitt fannst á einhverjum slíkum skrám um tíma, nema þá í 3.000 m hindrunarhlaupi þar sem ég er enn í 99. sæti yfir bestu hindrunarhlaupara sögunnar eftir eftirminnilegt hlaup á Laugardalsvellinum haustið 1975 á 10:46,8 mín. (Eins gott að minnast á þetta núna. Hlýt að detta út af „Topp 100“ á næsta ári).

Ég geri mér engar vonir um að endurheimta sæti á 100 manna listanum eftir að hindrunarhlaupið mitt hverfur af skrá. Hins vegar finnst mér gaman að rýna í afrekaskrár eldri borgara, þar sem ég tilheyri nú aldursflokknum 55-59 ára. Eftir sumarið í sumar er staða mín á þessum skrám sem hér segir (með fyrirvara um uppfærslur sem e.t.v. á eftir að framkvæma og með eigin lagfæringum):

 • 5 km götuhlaup: 4. sæti 19:42 mín (byssutími)
 • 10 km götuhlaup: 6. sæti 40:11 mín (byssutími)
 • Hálft maraþon: 5. sæti 1:28:19 klst (byssutími)
 • Maraþon: 4. sæti 3:08:33 klst (byssutími)
 • Laugavegurinn: 2. sæti 5:52:33 klst

Þessa skrá hef ég gjarnan til hliðsjónar þegar ég rökræði við sjálfan mig um markmiðin framundan.

Markmiðin 2015
Eins og áður sagði náði ég öllum þeim markmiðum sem ég setti mér fyrir hlaupaárið 2014, ef frá eru taldar þessar 12 sekúndur sem vantaði upp á í München. Eins og staðan er í dag hef ég enga ástæðu til annars en að stefna hærra upp og lengra fram á þessu nýbyrjaða ári. Í samræmi við það eru markmiðin fyrir árið 2015 sem hér segir:

 1. Bæting í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín)
 2. Undir 40 mín í 10 km götuhlaupi (bæting um 10 sek)
 3. Bæting á Laugaveginum (undir 5:52:33 klst)
 4. Fimm fjallvegahlaup
 5. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Þessi markmið eru svipuð þeim sem ég hef sett mér síðustu árin, nema hvað ég geri náttúrulega ráð fyrir svolitlum framförum. En gleðin er aðalatriðið – og hana velur maður sér sjálfur að förunaut.

Helstu dagsetningar 2015
Til að styðja við markmiðin hér að framan og sjálfum mér til minnis birtast hér nokkrar mikilvægar dagsetningar úr hlaupadagatalinu mínu fyrir árið 2015. Nánari upplýsingar er að finna í bloggpistli frá því í október og þar eru líka fyrstu drög að dagsetningum fyrir árið 2016. Þeim dagsetningum ber þó að taka með fyrirvara, enda þegar ljóst að þær munu eitthvað færast til.

 1. Lau 25/4: Vormaraþon FM, 21 km
 2. Lau 23/5: Göteborgsvarvet, fjölmennasta hálfmaraþon í heimi, 21 km
 3. Lau 30/5: Flatnavegur, 14 km frá Rauðamelsölkeldu að Litla-Langadal, fjallvegahlaup nr. 41
 4. Lau 20/6: Þrístrendingur, 41 km
 5. Lau 27/6: Hamingjuhlaupið, 32 km úr Reykhólasveit um Laxárdalsheiði og Þiðriksvalladal til Hólmavíkur
 6. Lau 11/7: Strjúgsskarð, 31 km úr Langadal til Sauðárkróks, fjallvegahlaup nr. 42
 7. Lau 18/7: Laugavegurinn, 55 km
 8. Lau 1/8: Barðsneshlaupið, 27 km
 9. Þri 4/8: Víkurheiði og Dys, 14 km úr Reyðarfirði í Viðfjörð, fjallvegahlaup nr. 43
 10. Fim 6/8: Berufjarðarskarð, 14 km úr Breiðdal til Berufjarðar, fjallvegahlaup nr. 44
 11. Lau 15/8: Haukadalsskarð, 20 km úr Haukadal í Dölum til Hrútafjarðar, fjallvegahlaup nr. 45
 12. Lau 22/8: Reykjavíkurmaraþon, 42 km

Þakkir
Vissulega hleypur maður einn og sjálfur, en samt er þetta ekki hægt nema baklandið sé traust. Það er til dæmis hvorki sjálfsagt að maður hafi heilsu til að leika sér svona, né að fjölskyldan og vinnuveitendurnir sýni þessu eigingjarna áhugamáli þann skilning sem það þarf til að lifa af. Vinnuveitandinn er lítil fyrirstaða í mínu tilviki enda við sjálfan mig að eiga. Fjölskyldan hefur hins vegar vanist áhugamálinu ótrúlega vel og sýnt því mikinn skilning. Fyrir þetta er ég afskaplega þakklátur. Sérstaklega á Björk þakkir skildar fyrir þolinmæðina og alla hjálpina í tengslum við fjallvegahlaupin. Börnin mín hafa líka stutt virkilega vel við bakið á mér, Þorkell með góðum ráðum um þjálfunina og með því að vera viðræðuhæfur um tölulegan árangur, Birgitta með því að fylgja mér í hlaup og hjálpa til við skipulagningu og Jóhanna með brosum, jákvæðni og hvatningu í ræðu og riti. Hlaupafélagarnir í Flandra eiga líka sinn stóra þátt í þessu öllu saman. Þar er á engan hallað þótt Gunnar Viðar sé nefndur sérstaklega, en hann fylgdi mér í næstum öll og í næstum öllum keppnishlaupum ársins og í nokkrum fjallahlaupum í þokkabót. Svo má líka nefna hlaupafélaga úr öðrum héruðum sem héldu uppi hraðanum fyrir mig í keppnishlaupum – og öfugt. Þar var Eva Skarpaas í aðalhlutverki og Hrönn Guðmunds átti líka stóran hlut að máli, svo einhverjir séu nefndir. Og ekki má heldur gleyma öllum fjallvegahlaupurunum sem gerðu skemmtileg hlaup enn skemmtilegri og hvöttu mig á alla lund. Þar kemur nafn Sævars Skaptasonar fyrst í hugann. Og svo mætti lengi telja. Takk öll fyrir að hjálpa mér við að gera þetta ár að besta hlaupaárinu mínu frá upphafi og fyrir að auka á tilhlökkunina fyrir því sem framundan er.

Safn útvarpspistla aðgengilegt á 2020.is

RÚVsíða (200x121)Í lok apríl 2013 tók  ég að mér að sjá um svolitla umfjöllun um umhverfismál í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1. Oftast hefur þetta verið tvisvar í viku, ýmist í formi 6-8 mínútna pistils eða viðtals af svipaðri lengd. Sama fyrirkomulag hélst eftir að þátturinn Samfélagið tók við af Sjónmáli haustið 2014 og í árslok voru þetta orðnir samtals 139 þættir.

Til að gera þetta efni sem aðgengilegast fyrir sjálfan mig og aðra hefur verið sett upp sérstök tenglasíða á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is, þar sem finna má tengla á alla þættina á vefsíðu Ríkisútvarpsins, að frátöldum örfáum þáttum sem ekki hafa ratað þar inn. Ætlunin er að bæta við þennan lista jafnt og þétt svo lengi sem framhald verður á þátttöku minni í þessari þáttagerð.

Ef þetta tenglasafn getur orðið einhverjum til gagns eða gamans er tilganginum náð.

Fjögurra vikna haustfrí á enda

mebÉg hef ekki hlaupið neitt í fjórar vikur, nánar tiltekið alveg síðan í Münchenmaraþoninu 12. október. Ástæðan er hvorki heilsubrestur, elli né leti, heldur er þetta einfaldlega hluti af æfingaáætlun ársins. Og það verður gaman að byrja aftur!

Síðustu árin hef ég lengst af verið þeirrar skoðunar að það væri varasamt fyrir rígfullorðna hlaupara eins og mig að taka sér langt hlé frá æfingum, því að þá yrði svo erfitt að komast aftur í sama form og maður var í fyrir hlé. Fyrir nokkrum árum var mig reyndar farið að gruna að þetta væri kannski misskilningur og á síðasta ári var ég orðinn alveg viss um hið gangstæða, þ.e.a.s. að hvíldin væri hreinlega nauðsynlegur hluti af því að halda sér í formi. Síðasta haust tók ég mér þess vegna þriggja vikna frí frá hlaupum og það sama ætlaði ég að gera núna í haust. Áætlunin hljóðaði sem sagt upp á að taka mér frí frá hlaupum eftir haustmaraþonið 25. október og byrja svo aftur mánudaginn 17. nóvember. Þessi áætlun raskaðist reyndar aðeins, því að nokkrum dögum eftir Münchenmaraþonið, rétt í þann mund sem ég taldi tímabært að byrja að hlaupa aftur, settist að mér frekar þrálát hálsbólga. Þetta var hreint engin drepsótt og truflaði mig svo sem ekkert í vinnunni, en samt nógu slæm til þess að ég efaðist um að útihlaup myndu bæta stöðuna. Þetta ástand stóð alveg fram að haustmaraþoni, sem ég varð þar af leiðandi að neita mér um, og þá bjó ég til nýja áætlun sem hljóðaði upp á fjögurra vikna frí frá og með mánudeginum 13. október. (Þetta er víst það sem kallast „afturvirk ákvörðun“, sem þykir ekki fínt hugtak í lögfræði en sjálfsagt vel brúklegt í sjálfhverfri hlaupaáætlunargerð fullorðinna). Ég ætla sem sagt að hefja æfingar á nýjan leik á morgun, mánudaginn 10. nóvember, eða í síðasta lagi dagana þar á eftir ef vinnan eða aðrir utanaðkomandi þættir ná að breyta áætlun morgundagsins.

Nú kann einhver að spyrja hver sé eiginlega spekin á bak við þetta. Því er til að svara að ég er enginn fagmaður í íþróttafræðum. Hins vegar tek ég mikið mark á mér yngri og reyndari mönnum sem mér finnst ástæða til að taka mikið mark á. Í þeim hópi eru m.a. hlaupararnir Meb Keflezighi, Bernard Lagat, Kim Collins og Þorkell Stefánsson. Þrír þeir fyrstnefndu eiga það sameiginlegt að vera komnir fast að fertugu og vera enn í framför þrátt fyrir að hafa verið í hópi bestu hlaupara heims í tvo áratugi. Sá fjórði er líka í framför og hefur verið óþreytandi við að benda mér á fordæmi hinna. Allir þessir menn leggja áherslu á hvíld og hóflegt álag á æfingum sem lykilatriði í því að ná árangri og viðhalda honum. Líkaminn þarf nefnilega ráðrúm til að vinna úr því sem lagt er á hann. Meira er ekki alltaf betra og sígandi lukka er best!

Hlakka til að byrja aftur. Ég sakna hreyfingarinnar, hlaupafélaganna í Flandra og útiverunnar!

(Myndin efst til hægri er tekin ófrjálsri hendi af einhverri vefsíðu og sýnir Meb vinna Bostonmaraþonið sl. vor á persónulegu meti (2:08:37 klst.) tveimur vikum fyrir 39 ára afmælið sitt. Hann stefnir á að verða í maraþonliði Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum í Ríó 2016).

Fjallvegahlaupadagskrá 2015-2016

Ein af fjölmörgum góðum fjallvegahlaupum Sævars Skaptasonar. Þessi var tekin á Reykjaheiði 7. ágúst 2014.

Ein af fjölmörgum góðum fjallvegahlaupamyndum Sævars Skaptasonar. Þessi var tekin á Reykjaheiði 7. ágúst 2014.

Ég átti fimmtugsafmæli fyrir skemmstu. Þá ákvað ég að hlaupa 50 fjallvegi á næstu tíu sumrum. Og allt í einu eru átta af þessum sumrum liðin og bara tvö eftir – og hlaupnu fjallvegirnir eru orðnir 40 talsins. Það þýðir að nú eru bara 10 slíkir eftir og ekki seinna vænna að velta því fyrir sér hvaða fjallvegir það eigi að vera. Þar eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Til að draga úr óvissunni birtast hér fyrstu drög að fjallvegahlaupadagskránni 2015-2016. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið!

1. Flatnavegur, laugardag 30. maí 2015 (#41)
Flatnavegur er um 14 km leið sem liggur frá Rauðamelsölkeldu í Eyja- og Miklaholtshreppi að Litla-Langadal á Skógarströnd. Þetta ætti að vera býsna viðráðanlegur spotti fyrir næstum hvern sem er. Leiðin fer varla í meira en 180 m hæð yfir sjó og er því alveg á mörkunum að standast inntökupróf í fjallvegahlaupaverkefnið. Þetta er frekar bara dalavegur, e.t.v. svolítið blautur á köflum. En fjölbreytnin er góð og gefur fleirum möguleika á að vera með. Nákvæmar tímasetningar hafa ekki verið ákveðnar, en seinni partur dagsins þykir einna álitlegastur í þessu sambandi. Á næstu vikum hefjast viðræður um uppsetningu á hugsanlegri grillaðstöðu Skógarstrandarmegin og ef þær ganga vel mætti hugsa sér að efnt verði til sameiginlegrar máltíðar að hlaupi loknu, þar sem hver um sig leggur til hráefni.

2. Þrístrendingur, laugardag 20. júní 2015
Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í sjötta sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasögur frá liðnum sumrum eru geymdar í gagnaverum víða um heim. Dæmi um það er ferðasagan frá sumrinu 2014.

3. Hamingjuhlaupið, laugardag 27. júní 2015
Þennan dag verður kominn tími á 7. Hamingjuhlaupið, en það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur. Þarna er hlaupið eftir fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hamingjuleiðin 2015 liggur um Laxárdalsheiði frá Klukkufelli í Reykhólasveit, inn fyrir Þiðriksvallavatn og svo sem leið liggur til Hólmavíkur. Vegalengdin er sjálfsagt rúmlega 30 km og þeir sem ekki treysta sér alla leiðina geta slegist í hópinn hvar sem er eftir að komið er niður í Þiðriksvalladal. Þetta verður allt kynnt miklu betur þegar nær dregur, en þangað til er hægt að stytta sér stundir við lestur eldri frásagna af Hamingjuhlaupum, t.d. frá sumrinu 2014.

4. Strjúgsskarð, laugardag 11. júlí 2015 (#42)
Ég hef horft svo oft upp í Strjúgsskarð á leiðinni til Akureyrar að nú hlýtur að vera kominn tími til að hlaupa það. Þá er lagt af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal, svo sem 17 km innan við Blönduós, hlaupið upp í skarðið og niður í Laxárdal, yfir hann, yfir Litla-Vatnsskarð og loks út Víðidal og Hryggjardal alla leið til Sauðárkróks. Þetta er því í raun meira en einn fjallvegur þó að ég hafi ákveðið að taka þetta sem eitt verkefni. Vegalengdin er eitthvað um 31 km.

5. Laugavegurinn, laugardag 18. júlí 2015
Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, en mér finnst bara svo gaman að hlaupa hann að ég get ekki sleppt því. Set hann því hér með til minnis. Hvet aðra til að hlaupa hann líka, en þá þarf maður náttúrulega að skrá sig fljótlega eftir að opnað verður fyrir slíkt í janúarmánuði.

6. Barðsneshlaupið, laugardag 1. ágúst 2015
Barðsneshlaupið fyrir austan er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, ekki frekar en Laugavegurinn. Mig hefur bara lengi langað til að hlaupa það og ætla að láta verða af því næsta sumar.

7. Víkurheiði og Dys, þriðjudag 4. ágúst 2015 (#43)
Víkurheiði liggur frá Stóru-Breiðuvík í Reyðarfirði út í Vöðlavík. Ég ætla hins vegar að beygja til norðurs á miðri leið og hlaupa um svonefnda Dys niður í Viðfjörð. Þar býst ég við að sagðar verði sögur af nýunnum afrekum í Barðsneshlaupinu og af Viðfjarðarundrunum, sem voru líklega minna skemmtileg. Leiðin öll er um 14 km og líklega hægt að komast á bíl til baka til byggða.

8. Berufjarðarskarð, fimmtudag 6. ágúst 2015 (#44)
Leiðin um Berufjarðarskarð liggur frá Höskuldsstöðum í Breiðdal í botn Berufjarðar. Vegalengdin er um 14 km, en ágætlega brött, fer mest í um 860 m hæð yfir sjó.

9. Haukadalsskarð, laugardag 15. ágúst 2015 (#45)
Haukadalsskarð liggur úr Haukadal í Dölum yfir að Brú í Hrútafirði. Þetta er aðgengilegur fjallvegur, enda jeppafær. Vegalengdin er eitthvað um 20 km. Heyrst hefur að seldir verði hamborgarar í Staðarskála að hlaupi loknu.

10. Þrístrendingur, laugardag 18. júní 2016
Sumarið 2016 verður Þrístrendingur hlaupinn í sjöunda sinn. Fjölyrði ekki frekar um það en vísa í það sem fram kemur framar í þessum pistli.

11. Hamingjuhlaupið, laugardag 25. júní 2016
Þennan dag verður kominn tími á 8. Hamingjuhlaupið, (sjá framar). Ekki er enn ljóst hvaða leið verður hlaupin í þetta skiptið.

12. Klofningsheiði, fimmtudag 14. júlí 2016 (#46, #47 eða #48)
Leiðin um Klofningsheiði liggur frá Flateyri og síðan niður Sunddal og Staðardal til Keravíkur, út fyrir Spilli og inn til Suðeyrar við Súgandafjörð. Leiðin upp er brött en hæst er farið í rúmlega 600 m hæð. Vegalengdin er áætluð um 14 km.

13. Vesturgatan, sunnudag 17. júlí 2016
Það vill svo skemmtilega til að Hlaupahátíðin á Vestfjörðum verður einmitt haldin dagana eftir Klofningsheiðarhlaupið. Hátíðin hefst á fimmtudag eða föstudag og nær hápunkti með Vesturgötunni á sunnudag. Þar ætla ég að vera, enda veit ég hvað maður fær góðar móttökur fyrir vestan. En Vesturgatan er svo sem ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu.

14. Sléttuheiði, þriðjudag 19. júlí 2016 (#47, #48 eða #49)
Hlaupaleiðin sem um ræðir liggur frá Sæbóli í Aðalvík, inn Staðardal, upp Fannadal, yfir Sléttuheiði og inn Hesteyrarbrúnir að Hesteyri. Leiðin er greiðfarin en gróf og eitthvað um 14 km að lengd. Boðið hefur verið upp á bátsferðir frá Ísafirði að Sæbóli kl. 9 á þriðjudagsmorgnum yfir sumarmánuðina og til baka frá Hesteyri seinni partinn. Dagsetning hlaupsins yfir Sléttuheiði miðast við að svipaðar ferðir verði enn í boði sumarið 2016. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa þennan spöl geta væntanlega komist í gönguferð með leiðsögn þessa sömu leið, sem miðast einmitt við þessar sömu bátsferðir. Það er með öðrum orðum frekar einfalt að gera meira en bara hlaupaferð úr þessu.

15. Arnarvatnsheiði, laugardag 13. ágúst 2016 (#50)
Arnarvatnsheiðin verður síðasti fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu. Dagsetningin er nokkurn veginn ákveðin, en e.t.v. er þó freistandi að færa hana fram til að fá lengri birtutíma. Lagt verður upp úr Miðfirði, væntanlega í grennd við Aðalból, að morgni dags og endað í námunda við Kalmanstungu í Borgarfirði þegar tekið verður að kvölda. Þessi spölur er eitthvað um 70 km og þar með langlengsti fjallvegurinn í verkefninu. Að hlaupi loknu verður fjallvegahlaupaverkefnið kvatt með formlegum hætti, en hver sá háttur verður kemur mun betur í ljós þegar nær dregur.

Eins og ráða má af upptalningunni hér að framan er enn ekki búið að taka ákvörðun um staðsetningu og tímasetningu tveggja fjallvegahlaupa sumarið 2016. Þar er reyndar úr vöndu að ráða, því að nóg er til af óhlaupnum fjallvegum og verkefnið tekur aðeins við 50 slíkum. Þeir fjallvegir sem helst hafa verið orðaðir við þessi tvö lausu sæti eru Sandsheiði (15 km) frá Barðaströnd vestur á Rauðasand, Kiðaskarð (17 km) frá Mælifelli í Skagafirði að Stafnsrétt í Svartárdal, Þingmannavegur (12 km) yfir Vaðlaheiði og Fimmvörðuháls (22 km) frá Skógum að Goðalandi í Þórsmörk. Öll góð ráð um þetta eru vel þegin, svo og hæfilegur hópþrýstingur frá þeim sem telja einhverjar leiðir öðrum nauðsynlegri.

Rétt er að taka fram að allt er þetta birt með fyrirvara um breytingar en svona lítur þetta alla vega út í andránni.

Sem fyrr vonast ég til að sem flestir sláist í för með mér í þessum hlaupum. Félagsskapurinn hefur verið mér mikils virði, enda skapast einhvern veginn þéttari og endingarbetri kynni á fjöllum en í byggð þar sem undirstaðan er malbik, fundarborð og tölvuskjáir.

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014.

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014. Þrír fremstu hlaupararnir á myndinni eru líka þau sem oftast hafa slegist í för með mér í fjallvegahlaupunum. Þar er hörð keppni í gangi!

Maraþons notið í München

Að hlaupi loknu. (Ljósm. Inga Dís).

Að hlaupi loknu. (Ljósm. Inga Dís Karlsd.).

Síðastliðinn sunnudag hljóp ég maraþon í München og náði næstbesta tímanum mínum frá upphafi. Markmiðið var reyndar að bæta þann tíma um eina sekúndu í það minnsta, en þegar upp var staðið vantaði 12 sekúndur upp á. En maraþonhlaup er ekki bara hlaup, heldur viðburður sem á sér margar hliðar. Þetta er ekki bara líkamlegt viðfangsefni, heldur ekki síður andlegt, já og reyndar líka félagslegt því að enda þótt maður hlaupi vissulega á eigin fótum en ekki annarra, þá er maður háður mörgum öðrum um framkvæmdina og ferlið allt. Þess vegna fjallar þessi pistill ekki bara um kílómetra, mínútur, meðalhraða og svita, heldur líka um svolítið brot af öllu hinu.

Hugmyndin
Núna er liðið um það bil ár síðan ég fékk þá flugu í höfuðið að skreppa til München til að hlaupa maraþon. Ég hef kynnst nokkrum svipuðum flugum um dagana. Sumar þeirra hafa lifað en flestar hafa horfið sporlaust þegar veruleikinn bankaði á dyrnar. Þessi umrædda fluga fæddist þegar ég heyrði af hópferð Bændaferða í Münchenmaraþonið í fyrra. Hvort tveggja var að ég hafði ekki farið í þess konar hópferð áður, og eins hitt að þarna var boðið upp á 10 km hlaup og hálfmaraþon, auk heila maraþonsins. Það fól í sér tækifæri til að gera þetta jafnframt að hópferð fyrir félaga í hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi. Þegar þarna var komið sögu átti hópurinn sér aðeins eins árs sögu og fáir í hópnum höfðu látið sér detta í hug að hlaupa heilt maraþon á næstu mánuðum. Hugmyndin fékk góðar undirtektir og nokkrum dögum síðar voru nokkrir af harðsnúnustu hlaupurunum búnir að skrá sig í ferðina, enda ekki seinna vænna því að flugan hafði greinilega átt greiða leið að kollum margra annarra, bæði norðan heiða og sunnan.

Undirbúningurinn
Undirbúningur fyrir svona ferð er í raun og veru alveg tvískiptur. Annars vegar þurfti að ganga frá lausum endum varðandi ferðalagið sjálft, þ.m.t. flugi og gistingu. Þetta var auðveldi hlutinn, því að Bændaferðir sáu um allt sem að þessu sneri. Þar var allt á hreinu frá upphafi, og ef einhver vandamál komu upp voru þau leyst jafnharðan með glöðu geði. Það var greinilegt á öllu að hjá Bændaferðum vinnur fólk sem finnst gaman í vinnunni og skortir aldrei vilja til að aðstoða þá sem til þeirra leita. Hins vegar þurfti að æfa sig eitthvað fyrir hlaupið.

Maður æfir svo sem ekki í heilt ár fyrir maraþonhlaup, eða það geri ég í það minnsta ekki. Engu að síður finnst mér skynsamlegt að sjá ár fram í tímann á hlaupabrautinni, er svo má að orði komast. Þarna var sem sagt búið að taka ákvörðun um að maraþonið í München yrði aðalhlaupaverkefni ársins 2014, sem þýddi að önnur verkefni hlutu að taka mið af því eftir því sem nauðsyn krafði. Í mínu tilviki þýddi þetta að ég lagði frekar litla áherslu á löng hlaup yfir vetrarmánuðina og reyndi þess í stað að byggja upp vöðvastyrk og hraða. Aðgerðir í þá veru hefðu svo sem getað verið markvissari, en allt ræðst þetta jú að hluta til af öðrum aðstæðum, þ.m.t. heimafyrir og í vinnunni. Eina nýjungin sem ég bætti við fyrri æfingar voru 10 hnébeygjur með 12 kg ketilbjöllu inni á baðherbergi á hverjum einasta morgni, allt frá því að Þorkell sonur minn gaf mér umrædda bjöllu á jólunum 2013. Svo hljóp ég bara þessa venjulega 40-50 km á viku, ýmist með félögum mínum í Flandra eða einn míns liðs, svona rétt til viðhalds. Þetta virtist virka ágætlega. Alla vega kom ég vel undan vetri, sem endurspeglaðist í persónulegum metum (hér eftir nefnd „PB“) í 5 km og hálfu maraþoni seint í apríl. Í maí féll svo persónulega metið í 10 km (41:00 mín) sem hafði staðið sem fastast í 18 ár. Ég hlaut sem sagt að vera á réttri leið, alla vega að einhverju leyti.

Fyrirfram hafði ég gert ráð fyrir því að hlaupa þrjú maraþon á þessu ári eins og í fyrra. Það finnst mér ekkert tiltökumál, enda reyni ég yfirleitt að vera í nógu góðu standi til að geta skellt mér í svoleiðis hlaup með tveggja eða þriggja vikna fyrirvara. Ætlunin var sem sagt að taka Mývatnsmaraþonið í byrjun júní, Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og svo München í október. Eftir hálfa vormaraþonið í lok apríl, þar sem ég náði sem sagt mínum besta tíma frá upphafi (1:29:25 klst.), hitti ég jafnaldra minn Sigurð P., sem státar af meiri reynslu á þessu sviði en flestir aðrir, enda handhafi Íslandsmetsins í maraþoni í áratugi. Honum leist miðlungi vel á hugmyndina um að hlaupa maraþon bæði í ágúst og október. Ef ég liti á októberhlaupið sem aðalhlaup ársins væri skynsamlegra að taka hálft maraþon á góðum tíma í Reykjavíkurmaraþoninu. Ef ég gæti klárað það dæmi undir 1:28 klst. yrði ég í miklu betri málum fyrir München en ef ég myndi hlaupa heilt maraþon með tilheyrandi bakslagi í æfingum dagana eða vikurnar þar á eftir. Ég setti þessa ábendingu bak við eyrað og sannfærðist smám saman um að þetta væri rétta leiðin. Ég vissi vel að ég gæti hlaupið tvö maraþon með nokkurra vikna millibili, enda hef ég gert svoleiðis áður. En maraþon og gott maraþon er sitt hvað.

Sumarið leið með rysjóttu tíðarfari en mörgum og fjölbreyttum hlaupum og hlaupaæfingum. Mývatnsmaraþonið var reyndar eitt af mínum lakari hlaupum, en þar setti óvenjuhátt hitastig sjálfsagt strik í reikninginn. En ég var fyrstur allra í mark, sem var auðvitað mjög skemmtilegt. Annar sigur bættist í safnið í löngu Vesturgötunni í júlí, en þar var keppendahópurinn reyndar í fámennara lagi. Þessu til viðbótar hljóp ég nokkur götuhlaup og náði að bæta 10 km tímann minn enn frekar, eða niður í 40:09 mín. Þá eru ótalin 6 fjallvegahlaup, Þrístrendingur, Hamingjuhlaup um Vatnadal og sitthvað fleira skemmtilegt. Ég setti mér svo það markmið fyrir Reykjavíkurmaraþonið að hlaupa hálft maraþon á 1:27:55 klst., og þó að þar vantaði 18 sek. uppá þegar á hólminn var komið var ég sýnilega kominn í betra hlaupaform en nokkru sinni fyrr, ef frá eru talin nokkur unggæðingsleg millivegalengdahlaup á árunum upp úr 1970.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið voru 7 vikur til stefnu fram að hlaupinu í München. Allar mælingar bentu til að ég ætti vel að geta náð markmiðinu mínu þar, þ.e.a.s. að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en ég hafði best gert áður. Umrætt PB var 3:08:19 klst. frá því í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. Það eina sem ég taldi vanta voru nokkrar langar hlaupaæfingar. Hraðinn var sem sagt nógur en spurning hversu lengi ég gæti haldið honum.

Æfingar haustsins gengu svo sem ágætlega, en vinna og aðrar ástæður gerðu það að verkum að eilítið minna varð úr en stefnt var að. Ég hafði þó ekki yfir neinu að kvarta, því að yfirleitt gekk allt upp sem ég reyndi og líkamleg heilsa var eins og best gerist, engin meiðsli höfðu gert vart við sig í rúm tvö ár og í raun lék allt í lyndi. Ég náði bara ekki alveg að skapa rými fyrir þessar löngu æfingar sem ég taldi vanta í safnið. Meðalvikan átta síðustu vikurnar varð þannig ekki nema 64 km, sem þykir sjálfsagt heldur naumt í þessu samhengi.

Ferðalagið til München

Nýja ráðhúsið við Maríutorgið í München.

Nýja ráðhúsið við Maríutorgið í München.

Hið eiginlega ferðalag til München hófst í Borgarnesi að kvöldi miðvikudagsins 8. október 2014. Það kvöld ókum við hjónin suður á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll, þar sem við gistum í góðu yfirlæti nóttina fyrir brottför á Start Hosteli hjá heiðurshjúunum Ragnheiði og Binna. Þau voru að vísu fjarverandi þessa nótt, en það fór engu að síður ágætlega um okkur. Í bítið morguninn eftir var svo lagt af stað í loftið, burt frá kulda og gosmóðu, áleiðis í sól og yl suður í Bæjaralandi. Og auðvitað sá Sævar Skaptason, fararstjóri og framkvæmdastjóri Bændaferða, um að ekkert færi úrskeiðis, allt frá þeirri stundu er við komum í flugstöðina og til ferðaloka tæpri viku síðar.

Flugferðin til München gekk að flestu leyti eins og í sögu og ástæðulaust að fjölyrða meira um hana. Bæjaraland tók á móti okkur með sólskini og 20 stiga hita. Þá tilfinningu var gott að upplifa eftir heldur snautlegt sumar suðvestanlands, a.m.k. í sólskinsstundum talið. Og fyrr en varði var hópurinn allur kominn heilu og höldnu inn á hótel Ibis við lengstu götuna í München, (Dachauer Strasse, 11,2 km. (Ath.: Þetta eru náttúrulega gagnslausar upplýsingar, enda er þeim eingöngu ætlað að krydda frásögnina)). Og þetta var enginn smáhópur. Eitthvað um 50 manns höfðu þegið boð Bændaferða um að skipuleggja þessa maraþonferð og þar af voru hvorki meira né minna en 7 á vegum hlaupahópsins Flandra.

Dagarnir fram að hlaupi
Við komum til München síðdegis á fimmtudegi og hlaupið var ekki fyrr en á sunnudag. Því gafst góður tími til að hrista úr sér flugþreytuna og hverja þá þreytu aðra sem ef til vill hafði fylgt með í farangrinum að heiman. Tíminn var notaður til að skoða sig um í miðborginni, en þangað var um stundarfjórðungsgangur frá hótelinu. Við hjónin röltum um með félögum okkar úr Borgarnesi, horfðum á klukknaspilið framan á turninum á „nýja ráðhúsinu“, leituðum uppi nokkrar skóbúðir, litum inn í gamlar kirkjur og gerðum þokkalega við okkur í mat og drykk. Föstudagurinn hófst með mjúku morgunskokki í blíðunni og svo var tekinn sporvagn á maraþonsýninguna í einni af byggingunum frá Ólympíuleikunum 1972. Þar voru hlaupanúmerin afhent og gengið frá öllum lausum endum fyrir hlaupið, ef einhverjir voru, auk þess sem fjölmörg fyrirtæki kynntu vöru sína og þjónustu og skiptu á varningi og fáeinum evrum við þá sem áhuga höfðu. Á laugardeginum hélt Sævar fararstjóri fund með öllum hópnum og gaf nokkur góð ráð sem ég veit að nýttust mörgum, þar á meðal ráðið um að eyða ekki alltof mikilli orku á fyrstu metrum hlaupsins í að troðast fram fyrir aðra sem höfðu af einhverjum ástæðum staðsett sig helst til framarlega miðað við getu.

Beðið eftir grænu ljósi í mjúku morgunskokki í München.

Beðið eftir grænu ljósi á mjúku morgunskokki í München.

Allt tilbúið kvöldið fyrir hlaup.

Allt tilbúið kvöldið fyrir hlaup.

Að morgni hlaupadags
Sunnudagurinn 12. október rann upp bjartur og fagur. Að vísu er þessi staðhæfing ekki alveg sönn ef fyllstu nákvæmni er gætt, því að snemma um morguninn lá svolítil þoka yfir München og hitastigið var ekki nema rétt um 10°C. Þeir sem voru skráðir í heilt maraþon söfnuðust saman í anddyri hótelsins um 8-leytið, og á slaginu 8:07 var lagt af stað með sporvagninum áleiðis á Ólympíuleikvanginn þar sem hlaupið átti að hefjast kl. 10:00 og ljúka tiltölulega skömmu síðar. Við Gunnar Viðar héldum uppi merki Flandra og Borgarfjarðar í þessum hópi. Þrjú hinna stefndu á hálfa maraþonið sem átti að hefjast 4 klst. síðar og lífsförunautarnir Björk og Kristín hugðust taka sporvagn að endamarkinu í tæka tíð til að taka á móti okkur. Þetta síðastnefnda er reyndar ekki auðvelt verk í hlaupum eins og þessum þar sem maður er ókunnugur marksvæðinu og þar sem erfitt getur reynst að finna hvert annað í mannmergðinni.

Við vorum komin á leikvanginn upp úr kl. 8:30. Mér finnst afar þægilegt að vera mættur svona tímanlega. Þegar maður er á annað borð kominn á staðinn er erfitt að finna sér nokkuð til að hafa áhyggjur af. Og tíminn leið líka hratt við spjall og vangaveltur um áform dagsins. Sólin var farin að gægjast fram og hitastigið hækkaði jafnt og þétt. Kannski var hægt að búa sér til svolitlar áhyggjur af því að hitinn yrði til trafala þegar á liði hlaupið, en áhyggjur eru reyndar síst til þess fallnar að bæta árangur og upplifun í lífinu.

Um hálftíma fyrir hlaup lögðum við af stað gangandi að rásmarkinu sem var á að giska 2 km sunnan við Ólympíuleikvanginn. Þeir sem vildu voru þá búnir að skila af sér yfirhöfnum og öðrum varningi í þar til gerðum pokum í geymslu undir stúku vallarins. Ég ákvað að skilja símann minn eftir í slíkum poka til að auðveldara yrði að ná sambandi við Björk og Kristínu að hlaupi loknu.

Við rásmarkið stilltu hlauparar sér upp í þremur aðskildum hólfum eftir líklegum lokatíma. Við Gunnar fylgdumst að fram í fremsta hólfið, sem ætlað var þeim sem töldu sig geta lokið hlaupinu á skemmri tíma en 3:30 klst. Aftarlega í því hólfi skildu leiðir og ég slóst í för með Gísla Einari Árnasyni fram eftir hólfinu þar sem við stilltum okkur upp á að giska 20 metrum aftan við ráslínuna. Áform beggja voru svipuð, þ.e. að hlaupa af stað á 4:20 mín/km og sjá svo til hvað yrði í framhaldinu.

Fyrstu 5 kílómetrarnir
Hlaupið var ræst með látum stundvíslega kl. 10:00. Ég fylgdi straumnum til að byrja með og Gísli var skrefi á undan til að byrja með. Fljótlega greiddist úr hópnum og þar með var hlaupið hafið fyrir alvöru. Gísli seig fram úr og hvarf mér smám saman sjónum en ég hafði það samt á tilfinningunni að upphafið væri nokkurn veginn eins og ég hafði ætlað. Reyndar var erfitt að átta sig á hraðanum því að Garminúrið sló úr og í, ef svo má að orði komast, sýndi stundum 3:30 mín/km og stundum 4:50. Ég vissi að hvorugt var rétt, enda var Sævar búinn að vara okkur við því að gervihnattasambandið gæti verið óstöðugt inni í borginni, inni á milli húsa og inni á milli trjáa.

Ég sá fá kunnugleg andlit á fyrstu kílómetrunum, enda varla við því að búast. Þarna voru jú 6 eða 7 þúsund manns að hlaupa og flestir Íslendingarnir höfðu hógværari markmið en ég í mínútum talið. Auk Gísla vissi ég af Óskari Jakobssyni einhvers staðar á undan mér og svo hitti ég Geir Jóhannsson rétt sem snöggvast stuttu eftir að hlaupið hófst.

Snúið á punktinum á Ludvigstraße eftir 4 km. (Ljósm. Marathon Photos).

Snúið á punktinum á Ludvigstraße eftir 4 km. (Ljósm. Marathon Photos).

Fyrstu 5 kílómetrarnir áttu að taka 21:40 mín. ef ég héldi mig við 4:20 mín/km. Þegar þangað var komið sýndi klukkan 21:46 mín sem var algjörlega innan skekkjumarka og reyndar hraðasti 5 km kaflinn minn í maraþonhlaupi til þessa. Mér fannst samt einhvern veginn að ég hefði átt að vera enn fljótari miðað við það hvernig ég skynjaði álagið í líkamanum. En maður dregur engar ályktanir á þessum stað í maraþonhlaupi. Úrslitin ráðast löngu síðar. Kannski var hraðinn jafnvel óþarflega mikill.

5-10 km
Eins og ég hef lýst einhvern tímann áður, skipti ég maraþonhlaupum yfirleitt upp í 5 km kafla. Slík skipting léttir álagi af huganum og gefur líka færi á ýmsum skemmtilegum útreikningum til að glíma við á leiðinni. Ég sá fljótt að þessi 5 km kafli sóttist mér heldur betur en sá fyrsti. Ég ákvað reyndar að taka ekkert mark á kílómetratalningunni í hlaupaúrinu, því að stopult gsm-samband getur spillt mælingunni. En klukkan heldur sínu striki og eins var hver kílómetri greinilega merktur með skiltum við hlaupaleiðina. Ég gerði mér það til dundurs að reikna út eftir hvern kílómetra hversu langt ég væri frá markmiðinu um 4:20 mín/km. Sekúndurnar sex sem upp á vantaði eftir 5 km voru fljótar að skila sér til baka og fyrr en varði var ég kominn nokkrar sekúndur í plús. Það var svo sem hvorki skynsamlegt né nauðsynlegt, enda samsvara 4:20 mín/km lokatíma upp á 3:03 klst. eða þar um bil. Slíkan tíma lét ég mig ekki dreyma um, enda var markmiðið að hlaupa á 3:08:18 klst. eins og fyrr segir. Reyndar taldi ég mig geta hlaupið á 3:06:30 á góðum degi, en þá þarf maður að afgreiða hvern km á 4:25 mín. að meðaltali. Geymdi þá tölu á bak við eyrað.

Hlaupaleiðin í München er tiltölulega flöt og víðast hvar slétt malbik undir fótum. Léttari brautir eru til, en þetta var samt með því betra. Og veðrið lék við okkur enn sem komið var. Sólin var reyndar farin að skína býsna ákveðið, en lengst af gat maður hlaupið í skuggum trjáa eða húsa og fann þá ekki mikið fyrir hitanum.

Hver kílómetrinn af öðrum leið hjá á 4:20 mín eða tæplega það. Reyndar fannst mér óvenju stutt á milli kílómetramerkinga, sem þýddi náttúrulega bara að mér leið vel og að hraðinn var þokkalegur. Eftir um 7,5 km kom ég að drykkjarstöð þar sem ætlunin var að sporðrenna fyrsta orkugelinu. Slíka fæðu gleypi ég jafnan í mig í maraþonhlaupum á 5-7 km fresti og drekk svo sem 150 ml. af vatni með. Á þessari stöð ætlaði ég líka að taka inn eitt steinefnahylki, en það reyndi ég fyrst í Vesturgötunni í sumar með góðum árangri. Steinefnin eiga að draga úr líkum á krömpum á síðustu kílómetrunum, en ég hef nokkuð oft lent í þess háttar hremmingum. Nú vildi hins vegar ekki betur til en svo að ég missti tvö hylki í götuna og varð því að breyta steinefnaáætluninni dálítið til að láta lagerinn duga alla leið. Hvort þetta óhapp hafði áhrif á lokaniðurstöðuna skal ósagt látið. Held samt varla.

Eftir 10 km sýndi klukkan 43:05 mín. Að baki var langhraðasti 10 km kaflinn minn í maraþonhlaupi frá upphafi og reyndar líka hröðustu 5 km (21:19 mín). Meðaltíminn á hvern km hafði verið um 4:18 mín. þegar þarna var komið sögu og ég kominn 15 sek. í plús miðað við 4:20 áætlunina. Þessi hraði var rétt yfir skynsemismörkum, þannig að ég ákvað að reyna heldur að halda aftur af mér á næsta kafla.

10-15 km
Líðanin var áfram góð á næsta 5 km kafla og sekúnduinnistæðan breyttist frekar lítið. Fátt minnisvert bar til tíðinda, nema hvað þarna lá leiðinn í gegnum Enska garðinn og þegar ég kom að 15 km markinu sýndi klukkan 1:04:57 klst. Síðustu 5 km hafði ég lagt að baki á 21:52 og enn átti ég 3 sek. til góða miðað við 4:20 áætlunina.

15-20 km
Þetta gekk eiginlega allt eins og í sögu, en ég vissi svo sem alveg að seinni hlutinn yrði erfiðari, bæði vegna þess að seinni hlutinn er alltaf erfiðari og vegna þess að ég taldi mig vanta fleiri langar æfingar, eins og áður var getið. Á þessum kafla átti ég von að sjá Evu Skarpaas og manninn hennar hann Þórólf á hliðarlínunni. Eva var að fara að hlaupa hálft maraþon og hafði sagst myndi verða einhvers staðar ekki alllangt frá rásmarki þess hlaups, nánar tiltekið nálægt 17 km markinu í maraþonhlaupinu. Þarna var ég kannski aðeins farinn að þreytast og þá er gott að eiga eitthvert tilhlökkunarefni í pokahorninu. Það þarf heldur ekki neina stórviðburði til að lífga upp á tilveruna á hlaupum. Þetta gekk eftir. Allt í einu kom ég auga á Evu með myndavélina á lofti og handfylli af brosi og hvatningarorðum. Nokkru seinna hljóp ég fram hjá Þórólfi og sagan endurtók sig. Næstu skref voru hálfu léttari fyrir bragðið.

17 km búnir og Eva mætt með myndavélina. (Ljósm. Eva Skarpaas).

17 km búnir og Eva mætt með myndavélina. (Ljósm. Eva Skarpaas).

Þegar hér var komið sögu var fyrrnefndur sekúnduforði á þrotum og mínussekúndur farnar að safnast upp hægt og bítandi. Það skipti mig þó engu máli enda mátti ég tapa 5 sekúndum á hverjum kílómetra hlaupsins miðað við 4:20 áætlunina, án þess að meðaltíminn á km færi niður fyrir 4:25 mín. Enn væri þá draumurinn um 3:06:30 innan seilingar og bæting vissulega í kortunum þótt þetta gengi ekki eftir.

Eftir 20 km var millitíminn 1:27:17 klst., síðustu 5 km á 22:20 mín. og síðustu 10 km á 44:12 mín. Þar með var ég allt í einu kominn 37 sek. í mínus miðað við margumræddar 4:20 mín, en svo sem enn í góðum málum miðað við 4:25.

20-25 km
Hálfmaraþonmarkið er alltaf tilhlökkunarefni í maraþonhlaupum, því að þar gefst nýtt tækifæri til uppbyggjandi útreikninga. Í þessu tilviki gat ég líka hlakkað til að sjá eitthvað af hálfmaraþonhlaupurunum, sem voru sjálfsagt mættir á svæðið þótt enn væru meira en 2 klst. í að hlaupið þeirra yrði ræst. Ég kom reyndar ekki auga á marga sem ég kannaðist við, en Gunnar Atli var þó alla vega þarna á kantinum að hvetja samferðamennina. Hálfmaraþontíminn var 1:32:21 klst., sem var meira en 2 mín. betri tími en ég hafði áður náð í maraþonhlaupi. Samkvæmt því mátti halda að auðvelt yrði að bæta PB-ið, en ég bæði vissi og fann að það væri alveg á mörkunum. Reynslan sagði mér að seinni helmingurinn gæti sem best tekið um 3 mín. lengri tími en sá fyrri. Þar með væri lokatíminn kominn í 3:08 klst., sem þýddi að ekkert mátti út af bera til að markmiðið næðist. Í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra var ég reyndar talsvert fljótari með seinni helminginn en þann fyrri, hljóp á „negatívu splitti“ sem sagt, en svoleiðis gerist bara á hátíðis- og tyllidögum. Nú voru líkurnar á slíku nær engar að teknu tilliti til æfinga undanfarinna mánuða og þess hvernig hlaupið hafði þróast.

Áfram hélt ég að tapa sekúndum, enda þreytan aðeins farin að segja til sín. Mér fannst líka óþarflega heitt þar sem sólin náði að skína óhindrað. Held samt að hitastigið hafi ekki verið komið nema í 16°C þegar þarna var komið sögu. Millitíminn eftir 25 km var 1:49:37 klst., sem var eftir á að hyggja næstum 3 mín. betri tími en í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. En ég mundi það ekki svo glöggt þarna á götunni í München. Hitt vissi ég að ég var kominn 1:17 mín í mínus miðað við 4:20 og hraðinn fór minnkandi ef eitthvað var. Auðvitað hefði ég getað bætt eitthvað í til skamms tíma, en í maraþonhlaupi er slíkt varla í boði fyrr en þá í blálokin. Best er að halda svipuðu álagi í gegnum allt hlaupið og það taldi ég mig einmitt hafa gert.

25-30 km
Mér finnst 30 km markið einkar mikilvægur áfangi í maraþonhlaupi. Sumir segja að þar byrji hlaupið fyrir alvöru og ég get svo sem alveg tekið undir það. En hvað sem því líður þykist ég yfirleitt viss um að geta klárað það sem eftir er af hlaupinu á 1 klst. hvernig sem allt velkist, jafnvel þótt einhverjir krampar geri vart við sig. En maður á svo sem ekkert víst í þessum efnum. Alla vega var millitíminn þarna 2:12:10 klst., sem ég vissi að var um 2 mín. betra en í fyrra. Meðalhraðinn frá upphafi samsvaraði 4:24 mín/km og síðustu 5 km höfðu verið á 22:33 mín (4:31 mín/km). Lokatíminn í hlaupinu gat varla orðið verri en 3:12 klst., sem var náttúrulega vel ásættanlegt og PB-ið var svo sem enn raunhæfur möguleiki.

30-35 km
Rétt eftir 30 km markið hljóp ég inn í gamla miðbæinn þar sem við höfðum verið á röltinu dagana á undan. Það var gaman, sérstaklega að koma inn á Maríutorgið þar sem nýja ráðhúsið með klukkuspilinu blasti við. Þarna var líka fullt af fólki meðfram brautinni að hvetja hlauparana.

Ég fann að nú var farið að hægjast svolítið á mér en ég lét það ekki angra mig neitt sérstaklega. Einbeitti mér þess í stað að því að halda sem jöfnustu álagi. Eftir u.þ.b. 32,5 km lá leiðin inn á háskólasvæðið þar sem tekin var 4 km slaufa, að hluta til fram og til baka eftir sömu götunni. Þetta var bæði dálítið leiðinlegt og dálítið skemmtilegt, kannski aðallega skemmtilegt því að þarna mætti maður fyrst þeim sem voru talsvert fljótari í förum en maður sjálfur og síðan þeim sem voru ívíð seinni. Í þeim hópi var Gunnar Viðar. Hann leit vel út en ég gat ekki reiknað út hversu langt hann var kominn í hlaupinu. Í þessari slaufu hljóp ég líka fram úr Gísla, líklega á 34. kílómetranum. Honum hafði gengið ágætlega framan af hlaupinu en þarna sagðist hann vera „alveg búinn á því“. Seinni parturinn í maraþoni leikur marga grátt. Sjálfur var ég orðinn býsna þreyttur og farinn að hlakka mikið til að ljúka hlaupinu. En mér leið nú samt bara ágætlega.

Ég held að þessi mynd sé tekin á háskólasvæðinu. Maðurinn í græna bolnum var lengi rétt á undan mér. Ég á einmitt líka svona bol. Hann er úr Parísarmaraþoninu í fyrra. (Ljósm. Marathon Photos).

Ég held að þessi mynd sé tekin á háskólasvæðinu. Maðurinn í græna bolnum var lengi rétt á undan mér. Ég á einmitt líka svona bol. Hann er úr Parísarmaraþoninu í fyrra. (Ljósm. Marathon Photos).

Eftir 35 km sýndi klukkan 2:34:59 mín. Ég mundi ekki 35 km tímann frá „methlaupinu“ mínu í fyrra, en eftir á að hyggja var ég enn 2 mín á undan þeirri áætlun. Síðustu 5 km höfðu verið á 22:49 mín (4:34 mín/km). Vissulega var farið að hægjast á mér, en þetta var alls ekkert hrun og möguleikinn á bætingu enn til staðar. Ég hugsaði með mér að ég gæti hreinlega ekki þurft meira en 36 mín. til að klára hlaupið. Þá yrði lokatíminn 3:11. Ákvað að það væri versta mögulega niðurstaða og að líklega yrði ég alla vega undir 3:10.

35-37 km
Ég hef svolítið dálæti á 37 km markinu í maraþonhlaupi, af því að þá eru bara 5 km eftir. Millitíminn þarna var 2:44:18 klst., sem mig minnti að væri alla vega um mínútu betri tími en í fyrra. Það var rétt munað, ég var enn með 1:14 mín í plús miðað við „methlaupið“. Það gat varla verið mikið mál að ljúka þessum 5,2 km sem eftir voru á 26 mín. Ég myndi þá enda á rúmlega 3:10 hvernig sem allt slægist. Það var bara fínt.

37-40 km
Kílómetramerkin liðu enn furðu fljótt hjá. Ég tók ekki mikið eftir umhverfinu, en sums staðar var fólk meðfram brautinni og jafnvel ein og ein trommusveit. Mig minnti að tíminn minn eftir 40 km í fyrra hefði verið rúmlega 2:58 klst. Núna reyndist hann vera 2:58:21 klst. Síðust 5 km höfðu liðið á 23:22 mín (4:40 mín/km) og síðustu 10 á 46:11. Ég dró þá ályktun að til þess að bæta mig þyrfti ég að hlaupa síðasta spölinn a.m.k. jafnhratt og í fyrra. Taldi það ólíklegt eða næstum ómögulegt, því að þá var einhver óskiljanlegur léttleiki með í för sem ég fann ekki núna. Eftirá sá ég reyndar að þarna var ég enn með 34 sek. í plús. Þá tölu hefði verið gott að hafa í kollinum síðasta spölinn. Málið snýst nefnilega býsna mikið um að telja hausnum trú um að það sé vel þess virði að erfiða svolítið í stað þess að slaka á og sætta sig við orðinn hlut.

40-42,2 km
Það er ótrúlega gaman að eiga bara stuttan spöl eftir, en þessi stutti spölur getur oft reynst lengri en maður ætlar. Rétt eftir 40 km markið fékk ég smávegis krampa aftan í vinstra lærið, eitthvað sem ég hafði hreinlega ekki búist við. Þetta sló mig dálítið út af laginu, bæði andlega og líkamlega. Alla vega neyddist ég til að labba nokkur skref og eftir að krampar hafa gert vart við sig getur maður varla leyft sér miklar rósir. Hraðabreytingar eru til dæmis varasamar. Þarna fannst mér möguleikinn á bætingu gufa upp, en ég var samt bara nokkuð sáttur. Hvernig sem allt veltist myndi þetta verða næstbesta maraþonið mitt frá upphafi og lokatíminn varla langt frá 3:09 klst. Það er bara vanþakklæti að vera óánægður með það.

Ég á Excel-skjal í fórum mínum þar sem ég held m.a. utan um tímana á síðustu 2,2 kílómetrunum í öllum mínum maraþonhlaupum. Ég veit að bestu tímarnir liggja nálægt 10 mínútum, en smáatriðin mundi ég ekki þarna á götunni í München. Hvað sem því leið ákvað ég að njóta síðustu stundarinnar til hins ýtrasta. Framundan voru undirgöngin inn á Ólympíuleikvanginn og tilhlökkunin að hlaupa þar inn hafði glatt hugann allan daginn.

Hlaupið inn á Ólympíuleikvanginn í einlægri gleði og diskóljósum., (Ljósm. Marathon Photos).

Hlaupið inn á Ólympíuleikvanginn í einlægri gleði og diskóljósum., (Ljósm. Marathon Photos).

Og allt í einu var stundin runnin upp. Völlurinn opnaðist í allri sinni dýrð með háværri tónlist og fagnaðarópum. Síðustu 300 metrarnir liðu eins og í draumi og ég átti nóga orku eftir í góðan endasprett. Hræðslan við að krampinn tæki sig upp var gleymd og tilfinningin í fótunum bara eins og á góðri sprettæfingu hjá Flandra á mánudegi, enda var ég ekki nema rétt um eina mínútu að skeiða síðustu 300 metrana. Veifaði auðvitað svolítið til áhorfenda og svona, enda þess fullviss að þeir væru allir að fagna mér. Vissi að Björk sæti þarna einhvers staðar uppi í stúkunni, en mannfjöldinn og hávaðinn var miklu meiri en svo að ég kæmi auga á hana eða heyrði hvatningarhrópin. En það var svo sem aukaatriði. Aðalatriðið var að vita af henni þarna.

Kominn inn á völlinn. Um 250 m eftir í mark. Gaman hjá mér. (Ljósm. Marathon Photos).

Kominn inn á völlinn. Um 250 m eftir í mark. Gaman hjá mér. (Ljósm. Marathon Photos).

Horft yfir Ólympíuleikvanginn þar sem hlauparar hvíldu sig á (gervi)grasinu. Eitt skref eftir inn á beinu rauðu brautina. (Ljósm. Björk Jóhannsd).

Horft yfir Ólympíuleikvanginn þar sem hlauparar hvíldu sig á (gervi)grasinu. Eitt skref eftir inn á beinu rauðu brautina. (Ljósm. Björk Jóhannsd.).

Síðustu metrarnir! (Ljósm. Marathon Photos).

Síðustu metrarnir! (Ljósm. Marathon Photos).

Þegar ég kom inn á beinu brautina sá ég á markklukkunni að bæting var ekki lengur í spilunum. En þetta var samt ótrúlega gaman, algjör sigurstund barasta. Kom í markið á 3:08:30 mín, þ.e. ekki nema 11 sek frá besta tímanum mínum. Síðustu 2,2 kílómetrarnir höfðu sem sagt verið 45 sek. hægari en í fyrra, en hverjum var ekki sama. Hlaupið var búið og mér leið vel, bæði í sál og líkama.

Á Ólympíuleikvanginum
Inni á Ólympíuleikvanginum var allt fullt af hlaupurum sem ráfuðum um gervigrasið, misvel á sig komnir, að ógleymdu öllu starfsliðinu sem var boðið og búið að rétta manni hjálparhönd. Veitingaborðin biðu í röðum með vatni, léttöli, saltkringlum, ávöxtum og kökum og veðrið var eins og á besta sumardegi heima á Íslandi. Fljótlega rakst ég á Óskar Jakobsson, sem var nýkominn í mark, fyrstur Íslendinga. Hann hafði lent í erfiðleikum í síðari hluta hlaupsins rétt eins og Gísli sem kom til okkar nokkrum mínútum síðar. Líklega var hitastigið orðið aðeins of hátt fyrir Íslendingana, enda stóð mælirinn í 18-20 gráðum.

Við Óskar og Gísli komum okkur vel fyrir á gervigrasinu og smátt og smátt tíndust fleiri Íslendingar inn á blettinn sem við höfðum helgað okkur. Fæstir höfðu náð markmiðum sínum í hitanum, en á því voru þó einstaka undantekningar. Gunnar Viðar skilaði sér áður en langt um leið. Hann bætti sig um 12 mínútur og kláraði hlaupið á 3:35:33 klst. Hafði reyndar stefnt á enn meiri bætingu, en árangurinn var samt framúrskarandi miðað við aðstæður allar.

Ég vissi það ekki þá en ég veit það núna að ég endaði í 381. sæti af 4.950 körlum sem tóku þátt í hlaupinu, en í 407. sæti af 6.227 ef konurnar eru taldar með. Í flokki 55-59 ára karla var ég í 9. sæti af 324.

Endurfundir!

Endurfundir! (Ljósm. Kristín Ólafsd.).

Eftir hlaupið
Eftir að hafa notið samvistanna við hina Íslendingana á vellinum, góða veðursins og veitinganna, röltum við Gunnar af stað yfir brúna neðan af gervigrasinu út fyrir áhorfendapallana. Næsta verkefni var að finna fatapokann minn og símann sem þar var geymdur. Það gekk vel og skömmu síðar vorum við búnir að hafa upp á Björk og Kristínu sem biðu okkar á grasbala þarna rétt fyrir utan. Þar urðu fagnaðarfundir, enda ekkert sjálfsagt að maður njóti þeirra forréttinda að manns nánustu geti fylgt manni í hlaup og stutt mann á alla lund. Og þá var ekkert annað eftir en að rölta út á sporvagnastöðina og koma sér niður á hótel í sturtu og almenna slökun.

Ferðalok
Münchenferðinni lauk ekki í markinu á Ólympíuleikvanginum. Um kvöldið safnaðist hópurinn sem var þarna á vegum Bændaferða saman á veitingastað eigi alllangt frá hótelinu til að fagna góðum árangri og snæða góðan mat. Mánudagurinn var svo notaður í borgarrölt og slökun og á þriðjudagsmorgni var haldið heim á leið. Að baki var einstaklega vel heppnuð ferð. Auðvitað voru hlaupararnir eitthvað missáttir við eigin árangur eins og gengur, en allir voru þó örugglega sáttir við framkvæmdina, bæði á hlaupinu sjálfu sem var í afar styrkum höndum Þjóðverjanna og ekki síður á ferðalaginu í heild. Þar fá Bændaferðir og Sævar fararstjóri hæstu einkunn sem völ er á. Það er talsvert auðveldara að fara í svona ferð og þurfa ekki að hugsa um neitt annað en að hlaupa, heldur en að þurfa líka að vasast í að leysa öll þau mál sem upp kunna að koma og fást við öll þau óvæntu atvik sem geta angrað mann á ferðalögum um ókunnar slóðir. Sævar létti þessu öllu af okkur hinum í þessu ferðalagi.

Ketilbjalla og þolinmæði
Ég náði ekki takmarkinu mínu í þessu hlaupi, en 12 sekúndna frávik er minna en svo að það spilli gleðinni. Auðvitað getur maður alltaf valið hvort glasið sé hálffullt eða hálftómt. Mitt glas var augljóslega hálffullt, eða kannski meira. Þessar 12 sekúndur voru alla vega ekki nema 0,1% af heildartímanum í maraþoninu. Þetta gekk með öðrum orðum eins og í sögu. Og þá er eðlilegt að spurt sé hver hafi verið lykillinn að velgengninni. Vissulega vantaði mig nokkrar langar æfingar í undirbúninginn, en á móti komu ketilbjölluæfingarnar sem eflaust skiluðu sínu þrátt fyrir allan sinn einfaldleika. Og ætli þolinmæðin eigi ekki líka sinn stóra þátt í þessu. Mér liggur nefnilega ekkert á. Fyrst ég bætti mig ekki í þessu hlaupi, þá geri ég það bara seinna. Ég hef nógan tíma. Í langhlaupum er hvergi hægt að stytta sér leið, hvorki á brautinni sjálfri né í undirbúningsferlinu. Óþolinmæði kallar á meiðsli og þá frestast gamanið enn um sinn. Meira er ekki alltaf betra.

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.