• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • ágúst 2010
    S M F V F F S
    1234567
    891011121314
    15161718192021
    22232425262728
    293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Maraþon á laugardaginn

Í morgun lét ég verða af því að skrá mig í maraþonið nk. laugardag. Hef verið mjög á báðum áttum vegna smávægilegra meiðsla sem hafa verið að angra mig síðustu vikur, og eru enn til staðar, en svo stóðst ég ekki mátið. Þetta er einfaldlega of skemmtilegt til að sleppa því.

Ha, er þetta gott!?
Sumum kann að finnast það hljóma undarlega að maraþonhlaup geti verið skemmtilegt fyrir þá sem taka þátt í því. En sú er einmitt raunin. Auðvitað upplifir maður nokkur erfið augnablik í svona hlaupi, en erfiðu augnablikin í lífinu eru jú einmitt forsenda þess að maður geti virkilega notið allra hinna augnablikanna. Eða eins og mamma heitin sagði þegar ég spurði hana hvers vegna veðrið væru stundum svona vont: „Það er til þess að við kunnum að meta góða veðrið“.

Árshátíð og feðgasport
Eitt af því skemmtilega við Reykjavíkurmaraþonið er, að þetta er í raun hálfgerð árshátíð hlaupara. Þarna hittir maður fullt af fólki sem maður hittir annars sjaldan, og stemmingin öll er til þess fallin að létta lundina og auka þar með lífsgæðin. Í mínu tilviki eykur það enn á gleðina að Þorkell frumburður ætlar einmitt að hlaupa sitt fyrsta maraþonhlaup á laugardaginn, þó að vegalengdin sé rúmlega 100 sinnum lengri en sú sem hann hefur einbeitt sér að síðasta árið. Ég mæli hiklaust með maraþonhlaupum sem skemmtilegu viðfangsefni fyrir feðga!

SMART markmið
Maraþonhlaup og undirbúningur þess er æfing í að setja sér markmið og ná því. Það er skemmtilegt! Þetta kallar auðvitað á að maður setji sér markmið við hæfi, þ.e.a.s. SMART markmið (sértækt, mælanlegt, aðgengilegt, raunhæft (en samt krefjandi) og tímasett). Á löngum ferli mínum sem hlaupara hef ég náð þokkalegri færni í þessari iðju, þ.e. að stilla væntingum svo í hóf að ég geti glaðst að leikslokum. Væntingarnar verða samt að vera til staðar, því að annars hefur maður ekkert til að sigrast á.

Markmið laugardagsins
Væntingar mínar fyrir hlaupið nk. laugardag eru hófsamar, enda hef ég engan veginn getað undirbúið þetta sem skyldi vegna fyrrnefndra meiðsla. Hófsamast væri sjálfsagt að sleppa þessu, en því tími ég sem sagt ekki. Aðalmarkmiðið er náttúrulega að ljúka hlaupinu, en vera engu að síður tilbúinn til að hverfa frá ef líkaminn biðst vægðar. Helst vil ég ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 3:36 klst., en allt undir 3:30 mun ég flokka sem stórsigur.

Fyrri afrek (til samanburðar)
Svona til að setja þessar tölur í samhengi, þá verður þetta 7. maraþonhlaupið mitt. Það fyrsta þreytti ég fyrir nákvæmlega 14 árum, þ.e.a.s. 18. ágúst 1996. Þá hljóp ég á 3:36 klst, og það var langerfiðasta hlaupið hingað til. Jafnframt var það líklega stærsti sigurinn, því að mig hafði dreymt um það frá unga aldri að hlaupa maraþonhlaup einu sinni „einhvern tímann áður dey“. Þarna náðist sem sagt það markmið. Eftir þetta lét ég lengi kyrrt liggja, enda búinn að afgreiða málið eins og að var stefnt. Árið 2007 fór ég þó aftur af stað, enda orðinn fimmtugur og búinn að ákveða að hlaupa Laugaveginn þá um sumarið. Og það er snúið að hlaupa Laugaveginn ef maður ræður ekki við maraþonvegalengdina. Þess vegna tók ég Mývatnsmaraþonið þá um vorið í norðan kulda, sem æfingu fyrir Laugaveginn. Þetta tók 3:55 klst, sem dugði alveg fyrir markmið þess dags. Í ágúst hljóp ég svo aftur, í það skiptið á 3:43. Þá var markmiðið að ljúka hlaupinu á 3:45 klst, en í bloggfærslu að hlaupi loknu viðurkenndi ég að ég setti mér „yfirleitt markmið sem ég er nokkurn veginn viss um að geta náð, því að ég er nefnilega frekar tapsár og get aldrei alveg skilið keppnismanninn eftir heima“. Í mars 2008 brá ég mér svo til Rómar með fríðu föruneyti og hljóp maraþon á ógleymanlegri braut á 3:33 klst. Sá árangur kom mér satt að segja býsna mikið á óvart. Í fyrra gerðust síðan enn óvæntari atburðir, þegar ég hljóp fyrst á 3:26 á Akureyri í júlí og síðan á 3:17 í Reykjavík í ágúst.

Styrkið FSMA!
Eins og margir vita gefst þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoninu kostur á að skrá sig á www.hlaupastyrkur.is og safna áheitum til styrktar góðum málefnum. Ég geri mér svo sem ekki miklar vonir um framlag mitt á því sviði, þar sem ég skráði mig jú ekki fyrr en í morgun. Samt bið ég lesendur þessarar bloggfærslu að kíkja endilega inn á umrædda síðu, finna nafnið mitt og láta svolitla upphæð af hendi rakna. Það sem safnast af mínum völdum rennur til FSMA, sem er Félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum á Íslandi. Þeir sem kannast ekki við félagið eða sjúkdóminn geta fræðst um málið á hlaupastyrkssíðunni – og séð hvers vegna ég valdi einmitt þessi samtök. Svo er hægt að fræðast enn meira á heimasíðu FSMA og jafnvel í bloggfærslu sem ég skrifaði í mars 2008 í tengslum við Rómarmaraþonið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: