• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • júní 2023
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  252627282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Þjóðaratkvæðagreiðslur – upprifjun

Síðustu daga hefur mönnum orðið tíðrætt um 26. grein stjórnarskrárinnar, þar sem fjallað er um heimild forseta Íslands til að synja lagafrumvarpi staðfestingar. Mér finnst gott að þessi grein sé rædd, því að ég tel brýnt að henni verði breytt í þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar sem hefst vonandi bráðum. Hins vegar finnst mér vont að menn finni hjá sér skyndilega þörf til að breyta henni einmitt núna, af því að þeim líkar ekki hvernig forsetinn beitti henni sl. sunnudag.

Hér á eftir ætla ég að rifja upp skrif mín um 26. greinina í aðdraganda kosninga til Stjórnlagaþings, bara svona til að stytta mönnum leiðina í umræðunni. 🙂 Viðfangsefnið er nefnilega ekki nýtt, og það eru til nægar fyrirmyndir að breyttri tilhögun.

Ég tel mikilvægt að fólkið í landinu geti haft meiri áhrif á ákvarðanir stjórnvalda en gert er ráð fyrir í núverandi stjórnkerfi, m.a. með því að tiltekinn hluti kjósenda og tiltekinn fjöldi Alþingismanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Útfærslan á þessu getur verið með ýmsu móti, en eftir að hafa skoðað stjórnarskrár nágrannalandanna hallast ég helst að eftirfarandi fyrirkomulagi:

 1. Minnihluti Alþingis (t.d. þriðjungur þingmanna) geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög.
 2. Tiltekinn hluti kjósenda (10% eða e.t.v. meira) geti gert slíkt hið sama.
 3. Forseti Íslands hafi ekki málskotsrétt.

Hverjum datt þetta í hug?
Hugmyndin um að þriðjungur þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög er fengin að láni úr dönsku stjórnarskránni. Þar eru þó undanskilin lög sem varða fjárhag ríkisins o.fl. Málskotsheimildinni verður að beita áður en þrír sólarhringar eru liðnir frá samþykkt umræddra laga, og til að lög séu felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf einfaldan meirihluta kjósenda, þó að lágmarki 30% atkvæðisbærra manna. Allt þetta mætti nýta sem efnivið í stjórnarskrárgerðinni hér.

Hugmyndin um að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög hefur oft skotið upp kollinum, og á sér einnig stað í stjórnarskrám erlendis. Í frönsku stjórnarskránni er málskotsréttur þings og þjóðar tengdur saman með þeim hætti, að þar geta 20% þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, enda hafi þeir til þess stuðning tíunda hvers kjósanda í landinu. Þarlendis á þó Stjórnlagadómstóll (Conseil Constitutionnel) mestan þátt í að veita þinginu aðhald. Stjórnlagadómstóllinn kveður upp úr um það hvort nýsamþykkt lög standist stjórnarskrá, og er um leið leiðandi í túlkun á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Um störf dómstólsins hefur skapast rík hefð, sem í raun dregur úr þörfinni fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslur?
Þjóðaratkvæðagreiðslur veita aðhald. Þjóðþing sem getur átt von á að gjörðir þess verði bornar undir þjóðina jafnharðan, sýnir að öllum líkindum meiri gætni en ella. Svo virðist sem þetta hafi virkilega verið raunin í Danmörku. Þar hefur í öllu falli skapast hefð fyrir mun meira samráði milli stjórnar og stjórnarandstöðu en hér tíðkast. Ríkisstjórnin sem situr á hverjum tíma vill augljóslega komast hjá því að lagafrumvörp hennar verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslum, og því borgar sig að haga málatilbúnaði þannig að stjórnarandstaðan geti nokkurn veginn sætt sig við hann. Að sama skapi er það stjórnarandstöðunni ekki í hag að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu í því skyni að fella nýsamþykkt lög, nema þingmenn andstöðunnar telji stjórnina hafa farið verulega yfir strikið með lagasetningunni og séu nokkuð vissir um að þjóðin sé þeim sammála. Svona á málskotsrétturinn einmitt að virka. Tækið þarf annars vegar að vera nógu auðvelt í notkun til að beiting þess sé raunverulegur valkostur þegar „gjá myndast milli þings og þjóðar“, og hins vegar nógu erfitt í notkun til að því sé ekki beitt í tíma og ótíma. Reyndar skilst mér að danska þingið hafi nær aldrei gripið til þessa verkfæris. Það segir manni eitthvað um mikilvægi samráðs innan þingsins!

Er núverandi ákvæði um málskotsrétt ekki nógu gott?
Með 26. grein íslensku stjórnarskrárinnar er forseta Íslands færð heimild til að synja lagafrumvarpi staðfestingar, enda sé það þá borið „svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu“. Á þessu fyrirkomulagi eru að mínu mati tveir megingallar.

 • Annars vegar tel ég óheppilegt að nokkrum einum manni sé falið vald sem þetta. Það eykur líkur á ómarkvissri eða jafnvel nokkuð tilviljanakenndri beitingu málskotsréttarins, enda hlýtur ákvörðun forseta um málskot jafnan að vera tekin á miklum álagstímum, auk þess sem forsetinn hefur takmarkaða möguleika á að ráðfæra sig við samstarfsmenn áður en ákvörðun er tekin.
 • Hins vegar tel ég að forsetinn eigi að vera æðsti yfirmaður framkvæmdarvaldsins en eigi ekki að hafa neitt yfir löggjafarvaldinu að segja. Það felur í sér að hann getur ekki staðfest eða ómerkt gjörðir þess.

Svolítil útskýring
Rétt er að taka fram að hér hefur aðeins verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur um nýsamþykkt lög, sem minnihluti þings eða verulegur hluti þjóðar er verulega ósáttur við. Þjóðaratkvæðagreiðslur um tilteknar mikilvægar ákvarðanir, svo sem um framsal valds til alþjóðastofnana, eru annars eðlis. Eðlilegt er að í stjórnarskrá séu ákvæði sem skylda þingið til að bera slík mál undir þjóðina, sem þá hefur endanlegt ákvörðunarvald.

(Þessi pistill er að mestu samhljóða pistli mínum 18. nóvember 2010)

Í fljótinu enn um sinn

Þann 9. nóvember 2008 skrifaði ég bloggfærslu um þann vanda sem þjóðin stóð frammi fyrir þá,

 • um að við hefðum gengið fram með fljóti sem við vissum innst inni að væri bæði straumþungt og kalt, en sem við þyrftum samt að fara yfir fyrr en síðar,
 • um að einn daginn hefði okkur verið hrint út í fljótið,
 • um að mörg okkar óskuðu sér þess heitast að verða dregin aftur upp á sama bakkann – og allt yrði sem fyrr, 
 • um að engin leið lægi til baka, því að fljótsbakki fortíðarinnar væri fullkannaður og tækifæri hans uppurin, þannig að þar gætum við ekki þrifist lengur,
 • um að hinum megin við fljótið væri fljótsbakki framtíðarinnar með ný tækifæri og nýja óvissu, þangað lægi eina leiðin, þar biðu okkar ný tækifæri sem við vissum ekki hver væru og þar yrði gott að halda göngu sinni áfram, fram með fljóti, frá fljóti og að næsta fljóti.

Alla daga síðan 9. nóvember 2008 höfum við svamlað í fljótinu. Alla daga síðan 9. nóvember 2008 höfum við deilt um það hvort væri betra, að láta drösla okkur upp á fljótsbakka fortíðarinnar til þess eins að hrjóta út í fljótið á ný fyrr en varir, eða að brjótast áfram yfir á fljótsbakka framtíðarinnar og takast á við allar þær áskoranir sem bíða okkar þar.

Stjórnlagaþingið var einn af þeim flekum sem gat fleytt okkur áleiðis að fljótsbakka framtíðarinnar. Í gær var sá fleki tekinn af okkur. Þá gladdist sá hópur í fljótinu sem sér endurtekna fortíð í hillingum.

Atburðir gærdagsins tefja leið okkar yfir fljótið. En atburðir gærdagsins breyta því ekki að leiðin yfir fljótið er eina leiðin. Þess vegna þurfum við að smíða nýjan fleka til að komast áleiðis. Hann má vera eins og sá fyrri, því að ástæða þess að sá var tekinn af okkur var ekki sú að hann væri gallaður, heldur hin að við höfðum notað gölluð áhöld við smíðina.

Svaml í fljóti tekur á þolinmæðina. En við höldum samt ótrauð áfram, knúin áfram af tilhlökkun til nýrrar göngu, fram með fljóti, frá fljóti og að næsta fljóti.

Niðursveifla eftir kosningar?

Lítið lífsmark hefur verið með þessari bloggsíðu síðustu daga. Því er eðlilegt að spurt sé hvort niðursveiflan eftir kosningarnar sé slík að hér þrífist ekkert líf lengur. Línuritið til hægri yfir fjölda innlita á síðuna gæti eimitt gefið það til kynna.

Hvað sem línuritum líður eru fréttir af andláti mínu og útför stórlega ýktar, eins og mig minnir að Mark Twain hafi orðað það. Næstu daga mun hellast hér inn hver bloggfærslan af annarri – um umhverfismál, hlaup og annað sem miklu skiptir í lífinu. Missið ekki af því.
🙂

Að kosningum loknum

Í gær kom í ljós að ég sest ekki á Stjórnlagaþing á útmánuðum. Var reyndar frekar nálægt því að ná kjöri, þar sem ég var sleginn út í 508. lotu af 509, ef svo má að orði komast. Varð sem sagt í 27. sæti í kosningunni, en það komust jú bara 25 inn.

Þegar menn tapa í kosningum gildir almennt sú regla að þeir hinir sömu snúa tapinu upp í sigur í útskýringum sínum eftir kosningar, í það minnsta varnarsigur. Ég var náttúrulega ekkert í vörn, heldur þvert á móti í sókn allan tímann, þannig að ég get engan veginn talað um varnarsigur í þessu sambandi. Hins vegar var ég svo heppinn að komast yfir 850 bls. pdf-skjal Landskjörstjórnar, og þar fann ég einmitt það sem mig vantaði til að geta lýst yfir sigri: Ég fékk 689 atkvæði í fyrsta sæti og varð nr. 14 af öllum frambjóðendunum hvað það varðar.

Þegar menn ná svipaðri útkomu í kosningum og hér hefur verið lýst, gildir almennt sú regla að þeir hinir sömu benda á alvarlega ágalla á kosningakerfinu. Kerfið hafi beinlínis, með ósanngjörnum hætti, komið í veg fyrir að þeir næðu kjöri. Ég ætla hins vegar að brjóta þessa reglu. Því meira sem ég velti þessu kerfi fyrir mér, þeim mun ánægðari verð ég nefnilega með það! Um þetta gæti ég haft mörg orð, en læt nægja að benda á að í þessu kerfi getur maður óhikað valið lítt þekktan frambjóðanda, þótt mann gruni að viðkomandi eigi litla möguleika á að ná kjöri. Reynist grunurinn réttur fer atkvæðið ekki til spillis, heldur gengur óskipt til næsta manns á listanum.

Nú er einu tímabili lífs mín lokið – og annað tekur við. Viðfangsefnin eru næg, og reynslan úr þessum kosningaundirbúningi mun nýtast vel í framhaldinu þegar búið er að hræra henni saman við alla hina reynsluna sem hefur safnast í áranna rás. En upp úr þessu öllu stendur þó þakklæti fyrir allan þann stuðning og velvilja sem ég fann fyrir í kosningaundirbúningnum. Ég vissi alveg að ég ætti góða að, en síðustu vikur hefur það virkilega rifjast upp fyrir mér hvers virði öll sú vinátta og kunningsskapur er! Sú vitund á eftir að reynast mér drjúg í næstu verkum!

Annars var ég að átta mig á því að ég er svona álíka góður í að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings og að hlaupa maraþon. Í gær var ég sem sagt í 27. sæti af 522 keppendum, en í 14. sæti ef aðeins er litið á efstu línur kjörseðlanna. Í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar var ég í 36. sæti af 565 keppendum, en í 16. sæti ef aðeins er litið á Íslendingana.

Lífið er langhlaup. Mér finnst gaman að hlaupa.
🙂

Með birtuna í hönd

Ég er einn af þeim sem bíða í ofvæni eftir úrslitum kosninganna til Stjórnlagaþings. Tja, reyndar er ofmælt að tala um ofvæni í þessu sambandi, því að ég er alveg rólegur yfir þessu. Ég fæ nefnilega engu um þetta breytt héðan af.

Eitthvað er fólk að ræða og blogga um lélega kosningaþátttöku. Vissulega hefði mér fundist gaman að fleiri tækju þátt, en samt finnst mér þessi kosningaþátttaka alls ekki léleg. Þvert á móti finnst mér hún góð! Þetta var góð kosningaþátttaka vegna þess að þeir sem vildu kjósa gerðu það – og þeir sem vildu það ekki gerðu það ekki. Þannig á það einmitt að vera. Reyndar vildu einhverjir kjósa en fengu það ekki. Það er verra, en sem betur fer bara undantekningartilvik.

Mér finnst alveg marklaust og órökrétt að bera þátttökuna í þessum kosningum saman við einhverjar aðrar kosningar á Íslandi, hvort sem það eru Alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar eða Ísbjargarkosningar. Kosningar eins og þær sem haldnar voru sl. laugardag hafa nefnilega aldrei verið haldnar áður, hvorki á Íslandi né annars staðar! Næst þegar svona kosningar verða haldnar getum við borið þær saman við þessar, en þangað til er allur samanburður næsta gangslaus.

Og eitthvað er fólk líka að ræða og blogga um það hvort kosningaþátttakan styrki eða veiki Stjórnlagaþingið. Þetta eru óþarfar vangaveltur. Þjóðin er búin að kjósa sér Stjórnlagaþing, sem hefur fullt umboð þjóðarinnar til að vinna það verk sem því er falið. Fullt umboð segi ég, vegna þess að þeir sem vildu kjósa gerðu það. Flóknara er það nú ekki.

Það verður fróðlegt að sjá hverjir muni sitja á umræddu þingi. Ég vil gjarnan vera þar á meðal, en hvernig sem allt veltist er ég glaður og bjartsýnn. Þetta verður þing þjóðarinnar. Og þetta þing getur tekið til óspilltra málanna í febrúar, með birtuna í hönd!

Amma, varst þú breytingin?

Framtíðin skiptir máli!

Á morgun verður kosið til Stjórnlagaþings sem fær það mikla verkefni að leggja drög að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Hvernig sem allt veltist verður þessa þings getið í sögubókum framtíðarinnar, í minnsta lagi vegna þess að það á sér enga hliðstæðu í sögunni, og vonandi einnig vegna þess að það hafi, eftir á að hyggja, markað upphaf nýrra tíma til farsældar fyrir íslensku þjóðina.

Hverju ætlum við að svara þegar barnabörnin okkar spyrja „Afi, kaust þú einhvern á Stjórnlagaþingið“, eða „Amma, varst þú breytingin“? Ætlum við þá að svara með stolti „Nei, ég var sko í fýlu heima“?

Ég tek undir orð Gandhis, sem sagði „Við verðum að vera breytingin sem við viljum sjá“! Í hverju atkvæði er fólgin þáttur kjósandans í að móta eigin framtíð. Ég skora á alla að taka þátt í að móta þessa framtíð, í stað þess að sitja hjá og láta öðrum það eftir. Mætum öll á kjörstað á morgun!!!

Inn á þingið

Kosningabaráttan tekur á sig ýmsar myndir, eins og hér má sjá: 🙂

Síðan um hrun er ég hrjáður af stjórnmálakveisu.
Ég hlusta á fréttir um vesen og endaleysu.
Titrandi sit ég og tárvotur stari í askinn
– og traustið á kerfinu alveg farið í vaskinn.

En þetta lagast – sama hvað þið syngið.
Ég segi það og skrifa: Kjósum okkur þinglið!
Ég ætla að hætta að væla og velja mér fólk

inn á þingið okkar ……

Ég vil sjálfbærni, jöfnuð og jákvæðni.
Ég vil jólastemmingu og áræðni.
Ég vil þjóðina alla á þing,
því ég elska hvern Íslending.

Ég vil kjósa bæði karlfausk og smápíu.
Ég vil kjósa, en mér duga ekki 30.
Ég vil fá miklu fleiri en svo.
Ég vil 2072

inn á þingið okkar ……

Það eina sem ég veit

Sauðárkrókur, Bíldudalur, Borgarnes og Hlaðir,
Berufjörður, Vestmannaeyjar, Sandgerði og Egilsstaðir,
Grafarvogur, Hólmavík og Hrísey:
Hér býr ekki nokkur maður sem að kýs ei
á Stjórnlagaþingið.
Svo man ég ekki meir.
Það eina sem ég veit – er 2072.
🙂

Við skrifum heimssöguna!

Á laugardaginn verður kosið til Stjórnlagaþings eins og flestir vita. Þetta þing verður ekki bara einstakt í sögu Íslands, heldur í heimssögunni! Aldrei áður hefur heil þjóð sameinast um að kjósa einstaklinga úr sínum hópi í lýðræðislegum kosningum til að skrifa nýja stjórnarskrá!

Ég efast um að við gerum okkur grein fyrir því hversu einstaka viðburði við erum að upplifa þessa dagana og eigum eftir að upplifa allra næstu mánuði. Kannski þurfa erlendir vinir okkar að segja okkur það, hverju um sig, til að við skiljum hvað er í gangi. Að utan hafa heyrst setningar á borð við: „Er þetta virkilega satt?“, „Geta virkilega allir boðið sig fram?“, „Færð þú virkilega að taka þátt í þessu?“, já eða „Dj…… öfunda ég þig maður“, „What an opportunity!!!“.

Við ráðum því alveg sjálf hvort við tökum þátt í því að skrifa heimssöguna. Eina leiðin til að gera það ekki er að sitja heima á laugardaginn!

Kveðið um 2072

Margt rekur á fjörur manns í kosningabaráttunni! 🙂

Hann á þolgæði í þykkum stöflum.
Hann er sterkur, en mannlega meir.
Hann er sérlega sjálfbær á köflum.
Hann er 2072.

Hann er yfirleitt geislandi glaður.
Hann er nærgætinn norðanþeyr.
Hann er týpískur maraþonmaður.
Hann er 2072.

Hann er grænn eins og lauf á lyngi.
Hann er seigur sem sef eða reyr.
Hann er Stefán á Stjórnlagaþingi.
Hann er 2072.