• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • mars 2023
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Nöldrað við eldhúsborðið

Hvar er fjarstýringin Þuríður?

Mannskepnan er skrýtin, alla vega þessi íslenska. Í hennar hópi er nefnilega fólk sem hefur setið mánuðum saman við eldhúsborðið sitt og fjargviðrast yfir því hvað allir séu vitlausir, sérstaklega þessir stjórnmálamenn, þingmennirnir og það pakk allt saman. Þetta hugsi ekki um neitt annað en að skara eld að eigin köku. Nú sé barasta komið að því að fólkið taki þetta í sínar hendur!

Svo gerist það einn góðan veðurdag að fólkinu er fært tækifæri upp í þessar sömu eigin hendur. Fólkið fær sem sagt að velja fulltrúa til að skrifa nýja stjórnarskrá, lýsingu á grunngildum þjóðarinnar, grunn að stjórnun ríkisins, ramma fyrir alla löggjöf. Hljóta þá ekki allir að gleðjast og þyrpast út til að taka þátt í uppbyggingunni? Loksins!

Jú, flestir taka fagnandi því einstaka tækifæri sem nú býðst. En samt eru þeir til sem halda áfram að fjargviðrast við eldhúsborðið sitt, finna stjórnlagaþinginu allt til foráttu, fyrirkomulagið sé fáranlegt og óskiljanlegt, þetta kosti allt of mikið, ekkert komi út úr því nema eitthvert rugl, enda verði örugglega engir kosnir á þingið nema vitleysingar sem hugsi ekki um neitt annað en að skara eld að eigin köku.

Ekkert er algott. En væri ekki samt ráð að grípa tækifærið sem nú gefst til að hafa áhrif, í stað þess að láta vitleysingunum það eftir!? Neikvæðni og nöldur hafa aldrei fært okkur nein lífsgæði! Það eina sem neikvæðnin og nöldrið skila er meiri vanlíðan þeim til handa sem þá iðju stunda. Hinir, þ.e.a.s. hinn glaði meirihluti þjóðarinnar, halda hins vegar hnarreistir áfram för sinni til móts við áskoranir framtíðarinnar, framtíðarinnar sem þeir einir fá að móta!

PS: Er það ekki einmitt þegar vitleysingunum tekur að fjölga í kringum mann sem tími er kominn til að líta í eigin barm?
🙂

Sjómenn án kosningaréttar

Í gær var sagt frá því á vef Bæjarins besta á Ísafirði, að nokkur fjöldi sjómanna geti ekki neytt kosningaréttar síns í kosningum til Stjórnlagaþings á laugardaginn, þar sem þeir voru lagðir af stað í veiðiferð þegar utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst og koma ekki í land aftur fyrr en eftir kosningar. Sjálfsagt er ekkert við þessu að gera héðan af, en þetta er samt alveg óásættanleg staða. Kosningarétturinn er jú hornsteinn lýðræðisins, ekki satt?

Einn frambjóðendanna til Stjórnlagaþings, Eyþór Jóvinsson arkitektúrnemi á Flateyri, er í hópi sjómannanna sem kerfið sviptir kosningarétti með þeim hætti sem hér er lýst. Hann fór á sjóinn 29. október sl., en utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst 10. nóv. Veiðiferðinni lýkur á sunnudaginn, degi eftir kosningar.

Í 48. og 49. grein laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis eru ákvæði um utankjörfundaratkvæðagreiðslur á skipum, en þessi lög gilda einnig um slíkar atkvæðagreiðslur vegna kosninga til Stjórnlagaþings eftir því sem við á. Í lögunum er gert ráð fyrir að skipstjóri fái afhent utankjörfundarkjörgögn áður en veiðiferð hefst, þ.e. í þeim tilvikum þar sem sýnt er að veiðiferðin standi framyfir kjördag. Í því tilviki sem hér um ræðir var þetta ekki hægt, þar sem kjörgögnin voru ekki tilbúin þegar veiðiferðin hófst. Hins vegar var ljóst hverjir yrðu í framboði og hvernig kosningu skyldi háttað.

Nú hljóta að vakna þrjár spurningar.

 1. Hófst utankjörfundaratkvæðagreiðslan of seint?
 2. Er kjördagur of snemma?
 3. Er kerfið of ósveigjanlegt?

Svarið við fyrstu spurningunni er nei, því að umrædd atkvæðagreiðsla hófst 17 dögum fyrir kjördag eins og lög gera ráð fyrir. Svarið við spurningu nr. 2 er líka nei, því að kjördagur er 17 dögum eftir að utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst eins og lög gera ráð fyrir. Svarið við þriðju spurningunni er já – og er skrifað á milli línanna í hinum svörunum.

Það getur barasta ekki verið að kerfið þurfi að vera svo ósveigjanlegt að ekki sé hægt að tryggja sjómönnum kosningarétt í tilviki sem þessu! Það er vissulega frekar mikið vesen að leita uppi með þyrlu öll þau skip sem um ræðir, afhenda þannig kjörgögn og sækja þau aftur. Auk þess myndi þetta hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið. Hins vegar hlýtur að vera hægt að byggja inn í kerfið sveigjanleika sem gerir rafræna atkvæðagreiðslu mögulega þar sem svona stendur á. Ég veit svo sem ekkert um tæknileg vandamál í þessu sambandi, en þau hlýtur að vera hægt að leysa. Það eru kerfislægu vandamálin sem eru erfiðari viðfangs. Og kerfið er jú ekki skapað af æðri máttarvöldum. Kerfið er mannanna verk, og þess vegna geta mennirnir líka breytt því. Eða er kerfið kannski einhvers konar Frankensteinskrímsli sem lifir svo sjálfstæðu lífi að menn fái ekki rönd við reist?

Lýðræðið þarf að vera fyrir alla, ekki bara okkur landkrabbana!

Stjórnarskráin og kirkjan

Kirkjan í Bæ á Rauðasandi

Fyrir nokkru fór Biskupsstofa þess á leit við frambjóðendur til Stjórnlagaþings að þeir gerðu í stuttu máli grein fyrir afstöðu sinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum“. Spurt var hvort frambjóðendur teldu þörf á að breyta þessari grein, og ef svo væri, hvernig. Þá var spurt um afstöðu frambjóðenda til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju.

Svör mín við þessum spurningum fara hér á eftir, en þau má einnig lesa á vef Þjóðkirkjunnar, ásamt með svörum annarra frambjóðenda.

Spurning:  Telur þú þörf á að breyta þessari grein (62. gr.)?
Svar:  Já

Spurning:  Ef svo er hvernig?
Svar:  Ég tel rétt að fella 62. greinina úr stjórnarskránni. Fyrir því eru einkum tvær ástæður: Annars vegar tel ég að ákveða eigi samband ríkis og kirkju í lögum, en ekki í stjórnarskrá. Í stjórnarskrá ætti hins vegar að tiltaka helstu gildi sem þjóðin hefur í heiðri og byggir tilveru sína á. Í öðru lagi er núverandi orðalag umræddrar greinar órökrétt, þar sem fram kemur að henni megi breyta með lögum. Ákvæði sem breyta má með lögum eiga ekki heima í stjórnarskrá.

Spurning:  Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Svar:  Samband ríkis og kirkju er margslungnara mál en svo að því verði gerð skil í stuttu svari, (sjá t.d. grein Arnfríðar Guðmundsdóttur á DV-vefnum (http://www.dv.is/stjornlagathing/arnfridur-gudmundsdottir/grein/663)). Auk heldur tel ég Stjórnlagaþing ekki þurfa að taka afstöðu í þessu, sbr. svar mitt við fyrri spurningu. Hins vegar voru skilaboð nýafstaðins Þjóðfundar skýr hvað þetta varðar, þ.e. að stuðlað skyldi að aðskilnaði ríkis og trúfélaga. Stjórnlagaþinginu ber að taka mið af niðurstöðum Þjóðfundar, en sem fyrr segir tel ég liggja beinast við að fella 62. grein niður og láta ríkisvaldinu og kirkjunni eftir að þróa samband sitt til farsældar fyrir báða aðila.

Umhverfi og sjálfbær þróun í stjórnarskrá

Helsta ástæða þess að ég gef kost á mér til Stjórnlagaþings er umhyggja mín fyrir íslenskri náttúru og komandi kynslóðum. Ég vil sem sagt að hagsmuna íslenskrar náttúru og komandi kynslóða verði verði vel gætt í nýrri stjórnarskrá í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þessi áhersla mín felur m.a. í sér, að í stjórnarskránni verði kveðið skýrt að orði um að náttúruauðlindir Íslands séu óframseljanleg sameign þjóðarinnar. Þar þarf einnig að koma fram að sjálfbær þróun sé leiðarljós í stjórnun landsins og ákvarðanatöku.

Staðan í dag
Í núverandi stjórnarskrá er ekki fjallað um íslenska náttúru eða sjálfbæra þróun, enda var grunnurinn að stjórnarskránni lagður fyrir margt löngu. Hins vegar er víða að finna slík ákvæði í stjórnarskrám annarra landa, bæði í Evrópu og í öðrum heimsálfum. Meginlínan í þeim ákvæðum er annars vegar að fólkið í viðkomandi landi eigi rétt á að lifa í heilbrigðu umhverfi og hins vegar að þessu sama fólki og stjórnvöldum beri að vernda náttúruna með hagsmuni komandi kynslóða í huga.

Franski umhverfissáttmálinn
Franska stjórnarskráin er líklega sú sem gengur lengst í áherslunni á umhverfismál og sjálfbæra þróun.  Árið 2004 var sérstökum umhverfisviðauka, svonefndum Umhverfissáttmála, bætt við stjórnarskrána, en þessi viðauki hefur sömu lagalegu stöðu og stjórnarskráin sjálf samkvæmt túlkun franska stjórnlagadómstólsins. Viðaukinn byggir á þeirri vitund þjóðarinnar að framtíð og tilvera mannkynsins sé tengd náttúrlegu umhverfi órofa böndum, að umhverfið sé sameiginleg arfleifð mannkynsins alls, og að ofnýting náttúruauðlinda, framleiðsla og neysla hafi áhrif á líffræðilega fjölbreytni, lífsgæði og þróun mannlegs samfélags. Til að tryggja sjálfbæra þróun megi ákvarðanir sem ætlað er að mæta þörfum núlifandi kynslóðar ekki stefna í voða möguleikum komandi kynslóða og annars fólks til að mæta þörfum sínum. Þarna er skilgreining Brundtlandnefndarinnar sem sagt fléttuð inn í stjórnarskrána. Í viðaukanum kemur einnig fram að sérhver einstaklingur eigi rétt á að lifa í heilnæmu umhverfi – og skyldu til að taka þátt í að vernda umhverfið og bæta. Sá sem veldur tjóni á umhverfinu skal sjálfur leggja sitt af mörkum til að bæta tjónið. Þarna er einnig að finna ákvæði um að tekið skuli fullt tillit til Varúðarreglunnar og að áhættumati skuli beitt til að lágmarka líkur á tjóni. Hvers kyns opinber stefnumótun skal stuðla að sjálfbærri þróun. Þá er tiltekið að sérhver einstaklingur skuli hafa aðgang að upplýsingum um umhverfismál og rétt til að taka þátt í opinberri ákvarðanatöku sem kann að hafa áhrif á umhverfið. Fræðsla og þjálfun um umhverfismál á að stuðla að því að réttindi og skyldur samkvæmt ákvæðum sáttmálans séu virt í framkvæmd. Sömuleiðis er tiltekið að rannsóknir og nýsköpun skuli stuðla að verndun og þróun umhverfisins.

Noregur
Ákvæði um umhverfismál og sjálfbæra þróun er að finna í stjórnarskrám margra annarra landa, þó að ítarleg ákvæði á borð við þau frönsku séu vandfundin. Af dæmum úr nágrannalöndunum má nefna, að samkvæmt norsku stjórnarskránni (grein 110 b) á sérhver einstaklingur rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði. Þá ber að varðveita framleiðni og fjölbreytni hins náttúrulega umhverfis. Stjórnun náttúruauðlinda á að byggjast á heildarstefnumótun til langs tíma, þannig að samsvarandi réttur komandi kynslóða sé jafnframt tryggður. Þarna er hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í raun fléttuð inn í textann, enda þótt sjálfbærnihugtakið sé ekki nefnt sem slíkt. Í norsku stjórnarskránni er einnig ákvæði um rétt almennings til umhverfisupplýsinga.

Finnland og Eistland
Í finnsku stjórnarskránni er að finna svipuð ákvæði og í þeirri norsku. Þar er m.a. tilgreint að allir landsmenn beri ábyrgð á náttúrunni og líffræðilegri fjölbreytni hennar, umhverfinu og þjóðararfleifðinni. Í stjórnarskrá Eistlands er sérstaklega getið um skyldu manna til að bæta fyrir hvert það tjón sem þeir kunna að valda umhverfinu.

Portúgal og Sviss
Stjórnarskrá Portúgals gengur um margt lengra en aðrar stjórnarskrár Evrópuríkja í að flétta saman vistfræðilega og félagslega þætti innan ramma sjálfbærrar þróunar. Þar er m.a. að finna ákvæði þar sem mikilvægi skipulagsáætlana í þessu sambandi er sérstaklega undirstrikað. Svipað má reyndar segja um stjórnarskrá Sviss.

Afríkuríki
Evrópuríki eru ekki ein um að leggja áherslu á umhverfismál og sjálfbæra þróun í stjórnarskrám sínum. Þannig hafa um 2/3 allra Afríkuríkja (32 ríki) samþykkt sérstök stjórnarskrárákvæði um réttinn til heilbrigðs umhverfis. Eitt gleggsta dæmið er að finna í stjórnarskrá Súdans, en þar ber ríkinu að stuðla að lýðheilsu, hvetja til íþróttaiðkunar og vernda náttúrulegt umhverfi, hreinleika þess og náttúrulegt jafnvægi, til að tryggja örugga og sjálfbæra þróun komandi kynslóðum til handa.

Orð og gjörðir
Ljóst má vera að ákvæði í stjórnarskrá er eitt, en framfylgdin annað. Hvað sem því líður er afar mikilvægt að þessir grundvallarþættir séu tilgreindir í stjórnarskrá, enda fráleitt að hugsa sér að þjóð hugsi ekki til komandi kynslóða þegar hún setur sér grunnreglur sem gilda eiga næstu áratugi. Þessi áhersla endurspeglast enda í niðurstöðum þjóðfundarins 7. nóvember sl., þar sem fram kemur m.a. að náttúru Íslands og auðlindir beri að vernda fyrir komandi kynslóðir.

Burt með gamla húsgangsháttinn!
Hér hefur verið stiklað á stóru, en eins og sjá má er af nógu að taka þegar svipast er um eftir fyrirmyndum að ákvæðum um umhverfismál og sjálfbæra þróun sem nýtast mættu við gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Viðfangsefnið er í sjálfu sér einfalt; stjórnarskráin þarf að vera í  takt við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í allri þessari vinnu þarf að hafa hugfast að „maðurinn fékk ekki jörðina í arf frá forfeðrum sínum, heldur hefur hann hana að láni frá börnunum sínum“. Íslendingar þurfa að hverfa frá þeim „gamla húsgangshætti“, sem Þorvaldur Thoroddsen nefndi svo á þarsíðustu öld, að „hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður sé stór skaði öldum og óbornum“.

Svör til 4×4 um almannarétt

Í dag barst frambjóðendum til Stjórnlagaþings bréf frá Ferðafrelsisnefnd, sem er vinnuhópur á vegum Ferðaklúbbsins 4×4, Skotvís, Skotreyn, Slóðavina, Jeppavina og fleiri aðila sem tengjast ferðalögum og útiveru. Í bréfinu er vísað til ákvæða náttúruverndarlaga nr. 44/1999 um almannarétt, „þ.e. rétt almennings til ferðalaga og nýtingar“, eins og það er orðað í bréfinu. Spurt er hvort frambjóðendur telji rétt að slík ákvæði séu bundin í stjórnarskrá og hvort þeir muni beita sér fyrir slíku. Svar mitt til Ferðafrelsisnefndar fer hér á eftir:

******************************************
Gott kvöld!

Hér að neðan er að finna svör mín við spurningum ykkar um almannaréttinn. Áður en lengra er haldið er þó rétt að fram komi, að ákvæði III. kafla laga um náttúruvernd nr. 44/1999 fjalla ekki um „rétt almennings til ferðalaga og nýtingar“ eins og það er orðað í bréfi ykkar, heldur snýst almannarétturinn skv. III. kafla fyrst og fremst um rétt almennings til að fara um landið og dvelja þar í lögmætum tilgangi. Á þessu tvennu er merkingarmunur. Sérstaklega er ástæða til að undirstrika að almannaréttur í skilningi laganna felur ekki í sér rétt til nýtingar eins og gefið er til kynna í bréfi ykkar, þ.e.a.s. umfram það sem getið er um í greinum 24-27 og lýtur að tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, fjörugróðurs o.fl.

Í samræmi við þetta eru svör mín eftirfarandi:

1.    Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?  
Mér finnst rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt, þ.e. rétt almennings til að fara um landið og dvelja þar í lögmætum tilgangi. Slíkt ákvæði felur ekki í sér rétt til nýtingar.

2.     Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?  
Ég mun beita mér fyrir því að ákvæði um almannarétt, þ.e. rétt almennings til að fara um landið og dvelja þar í lögmætum tilgangi, verði sett í stjórnarskrá. Slíkt ákvæði felur ekki í sér rétt til nýtingar.

Rétt er að undirstrika, að almannaréttur skv. framanskráðu er háður ýmsum takmörkunum, sbr. ákvæði III. kafla laga um náttúruvernd nr. 44/1999 . Almannarétturinn felur þannig ekki sjálfkrafa í sér heimild til umferðar vélknúinna ökutækja.

Með bestu kveðjum,

Stefán Gíslason,
frambjóðandi nr.
2072
******************************************

Vor í lofti?

Þegar veturinn ríkir og döggin á grasinu deyr
og dæmalaust langt í að aftur taki að hlána,
er léttir að vita að 2072
er til í að reyna að þíða upp stjórnarskrána.
🙂

(Stefán Gíslason, frambjóðandi nr. 2072 til Stjórnlagaþings)

Þjóðaratkvæðagreiðslur – hvers vegna og hvenær?

Ein af megináherslunum í framboði mínu til Stjórnlagaþings er að fólkið í landinu geti haft meiri áhrif á ákvarðanir stjórnvalda en gert er ráð fyrir í núverandi stjórnkerfi, m.a. með því að tiltekinn hluti kjósenda og tiltekinn fjöldi Alþingismanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Útfærslan á þessu getur verið með ýmsu móti, en eftir að hafa skoðað stjórnarskrár nágrannalandanna hallast ég helst að eftirfarandi fyrirkomulagi:

 1. Minnihluti Alþingis (t.d. þriðjungur þingmanna) geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög.
 2. Tiltekinn hluti kjósenda (10% eða e.t.v. meira) geti gert slíkt hið sama.
 3. Forseti Íslands hafi ekki málskotsrétt.

Hverjum datt þetta í hug?
Hugmyndin um að þriðjungur þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög er fengin að láni úr dönsku stjórnarskránni. Þar eru þó undanskilin lög sem varða fjárhag ríkisins o.fl. Málskotsheimildinni verður að beita áður en þrír sólarhringar eru liðnir frá samþykkt umræddra laga, og til að lög séu felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf einfaldan meirihluta kjósenda, þó að lágmarki 30% atkvæðisbærra manna. Allt þetta gæti ég hugsað mér að nýta sem efnivið í stjórnarskrárgerðinni hér.

Hugmyndin um að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög hefur oft skotið upp kollinum, og á sér einnig stað í stjórnarskrám erlendis. Í frönsku stjórnarskránni er málskotsréttur þings og þjóðar tengdur saman með þeim hætti, að þar geta 20% þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, enda hafi þeir til þess stuðning tíunda hvers kjósanda í landinu. Þarlendis á þó Stjórnlagadómstóll (Conseil Constitutionnel) mestan þátt í að veita þinginu aðhald. Stjórnlagadómstóllinn kveður upp úr um það hvort nýsamþykkt lög standist stjórnarskrá, og er um leið leiðandi í túlkun á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Um störf dómstólsins hefur skapast rík hefð, sem í raun dregur úr þörfinni fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslur?
Þjóðaratkvæðagreiðslur veita aðhald. Þjóðþing sem getur átt von á að gjörðir þess verði bornar undir þjóðina jafnharðan, sýnir að öllum líkindum meiri gætni en ella. Svo virðist sem þetta hafi virkilega verið raunin í Danmörku. Þar hefur í öllu falli skapast hefð fyrir mun meira samráði milli stjórnar og stjórnarandstöðu en hér tíðkast. Ríkisstjórnin sem situr á hverjum tíma vill augljóslega komast hjá því að lagafrumvörp hennar verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslum, og því borgar sig að málatilbúnaður sé þannig að stjórnarandstaðan geti nokkurn veginn sætt sig við hann. Að sama skapi er það stjórnarandstöðunni ekki í hag að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu í því skyni að fella nýsamþykkt lög, nema þingmenn andstöðunnar telji stjórnina hafa farið verulega yfir strikið með lagasetningunni og séu nokkuð vissir um að þjóðin sé þeim sammála. Svona á málskotsrétturinn einmitt að virka. Tækið þarf annars vegar að vera nógu auðvelt í notkun til að beiting þess sé raunverulegur valkostur þegar gjá myndast milli þings og þjóðar, og hins vegar nógu erfitt í notkun til að því sé ekki beitt í tíma og ótíma. Reyndar skilst mér að danska þingið hafi nær aldrei gripið til þessa verkfæris. Það segir manni eitthvað um mikilvægi samráðs innan þingsins!

Er núverandi ákvæði um málskotsrétt ekki nógu gott?
Með 26. grein íslensku stjórnarskrárinnar er forseta Íslands færð heimild til að synja lagafrumvarpi staðfestingar, enda sé það þá borið „svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu“. Á þessu fyrirkomulagi eru að mínu mati tveir megingallar.

 • Annars vegar tel ég óheppilegt að nokkrum einum manni sé falið vald sem þetta. Það eykur líkur á ómarkvissri eða jafnvel nokkuð tilviljanakenndri beitingu málskotsréttarins, enda hlýtur ákvörðun forseta um málskot jafnan að vera tekin á miklum álagstímum, auk þess sem forsetinn hefur takmarkaða möguleika á að ráðfæra sig við samstarfsmenn áður en ákvörðun er tekin.
 • Hins vegar tel ég að forsetinn eigi að vera æðsti yfirmaður framkvæmdarvaldsins en eigi ekki að hafa neitt yfir löggjafarvaldinu að segja. Það felur í sér að hann getur ekki staðfest eða ómerkt gjörðir þess.

Svolítil útskýring
Rétt er að taka fram að hér hefur aðeins verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur um nýsamþykkt lög, sem minnihluti þings eða verulegur hluti þjóðar er verulega ósáttur við. Þjóðaratkvæðagreiðslur um tilteknar mikilvægar ákvarðanir, svo sem um framsal valds til alþjóðastofnana, eru annars eðlis. Eðlilegt er að í stjórnarskrá séu ákvæði sem skylda þingið til að bera slík mál undir þjóðina, sem þá hefur endanlegt ákvörðunarvald.

Hvernig verður Ísland árið 2072?

Ég hef ekki hugmynd um hvernig Ísland verður árið 2072. En það breytir því ekki að mér finnst að fólk eigi að velta þeirri spurningu fyrir sér. Já, það er meira að segja ekki nóg að velta henni fyrir sér, maður þarf líka að gera upp við sig, að svo miklu leyti sem það er hægt, hvernig maður vill að Ísland verði árið 2072.

Ég hef stundum haft á orði, að til séu tvær leiðir til að skipuleggja framtíðina. Fyrri leiðin er sú sem allt of oft er farin að mínu mati, nefnilega að taka nútímann og margfalda hann með 1,02 í veldinu n, þar sem n er árafjöldinn. Þá er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að sú þróun sem verið hefur í gangi haldi áfram óáreitt. Seinni leiðin er að ákveða sjálfur hvernig maður vill að staðan verði í tiltekinni framtíð, og leita svo leiða til að uppfylla þá sýn, gjarnan þaðan frá séð – í bakýnisspeglinum.

Einhver orðaði þetta svona: Annað hvort getur maður skipulagt eigin framtíð, eða látið öðrum það eftir á meðan maður sýslar við eitthvað annað.

En hvernig verður samt Ísland árið 2072?

 • Verður stjórnarskráin frá 2011 enn í gildi?
 • Verður Ísland sjálfstætt ríki?
 • Verður turninn við Höfðatorg eyja?
 • Verður búið að innlima öll úthrif í verð vöru?
 • Verður byggð á Hornströndum?
 • Verður hæð Hvannadalshnjúks komin niður í 2072 metra?
 • Verður frambjóðandi nr. 2072 til Stjórnlagaþings hættur að blogga?

Ég viðurkenni að ég veit ekki svar við neinni af þessum spurningum, nema þeirri síðustu. Jú, og svo veit ég líka að svarið við fyrstu spurningunni á helst að vera . Á Stjórnlagaþing þarf að velja fólk sem þorir og vill horfa fram í tímann. Nú verðum við að láta af „hinum gamla húsgangshætti að hugsa eingöngu um stundarhaginn“, eins og Þorvaldur Thoroddsen orðaði það 1894!

Gjört í Borgarnesi 17. nóvember 2010
Frambjóðandi nr. 2072

Ágætis byrjun á góðum kjörseðli

Í dag setti Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið upplýsingar um frambjóðendur til Stjórnlagaþings inn á vefinn kosning.is. Undir hnappnum „Kynning á frambjóðendum“ er hver frambjóðandi kynntur á sérsíðu með mynd og þar eru birtar tengingar á aðrar rafrænar kynningarsíður, hafi þess verið óskað. Þá kemur fram fjögurra tölustafa auðkennistalan sem úthlutað var af landskjörstjórn (t.d. talan 2072).

Á vefnum er einnig að finna hjálparkjörseðil þar sem kjósendur geta raðað þeim frambjóðendum sem þeir hafa áhuga á að kjósa, prentað seðilinn út og tekið með sér á kjörstað. Bein slóð á þetta allt saman er: http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur. Og til að auðvelda verkið er ég búinn að setja mynd af ágætri byrjun á góðum kjörseðli hér fyrir neðan.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er nú unniðað frágangi prentaðs kynningarefnis með sömu upplýsingum um frambjóðendur og fram koma á vefnum, auk almennra upplýsinga um kosningarnar og framkvæmd þeirra. Prentvinnslan er rétt um það bil að hefjast þegar þetta er ritað, og verður blaðinu dreift inn á hvert heimili í landinu þriðjudaginn 16. nóvember nk. ásamt kynningarkjörseðlum, merktum hverjum kjósanda á nafn.

Ég hvet alla til að kynna sér kosningavefinn gaumgæfilega, æfa sig í að fylla út kjörseðilinn, taka sérstaklega vel eftir frambjóðanda nr. 2072 og líta við á Facebook síðu viðkomandi. 🙂

2072

Í fyrrakvöld fengu frambjóðendur til Stjórnlagaþings úthlutað auðkennistölum vegna framboðsins, þ.e.a.s. tölum sem kjósendur skrifa á kjörseðilinn 27. nóv. nk. Ég fékk töluna 2072, og sé ekki annað en það sé aldeilis prýðileg tala.

Ég hef alltaf haft gaman af tölum, og hef ekki hugsað mér að láta af þeim vana núna. Því ákvað ég að helga sunnudagsmorgunskokkið þessari ágætu tölu, sem þýddi náttúrulega að ég varð að hlaupa 20,72 km,  já eða 2072 dekametra (Dm) nánar tiltekið. Þetta tók nákvæmlega 1:45:06 klst. Og til að halda talnaleiknum áfram, þá lá leið mín í morgun um þær slóðir sem ég kalla Háfslækjarhring, þ.e.a.s. frá Borgarnesi, meðfram Kárastaðaflugvelli, fram hjá hesthúsahverfinu, norður og vestur fyrir fólkvanginn í Einkunnum, norður með Háfslæk og yfir hann, áfram vestur á Jarðlangsstaðaveginn, eftir honum niður með Langá, og svo þjóðveginn heim aftur. Þetta var í 56. skipti sem ég skokka þennan hring, þar af í 15. sinn á þessu ári. Og tíminn var sá 19. besti hingað til. Fleira bar til tíðinda, því að í þessari ferð náðu hlaupaskórnir mínir 1.000 km markinu, voru nánar tiltekið komnir í 1.009 km þegar heim var komið. Og þar sem þetta var síðasta hlaup októbermánaðar er gaman að segja frá því, að þetta er orðinn lengsti október sögunnar, nefnilega 186 km, já eða reyndar 186,2 km til að maður sýni nú lágmarksnákvæmni. Ég mæli lengd mánaða nefnilega í kílómetrum fremur en dögum. Dagafjöldinn er frekar tilbreytingarlaus stærð.

Það liggur í augum uppi að þessi talnaáhugi minn nálgast það að flokkast sem röskun. En hvað hlaupin varðar, þá er ég einn þeirra 3.850 einstaklinga sem færir allar hlaupaæfingar sínar reglulega inn í þar til gerða hlaupadagbók á www.hlaup.com. Sú ágæta bók hefur haldið utan um alla hlaupatölfræðina mína síðustu árin, þannig að ég þarf ekkert að gera nema fletta upp og ná mér í tölur til að leika mér með.

Já, margt er sér til gamans gert. En ný stjórnarskrá verður ekki búin til með talnaleikfimi einni saman. Stjórnarskrárgerðin snýst um að búa til forskrift fyrir löggjöf og stjórnun samfélagsins, byggða á þeim gildum sem skipta íslensku þjóðina mestu. Í nýrri stjórnarskrá þurfa m.a. að vera skýr ákvæði um réttindi komandi kynslóða og íslenskrar náttúru. Þar þarf að skilgreina valdmörk, m.a. milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins, og þar þarf líka að tryggja þjóðinni viðunandi aðgang að ákvarðanatöku sem hana varðar, m.a. með þjóðaratkvæðagreiðslum. Og svo þarf náttúrulega að bera afraksturinn af vinnu Stjórnlagaþingsins undir þjóðina áður en Alþingi tekur hann til endanlegrar afgreiðslu. Frambjóðandi nr. 2072 vil beita sér fyrir þessu.