Laugardaginn 12. ágúst sl. var Trékyllisheiðarhlaupið haldið í þriðja sinn – og í þriðja sinn var ég meðal þátttakenda. Í þetta skipti var boðið upp á nýja leið, u.þ.b. 26 km frá Djúpavík að skíðaskálanum í Selárdal („Trékyllisheiðin Midi“), nokkurn veginn sömu leið og Þórbergur Þórðarson gekk í framhjágöngunni miklu 30. september 2012, en þessi ganga er líklega þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta. Hlaupið mitt frá Djúpavík umræddan laugardag nær því örugglega ekki að verða þekktasta hlaup íslenskrar hlaupasögu, en þetta var alla vega þægilegasta hlaupið mitt síðan einhvern tímann sumarið 2019. Kannski var árangurinn ekkert sérstakur, svona eftirá að hyggja, en hlaupasælan var á sínum stað og það er mikilvægara.
Undirbúningurinn
Ég ætla ekkert að skrifa um undirbúninginn fyrir þetta hlaup, enda hef ég gert það áður og á örugglega eftir að gera það aftur. En, jú, það hefur verið heldur á brattann að sækja hjá mér í hlaupum síðustu misserin og þó að skrokkurinn sé kominn í nokkuð gott stand eftir langvinn meiðsli þarf hann meiri undirbúning til að standast væntingar þess líkamshluta sem situr efst á beinagrindinni. Og þetta hlaup kallaði svo sem ekki á neinn undirbúning annan en þann sem ég er almennt að brasa við á hlaupaæfingum nokkrum sinnum í viku.

Startið í Djúpavík
Hlaupið var ræst beint fyrir utan Hótel Djúpavík kl. 12:00 umræddan laugardag í norðan kalda og í þurru og ekkert allt of köldu veðri. Þoka beið í hlíðum. Ég fór sjálfur með hlutverk ræsis, en ég hef frá upphafi verið Skíðafélagi Strandamanna innan handar við framkvæmd hlaupsins. Ég lagði svo bara af stað í rólegheitunum þegar öll hin fjórtán voru farin og þegar GPS-úrið mitt var búið að finna nógu marga gervihnetti til að tala við. Ég vildi nefnilega að GPS-ferillinn minn yrði nógu réttur til að hægt yrði að hafa not af honum síðar.
Djúpavík-Kúvíkurá 3,39 km
Líta má á leiðina inn frá Djúpavík og upp að Kúvíkurá sem fyrsta áfanga hlaupsins. Þarna liggur leiðin eftir grófum slóða yfir holt og mýrar og er öll heldur á fótinn. Líklega gekk Þórbergur aldrei þennan spotta, þar sem hann lagði að öllum líkindum upp frá Kjós. Þannig sleppur maður við að fara yfir Kúvíkurá þarna í hlíðinni – og Kúvíkurá getur verið viðsjárverð. Hún telst að vísu ekki til stærstu vatnsfalla, en hún er straumhörð og botninn stórgrýttur. Þennan laugardag voru langvarandi þurrkar hins vegar búnir að leika hana svo grátt að hún var varla meira en lækur sem læddist á milli stórra steina – og auðvelt að stikla yfir þurrum fótum.
Ég hafði ekki sett mér nein markmið um millitíma við ána, en þegar þarna var komið sýndi úrið mitt 26:45 mín og ég var kominn framúr sex hægustu hlaupurunum. Næsti maður á undan mér var hins vegar með sæmilegt forskot sem virtist haldast nokkuð jafnt. Mér leið vel. Ákvað að halda áfram á svipuðu álagi áfram upp með ánni og taka svo stöðuna og setja mér einhver markmið þegar ég sæi millitímann á „vegamótunum“ þar sem komið er upp á aðalleiðina (og aðalhlaupaleiðina) suður Trékyllisheiði.
Kúvíkurá-Trékyllisheiði 4,14 km (samtals 7,53 km)
Ég var ekkert sérstaklega fljótur í förum upp með ánni enda eru brekkur ekki í uppáhaldi hjá mér, nema þær snúi hinsegin. En þetta mjakaðist og ég sá næstum alltaf í næsta mann. Reyndar var þokuslæðingur þarna uppi og skyggnið stundum takmarkað. Vegamótin voru samt á sínum stað og þar var búið að setja skilti sem benti til vinstri og skartaði áletruninni „Selárdalur 18 km“. Þarna var millitíminn 58:10 mín og þar með gátu reikniæfingar dagsins byrjað. Þarna er mesta hækkunin að baki og leiðin komin í u.þ.b. 410 m hæð, (fer hæst í u.þ.b. 430 m). Sunnar á heiðinni eru hæðir og lægðir þangað til halla fer niður í Selárdal – og mér fannst raunhæft að ég gæti haldið 6 mín „meðalpeisi“ eftir þetta (6 mín/km). Átján sinnum 6 mín eru 108 mín = 1:48 klst, sem þýddi að miðað við gefnar forsendur ætti ég að geta klárað hlaupið á 2:46 klst. Ég hafði fyrirfram gert ráð fyrir allt að 3 klst, þannig að þetta var bara skemmtilegt. Ákvað reyndar að gefa mér 2 mín í viðbót, svona til öryggis og þar með var 2:48 orðið að markmiði.
Trékyllisheiði-Goðdalsá 3,97 km (samtals 11,50 km)
Mér fannst fyrsti spölurinn suður heiðina svolítið erfiður. Þarna var þoka og grjótið óvenjuhart (eða það fannst mér alla vega). Var feginn að ég hafði ekki látið undan freistingunni að fara úr jakkanum þegar mér var óþarflega heitt á fyrstu kílómetrunum niðri í Kjósarlægðum. En ég var svo sem ekki lengi niður að Goðdalsá. Hef farið þetta nokkrum sinnum áður og vissi við hverju var að búast, bæði í undirlagi og vegalengd. Þegar ég nálgaðist drykkjarstöðina við ána var ég næstu búinn að ná Friðriki Þór (sem ég fann seinna út að var sá sem hafði verið á undan mér alla leiðina.) Hann stoppaði ekkert við drykkjarstöðina, þannig að ég ákvað að gera það ekki heldur, öfugt við það sem ég hafði ætlað. Því að þó að ég sé alltaf bara að keppa við sjálfan mig og klukkuna finnst mér alltaf vont að sjá hlaupara fjarlægjast.
Goðdalsáin var vatnsminni en ég hef áður séð og alls enginn farartálmi. Úrið sýndi rétt um 1:20 klst, og þar sem ég vissi að þarna væru rétt um 14 km eftir breytti ég markmiðinu í 2:44 klst. Taldi mig geta klárað þetta á 14×6= 84 mín (1:24 klst). Var kátur með þetta, enda alltaf skemmtilegra að endurstilla markmið á lægri tölu en hærri tölu.
Goðdalsá-Vegamót 5,99 km (samtals 17,49 km)
Goðdalsáin rennur eðli málsins samkvæmt í lægð, sem þýðir að eftir talsverða lækkun norðan við ána (niður í 300 m.y.s.) tekur landið aftur að hækka sunnan við. Hæst fer leiðin aftur í tæpa 400 m sunnar á heiðinni. Ég hef aldrei verið aðdáandi þessarar hækkunar og það var ekkert öðruvísi þennan dag. Enda sá ég Friðrik fjarlægjast aftur smátt og smátt. En ég vissi af gömlu vana að þetta myndi nú samt alveg hafast.
Seinni drykkjarstöðin á leiðinni er við vegamót þar sem slóði liggur af Trékyllisheiðinni út á Bjarnarfjarðarháls. Sá slóði er hlaupinn áleiðis inn á heiðina í styttri útgáfu Trékyllisheiðarhlaupsins („Trékyllisheiðin Mini“ (16,5 km)). Þarna vantar mig staðþekkingu til að geta gefið staðnum annað nafn en Vegamót, en á kortum má sjá að Þrítjarnir eru þarna skammt frá.
Út frá 6 mín meðalreglunni hafði ég gert mér vonir um að ná að drykkjarstöðinni á u.þ.b. 1:56 klst, sem var auðvitað bjartsýni að teknu tilliti til hækkunarinnar. Tíminn var enda kominn í 1:58:33 þegar þangað var komið. Þarna eru um 8 km eftir að hlaupinu – og úr þessu var ég nokkuð viss um að ráða við 6 mín „peisið“, enda nánast allt undan fæti úr þessu – og þokkalega hlaupalegt. Að vísu óttaðist ég aðeins að krampar myndu setja strik í reikninginn undir lokin, rétt eins og gerðist í Pósthlaupinu tveimur vikum fyrr – og gerist reyndar oftar en ekki í keppnishlaupunum mínum ef ég á ekki innistæðu fyrir vegalengdinni. Hana átti ég ekki þennan dag. En alla vega: 1:58 klst. + 48 mín gera 2:46 klst, sem var smá bakslag miðað við síðustu markmiðssetningu, en samt bara allt í lagi.

Vegamót-Bólstaðarvegur 5,82 km (samtals 23,31 km)
Skíðafélagið hafði merkt síðustu kílómetrana rækilega með niðurtalningarspjöldum eins og gjarnan er gert í skíðagöngukeppni. Átta kílómetra spjaldið var rétt eftir drykkjarstöðina – og síðan hvert af öðru. Þetta gladdi mig enda gott fóður í áframhaldandi markmiðsleiðréttingar. Mér fannst stutt á milli spjalda og leið betur en mér hefur lengi liðið í keppnishlaupi. Fátt finnst mér líka betra en hæfilegur niðurhalli á hæfilega mjúku undirlagi. Þessir kílómetrar tóku flestir rúmar 5 mín hver, þannig að við hvern km gat ég skorið hálfa til eina mínútu af markmiðinu. Einhvers staðar í brúninni ofan við Bólstað náði ég Friðriki. Bjóst allt eins við að hitta hann fljótlega aftur þegar kramparnir tækju yfir, en þrátt fyrir að einhverjir kippir væru farnir að gera vart við sig gerðist það aldrei.
Niðri á vegi sýndi klukkan 2:28:31 klst, og þar sem þarna eru bara 2,4 km eftir sá ég fram á að geta klárað á 2,4×6 = 14,4 mín, þ.e.a.s. 14:24 mín. Lokatíminn yrði þá 2:42:55 sem var framar björtustu vonum.
Bólstaðarvegur-Brandsholt („endasprettur“) 2,42 km (samtals 25,73 km)
Ég þarf svo sem ekkert að fjölyrða um þennan síðasta spöl. Hann ætti að vera auðveldur, þar sem þarna er hlaupið eftir greiðfærum malarvegi með sáralitlum hæðarbreytingum, en vissulega getur maður tafist við að vaða yfir Selá. Hún var ótrúlega vatnslítil þennan dag og því enginn farartálmi, en hins vegar brast þarna á talsverður mótvindur eftir að golan hafði verið í bakið nánast alla leið. Þrátt fyrir góða líðan var ég því einhverjum 40 sek lengur en ég hefði kosið að klára þennan kafla og kom í samræmi við það í mark á 2:43:47 klst. (Úrið mitt sýndi aðeins styttri tíma út af seinu starti í Djúpavík). En hvað um það, mér leið vel allan tímann, miklu betur en í 16,5 km hlaupinu í fyrra. Ég var þess vegna nokkuð viss um að seinni hlutinn, þ.e.a.s. frá vegamótunum inn af Bjarnarfjarðarhálsi og í mark, hefði tekið mig eitthvað styttri tíma en í fyrra. Öll slík merki um framfarir eru vel þegin.
Eftir á að hyggja
Þegar ég skoðaði millitímana betur daginn eftir hlaup sá ég að ég hafði reyndar verið einni mínútu lengur en í fyrra frá vegamótunum inn af Bjarnarfjarðarhálsi og í markið, öfugt við það sem ég hafði ímyndað mér. Vissulega var hlaupið í fyrra talsvert styttra (16,5 km í stað tæpra 26 km) en mér leið bara svo miklu betur núna að ég hélt að ég hlyti að hafa verið fljótari með þennan spotta. Í fyrra var ég alveg orkulaus síðustu tvo kílómetrana, en núna var bókstaflega ekkert að mér. Nokkrum dögum seinna sá ég svo að hlaupið mitt þetta árið gaf jafnmörg ITRA-stig og hlaupið í fyrra. Og ég sem hélt að mér hefði gengið miklu betur núna.
Eftir á að hyggja getur það eitt að setja sér hófleg markmið og ná þeim veitt manni miklu meiri gleði en að setja sér háleit markmið og ná þeim ekki – og það þótt lokatíminn sé sá sami í báðum tilvikum (eða ITRA-stigin jafnmörg). En markmiðin verða samt að vera krefjandi til að þau skipti mann einhverju máli. Þarna er meðalvegurinn vandrataður, sem víðar.
Það er alveg óþarfi að búa sér til vonbrigði – og hvað sem lokatímanum líður var þessi laugardagur besti dagurinn minn í hlaupakeppni frá því vorið eða sumarið 2019. Ég var ánægður með sjálfan mig í lok dags, líkaminn alheill og hugurinn bjartsýnn á áframhaldandi framfarir. Þetta var sigur fyrir mig eftir marga mánuði og jafnvel nokkur ár af heldur bágri hlaupaheilsu. Gleðin er ekki endilega mæld í mínútum og ITRA-stigum.

Filed under: Hlaup | Tagged: Trékyllisheiði | 1 Comment »





