• Heimsóknir

    • 126.882 hits
  • ágúst 2023
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Besta hlaupaupplifunin í 4 ár

Með Sonju Sif við rásmarkið í Djúpavík. Skemmtiferðaskip á firðinum og þoka í hlíðum.

Laugardaginn 12. ágúst sl. var Trékyllisheiðarhlaupið haldið í þriðja sinn – og í þriðja sinn var ég meðal þátttakenda. Í þetta skipti var boðið upp á nýja leið, u.þ.b. 26 km frá Djúpavík að skíðaskálanum í Selárdal („Trékyllisheiðin Midi“), nokkurn veginn sömu leið og Þórbergur Þórðarson gekk í framhjágöngunni miklu 30. september 2012, en þessi ganga er líklega þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta. Hlaupið mitt frá Djúpavík umræddan laugardag nær því örugglega ekki að verða þekktasta hlaup íslenskrar hlaupasögu, en þetta var alla vega þægilegasta hlaupið mitt síðan einhvern tímann sumarið 2019. Kannski var árangurinn ekkert sérstakur, svona eftirá að hyggja, en hlaupasælan var á sínum stað og það er mikilvægara.

Undirbúningurinn
Ég ætla ekkert að skrifa um undirbúninginn fyrir þetta hlaup, enda hef ég gert það áður og á örugglega eftir að gera það aftur. En, jú, það hefur verið heldur á brattann að sækja hjá mér í hlaupum síðustu misserin og þó að skrokkurinn sé kominn í nokkuð gott stand eftir langvinn meiðsli þarf hann meiri undirbúning til að standast væntingar þess líkamshluta sem situr efst á beinagrindinni. Og þetta hlaup kallaði svo sem ekki á neinn undirbúning annan en þann sem ég er almennt að brasa við á hlaupaæfingum nokkrum sinnum í viku.

Ræsirinn að útskýra hlaupaleiðina áður en lagt er af stað. (Hún liggur samt ekki upp með fossinum Einbúa sem þarna sést). (Ljósm: Sonja Sif)

Startið í Djúpavík
Hlaupið var ræst beint fyrir utan Hótel Djúpavík kl. 12:00 umræddan laugardag í norðan kalda og í þurru og ekkert allt of köldu veðri. Þoka beið í hlíðum. Ég fór sjálfur með hlutverk ræsis, en ég hef frá upphafi verið Skíðafélagi Strandamanna innan handar við framkvæmd hlaupsins. Ég lagði svo bara af stað í rólegheitunum þegar öll hin fjórtán voru farin og þegar GPS-úrið mitt var búið að finna nógu marga gervihnetti til að tala við. Ég vildi nefnilega að GPS-ferillinn minn yrði nógu réttur til að hægt yrði að hafa not af honum síðar.

Djúpavík-Kúvíkurá 3,39 km
Líta má á leiðina inn frá Djúpavík og upp að Kúvíkurá sem fyrsta áfanga hlaupsins. Þarna liggur leiðin eftir grófum slóða yfir holt og mýrar og er öll heldur á fótinn. Líklega gekk Þórbergur aldrei þennan spotta, þar sem hann lagði að öllum líkindum upp frá Kjós. Þannig sleppur maður við að fara yfir Kúvíkurá þarna í hlíðinni – og Kúvíkurá getur verið viðsjárverð. Hún telst að vísu ekki til stærstu vatnsfalla, en hún er straumhörð og botninn stórgrýttur. Þennan laugardag voru langvarandi þurrkar hins vegar búnir að leika hana svo grátt að hún var varla meira en lækur sem læddist á milli stórra steina – og auðvelt að stikla yfir þurrum fótum.

Ég hafði ekki sett mér nein markmið um millitíma við ána, en þegar þarna var komið sýndi úrið mitt 26:45 mín og ég var kominn framúr sex hægustu hlaupurunum. Næsti maður á undan mér var hins vegar með sæmilegt forskot sem virtist haldast nokkuð jafnt. Mér leið vel. Ákvað að halda áfram á svipuðu álagi áfram upp með ánni og taka svo stöðuna og setja mér einhver markmið þegar ég sæi millitímann á „vegamótunum“ þar sem komið er upp á aðalleiðina (og aðalhlaupaleiðina) suður Trékyllisheiði.

Kúvíkurá-Trékyllisheiði 4,14 km (samtals 7,53 km)
Ég var ekkert sérstaklega fljótur í förum upp með ánni enda eru brekkur ekki í uppáhaldi hjá mér, nema þær snúi hinsegin. En þetta mjakaðist og ég sá næstum alltaf í næsta mann. Reyndar var þokuslæðingur þarna uppi og skyggnið stundum takmarkað. Vegamótin voru samt á sínum stað og þar var búið að setja skilti sem benti til vinstri og skartaði áletruninni „Selárdalur 18 km“. Þarna var millitíminn 58:10 mín og þar með gátu reikniæfingar dagsins byrjað. Þarna er mesta hækkunin að baki og leiðin komin í u.þ.b. 410 m hæð, (fer hæst í u.þ.b. 430 m). Sunnar á heiðinni eru hæðir og lægðir þangað til halla fer niður í Selárdal – og mér fannst raunhæft að ég gæti haldið 6 mín „meðalpeisi“ eftir þetta (6 mín/km). Átján sinnum 6 mín eru 108 mín = 1:48 klst, sem þýddi að miðað við gefnar forsendur ætti ég að geta klárað hlaupið á 2:46 klst. Ég hafði fyrirfram gert ráð fyrir allt að 3 klst, þannig að þetta var bara skemmtilegt. Ákvað reyndar að gefa mér 2 mín í viðbót, svona til öryggis og þar með var 2:48 orðið að markmiði.

Trékyllisheiði-Goðdalsá 3,97 km (samtals 11,50 km)
Mér fannst fyrsti spölurinn suður heiðina svolítið erfiður. Þarna var þoka og grjótið óvenjuhart (eða það fannst mér alla vega). Var feginn að ég hafði ekki látið undan freistingunni að fara úr jakkanum þegar mér var óþarflega heitt á fyrstu kílómetrunum niðri í Kjósarlægðum. En ég var svo sem ekki lengi niður að Goðdalsá. Hef farið þetta nokkrum sinnum áður og vissi við hverju var að búast, bæði í undirlagi og vegalengd. Þegar ég nálgaðist drykkjarstöðina við ána var ég næstu búinn að ná Friðriki Þór (sem ég fann seinna út að var sá sem hafði verið á undan mér alla leiðina.) Hann stoppaði ekkert við drykkjarstöðina, þannig að ég ákvað að gera það ekki heldur, öfugt við það sem ég hafði ætlað. Því að þó að ég sé alltaf bara að keppa við sjálfan mig og klukkuna finnst mér alltaf vont að sjá hlaupara fjarlægjast.

Goðdalsáin var vatnsminni en ég hef áður séð og alls enginn farartálmi. Úrið sýndi rétt um 1:20 klst, og þar sem ég vissi að þarna væru rétt um 14 km eftir breytti ég markmiðinu í 2:44 klst. Taldi mig geta klárað þetta á 14×6= 84 mín (1:24 klst). Var kátur með þetta, enda alltaf skemmtilegra að endurstilla markmið á lægri tölu en hærri tölu.

Goðdalsá-Vegamót 5,99 km (samtals 17,49 km)
Goðdalsáin rennur eðli málsins samkvæmt í lægð, sem þýðir að eftir talsverða lækkun norðan við ána (niður í 300 m.y.s.) tekur landið aftur að hækka sunnan við. Hæst fer leiðin aftur í tæpa 400 m sunnar á heiðinni. Ég hef aldrei verið aðdáandi þessarar hækkunar og það var ekkert öðruvísi þennan dag. Enda sá ég Friðrik fjarlægjast aftur smátt og smátt. En ég vissi af gömlu vana að þetta myndi nú samt alveg hafast.

Seinni drykkjarstöðin á leiðinni er við vegamót þar sem slóði liggur af Trékyllisheiðinni út á Bjarnarfjarðarháls. Sá slóði er hlaupinn áleiðis inn á heiðina í styttri útgáfu Trékyllisheiðarhlaupsins („Trékyllisheiðin Mini“ (16,5 km)). Þarna vantar mig staðþekkingu til að geta gefið staðnum annað nafn en Vegamót, en á kortum má sjá að Þrítjarnir eru þarna skammt frá.

Út frá 6 mín meðalreglunni hafði ég gert mér vonir um að ná að drykkjarstöðinni á u.þ.b. 1:56 klst, sem var auðvitað bjartsýni að teknu tilliti til hækkunarinnar. Tíminn var enda kominn í 1:58:33 þegar þangað var komið. Þarna eru um 8 km eftir að hlaupinu – og úr þessu var ég nokkuð viss um að ráða við 6 mín „peisið“, enda nánast allt undan fæti úr þessu – og þokkalega hlaupalegt. Að vísu óttaðist ég aðeins að krampar myndu setja strik í reikninginn undir lokin, rétt eins og gerðist í Pósthlaupinu tveimur vikum fyrr – og gerist reyndar oftar en ekki í keppnishlaupunum mínum ef ég á ekki innistæðu fyrir vegalengdinni. Hana átti ég ekki þennan dag. En alla vega: 1:58 klst. + 48 mín gera 2:46 klst, sem var smá bakslag miðað við síðustu markmiðssetningu, en samt bara allt í lagi.

Drykkjarstöðin á vegamótunum. (Ljósm. Guðmundur Björn Sigurðsson)

Vegamót-Bólstaðarvegur 5,82 km (samtals 23,31 km)
Skíðafélagið hafði merkt síðustu kílómetrana rækilega með niðurtalningarspjöldum eins og gjarnan er gert í skíðagöngukeppni. Átta kílómetra spjaldið var rétt eftir drykkjarstöðina – og síðan hvert af öðru. Þetta gladdi mig enda gott fóður í áframhaldandi markmiðsleiðréttingar. Mér fannst stutt á milli spjalda og leið betur en mér hefur lengi liðið í keppnishlaupi. Fátt finnst mér líka betra en hæfilegur niðurhalli á hæfilega mjúku undirlagi. Þessir kílómetrar tóku flestir rúmar 5 mín hver, þannig að við hvern km gat ég skorið hálfa til eina mínútu af markmiðinu. Einhvers staðar í brúninni ofan við Bólstað náði ég Friðriki. Bjóst allt eins við að hitta hann fljótlega aftur þegar kramparnir tækju yfir, en þrátt fyrir að einhverjir kippir væru farnir að gera vart við sig gerðist það aldrei.

Í brúninni ofan við Bólstað. (Ljósm. Hrólfur Sigurgeirsson)

Niðri á vegi sýndi klukkan 2:28:31 klst, og þar sem þarna eru bara 2,4 km eftir sá ég fram á að geta klárað á 2,4×6 = 14,4 mín, þ.e.a.s. 14:24 mín. Lokatíminn yrði þá 2:42:55 sem var framar björtustu vonum.

Bólstaðarvegur-Brandsholt („endasprettur“) 2,42 km (samtals 25,73 km)
Ég þarf svo sem ekkert að fjölyrða um þennan síðasta spöl. Hann ætti að vera auðveldur, þar sem þarna er hlaupið eftir greiðfærum malarvegi með sáralitlum hæðarbreytingum, en vissulega getur maður tafist við að vaða yfir Selá. Hún var ótrúlega vatnslítil þennan dag og því enginn farartálmi, en hins vegar brast þarna á talsverður mótvindur eftir að golan hafði verið í bakið nánast alla leið. Þrátt fyrir góða líðan var ég því einhverjum 40 sek lengur en ég hefði kosið að klára þennan kafla og kom í samræmi við það í mark á 2:43:47 klst. (Úrið mitt sýndi aðeins styttri tíma út af seinu starti í Djúpavík). En hvað um það, mér leið vel allan tímann, miklu betur en í 16,5 km hlaupinu í fyrra. Ég var þess vegna nokkuð viss um að seinni hlutinn, þ.e.a.s. frá vegamótunum inn af Bjarnarfjarðarhálsi og í mark, hefði tekið mig eitthvað styttri tíma en í fyrra. Öll slík merki um framfarir eru vel þegin.

Eftir á að hyggja
Þegar ég skoðaði millitímana betur daginn eftir hlaup sá ég að ég hafði reyndar verið einni mínútu lengur en í fyrra frá vegamótunum inn af Bjarnarfjarðarhálsi og í markið, öfugt við það sem ég hafði ímyndað mér. Vissulega var hlaupið í fyrra talsvert styttra (16,5 km í stað tæpra 26 km) en mér leið bara svo miklu betur núna að ég hélt að ég hlyti að hafa verið fljótari með þennan spotta. Í fyrra var ég alveg orkulaus síðustu tvo kílómetrana, en núna var bókstaflega ekkert að mér. Nokkrum dögum seinna sá ég svo að hlaupið mitt þetta árið gaf jafnmörg ITRA-stig og hlaupið í fyrra. Og ég sem hélt að mér hefði gengið miklu betur núna.

Eftir á að hyggja getur það eitt að setja sér hófleg markmið og ná þeim veitt manni miklu meiri gleði en að setja sér háleit markmið og ná þeim ekki – og það þótt lokatíminn sé sá sami í báðum tilvikum (eða ITRA-stigin jafnmörg). En markmiðin verða samt að vera krefjandi til að þau skipti mann einhverju máli. Þarna er meðalvegurinn vandrataður, sem víðar.

Það er alveg óþarfi að búa sér til vonbrigði – og hvað sem lokatímanum líður var þessi laugardagur besti dagurinn minn í hlaupakeppni frá því vorið eða sumarið 2019. Ég var ánægður með sjálfan mig í lok dags, líkaminn alheill og hugurinn bjartsýnn á áframhaldandi framfarir. Þetta var sigur fyrir mig eftir marga mánuði og jafnvel nokkur ár af heldur bágri hlaupaheilsu. Gleðin er ekki endilega mæld í mínútum og ITRA-stigum.

Með Sonju Sif í Selárdal eftir góðan dag á Trékyllisheiði. Við Sonja vorum ferðafélagar í þessari ferð á Strandir, (en hún var talsvert fljótari yfir heiðina).

Bæting í Pósthlaupinu

Síðastliðinn laugardag tók ég þátt í Pósthlaupinu sem nú var haldið í annað sinn. Markmið dagsins var að bæta tímann minn í 26 km útgáfunni frá því fyrra (2:30:35 klst) og í stuttu máli gekk það eftir. Bætingin varð reyndar ekki alveg eins mikil og útlit var fyrir þegar hlaupið var rúmlega hálfnað, en bætingar hafa verið fáar síðustu misserin og því full ástæða til að vera sáttur. Laugardagurinn fól í sér staðfestingu á því að ég væri kominn vel áleiðis með að vinna mig út úr meiðslum sem hafa truflað hlaupin mín síðan í febrúar eða mars á síðasta ári. Það er stór áfangi.

Forsaga málsins
Allar hlaupaæfingarnar mínar frá því um áramót hafa miðað að því að koma mér aftur í hlaupafært stand eftir meiðsli. Umrædd meiðsli eiga að öllum líkindum upptök sín neðst í bakinu, þó að einkennin hafa aðallega komið fram í hnjánum og í framanverðu vinstra læri. Stóran hluta síðasta árs var ég svo verkjaður að ég gat ekki hlaupið yfir götu á gangbraut nema vera búinn að hita vel upp áður. Ég þrjóskaðist samt við og reyndi að halda sjó í hlaupaæfingum og mætti meira að segja í þrjú keppnishlaup síðasta sumar (þ.á m. Pósthlaupið) (eðlilega með frekar litlum árangri á minn mælikvarða). Í byrjun október áttaði ég mig loks á því að ég gæti ekki haldið áfram á sömu braut. Enginn gat í rauninni sagt mér hver rétta brautin væri, nema hvað ólíklegt var talið að áframhaldandi hlaupaæfingar myndu gera stöðuna verri.

Tólf vikna hlaupabann
Í byrjun október 2022 tók ég ákvörðun. Annars vegar setti ég sjálfan mig í 12 vikna bann frá hlaupaæfingum og hins vegar jók ég tíðni styrktaræfinga verulega með aðaláherslu á léttar æfingar fyrir vöðvana sem halda hnjánum stöðugum (aðallega framlærisvöðva). Skrifa kannski meira seinna um þær pælingar og þær æfingar. Einhvern tímann í desember fann ég að ég gat skokkað nokkur skref án verkja og 29. desember lauk hlaupabanninu með fyrsta útihlaupinu í 12 vikur. Síðan þá hefur leiðin legið upp á við, með smáhlykkjum.

Hlaupaformúlan
Hlaupaæfingarnar frá því um áramót hafa verið ólíkar öllum mínum æfingum síðustu 50 árin. Ég lagðist sem sagt ofan í bók Jack Daniels, Running Formula, og fann þar áætlun sem ég taldi við hæfi miðað við ástand mitt á þeim tíma. Síðan þá hef ég eiginlega aldrei hlaupið lengra en 10 km í einu og rólegt skokk (með púls undir 130) hefur verið uppistaðan í flestum æfingum, þó þannig að pláss væri fyrir tvo hraðari æfingakafla í hverri viku. Og allt þetta hefur verið kryddað með stuttum stílsprettum sem eru samtals orðnir á að giska 200-250 talsins frá áramótum. Löngu helgarhlaupin hafa verið í fríi og engin áhersla hefur verið lögð á hæðarmetra. Í rauninni hafa þetta ekki verið eiginlegar hlaupaæfingar, heldur fyrst og fremst grunnæfingar til undirbúnings markvissari hlaupaæfingum. Frá því í maí hef ég þó leyft sjálfum mér að gera eitthvað annað endrum og sinnum, t.d. farið aðeins lengri túra með hlaupafélögunum, skroppið á Hafnarfjallið og skrölt yfir nokkra fjallvegi. Ég hef verið með einhverja verki á flestum hlaupaæfingum ársins, aðallega neðst í framanverðu vinstra læri, en þeir hafa minnkað smátt og smátt eftir því sem liðið hefur á vorið og sumarið.

Í leit að staðfestingu
Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að ég undirbjó mig ekkert sérstaklega fyrir Pósthlaupið, enda stóð svo sem ekki til að ég tæki þátt í því. Ákvörðun þar um var ekki tekin fyrr en einum og hálfum sólarhring fyrir hlaup, eftir að ég kom auga á tækifæri til að njóta dagsins í góðum félagsskap. Hlaup snúast nefnilega ekki bara um að hreyfa fæturna til skiptis, heldur líka um að hitta fólk. Um leið og ákvörðun var tekin fann ég að Pósthlaupið myndi verða góður prófsteinn á það sem ég hef verið að bauka í hlaupaskónum frá því um áramót, ekki síst vegna þess að ég hljóp þetta sama hlaup um svipað leyti í fyrra, meiddur en líklega í betra langhlaupaformi en núna. Bæting á milli ára, jafnvel þótt hún yrði smávægileg, væri vísbending um að breyttar áherslur í æfingum hefðu skilað árangri.

Hlaupið sjálft
Hlaupið var, rétt eins og í fyrra, ræst við Kirkjufellsrétt í Haukadal. Sól skein í heiði, vindáttin var norðaustlæg og hitastigið líklega nálægt 12°C, sem sagt kjöraðstæður. Í raun skiptist þetta hlaup alveg í tvo ólíka kafla. Fyrri kaflinn er hlaupinn eftir veginum niður dalinn og inn á aðalveginn norðvestan við brúna yfir Haukadalsá. Þangað eru u.þ.b. 16,06 km. Seinni kaflinn liggur svo eftir reiðvegum og stígum alla leið í Búðardal, samtals hátt í 11 km.

Hlaupið eftir tilfinningunni
Ég náði að hita upp eins og mér finnst best (örfáar hreyfiteygjur, létt skokk (t.d. u.þ.b. 2 km) og fáeinar hraðaaukingar). Svo var hlaupið ræst. Ég var ákveðinn í að fylgjast ekkert með klukkunni fyrstu kílómetrana og láta tilfinninguna ráða för. Þannig finnst mér auðveldast að njóta þess að vera til, en á móti kemur að ég á það til að vera einum of kærulaus í því ástandi. Í keppnishlaupum er þó síður hætta á því, þar sem ég hef tilhneigingu til að fljóta með fjöldanum og reyna að dragast ekki mikið aftur úr. Ég var sem sagt ákveðinn í að líta aldrei á klukkuna (hvorki hraða né púls) fyrr en ég væri kominn niður að Haukadalsvatni. Þangað minnti mig að væru um 8 km.

Þessi þægilega gleði
Mér leið vel þessa fyrstu kílómetra, fann hvergi til og fannst ég bara „rúlla ágætlega“. Mundi að millitíminn minn niðri á aðalveginum í fyrra var 1:25:05 klst (5:19 mín/km) og því bjóst ég við að ef meðalhraðinn niður að vatninu væri dálítið umfram það ætti ég góða möguleika á að ná markmiði dagsins. Það kom því þægilega á óvart að sjá töluna 4:49 mín/km við norðausturhorn vatnsins – og í þokkabót var ég þá búinn með næstum 10 km en ekki bara 8. Eitthvað myndi sjálfsagt hægjast á mér neðst í dalnum, enda meira um mishæðir þar, en samt leit þetta bara mjög vel út.

Þriggja og hálfrar mínútu forskot
Til að gera langa sögu stutta var millitíminn niðri á vegi 1:21:36 klst (5:05 mín/km). Þarna var ég sem sagt kominn með u.þ.b. 3,5 mín forskot miðað við hlaupið í fyrra. Eftir á að hyggja hafði ég hlaupið alla kílómetrana hraðar en síðast, að frátöldum 14. kílómetranum þar sem ég dvaldi helst til lengi á drykkjarstöð. Þessu forskoti var ég staðráðinn í að halda, enda búið að lagfæra erfiðasta hluta leiðarinnar framundan töluvert (u.þ.b. 2,7 km að Þorbergsstöðum). Það sem í fyrra var snarrótarkargi og sinuflóki var nú búið að slétta og lagfæra. Þetta átti sem sagt ekki að geta klikkað.

Að sakna hvorki snarrótar né sinu
Lagfæringarnar voru svo sannarlega til bóta fyrir mig. Eftir u.þ.b. 18,8 km liggur leiðin aftur yfir aðalveginn við Þorbergsstaði og þar var millitíminn orðinn 5:05 mín betri en í fyrra, þ.e. 1:37:41 klst. Þessar tölur mundi ég reyndar ekki þarna á staðnum, en mér leið vel og var bjartsýnn.

Í götuskóm á lausum vegi
Eftir að komið er yfir aðalveginn við Þorbergsstaði tekur við laus reiðvegur, heldur á fótinn til að byrja með. Ég hafði ákveðið að hlaupa þetta hlaup á götuskóm, ólíkt því sem ég gerði í fyrra. Kannski hefðu utanvegaskórnir verið betri þarna, en almennt held ég þó að skóvalið hafi verið rétt. Þetta er ekki langur kafli.

20 km og eintóm gleði
Mér fannst mér miða hægt þarna á reiðveginum – og einhverjir hlauparar tóku að síga framúr. Mér var reyndar alveg sama um það, enda er ég yfirleitt ekki að keppa við neinn nema sjálfan mig og klukkuna. Eftir á að hyggja var ég þó enn að auka forskotið og var líklega kominn með það í u.þ.b. 5:40 mín þegar u.þ.b. 20 km voru að baki og hæsta punkti reiðvegarins náð. Framundan voru síðustu 7 kílómetrarnir, að mestu undan fæti – og eintóm gleði.

Krampar í úrvali
Til að gera langa sögu stutta gekk síðasti hluti hlaupsins mun verr en í fyrra, öfugt við það sem ég reiknaði með í bjartsýninni þarna á reiðveginum. Þarna voru krampar aðeins farnir að gera vart við sig í kálfunum og í því ástandi verður maður ragur við að hlaupa hratt niður í móti. Þetta versnaði smátt og smátt og þegar ég var kominn niður í fjöruna hjá Búðardal með u.þ.b. 2 km eftir var staðan orðin frekar slæm. Í fjörunni er mikið um mishæðir sem henta illa við þessar aðstæður – og þar var ég farinn að ganga nokkur skref inn á milli. Steininn tók svo úr á lokasprettinum þar sem krampar heltóku annað lærið og ég varð að bíða þá af mér áður en ég gat klárað hlaupið. Lokatíminn var 2:29:59 klst, sem sagt bara 36 sek betri en í fyrra. Þar inn í blandast reyndar að lokakaflanum var breytt á milli ára þannig að hlaupið var u.þ.b. 300 m lengra núna en þá (26,75 km í stað 26,44 km skv. Garminúrinu mínu). Tíminn minn eftir 26,44 km var 2:27:45 klst, þannig að ég get svo haldið því fram að ég hafi bætt mig um 2:50 mín á milli ára. Markmiðinu var sem sagt náð þrátt fyrir erfiðar stundir í lokin.

Hvað klikkaði?
Ekkert klikkaði og ég fann aldrei fyrir verkjum. Vissulega varð bætingin ekki eins mikil og útlit var fyrir um tíma, en æfingarnar síðustu mánuði hafa jú bara gengið út á að koma heilsunni í lag og byggja grunn. Þær hafa alls ekki snúist um að safna „kílómetrum í lappirnar“ eins og maður þarf að gera til að þola að hlaupa á tiltölulega miklu álagi í tvo klukkutíma eða meira. Fyrstu 20 kílómetrarnir gengu eins og í sögu, en eftir það gekk mér illa að ráða við krampana. Svona krampar geta átt sér margar skýringar, en ég held að í mínu tilviki stafi þeir oftast af því að taugar og vöðvar hafi ekki fengið þjálfun í að vinna undir álagi í nógu langan tíma. Allan þann tíma sem hlaupið stendur eru taugarnar að flytja vöðvunum í fótunum skilaboð – til skiptis um að dragast saman eða slaka á, (styttast eða lengjast). Svona krömpum má líka við stefnuljós, þar sem boð berast til skiptis um að kveikja ljósið eða slökkva það. Á einhverjum tímapunkti er mögulegt að kerfið hætti að ráða við boðin, þannig að stefnuljósið logi nánast stöðugt.

Loksins aftur
Það besta sem ég upplifði í Pósthlaupinu (að frátöldum endurfundum með hlaupavinum) var undrunartilfinningin þegar ég leit fyrst á klukkuna við Haukadalsvatn og sá að ég var á miklu betri tíma þar en ég hafði búist við. Þessa tilfinningu hef ég ekki fundið lengi – og líklega á einmitt þessi tilfinning stóran þátt í allri þeirri hlaupagleði sem ég hef svo oft fengið að njóta síðustu áratugi. Í seinni tíð hefur borið meira á vonbrigðum yfir því að vera hægari en ég hélt.

Ekki gefast upp!
Það sem eftir stendur er fyrst og fremst gleðin yfir því að vita að enn sé hægt að snúa hlaupaheilsunni sér í hag. Ég held að margt hlaupafólk á mínum aldri hafi tilhneigingu til að „kasta inn handklæðinu“ þegar meiðsli, sem sjálfsagt eru oft aldurstengd, gera því erfitt fyrir að stunda áhugamálið sitt. En uppgjöf er alltaf ávísun á vandræði. Eða eins og það er orðað í sænsku orðatiltæki: „Vissa dagar vill man bara kasta in handduken. Men så inser man att det bara blir mer tvätt“.

Ég hlakka til næstu hlaupa!

Í Búðardal með hlaupavinum úr Hlaupaklúbbnum Flandra að Pósthlaupinu loknu. Sigrún Sigurðardóttir vann 50 km hlaupið með miklum yfirburðum og varð á undan öllum körlunum! Og Heiðrún Harpa Marteinsdóttir bætti sig um heilar 5 mínútur í 26 km hlaupinu. (Ljósm.: Snæbjörn Eyjólfsson).