Enn held ég uppteknum hætti að skrifa einhvers konar áramótauppgjör að nýliðnu hlaupaári, (eða að tiltölulega nýliðnu hlaupaári). Ég hef reyndar stundum verið spenntari fyrir þessu ritunarverkefni en núna, sem endurspeglar einfaldlega þá tilfinningu að nýliðið ár hafi verið erfitt hlaupaár og að talsverð óvissa ríki um hvað nýtt hlaupaár muni bera í skauti sér. Þessi hlaupaannáll er sá 16. í röðinni, þannig að bráðum fer þetta líklega að fylla heila bók. Sú bók yrði þó tilbreytingarlítil aflestrar, þar sem pistlarnir eru frekar líkir hver öðrum.
Í stuttu máli
Hlaupaárið 2022 byrjaði bara nokkuð vel. Ég hafði þá verið að stækka vikuskammtana smátt og smátt frá því seint í október og var kominn í 45 km/viku um áramót. Reiknaði með að halda áfram á svipuðum nótum og vera kominn í 70 km seint í febrúar. Það fór þó á annan veg, því að í byrjun febrúar fékk ég einhverja slæmsku í bakið sem sló mig talsvert út af laginu. Í byrjun mars fór ég svo að finna til innanvert í hægra hnénu og sá kvilli fylgdi mér nánast út árið og kom í veg fyrir markvissar æfingar og framfarir. Við tóku 8 mánuðir þar sem hlaupaæfingar lituðust af verkjum og takmarkaðri hlaupagetu. Ég komst þó í gegnum þrjú keppnishlaup um sumarið og átti nokkrar góðar stundir í fjallvegahlaupum, þó að líkamlegt form væri þá orðið það slakasta í áraraðir. Um haustið hélt ég uppteknum hætti, allt þar til ég áttaði mig á því í byrjun október að eitthvað þyrfti að breytast. Þá ákvað ég að taka mér 12 vikna frí frá hlaupum og setja allt mitt traust á styrktaræfingar. Það virkaði vel og einhvern tímann í byrjun desember var ég hættur að finna til í hnénu. Þann 29. desember voru 12 vikurnar liðnar og ég náði að ljúka hlaupaárinu með tveimur verkjalausum hlaupum, að vísu mjög hægum, og gat tekið bjartsýnn á móti nýju ári.
Æfingarnar 2022
Eins og fyrr segir byrjaði árið vel og janúar gekk áfallalaust fyrir sig. Ég náði m.a. að hlaupa þrjá Háfslækjarhringi í góðum félagsskap og náði tvisvar upp á topp á Hafnarfjallinu. Hafði aldrei áður heimsótt toppinn í janúar. Reyndar fannst mér ég alltaf heldur þungur, sérstaklega í brekkum. Samtals hljóp ég 208 km í mánuðinum – og þegar upp var staðið reyndist þetta lengsti mánuður árisns. Þann 9. febrúar byrjaði svo eitthvert vesen í bakinu á mér, sem leiddi niður í vinstri nára og niður framanvert vinstra lærið. Ég gat svo sem hlaupið eftir sem áður, en næstu þrjár vikur svaf ég lítið fyrir verkjum. Svoleiðis tekur sinn toll og þessar vikur hljóp ég lítið sem ekkert. Þann 1. mars skrifaði ég eftirfarandi á Strava eftir 8 km skokk um heimabyggðina á Hvanneyri:
Staðan er enn slæm. En ég get alveg hlaupið þegar bugunin víkur frá mér smástund. Þetta skokk var t.d. eintóm gleði, enda skein sólin til að byrja með og frosinn klaki brakaði undan nöglunum í skónum. Þessar þrjár vikur orsaka líklega 6-7 vikna seinkun í æfingaferlinu, en fregnir af andláti og útför komandi hlaupasumars eru stórlega ýktar.
Staðan versnaði svo enn frekar 12. mars í frekar löngu æfingarhlaupi. Reyndar leit þetta sakleysislega út til að byrja með:
Eitthvað slæmur innanvert í hægra hné líka, sem er óvenjulegt.
Þetta hnjávesen, sem virtist sakleysislegt í byrjun, átti eftir að fylgja mér næstum til áramóta og gerði það að verkum að ég náði aldrei að æfa almennilega og gat hvorki hlaupið langt né hratt, þrátt fyrir næstum óteljandi tíma hjá Halldóru sjúkraþjálfara og Guttormi naprapata. Þau voru bæði sammála um að vandamálið væri ekki í liðnum sjálfum, heldur hlyti það að liggja í aðliggjandi vöðvum og sinum. Halldóra taldi vandamálið vera þar sem liðbandið innan á hnénu festist á brjóskið. Guttormur sagði að orsökin lægi í bakinu. Segulómun hefði verið gagnleg til að greina vandann af meiri nákvæmni, en á þessum tíma var margra vikna bið eftir tíma hjá heilsugæslulækni og engin leið að komast í segulómum án þess að byrja þar.
Næstu tvær vikur hljóp ég næstum ekki neitt en lét mig svo hafa það eftir hvatningu frá Guttormi sem sagði að þetta væru „sterkir strúktúrar“ og að ég væri ekki að fara að skemma neitt. Enda skemmdist ekki neitt þótt ég hlypi, var bara „vont allan tímann, en gerlegt“, eins og ég skrifaði á Strava í lok mánaðarins. Apríl og maí voru svipaðir, ég var sæmilega duglegur að taka styrktaræfingar og fannst þær skila einhverju. En hnéð var samt alltaf svipað. Yfirskriftir hlaupaæfinganna minna á Strava bera vott um það, t.d. „Kvalræðisskokk“, „Já, neinei“, „Smávegis vonbrigðaskokk“, „Leitað að léttleika“ og „Einn af þessum dögum“. Seint í apríl tók ég mér algjört frí frá hlaupum í þrjár vikur. Þá var staðan orðin svo slæm að ég gat með harmkvælum skokkað á 7 mín/km. En hléið skilaði svo sem engu. Var kannski aðeins skárri á fyrstu æfingunni eftir hlé, en svo sótti allt í sama farið. Þegar þarna var komið sögu skráði ég mig úr Laugaveginum og einhverjum fleiri hlaupum sem ég hafði skráð mig í.
Seint í júní komst ég loks í segulómun. Niðurstöðurnar pössuðu vel við það sem áður hafði komið fram; liðurinn sjálfur var fínn, en smávegis bólga (tendinitis) í liðbandinu innan á hnénu.
Júlí og ágúst voru bestu hlaupamánuðir ársins. Hnéð var reyndar alltaf með vesen en mér tókst samt að renna nokkuð þægilega í gegnum fimm fjallvegahlaup, enda álagið þar oftast frekar lítið. Tók líka þátt í þremur keppnishlaupum utanvega; ekki af því að mér fyndist ég í standi til þess, heldur vegna þess að mér hafði verið boðið eða að ég hafði tekið einhvern þátt í undirbúningnum og fannst þess vegna tilheyra að vera með.
Um 20. ágúst var ég búinn að átta mig á að ekki yrðu unnin frekari afrek þetta sumarið. Því ákvað ég að byrja undirbúning fyrir frábært hlaupasumar 2023, sem fólst aðallega í að taka miklu fleiri styrktaræfingar en áður. Ofast tók ég þessar æfingar heima, þær byrjuðu yfirleit upp í rúmi um leið og ég var vaknaður á morgnana og tóku allt niður í 10 mínútur. Með þessu tók ég svo hlaupaæfingar annað slagið og reyndi m.a. að mæta á Flandraæfingar þegar þær voru byrjaðar í byrjun september.
Eftir góða en sársaukafulla Flandraæfingu 6. október varð mér loksins ljóst að tilgangslaust væri að halda áfram svona, hnéð var alltaf svipað – og stundum verra. Lengst af hafði ég gengið út frá því að hlaupin skemmdu ekki neitt, en samt var ég alltaf verstur daginn eftir hlaup sem voru meira en í meðallagi erfið. Ég tók því yfirvegaða ákvörðun um 12 vikna hlaupabann sem skyldi gilda til 29. desember. Bætti þess í stað enn í styrktaræfingarnar og frá og með 21. nóvember tók ég æfingu á hverjum einasta degi til áramóta. Fór líka smátt og smátt að taka örstuttar hlaupaæfingar á brettinu í bílskúrnum í mesta fáanlega halla og fann þá merkilegt nokk aldrei til í hnénu. Síðan fór ég líka að labba afturábak uppímóti á brettinu að ráði Þorkels frumburðar, sem hefur kynnst ýmsu í sambandi við íþróttameiðsli og hlaupaþjálfun.

Í byrjun nóvember datt Halldóru sjúkraþjálfara í hug að mæla styrkinn í vöðvunum framan (quadriceps) og aftan (hamstring) á lærunum til að leita að misræmi. Fyrsta mælingin var gerð 4. nóvember og sýndi afdráttarlausa niðurstöðu: Framlærisvöðvarnir hægra megin reyndust sem sagt 15% máttlausari en vinstra megin, en aftan á lærunum snerist dæmið við. Þar var vinstri 25% máttlausari en hægri. Þetta rímaði mjög vel við einkennin, þ.e.a.s. verk innan á hægra hné og stíft framlæri vinstra megin. Eftir þetta breytti ég styrktaræfingunum þannig að þar væri aðalaáherslan á að styrkja veikari svæðin (hægri fram og vinstri aftur) á meðan sterkari hlutarnir voru nánast í fríi. Sex vikum síðar höfðu veikari svæðin styrkst um 36-49% en hin nánast staðið í stað. Ég tók þetta sem sönnun á gagnsemi tíðu styrktaræfinganna minna, jafnvel þótt þær væru næstum allar gerðar heima og án þyngda. Um leið fylltist ég bjartsýni á framhaldið.
Einhvern tímann snemma í desember var hnéð alveg hætt að angra mig og þann 29. des. lauk 12 vikna hlaupabanninu. Þann dag hoppaði ég inn í hlaupaprógamm frá Jack Daniels með miklu hægari hlaupum en ég hef nokkurn tímann nennt að stunda, næstum allt miðað við að halda púlsinum undir ákveðnu marki, í mínu tilviki t.d. undir 130 slög/mínútu. Fyrsta æfingin var framkvæmd í 18 stiga frosti, en gleðin yfir því að vera byrjaður aftur gerði miklu meira en að vega upp á móti kuldanum. Fann ekkert til í hægra hnénu, en var stífur framanvert í vinstra lærinu. Sá stífleiki hafði fylgt mér nánast allt árið og var farinn að venjast. Eftir þessa æfingu skrifaði ég:
Formið náttúrulega alveg farið, en það kemur fljótt ef skrokkurinn gefur mér frið til að æfa. Stígandi næstu vikna verður hægur, en ef allt gengur vel ætti grunnurinn að vera orðinn nógu góður í byrjun maí til að ég geti byrjað að æfa af einhverju viti.
Og þar með lauk þessu ári. Samanlögð hlaupavegalengd varð ekki nema 1.150 km, sem er það stysta síðan 2006 að bakmeiðslaárinu 2018 frátöldu. En ætli leiðin liggi ekki bara upp á við héðan? Alla vega var ég bjartsýnn á framhaldið í lok árs og ánægður með að hafa fundið mér nýja nálgun fyrir hlaupaæfingarnar. Og styrktaræfingarnar halda áfram. Þar er enn misræmi sem ástæða er til að leiðrétta – og svo verður fróðlegt að mæla styrkinn í þriðja sinn, t.d. í febrúar.
Keppnishlaupin
Þegar leið að vori vissi ég að keppnishlaupin yrðu hlaupin meira af vilja en mætti þetta árið. Í samræmi við það tók ég bara þátt í þremur hlaupum, sem mér var annað hvort boðið í eða sem tengdust mér á annan hátt. Ég taldi mig fara í þessi hlaup með raunhæfar væntingar, en í hreinskilni sagt kom mér á óvart hversu lítil getan var orðin eftir langvarandi meiðslavesen og takmarkaðar æfingar. Árangurinn var sem sagt undir þessum „raunhæfu væntingum“, sem voru vonbrigði út af fyrir sig. Þakklætið fyrir að geta samt verið með í þessum hlaupum var samt alltaf ofar í huganum en vonbrigðin.
Líðanin í þessum hlaupum og eftir þau fékk mig til að hugsa enn meira en áður um þessa fínu línu á milli þess að sætta sig við alla uppskeru hversu lítil sem hún er og þess að finna til óánægju þegar uppskeran er undir væntingum. Kannski skrifa ég langan pistil um þessa fínu línu einhvern tímann seinna, en í stuttu máli finnst mér samfélagið gera einum of mikla kröfu um að fólk á mínum aldri hætti að setja sér markmið og sé bara endalaust þakklátt fyrir að geta eitthvað. Fólk á mínum aldri er orðið hálfsjötugt og þarf auðvitað að gera sér grein fyrir að það getur ekki náð sama árangri í líkamlegum kúnstum á borð við hlaup eins og það náði fyrir nokkrum árum eða áratugum. Vissulega er ég innilega þakklátur fyrir að geta enn, svona oftast nær, hlaupið allmarga kílómetra þegar mig langar til og verið fljótari að því en flestir á mínu reki. Og vissulega eru markmiðin mín orðin allt önnur en þau voru. En hvað sem „mínum aldri“ líður ætla ég að halda áfram að setja mér markmið og verða pínulítið svekktur ef ég næ þeim ekki, svona um leið og ég passa mig að vera „rólegur á vanþakklætinu“ eins og ég kýs að kalla það. Um leið og maður hættir að setja sér markmið og um leið og maður er óendanlega glaður yfir öllum árangri sem maður nær, bara vegna þess að maður er kominn á einhvern tiltekinn aldur, byrjar niðurleiðin að verða brött.
Það varð sem sagt ekkert úr því að ég „hefndi mín“ á Henglinum og Vörðuskeggja, eins og ég var staðráðinn í að gera eftir svaðilförina á þeim slóðum vorið 2021. Fyrsta keppnishlaupið mitt sumarið 2022 var Dyrfjallahlaupið (24 km) 9. júlí, en því gat ég einfaldlega ekki sleppt. Eins og ég skrifaði í bloggpistli eftir hlaup er náttúran þarna fyrir austan „einfaldlega of stórkostleg til að njóta hennar ekki – og yfirbragðið á hlaupinu […] líka einhvern veginn þannig að manni getur ekki annað en liðið vel í sálinni, þó að líkaminn sé kannski frekar þvældur„. Í stuttu máli varð þetta stórskemmtilegur dagur. Sjálfur aðdragandinn var líka skemmtilegur, m.a. vegna þess að þar slóst ég í för með Jósepi Magnússyni, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi, sem er „ekki bara einn af öflugustu og reyndustu langhlaupurum landsins, heldur […] líka talsvert lausari við áhyggjur og smámunasemi en annað fólk„. Ég slóst reyndar ekkert í för með honum í hlaupinu sjálfu, enda náði hann fjórða sæti, var rúmum klukkutíma á undan mér í mark og þegar hann sótti mig að hlaupi loknu var hann búinn að skokka 11 km lengst inn í sveit til að ná í bílinn sinn sem hann hafði skilið eftir hjá rásmarkinu. Fyrirfram hafði ég vonast til að geta klárað hlaupið á svo sem korteri lengri tíma en árið áður, en þegar upp var staðið höfðu 10 mínútur bæst þar ofan á. Lokatíminn var 3:10:54 klst, sem skilaði mér í 46. sæti af 115 manns sem luku hlaupinu. Einhver spurði mig hvort ég hefði ekki unnið minn aldursflokk. Það getur svo sem vel verið. Alla vega var ég langelsti þátttakandinn í hlaupinu. Og ég var bara hæstánægður með þetta allt saman – og enn ánægðari þegar Sara tengdadóttir kom í markið rétt á eftir mér. Þátttaka og nærvera fólks úr fjölskyldunni gerir allt betra!
(Myndina efst í þessum pistli tók Þorsteinn Roy Jóhannsson í Dyrfjallahlaupinu, þegar ég var að koma af Víknaheiði niður í Breiðuvík, sæmilega brattur).
Næsta keppnishlaup var Pósthlaupið vestur í Dölum 6. ágúst. Lengsta hlaupið var 50 km spotti frá Staðarskála að Búðardal – og auðvitað langaði mig til að geta hlaupið alla þá leið. En ég vissi að sú vegalengd var handan skynsemismarka og lét mér því nægja að taka síðustu 26 kílómetrana ofan úr Haukadal. Ég var staddur á Hólmavík helgina sem hlaupið fór fram og ók þaðan í Dalina með Birki bónda í Tröllatungu, sem hefur verið einn minn allra besti hlaupafélagi síðustu 15 árin. Sá félagsskapur bætti gleði við daginn, sem þó var gleðilegur fyrir. Fyrstu 16 km voru hlaupnir eftir vegi og á þeim kafla gekk mér bara vel og náði að halda meðalhraða upp á 5:19 mín/km, kannski aðeins hægar en ég ætlaði en samt allt í lagi. Síðustu 10 km voru hins vegar miklu erfiðari, bæði vegna þess að undirlagið var erfiðara og vegna þess að ég var eðlilega ekki í neinu formi fyrir löng hlaup. En þetta var samt gaman! Ég komst alheill og glaður í markið á 2:30:35 klst, í 11. sæti af 35 keppendum, á u.þ.b. 12 mínútum lengri tíma en ég hafði gert mér vonir um, en líkaminn skemmdist ekki neitt og veðrið var gott. Og aftur var ég elsti keppandinn. Er fullorðið fólk bara alveg hætt að mæta í svona hlaup, eða hvað!?
Ég get reyndar ekki sagt skilið við Pósthlaupið án þess að minnast á móttökurnar og gleðina við marklínuna í Búðardal. Þar var gleði, gestrisni og sólskin í hverju augnabliki.
Þriðja og síðasta keppnishlaup sumarsins var svo Trékyllisheiðin 13. ágúst. Þar langaði mig auðvitað að hlaupa alla leið úr Trékyllisvík til Steingrímsfjarðar (48 km) eins og árið áður, en eðlilega varð styttra hlaupið, 16,5 km af Bjarnarfjarðarhálsi niður í Selárdal, að duga. Reyndar fékk ég tækifæri til að skreppa norður í Trékyllisvík að morgni hlaupadags til að ræsa lengra hlaupið. Sú ferð gerði daginn bara eftirminnilegri og spillti á engan hátt fyrir. Styttra hlaupið var svo ræst á Bjarnarfjarðarhálsi kl. 13:00. Keppendurnir voru 32 talsins og ég átti von á að verða rétt framan við miðju. Lengi framan af var ég samt í 4. sæti í hlaupinu og þegar ég leit til baka eftir nokkra kílómetra sá ég ekkert til mannaferða. Það fannst mér alveg stórundarlegt.
Í þessu hlaupi var ég auðvitað með einhverja áætlun, eins og í öllum öðrum hlaupum. Mig langaði sem sagt að vera í mesta lagi 1:30 klst að klára hlaupið og til þess fannst mér líklegt að ég þyrfti að klára fyrri hlutann undir 50 mín. Þessi fyrri hluti voru 8,4 km að drykkjarstöð á vegamótunum við aðal-Trékyllisheiðarleiðina, inn af Sunndal. Þaðan voru svo 8,2 km í mark, sem ég taldi að ætti að taka u.þ.b. 10 mín styttri tíma.
Nokkru áður en ég kom að drykkjarstöðinni sá ég að ég var ekki lengur alveg einn því að Inga Dísa, ein af mínum bestu hlaupafélögunum, var farin að draga verulega á mig. Við drykkjarstöðina sýndi klukkan 52:03 mín og þá vissi ég að allt tal um „sub-1:30“ var orðið óraunhæft, þó að vissulega væri seinniparturinn undan fæti. Ég lét drykkina á stöðinni eiga sig, enda að mínu mati óþarft að nærast í hlaupi sem tekur langt innan við tvo tíma. Inga Dísa staldraði hins vegar eitthvað við og ég var aftur orðinn einn í 4. sætinu.
Ferðalagið niður af heiðinni gekk bara ágætlega, en meiðslin mín gerðu það samt að verkum að ég gat ekki beinlínis „bombað“ niður brekkurnar. Inga Dísa dró á mig smátt og smátt og skildi mig svo eftir þegar við komum upp úr Selánni og áttum 1200 m eftir í mark. Ég var ekki beinlínis þreyttur á þessum kafla, en annað hvort voru vöðvarnir í fótunum hættir að taka við taugaboðum eða skildu þau ekki. Allt varð blýþungt, en þetta hafðist nú samt og lokatíminn varð 1:36:04 klst. Það dugði í 3. sæti hjá körlum og 5. sæti alls.
Auðvitað langar mig til að geta hlaupið miklu hraðar en ég gerði þennan dag, en ég var samt hæstánægður með þetta allt saman. Og samveran og veitingarnar á marksvæðinu gerðu góðan dag enn betri.

ITRA-stigin
Ég hef tekið sérstöku ástfóstri við styrkleikalista Alþjóðautanvegahlaupasambandsins (ITRA (International Trail Running Association)), enda nýtist hann mér einkar vel til að setja mér markmið í utanvegahlaupum – og gerir um leið mögulegt að bera hlaupin saman hvert við annað. Í ársbyrjun var ég með 586 ITRA-stig, en stigafjöldinn reiknast út frá vegnu meðaltali fimm bestu ITRA-hlaupa síðustu 36 mánuði. Og helst vil ég náttúrulega ekki lækka mikið í stigum á milli ára. Keppnishlaup ársins hjálpuðu mér ekkert í þeirri viðleitni. Dyrfjallahlaupið gaf 502 stig, Pósthlaupið 521 stig og Trékyllisheiðin 510 stig, allt sem sagt býsna svipað. Það vill hins vegar svo vel til að besta hlaup síðustu 36 mánaða vegur þyngst í meðaltalinu og þess vegna lækkaði stigatalan mín bara niður í 583 stig þrátt fyrir risjótt gengi hvað þetta varðar. Í fyrra fékk ég 604 stig út úr Dyrfjallahlaupinu og „lifi“ á því enn. Árið 2024 má ég hins vegar búast við verulegri lækkun ef ekkert verður að gert, því að þá dettur þetta hlaup út af 36 mánaða listanum.
Skemmtihlaupin
Hið hér um bil árlega Uppstigningardagshlaup var hlaupið 26. maí, en síðan árið 2010 höfum við hjónin boðið í hálfmaraþon og mat á uppstigningardag ár hvert (að árinu 2021 frátöldu). Hingað til hefur hlaupaleiðin alltaf verið hinn sívinsæli Háfslækjarhringur með upphaf og endi í Borgarnesi, en nú lá leiðin um nágrenni Hvanneyrar þangað sem við hjónin fluttum haustið 2021. Nú var sem sagt hlaupið „niður í Land“ eins og heimamenn kalla það – og svo Andakílshringurinn upp að Skorradalsvatni. Við lögðum at stað 8 saman, en ég varð reyndar að láta mér nægja að skokka með fyrstu kílómetrana. Maí var ekki góður hnémánuður. Og hin hefðbundna heitapottsferð að hlaupi loknu féll niður, þar sem enginn pottur var til staðar. Það mál er í vinnslu.

Í fyrsta sinn var ég ekki með í Hamingjuhlaupinu á Hólmavík, sem jafnan er hlaupið í tengslum við Hamingjudagana þar í bæ. Að þessu sinni rákust þeir á við hátíðarhöld í fjölskyldunni minni.
Fjallvegahlaupin
Sumarið 2022 var sjötta sumar síðari hluta fjallvegahlaupaverkefnisins míns. Fyrstu fimm sumrin tókst mér að ljúka 18 hlaupum, sem var nokkuð undir pari því að meðaltali miða ég þetta við fimm hlaup á ári. Sumarið 2022 náði ég að halda í horfinu, en ekkert umfram það. Þetta sumar bættust fimm hlaup til viðbótar í safnið, þannig að nú er talan frá upphafi komin í 73 (50+23). Það þýðir að ég þarf að hlaupa næstum 7 fjallvegi að meðaltali næstu fjögur sumur.
Fjallvegahlaup sumarsins voru hlaupin í tveimur lotum. Fyrri lotuna tók ég á Austurlandi í byrjun júlí, þegar ég var þar staddur í sumarfríi með fjölskyldunni. Fyrsta hlaupadaginn, laugardaginn 2. júlí, ætlaði ég að leggja tvo fjallvegi að baki, þ.e.a.s. Kækjuskörð milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar og síðan Tó þaðan og yfir í Eiðaþinghá. Vegna þoku reyndist þetta ómögulegt, eða alla vega óskynsamlegt, þannig að þessar leiðir bíða betri tíma. Í staðinn tók ég skyndiákvörðun um að hlaupa Fjallsselsveg frá Skeggjastöðum í Jökuldal að Fjallsseli í Fellum, tæplega 19 km leið. Reyndar er Fjallsselsvegur eiginlega enginn vegur, fyrr en komið er upp á háheiðina í 660 m hæð. Þaðan liggur slóði til byggða í Fellum. Þegar á heildina er litið fer þessi fjallvegur ekki hátt á vinsældalistann. Til þess er undirlagið Jökuldalsmegin of erfitt. En það er alltaf gaman að hlaupa í góðum félagsskap. Þennan dag var það minn góði hlaupavinur Birkir bóndi sem sá um félagsskapinn og Birgitta mín sá um fólksflutningana. Þau hafa bæði komið mikið við sögu í fjallvegahlaupaverkefninu.

Næst lá leiðin um Aðalbólsveg frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal að Kleif í Fljótsdal, samtals um 23,5 km. Þetta hlupum við fimm saman 5. júlí – og svo bættust tvær við þegar komið var upp á Fljótsdalsheiðarveginn, eða Kárahnjúkaveg eins og hann er oftast kallaður. Hrafnkeli Freysgoða þótti Fljótsdalsheiði vera „yfirferðarill, grýtt mjög og blaut“, en leiðin sem við fórum var líklega sýnu þurrari en leið Freysgoðans. Í stuttu máli er samt leitun að blautari fjallvegum, en þarna eru stígar ógreinilegir á köflum og því kunna aðrir að hitta á þurrari leið en þá sem við fórum. Þrátt fyrir þetta er vel hægt að mæla með þessari leið fyrir þá sem þola vel að vökna. Þarna býr mikil saga og margt fallegt ber fyrir augu. Það sem stóð þó upp úr í þessari ferð var að við hittum fræðimanninn og sagnaþulinn Pál á Aðalbóli. Hann vísaði okkur á leið yfir ána Hrafnkelu, en eftir nokkrar vangaveltur var síðan ákveðið að hann myndi skutla okkur yfir ána á sexhjóli. Þegar það mál var í höfn sagði hann – og hló við – að við hefðum líklega drukknað ef við hefðum vaðið þar sem hann lagði upphaflega til. Ár eins og Hrafnkela eiga það til að breyta sér.

Þriðja og síðasta leiðin fyrir austan var svo Dalaskarð á milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, nánar tiltekið úr Austdal í Seyðisfirði yfir í Daladal í Mjóafirði. Þetta var sannkallað fjölskylduhlaup, því að við fórum það þrjú saman, ég, dóttirin Birgitta og tengdadóttirin Sara. Reyndar var þetta á köflum meira klifur en hlaup. Leiðin er nefnilega snarbrött, sérstaklega efst uppi. Og þegar við komumst á toppinn sáum við ekkert niður Mjóafjarðarmegin, nema þoku sem náði neðan úr Daladal og upp að tánum á okkur þar sem við stóðum á klettabrúninni og höfðum ekki hugmynd um hvar vaninn væri að klöngrast niður. Það tókst farsællega, en líklega hentar leiðin hvorki óvönum né lofthræddum. Og svo er örugglega best að vera þarna á ferð þegar ekki er þoka. Þetta var samt fullkominn dagur.

Síðustu tvö fjallvegahlaup sumarsins hljóp ég með landsliðshlauparanum Rannveigu Oddsdóttur í einstakri veðurblíðu þriðjudaginn 16. ágúst, yfir Strjúgsskarð (13 km) og Gyltuskarð (18 km), þ.e.a.s. frá Strjúgsstöðum í Langadal innan við Blönduós, yfir Strjúgsskarð og Laxárdal fremri, um Litla-Vatnsskarð, yfir Víðidal í Staðarfjöllum og loks yfir Staðarfjöll niður að Reynistað í Skagafirði, skammt innan við Sauðárkrók. Þetta var besti hlaupadagurinn minn þetta árið, bæði mælt í kílómetrum og almennri líðan. Það að upplifa frelsið og náttúruna sem umlykur mann á svona degi er nóg ástæða til að þrauka í gegnum erfiðar æfingar og þráláta verki flesta hina dagana.

Ferðasögurnar úr fjallavegahlaupunum og fróðleikur um leiðirnar tínist smám saman inn á vefsvæði Fjallvegahlaupaverkefnisins míns.
Persónumetin
Eftir því sem árin hlaðast á mann verður erfiðara að finna sér einhver persónuleg met til að bæta. Ef vel er leitað má þó lengi finna eitthvað. Eftirfarandi listi sýnir þau persónuleg met (PB) frá árinu 2022 sem mér tókst að grafa upp í fljótu bragði:
- Flestar styrktaræfingar á einu ári: 124 stk. Fyrra met 68 stk. 2018.
- Lengsta samfellda æfingalota: 71 dagur 21. okt. – 31. des. Fyrra met ekki skráð.
Náðust markmiðin?
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2022 og náði engu þeirra. Í fyrsta lagi ætlaði ég að bæta mig um klukkutíma í 53 km Hengilshlaupinu (6:34:09 klst). En ég mætti náttúrulega ekkert í hlaupið vegna meiðsla. Í öðru lagi ætlaði ég að hlaupa Laugaveginn undir 6 klst. Mætti ekki þar heldur. Í þriðja lagi ætlaði ég að ná 50.000 hæðarmetrum á árinu, en náði bara 23.819. Náði þó alla vega 12 sinnum upp á topp á Hafnarfjallinu og hef bara einu sinni farið fleiri ferðir á einu ári. Í fjórða lagi ætlaði ég að vera með 586 ITRA-stig í árslok, endaði í 583. Og í fimmta lagi var markmiðið að hafa gleðina með í öllum hlaupum. Ég tel mig hafa verið nálægt því að ná þessu markmiði, en þó man ég eftir æfingum síðla vetrar þar sem gleðin vék alfarið fyrir verkjum og almennri vesöld.
Markmiðin 2023
Í ljósi þess hvernig æfingar gengu fyrir sig á árinu 2022 ætla ég, svona rétt til tilbreytingar, að sleppa markmiðssetningum fyrir árið 2023 að mestu leyti. Eina markmiðið sem fær að halda sér er að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. En ef ég næ að mæta í einhver keppnishlaup mun ég hiklaust setja mér markmið fyrir viðkomandi hlaup, að teknu tilliti til stöðunnar eins og hún er þann daginn. Án markmiða verða hlaupin bragðlausari.
Hlaupadagskráin mín 2023
Þrátt fyrir allt er ég búinn að skrá mig í þrjú hlaup sumrið 2023, svo sem ráða má af eftirfarandi upptalningu. Í tveimur þeirra átti ég gamlar skráningar sem ég hafði fengið að færa á milli ára og svo er eiginlega skyldumæting í það þriðja. Og svo stefni ég auðvitað að einhverjum fjallvegahlaupum og er tilbúinn að nefna sjö þeirra nú þegar. Formleg fjallvegahlaupadagskrá fyrir sumarið 2023 hefur hins vegar ekki litið dagsins ljós.
- Vestmannaeyjahringurinn (Puffin Run) 6. maí
- Eitt fjallvegahlaup suðvestanlands um miðjan maí
- Hengillinn (26 km) 10. júní
- Fimm fjallvegahlaup á Hornströndum 4. og 5. júlí
- Trékyllisheiðarhlaupið (26 km, (ný vegalengd)) 12. ágúst
- Fjallvegahlaup um Mosa (Frá Neðri-Brekku í Saurbæ í Bitrufjarðarbotn) 11. september (þegar 115 ár verða liðin frá fæðingu pabba)
Svo þróast þetta bara einhvern veginn.
Þakklætið
Þann 19. ágúst 2022 átti ég 50 ára keppnisafmæli sem hlaupari, því að þá var liðin hálf öld frá fyrstu hlaupakeppninni minni á Sævangsvelli við Steingrímsfjörð. Fyrsta keppnishlaupið var reyndar 100 m hlaup, sem er ekkert sérstaklega eftirminnilegt nema kannski fyrir holu á miðri leið þar sem túnið var illa kalið. Ég vil miklu frekar miða upphafið við 800 m hlaupið seinna sama dag. Þar fannst mér ég vera á réttri hillu, en var líklega lítið farinn að hugsa um landvinninga í miklu lengri hlaupum. Ég hef áður skrifað um þetta upphaf og ætla svo sem ekkert að endurtaka það hér. En vitneskjan um að ég hafi notið þess í 50 ár með litlum hléum að stunda þetta áhugamál kallar fram stóran þakklætisskammt í huganum. Mér finnast það algjör forréttindi að hafa mátt eiga svona langa hlaupaæfi og ég mun svo sannarlega gera það sem í mínu valdi stendur til að lengja hana enn frekar. Og það eru líka forréttindi að hafa fengið að vera samtíða fólki sem hefur gert mér þetta mögulegt.
Árafjöldinn gefur ekkert tilefni til uppgjafar og ég mun halda áfram að reyna að finna lausnir á þeim hlaupatengdu vandamálum sem steðja að og verða smátt og smátt tíðari. Til að standa sig í þeim leik þarf mikla útsjónarsemi, þolinmæði og jafnvel þekkingu. Ég mun hér eftir sem hingað til reyna að nýta mér þann skammt sem ég á af þessum verðmætum og gera mitt besta til að útvega meira þar sem núverandi birgðir þrýtur.
Filed under: Heilsa, Hlaup, Lífið og tilveran | Leave a comment »