• Heimsóknir

  • 118.100 hits
 • desember 2022
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

50 ára keppnisafmæli

Í dag á ég 50 ára keppnisafmæli sem hlaupari, því að í dag er liðin hálf öld frá fyrstu hlaupakeppninni minni. Frumraunin var þreytt á héraðsmóti HSS í Sævangi við Steingrímsfjörð laugardaginn 19. ágúst 1972. Í minningunni snerist þátttaka mín í mótinu nánast eingöngu um keppni í 800 m hlaupi, en reyndar var ég búinn að taka þátt í 100 m hlaupi, langstökki og þrístökki áður en röðin kom að 800 metrunum.

Það var svo sem ekkert nýtt fyrir mér að hlaupa 800 metra, því að það hafði ég oft gert heima í sveitinni. Einhvern tímann höfðum við bræðurnir smíðað forláta mælistiku úr þremur prikum og notað hana til að stika út hæfilegar hlaupavegalengdir á gamla bílveginum sem liggur milli túnanna heima. Þar náði 800 m brautin frá Grafargili og út að Folaldslaut. Hallinn á brautinni var hagstæður ef hlaupið var í þessa átt, en Fúsaræsisbrekkan vann það sjálfsagt upp að mestu. Hún var brött og hallaðist í öfuga átt. Þessa 800 m braut hafði ég hlaupið á 2:37,5 mín fyrr um sumarið, nánar tiltekið 3. júlí. Eftir á að hyggja hef ég reyndar vissar efasemdir um þessa hálfu sekúndu, því að í stað skeiðklukku notaðist ég við Pierpont fermingarúrið mitt, sem vissulega var með sekúnduvísi, en engu umfram það.

Hlaupabrautin á Sævangi var eins og títt var til sveita, málaður hringur á sæmilega sléttu túni sem var slegið einum eða tveimur dögum fyrir mót. Endarnir á vellinum voru eitthvað leiðinlegir, þannig að brautin var bara um 350 m að lengd en ekki 400 m. Það skipti svo sem engu máli í 800 metrunum. Maður hljóp þá bara aðeins meira en tvo hringi. Annað einkenni var kríuvarpið við norðurhorn vallarins. Kríunum var lítið gefið um knattspyrnuleiki og langhlaup og reyndu eftir megni að afstýra slíkum uppákomum. Líklega hefur nærvera þeirra hvatt hlaupara til dáða ef eitthvað var. Það sama gilti ekki um kalblettina sem höfðu lækkað lélegustu hluta brautarinnar um óþægilega marga sentimetra í tímanna rás. Það kom þó meira að sök í hraðari hlaupum, t.d. í 100 metrunum, enda sérstaklega slæmur kalblettur nálægt miðri beinu brautinni.

Þar sem þetta var fyrsta frjálsíþróttamótið sem ég tók þátt í – og lítið um íþróttafataverslanir á Ströndum, bjó ég heldur illa að hlaupafötum og skótaui sem hæfðu viðfangsefninu. En ég var þó búinn að vera á Reykjaskóla einn vetur og hafði þar eignast forláta körfuboltabúning. Buxurnar voru ekki eins síðar og nú tíðkast í NBA, en þeim mun víðari. Þegar ég var kominn í þær minntu þær fljótt á litið meira á stutt pils en stuttbuxur, jafnvel þótt ég væri þá þegar orðinn álíka stór og sver og ég er núna. Mér fundust þær því ekki viðeigandi keppnisbúningur. Hins vegar var bolurinn fínn, gulur hlírabolur með rauðri bryddingu á köntum, stöfunum RSK framan á og tölunni 10 aftaná. Sniðið á bolnum var auk heldur svo nútímalegt að það líktist í einu og öllu því sem enn tíðkast, enda e.t.v. ekki mikið svigrúm til tilrauna við hönnun á hlírabolum. En buxnavandamálið þurfti að leysa með einhverjum hætti. Ég mætti því til leiks í ágætum tweedbuxum sem mamma hefur sjálfsagt verið nýbúinn að kaupa á mig sem betribuxur. Skótauinu er ég búinn að gleyma, en ég hafði hvorki heyrt um ASICS né HOKA þegar þetta var og gaddaskó eignaðist ég ekki fyrr en ári síðar. Hins vegar átti ég örugglega ágæta strigaskó, því að svoleiðis skóbúnaður var ómissandi í sveitinni þegar unnið var í þurrheyi í góðu veðri eða hlaupið sér til skemmtunar á eftir heyvagninum.

Ég man svo sem ekki smáatriðin í hlaupinu sjálfu, nema hvað ég held að við höfum verið þrír sem lögðum af stað. Ég tók strax forystuna og sá aldrei til mannaferða eftir það. Eitthvað heyrði ég pískrað í áhorfendaskaranum um að þetta væri allt of hratt og að ég myndi springa. En mér var alveg sama um það. Hlaupinu lauk ég á 2:37,4 mín, sem mér fannst svo sem ekkert merkilegt, og hinir hlaupararnir voru um 100 metrum á eftir mér ef mig misminnir ekki.

Þetta var góður dagur í Sævangi og auðvitað var ég stoltur af verðlaunaskjölunum fjórum sem ég kom með heim um kvöldið. Skjalið fyrir 800 metrana skipti mig eðlilega langmestu máli. Það var hvítt á litinn eins og vera bar með skjöl sigurvegara. Hin voru bara blá, því að þar var ég í öðru sæti. En hvernig sem svona skjöl eru á litinn, þá eru þau töluvert persónulegri en allir þátttökupeningarnir sem hrúgast hafa upp á áratugunum sem liðnir eru síðan.

Ég velti því örugglega ekkert fyrir mér í ágúst 1972 hvort ég yrði enn að keppa í hlaupum 50 árum síðar. Líklega hefði mér þótt það fremur fjarstæðukennt ef einhver hefði spurt. Á þessum árum tíðkaðist heldur ekki að „gamalt fólk“ væri að spreyta sig í almenningshlaupum. Sjálfur var ég þó vanur því í sveitinni að fólk hlypi eins og fætur toguðu á meðan heilsan leyfði. Alla vega hélt pabbi heitinn áfram að hlaupa framundir andlátið, enda er sá ferðamáti fljótlegri en ganga. En hvað sem öðru líður er ég afskaplega þakklátur, bæði fyrir þessar gömlu minningar, fyrir að hafa lifað allar þær breytingar sem hafa átt sér stað síðan og fyrir að geta enn sinnt þessu áhugamáli mínu og haft gaman af!

Og verðlaunaskjalið fyrir 800 metrana geymi ég að sjálfsögðu!

Eftirmáli 1: Þessi pistill byggir í öllum aðalatriðum á sambærilegum pistli sem birtist á þessari sömu bloggsíðu 19. ágúst 2012.

Eftirmáli 2: Myndin efst í þessari færslu var tekin í nýjasta keppnishlaupinu mínu 13. ágúst sl. (Klippt út úr stærri mynd. Ljósmyndari: Jón H. Halldórsson á Hólmavík).

Eftirmáli 3: Ekki verður efnt til neinna hátíðarhalda í tilefni af 50 ára afmælinu.

Fyrsta Pósthlaupið að baki

Síðasta laugardag tók ég þátt í nýju utanvega-hlaupi, þ.e.a.s. Pósthlaupinu sem nú var haldið í fyrsta sinn. Íslandspóstur stóð fyrir þessum viðburði, sem var haldinn til heiðurs landpóstunum sem lögðu líf sitt að veði við að koma bréfum og bögglum milli byggða fyrr á árum. Hlaupið hófst við Staðarskála, þar sem minnismerki um landpósta stendur, og því lauk við pósthúsið í Búðardal 50 km síðar. Þar sem ég vissi að ég yrði ekki búinn að ná mér nógu vel eftir langt meiðslatímabil til að hlaupa 50 km, ákvað ég að láta hálfa leiðina nægja. Það hlaup var ræst við Kirkjufellsrétt í Haukadal, en þaðan voru um 26 km að endamarkinu í Búðardal. Og í stuttu máli gekk þetta hlaupaævintýri mitt vel. Ég komst alla vega heill á leiðarenda og veðrið og umgjörðin sem Íslandspóstur hafði skapað með hjálp heimamanna gerðu þetta að einkar ánægjulegri upplifun. Árangurinn var vissulega í samræmi við hlaupaheilsuna og því ekki alveg sá sem ég myndi óska mér, en á leiðinni fann ég samt merki um framfarir sem auka mér bjartsýni fyrir næstu hlaupaverkefni.

Hvað er málið með landpósta?
Landpóstar skipta mig töluverðu máli. Ég er auðvitað allt of ungur til að muna eftir póstunum sem fóru ríðandi með hnakktöskur og póstlúðra á milli byggðarlaga, en ég ólst upp við sögur af þessum mönnum, svo sem Kristmundi pósti sem reið gjarnan norður Krossárdal áður en birti af degi. Sumum þótti skrýtið að hann skyldi velja að vera á ferðinni í myrkri, en honum fannst bara svo gott að „hafa birtuna í hönd“. Svo voru Söguþættir landpóstanna líka til í bókahillunum heima, en þetta voru að mig minnir þrjú bindi með hreysti- og hrakfarasögum af landpóstum í hinum ýmsu landshlutum. Seinna notaði ég þessar bækur sem uppsprettu hugmynda og heimilda í fjallvegahlaupaverkefninu mínu, en þar hef ég m.a. lagt mig fram um að „þefa uppi“ gamlar póstleiðir og hlaupa þær. Ofan á þetta bættist svo þríleikur Jóns Kalmans Stefánssonar, sem að hluta til fjallar um póstferð norðan Djúps, vissulega skáldverk en samt svo raunverulegt að manni verður beinlínis kalt við lesturinn.

Allt það sem nefnt er hér að framan gerði það að verkum að ég hlaut að taka þátt í þessu pósthlaupi. Þar að auki aðstoðaði ég örlítið við að teikna það upp í byrjun og eftir það varð ekki aftur snúið.

Undirbúningurinn
Ég hef áður skrifað eitthvað um hlaupavandræði síðustu mánuða, en í stuttu máli gat ég eiginlega ekki hlaupið frá því snemma í febrúar og til júníloka. Vandamálið birtist í verkjum í hnjám, en hnjáliðirnir eru samt í fínu lagi. Hins vegar hafa vöðvarnir fyrir ofan hnén misst of mikinn styrk, væntanlega annars vegar vegna öldrunar og hins vegar vegna þjálfunarleysis. Þetta er hægt að laga með réttum styrktaræfingum, en til þess þarf bæði tíma og þolinmæði. Ég á svo sem nóg af hvoru tveggja, en ég þarf að ganga meira á þanna forða.

Þegar margir mánuðir líða án markvissra hlaupaæfinga dettur hlaupaformið niður. Um þessar mundir eru það því ekki endilega hnén sem hindra árangur, heldur líka almenn þreyta í hinum ýmsu kerfum líkamans. Þar er miðtaugakerfið ekki undanskilið, enda er ekki nóg að hafa vöðva ef taugakerfið er ekki í þjálfun til að stjórna þeim.

Klukkutímarnir fyrir hlaup
Ég var staddur á Hólmavík helgina sem hlaupið fór fram. Þaðan ók ég suður í Búðardal í fylgd Birkis bónda í Tröllatungu, sem hefur verið einn minn helsti hlaupafélagi síðan 2008 þegar við hlupum saman fyrst. Við vorum mættir tímanlega í Búðardal og fengum far þaðan að rásmarkinu í Haukadal. Minnisstæðasta atvikið í þeirri ferð var þegar við mættum Jósep Magnússyni, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi, sem var þegar þarna var komið sögu orðinn langfyrstur í 50 km hlaupinu sem hafði verið ræst við Staðarskála fyrr um morguninn. Sú forysta átti bara eftir að aukast.

Áætlun dagsins
Ég mæti alltaf með einhverja áætlun í hlaup, jafnvel þótt ég viti að árangurinn verði lakari en mig langar til. Að þessu sinni var áætlunin lausleg. Ég ætlaði fyrst og fremst að hlaupa þetta á sem jöfnustu álagi, aðeins meira álagi en á æfingunum dagana og vikurnar á undan. Ef allt gengi upp gerði ég mér vonir um að þetta gæti skilað lokatíma nálægt 2:18:40 klst. E.t.v. lítur þetta út fyrir að vera óþarflega nákvæm áætlun fyrir leið sem maður hefur aldrei hlaupið áður, en þetta er einfaldlega tíminn sem það tekur að hlaupa 26,0 km ef hver km tekur 5:20 mín. Það er dálítið meiri hraði en ég hafði verið að hlaupa á á æfingum dagana og vikurnar á undan. Ég gerði hins vegar engar áætlanir um millitíma, enda svo sem ekkert við að miða. Auk heldur var mér í raun alveg sama hver lokatíminn yrði. Mér finnast hlaup bara skemmtilegri ef maður hefur eitthvert tímasett markmið.

Ég hafði ekki kynnt mér leiðina til hlítar, en taldi þó sýnt að henni mætti í grófum dráttum skipta í tvennt eftir undirlagi og erfiðleikastigi. Fyrstu 16 km skyldu hlaupnir eftir vegi áleiðis niður Haukadal og á þeim kafla lækkar landið um u.þ.b. 60 m. Það hlaut að verða tiltölulega auðvelt. Eftir að komið væri yfir aðalveginn yrði undirlagið erfiðara, en þar átti að hlaupa í gróinni vegrás og síðan á reiðvegi sem gæti verið svolítið laus í sér. Á þeim kafla er líka meira um hæðir og hóla. Síðustu 10 km hlutu því að verða eitthvað hægari en fyrri 16, jafnvel þótt lækkunin niður að Búðardal myndi flýta fyrir. Þjálfunarleysið myndi líka eflaust segja til sín á seinni hlutanum frekar en þeim fyrri.

Hlaupið sjálft – fyrri hluti
Mér leið vel í upphafi hlaups. Var þá líka búinn að taka létt 2 km upphitunarskokk með Birki til að ná úr mér stirðleikanum sem annars háir mér alltaf í upphafi hlaupa núorðið. Var fljótlega dottinn inn í þægilegan hlaupatakt, eitthvað í námunda við 5:15 mín/km, og leið eins og ég ætti að geta haldið því nokkuð lengi. Fyrstu kílómetrana var ég oftast í 7.-10. sæti eða þar um bil, sem mér fannst líka bara fínt. Og lengst af sá ég Birki 100-200 m á undan mér.

Hlaupið nýbyrjað. Brúin yfir Villingadalsá framundan. Og ég einhvers staðar þarna framarlega í ljósgrænum bol. (Ljósm. Pósturinn).

Fyrsta drykkjarstöðin birtist eftir rúm 8 km, aðeins fyrr en ég hafði reiknað með. Þar náði ég að ræða aðeins við Birki, auk þess sem ég staldraði við til að ná að sturta í mig tveimur glösum af vatni. Ákvað nefnilega að bera ekkert vatn með mér í þetta skiptið. Í þessum tilfæringum missti ég nokkra fram úr mér og var um tíma kominn niður í 15. sætið. Reyndar skipti röðin mig alls engu máli, því að þarna var ég bara að keppa við sjálfan mig. En auðvitað finnst manni ganga ögn verr þegar aðrir taka að streyma fram úr.

Fátt bar til tíðinda á þeim kafla sem eftir var niður Haukadalinn. Mér tókst lengst af að halda svipuðum hraða, þó að ég missti reyndar einhverjar sekúndur í sakleysislegum brekkum sem þarna eru. Um leið breikkaði bilið í næsta hóp – og Birkir var við það að hverfa. Þegar þarna var komið sögu var ég á að giska í 10.-12. sæti og ekkert nema gott um það að segja. Og veðrið lék við okkur; hægur og mildur vindur, sólarglæta annað slagið og örlítill úði stund og stund. Þetta var góður dagur.

Þegar 16 km voru að baki og ég kominn niður á aðalveginn sýndi klukkan 1:25:05 klst, sem þýddi að ég hafði hlaupið hvern km á u.þ.b. 5:19 mín. Þar með vissi ég að lokatíminn yrði lengri en 2:18:40 klst. Að vísu myndi ég ná því markmiði ef ég héldi sama meðalhraða þessa 10 km sem eftir voru, en erfiðara undirlag og meiri þreyta myndu fyrirsjáanlega koma í veg fyrir það. En mér var svo sem sama. Nú var bara að reyna að halda svipuðu álagi áfram, hver sem hraðinn yrði.

Hlaupið sjálft – síðari hluti
Mér fannst undirlagið í vegrásinni sérlega erfitt. Þarna var búið að slá braut fyrir hlauparana en í rótinni voru bæði snarrótarbrúskar og gömul sina, þannig að mér fannst þetta líkast því að hlaupa á dýnu. Og svoleiðis hlaup henta mér afar illa eins og staðan er á fótunum. En þetta er auðvitað bara hluti af þeirri upplifun sem maður vill fá í utanvegahlaupi. Sjálfsagt er ég betri í malbikshlaupum en utanvegahlaupum eins og staðan er í andránni, en samt kýs ég utanvegahlaupin frekar. Þetta á að vera erfitt.

Hlaupahraðinn datt niður í 6:20 mín/km í snarrótinni og eftir þetta voru fæturnir of þreyttir til að hlýða mér almennilega. Þetta snýst jú um samspil vöðva og taugakerfins eins og fyrr var nefnt. Eftir snarrótina lá leiðin um reiðveg og á slíkum vegum er oft mikið um lausa steina sem eru erfiðir fyrir þreytta fætur. Og þegar halla tók undan fæti var ekki lengur styrkur til staðar til að auka hraðann neitt af gagni.

Hjartsláttartíðni í hlaupinu mínu skv. Strava.

Línurit yfir hjartsláttartíðnina í hlaupinu er á vissan hátt lýsandi fyrir ástandið. Á því má sjá hvernig púlsinn lækkar þegar undirlagið verður erfiðara, þ.e. á 16. kílómetranum. Hjarta- og æðakerfið virðist nefnilega tilbúið í svona hlaup – og þegar fæturnir breytast í brauðfætur getur hjartað tekið því rólega. Toppurinn í lok hlaupsins stafar svo væntanlega af því að þá hef ég tekið á öllu mínu til að sýnast léttari í markinu.

Síðustu 2-3 km hlaupsins voru einkar skemmtilegir, þ.e.a.s. kaflinn eftir að komið var yfir Laxá rétt hjá Búðardal. Þarna var tekinn krókur niður að sjónum og komið inn í Búðardal í fjörunni. Það eru einmitt svona kaflar sem gera utanvegahlaup að því sem þau eiga að vera. En fyrir þreytta fætur er þetta auðvitað enginn dans – og í þokkabót var ég farinn að finna aðkenningu að krömpum í lærum og kálfum. Kramparnir náðu aldrei yfirhöndinni, en um leið og tilfinningin er komin fer heilinn að hræðast allar hraðaaukningar.

Í stuttu máli
Til að gera langa sögu stutta hljóp ég síðustu 10 km þessa hlaups á 6:32 mín/km að meðaltali, sem segir e.t.v. sína sögu um hlaupaheilsuna. En hnén stóðu alveg fyrir sínu. Það var bara kerfið í heild sem réði ekki alveg við þetta verkefni, ekki frekar en við var að búast miðað við sögu síðustu mánaða. Ég kom í mark í 11. sæti (af 35) og tíminn var 2:30:35 klst. Samkvæmt úrinu mínu var vegalengdin nákvæmlega 26,44 km og meðaltími á km því 5:42 mín, en ekki 5:20 mín eins og ég hafði látið mig dreyma um. En ég var samt mjög sáttur við þetta allt saman. Aðalatriðið var að ég komst alheill og glaður í markið – og svo óskemmdur að ég gat strax farið að láta mig hlakka til næstu hlaupaverkefna.

Með hlaupafélögunum Jósep og Birki í blíðunni í Búðardal eftir hlaup. (Ljósm. Ingveldur Ingibergsdóttir).

Eftir hlaup
Móttökurnar í Búðardal voru í senn góðar og glaðlegar, nægar veitingar undir vegg Pósthússins og sólin nógu heit til að hægt væri að ráfa langa stund um marksvæðið og spjalla við hlaupavini án þess að bæta á sig fötum. Þarna hitti ég m.a. hlaupafélagana Birki og Jósep, sem báðir höfðu verið snöggtum léttari á fæti en ég þennan dag. Jósep var rúmum 50 mín á undan næsta manni í 50 km hlaupinu – og Birkir hafði unnið sig framar í röðina jafnt og þétt og endað á að ná 3. sæti í 26 km. Þarna var auðvitað líka fleira fólk, þ.á m. það starfsfólk Íslandspósts sem hafði lagt mest af mörkum til að gera þennan dag jafn ánægjulegan og raun ber vitni. Og eins og ævinlega eftir svona hlaup flæddi þakklætið um æðarnar. Þegar ég var að byrja að keppa í hlaupum fyrir sléttum 50 árum var ég yfirleitt óánægður með árangurinn minn og fannst að ég hefði átt að gera betur. Hugsanlega örlar stundum enn á þeirri tilfinningu, en hún hverfur algjörlega undir ábreiðu þakklætis yfir því að geta enn verið með í þessu, geta hitt allt þetta skemmtilega fólk og geta enn notið þeirra stunda sem hlaupin gefa mér.

Takk þið öll sem gerðuð þetta Pósthlaup að veruleika og takk þið öll sem hafið lagt ykkar af mörkum á síðustu vikum, mánuðum, árum og áratugum til að ég gæti skemmt mér svona vel þennan dag.

Hlaupaannáll 2021 og markmiðin 2022

Hlaupin bæta lífi við árin mín. Myndina tók Sóley Birna Hjördísardóttir á Kollabúðaheiði í júní 2020.

Nú er enn eitt hlaupaárið að baki og kominn tími á enn einn hlaupaannálinn, þann 15. í röðinni. Í stuttu máli var þetta nýliðna ár gott hlaupaár, þó að árangur í keppnishlaupum hafi verið nokkuð undir væntingum. Það eitt að geta stundað þetta áhugamál er nóg til að gera hvaða ár sem er að góðu ári.

Stóra myndin
Í upphafi ársins 2021 var ég tæplega í hlaupafæru standi vegna eymsla í hægri kálfa. Þetta var búið að angra mig í nokkrar vikur og um þetta leyti var mér orðið ljóst að ég kæmist ekki mikið lengra án þess að breyta um áherslur. Þess vegna tók ég eitt skref til baka og byrjaði nánast frá grunni samkvæmt sérstakri Endurreisnaráætlun sem ég útbjó fyrir sjálfan mig. Þessi áætlun gekk í aðalatriðum út á að auka hlaupamagnið mjög varlega, fara reglulega á Hafnarfjallið og gera styrktaræfingar þrisvar í viku. Þetta skilaði sér í því að undir vorið var ég farinn að geta hlaupið alllangar vegalengdir án teljandi vandræða. Eftir erfiðleika í Hengilshlaupinu í byrjun júní og á Laugaveginum um miðjan júlí áttaði ég mig samt á að ég hafði ekki verið nógu duglegur í styrktaræfingunum og að ég þyrfti greinilega á meiri endurreisn að halda. Ákvað samt að fresta aðgerðum til haustsins og reyna að „þrauka“ þangað til. Það reyndist illmögulegt og í lok júlí voru kálfarnir að mestu búnir að afþakka frekari ofnotkun. Ég harkaði af mér í gegnum Trékyllisheiðarhlaupið um miðjan ágúst, en eftir það tók ég mér nánast alveg frí frá allri líkamsrækt fram í miðjan september. Á þessum tíma var líka í nógu að snúast í verkefnum utan við hlaupaheiminn, bæði í vinnu og í búferlaflutningum. Styrktaræfingar og Halldóra sjúkraþjálfari dugðu til að koma mér aftur af stað, en það var þó ekki fyrr en undir lok október sem þetta fór að ganga betur. Þá tók ég nefnilega aftur skref til baka og setti upp nýja endurreisnaráætlun, svipaða þeirri fyrri. Í árslok var staðan orðin bærileg og greinilega farið að örla á framförum.

Vikuskammtar í Endurreisnaráætluninni jan-mars 2021. (Mynd af Strava).

Æfingarnar 2021
Eins og fyrr segir fór ég hægt af stað í byrjun ársins, byrjaði með 20 km vikuskammt og jók hann svo hægt og bítandi þar til 70 km markinu var náð seint í mars. Þar við bættust svo styrktaræfingar, sem ég hefði reyndar mátt stunda betur. Nánari lýsingar á endurreisninni má finna í Laugavegsblogginu mínu frá því í sumar.

Í lok maí var ég búinn að hlaupa samtals 1.179 km það sem af var árinu, sem var það næstlengsta á ferlinum. Inni í þessu voru líka óvenjumargir hæðarmetrar, því að ég var venju fremur iðinn við Hafnarfjallið. Þessir metrar hefðu þó e.t.v. mátt vera enn fleiri. Í júní og júlí tókst mér líka að halda dágóðu magni og í lok síðarnefnda mánaðarins var heildarvegalengd ársins komin í 1.743 km. En eftir það var sem sagt lítið hlaupið fyrr en í vetrarbyrjun þegar nýja Endurreisnaráætlunin tók gildi.

Hæðarmetrar á hlaupum eftir mánuðum 2021. (Mynd af Strava).

Nýja Endurreisnaráætlunin er nánast eins og sú gamla. Hún byrjaði fyrir alvöru 25. október og innihélt til að byrja með þrjú hlaup og þrjár styrktaræfingar í viku. Heildarhlaupamagnið var 15 km fyrstu vikuna – og síðan hef ég aukið það um 4 km á viku að meðaltali, reyndar með smávegis fráviki vegna skammvinnrar hálsbólgu snemma í desember. Í þessari áætlun gildir sú regla að lengsta hlaup vikunnar megi aldrei vera meira en helmingur af hinum vikulega heildarskammti. Í síðustu viku ársins var ég kominn upp í 45 km á viku – og lengsta hlaupið var þá um 23 km.

Í árslok var ég búinn að taka 28 styrktaræfingar frá 20. september, en þær hefðu að réttu lagi átt að vera orðnar um 40 talsins. Þarna er sem fyrr tækifæri til úrbóta! Styrktaræfingarnar hafa annars verið að hluta til með öðru sniði en áður, því að einu sinni í viku hef ég tekið nokkrar æfingar með þyngstu lóðum sem ég ræð við og að sama skapi með fáum endurtekningum. (Rétt er að taka fram að þyngstu lóð sem ég ræð við eru ekki mjög þung). Uppi kunna að vera mismunandi kenningar um það hvernig styrktaræfingar nýtist hlaupurum best, en væntanlega ræðst það öðru fremur af því hvar viðkomandi hlaupari er staddur, (hvaðan hann kom, hvar hann er og hvert hann er að fara). Ég hef einhverja ástæðu til að ætla að mig vanti þessi þungu lóð til að styrkja grunninn og draga þannig úr líkum á mikilli fótaþreytu og krömpum í löngum hlaupum.

Vikuskammtar frá 18. október til ársloka 2021. (Mynd af Strava).

Mikilvægur hluti af æfingunum síðustu mánuðina hafa verið vikulegar tröppuæfingar með félögum mínum í Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi, undir stjórn Bjarna Traustasonar. Aðalvettvangur þessara æfinga eru u.þ.b. 70 tröppur sem liggja frá íþróttavellinum upp að grunnskólahúsinu. Þar er hægt að gera ýmislegt – og strax á fyrstu æfingu áttaði ég mig á að þarna var ég ekki sterkur á svellinu. Á fyrstu æfingunni gat ég í besta falli hoppað tvær tröppur í röð á öðrum fæti, en fljótlega var metið mitt komið í 25 tröppur á hvorn fót. Þessar æfingar reyna bæði á styrk og jafnvægi, en hvorugur þessara þátta viðheldur sér af sjálfsdáðum. Tröppurnar hoppa sig ekki sjálfar.

Hlaupavegalengdir eftir mánuðum 2021.

Æfingarnar framundan
Ég sé fyrir mér að áherslurnar í æfingunum mínum verði áfram svipaðar fyrstu þrjá mánuði ársins 2022. Að öllu forfallalausu verður vikuskammturinn kominn í 70 km seint í febrúar og eftir það mun ég væntanlega reyna að auka magnið „í hjöllum“, t.d. 75-75-50-80-80-50-85 … o.s.frv. Þriðja hver vika yrði þá sem sagt léttari. Þessu þurfa að fylgja meiri styrktaræfingar en undanfarið, þ.e.a.s. þrjár styrktaræfingar á viku og „engar refjar“. Vikulegum hlaupaæfingum þarf eðli málsins samkvæmt að fjölga eftir því sem heildarvegalengdin eykst. Býst við að þær verði orðnar fimm í lok febrúar. Í þessu ferli þarf ég líka að fara að safna hæðarmetrum, en eins og sést hér að framan urðu þeir útundan í skipulaginu á síðari hluta ársins 2021.

Nýlega lagður af stað í Hengilshlaupið. (Ljósm. Hengill Ultra).

Keppnishlaupin
Ég tók þátt í fimm keppnishlaupum árið 2021, sem er vissulega með minnsta móti en þó miklu meira en árin 2018 og 2020 þegar ég keppti ekki neitt. Fyrsta keppnishlaup ársins var 53 km í Hengli Ultra. Ég taldi mig vera sæmilega undirbúinn fyrir þetta hlaup, en annars leit ég fyrst og fremst á það sem æfingu fyrir Laugavegshlaupið rúmum mánuði síðar. Fyrstu 25 kílómetrarnir í hlaupinu voru þolanlegir, þó að vissulega hafi mér oft fundist ég vera ferskari. Á leiðinni upp Vörðuskeggja versnaði veðrið hins vegar til muna og við tóku hrikalegar aðstæður með hvassviðri, svartaþoku, úrhellisrigningu, kulda og mikilli leirbleyta. Á leiðinni upp klæddi ég mig í regnstakk og setti á mig lambhúshettu, en sá útbúnaður var langt frá því að duga í þessum aðstæðum. Þar við bættist að ég sá nánast ekkert í gegnum gleraugun og lítið án þeirra. Leiðin yfir fjallið sóttist því seint og ég var fljótlega orðinn helkaldur, bæði neðan mittis og á höndunum. Síðustu 25 kílómetrarnir voru án nokkurs vafa það langversta sem ég hef upplifað á hlaupum, stífur af krömpum og kulda í báðum leggjum frá nára og niður úr, hræddur og bugaður. Áfram hélt ég þó, líklega aðallega vegna þess að hreyfingin var það eina sem gat haldið í þann litla yl sem eftir var í skrokknum. Ég kom illa hrakinn og ofkældur í mark á 7:34:09 klst, sem var u.þ.b. klukkutíma lengri tími en ég hafði reiknað með. Um tíma var ég farinn að trúa að þetta yrði mitt síðasta hlaup, en þegar markið nálgaðist lét ég duga að trúa að þetta yrði mitt fyrsta og síðasta Hengilshlaup. Björk og Jóhanna (eiginkona og dóttir) tóku á móti mér í markinu og í framhaldinu kom Björk mér inn á hótelherbergi og niður í heitt baðkar þar sem ég lá í hálftíma til að ná upp líkamshitanum. Það er algjörlega ómetanlegt að eiga góða að á svona stundum! Þegar ég steig upp úr baðinu var ég ákveðinn í að hlaupa þetta aftur að ári og vera þá mun betur útbúinn. Mér fannst ekki hægt að fara með þessa einu minningu um Vörðuskeggja inn í ellina.

Ég ætti að geta lært margt af reynslunni í Henglinum – og það gildir í raun einnig um framkvæmdaaðila hlaupsins. Þetta endaði í aðalatriðum all vel, en við svona aðstæður má lítið út af bera.

Næsta keppnishlaup var hálft maraþon í Akureyrarhlaupinu 1. júlí í einmuna veðurblíðu. Þar sem ég hafði tekið mjög fáar gæðaæfingar vikurnar og mánuðina á undan vissi ég svo sem ekkert hvar ég stóð, en bjóst við tíma á bilinu 1:40-1:45 klst. Lakari tími hefði kallað á mikil vonbrigði en betri tími fannst mér ólíklegur. Fór frekar hægt af stað, hugsaði ekkert um aðra og naut gleðinnar. Náði að halda nokkuð jöfnum hraða alla leið og gat aðeins bætt í undir í lokin. Eftir á að hyggja var þetta eitt af mínum léttustu og ánægjulegustu hlaupum – og tíminn var 1:38:14 klst, sem sagt alls ekki góður tími miðað við síðustu ár, en ég hef samt oft hlaupið hálft maraþon hægar en þetta.

Dyrfjallahlaupið (23,7 km) kom næst, en þar var hlaupið um Víknaslóðir í stað Dyrfjalla. Sólin skein þennan dag og hitinn var um 20°C. Ég er sæmilega kunnugur á þessum slóðum eftir nokkur fjallvegahlaup og það hjálpaði mér til að njóta dagsins enn meira en ella. Reyndar fannst mér ég frekar þungur á fyrri hlutanum, en það breyttist einhvern veginn þegar ég kom á Kjólsvíkurmela, þar sem við Gitta mín áttum leið um í svartaþoku í fjallvegahlaupi sumarið 2019. Síðari hluti hlaupsins var eintóm gleði þrátt fyrir nokkuð krefjandi leið – og ég kom í mark í 20. sæti af 187 keppendum á 2:46:31 klst. Eftir á að hyggja var þetta langbesta hlaupið mitt 2021. Og svo tók Björk á móti mér í markinu, sem gerði þetta enn betra.

Dóttir og faðir á góðum degi í Þórsmörk.

Laugavegurinn 17. júlí var fjórða keppnishlaupið. Áætlun dagsins snerist um að fara hægar af stað en áður og eiga nóg eftir undir lokin. Mér gekk vel með fyrri helming áætlunarinnar, en eftir að ég var kominn fram hjá Emstrum var allur kraftur úr fótunum og kramparnir tóku yfir. Síðustu 16 kílómetrarnir snerumst um það eitt að þrauka og lokatíminn, 6:16:10 klst, var 6-16 mínútum undir væntingum. En það væri mikið vanþakklæti að dvelja lengi við það. Kannski var aðeins of hlýtt þennan dag og aðeins of mikill mótvindur, en sá sem getur yfirleitt hlaupið Laugaveginn á sjötugsaldrinum ætti ekki að kvarta.

Það lífgaði mikið upp á Laugaveginn að Jóhanna mín tók á móti mér í Þórsmörk, en svo má lesa miklu meira um þetta allt saman í þar til gerðum bloggpistli.

Fimmta og síðasta keppnishlaup ársins var svo Trékyllisheiðin Ultra, 48 km hlaup sem haldið var í fyrsta sinn 14. ágúst. Ég átti svolítinn þátt í undirbúningnum og þess vegna ákvað að ég að hlaupa þrátt fyrir að vera meiddur. Mér tókst að fara nógu varlega til að hlífa meiðslunum, en enn og aftur náðu kramparnir yfirhöndinni þegar á leið. Styrkurinn í fótunum dugði enn skemur en á Laugaveginum og var að mestu uppurinn eftir 26 km. Allt eftir það var mjög erfitt, nema veðrið sem var einstaklega gott eins og í flestum öðrum hlaupum sumarsins (að Henglinum rækilega frátöldum). Nánari lýsingu á Trékyllisheiðarhlaupinu má finna í þar til gerðum pistli.

Skemmtihlaupin
Hamingjuhlaupið á Hólmavík var eina reglubundna skemmtihlaupið þetta árið. Þrístrendingur hefur fallið niður tvö síðustu ár og í ljósi aðstæðna treystum við hjónin okkur ekki til að standa fyrir hinum árlega Háfslækjarhring á uppstigningardag.

Hamingjuhlaupið fór fram í 13. sinn laugardaginn 26. júní. Að þesssu sinni lá leiðin yfir Kollabúðaheiði, nánar tiltekið úr Þorskafirði, áleiðis veginn upp á Þorskafjarðarheiði og síðan gamla leið sem kemur niður í Staðardal í Steingrímsfirði. Þessi hluti leiðarinnar var jafnframt fjallvegahlaup, en eftir að því var lokið var hlaupið sem leið liggur til Hólmavíkur, þar sem Hamingjuhlaupin enda alltaf hvar sem þau byrja. Við vorum fimm saman yfir heiðina, en svo fjölgaði heldur í hópnum eftir því sem nær dró endamarkinu. Samtals urðu þetta u.þ.b. 37 km og lauk að vanda með góðum móttökum og veitingum á Hólmavík, að þessu sinni á svonefndu Toggatúni. Veðrið lék við okkur frá upphafi hlaups til enda, en reyndar þurfti að fresta upphafinu um nokkra klukkutíma vegna mikils sunnan hvassviðris fyrri hluta dagsins. Leifarnar af þessum vindi ýttu aðeins á bakið á okkur yfir heiðina, sem var hreint ekkert óþægilegt.

Hlaupafélagarnir Sóley, Arnór og Birkir á sprettinum norður Kollabúðaheiði. Vaðalfjöll í fjarska.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2021 var fimmta sumar síðari hluta fjallvegahlaupaverkefnisins míns. Fyrstu fjögur sumrin tókst mér að ljúka 13 hlaupum, sem var nokkuð undir pari því að meðaltali miða ég þetta við fimm hlaup á ári. Sumarið 2021 bættust einmitt fimm hlaup í safnið, þannig að enn er heldur á brattann að sækja í þessari talningu.

Kollabúðaheiðin sem fyrr var nefnd var fyrsta fjallvegahlaup ársins. Hin fjögur voru öll hlaupin á tveimur góðviðrisdögum á Austfjörðum, þ.e.a.s. Hjálpleysa fyrri daginn (5. júlí) og Dysjarskarð, Sandvíkurskarð og Gerpisskarð síðari daginn (6. júlí). Að Dysjarskarði frátöldu voru þetta allt frekar erfiðar leiðir, en að sama skapi skemmtilegar og eftirminnilegar. Góðviðrið seinni daginn var aðeins blandað þoku, sem gerði upplifunina líklega enn meira töfrandi en ella, auk þess sem hún dulbjó þverhnípi sem leynast þarna sums staðar skammt frá hlaupaleiðinni.

Fjallvegurinn um Hjálpleysu liggur frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum. Samtals eru þetta um 18,9 km og stærstur hluti leiðarinnar afar seinfarinn. Leiðin upp að austanverðu er brött og fer hæst í um 800 m hæð. Og í Hjálpleysu eru snarbrattar skriður til beggja handa og nánast ekkert undirlendi – og það litla undirlendi sem þó er til staðar hefur Gilsá búið til með framburði sínum. Þetta undirlendi nýtir áin að mestu leyti sjálf. En samt var þetta afskaplega skemmtileg ferð, enda varla um annað að ræða í svona góðu veðri og svona góðum félagsskap.

Hlaupafélagarnir Sindri, Gunnar, Birkir og Salome í Hjálpleysu. Undirlagið þarna er í grófari kantinum.

Síðari fjallvegahlaupadagurinn fyrir austan hófst með hlaupi yfir Víkurheiði og Dys úr utanverðum Reyðarfirði yfir í Viðfjörð. Víkurheiði er í raun fjallvegurinn á milli Reyðarfjarðar og Vöðlavíkur og af þeim vegi er haldið áfram yfir Dys eða Dysjarskarð, sem áður nefndist Almannaskarð. Þetta er greiðfært, enda jeppaslóði alla leið. Vegalengdin er líka vel viðráðanleg, rétt um 13,8 km. Við vorum fimm saman á þessu ferðalagi og nutum dagsins allan daginn, sem varð reyndar á endanum lengri en upphaflega var áætlað.

Við dysina í Dysjarskarði í fjallvegahlaupi nr. 66. F.v. Birkir, Salome, Sóley og Arnór.

Seinni tvö fjallvegahlaupin þennan sama dag renna svolítið saman í minningunni, en þau áttu það sameiginlegt að leiðirnar lágu um brött fjallaskörð í allmikilli hæð. Fyrst var hlaupið frá Viðvíkurbænum, áleiðis út á Barðsnes að eyðibýlinu Stuðlum og þar upp í og yfir Sandvíkurskarð. Hinum megin við það skarð beið Sandvík okkar, ein af þessum byggðum þar sem býsna margir bjuggu áður fyrr og þar sem vinnuvélar komust aldrei til áhrifa. Frá Sandvík lá leiðin svo upp í Gerpisskarð og þaðan niður snarbratta hlíð áleiðis í Vöðlavík. Þar enduðu fjallvegahlaup dagsins og meirihluti hópsins þáði bílferð til baka í Reyðarfjörð yfir Víkurheiði, þ.e.a.s. jafnstór hluti hópsins og komst með góðu móti í bíl skálavarðarins í Vöðlavík. Við Birkir skröltum hins vegar þennan síðasta spöl á 2x tveimur jafnfljótum og náðum að skrifa samtals um 45,5 km og 2.200 hæðarmetra í hlaupadagbækurnar okkar þennan daginn.

Salome og Birkir við neyðarskýlið í Sandvík. Engin neyð í gangi samt, Sandvíkurskarð að baki og „bara“ Gerpisskarð eftir.

Ferðasögurnar úr fjallavegahlaupunum og fróðleikur um leiðirnar tínist smám saman inn á vefsvæði Fjallvegahlaupaverkefnisins míns.

Persónumetin
Eins og nefndi víst í annál sem ég skrifaði fyrir ári síðar, virðast persónuleg met á hlaupum verða fátíðari með árunum. Vilji maður samt státa sig af áður óþekktum afrekum kemur þá helst til greina að hlaupa vegalengdir sem maður hefur aldrei hlaupið áður, eða finna einhvern annan hagstæðan samanburð við fyrri tíma. Listinn sem hér fer á eftir hefur að geyma öll þau persónuleg met (PB) frá árinu 2021 sem mér hefur tekist að grafa upp:

 1. Besti maraþontími á æfingu: 3:57:27 klst. 15. maí. Fyrra met 3:58:58 klst. 8. júní 2009.
 2. Flestir hæðarmetrar á einu ári (held ég): 46.117 m. Fyrra met ekki skráð.
 3. Lengsti aprílmánuður: 274,98 km. Fyrra met 232,21 km 2014.
 4. Lengsti maímánuður: 365,62 km. Fyrra met 270,54 km 2015.
 5. Lengsti júlímánuður: 327,39 km. Fyrra met 322,00 km 2011.

Náðust markmiðin?
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2021 og náði bara einu þeirra, rétt eins og árið áður. Í fyrsta lagi ætlaði ég að hlaupa 5 km undir 21 mín. Tók svo ekki þátt í neinu 5 km hlaupi á árinu, og er reyndar nokkuð viss um að þó ég hefði gert það hefði tíminn engan veginn getað orðið styttri en 21 mín. Í öðru lagi ætlaði ég að hlaupa maraþon undir 3:20 klst. Þar gildir það sama, ég keppti aldrei í maraþoni á árinu og hefði heldur varla átt möguleika á að ná þessum tíma. Í þriðja lagi átti tíminn á Laugaveginum að vera undir 6 klst – og eins og fram hefur komið gekk það ekki upp. Í fjórða lagi áttu fjallvegahlaupin að verða a.m.k. sjö, en urðu bara fimm. Og í fimmta lagi var markmiðið að hafa gleðina með í öllum hlaupum. Ég held svei mér þá að þetta hafi tekist, enda mundi ég oftast nær að vera þakklátur fyrir að geta yfirleitt hlaupið. Vissulega voru öll löngu keppnishlaupin erfiðari en að var stefnt, en gleðin var alltaf þarna einhvers staðar (jafnvel þó að hún hafi varla sést greinilega þegar ég kom í mark í Hveragerði eftir Hengil Ultra).

Markmiðin 2022
Ég stend í þeirri meiningu að markmiðssetning sé forsenda árangurs, á hvaða sviði sem er. En markmið eru vandmeðfarin. Þau þurfa nefnilega að vera SMART til að koma að gagni, þ.e.a.s. Sértæk, Mælanleg, Aðgengileg, Raunhæf en samt krefjandi og Tímasett.

Mér skilst að sumum finnist ég setja mér óþarflega krefjandi markmið í hlaupunum, einkum þegar tekið sé tillit til hækkandi aldurs. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að ég er kominn á þann aldur að líkamleg geta fer óhjákvæmilega smátt og smátt minnkandi. En mér finnst það alls ekki þýða að ég eigi sjálfkrafa að sætta mig við hvaða árangur sem er. Þvert á móti finnst mér ég þurfa að setja mér svo krefjandi markmið að ég þurfi virkilega að hafa fyrir því að ná þeim! Eftir sem áður geta þau verið raunhæf. Auðvitað er þetta varnarbarátta, en ég ætla að halda áfram að spila vörnina eins framarlega og ég get í stað þess að sitja bara í vítateignum og bíða eftir fullnaðarósigri, aðgerðalaus!

Í ljósi þessi sem hér hefur verið sagt ætla ég að halda áfram að setja mér hlaupamarkmið sem ná sér ekki sjálf. Hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2022 eru eftirfarandi:

 1. Klukkutímabæting í Hengill Ultra 53 km (6:34:09 klst)
 2. Laugavegurinn undir 6 klst
 3. A.m.k. 50 þúsund hæðarmetrar
 4. A.m.k. 586 ITRA-stig í árslok
 5. Gleðin með í för í öllum hlaupum (margnotað og sígilt)

Eins og upptalningin hér að framan ber með sér ætla ég ekki að setja mér nein markmið í götuhlaupum þetta árið. Það þýðir þó ekki að tími götuhlaupanna sé liðinn. Ég ætla bara að leggja meiri áherslu á utanvegahlaupin og setja mér svo markmið fyrir hvert götuhlaup um sig, ef og þegar slík hlaup verða á dagskrá.

ITRA-stigin
Mér finnst styrkleikalisti Alþjóðautanvegahlaupasambandsins (ITRA (International Trail Running Association)) nýtast manni einkar vel til að setja sér markmið í utanvegahlaupum, enda eru allmörg íslensk utanvegahlaup komin með viðurkenningu samtakanna og gefa því ITRA-stig. Í árslok 2021 var ég með 586 slík stig, en stigafjöldinn reiknast út frá vegnu meðaltali fimm bestu ITRA-hlaupa síðustu 36 mánuði. Markmiðið hér að framan gengur sem sagt út á að lækka ekki í stigum þrátt fyrir þetta eina ár sem bætist á mig á árinu. Sennilega dugar mér að ná u.þ.b. 600 stigum í einu hlaupi til að halda sjó hvað þetta varðar, jafnvel þótt öll hin hlaupin verði langt undir væntingum. Til að fá 600 stig þarf líklega að hlaupa Laugaveginn á u.þ.b. 5:51 klst, Hengil Ultra 53 km á u.þ.b. 6:10 klst eða Trékyllisheiðina á u.þ.b. 5:08 klst. Ég geri svo sem ekki ráð fyrir að ná þessum tímum, en nokkur styttri hlaup gefa líka stig og þar gæti ég átt sóknarfæri. Þetta er krefjandi markmið, en samt raunhæft.

ITRA-staðan mín í árslok 2021.

Hlaupadagskráin mín 2022
Ég er búinn að skrá mig í fimm hlaup sumrið 2022 og finnst líklegt að einhver bætist við þegar nær dregur. Og svo er fjallvegahlaupadagskráin aðeins að byrja að mótast. Eins og staðan er núna lítur dagskráin svona út:

 1. Vestmannaeyjahringurinn (Puffin Run) 7. maí
 2. Eitt fjallvegahlaup suðvestanlands um miðjan maí
 3. Hengill Ultra (53 km) 4. júní
 4. Eitt fjallvegahlaup norðanlands um miðjan júní
 5. Einhver fjallvegahlaup á Austurlandi fyrri hluta júlímánaðar
 6. Dyrfjallahlaupið 9. júlí
 7. Laugavegurinn (í 7. sinn) 16. júlí
 8. Trékyllisheiðarhlaupið (48 km) 13. ágúst

Svo þróast þetta bara einhvern veginn.

Sól á Trékyllisheiði

Laugardaginn 14. ágúst sl. tók ég þátt í fyrsta formlega Trékyllisheiðarhlaupinu, þar sem hlaupnir voru rúmir 48 km frá Trékyllisvík suður í Selárdal í Steingrímsfirði. Þetta var erfitt, en veðrið var gott og gleðin mikil. Fæturnir á mér voru ekki beinlínis samþykkir því að fara í þetta hlaup, en hugurinn tók ekki annað í mál. Ástæður þess voru einkum tvær: Annars vegar liggja rætur mínar á Ströndum og hins vegar aðstoðaði ég stjórn Skíðafélags Strandamanna smávegis við undirbúning hlaupsins. Mér fannst ég þess vegna eiga svolítið í þessu hlaupi – og það í mér, þannig að ég vildi bara alls ekki missa af því. Og mikið er ég glaður að þarna skyldi ég láta atkvæði hugans vega þyngra en fótanna.

Andstaða fótanna
Eins og fram kemur í pistlinum sem ég skrifaði um Laugavegshlaupið um daginn, lenti ég í dálitlum vandræðum þar – og þessi vandræði taldi ég mig geta rakið til skorts á vöðvastyrk í kálfum. Ég hef vitað af þessum veikleika síðan í byrjun desember í fyrra. Vann talsvert í málinu síðasta vetur, en fylgdi þeirri vinnu lítið eftir þegar komið var fram á sumar. Eitt einkenni veikleika er að þeir þroskast mest þegar þeim er ekki sinnt, alveg öfugt við styrkleikana sem þroskast bara þegar maður sinnir þeim. Veikleikinn í kálfunum, sem gerði mér erfitt fyrir á Laugaveginum 17. júlí, hafði fengið að þroskast að mestu óáreittur þær fjórar vikur sem liðnar voru síðan þá – og í lok júlí var ég í raun hættur að geta hlaupið almennilega vegna sársauka í vinstri kálfa. Eitthvað náði ég að malda í móinn með því að nota nuddrúllu og klæða kálfana í „compression-hlífar“, en þegar Trékyllisheiðarhlaups-dagurinn rann upp bjartur og fagur hafði ég ekki árætt að fara út að hlaupa í heila viku. Það er ekki staðan sem maður vill vera í þegar maður er rétt í þann veginn að leggja upp í næstum 50 km fjallahlaup á krefjandi undirlagi. Ég hefði sem sagt hætt við að mæta ef þetta hefði verið eitthvert annað hlaup, enda er ég löngu búinn að læra að það borgar sig sjaldnast að mæta meiddur til leiks.

Áætlun dagsins
Þar sem ég hef aldrei áður hlaupið Trékyllisheiðina í keppni gat ég alveg sleppt að setja mér markmið um lokatíma. Ég vissi svo sem að leiðin væri um 48 km – og að það eitt benti til að ég ætti að geta hlaupið þetta á u.þ.b. hálftíma styttri tíma en Laugaveginn. En tími í utanvegahlaupum ræðst alls ekki bara af vegalengdinni, heldur líka af undirlaginu, hækkuninni, sérstökum farartálmum o.s.frv. En samt: Fyrst ég gat EKKI hlaupið Laugaveginn á 6:00 klst myndi ég alls ekki geta hlaupið þetta hlaup undir 5:30 klst. Og þar sem tímamörkin í hlaupinu miðuðust við 8 klst, hlaut lokatíminn minn að lenda einhvers staðar á þessu bili, þ.e.a.s. ef ég kæmist alla leið. Síðasta æfingahlaupið mitt fyrir Trékyllisheiðina var ekki nema tæpir 13 km á tiltölulega sléttu landi og þá þurfti ég að labba síðustu tvo kílómetrana út af þessum lélega kálfa. Áætlun dagsins var því einfaldlega að haga málum þannig fyrri hluta hlaupsins að sem minnst myndi reyna á kálfann. Ef kálfinn myndi bila mætti það helst ekki gerast fyrr en svo langt væri liðið á hlaupið að ég gæti gengið í mark áður en 8 klst. væru liðnar. Og svo myndi ég bara kljást við afleiðingarnar dagana eftir hlaup.

Að morgni hlaupadags
Ég vaknaði heima hjá tengdaföður mínum á Hólmavík rétt fyrir kl. 6 þennan laugardagsmorgun. Þangað hafði ég keyrt kvöldið áður til að stytta mér ferðalagið. Upp úr kl. 7 var ég svo mættur í skíðaskálann í Selárdal, þar sem Skíðafélag Strandamanna er með aðstöðu. Það var jú einmitt skíðafélagið sem stóð fyrir þessu hlaupi. Þau eru engir viðvaningar í að skipuleggja viðburði af þessu tagi, þar sem þau standa fyrir hinni árlegu Strandagöngu sem lengi hefur verið ómissandi hluti af Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands.

Í þessu fyrsta Trékyllisheiðarhlaupi var boðið upp á tvær vegalengdir; annars vegar u.þ.b. 48 km hlaup úr Trékyllisvík og hins vegar u.þ.b. 16 km hlaup frá veginum á Bjarnarfjarðarhálsi. Síðustu 8 kílómetrana er hlaupin sama leið í báðum hlaupunum, allt þar til komið er í mark við fyrrnefndan skíðaskála. Samtals voru 18 skráðir í lengra hlaupið og þar af höfðu fimm þegið boð um rútuferð úr Selárdal að rásmarkinu í Trékyllisvík. Því dugði smárúta í þessa ferð og ég var einn þeirra sem fékk far með henni norður. Þangað vorum við komin tæpum klukkutíma fyrir hlaup, þannig að nógur tími gafst til að ræða málin og ákveða hvaða klæðnaður hentaði best í verkefnið sem framundan var. Þegar þarna var komið sögu var sólin farin að skína í hægum vindi og allt útlit fyrir góðviðrisdag. Í samræmi við það urðu stuttbuxur og stuttermabolur fyrir valinu sem hlaupaföt dagsins – með langermajakka til vara í hlaupabakpokanum.

Allt tilbúið fyrir startið við Félagsheimilið í Árnesi. (Ljósm. Vilberg Þráinsson).

Fyrsti spölurinn
Hlaupið var ræst við Félagsheimilið í Árnesi stundvíslega kl. 10:00. Fyrstu 3 kílómetrana eða svo (2,93 nánar tiltekið) var hlaupið lengra í norður eftir veginum í Trékyllisvík og síðan beygt upp á Eyrarháls við bæinn Mela. Þessi fyrsti kafli er alveg flatur og reynir því lítið á kálfana. Ég reyndi því að hlaupa þetta á þægilegum og áhyggjulausum upphitunarhraða, þ.e. u.þ.b. 5:30 mín/km. Við Birkir bóndi fylgdumst að þennan spöl – með tvo á undan okkur og 14 á eftir. Rétt fyrir ofan Mela skildu svo leiðir, því að strax og komið var í fyrstu brekkuna tók varfærna áætlunin mín gildi, þar sem allt snerist um að láta kálfann endast sem lengst. Þá fór líka hitt fólkið að streyma fram úr mér og um tíma var ég kominn niður í 12. sæti af þessum átján sem lögðu af stað. Ég er ekki vanur að vera svona aftarlega, en þennan dag var mér alveg sama. Þetta snerist ekki um verðlaunasæti, heldur bara um að komast á báðum fótum í mark.

Nýkomin framhjá Melum og búin að beygja inn á veginn upp á Eyrarháls. Trékyllisvíkin í baksýn og Reykjaneshyrnan til hægri.

Drykkjarstöð 1, norðan við Glissu, 13,18 km
Björgunarsveitin Strandasól í Árneshreppi sá um fyrstu drykkjarstöðina af þremur í þessu hlaupi. Hún var staðsett þar sem hæst ber norðvestan við fjallið Glissu. Þegar þarna var komið sögu var mér farið að miða ívið betur upp brekkurnar en í byrjun, kominn hugur í mig og ég orðinn bjartsýnn á að mér tækist að ljúka hlaupinu. Reyndi samt eftir megni að halda keppnisskapinu í skefjum til að hlífa kálfunum. Var svo sem farinn að finna aðeins til, en það ágerðist hægt. Um þetta leyti vorum við fjórir á svipuðu róli, við Gylfi aðeins á undan og Einar og Sigurður aðeins á eftir. Annað slagið sást í Ragnar og Tjörva sem voru næstir á undan okkur, en líklega voru þeir þó með hátt í kílómetra forskot. Þar á undan voru aðrir fjórir sem ég sá ekki aftur fyrr en í markinu. Við vorum sem sagt í 7.-10. sæti. Þarna bjó ég mér til það markmið að enda ekki neðar en í 9. sæti, því að þá gat ég alla vega sagst hafa verið fyrir framan miðju. Við drykkjarstöðina var tíminn kominn í 1:37:49 klst, sem sagði mér svo sem ekki neitt. En mesta hækkunin var alla vega að baki sem jók trú mína á farsælum endalokum þessa ferðalags. Best að nota þá 6 klst lokatíma fyrir markmið.

Syðst á Eyrarhálsi, inn af Eyrardal í Ingólfsfirði. Eyrarfell framundan, 7,70 km að baki, enn langt í drykkjarstöðina við Glissu og ég í 12. sæti í hlaupinu.

Frá Glissu að drykkjarstöð 2 við Búrfellsvatn
Mér leið vel þegar ég lagði af stað frá drykkjarstöðinni við Glissu. Framundan var það sem ég leit á sem 2. áfanga hlaupsins, þ.e.a.s. spölurinn að drykkjarstöð nr. 2 sem staðsett var við Búrfellsvatn, upp af Kjós í botni Reykjarfjarðar. Á fyrstu tveimur kílómetrunum eftir drykkjarstöð nr. 1 lækkaði leiðin um eina 170 m – og á svoleiðis köflum líður mér yfirleitt best, ekki bara vegna þess að ég geti stundum hlaupið hraðar en aðrir niður í móti, heldur líka vegna þess að niðurleiðin hentar lélegum kálfum betur en uppleiðin. Á þessum kafla seig ég líka talsvert fram úr hinum þremur sem höfðu verið á svipuðu róli við Glissu. Ég var sem sagt orðinn einn í 7. sæti, kálfinn nokkurn veginn til friðs og hlýindin orðin meiri en ég hafði búist við á þessum slóðum. Mér finnast hlýindi yfirleitt notaleg, en ég var samt þakklátur fyrir hverja flík sem ég hafði skilið eftir í töskunni minni um morguninn.

Eftir u.þ.b. 18 km var ég kominn að Reykjarfjarðarvatni, landið farið að hækka aftur, en samt leið mér vel. Á einni hæðinni sá ég að ég var farinn að draga verulega á Ragnar og Tjörva og svo náði ég þeim á 20. kílómetranum, einhvers staðar inn af Reykjarfirði. Og þá var ég allt í einu kominn í 5. sæti. Einhvern veginn grunaði mig að það myndi ekki haldast lengi, en fyrst um sinn varð ég þó ekkert var við mannaferðir. Þarna fann ég hins vegar fyrstu krampatilfinninguna í kálfunum, svipað og ég upplifði sunnarlega á söndunum í Laugavegshlaupinu. Þá var ég reyndar búinn með rúma 30 km, en núna voru ekki búnir nema 22 km eða svo. Þetta þurfti svo sem ekkert að vera neitt alvarlegt, því að stundum finn ég fyrir þessum ónotum án þess að þau þróist í almennilega krampa. En þetta ágerðist og mér fannst vera farið að hægjast á mér. Og ég var orðinn stirður í grjótinu og lækjarskorningunum sem einkenna þennan hluta leiðarinnar.

Horft ofan af Trékyllisheiði niður á Reykjarfjarðarbæinn og út Reykjarfjörð með Reykjarfjarðarkamb yst að sunnanverðu. 22,10 km og 2:36 klst að baki.

Mér fannst síðasti spölurinn langur að drykkjarstöðinni við Búrfellsvatn, sem Björgunarsveitin Björg á Drangsnesi annaðist. Þar sýndi úrið 25,56 km og 2:59:39 klst, hlaupið sem sagt rúmlega hálfnað, stærstur hluti hækkunarinnar búinn og ekki liðnir þrír tímar frá starti. Það væri því hreinlega klúður að ná ekki að komast í markið undir 6 klst.

Hálfur áfangi að Goðdalsá
Þegar ég lagði af stað frá Búrfellsvatni var mér hætt að líða eins vel og áður. Krampatilfinningin ágerðist en ég var samt glaður, því að ég var orðinn viss um að ég þyrfti ekkert að „déenneffa“ (hætta) í þessu hlaupi. Héðan af kæmist ég gangandi í markið innan tímamarka. Kálfinn var heldur ekkert orðinn svo slæmur. Krampatilfinningin var verri.

Ég hafði hlakkað til að hlaupa frá Búrfellsvatni suður að Goðdalsá, því að þrátt fyrir fjöldann allan af litlum hæðum á þessari leið er þetta heldur á undanhaldinu. En nú var þetta bara orðið virkilega erfitt og kramparnir ágerðust með hverri mínútu. Þetta ætlaði greinilega að verða „langi kaflinn“ í hlaupinu. Í flestum löngu utanvegahlaupunum mínum er nefnilega kafli sem er svo langur að kílómetratalan á úrinu breytist næstum ekkert hvernig sem maður reynir. Á þessum köflum er eitt mikilvægasta verkefnið að líta aldrei á úrið, alla vega ekki á kílómetratöluna. Þar að auki var hitinn orðinn óþægilegur. Mér varð hugsað til maraþonhlauparanna á Ólympíuleikunum í Japan viku fyrr, sem þurftu að þola 30 stiga hita og kældu sig með vatni og ísmolum við hvert tækifæri. Á Trékyllisheiðinni voru engir ísmolar, en nóg af lækjum sem ég gat ausið mig vatni úr.

Nú fóru hlaupararnir að tínast fram úr mér aftur, fyrst Gylfi og svo Sigurður, og mér fannst þeir hlaupa ótrúlega hratt! Við Goðdalsá sýndi úrið 34,22 km og 4:01:03 klst. Ég hafði sem sagt verið rúman klukkutíma að koma mér rúmlega 8,5 km frá Búrfellsvatni. Það gat nú ekki talist góð frammistaða. Og nú voru eitthvað um 14 km eftir. Jæja, ég hlaut að komast það á innan við 2 klst, þannig að 6 klst markmiðið héldi.

Horft suður Trékyllisheiði, niður að Goðdalsá. Hugsanlega má koma auga á brautarvarðarjeppann (á miðri mynd) sem beið við vaðið til öryggis. 33,75 km og 3:57 klst að baki.

Drykkjarstöð 3, inn af Sunndal, 40,25 km
Sex kílómetra kaflinn frá Goðdalsá að vegamótunum inn af Sunndal, þar sem Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var með drykkjarstöðina sína, ætlaði engan enda að taka. Þessi kafli er víða heldur á fótinn, og þó að maður taki varla eftir því á góðum degi fór það ekkert á milli mála þennan dag. Einhvers staðar þarna náði Einar mér og hvarf svo yfir næstu hæð – og þá sat ég einn eftir í 8. sæti. Markmiðið um 9. sætið gat þó alveg náðst.

Millitíminn á drykkjarstöðinni á vegamótunum var 4:48:35 klst. Þar breytti ég út af næringaráætluninni minni, staldraði við og fékk mér þrjá bananabita og einn súkkulaðimola. Annars voru bara orkugel á matseðlinum, svona rétt eins og venjulega. Einhverjar vonir hafði ég um að bananarnir myndu kannski slá á krampana í kálfunum. Það gekk reyndar ekki eftir, enda held ég að þessir krampar hafi hvorki stafað af skorti á vatni eða steinefnum, heldur einfaldlega af skorti á vöðvastyrk með tilheyrandi skammhlaupi í taugakerfinu.

Síðustu 8 kílómetrarnir
Millitíminn á síðustu drykkjarstöðinni þýddi að ég hafði 1:12 klst til að komast síðustu 8 kílómetrana, miðað við 6 klst markmiðið. Það samsvarar 9 mín/km, sem er bara rúmlega gönguhraði. Varla gat ég orðið lengur en það! Kramparnir í kálfunum voru reyndar orðnir mjög leiðinlegir, sérstaklega þar sem undirlagið var óslétt. Þarna er undirlagið víðast óslétt. En þetta var nú samt næstum því í lagi, svo lengi sem ég fengi ekki krampa í lærin. Ég hafði reyndar engar áhyggjur af því, enda leysa áhyggjur engan vanda. En svo, þegar úrið sýndi nákvæmlega 42 km, fékk ég allt í einu krampa aftan í vinstra lærið. Ég hef lent í þeirri stöðu áður og veit að þá eru skjót ráð vandfundin. Þarna hefði verið gaman að prófa súra gúrkusafann sem margt bendir til að komi að gagni í þessum aðstæðum, en ég var bara ekki með neitt svoleiðis með mér. Mér tókst að standast freistinguna að kasta mér til jarðar, enda getur verið snúið að standa upp aftur. Önnur helstu ráð eru t.d. að teygja á viðkomandi vöðva eða ganga spölkorn aftur á bak. Hvorugt virkaði í þetta skiptið. Þá leitaði hugurinn suður í Fauskatorfur þar sem ég var í svipuðu brasi í fyrsta Laugavegshlaupinu mínu sumarið 2007, stjórnlaus samdráttur í lærvöðva og langt í mark. Þá dugði mér að staulast ofur varlega nokkur hundruð metra – og síðan gat ég byrjað að skokka aðeins aftur. Þetta dugði líka núna, en skokkið varð jafnvel enn hægara en áður. Upp úr þessu fór Tjörvi framúr mér og þar með var ég dottinn niður í 9. sætið. Kannski myndi ég ná að halda því – og enn var möguleiki að ná 6 klst markmiðinu, þótt lítið mætti út af bera úr þessu.

Rúmir 43 km að baki, lærið orðið nokkurn veginn nothæft og tekið að halla niður í Steingrímsfjörð.

Og áfram staulaðist ég, niður hlíðina fyrir ofan Bólstað, niður á veg, fram með Selánni og yfir hana á vaðinu þar sem brúin var áður. Ég var reyndar búinn að kvíða fyrir Selánni, því að kramparnir mínir eiga það til að versna í köldu vatni. En Seláin breytti svo sem ekki öllu og á endanum komst ég inn á grasi gróna flötina við skíðaskálann þar sem endaspretturinn hafði verið laglega merktur með gulum veifum. Síðustu skrefin voru mjúk og full af þakklæti, í markið komst ég á 5:57:45 klst í 9. sæti og náði þar með báðum markmiðunum sem ég setti mér á leiðinni.

Eftirhlaupagleðin
Það var gott að koma í mark, enda var það eitt og sér aðalmarkmið dagsins. Eftirhlaupagleðin hafði því óheftan aðgang að mér. Mér leið vissulega illa í fótunum, en ég var samt kominn alla þessa leið, alheill og óskaddaður. Meira datt mér ekki í hug að biðja um eins og í pottinn var búið. Við þetta bættist svo allt sólskinið sem fylgdi mér þennan dag. Hitamælirinn í Selárdal sýndi 20°C og allt í kringum mig var fólk, bæði aðrir keppendur og starfsmenn, sem öll voru álíka glöð og ég. Á svona degi þarf enginn að kvarta!

Lokaorð
Þakkir dagsins, til viðbótar þessum hefðbundnu til fjölskyldunnar og forsjónarinnar, fær stjórn Skíðafélags Strandamanna fyrir að standa fyrir þessu skemmtilega hlaupi og leyfa mér að vera samferða, bæði í undirbúningnum og í hlaupinu sjálfu. Ég hlakka til að endurtaka leikinn að ári – með sterka kálfa.

Alsæll í markinu í Selárdal eftir erfiðan en sólríkan dag, fullan af gleði. (Ljósm. Salome Hallfreðsdóttir).

Krampar á Laugaveginum

Það er eiginlega orðin hefð hjá mér að hlaupa Laugaveginn alltaf á oddatöluárum. Og til að rjúfa ekki hefðina tók ég að sjálfsögðu þátt í hinu árlega Laugavegshlaupi laugardaginn 17. júlí sl. Þetta var sjötta Laugavegshlaupið mitt og rétt eins og í öll hin skiptin finnst mér tilheyra að segja frá reynslunni í löngum bloggpistli. Pistlaskrifin eru eiginlega líka orðin hefð – og auk þess gleymast ýmis smáatriði úr upplifuninni ef maður skrifar þau ekki hjá sér. Sum þessara smáatriða koma að gagni þegar ég fer að undirbúa næsta Laugavegshlaup (í júlí 2023), og þar að auki er mér sagt að þau komi stundum öðrum hlaupurum að gagni. Það gleður mig og bætir tilgangi við skrifin.

Undirbúningurinn
Undirbúningurinn minn fyrir Laugavegshlaupið hófst í raun í ársbyrjun. Þá hafði ég verið að glíma við svolítil kálfameiðsli í nokkrar vikur og þau minntu á sig á hverri hlaupaæfingu. Reyndar voru æfingarnar frekar fáar og smáar um þetta leyti – og þannig hafði það verið síðan í nóvember. Það hljómar e.t.v. þversagnarkennt, en mér finnst meiðslahætta aukast eftir því sem æfingunum fækkar. Þarna varð mér ljóst að ég kæmist ekki mikið lengra án þess að breyta um áherslur. Þess vegna ákvað ég í byrjun janúar að taka eitt skref til baka og byrja frá grunni á nýju uppbyggingartímabili í hlaupaþjálfuninni. Af því tilefni bjó ég mér til sérstaka Endurreisnaráætlun, byggða á því sem ég hef sjálfur reynt og lesið síðustu ár og áratugi.

Grunnstoðirnar í Endurreisnaráætluninnni minni voru fjórar:

 1. Þrjár hlaupaæfingar í viku í janúar, fjórar í febrúar, fimm í mars og sex í apríl.
 2. 20 km í 1. viku og síðan +5 km í hverri viku þar til 70 km væri náð í 11. viku. Þá skyldi breytileikinn aukinn.
 3. Eitt Hafnarfjall í viku ef hægt væri, eða í það minnsta 10 Hafnarfjöll fyrir lok mars.
 4. Þrjár styrktaræfingar í viku (heima af því að ræktin var lengst af lokuð), eða í það minnsta 33 fyrir lok mars.

Við þetta bætti ég svo þeirri meginreglu að lengsta hlaup vikunnar mætti aldrei vera meira en helmingur af heildarvegalengd vikunnar. Og til að auka fagmennskuna bætti ég inn í þetta viku- eða hálfsmánaðarlegum heimsóknum til Halldóru sjúkraþjálfara (Sjúkraþjálfun Halldóru í Borgarnesi), sem hjálpaði mér að koma kálfunum í lag, fyrst með raförvun og síðan með nuddi.

Endurreisnaráætlunin tók gildi 4. janúar og gilti til aprílloka. Og í stuttu máli heppnaðist hún í öllum aðalatriðum, eins og m.a. má sjá hér til hliðar á skjámyndinni af Strava sem sýnir vikulegar vegalengdir fyrstu 11 heilu vikur ársins. Reyndar brá eitthvað útaf eins og alltaf vill verða, þó að það sjáist ekki á myndinni.

Síðustu vikur Endurreisnaráætlunarinnar voru ögn lausari í sér, en meginniðurstaðan var þó sú að í sumarbyrjun var ég meiðslalaus og í býsna góðu hlaupastandi, þó að enn vantaði nokkuð upp á þann styrk og hraða sem ég hefði viljað búa yfir. Allan tímann hugsaði ég um Laugaveginn sem helsta viðfangsefni sumarsins. Fór reyndar í Hengil Ultra (53 km) í byrjun júní, en leit líka á það sem æfingu fyrir Laugaveginn. Hengillinn reyndi frekar lítið á mig hlaupalega séð, en þess meira andlega í miklum kulda og vosbúð. Þegar á heildina er litið hefði júní mátt vera ögn þéttari, bæði hvað varðar heildarvegalengd og hæðarmetra. En auðvitað skiptir margt fleira máli en þessar tölur.

Dagarnir fyrir hlaup
Undirbúningurinn fyrir Laugaveginn snýst ekki bara um æfingar mánuðina á undan. Það sem gerist síðustu dagana fyrir hlaup skiptir líka miklu máli, þ.m.t. allt sem varðar vinnu, mataræði, svefn og önnur viðfangsefni í lífinu. Í stuttu máli voru öll þessi atriði í óvenju góðu lagi síðustu dagana fyrir hlaupið.

Markmiðin fimm
Þó að ég teldi mig almennt vera í góðu hlaupastandi fyrir Laugaveginn vissi ég óvenjulítið um raunverulega getu. Mér finnst árangur í keppnishlaupum alltaf vera besti mælikvarðinn á svoleiðis, og þar sem Laugavegurinn var bara 4. keppnishlaup sumarsins voru viðmiðin í fátæklegra lagi. Hengillinn gaf svo sem engar vísbendingar, þar sem ytri aðstæður voru afbrigðilegar. Hins vegar hljóp ég hálft maraþon í blíðskaparveðri á Akureyri 1. júlí á 1:38:14 mín. Tíminn var lakari en hálfmaraþontímarnir mínir undanfarin ár, en í þessu hlaupi lagði ég meiri áherslu á vellíðan en sekúndur og því e.t.v. ekki mikið á tímanum að byggja. Heimatilbúin reikniformúla (hálfmaraþontími x 3,71) benti þó til þess að ég ætti að geta hlaupið Laugaveginn á nákvæmlega 6:04:27 klst. Já, og í þriðja lagi hljóp ég reyndar Dyrfjallahlaupið 3. júlí og leið mjög vel þar. Tíminn í svoleiðis hlaupi er hins vegar afstæður þar sem viðmiðanir skortir.

Ég hef gaman af markmiðum og þess vegna setti ég mér fimm markmið fyrir Laugaveginn. Hef stundum gert þetta áður til að eiga markmið til skiptanna þegar líður á hlaup. Lakasta markmiðið á þá helst að vera eitthvað sem ég er viss um að ná. Þannig reyni ég að komast hjá því að búa mér til vonbrigði, því að þó þetta sé allt til gamans gert er mér ekki sama hver lokatíminn verður. Markmiðin fimm birti ég svo á Facebook daginn fyrir hlaup:

 1. A – Draumamarkmiðið = 5:55:55 klst, (sem væri besti Laugavegstíminn minn eftir sextugt, PB60+ sem sagt).
 2. B – Hefðbundna markmiðið = 5:59:59 klst, (sem sagt undir 6 klst).
 3. C – Raunsæja markmiðið = 6:04:27 klst, (sem er líklegasti tíminn skv. hávísindalegum útreikningum mínum).
 4. D – Betraensíðast markmiðið = 6:05:47 klst, (sem sagt aðeins betra en 2019).
 5. E – Sársaukamarkamarkmiðið = 6:10:00 klst, (en allt umfram það mun valda mér (óþörfum og sem betur fer skammvinnum) vonbrigðum, (jafnvel þótt ég reyni að vera rólegur á vanþakklætinu)).
Búinn að sækja keppnisnúmerið – og með markmiðin á hreinu.

Áætlun dagsins
Ég skipti Laugaveginum alltaf í áfanga og geri áætlun um millitíma á helstu viðkomustöðum. Styðst þá við millitímana mína úr fyrri Laugavegshlaupum og aðlaga þá að þeim lokatíma sem stefnt er að. Í þetta skipti ákvað ég þó að hafa fyrstu áfangana hlutfallslega hægari en oftast áður í þeirri von að eiga þá kannski meira inni fyrir spölinn frá Emstrum niður í Þórsmörk. Ég náði besta Laugavegstímanum mínum (5:41:10 klst) árið 2015 – og í því hlaupi voru fyrstu áfangarnir tiltölulega hægir. Eftirfarandi tafla varð til þegar ég skipti lokatímanum skv. markmiði A hér að framan í sömu hlutföllum og í hlaupinu 2015, (stærri tafla birtist ef smellt er á þessa):

Síðustu stundirnar fyrir hlaup
Að þessu sinni var ekki efnt til neinnar hópferðar frá Borgarnesi upp í Landmannalaugar, heldur sáu félagar úr Hlaupahópnum Flandra um að koma sér á staðinn hver með sínum hætti. Við Birkir bóndi lögðum af stað úr Borgarnesi um kl. 3 aðfaranótt hlaupadagsins og tókum svo fyrstu rútu úr Reykjavík kl. 4:30. Ferðalagið var tíðindalítið, þoka lá yfir Suðurlandinu og tíminn í rútunni var nýttur til svefntilrauna og nestisáts. Þegar komið var upp í Hrauneyjar hafði létt til og flest benti til að sólin yrði stórtæk þennan dag. Veðurspáin bauð líka upp á hægan meðvind, bjartviðri og hlýindi þegar líða tæki á daginn. Í Landmannalaugum var hið besta veður, svolítil gola, sólskin og á að giska 8 stiga hiti. Þetta var greinilega stuttbuxna- og stuttermabolaveður, en kannski sniðugt að vera með hanska til að byrja með.

Í Landmannalaugum hitti ég alla hina Flandrafélagana, en samtals vorum við sjö í þessu hlaupi – og Birkir bóndi sá áttundi. Kristinn (Kiddó) var sá eini, auk mín, sem hafði verið settur í fyrsta ráshóp (gula hópinn), Birkir og nokkrir aðrir úr hópnum voru í ráshópi nr. 2 (rauða hópnum), og svo koll af kolli. Fyrsti hópurinn var ræstur kl. 9 og þar með var verkefni dagsins hafið fyrir alvöru.

Landmannalaugar – Hrafntinnusker: 10,26 km
Eins og fyrr segir var ég staðráðinn í að hafa fyrstu áfangana í hlaupinu hlutfallslega hægari en áður – og í samræmi við það fór ég mér í engu óðslega fyrstu kílómetrana, jafnvel þótt ég sæi undir hælana á hlaupurum sem ég tel vera á svipuðu róli og ég. Á þessum kafla var ég lengi í samfloti með Sonju Sif og fleiri öflugum hlaupurum frá Akureyri, enda ætluðu þau líka að fara sér hægt til að byrja með. Ofarlega í brekkunum fór ég þó að dragast aftur úr og var auðvitað alveg sama um það. Þá var ég líka hættur að sjá Kiddó í fjarska, en hann er sterkur í brekkum og á miklu betri tíma á Laugaveginum en ég.

Bjartsýnn og glaður á fyrstu kílómetrunum. (Mynd: Hlaup.is).

Sólin skein á leiðinni upp í Hrafntinnusker og líklega lækkaði hitinn lítið sem ekkert þótt landið hækkaði. Hanskarnir fóru fljótlega í vasann og mér varð hugsað til hlírabolsins sem ég skildi eftir í töskunni minni. Hlírabolir henta bara ekki alltaf vel undir hlaupabakpoka, því að þá eru einhverjar líkur á nuddsárum á öxlum undan böndunum á bakpokanum. Í því lenti ég einmitt í Dyrfjallahlaupinu viku fyrr.

Færðin uppeftir var prýðileg að mínu mati og ég held að snjórinn hafi verið minni en oft áður. Á einum stað hafði myndast hnédjúpur krapapollur í snjónum, en einn pollur skiptir engu máli í svona hlaupi. Tilfinningin sem ég fékk í pollinum minnti mig þó á að stundum fæ ég krampa í kálfana ef ég stend lengi í mjög köldu vatni. En svo hugsaði ég ekki meira um það. Áhyggjur af því sem gæti gerst hjálpa manni ekki neitt.

Ég hef ekki komið mér upp neinum viðmiðum á leiðinni upp í Hrafntinnusker og vissi þar af leiðandi ekki hvort ég væri á áætlun fyrr en ég var kominn alla leið og klukkan sýndi u.þ.b. 1:18:30 klst. Ég var sem sagt orðinn einni mínútu á eftir áætlun (sjá töfluna hér að framan), þrátt fyrir að áætlunin væri afar hófstillt. Af þessu var ekki hægt að draga neinar ályktanir, en ég hugsaði þó með mér að ég vildi helst ekki tapa meiri tíma á leiðinni niður að Álftavatni. Áætlunin þar hljóðaði upp á 2:28:30 klst og ég vissi að ég yrði pínu leiður ef ég færi fram yfir 2:29:30. En mér leið vel og þóttist viss um að geta unnið upp einhverjar mínútur í seinni hluta hlaupsins. Auk þess tók áætlunin mið af stífasta markmiðinu (markmiði A með lokatíma upp á 5:55:55 klst). Eftir sem áður var markmið B („sub-6“) vel innan seilingar.

Hrafntinnusker – Álftavatn: 11,09 km
Sjálfsagt taka glöggir lesendur eftir því að kílómetratölurnar í millifyrirsögnunum eru ekki alveg þær sömu og í töflunni hér að framan. Þær tölur eru námundaðar og svo mælist þetta aldrei alveg jafnlangt. En það er aukaatriði, því að staðirnir sem um ræðir færast ekki neitt frá ári til árs. Hvað sem þessu líður fannst mér ég ekkert sérlega ferskur þegar ég lagði af stað frá Hrafntinnuskeri. Fann svo sem hvergi til, nema aðeins í vinstra hnénu sem hefur stundum verið mér til ama síðustu tvö ár. En þau óþægindi gleymdust fljótt. Ég sá orðið lítið til Akureyringanna og á leiðinni yfir fjöllin fóru nokkrir hlauparar fram úr mér. Ég er svo sem aldrei að keppa við neinn nema sjálfan mig, en það er samt ekki uppörvandi þegar manni finnast „allir aðrir“ fara hraðar. Reyndar fór ég aftur fram úr nokkrum á leiðinni niður Jökultungur. Á hlaupum hef ég oft haft tilefni til að rifja upp ljóðlínu eftir Stein Steinarr; „Styrkur minn liggur allur í undanhaldinu“.

Þegar ég nálgaðist Álftavatn sá ég að áætlunin stóð tæpt – og þegar þangað var komið sýndi klukkan 2:31:25 klst, eða þar um bil. Ég var þá sem sagt búinn að tapa u.þ.b. tveimur mínútum til viðbótar við þessa einu sem tapaðist á leiðinni upp í Hrafntinnusker, án þess þó að ég hefði reynt að spara mig á þessum kafla. Þar með vissi ég eiginlega að bæði markmið A og B væru fyrir bí, þ.e.a.s. að ég myndi að öllum líkindum ekki ná að hlaupa undir 6 klst. En það var svo sem allt í lagi. Og svo var aldrei að vita nema ég yrði ógurlega hress þegar ég kæmi í hlýja meðvindinn sem búið var að spá á söndunum.

Álftavatn-Bláfjallakvísl: 5,23 km
Þegar þarna var komið sögu var ég staðráðinn í að hlaupa bara eins og mér var eðlilegt það sem eftir væri hlaupsins. Orkusparnaði var sem sagt aflýst, en átök voru samt ekki á dagskrá. Mér fannst þetta ganga svona sæmilega, en á þessari leið fór Hálfdán Daðason þó fram úr mér. Það var náttúrulega bara fínt, en samt var tvennt í því sem líta mátti á sem viðvörun. Annars vegar er Hálfdán í sama aldursflokki og ég og hins vegar var hann í rauða ráshópnum, sem þýddi að þegar þarna var komið sögu var hann búinn að vinna upp 5 mínútna forskot sem ég hafði á hann í startinu. En hlaupið var engan veginn búið og óþarfi að fara á taugum yfir þessu. Það að öðrum gangi vel þýðir líka alls ekki að mér gangi illa. Já, og svo er ég líka alltaf að keppa bara við sjálfan mig. Að vísu hafði ég tekið eftir því að nú var í fyrsta skipti búið að lofa hlaupaskóm í verðlaun fyrir sigurvegara í hverjum aldursflokki. En ég á nóg að hlaupaskóm – og auk þess vissi ég af rúmlega sextugum Ísraelsmanni sem var skráður í hlaupið og var með álíka mörg ITRA-stig og ég. (Fyrir þá sem ekki vita eru ITRA-stigin eins konar styrkleikalisti allra heimsins utanvegahlaupara). Kannski vantaði þennan Ísraelsmann frekar hlaupaskó en mig, já eða Hálfdán.

Þegar þarna var komið sögu var ég hálfpartinn farinn að búast við að Birkir bóndi færi að ná mér. Hann er oftar en ekki sprækari en ég, þannig að 5 mínútna forskot á hann í ræsingunni gat varla enst mjög lengi. Seinna komst ég að því að ég var enn með 3 mín forskot á hann þegar ég kom að Bláfjallakvísl. Þar sýndi klukkan u.þ.b. 3:07 klst, sem þýddi að ég var kominn 5 mín á eftir áætlun, þrátt fyrir að mér fyndist ég hafa haldið nokkuð vel á spöðunum. Þarna var hlaupið hálfnað í kílómetrum talið og því ekki ólíklegt að ég myndi tapa öðru eins á seinni hlutanum. Lokatíminn yrði þá um 6:05:30 klst, þ.e.a.s. bara rétt við markmið D („betraensíðast markmiðið“).

Bláfjallakvísl-Emstrur: 10,73 km
Þessi hluti hlaupsins er sá tilbreytingarminnsti, aðallega sléttir sandar með mislausu undirlagi – og svo nokkrar hæðir í lokin. Þegar best hefur látið hef ég verið um 1 klst að hlaupa þennan spotta, en nú hafði ég ætlað mér 1:02:30 klst. Ef það gengi eftir myndi millitíminn í Emstrum verða rétt innan við 4:10 klst.

Ég kvíði því yfirleitt að hlaupa sandana, en í þetta skipti hlaut það að verða með besta móti – í þessum hlýja meðvindi sem búið var að spá. En það sem átti að verða norðvestanátt var allt í einu orðið að suðvestanátt. Hlýi meðvindurinn var þar með orðinn að hlýjum mótvindi. Mér fannst vindurinn í sjálfu sér bara þægilegur, enda hitastigið enn á uppleið, en að öðru leyti er þetta bara eðlisfræði. Maður þarf meiri orku til að flytja tiltekinn fjölda kílóa (þótt fá séu) frá einum stað til annars í mótvindi en í meðvindi. Þetta gat sem best kostað einhverjar mínútur og búið til svolitla þreytu. Ég var reyndar ekkert sérstaklega þreyttur á þessu augnabliki, bara pínulítið svekktur að komast ekki hraðar yfir.

Á söndunum, sérstaklega framan af, sýndist mér ég heldur vera að draga á fólk sem hafði farið fram úr mér fyrr í hlaupinu. Þarna náði ég reyndar líka Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur, ofurhlaupakonu úr Borgarfirðinum. Henni vildi ég helst ekki ná, því að ég veit að hún getur hlaupið Laugaveginn á miklu betri tíma en ég. Þetta var ekki vísbending um að mér gengi vel, heldur að henni gengi illa. Það fannst mér leiðinlegt.

Ég náði að pjakka sandana jafnt og þétt – og reyndar fannst mér ég bara halda nokkuð vel áfram. Varð reyndar aðeins var við krampatilfinningu í kálfunum, en það var ekkert til að gera veður út af. Ég finn oft fyrir einhverju svoleiðis án þess að það þróist upp í einhver leiðindi.

Í Emstrum beið mín enn smáskammtur af vonbrigðum. Tíminn var kominn í 4:12:45 klst, sem þýddi að ég var orðinn 8:15 mín á eftir áætlun (sjá töfluna). Enn taldi ég þó möguleika á að ljúka hlaupinu á 6:06 klst eða þar um bil, sem sagt nálægt markmiði D. En þá varð lokakaflinn líka að vera sæmilegur.

Emstrur-Þröngá: 13,35 km
Það er alltaf gott að koma í Emstrur og mér leið vel þegar ég fór þaðan. Sá sem getur hlaupið Laugaveginn þarf ekki að kvarta yfir neinu, jafnvel þótt ferðin sé ögn seinlegri en vonir stóðu til. Ég tala nú ekki um þegar sólin skín á mann allan daginn og allar áhyggjur af amstri dægranna eru fjarri. Ég var samt bara nýlagður af stað þegar krampinn gerði vart við sig fyrir alvöru, ekki reyndar alltaf á sama stað, heldur stundum hægra megin, stundum vinstra megin, jafnvel stundum í iljunum. Þetta stefndi í vesen, stundum þurfti ég að stoppa alveg, stundum gat ég gengið rólega og stundum skokkað með gát. Þarna voru öll markmið afskrifuð samstundis. Nú gilti bara að halda í gleðina og koma sér í mark, fyrr eða síðar.

Rétt eftir að þessi nýi krampaveruleiki rann upp fyrir mér náði ég Sonju Sif. Það voru aðrar slæmar fréttir, því að auðvitað langaði mig til að henni gengi betur en þetta. Hún hafði líka þurft að afskrifa markmiðin sín, og þannig var það reyndar með marga fleiri, svona eftir á að hyggja. Í þessu hlaupi virtist árangur flestra vera undir væntingum. Kannski var það hitinn, kannski mótvindurinn. Laugavegshlaup er flókið viðfangsefni þar sem margt þarf að ganga upp til að markmiðin náist.

Kramparnir létu mig ekki í friði það sem eftir var hlaupsins, en voru sem betur fer misslæmir. Mér gekk þannig sæmilega að hlaupa á sléttu en afleitlega í brekkum, bæði upp og niður, kannski þó enn frekar niður. Áfanginn frá Emstrum að Ljósá á það til að vera langur, en í þetta skipti tókst mér vel að halda hausnum uppteknum við eitthvað annað en að hugsa um kílómetratöluna á úrinu, sem eflaust breyttist mjög hægt. Það jók líka gleði mína að á þessum kafla náði Ragnheiður mér aftur – og Sonja Sif var heldur ekki langt undan. Lukkan virtist því heldur hafa gengið í lið með þeim á nýjan leik. Og svo heyrði ég kallað á eftir mér „Það sem drepur mann ekki herðir mann“. Þá vissi ég að Birkir bóndi var mættur. Hann hafði verið að glíma við verki í skrokknum, en sagðist ætla að reyna að taka almennilega á því þegar við kæmum að Kápunni.

Hjá drykkjarstöðinni við Ljósá sýndi klukkan mín u.þ.b. 5:37 klst. Ég vissi að þaðan væru ekki nema einhverjir 5 km í mark og þá 5 km hlyti ég að geta hlaupið á 35 mín. Lokatíminn gæti þá orðið nálægt 6:12 klst. Það gat verið verra.

Birkir stóð við orð sín um Kápuna. Hann kvaddi mig við Ljósá og þaut upp brekkurnar í rykmekki. Seinna sá ég að hann hafði verið u.þ.b. 6:30 mín fljótari en ég með síðustu 5 kílómetrana. Einhvers staðar á þessum slóðum fór Jóhann Karlsson líka fram úr mér. Jóhann er nýorðinn 73ja ára, en gefur lítið eftir í hlaupunum. Ótrúlega magnaður hlaupari!

Kápan reyndist mér erfið, enda er þar lítið um lárétta kafla. Ég var í sjálfu sér ekkert mjög þreyttur þegar ég var kominn niður af henni og að vaðinu á Þröngá, en kálfarnir sýndu lítinn samstarfsvilja. En samt var gott að koma að Þröngá og hitta Ingvar Garðarsson og aðra þá sem gættu að öryggi hlaupara á leiðinni yfir ána. Þar er maður alltaf í traustum höndum. Og klukkan sýndi rétt um það bil 5:55 klst, þ.e.a.s. svipaðan tíma og ég hefði viljað sjá í markinu. Ég var sem sagt orðinn heilum áfanga (að vísu stuttum) á eftir áætlun. Nú hlutu mér að duga 20 mín til að klára hlaupið – og lokatíminn 6:15 virtist í augsýn.

Hápunktur dagsins: Jóhanna og ég.

Þröngá-Húsadalur: 2,77 km
Mér dugðu ekki 20 mín til að klára hlaupið, heldur var ég 20:55 mín að komast þennan síðasta spöl og hef aldrei verið lengur. Árið 2019 var ég t.d. ekki nema 19:02 mín að skrölta þetta, þrátt fyrir mikla þreytu og bugun, og 2017 var ég 18:16 mín með brotna öxl. En úr því sem komið var skipti tíminn svo sem engu máli. Nokkur hundruð metrum frá markinu stóð Jóhanna mín sem hafði gert sér ferð í Þórsmörk til að taka á móti pabba sínum. Svoleiðis móttökur eru ótrúlega dýrmætar og síðustu skrefin í markið voru létt. Lokatíminn var 6:16:10 klst, sem sagt 6 mín lakari en ég hafði reiknað með í versta falli. En eftir á að hyggja skipta 6 mínútur engu máli í svona hlaupi.

Eftir hlaup
Mér leið ágætlega þegar ég var kominn í mark og var í raun ekkert sérstaklega þreyttur. Við tóku margar góðar mínútur í blíðviðrinu sem ríkti í Húsadal þennan dag. Svoleiðis mínútur eru yfirleitt meðal bestu stundanna minna og þetta skipti var engin undantekning. Þarna hitti ég að vanda marga af bestu hlaupavinum mínum, sem með árunum hafa líka skipað sér í hóp bestu vina minna. Og best af öllu var að Jóhanna skyldi vera þarna líka.

Síðustu metrarnir í markið. (Mynd: Hlaup.is).

Tveir fyrstu menn í flokki 60-69 ára: Ég og sigurvegarinn Avidov Efraim Lieberman. (Mynd: Sonja Sif).

Þó að ég væri tiltölulega lítið þreyttur gerðu kramparnir mér erfitt fyrir við fataskipti o.þ.h., en þar hafði ég nógan tíma og fékk líka hjálp til að klæða mig í sokka. Svo var bara kominn tími á enn meira spjall, mat og verðlaunaafhendingu. Að þessu sinni náði ég 2. sætinu í flokki 60-69 ára, á eftir fyrrnefndum Ísraelsmanni sem var meira en 20 mín á undan mér. Næstu árin verður erfiðara hjá mér að komast á pall, því að nú þyrpist fullt af ungu fólki upp í þennan aldursflokk. Næsta ár kemur t.d 1962-árgangurinn inn af fullum þunga, og svo koll af kolli. En svo byrjar nýtt tímabil sumarið 2027 þegar ég kemst á áttræðisaldurinn.

Fæði og klæði
Það getur komið sér vel að eiga einhvers staðar minnispunkta um klæðaburð og næringu í fyrri hlaupum. Þess vegna ætla ég að eyða nokkrum línum í þau mál hér. Kannski hjálpar það mér (og jafnvel öðrum) að velja rétta útbúnaðinn í næsta hlaupi.

Glaðir Strandamenn (Birkir og ég) í Húsadal að loknu Laugavegshlaupi. (Mynd: Jóhanna).

Fatnaðurinn í þessu Laugavegshlaupi var með einfaldasta móti, enda spáð þurru og hlýju veðri. Ég hljóp sem sagt í stuttbuxum og stuttermabol, en var með fisléttan vindjakka í hlaupavestinu fyrir siðasakir. Notaði hann auðvitað ekkert. Var með hanska fyrstu kílómetrana, en síðan hvíldu þeir sig í vasa á vestinu það sem eftir var. Ekkert höfuðfat var með í för. Ég var í sömu þunnu sokkunum og venjulega, í léttum ársgömlum utanvegaskóm sem auðvelt er að skipta um vatn í – og með ómissandi skóhlífar sem ég keypti vorið 2015.

Í hlaupavestinu bar ég tvo vatnsbrúsa með 0,5 l af vatni í hvorum um sig. Ákvað að láta þetta vatn duga sem grunnforða alla leið, þar sem það er dálítið tafsamt að bæta vatni í þessa brúsa. Til viðbótar var ég með 200 ml fjölnotaglas sem ég fékk vatn í á nánast öllum drykkjarstöðvum, ýmist eina fyllingu eða tvær. Samtals drakk ég eitthvað um 2 l af vatni á leiðinni, sem er nokkuð nálægt því sem ég tel hæfilegt. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að vatnsþörf er einstaklingsbundin og ræðst m.a. af líkamsþyngd og því hversu mikið maður svitnar. Ég er frekar fá kíló og svitna lítið.

Eina nestið mitt voru GU-gel, öll með koffíni. Þannig hef ég líka haft það í síðustu Laugavegshlaupum. Áður hafði ég stundum salthnetur og rúsínur með mér, aðallega til tilbreytingar. Ég tók eitt gel rétt fyrir startið og svo eitt á 45 mín fresti í gegnum allt hlaupið, nema hvað ég sleppti síðasta tækifærinu, þ.e. við 6 klst markið. Þá taldi ég þetta ekki skipta máli lengur, enda bara 16 mín eftir. Ég sporðrenndi sem sagt 7 gelum á leiðinni og tók ekki inn neina aðra næringu. Ég hef blessunarlega verið laus við magavandamál i keppnishlaupum og get torgað hellingi af gelum án þess að lenda í vandræðum. Ég get þó ekki sagt að mig hafi langað í þau síðustu. Ég tel að þessi næringarinntaka hafi verið nægjanleg, enda var ég sérlega vel nærður dagana og klukkutímana fyrir hlaup. Maður nær hvort sem er ekki að taka inn jafnmikla orku og maður notar í hlaupinu. Í svona stuttu hlaupi (stuttu miðað við 100 km og þaðan af lengra) á þetta alveg að sleppa. Ég tel mig líka sæmilega þjálfaðan í að brenna fitu eftir því sem þörf er á. Kolvetnabirgðir líkamans fyrir hlaup, gelin sem ég tók á leiðinni og fituforðinn, sem e.t.v. var eitthvað höggvið í, áttu að duga mér. Ég fann heldur aldrei fyrir orkuskorti. Fræðilega séð gæti næringin (eða öllu heldur skortur á næringu) haft eitthvað að segja um krampana í kálfunum, en ég tel þó að ástæða þeirra hafi verið önnur (sjá neðar).

Lærdómurinn
Mér finnst ég alltaf læra eitthvað í hverju Laugavegshlaupi. Eins og ráða má af þessu pistli fannst mér þetta hlaup ekki ganga alveg eins vel og ég hefði viljað, en sem fyrr segir þarf sá sem getur hlaupið Laugaveginn ekki að kvarta yfir neinu, jafnvel þótt ferðin sé ögn seinlegri en vonir stóðu til. Það eitt að komast á ráslínuna er stórkostlegt – og enn stórkostlegra að komast alla leið í mark, hvort sem það gerist fjórum eða níu klukkutímum síðar.

Ég held að helstu mistökin þetta árið hafi verið eftirtalin:

 1. Of fáar styrktaræfingar. Krampar geta átt sér ýmsar orsakir, eins og m.a. má lesa um í krampapistlinum sem ég skrifaði fyrir hlaup.is sl. vetur. Í mínu tilviki sýnist mér að skortur á vöðvastyrk í kálfum sé líklegasta orsökin. Sú staðreynd að ég gat frekar skokkað á sléttum köflum en upp og niður brekkur styður þessa tilgátu að mínu mati. Einhvers staðar las ég líka að kálfavöðvar rýrni hraðar með aldri en aðrir vöðvar. Ég hef einmitt verið frekar tæpur í kálfunum síðustu mánuði, á sama tíma og mér hefur gengið þokkalega að halda styrk í lærum og rassvöðvum.
 2. Of fáar æfingar í júní og of fáir hæðarmetrar. Einhvern veginn duttu æfingarnar svolítið niður eftir Hengilinn. Það gerði kannski ekki útslagið, en þetta hefði mátt vera þéttara.
 3. Kannski drakk ég ekki nógu mikið á leiðinni. Í heildina drakk ég u.þ.b. tvo lítra, eins og áður segir, eða hátt í 400 ml. af vatni fyrir hverja 10 km. Get auðvitað ekkert fullyrt um það hvort meira hefði verið betra. Held samt ekki. Minna hefði þó örugglega verið verra.

Í stuttu máli held ég að skortur á styrktaræfingum hafi verið aðalvandamálið – og þá er ég aðallega að tala um lyftingar með sæmilegum þyngdum, sem reynt hefðu á kálfavöðvana.

Hvað stendur upp úr?
Þetta hlaup var stórkostleg upplifun, eins og alltaf, og mörg innlegg bættust í reynslubankann. Því að jafnvel þótt leiðin sé alltaf sú sama eru Laugavegshlaupin hvert öðru ólík. Upplifunin hverju sinni ræðst af undirbúningnum, fólkinu sem er í kringum mann, veðrinu og svo ótal mörgu öðru. Að einu leyti var þetta hlaup þó mjög líkt hinum fimm. Það minnti mig á hversu mikilla forréttinda ég nýt, eða fyllti mig með öðrum orðum af þakklæti. Í þetta skipti var þessi tilfinning jafnvel enn meira afgerandi en venjulega, að hluta til vegna þess að þetta verður einhvern veginn minna sjálfsagt með aldrinum, en aðallega þó vegna þess að einmitt vikurnar fyrir þetta hlaup höfðu tvö úr hópi bestu hlaupavina minna helst úr lestinni vegna slysa og veikinda. Sú staða minnir mann harkalega á hversu lítið sjálfsagt þetta er allt saman og hversu litlu máli skiptir hvort lokatíminn sé nokkrum (t.d. 6) mínútum lengri eða skemmri.

Það er sem sagt þakklætið sem stendur upp úr, bæði þakklætið fyrir að geta þetta og þakklæti í garð þeirra sem gera hlaupin mín enn skemmtilegri en ella. Þar á fjölskyldan alltaf stærstan hlut að máli, og í þetta sinn var Jóhanna mín þar í aðalhlutverki. Svo eiga hlaupavinirnir nær og fjær líka sinn skammt af þakklætinu. Eitt Laugavegshlaup er ekki bara eitt Laugavegshlaup. Það er hluti af stórri og stækkandi heild sem bætir tilgangi við lífið, sem þó var fullt af tilgangi fyrir.

PS1: Frásagnir mínar af fyrri Laugavegshlaupum má finna hér að neðan:

PS2: Sagan öll í annarri útgáfu, (myndin stækkar þegar smellt er á hana):

Hlaupaannáll 2020 og markmiðin 2021

Nú er hlaupaárið 2020 að baki. Þetta var að mörgu leyti gott hlaupaár frá mínum bæjardyrum séð, þó að margt væri öðruvísari og fábreyttara en á venjulegu hlaupaári. Eins og einhver kann að hafa tekið eftir var árið 2020 nefnilega ekki venjulegt ár, hvorki á hlaupum né í öðrum daglegum viðfangsefnum. En það breytir samt engu um þá 14 ára gömlu venju mína eða kæk að setjast niður í lok ársins til að rifja upp helstu viðburði í hlaupalífinu mínu og gefa innsýn í væntingar mínar til næsta hlaupaárs.

Rondane 100
Fyrstu vikur ársins 2020 voru vikur draums og vona. Frá því sumarið áður hafði ég og nokkrir uppáhaldshlaupafélagar verið að skoða heppileg 100 km hlaup í útlöndum, helst í ágúst 2020. Þar kom margt til greina, en 13. desember 2019 var sú ákvörðun tekin að stefna á nýtt hlaup í Noregi, Rondane 100. Þar var reyndar ekki boðið upp á 100 km, heldur bara 50 og 100 mílur. Sum okkar, þ.á.m. ég, ákváðu að láta þá „bara“ 50 mílur (rúma 80 km) duga, en önnur stefndu á 100 mílurnar. Skráningin opnaði 20. janúar og þá var stokkið til. Æfingarnar fengu nýjan tilgang og hugsunin um þetta spennandi verkefni hélt mér við efnið næstu vikurnar. En svo kom COVID-19. Strax í mars byrjaði maður að efast um að þetta verkefni gæti orðið að veruleika, þær efasemdir ágerðust með hverri vikunni sem leið og jafnframt fölnaði tilgangur markvissra æfinga. Um miðjan maí kom svo tilkynning þess efnis, að vegna sóttvarnarráðstafana sæju aðstandendur hlaupsins ekki fram á að geta tekið við erlendum þátttakendum. Þar með var sá draumur endanlega úti.

Auðvitað hafa hlaupaæfingar annan og meiri tilgang en að undirbúa eitthvert eitt hlaup. En ákvörðun um að taka þátt í svoleiðis hlaupi bætir samt alltaf góðum skammti af tilgangi við þetta allt saman, sérstaklega þegar aðdragandinn er búinn að vera langur og skemmtilegur eins og raunin var í þessu tilviki. Í þessum aðdraganda vorum við m.a. búin að finna einkar heimilislega gistingu í nokkur hundruð metra fjarlægð frá endamarkinu, sem var ekki sjálfsagt. Miðstöð hlaupsins er nefnilega í smábænum Folldal, þar sem búa aðeins um 1.500 manns og hótel eru ekki á hverju strái. Svo voru flugmiðarnir auðvitað löngu tilbúnir og ekkert eftir nema æfa og njóta tilhlökkunarinnar.

Besti félagsskapurinn. Gitta mín (Birgitta Stefánsdóttir) á Óshringnum við Hólmavík 1. febrúar. (Á myndinni efst í þessum pistli er hún hins vegar á leiðinni upp í Siglufjarðarskarð með Haganesvík í baksýn).

Æfingarnar 2020
Ég hljóp tiltölulega mikið á fyrsta fjórðungi ársins og var kominn i 660 km í marslok, ekki síst drifinn áfram að hugsuninni um Rondane 100 (eða Rendurnar eins og ég kýs að kalla það). Reyndar hef ég bara tvisvar hlaupið meira í kílómetrum talið fyrstu þrjá mánuði ársins. Þrátt fyrir mikil hlaup náði ég mér þó einhvern veginn aldrei almennilega á strik. Reyndar held ég að ég hafi aldrei æft eins mikið með eins litlum árangri. Slæmska í vinstra hné átti sinn þátt í því, en hnéð hefur verið að stríða mér a.m.k. frá því í byrjun júlí 2019. Í byrjun mars var hnéð skoðað með sónar og þá sáust einhverjar skemmdir. Mér var sagt að þetta væri ekkert stórmál, ég þyrfti að vísu að hætta að hlaupa á hörðu undirlagi, en ég gæti gert ýmislegt annað skemmtilegt í staðinn. Daginn eftir hljóp ég 34 km á malbiki, svona rétt á meðan ég var að hugsa málið. Um sama leyti var flestu lokað vegna COVID-19, ræktin skellti í lás, sjúkraþjálfun var bönnuð, sameiginlegar hlaupaæfingar lögðust af – og keppnishlaupin sem ég var búinn að skrá mig í eða láta mig dreyma um hurfu af hlaupadagskránni eitt af öðru. Þar með gafst mér enn meiri tími til að hugsa málið. Nokkrum vikum síðar var ég orðinn sannfærður um að hnévandamálið tengdist ekki skemmdunum sem sáust í sónarnum, enda sýna rannsóknir að mikill meirihluti fólks á mínum aldri er með einhverjar skemmdir í hnjám sem aldrei gera vart við sig og myndu ekki uppgötvast nema með myndatöku. Langlíklegasta skýringin var skortur á vöðvastyrk í framlærisvöðvum. Þetta hnjávandamál er enn til staðar og sjálfsagt á ég eftir að skrifa eitthvað meira um það síðar.

Skortur á vöðvastyrk er ekki bara líkleg skýring á lélegri hnjáheilsu, heldur væntanlega líka á litlum sýnilegum árangri af æfingum þessa tímabils. Ég var alveg sérstaklega linur í brekkum og í erfiðri færð. Í því sambandi er sérstaklega eftirminnilegt þegar ég hljóp Hvanneyrarhringinn í góðum félagsskap en mjög erfiðu færi 21. mars og þurfti næstum því að skríða heim. Úthaldið vantaði ekki, en hnéð var í tómu tjóni og fæturnir að öðru leyti eins og lítið bakað brauð.

Ég tognaði eitthvað smávegis um mánaðarmótin mars/apríl og tíminn sem í hönd fór var heldur lélegur í hlaupalegu tilliti. Tognunin ein og sér átti sennilega ekki stærstan þátt í því, heldur miklu frekar ákveðið áhugaleysi sem tengdist einsemd á æfingum og skorti á krefjandi markmiðum. Þegar þarna var komið sögu var COVID búið að dæma alla hlaupasamveru úr leik og þá fann ég betur en nokkru sinni fyrr hversu miklu máli slík samvera skiptir. Ég hleyp nefnilega ekki bara „vegna þess að ég get það“, heldur líka vegna þess að hlaupalífið mitt er líka mjög stór hluti af félagslífinu mínu. „Maðurinn einn er ei nema hálfur“, og allt það. Þegar upp var staðið voru reyndar flestar æfingarnar mínar á árinu einsmannsæfingar.

Á hlaupaæfingu í Hafnarskógi.

Um miðjan júní fannst mér ég vera kominn allvel af stað í hlaupunum eftir erfitt vor með minni háttar tognunum af og til og smáskammti af leiðindum á öðrum sviðum. Um þetta leyti var búið að slaka á sóttvarnarráðstöfunum, ég gat notið fallegrar náttúru og nærandi samskipta í fyrstu fjallvegahlaupum ársins og nokkrar góðar æfingar í einrúmi í góðu veðri vestur við Langá bættu svo upp það sem á vantaði. Reyndar var lítið um hraðar æfingar, þar sem ég treysti ekki þessum vöðvarýru fótum almennilega í það. Þess í stað lagði ég aðaláherslu á líkamsbeitinguna og tel mig hafa náð nokkrum árangri í því. Þetta snýst ekki bara um sterka vöðva, heldur líka hvernig þeim er stjórnað og beitt.

Júlí var góður hlaupamánuður og ágúst enn betri. Kílómetrarnir í ágúst urðu samtals 325 og hafa aldrei verið fleiri. Þar munaði mikið um tvær rúmlega 40 km æfingar seint í mánuðinum, hálfpartinn til að bæta mér upp Reykjavíkurmaraþonið sem aldrei var hlaupið.

Þegar ágúst var að baki datt botninn svolítið úr æfingunum, hlaupaheilsan svo sem góð en engin almennileg markmið framundan – og mikið annríki í vinnu, sem ágerðist eftir því sem nær leið áramótum. Vikulegum æfingum fækkaði úr 4-5 í 1-3 og þá er ekki lengur nein von á framförum. Reynsla mín síðari árin er meira að segja sú, að eftir því sem æfingunum fækkar aukist meiðslahættan. Reyndar ætlaði ég ekki að hlaupa mikið síðustu mánuði árins, heldur var ætlunin að leggja aðaláherslu á styrktaræfingar. Fyrsta æfingin í þeirri áætlun var framkvæmd 16. september. Dagana þar á eftir fjölgaði COVID-smitum hratt og í framhaldinu var líkamsræktarstöðvum lokað. Þar með fór áætlunin út um þúfur, þar sem tiltækur búnaður og sjálfsagi bauð ekki upp á heimaæfingar að neinu gagni. Reyndar tók ég upp á því að vakna 10-15 mín fyrr en ella á hverjum morgni og náði þá að gera svo sem tvær æfingar fyrir venjulegan fótaferðatíma. Þetta gerði eflaust sitt gagn, en dugði samt engan veginn til að byggja upp þann styrk sem ég vissi að mig vantaði.

Hafnarfjall um haust.

Þar sem lítið varð úr styrktaræfingum hélt ég áfram að hlaupa eitthvað af og til. Í byrjun desember tognaði ég svo smávegis í hægri kálfanum og þar með var árið eiginlega búið. Núna, í lok ársins, er kálfinn enn ekki kominn í lag. Ég þykist svo sem vita hvað ég þarf að gera, en vitneskjan ein og sér leysir ekki vandann. Framundan eru styrktaræfingar með áherslu á kálfa, framlæri og mjaðmir – og liðleikaæfingar með áherslu á framanverðar mjaðmir og ökklalið. Það þýðir ekkert að byggja hús án sökkulveggja.

Mánaðarskammtarnir 2020. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Þegar upp var staðið var heildarvegalengd ársins komin í 2.368 km, sem er bara svipað og flest undanfarin ár. Nánar tiltekið var þetta 8. lengsta árið mitt frá upphafi.

Heildarvegalengdir síðustu 36 hlaupaár. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Keppnishlaupin
Öll keppnishlaupin mín þetta árið fóru forgörðum, var ýmist aflýst vegna COVID eða veðurs, eða þá að mig langaði ekki til að mæta. Sjálfsagt finnst einhverjum skrýtið að mig hafi ekki langað til að mæta þegar ég átti á annað borð kost á því. Mér fannst þetta svolítið skrýtið sjálfum, en svo áttaði ég mig á því að ég mæti ekki endilega í keppnishlaup til að fá tímann minn skráðan, heldur miklu frekar til að njóta samvista við hlaupavini mína. Þessar samvistir verða frekar snauðar þegar hlauparar eru ræstir einn og einn eða örfáir saman með löngu millibili, svo ekki sé nú talað um upplifunina á marksvæðinu þegar hópamyndun er bönnuð. Í þessu sambandi verður mér á að rifja upp þegar óreyndur hlaupari spurði mig í vormaraþoninu 2011 hvernig maður fagnaði góðu maraþonhlaupi. Ég svaraði því til að „maður legðist í grasið, gréti og faðmaði síðan alla viðstadda“. Mér finnst mikið vantar þegar þetta vantar, eða með öðrum orðum ef maður hefur ekki tækifæri til að vera „vandræðalega glaður“ að hlaupi loknu og deila þeirri upplifun með öðrum sem svipað er ástatt um.

Skemmtihlaupin
Alla jafna stend ég fyrir eða stuðla að þremur skemmtihlaupum á ári, þ.e.a.s. hinum árlega Háfslækjarhring og matarveislu á uppstigningardag, Þrístrendingi og Hamingjuhlaupinu. Tvö þessara hlaupa voru á sínum stað árið 2020, en Þrístrendingur féll niður.

Hinn árlegi Háfslækjarhringur var hlaupinn 21. maí, 11. árið í röð. Veðrið var býsna gott, svolítill strekkingur en þurrt og að mestu léttskýjað og hátt í 12 stiga hiti. Hlaupaleiðin var sem fyrr heimanað frá okkur hjónunum í Borgarnesi, framhjá fólkvanginum í Einkunnum, vestur að Langá og aftur heim. Leiðin var reyndar aðeins styttri en áður vegna þess að sumarið 2019 fluttum við hjónin okkur um set ögn ofar í bæinn. Þetta voru því rétt um 20,0 km í stað 21,5. Tvennt annað var líka með öðru sniði en áður. Annars vegar var engin lambakjötsveisla að hlaupi loknu, þar sem húsnæðið þótti ekki bjóða upp á nægar fjarlægðir á COVID-tímum. Og svo er heldur enginn heitur pottur á nýja staðnum. Við þetta bættist svo að sjálfur var ég nýtognaður og hljóp ekki neitt. En þetta var samt góður dagur.

Við upphaf hins árlega Háfslækjarhrings á uppstigningardag.

Hamingjuhlaupið fór fram í 12. sinn laugardaginn 27. júní. Venjulega reyni ég að finna nýja hlaupaleið á hverju ári og að þessu sinni var ætlunin að hlaupa yfir Kollabúðaheiði. Rallkeppni á Þorskafjarðarheiði gerði það hins vegar að verkum að ég varð að breyta hlaupaleiðinni á síðustu stundu. Þá varð Vatnadalur fyrir valinu, en það er gömul leið milli Gilsfjarðar og Steingrímsfjarðar. Vatnadalur var líka hlaupinn í Hamingjuhlaupinu 2014, en núna var upphafsstaðurinn annar og nær því sem væntanlega tíðkaðist í gamla daga. Veðrið var okkur ekki sérlega hliðhollt þennan dag, strekkingsmótvindur alla leið og þokusúld framan af. En hitastigið var nógu hátt til að þetta yrði engin vosbúð. Hamingjuhlaupið varð líka að fjallvegahlaupi nr. 58 (sjá síðar í þessum pistli). Sá hluti leiðarinnar mældist nákvæmlega 25,23 km, en samtals bættust 36,71 km í hlaupadagbókina mína þennan dag. Og félagsskapurinn var líka góður, enda var svolítið hlé á COVID-ástandinu um þessar mundir. Við vorum sjö sem kláruðum fjallvegahlaupahlutann af þessu ævintýri en þó nokkrir til viðbótar bættust í hópinn á síðustu kílómetrunum. Að vanda endaði hlaupið með veislu á Hólmavík, þar sem Hamingjudagar stóðu yfir. Þetta árið var þó ekkert tertuhlaðborð með almennri þátttöku eins og venjan hefur verið, þar sem slíkir viðburðir rúmuðust ekki innan gildandi samkomutakmarkana.

Í hvössum norðanvindi við Mávadalsá í Gilsfirði við upphaf Hamingjuhlaupsins 2020. F.v.: Birgitta Stefánsdóttir, Finnur Dagsson, Gunnar V. Gunnarsson, Ingveldur Ingibergsdóttir, SG og Birkir Þór Stefánsson. Björk tók myndina.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2020 var fjórða sumar síðari hluta fjallvegahlaupaverkefnisins míns. Fyrstu þrjú sumrin voru heldur rýr, þar sem náði bara tveimur fjallvegahlaupum sumarið 2017, missti sumarið 2018 alveg úr vegna meiðsla og hljóp bara tvö hlaup 2019 vegna annríkis við önnur verkefni. Þannig voru bara fjögur hlaup komin í bankann í árslok 2019. Þess vegna fannst mér ég þurfa að taka vel á því 2020. Skipulagði samtals 11 hlaup en þurfti að hætta við tvö þeirra. Fjallvegahlaupin þetta sumarið urðu því samtals níu.

Fjallvegahlaupin 2020 skiptust eiginlega í þrennt. Vertíðin hófst með þremur hlaupum (nr. 55-57) á Norðurlandi 13.-16. júní, þar eftir kom Hamingjuhlaupið um Vatnadal 27. júní (nr. 58) og loks fimm hlaup á sunnanverðum Vestfjörðum 11.-14. júlí (nr. 59-63). Síðan ætlaði ég að hlaupa yfir Ófeigsfjarðarheiði í lok júlí en varð að aflýsa því vegna óhagstæðrar veðurspár.

Á fullri ferð inn Garðsárdal í Eyjafirði. Rannveig Oddsdóttir fremst í flokki.

Hlaupin fyrir norðan voru fjölbreytt og skemmtileg og veðrið almennt gott. Fyrst hlupum við 6 saman á fallegum laugardagseftirmiðdegi 13. júní yfir Gönguskarð úr Garðsárdal í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal. Þetta var frekar langt og frekar erfitt hlaup, m.a. vegna þess að hittum ekki alveg á réttu leiðina fyrstu kílómetrana. Á mánudegi var svo röðin komin að Siglufjarðarskarði. Þar yfir liggur náttúrulega bílvegur, þannig að á venjulegum sumardegi er undirlagið býsna gott þótt brattinn sé mikill. En þessi dagur var ekki venjulegur sumardagur að því leyti að leiðin um skarðið var á bólakafi í snjó og varla hægt að fóta sig á snarbröttum fönnum, þótt nokkrum metrum undir fönninni lægi vegur í haganlega gerðum sneiðingum. Þar við bættist svartaþoka í skarðinu, þannig að við sáum varla handa skil. Ferðafélagarnir mínir þennan dag voru fjórar hraustar konur sem allar voru lausar við lofthræðslu. Annars hefði sennilega þurft að kalla út björgunarlið. Þetta var bráðskemmtileg og eftirminnileg ferð. Þriðja ferðin fyrir norðan var svo frá Siglufirði um Kálfsskarð út á Siglunes, einkar skemmtileg leið. Við hlupum þetta fjögur saman í blíðu veðri og vorum svo heppin að fá bátsferð til baka – með leiðsögn.

Í tæpum vegarkanti austan í Siglufjarðarskarði. F.v.: Gitta, Brynhildur Bjarnadóttir, Sigríður Bjarnadóttir og Sigríður Einarsdóttir.

Hamingjuhlaupið um Vatnadal fór svo fram 27. júní eins og fyrr segir. Ég valdi að fara upp úr Gilsfirði meðfram Mávadalsá, sem kallað er að fara „upp með Bergi“. Þetta er ein þriggja leiða sem mér skilst að hafi verið farnar á þeim tíma þegar tveir eða fjórir jafnfljótir voru enn helstu farartækin á milli byggðarlaga. Leiðin er ómerkt og þarna hafa fáir verið á ferli í seinni tíð.

Ég var ekki alveg jafnheppinn með veðrið fyrir vestan eins og ég hafði verið á Norðurlandi fyrr um sumarið. Þarna rigndi flesta daga og fjöll voru að miklu leyti hulin þoku. Það eru ekki kjöraðstæður til fjallvegahlaupa. Fyrsta hlaupið í þessari lotu var af Barðaströnd vestur á Rauðasand yfir Sandsheiði laugardaginn 11. júlí í mikilli rigningu og þoku, en þessi heiði var fjölfarin fyrrum. Við hittum ekki á réttu leiðina til að byrja með og lentum í miklu og afskaplega blautu kjarri. Villtumst líka smávegis á seinni hlutanum, þar sem skyggni var mjög takmarkað. Seinna sama dag var svo hlaupið yfir Hnjótsheiði frá Rauðasandi yfir í Örlygshöfn. Það gekk ágætlega og rigningin tók sér smá hlé. Daginn eftir var það svo Tunguheiði utan úr Kollsvík og inn í Örlygshöfn – og síðan Breiðuvíkurháls frá Breiðuvík í Hænuvík. Þar hittum við ekki heldur á bestu leiðina og fengum að brölta í grjóti „fyrir allan peninginn“. Tveimur dögum síðar hljóp ég svo í góðum félagsskap yfir Tunguheiði frá Tálknafirði til Bíldudals. Þar fór ekkert úrskeiðis þrátt fyrir dálítinn skammt af þoku.

Birkir og Gitta, aðalhlaupafélagarnir mínir 2020, við vörðu á Tunguheiði ofan við Örlygshöfn 12. júlí.

Frásagnir af fjallavegahlaupunum mínum er annars að finna á fjallvegahlaup.is. Ferðasögurnar eru ekki allar fullskrifaðar, en þær verða til smátt og smátt.

Persónumetin
Persónuleg met á hlaupum eiga það til að verða fátíð þegar árin færast yfir. Helsta bjargráðið er þá að hlaupa einhverjar vegalengdir sem maður hefur aldrei hlaupið áður, eða finna einhvern annan samanburð sem hægt er að skreyta sig með. Listinn sem hér fer á eftir hefur að geyma öll þau persónuleg met (PB) frá árinu 2020 sem mér hefur tekist að grafa upp úr tiltækum heimildum:

 1. Fjórfaldur Óshringur (um 33 km utanvega): 3:02:53 klst. 19. júlí. Fyrra met 3:13:31 klst. 30. júní 2007.
 2. Lengsti ágústmánuður: 325,26 km. Fyrra met 300,95 km 2014.
 3. Flest fjallvegahlaup á einu ári: 9 hlaup. Fyrra met 7 hlaup 2008 og 2016.
 4. Flest Hafnarfjöll á einu ári: 13 ferðir. Fyrra met 12 ferðir 2018.

Náðust markmiðin?
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2020 og náði bara einu þeirra. Eitt markmiðanna var sem sagt að hlaupa a.m.k. 8 fjallvegahlaup – og þau urðu 9 sem fyrr segir. Þrjú markmið voru tengd keppnishlaupum (5 km undir 21 mín, maraþon undir 3:20 klst og að ljúka 80 km keppnishlaupi). Þetta fór náttúrulega allt í vaskinn. Og ef ég á að vera hreinskilinn, þá tókst mér ekki að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum eins og að var stefnt. Ég var í það minnsta ekki glaður þegar ég skreið heim af Hvanneyrarhringnum 21. mars, þó að stundum þurfi maður náttúrulega að vera „rólegur á vanþakklætinu“.

Markmiðin 2021
Ég held að það sé hverjum manni nauðsynlegt að setja sér markmið, hvort sem það er í hlaupum eða einhverju öðru. Annars er ekki hægt að búast við árangri. Hlaupamarkmið sem ekki náðust eitthvert tiltekið ár hafa þann kost að hægt er að nota þau aftur næsta ár. Slík endurnotkun er augljóslega vinnusparandi – og svo er auðvitað ekkert að því að reyna aftur ef manni mistekst. Með þetta í huga ætla ég að nota drjúgan hluta af markmiðum árins 2020 aftur á árinu 2021.

Markmiðin mín fyrir hlaupaárið 2021 eru sem hér segir:

 • 5 km undir 21 mín.
 • Maraþon undir 3:20 klst.
 • Laugavegurinn undir 6 klst.
 • A.m.k. 7 fjallvegahlaup
 • Gleðin með í för í öllum hlaupum (margnotað og sígilt)

Hlaupadagskráin mín 2021
Hlaupadagskráin mín fyrir komandi sumar er ekki fullmótuð, en eðlilega tekur hún mið af markmiðunum hér að framan. Enn sem komið er er Hengill Ultra eina hlaupið sem ég er búinn að skrá mig í – og auðvitað er engu hægt að slá föstu um það hvernig þetta verður allt saman. Kófið er jú ekki alveg búið. En svona lítur þetta alla vega út eins og staðan er núna um áramót:

 1. Víðavangshlaup ÍR (5 km) á sumardaginn fyrsta (22. apríl)
 2. Heilt maraþon í Vormaraþoni FM 24. apríl
 3. Vestmannaeyjahringurinn (Puffin Run) 8. maí
 4. Eitt fjallvegahlaup suðvestanlands seinni partinn í maí
 5. Hengill Ultra (53 km) 5. júní
 6. Einhver fjallvegahlaup á Austurlandi fyrri hluta júlímánaðar
 7. Laugavegurinn (í 6. sinn) 17. júlí
 8. Súlur Vertical (55 km) 31. júlí
 9. Reykjavíkurmaraþon (heilt) 21. ágúst

Kannski hleypur maður líka eitthvað í útlöndum. En öll svoleiðis skipulagning bíður betri tíma.

Þónokkur orð að lokum
Árið 2020 gaf mér gott, en um leið óumbeðið, tækifæri til að velta því fyrir mér hvers vegna ég held alltaf áfram að hlaupa, þó að ástandið á skrokknum og annríki í vinnu væru á stundum hvort um sig næg ástæða til að láta af þessari iðju. Ástæðurnar eru reyndar margar – og flestar þeirra hef ég þekkt lengi. En á þessu óvenjulega ári skerptist enn frekar en áður vitund mín um það hversu miklu máli hlaupin skipta mig félagslega. Í hlaupunum hef ég kynnst stórum hluta þess fólks sem ég lít á sem bestu vini mína og kunningja. Og eins og ég hef sagt áður, þá kynnist maður fólki á annan hátt á fjöllum en á parketi. Hlaupavináttan er að mestu óháð stétt og stöðu og einhvern veginn hafin yfir það sem stundum gefur tilverunni og samskiptum við fólk gráleitan blæ. Á hlaupum þarf gleðin ekki að ganga með grímu. Og fátt er meira gefandi en sameiginleg augnablik þegar langþráðum markmiðum er náð, eða jafnvel þegar fullkomin uppgjöf er eina svarið. Hlaupin eru orðin mjög stór hluti af tilveru minni, eins og endurspeglast kannski í myllumerkinu #corroergosum, sem ég hef lengi notað með hlaupamyndum á Instagram. („Ég hleyp og þess vegna er ég“). Kannski finnst einhverjum þetta óþarflega dramatískt, en fullkomin rökhyggja á hvort sem er betur heima annars staðar.

Stuðningsaðili nr. 1, Björk Jóhannsdóttir, búin að fylgja mér í lífinu í rúm 40 ár, ferja mig í ótal hlaupaverkefni og bíða eftir mér í nokkur hundruð klukkutíma að hlaupum loknum. Myndin er tekin í Gilsfirði við upphaf Hamingjuhlaupsins 27. júní 2020.

Þakklæti er sú tilfinning sem er alltaf efst í huga mér í lok hlaupaárs, hvort sem hlaupaupplifanir ársins hafa getið af sér bros eða tár. Fyrst og fremst er ég þakklátur forsjóninni, aðstæðunum og erfðaefninu sem gera mér mögulegt að stunda þetta gefandi áhugamál á sjötugsaldrinum, en svo er ég líka óskaplega þakklátur fólkinu sem hefur hjálpað forsjóninni að skapa þessar aðstæður. Þar á konan mín stærstan þátt. Það eitt að umbera áhugamálið, eins tímafrekt og það er, er þakkarvert, en þar fyrir utan hefur hún varið óteljandi tímum og kílómetrum í að ferja mig á milli hlaupaævintýra. Og hún er með doktorsgráðu í að bíða, eins og mig minnir að hún hafi orðað það eftir eitthvert fjallvegahlaupið. Börnin mín eiga líka stóran þátt í að skapa þessar aðstæður, ýmist með beinni þátttöku í ævintýrunum, góðum ráðum eða öðrum stuðningi. Og ekki má gleyma hlaupafélögunum, bæði í Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi og annars staðar á landinu. Mikið verður gott að hitta þetta fólk aftur á nýju ári!

Hlaupaannáll 2019 og markmiðin 2020

Með dætrunum eftir Laugaveginn.

Það er orðinn kækur hjá mér að gera hvert hlaupaár upp í löngum bloggpistli, þar sem ég upplýsi líka um markmiðin mín á komandi hlaupaári. Svona skrif ættu náttúrulega að birtast á nýársdagsmorgni, en allt tekur þetta sinn tíma og stundum þarf að nota tímann til annars. Góður maður sem ég þekkti vel var líka vanur að segja að áætlun fyrir komandi ár yrði því betri sem lengra væri liðið á árið. Þannig yrði óvissan minni. Og hefst nú enn einn áramótapistillinn.

Hlaupaárið 2019 í stuttu máli
Þetta var í rauninni mjög gott hlaupaár, sérstaklega þegar haft er í huga að árið á undan fór eiginlega alveg forgörðum vegna meiðsla. Undir lok þess árs fór loks að rofa til í þeim efnum, en þá hafði mér tekist að finna rétta fólkið til að leiða mig út úr vandanum. Ég hef skrifað mikið um þessi meiðsli áður og ætla ekki að endurtaka það hér, en í stuttu máli lýstu þessi meiðsli sér í miklum stífleika og verkjum neðst í baki, í rassvöðvum og niður í læri. Þetta hafði háð mér, bæði í hlaupum og öðru, í það minnsta frá því haustið 2016.

Í ársbyrjun 2019 var ég sem sagt orðinn að mestu laus við „2018-vandann“ eins og kýs að kalla þessi meiðsli þegar ég lít til baka. Þá taldi ég mig ekki hafa neina „ástæðu til að ætla annað en að með vorinu [2019] verði ég kominn á nokkurn veginn sama stað og ég var áður en allt þetta vesen byrjaði“. Þetta gekk reyndar alls ekki eftir. Hlaupin á árinu 2019 gengu svo sem bara vel en árið dugði engan veginn til að komast á nokkurn veginn sama stað og áður“. Þolið er gott en að öðru leyti er málið enn í vinnslu. En meiðslin hafa ekki látið á sér kræla aftur.

Æfingarnar
Þegar á heildina er litið gengu æfingar ársins 2019 bara vel. Fyrstu mánuðina jók ég álagið jafnt og þétt og í apríl var ég farinn að geta hlaupið 30 km án þess að það hefði mikil eftirköst. Um það leyti var mér þó orðið ljóst að endurhæfingin eftir 2018 myndi taka miklu lengri tíma en ég hafði ætlað. Í lok mars skrifaði ég t.d. að ég hefði búist við að þurfa u.þ.b. hálft ár til að koma mér í fyrra form, en líklega væri eitt og hálft ár raunhæfari áætlun. Ég yrði þá „orðinn alsprækur í apríl 2020“. Nú, þegar mánuður er í þá tímasetningu, veit ég að það mun heldur ekki ganga eftir. En ég hef nógan tíma.

Það sem helst vantaði í æfingarnar fyrstu mánuði ársins 2019 var hraðinn, en þegar voraði ákvað ég engu að síður að bæta frekar í vegalengdirnar. Ég var jú skráður í Laugavegshlaupið og fyrir svoleiðis hlaup þarf að safna kílómetrum í lappirnar. Í maí og júní tók ég margar langar fjallaæfingar, m.a. tvisvar fram og aftur Skarðsheiðarveginn, allt upp í 40-50 km í senn. Þetta var erfiður tími því að yfirleitt dróst ég langt aftur úr hlaupafélögunum á þessum ferðalögum. Það var svolítið nýtt fyrir mér. Júní varð nánast óvart, langlengsti hlaupamánuðurinn minn frá upphafi. Samtals hljóp ég 433 km í þessum mánuði og fór tvisvar vel yfir 100 km á viku. Fyrra „mánaðarmetið“ var 324 km frá því í mars 2013 þegar ég var að æfa fyrir Parísarmaraþonið og fyrra „vikumetið“ 107,82 km frá því að ég hljóp Arnarvatnsheiðina sumarið 2016. Þetta met bætti ég í júní, fyrst í 108,27 km og síðan í 120,95 km. Kílómetrafjöldinn segir ekki allt um stöðu mála, en ég var þó alla vega farinn að þola hnjaskið býsna vel.

Eftir júnímánuð og enn frekar eftir Laugavegshlaupið um miðjan júlí datt botninn úr æfingunum. Á þessum tíma vorum við hjónin að skipta um húsnæði og í því ati varð lítill tími aflögu. Áform um að bæta í með haustinu gengu ekki eftir, m.a. vegna vinnu og ferðalaga sem tengdust henni, og eftir á að hyggja var ég í hægri afturför allt haustið og fram í miðjan desember. Þá var ég aftur byrjaður að bæta í og náði að hlaupa um 50 km á viku. Minna en það dugar mér ekki til framfara. En hraðaæfingar sátu á hakanum sem fyrr og styrktaræfingar voru færri og strjálli en æskilegt hefði verið.

Stólparitið hér fyrir neðan sýnir mánaðarskammta ársins 2019.

Mánaðarleg hlaup 2019. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Náðust markmiðin?
Ég setti mér hvorki meira né minna en sjö hlaupatengd markmið fyrir árið 2019 og náði bara fjórum þeirra ótvírætt. Ég hljóp sem sagt eitt 5 km keppnishlaup fyrir lok apríl, eitt hálft maraþon fyrir lok júní, Laugaveginn heilu og höldnu í júlí og maraþonhlaup fyrir lok september. Ég hljóp hins vegar ekki beinlínis neitt 10 km keppnishlaup fyrir lok maí eins og ætlunin var, en í staðinn var ég bæði búinn að hlaupa rúmlega 30 km og rúmlega 20 km utanvegakeppnishlaup. Veit ekki hvort það telur. Tvö markmið af sjö klúðruðust alveg. Ég hljóp sem sagt bara tvö fjallvegahlaup en ekki a.m.k. 7 eins og ætlunin var og mér tókst ekki að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum, svo ég sé nú bara hreinskilinn með það.

Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2019 urðu samtals 15 og hafa aldrei verið fleiri. Voru reyndar jafnmörg árin 2014 og 2017. Alls eru þau þá orðin 147 frá upphafi að brautarhlaupum frátöldum. Upphafið var jú fyrir alllöngu, því að ég tók fyrst þátt í götuhlaupi sumarið 1985. Ég er sem sagt alls ekki sá sem er duglegastur að mæta í keppnishlaup. Reyndar geri ég fátt skemmtilegra, en skemmtunin gufar svolítið upp ef undirbúningurinn nægir ekki sem grunnur að andlegri og líkamlegri vellíðan.

Við Birkir bóndi á landamærum Skotlands og Englands á leið til Kielder. (Ljósm. Úlfhildur Ída).

Fyrsta keppnishlaup ársins var Kielder20M í Bretlandi, 20 mílna (32 km) utanvegahlaup sem var aukaafurð þess að ég fylgdi þremur góðum hlaupafélögum áleiðis í lengri hlaup (50 og 100 km) á sama stað. Þetta var fyrsta keppnishlaupið mitt eftir maraþon í Bregenz haustið 2017. Og eins og ég skrifaði í hlaupadagbókina að hlaupi loknu gekk mér „alveg þokkalega en varð stirður í rassi og lærum þegar á leið og glímdi við krampa á eftir. Náði svo sem aldrei góðum hraða en varð samt fyrstur í flokki 60-69 ára og nr. 9 af 78 samtals“. Mér leið ekkert sérstaklega vel í þessu hlaupi en samt var mikill sigur að geta gert þetta eftir svona langa bið. Og ferðin öll var eftirminnilegt ævintýri eins og lesa má um í afskaplega löngum bloggpistli og líka í öðrum miklu styttri.

Keppnishlaup nr. 2 var Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta, en þá hafði ég ekki hlaupið keppnishlaup á götu í eitt og hálft ár. Þetta átti að vera stóra endurkomuhlaupið mitt en ég vissi svo sem fyrirfram að ég væri ekki í standi til að gera neinar eftirminnilegar rósir. Bjóst varla við að geta hlaupið mikið undir 23 mín, en hafði reyndar gefið út markmið um 22 mín. Sá eftir fyrsta km að það gat kannski heppnast. Tók lítið á, leið vel allan tímann og gat bætt vel í síðustu 400 metrana. Millitímarnir voru u.þ.b. 4:17, 4:08, 4:23, 4:20 og 4:09 – og lokatíminn 21:18 mín. Ég var mjög ánægður með að geta þó þetta og sá að ég var í raun kominn miklu lengra á bataveginum en ég hélt. Og svo var líka 15 stiga hiti, sem var einmitt eins og ég vildi hafa það. Ég var kominn inn úr kuldanum!

Á Skothúsveginum, u.þ.b. 1 km eftir. (Ljósm. hlaup.is).

Þriðja keppnishlaupið var Icelandairhlaupið (7 km) 2. maí. Ég var ekki léttur á fæti en rann þetta svo sem vel. Vantaði bara hraðann sem týndist í 2018-vandanum. Var á ca. 21:35 mín. eftir 5 km og kláraði hlaupið á 30:17 mín. Þetta var níunda Icelandairhlaupið mitt frá upphafi lakasti tíminn. Átti verst áður 29:34 mín. frá 2011. En þetta var samt bara í góðu samræmi við raunhæfar væntingar. Icelandairhlaupið er alltaf eitt af mínum uppáhaldshlaupum, því að þar hitti ég alltaf svo marga góða hlaupavini. Þau tengsl eru dýrmætari en flest annað í hlaupunum, og þótt víðar væri leitað.

Með Flandrafélögunum Gunnari, Gunnari, Ellu og Jósep eftir Icelandairhlaupið.

Fjórða hlaupið var aldeilis ógleymanlegur Heimaeyjarhringur (Puffin Run) (um 20 km) í Vestmannaeyjum 4. maí í hægviðri, glampandi sólskini og 7-8 stiga hita. Reyndar leið mér ekki vel um miðbik hlaupsins, sérstaklega á leið upp Stórhöfða – og þó enn frekar niður. En eftir svo sem 15 km kviknaði á mér og eftir það var þetta algjör veisla. Ég hafði búist við að vera allt að 2 klst. á leiðinni, en lokatíminn varð 1:49:23 klst. og ég í 13. sæti af 101 hlaupara. Björk fylgdi mér til Eyja, móttökurnar þar voru einstakar og eftir á að hyggja er þetta eitt af skemmtilegustu hlaupunum mínum frá upphafi. Eftir hlaup skrifaði ég pistil um upplifunina sem birtist á hlaup.is undir yfirskriftinni „Svona eiga hlaup að vera“.

Með eðalhlaupavininum Evu Skarpaas og fleira fólki í blíðunni undir Skiphellum í Vestmannaeyjum. (Ljósm. hlaup.is).

Mývatnsmaraþonið 25 maí átti að vera næst á dagskránni. Ég var ekki búinn að æfa nógu skipulega fyrir svoleiðis hlaup og hugsaði það því fyrst og fremst sem langa og sæmilega erfiða æfingu. Bjóst við að geta hlaupið á 3:45 klst. án teljandi vandræða. Teljandi vandræði byrjuðu strax eftir 2 km með miklum sársauka í ökklum, aðallega hægra megin. Ég ákvað að sjá til hvort þetta myndi ekki lagast, en við 5 km markið var þetta enn jafnslæmt og þá ákvað ég að hætta til að valda ekki frekara fótatjóni. Þetta varð sem sagt fyrsta „DNF-ið“ á ferlinum (DNF = Did not finish). Kannski var ég á of þunnum skóm á of hörðu malbiki. Það verður svo sem aldrei upplýst, en alla vega hafði þessi uppákoma engin skaðleg áhrif til lengri tíma litið. En þetta var vissulega hundleiðinlegt.

Fimmta keppnishlaupið var Hvítasunnuhlaup Hauka 10. júní í hægviðri, glampandi sól og 13°C. Haukahlaupið er alltaf eitt af þeim skemmtilegustu, leiðin fjölbreytt, stemmingin góð og framkvæmdin til stakrar fyrirmyndar. Ég valdi lengstu leiðina að þessu sinni (22 km) og árangurinn var svipaður og ég bjóst við (1:53:56 klst.). Mér leið vel allan tímann, en var linur upp brekkurnar og þreyttur þegar leið á hlaupið. „Mjög gaman og ekkert vesen“, eins og ég skrifaði í hlaupadagbókina um kvöldið.

Álafosshlaupið í Mosfellsbæ 12. júní var 6. hlaupið. Mér fannst brautin erfið með óþægilegum kröppum beygjum og mér leið ekki vel í hlaupinu. Eftir á að hyggja náði ég þó að halda nokkuð jöfnum hraða. Þetta voru 10 km með 108 m hækkun og lokatíminn minn var 46:08 mín. Það var svo sem allt í lagi þó að ég hefði viljað vera fljótari. Var mjög þreyttur fyrst á eftir en hresstist fljótt.

Sjöunda í röðinni var hálft maraþon í Miðnæturhlaupi Suzuki 20. júní. Þar hafði ég sett mér það markmið að hlaupa hvern km ekki hægar en á 4:40 mín (5 km á 23:20 mín) og enda alla vega undir 1:38:30 klst. Þar með yrði þetta besta götuhlaupið mitt það sem af var árinu skv. reiknivél McMillans. Þetta gekk upp, 5 km tímarnir voru 22:37, 23:11, 22:55 og 23:38, sem sagt allt rúmlega á áætlun, nema í lokin þar sem ég var orðinn mjög þreyttur. Endaði á 1:37:21 klst., sem sagt rúmri mínútu undir markmiðinu. Þetta var reyndar lakasti tíminn minn síðan haustið 2007, en það var bara eins og til stóð. Og svo var ég líka fyrstu í aldursflokki 60+.

Nokkuð sáttur á fyrstu kílómetrunum í Miðnæturhlaupinu. (Ljósm. hlaup.is).

Ármannshlaupið (10 km) 3. júlí var nr. 8 í röðinni. Þegar þarna var komið var ég orðinn býsna vel meðvitaður um eigin getu (eða getuleysi) og taldi mig eiga að geta hlaupið þetta á 43:40 mín. Fyrstu 2 km voru þokkalega hraðir og þægilegir en eftir það fór ég að finna til í ökklunum (malbiksverkur?) og þá vissi ég strax að markmið dagsins myndi ekki nást. Millitíminn eftir 5 km var 22:07 mín. Ég hresstist hins vegar til muna á seinni hlutanum og hljóp hann á 21:37 mín. Lokatíminn varð því 43:44, sem sagt 4 sek undir væntingum.

Með Gunnari Viðari aðalhlaupafélaga eftir Ármannshlaupið. (Hann var langt á undan mér).

Við Bjarni mættir í Hrafntinnusker fyrr en vænta mátti. (Ljósm. Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir).

Næst var það Laugavegurinn 13. júlí. Markmið dagsins var að komast þessa 53 km á skemmri tíma en 6 klst. en út frá árangri fyrr um sumarið hafði ég reiknað út að líklegur lokatími væri 6:01:11 klst. Auðvitað eru svona nákvæmir útreikningar gerðir í hálfgerðu gríni, því að mínútan er fljót að fara á Laugaveginum. En talan byggði samt á raunsæu mati á eigin getu. Framan af benti allt til að þessi markmið næðust – og vel það, en þegar á leið urðu sporin þyngri og þá varð smám saman ljóst að ég yrði að sætta mig við ögn lakari tíma. Átti enn möguleika í Emstrum en eftir það hægði á. Var þá orðinn mjög aumur í ökklum og neðst í kálfum og gat rétt tiplað á köflum. Var líka með aðkenningu að krömpum allan seinni hlutann. Lokatíminn varð 6:05:48 klst. og auðvitað væri vanþakklæti að vera ósáttur við það. Ég var auk heldur fljótasti sextugi karlinn. Ferðasögu þessa dags má finna í þar til gerðum bloggpistli.

Keppnishlaup nr. 10 var Dyrfjallahlaupið 20. júlí sem varð að Breiðuvíkurhlaupi vegna þoku og rigningar. Leiðinni var sem sagt breytt til að tryggja öryggi fólks og hlaupið frá Borgarfirði um Víknaheiði til Breiðuvíkur og síðan yfir Gagnheiði og um Þrándarhryggi aftur til Borgarfjarðar. Ég hélt jöfnu og góðu álagi í þessu hlaupi en ofreyndi mig ekkert. Fann ekki fyrir Laugaveginum í fótunum þótt aðeins væri vika á milli. Fyrstu kílómetrana fannst mér ég of hægur miðað við aðra, en náði mér vel á strik frá Gæsavötnum niður í Breiðuvík. Var nokkuð seigur upp Gagnheiði en kannski ekki alveg nógu sterkur niður. Hélt nokkuð góðum dampi á síðustu kílómetrunum og leið vel í markinu. Vegalengdin reyndist vera 24,4 km og lokatíminn 2:19:40 klst. Ég var prýðilega sáttur.

Ellefta keppnishlaupið var 14 km Hreppslaugarhlaup neðst í Skorradal 15. ágúst. Fyrir hlaup hafði ég gert mér vonir um að geta hlaupið á 1:06 klst, en þegar á hólminn var komið breytti ég markmiðinu í 1:07 klst vegna þess hversu norðanvindurinn var ágengur þennan dag. Ég fór frekar rólega af stað, var í 9. sæti framan af en náði tveimur áður en komið var að Hálsum. Var hægur í mótvindinum en nokkuð þéttur eftir að hlaupið var hálfnað og vindurinn orðinn hagstæðari. Hélt jöfnum hraða eftir það og kom í mark á 1:05:47 klst.

Þá var komið að Reykjavíkurmaraþoninu þar sem ég lét hálft maraþon duga, enda stutt í heilt maraþon í Tallinn. Aðalmarkmið dagsins var að vera á betri tíma en í Miðnæturhlaupinu, þ.e. undir 1:37:21 klst. Var að hugsa um að miða hraðann við það en ákvað svo að láta bara fljóta. Var lengi vel undir 4:30 mín/km sem hefði dugað undir 1:35 klst. Á Sæbrautinni (eftir 14 km eða svo) var þreytan farin að segja verulega til sín og eftir það náði ég ekki að halda góðum hraða. Lokatíminn varð 1:35:26 klst. og eftir á að hyggja var þetta besti árangurinn minn í götuhlaupi þetta árið. Þetta var góður dagur, næstum logn, næstum þurrt og 12 stiga hiti. Alveg fullkomið hlaupaveður!

Þrettánda keppnishlaupið var 5 km Fossvogshlaup 29. ágúst. Þar lét ég tilfinninguna alveg ráða för, fór eins hratt af stað og mig langaði og lét svo bara fljóta. Var orðinn mjög þreyttur á 3. km og náði engan veginn að halda hraðanum. Kílómetrarnir voru á 3:58, 4:08, 4:24, 4:19 og 4:13, sem sagt mjög ójafnt. Lokatíminn var 21:02 mín, en ég taldi mig eiga að geta hlaupið undir 21 mín og var því pínulítið óánægður með árangurinn. En það var auðvitað bara vanþakklæti. Og þarna vann ég aldursflokkinn minn eins og stundum áður.

Með Björk, dauðþreyttur eftir maraþon í Tallinn. (Ljósm. Inga Dís).

Sunnudaginn 8. september var svo röðin komin að langþráðu maraþoni í Tallinn. Þar hafði ég sett mér fjögur mismunandi markmið, allt frá ítrustu bjartsýni (3:20 klst.) niður í ásættanlegan lágmarksárangur (3:30 klst.). Ég var allt of aftarlega í rásmarkinu og þurfti að eyða 400 fyrstu metrunum af hlaupinu í að troðast fram úr öðrum hlaupurum sem lá minna á en mér. Tapaði líklega um 1 mínútu þar og þó að það sé ekki stórt hlutfall af heildinni getur verið þrautin þyngri að vinna það upp. Það gekk þó sæmilega framan af, en eftir 17 km var ég orðinn miklu þreyttari en maður á helst að vera þegar 25 km eru eftir af hlaupi. Kláraði fyrri helminginn á tæplega 1:42 mín en eftir það hægðist jafnt og þétt á mér. Þetta var eiginlega bara basl. Þegar um 39 km voru búnir fór ég loks að hressast og tókst að bæta vel í, svo einkennilega sem það kann að hljóma. Kom í mark á 3:28:06 klst, fyrstur af 15 Íslendingum sem tóku þátt í hlaupinu. Ég skrifaði auðvitað langt blogg um þetta allt saman, m.a. um það hvað félagsskapurinn var góður.

Fimmtánda og síðasta keppnishlaupið var 10 km Poweradehlaup í Elliðaárdalnum 10. október. Þegar þar var komið sögu hafði ég nánast ekkert æft frá því í Tallinn og var í raun alls ekki í standi fyrir átök. Þess vegna var ég líka ákveðinn í að fara hægt. Þrátt fyrir að hafa fylgt þeirri áætlun samviskusamlega var mér mér illt í fótunum alla leið og fann hvergi vott af gleði eða ferskleika. Maður á ekki að fara óæfður í hlaup. Aðstæður voru samt fínar, dálítill vindur en þurrt og hálkulaust og hitinn um 6°C. Lokatíminn var 47:28 mín, sem var lakasti 10 km tíminn minn frá upphafi enda svo sem að því stefnt.

Skemmtihlaupin
Alla jafna stend ég fyrir eða stuðla að þremur skemmtihlaupum á ári, þ.e.a.s. hinum árlega Háfslækjarhring og matarveislu á uppstigningardag, Þrístrendingi og Hamingjuhlaupinu. Öll þessi hlaup voru á sínum stað árið 2019. Auk þess tók ég þátt í Sauðafellshlaupinu í Dölum í fyrsta sinn, en það getur sem best líka fallið í þennan flokk.

Hinn árlegi Háfslækjarhringur var hlaupinn 30. maí 2018, 10. árið í röð. Hlaupaleiðin er heimanað frá okkur hjónunum í Borgarnesi, framhjá fólkvanginum í Einkunnum, vestur að Langá og aftur heim. Og á meðan ég hleyp eldar Björk kjötsúpu eða grillar nokkur læri ofaní mannskapinn. Hringurinn er u.þ.b. 21,5 km og að þessu sinni hlupu 13 manns alla leiðina. Eftir góða samveru yfir kræsingum Bjarkar var dagurinn gerður upp í heita pottinum, rétt eins og vera ber. Sjálfur var ég að hlaupa þennan hring í 150. sinn þennan dag, en fyrstu ferðina fór ég 31. maí 2008, þá nýbúinn að frétta af þessari ágætu hlaupaleið.

Flandrarar í Þórðargötunni að morgni uppstigningardags. (Ljósm. Björk).

Þrístrendingur var hlaupinn í 9. sinn laugardaginn 15. júní. Þátttakan var með allra minnsta móti þetta árið, en auk mín og Dofra frænda míns var Birkir bóndi sá eini sem hljóp alla leiðina, rétt rúmlega 41 km. Átta aðrir hlupu eitthvað ef ég man rétt. Þetta árið brydduðum við frændurnir upp á þeirri byltingarkenndu nýjung að hlaupa Þrístrending rangsælis, þ.e. fyrst frá sameiginlegum rótum okkar beggja á Kleifum í Gilsfirði, norður (eða austur) Krossárdal að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru, þaðan yfir Bitruháls að Stóra-Fjarðarhorni og loks suður Steinadalsheiði að Kleifum.

Birkir bóndi og Arnar Barði Daðason á Hraununum efst á Bitruhálsi. Þaðan liggur leiðin um Fjarðarhornssneiðinga áleiðis niður í Kollafjörð.

Sauðafellshlaupið fór fram kvöldið eftir Þrístrending. Þetta hlaup byrjar og endar hjá Helgu og Þorgrími á Erpsstöðum í Miðdölum. Leiðin liggur þaðan inn að Fellsenda, upp innri endann á Sauðafelli, eftir fellinu endilöngu, niður ytri enda fellsins við Sauðafellsbæinn og svo aftur eftir veginum inn að Erpsstöðum. Mér gekk ágætlega í þessu hlaupi og var með fyrstu mönnum. Eðlilega fannst mér erfiðast að komast upp fellið og þar uppi var svartaþoka og ekki alveg laust við að hægt væri að villast. En fellið er mjótt og því engin leið að villast lengi. Gitta mín fór með mér í þetta hlaup og þar voru líka tveir aðrir félagar úr Flandra. Þetta var alveg bráðskemmtilegt! Vegalengdin mældist 12,48 km og tíminn minn var 1:07:42 klst. Þetta er ekki keppnishlaup en ef ég geri þetta aftur get ég alla vega keppt við þennan tíma.

Með Heiðrúnu Hörpu, Snæbirni og Gittu á hlaðinu á Erpsstöðum eftir Sauðafellshlaup.

Hamingjuhlaupið fór fram í 11. sinn laugardaginn 29. júní. Að þessu sinni valdi ég að hlaupa í þriðja sinn úr Trékyllisvík til Hólmavíkur yfir Trékyllisheiði. Veðrið var napurt, hvöss norðaustan átt (sem betur fer í bakið), þokuslæðingur norðan til og varla nema 2-3°C á fjöllum. Hlupum 5 saman alla leið en margir fleiri hlupu hluta leiðarinnar, þ.á m. 12 manna hópur frá Breiðabliki sem hljóp yfir Trékyllisheiðina. A.m.k. 38 manns tóku einhvern þátt. Þetta var bráðskemmtilegur dagur og að vanda endaði hlaupið með tertuhlaðborði á Hamingjudögum á Hólmavík.

Litríkur hópur í skjóli fyrir norðanáttinni á Trékyllisheiði.

Fjallvegahlaupin
Eftir að upphaflega fjallvegahlaupaverkefninu mínu lauk með útgáfu Fjallvegahlaupabókarinnar í mars 2017 ákvað ég að ráðast í annað eins verkefni með því að hlaupa 50 fjallvegi til viðbótar fyrir sjötugsafmælið í mars 2027. Það sem af er hefur þessu verkefni miðað mjög hægt. Sumarið 2017 náði ég bara tveimur fjallvegahlaupum og 2018 varð mér ekkert úr verki, hvorki í þessum hlaupum né öðrum. Sumarið 2019 voru nokkur hlaup á áætlun, en þau urðu ekki nema tvö þegar upp var staðið. Veður og annríki áttu sinn þátt í því.

Fjallvegahlaupavertíðin byrjaði laugardaginn 18. maí með sérstöku 20 km fjallvegahlaupabókarhlaupi um Skarðsheiðarveg sunnan af Skorholtsmelum í Melasveit upp í Hreppslaug í Andakíl. Þetta er sama leiðin og ég hljóp með góðum félögum þann 21. júní 2011, en því ferðalagi er lýst í Fjallvegahlaupabókinni minni (leið nr. 20). Eftir hlaup bauð Bókaútgáfan Salka upp á veitingar í Hreppslaug. Þessi viðburður heppnaðist einkar vel og allt í allt voru þátttakendur eitthvað um 60 talsins.

Föngulegur hópur fjallvegahlaupara á Skorholtsmelum, tilbúinn í Skarðsheiðarveginn.

Fyrra eiginlega fjallvegahlaupið þetta sumarið var hlaupið laugardaginn 8. júní um Reykjadal og Sanddal frá Fellsendarétt í Miðdölum að Sveinatungu í Norðurárdal. Þetta voru um 27,6 km og við hlupum þetta 11 saman í góðu veðri. Ferðasagan birtist smám saman á fjallvegahlaup.is. Seinna hlaupið var svo yfir Brúnavíkurskarð og Súluskarð frá Borgarfirði eystri suður í Kjólsvík á Víknaslóðum. Við Gitta vorum bara tvö í þessu hlaupi og veðrið lék ekki beinlínis við okkur með sæmilega dimmri þoku og rigningu. Þetta voru um 13 km og ferðasagan er komin inn á fjallvegahlaup.is.

Við Gitta í Brúnavík á leið til Kjólsvíkur í þokunni. (Ljósm. þýskur ferðamaður).

Persónumetin
Þegar ég var að byrja að leika mér í íþróttum heima í sveitinni á ofanverðri síðustu öld byrjaði ég líka að skrá allan árangur samviskusamlega. Og í hvert sinn sem ég hljóp hraðar eða stökk lengra en ég hafði áður gert, sem gerðist eðlilega mjög oft fyrstu árin, skrifaði ég PM með stórum stöfum í dagbókina fyrir aftan viðkomandi tölu. Þetta var skammstöfun fyrir „Persónumet“. Einhvers staðar á langri leið minni í gegnum árin týndist svo þetta hugtak og ég fór að nota PB (personal best) í staðinn, rétt eins og flestir aðrir. Nú hlýtur að vera kominn tími til að þurrka rykið af þessu gleymda hugtaki.

Það veitir mér alltaf gleði að ná að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. En þegar maður er kominn á þann stað á hlaupaferlinum að bætingar á venjulegustu vegalengdunum eru orðnar fátíðar eða jafnvel hreint ekki í boði, þá er ekki um annað að ræða en finna sér nýjar vegalengdir eða grafa dýpra eftir einhverju enn öðru sem enn er hægt að bæta. Hér eftir verður listi yfir persónumet nýliðins árs fastur liður í þessum ævilöngu hlaupaannálum mínum.

Á árinu 2019 get ég alla vega tínt til eftirtalin persónumet:

 1. Lengsta vika: 120,95 km 24.-30. júní 2019. Fyrra met 107,82 km júlí 2016.
 2. Lengsti mánuður: 433,39 km júní 2019. Fyrra met 324,05 km mars 2013.
 3. Tvöfalt Hafnarfjall: 2:12:47 klst. 18. júní 2019. Fyrra met 2:27:18 klst. 4. júlí 2017.

(Með „tvöföldu Hafnarfjalli“ er átt við tvær ferðir frá hliði upp á topp og til baka, samtals u.þ.b. 13,2 km með u.þ.b. 1.510 m hækkun og jafnmikilli lækkun).

Markmiðin 2020
Einhvers staðar las ég að aðeins 3% mannkynsins settu sér markmið í lífinu, að aðeins 3% næðu góðum árangri á sínu sviði og að þetta væru sömu þrjú prósentin. Auðvitað kann mikilvægi markmiðssetningar að ráðast að einhverju leyti af skapgerð einstaklingsins, en reynsla mín er alla vega sú að markmið hvetji mann til dáða og bæti tilgangi við hlaupaæfingarnar. Kannski er maður búinn að ákveða að taka þátt í einhverju hlaupi eftir nokkra mánuði, en samt kviknar á einhverju nýju þegar maður skráir sig formlega í hlaupið.

Markmiðin mín fyrir hlaupaárið 2020 eru sem hér segir:

 • 5 km undir 21 mín.
 • Maraþon undir 3:20 klst.
 • Ljúka 80 km keppnishlaupi
 • A.m.k. 8 fjallvegahlaup
 • Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)

Dagskrá sumarsins
Hlaupadagskráin mín fyrir komandi sumar er ekki fullmótuð, en eðlilega tekur hún mið af markmiðunum hér að framan. Á dagskrána hef ég líka sett nokkur tiltekin hlaup, bara vegna þess að ég held að þau verði skemmtileg. Eftirtaldir viðburðir eru harðákveðnir:

 1. Víðavangshlaup ÍR (5 km) á sumardaginn fyrsta (23. apríl)
 2. Heilt maraþon í Vormaraþoni FM 25. apríl
 3. Vestmannaeyjahringurinn (Puffin Run) 2. maí
 4. Mýrdalshlaupið (21 km, 1000 m hækkun) 23. maí
 5. Fjallvegahlaup í Eyjafirði 13. júní
 6. Landsmót 50+ í Borgarnesi 19.-21. júní
 7. Fjallvegahlaup á Vestfjörðum 11.-14. júlí
 8. Tvöföld Vesturgata (45 km) 19. júlí
 9. Fjallvegahlaup á Ströndum 25. júlí
 10. Rondane 50 (80 km fjallahlaup) í Noregi 15. ágúst

Sjálfsagt á fjallvegahlaupadagskráin eftir að þróast eitthvað. Meira um það á fjallvegahlaup.is.

Þakkir
Þakklæti er alltaf fyrsta tilfinningin sem kemur í huga minn þegar ég horfi til baka yfir liðin hlaupaár, því að auðvitað er ekkert sjálfsagt að maður geti átt svona áhugamál og notið þess áratugum saman. Til þess þarf auðvitað góða heilsu öðru fremur, en margir þættir fléttast saman við heilsuna og gera þetta allt saman mögulegt. Þar er hlutur nánustu fjölskyldunnar stærstur, hvort sem hann felst í beinni þátttöku eða hlýlegu umburðarlyndi. Hlaupin taka mikinn tíma og sá tími verður bara notaður einu sinni. Best finnst mér þegar fjölskyldan tekur beinan þátt í þessu með mér, en maður verður auðvitað að sýna hóf í tilætlunarseminni hvað það varðar. Góðir hlaupafélagar eru líka ómetanlegir. Í hlaupunum hef ég kynnst mörgu fólki meira og betur en hefði getað gerst í hversdagslífinu.

Lokaorð
Hér lýkur þessum pistli og tilhlökkunin tekur við.

Tallinnmaraþonið rifjað upp

Eftir maraþon í Tallinn. (Ljósm. Inga Dís).

Sunnudaginn 8. september sl. hljóp ég maraþon í Tallinn. Þetta var 20. maraþonið mitt og það fyrsta í tæplega tvö ár. Hlaupið gekk svo sem bara vel, aðstæður í Tallinn voru eins og best gerist og ferðalagið í heild enn betra. Og ég var alls ekki eini Íslendingurinn í Tallinn, því að samtals hlupu þarna um 50 Íslendingar. Flestir, og ég þar á meðal, voru þeir á vegum Bændaferða sem skipulögðu allt ferðalagið af stakri snilld.

Undirbúningurinn
Hlaupið í Tallinn var fyrsta maraþonið mitt síðan í október 2017 þegar ég tók þátt í Þriggjalandamaraþoninu og kom í mark í Bregenz í Austurríki á 3:25:31 klst. Þá var ég löngu farinn að finna fyrir einhverjum óþægindum neðst í baki, í rassvöðvum og niður í læri, sem síðan ágerðust og útilokuðu hlaup að mestu leyti allt árið 2018. Þá meiðslasögu hef ég rakið áður og ætla ekki að endurtaka hana hér, nema hvað mér tókst smátt og smátt að komast af stað aftur með drjúgri þolinmæði og góðri hjálp sérfræðinga á jaðri opinbera heilbrigðiskerfisins. Á aprílmánuði síðastliðnum var ég farinn að geta hlaupið sæmilegar vegalengdir alveg vandræðalaust, en fann samt að ég átti langt í land með að ná sama styrk og fyrir meiðsli.

Ég hljóp mikið fyrri hluta sumars og náði að klára Laugaveginn á þokkalegum tíma (6:05:48 klst.) um miðjan júlí, þó að mig vantaði reyndar enn eitthvað af þeirri getu sem áður var til staðar. Eftir Laugaveg tók hins vegar við tímabil með helst til litlum hlaupaæfingum, sem helgaðist m.a. af því að um þetta leyti vorum við hjónin að skipta um húsnæði og í því ati varð lítill tími aflögu. Ég mætti þó í Reykjavíkurmaraþonið (RM) að vanda og hljóp þar alveg sæmilegt hálfmaraþon (1:35:26 klst.). Mér hefur reynst vel að reikna líklegan tíma í maraþoni út frá árangri í hálfmaraþoni með hjálp McMillan hlaupareiknivélarinnar, sem ég er reyndar búin að laga örlítið að eigin þörfum. Samkvæmt þeim fræðum gaf tíminn í RM fyrirheit um að ég gæti hlaupið maraþon á 3:20:51 klst. Til að einfalda þetta aðeins má skjóta því inn að fyrir fólk á mínu getustigi í hlaupum lætur nærri að hægt sé að giska á raunhæfan maraþontíma með því að margfalda hálfmaraþontímann með tveimur og bæta 10 mínútum við.

Ég þóttist vita að í því tilfelli sem hér um ræðir værum við McMillan óþarflega bjartsýnir. Til að reiknivélin gefi raunhæfa niðurstöðu þarf maður nefnilega að vera hlutfallslega svipað sterkur á báðum vegalengdunum sem um ræðir. Og þar sem ég tók mjög fáar langar æfingar (30+ km) í sumar og enn færri „tempóæfingar“ á maraþonhraða og hraðari, þá var líklegt að maraþongetan væri minni en hálfmaraþongetan. Yfirleitt hefur mér gengið tiltölulega betur í hlaupum eftir því sem þau eru lengri, en fortíðin hjálpar manni ekki mikið ein og sér. Það þarf líka að æfa.

Markmiðin
Með hliðsjón af því sem fram kemur hér að ofan ákvað ég að setja mér fjórskipt markmið fyrir hlaupið í Tallinn, þ.e.a.s. allt frá A-markmiði sem ég taldi fræðilega mögulegt að ná ef allt gengi upp, niður í D-markmið sem ég vildi alveg endilega geta náð hvað sem á gengi. Þessi markmið setti ég upp í töfluna hér að neðan.

Eins og ráða má af töflunni miðaðist A-markmiðið við að ég myndi standa mig a.m.k. eins vel og í hálfa maraþoninu í RM, auk þess sem 3:20 klst. er ágætis viðmið. Ég mat það reyndar svo að líkurnar á að ég næði þessu væru afar litlar, þar sem vikurnar tvær sem liðnar voru frá RM höfðu síður en svo bætt neinu við formið. B-markmiðið gekk út á að ná besta tíma Íslendings 60 ára og eldri það sem af var árinu, en þar sem oftar gat ég notað goðsögnina Trausta Valdimarsson, jafnaldra minn, sem viðmið. Hann hljóp sem sagt heilt maraþon í Reykjavík í ágúst á 3:24:09 klst. í stuttu hléi á milli keppna í heilum og hálfum járnkörlum. C-markmiðið var að hlaupa á betri tíma en í Bregenz 2017, því að þá gæti ég sagst hafa náð mínum besta árangri (PB) eftir sextugt. Og D-markmiðið var að ljúka alla vega hlaupinu undir 3:30 klst. vegna þess að ég vissi að mér myndi finnast svolítið leiðinlegt að vera lengur, auk þess sem 3:30 klst. er ágætis viðmið.

Skipulagður eða kærulaus?
Þegar ég legg af stað í maraþonhlaup finnst mér ég eiga tvo valkosti, þ.e. að vera skipulagður eða kærulaus. Að vera skipulagður í þessu samhengi þýðir í mínum huga að vera með raunhæfa áætlun sem gengur út á að halda jöfnum hraða alla leið, þrátt fyrir að mér finnist ég geta hlaupið hraðar fyrstu kílómetrana. Kæruleysið felur hins vegar í sér að ég fari alfarið eftir tilfinningunni og hlaupi bara eins hratt eða hægt og mig langar á hverjum tíma. Ég veit af reynslu að skipulagið skilar oftast betri niðurstöðu, en kæruleysið er óneitanlega skemmtilegt, sérstaklega framan af hlaupi og í þeim örfáu tilvikum þegar formið er betra en ætlað var. Núorðið veit ég reyndar oftast hvað ég get og veit að það þýðir lítið að láta sig dreyma um meira. Í þetta skiptið valdi ég því að vera skipulagður. Hver kílómetri skyldi hlaupinn á 4:44 mín því að það var sá hraði sem ég þurfti til að ná undir 3:20 klst. En eins og fram kemur hér að framan vissi ég að þetta plan væri í djarfara lagi.

Ferðin til Tallinn
Eins og ég nefndi í upphafi sáu Bændaferðir um að skipuleggja Tallinnferðina fyrir mig og fjölda annarra Íslendinga. Ég get svo sem vel skipulagt svona ferðir sjálfur, bæði fyrir mig og hlaupafélagana, en það er bara miklu auðveldara að láta aðra sjá um það. Eftir að hafa reynt hvort tveggja kann ég virkilega vel að meta að þurfa ekkert að hugsa um að bóka flug, skipuleggja ferðir frá flugvelli, leita að hóteli, finna staðinn þar sem maður sækir skráningargögnin sín, komast á rásmarkið snemma að morgni hlaupadags, tryggja að ég sjálfur og aðrir séu alltaf á réttum stað á réttum tíma og leysa öll þau ófyrirséðu vandamál sem geta komið upp í svona ferðalagi. En auðvitað er ekki sama hverjum maður felur þetta verkefni. Tallinnferðin var þriðja hlaupaferðin mín á vegum Bændaferða (á eftir München 2014 og Bregenz 2017) og í þessum ferðum hefur bókstaflega aldrei neitt farið úrskeiðis. Í öll skiptin hefur Sævar Skaptason verið aðalfararstjórinn og hann hefur einmitt þetta einstaka lag á að skapa þægilegt andrúmsloft, halda streitustiginu í hópnum innan marka og halda samt áætlun í öllum atriðum hvað sem á gengur. Í þetta sinn var Inga Dís Karlsdóttir honum til halds og trausts, eins drífandi og jákvæð og hún er. Þessi tvö eru bæði vanir hlauparar – og þegar það bættist við allt hitt var ljóst að þetta „gat ekki klikkað“. Svona ferð er svo miklu meira en bara að fljúga, sofa, hlaupa, borða og fljúga. Góðir fararstjórar eru ómissandi í öllum hinum þáttunum.

Í Bændaferðahópnum vorum við samtals 14 sem kennum okkur beint eða óbeint við Hlaupahópinn Flandra í Borgarnesi, þ.á.m. Björk og þrír aðrir makar sem ekki ætluðu að hlaupa sjálf en komu með til að njóta ferðarinnar með okkur hinum. Fjögur úr Flandrahópnum ætluðu að hlaupa maraþon en hin hugðu á styttri vegalengdir (hálft maraþon og 10 km).

Ferðaskipulagið var þannig að við flugum til Helsinki á föstudagsmorgni og náðum að rölta þar aðeins um miðborgina áður en við tókum ferju áfram til Tallinn. Ég hef oft áður komið til Helsinki, en svo sem aldrei náð að skoða neitt annað en lestarstöðina, nokkur hótelherbergi og fundarsali finnsku umhverfisstofnunarinnar og umhverfisráðuneytisins. Þessi heimsókn var allt öðruvísi og bætti heilmiklu við. Hæst bar heimsókn í borgarbókasafnið Oodi, sem hannað var af ALA arkitektum í Helsinki og opnað í desember 2018. Þarna hefur tekist að byggja upp ótrúlega aðlaðandi setustofu og félagsaðstöðu fyrir gesti og gangandi í miðborginni, í byggingu sem útnefnd hefur verið sem fegursta bygging Finnlands.

Oodi borgarbókasafnið í Helsinki.

Hér verður ferðasagan ekki rakin í smáatriðum, en þegar nokkuð var liðið á föstudagskvöldið vorum við öll komin inn á eitt og sama hótelið í Tallinn, skammt frá gömlu miðborginni. Laugardagurinn fór svo í létt morgunskokk, heimsókn á Frelsistorgið þar sem númer og önnur keppnisgögn voru afhent – og í dágott búðarrölt, að því ógleymdu að fylgjast með 10 km hlaupurunum sem reyndu með sér þennan dag. Jafnframt boðuðu fararstjórarnir til fundar þar sem farið var yfir helstu skipulagsatriði og gefin góð og róandi ráð fyrir átök sunnudagsins.

Við rásmarkið
Maraþonhlaupið hófst í gömlu miðborginni í Tallinn kl. 9 á sunnudagsmorgninum. Við vorum mætt á svæðið tæpum klukkutíma fyrr og veðrið var nógu gott til að hægt væri að yfirgefa hótelið í keppnisfötunum og engu utanyfir. Þarna á milli var í mesta lagi korters gangur, sem gerði þetta allt auðveldara en ella. Veðrið var þurrt, vindur hægur og hitinn eitthvað um 12°C.

Eftir hefðbundið spjall og vangaveltur og frekar hófsama upphitun var tími til kominn að finna starthólfið sitt og bíða þess að hlaupið yrði ræst. Við fjögur úr Flandrahópnum höfðum öll verið sett í ráshóp D, sem þýddi að við vorum eiginlega allt of aftarlega í startinu. Ráshópar eru ákveðnir eftir fyrri árangri, en þar sem hlaupahaldarar höfðu ekki upplýsingar um þann árangur lentum við þarna, væntanlega með fólki sem ætlaði að klára maraþonið á 4:20 klst. eða þar um bil. Við áttum að geta klárað þetta á 3:20-3:50, sem þýddi að líklega hefði ráshópur B hentað betur, eða í mesta lagi C. Þessu hefði mátt breyta þegar skráningargögnin voru sótt, en við töldum okkur trú um að þrengslin á rássvæðinu væru ekki meiri en svo að þetta skipti nánast engu máli. Þetta voru mistök, en þó svo sem ekkert sem réði úrslitum.

Glaðir fjórmenningar (SG, Inga Dísa, Gunnar Viðar og Birkir) fyrir maraþon í Tallinn. (Ljósm. Inga Dís Karlsdóttir).

Fyrstu 5 km
Eftir að hlaupið var ræst tók það mig rúmlega eina og hálfa mínútu að komast á ráslínuna. Það breytti svo sem engu, því að í reynd byrjar ekki hlaupið fyrr en þar og þá. Hins vegar var fyrsti kílómetrinn seinfarinn í þrengslunum. Við Birkir og Gunnar Viðar fylgdumst að eftir því sem hægt var og reyndum eftir föngum að smeygja okkur fram úr sem flestum hægfara hlaupurum sem áttu betur heima í ráshópi D en við. Þessi viðleitni fól í sér góðan skammt af dansi á kantsteinum og í kringum ljósastaura. Gunnar Viðar hnaut við einhvers staðar í þessum jafnvægisæfingum og tognaði að öllum líkindum í læri. Það er ekki skemmtileg byrjun á maraþonhlaupi, en Gunnar beit á jaxlinn að vanda og jók heldur hraðann ef eitthvað var.

Það tók mig 5:45 mín að skáskjóta mér fyrsta kílómetrann, sem þýddi að ég hafði þá þegar tapað heilli mínútu í troðningnum, miðað við A-markmiðið mitt. Eftir það náði ég hins vegar nokkurn veginn að halda áætluðum hraða og þegar 5 km voru að baki sýndi klukkan 25:09 mín. Þar var ég sem sagt 1:29 mín á eftir áætlun (sjá töfluna hér að framan). Með því áframhaldi myndi ég ekki einu sinni ná D-markmiðinu mínu (3:30 klst.) og ljóst að ég yrði að bæta talsvert í ef ég ætlaði að komast nálægt A-markmiðinu (3:20 klst.).

5-15 km
Mér leið vel á þessum kafla í hlaupinu og fór fram úr fjöldanum öllum af hlaupurum, þ.á.m. flestum eða öllum Íslendingunum sem höfðu verið framar í rásröðinni. Birkir var lengst af nokkrum skrefum á undan mér, en Gunnar var horfinn og ég gerði ráð fyrir að hann væri kominn með talsvert forskot. Það gladdi mig og vakti vonir um að meiðslin í byrjun hefðu jafnað sig. Millitíminn eftir 15 km var 1:12:04 klst., sem þýddi að ég var enn 1:04 mín. á eftir áætlun en átti þó alla vega að ráða við B-markmiðið með svipuðu áframhaldi.

Kannski finnast einhverjum þessar tímapælingar flóknar eða ruglingslegar, en svona pælingar eru einmitt helsta tómstundagamanið mitt í maraþonhlaupum. Mér finnst gott að hafa eitthvað til að hugsa um og mér finnast tölur skemmtilegar.

Bjartsýnn á gang mála. U.þ.b. 12,5 km að baki. (Ljósm. Sportfoto).

15-30 km
Þar sem ég var staddur í dýragarðinum í Tallinn og búinn með u.þ.b. 17 km af hlaupinu fór ég að finna fyrir þreytu eða orkuleysi, sem fljótlega skilaði sér í minni meðalhraða. Þessi þreytumerki voru fyrr á ferðinni en ég hafði vonað og ég áttaði mig fljótlega á að A-markmiðið væri út úr myndinni og að B-markmiðið væri á leið út úr henni líka. Tíminn á hverjum kílómetra var ekki lengur 4:40-4:45 mín. eins og hann hafði verið lengst af eftir að ég komst út úr þvögunni, heldur allt upp í 4:50-5:00 mín. Þegar hlaupið var hálfnað stóð klukkan í 1:41:43 klst., sem þýddi að ég gæti svo sem hlaupið undir 3:24 klst. ef ekkert myndi hægjast á mér á seinni helmingnum. En ég fann vel að þessi seinni helmingur yrði erfiður. Líklega hafði of mikil orka farið í að vinna upp tímann sem tapaðist á fyrsta kílómetranum.

Þessi hluti hlaupsins var strembinn bæði fyrir líkama og sál og stemmingin í brautinni var heldur ekkert sérstök, frekar fáir áhorfendur og fátt til að leiða hugann frá neikvæðri talnaspeki. Það jákvæðasta voru þrjár ungar konur sem stóðu á einhverri gangstéttinni með stórt spjald með áletruninni (á ensku) „Hlauptu hraðar, ég var að prumpa“. Jú, og einhvers staðar stóð gamall maður sem hrópaði hvatningarorð á eistnesku þar sem orðið „Island“ kom fyrir. Mann munar um allt.

Millitíminn á 30 km var 2:25:53 klst. Ég var sem sagt orðinn 53 sek. á eftir áætlun B og átti ekki nema 7 sek til góða á áætlun C. Og ég fann alveg hvert stefndi. Nú snerist þetta um að þrauka og reyna með öllum tiltækum ráðum að skreiðast í mark á skemmri tíma en 3:30 klst. Þar var enn sæmilegt borð fyrir báru. Reyndar miða ég oft við að síðustu 12,2 kílómetrarnir eigi ekki að þurfa að taka meira en klukkutíma, sem þýddi að lokatími upp á 3:26 klst. var ekkert fráleitur. Maður verður nú að reyna að vera aðeins bjartsýnn.

30-38 km

Afskaplega þreyttir Strandamenn í Stroomi strandgarðinum. Búnir með u.þ.b. 31 km og mikið eftir. (Ljósm. Sportfoto).

Þarna var hver kílómetri orðinn óþægilega langur. Það hressti mig þó töluvert þegar ég sá Birki í næsta hópi á undan mér. Smám saman dró saman með okkur og eftir það fylgdumst við að drjúgan spöl í gegnum Stroomi strandgarðinn. Hann bar mér þær fréttir að Gunnar hefði tafist á einhverri drykkjarstöðinni og væri líklega orðinn langt á eftir okkur en ekki á undan. Birkir var sjálfur orðinn frekar þreyttur, en þrátt fyrir það seig hann fram úr mér á nýjan leik og ég var aftur „einn“ og fannst ég sjaldan hafa verið þreyttari. Millitíminn eftir 35 km var 2:51:27 klst. sem þýddi að ég var svo sem enn 2:23 mín. á undan áætlun miðað við síðasta og lakasta markmiðið, markmið D sem sagt. En líkaminn var ekki samvinnuþýður og hver kílómetri var farinn að taka 5:15-5:30 mín. Með því áframhaldi benti flest til að ég myndi engu markmiði ná. Ekki bætti það úr skák að um þetta leiti fóru „3:30 blöðrurnar“ fram úr mér, eða með öðrum orðum hópur hlaupara sem fylgdi hraðastjóra sem merktur var með lokatímanum 3:30 klst. Það var ekki uppörvandi.

Í maraþonhlaupum skoða ég jafnan millitímann eftir 37 km. Þá eru bara 5,2 km eftir og ef sú vegalengd klárast ekki á hálftíma er illa komið fyrir mér. Þessi millitími var 3:01:58 klst., útlitið hreint ekki gott og tankurinn alveg að verða tómur. Kílómetri nr. 38 jók mér ekki heldur bjartsýni. Hann var einn af þeim alhægustu.

Kristín Ól. og Björk J. bíða áhyggjufullar eftir sínum mönnum á marksvæðinu í Tallinn. (Ljósm. Torfi Bergsson).

Síðustu kílómetrarnir
Einhvern tímann rétt eftir 38 km línuna var eins og eitthvað lifnaði við í mér á nýjan leik. Kannski var það tilhugsunin um að þessu færi bráðum að ljúka, en kannski eitthvað miklu flóknara. Alla vega fór ég allt í einu að geta hlaupið hraðar. Eiginlega voru þessir fjórir kílómetrar eins og ein löng hraðaaukning, alveg frá 6:00 mín/km niður í 4:00 mín/km þegar best lét. Allt í einu var ég búinn að ná Birki aftur og einhvers staðar fór ég líka fram úr 3:30 blöðrunum, án þess að taka eftir því. Þreytan vék fyrir endurnýjaðri gleði og mér fannst allt vera mögulegt, þ.m.t. að klára þetta hlaup undir 3:30 klst. Millitíminn eftir 40 km var 3:17:52 klst. og svo var ég allt í einu kominn í mark í gamla Viru-borgarhliðinu á 3:28:06 klst. Birkir kom nákvæmlega 14 sek. síðar og Björk og fleiri úr stuðningsliðinu biðu þarna rétt hjá. Ég hef sjaldan verið þreyttari eftir hlaup (sbr. mynd fremst í þessum pistli), en móttökurnar voru svo góðar og vel þegnar að flestar neikvæðar hugsanir og tilfinningar gufuðu upp og létu ekki sjá sig það sem eftir var dagsins.

Eftir hlaup
Fyrsti hálftíminn eftir hlaup, já eða kannski fyrsti klukkutíminn, fór í að taka á móti félögunum, hitta stuðningsliðið og rölta á stirðum fótum á staðinn þar sem Íslendingarnir ætluðu að safnast saman. Gunnar Viðar og Inga Dísa skiluðu sér í mark u.þ.b. 14 mínútum á eftir okkur Birki. Óhappið á fyrstu kílómetrunum hafði tekið sinn toll af Gunnari en Inga Dísa var hins vegar að ná sínum langbesta árangri á þessari vegalengd. Og svo skiluðu Íslendingarnir sér hver af öðrum.

Þegar upp var staðið kom í ljós að ég var með besta tíma af þeim 15 Íslendingum sem hlupu heilt maraþon og í 3. sæti í heildarkeppni karla 60-64 ára. Samanlagt var ég í 445. sæti af 2.428 keppendum, sem sagt örugglega í fyrstu 20 prósentunum. Ég nota þá tölu gjarnan sem viðmið og finnst svolítið leiðinlegt að vera neðar á listanum. Samt er allur svona samanburður hégómi, því að maður er jú fyrst og fremst að keppa við sjálfan sig. Ég hleyp bara mitt hlaup og aðrir sitt. Samanburðurinn getur samt verið hvetjandi og haldið manni við efnið.

Glaðir fjórmenningar (Inga Dísa, SG, Birkir og Gunnar Viðar) eftir maraþon í Tallinn. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Kvöldið, mánudagurinn og heimferðin
Að kvöldi hlaupadags naut stærstur hluti hópsins góðra veitinga á vel völdum veitingastað í Tallinn og mánudagurinn var m.a. notaður í skoðunarferð um nágrenni Kardiorghallarinnar sem Pétur mikli Rússakeisari lét byggja fyrir Katrínu I snemma á 18. öld. Katrín tók við keisaratigninni þegar Pétur dó árið 1725, rétt um það leyti sem höllin var tilbúin. Þegar til kom langaði Katrínu ekkert að búa þar, en höllin stendur sem fastast og hefur komið í góðar þarfir. Hluti af hallarmannvirkjunum var síðar gerður upp til að hýsa forseta Eistlands. Forsetahöllin er nýtt við opinberar uppákomur, en ég hef reyndar ekki kynnt mér hvort núverandi forseti, Kersti Kaljulaid, hafi þar aðsetur. Hins vegar veit ég að hún er liðtækur maraþonhlaupari og hljóp t.d. New York maraþonið í fyrra á 4:02:40 klst.

Björk við Kadrirorghöllina í Tallinn.

Auk þess að skoða mannvirkin í Katrínardalnum (Kadriorg) kíktum við m.a. á hina glæsilegu útitónleikaaðstöðu Tallinna Lauluväljak, þar sem pláss er fyrir 100.000 tónleikagesti framan við tilkomumikið svið sem var að grunni til byggt árið 1959. Meðal tónlistarmanna sem þar hafa troðið upp má nefna Madonnu, Michael Jackson, Lady Gaga, Rolling Stones og Tínu Turner. Ekkert þeirra var þó á svæðinu þegar okkur bar að garði. Skoðunarferðin endaði svo með göngu með leiðsögn um gömlu borgina í Tallinn þar sem sagan bíður við hvert fótmál.

Á þriðjudegi var svo botninn sleginn í ferðalagið með ferjusiglingu til Helsinki og flugi þaðan til Keflavíkur.

Þakkir
Í mínum huga eru það slík forréttindi að geta tekið virkan þátt í ævintýraferðum á borð við þá sem hér hefur verið lýst, að ég veit varla hvernig ég á að koma orðum að því. Þess vegna er líka þakklæti sú tilfinning sem liggur hæst í tilfinningastaflanum þegar heim er komið. Þakklátastur er ég Björk fyrir að umbera þetta áhugamál mitt og leggja það á sig að koma með mér í þessa ferð. Ég hef farið í nokkrar hlaupaferðir til útlanda án hennar og það er líka bara ágætt, en samt er allt miklu betra ef hún er með. Móttökurnar í markinu eru vissulega mikilvægur hluti af þessu, en þar við bætast ótalmörg fleiri stór og smá atriði, m.a. það eitt að fá að upplifa það sem fyrir augu ber með þeim sem standa manni næst. Bestu hlaupafélagarnir mínir fá líka drjúgan skammt af þakklætinu, því að án þeirra væri þetta allt svo miklu tómlegra. Og Bændaferðir áttu líka stóran þátt í að gera þessa ferð jafn óaðfinnanlega og hún var, sérstaklega fararstjórarnir tveir. Já, og svo má heldur ekki gleyma meðferðaraðilunum sem hjálpuðu mér að komast á lappirnar eftir þrálát meiðsli 2018. Þetta gerist ekki af sjálfu sér.

Eftirmáli
Þessi langa maraþonsaga átti upphaflega að birtast í september en annríki á öðrum sviðum varð til þess að sagan varð ekki fullskrifuð fyrr en í jólafríinu.

Sumarylur á Laugaveginum

Síðastliðinn laugardag hljóp ég Laugaveginn í 5. sinn. Markmið dagsins var að komast þessa 53 km á skemmri tíma en 6 klst. en út frá árangri í keppnishlaupum fyrr um sumarið hafði ég reiknað út með hávísindalegum aðferðum að líklegur lokatími væri 6:01:11 klst. Framan af benti allt til að þessi markmið næðust – og vel það, en þegar á leið urðu sporin þyngri og þá varð smám saman ljóst að ég yrði að sætta mig við ögn lakari tíma. Endanleg niðurstaða varð 6:05:48 klst. og ég er kampakátur með þann árangur, sérstaklega eftir að hafa misst allt síðasta ár úr vegna langvinnra meiðsla. Fimm mínútur til eða frá er nánast ekki neitt þegar Laugavegurinn á í hlut. Þar getur allt gerst.

Undirbúningurinn
Undirbúningurinn fyrir Laugavegshlaupið hófst í raun í lok október á síðasta ári þegar ég gat loksins byrjað að skokka stuttar vegalengdir eftir 9 mánaða hlé. Fyrst var þetta allt mjög stutt og hægt, en smám saman lengdust æfingarnar og hraðinn þokaðist upp. Í janúar voru lengstu vikurnar komnar í 40 km, í febrúar var lengsta vikan hátt í 60 km og í mars fóru tvær vikur yfir 70 km. Apríl og maí urðu einhvern veginn ögn hógværari, án þess þó að fyrir því væri einhver sérstök ástæða. Júní varð hins vegar, nánast óvart, langlengsti hlaupamánuðurinn minn frá upphafi en þá lagði ég samtals 433 km að baki og fór tvisvar vel yfir 100 km á viku. Fyrra „mánaðarmetið“ var 324 km frá því í mars 2013 þegar ég var að æfa fyrir Parísarmaraþonið. Þá var ég reyndar í miklu betra formi en núna, enda segir kílómetrafjöldinn ekki allt um stöðu mála. Kílómetrafjöldinn í júní segir þó alla vega að ég var farinn að þola hnjaskið býsna vel. Í júní hljóp ég t.d. Skarðsheiðarveginn fram og til baka tvisvar sinnum – u.þ.b. 40 km í hvort skipti með 1.000-1.200 m hækkun, einn tvöfaldan Háfslækjarhring sem var líka tæpir 40 km, Þrístrending upp á rúma 40 km og Hamingjuhlaupið á Ströndum upp á rúma 50 km. Ég var ágætlega þreyttur eftir öll þessi hlaup en ekkert þeirra hafði nein teljandi eftirköst. Auk þess lagði ég stundum leið mína á Hafnarfjallið og náði einu sinni tvöfaldri ferð. Hefði líklega mátt gera meira af því, eftir á að hyggja.

Á Hafnarfjallinu 27. apríl 2019.

Löngu hlaupin í júní voru öll hæg og almennt var lítið um hraða- og styrktaræfingar á undirbúningstímabilinu. Þar hefði mátt gera betur, ekki bara til að komast í betra stand fyrir Laugaveginn heldur einnig og ekki síður til að minnka líkur á meiðslum. Einu eiginlegu hraðaæfingarnar voru í raun nokkur keppnishlaup sem ég tók þátt í á tímabilinu apríl-júní. Þau gengu öll nokkurn veginn í samræmi við væntingar, nema hvað ég þurfti að hætta í Mývatnsmaraþoninu seint í maí vegna eymsla í hægri ökkla og sköflungi.

Fyrir mér hafa keppnishlaupin a.m.k. fjórþættan tilgang. Í fyrsta lagi eru þessi hlaup bestu hraðaæfingar sem völ er á. Í öðru lagi er þau mælikvarði á getuna. Í þriðja lagi gefa þau mér tækifæri til að hitta góða hlaupavini sem lýsa upp tilveruna. Og í fjórða lagi gefa þau mér aukið sjálfstraust til að takast á við næstu verkefni. Í sumum þessara hlaupa verða einhvers konar kaflaskil, rétt eins og dyr opnist inn í nýja sali með nýjum tækifærum.

Fyrir Laugaveginn var ég búinn með 8 keppnishlaup frá því að ég komst aftur af stað á liðnum vetri. Í þremur þeirra fannst mér eins og nýjar dyr opnuðust. Fyrsta hlaupið var 20 mílna utanvegahlaup í Kielder í Bretlandi í byrjun apríl. Þá fann ég að ég gat þetta alveg, þó að skrokkurinn væri greinilega ekki kominn í það stand sem ég vil hafa hann í. Seinna í sama mánuði hljóp ég 5 km í Víðavangshlaupi ÍR alveg vandræðalaust á sæmilegum tíma. Og í byrjun maí fannst mér ég finna „fjölina mína“ í fyrsta sinn eftir meiðslin. Þá hljóp ég Heimaeyjarhringinn í Vestmannaeyjum og þar small einhvern veginn allt saman, bæði hið innra og hið ytra, eins og ég skrifaði einmitt um í pistli á hlaup.is.

Á Vestmannaeyjahringnum í vor – á leið upp Stórhöfða. (Ljósm. Hlaup.is).

Í stuttu máli gekk undirbúningurinn fyrir Laugavegshlaupið vel og áfallalaust. Framan af undirbúningstímabilinu fannst mér ólíklegt að ég gæti hlaupið Laugaveginn undir 6:30 klst., en svo lækkaði sú tala jafnt og þétt – fyrst niður fyrir 6:20, svo í 6:15 og loks í 6:01:11 eins og ég nefndi í inngangi þessa pistils. Sú tala var byggð á tölulegum samanburði við sumarið 2017 þegar ég hljóp Laugaveginn á 5:55:56 klst. Kannski er samt ofmælt í innganginum að þeir útreikningar hafi verið „hávísindalegir“.

Ferðalagið með Flandra
Strax á síðasta hausti varð ljóst að stór hópur hlaupafélaga minna í Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi stefndi á Laugaveginn sumarið 2019 – og skömmu eftir að opnað var fyrir skráningu í hlaupið í janúar voru 17 nöfn komin á blað. Þetta gerði undirbúninginn mun skemmtilegri en ella, því að þarna var allt í einu orðinn til hópur sem allur stefndi að sama marki þó að væntingar um lokatíma væru eðlilega misjafnar. Af þessum 17 höfðu aðeins sex hlaupið Laugaveginn áður og það jók eftirvæntinguna í hópnum enn frekar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að takast á við þessa áskorun í fyrsta skipti og bara það eitt að fylgjast með þessu ferli bætir gleði við lífið hjá manni eins og mér sem er hættur að vera byrjandi.

Því miður þurfti einn af sautján að hætta við þátttöku í Laugaveginum vegna meiðsla, en inn í hópinn komu aðrir þrír sem höfðu einhver tengsl við Flandra. Þessir 19 hlauparar lögu af stað saman á tveimur fjallabílum úr Borgarnesi kl 3:30 að morgni hlaupadagsins og héldu hópinn til kvölds. Og öll skiluðu þau sér í mark! Þetta ferðalag á eftir að lifa lengi í minni margra.

Morgunn í Landmannalaugum
Ég og allir hinir í Flandrahópnum vorum komin í Landmannalaugar um það bil einum og hálfum tíma fyrir hlaup. Einn af kostum þess fyrir svona hóp að vera á eigin vegum er að geta stjórnað tímanum sínum og verið komin á undan fjöldanum á staðinn. Þannig gefst góður tími fyrir síðustu skrefin í undirbúningi hlaupsins, þar með taldar klósettferðir og ákvarðanir um hlaupaföt og annan búnað. Dæmigerð umræðuefni á svona stundum er hvort maður eigi að vera í stuttbuxum eða ekki, í stuttermabol eða ekki og taka með sér regnföt eða ekki. Þennan morgun var hægur vindur og milt veður og ekki miklar líkur á úrkomu yfir daginn. Í mínum huga kallaði þetta á stuttbuxur og stuttermabol. Ég vil helst vera sem allra léttklæddastur á hlaupum og hafa sem minnstan farangur.

Allur Flandrahópurinn saman kominn í Landmannalaugum með Hauki bílstjóra. (Ljósm. Hulda Waage).

Síðustu skrefin í undirbúningi hlaups snúast ekki bara um klósettferðir og ákvarðanir um hlaupaföt, heldur einnig og ekki síður um að stilla hugann og njóta vitneskjunnar um að nú sé allt orðið eins tilbúið og það getur verið. Á svona stundum líður mér eins og fyrir prófin í Menntaskólanum í Hamrahlíð í gamla daga. Maður breytir ekki því sem maður getur ekki breytt. Og það er bara allt í lagi.

Áætlun dagsins
Ég skipti Laugaveginum alltaf í áfanga og geri áætlun um millitíma á helstu viðkomustöðum. Í þetta sinn miðaði ég auðvitað við vísindalega lokatímann 6:01:11 klst. og hafði eldri millitíma til hliðsjónar við útreikning á áfangaskiptingunni. Áætlun dagsins var í stuttu máli svona:

(Já, ég veit alveg að þetta er smátt. En myndin stækkar ef smellt er á hana).

Landmannalaugar-Hrafntinnusker
Laugavegshlaupararnir voru ræstir í fjórum ráshópum eftir því hvaða líklega lokatíma þeir höfðu gefið upp. Ég var að vanda í 1. ráshópi og þar voru líka sex aðrir úr hópnum mínum, þ.e.a.s. Almar, Birkir, Bjarni, Gunnar, Jósep og Kiddó. Fjóra þeirra sá ég ekki aftur fyrr en í endamarkinu, en við Bjarni fylgdumst hins vegar að frá upphafi og Almar var líka alltaf nálægur.

Á leið upp Brennisteinsöldu. (Ljósm. Hlaup.is).

Leiðin upp í Hrafntinnusker var óvenju snjólétt og líklega var ferðalagið ívið léttara fyrir bragðið. Mér leið reyndar ekki vel í fyrstu og nennti þessu eiginlega ekki, sem er sjaldgæf tilfinning í hlaupatilverunni minni. En það leið hjá og ég reyndi að fara mátulega hratt til að mér liði bærilega. Á svona leið hefur maður þó engin eiginleg viðmið fyrr en fyrsta áfangastaðnum er náð.

Þegar Hrafntinnusker nálgaðist sýndist mér tíminn lofa góðu og sú varð líka raunin. Þangað náði ég á 1:10:53 klst. sem var bara 13 sek. frá mínum besta tíma og rúmum 4 mín. betra en ég hafði áætlað. Reyndar var þetta líka miklu betri tími en 2015 þegar ég hljóp mitt besta Laugavegshlaup til þessa. Mér leið eins og 6 klst. markið ætti að vera viðráðanlegt, en vissi svo sem vel að of snemmt væri að draga stórar ályktanir.

Við Bjarni mættir í Hrafntinnusker fyrr en vænta mátti. (Ljósm. Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir).

Hrafntinnusker-Álftavatn
Mér leið ekki alls kostar vel í fótunum þegar ég lagði af stað frá Hrafntinnuskeri og líðanin var kaflaskipt á ferðalaginu fram á brún Kaldaklofsfjalla. Ferðin niður Jökultungur gekk þokkalega, enda tel ég mig vera býsna sterkan á undanhaldinu. Samt var eins og ökklar og sköflungar væru örlítið feimnir við höggin og ég hlakkaði til að komast niður á jafnsléttu. Við Álftavatn sýndi klukkan 2:20:05 klst. sem var næstum 6 mín. betra en ég hafði áætlað og ekki nema 55 sek. frá mínum besta tíma. Þetta gekk sem sagt virkilega vel þegar á heildina var litið, Bjarni og Almar voru enn á svipuðu róli og ég og veðrið var nógu gott til að ég vissi að stuttbuxurnar og stuttermabolurinn voru góð hugmynd.

Álftavatn-Bláfjallakvísl
Þessi áfangi er ekki langur og þarna breyttist svo sem ekki neitt. Bjarni og Almar fylgdu mér fast eftir, sem mér fannst reyndar mjög þægilegt. En fæturnir voru áfram þreyttir. Tíminn við Bláfjallakvísl var 2:54:49 klst. og ég var enn með rúmlega 5 mín. forskot á áætlunina. Framundan voru sandarnir sem ég hafði einna helst kviðið fyrir að fást við, minnugur erfiðs barnings í mótvindi þar fyrir tveimur árum.

Bláfjallakvísl-Emstrur
Mér leið bara nokkuð vel á söndunum og fannst að ég hlyti að komast þá á skemmri tíma en síðast. Að vísu var vindurinn í fangið rétt eins og þá, en mér fannst það einhvern veginn ekki til trafala. Hitinn var farinn að hækka og yfirleitt kann ég því vel. En meiri hita fylgir meiri sviti og um leið meiri þörf fyrir vatn og steinefni. Ég þóttist svo sem vera með nóg af vatni meðferðis en hafði hins vegar ákveðið að steinefnatöflur væru óþarfar. Kannski var það rétt, kannski ekki. Þarna var ég aðeins byrjaður að finna fyrir krömpum neðarlega í kálfunum en krampar geta átt sér ýmsar orsakir.

Sunnarlega á söndum tók ég eftir að Bjarni var farinn að dragast aftur úr og Almar hafði ég ekki séð síðan við Bláfjallakvísl. Mér fannst þetta miður, en í svona hlaupum er einmanaleikinn samt bara hluti af áskoruninni.

Vegalengdin frá Bláfjallakvísl að Emstrum er u.þ.b. 10,7 km og að fenginni reynslu vil ég geta hlaupið þennan hluta Laugavegarins á 1 klst. eða þar um bil. Það hefði þýtt að ég næði í Emstrur á 3:55 klst. en ég var ákveðinn í að allt undir 4:00 klst. skyldi flokkast sem sigur. Á síðustu kílómetrunum fannst mér reyndar að ég væri orðinn óþarflega viðkvæmur neðst í fótleggjunum og ég gat ekki notið þess eins og stundum áður að spretta úr spori niður síðustu brekkurnar. Tíminn í Emstrum var 4:01:40 klst., þ.e. nánast sami tími og 2017. Þarna var ég enn 6 mín. á undan áætlun þrátt fyrir að spottinn frá Bláfjallakvísl hefði tekið vel yfir klukkutíma. Enn voru sem sagt góðar líkur á að ég næði að ljúka hlaupinu undir 6 klst. og jafnvel á ívið betri tíma en síðast.

Emstrur-Þröngá
Strax eftir að ég yfirgaf skálann í Emstrum og allt það góða fólk sem tók á móti mér þar, fann ég að síðasti áfanginn yrði erfiður. Fæturnir voru orðnir allt of stirðir og mér leið eins og leggirnir væru brothættir. Mér sóttist ferðin seint í hrjóstrinu og vissi að mínúturnar yrðu fljótar að étast upp. Hlauparar sem höfðu verið á eftir mér lengi náðu mér einn af öðrum. Almar var þar á meðal og ég sá Bjarna nálgast þegar ég leit um öxl. Það voru góðar fréttir en um leið vísbending um að ég væri farinn að gefa eftir.

Eftir u.þ.b. 44 km náði Elísabet Margeirsdóttir mér, heilsaði glaðlega og hvarf svo á braut. Ég gat ekki annað en undrast að einhver gæti verið svona fersk seint í hlaupinu og á þessum tímapunkti vissi ég samt ekki að hún hafði hitað upp með því að hlaupa Laugaveginn í hina áttina um nóttina og var þar af leiðandi búin með einhverja 90 km frá miðnætti. Svona samanburður kann að vera ögn niðurdrepandi en fyrir mér var hann hvatning og áminning um að næstum allt væri mögulegt. En ég var samt orðinn mjög þreyttur og í þokkabót var vatnið mitt allt í einu búið, enn um 4 km í drykkjarstöðina við Ljósá og lítið um álitleg vatnsföll. Hitastigið var þar að auki líklega komið upp fyrir hagkvæmnismörk, án þess að ég viti neinar tölur í því sambandi. En áhyggjur af ofþornun hjálpa manni ekki neitt. Trúin á eigin getu gerir það hins vegar. Nú var bara um að gera að líta nógu sjaldan á úrið til að sjá ekki hvað kílómetrateljarinn var farinn að ganga hægt – og vona að drykkjarstöðin við Ljósá birtist sem fyrst.

Drykkjarstöðin við Ljósá lét bíða eftir sér, en við ána eru búnir rúmir 48 km að hlaupinu. Þarna var ég kominn á söguslóðir, því að þarna datt ég á andlitið í hlaupinu 2017 og braut á mér öxlina í leiðinni. Ég gat alla vega glaðst yfir því að það endurtók sig ekki. Og svo gladdist ég líka yfir því að fá vatn á brúsann minn, þó að ég vissi að það breytti svo sem ekki öllu úr því sem komið var. Hvorki eymslin í fótunum né krampatilfinningin myndu skolast út með vatni.

Við Almar lögðum saman af stað frá Ljósá áleiðis upp Kápuna og okkur kom saman um að markmið okkar beggja um að hlaupa Laugaveginn undir 6 klst. væri fyrir bí. Kápan var með erfiðasta móti en léttist um allan helming þegar ég hljóp fram hjá fjórum ungum stúlkum sem kölluðu til mín þakkir fyrir minn hlut í sjónvarpsþáttunum „Hvað höfum við gert?“. Hvatningarorð hafa ótrúlega mikið að segja. Í þessu hlaupi voru þau mörg, að ógleymdum faðmlögum góðra vina á drykkjarstöðvunum. Hlýjan er á við mörg orkugel.

Það var gott að koma niður að Þröngá og vita að nú gætu ekki verið meira en 20 mín. eftir að hlaupinu. Klukkan sýndi 5:46:46 klst. sem þýddi að ég var orðinn næstum 3 mín. á eftir áætlun og myndi í besta falli klára hlaupið á 6:05 klst. eða þar um bil. En ég ákvað að vera ánægður með það. Það er alltaf afrek að hlaupa Laugaveginn, hvort sem það tekur nokkrum mínútum lengri eða skemmri tíma.

Þröngá-Húsadalur
Um þetta leyti voru fæturnir nánast alveg búnir að afþakka frekari hlaup en samt fannst mér skárra að láta þá líkja eftir hlaupahreyfingu en að skipta yfir á göngu. Enn héldu hlauparar áfram að streyma fram úr mér og meðal þeirra sem birtust var Sonja Sif og henni fylgja alltaf góðir straumar. Hápunkturinn dagsins var svo þegar ég kom auga á dætur mína uppi á einni hæðinni, en þær höfðu gert sér ferð í Þórsmörk til að taka á móti mér og upplifa hluta af stemmingu dagsins. Síðustu metrarnir voru léttir og ég kom í mark á 6:05:48 klst., verulega þreyttur en ágætlega sáttur þó að markmið dagsins hefðu ekki náðst. Á marksvæðinu komst ég reyndar að því að það sama gilti um flesta sem ég þekkti í þessu hlaupi. Kannski var veðrið óþarflega hlýtt og kannski var mótvindurinn drýgri en mér fannst sjálfum á söndunum.

Kominn í mark, þreyttur og glaður. (Ljósm. Hlaup.is).

Lærdómurinn
Hér ætlaði ég upphaflega að nota fyrirsögnina „Hvað fór úrskeiðis?“ en svo áttaði ég mig á því að það væri vanþakklæti. Vissulega gekk þetta ekki alveg eins og ég ætlaði en frávikið var innan skekkjumarka. Hins vegar ætti ég sem best að geta lært eitthvað af þessu ferðalagi, rétt eins og af öðrum ferðalögum.

Eftir á að hyggja held ég að þrennt hefði mátt betur fara, öðru fremur.

 1. Ég borðaði lélegan hádegismat daginn fyrir hlaup. Lét eril dagsins hafa of mikinn forgang og gleymdi að hafa þetta grundvallaratriði í lagi. Matarlystin í kvöldmatartímanum var líka í minna lagi, líklega vegna álags sem hafði einkennt dagana á undan, allsendis ótengt hlaupum. Sama gilti um síðustu klukkutímana fyrir hlaup. Ég tók með mér nesti til að borða í bílnum en gerði því ekki sérlega góð skil.
 2. Líklega drakk ég ekki nógu mikið á leiðinni. Í hlaupinu var ég með nýtt hlaupavesti/bakpoka með mjúkum drykkjarflöskum „skvísum“ sem hafa þann galla að maður fylgist ekki vel með hversu mikið er búið að drekka og hversu mikið er eftir. Ég miðaði þó lauslega við u.þ.b. 300 ml. af vatni fyrir hverja 10 km, af því að sú viðmiðun hefur dugað mér vel í maraþonhlaupum. En í utanvegahlaupum tekur hver km lengri tíma en í götuhlaupum og þess vegna duga ekki sömu reiknireglur. Þetta átti ég svo sem að vita. Auk þess var óvenju heitt í veðri og þó að ég væri sem betur fer léttklæddur eykst vökvaþörfin með hækkandi hitastigi.
 3. Kannski hefði ég átt að taka steinefnatöflur. Eins og ég hef áður sagt geta krampar átt sér ýmsar skýringar og steinefnaskortur er ein þeirra. Steinefnaþörfin eykst með auknum svita. Reyndar held ég að kramparnir mínir hafi frekar verið eftirköst eftir meiðslavandræði síðasta árs en um það get ég ekkert fullyrt.

Kannski vóg þó fjórða atriðið þyngst: Ég hefði líklega átt að taka fleiri styrktaræfingar og hraðaæfingar síðustu mánuði til að byggja upp meiri styrk frá mjóbaki og niðurúr. Æfingatímabilið einkenndist mjög af löngum utanvegahlaupum á litlu álagi. Svolítið meiri ákefð á svolítið harðara undirlagi hefði líklega verið til bóta. En það er reyndar hægara sagt en gert að endurnýja styrk í vanræktum vöðvum, sérstaklega þegar maður er bæði hættur að vera kornungur og miðaldra.

Með sigurlaunin í flokki 60-69 ára með Jóni Grímssyni (t.v., 3. sæti) og Halldóri Brynjarssyni (t.h., 2. sæti). (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir).

Meginniðurstaða
Ég náði ekki markmiðum mínum á Laugaveginum þetta árið, en engu að síður væri óskaplegt vanþakklæti að vera ekki ánægður með árangurinn. Mér verður reyndar orða vant þegar ég hugsa um hversu heppinn ég er að hafa náð að vinna mig út úr meiðslum síðasta árs og komast aftur af stað í hlaupin. Það var engan veginn sjálfsagt. Hlaupin skipta mig meira máli en flest annað og í hlaupaheiminum búa flestir af mínum bestu vinum. Þessi tengsl eru aldrei nánari en þegar tekist er á við krefjandi verkefni í sameiningu. Laugavegurinn er ofarlega á listanum yfir svoleiðis verkefni.

Með besta stuðningsliðinu að hlaupi loknu. (Ljósm. Gunnar Viðar Gunnarsson).

PS: Frásagnir mínar af fyrri Laugavegshlaupum má finna hér að neðan:

Ævintýri í Kielder

Í byrjun apríl skruppum við fjögur saman til Kielder í Englandi til að taka þátt í utanvegahlaupi, 32-100 km eftir þörfum og þorsta hvers og eins. Tilefnið var fimmtugsafmæli eins úr hópnum, Gunnars Viðars Gunnarssonar í Borgarnesi. Þegar maður verður fimmtugur og er búinn að hlaupa maraþon 9 sinnum, Laugaveginn tvisvar og 90 km keppnishlaup einu sinni, þá þarf maður að finna hærri kílómetratölu til að glíma við. Þess vegna ákvað Gunnar að gefa sér 100 km hlaup í fimmtugsafmælisgjöf.

Forsaga málsins
Gunnar Viðar byrjaði að hlaupa árið 2012 og síðan hefur þróunin verið hröð. Fyrsta maraþonið var hlaupið vorið 2013 og Laugavegurinn 2015. Árið 2018 var svo ráðist í það stórvirki að hlaupa 90 km keppnishlaup í Svíþjóð, nánar tiltekið Ultravasan-90 þar sem hlaupið er í spor skíðagöngumanna sem hafa gengið þessa sömu 90 km leið í Vasagöngunni á hverju ári í rúm 90 ár í minningu frægrar ferðar Gustavs Vasa Svíakonungs milli Mora og Sälen árið 1520. Hlaupið í fyrra tengdist hálfrar aldar afmæli góðs hlaupafélaga okkar Gunnars, Birkis Þórs Stefánssonar bónda í Tröllatungu á Ströndum. Upphaflega hafði ég ætlað að fylgja Birki og Gunnari í þetta hlaup, en meiðsli komu í veg fyrir það, Kristinn Óskar Sigmundsson í Borgarnesi hljóp í skarðið og ég réði mig sem fararstjóra í staðinn.

Birkir, Gunnar og Kristinn skiluðu sér allir heilir mark í Ultravasan-90 eftir 10-12 tíma hnjask og undirbúningur fyrir fyrsta 100 km hlaupið hófst strax á marklínunni í Mora undir skiltinu „Í feðranna spor fyrir framtíðarsigra“.

Í framhaldi af bollaleggingunum á marklínunni í Mora hófst leit að hentugu 100 km hlaupi vorið 2019, sem næst fimmtugsafmæli Gunnars. Hlaupið átti helst ekki að fela í sér mikið fjallabrölt, helst ekki að vera óþarflega langt og helst að vera í viðráðanlegri fjarlægð til að halda ferðakostnaði og ferðatíma innan þolmarka. Fljótlega bárust böndin að Bretlandi og í vetrarbyrjun 2018 lá ákvörðun fyrir: Stefnan var sett á ofurhlaupið Kielder Ultra, nyrst í Norðymbralandi á Englandi, rétt sunnan við landamærin við Skotland. Þar var boðið upp á 100 km hlaup á frekar viðráðanlegu undirlagi, með hæfilegri blöndu af flötum skógarstígum og lágum fellum.

Ferðafélagarnir
Þar sem Gunnar Viðar hafði farið með Birki til Svíþjóðar í fyrra til að hjálpa honum að opna fimmtugsafmælisgjöfina, lá beint við að Birkir færi með Gunnari til Bretlands til að gjalda líku líkt. Ef allt hefði verið með felldu hefði ég náttúrulega hlaupið með þeim, en þrálát meiðsli komu í veg fyrir að ég gæti undirbúið mig nægjanlega. Ég varð því að hafa sama hátt á og í Ultravasan-90 í fyrra, þ.e. að ráða sjálfan mig sem fararstjóra. Ekki vill maður missa af svona afmælisveislum!

Strax eftir að Kielderferðin var ákveðin bættist fjórði ferðafélaginn í hópinn, Úlfhildur Ída Helgadóttir, sauðfjárbóndi með meiru á Ytra-Álandi í Þistilfirði. Áður en þetta ævintýri hófst þekkti hún engan okkar og við ekki hana. Úr þessu varð samt einstaklega samhentur fjögurra manna hópur, þar sem engan vantaði og engum var ofaukið. Úlfhildur á ekki langa hlaupasögu að baki og Laugavegurinn 2018 var eina keppnishlaupið hennar fram að hlaupinu í Kielder, þar sem hún skráði sig í 50 km hlaup.

Auk 100 km hlaups og 50 km hlaups var nú í fyrsta sinn boðið upp á styttra hlaup í Kielder, þ.e.a.s. 20 mílur, eða 32 km. Í samanburði við hinar vegalengdirnar hljómaði það sem einhvers konar Latabæjarhlaup fyrir aðstandendur ofurhlaupara, og þar sem mér hafði gengið þokkalega að æfa mig út úr meiðslum sá ég mér leik á borði að bæta virkri þátttöku við fararstjórahlutverkið. Skráði mig því í 32 kílómetrana, en sagði fáum frá því. Þegar maður er rétt að skríða upp úr langvarandi meiðslum er ekkert sjálfsagt að leiðin liggi beint upp á við. Og þá er best að fleipra sem minnst um glæst áform.

Undirbúningur fyrir 32 km
Eftir að ég gat byrjað að hlaupa stuttar vegalengdir í lok október 2018 gengu æfingar áfallalaust, og þó að mikið skorti enn upp á styrk og hraða var ég farinn að geta hlaupið 20 km vandræðalítið um mánaðarmótin janúar/febrúar. Þegar komið var fram í mars voru vikurnar farnar að teygjast upp í 50 km og jafnvel 70 km. Lengsta laugardagshlaupið fyrir ferðina til Kielder var 27 km, þannig að ég vissi vel að 32 km myndu ekkert vefjast fyrir mér. En þar sem getan var enn af skornum skammti miðað við það sem var fyrir meiðsli, ákvað ég að líta á hlaupið í Kielder frekar sem langa æfingu en keppni. Markmiðið var bara að ljúka hlaupinu og njóta þess eftir bestu getu. Aðaltilgangur ferðarinnar var eftir sem áður að vera Gunnari, Birki og Úlfhildi innan handar.

Ferðin til Kielder
Ferðin mín til Kielder hófst í Borgarnesi fyrri part aðfaranætur fimmtudagsins 4. apríl, þ.e.a.s. tveimur sólarhringum fyrir hlaup. Þegar ég skipulegg hlaupaferðir til útlanda fylgi ég einfaldri formúlu, sem byggir bæði á góðri reynslu og slæmri. Meginreglan er sú að fljúga út í síðasta lagi tveimur dögum fyrir hlaup og heim aftur í fyrsta lagi tveimur dögum eftir hlaup. Ef hlaupið er á laugardegi, eins og í þessu tilviki, hentar vel að fara út á fimmtudegi og heim á mánudegi. Aðalaukareglan í ferðaskipulaginu er að varast næturflug – og svo þykja bein flug mun æskilegri en tengiflug. Svo er líka voða gott að hægt sé að leggja vegalengdina frá flugvelli að gististað að baki á 2 klst. eða svo, en auðvitað er ekki á allt kosið í þeim efnum.

Ferðin frá Borgarnesi til Keflavíkur gekk algjörlega áfallalaust, auk þess sem þessi hluti ferðalagsins var rafknúinn og kolefnishlutlaus. Að vísu orsakaði rautt blikkandi ljós við norðurenda Hvalfjarðargangnanna dálitlar hjartsláttartruflanir, en þar var sem betur fer bara verið að hægja á umferð til að tryggja öryggi sópara inni í göngunum. Frá Keflavík var svo flogið með Icelandair til Glasgow, stutt flug og þægilegt.

Birkir, Úlfhildur og Gunnar lent á flugvellinum í Glasgow.

Á öfugum kanti
Áður en við lögðum af stað í þessa ferð hafði Gunnar lýst því yfir að hann kviði ekkert fyrir því að hlaupa þessa 100 km. Verra væri að þurfa að keyra 200 km – á öfugum vegarhelmingi. Svoleiðis keyrir fólk nefnilega í Bretlandi. Til að gera langa sögu stutta gekk þessi vinstrikantskeyrsla stóráfallalaust, þó að í eitt eða tvö skipti hafi hurð skollið nærri hælum – eða vinstri hlið nærri vörubíl. Hins vegar fær konan í leiðsögutækinu í bílaleigubílnum ekki háa einkunn fyrir leiðsögnina. Ef einhver Grjótháls væri á Englandi hefðum við örugglega keyrt yfir hann – og ef þar væri einhver Siglufjörður hefðum við komið þar við á Laugarvegi. Þess vegna varð tveggja tíma keyrsla á öfugum kanti að fjögurra tíma keyrslu á svo mjóum sveitavegum að þar þurfti að nota báða kanta jöfnum höndum og samtímis.

Á leið út í öfugsnúna umferð í Skotlandi. (Ljósm. Úlfhildur).

Á áfangastað
Það hafði vafist töluvert fyrir mér að finna hentugan gististað sæmilega nálægt Kielder þar sem hlaupið átti að hefjast og enda. En fyrir einhverja einstaka lukku hafði ég komist á snoðir um orlofshúsahverfi á vegum samtakanna Calvert Trust, sem er eins konar bresk útgáfa af Sjálfsbjörg eftir því sem ég kemst næst. Þessi samtök reka sem sagt orlofsbúðir fyrir fatlaða á nokkrum stöðum í Bretlandi, þ.á.m. rétt við Kielder uppistöðulónið, svo sem 10 km sunnan við Kielder. Þarna höfðum við tryggt okkur hús til að sofa í þessar fjórar nætur sem við áttum saman í Bretlandi – og þangað vorum við komin síðdegis á fimmtudeginum eftir ítarlega úttekt á sveitavegum syðst í Skotlandi.

Ég veit ekki hvort við fjórmenningarnir teljumst „venjulegir Íslendingar“, en það fyrsta sem við gerðum þegar við vorum komin inn í þetta annars stórgóða hús við Kieldervatnið var það sama og „venjulegir Íslendingar“ myndu líklega gera, þ.e.a.s. að athuga hvort þar væri þráðlaust netsamband. Svo reyndist ekki vera. Næsta mál var þá að tengjast netinu í gegnum farsímana, en þá kom í ljós að í húsinu var heldur ekkert farsímasamband, hvorki 4G, 3G, E, H, N, eða hvað þetta nú heitir allt saman. Það eina sem símarnir sýndu var hringur með skástriki yfir. Eftir að hafa gert þessa uppgötvun rölti ég út í miðstöðina sem þjónustar orlofshverfið og spurði frétta af símasambandinu. Þar var mér sagt að þarna væri ekkert svoleiðis, enda væri ég kominn svolítið langt út á land. Mig rámaði reyndar í að hafa sjálfur búið úti á landi lengst af og jafnvel verið í góðu símasambandi í snöggtum afskekktari byggðum en þessari. Hafði þó að sjálfsögðu ekki orð á því.

Í þjónustumiðstöðinni var þráðlaust netsamband og fræðilega séð hægt að komast á netið í gegnum það. Hraðinn á nettengingunni var hins vegar svipaður og í þá gömlu góðu daga þegar mótöldin voru upp á sitt besta. Þarna vantaði bara hljóðið sem fylgdi þeim.

Það þarf ekki að vera slæmt að vera án símasambands og netsambands. Helsti gallinn er sá að geta ekki látið fjölskyldur og vini vita af gangi mála. Sambandsleysi hóps við umheiminn er hins vegar til þess fallið að efla sambandið innan hópsins. Við þurftum sem sagt að tala saman í staðinn fyrir að „hanga á netinu“. Ég held að ekkert okkar hafi skaðast af því.

Yfirlitskort af svæðinu. 50 km hlaupaleiðin lá í kringum allt vatnið og 100 km hlaupararnir fóru tvo hringi. (Teiknað með aðstoð Strava.com).

Eitthvað verður maður að éta
Eftir að hafa kortlagt helstu matvöruverslanir á svæðinu með aðstoð fólksins í þjónustumiðstöðinni fórum við til Bellingham að kaupa í matinn, u.þ.b. 20 km akstur í suðaustur frá húsinu okkar. Bellingham er stærsta borgin á stór-Kielder svæðinu, með á að giska 1.300 íbúa. Þar fundum við stórgóða kaupfélagsbúð og við hliðina á henni byggingarvöruverslun, þar sem hnífapörum, keðjusögum og axlaböndum var stillt upp hlið við hlið. Allt minnti þetta á tíma sem eru að mestu liðnir heima á Íslandi, en þarna voru gestrisni og þjónustulund á heimavelli, auk þess sem þarna fékkst allt sem þurfti. Og svo var líka sæmilegt farsímasamband fyrir utan búðina. Sumu þarf ekki að breyta.

Fyrir utan kaupfélagið í Bellingham.

Eftir velheppnuð sameiginleg matarinnkaup í Bellingham var snæddur kvöldverður á veitingastað rétt utan við Falstone, stutt suðaustur af Kielder-stíflunni sem hlaupaleiðin liggur einmitt yfir.

Daginn fyrir hlaup
Föstudagurinn 5. apríl var dagurinn fyrir hlaup. Svoleiðis dagar eru öðruvísi en allir aðrir dagar, því að þá er hugurinn orðinn fullur af hlaupi og lítið pláss þar fyrir annað. Á svona dögum gæti öðru fólki fundist hlauparar frekar leiðinlegir, en það kemur ekki að sök þegar ekkert annað fólk er til staðar.

Dagurinn fyrir hlaup var m.a. nýttur í langa gönguferð í svölu vorveðri í skóginum. Í þeirri ferð vaknaði sú spurning hvers vegna ár og lækir væru dökk á litinn, en við því fékkst ekkert svar. Á Íslandi er rennandi vatn yfirleitt gagnsætt, nema jökulvatn. Sú skýring dugði ekki þarna.

Gönguferð í skóginum daginn fyrir hlaup.

Af öðrum helstu verkefnum dagsins má nefna útreikninga á akstursvegalengdum – og brautarskoðun, að því marki sem hægt var að framkvæma hana á bíl. Í þeirri ferð keyrðum við m.a. yfir Kielder-stífluna og komumst að því að á bílastæðinu hinum megin við hana er ágætis símasamband og mikið af kanínum. Fyrsta drykkjarstöðin í hlaupinu átti einmitt að vera þarna, u.þ.b. 14 km og 64 km frá rásmarkinu, eftir því hvort hlaupinn væri einn hringur (50 km) eða tveir hringir (100 km) í kringum lónið. Drykkjarstöð nr. 2 var við Lewis Burn, 36 og 86 km frá rásmarkinu og drykkjarstöð nr. 3 við rásmarkið. Þar með var það upptalið. Ekki var hægt að keyra að drykkjarstöðinni við Lewis Burn, sem gerði stuðning við hlauparana ögn flóknari en ella.

Expóið
Seinni part föstudagsins fórum við í Kielder kastalann að sækja hlaupagögnin okkar. Kastalinn reyndist vera gamalt tveggja hæða steinhús og þar á efri hæðinni voru númerin afhent. Framleiðendur íþróttavarnings nota jafnan tækifæri sem þessi til að sýna vörurnar sínar og selja þær með góðum afslætti. Það er það sem hlauparar tala um sem „Expóið“. Kielder var engin undantekning frá þessu, en eðlilega var allt smærra í sniðum en í München og Róm, þar sem ég hafði ráfað um risastórar vöruskemmur á svona degi nokkrum árum fyrr. Í Kielder var expóið bara eitt borð með vörum frá einum framleiðanda. En það var líka alveg nóg.

Fyrir utan Kielder kastalann. (Ljósm. Birkir).

Expóið í Kielder eins og það lagði sig. Búið að sækja gögnin.

Kielder Village Shop
Kielder er lítið þorp. Þar búa líklega um 200 manns sem hafa líklega m.a. atvinnu af því að þjónusta náttúruverndarsvæðið sem afmarkast af Kielder-uppistöðulóninu og skóginum í kringum það. Þarna er a.m.k. einn lítill gististaður, sveitakrá, kaffihúsið í kastalanum, bókasafn og búð, auk bensínstöðvar í útjaðri þorpsins. Og að öðrum viðkomustöðum ólöstuðum var búðin hugsanlega hápunktur ferðarinnar.

Búðin í Kielder fer ekkert fram hjá manni þegar ekið er inn í þorpið, því að þar er stórt skilti sem vísar á hana. Inni í þorpinu eru svo fleiri vegpóstar sem gegna sama hlutverki. Í búðinni fæst hins vegar næstum ekki neitt. Fljótleg vörutalning okkar leiddi í ljós þrjár appelsínur, fimm brauð, rúmlega 20 DVD-diska og nokkrar mjólkurflöskur í goskæli. Þarna áttaði ég mig á að verslun Kaupfélags Bitrufjarðar á Óspakseyri var stórmarkaður. Ég held reyndar að ég hafi vitað það fram á unglingsár, enda var þetta lengi vel eina búðin sem ég hafði komið í. Seinna gleymdi ég því og fór að halda að þetta hefði bara verið örlítil sveitaverslun.

Kielder Village Store fer ekkert fram hjá manni þegar ekið er inn í þorpið.

Fyrir framan búðina í Kielder.

Inni í búðinni í Kielder.

Fyrir aftan búðina í Kielder.

Um kvöldið eldaði Gunnar hakk og spaghettí úr búðinni í Bellingham (ekki Kielder) og ég veit ekki annað en við höfum öll farið södd og sæl að sofa, sum kannski örlítið spennt fyrir morgundeginum.

Síðasta kvöldmáltíðin fyrir hlaup.

Að morgni hlaupadagsins 6. apríl
Við fjögur vorum mætt til Kielder um það leyti sem bjart var orðið, þ.e.a.s. um kl. 6 þennan laugardagsmorgun. Hitastigið var nálægt 0,5°C, sem sagt ekki sérlega hlýtt, en hægviðri og skýjað og því nánast fullkomið hlaupaveður. Birkir og Gunnar voru ræstir af stað í 100 km hlaupið kl. 6:30 ásamt u.þ.b. 40 öðrum hlaupurum, en við Úlfhildur gátum haft það náðugt öllu lengur. Byrjuðum á að keyra niður að Kielder-stíflunni til að fylgjast með köppunum á fyrstu drykkjarstöð (14 km). Ferðin þangað tók þá um 1:25 klst, þannig að þeir voru mættir á staðinn laust fyrir kl. 8, vel útlítandi og eldhressir. Við náðum svo að kíkja á þá aftur á tveimur stöðum á næstu 4 km, þar sem hlaupaleiðin lá nálægt bílveginum. Næstu klukkutímana urðu þeir hins vegar að spjara sig án hvatningar frá okkur.

Gunnar og Birkir í morgunsvalanum, tilbúnir í langþráð 100 km hlaup.

Gunnar á fyrstu kílómetrunum. (Ljósm. Grand Day Out Photography).

Gunnar kominn að Kielder stíflunni. Ekki nema 86 km eftir.

Við Little Whickhope. U.þ.b. 18 km að baki. Þarna fann Birkir grindverk sem hann þurfti aðeins að bregða sér gegnum. Svona hlaup eiga að vera skemmtileg.

Kl. 9:30 lagði Úlfhildur upp í 50 km hlaupið frá Kielder kastalanum ásamt um 150 öðrum og þar með lauk hlutverki mínu sem fararstjóra í bili. Næstu klukkutíma hafði ég engar spurnir af gengi þeirra þriggja, en hugsaði þess meira um sjálfan mig.

Úlfhildur tilbúin í 50 km hlaupið.

Úlfhildur (aftan við miðja mynd) á fyrstu metrunum. Langt og skemmtilegt hlaup framundan.

Hlaupið mitt
Tuttugu mílna hlaupið mitt (32 km) var ræst í Kielder kl. 10:00. Ég lagði af stað í þetta hlaup laus við alla pressu, enda var þetta aukaafurð ferðarinnar en ekki megintakmark. Ég hafði auk heldur hvorki undirbúið þetta hlaup sérstaklega né byggt upp neina spennu – og þarna átti ég auðvitað engan „gamlan tíma“ sem ég „þurfti“ að bæta, eins og gjarnan gerist í götuhlaupum á þekktum vegalengdum.

Í hlaupinu voru 78 þátttakendur, líklega allt Bretar nema ég. Mikil hógværð ríkti við rásmarkið og enginn virtist hafa áhuga á að byrja alveg frammi við línuna. Ég er vanur örlítið meiri ágengni og var því fyrstur af stað og hélt forystunni fyrstu 200 metrana eða svo. Eftir það tóku fljótari hlauparar við og ég bjó mér strax til það tómstundagaman að telja þá sem fóru fram úr mér og fylgjast þannig með í hvaða sæti ég væri. Var fljótlega kominn niður í 10. sæti og svo það tólfta. Fyrstu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, upp hlykkjótta skógarstíga, en inn á milli voru bílfærir vegarkaflar. Þegar þarna var komið sögu var hitinn líklega kominn í 3-4°C og aðstæður til hlaupa allar hinar bestu.

Ég sjálfur á fyrstu kílómetrunum. (Ljósm. Grand Day Out Photography).

Eftir 7-8 km fannst mér kominn tími til að fækka fötum, sem tók svolitla stund því að bakpokinn þvældist fyrir. Í honum var skyldubúnaður samkvæmt reglum hlaupsins, þ.m.t. regnföt, álteppi og fullhlaðinn sími, sem er auðvitað öryggistæki í utanvegahlaupi, kannski samt ekki í þessu tiltekna hlaupi þar sem leiðin var nánast öll utan þjónustusvæðis farsímakerfa. En maður hefði þá alla vega getað skoðað myndir af fjölskyldunni á meðan beðið var eftir hjálp sem ekki var hægt að hringja í.

Ég missti nokkra hlaupara fram úr mér á meðan ég fækkaði fötum, en náði þeim fljótlega öllum aftur. Taldist þá til að ég væri í 11. sæti í hlaupinu. Var þó líklega nr. 10. Maður getur alltaf ruglast í tölfræðinni. Stuttu áður en ég kom að drykkjarstöðinni við Kielder stífluna fór ég að ná öftustu hlaupurunum í 50 km hlaupinu. Var sem sagt búinn að vinna upp hálftíma forskot þeirra. Taldi þessa hlaupara líka mér til dundurs og var kominn upp í 10 þegar ég skokkaði niður úr fellunum ofan við drykkjarstöðina.

Við drykkjarstöðina sýndi úrið mitt 13,52 km og 1:19:07 klst, sem þýddi að meðalhraðinn hafði verið um 5:51 mín/km. Ég var vel sáttur við það, enda leiðin seinfarin um krókótta skógarstíga, holt, móa og mýrar. Yfirlýst markmið mitt var að ljúka hlaupinu á innan við 3:30 klst, en annað markmið til eigin nota var að klára þetta á 3:12 klst og til þess þurfti ég að vera á 6:00 mín/km að meðaltali. Ég var sem sagt vel á undan áætlun þegar þarna var komið sögu.

Við drykkjarstöðina skildust leiðir 50 og 100 km hlaupara annars vegar og skemmtiskokkara hins vegar. Leið aðalhlauparanna lá eftir stíflunni og síðan eftir krókaleiðum meðfram lóninu að suðvestanverðu, en ég og mínir líkar beygðu til hægri og hlupu aftur til Kielder eftir greiðfærum göngu- og hjólastíg norðaustan við lónið, (sjá yfirlitskort).

Seinni hluti hlaupsins var einsleitari en fyrri hlutinn þar sem nú var hlaupið eftir fólksbílafærum stíg, sem er reyndar ætlaður göngu- og hjólafólki en ekki bílum. Leiðin var samt svolítið erfið, þar sem hver smábrekkan tók við af annarri. Alla vega hægðist á mér. Verð reyndar að viðurkenna að mér hálfleiddist. Bæði var að ég fann ekki ferskleikann sem hefur fylgt mér lengst af á hlaupaferlinum, og svo hitt að leiðin var tilbreytingarlaus og ég aleinn á ferð að frátöldu hjólafólki sem ég ýmist mætti eða sá á eftir. Stuttu eftir að ég hljóp fram hjá drykkjarstöðinni mætti ég reyndar konu sem hafði verið talsvert langt á undan mér fram að því – og eðlilega fór ég þá að efast um að ég væri á réttri leið. Vissulega voru allar merkingar einstaklega bleikar og greinilegar, en þegar þarna var komið sögu hafði ég ekki séð nein merki lengi. Þau voru líka óþörf þar sem stígurinn var eina mögulega leiðin. Efinn hvarf svo við næsta merki, alllöngu síðar. Seinna í hlaupinu fór þessi sama kona fram úr mér aftur. Hún hefur væntanlega átt aðkallandi erindi á drykkjarstöðina og því ákveðið að leggja lykkju á leið sína.

Eftir 30 km hlaup náði ég að bæta stöðu mína með því að fara fram úr einum þreyttum Breta efst í 1,7 km langri brekku, sem mér tókst að skokka upp þrátt fyrir 100 m hækkun. Eftir það lá leiðin niður krókótta stíga og þó að síðasti áfanginn reyndist drýgri en ég hafði búist við var stutt eftir í markið. Þangað kom ég sæmilega haldinn og úrið mitt sýndi 32,75 km, 3:17:28 klst. og 6:01 mín/km. Ég hafði sem sagt hægt heldur mikið á mér á seinni hlutanum, en það skipti svo sem engu máli. Þetta hafði allt gengið áfallalaust, fyrsta keppnishlaupinu í eitt og hálft ár var lokið og ég í 9. sæti af 78 keppendum. Það var náttúrulega bara fínt, þó að eflaust hafi allir aðalhlaupararnir tekið þátt í 50 eða 100 km hlaupi en ekki „bara“ 32 km.

Í markinu fékk ég lítinn útprentaðan miða með tímanum mínum í hlaupinu og þar koma líka fram að ég hefði verið fyrstur allra í mark í flokki 60-69 ára. Það kom mér reyndar svolítið á óvart, því að snemma í hlaupinu hljóp gráhærður öldungur fram úr mér og ég náði honum aldrei aftur. Eftir á að hyggja var hann kannski miklu yngri en ég. En mér fannst gaman að hafa unnið aldursflokkinn, þó að ég upplifði það svo sem ekki sem neinn stórsigur.

Beðið við Lewis Burn
Eftir að hafa mokað í mig hitaeiningum á marksvæðinu settist ég með nokkrum erfiðismunum inn í bíl og ók sem leið lá áleiðis að drykkjarstöðinni við ána Lewis Burn þar sem ég hafði sagst ætla að hvetja félagana. Samkvæmt tímaáætlun sem ég gerði fyrir hlaupið var von á Úlfhildi þangað í fyrsta lagi kl. 14:30, en við þessa stöð voru 36 km búnir af 50 km hlaupinu. Ferðalagið þangað tók mig drykklanga stund, því að almenningi var bannað að fara þangað keyrandi. Ég þurfti því að leggja bílnum á bílastæði niður við lónið og komast á tveimur jafnfljótum um 2,5 km leið upp með Lewis Burn. Hvorugur þessara tveggja jafnfljótu var fljótur í förum þennan spöl, enda krampar í þeim báðum. Það tók mig nánar tiltekið 23 mín. að skakklappast þennan spotta, sem var að vísu heldur á fótinn. Var kominn á áfangastað kl. 14:33 og þá var Úlfhildur löngu farin hjá að sögn starfsmanna á drykkjarstöðinni. Það voru að vissu leyti vonbrigði en þó fyrst og fremst gleðiefni, því að þetta þýddi að hún var komin langt á undan áætlun.

Drykkjarstöðin við Lewis Burn. Allt frekar smátt í sniðum, en aðbúnaður og viðmót til fyrirmyndar.

Ég átti von á Birki og Gunnari að Lewis Burn á milli kl. 16:04 og 17:48 skv. upphaflegu tímaáætluninni. Hafði fengið upplýsingar á marksvæðinu í Kielder um að þeir hefðu lagt upp þaðan í seinni hringinn kl. 12:17, sem þýddi að tíminn á fyrri hring hafði verið 5:47 klst, sem var mjög nálægt því sem við höfðum reiknað með. Ég beið því hinn rólegasti og hélt á mér hita með því að „ganga um gólf“ á svæðinu. Átti líka gott spjall við breskan jarðfræðing á mínum aldri sem var þarna að bíða eftir dóttur sinni sem líka var meðal þátttakenda í 100 km hlaupinu. Hann var fróður um Ísland og fannst Ófærð frábært sjónvarpsefni.

Birkir birtist við Lewis Burn kl. 17:08 og Gunnar nákvæmlega 48 mínútum síðar. Báðir voru hinir kátustu, þó að auðvitað væri þreytan farin að segja til sín eftir 86 km hlaup. Gunnar sló á létta strengi við starfsfólkið á drykkjarstöðinni sem þáði þó ekki boð hans um bita af sviðasultunni sem hann var með í nesti. Samt útskýrði hann skilmerkilega úr hverju þessi eðalfæða væri gerð. Stórskrýtnir þessir Bretar! Þess má reyndar geta að Birkir og Úlfhildur höfðu bæði tekið sams konar góðgæti með sér að heiman. Hlaupagel eru sennilega orðin úrelt.

Birkir búinn með 86 km og kominn til Lewis Burn, ágætlega hress.

Gunnar kominn niður úr skóginum við Lewis Burn, búinn með 86 km af hólum, hæðum, móum og mýrum.

Þegar þarna var komið sögu var Gunnar orðinn nokkuð laskaður á fæti og sagðist búast við að þurfa að ganga mikið af þessum 14 km sem eftir voru. En hann kveið því ekkert, enda nógur tími til stefnu.

Þegar Gunnar var lagður af stað frá Lewis Burn í síðasta áfangann skokkaði ég aftur niður að bílastæðinu. Sú ferð gekk ögn fljótar en fyrr um daginn, nánar tiltekið rúmar 14 mín. (Þetta var auðvitað allt skilmerkilega skráð).

Allir í mark
Þegar ég kom aftur til Kielder var Úlfhildur auðvitað löngu komin í mark og búin að bíða þar í hátt í þrjá tíma. Hún hafði klárað 50 km hlaupið á 6:29:12 klst. sem var um hálftíma betri tími en við höfðum reiknað með. Sem betur fer hafði hún sett Top Reiter gallann sinn í geymslu á marksvæðinu og í svoleiðis klæðnaði verður manni víst aldrei kalt.

Úlfhildur komin í mark, óþreytt eftir 50 km krefjandi hlaup. (Ljósm. Óþekktur hlaupari).

Rétt eftir að ég mætti á marksvæðið birtist Birkir þar á gríðarlegum endaspretti á 12:12:53 klst. sem var mjög í takti við upprunalega áætlun. Gunnar bættist svo í hópinn rétt um það leyti sem birtu tók að bregða. Tíminn hans var 13:50:10 klst, heilsan bærileg en matarlystin takmörkuð. Þar með voru þessir tveir kappar búnir að hlaupa sig inn í 100 kílómetra félagið, en fá félög setja eins erfið inntökuskilyrði.

Birkir og Úlfhildur á marksvæðinu í Kielder með árangurinn sinn útprentaðan. (Takið eftir Top Reiter gallanum).

Gunnar búinn með langþráða 100 km. Svona gera ekki nema ofurmenni.

Kanínur og vont veður
Þegar allir voru komnir í mark voru enn tvö stórverkefni eftir þennan daginn, annars vegar að láta vini og vandamenn á Íslandi vita að allt hefði gengið vel og hins vegar að reyna að troða í sig sem mestum mat til að vinna upp hluta af brennslu dagsins. Við létum upplýsingamiðlunina ganga fyrir og ókum sem skjótast niður á bílastæðið við Kielder-stífluna þar sem við vissum að hægt væri að komast í samband við umheiminn. Á meðan við vorum þar kom til okkar frekar valdsmannleg kona á sendibíl og sagði okkur að þarna væri bannað að leggja bílum. Okkur kom það reyndar svolítið á óvart, þar sem þetta var jú merkt bílastæði. En þar sem við vildum ekki koma okkur í klandur í útlöndum bjuggumst við til brottfarar. Konan bætti því svo við að þarna væri mikið af kanínum og að ekki væri mjög gott að vera þarna í svona vondu veðri. Við vissum reyndar af þessu með kanínurnar en vorum í óvissu um hlutverk þeirra í sögunni. Þarna í kvöldstillunni var hins vegar ekkert sem minnti á vont veður.

Langþráður kvöldmatur
Eftir löng hlaup er maður oftast bæði svangur og latur að elda. Þess vegna var löngu ákveðið að við myndum finna okkur vel útilátinn kvöldverð á hentugu veitingahúsi, þó að vissulega værum við með vissar efasemdir um samkvæmisklæðnaðinn sem við vorum öll í. Auk þess var síðustu eldhúsum svæðisins lokað kl. 20:00 þetta kvöld sem var í það minnsta hálftíma of snemmt. Þess vegna höfðum við, af mikilli fyrirhyggju, pantað okkur tvöfalda brottnámsborgara (e. take away burgers) á línuna. Þeir voru hitaðir upp og snæddir af áfergju þegar heim í húsið var komið. Matartekjan var að meðaltali sæmileg, en borgarnir voru það svo sem ekki. Einhver minntist á bylgjupappa í því sambandi. En matur er matur, sérstaklega á svona stundum.

Í húsi fyrir fatlaða
Eins og fram hefur komið bjuggum við í húsi sem var byggt sem orlofshús fyrir fatlaða. Úlfhildur var samt sú eina sem bjó svo vel að vera með lyftu yfir rúminu sínu, og þar sem hún var sýnu best á sig komin eftir hlaup dagsins bauð hún 100-körlunum í hópnum að skipta við þá um herbergi. Þeir þáðu það ekki, en viðurkenndu samt daginn eftir að upphækkanir og slár á salernum hússins hefðu komið í góðar þarfir fyrstu klukkutímana eftir hlaup.

Daginn eftir hlaup
Sunnudagurinn var tíðindalítill enda tíðindi laugardagsins nóg fyrir heila helgi. Allar hlaupaæfingar og knattspyrnuleikir féllu niður þennan dag, en við náðum samt ágætum göngutúr. Og seinni partinn komumst við að því að stærsta veitingahúsinu á stór-Kieldersvæðinu er lokað kl. 18 á sunnudögum. Það kom þó ekki að sök, þar sem við fengum ágætan viðurgerning í veitingasal hótels í Bellingham. Þar var meira að segja rífandi netsamband.

Heimferðin
Við tókum mánudaginn snemma og vorum komin mjög tímanlega á flugvöllinn. Brugðum nefnilega á það ráð að afþakka aðra skoðunarferð um sveitir Skotlands í boði konunnar í leiðsögutækinu. Hraðbrautin frá Gretna Green til Glasgow var mun fljótfarnari. Í stuttu máli gekk allt að óskum þennan dag – og hópferðinni sem slíkri lauk í Reykjavík síðdegis.

Utan við húsið okkar eldsnemma að morgni brottfarardags.

Lent í Keflavík. (Ljósm. Starfsmaður í Leifsstöð).

Meginniðurstaða
Ferðin til Kielder var öðruvísi en aðrar ferðir og ég veit að hún verður okkur öllum lengi í minni. Margt var ólíkt því sem maður hélt að það yrði, en allt sem skipti máli gekk fullkomlega upp. Eftir standa minningar og þakklæti fyrir að hafa fengið að upplifa ævintýri þessara daga með góðu fólki sem allt var að takast á við nýjar áskoranir. Og enda þótt hlaupin séu ekki lífið sjálft eins og það leggur sig, þá er þau endurspeglun af lífinu. Þeir sem sigrast á áskorunum í hlaupum styrkjast í vissunni um að þeir geti tekist á við aðrar áskoranir sem bíða á leiðinni framundan.