Nú er hlaupaárið 2024 að baki og nýtt hlaupaár framundan. Í árslok 2007 tók ég upp á því að skrifa langan hlaupaáramótapistil og hef haldið þeirri venju síðan. Og jafnvel þótt ég sé sjálfur aðalmarkhópur þessara pistla dettur mér ekki annað í hug en að halda uppteknum hætti. Hér kemur sem sagt 18. árlegi pistillinn með ítarlegum frásögnum af hlaupauppátækjum síðustu 12 mánaða og yfirlýsingum um væntanleg hlaupaafrek á næstu 12 mánuðum.
Gott hlaupaár
Árið 2024 var gott hlaupaár (auk þess að vera hlaupár, sem skiptir ekki öllu máli í þessu samhengi). Reyndar var þetta mjög gott hlaupaár fyrstu 8 mánuðina, en óvenju tilkomulítið síðustu fjóra. Síðdegis laugardaginn 31. ágúst lauk nefnilega 20 mánaða meiðslalausu hlaupatímabili og við tók nánast hlaupalaust meiðslatímabil, sem stóð í það minnsta fjóra mánuði – hvað sem síðar verður.
Æfingarnar
Æfingar gengu almennt vel fyrstu fjóra mánuði ársins, þó að ég næði ekki að fylgja eftir löngum æfingavikum sem einkenndu síðustu mánuðina 2023. Hlaupamagnið þessa fyrstu mánuði var yfirleitt tæpir 50 km á viku, sem dugar mér þokkalega til viðhalds samkvæmt reynslu. Oftast náði ég 4-5 hlaupaæfingum á viku, en sinnti lítið sem ekkert um styrktaræfingar. Raunverulegar gæðaæfingar hefðu líka mátt vera fleiri, en þessir mánuðir voru frekar kaldir og vindasamir, sem nægir alveg til að halda áhuganum í skefjum. Við bættust svo einhver ferðalög og stúss sem tók tíma frá hlaupum, enda snýst lífið um fleira en hlaupaæfingar. Ég meiddist líka eitthvað smávegis seint í janúar, en það lagaðist fljótt og hafði engin áhrif á heildarmyndina.
Í lok mars skruppum við Björk í vikuferð til bróður hennar og mágkonu í Danmörku og þar átti ég bestu hlaupaviku ársins, alsæll með að vera laus við norðanáttina. Reyndar var hitastigið ekki mikið hærra en í Andakíl, en lognið gerði gæfumuninn. Þarna kynntist ég því líka í fyrsta sinn hversu gott það er að taka hraðar æfingar á „carbonplötuskóm“, Þetta voru eins og bestu æfingabúðir fyrir mig, sjö daga törn með samtals 91 km með þéttum gæðaæfingum og 30 km laugardegi á 5:13 mín/km. Eftir þessa viku fundust mér allir vegir færir.
Ég náði mér einhvern veginn ekkert á strik eftir heimkomuna frá Danmörku. Var líklega orðinn of vanur góðu veðri. Mætti samt í Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta og stóð mig betur þar en ég þorði að vona. (Meira um það síðar). Um mánaðarmótin apríl/maí lagðist ég svo í Covid og fyrir bragðið varð maí í daufara lagi í hlaupunum. Í lok mánaðarins skrifaði ég eftirfarandi á Strava eftir 8 km hlaup, undir yfirskriftinni Frumdrög að endurkomu: „Búinn að missa maí meira og minna úr vegna veikinda – og kominn tími til að reyna að snúa því við. Mjög linur af stað en leyfði mér að bæta í eftir því sem á leið. Ekki endilega skynsamlegt eftir langt hlé, en mig langaði bara svo að finna neistann. Sá glitta í hann. En hvort ég legg í Hengilinn eftir 9 daga er önnur saga. Skýrist sjálfsagt á næstu fjórum dögum“.

Þegar til kom langaði mig ekkert að mæta í Hengilinn. Fannst ég ekki tilbúinn í það. Annars var júní bara nokkuð góður – og júlí og ágúst líka. Æfingarnar á þessum tíma voru frekar frjálslegar eins og gjarnan á sumrin, en Jack Daniels var þó alltaf á borðshorninu með tilheyrandi hægum hlaupum, stílsprettum og einhverjum gæðaæfingum. Svo endaði þetta eiginlega allt saman með því að ég tognaði óvænt aftan í hægra læri í Tindahlaupinu 31. ágúst. „Óvænt“ segi ég, því að mér fannst ég ekki hafa gert neitt vitlaust. Eftir á að hyggja fólst vitleysan þó í skorti á styrktaræfingum og brekkuæfingum.
Síðustu fjóra mánuði ársins hljóp ég lítið, þ.e.a.s. samtals 202 km. Annað eins hlaupaleysi hefur ekki sést í hlaupadagbókinni minni frá því á árinu 2006. Tognunin tók sig tvisvar upp í september – og svo í þriðja skipti í löngu laugardagshlaupi í miklu frosti í Skagafirði seint í nóvember, einmitt þegar ég hélt að ég væri sloppinn og fannst ég vera kominn vel á strik. Eftir fund með Halldóru sjúkraþjálfara ákvað ég að taka mér 6 vikna hlaupafrí til að ná lærinu almennilega í lag – og þar með lauk hlaupum ársins. Við tóku ögn tíðari styrktaræfingar, auk þess sem ég keypti mér þrekhjól og átti eftir það góðar stundir í bílskúrnum í sýndarveruleika ZWIFT, þar sem aldrei er frost og mótvindur. Náði rúmum 200 hjólakílómetrum í síðasta mánuði ársins. Trúi því að þeir eigi eftir að koma sér vel.
Heildarhlaupavegalengdin þetta árið varð 1.837 km, sem er með því stysta síðustu ár. En vegalengdin segir svo sem ekki alla söguna.

Keppnishlaupin
Ég tók þátt í 8 keppnishlaupum á árinu, sem er það mesta síðan 2019. Í rauninni má skipta þessum 8 hlaupum í tvö verkefni, sem ég bjó til sjálfum mér til gamans og hvatningar:
- Eiga Íslandsmetið einn (EÍE)
- Toppa ITRA-lista gamalla íslenskra karla (ITRA 65)
Fyrra verkefnið varð eiginlega til fyrir slysni. Í Víðavangshlaupi ÍR jafnaði ég nefnilega aldursflokkamet í 5 km götuhlaupi 65-69 ára karla (byssutími 21:52 mín) án þess að það hafi kannski verið sérstaklega á dagskránni. Eftir það lá beint við að bæta um betur til að eiga metið einn, alla vega um sinn. Til þess þurfti ég að hlaupa eitt eða fleiri vottuð 5 km hlaup til viðbótar.
Seinna verkefnið var svo sem ekkert nýtt, ég hef bara aldrei beinlínis talað um það áður. Nokkur síðustu ár hef ég sem sagt verið með flest ITRA-stig íslenskra karla á mínum aldri, fyrst í flokki 60-64 ára árið 2021 og svo í flokki 65-69 ára 2022 og 2023. Þeirri stöðu vildi ég auðvitað halda, en gerði mér grein fyrir að það yrði snúið þar sem stigaútreikningurinn nær bara þrjú ár aftur í tímann. Tvö síðustu ár voru frekar rýr hjá mér í ITRA-stigum talið, sem þýddi mikla lækkun um leið og góð hlaup frá sumrinu 2021 myndu hverfa úr reiknivélinni. Í árslok 2023 var ég með 577 ITRA-stig, en þegar komið var fram í júlí var stigatalan dottin niður í 515 stig ef ég man rétt – og ég dottinn niður í 4. sæti í aldursflokknum. Til að endurheimta toppsætið þurfti ég að komast aftur upp í u.þ.b. 570 stig – og í sumarbyrjun leit það út fyrir að verða mjög torsótt.
EÍE
Víðavangshlaup ÍR sumardaginn fyrsta var fyrsta keppnishlaup ársins. Aðalmarkmiðið mitt fyrir þetta hlaup var að ná undir 23 mín, sem var ögn betra en ég náði árið 2023. Vissi svo sem af aldursflokkametinu (byssutími 21:52 mín), en taldi það í besta falli á mörkum þess mögulega. Í stuttu máli gekk allt upp í þessu hlaupi og ég kom býsna glaður í mark á 21:44 mín (byssutími 21:52 mín), eins og ég lýsti nánar í þar til gerðum bloggpistli viku eftir hlaup. Þar með fæddist „EÍE-verkefnið.“
Næsta hlaup í „EÍE-verkefninu“ var Miðnæturhlaup Suzuki 20. júní. Ég vissi fyrirfram að markmið verkefnisins myndi ekki nást þar og þá, enda var þetta fyrsta almennilega gæðaæfingin frá því í apríl. Auk þess var svolítil rigning og leiðin blaut, sem hentar mér alltaf frekar illa af einhverjum ástæðum. En veðrið var milt og aðstæður almennt bara frábærar. Vonaðist til að geta hlaupið á 22:30 mín og lokatíminn varð ögn betri en það, sem sagt 22:21 mín. Og hápunkturinn var að Gitta mín var mætt í Laugardalinn til að hvetja pabba sinn.
Þriðja 5 km hlaupið var svo Akureyrarhlaupið 4. júlí. Þá hefði þetta svo sem getað smollið, en norðanvindur og kuldi gerðu þetta allt svolítið erfiðara. Sá fljótt hvert stefndi, endaði á 22:11 mín og var bara vel sáttur. Svo hitti ég líka slatta af góðu fólki. Það er alltaf gott að hlaupa á Akureyri!
Fjórða og síðasta hlaupið í „EÍE-verkefninu“ var Brúarhlaupið á Selfossi 10. ágúst. Þar hafði ég fulla trú á að markmiðið næðist, m.a. eftir að hafa fundið neistann í góðum utanvegahlaupum (sjá neðar). Veðrið var líka eins og best verður á kosið, brautin óaðfinnanleg – og fjölskylduvinurinn Hjalti Rögnvaldsson kominn alla leið frá London til að „héra“ mig. Hann stóð sig fullkomlega í því hlutverki, allir kílómetrar voru á nokkurn veginn réttum hraða (undir 4:20 mín/km) og lokatíminn 21:28 mín. Þar með átti ég Íslandsmetið einn – og verkefninu var lokið. (Reyndar er rétt að halda því til haga að svona lagað kallast að réttu aldursflokkamet en ekki Íslandsmet, en hafa skal það sem skemmtilegra reynist. Alla vega er þetta besti tími sem 65-69 ára íslenskur karl hefur náð í vottuðu 5 km götuhlaupi. Ég veit að ég mun ekki eiga þetta met lengi, en er á meðan er).

ITRA 65
Fyrsta ITRA-hlaup ársins, þ.e.a.s. fyrsta keppnishlaup ársins utanvega (eða fyrsta stígahlaupið eins og ég myndi frekar vilja að þetta væri kallað) var Skálavíkurhlaupið á Hlaupahátíð á Vestfjörðum að kvöldi fimmtudagsins 18. júlí. Leiðin í þessu hlaupi liggur frá Skálavík yfir Skálavíkurheiði til Bolungarvíkur og er í stuttu máli samsett úr einni 6 km brekku upp og annarri 6 km brekku niður, (sem sagt samtals 12 km). Eins og lesa má í þar til gerðum hlaupapistli var þetta hlaup eintóm gleði þrátt fyrir mikinn mótvind. Mér leið býsna vel alla leið og kom í mark á 1:04:57 klst, sem var talsvert nær draumamarkmiði en lágmarksmarkmiði. Ég þarf að fara nokkur ár aftur í tímann til að finna álíka hlaupagleði og gagntók mig á lokametrunum – og þetta kvöld rifjaðist enn einu sinni upp fyrir mér að það dýrmætasta við hlaupin eru ekki bara hlaupin sjálf, heldur líka fólkið í kringum þau. Þetta hlaup gaf mér 546 ITRA-stig, sem dugði til að laga stöðuna á topplistanum alla vega svolítið. Minnir að eftir þetta hlaup hafi ég verið kominn með 536 stig, en leiðin þó enn löng í 570 stigin.
Næsta ITRA-hlaup var Pósthlaupið í Dölunum 27. júlí. Mér var boðið í þetta hlaup, sem ég þáði með þökkum og fékk Kiddó hlaupafélaga (Kristinn Óskar Sigmundsson) með mér. Þetta var í þriðja sinn sem hlaupið var haldið og jafnfram í þriðja sinn sem ég var með – öll skiptin í 26 km vegalengdinni. Til að gera langa sögu miklu styttri en í pistlinum sem ég skrifaði eftir hlaup fór árangurinn í þessu hlaupi langt fram úr björtustu vonum. Ég bætti sem sagt tímann minn frá því í fyrra um 11:26 mín, upplifði óvenjumikla hlaupasælu og náði mér í 573 ITRA-stig. Þar með fór meðalskorið mitt upp í 556 ef ég man rétt og alls ekki útilokað að ég myndi ná markmiði ITRA-verkefnisins.


(Ljósm. G.Harpa Ingimundard.).
Næst var röðin komin að Trékyllisheiðar-hlaupinu, sem var haldið í 4. sinn 17. ágúst. Ég hef verið Skíðafélagi Strandamanna innan handar við undirbúning hlaupsins frá upphafi og hef alltaf náð að hlaupa einhverja vegalengd sjálfur. Nú reyndi ég mig í annað sinn við þá lengstu, 48,5 km fjallaleið úr Trékyllisvík til Steingrímsfjarðar. Veðrið var með hráslagalegasta móti, allhvöss norðanátt og slydda á heiðinni. En svona veður er hægt að klæða af sér að mestu og sem betur fer var vindurinn líka lengst af í bakið. Í stuttu máli gekk þetta allt mjög vel, ég bætti tímann minn frá 2021 um tæpar 20 mín og náði mér í 546 ITRA-stig, alveg eins og í Skálavíkurhlaupinu. Nú vantaði líklega bara eitt hlaup upp á rúm 570 stig, svona svipað og í Pósthlaupinu, til að planið gengi upp.
Planið gekk ekki upp. Fjórða og síðasta ITRA-hlaupið mitt á árinu var Tindahlaupið í Mosfellsbæ 31. ágúst, (3 tindar = 20 km). Þetta var óvenjuhlýr dagur, en mikið hvassviðri og úrhellisrigning. Fyrir bragðið varð hlaupaleiðin víða mjög sleip og ég sá næstum jafnilla frá mér með gleraugum og gleraugnalaus. Í stuttu máli sá ég aldrei til sólar í þessu hlaupi, hvorki í eiginlegri né óeiginlegri merkingu, og niðurstaðan varð í raun algjört hrun, fjarri öllum markmiðum og ótvírætt lakasta frammistaða mín í keppnishlaupi frá upphafi. (Þessi staðhæfing felur ekki í sér neina dramatík, heldur er hún bara niðurstaða ítarlegrar athugunar). Í þokkabót tognaði ég í læri á síðasta kílómetranum (sjá framar) – og þá vissi ég að ITRA 65 verkefnið væri endanlega farið út um þúfur. Þetta hlaup gaf mér bara 484 ITRA-stig. Svo lága tölu hef ég ekki séð áður, ekki einu sinni þegar ég var næstum orðinn úti í Henglinum 2021.

Skemmtihlaupin
Helsta „Skemmtihlaup“ ársins var hið árlega Uppstigningardagshlaup, en síðan árið 2010 höfum við hjónin boðið í hálfmaraþon og mat (í þeirri röð) á uppstigningardag ár hvert (að árinu 2021 frátöldu). Lengst af var hlaupaleiðin hinn sívinsæli Háfslækjarhringur með upphaf og endi í Borgarnesi, en eftir að við hjónin fluttum yfir á Hvanneyri haustið 2021 þurfti náttúrulega að finna nýja og álíka langa leið. Að þessu sinni lá leiðin „niður í Land“ eins og heimamenn kalla það – og síðan upp að Vatnshömrum og þar áfram Heggsstaðahringinn upp á Hvítárvallaflóa og aftur heim. Að þessu sinni bar uppstigningardag upp á 9. maí og hópurinn taldi samtals 10 hlaupara. Veðrið lék við okkur eins og næstum alltaf og súpan hennar Bjarkar eftir hlaup var það allra besta.

Lengi vel voru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið meðal árvissu skemmtihlaupanna minna, en nú hafa þau líklega bæði runnið skeið sitt á enda. Hins vegar vildi svo skemmtilega til að í ágúst hljóp ég upp á Hafnarfjallið í 100. sinn. Tímasetning þess viðburðar var þannig að fátt fólk var í aðstöðu til að slást í hópinn með mér, en samt finnst mér þetta hlaup eiga heima í þessari umfjöllun um skemmtihlaup. Ferð nr. 101 er þó enn eftirminnilegri, en seint í ágúst buðu hlaupavinirnir Jósep og Kiddó mér í Hafnarfjallsleiðangur upp Geilina svonefndu. Þetta er svo sem vel þekkt leið, en hana hafði ég samt aldrei farið áður. Þeir félagar eiga líka sína eigin útgáfu af leiðinni upp að Geilinni, þar sem boðið er upp á mikinn bratta og hliðarhalla, sem hentar ekki lofthræddum. Þetta var án nokkurs vafa ein af skemmtilegustu hlaupaupplifunum ársins.
Fjallvegahlaupin
Sumarið 2024 var afskaplega rýrt fjallvegahlaupaár. Helst hefði ég þurft að hlaupa eina 7 fjallvegi til að halda nokkurn veginn í horfinu, en önnur verkefni voru látin ganga fyrir þetta sumarið. Þegar upp var staðið hafði ég sem sagt bara hlaupið eitt fjallvegahlaup, nánar tiltekið yfir Klúkuheiði milli Valþjófsdals í Önundarfirði og Gerðhamra í Dýrafirði. Þarna var ég á ferð 16. júlí á einum mesta góðviðrisdegi sumarsins (þeir voru reyndar ekki margir) – og þó að ég væri einn míns liðs var þetta einkar góð upplifun, enda er þetta stutt og þægileg leið (þrátt fyrir að hafa einhvern tímann verið kölluð versti fjallvegur á Íslandi). Klúkuheiðin var 81. fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu mínu, sem þýðir að næstu tvö sumur þarf ég að hlaupa 19 fjallvegi til að ná hundraðinu fyrir sjötugsafmælið.

Markmiðin
Ég setti mér þrjú hlaupatengd markmið fyrir árið 2024 og náði bara einu þeirra, þ.e.a.s. að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Hin markmiðin voru að hlaupa a.m.k. eitt maraþon á götu og a.m.k. sjö fjallvegahlaup. Ég var svo sem lengst af í nógu góðu standi til að hlaupa maraþon – og hefði sjálfsagt gert það í Reykjavíkurmaraþoninu (RM) í ágúst ef ég hefði ekki verið í fýlu út í hlaupahaldarann (ÍBR), einkum vegna tregðu þeirra til að fá hlaupin sín vottuð af Frjálsíþróttasambandi Íslands. En það hefði þá líka þýtt að ég hefði þurft að gera mér að góðu að hlaupa eitthvað styttra í Trékyllisheiðarhlaupinu, sem fór að vanda fram viku fyrir RM. Síðast hljóp ég maraþon í Tallinn haustið 2019, þannig að mér finnst virkilega kominn tími til að taka upp þann þráð aftur.
Hér fara á eftir helstu hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2025. Þau eru flest endurnýtt og ekki endilega háleit, enda þurfa markmið ekkert að vera það. Þau þurfa hins vegar helst að vera sértæk, mælanleg, aðgengilegt, raunhæf, (krefjandi) og tímasett (SMART).
- Tíu fjallvegahlaup
- A.m.k. eitt maraþon á götu
- Efsta sæti á ITRA-lista 65-69 ára á Íslandi
- Gleðin með í för í öllum hlaupum
Markmið nr. 3 hér að framan stríðir reyndar gegn þeirri meginreglu sem ég hef hingað til fylgt í svona markmiðssetningu að miða markmið aldrei við árangur annarra. Það hvernig öðrum gengur á með öðrum orðum aldrei að hafa áhrif á það hvort ég nái einhverju markmiði. Svona markmið geta samt verið svolítið skemmtileg – og í þessu tilviki vonandi líka hvetjandi fyrir jafnaldra mína.
Þessu til viðbótar kem ég eflaust til með að setja mér alls konar markmið fyrir einstakar æfingavikur og einstök keppnishlaup. Gleðin yfir því að ná markmiðum sem ég hef sjálfur sett á nefnilega stóran þátt í að halda mér við efnið í hlaupunum. Þessa gleði vil ég fá að upplifa – aftur – og aftur.
Hlaupadagskráin mín 2025
Hlaupadagskráin 2025 er lítið farin að mótast, en fjallvegahlaup hljóta þó að vega þungt í henni (sjá framar). Þar er einhverjar hugmyndir á lofti en engar komnar á blað. Hugsanlega næ ég einu hlaupi suðvestanlands í maí, einhverjum hlaupum á Norðurlandi snemma í júní og e.t.v. aftur í ágúst og hugsanlega einhverjum hlaupum á Austurlandi í júlí. Allt þetta verður kynnt með einhverju fyrirvara á Facebook og á heimasíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins. Keppnishlaup þurfa líka að fá eitthvert pláss, þó ekki væri nema út af ITRA-stigunum. Ég geri þannig ráð fyrir að taka þátt í fimmta Trékyllisheiðarhlaupinu 16. ágúst og svo kemur til greina að hlaupa eitt gott utanvegahlaup erlendis í október. Þar fyrir utan vonast ég til að hlaupa heilt maraþon í Reykjavík í ágúst. Var um tíma með hugann við Vormaraþon FM í lok apríl, en meiðslasaga síðustu mánaða gerir það að verkum að ég verð í besta falli kominn í nothæft keppnisstand fyrir styttri hlaup á þeim tíma.
Lokaorð
Rétt eins og við öll önnur hlaupaáramót er þakklætið efst í tilfinningabunkanum þegar þessi orð eru skrifuð. Fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir að geta enn stundað þetta áhugamál, sem hefur gefið mér meiri gleði síðustu áratugi en auðvelt er að lýsa. Ekkert er sjálfsagt í þessum heimi og heldur ekki þetta. Fjölskyldan mín á stærstan þátt í að gera þetta mögulegt, bæði með því að umbera þetta tímafreka áhugamál og með því að fylgja mér stundum á vettvang og vera til staðar fyrir mig þar. Allt byggir þetta líka á því að heilsan haldist bærileg – og þar skipta bæði erfðir og umhverfi máli. Fjölskyldan og heilsan eru þannig undirstöður nr. 1 og 2 og á meðan þessar undirstöður eru eins sterkar og raun ber vitni hef ég aðgang að gleðinni sem liggur í þeirri náttúruupplifun og einstöku vináttu sem hlaupin hafa fært mér. Þetta getur ekki verið mikið betra.
Filed under: Hlaup | Leave a comment »






