• Heimsóknir

    • 126.882 hits
  • ágúst 2025
    S M F V F F S
     12
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
    31  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupagleði á Molduxa

Endaspretturinn. (Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Föstudaginn 8. ágúst sl. tók ég þátt í utanvegahlaupinu Molduxi Trail sem þá var haldið í fyrsta sinn. Hlaupaleiðirnar (12 og 20 km) liggja upp frá Sauðárkróki og sú lengri (sem ég valdi – með 900 m hækkun) fer alla leið upp á fjallið Molduxa (706 m.y.s.) fyrir ofan bæinn. Í stuttu máli gekk mér allt að óskum í þessu hlaupi og naut hverrar stundar, þrátt fyrir kuldalegt veður og þétta þokusúld á fjallinu. Og líkamleg heilsa á síðustu kílómetrunum var í þokkabót miklu betri en í síðustu tveimur hlaupum. Það hlýtur að vera góðs viti.

Aðdragandinn
Molduxi Trail er nýtt hlaup sem fyrr segir, að hluta til í umsjón hlaupahópsins 550 Rammvilltar á Sauðárkróki. Sara tengdadóttir mín er hluti af þeim hópi og lagði mikið af mörkum við undirbúning hlaupsins. Þess vegna kom aldrei annað til greina en að mæta og gera sitt besta í hlaupinu.

Keppnishlaupin raðast óvenjuþétt hjá mér þessa dagana. Fyrst var það Pósthlaupið (26 km) í Dölunum 26. júlí, svo Súlur (29 km) á Akureyri 2. ágúst – og svo þetta. Dagana eftir Súlur hafði ég líka hlaupið tvö fjallvegahlaup austan Eyjafjarðar, samtals rúma 50 km. Ég óttaðist að þetta væri kannski fullstór skammtur á stuttum tíma, en það virtist alls ekki vera þegar á hólminn var komið.

Merkingar á Molduxa kvöldið fyrir hlaup. (Ljósm. Sara Kr.).

Kvöldið fyrir hlaup aðstoðaði ég Söru og félaga við að merkja leiðina upp og niður Molduxa. Þetta kvöld var strekkingsvindur, þoka, rigning og kuldi á fjallinu, sem kom sér eftir á að hyggja einkar vel fyrir mig, eins og ég kem kannski aftur að síðar í þessum pistli.

Áætlun dagsins
Það getur verið snúið að setja sér markmið í nýju hlaupi, því að þá hefur maður hvorki hugmynd um hvaða lokatími teljist raunhæfur, né um hæfilega millitíma miðað við tiltekinn lokatíma. Þess vegna þurfti ég annað hvort að leggja af stað án áætlunar eða smíða mína eigin áætlun frá grunni. Ég valdi auðvitað síðari kostinn, enda eru töluleg markmið stór hluti af hlaupatilverunni minni. Þessi áætlunarsmíði hófst með því að ég skipti leiðinni upp í átta áfanga út frá GPS-ferli („trakki“) frá Söru. Síðan reyndi ég að áætla hversu hratt ég gæti hlaupið hvern áfanga miðað við vegalengd, hækkun og lauslegar hugmyndir um undirlag. Niðurstöðurnar krotaði ég svo á rúðustrikað blað, sem mér finnst stundum ágætt að nota í staðinn fyrir Excel.

Þessi áætlun skýrir sig næstum alveg sjálf. Fyrsti dálkurinn er náttúrulega vegalengdin og svo hæð yfir sjávarmáli. Og það sem þarna er kallað „Myndat.staður“ er drykkjarstöðin sem beið hlauparanna þegar Molduxi var að baki.
Við rásmarkið í 20 km hlaupinu. Ég virðist vera sá eini sem hugsaði um að klæða sig í stíl við heimavist FNV. ( Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Upp að Molduxa
Hlaupið var ræst kl. 17 aftan við heimavist fjölbrautaskólans og byrjað á að hlaupa upp Sauðárgilið í gegnum Litla-Skóg – og svo eins og leið liggur í átt að Molduxa. Eftir 4,3 km var svo komið að skilti þar sem 20 km hlaupurum var ætlað að hlaupa til hægri áleiðis í kringum fjallið, en 10 km hlauparar áttu að beygja til vinstri meðfram fjallinu. Eins og sést á rúðustrikaða blaðinu reiknaði ég með að verða allt að 43 mín. þarna uppeftir sem er reyndar bara góður gönguhraði (6 km/klst = 10 mín/km), enda hækkunin hátt í 500 m þótt hvergi sé þetta bratt. Innst inni grunaði mig reyndar að ég yrði eitthvað fljótari, sem kom líka á daginn því að þessi fyrsti millitími hljóðaði upp á 36:43 mín. Það var bara fínt, en mig grunaði að sama skapi að tíminn á næsta áfanga væri vanáætlaður og því myndi þetta jafnast út. En mér fannst mér alla vega ganga vel á þessum fyrsta áfanga, veðrið enn nokkurn veginn þurrt en líklega var ég þó búinn að setja upp bæði húfu og hanska þegar þarna var komið. Rétt eins og í Súlum hafði ég gætt þess að púlsinn færi aldrei upp fyrir þröskuldsákefð (um 154 slög/mín, þ.e. 88% af líklegum hámarkspúlsi). Sem sagt: Allt á áætlun og rúmlega það.

Hringur um Molduxa
Áður en lengra er haldið er rétt að undirstrika að áætlun þessa dags fól ekki beinlínis í sér nein markmið, heldur bara lausleg viðmið til að ég hefði eitthvað að hugsa um á leiðinni. Það að ég væri orðinn rúmum 6 mín á undan áætlun eftir fyrsta áfangann kallaði því ekki fram neina sigurtilfinningu. En hver sem áætlunin er finnst mér auðvitað betra að vera á undan henni en á eftir.

Hringurinn um Molduxa („aftur fyrir“ fjallið) er um 3,6 km, ýmist aðeins upp í móti eða aðeins niður í móti. Hluti leiðarinnar er sæmilega hlaupanlegur, einkum undir lokin þegar komið er í Molduxaskarð. Á „bakhlið“ fjallsins eru hins vegar stuttir, nokkuð tæknilegir kaflar þar sem maður getur varla farið nema fetið. Þegar þarna var komið sögu var þokan orðin þéttari og engin leið að njóta útsýnisins sem þarna kvað vera til staðar á björtum dögum. En þetta hélt samt áfram að vera skemmilegt. Þegar hringnum var lokið sýndi klukkan 1:06:10 klst, sem passaði nákvæmlega við áætlunina að teknu tilliti til fyrrnefnds gruns um skekkjur í áföngum nr. 1 og 2.

Upp Molduxa
Leiðin sem við fórum upp fjallstoppinn er tæpir 900 m og hækkunin a.m.k. 210 m, þ.e. á að giska 23% halli. Þetta er því seinfarið fyrir flesta. Þarna var þokan þykk sem fyrr, dálítill vindur og nokkuð mikil úrkoma. Við svona aðstæður er ég oftast kulvís og kvíðinn, auk þess sem gleraugu verða gagnslaus og ekkert við þau að gera nema halda á þeim í hendinni. Ég sé frekar illa frá mér gleraugnalaus og því hefur þetta atriði stundum verið til vandræða.

Þennan dag kom sér mjög vel að hafa farið þessa sömu leið við merkingar kvöldið áður í engu betra veðri. Í ljósi þeirrar reynslu vissi ég að toppnum yrði náð fyrr en varði og því óþarfi að lokast inni í óttanum, sem ég hef oft upplifað, um að á bak við næstu hæð bíði alltaf önnur hæð. Ég var meira að segja svo öruggur með mig að ég ákvað að taka ekki regnstakkinn úr bakpokanum, enda hvarflaði ekki að mér að kuldinn yrði meiri en kvöldið áður. Vitneskjan um að þetta tæki fljótt af og vissan um hærra hitastig og minni úrkomu þegar fjallið væri að baki dugði til að halda á mér hita.

Á toppnum hitti ég einkar vinsamlega brautarverði og klukkan sýndi 1:22:27 klst. Ég hafði sem sagt „grætt“ um það bil hálfa mínútu á uppleiðinni.

Niður Molduxa
Mér sóttist niðurleiðin heldur seint, enda var þar að hluta hlaupið á blautu grasi sem ég óttaðist að gæti verið hált. Þarna „tapaði“ ég hálfu mínútunni aftur og klukkan sýndi 1:31:11 klst, sem sagt alveg á pari við rúðustrikaða blaðið. Þetta fannst mér skemmtilegt, þrátt fyrir að tímarnir á blaðinu væru jú bara lausleg viðmið. Já, og vel að merkja: Ég tók blaðið ekki með mér í hlaupið, enda hefði það ekki enst lengi í rigningunni. Hluti af undirbúningnum var því að leggja á minnið allt sem á því stóð.

Að drykkjarstöðinni
Eitthvað hafði ég misreiknað fjarlægðina frá fjallinu að drykkjarstöðinni (myndatökustaðnum), því að hún reyndist bara vera um 400 m en ekki 800 m eins og ég hafði gert ráð fyrir. Á þessum stutta kafla „græddi“ ég því auðveldar 2 mín. Millitíminn var 1:33:08 klst. og 10,1 km að baki.

Alveg að koma að drykkjarstöðinni – með gleraugun í vinstri hendi, rennblautur með regnstakkinn í bakpokanum. (Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Beygja á Kimbastaðagötum
Frá Molduxa lá hlaupaleiðin eftir Kimbastaðagötum, fyrst austur og suðaustur niður hlíðina, en síðan í krappri vinstri beygja til norðurs þar sem farið er yfir drög Sauðár (ef mér skjátlast ekki). Öll niðurleiðin fylgir þokkalegum vegarslóða sem hentar býsna vel til hlaupa. Fátt finnst mér skemmtilegra á hlaupum en svona jafnt og gott undanhald, enda líkist ég líklega Steini Steinarr að því leyti að „Styrkur minn liggur allur í undanhaldinu“. Millitíminn í beygjunni var 1:44:26 klst., sem sagt hálfri mínútu á undan áætlun. 12,14 km að baki.

Sauðárkrókur
Áfram hélt ég svo niður hlíðina eftir þessum ágætu Kimbastaðagötum í minnkandi úrkomu. Fór fram úr einum hlaupara á þessum kafla, en svo fór hann reyndar fram úr mér aftur skömmu síðar. Að öðru leyti hljóp ég stóran hluta hlaupsins einn, eins og oft vill verða í fámennum og tiltölulega löngum hlaupum. Félagsskapur er góður í svona ferðalögum en einsemdin er það líka. Mér sóttist ferðin til byggða allvel, meðalhraðinn á þessum kafla var 5:04 mín/km (enda hallaði hæfilega undan fæti) og þegar niður var komið sýndi úrið 16,34 km og 2:06:02 klst. Þarna var ég sem sagt orðinn 2 mín á undan áætlun.

Endasprettur
Síðustu fjórir kílómetrarnir í hlaupinu fólust í hringhlaupi um svonefnda Skógarhlíð – og síðan aftur niður í Litla-Skóg, allt þar til hlaupið endaði á sama stað og það hófst. Eins og sést á rúðustrikaða blaðinu hafði ég áætlað einn millitíma á þessum kafla, en þegar á hólminn var komið nennti ég ekki að hugsa meira um klukkuna. Rigningin var auk þess hætt og ég gat sett upp gleraugun. Nú var bara að einbeita sér að því að njóta – og bæta svo vel í hraðann í blálokin. Ég hafði ekkert fundið fyrir krömpum allt hlaupið, ólíkt því sem gerðist í hlaupunum næstu tvær helgar á undan, og þess vegna var þetta einstaklega léttur og ánægjulegur lokakafli. Ég kom í mark á 2:31:34 klst, sem sagt einni og hálfri mínútu á undan rúðustrikuðu áætluninni. Og það er langt síðan mér hefur liðið eins vel á marklínu. Hins vegar skal ósagt látið hvort þetta telst góður eða lélegur tími í stóra samhenginu, hvaða samhengi sem það annars er, enda fátt um viðmið.

Bara nokkrir metrar eftir og Sara tengdadóttir mætt til að hvetja. Eitt af þessum augnablikum þegar maður man best hvers vegna maður er að þessu! (Ljósm. siggi-sport-portraits og Molduxi Trail).

Næringin
Í þessu hlaupi hélt ég mig við sama mataræði og næstu tvær helgar á undan. Ég miðaði sem sagt við að innbyrða 80 g af kolvetnum og hálfan lítra af vökva á hverri klukkustund. Það gekk nokkurn veginn eftir, nema kannski í blálokin þegar ég vissi að það skipti ekki máli lengur. Nákvæmlega tilgreint var meðalklukkutímaskammturinn 74 g og 400 ml, auk 50 mg af koffeini. Kannski fulllítill vökvi, en það kom ekki að sök. Kolvetnin tók ég inn í formi orkudufts sem var uppleyst í drykkjarbrúsunum í hlaupavestinu mínu, að viðbættu einu geli.

Þakklætið
Þakklæti er eiginlega alltaf sú tilfinning sem situr efst í huganum í lok svona keppnishlaups. Þennan daginn sem oftar var það aðallega þakklæti til fjölskyldunnar sem skapar mér aðstæður til að stunda þetta áhugamál – og þakklæti til Birkis hlaupafélaga sem kom keyrandi norðan af Ströndum til að taka þátt í þessu. Mestar þakkir fá þó 550 Rammvilltar – og þá sérstaklega Sara tengdadóttir fyrir hennar stóra þátt í að skipuleggja þetta allt saman og fyrir að gefa mér tækifæri til að tengjast þessu aðeins á undirbúningstímanum.

Sigraður í Súlum

Ég hljóp 29 km leiðina í utanvegahlaupinu Súlur Vertical sl. laugardag (2. ágúst). Þetta var nokkuð sem mig hafði lengi langað til að gera, vitandi það að á Akureyri get ég hitt bestu hlaupavinina, besta veðrið og besta hlaupaskipulagið. Ekkert af þessu olli mér vonbrigðum á laugardaginn. Árangurinn í hlaupinu var reyndar ekki eins og ég hafði vonast til, en undir lok hlaupsins upplifði ég samt þessa einstöku hlaupasælu sem er ein af ástæðunum fyrir því að ég mæti í keppnishlaup. Kannski er það þroskamerki að hafa getað upplifða þessa sælu samhliða vonbrigðunum með frammistöðuna.

Markmiðin
Eins og ég hef oft talað og skrifað um set ég mér nánast alltaf markmið fyrir keppnishlaup, stundum bara eitt, stundum jafnvel fjögur eða fimm, allt frá villtustu draumum niður í einhvers konar vonbrigðaþröskuld. Í þetta skipti var villtasti draumurinn að geta hlaupið þessa 29 km (með næstum 1.500 m hækkun) á 3:40 klst, en vonbrigðaþröskuldurinn var við 4:00 klst. Þar sem ég hafði aldrei gert þetta áður hafði ég svo sem ekkert til að miða við, nema ITRA-stigin sem reiknast út frá lokatímanum. Tími upp á 3:40 í þessu hlaupi gefur á að giska 560 stig, sem er nálægt því sem ég hef gert best síðustu þrjú árin, en 4:00 gefur um 515 stig. Mér finnst alveg óþarfi að ná ekki þeirri stigatölu.

Til þess að hafa einhverja hugmynd um hvert stefnir finnst mér nauðsynlegt að reikna út æskilega millitíma á helstu viðkomustöðum í svona hlaupi. Þar sem ég hafði aldrei farið þessa leið áður lagðist ég í svolitlar rannsóknir á millitímum nokkurra kvenkyns hlaupara í sama hlaupi í fyrra. Nú er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ég dragi lærdóm af millitímum kvenna frekar en karla í svona útreikningum. Svarið við því er að ég held að konur séu að meðaltali skynsamari hlauparar en karlar. Ég held með öðrum orðum að þær séu líklegri til að hlaupa á jöfnu álagi í stað þess að fara allt of hratt af stað og þurfa svo að skríða síðustu kílómetrana. Þessir útreikningar mynduðu grunn að eftirfarandi áætlun, miðað við lokatímann 4:00:

StaðsetningKmTími (klst.)
Súlubílastæði (á uppleið)9,91:12:00
Súlur (Ytri-Súla (1144 m))15,42:29:00
Súlubílastæði (á niðurleið)20,93:07:00
Háskólasvæði (Kolgerði)26,83:45:00
Mark (Göngugatan)29,64:00:00

Aðstæður
Þessi laugardagur bauð upp á frábærar aðstæður til hlaupa. Sólin skein og hitinn á láglendi var 16-18°C á meðan á hlaupinu stóð. Reyndar getur þetta hitastig verið óþarflega hátt fyrir hlaupara, en á móti kom að þennan dag blés strekkingsvindur úr suðri. Þetta var sem sagt bara alveg dásamlegt.

Upphaf hlaupsins
Hlaupavinir eiga stærri þátt en flest annað í gleðinni sem umlykur mann á svona dögum. Á leiðinni inn í Kjarnaskóg hitti ég tvær úr þeim hópi, þær Hörpu Dröfn, sem er næstum því sveitungi minn, og Ingu Dísu, einn besta hlaupafélaga minn og samstarfskonu úr stjórn Hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi. Og svo var hlaupið ræst, stundvíslega kl. 10 þennan fallega laugardagsmorgun.

Með Hörpu Dröfn og Ingu Dísu í Kjarnaskógi nokkrum mínútum fyrir hlaup. (Ljósm. Inga Dísa).

Púlsinn
Að fenginni reynslu úr Pósthlaupinu á dögunum var ég staðráðinn í að halda púlsinum innan við 154 slög á fyrstu kílómetrum hlaupsins, alla vega alla leið að Súlubílastæðinu. Þessi tala er u.þ.b. 88% af hámarkspúlsinum mínum og ef púlsinn fer eitthvað að ráði upp fyrir þetta fer laktat að safnast fyrir í vöðvunum – og þá er hætt við að þreytan fari að sigrast á gleðinni. Þetta gekk alveg sæmilega hjá mér. Ég fylgdist lítið með vegalengd og hraða þarna til að byrja með en gætti þess að hægja alltaf á mér þegar úrið sýndi hærri tölu en 154. Millitíminn á Súlubílastæðinu var 1:12:11 klst, sem var algjörlega samkvæmt áætlun (sjá töflu). Ég var ekkert orðinn þreyttur og hefði alveg getað farið aðeins hraðar. Við bílastæðið hitti ég Sonju Sif og það gerði mig enn tilbúnari en ella til að takast á við næstu 5,5 km, þ.e.a.s. klifrið upp á Ytri-Súlu, með u.þ.b. 860 m hækkun. Brekkur sem hallast í þessa átt kalla alla jafna fram mína veikustu hlið sem hlaupara.

Mættur á Súlubílastæðið í góðum meðvindi. (Ljósm. Súlur Vertical og Sportmyndir.is).

Upp Súlur
Ferðalagið upp Ytri-Súlu var tímafrekt, rétt eins og ég hafði gert ráð fyrir. Bjóst reyndar við að á þessum kafla myndi fólk svoleiðis þyrpast fram úr mér, en sú varð ekki raunin. Kannski færðist ég 4-5 sætum aftar í röðina, þannig að í reynd gekk þetta bara vel. Millitíminn á fjallstoppnum var 2:33:40 klst, að vísu 4:40 mín lengri en að var stefnt (sjá töflu), en ég bjóst við að vinna það upp á niðurleiðinni endar hafa niðurhlaup lengi verið mín sterka hlið. Uppi á Súlum hitti ég Elías Bj. Gíslason, sem stóð þar vörð við tímatökuhliðið. Mér finnst alltaf gott að sjá kunnugleg og vingjarnleg andlit á svona ferðalögum.

Niðurleiðin
Á leiðinni upp Súlur var ég aðeins farinn að finna krampatilfinningu í kálfum og jafnvel lærum. Hafði samt ekki miklar áhyggjur, enn sannfærður um ágæti mitt sem niðurhlaupara. En fljótlega eftir að brekkan fór að „hallast rétt“ ágerðust kramparnir, sérstaklega á bröttustu köflunum. Þetta varð fljótlega svo slæmt að ég vissi að þetta annars hógværa markmið um lokatíma upp á 4:00 myndi ekki nást. Á sumum köflum var þetta svo slæmt að ég fór hægar niður en upp – og fólk byrjaði að streyma fram úr mér. Eiginlega leið mér eins og allir væru að fara fram úr mér – og jafnvel amma þeirra líka. Samt hélt ég í gleðina. Datt reyndar í hug að skynsamlegt væri að hætta þessu bara þegar ég kæmi aftur niður á Súlubílastæðið, en eins og einhver sagði: „Ef maður hendir inn handklæðinu hækkar bara í óhreinatauskörfunni“. Mér tókst líka að rifja upp minningar um krampa sem höfðu linast þegar lengra leið á viðkomandi hlaup. Sú varð líka raunin þegar hallinn minnkaði, en samt gat ég ekkert hlaupið að gagni. Niðurhlaupið varð sem sagt að löngum göngutúr. Áætlaður millitími á Súlubílastæðinu birtist á úrinu einhvers staðar uppi í miðri hlíð og þegar ég loksins var kominn niður sýndi klukkan 3:24:56 klst. Ég var sem sagt búinn að tapa rúmum 13 mínútum á kaflanum sem átti að vera hlutfallslega bestur og var orðinn 18 mín á eftir áætlun (sjá töflu). Öll markmið voru farin í vaskinn, en ég var samt staðráðinn í að njóta þess sem eftir var. Lokatíminn skipti ekki lengur máli.

Kominn niður af Ytri-Súlu (sem sést þarna í baksýn). Öll markmið úr sögunni. (Ljósm. Súlur Vertical og Sportmyndir.is).

Súlubílastæði – Háskólasvæði
Frá Súlubílastæðinu lá leiðin yfir Glerárgilið, eða Dauðagilið eins og það er gjarnan kallað meðal hlaupara. Þetta var svo sem ekkert meiri dauði en hvað annað – og niðri í gilinu sat líka kona og spilaði á harmoniku. Hún bætti svo sannarlega gleði í hlaupið.

Þegar upp úr gilinu var komið tóku við flatari kaflar – og þar gat ég alveg hlaupið á sæmilegum hraða þrátt fyrir krampana, bara ef ég passaði mig á öllum óvæntum upp-, niður- og hliðarskrefum. Þarna náði ég þónokkrum hlaupurum í 19 km vegalengdinni, þ.á m. Sigurbjörgu Akurnesingi, sem ég hitti síðast í Hrafntinnuskeri í Laugavegshlaupinu 2019. Allir svona fundir, þótt stuttir séu, glæða ferðalagið aðeins meiri gleði og bjartsýni. Millitíminn á háskólasvæðinu var 4:04:26, þ.e.a.s. u.þ.b. 19:30 mín lengri en að var stefnt (sjá töflu). Staðan hafði sem sagt lítið versnað frá því á Súlubílastæðinu.

Endaspretturinn
Þegar þarna var komið sögu bjó ég mér til nýtt markmið, nefnilega að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 4:20 klst. Fyrir hlaup hafði ég ekki einu sinni hugmyndaflug í svoleiðis tölur, en þegar svona er komið er eins gott að vera þakklátur fyrir það sem þó er í boði. „Endasprettur“ er kannski ekki alveg rétta orðið yfir hraðann sem ég náði á þessum síðasta 3 km kafla, en ég fór hann alla vega á 15:22 mín sem er alls enginn gönguhraði. Ég fór meira að segja fram úr a.m.k. tveimur hlaupurum sem höfðu stungið mig af á leiðinni upp Súlur. Og þegar markið nálgaðist streymdi um þig þessi einstaka gæsahúðargleði sem fylgir því að ljúka svona hlaupaáskorun, sérstaklega þegar veðrið er gott, jafnvel þó að árangurinn sé undir væntingum. Toppurinn var svo að sjá Björkina mína, Gittu og tvo þriðju af barnabörnunum í Göngugötunni rétt áður en ég skokkaði í gegnum markið á 4:19:48 klst, sem sagt alla vega undir 4:20.

Kominn í mark, glaður þrátt fyrir þessar tölur á klukkunni. (Ljósm. Súlur Vertical og Sportmyndir.is).

Hvað klikkaði?
Árangurinn í þessu hlaupi var vissulega langt undir væntingum – og ég veit svo sem alveg hvers vegna. Ég veit að ég fór ekki of hratt af stað og ég veit að ég tók inn nóg af næringu og vökva. Það eina sem vantaði voru fleiri kílómetrar í lappirnar og miklu fleiri hæðarmetrar á æfingum, sérstaklega síðusta mánuðinn. Ég var vissulega búinn að fara nokkrum sinnum á Hafnarfjallið, en ein og ein ferð á stangli dugar skammt til að geta farið almennilega upp og niður Súlur. Samt hélt ég að ég myndi ráða aðeins betur við þetta en raun bar vitni. En það gengur þá bara betur næst.

Næst!?
Strax og ég var kominn í mark langaði mig, þrátt fyrir allt, að gera þetta aftur við fyrsta tækifæri. Fyrsta tækifæri er á sama tíma að ári – og vonandi verða aðstæður mínar þá þannig að ég geti gert aðra atlögu að sömu vegalengd, betur undir búinn. Hlaupaleiðin og öll umgjörð hlaupsins toppar flest það sem ég hef upplifað í þessum efnum (sem er þó alveg slatti). Ég yfirgaf Göngugötuna stirður í fótum en lítið þreyttur að öðru leyti, enda hjarta og æðakerfi búin að hafa það frekar náðugt frá því að ferðalagið upp á Súlur hófst. Ég mæti sem sagt aftur næsta ár – og þá verður aftur sólskin á Akureyri.

Pósthlaup án væntinga

Ég tók þátt í Pósthlaupinu um daginn (26. júlí sl.) eins og ég hef reyndar gert árlega síðan þessi hlaupaviðburður var fyrst haldinn sumarið 2022. Þetta var sem sagt fjórða Pósthlaupið mitt. Og alltaf hef ég haldið mig við sömu vegalengdina, þ.e. 26 km leiðina frá Kirkjufellsrétt í Haukadal að pósthúsinu í Búðardal, (sem nú er orðið að fyrrverandi pósthúsi). Með þessu móti get ég notað Pósthlaupið sem eins konar „samræmt próf“ á hlaupagetuna.

Væntingar?
Aldrei þessu vant lagði ég af stað í Pósthlaupið án væntinga, þó að ég viðurkenni að ég hefði orðið leiður ef mér hefði ekki tekist að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 2:30 klst. Ég var nefnilega alveg við þau mörk tvö fyrstu árin – og hef á tilfinningunni að þar hljóti mörk hins ásættanlega að liggja. Í fyrra var tíminn hins vegar miklu betri, þ.e. um 2:18 klst., enda hafði ég þá náð miklu lengra og samfelldara æfingatímabili en árin á undan. Þetta árið hefur mér ekki tekist að komast í sama form og í fyrra – og þess vegna gerði ég mér engar vonir um svipaðan tíma og síðast.

Að hlaupa eftir tilfinningu
Ég er vanur að gera nákvæma áætlun fyrir hvert einasta hlaup um millitíma á hinum og þessum stöðum, en í samræmi við væntingaleysið sleppti ég því alveg í þetta skiptið. Mér finnst gaman að gera áætlanir, en mér finnst líka gaman að hlaupa eftir tilfinningunni. Og til þess að leyfa tilfinningunni að hafa völdin kíkti ég ekkert á millitímana mína úr fyrri Pósthlaupum. Mundi þó nokkurn veginn millitímann minn frá því í fyrra á þjóðveginum norðvestan við brúna yfir Haukadalsá. Þangað eru u.þ.b. 16,06 km frá réttinni og tvö síðustu ár hljóp ég þangað á 1:21:36 klst. Já, og svo mundi ég auðvitað lokatíma fyrri ára nokkurn veginn.

Hlaupið sjálft
Mér leið vel á fyrstu kílómetrum hlaupsins. Fannst ég rúlla þá ágætlega, án þess að safna þreytu í lappirnar. Meðalhraðinn á fyrstu 10 km niður að Haukadalsvatni var rétt undir 5 mín/km, sem mig minnti að væri bara svipað og venjulega. Og millitíminn á þjóðveginum var 1:21:54 klst, sem sagt bara 18 sek. lakari en í fyrra. Það fannst mér bara harla gott.

Þreyta og krampar
Spölurinn niður að þjóðveginum er nánast allur hlaupinn á bílvegi, en eftir það gjörbreytist undirlagið án þess þó að verða neitt sérlega tæknilegt. Þarna var ég farinn að finna meira fyrir þreytu, en gerði mér ekki grein fyrir hvort hún væri meiri eða minni en síðustu ár. Við Þorbergsstaði (18,8 km) var ég þó farinn að hafa það á tilfinningunni að síðustu kílómetrarnir yrðu erfiðir. Þarna var ég aðeins farinn að finna fyrir krömpum í hægri kálfa – og koffeingelið sem ég skellti í mig á reiðveginum skömmu síðar hafði ekki sömu hressandi áhrif og sams konar gel hafði í fyrra. Þetta var sem sagt orðið erfitt, kramparnir ágerðust og mér leið ekki lengur vel. Í stuttu máli voru síðustu 7 kílómetrarnir hver öðrum erfiðari og ég kom í mark á 2:28:32 klst, sem mér fannst þó svo sem allt í lagi, enda skrokkurinn almennt í toppstandi að krömpunum frátöldum. Ég náði alla vega þessu einfalda markmiði um 2:30 klst.

Af hverju fær maður krampa?
Krampar sem maður fær á hlaupum geta átt sér ýmsar skýringar (eins og ég skrifaði einhvern tímann um í pistli á hlaup.is). Í einfölduðu máli eru algengustu skýringarnar líklega annars vegar þreyta (vöðvarnir ekki tilbúnir í alla þessa samdrætti), og hins vegar vökvaskortur og/eða skortur á næringu og/eða steinefnum. Í þetta skiptið held ég að fyrrnefnda skýringin sé líklegri. Ég var einfaldlega ekki í nógu góðu formi til að ráða við álagið, (sjá umfjöllun hér að neðan). Ég þykist viss um að ég hafi innbyrt nóg af vatni og næringu, en kannski var einhver óvissa með steinefnin.

Er hægt að éta sig í form?
Síðustu misserin hefur næringarinntaka á hlaupum verið mikið í umræðunni og það sem áður þótti nóg þykir lítið í dag. Sjálfur hef ég lengst af miðað næringarinntökuna við u.þ.b. 50 g af kolvetnum (tvö gel (um 200 kcal)) og 300 ml af vökva á klukkustund, auk þess sem ég hef staðið í þeirri meiningu að þetta skipti litlu sem engu máli í hlaupum sem taka skemmri tíma en 1:30-2:00 klst. Í Pósthlaupinu um daginn ákvað ég hins vegar að láta á það reyna hvort ég gæti ekki farið upp í 80 g af kolvetnum (um 320 kcal) og 500 ml af vökva pr. klst, alveg frá upphafi til enda hlaupins. Þetta gekk nokkurn veginn eftir, en líklega vantaði þó svolítið upp á vökvann. Og svo pældi ég svo sem ekkert í steinefnunum. Meltingarfærin tóku þessu öllu mótmælalaust, enda hafa þau aldrei verið með vesen í keppnishlaupum. Þegar á heildina er litið tel ég að erfiðleikarnir á síðustu kílómetrunum hafi ekki haft neitt með næringuna að gera. Ég var einfaldlega ekki vanur að hlaupa þetta lengi á þessum hraða. Næring á hlaupum er gríðarlega mikilvæg, en það er ekki hægt að éta sig í form.

Hvað með púlsinn?
Ég hef svo sem aldrei spáð neitt í hjartsláttartíðni (púls) í keppnishlaupum, jafnvel þótt ég hafi á síðustu 2-3 árum stuðst talsvert við púlsmæli á æfingum í samræmi við fræði Jack Daniels. Í Pósthlaupinu hugsaði ég heldur ekki neitt um púlsinn, að öðru leyti en því að ég þóttist finna að álagið á fyrstu 16 km hlaupsins væri bara hæfilegt. Þegar ég skoðaði Strava að hlaupi loknu komst ég að annarri niðurstöðu. Ég fór einfaldlega of hratt af stað miðað við getu og það kom niður á mér síðar í hlaupinu. Að gamni mínu límdi ég saman púlslínuritin mín úr öllum pósthlaupunum. Þau segja sögu, sem mér finnst áhugaverð.

Þegar rýnt er í myndirnar sést að púlsinn á fyrstu 10 km hlaupsins um daginn var hærri en áður (sérstaklega samanborið við hlaupið í fyrra), þ.e.a.s. meira og minna um og yfir 160 slög/mín. Ég held að hámarkspúlsinn minn sé nálægt 175, sem þýðir að þröskuldspúlsinn (e. lactate threshold) gæti verið um 175 x 88% = 154 slög/mín. Fyrstu 10 km hlaupsins var ég lengst af yfir þessu viðmiði, sem þýðir væntanlega að þarna var laktat (sem oft er talað um sem mjólkursýru) að safnast upp í vöðvunum. Það er ástand sem maður þolir varla lengur en í klukkutíma eða þar um bil. Málið snýst ekki bara um að koma vökva og næringu inn í vöðvafrumurnar, heldur líka um að koma niðurbrotsefnum (úrgangi) út úr þeim. Ef það tekst ekki verður allt erfiðara en ella – og líklega var það nákvæmlega það sem gerðist í Pósthlaupinu.

Hvað læri ég af þessu?
Líklega þótti mér „of gaman“ í Pósthlaupinu, þannig að mér leið betur á fyrstu kílómetrunum en ég hafði í raun efni á. Mig vantar fleiri kílómetra í lappirnar til að geta búist við betri árangri og mig vantar líka fleiri æfingar á þröskuldsákefð til að auka afköst vöðvanna í næringarupptöku og úrangslosun. Í næsta keppnishlaupi ætla ég að halda púlsinum innan við 154 slög/mín fyrstu kílómetrarna og gá hvað gerist.

Lokaorð
Burtséð frá öllum krömpum og misvísindalegum pælingum um næringu og laktatþröskulda, naut ég þess virkilega að taka þátt í Pósthlaupinu. Ég vissi vel að hlaupaformið var ekki upp á það besta, en í lok dags var ég engu að síður innilega þakklátur fyrir hlaupaheilsuna sem mér hefur tekist að byggja upp, þakklátur fyrir hlaupavinina sem ég hitti í Dölunum þennan dag, þakklátur fyrir velvilja og gestrisni aðstandenda hlaupsins og þakklátur fyrir fjölskylduna mína sem gerir mér mögulegt að stunda þetta áhugamál, þrátt fyrir allan tímann sem það tekur.

Eftirmáli
Ég get náttúrulega ekki látið hjá líða að birta millitímana mína í Pósthlaupinu um daginn (sem ég skoðaði vel að merkja ekki fyrr en eftir hlaup), svo og úr hinum Pósthlaupunum. Mér finnst svona tölfræði ekki bara skemmtileg, heldur leynast líka í henni upplýsingar sem nýtast mér vel í framhaldinu.

Millitímar í Pósthlaupum SG 2022-2025. (Hlaupið var ögn styttra fyrsta árið). Grænu reitirnir minna á að fyrstu 16 km hlaupsins 2025 voru nánast endurtekning á hlaupinu 2024, en eftir það voru meiri líkindi með hlaupinu 2023.