Ég hljóp 29 km leiðina í utanvegahlaupinu Súlur Vertical sl. laugardag (2. ágúst). Þetta var nokkuð sem mig hafði lengi langað til að gera, vitandi það að á Akureyri get ég hitt bestu hlaupavinina, besta veðrið og besta hlaupaskipulagið. Ekkert af þessu olli mér vonbrigðum á laugardaginn. Árangurinn í hlaupinu var reyndar ekki eins og ég hafði vonast til, en undir lok hlaupsins upplifði ég samt þessa einstöku hlaupasælu sem er ein af ástæðunum fyrir því að ég mæti í keppnishlaup. Kannski er það þroskamerki að hafa getað upplifða þessa sælu samhliða vonbrigðunum með frammistöðuna.
Markmiðin
Eins og ég hef oft talað og skrifað um set ég mér nánast alltaf markmið fyrir keppnishlaup, stundum bara eitt, stundum jafnvel fjögur eða fimm, allt frá villtustu draumum niður í einhvers konar vonbrigðaþröskuld. Í þetta skipti var villtasti draumurinn að geta hlaupið þessa 29 km (með næstum 1.500 m hækkun) á 3:40 klst, en vonbrigðaþröskuldurinn var við 4:00 klst. Þar sem ég hafði aldrei gert þetta áður hafði ég svo sem ekkert til að miða við, nema ITRA-stigin sem reiknast út frá lokatímanum. Tími upp á 3:40 í þessu hlaupi gefur á að giska 560 stig, sem er nálægt því sem ég hef gert best síðustu þrjú árin, en 4:00 gefur um 515 stig. Mér finnst alveg óþarfi að ná ekki þeirri stigatölu.
Til þess að hafa einhverja hugmynd um hvert stefnir finnst mér nauðsynlegt að reikna út æskilega millitíma á helstu viðkomustöðum í svona hlaupi. Þar sem ég hafði aldrei farið þessa leið áður lagðist ég í svolitlar rannsóknir á millitímum nokkurra kvenkyns hlaupara í sama hlaupi í fyrra. Nú er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ég dragi lærdóm af millitímum kvenna frekar en karla í svona útreikningum. Svarið við því er að ég held að konur séu að meðaltali skynsamari hlauparar en karlar. Ég held með öðrum orðum að þær séu líklegri til að hlaupa á jöfnu álagi í stað þess að fara allt of hratt af stað og þurfa svo að skríða síðustu kílómetrana. Þessir útreikningar mynduðu grunn að eftirfarandi áætlun, miðað við lokatímann 4:00:
| Staðsetning | Km | Tími (klst.) |
| Súlubílastæði (á uppleið) | 9,9 | 1:12:00 |
| Súlur (Ytri-Súla (1144 m)) | 15,4 | 2:29:00 |
| Súlubílastæði (á niðurleið) | 20,9 | 3:07:00 |
| Háskólasvæði (Kolgerði) | 26,8 | 3:45:00 |
| Mark (Göngugatan) | 29,6 | 4:00:00 |
Aðstæður
Þessi laugardagur bauð upp á frábærar aðstæður til hlaupa. Sólin skein og hitinn á láglendi var 16-18°C á meðan á hlaupinu stóð. Reyndar getur þetta hitastig verið óþarflega hátt fyrir hlaupara, en á móti kom að þennan dag blés strekkingsvindur úr suðri. Þetta var sem sagt bara alveg dásamlegt.
Upphaf hlaupsins
Hlaupavinir eiga stærri þátt en flest annað í gleðinni sem umlykur mann á svona dögum. Á leiðinni inn í Kjarnaskóg hitti ég tvær úr þeim hópi, þær Hörpu Dröfn, sem er næstum því sveitungi minn, og Ingu Dísu, einn besta hlaupafélaga minn og samstarfskonu úr stjórn Hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi. Og svo var hlaupið ræst, stundvíslega kl. 10 þennan fallega laugardagsmorgun.

Púlsinn
Að fenginni reynslu úr Pósthlaupinu á dögunum var ég staðráðinn í að halda púlsinum innan við 154 slög á fyrstu kílómetrum hlaupsins, alla vega alla leið að Súlubílastæðinu. Þessi tala er u.þ.b. 88% af hámarkspúlsinum mínum og ef púlsinn fer eitthvað að ráði upp fyrir þetta fer laktat að safnast fyrir í vöðvunum – og þá er hætt við að þreytan fari að sigrast á gleðinni. Þetta gekk alveg sæmilega hjá mér. Ég fylgdist lítið með vegalengd og hraða þarna til að byrja með en gætti þess að hægja alltaf á mér þegar úrið sýndi hærri tölu en 154. Millitíminn á Súlubílastæðinu var 1:12:11 klst, sem var algjörlega samkvæmt áætlun (sjá töflu). Ég var ekkert orðinn þreyttur og hefði alveg getað farið aðeins hraðar. Við bílastæðið hitti ég Sonju Sif og það gerði mig enn tilbúnari en ella til að takast á við næstu 5,5 km, þ.e.a.s. klifrið upp á Ytri-Súlu, með u.þ.b. 860 m hækkun. Brekkur sem hallast í þessa átt kalla alla jafna fram mína veikustu hlið sem hlaupara.

Upp Súlur
Ferðalagið upp Ytri-Súlu var tímafrekt, rétt eins og ég hafði gert ráð fyrir. Bjóst reyndar við að á þessum kafla myndi fólk svoleiðis þyrpast fram úr mér, en sú varð ekki raunin. Kannski færðist ég 4-5 sætum aftar í röðina, þannig að í reynd gekk þetta bara vel. Millitíminn á fjallstoppnum var 2:33:40 klst, að vísu 4:40 mín lengri en að var stefnt (sjá töflu), en ég bjóst við að vinna það upp á niðurleiðinni endar hafa niðurhlaup lengi verið mín sterka hlið. Uppi á Súlum hitti ég Elías Bj. Gíslason, sem stóð þar vörð við tímatökuhliðið. Mér finnst alltaf gott að sjá kunnugleg og vingjarnleg andlit á svona ferðalögum.
Niðurleiðin
Á leiðinni upp Súlur var ég aðeins farinn að finna krampatilfinningu í kálfum og jafnvel lærum. Hafði samt ekki miklar áhyggjur, enn sannfærður um ágæti mitt sem niðurhlaupara. En fljótlega eftir að brekkan fór að „hallast rétt“ ágerðust kramparnir, sérstaklega á bröttustu köflunum. Þetta varð fljótlega svo slæmt að ég vissi að þetta annars hógværa markmið um lokatíma upp á 4:00 myndi ekki nást. Á sumum köflum var þetta svo slæmt að ég fór hægar niður en upp – og fólk byrjaði að streyma fram úr mér. Eiginlega leið mér eins og allir væru að fara fram úr mér – og jafnvel amma þeirra líka. Samt hélt ég í gleðina. Datt reyndar í hug að skynsamlegt væri að hætta þessu bara þegar ég kæmi aftur niður á Súlubílastæðið, en eins og einhver sagði: „Ef maður hendir inn handklæðinu hækkar bara í óhreinatauskörfunni“. Mér tókst líka að rifja upp minningar um krampa sem höfðu linast þegar lengra leið á viðkomandi hlaup. Sú varð líka raunin þegar hallinn minnkaði, en samt gat ég ekkert hlaupið að gagni. Niðurhlaupið varð sem sagt að löngum göngutúr. Áætlaður millitími á Súlubílastæðinu birtist á úrinu einhvers staðar uppi í miðri hlíð og þegar ég loksins var kominn niður sýndi klukkan 3:24:56 klst. Ég var sem sagt búinn að tapa rúmum 13 mínútum á kaflanum sem átti að vera hlutfallslega bestur og var orðinn 18 mín á eftir áætlun (sjá töflu). Öll markmið voru farin í vaskinn, en ég var samt staðráðinn í að njóta þess sem eftir var. Lokatíminn skipti ekki lengur máli.

Súlubílastæði – Háskólasvæði
Frá Súlubílastæðinu lá leiðin yfir Glerárgilið, eða Dauðagilið eins og það er gjarnan kallað meðal hlaupara. Þetta var svo sem ekkert meiri dauði en hvað annað – og niðri í gilinu sat líka kona og spilaði á harmoniku. Hún bætti svo sannarlega gleði í hlaupið.
Þegar upp úr gilinu var komið tóku við flatari kaflar – og þar gat ég alveg hlaupið á sæmilegum hraða þrátt fyrir krampana, bara ef ég passaði mig á öllum óvæntum upp-, niður- og hliðarskrefum. Þarna náði ég þónokkrum hlaupurum í 19 km vegalengdinni, þ.á m. Sigurbjörgu Akurnesingi, sem ég hitti síðast í Hrafntinnuskeri í Laugavegshlaupinu 2019. Allir svona fundir, þótt stuttir séu, glæða ferðalagið aðeins meiri gleði og bjartsýni. Millitíminn á háskólasvæðinu var 4:04:26, þ.e.a.s. u.þ.b. 19:30 mín lengri en að var stefnt (sjá töflu). Staðan hafði sem sagt lítið versnað frá því á Súlubílastæðinu.
Endaspretturinn
Þegar þarna var komið sögu bjó ég mér til nýtt markmið, nefnilega að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en 4:20 klst. Fyrir hlaup hafði ég ekki einu sinni hugmyndaflug í svoleiðis tölur, en þegar svona er komið er eins gott að vera þakklátur fyrir það sem þó er í boði. „Endasprettur“ er kannski ekki alveg rétta orðið yfir hraðann sem ég náði á þessum síðasta 3 km kafla, en ég fór hann alla vega á 15:22 mín sem er alls enginn gönguhraði. Ég fór meira að segja fram úr a.m.k. tveimur hlaupurum sem höfðu stungið mig af á leiðinni upp Súlur. Og þegar markið nálgaðist streymdi um þig þessi einstaka gæsahúðargleði sem fylgir því að ljúka svona hlaupaáskorun, sérstaklega þegar veðrið er gott, jafnvel þó að árangurinn sé undir væntingum. Toppurinn var svo að sjá Björkina mína, Gittu og tvo þriðju af barnabörnunum í Göngugötunni rétt áður en ég skokkaði í gegnum markið á 4:19:48 klst, sem sagt alla vega undir 4:20.

Hvað klikkaði?
Árangurinn í þessu hlaupi var vissulega langt undir væntingum – og ég veit svo sem alveg hvers vegna. Ég veit að ég fór ekki of hratt af stað og ég veit að ég tók inn nóg af næringu og vökva. Það eina sem vantaði voru fleiri kílómetrar í lappirnar og miklu fleiri hæðarmetrar á æfingum, sérstaklega síðusta mánuðinn. Ég var vissulega búinn að fara nokkrum sinnum á Hafnarfjallið, en ein og ein ferð á stangli dugar skammt til að geta farið almennilega upp og niður Súlur. Samt hélt ég að ég myndi ráða aðeins betur við þetta en raun bar vitni. En það gengur þá bara betur næst.
Næst!?
Strax og ég var kominn í mark langaði mig, þrátt fyrir allt, að gera þetta aftur við fyrsta tækifæri. Fyrsta tækifæri er á sama tíma að ári – og vonandi verða aðstæður mínar þá þannig að ég geti gert aðra atlögu að sömu vegalengd, betur undir búinn. Hlaupaleiðin og öll umgjörð hlaupsins toppar flest það sem ég hef upplifað í þessum efnum (sem er þó alveg slatti). Ég yfirgaf Göngugötuna stirður í fótum en lítið þreyttur að öðru leyti, enda hjarta og æðakerfi búin að hafa það frekar náðugt frá því að ferðalagið upp á Súlur hófst. Ég mæti sem sagt aftur næsta ár – og þá verður aftur sólskin á Akureyri.
Filed under: Hlaup |


Færðu inn athugasemd