Föstudaginn 8. ágúst sl. tók ég þátt í utanvegahlaupinu Molduxi Trail sem þá var haldið í fyrsta sinn. Hlaupaleiðirnar (12 og 20 km) liggja upp frá Sauðárkróki og sú lengri (sem ég valdi – með 900 m hækkun) fer alla leið upp á fjallið Molduxa (706 m.y.s.) fyrir ofan bæinn. Í stuttu máli gekk mér allt að óskum í þessu hlaupi og naut hverrar stundar, þrátt fyrir kuldalegt veður og þétta þokusúld á fjallinu. Og líkamleg heilsa á síðustu kílómetrunum var í þokkabót miklu betri en í síðustu tveimur hlaupum. Það hlýtur að vera góðs viti.
Aðdragandinn
Molduxi Trail er nýtt hlaup sem fyrr segir, að hluta til í umsjón hlaupahópsins 550 Rammvilltar á Sauðárkróki. Sara tengdadóttir mín er hluti af þeim hópi og lagði mikið af mörkum við undirbúning hlaupsins. Þess vegna kom aldrei annað til greina en að mæta og gera sitt besta í hlaupinu.
Keppnishlaupin raðast óvenjuþétt hjá mér þessa dagana. Fyrst var það Pósthlaupið (26 km) í Dölunum 26. júlí, svo Súlur (29 km) á Akureyri 2. ágúst – og svo þetta. Dagana eftir Súlur hafði ég líka hlaupið tvö fjallvegahlaup austan Eyjafjarðar, samtals rúma 50 km. Ég óttaðist að þetta væri kannski fullstór skammtur á stuttum tíma, en það virtist alls ekki vera þegar á hólminn var komið.
Kvöldið fyrir hlaup aðstoðaði ég Söru og félaga við að merkja leiðina upp og niður Molduxa. Þetta kvöld var strekkingsvindur, þoka, rigning og kuldi á fjallinu, sem kom sér eftir á að hyggja einkar vel fyrir mig, eins og ég kem kannski aftur að síðar í þessum pistli.
Áætlun dagsins
Það getur verið snúið að setja sér markmið í nýju hlaupi, því að þá hefur maður hvorki hugmynd um hvaða lokatími teljist raunhæfur, né um hæfilega millitíma miðað við tiltekinn lokatíma. Þess vegna þurfti ég annað hvort að leggja af stað án áætlunar eða smíða mína eigin áætlun frá grunni. Ég valdi auðvitað síðari kostinn, enda eru töluleg markmið stór hluti af hlaupatilverunni minni. Þessi áætlunarsmíði hófst með því að ég skipti leiðinni upp í átta áfanga út frá GPS-ferli („trakki“) frá Söru. Síðan reyndi ég að áætla hversu hratt ég gæti hlaupið hvern áfanga miðað við vegalengd, hækkun og lauslegar hugmyndir um undirlag. Niðurstöðurnar krotaði ég svo á rúðustrikað blað, sem mér finnst stundum ágætt að nota í staðinn fyrir Excel.


Upp að Molduxa
Hlaupið var ræst kl. 17 aftan við heimavist fjölbrautaskólans og byrjað á að hlaupa upp Sauðárgilið í gegnum Litla-Skóg – og svo eins og leið liggur í átt að Molduxa. Eftir 4,3 km var svo komið að skilti þar sem 20 km hlaupurum var ætlað að hlaupa til hægri áleiðis í kringum fjallið, en 10 km hlauparar áttu að beygja til vinstri meðfram fjallinu. Eins og sést á rúðustrikaða blaðinu reiknaði ég með að verða allt að 43 mín. þarna uppeftir sem er reyndar bara góður gönguhraði (6 km/klst = 10 mín/km), enda hækkunin hátt í 500 m þótt hvergi sé þetta bratt. Innst inni grunaði mig reyndar að ég yrði eitthvað fljótari, sem kom líka á daginn því að þessi fyrsti millitími hljóðaði upp á 36:43 mín. Það var bara fínt, en mig grunaði að sama skapi að tíminn á næsta áfanga væri vanáætlaður og því myndi þetta jafnast út. En mér fannst mér alla vega ganga vel á þessum fyrsta áfanga, veðrið enn nokkurn veginn þurrt en líklega var ég þó búinn að setja upp bæði húfu og hanska þegar þarna var komið. Rétt eins og í Súlum hafði ég gætt þess að púlsinn færi aldrei upp fyrir þröskuldsákefð (um 154 slög/mín, þ.e. 88% af líklegum hámarkspúlsi). Sem sagt: Allt á áætlun og rúmlega það.
Hringur um Molduxa
Áður en lengra er haldið er rétt að undirstrika að áætlun þessa dags fól ekki beinlínis í sér nein markmið, heldur bara lausleg viðmið til að ég hefði eitthvað að hugsa um á leiðinni. Það að ég væri orðinn rúmum 6 mín á undan áætlun eftir fyrsta áfangann kallaði því ekki fram neina sigurtilfinningu. En hver sem áætlunin er finnst mér auðvitað betra að vera á undan henni en á eftir.
Hringurinn um Molduxa („aftur fyrir“ fjallið) er um 3,6 km, ýmist aðeins upp í móti eða aðeins niður í móti. Hluti leiðarinnar er sæmilega hlaupanlegur, einkum undir lokin þegar komið er í Molduxaskarð. Á „bakhlið“ fjallsins eru hins vegar stuttir, nokkuð tæknilegir kaflar þar sem maður getur varla farið nema fetið. Þegar þarna var komið sögu var þokan orðin þéttari og engin leið að njóta útsýnisins sem þarna kvað vera til staðar á björtum dögum. En þetta hélt samt áfram að vera skemmilegt. Þegar hringnum var lokið sýndi klukkan 1:06:10 klst, sem passaði nákvæmlega við áætlunina að teknu tilliti til fyrrnefnds gruns um skekkjur í áföngum nr. 1 og 2.
Upp Molduxa
Leiðin sem við fórum upp fjallstoppinn er tæpir 900 m og hækkunin a.m.k. 210 m, þ.e. á að giska 23% halli. Þetta er því seinfarið fyrir flesta. Þarna var þokan þykk sem fyrr, dálítill vindur og nokkuð mikil úrkoma. Við svona aðstæður er ég oftast kulvís og kvíðinn, auk þess sem gleraugu verða gagnslaus og ekkert við þau að gera nema halda á þeim í hendinni. Ég sé frekar illa frá mér gleraugnalaus og því hefur þetta atriði stundum verið til vandræða.
Þennan dag kom sér mjög vel að hafa farið þessa sömu leið við merkingar kvöldið áður í engu betra veðri. Í ljósi þeirrar reynslu vissi ég að toppnum yrði náð fyrr en varði og því óþarfi að lokast inni í óttanum, sem ég hef oft upplifað, um að á bak við næstu hæð bíði alltaf önnur hæð. Ég var meira að segja svo öruggur með mig að ég ákvað að taka ekki regnstakkinn úr bakpokanum, enda hvarflaði ekki að mér að kuldinn yrði meiri en kvöldið áður. Vitneskjan um að þetta tæki fljótt af og vissan um hærra hitastig og minni úrkomu þegar fjallið væri að baki dugði til að halda á mér hita.
Á toppnum hitti ég einkar vinsamlega brautarverði og klukkan sýndi 1:22:27 klst. Ég hafði sem sagt „grætt“ um það bil hálfa mínútu á uppleiðinni.
Niður Molduxa
Mér sóttist niðurleiðin heldur seint, enda var þar að hluta hlaupið á blautu grasi sem ég óttaðist að gæti verið hált. Þarna „tapaði“ ég hálfu mínútunni aftur og klukkan sýndi 1:31:11 klst, sem sagt alveg á pari við rúðustrikaða blaðið. Þetta fannst mér skemmtilegt, þrátt fyrir að tímarnir á blaðinu væru jú bara lausleg viðmið. Já, og vel að merkja: Ég tók blaðið ekki með mér í hlaupið, enda hefði það ekki enst lengi í rigningunni. Hluti af undirbúningnum var því að leggja á minnið allt sem á því stóð.
Að drykkjarstöðinni
Eitthvað hafði ég misreiknað fjarlægðina frá fjallinu að drykkjarstöðinni (myndatökustaðnum), því að hún reyndist bara vera um 400 m en ekki 800 m eins og ég hafði gert ráð fyrir. Á þessum stutta kafla „græddi“ ég því auðveldar 2 mín. Millitíminn var 1:33:08 klst. og 10,1 km að baki.

Beygja á Kimbastaðagötum
Frá Molduxa lá hlaupaleiðin eftir Kimbastaðagötum, fyrst austur og suðaustur niður hlíðina, en síðan í krappri vinstri beygja til norðurs þar sem farið er yfir drög Sauðár (ef mér skjátlast ekki). Öll niðurleiðin fylgir þokkalegum vegarslóða sem hentar býsna vel til hlaupa. Fátt finnst mér skemmtilegra á hlaupum en svona jafnt og gott undanhald, enda líkist ég líklega Steini Steinarr að því leyti að „Styrkur minn liggur allur í undanhaldinu“. Millitíminn í beygjunni var 1:44:26 klst., sem sagt hálfri mínútu á undan áætlun. 12,14 km að baki.
Sauðárkrókur
Áfram hélt ég svo niður hlíðina eftir þessum ágætu Kimbastaðagötum í minnkandi úrkomu. Fór fram úr einum hlaupara á þessum kafla, en svo fór hann reyndar fram úr mér aftur skömmu síðar. Að öðru leyti hljóp ég stóran hluta hlaupsins einn, eins og oft vill verða í fámennum og tiltölulega löngum hlaupum. Félagsskapur er góður í svona ferðalögum en einsemdin er það líka. Mér sóttist ferðin til byggða allvel, meðalhraðinn á þessum kafla var 5:04 mín/km (enda hallaði hæfilega undan fæti) og þegar niður var komið sýndi úrið 16,34 km og 2:06:02 klst. Þarna var ég sem sagt orðinn 2 mín á undan áætlun.
Endasprettur
Síðustu fjórir kílómetrarnir í hlaupinu fólust í hringhlaupi um svonefnda Skógarhlíð – og síðan aftur niður í Litla-Skóg, allt þar til hlaupið endaði á sama stað og það hófst. Eins og sést á rúðustrikaða blaðinu hafði ég áætlað einn millitíma á þessum kafla, en þegar á hólminn var komið nennti ég ekki að hugsa meira um klukkuna. Rigningin var auk þess hætt og ég gat sett upp gleraugun. Nú var bara að einbeita sér að því að njóta – og bæta svo vel í hraðann í blálokin. Ég hafði ekkert fundið fyrir krömpum allt hlaupið, ólíkt því sem gerðist í hlaupunum næstu tvær helgar á undan, og þess vegna var þetta einstaklega léttur og ánægjulegur lokakafli. Ég kom í mark á 2:31:34 klst, sem sagt einni og hálfri mínútu á undan rúðustrikuðu áætluninni. Og það er langt síðan mér hefur liðið eins vel á marklínu. Hins vegar skal ósagt látið hvort þetta telst góður eða lélegur tími í stóra samhenginu, hvaða samhengi sem það annars er, enda fátt um viðmið.

Næringin
Í þessu hlaupi hélt ég mig við sama mataræði og næstu tvær helgar á undan. Ég miðaði sem sagt við að innbyrða 80 g af kolvetnum og hálfan lítra af vökva á hverri klukkustund. Það gekk nokkurn veginn eftir, nema kannski í blálokin þegar ég vissi að það skipti ekki máli lengur. Nákvæmlega tilgreint var meðalklukkutímaskammturinn 74 g og 400 ml, auk 50 mg af koffeini. Kannski fulllítill vökvi, en það kom ekki að sök. Kolvetnin tók ég inn í formi orkudufts sem var uppleyst í drykkjarbrúsunum í hlaupavestinu mínu, að viðbættu einu geli.
Þakklætið
Þakklæti er eiginlega alltaf sú tilfinning sem situr efst í huganum í lok svona keppnishlaups. Þennan daginn sem oftar var það aðallega þakklæti til fjölskyldunnar sem skapar mér aðstæður til að stunda þetta áhugamál – og þakklæti til Birkis hlaupafélaga sem kom keyrandi norðan af Ströndum til að taka þátt í þessu. Mestar þakkir fá þó 550 Rammvilltar – og þá sérstaklega Sara tengdadóttir fyrir hennar stóra þátt í að skipuleggja þetta allt saman og fyrir að gefa mér tækifæri til að tengjast þessu aðeins á undirbúningstímanum.
Filed under: Hlaup | Leave a comment »


