• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • október 2016
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  3031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Haustmaraþon 2016

Á Ægissíðunni eftir 32 km. (Ljósm. Þorkell).

Á Ægissíðunni eftir 32 km. (Ljósm. Þorkell).

Ég ákvað snemma í haust, líklega strax eftir Reykjavíkurmaraþonið (RM), að taka þátt í árlegu Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara (FM) fyrsta vetrardag. Aðalástæða ákvörðunarinnar var sú að mig langaði að bæta tímann frá því í RM (3:21:16 klst.) og svo vantaði mig líka eitthvert hlaupamarkmið sem næði langt fram eftir hausti. Besta leiðin til að halda sér við efnið er að stefna að einhverju tilteknu markmiði. Nú, í stuttu máli mætti ég í hlaupið og gekk vel. Árangurinn var að vísu undir væntingum og lakari en í RM sé bara horft á tölurnar. Hins vegar var þetta allt innan eðlilegra marka að teknu tilliti til æfinga og aðstæðna þennan laugardagsmorgun. Hvert vel heppnað maraþonhlaup sem bætist í safnið hressir upp á sjálfsmyndina, jafnvel þótt hún sé þokkalega sterk fyrir. Og í hverju hlaupi lærir maður eitthvað nýtt sem kemur sér vel síðar í lífinu, innan og utan hlaupaleiða.

Aðdragandinn
Æfingar haustsins voru langt frá því að duga sem undirbúningur fyrir virkilega gott maraþonhlaup, aðallega vegna þess hversu fáar þær voru. Að meðaltali tók ég 4 æfingar á viku síðustu 7 vikurnar fyrir hlaup og meðalvegalengdin var 59 km/viku. Þetta dugar mér rúmlega til viðhalds en meira þarf til ef stefnt er að framförum. Þessar vikur voru hins vegar alveg án skakkafalla á borð við meiðsli og veikindi. Ég var sem sagt almennt í góðu standi þó að ég væri ekki í toppformi. Svolítil vinnutörn með löngum ferðalögum síðustu tvo dagana fyrir hlaup spillti kannski örlítið fyrir, en ég þóttist þó vita að ég ætti að geta klárað hlaupið á u.þ.b. 3:20 klst. við eðlilegar aðstæður.

Eðlilegar aðstæður
Þessi laugardagsmorgunn var alveg eðlilegur, nema hvað hann var kannski örlítið hlýrri en gengur og gerist með síðustu laugardaga októbermánaðar. Hitastigið var rétt neðan við 10°C, talsverður vindur úr suðaustri og útlit fyrir rigningu. Mér finnst rigning skipta litlu máli í maraþonhlaupum að öðru leyti en því að þá er hráslagalegra en ella við rásmarkið og kuldinn sækir hratt að manni eftir að hlaupi lýkur. Mér finnst vindurinn verri, sérstaklega seint í löngum hlaupum þegar þreytan er farin að segja til sín. Vindáttin var þannig að búast mátti við meðvindi á fyrsta og þriðja hluta hlaupaleiðarinnar, þ.e.a.s. úr Elliðaárdal vestur á Ægissíðu, en mótvindi á öðrum og fjórða hluta þar sem sama leið er hlaupin til baka, sérstaklega í grennd við Reykjavíkurflugvöll þar sem ekkert skjól er að hafa.

Morgunverkin
Morgnar maraþondaga eru flestir keimlíkir þegar ég á í hlut: Vakna 3 klst. fyrir hlaup, borða sams konar morgunmat og alla aðra morgna, koma sér á hlaupstað og vera mættur þar hátt í klukkutíma fyrir hlaup. Að þessu sinni var ég einn á ferð úr Borgarnesi. Fjórir félagar mínir úr Hlaupahópnum Flandra voru reyndar skráðir til þátttöku, en þau ætluðu öll í hálft maraþon sem var ræst 2 klst. síðar en maraþonið. Mér finnst gott að fara með öðrum í svona hlaupaferðir, en mér finnst líka gott að fara einn. Það er bara öðruvísi. Í einverunni er fátt sem dreifir huganum og í henni býr ákveðin ró. En róin er að vísu berskjölduð fyrir áhyggjum af því sem í vændum er. Hæfilegur skammtur af áhyggjum er góður því að hann gerir líkamann tilbúinn til átaka. Of stór skammtur skapar vanlíðan og leiðindi. Viðfangsefnið í einverunni er að hafa sem besta stjórn á þessu.

Síðustu mínútur fyrir hlaup
Áður en lagt er af stað í keppnishlaup þarf að taka ýmsar ákvarðanir, sem eru mikilvægar á því augnabliki sem þær eru teknar þó að þær séu léttvægar í eilífðinni. Á maður t.d. að hlaupa í stuttbuxum? Ég hafði ætlað mér það í þessu tilviki, því að í 10 stiga hita þarf maður svo sem ekkert að vera í síðum buxum á hlaupum. Stuttbuxur eru léttari og það gerir ekkert til þó að manni finnist svolítið kalt í rásmarkinu. Þannig á það eiginlega að vera, því að annars verður manni jafnvel allt of heitt þegar líður á hlaupið. En þennan morgun langaði mig bara alls ekki að hlaupa í stuttbuxum. Það var súldarvottur úti og dimmt og hrollur í mér, hvað sem öllum hitamælum leið. Þar með var klæðaburður dagsins ákveðinn: Langermabolur og hlýrabolur utanyfir, síðar buxur og ullarhanskar. Engin húfa. Ég er ekki mikið fyrir höfuðföt nema við jaðaraðstæður. Og svo var kominn tími til að hita upp. Sumum finnst óþarfi að hita upp fyrir maraþonhlaup, því að vissulega hitnar maður á leiðinni. En mér finnst upphitun alltaf nauðsynleg, helst að skokka í 15 mínútur eða svo og ná að taka 4 góðar hraðaaukningar til að koma kerfinu í gang. Gamlar vélar þurfa sinn tíma. Í samræmi við þetta skokkaði ég svo sem 2 km á síðasta hálftímanum fyrir hlaup, en sleppti teygjunum sem mér finnst þó til bóta að blanda inn í þetta. Aðalatriðið er kannski ekki að vera allur orðinn mjúkur, heldur aðallega að líða sæmilega þegar lagt er af stað.

Áætlun dagsins
Sem fyrr segir langaði mig að hlaupa þetta hlaup undir 3:20 klst. Taldi mig svo sem geta hlaupið nálægt 3:16 við bestu aðstæður en það átti ekki alveg við í þessu tilviki. Ákvað að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:36 mín/km eða þar um bil en láta þó nægja að skoða gang mála ítarlega á 5 km fresti. Hver 5 km kafli átti samkvæmt þessu að vera á 23:00 mín.

Kílómetramerkingar í hlaupum FM eru alltaf dálítið villandi, sem á sér sínar skýringar en getur verið óþægilegt fyrir þá sem ekki þekkja til. Þannig eru t.d. 1,2 km að merkinu sem sýnir 1 km í maraþonhlaupinu. Í stað þess að nota þessar merkingar sem grunn í útreikningum mínum stillti ég Garminúrið mitt þannig að það tæki sjálfkrafa millitíma á 5,05 km fresti. Þetta hljómar kannski einkennilega en viðurkenndar hlaupaleiðir eru yfirleitt mældar með 1% öryggismörkum sem tryggja að leiðirnar séu aldrei styttri en sagt er. Þess vegna dugar ekki að reikna líklegan lokatíma út frá millitímanum á Garminúrinu, t.d. eftir 5 km. Þeir útreikningar gefa of bjartsýna niðurstöðu.

Hlaupið sjálft
Hlaupið var ræst við gömlu rafstöðina við Elliðaárnar kl. 8. Við vorum tæplega 40 sem lögðum af stað og smám saman voru væntanlega allir búnir að finna hraða sem hentaði þeim vel til lengdar. Ég var fljótlega lentur í góðum félagsskap þeirra Gunnars Ólasonar og Gauta Kjartans Gíslasonar, en ég oft verið samferða þeim báðum í hlaupum eða í einhverjum hlutum þeirra. Mér sýndist hraðinn vera nálægt áætlun en fór fljótt að gruna að áætlun dagsins myndi samt ekki ganga upp. Fyrstu 10 km voru nefnilega hlaupnir í meðvindi og þess vegna hefði hraðinn kannski þurft að vera aðeins meiri. Og þó, 4:36 mín/km samsvarar reyndar rétt rúmlega 3:14 klst. í maraþonhlaupi.

Millitíminn eftir 5 km (eða 5,05 km á Garminúrinu) var 23:12 mín, þ.e. 12 sek lakari en að var stefnt. Það var í fínu lagi en þó varla nógu gott miðað við aðstæður. Einhvers staðar nálægt 5 km markinu var einhver okkar þremenninganna næstum farinn villur vegar þar sem græn ör vísaði beint áfram en óljósari hvít ör til hægri. Sem betur fer áttuðum við okkur á að hvíta örin var sú rétta. Fréttum seinna að ekki hefðu allir verið svo heppnir. Það hafði svolítil eftirmál en mistök geta alltaf orðið.  Næst þarf að merkja brautina betur.

Ég gaf mér góðan tíma á öllum drykkjarstöðvum þennan dag. Tók eitt GU-gel við þær allar (7 stk.) og drakk vel fullt glas af vatni með. Missti af félögunum á fyrstu drykkjarstöðinni (við HR) en náði þeim aftur í Nauthólsvíkinni. Við fylgdumst svo meira og minna að lengi hlaups, stundum var einhver aðeins á undan, stundum á eftir, stundum var ég einn. Millitíminn eftir 10 km var 45:58 mín, sem sagt eiginlega alveg á áætlun. En um það leyti var meðvindurinn úr sögunni í bili og mótvindur tók við, sérstaklega á næsta 5 km kafla.

Vestur á Ægissíðu voru eldri börnin mín, Þorkell og Birgitta, mætt til að hvetja mig. Yngsta barnið, Jóhanna, þurfti hins vegar að mæta í vinnu og var því fjarri góðu gamni. Reyndar veit ég ekki hversu gott gaman það er að standa úti í strekkingi og súld á laugardagsmorgni og bíða eftir hlaupara sem er svo farinn hjá eftir augnablik. En fyrir hlauparann skiptir þessi stuðningur miklu máli, sérstaklega þegar fjölskyldan á í hlut.

Ágætlega sáttur, 12 km að baki og vindurinn í fangið. (Ljósm. Torfi Leifsson, hlaup.is).

Ágætlega sáttur, 12 km að baki og vindurinn í fangið. (Ljósm. Torfi Leifsson, hlaup.is).

Við snúningspunktinn á Ægissíðu voru 10,7 km að baki. Ég var ekki kominn langt á bakaleiðinni þaðan þegar ég var orðinn nánast viss um að lokatími undir 3:20 klst. væri ekki í boði. Vindurinn tók talsvert í, sérstaklega á bersvæði við flugvöllinn. Mótvindur hægir alltaf á manni og meðvindurinn sem maður fær í kaupbæti þegar snúið er við nær aldrei alveg að bæta það upp. Þriðji 5 km kaflinn var á 24:32 mín og sá fjórði á 24:52 mín. Millitíminn eftir 20 km var með öðrum orðum 1:35:22 klst. Og þegar ferðalagið var hálfnað var klukkan komin í 1:40:08 klst. Svo slakan millitíma eftir hálft maraþon sá ég síðast í RM í ágúst 2012 þegar ég var nýstiginn upp úr meiðslum og hálfveikur í þokkabót.

Þegar ég var kominn inn að Elliðaám, búinn að setja stefnuna aftur vestur á Ægissíðu og kominn með vindinn í bakið fann ég að ég var svo sem ekkert þreyttari en ég hafði verið á fyrstu kílómetrunum um morguninn. Mér leið prýðisvel og þetta gekk allt eins og best var á kosið, nema hvað ég hljóp hægar en mig langaði til að geta. Þegar markmiðin fjarlægjast er um þrennt að ræða; að berjast til þrautar í þeirri von að kraftarnir dugi á leiðarenda, að sætta sig við orðinn hlut og bægja frá sér hugsunum um erfiði og tilgangsleysi, eða að leggjast í almennt volæði. Ég valdi kost nr. 2, þ.e.a.s. að njóta gleðinnar í þessu öllu saman og gefa neikvæðum hugsunum frí. Hinir tveir valkostirnir eru oftast ávísun á vonbrigði. Þessi afslappaða nálgun leiðir kannski stundum til þess að maður hlaupi undir getu. Ég hef t.d. tekið eftir því að stundum hægist á hjartslætti og öndun í mótvindi og í brekkum, líklega vegna þess að ég nota ómeðvitað tækifærið til að slaka aðeins á úr því að hraðinn er hvort sem er orðinn minni. Þetta er líklega birtingarform einhvers konar leti. En hvaða máli skiptir það annars? Það er hvort sem er öllum nema sjálfum mér samt þótt ég komi hálfri mínútu seinna í mark. Dugleysinu verða ekki gerð skil á forsíðum blaða. Engir auglýsingasamningar tapast og ekkert landsliðssæti í veði.

Fimmta 5 km kaflann hljóp ég á 23:08 mín og þann sjötta á 23:13 mín. Þar með voru 30 km að baki og heildartíminn kominn í 2:21:43 klst, þ.e. 3:43 mín lengri en að var stefnt. Stundum er sagt að maraþonhlaup byrji eftir 30 km. Það gat svo sem alveg átt við þennan dag. Kannski var 31,7 km þó nærri lagi, því að þar var snúningspunkturinn á Ægissíðu, 10,5 km eftir og vindurinn aftur búinn að snúast gegn mér. Reynslan segir mér að síðustu 12,2 kílómetrana get ég hlaupið á 54-67 mín eftir því hvernig liggur á mér þann daginn. Sléttur klukkutími er oftast nærri lagi. Það hefði þýtt lokatíma upp á 3:22 klst. eða þar um bil. Svo sem ekkert nema gott um það að segja. Í allra versta falli gæti tíminn farið upp í 3:29 klst.

Ég hljóp ekkert tiltakanlega hratt vestan af Ægissíðu og í markið við Elliðaár, en mér leið vel allan tímann og var aldrei óþægilega þreyttur. Mér tókst líka að sjúga til mín orku frá öllum sem ég mætti á leiðinni og svo var sérstaklega notalegt að koma í 4. sinn við á drykkjarstöðinni hjá Jóhönnu Eiríks og félögum við HR. Vindurinn var líklega heldur farinn að gefa eftir þegar þarna var komið sögu, en úrkoman fór vaxandi. En hver getur kvartað yfir svolítilli golu og mildri rigningu seint í október?

Á endasprettinum á hitaveitustokknum við Elliðarár. Rigningin aðeins farið að setja mark sitt á myndefnið. (Ljósm. Haustmaraþon FM).

Á endasprettinum á hitaveitustokknum við Elliðarár. Rigningin aðeins farið að setja mark sitt á myndefnið. (Ljósm. Haustmaraþon FM).

Síðustu metrarnir – og svo heldur dagurinn áfram
Sjöundi 5 km kaflinn var ekkert hægari en kaflar nr. 3 og 4 þar sem líka var mótvindur. Tíminn á þeim sjöunda var 24:22 mín. Sá áttundi var hins vegar hægari en ég hafði búist við, 26:02 mín. Samt fann ég ekki að tekið væri að draga af mér að neinu ráði. Endamarkinu náði ég á 3:22:40 klst og átti nóg eftir í sæmilegan endasprett síðasta kílómetrann. Árangurinn var vissulega um 3 mín undir væntingum en líðanin góð og gleðin alveg óskemmd. Og þá var ekkert annað eftir en að komast í þurrt, njóta stundarinnar með þeim fjölmörgu sem ég kannaðist við á marksvæðinu, komast í heitan pott, fara út að borða með hlaupafélögunum úr Borgarnesi, setjast á kaffihús með þykka möppu og mæta á fund með fólki úr ítölsku viðskiptalífi á hóteli niðri í bæ kl. 4 síðdegis. Lífið og vinnan heldur áfram þó að eitt maraþon hafi bæst í safnið við þau 17 sem fyrir voru. En mér finnast bæði lífið og vinnan auðgast við hvert hlaup.