• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • september 2016
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Reykjavíkurmaraþon í blíðunni

Eftir 37 km. Hlaup.is.

Eftir 37 km. (Ljósm. Hlaup.is).

Í sumar hljóp ég 17. maraþonið mitt. Tók sem sagt þátt í Reykjavíkurmaraþoninu 20. ágúst sl., aðallega vegna þess að ég er vanur því og finnst það gaman. Og nú er ég búinn að skrifa maraþonbloggið, vegna þess að ég er líka vanur því og finnst það líka gaman.

Aðdragandinn
Fjórum vikum fyrir Reykjavíkurmaraþonið hljóp ég yfir Arnarvatnsheiði í afskaplega góðum félagsskap. Fann þá fyrir óþægindum framan á vinstri sköflungi á síðustu kílómetrunum og var naumast gangfær fyrstu tvo dagana á eftir. Vissi vel að þetta gat hvort sem er verið meiri háttar meiðsli eða minni háttar meiðsli sem gæti orðið meiri háttar ef ég leyfði því ekki að lagast áður en ég héldi hlaupaæfingum áfram af fullum krafti. Þegar allt kom til alls var þetta líklega bara einhver bólga sem stafaði einfaldlega af ofnotkun á þessum tiltekna sköflungi. Alla vega kenndi ég mér ekki nokkurs meins eftir að ég áræddi að byrja aftur að hlaupa tveimur vikum eftir Arnarvatnsheiðina. En þar sem þessar tvær vikur voru 50% af þeim fjórum vikum sem ég hafði til að undirbúa Reykjavíkurmaraþonið vissi ég að ég þyrfti að stilla maraþonvæntingunum í hóf. Almennt taldi ég þó andlegt og líkamlegt ástand mitt vera í góðu meðallagi.

Væntingarnar
Miðað við aðdragandann sem lýst er hér að framan og að teknu tilliti til skorts á gæðaæfingum næstu vikur og mánuði þar á undan vissi ég að þetta maraþon yrði ekki eitt af mínum bestu. Besta tímanum mínum til þessa náði ég í Reykjavíkurmaraþoninu 2013, 3:08:19 klst. Við venjulegar aðstæður á ég vel að geta hlaupið undir 3:15 klst. en á árunum 2009-2012 hljóp ég iðulega á 3:17-3:20 klst. Í versta falli hafa sést tölur á borð við 3:25 eða 3:30. Út frá þessu öllu saman áætlaði ég að 3:15-3:20 klst. væri raunhæft markmið. Betri tími kæmi varla til greina og lakari tími myndi valda vonbrigðum.

Ónógur undirbúningur fyrir maraþonhlaup hefur þann galla að maður getur ekki bætt sinn besta tíma. Kosturinn er hins vegar sá að þá getur manni verið nokk sama um 2-3 mínútur til eða frá. Maður losnar sem sagt við þessa sjálfsköpuðu pressu sem myndast þegar mikið er lagt undir.

Laugardagsmorgunn
Ég vaknaði að vanda kl. 5:40 að morgni Reykjavíkurmaraþondagsins. Hlaupið átti nefnilega að hefjast kl. 8:40 og ég hef það fyrir reglu að vakna alltaf 3 klst. fyrr og fá mér góðan morgunverð. Þá á mesta annríkið í meltingunni að vera búið þegar hlaupið hefst. Veðrið þennan morgun var eins og best varð á kosið og veðurspáin enn betri, útlit fyrir hægan vind, þurrt veður og allt að 15 stiga hita.

Kl. 6:40 lögðum við af stað úr Borgarnesi fjórir saman, nánar tiltekið ég, Gunnar Viðar, Kristinn (hér eftir nefndur Kiddó) og Bjarni Freyr, sonur Gunnars. Við karlarnir þrír vorum allir á leiðinni í heilt maraþon, þó að enginn okkar væri svo sem beinlínis í standi til þess. Ég hafði auk heldur boðist til að stjórna hlaupahraða okkar allra til að byrja með, sem eftir á að hyggja var kannski ekki gott tilboð. Áætlunin mín hljóðaði upp á rétt um það bil 4:37 mínútur á hvern kílómetra frá upphafi hlaups og þar til þreyta eða aðrar tilfinningar tækju hraðastjórnina yfir. Þessi hraði skilar manni í mark á 3:15 klst. (já, eða 3:14:48 svo fullrar nákvæmni sé gætt).

Segir nú ekki af ferðum okkar fyrr en bílnum hans Gunnars hafði verið lagt skammt frá BSÍ. Þaðan röltum við niður í miðbæ og drukkum í okkur eftirvæntinguna sem lá í loftinu á þessum fallega morgni. Maraþonmorgnar einkennast alltaf af eftirvæntingu og jafnvel hátíðleika. Og þegar veðrið er svona gott truflar fátt þá upplifun. Hluti af upplifuninni er að hitta fólk sem er að njóta þess sama og eftir því sem árin líða þekkir maður fleira og fleira af þessu fólki. Félagsskapurinn er eitt af því sem gerir það að verkum að maður er ríkari eftir hvert hlaup. Þarna er hvorki spurt um stétt né stöðu, enda eiga allir þeir sem raða sér upp við ráslínuna hlutabréf í sama kvíðanum, sömu eftirvæntingunni og sömu gleðinni.

Fyrstu 18 kílómetrarnir
Fyrr en varði var klukkan orðin 8:40 og allur skarinn lagður af stað, þ.á.m. við maraþonfélagarnir þrír úr Borgarnesi. Reyndar voru þarna tveir borgfirskir maraþonfélagar til viðbótar en þeir tóku sér stöðu aftar í rásröðinni. Mér fannst ég örlítið þungur á mér fyrsta kílómetrann en hraðinn var samt nokkurn veginn sá sem lagt var upp með, þ.e.a.s. 4:37 mín/km. Gunnar og Kiddó fylgdu mér eins og skugginn, eða öllu heldur ég þeim, því að þeir voru lengst af skrefinu á undan. Þetta gekk allt samkvæmt áætlun.

Þeir sem hafa hlaupið Reykjavíkurmaraþon hljóta að hafa tekið eftir því að Lynghaginn er aðalmaraþongatan. Þetta er hvorki löng né fjölmenn gata, en það er eins og fólkið sem þar býr viti betur en aðrir hvers virði það er fyrir maraþonhlaupara að fá hvatningu í nesti. Ég tók fyrst eftir þessu fyrir mörgum árum og nú tók ég enn betur eftir því en nokkru sinni fyrr, því að nú býr Birgitta dóttir mín einmitt í þesari götu. Hún var að sjálfsögðu mætt út á gangstétt þennan morgun með tónlist og bros til að hvetja pabba sinn, hlaupafélagana og öll hin þúsundin sem streymdu þarna hjá. Við Ægissíðuna hittum við svo Þorkel son minn sem var kominn út á gangstétt, nývaknaður með kaffibollann sinn, í sömu erindagjörðum. Þetta var góð byrjun á löngu hlaupi!

Gott augnablik eftir 6,5 km í Reykjavíkurmaraþoni. Ég er lengst til hægri á myndinni, þá Gunnar, Kiddó og Kjartan Sævarsson. (Ljósm. Hlaup.is).

Gott augnablik eftir 6,5 km í Reykjavíkurmaraþoni. Ég er lengst til hægri á myndinni, þá Gunnar, Kiddó og Kjartan Sævarsson. (Ljósm. Hlaup.is).

Þegar 15 km voru að baki vorum við félagarnir nákvæmlega 3 sek. á undan áætlun (1:09:12 klst í stað 1:09:15 klst). Það var náttúrulega alveg innan skekkumarka. Þegar þarna var komið sögu vorum við staddir á Sæbrautinni á inneftirleið. Við 16 km markið, rétt innan við gatnamótin við Langholtsveg, var snúið við og hlaupin sama leið til baka í átt að Kirkjusandi. Snúningspunktar hafa sína galla og sína kosti. Helsti gallinn finnst mér vera sá að þegar þreytan fer að segja til sín er lítið gaman að hlaupa 180° beygjur. Það kemur reyndar lítið að sök svona snemma í hlaupi. Þeir sem fylgdust með útsendingunni frá maraþonhlaupinu á Ólympíuleikunum í Ríó daginn eftir Reykjavíkurmaraþonið sáu hins vegar hversu óþægilegt þetta getur verið á síðustu kílómetrunum. Helsti kosturinn er aftur á móti sá að fyrir og eftir beygju getur maður stytt sér stundir við að horfa á hina hlauparana og skiptast á hvatningarorðum.

Mér fannst kaflinn fyrst eftir snúninginn á Sæbrautinni svolítið erfiður. Þarna er bunga á veginum en hallinn er þó ekki nema 1% þannig að í raun skiptir hann litlu máli. Kannski var æfingaskorturinn bara farinn að segja til sín. Og svo var komið að drykkjarstöðinni við Kirkjusand, þar sem u.þ.b. 18 km eru að baki. Ég hef alltaf svolítið uppáhald á þessari drykkjarstöð. Þar í kring er oft slæðingur af áhorfendum, einhverjir að spila tónlist – og bara almennt gott og hvetjandi andrúmsloft. En þegar ég var kominn framhjá drykkjarstöðinni fann ég allt í einu að ég var orðinn einn. Gunnar og Kiddó höfðu greinilega hægt á sér. Kannski myndu þeir birtast aftur fljótlega, kannski ekki. Þannig gengur þetta fyrir sig. Maður nær sjaldnast að kveðjast með handabandi þegar leiðir skilja. Það gerist bara.

Áætlunarferð: Kirkjusandur-Fossvogur
Leiðin frá Kirkjusandi upp að Hótel Nordica er brattasti kaflinn í Reykjavíkurmaraþoninu. Einu sinni fannst mér þetta kvíðvænlegur kafli en ég er hættur að hugsa þannig. Þarna hækkar leiðin um 25 m á rúmum km, sem er svo sem ekki neitt. Alla vega er ekkert erfiðara að hlaupa upp svona smábrekkur en á jafnsléttu. Það er í mesta lagi ögn seinlegra. Hraðinn var enn samkvæmt áætlun og mér leið vel. Millitíminn í Laugardalunum eftir hálft maraþon var 1:37:23 klst sem var nákvæmlega 1 sek. hraðara en ég hafði ætlað mér. Ég hafði samt á tilfinningunni að lokatími upp á 3:15 klst væri út úr myndinni, 3:18 væri hins vegar raunhæft. Og mér fannst það bara fínt.

Inn við Glæsibæ náði ég Ragnari bónda á Heydalsá á Ströndum. Hann var að hlaupa sitt fyrsta maraþon og hafði farið fram úr okkur Borgnesingunum einhvers staðar á fyrstu kílómetrunum. Á þessum slóðum var ég líka ýmist rétt á undan eða rétt á eftir Kjartani Sævarssyni úr Laugaskokki. Trausti Valdimarsson var líka þarna skammt undan. Þessir kappar hafa oft verið nágrannar mínir í hlaupum síðustu árin. Reyndar miðaði ég lengi vel við að mér gengi vel svo lengi sem Trausti hyrfi ekki úr augsýn.

Við Víkingsheimilið í Fossvogi voru 25 km að baki og enn var ég nánast nákvæmlega á áætlun, svo nákvæmlega að ekki skakkaði meiru en 10 sek. Þarna var drykkjarstöð að vanda og einhvern veginn gekk mér óhönduglega að gera það sem ég ætlaði að gera þar. Verkefnið var samt ekkert flókið, bara að vera búinn að sporðrenna einu orkugeli áður en komið væri á stöðina, ná mér í tvö glös af vatni, drekka slurk úr öðru á hlaupum og hella afganginum yfir í hitt og taka með út að næstu eða þarnæstu ruslafötu, og í þessu tilviki líka að veiða eitt steinefnahylki upp úr einhverjum vasa og koma því í mig. En nú brá svo við að mér tókst þetta allt hálf óhönduglega. Vatnið sullaðist niður að hluta, steinefnahylkið var næstum farið sömu leið og svo svelgdist mér einhvern veginn á þessu öllu saman. Ekkert af þessu telst reyndar til tíðinda eða flokkast sem alvarlegt bakslag í hlaupi. Ef allt er með felldu er maður fljótur að vinna upp fáeinar sekúndur sem ef til vill tapast í svona brölti. En þarna vissi ég samt að ferskleikinn var búinn og að erfiðari hluti hlaupsins væri í þann mund að hefjast með tilheyrandi hraðamissi. Ég var einfaldlega orðinn þreyttur. Þetta voru svolítil vonbrigði því að hafði reiknað með að þessi erfiðari hluti myndi ekki hefjast fyrr en eftir 30-32 km.

Ný áætlun
Nú var um tvo kosti að velja, annað hvort að hlusta á líkamanum, halda svipuðu álagi og áður og leyfa hraðanum að minnka, eða að reyna að halda hraðanum og taka afleiðingunum að því, hvort sem þær yrðu í formi yfirþyrmandi þreytu eða krampa, eða kannski bara ekki neinar eins og stundum gerist þó að maður haldi annað. Ég tók fyrri kostinn, hélt svipuðu álagi og sá hvernig mínussekúndurnar byrjuðu af safnast upp. Ég var hvort sem er ekki að keppa að neinum tilteknum lokatíma.

Millitíminn eftir 30 km var 2:19:34 klst sem þýddi að ég var orðinn u.þ.b. 1 mín á eftir áætlun. Ég geri yfirleitt ráð fyrir að ég geti klárað síðust 12,2 kílómetrana á klukkutíma, sem þýddi að lokatíminn yrði rétt undir 3:20 klst. En það var síður en svo í hendi enda þreytan orðin greinileg í skrokknum.

Einhvers staðar í grennd við 34 eða 35 km markið hitti ég Þorkel minn aftur. Hann var löngu búinn með kaffið sitt og búinn að skreppa niður í bæ að hvetja aðra hlaupara. Nú var hann mættur þarna aftur til að hvetja mig og taka myndir. Þetta hjálpaði mér heilmikið, ekki síst vegna þess að eftir fyrstu myndatökuna tók hann á rás á undan mér og var aftur mættur svo sem kílómetra síðar – og aftur kílómetra eftir það. Það væri gott að hafa fleira svona fólk í stuðningsliðinu sem hleypur á undan og hvetur mann svo á völdum stöðum.

Tekið að síga á seinni hlutann. Virðist samt þokkalega léttur tilsýndar. Þorkell tók myndina vestur á Seltjarnarnesi á 36. kílómetranum.

Tekið að síga á seinni hlutann. Virðist samt þokkalega léttur tilsýndar. Þorkell tók myndina vestur á Seltjarnarnesi á 36. kílómetranum.

Enn hægðist á og Garminúrið sýndi oftar en ekki hærri tölu en 5 mín/km. Eftir 40 km var millitíminn 3:10:06 klst. Á virkilega góðum maraþondegi hefði ég átt að vera kominn í markið um það leyti. En mér fannst það ekki skipta miklu máli þennan dag. Það stóð aldrei til að koma leiður í mark í þessu hlaupi og við það skyldi staðið hver sem lokatíminn yrði. Ég var svo sem í ágætu standi, engir krampar eða neitt, bara almenn þreyta í skrokknum. Ég held að mér hafi tekist vel að láta líta svo út að ég væri í toppstandi á lokakaflanum og í markið kom ég á 3:21:16 klst, vel studdur af fjölskyldu og nágrönnum sem höfðu raðað sér meðfram Lækjargötunni.

Sjö hlauparar úr Hlaupahópnum Flandra úr Borgarnesi að loknu Reykjavíkurmaraþoni, þar af 5 búnir með heilt maraþon, þar af 3 íbúar í Þórðargötu.

Sjö hlauparar úr Hlaupahópnum Flandra úr Borgarnesi að loknu Reykjavíkurmaraþoni, þar af 5 búnir með heilt maraþon, þar af 3 íbúar í Þórðargötu. (Man ekki hver tók myndina).

Lokaorð
Maraþon er alltaf óvissuferð og í óvissuferðum veit maður ekki sjálfur hvernig ferðasagan muni enda. En ég var alla vega sáttur við þetta ferðalag og leið þokkalega þar sem ég ráfaði um marksvæðið og ræddi málin við alla sem ég hitti, eins og maður gerir ævinlega eftir svona hlaup. Það er hluti af upplifuninni. Ég gat líka fjarlægt tímatökuflöguna af skónum mínum hjálparlaust, sem ég tel vera merki um gott ástand að hlaupi loknu. Stundum er erfitt að beygja sig en það var bærilegt þennan dag.

Eftir drykklanga viðdvöl á marksvæðinu fann ég leiðina út fyrir girðinguna sem lokar svæðið af, en fyrst tók ég á móti Ragnari Bragasyni og hlaupafélögum mínum úr Borgarnesi þegar þeir komu í markið. Ragnar og Kiddó voru báðir að hlaupa sitt fyrsta maraþon og mér finnst alltaf gott að deila þeirri upplifun með fólki. Þeir voru auðvitað þreyttir, en þó ekki sýnilega verr á sig komnir en ég eftir fyrsta maraþonið mitt fyrir réttum 20 árum. Eftir því sem maraþonunum fjölgar kemur færra á óvart.

Tveir af aðalstyrktaraðilunum, miðbarnið Birgitta og eiginkonan Björk. Birgitta nýbúin að hlaupa síðasta sprett (12,2 km) fyrir Umhverfisstofnun í maraþonboðhlaupi. Yngsta barnið Jóhanna tók myndina.

Tveir af aðalstyrktaraðilunum, miðbarnið Birgitta og eiginkonan Björk. Gitta nýbúin að hlaupa síðasta sprett (12,2 km) fyrir Umhverfisstofnun í maraþonboðhlaupi. Yngsta barnið Jóhanna tók myndina.

2 svör

  1. […] ákvað snemma í haust, líklega strax eftir Reykjavíkurmaraþonið (RM), að taka þátt í árlegu Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara (FM) fyrsta vetrardag. […]

  2. […] Reykjavíkurmaraþonið var 9. keppnishlaup ársins, en þetta var 12. árið í röð sem ég tek þátt í því. Yfirleitt hef ég þá hlaupið heilt maraþon, eins og ég gerði núna, en stundum hálft. Þetta gekk svo sem eins og við mátti búast miðað við óheppilega tímasett tveggja vikna hlaupahlé eftir Arnarvatnsheiðina. Ég varð bara aðeins of þreyttur síðustu 15 kílómetrana og tíminn í samræmi við það, nokkuð undir væntingum, 3:21:16 klst. Ég átti að geta betur, en í maraþonhlaupi þarf margt að ganga upp. Veðrið var dásamlegt og dagurinn fullur af gleði, hvað sem tímanum leið. […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: