Bráðum vorar og þá fara köngulærnar á kreik. Í tilefni af því og í tilefni af umræðum á samfélagsmiðlum um ágæti eða ómöguleika köngulóa birtist hér svolítill pistill sem ég flutti í Samfélaginu á Rás 1 22. júní í fyrra.
Köngulær
(Pistill fyrir Samfélagið á RÚV 22. júní 2017)
Á vorin og eitthvað fram eftir sumri er annatími hjá þeim sem hafa atvinnu af því að eitra fyrir óæskilegum dýrum og illgresi í og við híbýli manna. Þetta endurspeglast meðal annars í auglýsingum í útvarpi og blöðum, svo og í umræðu á samfélagsmiðlum þar sem fólk spyr hvert annað hvernig best sé að losna við tilteknar lífverur sem gera því lífið leitt.
Einn hópur lífvera sem gerir fólki stundum lífið leitt eru köngulær. Þær eiga það til að spinna vefi á ólíklegustu stöðum, svo sem utan á húsum. Og þegar vefirnir eru tilbúnir, bíða köngulærnar hinar rólegustu eftir því að einhver skorkvikindi festi sig í þeim. Þá er matartími, eða kannski oftar uppskerutími eða sláturtíð, þar sem matnum er pakkað inn til síðari nota.
Í upphafi þessa pistils var minnst á óæskileg dýr. Mörgum finnast köngulær eiga heima í þeim flokki og í samræmi við það heyrast annað slagið auglýsingar þar sem fólki er boðin þjónusta þeirra sem sérhæfa sig í að eitra fyrir köngulóm.
Þegar allt kemur til alls eru íslenskar köngulær sárameinlaus kvikindi, nema ef maður er skordýr. Þær gera mönnum sem sagt ekkert mein. Hins vegar er alveg eðlilegt að það fari í taugarnar á einhverjum að vera með köngulóarvef í andlitinu eða hárinu eftir stutta gönguferð í garðinum eða eftir að hengja út þvottinn. Og svo er líka til fólk sem er haldið bráðri köngulóafælni, og getur ekkert að því gert.
Rétt eins og aðrar lífverur, að manninum kannski undanskildum, eru köngulær markaðsdrifin fyrirbæri, í þeim skilningi að þær hasla sér völl þar sem einhverja fæðu er að hafa – og annars staðar ekki. Ástæða þess að köngulær gera sig sérstaklega heimakomnar á tilteknum svæðum eða við tiltekin hús er því einfaldlega sú að þar hafa þær nóg að bíta og brenna. Þar er sem sagt nóg af einhverjum skorkvikindum sem álpast í netin þeirra. Takist manni það ætlunarverk að útrýma köngulóm í nánasta umhverfi sínu er því líklegt að öll hin dýrin, sem áður voru fæða fyrir köngulær, fjölgi sér sem aldrei fyrr og búi til nýtt vandamál fyrir húseigandann sem vill kannski helst vera eina lífveran á lóðinni sinni. Kannski er þá næsta skref að eitra líka fyrir þessum fyrrverandi köngulóarkræsingum, þ.e.a.s. ef þær drápust ekki af upphaflega köngulóareitrinu.
Þegar búið er að drepa köngulærnar og matinn þeirra líka, hvort sem það var gert í einni eða fleiri eiturherferðum, gætu ný vandamál skotið upp kollinum. Köngulær hafa nefnilega ekki það eina hlutverk í lífinu að éta skordýr og skordýr hafa heldur ekki það eina hlutverk í lífinu að vera matur fyrir köngulær. Hvorki ég né nokkur annar hefur fullkomna yfirsýn yfir öll þessi hlutverk, en alla vega má geta sér þess til að sum skordýrin nærist á lirfum annarra skordýra og séu matur fyrir t.d. fugla. Séu þessi skordýr fjarlægð verður hátíð hjá lirfunum sem verða þá enn afkastameiri en fyrr við að éta laufblöðin sem þær mega alls ekki éta. Og fuglarnir, sem annars hefðu étið lirfurnar, eru kannski ekki til staðar vegna þess að uppáhaldsskordýrin þeirra dóu í köngulóarherferðinni eða í næstu herferð þar á eftir og neyddust því til að leita annað, eða þá að þeir veiktust eða drápust þegar þeir átu aðeins of mikið af eitruðum skordýrum í morgunmat.
Þó að maðurinn hafi einu sinni ákveðið að hann væri herra jarðarinnar er ekki víst að hann sleppi óskaddaður úr baráttu sinni við lífverur sem hann telur óæskilegar. Köngulóaeitur, skordýraeitur og lirfueitur nútímans eru kannski ekkert baneitruð fyrir menn, svona við fyrstu kynni og í litlum skömmtum, en mannsævin er löng og ef eitthvað af efnum úr eitrinu kemst inn í líkamann og nær að safnast þar upp við hliðina á öllum hinum efnunum sem þessi sami maður fékk úr innilofti, snyrtivörum, unnum matvælum, málningu, niðursuðudósum, tóbaksreyk, barnaleikföngum, regnstökkum, lyfjum, svifryki, sólarvörn, bensínbrælu eða einhverju enn öðru, er aldrei að vita nema það komi niður á lífslíkum og lífsgæðum síðar á ævinni. Þá getur viðkomandi sem sagt orðið fyrir barðinu á kokteiláhrifum, þar sem samanlögð skaðleg áhrif margra óskaðlegra skammta af mörgum mismunandi efnum verða meiri en góðu hófi gegnir. Og þegar börn eiga í hlut lítur málið enn verr út. Eituráhrif sem maður verður fyrir í móðurkviði eða í æsku eru nefnilega líklegri til að valda skaða á meðan líffærin eru enn að þroskast, þar með talinn heilinn sem þarf að endast manni allt lífið og leysa ólíklegustu viðfangsefni fljótt og vel. Og það eru jú einmitt börnin sem eru líklegri en þeir fullorðnu til að vera á ferðinni utandyra í sama umhverfi og köngulærnar og allar hinar óæskilegu lífverurnar sem þar kunna að vera á sveimi.
Þessi pistill fjallar ekki um köngulær. Hann fjallar um þá skammsýni eða það óhóflega sjálfsálit mannsins sem endurspeglast í trúnni á að hægt sé að taka einstaka hluta vistkerfisins úr umferð án þess að það hafi áhrif á aðra hluta kerfisins. Vissulega vill maður hafa hreint í kringum sig og helst vill maður vera hreinn sjálfur. Í þeirri ósk felst þó ákveðin þversögn þegar haft er í huga að í líkama venjulegs manns eru líklega um 30% fleiri bakteríufrumur en líkamsfrumur. Við erum sem sagt í ævilangri sambúð við alls konar lífverur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, eða hvort sem við teljum einhverjar þeirra æskilegar eða óæskilegar. Við vitum vissulega ýmislegt um þessa sambúð og um samspil lífvera almennt, en enn sem komið er nær þessi vitneskja þó mun skemmra en okkur hættir til að gera ráð fyrir. Við vitum sem sagt til þess að gera sáralítið hvaða áhrif það hefur á heildina að fjarlægja eina lífveru úr kerfinu, já eða bæta einni lífveru við. „Maðurinn óf [nefnilega] ekki vef lífsins. Hann er bara hluti af þessum vef“, eins og ónefndur Indíánahöfðingi orðaði það einhvern tímann. „Og það sem gerir vefnum, það gerir hann sjálfum sér“.
Filed under: Uncategorized | Leave a comment »