• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • mars 2023
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Góðar minningar úr Dyrfjallahlaupi

Ég hljóp Dyrfjallahlaupið 9. júlí sl., þrátt fyrir að ég hefði nánast ekki getað hlaupið neitt af viti síðustu fimm mánuðina þar á undan vegna meiðsla. En ég lét mig hafa það, annars vegar vegna þess að ég var orðinn nógu góður til að geta skokkað nokkra kílómetra og hins vegar vegna þess að Dyrfjallahlaupið er eitthvað sem ég vil alls ekki missa af. Náttúran þarna fyrir austan er einfaldlega of stórkostleg til að njóta hennar ekki – og yfirbragðið á hlaupinu er líka einhvern veginn þannig að manni getur ekki annað en liðið vel í sálinni, þó að líkaminn sé kannski frekar þvældur.

Í mínum augum felst fegurð náttúrunnar ekki bara í náttúrunni sjálfri, heldur líka í sögunni sem hún geymir, hvort sem það er jarðsaga eða mannkynssaga, og í vitneskjunni sem býr í manni sjálfum um þessa náttúru og þessa sögu. Á Borgarfirði eystra er náttúruupplifunin samt svo sterk að maður þarf ekki að vita neitt til að falla í stafi, svo lengi sem maður hefur fjallasýn.

Hlaupaleiðin
Hlaupaleiðin í Dyrfjallahlaupinu liggur reyndar ekki um Dyrfjöll, en þegar bjart er í veðri vaka þau yfir öllu saman. Fyrstu tvö árin sem hlaupið var haldið (2017 og 2018) lá leiðin umhverfis þessu miklu fjöll, en síðan var horfið frá því, væntanlega af öryggis- og náttúruverndarástæðum. Síðan þá hefur leiðin legið frá Borgarfirði um Víknaslóðir – og aftur til Borgarfjarðar. Lagt er af stað við brúna yfir Þverá, svo sem 8 km innan við þorpið í Bakkagerði, rétt eins og leiðin lægi eftir jeppaveginum til Loðmundarfjarðar. Fyrsta spölinn er þeim vegi fylgt en síðan er sveigt til vinstri út af honum með stefnu niður í Breiðuvík. Við Gæsavötn er aftur komið á jeppaveg, þ.e.a.s. veginn niður af Víknaheiði, sem endar svo niðri í víkinni. Fyrir 140 árum bjuggu hátt í 30 manns á tveimur bæjum í þessari vík, en nútímatækni hélt aldrei innreið sína í víkina og 1947 lagðist byggðin endanlega af. Þetta er grösug vík með talsverðu undirlendi, en það þurfti „dugnað og fyrirhyggju“ til að nýta sér landkostina, eins og einn ábúandinn orðaði það á sínum tíma.

Úr Breiðuvík liggur leiðin upp brattar grasbrekkur og gróðurminni holt upp á Kjólsvíkurvarp. Þar sést niður í Kjólsvík og þar var líka búið á sínum tíma (til 1938) þó að undirlendið sé miklu minna en í Breiðuvík, nútímatæknin enn fjarlægari og þörfin fyrir dugnað og fyrirhyggju enn meiri. Áfram er svo haldið upp á Syðravarp þar sem hlaupaleiðin liggur hæst, í 445 m hæð – og síðan um Súluskarð. Eftir það lækkar landið áleiðis til Brúnavíkur. Þar er svolítill spölur hlaupinn eftir sendinni fjöru, Brúnavíkurá vaðin rétt ofan við flæðarmálið og síðan stefnt til fjalls á ný, upp í Brúnavíkurskarð. Um Brúnavík var einhvern tímann sagt að þaðan færi enginn ríkari en hann kom. Þar var samt búið til 1944 og m.a. stunduð kartöflurækt.

Leiðin upp í Brúnavíkurskarð er líklega erfiðasti hlutinn af hlaupaleiðinni, bæði vegna þess að hlíðin er býsna brött og vegna þess að í Brúnavík eru rúmir 19 km að baki af þessum 23,75 sem er heildarvegalengdin í hlaupinu. Þreyta í fótum sem treysta sér ekki vel í þriðju hækkun dagsins nær þá næstum að yfirvinna gleðina yfir því hversu stutt er í mark. En þegar komið er upp í skarðið (354 m) blasa Dyrfjöllin við hinum megin fjarðar og á því augnabliki uppsker maður ávöxt erfiðisins.

Úr Brúnavíkurskarði eru ekki nema 2,5 km eftir niður á marksvæðið úti við Höfn, þar sem lundarnir eiga heima – og á þeim kafla er varla pláss fyrir annað en tilhlökkun og þá árvekni sem þarf til að kunna fótum sínum forráð á niðurleiðinni.

Jósep Magnússon í Brúnavíkurskarði, öruggur með 4. sætið í hlaupinu. Bara endaspretturinn eftir – og Dyrfjöll vaka yfir. (Ljósm. Gunnar Atli Fríðuson).

Dagarnir fyrir hlaup
Dagana fyrir hlaup hafði ég og fjölskyldan mín látið fara vel um sig í sumarbústað í útjaðri Egilsstaða. Auk þessarar venjulega afslöppunar sem fylgir sumarbústaðaferðum hafði ég náð að hlaupa þrjú fjallvegahlaup, en svoleiðis hlaupum safna ég á svipaðan hátt og aðrir safna sérvíettum eða kílóum. Dyrfjallahlaupið, en ekki fjallvegahlaupin, var samt ástæða þess að ég valdi Austurlandið enn eina ferðina.

Að morgni hlaupadags fékk ég far með Jósep Magnússyni, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi, frá Egilsstöðum út á Borgarfjörð. Jósep er ekki bara einn af öflugustu og reyndustu langhlaupurum landsins, heldur er hann líka talsvert lausari við áhyggjur og smámunasemi en annað fólk. Sennilega hefði enginn nema hann ákveðið kl. 16 á föstudegi að taka þátt í Dyrfjallahlaupinu daginn eftir, keyrt frá Borgarnesi með fimm manna fjölskyldu og hjólhýsi, komið sér fyrir á tjaldstæðinu á Egilsstöðum, náð góðri næturhvíld þar, verið mættur sultuslakur á ráslínuna á Borgarfirði eystra löngu fyrir kl. 10 á laugardagsmorgni – og endað svo í 4. sæti í hlaupinu.

Hlaupaáætlun („Gameplan“) dagsins
Eins og gefið er í skyn í inngangi þessa pistils var ég alls ekki í standi til að hlaupa þetta Dyrfjallahlaup, þó að ég byggist vissulega við að komast í mark með einum eða öðrum hætti. Þegar ástandið á skrokknum er lélegt kemur reynslan inn af varamannabekknum. En ég gerði mér samt áætlun um alls konar millitíma og lokatíma, sem ég reiknaði út frá Dyrfjallahlaupinu árið áður, rétt eins og ég er vanur að gera fyrir Laugavegshlaupin. Einhverjum kann að hafa dottið í hug að segja mér, að þegar litlar eða engar æfingar séu í bakpokanum sé skynsamlegast að leggja öll viðmið til hliðar og einbeita sér bara að því að njóta, þ.e.a.s. fyrst maður er staðráðinn í að hlaupa þetta hlaup á annað borð. Tíminn skipti ekki máli. En fyrir mér er tölfræðin stór hluti af nautninni. Hana legg ég aldrei til hliðar. Og auðvitað vissi ég að tíminn minn frá því í fyrra væri ekki raunhæft viðmið. Þá gekk mér býsna vel og lauk hlaupinu á 2:46:31 klst. Síðustu 16 vikurnar þar á undan hafði ég hlaupið samtals 1.035 km á æfingum, en á þessu ári var sambærilegur skammtur ekki nema 224 km. Þessar tölur segja svo sem ekki alla söguna um hlaupaformið, en gefa vissulega vísbendingu. Með hliðsjón af þessu datt mér í hug að 10% lakari tími en í fyrra (3:03:10 klst.) væri líklegur – og það var bara fínt. En svo lá talan 3:00:00 klst. svo vel við höggi að ég ákvað að nota hana sem viðmið. Ekki sem markmið, heldur bara sem viðmið. Mér var sem sagt eiginlega sama þótt tíminn yrði eitthvað lakari en það, því að allt var vel þegið eftir það sem á undan var gengið í meiðslum og veseni. Í samæmi við þetta leit áætlun dagsins svona út í Excelnum mínum:

Fyrstu 5 km
Mér leið bara vel á fyrstu kílómetrum hlaupsins og fann að dagsformið var gott, þó að ársformið væri lélegt. Eins og stundum áður streymdi fólk fram úr mér á leiðinni upp brekkur, en svo gekk mér betur þar sem hallaði undan fæti. Reyndar hafa heilsuvandamál síðustu mánaða einkum átt lögheimili í hnjánum, og þá eru niðurhlaupin í minna uppáhaldi en ella. En þetta var samt bara fínt og tilfinningin góð að vera kominn af stað í keppnishlaup eftir 11 mánaða hlé frá slíku. Ég var því býsna spenntur að sjá millitímann eftir 5 km, sem voru einmitt búnir rétt hjá Gæsavötnum. Þar sýndi klukkan 36:03 mín, vissulega 23 sek á eftir áætlun, en sjálfsagt innan 10% markanna. Ég var sáttur.

Á fyrstu kílómetrunum. (Ljósm. Fannar Magnússon).

Gæsavötn-Breiðuvík
Á þessum kafla færðist ég talsvert framar í röðina, en fannst auðvitað svolítið leiðinlegt að geta ekki látið vaða niður brekkurnar eins og ég hef yfirleitt getað gert. En ég var samt staðráðinn í að taka vel á því á þessum kafla, því að þarna er jeppavegur nánast alla leið og ég er í raun skástur á sæmilega sléttu undirlagi eins og staðan er núna. Ég varð því fyrir svolitlum vonbrigðum að sjá millitímann 1:07:45 klst. í Breiðuvík. Ég var þá orðinn u.þ.b. einni og hálfri mínútu á eftir áætlun – og eftir á að hyggja ekki innan 10% markanna. En hverjum var ekki sama? Gleðin yfir því að vera aftur mættur í hlaup, og það á þessum uppáhalds hlaupaslóðum mínum, var miklu sterkari en heimatilbúin vonbrigði yfir því að geta ekki alveg það sem ég hélt að ég gæti – kannski.

Nokkuð brattur á leiðinni af Víknaheiði niður í Breiðuvík. (Ljósm. Þorsteinn Roy).

Upp úr Breiðuvík
Ferðalagið upp úr Breiðuvík sóttist mér seint, eins og ég bjóst reyndar við. Styrkurinn í fótunum dugar ekki í langar brekkur, svo að þarna kom þolinmæðin í góðar þarfir. Einhvers staðar á þessari leið náði Ásdís Ingvarsdóttir mér. Hana var gaman að hitta, en við hlupum síðast saman í fjallvegahlaupi vestur á Snæfellsnesi fyrir 7 árum. Svona líður tíminn. Rétt áður en ég náði upp á Syðravarp sýndi úrið 15 km og millitímann 1:50:27 klst. Þarna var farið að draga í sundur með mér og áætluninni, munurinn orðinn rúmar 3 mínútur. En mér fannst gott að koma þarna upp og finna fyrir minningum frá árinu 2019 þegar ég hljóp þarna með Gittu minni í þoku og rigningu.

Niður í Brúnavík
Á leiðinni niður úr Súluskarði fann ég að hnén og framanverð lærin voru ekki þakklát fyrir það uppátæki mitt að vilja endilega fara í þetta hlaup. Þarna náði ég samt einhverjum hlaupurum – og aðrir tóku framúr. Og gleðin var enn til staðar, gleðin yfir því að hafa látið mig hafa það að vera með þrátt fyrir allt, gleðin yfir því að geta þetta ennþá, gleðin yfir vissunni fyrir því að ég myndi skila mér í mark á endanum – og gleðin yfir hvatningarorðunum sem starfsfólk hlaupsins kallaði til mín þarna í skörðunum. Sum voru of falleg til að ég treysti mér til að setja þau á blað. Og sólin skein, þó að þokan og þreytan væru greinilega frekar í sóknarhug en hitt. Og millitíminn við drykkjarstöðina neðan við björgunarskýlið í Brúnavík var 2:23:35 klst. Jæja, þarna voru þá farnar 6 mínútur miðað við áætlunina. Allt tal um 3 klst. lokatíma var hætt að vera raunhæft, en kannski var 3:10 innan seilingar. Það var alveg nógu gott. Hlaupaskórnir voru enn fullir af gleði – og vatni úr Brúnavíkurá.

Í fjörunni í Brúnavík. Myndin er tekin sumarið 2019 þegar við Gitta hlupum þarna um.
Í brekkunum upp úr Brúnavík.
(Ljósm. Þorsteinn Roy).

Síðasti áfanginn
Síðasti áfanginn var drjúgur og brekkurnar upp úr Brúnavík brattari en árið áður. Þá fékk ég líka orku og aukaskammt af gleði frá 12 km hlaupurum sem ég fór fram úr á uppleiðinni. Nú voru þau greinilega flest farin hjá. Einn af brautarvörðunum í brekkunum benti mér á að ég væri heppinn að vera kominn yfir Súluskarð. Ég leit um öxl og sá að skarðið var orðið fullt af þoku, þar sem sólin hafði skinið á mig hálftíma fyrr. Í brekkunum hitti ég líka einhvern ljósmyndara, sem var ekki bara búinn að fylgja mér annað slagið á leiðinni, heldur gat hann labbað hraðar afturábak með þunga myndavél en ég gat hlaupið áfram með engan farangur. Reyndar heitir þessi „einhver ljósmyndari“ Þorsteinn Roy og er næststerkasti utanvegahlaupari Íslands skv. alþjóðlegum styrkleikalista ITRA. Á þeim lista var ég í 236. sæti af Íslendingum síðast þegar ég gáði.

Þó að brekkurnar upp úr Brúnavík reyndust mér erfiðar, var heimreiðarléttleikinn farinn að gera vart við sig, enda ekki nema 2,5 km í mark þegar maður er kominn upp í Brúnavíkurskarð. Ég sá sjálfan mig fyrir mér geysast niður brekkurnar hinum megin og þjóta fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum. Það gerðist reyndar ekki, því að þegar þarna var komið sögu höfðu löskuðu hnén ekki mikinn áhuga á frekara samstarfi við þennan bjartsýna heila. Og enn varð heilinn að spila út sínu sterkasta trompi, þolinmæðinni, eða eigum við kannski að kalla það seiglu? Alla vega kom ég brosandi í mark um síðir á 3:10:54 klst.

Við Sara, sátt eftir hlaup.

Eftir hlaup
Marksvæði hlaupa eru uppáhalds-svæðin mín. Þar hitti ég ævinlega fullt af fólki sem ég þekki, enda er hlaupavinahópurinn orðinn býsna stór eftir öll þessi ár. Á svona svæðum ríkir gleðin „ofar hverri kröfu“. Marksvæðið við Höfn var engin undantekning frá þessu – og hápunkturinn var að hitta Söru tengdadóttur, sem kom í mark rétt á eftir mér og var þarna að bæta sig um heilar 45 mínútur frá hlaupinu í fyrra. Líklega bíður hún eftir mér í markinu næst.

Þakkarorðin
Eftir svona hlaup er gleðin ekki alveg ein við völd, þrátt fyrir allt. Þakklætið er nefnilega líka í afar stóru hlutverki. Ég hef svo sem oft skrifað um þá tilfinningu og þarf kannski ekki að endurtaka það í hverjum pistli. Þakklætið beinist fyrst og fremst að mínum nánustu, t.d. fjölskyldunni sem nennir að vera með mér á ferðalögum í ólíklegustu landshlutum, þó að allir viti að kveikjan að ferðinni séu eigingjörnu hlaupaáformin mín. Og svo beinist þakklætið líka að forsjóninni, því að auðvitað er ekkert sjálfsagt að fólk sem er komið hálfa leið á sjötugsaldurinn geti hlaupið klukkutímum saman um fjöll og firnindi, hvað sem öllum Excelskjölum og mínusmínútum líður. Og í þessu tilviki verð ég líka að bæta við sérstökum þökkum til Olgeirs Péturssonar og annars forsvarsfólks Dyrfjallahlaupsins fyrir að standa fyrir þessari fallegu gleðihátíð og gefa mér þannig tilefni og tækifæri til að njóta náttúrufegurðarinnar og gestrisninnar sem einkennir Borgarfjörð eystra – já, og Víknaslóðir líka þó að föst búseta hafi lagst þar af. Þarna er bara eitthvað í andrúminu sem ég sæki orku í – aftur og aftur. Vonandi get ég notið þess aftur að ári.

Hlaupaannáll 2021 og markmiðin 2022

Hlaupin bæta lífi við árin mín. Myndina tók Sóley Birna Hjördísardóttir á Kollabúðaheiði í júní 2020.

Nú er enn eitt hlaupaárið að baki og kominn tími á enn einn hlaupaannálinn, þann 15. í röðinni. Í stuttu máli var þetta nýliðna ár gott hlaupaár, þó að árangur í keppnishlaupum hafi verið nokkuð undir væntingum. Það eitt að geta stundað þetta áhugamál er nóg til að gera hvaða ár sem er að góðu ári.

Stóra myndin
Í upphafi ársins 2021 var ég tæplega í hlaupafæru standi vegna eymsla í hægri kálfa. Þetta var búið að angra mig í nokkrar vikur og um þetta leyti var mér orðið ljóst að ég kæmist ekki mikið lengra án þess að breyta um áherslur. Þess vegna tók ég eitt skref til baka og byrjaði nánast frá grunni samkvæmt sérstakri Endurreisnaráætlun sem ég útbjó fyrir sjálfan mig. Þessi áætlun gekk í aðalatriðum út á að auka hlaupamagnið mjög varlega, fara reglulega á Hafnarfjallið og gera styrktaræfingar þrisvar í viku. Þetta skilaði sér í því að undir vorið var ég farinn að geta hlaupið alllangar vegalengdir án teljandi vandræða. Eftir erfiðleika í Hengilshlaupinu í byrjun júní og á Laugaveginum um miðjan júlí áttaði ég mig samt á að ég hafði ekki verið nógu duglegur í styrktaræfingunum og að ég þyrfti greinilega á meiri endurreisn að halda. Ákvað samt að fresta aðgerðum til haustsins og reyna að „þrauka“ þangað til. Það reyndist illmögulegt og í lok júlí voru kálfarnir að mestu búnir að afþakka frekari ofnotkun. Ég harkaði af mér í gegnum Trékyllisheiðarhlaupið um miðjan ágúst, en eftir það tók ég mér nánast alveg frí frá allri líkamsrækt fram í miðjan september. Á þessum tíma var líka í nógu að snúast í verkefnum utan við hlaupaheiminn, bæði í vinnu og í búferlaflutningum. Styrktaræfingar og Halldóra sjúkraþjálfari dugðu til að koma mér aftur af stað, en það var þó ekki fyrr en undir lok október sem þetta fór að ganga betur. Þá tók ég nefnilega aftur skref til baka og setti upp nýja endurreisnaráætlun, svipaða þeirri fyrri. Í árslok var staðan orðin bærileg og greinilega farið að örla á framförum.

Vikuskammtar í Endurreisnaráætluninni jan-mars 2021. (Mynd af Strava).

Æfingarnar 2021
Eins og fyrr segir fór ég hægt af stað í byrjun ársins, byrjaði með 20 km vikuskammt og jók hann svo hægt og bítandi þar til 70 km markinu var náð seint í mars. Þar við bættust svo styrktaræfingar, sem ég hefði reyndar mátt stunda betur. Nánari lýsingar á endurreisninni má finna í Laugavegsblogginu mínu frá því í sumar.

Í lok maí var ég búinn að hlaupa samtals 1.179 km það sem af var árinu, sem var það næstlengsta á ferlinum. Inni í þessu voru líka óvenjumargir hæðarmetrar, því að ég var venju fremur iðinn við Hafnarfjallið. Þessir metrar hefðu þó e.t.v. mátt vera enn fleiri. Í júní og júlí tókst mér líka að halda dágóðu magni og í lok síðarnefnda mánaðarins var heildarvegalengd ársins komin í 1.743 km. En eftir það var sem sagt lítið hlaupið fyrr en í vetrarbyrjun þegar nýja Endurreisnaráætlunin tók gildi.

Hæðarmetrar á hlaupum eftir mánuðum 2021. (Mynd af Strava).

Nýja Endurreisnaráætlunin er nánast eins og sú gamla. Hún byrjaði fyrir alvöru 25. október og innihélt til að byrja með þrjú hlaup og þrjár styrktaræfingar í viku. Heildarhlaupamagnið var 15 km fyrstu vikuna – og síðan hef ég aukið það um 4 km á viku að meðaltali, reyndar með smávegis fráviki vegna skammvinnrar hálsbólgu snemma í desember. Í þessari áætlun gildir sú regla að lengsta hlaup vikunnar megi aldrei vera meira en helmingur af hinum vikulega heildarskammti. Í síðustu viku ársins var ég kominn upp í 45 km á viku – og lengsta hlaupið var þá um 23 km.

Í árslok var ég búinn að taka 28 styrktaræfingar frá 20. september, en þær hefðu að réttu lagi átt að vera orðnar um 40 talsins. Þarna er sem fyrr tækifæri til úrbóta! Styrktaræfingarnar hafa annars verið að hluta til með öðru sniði en áður, því að einu sinni í viku hef ég tekið nokkrar æfingar með þyngstu lóðum sem ég ræð við og að sama skapi með fáum endurtekningum. (Rétt er að taka fram að þyngstu lóð sem ég ræð við eru ekki mjög þung). Uppi kunna að vera mismunandi kenningar um það hvernig styrktaræfingar nýtist hlaupurum best, en væntanlega ræðst það öðru fremur af því hvar viðkomandi hlaupari er staddur, (hvaðan hann kom, hvar hann er og hvert hann er að fara). Ég hef einhverja ástæðu til að ætla að mig vanti þessi þungu lóð til að styrkja grunninn og draga þannig úr líkum á mikilli fótaþreytu og krömpum í löngum hlaupum.

Vikuskammtar frá 18. október til ársloka 2021. (Mynd af Strava).

Mikilvægur hluti af æfingunum síðustu mánuðina hafa verið vikulegar tröppuæfingar með félögum mínum í Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi, undir stjórn Bjarna Traustasonar. Aðalvettvangur þessara æfinga eru u.þ.b. 70 tröppur sem liggja frá íþróttavellinum upp að grunnskólahúsinu. Þar er hægt að gera ýmislegt – og strax á fyrstu æfingu áttaði ég mig á að þarna var ég ekki sterkur á svellinu. Á fyrstu æfingunni gat ég í besta falli hoppað tvær tröppur í röð á öðrum fæti, en fljótlega var metið mitt komið í 25 tröppur á hvorn fót. Þessar æfingar reyna bæði á styrk og jafnvægi, en hvorugur þessara þátta viðheldur sér af sjálfsdáðum. Tröppurnar hoppa sig ekki sjálfar.

Hlaupavegalengdir eftir mánuðum 2021.

Æfingarnar framundan
Ég sé fyrir mér að áherslurnar í æfingunum mínum verði áfram svipaðar fyrstu þrjá mánuði ársins 2022. Að öllu forfallalausu verður vikuskammturinn kominn í 70 km seint í febrúar og eftir það mun ég væntanlega reyna að auka magnið „í hjöllum“, t.d. 75-75-50-80-80-50-85 … o.s.frv. Þriðja hver vika yrði þá sem sagt léttari. Þessu þurfa að fylgja meiri styrktaræfingar en undanfarið, þ.e.a.s. þrjár styrktaræfingar á viku og „engar refjar“. Vikulegum hlaupaæfingum þarf eðli málsins samkvæmt að fjölga eftir því sem heildarvegalengdin eykst. Býst við að þær verði orðnar fimm í lok febrúar. Í þessu ferli þarf ég líka að fara að safna hæðarmetrum, en eins og sést hér að framan urðu þeir útundan í skipulaginu á síðari hluta ársins 2021.

Nýlega lagður af stað í Hengilshlaupið. (Ljósm. Hengill Ultra).

Keppnishlaupin
Ég tók þátt í fimm keppnishlaupum árið 2021, sem er vissulega með minnsta móti en þó miklu meira en árin 2018 og 2020 þegar ég keppti ekki neitt. Fyrsta keppnishlaup ársins var 53 km í Hengli Ultra. Ég taldi mig vera sæmilega undirbúinn fyrir þetta hlaup, en annars leit ég fyrst og fremst á það sem æfingu fyrir Laugavegshlaupið rúmum mánuði síðar. Fyrstu 25 kílómetrarnir í hlaupinu voru þolanlegir, þó að vissulega hafi mér oft fundist ég vera ferskari. Á leiðinni upp Vörðuskeggja versnaði veðrið hins vegar til muna og við tóku hrikalegar aðstæður með hvassviðri, svartaþoku, úrhellisrigningu, kulda og mikilli leirbleyta. Á leiðinni upp klæddi ég mig í regnstakk og setti á mig lambhúshettu, en sá útbúnaður var langt frá því að duga í þessum aðstæðum. Þar við bættist að ég sá nánast ekkert í gegnum gleraugun og lítið án þeirra. Leiðin yfir fjallið sóttist því seint og ég var fljótlega orðinn helkaldur, bæði neðan mittis og á höndunum. Síðustu 25 kílómetrarnir voru án nokkurs vafa það langversta sem ég hef upplifað á hlaupum, stífur af krömpum og kulda í báðum leggjum frá nára og niður úr, hræddur og bugaður. Áfram hélt ég þó, líklega aðallega vegna þess að hreyfingin var það eina sem gat haldið í þann litla yl sem eftir var í skrokknum. Ég kom illa hrakinn og ofkældur í mark á 7:34:09 klst, sem var u.þ.b. klukkutíma lengri tími en ég hafði reiknað með. Um tíma var ég farinn að trúa að þetta yrði mitt síðasta hlaup, en þegar markið nálgaðist lét ég duga að trúa að þetta yrði mitt fyrsta og síðasta Hengilshlaup. Björk og Jóhanna (eiginkona og dóttir) tóku á móti mér í markinu og í framhaldinu kom Björk mér inn á hótelherbergi og niður í heitt baðkar þar sem ég lá í hálftíma til að ná upp líkamshitanum. Það er algjörlega ómetanlegt að eiga góða að á svona stundum! Þegar ég steig upp úr baðinu var ég ákveðinn í að hlaupa þetta aftur að ári og vera þá mun betur útbúinn. Mér fannst ekki hægt að fara með þessa einu minningu um Vörðuskeggja inn í ellina.

Ég ætti að geta lært margt af reynslunni í Henglinum – og það gildir í raun einnig um framkvæmdaaðila hlaupsins. Þetta endaði í aðalatriðum all vel, en við svona aðstæður má lítið út af bera.

Næsta keppnishlaup var hálft maraþon í Akureyrarhlaupinu 1. júlí í einmuna veðurblíðu. Þar sem ég hafði tekið mjög fáar gæðaæfingar vikurnar og mánuðina á undan vissi ég svo sem ekkert hvar ég stóð, en bjóst við tíma á bilinu 1:40-1:45 klst. Lakari tími hefði kallað á mikil vonbrigði en betri tími fannst mér ólíklegur. Fór frekar hægt af stað, hugsaði ekkert um aðra og naut gleðinnar. Náði að halda nokkuð jöfnum hraða alla leið og gat aðeins bætt í undir í lokin. Eftir á að hyggja var þetta eitt af mínum léttustu og ánægjulegustu hlaupum – og tíminn var 1:38:14 klst, sem sagt alls ekki góður tími miðað við síðustu ár, en ég hef samt oft hlaupið hálft maraþon hægar en þetta.

Dyrfjallahlaupið (23,7 km) kom næst, en þar var hlaupið um Víknaslóðir í stað Dyrfjalla. Sólin skein þennan dag og hitinn var um 20°C. Ég er sæmilega kunnugur á þessum slóðum eftir nokkur fjallvegahlaup og það hjálpaði mér til að njóta dagsins enn meira en ella. Reyndar fannst mér ég frekar þungur á fyrri hlutanum, en það breyttist einhvern veginn þegar ég kom á Kjólsvíkurmela, þar sem við Gitta mín áttum leið um í svartaþoku í fjallvegahlaupi sumarið 2019. Síðari hluti hlaupsins var eintóm gleði þrátt fyrir nokkuð krefjandi leið – og ég kom í mark í 20. sæti af 187 keppendum á 2:46:31 klst. Eftir á að hyggja var þetta langbesta hlaupið mitt 2021. Og svo tók Björk á móti mér í markinu, sem gerði þetta enn betra.

Dóttir og faðir á góðum degi í Þórsmörk.

Laugavegurinn 17. júlí var fjórða keppnishlaupið. Áætlun dagsins snerist um að fara hægar af stað en áður og eiga nóg eftir undir lokin. Mér gekk vel með fyrri helming áætlunarinnar, en eftir að ég var kominn fram hjá Emstrum var allur kraftur úr fótunum og kramparnir tóku yfir. Síðustu 16 kílómetrarnir snerumst um það eitt að þrauka og lokatíminn, 6:16:10 klst, var 6-16 mínútum undir væntingum. En það væri mikið vanþakklæti að dvelja lengi við það. Kannski var aðeins of hlýtt þennan dag og aðeins of mikill mótvindur, en sá sem getur yfirleitt hlaupið Laugaveginn á sjötugsaldrinum ætti ekki að kvarta.

Það lífgaði mikið upp á Laugaveginn að Jóhanna mín tók á móti mér í Þórsmörk, en svo má lesa miklu meira um þetta allt saman í þar til gerðum bloggpistli.

Fimmta og síðasta keppnishlaup ársins var svo Trékyllisheiðin Ultra, 48 km hlaup sem haldið var í fyrsta sinn 14. ágúst. Ég átti svolítinn þátt í undirbúningnum og þess vegna ákvað að ég að hlaupa þrátt fyrir að vera meiddur. Mér tókst að fara nógu varlega til að hlífa meiðslunum, en enn og aftur náðu kramparnir yfirhöndinni þegar á leið. Styrkurinn í fótunum dugði enn skemur en á Laugaveginum og var að mestu uppurinn eftir 26 km. Allt eftir það var mjög erfitt, nema veðrið sem var einstaklega gott eins og í flestum öðrum hlaupum sumarsins (að Henglinum rækilega frátöldum). Nánari lýsingu á Trékyllisheiðarhlaupinu má finna í þar til gerðum pistli.

Skemmtihlaupin
Hamingjuhlaupið á Hólmavík var eina reglubundna skemmtihlaupið þetta árið. Þrístrendingur hefur fallið niður tvö síðustu ár og í ljósi aðstæðna treystum við hjónin okkur ekki til að standa fyrir hinum árlega Háfslækjarhring á uppstigningardag.

Hamingjuhlaupið fór fram í 13. sinn laugardaginn 26. júní. Að þesssu sinni lá leiðin yfir Kollabúðaheiði, nánar tiltekið úr Þorskafirði, áleiðis veginn upp á Þorskafjarðarheiði og síðan gamla leið sem kemur niður í Staðardal í Steingrímsfirði. Þessi hluti leiðarinnar var jafnframt fjallvegahlaup, en eftir að því var lokið var hlaupið sem leið liggur til Hólmavíkur, þar sem Hamingjuhlaupin enda alltaf hvar sem þau byrja. Við vorum fimm saman yfir heiðina, en svo fjölgaði heldur í hópnum eftir því sem nær dró endamarkinu. Samtals urðu þetta u.þ.b. 37 km og lauk að vanda með góðum móttökum og veitingum á Hólmavík, að þessu sinni á svonefndu Toggatúni. Veðrið lék við okkur frá upphafi hlaups til enda, en reyndar þurfti að fresta upphafinu um nokkra klukkutíma vegna mikils sunnan hvassviðris fyrri hluta dagsins. Leifarnar af þessum vindi ýttu aðeins á bakið á okkur yfir heiðina, sem var hreint ekkert óþægilegt.

Hlaupafélagarnir Sóley, Arnór og Birkir á sprettinum norður Kollabúðaheiði. Vaðalfjöll í fjarska.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2021 var fimmta sumar síðari hluta fjallvegahlaupaverkefnisins míns. Fyrstu fjögur sumrin tókst mér að ljúka 13 hlaupum, sem var nokkuð undir pari því að meðaltali miða ég þetta við fimm hlaup á ári. Sumarið 2021 bættust einmitt fimm hlaup í safnið, þannig að enn er heldur á brattann að sækja í þessari talningu.

Kollabúðaheiðin sem fyrr var nefnd var fyrsta fjallvegahlaup ársins. Hin fjögur voru öll hlaupin á tveimur góðviðrisdögum á Austfjörðum, þ.e.a.s. Hjálpleysa fyrri daginn (5. júlí) og Dysjarskarð, Sandvíkurskarð og Gerpisskarð síðari daginn (6. júlí). Að Dysjarskarði frátöldu voru þetta allt frekar erfiðar leiðir, en að sama skapi skemmtilegar og eftirminnilegar. Góðviðrið seinni daginn var aðeins blandað þoku, sem gerði upplifunina líklega enn meira töfrandi en ella, auk þess sem hún dulbjó þverhnípi sem leynast þarna sums staðar skammt frá hlaupaleiðinni.

Fjallvegurinn um Hjálpleysu liggur frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum. Samtals eru þetta um 18,9 km og stærstur hluti leiðarinnar afar seinfarinn. Leiðin upp að austanverðu er brött og fer hæst í um 800 m hæð. Og í Hjálpleysu eru snarbrattar skriður til beggja handa og nánast ekkert undirlendi – og það litla undirlendi sem þó er til staðar hefur Gilsá búið til með framburði sínum. Þetta undirlendi nýtir áin að mestu leyti sjálf. En samt var þetta afskaplega skemmtileg ferð, enda varla um annað að ræða í svona góðu veðri og svona góðum félagsskap.

Hlaupafélagarnir Sindri, Gunnar, Birkir og Salome í Hjálpleysu. Undirlagið þarna er í grófari kantinum.

Síðari fjallvegahlaupadagurinn fyrir austan hófst með hlaupi yfir Víkurheiði og Dys úr utanverðum Reyðarfirði yfir í Viðfjörð. Víkurheiði er í raun fjallvegurinn á milli Reyðarfjarðar og Vöðlavíkur og af þeim vegi er haldið áfram yfir Dys eða Dysjarskarð, sem áður nefndist Almannaskarð. Þetta er greiðfært, enda jeppaslóði alla leið. Vegalengdin er líka vel viðráðanleg, rétt um 13,8 km. Við vorum fimm saman á þessu ferðalagi og nutum dagsins allan daginn, sem varð reyndar á endanum lengri en upphaflega var áætlað.

Við dysina í Dysjarskarði í fjallvegahlaupi nr. 66. F.v. Birkir, Salome, Sóley og Arnór.

Seinni tvö fjallvegahlaupin þennan sama dag renna svolítið saman í minningunni, en þau áttu það sameiginlegt að leiðirnar lágu um brött fjallaskörð í allmikilli hæð. Fyrst var hlaupið frá Viðvíkurbænum, áleiðis út á Barðsnes að eyðibýlinu Stuðlum og þar upp í og yfir Sandvíkurskarð. Hinum megin við það skarð beið Sandvík okkar, ein af þessum byggðum þar sem býsna margir bjuggu áður fyrr og þar sem vinnuvélar komust aldrei til áhrifa. Frá Sandvík lá leiðin svo upp í Gerpisskarð og þaðan niður snarbratta hlíð áleiðis í Vöðlavík. Þar enduðu fjallvegahlaup dagsins og meirihluti hópsins þáði bílferð til baka í Reyðarfjörð yfir Víkurheiði, þ.e.a.s. jafnstór hluti hópsins og komst með góðu móti í bíl skálavarðarins í Vöðlavík. Við Birkir skröltum hins vegar þennan síðasta spöl á 2x tveimur jafnfljótum og náðum að skrifa samtals um 45,5 km og 2.200 hæðarmetra í hlaupadagbækurnar okkar þennan daginn.

Salome og Birkir við neyðarskýlið í Sandvík. Engin neyð í gangi samt, Sandvíkurskarð að baki og „bara“ Gerpisskarð eftir.

Ferðasögurnar úr fjallavegahlaupunum og fróðleikur um leiðirnar tínist smám saman inn á vefsvæði Fjallvegahlaupaverkefnisins míns.

Persónumetin
Eins og nefndi víst í annál sem ég skrifaði fyrir ári síðar, virðast persónuleg met á hlaupum verða fátíðari með árunum. Vilji maður samt státa sig af áður óþekktum afrekum kemur þá helst til greina að hlaupa vegalengdir sem maður hefur aldrei hlaupið áður, eða finna einhvern annan hagstæðan samanburð við fyrri tíma. Listinn sem hér fer á eftir hefur að geyma öll þau persónuleg met (PB) frá árinu 2021 sem mér hefur tekist að grafa upp:

  1. Besti maraþontími á æfingu: 3:57:27 klst. 15. maí. Fyrra met 3:58:58 klst. 8. júní 2009.
  2. Flestir hæðarmetrar á einu ári (held ég): 46.117 m. Fyrra met ekki skráð.
  3. Lengsti aprílmánuður: 274,98 km. Fyrra met 232,21 km 2014.
  4. Lengsti maímánuður: 365,62 km. Fyrra met 270,54 km 2015.
  5. Lengsti júlímánuður: 327,39 km. Fyrra met 322,00 km 2011.

Náðust markmiðin?
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2021 og náði bara einu þeirra, rétt eins og árið áður. Í fyrsta lagi ætlaði ég að hlaupa 5 km undir 21 mín. Tók svo ekki þátt í neinu 5 km hlaupi á árinu, og er reyndar nokkuð viss um að þó ég hefði gert það hefði tíminn engan veginn getað orðið styttri en 21 mín. Í öðru lagi ætlaði ég að hlaupa maraþon undir 3:20 klst. Þar gildir það sama, ég keppti aldrei í maraþoni á árinu og hefði heldur varla átt möguleika á að ná þessum tíma. Í þriðja lagi átti tíminn á Laugaveginum að vera undir 6 klst – og eins og fram hefur komið gekk það ekki upp. Í fjórða lagi áttu fjallvegahlaupin að verða a.m.k. sjö, en urðu bara fimm. Og í fimmta lagi var markmiðið að hafa gleðina með í öllum hlaupum. Ég held svei mér þá að þetta hafi tekist, enda mundi ég oftast nær að vera þakklátur fyrir að geta yfirleitt hlaupið. Vissulega voru öll löngu keppnishlaupin erfiðari en að var stefnt, en gleðin var alltaf þarna einhvers staðar (jafnvel þó að hún hafi varla sést greinilega þegar ég kom í mark í Hveragerði eftir Hengil Ultra).

Markmiðin 2022
Ég stend í þeirri meiningu að markmiðssetning sé forsenda árangurs, á hvaða sviði sem er. En markmið eru vandmeðfarin. Þau þurfa nefnilega að vera SMART til að koma að gagni, þ.e.a.s. Sértæk, Mælanleg, Aðgengileg, Raunhæf en samt krefjandi og Tímasett.

Mér skilst að sumum finnist ég setja mér óþarflega krefjandi markmið í hlaupunum, einkum þegar tekið sé tillit til hækkandi aldurs. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að ég er kominn á þann aldur að líkamleg geta fer óhjákvæmilega smátt og smátt minnkandi. En mér finnst það alls ekki þýða að ég eigi sjálfkrafa að sætta mig við hvaða árangur sem er. Þvert á móti finnst mér ég þurfa að setja mér svo krefjandi markmið að ég þurfi virkilega að hafa fyrir því að ná þeim! Eftir sem áður geta þau verið raunhæf. Auðvitað er þetta varnarbarátta, en ég ætla að halda áfram að spila vörnina eins framarlega og ég get í stað þess að sitja bara í vítateignum og bíða eftir fullnaðarósigri, aðgerðalaus!

Í ljósi þessi sem hér hefur verið sagt ætla ég að halda áfram að setja mér hlaupamarkmið sem ná sér ekki sjálf. Hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2022 eru eftirfarandi:

  1. Klukkutímabæting í Hengill Ultra 53 km (6:34:09 klst)
  2. Laugavegurinn undir 6 klst
  3. A.m.k. 50 þúsund hæðarmetrar
  4. A.m.k. 586 ITRA-stig í árslok
  5. Gleðin með í för í öllum hlaupum (margnotað og sígilt)

Eins og upptalningin hér að framan ber með sér ætla ég ekki að setja mér nein markmið í götuhlaupum þetta árið. Það þýðir þó ekki að tími götuhlaupanna sé liðinn. Ég ætla bara að leggja meiri áherslu á utanvegahlaupin og setja mér svo markmið fyrir hvert götuhlaup um sig, ef og þegar slík hlaup verða á dagskrá.

ITRA-stigin
Mér finnst styrkleikalisti Alþjóðautanvegahlaupasambandsins (ITRA (International Trail Running Association)) nýtast manni einkar vel til að setja sér markmið í utanvegahlaupum, enda eru allmörg íslensk utanvegahlaup komin með viðurkenningu samtakanna og gefa því ITRA-stig. Í árslok 2021 var ég með 586 slík stig, en stigafjöldinn reiknast út frá vegnu meðaltali fimm bestu ITRA-hlaupa síðustu 36 mánuði. Markmiðið hér að framan gengur sem sagt út á að lækka ekki í stigum þrátt fyrir þetta eina ár sem bætist á mig á árinu. Sennilega dugar mér að ná u.þ.b. 600 stigum í einu hlaupi til að halda sjó hvað þetta varðar, jafnvel þótt öll hin hlaupin verði langt undir væntingum. Til að fá 600 stig þarf líklega að hlaupa Laugaveginn á u.þ.b. 5:51 klst, Hengil Ultra 53 km á u.þ.b. 6:10 klst eða Trékyllisheiðina á u.þ.b. 5:08 klst. Ég geri svo sem ekki ráð fyrir að ná þessum tímum, en nokkur styttri hlaup gefa líka stig og þar gæti ég átt sóknarfæri. Þetta er krefjandi markmið, en samt raunhæft.

ITRA-staðan mín í árslok 2021.

Hlaupadagskráin mín 2022
Ég er búinn að skrá mig í fimm hlaup sumrið 2022 og finnst líklegt að einhver bætist við þegar nær dregur. Og svo er fjallvegahlaupadagskráin aðeins að byrja að mótast. Eins og staðan er núna lítur dagskráin svona út:

  1. Vestmannaeyjahringurinn (Puffin Run) 7. maí
  2. Eitt fjallvegahlaup suðvestanlands um miðjan maí
  3. Hengill Ultra (53 km) 4. júní
  4. Eitt fjallvegahlaup norðanlands um miðjan júní
  5. Einhver fjallvegahlaup á Austurlandi fyrri hluta júlímánaðar
  6. Dyrfjallahlaupið 9. júlí
  7. Laugavegurinn (í 7. sinn) 16. júlí
  8. Trékyllisheiðarhlaupið (48 km) 13. ágúst

Svo þróast þetta bara einhvern veginn.

Hlaupaannáll 2018 og markmiðin 2019

Um áramót er ég vanur að gera upp nýliðið hlaupaár og gefa yfirlýsingar um fyrirhuguð afrek á nýja árinu. Ég ætla ekki að bregða út af þessari venju núna, þó að þetta nýliðna hlaupaár hafi verið óvenjulegt – og sé auk þess ekki lengur nýliðið.

Hlaupaárið 2018 í stuttu máli
Hlaupaárið 2018 var eiginlega ekki hlaupaár frá mínum bæjardyrum séð, þar sem ég notaði nánast allt árið í að glíma við þrálát meiðsli sem komu að mestu í veg fyrir hlaup. Líklega byrjuðu þessi vandræði að gera vart við sig árið 2016, en svona nokkuð getur verið að grafa um sig í langan tíma án þess að maður geri sér grein fyrir því. Í október 2016 var ég alla vega farinn að fá einhverja verki í rassvöðva og niður eftir vinstra lærinu að aftan, sérstaklega eftir löng hlaup og langar setur í bíl. Mér tókst hins vegar að humma þetta fram af mér lengi vel, alveg fram til 20. janúar 2018. Þá varð mér loksins ljóst að lengra yrði ekki haldið á þeirri braut sem ég var á, því að þann dag var verkurinn orðinn svo slæmur að ég gat með naumindum skrönglast heim úr annars venjulegum hlaupatúr á laugardagsmorgni. Næstu mánuði lagaðist ástandið ekki neitt þrátt fyrir tilraunastarfsemi af ýmsu tagi. Í lok september var loks lagður hornsteinn að lausn vandans, í lok október var ég farinn að geta skokkað stuttar vegalengdir vandræðalaust á litlum hraða og í árslok var ég hættur að finna til svo orð væri á gerandi. En það mun taka margar vikur (eða mánuði) til viðbótar að byggja upp eðlilegt hlaupaform.

Meiðslavandræðin gerðu það að verkum að ég náði engu af þeim hlaupamarkmiðum sem ég setti mér í ársbyrjun 2018, nema því að taka a.m.k. 28 styrktaræfingar frá áramótum til aprílloka. Því markmiði „rúllaði ég upp“, því að styrktaræfingarnar á þessu tímabili urðu samtals 46. Hin markmiðin fóru öll forgörðum og mér tókst ekki einu sinni að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Sömuleiðis varð þetta ástand til þess að ég tók ekki þátt í einu einasta keppnishlaupi og öllum fjallvegahlaupum var aflýst. Það jákvæðasta á þessu hlaupaári var að ég hætti aldrei að leita að lausninni á meiðslavandamálinu mínu þó að mánuðirnir streymdu hjá.

Æfingarnar
Árið fór bara vel af stað, æfingalega séð. Ég mætti tvisvar í viku í ræktina og hljóp úti þrisvar í viku, þ.á.m. 30 km túra á laugardögum, þó að ég væri reyndar orðinn frekar slæmur í vinstra lærinu og þar í kring. Laugardaginn 20. janúar hljóp ég svo Háfslækjarhringinn (21,7 km) (í 139. sinn frá upphafi) í frekar þungu færi og fann þá fljótt að ekki var allt með felldu. Kláraði samt hringinn og „hökti heim með harmkvælum. Einhverjar breytingar framundan“, eins og ég skrifaði í dagbókina þennan dag.

Ég ætla ekki að rekja þróun mála eftir 20. janúar í smáatriðum hér, enda hef ég gert henni ærin skil í þremur bloggpistlum (Brjósklos til batnaðar? 11. mars 2018, Sjúkrasaga Stefáns jan-sept 23. september og Sjúkrasaga Stefáns sept-des 4. desember). Í stuttu máli hélt ég stundum að ég væri búinn að finna lausnina og byrjaði þá að reyna að hlaupa eitthvað. En ég endaði alltaf aftur á byrjunarreit, ákvað að veðja á nýja lausn – og svo koll af kolli. Lausnin fæddist svo loks á fundi með David McGettigan í Reykjavík 25. september, þar sem mér var í fyrsta sinn bent á að verkur í tilteknum líkamshluta þyrfti ekki endilega að þýða að eitthvað væri skemmt í þessum sama líkamshluta, enda væri verkur í rauninni bara frásögn sem gæti brenglast í meðförum, svona rétt eins og hver önnur kjaftasaga. Þetta gæti sem sagt snúist um oftúlkun heilans á boðum um tiltölulega saklaust áreiti.

Í lok október fór ég í fyrsta tímann af mörgum hjá Guttormi Brynjólfssyni, naprapat, þar sem áfram var unnið með taugaboð og jafnvægi. Um svipað leyti, nánar tiltekið 29. október, byrjaði ég að hlaupa eftir heimatilbúinni áætlun, sem líktist venjulega æfingaprógrammi deilt með 5. Þannig varð lengsta hlaup vikunnar kannski 7 km í stað þess að hafa stundum verið 35 km áður en þessi vandræði byrjuðu af fullum þunga. Og hraðinn var oft í námunda við 6 mín/km í stað þess að vera um 5 mín/km. Þar var svo sem ekki deilt með 5, en allt samt býsna frábrugðið því sem áður hafði tíðkast.

Síðustu 9 vikur ársins hljóp ég reglulega þrisvar í viku og vegalengdirnar og hraðinn jukust smátt og smátt. Lengsta vikan á þessu tímabili fór í 35 km, lengsta hlaupið var 18 km og á góðum degi var hraðinn gjarnan um 5:40 mín/km. Efirfarandi stólparit yfir vikuskammta ársins segir sína sögu.

Vikuleg hlaup 2018. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Eins og ráða má af myndinni gerði ég nokkrar misheppnaðar tilraunir á árinu til að ná upp hlaupamagninu. Í febrúar og mars stundaði ég t.d. sundhlaup í talsverðum mæli. Umreiknaði þau og færði til bókar. Í apríl hljóp ég smávegis utandyra en fann svo að það gekk ekki upp. Eitthvað reyndi ég líka yfir sumarmánuðina en varð alltaf frá að hverfa áður en langt um leið. Best gekk mér með Hafnarfjallið. Síðustu vikur ársins var hins vegar nokkuð jafn stígandi í hlaupamagninu eins og sjá má.

Sjálfsmynd á Hafnarfjallinu 29. ágúst.

Í heild varð árið eðlilega með stysta móti í kílómetrum talið. Eftir að ég komst af stað í lok október eygði ég þó möguleika á að teygja vegalengdina upp í samtals 1.000 km. Það fannst mér ágætt markmið í sjálfu sér, þó að ég gætti þess reyndar mjög vel að auka álagið aldrei mikið á milli vikna. Þetta markmið náðist. Á árinu 2018 hljóp ég sem sagt samtals 1.000,12 km sem er eðlilega það stysta hin síðari ár, en samt lengra en árið 1996 þegar ég hljóp mitt fyrsta maraþon.

Árlegir hlaupaskammtar 1985-2018. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Skemmtihlaupin
Yfirleitt stend ég fyrir eða stuðla að þremur skemmtihlaupum á ári, þ.e.a.s. hinum árlega Háfslækjarhring og matarveislu á uppstigningardag, Þrístrendingi og Hamingjuhlaupinu. Þrístrendingur féll niður þetta árið, þar sem hvorugur aðstandandinn (ég og Dofri frændi minn) var í standi til að láta hlaupið verða að veruleika. Hin tvö hlaupin fóru hins vegar fram þótt ég hlypi lítið.

Hinn árlegi Háfslækjarhringur var hlaupinn 10. maí 2018, 9. árið í röð. Hlaupaleiðin er heimanað frá okkur hjónunum í Borgarnesi, framhjá fólkvanginum í Einkunnum, vestur að Langá og aftur heim. Og þegar hlaupið er búið er Björk jafnan búin að elda kjötsúpu eða grilla nokkur læri ofaní mannskapinn. Hringurinn er rúmlega 21 km og samkvæmt lauslegri talningu luku 17 manns hlaupinu þetta árið, auk þess sem tveir voru á hjólum. Sjálfur skokkaði ég hluta af leiðinni og stytti mér svo leið heim yfir þúfur og mýri. Var viku að ná mér. Hvað sem því leið var þarna líklega slegið þátttökumet þar sem ekki finnast heimildir um fleiri en 16 hlaupara á fyrri árum. Að hlaupi loknu tók við hefðbundin lambakjötsveisla í boði Bjarkar og að því loknu var dagurinn gerður upp í heita pottinum.

Síðasti og reynslumesti ráshópurinn tilbúinn í Háfslækjarhringinn.

Hamingjuhlaupið fór fram í 10. sinn laugardaginn 30. júní. Að þessu sinni var hlaupið sunnan úr Geiradal eftir gamla bílveginum yfir Tröllatunguheiði og svo áfram til Hólmavíkur, þar sem hlaupið endaði með tertuhlaðborði að vanda. Sjálfur gat ég náttúrulega ekki hlaupið með en naut þess í staðinn að sniglast i kringum hlauparana. Skokkaði reyndar með þeim síðasta kílómetrann, bara til að sýnast.

Í Geiradal við upphaf Hamingjuhlaupsins 2018. Flest þetta fólk hljóp alla leið til Hólmavíkur (um 35 km) og sumir í hópnum gerðu garðinn frægan í ofurhlaupum (allt að 100 km) annars staðar í heiminum síðar um sumarið.

Staða og horfur
Staðan í upphafi ársins 2019 var sú að ég gat hlaupið verkja- og vandræðalaust. Það hefur haldist en enn á ég mjög langt í land við að ná fyrri getu. Þar munar mestu um styrk og hraða. Líklega hafa einhverjir vöðvar verið duglegir við að rýrna á þeim tíma sem ég hljóp sem minnst – og í þokkabót var ég líka latur við að fara í ræktina allan síðari hluta ársins. Þar hefði ég getað gert betur. Í þessu atriði örlar kannski örlítið á öldrun, því að rýrnunin er sögð verða hraðari þegar árin færast yfir og uppbyggingin að sama skapi hægari. Í þesum efnum er ekkert ómögulegt, en líklega líða mánuðir þangað til ég verð kominn nokkurn veginn á þann stað sem ég vil vera á. Þolið er hins vegar á góðri leið, enda er almennt fljótlegra að byggja upp þol en styrk, auk þess sem ég hef alltaf verið meira þolinn en sterkur.

Næstu vikur ætla ég að reyna að vinna meira með styrkinn en þolið, með það að markmið að verða orðinn slarkfær 5 km hlaupari fyrir sumarbyrjun. Sumardaginn fyrsta ætla ég svo að ganga úr skugga um hvernig til hafi tekist. Þá ætla ég sem sagt að mæta í fyrsta alvöru keppnishlaupið frá því í Þriggjalandamaraþoninu í Bregenz 8. október 2017, nánar tiltekið í Víðavangshlaup ÍR.

Upp úr því þarf svo að fara að huga að lengri hlaupum og fjallabrölti, því að ég er búinn að skrá mig í Laugavegshlaupið 13. júlí nk. – og þar langar mig ekki til að vera klukkutíma lengur á leiðinni en ég er vanur. (Ég er sem sagt „vanur“ að hlaupa Laugaveginn á 5:41-6:41 klst. Hef gert það fjórum sinnum). Í september ætla ég svo að hlaupa heilt maraþon í Tallinn. Þá þarf allt að vera komið í toppstand.

Markmiðin 2019
Markmið eru lykillinn að árangri, bæði í hlaupum og í öðrum þáttum lífsins. Þess vegna held ég þeim upptekna hætti að setja mér nokkur hlaupamarkmið í upphafi nýbyrjaðs árs. Að þessu sinni miðast markmiðin fyrst og fremst við að ljúka tilteknum verkefnum, hvort sem það tekur fleiri eða færri mínútur. Það þýðir ekki að keppnismaðurinn í mér sé genginn fyrir ætternisstapa. Í ljósi þess hvernig hlaupin hafa gengið (eða ekki gengið) síðustu mánuði ætla ég fyrst um sinn að halda fyrir sjálfan mig þeim markmiðum sem hægt er að mæla í sekúndum, mínútum og klukkustundum. Þau eru þarna samt – einhvers staðar á bak við.

Hlaupamarkmið ársins 2019 eru sem sagt eftirfarandi:

  1. A.m.k. eitt 5 km keppnishlaup fyrir lok apríl
  2. A.m.k. eitt 10 km keppnishlaup fyrir lok maí
  3. A.m.k. eitt hálft maraþon fyrir lok júní
  4. Laugavegurinn heilu og höldnu 13. júlí
  5. Maraþonhlaup fyrir lok september
  6. A.m.k. 7 fjallvegahlaup
  7. Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)

Lokaorð
Þetta nýja ár byrjar á sömu tilfinningu og gamla árið endaði á, þ.e.a.s. þakklæti. Stundum finnst mér þróunin ískyggilega hæg, en núna get ég alla vega hlaupið vandræðalaust – sem ég gat alls ekki fyrir ári síðan. Það er ekki sjálfgefið að geta stundað þetta áhugamál áratug eftir áratug og ég geri mitt besta til að stjaka frá mér neikvæðum hugsunum þótt hlaupin séu erfið, hraðinn lítill og framfarirnar takmarkaðar. Ég mun ekki slá nein persónuleg met á næstu mánuðum, en ég er kominn af stað og sé fram á bjarta tíma, bæði í huga og undir berum himni.

Nýtt sumar með nýjum köngulóm

Bráðum vorar og þá fara köngulærnar á kreik. Í tilefni af því og í tilefni af umræðum á samfélagsmiðlum um ágæti eða ómöguleika köngulóa birtist hér svolítill pistill sem ég flutti í Samfélaginu á Rás 1 22. júní í fyrra.

Köngulær
(Pistill fyrir Samfélagið á RÚV 22. júní 2017)

Á vorin og eitthvað fram eftir sumri er annatími hjá þeim sem hafa atvinnu af því að eitra fyrir óæskilegum dýrum og illgresi í og við híbýli manna. Þetta endurspeglast meðal annars í auglýsingum í útvarpi og blöðum, svo og í umræðu á samfélagsmiðlum þar sem fólk spyr hvert annað hvernig best sé að losna við tilteknar lífverur sem gera því lífið leitt.

Einn hópur lífvera sem gerir fólki stundum lífið leitt eru köngulær. Þær eiga það til að spinna vefi á ólíklegustu stöðum, svo sem utan á húsum. Og þegar vefirnir eru tilbúnir, bíða köngulærnar hinar rólegustu eftir því að einhver skorkvikindi festi sig í þeim. Þá er matartími, eða kannski oftar uppskerutími eða sláturtíð, þar sem matnum er pakkað inn til síðari nota.

Í upphafi þessa pistils var minnst á óæskileg dýr. Mörgum finnast köngulær eiga heima í þeim flokki og í samræmi við það heyrast annað slagið auglýsingar þar sem fólki er boðin þjónusta þeirra sem sérhæfa sig í að eitra fyrir köngulóm.

Þegar allt kemur til alls eru íslenskar köngulær sárameinlaus kvikindi, nema ef maður er skordýr. Þær gera mönnum sem sagt ekkert mein. Hins vegar er alveg eðlilegt að það fari í taugarnar á einhverjum að vera með köngulóarvef í andlitinu eða hárinu eftir stutta gönguferð í garðinum eða eftir að hengja út þvottinn. Og svo er líka til fólk sem er haldið bráðri köngulóafælni, og getur ekkert að því gert.

Rétt eins og aðrar lífverur, að manninum kannski undanskildum, eru köngulær markaðsdrifin fyrirbæri, í þeim skilningi að þær hasla sér völl þar sem einhverja fæðu er að hafa – og annars staðar ekki. Ástæða þess að köngulær gera sig sérstaklega heimakomnar á tilteknum svæðum eða við tiltekin hús er því einfaldlega sú að þar hafa þær nóg að bíta og brenna. Þar er sem sagt nóg af einhverjum skorkvikindum sem álpast í netin þeirra. Takist manni það ætlunarverk að útrýma köngulóm í nánasta umhverfi sínu er því líklegt að öll hin dýrin, sem áður voru fæða fyrir köngulær, fjölgi sér sem aldrei fyrr og búi til nýtt vandamál fyrir húseigandann sem vill kannski helst vera eina lífveran á lóðinni sinni. Kannski er þá næsta skref að eitra líka fyrir þessum fyrrverandi köngulóarkræsingum, þ.e.a.s. ef þær drápust ekki af upphaflega köngulóareitrinu.

Þegar búið er að drepa köngulærnar og matinn þeirra líka, hvort sem það var gert í einni eða fleiri eiturherferðum, gætu ný vandamál skotið upp kollinum. Köngulær hafa nefnilega ekki það eina hlutverk í lífinu að éta skordýr og skordýr hafa heldur ekki það eina hlutverk í lífinu að vera matur fyrir köngulær. Hvorki ég né nokkur annar hefur fullkomna yfirsýn yfir öll þessi hlutverk, en alla vega má geta sér þess til að sum skordýrin nærist á lirfum annarra skordýra og séu matur fyrir t.d. fugla. Séu þessi skordýr fjarlægð verður hátíð hjá lirfunum sem verða þá enn afkastameiri en fyrr við að éta laufblöðin sem þær mega alls ekki éta. Og fuglarnir, sem annars hefðu étið lirfurnar, eru kannski ekki til staðar vegna þess að uppáhaldsskordýrin þeirra dóu í köngulóarherferðinni eða í næstu herferð þar á eftir og neyddust því til að leita annað, eða þá að þeir veiktust eða drápust þegar þeir átu aðeins of mikið af eitruðum skordýrum í morgunmat.

Þó að maðurinn hafi einu sinni ákveðið að hann væri herra jarðarinnar er ekki víst að hann sleppi óskaddaður úr baráttu sinni við lífverur sem hann telur óæskilegar. Köngulóaeitur, skordýraeitur og lirfueitur nútímans eru kannski ekkert baneitruð fyrir menn, svona við fyrstu kynni og í litlum skömmtum, en mannsævin er löng og ef eitthvað af efnum úr eitrinu kemst inn í líkamann og nær að safnast þar upp við hliðina á öllum hinum efnunum sem þessi sami maður fékk úr innilofti, snyrtivörum, unnum matvælum, málningu, niðursuðudósum, tóbaksreyk, barnaleikföngum, regnstökkum, lyfjum, svifryki, sólarvörn, bensínbrælu eða einhverju enn öðru, er aldrei að vita nema það komi niður á lífslíkum og lífsgæðum síðar á ævinni. Þá getur viðkomandi sem sagt orðið fyrir barðinu á kokteiláhrifum, þar sem samanlögð skaðleg áhrif margra óskaðlegra skammta af mörgum mismunandi efnum verða meiri en góðu hófi gegnir. Og þegar börn eiga í hlut lítur málið enn verr út. Eituráhrif sem maður verður fyrir í móðurkviði eða í æsku eru nefnilega líklegri til að valda skaða á meðan líffærin eru enn að þroskast, þar með talinn heilinn sem þarf að endast manni allt lífið og leysa ólíklegustu viðfangsefni fljótt og vel. Og það eru jú einmitt börnin sem eru líklegri en þeir fullorðnu til að vera á ferðinni utandyra í sama umhverfi og köngulærnar og allar hinar óæskilegu lífverurnar sem þar kunna að vera á sveimi.

Þessi pistill fjallar ekki um köngulær. Hann fjallar um þá skammsýni eða það óhóflega sjálfsálit mannsins sem endurspeglast í trúnni á að hægt sé að taka einstaka hluta vistkerfisins úr umferð án þess að það hafi áhrif á aðra hluta kerfisins. Vissulega vill maður hafa hreint í kringum sig og helst vill maður vera hreinn sjálfur. Í þeirri ósk felst þó ákveðin þversögn þegar haft er í huga að í líkama venjulegs manns eru líklega um 30% fleiri bakteríufrumur en líkamsfrumur. Við erum sem sagt í ævilangri sambúð við alls konar lífverur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, eða hvort sem við teljum einhverjar þeirra æskilegar eða óæskilegar. Við vitum vissulega ýmislegt um þessa sambúð og um samspil lífvera almennt, en enn sem komið er nær þessi vitneskja þó mun skemmra en okkur hættir til að gera ráð fyrir. Við vitum sem sagt til þess að gera sáralítið hvaða áhrif það hefur á heildina að fjarlægja eina lífveru úr kerfinu, já eða bæta einni lífveru við. „Maðurinn óf [nefnilega] ekki vef lífsins. Hann er bara hluti af þessum vef“, eins og ónefndur Indíánahöfðingi orðaði það einhvern tímann. „Og það sem gerir vefnum, það gerir hann sjálfum sér“.

Fjallvegahlaupadagskrá 2014

???????????????????????????????Ég geri ráð fyrir að landsmenn allir hafi nú um nokkurt skeið beðið þess í ofvæni að fjallvegahlaupadagskrá ársins 2014 liti dagsins ljós. Nú er biðinni lokið, eða alla vega næstum því.

Sumarið 2014 verður 8. sumarið af 10 í stóra fjallvegahlaupaverkefninu mínu, enda verð ég þá á 58. aldursári. Allt byrjaði þetta á fimmtugsafmælinu mínu og síðan þá hef ég afgreitt u.þ.b. 5 fjallvegi á ári. Þeir ættu því að réttu lagi að vera orðnir 35, en eru bara 34. Í lok næsta sumars verða þeir hins vegar orðnir 40 ef áform ganga eftir. Þar með verður þetta allt á réttu róli og bara 10 stykki eftir fyrir tvö síðustu sumur verkefnisins.

Drög að fjallvegahlaupadagskránni 2014 fara hér á eftir, þó að vísu séu þar enn lausir endar sem verða bundnir áður en mjög langt um líður. Í upptalningunni er reyndar líka að finna einhver önnur hlaupaáform, þótt þau teljist ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu.

1. Leggjabrjótur, laugardag 24. maí (#35)
Ég held að Leggjabrjótur sé ágætis byrjun á vertíðinni, rétt eins og Selvogsgatan í fyrra og Ólafsskarð í hitteðfyrra. Nú ætla ég hins vegar að hlaupa þetta fyrsta hlaup ársins á helgi en ekki á virkum degi eins og tvö síðustu ár. Ég reikna með að leggja af stað frá Botnsskála eða þar í grennd kl. 10:00 og vera kominn að Svartagili í Þingvallasveit í síðasta lagi kl. 13:00. Býst við að þetta séu alveg um 20 km, þó að í bráðabirgðasamantekt á fjallvegahlaup.is sé talað um 17 km. Þetta fer allt eftir því hvaðan er mælt.

2. Þrístrendingur, laugardag 21. júní
Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í fimmta sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasöguna frá liðnu sumri er að finna á vísum stað á bloggsíðunni minni.

3. Hamingjuhlaupið, laugardag 28. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 6. sinn. Það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur, enda ekki keppt við tímann. Sagt er að hamingja þátttakenda margfaldist á leiðinni, hver sem leiðin annars er. Það er nefnilega breytilegt frá ári til árs. Hamingjuleiðin 2014 hefur ekki verið ákveðin, en heyrst hefur að hlaupið verði sunnan úr Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur, sömu leið og bræður mömmu fóru á böllin einhvern tímann eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þessi leið gæti verið svo sem 33 km og auðvelt að skipta henni í áfanga. Þetta verður betur kynnt áður en langt um líður, en frásögn af Hamingjuhlaupinu á liðnu sumri er auðvitað á sínum stað á blogginu.

4. Grárófa eða Skálavíkurheiði, fimmtudag 17. júlí (#36)
Hlaupahátíð á Vestfjörðum fer fram dagana 18.-20. júlí. Þar ætla ég að vera, og þá er náttúrulega upplagt að taka einn léttan fjallveg í sömu ferð. Upphaflega var ætlunin að hlaupa yfir Skálavíkurheiði sem er býsna viðráðanlegur og bílfær fjallvegur milli Bolungarvíkur og Skálavíkur, rétt um 12 km að lengd. En svo frétti ég af Grárófu eða Grárófuheiði milli Bolungarvíkur og Selárdals í Súgandafirði. Sú leið er álíka löng en öllu hrjóstrugri – og nafnið er forvitnilegt. Hún er því efst á listanum sem stendur. Aðrar heiðar á svipuðum slóðum gætu einnig komið til greina, en málið snýst þó bara um eina heiði í þessari ferð. Geri ráð fyrir að taka þátt í Óshlíðarhlaupinu á föstudagskvöldi og tvöfaldri Vesturgötu á sunnudegi. Hygg að þá verði ráðlögðum helgarskammti náð.

5. Hjaltadalsheiði, þriðjudag 5. ágúst (#37)
Vikuna eftir verslunarmannahelgi ætla ég að vera á ferð um miðbik Norðurlands og hlaupa þar þrjá vel valda fjallvegi. Hjaltadalsheiðin er sá eini þeirra sem ég er alveg búinn að ákveða, en hún liggur frá Reykjum í Hjaltadal að Staðarbakka í Hörgárdal. Þetta er vafalítið einn af erfiðari fjallvegunum, enda farið upp í 1.000 m hæð og yfir jökul. Leiðin er 29 km að lengd ef mér skjátlast ekki.

6. Leirdalsheiði, miðvikudag 6. ágúst (#38)
Daginn eftir Hjaltadalsheiðina langar mig að hlaupa annað hvort Leirdalsheiði frá Grýtubakka norður í Fjörður, nánar tiltekið Hvalvatnsfjörð, eða þá Flateyjardalsheiði frá Þverá í Dalsmynni að Brettingsstöðum í Flateyjardal. Býst frekar við að Leirdalsheiðin verði fyrir valinu að þessu sinni. Sú leið kvað vera 28 km að lengd. Ég hef aldrei komið í Fjörður og hlakka til að líta það svæði augum í fyrsta sinn.

7. Reykjaheiði, fimmtudag 7. ágúst (#39)
Á fimmtudeginum vil ég gjarnan taka því rólega og hlaupa einhvern stuttan fjallveg nyrðra. Þar er Reykjaheiði milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur efst á óskalistanum, en til vara kemur til greina að hlaupa um Gönguskarð ytra frá Ytra-Hóli í Fnjóskadal að Hálsi í Kinn. Reykjaheiðin er um 13 km og Gönguskarð ytra um 15. Með þessari uppröðun heiðanna fyrir norðan held ég opnum möguleikanum á að skella mér í Jökulsárhlaupið laugardaginn 9. ágúst. Sjáum til með það.

8. Skálmardalsheiði, laugardag 16. ágúst (#40)
Upphaflega ætlaði ég að hlaupa Skálmardalsheiðina frá Skálmardal í Reykhólahreppi að Gervidal við Ísafjörð síðasta haust, en hætti við það vegna leiðinlegs veðurútlits. Nú skal úr því bætt. Leiðin er um 19 km.

Þetta læt ég nægja í bili og hlakka til að heyra og sjá viðbrögðin. Ég er að sjálfsögðu opinn fyrir öllum góðum tillögum, þ.m.t. tilraunum til að sannfæra mig um að velja fleiri heiðar, eða aðrar og betri heiðar en hér hafa verið taldar upp. Sömuleiðis er fróðleikur um fjallvegi alltaf vel þeginn, bæði þá sem ég er með á lista og alla hina.

Sem fyrr vonast ég til að sjá sem flest ykkar á þessum hlaupum. Samkvæmt lauslegri talningu hafa samtals 42 manns fylgt mér til þessa í a.m.k. einu fjallvegahlaupi. Á þessum ferðalögum hafa skapast kynni sem skipta mig miklu máli og eru á einhvern hátt öðru vísi en flest önnur kynni. Og þau endast vel!

Þessa mynd tók Sævar Skaptason af Pjetri St. Arasyni, mér og Bryndísi Óladóttur norðanvert í Reindalsheiði sl. sumar í einu af eftirminnilegastu fjallvegahlaupunum.

Þessa mynd tók Sævar Skaptason af Pjetri St. Arasyni, mér og Bryndísi Óladóttur norðanvert í Reindalsheiði sl. sumar í einu af eftirminnilegustu fjallvegahlaupunum.

Laugavegurinn 2007 – sagan öll

Í gær hljóp ég Laugaveginn í fyrsta sinn. Einhver sem ég hitti fyrr í sumar var hálfundrandi þegar ég sagði frá þessum áformum mínum og fannst ekki sérlega mikið til þeirra koma. Viðkomandi hrósaði mér reyndar fyrir að ætla að láta verða af því að hlaupa þessa leið, því flestir færu jú bara gangandi eða þá að þeir skoðuðu í búðargluggana út um bílrúðurnar. En Laugavegurinn sem ég hljóp í gær var sem sagt ekki leiðin frá Hlemmi niður á Lækjartorg, heldur frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk. Margir hafa jú farið gangandi þá leið, en þar eru engir búðargluggar til að horfa inn um, heldur ný náttúruupplifun við annað hvort fótmál.

Hvers vegna?
Ég varð fimmtugur fyrr á þessu ári. Af því tilefni ákvað ég að gefa sjálfum mér Laugaveginn í afmælisgjöf. Fyrir því voru eiginlega tvær ástæður, annars vegar hafði mig lengi langað til að hlaupa þessa leið einhvern tímann og hins vegar fannst mér ég þurfa að gera eitthvað sérstakt í tilefni af þessum tímamótum í lífinu, í stað þess að gefa mig á vald hægfara og ótímabærri afturför í andlegu og líkamlegu tilliti. Svo er líka bara svo gaman að setja sér krefjandi markmið og ná þeim.

Undirbúningurinn
Laugavegurinn er 55 km og svoleiðis vegalengd hleypur maður ekki upp úr þurru, heldur krefst verkefnið nokkurra mánaða undirbúnings ef vel á að vera. Í mínu tilviki hófst þessi undirbúningur eiginlega þegar ég hitti Önnu Dóru Sæþórsdóttur á ráðstefnu á Ísafirði í lok janúar, en hún hljóp Laugaveginn í fyrsta sinn í fyrra við afar erfiðar aðstæður. Bara það að spjalla við einhvern sem hafði látið verða af þessu gaf mér þann innblástur sem dugði til að hefjast handa. Undirbúningur fyrir löng hlaup snýst nefnilega ekkert síður um andlega þætti en líkamlega. Maður þarf að trúa á markmiðið og þrá að ná því.

Ég hef stundað hlaup af og til í næstum fjóra áratugi. En enda þótt hlaupin séu ekkert ný fyrir mér og hlaupaskórnir alltaf til taks í forstofunni eða bílskúrnum, allt eftir því hversu langt síðasta hlaupahlé hefur verið, þá dugar ekkert “af og til” þegar kemur að því að undirbúa maraþonhlaup eða þaðan af lengri. Fyrstu vikurnar voru æfingarnar þó helst til strjálar, enda vetrarveður misjöfn og ég lítið gefinn fyrir hlaupabretti og líkamsræktarstöðvar. Æfingaáætlunin var þó fljótlega tilbúin, enda aðeins 6 orð að lengd: “Bara nógu langt og nógu hægt”. Ég náði fljótt tökum á því síðarnefnda.

Með vorinu komst meiri regla á æfingarnar og vegalengdirnar urðu að sama skapi meiri. Heilsan var góð og engin meiðsli til ama. Ég hef lengst af verið einfari í hlaupunum – og finnst það bara gott, en samt verð ég að viðurkenna að æfingarnar fóru að ganga betur þegar ég fékk félagsskap á lengri leiðunum. Þar lagði Ingimundur Grétarsson í Borgarnesi mest af mörkum, en einnig komu við sögu Guðmann Elísson og Ólafur Ingþórsson. Eftirminnilegustu hlaupaferðirnar voru frá Borgarnesi vestur í Straumfjörð á Mýrum og svokölluð Múlaleið ofar á Mýrunum, sem kom skemmtilega á óvart með því að vera vel yfir 37 km en samt engin sérstök fyrirstaða. Svo fórum við Ingimundur í Mývatnsmaraþonið á Jónsmessunni og eftir það vissi ég að Laugavegurinn yrði í lagi. Síðustu þrjár vikurnar notaði ég meðal annars til að hlaupa Óshringinn við Hólmavík fjórum sinnum í röð og ganga þrisvar upp á topp Hafnarfjallsins og skokka niður. Þær æfingar áttu eftir að reynast mér afar notadrjúgar.

Klæðaburður og nesti
Klæðaburður og nesti eru meðal mikilvægra þátta sem þarf að huga að í undirbúningi og upphafi hlaups sem þessa. Eiginlega má skipta nestinu í tvo undirflokka, annars vegar það sem maður ber með sér í drykkjarbelti eða öðru álíka, og hins vegar það sem maður hefur innbyrt síðustu dagana og klukkutímana fyrir hlaup. Ég taldi mig vera á nokkuð góðu róli með það síðarnefnda. Kvöldið áður borðaði ég eins mikið og ég hafði lyst á af fitulitlu grilluðu lambakjöti úr Bitrufirði með kartöflum, grænmeti og engri sósu. Um nóttina áður en ég lagði af stað fékk ég mér fullan disk af AB-mjólk með miklu múslí og í Hrauneyjum, tveimur tímum fyrir hlaup, bætti ég á mig tveimur brauðsneiðum með skinku og osti, einu eggi og tveimur tekrúsum. Eftir á að hyggja var þetta samt líklega engan veginn nægjanlegt, en meira um það síðar. Af eiginlegu nesti hafði ég meðferðis tvo litla vatnsbrúsa, tvo jafnlitla brúsa af Aquarius, tvö bréf af orkugeli, eina eða tvær orkustangir, dálítinn bita af Snickers og matarsalt í litlu boxi. Ég endurnýjaði síðan þessar birgðir að hluta við Bláfjallakvísl, en þangað var búið að flytja töskur og poka sem þátttakendur höfðu útbúið og skilað inn daginn áður. Til viðbótar við nestið innbyrti ég svo sem þrjá hálfa banana, eitthvað af orkudrykkjum og dálítið meira Snickers á drykkjarstöðvum á leiðinni. Orkustangirnar nennti ég aldrei að borða, því að það er svo mikið vesen að tyggja þær.

Klæðaburðurinn hlýtur að ráðast af veðri og venjum og þörfum hvers og eins. Ég var í þröngum stuttbuxum niður á mið læri (hjólabuxum), stuttermabol og langerma hlaupastakk utanyfir. Fljótlega renndi ég ermunum af stakknum og var þá kominn í nokkurn veginn vindhelt vesti i staðinn. Þessi búningur reyndist ágætlega. Á fótum hafði ég nokkurra mánaða gamla Asics Goretex utanvegahlaupaskó (trailskó). Þessir skór hafa reynst mér einstaklega vel á grófu og lausu undirlagi, því að þeir hafa fádæma gott grip. Á miðri leið skipti ég reyndar yfir í nýlega Asics Kayano götuhlaupaskó sem biðu mín við Bláfjallakvísl. Undir skónum var ég í hlaupasokkum úr þar til gerðu gerviefni. Dagar bómullarsokka eru taldir í svona hlaupum.

Hlaupið sjálft
Laugavegshlaupið 2007 var ræst í Landmannalaugum kl. 9 að morgni laugardagsins 14. júlí. Ég hafði vaknað kl. 2.30 um nóttina eftir fremur stuttan en notadrjúgan svefn, keyrt til Reykjavíkur og tekið rútu þaðan austur. Veðrið í Landmannalaugum þennan morgun var einkar ákjósanlegt, austan gola, skýjað að mestu og líklega 10-12 stiga hiti. Rignt hafði um nóttina, þannig að stígar voru fastari fyrir en ella og minna ryk.

Alls lögðu 133 hlauparar upp frá Landmannalaugum og allir skiluðu þeir sér í mark í Þórsmörk síðar um daginn. Ég hélt mig aftarlega fyrsta kílómetrann, en tók svo að fikra mig framar í röðina. Fyrsti áfangi hlaupsins, frá Landmannalaugum upp í Hrafntinnusker, er nær allur á fótinn. Þar er farið eftir stígum upp hvert holtið af öðru og á nokkrum stöðum eru snjódældir milli holta. Ég fór að ráðum reyndra manna og hljóp lítið sem ekkert á þessari leið, en gekk rösklega. Mér til gamans taldi ég þá sem ég fór fram úr og var kominn upp í 32 þegar ég skokkaði í hlað við skálann við Hrafntinnusker. Einn þessara manna var Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari, sem átti eftir að koma mikið við sögu mína síðar í hlaupinu. Við Hrafntinnusker taldi ég mig vera um það bil í miðjum hópi eða kannski eilítið framar. Þessi fyrsti áfangi er um 10 km og hækkunin um 500m. Millitíminn minn var 1:20 klst, sem var 4 mín. á undan lauslegri áætlun sem ég gerði fyrirfram og miðaði við að ljúka hlaupinu á 7 klst.

Ég fann fyrir einhverri þreytu strax við Hrafntinnusker, en þó ekkert til að hafa orð á. Í heildina leið mér aldeilis stórvel. Næstu kílómetrar fundust mér þó heldur erfiðari, en líklega var það bara andlegt erfiði sem fylgir því að snúa baki við einum ákvörðunarstað og byrja á nýjum áfanga. Þessi áfangi var leiðin frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni, samtals um 11 km með 500 m lækkun. Fyrsti hluti leiðarinnar liggur upp og niður í öldum, þar sem skiptist á sandur og snjódældir. Á leiðinni frá Hrafntinnuskeri fram á brún Kaldaklofsfjalla mátti ég sjá á bak nokkrum hlaupurum, líklega einum fjórum. Þarna á brúninni stóð stúlka, starfsmaður hlaupsins, sem varaði mann við að leiðin niður Jökultungur væri venju fremur slæm og því ástæða til að gæta varúðar. Þessi viðvörun var eitt af mörgum dæmum um framúrskarandi framkvæmd hlaupsins. Mér finnst hins vegar sérlega gaman að hlaupa niður í móti og hafði því þessa viðvörun að engu. Hljóp niður Jökultungurnar eins og ég framast þorði, gegn ráðum vísra manna sem hafa fyrir satt að óþarfur hraði á þessari niðurleið komi illa niður á mönnum síðar í hlaupinu. Þetta er nú líklega alveg rétt hjá þeim, þótt auðvitað hljóti það að vera einstaklingsbundið. Alla vega skemmti ég mér vel á þessum stutta og bratta kafla og fór fram úr einum 8 hlaupurum á eins kílómetra leið. Þarna sönnuðu Asics Trail skórnir gildi sitt þó að ég væri einu sinni dálítið hætt kominn í augnabliks grandaleysi.

Það var gaman að sjá úr Jökultungum niður að Álftavatni og mér þótti annar áfanginn stuttur. Eitthvað hafði ég þó lent í vatni, kannski í Grashagakvísl, og eins var kominn sandur og smásteinar í skóna. Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar að skipta um skó við Bláfjallakvísl og fara í þurra sokka.

Millitíminn við Álftavatn var 2:36 klst. Þar með hafði ég náð samtals 12 mínútna forskoti miðað við upphaflega áætlun. Var þó hóflega bjartsýnn, því að mig grunaði að síðasti áfanginn gæti orðið drjúgur.

Leiðin frá Álftavatni að Bláfjallakvísl var lengri en ég hafði búist við. Eftir að hafa vaðið Bratthálskvísl í ökkla eða rúmlega það og svo sem eina litla á til viðbótar, voru skórnir mínir orðnir býsna þungir. Þá komu gallar goretexskónna í ljós. Þeir hleypa nefnilega hvorki vatni út né inn, þannig að þegar þeir eru einu sinni orðnir fullir af vatni, þá fer vatnið hvergi. Ég fer ekki aftur í svoleiðis skóm í svona hlaup. Þeir eru bara nothæfir á sæmilegu þurru landi.

Eftir að hafa vaðið Bláfjallakvísl settist ég niður til að hafa skóskipti og endurnýja nestið, en þar beið mín eins og fyrr segir farangur frá deginum áður. Þetta einfalda viðfangsefni var sýnu erfiðara en ætla mætti og tók samtals um 8 mínútur. Þegar ég settist niður og beygði fæturna til að fara úr skónum fékk ég nefnilega krampa efst í lærin. En allt tókst þetta að lokum og gott að vera kominn í þurrt. Þarna voru búnir 26 km.

Í þann mund sem ég var að leggja upp eftir skóskiptin við Bláfjallakvísl kom Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari aðvífandi á sínum jafna og örugga hraða. Laugavegurinn var bara þægileg æfing fyrir hann, enda ekki ýkja langt síðan hann lauk sólarhringshlaupi á Borgundarhólmi með frábærum árangri – og í haust þreytir hann svonefnt Spartaþon í Grikklandi, 240 km hlaup takk fyrir. Fyrst skreppur hann þó í svonefnda ATC-keppni (Arctic Team Challenge) á Grænlandi um næstu helgi, en þar verður lið hraustra Íslendinga undir forystu Trausta Valdimarssonar í eldlínunni þriðja árið í röð í keppni þar sem er hlaupið, róið og hjólað í fimm daga, samtals um 250 kílómetra. Ég sá mér strax leik á borði að slást í för með Gunnlaugi. Næstu 20 kílómetra lifði ég hálfgerðu sníkjulífi, fylgdi honum eftir við hvert fótmál og fræddist heilmikið bæði um örnefni á svæðinu og um langhlaup. Þetta var eiginlega besti hluti leiðarinnar og undirlagið líka með jafnasta móti, tiltölulega sléttir sandar með dálitlum hæðum á milli. Þarna hefði reyndar verið hægt að villast að minnsta kosti á einum stað þar sem beygt var út af vegarslóða án þess að það væri merkt sérstaklega. Þarna vantaði örlítið á merkingarnar.

Þriðja áfanga leiðarinnar lauk við Emstrur. Þangað var ég kominn fyrr en varði í fótspor Gunnlaugs, 37 km að baki og tíminn eitthvað um 4:31 klst, eða um 23 mínútum skemmri en upphafleg áætlun mín gerði ráð fyrir. Mér leið vel og var farinn að eygja möguleika á að ljúka hlaupinu á sex og hálfum tíma. Vissi að það eina sem ég þyrfti að gera væri að fylgja Gunnlaugi það sem eftir lifði hlaups. Það var hárrétt mat, því að Gunnlaugur lauk hlaupinu á 6:28:00 klst.

Eftir Emstrur fór ég fljótlega að finna til meiri þreytu en áður. Kramparnir í fótunum gerðu smátt og smátt meira vart við sig og kúlan utan á hægri ökklanum var orðin aum, eins og hún hefur átt vanda til í sumar. Ég ákvað þó að gefa hvergi eftir. Þarna liggur leiðin um fremur stórbrotið landslag, svo sem við Neðri-Emstruá. Brekkan upp úr henni var erfið og sama gilti um aðrar brekkur upp í móti á þessu kafla. Í Fauskatorfum var mér farið að líða all illa, fæturnir orðnir þungir og stífir og ónot í maga. Á slíkum stundum er þó ávallt erfitt að greina á milli líkamlegrar og andlegrar vanlíðunar. Alla vega sá ég fram á að geta ekki fylgt Gunnlaugi lengur. Þegar þarna var komið sögu sýndi GPS-tækið á handleggunum að 46,4 km væru að baki. Við tók 700 metra ganga, þar sem ég reyndi að ná kröftum á ný og sætta mig við að draumurinn um sex og hálfan tíma væri á útleið. Var ekki meira en svo viss um að ég gæti byrjað að hlaupa aftur, og þá hefðu 7 tímarnir verið fljótir að líða. Það var vel ásættanlegur tími við upphaf hlaups, en í engu samræmi við væntingarnar sem höfðu byggst upp á leiðinni.

Allt hafðist þetta þó smátt og smátt. Hlaupararnir tíndust fram úr mér einn af öðrum, en víða hitti ég göngufólk með bakpoka og stafi, sem gaukaði að mér uppörvandi orðum. Sömu sögu er að segja af frábæru starfsfólki hlaupsins við drykkjarstöðvar og vöð. Bröttustu brekkurnar niður í móti voru þó virkilega erfiðar, bæði vegna þreytunnar og vegna þess að Kayano skórnir hafa svo sem ekkert grip í brattlendi miðað við utanvegaskóna. Leiðin upp Kápu var líka virkilega erfið og síðustu þrír kílómetrarnir ætluðu engan enda að taka, jafnvel þótt leiðin lægi um mjúka skógarstíga. Krampinn í fótunum minnti á sig við næstum hvert fótmál. Stundum þurfti ég að standa kyrr í smástund til að reyna að bæta ástandið og einu sinni gekk ég aftur á bak smáspöl, en það hefur víst reynst mörgum vel við þessar aðstæður. Í huganum vissi ég þó að mér myndi takast ætlunarverkið og skyndilega var ég staddur á sléttum grasbala í Þórsmörk og sá endamarkið blasa við. Mig minnir að ég hafi svifið síðustu 100 metrana og ég kom örugglega brosandi í mark. Tíminn var 6:40:50 klst, sem sagt 19 mínútum skemmri en ég hafði upphaflega áætlað. Ég var því virkilega sáttur þótt tímabundinn draumur um enn betri tíma hefði dáið í Fauskatorfum. Þessi tími dugði mér í 61. sæti af 133 þátttakendum og í 9. sæti af 23 körlum á sextugsaldri.

Eftirköst
Að loknu hlaupi tók það mig tæpan klukkutíma að komast úr hlaupafötunum, fara í sturtu og klæða mig aftur. Sérstaklega var erfitt að komast úr skónum og í aðra. Ætli ég verði ekki að taka með mér aðstoðarmann í næsta Laugavegshlaup til að reima fyrir mig skóna? Mér fannst það reyndar bráðfyndið, þar sem ég sat úti í móa í Þórsmörk klukkutíma eftir hlaup, að ég skyldi hafa getað skokkað þessa 55 kílómetra, en þyrfti að beita mig hörðu til að komast í sokka og skó.

Eftir grillmat og spjall við skemmtilegt fólk við endamarkið í Þórsmörk var lagt af stað í rútu til Reykjavíkur og farið enn betur yfir viðburði dagsins á leiðinni. Þetta gekk vel, en það reyndist ekki að sama skapi auðvelt að keyra í Borgarnes, þar sem hægri fóturinn var enn haldinn einhverri samdráttartilhneigingu. Allt hafðist það þó með lagni og morguninn eftir merkti ég engin eftirköst nema stirðleika í fótum.

Helsti lærdómur
Maður getur lært margt í svona hlaupi, enda gengur yfirleitt betur að læra af eigin mistökum en annarra. Hér verður tínt til eitthvað af því sem ég lærði, þó ekki væri til annars en að minna mig á ef ég skyldi gera þetta aftur. Reyndar varð mér að orði þegar ég var að reyna að komast úr hlaupafötunum að hlaupi loknu, að kannski myndi þetta verða fyrsta og eina Laugavegshlaupið mitt. Þá var mér bent á að líklega myndi allt annað verða uppi á teningnum strax á næsta degi. Held að það geti reyndar vel verið rétt. En helsti lærdómurinn var alla vega þessi:

  • Það er nauðsynlegt að borða staðgóðan mat kvöldið fyrir Laugaveginn. Þar dugar ekkert hveiti, hvort sem það er framreitt sem brauð eða pasta. Maðurinn lifir ekki á hveitibrauði einu saman. Þetta var svo sem nokkurn veginn í lagi í mínu tilviki.
  • Það er líka nauðsynlegt að borða staðgóðan morgunmat nóttina fyrir Laugaveginn ef maður leggur af stað áleiðis í Landmannalaugar fyrir allar aldir. Þar mega fara saman prótrein og trefjar. Þetta var svo sem líka nokkurn veginn í lagi hjá mér, en magnið og fjölbreytnin hefði mátt vera meira.
  • Það er nauðsynlegt að taka með sér almennilegt nesti til að maula á leiðinni heiman að og í Landmannalaugar. Þessi ferð tekur nokkra klukkutíma og það er mjög slæm hugmynd að leggja upp í svona hlaup hálfsvangur. Gunnlaugur Júlíusson hafði með sér fiskbollur og hreinan appelsínusafa til að gæða sér á í rútunni. Ég held að það hafi verið býsna góð hugmynd hjá honum. Þarna brást mér bogalistin, var ekki með neitt nesti, og morgunverðurinn í Hrauneyjum var of einfaldur og endasleppur.
  • Það er æskilegt að gera sérstaka fæðuáætlun fyrir hlaupið sjálft og miða farangurinn við það. Sé maður í góðu næringarástandi við upphaf hlaupsins, sem er reyndar alveg nauðsynlegt, væri kannski ráð að taka eingöngu með sér allt að 10 bréfum að orkugeli sem maður svelgir svo í sig reglulega á hálftímafresti hvort sem mann langar til þess eða ekki. Þessu til viðbótar ætti ekkert að þurfa að vera í drykkjarbeltinu annað en vatn eins og maður nennir að bera. Svo er alltaf hægt að fá viðbót á drykkjarstöðvum og í bergvatnsám og lækjum á leiðinni. Loks gæti verið snjallt að hafa með sér salt í einhverju formi, gjarnan með fleiri steinefnum.
  • Það er góð hugmynd að kynna sér ástæður krampa í fótum. Gunnlaugur mælir með miklu C-vítamíni og magnesíum sem fyrirbyggjandi þáttum, en kalk hefur einnig verið nefnt til sögunnar. Svo skiptir auðvitað meginmáli að vera í nógu góðri æfingu! Þarna brást eitthvað í undirbúningnum mínum, og reyndar veit ég um fleiri sem áttu við svipaðan vanda að stríða.
  • Maður skyldi ekki hlaupa Laugaveginn í goretexskóm. Hins vegar er afar brýnt að vera í skóm með grófum sóla, helst alla leiðina.
  • Það er slæm hugmynd að sitja við Bláfjallakvísl í 8 mínútur við að reyna að skipta um skó. Betra er að vera í skóm sem duga alla leið. Hins vegar getur verið snjallt að eiga varanesti, varaskó og varaföt við Bláfjallakvísl, ef mann skyldi nú vanta eitthvað eða ef veður breytist mikið á leiðinni.

Öll þessi góðu ráð, sem ýmist byggjast á eigin athugunum eða ráðleggingum annarra, eiga auðvitað ekki við alla, enda fyrst og fremst sniðin að eigin þörfum. Fólk er jú mismunandi að allri gerð. Það sem hentar einum hentar því ekki endilega öðrum.

Lokaorð og þakkir
Það var gaman að hlaupa Laugaveginn. Þar kemur margt til, þó líklega aðallega þrennt. Í fyrsta lagi er hollt að setja sér krefjandi markmið og ná þeim. Það er heilmikill sigur út af fyrir sig. Í öðru lagi gefur Laugavegshlaupið kost á frábærri náttúruupplifun, ekki síst fyrir mann eins og mig sem hvorki hafði áður komið í Landmannalaugar né Þórsmörk. Reyndar eru því takmörk sett hversu mikið maður getur notið útsýnis á hlaupunum, því að ekki má gleyma að sjá fótum sínum forráð. En náttúruupplifun snýst ekki bara um sjón, heldur líka lykt, heyrn og tilfinning, sem erfitt getur verið að lýsa. Það eru einfaldlega forréttindi að geta verið þarna úti og upplifað þetta “eitthvað” sem hvergi er að finna innanhúss, að vera í aðstöðu til að leggjast flatur og segja við sjálfan sig “Þetta er lífið maður”, eins og grísinn í barnabókinni “Elsku litli grís” eftir Ulf Nilsson. Í þriðja lagi gefur Laugavegurinn manni kost á að njóta samvista við fólk sem maður þekkir og þekkir ekki, við aðstæður þar sem samskipti verða innihaldsríkari en gengur og gerist í amstri dagsins.

Það er svo sem ekkert einstætt að ég skuli hafa hlaupið Laugaveginn. Það gerðu jú 132 aðrir sama daginn. En samt er það svo, að persónulegur og dálítið eigingjarn draumur eins og þessi verður ekki að veruleika nema með aðstoð og velvild þeirra sem næst manni standa og oftast margra annarra líka. Þarna kemur auðvitað fyrst upp í hugann þáttur Bjarkar og barnanna okkar sem hafa þurft að þola óvenju sjálflæga hegðun mína síðustu mánuði, en samt hvatt mig áfram með ráðum, dáð og kjötsúpu. Svo má líka nefna fáa en góða hlaupafélaga með Ingimund Grétarsson í broddi fylkingar, Önnu Dóru sem óvart fékk mig til að trúa virkilega á hugmyndina og Gunnlaug sem eiginlega dró mig 20 kílómetra af þessum 55 og miðlaði mér af reynslubrunni sínum á leiðinni. Ekki má heldur gleyma starfsfólki hlaupsins, sérstaklega þeim sem stóðu vaktina á drykkjarstöðvum og við vöðin á ánum. Með jákvæðni sinni og hjálpsemi átti þetta fólk stóran þátt í að gera daginn eins þægilegan og hann mun verða í minningunni. Sama gildir auðvitað um skipuleggjendur hlaupsins sem stóðu sig greinilega afar vel. Þau verk eru þess eðlis að þau sjást eiginlega bara ef þau eru ekki unnin. Þau sáust naumast í gær. Loks er ég þakklátur öllum vinum og kunningjum sem sýndu þessu uppátæki áhuga, hvöttu mig til dáða og fylgdust með hvernig gengi, ýmist úr nálægð eða fjarlægð.

Gagnlegar og upplýsandi vefslóðir

Lýkur hér að segja frá draumnum sem rættist 14. júlí 2007.

Borgarnesi 15. júlí 2007
Stefán Gíslason