• Heimsóknir

    • 119.040 hits
  • júlí 2022
    S M F V F F S
     12
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
    31  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Góðar minningar úr Dyrfjallahlaupi

Ég hljóp Dyrfjallahlaupið 9. júlí sl., þrátt fyrir að ég hefði nánast ekki getað hlaupið neitt af viti síðustu fimm mánuðina þar á undan vegna meiðsla. En ég lét mig hafa það, annars vegar vegna þess að ég var orðinn nógu góður til að geta skokkað nokkra kílómetra og hins vegar vegna þess að Dyrfjallahlaupið er eitthvað sem ég vil alls ekki missa af. Náttúran þarna fyrir austan er einfaldlega of stórkostleg til að njóta hennar ekki – og yfirbragðið á hlaupinu er líka einhvern veginn þannig að manni getur ekki annað en liðið vel í sálinni, þó að líkaminn sé kannski frekar þvældur.

Í mínum augum felst fegurð náttúrunnar ekki bara í náttúrunni sjálfri, heldur líka í sögunni sem hún geymir, hvort sem það er jarðsaga eða mannkynssaga, og í vitneskjunni sem býr í manni sjálfum um þessa náttúru og þessa sögu. Á Borgarfirði eystra er náttúruupplifunin samt svo sterk að maður þarf ekki að vita neitt til að falla í stafi, svo lengi sem maður hefur fjallasýn.

Hlaupaleiðin
Hlaupaleiðin í Dyrfjallahlaupinu liggur reyndar ekki um Dyrfjöll, en þegar bjart er í veðri vaka þau yfir öllu saman. Fyrstu tvö árin sem hlaupið var haldið (2017 og 2018) lá leiðin umhverfis þessu miklu fjöll, en síðan var horfið frá því, væntanlega af öryggis- og náttúruverndarástæðum. Síðan þá hefur leiðin legið frá Borgarfirði um Víknaslóðir – og aftur til Borgarfjarðar. Lagt er af stað við brúna yfir Þverá, svo sem 8 km innan við þorpið í Bakkagerði, rétt eins og leiðin lægi eftir jeppaveginum til Loðmundarfjarðar. Fyrsta spölinn er þeim vegi fylgt en síðan er sveigt til vinstri út af honum með stefnu niður í Breiðuvík. Við Gæsavötn er aftur komið á jeppaveg, þ.e.a.s. veginn niður af Víknaheiði, sem endar svo niðri í víkinni. Fyrir 140 árum bjuggu hátt í 30 manns á tveimur bæjum í þessari vík, en nútímatækni hélt aldrei innreið sína í víkina og 1947 lagðist byggðin endanlega af. Þetta er grösug vík með talsverðu undirlendi, en það þurfti „dugnað og fyrirhyggju“ til að nýta sér landkostina, eins og einn ábúandinn orðaði það á sínum tíma.

Úr Breiðuvík liggur leiðin upp brattar grasbrekkur og gróðurminni holt upp á Kjólsvíkurvarp. Þar sést niður í Kjólsvík og þar var líka búið á sínum tíma (til 1938) þó að undirlendið sé miklu minna en í Breiðuvík, nútímatæknin enn fjarlægari og þörfin fyrir dugnað og fyrirhyggju enn meiri. Áfram er svo haldið upp á Syðravarp þar sem hlaupaleiðin liggur hæst, í 445 m hæð – og síðan um Súluskarð. Eftir það lækkar landið áleiðis til Brúnavíkur. Þar er svolítill spölur hlaupinn eftir sendinni fjöru, Brúnavíkurá vaðin rétt ofan við flæðarmálið og síðan stefnt til fjalls á ný, upp í Brúnavíkurskarð. Um Brúnavík var einhvern tímann sagt að þaðan færi enginn ríkari en hann kom. Þar var samt búið til 1944 og m.a. stunduð kartöflurækt.

Leiðin upp í Brúnavíkurskarð er líklega erfiðasti hlutinn af hlaupaleiðinni, bæði vegna þess að hlíðin er býsna brött og vegna þess að í Brúnavík eru rúmir 19 km að baki af þessum 23,75 sem er heildarvegalengdin í hlaupinu. Þreyta í fótum sem treysta sér ekki vel í þriðju hækkun dagsins nær þá næstum að yfirvinna gleðina yfir því hversu stutt er í mark. En þegar komið er upp í skarðið (354 m) blasa Dyrfjöllin við hinum megin fjarðar og á því augnabliki uppsker maður ávöxt erfiðisins.

Úr Brúnavíkurskarði eru ekki nema 2,5 km eftir niður á marksvæðið úti við Höfn, þar sem lundarnir eiga heima – og á þeim kafla er varla pláss fyrir annað en tilhlökkun og þá árvekni sem þarf til að kunna fótum sínum forráð á niðurleiðinni.

Jósep Magnússon í Brúnavíkurskarði, öruggur með 4. sætið í hlaupinu. Bara endaspretturinn eftir – og Dyrfjöll vaka yfir. (Ljósm. Gunnar Atli Fríðuson).

Dagarnir fyrir hlaup
Dagana fyrir hlaup hafði ég og fjölskyldan mín látið fara vel um sig í sumarbústað í útjaðri Egilsstaða. Auk þessarar venjulega afslöppunar sem fylgir sumarbústaðaferðum hafði ég náð að hlaupa þrjú fjallvegahlaup, en svoleiðis hlaupum safna ég á svipaðan hátt og aðrir safna sérvíettum eða kílóum. Dyrfjallahlaupið, en ekki fjallvegahlaupin, var samt ástæða þess að ég valdi Austurlandið enn eina ferðina.

Að morgni hlaupadags fékk ég far með Jósep Magnússyni, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi, frá Egilsstöðum út á Borgarfjörð. Jósep er ekki bara einn af öflugustu og reyndustu langhlaupurum landsins, heldur er hann líka talsvert lausari við áhyggjur og smámunasemi en annað fólk. Sennilega hefði enginn nema hann ákveðið kl. 16 á föstudegi að taka þátt í Dyrfjallahlaupinu daginn eftir, keyrt frá Borgarnesi með fimm manna fjölskyldu og hjólhýsi, komið sér fyrir á tjaldstæðinu á Egilsstöðum, náð góðri næturhvíld þar, verið mættur sultuslakur á ráslínuna á Borgarfirði eystra löngu fyrir kl. 10 á laugardagsmorgni – og endað svo í 4. sæti í hlaupinu.

Hlaupaáætlun („Gameplan“) dagsins
Eins og gefið er í skyn í inngangi þessa pistils var ég alls ekki í standi til að hlaupa þetta Dyrfjallahlaup, þó að ég byggist vissulega við að komast í mark með einum eða öðrum hætti. Þegar ástandið á skrokknum er lélegt kemur reynslan inn af varamannabekknum. En ég gerði mér samt áætlun um alls konar millitíma og lokatíma, sem ég reiknaði út frá Dyrfjallahlaupinu árið áður, rétt eins og ég er vanur að gera fyrir Laugavegshlaupin. Einhverjum kann að hafa dottið í hug að segja mér, að þegar litlar eða engar æfingar séu í bakpokanum sé skynsamlegast að leggja öll viðmið til hliðar og einbeita sér bara að því að njóta, þ.e.a.s. fyrst maður er staðráðinn í að hlaupa þetta hlaup á annað borð. Tíminn skipti ekki máli. En fyrir mér er tölfræðin stór hluti af nautninni. Hana legg ég aldrei til hliðar. Og auðvitað vissi ég að tíminn minn frá því í fyrra væri ekki raunhæft viðmið. Þá gekk mér býsna vel og lauk hlaupinu á 2:46:31 klst. Síðustu 16 vikurnar þar á undan hafði ég hlaupið samtals 1.035 km á æfingum, en á þessu ári var sambærilegur skammtur ekki nema 224 km. Þessar tölur segja svo sem ekki alla söguna um hlaupaformið, en gefa vissulega vísbendingu. Með hliðsjón af þessu datt mér í hug að 10% lakari tími en í fyrra (3:03:10 klst.) væri líklegur – og það var bara fínt. En svo lá talan 3:00:00 klst. svo vel við höggi að ég ákvað að nota hana sem viðmið. Ekki sem markmið, heldur bara sem viðmið. Mér var sem sagt eiginlega sama þótt tíminn yrði eitthvað lakari en það, því að allt var vel þegið eftir það sem á undan var gengið í meiðslum og veseni. Í samæmi við þetta leit áætlun dagsins svona út í Excelnum mínum:

Fyrstu 5 km
Mér leið bara vel á fyrstu kílómetrum hlaupsins og fann að dagsformið var gott, þó að ársformið væri lélegt. Eins og stundum áður streymdi fólk fram úr mér á leiðinni upp brekkur, en svo gekk mér betur þar sem hallaði undan fæti. Reyndar hafa heilsuvandamál síðustu mánaða einkum átt lögheimili í hnjánum, og þá eru niðurhlaupin í minna uppáhaldi en ella. En þetta var samt bara fínt og tilfinningin góð að vera kominn af stað í keppnishlaup eftir 11 mánaða hlé frá slíku. Ég var því býsna spenntur að sjá millitímann eftir 5 km, sem voru einmitt búnir rétt hjá Gæsavötnum. Þar sýndi klukkan 36:03 mín, vissulega 23 sek á eftir áætlun, en sjálfsagt innan 10% markanna. Ég var sáttur.

Á fyrstu kílómetrunum. (Ljósm. Fannar Magnússon).

Gæsavötn-Breiðuvík
Á þessum kafla færðist ég talsvert framar í röðina, en fannst auðvitað svolítið leiðinlegt að geta ekki látið vaða niður brekkurnar eins og ég hef yfirleitt getað gert. En ég var samt staðráðinn í að taka vel á því á þessum kafla, því að þarna er jeppavegur nánast alla leið og ég er í raun skástur á sæmilega sléttu undirlagi eins og staðan er núna. Ég varð því fyrir svolitlum vonbrigðum að sjá millitímann 1:07:45 klst. í Breiðuvík. Ég var þá orðinn u.þ.b. einni og hálfri mínútu á eftir áætlun – og eftir á að hyggja ekki innan 10% markanna. En hverjum var ekki sama? Gleðin yfir því að vera aftur mættur í hlaup, og það á þessum uppáhalds hlaupaslóðum mínum, var miklu sterkari en heimatilbúin vonbrigði yfir því að geta ekki alveg það sem ég hélt að ég gæti – kannski.

Nokkuð brattur á leiðinni af Víknaheiði niður í Breiðuvík. (Ljósm. Þorsteinn Roy).

Upp úr Breiðuvík
Ferðalagið upp úr Breiðuvík sóttist mér seint, eins og ég bjóst reyndar við. Styrkurinn í fótunum dugar ekki í langar brekkur, svo að þarna kom þolinmæðin í góðar þarfir. Einhvers staðar á þessari leið náði Ásdís Ingvarsdóttir mér. Hana var gaman að hitta, en við hlupum síðast saman í fjallvegahlaupi vestur á Snæfellsnesi fyrir 7 árum. Svona líður tíminn. Rétt áður en ég náði upp á Syðravarp sýndi úrið 15 km og millitímann 1:50:27 klst. Þarna var farið að draga í sundur með mér og áætluninni, munurinn orðinn rúmar 3 mínútur. En mér fannst gott að koma þarna upp og finna fyrir minningum frá árinu 2019 þegar ég hljóp þarna með Gittu minni í þoku og rigningu.

Niður í Brúnavík
Á leiðinni niður úr Súluskarði fann ég að hnén og framanverð lærin voru ekki þakklát fyrir það uppátæki mitt að vilja endilega fara í þetta hlaup. Þarna náði ég samt einhverjum hlaupurum – og aðrir tóku framúr. Og gleðin var enn til staðar, gleðin yfir því að hafa látið mig hafa það að vera með þrátt fyrir allt, gleðin yfir því að geta þetta ennþá, gleðin yfir vissunni fyrir því að ég myndi skila mér í mark á endanum – og gleðin yfir hvatningarorðunum sem starfsfólk hlaupsins kallaði til mín þarna í skörðunum. Sum voru of falleg til að ég treysti mér til að setja þau á blað. Og sólin skein, þó að þokan og þreytan væru greinilega frekar í sóknarhug en hitt. Og millitíminn við drykkjarstöðina neðan við björgunarskýlið í Brúnavík var 2:23:35 klst. Jæja, þarna voru þá farnar 6 mínútur miðað við áætlunina. Allt tal um 3 klst. lokatíma var hætt að vera raunhæft, en kannski var 3:10 innan seilingar. Það var alveg nógu gott. Hlaupaskórnir voru enn fullir af gleði – og vatni úr Brúnavíkurá.

Í fjörunni í Brúnavík. Myndin er tekin sumarið 2019 þegar við Gitta hlupum þarna um.
Í brekkunum upp úr Brúnavík.
(Ljósm. Þorsteinn Roy).

Síðasti áfanginn
Síðasti áfanginn var drjúgur og brekkurnar upp úr Brúnavík brattari en árið áður. Þá fékk ég líka orku og aukaskammt af gleði frá 12 km hlaupurum sem ég fór fram úr á uppleiðinni. Nú voru þau greinilega flest farin hjá. Einn af brautarvörðunum í brekkunum benti mér á að ég væri heppinn að vera kominn yfir Súluskarð. Ég leit um öxl og sá að skarðið var orðið fullt af þoku, þar sem sólin hafði skinið á mig hálftíma fyrr. Í brekkunum hitti ég líka einhvern ljósmyndara, sem var ekki bara búinn að fylgja mér annað slagið á leiðinni, heldur gat hann labbað hraðar afturábak með þunga myndavél en ég gat hlaupið áfram með engan farangur. Reyndar heitir þessi „einhver ljósmyndari“ Þorsteinn Roy og er næststerkasti utanvegahlaupari Íslands skv. alþjóðlegum styrkleikalista ITRA. Á þeim lista var ég í 236. sæti af Íslendingum síðast þegar ég gáði.

Þó að brekkurnar upp úr Brúnavík reyndust mér erfiðar, var heimreiðarléttleikinn farinn að gera vart við sig, enda ekki nema 2,5 km í mark þegar maður er kominn upp í Brúnavíkurskarð. Ég sá sjálfan mig fyrir mér geysast niður brekkurnar hinum megin og þjóta fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum. Það gerðist reyndar ekki, því að þegar þarna var komið sögu höfðu löskuðu hnén ekki mikinn áhuga á frekara samstarfi við þennan bjartsýna heila. Og enn varð heilinn að spila út sínu sterkasta trompi, þolinmæðinni, eða eigum við kannski að kalla það seiglu? Alla vega kom ég brosandi í mark um síðir á 3:10:54 klst.

Við Sara, sátt eftir hlaup.

Eftir hlaup
Marksvæði hlaupa eru uppáhalds-svæðin mín. Þar hitti ég ævinlega fullt af fólki sem ég þekki, enda er hlaupavinahópurinn orðinn býsna stór eftir öll þessi ár. Á svona svæðum ríkir gleðin „ofar hverri kröfu“. Marksvæðið við Höfn var engin undantekning frá þessu – og hápunkturinn var að hitta Söru tengdadóttur, sem kom í mark rétt á eftir mér og var þarna að bæta sig um heilar 45 mínútur frá hlaupinu í fyrra. Líklega bíður hún eftir mér í markinu næst.

Þakkarorðin
Eftir svona hlaup er gleðin ekki alveg ein við völd, þrátt fyrir allt. Þakklætið er nefnilega líka í afar stóru hlutverki. Ég hef svo sem oft skrifað um þá tilfinningu og þarf kannski ekki að endurtaka það í hverjum pistli. Þakklætið beinist fyrst og fremst að mínum nánustu, t.d. fjölskyldunni sem nennir að vera með mér á ferðalögum í ólíklegustu landshlutum, þó að allir viti að kveikjan að ferðinni séu eigingjörnu hlaupaáformin mín. Og svo beinist þakklætið líka að forsjóninni, því að auðvitað er ekkert sjálfsagt að fólk sem er komið hálfa leið á sjötugsaldurinn geti hlaupið klukkutímum saman um fjöll og firnindi, hvað sem öllum Excelskjölum og mínusmínútum líður. Og í þessu tilviki verð ég líka að bæta við sérstökum þökkum til Olgeirs Péturssonar og annars forsvarsfólks Dyrfjallahlaupsins fyrir að standa fyrir þessari fallegu gleðihátíð og gefa mér þannig tilefni og tækifæri til að njóta náttúrufegurðarinnar og gestrisninnar sem einkennir Borgarfjörð eystra – já, og Víknaslóðir líka þó að föst búseta hafi lagst þar af. Þarna er bara eitthvað í andrúminu sem ég sæki orku í – aftur og aftur. Vonandi get ég notið þess aftur að ári.