Á sumardaginn fyrsta, nánar tiltekið fimmtudaginn 25. apríl sl., tók ég þátt í Víðavangshlaupi ÍR í 7. sinn. Það er út af fyrir sig ekki fréttnæmt, enda hefur hlaupið verið haldið nokkurn veginn á hverju vori frá árinu 1916, yfirleitt án mín. Þetta tiltekna hlaup fól hins vegar í sér ákveðin tímamót fyrir mig, því að einmitt þennan dag voru liðin 50 ár síðan ég tók fyrst þátt í hlaupinu. Já, og svo var árangurinn í þetta skiptið langt umfram væntingar.
50 ára gömul minning
Ég tók sem sagt fyrst þátt í Víðavangshlaupi ÍR 25. apríl 1974. Þá var hlaupið enn svolítið víðavangshlaup, því að við hlupum eftir einhverjum stígum í Hljómskálagarðinum og líklega í Vatnsmýrinni líka. Ég er reyndar búinn að gleyma hvernig leiðin var nákvæmlega, en skv. hlaupadagbókinni minni frá þessum tíma var vegalengdin um 3,5 km í stað 5 km eins og verið hefur síðustu áratugina. Á þessum tíma tíðkaðist ekki að hlaupa mjög langt. Samtals skiluðu 46 keppendur sér í mark, en núna voru þeir 464. Og árið 1974 endaði ég í 9. sæti og var ekkert sérstaklega kátur með það. Núna varð ég nr. 138 og hefði ekki getað verið sáttari.
Ég rifjaði upp þetta fyrsta ÍR-hlaup mitt í bloggpistli fyrir 10 árum og ætla ekki að endurtaka þau skrif hér. Langar þó að nefna að Jón G. Guðlaugsson (Jón hlaupari) var elsti þátttakandinn í hlaupinu 1974 og fyrir það afrek vann hann til eignar bikar sem gefinn var af Brunabótafélagi Íslands. Jón var að vísu ekki nema 48 ára þegar þetta var, en á þessum tíma var fáheyrt – og jafnvel talið hættulegt – að svona gamalt fólk væri að taka þátt í keppnishlaupum. Núna var elsti þátttakandinn alveg að verða 84ra ára – og Brunabótafélag Íslands ekki lengur til.
Aðdragandinn
Undirbúningurinn fyrir hlaupið um daginn var á engan hátt sérstakur, nema kannski fjórir síðustu dagarnir. Mér hafði sem sagt yfirleitt gengið prýðisvel á æfingum frá því um áramót, þó að sumar vikur hafi verið betri en aðrar eins og gengur. Engin teljandi meiðsli höfðu gert vart við sig, en stundum var veðrið til leiðinda þrátt fyrir gott tíðarfar almennt. Náði mjög góðri æfingaviku í Danmörku í lok mars og þá fundust mér allir vegir færir. Í apríl var hins vegar allt einhvern veginn erfiðara, skrokkurinn með stirðara móti og flestir mælikvarðar á niðurleið, hverju sem það sætti. Á einhverjum tímapunkti var mig alveg hætt að langa í keppnishlaup, enda bjóst ég ekki við neinu nema vonbrigðum eins og staðan var. Hef reyndar oft fundið fyrir keppniskvíða síðustu misserin, sennilega bæði kvíða fyrir sársaukanum í hlaupinu og kvíða fyrir því að sjá lokatímann. En svo hitti ég góðan hlaupavin yfir tebolla svo sem viku fyrir hlaup – og líklega fékk ég þar hvatninguna sem ég þurfti. Ég ákvað sem sagt að láta slag standa.
Á síðasta ári hljóp ég bara eitt almennilegt götuhlaup, þ.e.a.s. 5 km Fossvogshlaup í ágúst. Þar var lokatíminn 23:06 mín og eftir gott gengi í Danmörku fannst mér vel raunhæft að komast undir 22 mín í ÍR-hlaupinu. Sú hugsun dó svo eiginlega alveg í apríl – og í framhaldi af því setti ég mér þrjú markmið:
- A-markmið: Undir 22 mín. Leit samt á þetta sem óraunsæjan draum.
- B-markmið: Undir 23 mín. Alla vega skárra en í fyrra.
- C-markmið: Undir 24 mín. Alveg óásættanlegt að ná því ekki, enda hljóp ég Flandrasprettsleiðina með öllum sínum hækkunum á 24 mín á æfingu síðla vetrar.
Hlaupið um daginn
Ég fann strax í upphituninni fyrir hlaupið að þetta yrði góður dagur. Mér leið vel og var allur með liprasta móti. Kannski hafði hvíldin fjóra síðustu daga virkað vel. Í hlaupinu sjálfu reyndi ég að glápa sem minnst á klukkuna, fyrir utan það að taka stöðuna við hvert kílómetramerki. Missti reyndar af fyrsta merkinu efst á Hverfisgötunni, en sýndist að ég hlyti að hafa verið nálægt 4:20 mín þar. Það leit vel út – og ég var meira að segja svolítið hraðari á kílómetra nr. 2 niður Laugaveginn. Sýndist tíminn þar vera eitthvað í grennd við 8:20 mín, sem mér fannst þó einhvern veginn ekki alveg passa, 8:40 hefði verið nær lagi. Við 3 km merkið sýndi klukkan svo 12:41 mín, sem gat alveg bent til lokatíma upp á 21:10 mín. Þarna var ég reyndar orðinn eitthvað ruglaður í útreikningunum, sem eftir á að hyggja stafaði sennilega að hluta til af því að kílómetramerkingarnar voru ekki á alveg réttum stöðum. Alla vega gerði ég mér ekki grein fyrir hvað þetta gekk í raunninni vel. Vissi bara að ég fann alls ekkert til og þetta var hreint ekkert erfitt, ólíkt því sem ég hafði kviðið fyrir. Fjórða kílómetramerkið birtist talsvert fyrr en ég hafði reiknað með. Tíminn þar var 17:02 mín, en ég var einhvern veginn alveg búinn að missa reiknigetuna. Og ég sem er yfirleitt talsvert betri í að reikna en að hlaupa! Þarna hefði ég átt að sjá fram á lokatíma upp á 21:20 mín með sama áframhaldi, sem hefði verið ótrúlega frábær niðurstaða miðað við væntingarnar. Síðasti kílómetrinn var hins vegar aðeins lengri en hinir, af því að merkið var ekki á réttum stað – og svo hægði hallinn á Skothúsveginum kannski aðeins á mér. Þegar ég sá markklukkuna í Pósthússtræti álengdar sýndi hún byssutímann 21:45 mín. Flögutíminn endaði svo í 21:44 mín og byssutíminn í 21:52 mín, en ég var orðinn of ruglaður í tölunum til að fatta hvað ég hafði mikla ástæðu til að gleðjast.
Eftir á að hyggja var þetta sennilega eitt af léttustu keppnishlaupunum mínum frá upphafi, mér tókst að hlaupa á jöfnum hraða alla leið (um 4:20 mín/km), fann aldrei fyrir neinum óþægindum og var eiginlega ekkert stirður að hlaupi loknu. Svo hitti ég líka slatta að skemmtilegu fólki á marksvæðinu og smátt og smátt síaðist gleðin inn. Villtasti draumurinn (A-markmiðið) var orðinn að veruleika – og í leiðinni hafði mér reyndar tekist að jafna skráð Íslandsmet í 5 km götuhlaupi 65-69 ára, en ég hef aldrei áður átt hlut í neinu svoleiðis meti. (Í því sambandi skiptir máli að aldursflokkaskipting öldunga miðast við fæðingardag en ekki bara fæðingarár. Kristinn Guðmundsson, sem verður 65 ára seint á árinu var nefnilega langt á undan mér).
Eftirþankar
Mér finnst merkilegt hversu miklu eitt svona hlaup getur breytt fyrir mann. Ef ég hefði látið það eftir mér að mæta ekki, hefði ég haldið áfram að vera leiður yfir meintu lélegu hlaupaformi, sem aftur hefði virkað sem hemill á eðlilegar framfarir og bjartsýni. En í staðinn finnast mér allir vegir vera færir, rétt eins og ég upplifði eftir æfingavikuna góðu í Danmörku. Það skiptir nefnilega máli að vera með hausinn rétt skrúfaðan á – og í þessu tilviki var ég svo heppinn að eiga hlaupavin sem benti mér á skrúflykilinn. Ég er í stuttu máli ótrúlega heppinn maður, bæði með hlaupaheilsuna og fólkið í kringum mig.

Filed under: Hlaup | 1 Comment »

