• Heimsóknir

    • 126.882 hits
  • júlí 2024
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupagleði á Skálavíkurheiði

Um daginn (18. júlí sl.) tók ég þátt í 12 km Skálavíkurhlaupi, sem er orðinn fastur liður í árlegri Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Leiðin í þessu hlaupi liggur frá Skálavík yfir Skálavíkurheiði til Bolungarvíkur og er í stuttu máli samsett úr einni 6 km brekku upp og annarri 6 km brekku niður. Þátttaka mín í þessu hlaupi er ekkert sérstaklega fréttnæm, enda var þetta 160. almenningshlaupið mitt á ferlinum (sem er þó ekki mikið miðað við lengd ferilsins). En mér gekk vel í þessu hlaupi og náði mér í óvenjustóran skammt af hlaupagleði. Hlaupagleði er auðlind sem nýtist langt út fyrir hlaupaheiminn. Og einn af fylgifiskum gleðinnar er þörfin fyrir að deila upplifuninni með öðrum. Þess vegna skrifa ég þennan pistil, þó ekki væri nema fyrir sjálfan mig.

Undirbúningurinn
Ég ætla ekki að skrifa neina langloku um það hvernig ég æfði fyrir þetta hlaup, enda æfði ég ekkert sérstaklega fyrir það. Í stuttu máli hef ég hins vegar æft nokkuð vel og skipulega síðan í ársbyrjun 2023 og náð að halda mér algjörlega meiðslalausum allan þann tíma. Lykillinn að því felst í æfingaáherslum sem ég hef skrifað um áður og mun sjálfsagt skrifa um aftur.

Þessi litli kafli um undirbúning snýst sem sagt ekki um hlaupaæfingar, heldur um það hvernig ég er vanur að undirbúa mig fyrir þá óvissu sem fylgir því að taka þátt í tilteknu keppnishlaupi (sérstaklega utanvegahlaupi) í fyrsta sinn og geta ekki byggt áætlun dagsins á eigin reynslu. Ég skoða þá einfaldlega hvernig öðrum hlaupurum á svipuðu getustigi gekk í sama hlaupi árið áður, skoða millitímana þeirra á Strava og set mér markmið út frá því. Reyndar er líka örugglega fínt að fara í svona hlaup án nokkurs markmiðs, en það er bara ekki alveg í takti við hugsunarháttinn minn, sem á meira skylt við Excel en innsæi.

Inga Dísa, einn besti hlaupavinur minn síðustu árin, hljóp Skálavíkurhlaupið í fyrra – og þar sem hlaupagetan okkar hefur verið svolítið svipuð upp á síðkastið var nærtækt að kíkja á millitímana hennar og vinna út frá þeim. Ég ákvað sem sagt að nota tímana hennar sem lágmarksmarkmið og miða svo draumamarkmiðið við að vera 10% fljótari. Útreikningunum var ekki stillt upp í Excel, heldur var þetta allt saman skrifað aftan á miða utan af garndokku sem var tekin með í fjölskyldudvöl í bústað í Önundarfirði nokkrum dögum fyrir hlaup. Skipulagið í heild sinni má sjá á myndinni hér til hliðar.

Tölurnar á miðanum skýra sig náttúrulega næstum því sjálfar, en til frekari glöggvunar má bæta því við að þarna eru sýndir millitímar eftir hverja 3 km. Á efri hlutanum má sjá hvern 3 km áfanga um sig og á neðri hlutanum eru uppsafnaðar millitímar (sem sagt eftir 3, 6, 9 og 12 km). Vinstra megin eru svo tímarnir hennar Ingu Dísu frá því í fyrra (skv. Strava) og hægra megin 10% betri tímar. Í stuttu máli setti ég 1:10 klst sem sagt sem lágmarksmarkmið og 1:03 klst sem draumamarkmið („villtustu drauma“). Til frekari afstemmingar skoðaði ég hversu mörg ITRA-stig hvort um sig væri líklegt til að gefa og fann út að lámarksmarkmiðið gæfi u.þ.b. 507 stig og draumamarkmiðið u.þ.b. 556 stig. Þetta benti til að áætlunin væri á réttu róli, því að utanvegahlaupin mín síðustu tvö ár hafa öll gefið á bilinu 500-530 stig. Út frá þessu taldi ég líklegt að ég gæti endað þarna mitt á milli, sem sagt á 1:06:30 klst eða þar um bil. Síðasti liðurinn í undirbúningnum var svo að stilla Garminúrið mitt þannig að það gæfi mér millitíma á 3 km fresti („Auto Lap“).

Upphitunin
Við upphaf flestra hlaupaæfinga allra síðustu árin hefur mér yfirleitt liðið eins og ég hafi aldrei hlaupið áður og muni að öllum líkindum aldrei geta hlaupið aftur. Þessi tilfinning lýsir sér í miklum stirðleika út um allan skrokk, en einkum þó um miðbik líkamans og þar fyrir neðan. Undantekingarlaust líður þetta hjá á fyrsta eða öðrum kílómetranum og er sæmilegt eftir það. Þetta er meginástæða þess að ég hita alltaf upp fyrir keppnishlaup, hvort sem vegalengdirnar teljast í tugum metra eða tugum kílómetra. Ég vil sem sagt vera laus við þessa kunnuglegu tilfinningu áður en keppnin hefst. Upphitunin er einföld; bara þægilegt skokk í 15 mínútur eða meira, nokkrar liðleikaæfingar (drillur) og 4-6 hraðaaukningar og/eða aðeins lengri sprettir til að koma hjartanu almennilega í gang. „Almennilega“ í þessu samhengi þýðir að púlsinn fari í stutta stund eitthvað nálægt því sem hann er vanur að vera í keppnishlaupum. En ég er svo sem ekkert að vakta þetta í upphituninni, læt bara tilfinninguna ráða.

Hlaupið sjálft
Hlaupið hófst í Skálavík kl. 8 um kvöld. Ég tók upphitunina í Bolungarvík og þaðan var svo mannskapurinn (27 keppendur) fluttur með rútu yfir í Skálavík. Aðstæður til hlaupa voru alveg þokkalegar, nema hvað nokkuð sterkur vindur blés úr austri (líklega hátt í 10 m/sek), sem þýddi að við myndum fá mótvind alla leið. Hitastigið var nálægt 10°C og þurrt í veðri, þannig að þetta stefndi ekki í neina vosbúð. Mótvindur og brekkur upp í móti kalla fram helstu veikleika mína sem hlaupara, þannig að þegar þarna var komið sögu þóttist ég góður ef ég næði lágmarksmarkmiðinu. Planið var að skokka upp brekkurnar eins lengi og ég þyldi og taka svo vel á því á niðurleiðinni, enda hafa niðurhlaup alltaf verið mín sterkasta hlið.

Leiðin upp úr Skálavík var vissulega erfið, en mér til undrunar streymdi fólk samt ekkert fram úr mér á uppleiðinni. Ég beið náttúrulega spenntur eftir að úrið sýndi mér fyrsta 3 km millitímann. Að vísu gleymdi ég prjónagarnsmiðanum í bústaðnum, en ég mundi þetta svo sem nokkurn veginn, m.a. að fyrstu 3 km gætu jafnvel tekið rúmlega 17 mín, en ættu helst að taka innan við 16. En svo kom millitíminn bara ekki neitt – og þegar ég gat loks ekki lengur stillt mig um að kíkja á úrið var ég kominn vel yfir 3 km markið. Þá fattaði ég að þetta „Auto Lap“-dæmi virkar ekki þegar úrið er stillt á „Trail Run“. En talan sem stóð á úrinu benti til að ég væri kannski aðeins (en alls ekki mikið) á undan lágmarksplaninu. (Eftir á að hyggja var millitíminn 17:03 mín, sem sagt bara 9 sek betri en lágmarksmarkmiðið).

Góðu fréttirnar á uppleiðinni voru þær að ég náði að hlaupa alla leiðina upp (þó að munurinn á hlaupi og göngu hafi líklega stundum legið frekar í fótahreyfingunum en hraðanum). Og mér leið bara vel þrátt fyrir mótvindinn. Frá upphafi var ég u.þ.b. í 8.-12. sæti og þegar upp var komið vorum við þrjú eða fjögur saman á svipuðu róli. Millitíminn þar var eitthvað um 39:30 mín og ég þóttist muna að það væri u.þ.b. 1:30 mín betra en lágmarksmarkmiðið. Þetta gaf tilefni til bjartsýni, því að ég bjóst alltaf við að niðurhlaupin yrðu hlutfallslega betri.

Á Skálavíkurheiði með Elínu Mörtu Eiríksdóttur. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Um leið og niðurhlaupaáætlunin mín tók gildi drógust þau hin aftur úr. Ég var staðráðinn í að treysta löppunum og þær tóku því bara býsna vel – og í stuttu máli tókst mér að láta vaða niður allar brekkur. Hröðustu kílómetrarnir voru meira að segja vel undir 4 mínútum, sem telst mjög hratt fyrir mig, jafnvel niðurímóti. Þegar ég var kominn niður á móts til Hólskirkju sá ég ekkert til mannaferða fyrir aftan mig en hafði hins vegar dregið talsvert á tvo næstu hlaupara á undan. Framundan var ekkert nema gleði og ég kom í mark á 1:04:57 klst, sem var talsvert nær draumamarkmiðinu en lágmarksmarkmiðinu hvað sem öllum mótvindi leið. Og ég þarf að fara nokkur ár aftur í tímann til að finna álíka hlaupagleði og gagntók mig þarna á lokametrunum.

Lokaorðin
Hlaup eru ekki bara hlaup. Ef það væri svoleiðis, þá gæti ég allt eins látið mér nægja að hlaupa aleinn aftur og aftur áleiðis upp að Hvítárvöllum og til baka, eins og mér finnst ég gera næstum alla daga ársins. En hlaup eru líka fólk. Og fólkið á Vestfjörðum er einhvern veginn öðru vísi en annað fólk. Þrisvar áður hef ég tekið þátt í Hlaupahátíð á Vestfjörðum – og alltaf hef ég upplifað þessa einstöku gestrisni og hlýju sem þar ræður ríkjum. Þessi einstaka gestrisni og hlýja á stóran þátt í þeirri hlaupasælu sem ég tók með mér heim að lokinni þessari Vestfjarðaferð! Takk Vestfirðingar! Þið eruð einstök!

Lokaspretturinn í skógræktinni í Bolungarvík. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).