Hvað eftir annað hafa mönnum orðið á þau mistök að ætla að „lagfæra“ eitthvað í náttúrunni með einföldu inngripi, t.d. með því að dreifa einhverju tilteknu efni með vel þekkta virkni, flytja inn plöntur til skrauts eða uppgræðslu, sleppa dýrum sem koma í veg fyrir óhóflega fjölgun annarra dýra o.s.frv. Oftar en ekki hefur komið í ljós að þegar fram í sækir hafa inngripin allt önnur og mun víðtækari áhrif en þeim var upphaflega ætlað. Í hvert sinn sem slíkt gerist gefst tilefni til að rifja upp orð sem indíánahöfðinginn Sea The á að hafa látið falla 1854: „Maðurinn óf ekki vef lífsins, hann er aðeins þráður í honum. Hvað sem maðurinn gerir vefnum gerir hann sjálfum sér“.
Eitt af fjölmörgum dæmum um óvænta atburðarás í náttúrunni í kjölfar vanhugsðara aðgerða mannsins birtist í sunnanverðri Asíu um miðjan síðasta áratug. Þar voru menn farnir að nota bólgueyðandi lyfið Diclofenac (virka efnið í Voltaren) í allmiklum mæli fyrir húsdýrin sín. Þetta setti í gang ófyrirséða atburðarás, sem m.a. leiddi til fjölgunar hundaæðistilfella á Indlandi.
Af þessu tilefni er eftirfarandi vistfræðigáta hér með lögð fyrir lesendur þessarar bloggsíðu: Hvernig gat aukin notkun á Diclofenac fyrir húsdýr leitt til fjölgunar hundaæðistilfella? Þeir sem vilja geta skrifað tillögur að svari í athugasemdakerfið hér á síðunni.
Fyrstu vísbendingu um svarið við framangreindri spurningu er að finna í færslu dagsins í dag á umhverfisfróðleikssíðunni www.2020.is. Þar er lýsing á fyrsta stigi atburðarásarinnar. Svo er bara að geta í eyðurnar!
(Til að taka af öll tvímæli, þá veldur Voltaren ekki hundaæði sem slíkt, þó að það geti leitt til fjölgunar tilfella).
Filed under: Sjálfbær þróun, Umhverfismál | Tagged: hundaæði, Voltaren | 3 Comments »