Menn hefur lengi dreymt um að virkja sjávarföll, sjávarstrauma og öldur hafsins til raforkuframleiðslu, en enn virðist þó vera langt í að sjávarorkan geti keppt við aðra helstu orkugjafa sem notaðir eru í þessum tilgangi. Orkan er vissulega til staðar eins og sjá má þegar horft er út á hafið þessa dagana, en tól og tæki sem notuð eru til að beisla orkuna þurfa að þola mikið álag, bæði vegna sjávargangs og seltu. Og svo er heldur ekki sérlega auðvelt að búa til traustar tengingar við raforkukerfið í landi.
Íslendingar hafa fengist við ýmis athyglisverð verkefni í tengslum við nýtingu sjávarorku og sú vinna er reyndar stöðugt í gangi þótt ekki fari mikið fyrir henni í fjölmiðlum dags daglega. Sem dæmi um það sem verið er að gera má nefna fyrirtækið Sjávarorku ehf. sem hefur unnið að rannsóknum á möguleikum þess að virkja sjávarfallastrauma í innanverðum Breiðafirði og fyrirtækið Valorku ehf. sem er að þróa tækni til að nýta sjávarfallaorku í annesjaröstum og hefur m.a. náð þeim árangri að búa til hverfil sem var valin besta uppfinning heims af Alþjóðasamtökum uppfinningafélaga árið 2011.
Vorið 2014 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar. Jafnframt átti að leggja drög að uppbyggingu gagnagrunns um nýtingu sjávarorku og kanna með hvaða hætti Ísland gæti orðið aðili að alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Þessi vinna er komin vel áleiðis og starfshópur sem ráðherra skipaði um málefnið á að skila tillögum fyrir 1. maí í vor.
En tækifæri Íslendinga í sjávarorku liggja ekki bara í því að nýta hana, enda kannski ekki líklegt að rafmagn úr sjávarorku geti keppt við ódýrt íslenskt rafmagn af öðrum uppruna. Miklu stærri tækifæri gætu legið í því að þróa tæknina og framleiða búnað til útflutnings. Í því sambandi er áhugavert að velta fyrir sér hvert Skotar, já og Bretar yfirleitt, stefna í þessum efnum, en þeir líta á sig sem frumkvöðla á heimsvísu.
Fyrr í þessari viku komu út tvær skýrslur í Bretlandi um tækifærin sem liggja í þróun og nýtingu sjávarorku. Í þessum skýrslum er á það bent, að ef Bretar ætli sér að nýta þessi tækifæri þurfi þeir annars vegar að móta framtíðarstefnu í þessum málum og hins vegar að tryggja fjármagn til áframhaldandi rannsóknar- og þróunarvinnu. Aðeins á þann hátt sé hægt að gera framleiðslu á búnaði fyrir sjávarvirkjanir að atvinnugrein sem geti skapað ný störf og fært Bretum miklar tekjur í framtíðinni. Hér dugi ekki að móta stefnuna frá ári til árs, heldur þurfi að gera áætlun sem nái að minnsta kosti til ársins 2030.
Í annarri skýrslunni sem um ræðir er varað við því að ef Bretar standi ekki saman í þessu verkefni og missi yfirsýnina yfir það sem nú þegar er í gangi, þá sé mikil hætta á að margir aðilar sói kröftum sínum í sömu verkin hver í sínu horni á sama tíma og enginn sinni öðrum verkum sem eru nauðsynleg til að tækifærin nýtist í framtíðinni. Þá muni Bretar einfaldlega missa það forystuhlutverk sem þeir hafi nú.
Skýrsluhöfundar benda á, að engin leið sé að tryggja fjármagn frá einkaaðilum eingöngu í langtímafrumkvöðlaverkefni sem þetta og því þurfi opinberir aðilar og einkaaðilar að taka höndum saman. Tryggja þurfi framlög upp á 300 milljónir sterlingspunda á næstu 10 árum, en þessi upphæð samsvarar rúmlega 60 milljörðum íslenskra króna. Þetta fé geti m.a. komið frá breska ríkinu og úr sjóðum Evrópusambandsins. Nú þegar hafi fyrirtæki í greininni varið um 450 milljónum sterlingspunda í þróunarstarf og þar af hafi aðeins um einn áttundi komið úr opinberum sjóðum. Ef vel takist til á næstu árum gæti framleiðsla á þessu sviði verið orðin svo umfangsmikil árið 2050 að hún bæti 4 milljörðum sterlingspunda við árlega landsframleiðslu Breta. Sú upphæð samsvarar 820 milljörðum íslenskra króna á ári.
Líklega hefur Fergus Ewing, orkumálaráðherra Skotlands, ekki einu sinni verið búinn að lesa skýrslurnar sem hér er vísað til þegar hann tilkynnti í gær að samtökum sjávarorkufyrirtækja í Skotlandi yrði veittur styrkur upp á 14,3 milljónir sterlingspunda, eða sem samsvarar tæplega þremur milljörðum íslenskra króna, á næstu 13 mánuðum til að vinna áfram að lausn ýmissa tæknilegra vandamála. Þetta gerir það m.a. mögulegt að ráða 10-12 starfsmenn og koma á fót sérfræðingateymi sem samræmir aðgerðir og hjálpast að við að finna bestu lausnirnar. Um leið eru opnaðir möguleikar á víðtæku samstarfi milli fyrirtækja, svo og samstarfi við verkfræðistofur og vísindamenn sem vinna að rannsóknum á þessu sviði. Þarna eins og víðar skiptir samstarf gríðarlega miklu máli, eða eins og Stephen Salter, prófessor, sem kallaður hefur verið „faðir sjávaröldutækninnar“ orðaði það: „Frumkvöðlarnir þurfa að bindast samtökum sín á milli gegn ógnum sjávarins í stað þess að berjast sín á milli um ófullnægjandi fjárveitingar“.
Skotar búa svo vel að hafa aðgang að einhverjum bestu sjávarorkusvæðum í heimi. Þessi svæði eru m.a. við Ljóðhús og aðrar eyjar Hebrideseyjaklasans, eða Suðureyja, en þar hafa Skotar gert ýmsar tilraunir með tækninýjungar í nýtingu sjávarorku.
Auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu, svona fræðilega séð, að Íslendingar verði í fararbroddi á heimsvísu, rétt eins og Skotar, í því að þróa og framleiða tæknibúnað fyrir sjávarvirkjanir. Það er t.d. ekki svo slæm byrjun að hafa náð að búa til hverfil sem unnið hefur til alþjóðlegra verðlauna. Og það er jú sama Atlantshafið sem leikur um Íslandsstrendur og Ljóðhús. En til þess að vera í fararbroddi þurfa Íslendingar að horfa örlítið lengra fram í tímann en fram í næstu viku eða til næstu kosninga, eins og þeim hættir stundum til að gera. Hér sem víðar gildir að koma auga á tækifærin í tæka tíð og vera nógu framsýnn og þolinmóður til að nýta þau. Þegar rýnt er í þróun orkumála í heiminum virðist það alla vega liggja ljóst fyrir, að tækifærin í orkugeiranum liggi ekki í olíuvinnslu.
(Þessi pistill er samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í Samfélaginu á Rás 1 26. febrúar sl. og ber að skoða tímasetningar í textanum í því ljósi. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).
Filed under: Sjálfbær þróun, Umhverfismál | Tagged: sjávarorka, sjávarvirkjanir | Leave a comment »