Það er orðinn kækur hjá mér að gera hvert hlaupaár upp í löngum bloggpistli, þar sem ég upplýsi líka um markmiðin mín á komandi hlaupaári. Svona skrif ættu náttúrulega að birtast á nýársdagsmorgni, en allt tekur þetta sinn tíma og stundum þarf að nota tímann til annars. Góður maður sem ég þekkti vel var líka vanur að segja að áætlun fyrir komandi ár yrði því betri sem lengra væri liðið á árið. Þannig yrði óvissan minni. Og hefst nú enn einn áramótapistillinn.
Hlaupaárið 2019 í stuttu máli
Þetta var í rauninni mjög gott hlaupaár, sérstaklega þegar haft er í huga að árið á undan fór eiginlega alveg forgörðum vegna meiðsla. Undir lok þess árs fór loks að rofa til í þeim efnum, en þá hafði mér tekist að finna rétta fólkið til að leiða mig út úr vandanum. Ég hef skrifað mikið um þessi meiðsli áður og ætla ekki að endurtaka það hér, en í stuttu máli lýstu þessi meiðsli sér í miklum stífleika og verkjum neðst í baki, í rassvöðvum og niður í læri. Þetta hafði háð mér, bæði í hlaupum og öðru, í það minnsta frá því haustið 2016.
Í ársbyrjun 2019 var ég sem sagt orðinn að mestu laus við „2018-vandann“ eins og kýs að kalla þessi meiðsli þegar ég lít til baka. Þá taldi ég mig ekki hafa neina „ástæðu til að ætla annað en að með vorinu [2019] verði ég kominn á nokkurn veginn sama stað og ég var áður en allt þetta vesen byrjaði“. Þetta gekk reyndar alls ekki eftir. Hlaupin á árinu 2019 gengu svo sem bara vel en árið dugði engan veginn til að komast „á nokkurn veginn sama stað og áður“. Þolið er gott en að öðru leyti er málið enn í vinnslu. En meiðslin hafa ekki látið á sér kræla aftur.
Æfingarnar
Þegar á heildina er litið gengu æfingar ársins 2019 bara vel. Fyrstu mánuðina jók ég álagið jafnt og þétt og í apríl var ég farinn að geta hlaupið 30 km án þess að það hefði mikil eftirköst. Um það leyti var mér þó orðið ljóst að endurhæfingin eftir 2018 myndi taka miklu lengri tíma en ég hafði ætlað. Í lok mars skrifaði ég t.d. að ég hefði búist við að þurfa u.þ.b. hálft ár til að koma mér í fyrra form, en líklega væri eitt og hálft ár raunhæfari áætlun. Ég yrði þá „orðinn alsprækur í apríl 2020“. Nú, þegar mánuður er í þá tímasetningu, veit ég að það mun heldur ekki ganga eftir. En ég hef nógan tíma.
Það sem helst vantaði í æfingarnar fyrstu mánuði ársins 2019 var hraðinn, en þegar voraði ákvað ég engu að síður að bæta frekar í vegalengdirnar. Ég var jú skráður í Laugavegshlaupið og fyrir svoleiðis hlaup þarf að safna kílómetrum í lappirnar. Í maí og júní tók ég margar langar fjallaæfingar, m.a. tvisvar fram og aftur Skarðsheiðarveginn, allt upp í 40-50 km í senn. Þetta var erfiður tími því að yfirleitt dróst ég langt aftur úr hlaupafélögunum á þessum ferðalögum. Það var svolítið nýtt fyrir mér. Júní varð nánast óvart, langlengsti hlaupamánuðurinn minn frá upphafi. Samtals hljóp ég 433 km í þessum mánuði og fór tvisvar vel yfir 100 km á viku. Fyrra „mánaðarmetið“ var 324 km frá því í mars 2013 þegar ég var að æfa fyrir Parísarmaraþonið og fyrra „vikumetið“ 107,82 km frá því að ég hljóp Arnarvatnsheiðina sumarið 2016. Þetta met bætti ég í júní, fyrst í 108,27 km og síðan í 120,95 km. Kílómetrafjöldinn segir ekki allt um stöðu mála, en ég var þó alla vega farinn að þola hnjaskið býsna vel.
Eftir júnímánuð og enn frekar eftir Laugavegshlaupið um miðjan júlí datt botninn úr æfingunum. Á þessum tíma vorum við hjónin að skipta um húsnæði og í því ati varð lítill tími aflögu. Áform um að bæta í með haustinu gengu ekki eftir, m.a. vegna vinnu og ferðalaga sem tengdust henni, og eftir á að hyggja var ég í hægri afturför allt haustið og fram í miðjan desember. Þá var ég aftur byrjaður að bæta í og náði að hlaupa um 50 km á viku. Minna en það dugar mér ekki til framfara. En hraðaæfingar sátu á hakanum sem fyrr og styrktaræfingar voru færri og strjálli en æskilegt hefði verið.
Stólparitið hér fyrir neðan sýnir mánaðarskammta ársins 2019.
Náðust markmiðin?
Ég setti mér hvorki meira né minna en sjö hlaupatengd markmið fyrir árið 2019 og náði bara fjórum þeirra ótvírætt. Ég hljóp sem sagt eitt 5 km keppnishlaup fyrir lok apríl, eitt hálft maraþon fyrir lok júní, Laugaveginn heilu og höldnu í júlí og maraþonhlaup fyrir lok september. Ég hljóp hins vegar ekki beinlínis neitt 10 km keppnishlaup fyrir lok maí eins og ætlunin var, en í staðinn var ég bæði búinn að hlaupa rúmlega 30 km og rúmlega 20 km utanvegakeppnishlaup. Veit ekki hvort það telur. Tvö markmið af sjö klúðruðust alveg. Ég hljóp sem sagt bara tvö fjallvegahlaup en ekki a.m.k. 7 eins og ætlunin var og mér tókst ekki að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum, svo ég sé nú bara hreinskilinn með það.
Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2019 urðu samtals 15 og hafa aldrei verið fleiri. Voru reyndar jafnmörg árin 2014 og 2017. Alls eru þau þá orðin 147 frá upphafi að brautarhlaupum frátöldum. Upphafið var jú fyrir alllöngu, því að ég tók fyrst þátt í götuhlaupi sumarið 1985. Ég er sem sagt alls ekki sá sem er duglegastur að mæta í keppnishlaup. Reyndar geri ég fátt skemmtilegra, en skemmtunin gufar svolítið upp ef undirbúningurinn nægir ekki sem grunnur að andlegri og líkamlegri vellíðan.
Fyrsta keppnishlaup ársins var Kielder20M í Bretlandi, 20 mílna (32 km) utanvegahlaup sem var aukaafurð þess að ég fylgdi þremur góðum hlaupafélögum áleiðis í lengri hlaup (50 og 100 km) á sama stað. Þetta var fyrsta keppnishlaupið mitt eftir maraþon í Bregenz haustið 2017. Og eins og ég skrifaði í hlaupadagbókina að hlaupi loknu gekk mér „alveg þokkalega en varð stirður í rassi og lærum þegar á leið og glímdi við krampa á eftir. Náði svo sem aldrei góðum hraða en varð samt fyrstur í flokki 60-69 ára og nr. 9 af 78 samtals“. Mér leið ekkert sérstaklega vel í þessu hlaupi en samt var mikill sigur að geta gert þetta eftir svona langa bið. Og ferðin öll var eftirminnilegt ævintýri eins og lesa má um í afskaplega löngum bloggpistli og líka í öðrum miklu styttri.
Keppnishlaup nr. 2 var Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta, en þá hafði ég ekki hlaupið keppnishlaup á götu í eitt og hálft ár. Þetta átti að vera stóra endurkomuhlaupið mitt en ég vissi svo sem fyrirfram að ég væri ekki í standi til að gera neinar eftirminnilegar rósir. Bjóst varla við að geta hlaupið mikið undir 23 mín, en hafði reyndar gefið út markmið um 22 mín. Sá eftir fyrsta km að það gat kannski heppnast. Tók lítið á, leið vel allan tímann og gat bætt vel í síðustu 400 metrana. Millitímarnir voru u.þ.b. 4:17, 4:08, 4:23, 4:20 og 4:09 – og lokatíminn 21:18 mín. Ég var mjög ánægður með að geta þó þetta og sá að ég var í raun kominn miklu lengra á bataveginum en ég hélt. Og svo var líka 15 stiga hiti, sem var einmitt eins og ég vildi hafa það. Ég var kominn inn úr kuldanum!
Þriðja keppnishlaupið var Icelandairhlaupið (7 km) 2. maí. Ég var ekki léttur á fæti en rann þetta svo sem vel. Vantaði bara hraðann sem týndist í 2018-vandanum. Var á ca. 21:35 mín. eftir 5 km og kláraði hlaupið á 30:17 mín. Þetta var níunda Icelandairhlaupið mitt frá upphafi lakasti tíminn. Átti verst áður 29:34 mín. frá 2011. En þetta var samt bara í góðu samræmi við raunhæfar væntingar. Icelandairhlaupið er alltaf eitt af mínum uppáhaldshlaupum, því að þar hitti ég alltaf svo marga góða hlaupavini. Þau tengsl eru dýrmætari en flest annað í hlaupunum, og þótt víðar væri leitað.
Fjórða hlaupið var aldeilis ógleymanlegur Heimaeyjarhringur (Puffin Run) (um 20 km) í Vestmannaeyjum 4. maí í hægviðri, glampandi sólskini og 7-8 stiga hita. Reyndar leið mér ekki vel um miðbik hlaupsins, sérstaklega á leið upp Stórhöfða – og þó enn frekar niður. En eftir svo sem 15 km kviknaði á mér og eftir það var þetta algjör veisla. Ég hafði búist við að vera allt að 2 klst. á leiðinni, en lokatíminn varð 1:49:23 klst. og ég í 13. sæti af 101 hlaupara. Björk fylgdi mér til Eyja, móttökurnar þar voru einstakar og eftir á að hyggja er þetta eitt af skemmtilegustu hlaupunum mínum frá upphafi. Eftir hlaup skrifaði ég pistil um upplifunina sem birtist á hlaup.is undir yfirskriftinni „Svona eiga hlaup að vera“.

Með eðalhlaupavininum Evu Skarpaas og fleira fólki í blíðunni undir Skiphellum í Vestmannaeyjum. (Ljósm. hlaup.is).
Mývatnsmaraþonið 25 maí átti að vera næst á dagskránni. Ég var ekki búinn að æfa nógu skipulega fyrir svoleiðis hlaup og hugsaði það því fyrst og fremst sem langa og sæmilega erfiða æfingu. Bjóst við að geta hlaupið á 3:45 klst. án teljandi vandræða. Teljandi vandræði byrjuðu strax eftir 2 km með miklum sársauka í ökklum, aðallega hægra megin. Ég ákvað að sjá til hvort þetta myndi ekki lagast, en við 5 km markið var þetta enn jafnslæmt og þá ákvað ég að hætta til að valda ekki frekara fótatjóni. Þetta varð sem sagt fyrsta „DNF-ið“ á ferlinum (DNF = Did not finish). Kannski var ég á of þunnum skóm á of hörðu malbiki. Það verður svo sem aldrei upplýst, en alla vega hafði þessi uppákoma engin skaðleg áhrif til lengri tíma litið. En þetta var vissulega hundleiðinlegt.
Fimmta keppnishlaupið var Hvítasunnuhlaup Hauka 10. júní í hægviðri, glampandi sól og 13°C. Haukahlaupið er alltaf eitt af þeim skemmtilegustu, leiðin fjölbreytt, stemmingin góð og framkvæmdin til stakrar fyrirmyndar. Ég valdi lengstu leiðina að þessu sinni (22 km) og árangurinn var svipaður og ég bjóst við (1:53:56 klst.). Mér leið vel allan tímann, en var linur upp brekkurnar og þreyttur þegar leið á hlaupið. „Mjög gaman og ekkert vesen“, eins og ég skrifaði í hlaupadagbókina um kvöldið.
Álafosshlaupið í Mosfellsbæ 12. júní var 6. hlaupið. Mér fannst brautin erfið með óþægilegum kröppum beygjum og mér leið ekki vel í hlaupinu. Eftir á að hyggja náði ég þó að halda nokkuð jöfnum hraða. Þetta voru 10 km með 108 m hækkun og lokatíminn minn var 46:08 mín. Það var svo sem allt í lagi þó að ég hefði viljað vera fljótari. Var mjög þreyttur fyrst á eftir en hresstist fljótt.
Sjöunda í röðinni var hálft maraþon í Miðnæturhlaupi Suzuki 20. júní. Þar hafði ég sett mér það markmið að hlaupa hvern km ekki hægar en á 4:40 mín (5 km á 23:20 mín) og enda alla vega undir 1:38:30 klst. Þar með yrði þetta besta götuhlaupið mitt það sem af var árinu skv. reiknivél McMillans. Þetta gekk upp, 5 km tímarnir voru 22:37, 23:11, 22:55 og 23:38, sem sagt allt rúmlega á áætlun, nema í lokin þar sem ég var orðinn mjög þreyttur. Endaði á 1:37:21 klst., sem sagt rúmri mínútu undir markmiðinu. Þetta var reyndar lakasti tíminn minn síðan haustið 2007, en það var bara eins og til stóð. Og svo var ég líka fyrstu í aldursflokki 60+.
Ármannshlaupið (10 km) 3. júlí var nr. 8 í röðinni. Þegar þarna var komið var ég orðinn býsna vel meðvitaður um eigin getu (eða getuleysi) og taldi mig eiga að geta hlaupið þetta á 43:40 mín. Fyrstu 2 km voru þokkalega hraðir og þægilegir en eftir það fór ég að finna til í ökklunum (malbiksverkur?) og þá vissi ég strax að markmið dagsins myndi ekki nást. Millitíminn eftir 5 km var 22:07 mín. Ég hresstist hins vegar til muna á seinni hlutanum og hljóp hann á 21:37 mín. Lokatíminn varð því 43:44, sem sagt 4 sek undir væntingum.
Næst var það Laugavegurinn 13. júlí. Markmið dagsins var að komast þessa 53 km á skemmri tíma en 6 klst. en út frá árangri fyrr um sumarið hafði ég reiknað út að líklegur lokatími væri 6:01:11 klst. Auðvitað eru svona nákvæmir útreikningar gerðir í hálfgerðu gríni, því að mínútan er fljót að fara á Laugaveginum. En talan byggði samt á raunsæu mati á eigin getu. Framan af benti allt til að þessi markmið næðust – og vel það, en þegar á leið urðu sporin þyngri og þá varð smám saman ljóst að ég yrði að sætta mig við ögn lakari tíma. Átti enn möguleika í Emstrum en eftir það hægði á. Var þá orðinn mjög aumur í ökklum og neðst í kálfum og gat rétt tiplað á köflum. Var líka með aðkenningu að krömpum allan seinni hlutann. Lokatíminn varð 6:05:48 klst. og auðvitað væri vanþakklæti að vera ósáttur við það. Ég var auk heldur fljótasti sextugi karlinn. Ferðasögu þessa dags má finna í þar til gerðum bloggpistli.
Keppnishlaup nr. 10 var Dyrfjallahlaupið 20. júlí sem varð að Breiðuvíkurhlaupi vegna þoku og rigningar. Leiðinni var sem sagt breytt til að tryggja öryggi fólks og hlaupið frá Borgarfirði um Víknaheiði til Breiðuvíkur og síðan yfir Gagnheiði og um Þrándarhryggi aftur til Borgarfjarðar. Ég hélt jöfnu og góðu álagi í þessu hlaupi en ofreyndi mig ekkert. Fann ekki fyrir Laugaveginum í fótunum þótt aðeins væri vika á milli. Fyrstu kílómetrana fannst mér ég of hægur miðað við aðra, en náði mér vel á strik frá Gæsavötnum niður í Breiðuvík. Var nokkuð seigur upp Gagnheiði en kannski ekki alveg nógu sterkur niður. Hélt nokkuð góðum dampi á síðustu kílómetrunum og leið vel í markinu. Vegalengdin reyndist vera 24,4 km og lokatíminn 2:19:40 klst. Ég var prýðilega sáttur.
Ellefta keppnishlaupið var 14 km Hreppslaugarhlaup neðst í Skorradal 15. ágúst. Fyrir hlaup hafði ég gert mér vonir um að geta hlaupið á 1:06 klst, en þegar á hólminn var komið breytti ég markmiðinu í 1:07 klst vegna þess hversu norðanvindurinn var ágengur þennan dag. Ég fór frekar rólega af stað, var í 9. sæti framan af en náði tveimur áður en komið var að Hálsum. Var hægur í mótvindinum en nokkuð þéttur eftir að hlaupið var hálfnað og vindurinn orðinn hagstæðari. Hélt jöfnum hraða eftir það og kom í mark á 1:05:47 klst.
Þá var komið að Reykjavíkurmaraþoninu þar sem ég lét hálft maraþon duga, enda stutt í heilt maraþon í Tallinn. Aðalmarkmið dagsins var að vera á betri tíma en í Miðnæturhlaupinu, þ.e. undir 1:37:21 klst. Var að hugsa um að miða hraðann við það en ákvað svo að láta bara fljóta. Var lengi vel undir 4:30 mín/km sem hefði dugað undir 1:35 klst. Á Sæbrautinni (eftir 14 km eða svo) var þreytan farin að segja verulega til sín og eftir það náði ég ekki að halda góðum hraða. Lokatíminn varð 1:35:26 klst. og eftir á að hyggja var þetta besti árangurinn minn í götuhlaupi þetta árið. Þetta var góður dagur, næstum logn, næstum þurrt og 12 stiga hiti. Alveg fullkomið hlaupaveður!
Þrettánda keppnishlaupið var 5 km Fossvogshlaup 29. ágúst. Þar lét ég tilfinninguna alveg ráða för, fór eins hratt af stað og mig langaði og lét svo bara fljóta. Var orðinn mjög þreyttur á 3. km og náði engan veginn að halda hraðanum. Kílómetrarnir voru á 3:58, 4:08, 4:24, 4:19 og 4:13, sem sagt mjög ójafnt. Lokatíminn var 21:02 mín, en ég taldi mig eiga að geta hlaupið undir 21 mín og var því pínulítið óánægður með árangurinn. En það var auðvitað bara vanþakklæti. Og þarna vann ég aldursflokkinn minn eins og stundum áður.
Sunnudaginn 8. september var svo röðin komin að langþráðu maraþoni í Tallinn. Þar hafði ég sett mér fjögur mismunandi markmið, allt frá ítrustu bjartsýni (3:20 klst.) niður í ásættanlegan lágmarksárangur (3:30 klst.). Ég var allt of aftarlega í rásmarkinu og þurfti að eyða 400 fyrstu metrunum af hlaupinu í að troðast fram úr öðrum hlaupurum sem lá minna á en mér. Tapaði líklega um 1 mínútu þar og þó að það sé ekki stórt hlutfall af heildinni getur verið þrautin þyngri að vinna það upp. Það gekk þó sæmilega framan af, en eftir 17 km var ég orðinn miklu þreyttari en maður á helst að vera þegar 25 km eru eftir af hlaupi. Kláraði fyrri helminginn á tæplega 1:42 mín en eftir það hægðist jafnt og þétt á mér. Þetta var eiginlega bara basl. Þegar um 39 km voru búnir fór ég loks að hressast og tókst að bæta vel í, svo einkennilega sem það kann að hljóma. Kom í mark á 3:28:06 klst, fyrstur af 15 Íslendingum sem tóku þátt í hlaupinu. Ég skrifaði auðvitað langt blogg um þetta allt saman, m.a. um það hvað félagsskapurinn var góður.
Fimmtánda og síðasta keppnishlaupið var 10 km Poweradehlaup í Elliðaárdalnum 10. október. Þegar þar var komið sögu hafði ég nánast ekkert æft frá því í Tallinn og var í raun alls ekki í standi fyrir átök. Þess vegna var ég líka ákveðinn í að fara hægt. Þrátt fyrir að hafa fylgt þeirri áætlun samviskusamlega var mér mér illt í fótunum alla leið og fann hvergi vott af gleði eða ferskleika. Maður á ekki að fara óæfður í hlaup. Aðstæður voru samt fínar, dálítill vindur en þurrt og hálkulaust og hitinn um 6°C. Lokatíminn var 47:28 mín, sem var lakasti 10 km tíminn minn frá upphafi enda svo sem að því stefnt.
Skemmtihlaupin
Alla jafna stend ég fyrir eða stuðla að þremur skemmtihlaupum á ári, þ.e.a.s. hinum árlega Háfslækjarhring og matarveislu á uppstigningardag, Þrístrendingi og Hamingjuhlaupinu. Öll þessi hlaup voru á sínum stað árið 2019. Auk þess tók ég þátt í Sauðafellshlaupinu í Dölum í fyrsta sinn, en það getur sem best líka fallið í þennan flokk.
Hinn árlegi Háfslækjarhringur var hlaupinn 30. maí 2018, 10. árið í röð. Hlaupaleiðin er heimanað frá okkur hjónunum í Borgarnesi, framhjá fólkvanginum í Einkunnum, vestur að Langá og aftur heim. Og á meðan ég hleyp eldar Björk kjötsúpu eða grillar nokkur læri ofaní mannskapinn. Hringurinn er u.þ.b. 21,5 km og að þessu sinni hlupu 13 manns alla leiðina. Eftir góða samveru yfir kræsingum Bjarkar var dagurinn gerður upp í heita pottinum, rétt eins og vera ber. Sjálfur var ég að hlaupa þennan hring í 150. sinn þennan dag, en fyrstu ferðina fór ég 31. maí 2008, þá nýbúinn að frétta af þessari ágætu hlaupaleið.
Þrístrendingur var hlaupinn í 9. sinn laugardaginn 15. júní. Þátttakan var með allra minnsta móti þetta árið, en auk mín og Dofra frænda míns var Birkir bóndi sá eini sem hljóp alla leiðina, rétt rúmlega 41 km. Átta aðrir hlupu eitthvað ef ég man rétt. Þetta árið brydduðum við frændurnir upp á þeirri byltingarkenndu nýjung að hlaupa Þrístrending rangsælis, þ.e. fyrst frá sameiginlegum rótum okkar beggja á Kleifum í Gilsfirði, norður (eða austur) Krossárdal að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru, þaðan yfir Bitruháls að Stóra-Fjarðarhorni og loks suður Steinadalsheiði að Kleifum.

Birkir bóndi og Arnar Barði Daðason á Hraununum efst á Bitruhálsi. Þaðan liggur leiðin um Fjarðarhornssneiðinga áleiðis niður í Kollafjörð.
Sauðafellshlaupið fór fram kvöldið eftir Þrístrending. Þetta hlaup byrjar og endar hjá Helgu og Þorgrími á Erpsstöðum í Miðdölum. Leiðin liggur þaðan inn að Fellsenda, upp innri endann á Sauðafelli, eftir fellinu endilöngu, niður ytri enda fellsins við Sauðafellsbæinn og svo aftur eftir veginum inn að Erpsstöðum. Mér gekk ágætlega í þessu hlaupi og var með fyrstu mönnum. Eðlilega fannst mér erfiðast að komast upp fellið og þar uppi var svartaþoka og ekki alveg laust við að hægt væri að villast. En fellið er mjótt og því engin leið að villast lengi. Gitta mín fór með mér í þetta hlaup og þar voru líka tveir aðrir félagar úr Flandra. Þetta var alveg bráðskemmtilegt! Vegalengdin mældist 12,48 km og tíminn minn var 1:07:42 klst. Þetta er ekki keppnishlaup en ef ég geri þetta aftur get ég alla vega keppt við þennan tíma.
Hamingjuhlaupið fór fram í 11. sinn laugardaginn 29. júní. Að þessu sinni valdi ég að hlaupa í þriðja sinn úr Trékyllisvík til Hólmavíkur yfir Trékyllisheiði. Veðrið var napurt, hvöss norðaustan átt (sem betur fer í bakið), þokuslæðingur norðan til og varla nema 2-3°C á fjöllum. Hlupum 5 saman alla leið en margir fleiri hlupu hluta leiðarinnar, þ.á m. 12 manna hópur frá Breiðabliki sem hljóp yfir Trékyllisheiðina. A.m.k. 38 manns tóku einhvern þátt. Þetta var bráðskemmtilegur dagur og að vanda endaði hlaupið með tertuhlaðborði á Hamingjudögum á Hólmavík.
Fjallvegahlaupin
Eftir að upphaflega fjallvegahlaupaverkefninu mínu lauk með útgáfu Fjallvegahlaupabókarinnar í mars 2017 ákvað ég að ráðast í annað eins verkefni með því að hlaupa 50 fjallvegi til viðbótar fyrir sjötugsafmælið í mars 2027. Það sem af er hefur þessu verkefni miðað mjög hægt. Sumarið 2017 náði ég bara tveimur fjallvegahlaupum og 2018 varð mér ekkert úr verki, hvorki í þessum hlaupum né öðrum. Sumarið 2019 voru nokkur hlaup á áætlun, en þau urðu ekki nema tvö þegar upp var staðið. Veður og annríki áttu sinn þátt í því.
Fjallvegahlaupavertíðin byrjaði laugardaginn 18. maí með sérstöku 20 km fjallvegahlaupabókarhlaupi um Skarðsheiðarveg sunnan af Skorholtsmelum í Melasveit upp í Hreppslaug í Andakíl. Þetta er sama leiðin og ég hljóp með góðum félögum þann 21. júní 2011, en því ferðalagi er lýst í Fjallvegahlaupabókinni minni (leið nr. 20). Eftir hlaup bauð Bókaútgáfan Salka upp á veitingar í Hreppslaug. Þessi viðburður heppnaðist einkar vel og allt í allt voru þátttakendur eitthvað um 60 talsins.
Fyrra eiginlega fjallvegahlaupið þetta sumarið var hlaupið laugardaginn 8. júní um Reykjadal og Sanddal frá Fellsendarétt í Miðdölum að Sveinatungu í Norðurárdal. Þetta voru um 27,6 km og við hlupum þetta 11 saman í góðu veðri. Ferðasagan birtist smám saman á fjallvegahlaup.is. Seinna hlaupið var svo yfir Brúnavíkurskarð og Súluskarð frá Borgarfirði eystri suður í Kjólsvík á Víknaslóðum. Við Gitta vorum bara tvö í þessu hlaupi og veðrið lék ekki beinlínis við okkur með sæmilega dimmri þoku og rigningu. Þetta voru um 13 km og ferðasagan er komin inn á fjallvegahlaup.is.
Persónumetin
Þegar ég var að byrja að leika mér í íþróttum heima í sveitinni á ofanverðri síðustu öld byrjaði ég líka að skrá allan árangur samviskusamlega. Og í hvert sinn sem ég hljóp hraðar eða stökk lengra en ég hafði áður gert, sem gerðist eðlilega mjög oft fyrstu árin, skrifaði ég PM með stórum stöfum í dagbókina fyrir aftan viðkomandi tölu. Þetta var skammstöfun fyrir „Persónumet“. Einhvers staðar á langri leið minni í gegnum árin týndist svo þetta hugtak og ég fór að nota PB (personal best) í staðinn, rétt eins og flestir aðrir. Nú hlýtur að vera kominn tími til að þurrka rykið af þessu gleymda hugtaki.
Það veitir mér alltaf gleði að ná að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. En þegar maður er kominn á þann stað á hlaupaferlinum að bætingar á venjulegustu vegalengdunum eru orðnar fátíðar eða jafnvel hreint ekki í boði, þá er ekki um annað að ræða en finna sér nýjar vegalengdir eða grafa dýpra eftir einhverju enn öðru sem enn er hægt að bæta. Hér eftir verður listi yfir persónumet nýliðins árs fastur liður í þessum ævilöngu hlaupaannálum mínum.
Á árinu 2019 get ég alla vega tínt til eftirtalin persónumet:
- Lengsta vika: 120,95 km 24.-30. júní 2019. Fyrra met 107,82 km júlí 2016.
- Lengsti mánuður: 433,39 km júní 2019. Fyrra met 324,05 km mars 2013.
- Tvöfalt Hafnarfjall: 2:12:47 klst. 18. júní 2019. Fyrra met 2:27:18 klst. 4. júlí 2017.
(Með „tvöföldu Hafnarfjalli“ er átt við tvær ferðir frá hliði upp á topp og til baka, samtals u.þ.b. 13,2 km með u.þ.b. 1.510 m hækkun og jafnmikilli lækkun).
Markmiðin 2020
Einhvers staðar las ég að aðeins 3% mannkynsins settu sér markmið í lífinu, að aðeins 3% næðu góðum árangri á sínu sviði og að þetta væru sömu þrjú prósentin. Auðvitað kann mikilvægi markmiðssetningar að ráðast að einhverju leyti af skapgerð einstaklingsins, en reynsla mín er alla vega sú að markmið hvetji mann til dáða og bæti tilgangi við hlaupaæfingarnar. Kannski er maður búinn að ákveða að taka þátt í einhverju hlaupi eftir nokkra mánuði, en samt kviknar á einhverju nýju þegar maður skráir sig formlega í hlaupið.
Markmiðin mín fyrir hlaupaárið 2020 eru sem hér segir:
- 5 km undir 21 mín.
- Maraþon undir 3:20 klst.
- Ljúka 80 km keppnishlaupi
- A.m.k. 8 fjallvegahlaup
- Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)
Dagskrá sumarsins
Hlaupadagskráin mín fyrir komandi sumar er ekki fullmótuð, en eðlilega tekur hún mið af markmiðunum hér að framan. Á dagskrána hef ég líka sett nokkur tiltekin hlaup, bara vegna þess að ég held að þau verði skemmtileg. Eftirtaldir viðburðir eru harðákveðnir:
- Víðavangshlaup ÍR (5 km) á sumardaginn fyrsta (23. apríl)
- Heilt maraþon í Vormaraþoni FM 25. apríl
- Vestmannaeyjahringurinn (Puffin Run) 2. maí
- Mýrdalshlaupið (21 km, 1000 m hækkun) 23. maí
- Fjallvegahlaup í Eyjafirði 13. júní
- Landsmót 50+ í Borgarnesi 19.-21. júní
- Fjallvegahlaup á Vestfjörðum 11.-14. júlí
- Tvöföld Vesturgata (45 km) 19. júlí
- Fjallvegahlaup á Ströndum 25. júlí
- Rondane 50 (80 km fjallahlaup) í Noregi 15. ágúst
Sjálfsagt á fjallvegahlaupadagskráin eftir að þróast eitthvað. Meira um það á fjallvegahlaup.is.
Þakkir
Þakklæti er alltaf fyrsta tilfinningin sem kemur í huga minn þegar ég horfi til baka yfir liðin hlaupaár, því að auðvitað er ekkert sjálfsagt að maður geti átt svona áhugamál og notið þess áratugum saman. Til þess þarf auðvitað góða heilsu öðru fremur, en margir þættir fléttast saman við heilsuna og gera þetta allt saman mögulegt. Þar er hlutur nánustu fjölskyldunnar stærstur, hvort sem hann felst í beinni þátttöku eða hlýlegu umburðarlyndi. Hlaupin taka mikinn tíma og sá tími verður bara notaður einu sinni. Best finnst mér þegar fjölskyldan tekur beinan þátt í þessu með mér, en maður verður auðvitað að sýna hóf í tilætlunarseminni hvað það varðar. Góðir hlaupafélagar eru líka ómetanlegir. Í hlaupunum hef ég kynnst mörgu fólki meira og betur en hefði getað gerst í hversdagslífinu.
Lokaorð
Hér lýkur þessum pistli og tilhlökkunin tekur við.
Filed under: Hlaup | 1 Comment »