• Heimsóknir

  • 119.040 hits
 • júlí 2021
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Krampar á Laugaveginum

Það er eiginlega orðin hefð hjá mér að hlaupa Laugaveginn alltaf á oddatöluárum. Og til að rjúfa ekki hefðina tók ég að sjálfsögðu þátt í hinu árlega Laugavegshlaupi laugardaginn 17. júlí sl. Þetta var sjötta Laugavegshlaupið mitt og rétt eins og í öll hin skiptin finnst mér tilheyra að segja frá reynslunni í löngum bloggpistli. Pistlaskrifin eru eiginlega líka orðin hefð – og auk þess gleymast ýmis smáatriði úr upplifuninni ef maður skrifar þau ekki hjá sér. Sum þessara smáatriða koma að gagni þegar ég fer að undirbúa næsta Laugavegshlaup (í júlí 2023), og þar að auki er mér sagt að þau komi stundum öðrum hlaupurum að gagni. Það gleður mig og bætir tilgangi við skrifin.

Undirbúningurinn
Undirbúningurinn minn fyrir Laugavegshlaupið hófst í raun í ársbyrjun. Þá hafði ég verið að glíma við svolítil kálfameiðsli í nokkrar vikur og þau minntu á sig á hverri hlaupaæfingu. Reyndar voru æfingarnar frekar fáar og smáar um þetta leyti – og þannig hafði það verið síðan í nóvember. Það hljómar e.t.v. þversagnarkennt, en mér finnst meiðslahætta aukast eftir því sem æfingunum fækkar. Þarna varð mér ljóst að ég kæmist ekki mikið lengra án þess að breyta um áherslur. Þess vegna ákvað ég í byrjun janúar að taka eitt skref til baka og byrja frá grunni á nýju uppbyggingartímabili í hlaupaþjálfuninni. Af því tilefni bjó ég mér til sérstaka Endurreisnaráætlun, byggða á því sem ég hef sjálfur reynt og lesið síðustu ár og áratugi.

Grunnstoðirnar í Endurreisnaráætluninnni minni voru fjórar:

 1. Þrjár hlaupaæfingar í viku í janúar, fjórar í febrúar, fimm í mars og sex í apríl.
 2. 20 km í 1. viku og síðan +5 km í hverri viku þar til 70 km væri náð í 11. viku. Þá skyldi breytileikinn aukinn.
 3. Eitt Hafnarfjall í viku ef hægt væri, eða í það minnsta 10 Hafnarfjöll fyrir lok mars.
 4. Þrjár styrktaræfingar í viku (heima af því að ræktin var lengst af lokuð), eða í það minnsta 33 fyrir lok mars.

Við þetta bætti ég svo þeirri meginreglu að lengsta hlaup vikunnar mætti aldrei vera meira en helmingur af heildarvegalengd vikunnar. Og til að auka fagmennskuna bætti ég inn í þetta viku- eða hálfsmánaðarlegum heimsóknum til Halldóru sjúkraþjálfara (Sjúkraþjálfun Halldóru í Borgarnesi), sem hjálpaði mér að koma kálfunum í lag, fyrst með raförvun og síðan með nuddi.

Endurreisnaráætlunin tók gildi 4. janúar og gilti til aprílloka. Og í stuttu máli heppnaðist hún í öllum aðalatriðum, eins og m.a. má sjá hér til hliðar á skjámyndinni af Strava sem sýnir vikulegar vegalengdir fyrstu 11 heilu vikur ársins. Reyndar brá eitthvað útaf eins og alltaf vill verða, þó að það sjáist ekki á myndinni.

Síðustu vikur Endurreisnaráætlunarinnar voru ögn lausari í sér, en meginniðurstaðan var þó sú að í sumarbyrjun var ég meiðslalaus og í býsna góðu hlaupastandi, þó að enn vantaði nokkuð upp á þann styrk og hraða sem ég hefði viljað búa yfir. Allan tímann hugsaði ég um Laugaveginn sem helsta viðfangsefni sumarsins. Fór reyndar í Hengil Ultra (53 km) í byrjun júní, en leit líka á það sem æfingu fyrir Laugaveginn. Hengillinn reyndi frekar lítið á mig hlaupalega séð, en þess meira andlega í miklum kulda og vosbúð. Þegar á heildina er litið hefði júní mátt vera ögn þéttari, bæði hvað varðar heildarvegalengd og hæðarmetra. En auðvitað skiptir margt fleira máli en þessar tölur.

Dagarnir fyrir hlaup
Undirbúningurinn fyrir Laugaveginn snýst ekki bara um æfingar mánuðina á undan. Það sem gerist síðustu dagana fyrir hlaup skiptir líka miklu máli, þ.m.t. allt sem varðar vinnu, mataræði, svefn og önnur viðfangsefni í lífinu. Í stuttu máli voru öll þessi atriði í óvenju góðu lagi síðustu dagana fyrir hlaupið.

Markmiðin fimm
Þó að ég teldi mig almennt vera í góðu hlaupastandi fyrir Laugaveginn vissi ég óvenjulítið um raunverulega getu. Mér finnst árangur í keppnishlaupum alltaf vera besti mælikvarðinn á svoleiðis, og þar sem Laugavegurinn var bara 4. keppnishlaup sumarsins voru viðmiðin í fátæklegra lagi. Hengillinn gaf svo sem engar vísbendingar, þar sem ytri aðstæður voru afbrigðilegar. Hins vegar hljóp ég hálft maraþon í blíðskaparveðri á Akureyri 1. júlí á 1:38:14 mín. Tíminn var lakari en hálfmaraþontímarnir mínir undanfarin ár, en í þessu hlaupi lagði ég meiri áherslu á vellíðan en sekúndur og því e.t.v. ekki mikið á tímanum að byggja. Heimatilbúin reikniformúla (hálfmaraþontími x 3,71) benti þó til þess að ég ætti að geta hlaupið Laugaveginn á nákvæmlega 6:04:27 klst. Já, og í þriðja lagi hljóp ég reyndar Dyrfjallahlaupið 3. júlí og leið mjög vel þar. Tíminn í svoleiðis hlaupi er hins vegar afstæður þar sem viðmiðanir skortir.

Ég hef gaman af markmiðum og þess vegna setti ég mér fimm markmið fyrir Laugaveginn. Hef stundum gert þetta áður til að eiga markmið til skiptanna þegar líður á hlaup. Lakasta markmiðið á þá helst að vera eitthvað sem ég er viss um að ná. Þannig reyni ég að komast hjá því að búa mér til vonbrigði, því að þó þetta sé allt til gamans gert er mér ekki sama hver lokatíminn verður. Markmiðin fimm birti ég svo á Facebook daginn fyrir hlaup:

 1. A – Draumamarkmiðið = 5:55:55 klst, (sem væri besti Laugavegstíminn minn eftir sextugt, PB60+ sem sagt).
 2. B – Hefðbundna markmiðið = 5:59:59 klst, (sem sagt undir 6 klst).
 3. C – Raunsæja markmiðið = 6:04:27 klst, (sem er líklegasti tíminn skv. hávísindalegum útreikningum mínum).
 4. D – Betraensíðast markmiðið = 6:05:47 klst, (sem sagt aðeins betra en 2019).
 5. E – Sársaukamarkamarkmiðið = 6:10:00 klst, (en allt umfram það mun valda mér (óþörfum og sem betur fer skammvinnum) vonbrigðum, (jafnvel þótt ég reyni að vera rólegur á vanþakklætinu)).
Búinn að sækja keppnisnúmerið – og með markmiðin á hreinu.

Áætlun dagsins
Ég skipti Laugaveginum alltaf í áfanga og geri áætlun um millitíma á helstu viðkomustöðum. Styðst þá við millitímana mína úr fyrri Laugavegshlaupum og aðlaga þá að þeim lokatíma sem stefnt er að. Í þetta skipti ákvað ég þó að hafa fyrstu áfangana hlutfallslega hægari en oftast áður í þeirri von að eiga þá kannski meira inni fyrir spölinn frá Emstrum niður í Þórsmörk. Ég náði besta Laugavegstímanum mínum (5:41:10 klst) árið 2015 – og í því hlaupi voru fyrstu áfangarnir tiltölulega hægir. Eftirfarandi tafla varð til þegar ég skipti lokatímanum skv. markmiði A hér að framan í sömu hlutföllum og í hlaupinu 2015, (stærri tafla birtist ef smellt er á þessa):

Síðustu stundirnar fyrir hlaup
Að þessu sinni var ekki efnt til neinnar hópferðar frá Borgarnesi upp í Landmannalaugar, heldur sáu félagar úr Hlaupahópnum Flandra um að koma sér á staðinn hver með sínum hætti. Við Birkir bóndi lögðum af stað úr Borgarnesi um kl. 3 aðfaranótt hlaupadagsins og tókum svo fyrstu rútu úr Reykjavík kl. 4:30. Ferðalagið var tíðindalítið, þoka lá yfir Suðurlandinu og tíminn í rútunni var nýttur til svefntilrauna og nestisáts. Þegar komið var upp í Hrauneyjar hafði létt til og flest benti til að sólin yrði stórtæk þennan dag. Veðurspáin bauð líka upp á hægan meðvind, bjartviðri og hlýindi þegar líða tæki á daginn. Í Landmannalaugum var hið besta veður, svolítil gola, sólskin og á að giska 8 stiga hiti. Þetta var greinilega stuttbuxna- og stuttermabolaveður, en kannski sniðugt að vera með hanska til að byrja með.

Í Landmannalaugum hitti ég alla hina Flandrafélagana, en samtals vorum við sjö í þessu hlaupi – og Birkir bóndi sá áttundi. Kristinn (Kiddó) var sá eini, auk mín, sem hafði verið settur í fyrsta ráshóp (gula hópinn), Birkir og nokkrir aðrir úr hópnum voru í ráshópi nr. 2 (rauða hópnum), og svo koll af kolli. Fyrsti hópurinn var ræstur kl. 9 og þar með var verkefni dagsins hafið fyrir alvöru.

Landmannalaugar – Hrafntinnusker: 10,26 km
Eins og fyrr segir var ég staðráðinn í að hafa fyrstu áfangana í hlaupinu hlutfallslega hægari en áður – og í samræmi við það fór ég mér í engu óðslega fyrstu kílómetrana, jafnvel þótt ég sæi undir hælana á hlaupurum sem ég tel vera á svipuðu róli og ég. Á þessum kafla var ég lengi í samfloti með Sonju Sif og fleiri öflugum hlaupurum frá Akureyri, enda ætluðu þau líka að fara sér hægt til að byrja með. Ofarlega í brekkunum fór ég þó að dragast aftur úr og var auðvitað alveg sama um það. Þá var ég líka hættur að sjá Kiddó í fjarska, en hann er sterkur í brekkum og á miklu betri tíma á Laugaveginum en ég.

Bjartsýnn og glaður á fyrstu kílómetrunum. (Mynd: Hlaup.is).

Sólin skein á leiðinni upp í Hrafntinnusker og líklega lækkaði hitinn lítið sem ekkert þótt landið hækkaði. Hanskarnir fóru fljótlega í vasann og mér varð hugsað til hlírabolsins sem ég skildi eftir í töskunni minni. Hlírabolir henta bara ekki alltaf vel undir hlaupabakpoka, því að þá eru einhverjar líkur á nuddsárum á öxlum undan böndunum á bakpokanum. Í því lenti ég einmitt í Dyrfjallahlaupinu viku fyrr.

Færðin uppeftir var prýðileg að mínu mati og ég held að snjórinn hafi verið minni en oft áður. Á einum stað hafði myndast hnédjúpur krapapollur í snjónum, en einn pollur skiptir engu máli í svona hlaupi. Tilfinningin sem ég fékk í pollinum minnti mig þó á að stundum fæ ég krampa í kálfana ef ég stend lengi í mjög köldu vatni. En svo hugsaði ég ekki meira um það. Áhyggjur af því sem gæti gerst hjálpa manni ekki neitt.

Ég hef ekki komið mér upp neinum viðmiðum á leiðinni upp í Hrafntinnusker og vissi þar af leiðandi ekki hvort ég væri á áætlun fyrr en ég var kominn alla leið og klukkan sýndi u.þ.b. 1:18:30 klst. Ég var sem sagt orðinn einni mínútu á eftir áætlun (sjá töfluna hér að framan), þrátt fyrir að áætlunin væri afar hófstillt. Af þessu var ekki hægt að draga neinar ályktanir, en ég hugsaði þó með mér að ég vildi helst ekki tapa meiri tíma á leiðinni niður að Álftavatni. Áætlunin þar hljóðaði upp á 2:28:30 klst og ég vissi að ég yrði pínu leiður ef ég færi fram yfir 2:29:30. En mér leið vel og þóttist viss um að geta unnið upp einhverjar mínútur í seinni hluta hlaupsins. Auk þess tók áætlunin mið af stífasta markmiðinu (markmiði A með lokatíma upp á 5:55:55 klst). Eftir sem áður var markmið B („sub-6“) vel innan seilingar.

Hrafntinnusker – Álftavatn: 11,09 km
Sjálfsagt taka glöggir lesendur eftir því að kílómetratölurnar í millifyrirsögnunum eru ekki alveg þær sömu og í töflunni hér að framan. Þær tölur eru námundaðar og svo mælist þetta aldrei alveg jafnlangt. En það er aukaatriði, því að staðirnir sem um ræðir færast ekki neitt frá ári til árs. Hvað sem þessu líður fannst mér ég ekkert sérlega ferskur þegar ég lagði af stað frá Hrafntinnuskeri. Fann svo sem hvergi til, nema aðeins í vinstra hnénu sem hefur stundum verið mér til ama síðustu tvö ár. En þau óþægindi gleymdust fljótt. Ég sá orðið lítið til Akureyringanna og á leiðinni yfir fjöllin fóru nokkrir hlauparar fram úr mér. Ég er svo sem aldrei að keppa við neinn nema sjálfan mig, en það er samt ekki uppörvandi þegar manni finnast „allir aðrir“ fara hraðar. Reyndar fór ég aftur fram úr nokkrum á leiðinni niður Jökultungur. Á hlaupum hef ég oft haft tilefni til að rifja upp ljóðlínu eftir Stein Steinarr; „Styrkur minn liggur allur í undanhaldinu“.

Þegar ég nálgaðist Álftavatn sá ég að áætlunin stóð tæpt – og þegar þangað var komið sýndi klukkan 2:31:25 klst, eða þar um bil. Ég var þá sem sagt búinn að tapa u.þ.b. tveimur mínútum til viðbótar við þessa einu sem tapaðist á leiðinni upp í Hrafntinnusker, án þess þó að ég hefði reynt að spara mig á þessum kafla. Þar með vissi ég eiginlega að bæði markmið A og B væru fyrir bí, þ.e.a.s. að ég myndi að öllum líkindum ekki ná að hlaupa undir 6 klst. En það var svo sem allt í lagi. Og svo var aldrei að vita nema ég yrði ógurlega hress þegar ég kæmi í hlýja meðvindinn sem búið var að spá á söndunum.

Álftavatn-Bláfjallakvísl: 5,23 km
Þegar þarna var komið sögu var ég staðráðinn í að hlaupa bara eins og mér var eðlilegt það sem eftir væri hlaupsins. Orkusparnaði var sem sagt aflýst, en átök voru samt ekki á dagskrá. Mér fannst þetta ganga svona sæmilega, en á þessari leið fór Hálfdán Daðason þó fram úr mér. Það var náttúrulega bara fínt, en samt var tvennt í því sem líta mátti á sem viðvörun. Annars vegar er Hálfdán í sama aldursflokki og ég og hins vegar var hann í rauða ráshópnum, sem þýddi að þegar þarna var komið sögu var hann búinn að vinna upp 5 mínútna forskot sem ég hafði á hann í startinu. En hlaupið var engan veginn búið og óþarfi að fara á taugum yfir þessu. Það að öðrum gangi vel þýðir líka alls ekki að mér gangi illa. Já, og svo er ég líka alltaf að keppa bara við sjálfan mig. Að vísu hafði ég tekið eftir því að nú var í fyrsta skipti búið að lofa hlaupaskóm í verðlaun fyrir sigurvegara í hverjum aldursflokki. En ég á nóg að hlaupaskóm – og auk þess vissi ég af rúmlega sextugum Ísraelsmanni sem var skráður í hlaupið og var með álíka mörg ITRA-stig og ég. (Fyrir þá sem ekki vita eru ITRA-stigin eins konar styrkleikalisti allra heimsins utanvegahlaupara). Kannski vantaði þennan Ísraelsmann frekar hlaupaskó en mig, já eða Hálfdán.

Þegar þarna var komið sögu var ég hálfpartinn farinn að búast við að Birkir bóndi færi að ná mér. Hann er oftar en ekki sprækari en ég, þannig að 5 mínútna forskot á hann í ræsingunni gat varla enst mjög lengi. Seinna komst ég að því að ég var enn með 3 mín forskot á hann þegar ég kom að Bláfjallakvísl. Þar sýndi klukkan u.þ.b. 3:07 klst, sem þýddi að ég var kominn 5 mín á eftir áætlun, þrátt fyrir að mér fyndist ég hafa haldið nokkuð vel á spöðunum. Þarna var hlaupið hálfnað í kílómetrum talið og því ekki ólíklegt að ég myndi tapa öðru eins á seinni hlutanum. Lokatíminn yrði þá um 6:05:30 klst, þ.e.a.s. bara rétt við markmið D („betraensíðast markmiðið“).

Bláfjallakvísl-Emstrur: 10,73 km
Þessi hluti hlaupsins er sá tilbreytingarminnsti, aðallega sléttir sandar með mislausu undirlagi – og svo nokkrar hæðir í lokin. Þegar best hefur látið hef ég verið um 1 klst að hlaupa þennan spotta, en nú hafði ég ætlað mér 1:02:30 klst. Ef það gengi eftir myndi millitíminn í Emstrum verða rétt innan við 4:10 klst.

Ég kvíði því yfirleitt að hlaupa sandana, en í þetta skipti hlaut það að verða með besta móti – í þessum hlýja meðvindi sem búið var að spá. En það sem átti að verða norðvestanátt var allt í einu orðið að suðvestanátt. Hlýi meðvindurinn var þar með orðinn að hlýjum mótvindi. Mér fannst vindurinn í sjálfu sér bara þægilegur, enda hitastigið enn á uppleið, en að öðru leyti er þetta bara eðlisfræði. Maður þarf meiri orku til að flytja tiltekinn fjölda kílóa (þótt fá séu) frá einum stað til annars í mótvindi en í meðvindi. Þetta gat sem best kostað einhverjar mínútur og búið til svolitla þreytu. Ég var reyndar ekkert sérstaklega þreyttur á þessu augnabliki, bara pínulítið svekktur að komast ekki hraðar yfir.

Á söndunum, sérstaklega framan af, sýndist mér ég heldur vera að draga á fólk sem hafði farið fram úr mér fyrr í hlaupinu. Þarna náði ég reyndar líka Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur, ofurhlaupakonu úr Borgarfirðinum. Henni vildi ég helst ekki ná, því að ég veit að hún getur hlaupið Laugaveginn á miklu betri tíma en ég. Þetta var ekki vísbending um að mér gengi vel, heldur að henni gengi illa. Það fannst mér leiðinlegt.

Ég náði að pjakka sandana jafnt og þétt – og reyndar fannst mér ég bara halda nokkuð vel áfram. Varð reyndar aðeins var við krampatilfinningu í kálfunum, en það var ekkert til að gera veður út af. Ég finn oft fyrir einhverju svoleiðis án þess að það þróist upp í einhver leiðindi.

Í Emstrum beið mín enn smáskammtur af vonbrigðum. Tíminn var kominn í 4:12:45 klst, sem þýddi að ég var orðinn 8:15 mín á eftir áætlun (sjá töfluna). Enn taldi ég þó möguleika á að ljúka hlaupinu á 6:06 klst eða þar um bil, sem sagt nálægt markmiði D. En þá varð lokakaflinn líka að vera sæmilegur.

Emstrur-Þröngá: 13,35 km
Það er alltaf gott að koma í Emstrur og mér leið vel þegar ég fór þaðan. Sá sem getur hlaupið Laugaveginn þarf ekki að kvarta yfir neinu, jafnvel þótt ferðin sé ögn seinlegri en vonir stóðu til. Ég tala nú ekki um þegar sólin skín á mann allan daginn og allar áhyggjur af amstri dægranna eru fjarri. Ég var samt bara nýlagður af stað þegar krampinn gerði vart við sig fyrir alvöru, ekki reyndar alltaf á sama stað, heldur stundum hægra megin, stundum vinstra megin, jafnvel stundum í iljunum. Þetta stefndi í vesen, stundum þurfti ég að stoppa alveg, stundum gat ég gengið rólega og stundum skokkað með gát. Þarna voru öll markmið afskrifuð samstundis. Nú gilti bara að halda í gleðina og koma sér í mark, fyrr eða síðar.

Rétt eftir að þessi nýi krampaveruleiki rann upp fyrir mér náði ég Sonju Sif. Það voru aðrar slæmar fréttir, því að auðvitað langaði mig til að henni gengi betur en þetta. Hún hafði líka þurft að afskrifa markmiðin sín, og þannig var það reyndar með marga fleiri, svona eftir á að hyggja. Í þessu hlaupi virtist árangur flestra vera undir væntingum. Kannski var það hitinn, kannski mótvindurinn. Laugavegshlaup er flókið viðfangsefni þar sem margt þarf að ganga upp til að markmiðin náist.

Kramparnir létu mig ekki í friði það sem eftir var hlaupsins, en voru sem betur fer misslæmir. Mér gekk þannig sæmilega að hlaupa á sléttu en afleitlega í brekkum, bæði upp og niður, kannski þó enn frekar niður. Áfanginn frá Emstrum að Ljósá á það til að vera langur, en í þetta skipti tókst mér vel að halda hausnum uppteknum við eitthvað annað en að hugsa um kílómetratöluna á úrinu, sem eflaust breyttist mjög hægt. Það jók líka gleði mína að á þessum kafla náði Ragnheiður mér aftur – og Sonja Sif var heldur ekki langt undan. Lukkan virtist því heldur hafa gengið í lið með þeim á nýjan leik. Og svo heyrði ég kallað á eftir mér „Það sem drepur mann ekki herðir mann“. Þá vissi ég að Birkir bóndi var mættur. Hann hafði verið að glíma við verki í skrokknum, en sagðist ætla að reyna að taka almennilega á því þegar við kæmum að Kápunni.

Hjá drykkjarstöðinni við Ljósá sýndi klukkan mín u.þ.b. 5:37 klst. Ég vissi að þaðan væru ekki nema einhverjir 5 km í mark og þá 5 km hlyti ég að geta hlaupið á 35 mín. Lokatíminn gæti þá orðið nálægt 6:12 klst. Það gat verið verra.

Birkir stóð við orð sín um Kápuna. Hann kvaddi mig við Ljósá og þaut upp brekkurnar í rykmekki. Seinna sá ég að hann hafði verið u.þ.b. 6:30 mín fljótari en ég með síðustu 5 kílómetrana. Einhvers staðar á þessum slóðum fór Jóhann Karlsson líka fram úr mér. Jóhann er nýorðinn 73ja ára, en gefur lítið eftir í hlaupunum. Ótrúlega magnaður hlaupari!

Kápan reyndist mér erfið, enda er þar lítið um lárétta kafla. Ég var í sjálfu sér ekkert mjög þreyttur þegar ég var kominn niður af henni og að vaðinu á Þröngá, en kálfarnir sýndu lítinn samstarfsvilja. En samt var gott að koma að Þröngá og hitta Ingvar Garðarsson og aðra þá sem gættu að öryggi hlaupara á leiðinni yfir ána. Þar er maður alltaf í traustum höndum. Og klukkan sýndi rétt um það bil 5:55 klst, þ.e.a.s. svipaðan tíma og ég hefði viljað sjá í markinu. Ég var sem sagt orðinn heilum áfanga (að vísu stuttum) á eftir áætlun. Nú hlutu mér að duga 20 mín til að klára hlaupið – og lokatíminn 6:15 virtist í augsýn.

Hápunktur dagsins: Jóhanna og ég.

Þröngá-Húsadalur: 2,77 km
Mér dugðu ekki 20 mín til að klára hlaupið, heldur var ég 20:55 mín að komast þennan síðasta spöl og hef aldrei verið lengur. Árið 2019 var ég t.d. ekki nema 19:02 mín að skrölta þetta, þrátt fyrir mikla þreytu og bugun, og 2017 var ég 18:16 mín með brotna öxl. En úr því sem komið var skipti tíminn svo sem engu máli. Nokkur hundruð metrum frá markinu stóð Jóhanna mín sem hafði gert sér ferð í Þórsmörk til að taka á móti pabba sínum. Svoleiðis móttökur eru ótrúlega dýrmætar og síðustu skrefin í markið voru létt. Lokatíminn var 6:16:10 klst, sem sagt 6 mín lakari en ég hafði reiknað með í versta falli. En eftir á að hyggja skipta 6 mínútur engu máli í svona hlaupi.

Eftir hlaup
Mér leið ágætlega þegar ég var kominn í mark og var í raun ekkert sérstaklega þreyttur. Við tóku margar góðar mínútur í blíðviðrinu sem ríkti í Húsadal þennan dag. Svoleiðis mínútur eru yfirleitt meðal bestu stundanna minna og þetta skipti var engin undantekning. Þarna hitti ég að vanda marga af bestu hlaupavinum mínum, sem með árunum hafa líka skipað sér í hóp bestu vina minna. Og best af öllu var að Jóhanna skyldi vera þarna líka.

Síðustu metrarnir í markið. (Mynd: Hlaup.is).

Tveir fyrstu menn í flokki 60-69 ára: Ég og sigurvegarinn Avidov Efraim Lieberman. (Mynd: Sonja Sif).

Þó að ég væri tiltölulega lítið þreyttur gerðu kramparnir mér erfitt fyrir við fataskipti o.þ.h., en þar hafði ég nógan tíma og fékk líka hjálp til að klæða mig í sokka. Svo var bara kominn tími á enn meira spjall, mat og verðlaunaafhendingu. Að þessu sinni náði ég 2. sætinu í flokki 60-69 ára, á eftir fyrrnefndum Ísraelsmanni sem var meira en 20 mín á undan mér. Næstu árin verður erfiðara hjá mér að komast á pall, því að nú þyrpist fullt af ungu fólki upp í þennan aldursflokk. Næsta ár kemur t.d 1962-árgangurinn inn af fullum þunga, og svo koll af kolli. En svo byrjar nýtt tímabil sumarið 2027 þegar ég kemst á áttræðisaldurinn.

Fæði og klæði
Það getur komið sér vel að eiga einhvers staðar minnispunkta um klæðaburð og næringu í fyrri hlaupum. Þess vegna ætla ég að eyða nokkrum línum í þau mál hér. Kannski hjálpar það mér (og jafnvel öðrum) að velja rétta útbúnaðinn í næsta hlaupi.

Glaðir Strandamenn (Birkir og ég) í Húsadal að loknu Laugavegshlaupi. (Mynd: Jóhanna).

Fatnaðurinn í þessu Laugavegshlaupi var með einfaldasta móti, enda spáð þurru og hlýju veðri. Ég hljóp sem sagt í stuttbuxum og stuttermabol, en var með fisléttan vindjakka í hlaupavestinu fyrir siðasakir. Notaði hann auðvitað ekkert. Var með hanska fyrstu kílómetrana, en síðan hvíldu þeir sig í vasa á vestinu það sem eftir var. Ekkert höfuðfat var með í för. Ég var í sömu þunnu sokkunum og venjulega, í léttum ársgömlum utanvegaskóm sem auðvelt er að skipta um vatn í – og með ómissandi skóhlífar sem ég keypti vorið 2015.

Í hlaupavestinu bar ég tvo vatnsbrúsa með 0,5 l af vatni í hvorum um sig. Ákvað að láta þetta vatn duga sem grunnforða alla leið, þar sem það er dálítið tafsamt að bæta vatni í þessa brúsa. Til viðbótar var ég með 200 ml fjölnotaglas sem ég fékk vatn í á nánast öllum drykkjarstöðvum, ýmist eina fyllingu eða tvær. Samtals drakk ég eitthvað um 2 l af vatni á leiðinni, sem er nokkuð nálægt því sem ég tel hæfilegt. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að vatnsþörf er einstaklingsbundin og ræðst m.a. af líkamsþyngd og því hversu mikið maður svitnar. Ég er frekar fá kíló og svitna lítið.

Eina nestið mitt voru GU-gel, öll með koffíni. Þannig hef ég líka haft það í síðustu Laugavegshlaupum. Áður hafði ég stundum salthnetur og rúsínur með mér, aðallega til tilbreytingar. Ég tók eitt gel rétt fyrir startið og svo eitt á 45 mín fresti í gegnum allt hlaupið, nema hvað ég sleppti síðasta tækifærinu, þ.e. við 6 klst markið. Þá taldi ég þetta ekki skipta máli lengur, enda bara 16 mín eftir. Ég sporðrenndi sem sagt 7 gelum á leiðinni og tók ekki inn neina aðra næringu. Ég hef blessunarlega verið laus við magavandamál i keppnishlaupum og get torgað hellingi af gelum án þess að lenda í vandræðum. Ég get þó ekki sagt að mig hafi langað í þau síðustu. Ég tel að þessi næringarinntaka hafi verið nægjanleg, enda var ég sérlega vel nærður dagana og klukkutímana fyrir hlaup. Maður nær hvort sem er ekki að taka inn jafnmikla orku og maður notar í hlaupinu. Í svona stuttu hlaupi (stuttu miðað við 100 km og þaðan af lengra) á þetta alveg að sleppa. Ég tel mig líka sæmilega þjálfaðan í að brenna fitu eftir því sem þörf er á. Kolvetnabirgðir líkamans fyrir hlaup, gelin sem ég tók á leiðinni og fituforðinn, sem e.t.v. var eitthvað höggvið í, áttu að duga mér. Ég fann heldur aldrei fyrir orkuskorti. Fræðilega séð gæti næringin (eða öllu heldur skortur á næringu) haft eitthvað að segja um krampana í kálfunum, en ég tel þó að ástæða þeirra hafi verið önnur (sjá neðar).

Lærdómurinn
Mér finnst ég alltaf læra eitthvað í hverju Laugavegshlaupi. Eins og ráða má af þessu pistli fannst mér þetta hlaup ekki ganga alveg eins vel og ég hefði viljað, en sem fyrr segir þarf sá sem getur hlaupið Laugaveginn ekki að kvarta yfir neinu, jafnvel þótt ferðin sé ögn seinlegri en vonir stóðu til. Það eitt að komast á ráslínuna er stórkostlegt – og enn stórkostlegra að komast alla leið í mark, hvort sem það gerist fjórum eða níu klukkutímum síðar.

Ég held að helstu mistökin þetta árið hafi verið eftirtalin:

 1. Of fáar styrktaræfingar. Krampar geta átt sér ýmsar orsakir, eins og m.a. má lesa um í krampapistlinum sem ég skrifaði fyrir hlaup.is sl. vetur. Í mínu tilviki sýnist mér að skortur á vöðvastyrk í kálfum sé líklegasta orsökin. Sú staðreynd að ég gat frekar skokkað á sléttum köflum en upp og niður brekkur styður þessa tilgátu að mínu mati. Einhvers staðar las ég líka að kálfavöðvar rýrni hraðar með aldri en aðrir vöðvar. Ég hef einmitt verið frekar tæpur í kálfunum síðustu mánuði, á sama tíma og mér hefur gengið þokkalega að halda styrk í lærum og rassvöðvum.
 2. Of fáar æfingar í júní og of fáir hæðarmetrar. Einhvern veginn duttu æfingarnar svolítið niður eftir Hengilinn. Það gerði kannski ekki útslagið, en þetta hefði mátt vera þéttara.
 3. Kannski drakk ég ekki nógu mikið á leiðinni. Í heildina drakk ég u.þ.b. tvo lítra, eins og áður segir, eða hátt í 400 ml. af vatni fyrir hverja 10 km. Get auðvitað ekkert fullyrt um það hvort meira hefði verið betra. Held samt ekki. Minna hefði þó örugglega verið verra.

Í stuttu máli held ég að skortur á styrktaræfingum hafi verið aðalvandamálið – og þá er ég aðallega að tala um lyftingar með sæmilegum þyngdum, sem reynt hefðu á kálfavöðvana.

Hvað stendur upp úr?
Þetta hlaup var stórkostleg upplifun, eins og alltaf, og mörg innlegg bættust í reynslubankann. Því að jafnvel þótt leiðin sé alltaf sú sama eru Laugavegshlaupin hvert öðru ólík. Upplifunin hverju sinni ræðst af undirbúningnum, fólkinu sem er í kringum mann, veðrinu og svo ótal mörgu öðru. Að einu leyti var þetta hlaup þó mjög líkt hinum fimm. Það minnti mig á hversu mikilla forréttinda ég nýt, eða fyllti mig með öðrum orðum af þakklæti. Í þetta skipti var þessi tilfinning jafnvel enn meira afgerandi en venjulega, að hluta til vegna þess að þetta verður einhvern veginn minna sjálfsagt með aldrinum, en aðallega þó vegna þess að einmitt vikurnar fyrir þetta hlaup höfðu tvö úr hópi bestu hlaupavina minna helst úr lestinni vegna slysa og veikinda. Sú staða minnir mann harkalega á hversu lítið sjálfsagt þetta er allt saman og hversu litlu máli skiptir hvort lokatíminn sé nokkrum (t.d. 6) mínútum lengri eða skemmri.

Það er sem sagt þakklætið sem stendur upp úr, bæði þakklætið fyrir að geta þetta og þakklæti í garð þeirra sem gera hlaupin mín enn skemmtilegri en ella. Þar á fjölskyldan alltaf stærstan hlut að máli, og í þetta sinn var Jóhanna mín þar í aðalhlutverki. Svo eiga hlaupavinirnir nær og fjær líka sinn skammt af þakklætinu. Eitt Laugavegshlaup er ekki bara eitt Laugavegshlaup. Það er hluti af stórri og stækkandi heild sem bætir tilgangi við lífið, sem þó var fullt af tilgangi fyrir.

PS1: Frásagnir mínar af fyrri Laugavegshlaupum má finna hér að neðan:

PS2: Sagan öll í annarri útgáfu, (myndin stækkar þegar smellt er á hana):