• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • júlí 2007
  S M F V F F S
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Laugavegurinn 2007 – sagan öll

Í gær hljóp ég Laugaveginn í fyrsta sinn. Einhver sem ég hitti fyrr í sumar var hálfundrandi þegar ég sagði frá þessum áformum mínum og fannst ekki sérlega mikið til þeirra koma. Viðkomandi hrósaði mér reyndar fyrir að ætla að láta verða af því að hlaupa þessa leið, því flestir færu jú bara gangandi eða þá að þeir skoðuðu í búðargluggana út um bílrúðurnar. En Laugavegurinn sem ég hljóp í gær var sem sagt ekki leiðin frá Hlemmi niður á Lækjartorg, heldur frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk. Margir hafa jú farið gangandi þá leið, en þar eru engir búðargluggar til að horfa inn um, heldur ný náttúruupplifun við annað hvort fótmál.

Hvers vegna?
Ég varð fimmtugur fyrr á þessu ári. Af því tilefni ákvað ég að gefa sjálfum mér Laugaveginn í afmælisgjöf. Fyrir því voru eiginlega tvær ástæður, annars vegar hafði mig lengi langað til að hlaupa þessa leið einhvern tímann og hins vegar fannst mér ég þurfa að gera eitthvað sérstakt í tilefni af þessum tímamótum í lífinu, í stað þess að gefa mig á vald hægfara og ótímabærri afturför í andlegu og líkamlegu tilliti. Svo er líka bara svo gaman að setja sér krefjandi markmið og ná þeim.

Undirbúningurinn
Laugavegurinn er 55 km og svoleiðis vegalengd hleypur maður ekki upp úr þurru, heldur krefst verkefnið nokkurra mánaða undirbúnings ef vel á að vera. Í mínu tilviki hófst þessi undirbúningur eiginlega þegar ég hitti Önnu Dóru Sæþórsdóttur á ráðstefnu á Ísafirði í lok janúar, en hún hljóp Laugaveginn í fyrsta sinn í fyrra við afar erfiðar aðstæður. Bara það að spjalla við einhvern sem hafði látið verða af þessu gaf mér þann innblástur sem dugði til að hefjast handa. Undirbúningur fyrir löng hlaup snýst nefnilega ekkert síður um andlega þætti en líkamlega. Maður þarf að trúa á markmiðið og þrá að ná því.

Ég hef stundað hlaup af og til í næstum fjóra áratugi. En enda þótt hlaupin séu ekkert ný fyrir mér og hlaupaskórnir alltaf til taks í forstofunni eða bílskúrnum, allt eftir því hversu langt síðasta hlaupahlé hefur verið, þá dugar ekkert “af og til” þegar kemur að því að undirbúa maraþonhlaup eða þaðan af lengri. Fyrstu vikurnar voru æfingarnar þó helst til strjálar, enda vetrarveður misjöfn og ég lítið gefinn fyrir hlaupabretti og líkamsræktarstöðvar. Æfingaáætlunin var þó fljótlega tilbúin, enda aðeins 6 orð að lengd: “Bara nógu langt og nógu hægt”. Ég náði fljótt tökum á því síðarnefnda.

Með vorinu komst meiri regla á æfingarnar og vegalengdirnar urðu að sama skapi meiri. Heilsan var góð og engin meiðsli til ama. Ég hef lengst af verið einfari í hlaupunum – og finnst það bara gott, en samt verð ég að viðurkenna að æfingarnar fóru að ganga betur þegar ég fékk félagsskap á lengri leiðunum. Þar lagði Ingimundur Grétarsson í Borgarnesi mest af mörkum, en einnig komu við sögu Guðmann Elísson og Ólafur Ingþórsson. Eftirminnilegustu hlaupaferðirnar voru frá Borgarnesi vestur í Straumfjörð á Mýrum og svokölluð Múlaleið ofar á Mýrunum, sem kom skemmtilega á óvart með því að vera vel yfir 37 km en samt engin sérstök fyrirstaða. Svo fórum við Ingimundur í Mývatnsmaraþonið á Jónsmessunni og eftir það vissi ég að Laugavegurinn yrði í lagi. Síðustu þrjár vikurnar notaði ég meðal annars til að hlaupa Óshringinn við Hólmavík fjórum sinnum í röð og ganga þrisvar upp á topp Hafnarfjallsins og skokka niður. Þær æfingar áttu eftir að reynast mér afar notadrjúgar.

Klæðaburður og nesti
Klæðaburður og nesti eru meðal mikilvægra þátta sem þarf að huga að í undirbúningi og upphafi hlaups sem þessa. Eiginlega má skipta nestinu í tvo undirflokka, annars vegar það sem maður ber með sér í drykkjarbelti eða öðru álíka, og hins vegar það sem maður hefur innbyrt síðustu dagana og klukkutímana fyrir hlaup. Ég taldi mig vera á nokkuð góðu róli með það síðarnefnda. Kvöldið áður borðaði ég eins mikið og ég hafði lyst á af fitulitlu grilluðu lambakjöti úr Bitrufirði með kartöflum, grænmeti og engri sósu. Um nóttina áður en ég lagði af stað fékk ég mér fullan disk af AB-mjólk með miklu múslí og í Hrauneyjum, tveimur tímum fyrir hlaup, bætti ég á mig tveimur brauðsneiðum með skinku og osti, einu eggi og tveimur tekrúsum. Eftir á að hyggja var þetta samt líklega engan veginn nægjanlegt, en meira um það síðar. Af eiginlegu nesti hafði ég meðferðis tvo litla vatnsbrúsa, tvo jafnlitla brúsa af Aquarius, tvö bréf af orkugeli, eina eða tvær orkustangir, dálítinn bita af Snickers og matarsalt í litlu boxi. Ég endurnýjaði síðan þessar birgðir að hluta við Bláfjallakvísl, en þangað var búið að flytja töskur og poka sem þátttakendur höfðu útbúið og skilað inn daginn áður. Til viðbótar við nestið innbyrti ég svo sem þrjá hálfa banana, eitthvað af orkudrykkjum og dálítið meira Snickers á drykkjarstöðvum á leiðinni. Orkustangirnar nennti ég aldrei að borða, því að það er svo mikið vesen að tyggja þær.

Klæðaburðurinn hlýtur að ráðast af veðri og venjum og þörfum hvers og eins. Ég var í þröngum stuttbuxum niður á mið læri (hjólabuxum), stuttermabol og langerma hlaupastakk utanyfir. Fljótlega renndi ég ermunum af stakknum og var þá kominn í nokkurn veginn vindhelt vesti i staðinn. Þessi búningur reyndist ágætlega. Á fótum hafði ég nokkurra mánaða gamla Asics Goretex utanvegahlaupaskó (trailskó). Þessir skór hafa reynst mér einstaklega vel á grófu og lausu undirlagi, því að þeir hafa fádæma gott grip. Á miðri leið skipti ég reyndar yfir í nýlega Asics Kayano götuhlaupaskó sem biðu mín við Bláfjallakvísl. Undir skónum var ég í hlaupasokkum úr þar til gerðu gerviefni. Dagar bómullarsokka eru taldir í svona hlaupum.

Hlaupið sjálft
Laugavegshlaupið 2007 var ræst í Landmannalaugum kl. 9 að morgni laugardagsins 14. júlí. Ég hafði vaknað kl. 2.30 um nóttina eftir fremur stuttan en notadrjúgan svefn, keyrt til Reykjavíkur og tekið rútu þaðan austur. Veðrið í Landmannalaugum þennan morgun var einkar ákjósanlegt, austan gola, skýjað að mestu og líklega 10-12 stiga hiti. Rignt hafði um nóttina, þannig að stígar voru fastari fyrir en ella og minna ryk.

Alls lögðu 133 hlauparar upp frá Landmannalaugum og allir skiluðu þeir sér í mark í Þórsmörk síðar um daginn. Ég hélt mig aftarlega fyrsta kílómetrann, en tók svo að fikra mig framar í röðina. Fyrsti áfangi hlaupsins, frá Landmannalaugum upp í Hrafntinnusker, er nær allur á fótinn. Þar er farið eftir stígum upp hvert holtið af öðru og á nokkrum stöðum eru snjódældir milli holta. Ég fór að ráðum reyndra manna og hljóp lítið sem ekkert á þessari leið, en gekk rösklega. Mér til gamans taldi ég þá sem ég fór fram úr og var kominn upp í 32 þegar ég skokkaði í hlað við skálann við Hrafntinnusker. Einn þessara manna var Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari, sem átti eftir að koma mikið við sögu mína síðar í hlaupinu. Við Hrafntinnusker taldi ég mig vera um það bil í miðjum hópi eða kannski eilítið framar. Þessi fyrsti áfangi er um 10 km og hækkunin um 500m. Millitíminn minn var 1:20 klst, sem var 4 mín. á undan lauslegri áætlun sem ég gerði fyrirfram og miðaði við að ljúka hlaupinu á 7 klst.

Ég fann fyrir einhverri þreytu strax við Hrafntinnusker, en þó ekkert til að hafa orð á. Í heildina leið mér aldeilis stórvel. Næstu kílómetrar fundust mér þó heldur erfiðari, en líklega var það bara andlegt erfiði sem fylgir því að snúa baki við einum ákvörðunarstað og byrja á nýjum áfanga. Þessi áfangi var leiðin frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni, samtals um 11 km með 500 m lækkun. Fyrsti hluti leiðarinnar liggur upp og niður í öldum, þar sem skiptist á sandur og snjódældir. Á leiðinni frá Hrafntinnuskeri fram á brún Kaldaklofsfjalla mátti ég sjá á bak nokkrum hlaupurum, líklega einum fjórum. Þarna á brúninni stóð stúlka, starfsmaður hlaupsins, sem varaði mann við að leiðin niður Jökultungur væri venju fremur slæm og því ástæða til að gæta varúðar. Þessi viðvörun var eitt af mörgum dæmum um framúrskarandi framkvæmd hlaupsins. Mér finnst hins vegar sérlega gaman að hlaupa niður í móti og hafði því þessa viðvörun að engu. Hljóp niður Jökultungurnar eins og ég framast þorði, gegn ráðum vísra manna sem hafa fyrir satt að óþarfur hraði á þessari niðurleið komi illa niður á mönnum síðar í hlaupinu. Þetta er nú líklega alveg rétt hjá þeim, þótt auðvitað hljóti það að vera einstaklingsbundið. Alla vega skemmti ég mér vel á þessum stutta og bratta kafla og fór fram úr einum 8 hlaupurum á eins kílómetra leið. Þarna sönnuðu Asics Trail skórnir gildi sitt þó að ég væri einu sinni dálítið hætt kominn í augnabliks grandaleysi.

Það var gaman að sjá úr Jökultungum niður að Álftavatni og mér þótti annar áfanginn stuttur. Eitthvað hafði ég þó lent í vatni, kannski í Grashagakvísl, og eins var kominn sandur og smásteinar í skóna. Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar að skipta um skó við Bláfjallakvísl og fara í þurra sokka.

Millitíminn við Álftavatn var 2:36 klst. Þar með hafði ég náð samtals 12 mínútna forskoti miðað við upphaflega áætlun. Var þó hóflega bjartsýnn, því að mig grunaði að síðasti áfanginn gæti orðið drjúgur.

Leiðin frá Álftavatni að Bláfjallakvísl var lengri en ég hafði búist við. Eftir að hafa vaðið Bratthálskvísl í ökkla eða rúmlega það og svo sem eina litla á til viðbótar, voru skórnir mínir orðnir býsna þungir. Þá komu gallar goretexskónna í ljós. Þeir hleypa nefnilega hvorki vatni út né inn, þannig að þegar þeir eru einu sinni orðnir fullir af vatni, þá fer vatnið hvergi. Ég fer ekki aftur í svoleiðis skóm í svona hlaup. Þeir eru bara nothæfir á sæmilegu þurru landi.

Eftir að hafa vaðið Bláfjallakvísl settist ég niður til að hafa skóskipti og endurnýja nestið, en þar beið mín eins og fyrr segir farangur frá deginum áður. Þetta einfalda viðfangsefni var sýnu erfiðara en ætla mætti og tók samtals um 8 mínútur. Þegar ég settist niður og beygði fæturna til að fara úr skónum fékk ég nefnilega krampa efst í lærin. En allt tókst þetta að lokum og gott að vera kominn í þurrt. Þarna voru búnir 26 km.

Í þann mund sem ég var að leggja upp eftir skóskiptin við Bláfjallakvísl kom Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari aðvífandi á sínum jafna og örugga hraða. Laugavegurinn var bara þægileg æfing fyrir hann, enda ekki ýkja langt síðan hann lauk sólarhringshlaupi á Borgundarhólmi með frábærum árangri – og í haust þreytir hann svonefnt Spartaþon í Grikklandi, 240 km hlaup takk fyrir. Fyrst skreppur hann þó í svonefnda ATC-keppni (Arctic Team Challenge) á Grænlandi um næstu helgi, en þar verður lið hraustra Íslendinga undir forystu Trausta Valdimarssonar í eldlínunni þriðja árið í röð í keppni þar sem er hlaupið, róið og hjólað í fimm daga, samtals um 250 kílómetra. Ég sá mér strax leik á borði að slást í för með Gunnlaugi. Næstu 20 kílómetra lifði ég hálfgerðu sníkjulífi, fylgdi honum eftir við hvert fótmál og fræddist heilmikið bæði um örnefni á svæðinu og um langhlaup. Þetta var eiginlega besti hluti leiðarinnar og undirlagið líka með jafnasta móti, tiltölulega sléttir sandar með dálitlum hæðum á milli. Þarna hefði reyndar verið hægt að villast að minnsta kosti á einum stað þar sem beygt var út af vegarslóða án þess að það væri merkt sérstaklega. Þarna vantaði örlítið á merkingarnar.

Þriðja áfanga leiðarinnar lauk við Emstrur. Þangað var ég kominn fyrr en varði í fótspor Gunnlaugs, 37 km að baki og tíminn eitthvað um 4:31 klst, eða um 23 mínútum skemmri en upphafleg áætlun mín gerði ráð fyrir. Mér leið vel og var farinn að eygja möguleika á að ljúka hlaupinu á sex og hálfum tíma. Vissi að það eina sem ég þyrfti að gera væri að fylgja Gunnlaugi það sem eftir lifði hlaups. Það var hárrétt mat, því að Gunnlaugur lauk hlaupinu á 6:28:00 klst.

Eftir Emstrur fór ég fljótlega að finna til meiri þreytu en áður. Kramparnir í fótunum gerðu smátt og smátt meira vart við sig og kúlan utan á hægri ökklanum var orðin aum, eins og hún hefur átt vanda til í sumar. Ég ákvað þó að gefa hvergi eftir. Þarna liggur leiðin um fremur stórbrotið landslag, svo sem við Neðri-Emstruá. Brekkan upp úr henni var erfið og sama gilti um aðrar brekkur upp í móti á þessu kafla. Í Fauskatorfum var mér farið að líða all illa, fæturnir orðnir þungir og stífir og ónot í maga. Á slíkum stundum er þó ávallt erfitt að greina á milli líkamlegrar og andlegrar vanlíðunar. Alla vega sá ég fram á að geta ekki fylgt Gunnlaugi lengur. Þegar þarna var komið sögu sýndi GPS-tækið á handleggunum að 46,4 km væru að baki. Við tók 700 metra ganga, þar sem ég reyndi að ná kröftum á ný og sætta mig við að draumurinn um sex og hálfan tíma væri á útleið. Var ekki meira en svo viss um að ég gæti byrjað að hlaupa aftur, og þá hefðu 7 tímarnir verið fljótir að líða. Það var vel ásættanlegur tími við upphaf hlaups, en í engu samræmi við væntingarnar sem höfðu byggst upp á leiðinni.

Allt hafðist þetta þó smátt og smátt. Hlaupararnir tíndust fram úr mér einn af öðrum, en víða hitti ég göngufólk með bakpoka og stafi, sem gaukaði að mér uppörvandi orðum. Sömu sögu er að segja af frábæru starfsfólki hlaupsins við drykkjarstöðvar og vöð. Bröttustu brekkurnar niður í móti voru þó virkilega erfiðar, bæði vegna þreytunnar og vegna þess að Kayano skórnir hafa svo sem ekkert grip í brattlendi miðað við utanvegaskóna. Leiðin upp Kápu var líka virkilega erfið og síðustu þrír kílómetrarnir ætluðu engan enda að taka, jafnvel þótt leiðin lægi um mjúka skógarstíga. Krampinn í fótunum minnti á sig við næstum hvert fótmál. Stundum þurfti ég að standa kyrr í smástund til að reyna að bæta ástandið og einu sinni gekk ég aftur á bak smáspöl, en það hefur víst reynst mörgum vel við þessar aðstæður. Í huganum vissi ég þó að mér myndi takast ætlunarverkið og skyndilega var ég staddur á sléttum grasbala í Þórsmörk og sá endamarkið blasa við. Mig minnir að ég hafi svifið síðustu 100 metrana og ég kom örugglega brosandi í mark. Tíminn var 6:40:50 klst, sem sagt 19 mínútum skemmri en ég hafði upphaflega áætlað. Ég var því virkilega sáttur þótt tímabundinn draumur um enn betri tíma hefði dáið í Fauskatorfum. Þessi tími dugði mér í 61. sæti af 133 þátttakendum og í 9. sæti af 23 körlum á sextugsaldri.

Eftirköst
Að loknu hlaupi tók það mig tæpan klukkutíma að komast úr hlaupafötunum, fara í sturtu og klæða mig aftur. Sérstaklega var erfitt að komast úr skónum og í aðra. Ætli ég verði ekki að taka með mér aðstoðarmann í næsta Laugavegshlaup til að reima fyrir mig skóna? Mér fannst það reyndar bráðfyndið, þar sem ég sat úti í móa í Þórsmörk klukkutíma eftir hlaup, að ég skyldi hafa getað skokkað þessa 55 kílómetra, en þyrfti að beita mig hörðu til að komast í sokka og skó.

Eftir grillmat og spjall við skemmtilegt fólk við endamarkið í Þórsmörk var lagt af stað í rútu til Reykjavíkur og farið enn betur yfir viðburði dagsins á leiðinni. Þetta gekk vel, en það reyndist ekki að sama skapi auðvelt að keyra í Borgarnes, þar sem hægri fóturinn var enn haldinn einhverri samdráttartilhneigingu. Allt hafðist það þó með lagni og morguninn eftir merkti ég engin eftirköst nema stirðleika í fótum.

Helsti lærdómur
Maður getur lært margt í svona hlaupi, enda gengur yfirleitt betur að læra af eigin mistökum en annarra. Hér verður tínt til eitthvað af því sem ég lærði, þó ekki væri til annars en að minna mig á ef ég skyldi gera þetta aftur. Reyndar varð mér að orði þegar ég var að reyna að komast úr hlaupafötunum að hlaupi loknu, að kannski myndi þetta verða fyrsta og eina Laugavegshlaupið mitt. Þá var mér bent á að líklega myndi allt annað verða uppi á teningnum strax á næsta degi. Held að það geti reyndar vel verið rétt. En helsti lærdómurinn var alla vega þessi:

 • Það er nauðsynlegt að borða staðgóðan mat kvöldið fyrir Laugaveginn. Þar dugar ekkert hveiti, hvort sem það er framreitt sem brauð eða pasta. Maðurinn lifir ekki á hveitibrauði einu saman. Þetta var svo sem nokkurn veginn í lagi í mínu tilviki.
 • Það er líka nauðsynlegt að borða staðgóðan morgunmat nóttina fyrir Laugaveginn ef maður leggur af stað áleiðis í Landmannalaugar fyrir allar aldir. Þar mega fara saman prótrein og trefjar. Þetta var svo sem líka nokkurn veginn í lagi hjá mér, en magnið og fjölbreytnin hefði mátt vera meira.
 • Það er nauðsynlegt að taka með sér almennilegt nesti til að maula á leiðinni heiman að og í Landmannalaugar. Þessi ferð tekur nokkra klukkutíma og það er mjög slæm hugmynd að leggja upp í svona hlaup hálfsvangur. Gunnlaugur Júlíusson hafði með sér fiskbollur og hreinan appelsínusafa til að gæða sér á í rútunni. Ég held að það hafi verið býsna góð hugmynd hjá honum. Þarna brást mér bogalistin, var ekki með neitt nesti, og morgunverðurinn í Hrauneyjum var of einfaldur og endasleppur.
 • Það er æskilegt að gera sérstaka fæðuáætlun fyrir hlaupið sjálft og miða farangurinn við það. Sé maður í góðu næringarástandi við upphaf hlaupsins, sem er reyndar alveg nauðsynlegt, væri kannski ráð að taka eingöngu með sér allt að 10 bréfum að orkugeli sem maður svelgir svo í sig reglulega á hálftímafresti hvort sem mann langar til þess eða ekki. Þessu til viðbótar ætti ekkert að þurfa að vera í drykkjarbeltinu annað en vatn eins og maður nennir að bera. Svo er alltaf hægt að fá viðbót á drykkjarstöðvum og í bergvatnsám og lækjum á leiðinni. Loks gæti verið snjallt að hafa með sér salt í einhverju formi, gjarnan með fleiri steinefnum.
 • Það er góð hugmynd að kynna sér ástæður krampa í fótum. Gunnlaugur mælir með miklu C-vítamíni og magnesíum sem fyrirbyggjandi þáttum, en kalk hefur einnig verið nefnt til sögunnar. Svo skiptir auðvitað meginmáli að vera í nógu góðri æfingu! Þarna brást eitthvað í undirbúningnum mínum, og reyndar veit ég um fleiri sem áttu við svipaðan vanda að stríða.
 • Maður skyldi ekki hlaupa Laugaveginn í goretexskóm. Hins vegar er afar brýnt að vera í skóm með grófum sóla, helst alla leiðina.
 • Það er slæm hugmynd að sitja við Bláfjallakvísl í 8 mínútur við að reyna að skipta um skó. Betra er að vera í skóm sem duga alla leið. Hins vegar getur verið snjallt að eiga varanesti, varaskó og varaföt við Bláfjallakvísl, ef mann skyldi nú vanta eitthvað eða ef veður breytist mikið á leiðinni.

Öll þessi góðu ráð, sem ýmist byggjast á eigin athugunum eða ráðleggingum annarra, eiga auðvitað ekki við alla, enda fyrst og fremst sniðin að eigin þörfum. Fólk er jú mismunandi að allri gerð. Það sem hentar einum hentar því ekki endilega öðrum.

Lokaorð og þakkir
Það var gaman að hlaupa Laugaveginn. Þar kemur margt til, þó líklega aðallega þrennt. Í fyrsta lagi er hollt að setja sér krefjandi markmið og ná þeim. Það er heilmikill sigur út af fyrir sig. Í öðru lagi gefur Laugavegshlaupið kost á frábærri náttúruupplifun, ekki síst fyrir mann eins og mig sem hvorki hafði áður komið í Landmannalaugar né Þórsmörk. Reyndar eru því takmörk sett hversu mikið maður getur notið útsýnis á hlaupunum, því að ekki má gleyma að sjá fótum sínum forráð. En náttúruupplifun snýst ekki bara um sjón, heldur líka lykt, heyrn og tilfinning, sem erfitt getur verið að lýsa. Það eru einfaldlega forréttindi að geta verið þarna úti og upplifað þetta “eitthvað” sem hvergi er að finna innanhúss, að vera í aðstöðu til að leggjast flatur og segja við sjálfan sig “Þetta er lífið maður”, eins og grísinn í barnabókinni “Elsku litli grís” eftir Ulf Nilsson. Í þriðja lagi gefur Laugavegurinn manni kost á að njóta samvista við fólk sem maður þekkir og þekkir ekki, við aðstæður þar sem samskipti verða innihaldsríkari en gengur og gerist í amstri dagsins.

Það er svo sem ekkert einstætt að ég skuli hafa hlaupið Laugaveginn. Það gerðu jú 132 aðrir sama daginn. En samt er það svo, að persónulegur og dálítið eigingjarn draumur eins og þessi verður ekki að veruleika nema með aðstoð og velvild þeirra sem næst manni standa og oftast margra annarra líka. Þarna kemur auðvitað fyrst upp í hugann þáttur Bjarkar og barnanna okkar sem hafa þurft að þola óvenju sjálflæga hegðun mína síðustu mánuði, en samt hvatt mig áfram með ráðum, dáð og kjötsúpu. Svo má líka nefna fáa en góða hlaupafélaga með Ingimund Grétarsson í broddi fylkingar, Önnu Dóru sem óvart fékk mig til að trúa virkilega á hugmyndina og Gunnlaug sem eiginlega dró mig 20 kílómetra af þessum 55 og miðlaði mér af reynslubrunni sínum á leiðinni. Ekki má heldur gleyma starfsfólki hlaupsins, sérstaklega þeim sem stóðu vaktina á drykkjarstöðvum og við vöðin á ánum. Með jákvæðni sinni og hjálpsemi átti þetta fólk stóran þátt í að gera daginn eins þægilegan og hann mun verða í minningunni. Sama gildir auðvitað um skipuleggjendur hlaupsins sem stóðu sig greinilega afar vel. Þau verk eru þess eðlis að þau sjást eiginlega bara ef þau eru ekki unnin. Þau sáust naumast í gær. Loks er ég þakklátur öllum vinum og kunningjum sem sýndu þessu uppátæki áhuga, hvöttu mig til dáða og fylgdust með hvernig gengi, ýmist úr nálægð eða fjarlægð.

Gagnlegar og upplýsandi vefslóðir

Lýkur hér að segja frá draumnum sem rættist 14. júlí 2007.

Borgarnesi 15. júlí 2007
Stefán Gíslason

3 svör

 1. […] Laugavegurinn 2007 (var týndur en fannst aftur) […]

 2. […] Laugavegurinn 2007 (6:40:50 klst) […]

 3. […] Laugavegurinn 2007 (6:40:50 klst) […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: