• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • ágúst 2021
  S M F V F F S
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Sól á Trékyllisheiði

Laugardaginn 14. ágúst sl. tók ég þátt í fyrsta formlega Trékyllisheiðarhlaupinu, þar sem hlaupnir voru rúmir 48 km frá Trékyllisvík suður í Selárdal í Steingrímsfirði. Þetta var erfitt, en veðrið var gott og gleðin mikil. Fæturnir á mér voru ekki beinlínis samþykkir því að fara í þetta hlaup, en hugurinn tók ekki annað í mál. Ástæður þess voru einkum tvær: Annars vegar liggja rætur mínar á Ströndum og hins vegar aðstoðaði ég stjórn Skíðafélags Strandamanna smávegis við undirbúning hlaupsins. Mér fannst ég þess vegna eiga svolítið í þessu hlaupi – og það í mér, þannig að ég vildi bara alls ekki missa af því. Og mikið er ég glaður að þarna skyldi ég láta atkvæði hugans vega þyngra en fótanna.

Andstaða fótanna
Eins og fram kemur í pistlinum sem ég skrifaði um Laugavegshlaupið um daginn, lenti ég í dálitlum vandræðum þar – og þessi vandræði taldi ég mig geta rakið til skorts á vöðvastyrk í kálfum. Ég hef vitað af þessum veikleika síðan í byrjun desember í fyrra. Vann talsvert í málinu síðasta vetur, en fylgdi þeirri vinnu lítið eftir þegar komið var fram á sumar. Eitt einkenni veikleika er að þeir þroskast mest þegar þeim er ekki sinnt, alveg öfugt við styrkleikana sem þroskast bara þegar maður sinnir þeim. Veikleikinn í kálfunum, sem gerði mér erfitt fyrir á Laugaveginum 17. júlí, hafði fengið að þroskast að mestu óáreittur þær fjórar vikur sem liðnar voru síðan þá – og í lok júlí var ég í raun hættur að geta hlaupið almennilega vegna sársauka í vinstri kálfa. Eitthvað náði ég að malda í móinn með því að nota nuddrúllu og klæða kálfana í „compression-hlífar“, en þegar Trékyllisheiðarhlaups-dagurinn rann upp bjartur og fagur hafði ég ekki árætt að fara út að hlaupa í heila viku. Það er ekki staðan sem maður vill vera í þegar maður er rétt í þann veginn að leggja upp í næstum 50 km fjallahlaup á krefjandi undirlagi. Ég hefði sem sagt hætt við að mæta ef þetta hefði verið eitthvert annað hlaup, enda er ég löngu búinn að læra að það borgar sig sjaldnast að mæta meiddur til leiks.

Áætlun dagsins
Þar sem ég hef aldrei áður hlaupið Trékyllisheiðina í keppni gat ég alveg sleppt að setja mér markmið um lokatíma. Ég vissi svo sem að leiðin væri um 48 km – og að það eitt benti til að ég ætti að geta hlaupið þetta á u.þ.b. hálftíma styttri tíma en Laugaveginn. En tími í utanvegahlaupum ræðst alls ekki bara af vegalengdinni, heldur líka af undirlaginu, hækkuninni, sérstökum farartálmum o.s.frv. En samt: Fyrst ég gat EKKI hlaupið Laugaveginn á 6:00 klst myndi ég alls ekki geta hlaupið þetta hlaup undir 5:30 klst. Og þar sem tímamörkin í hlaupinu miðuðust við 8 klst, hlaut lokatíminn minn að lenda einhvers staðar á þessu bili, þ.e.a.s. ef ég kæmist alla leið. Síðasta æfingahlaupið mitt fyrir Trékyllisheiðina var ekki nema tæpir 13 km á tiltölulega sléttu landi og þá þurfti ég að labba síðustu tvo kílómetrana út af þessum lélega kálfa. Áætlun dagsins var því einfaldlega að haga málum þannig fyrri hluta hlaupsins að sem minnst myndi reyna á kálfann. Ef kálfinn myndi bila mætti það helst ekki gerast fyrr en svo langt væri liðið á hlaupið að ég gæti gengið í mark áður en 8 klst. væru liðnar. Og svo myndi ég bara kljást við afleiðingarnar dagana eftir hlaup.

Að morgni hlaupadags
Ég vaknaði heima hjá tengdaföður mínum á Hólmavík rétt fyrir kl. 6 þennan laugardagsmorgun. Þangað hafði ég keyrt kvöldið áður til að stytta mér ferðalagið. Upp úr kl. 7 var ég svo mættur í skíðaskálann í Selárdal, þar sem Skíðafélag Strandamanna er með aðstöðu. Það var jú einmitt skíðafélagið sem stóð fyrir þessu hlaupi. Þau eru engir viðvaningar í að skipuleggja viðburði af þessu tagi, þar sem þau standa fyrir hinni árlegu Strandagöngu sem lengi hefur verið ómissandi hluti af Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands.

Í þessu fyrsta Trékyllisheiðarhlaupi var boðið upp á tvær vegalengdir; annars vegar u.þ.b. 48 km hlaup úr Trékyllisvík og hins vegar u.þ.b. 16 km hlaup frá veginum á Bjarnarfjarðarhálsi. Síðustu 8 kílómetrana er hlaupin sama leið í báðum hlaupunum, allt þar til komið er í mark við fyrrnefndan skíðaskála. Samtals voru 18 skráðir í lengra hlaupið og þar af höfðu fimm þegið boð um rútuferð úr Selárdal að rásmarkinu í Trékyllisvík. Því dugði smárúta í þessa ferð og ég var einn þeirra sem fékk far með henni norður. Þangað vorum við komin tæpum klukkutíma fyrir hlaup, þannig að nógur tími gafst til að ræða málin og ákveða hvaða klæðnaður hentaði best í verkefnið sem framundan var. Þegar þarna var komið sögu var sólin farin að skína í hægum vindi og allt útlit fyrir góðviðrisdag. Í samræmi við það urðu stuttbuxur og stuttermabolur fyrir valinu sem hlaupaföt dagsins – með langermajakka til vara í hlaupabakpokanum.

Allt tilbúið fyrir startið við Félagsheimilið í Árnesi. (Ljósm. Vilberg Þráinsson).

Fyrsti spölurinn
Hlaupið var ræst við Félagsheimilið í Árnesi stundvíslega kl. 10:00. Fyrstu 3 kílómetrana eða svo (2,93 nánar tiltekið) var hlaupið lengra í norður eftir veginum í Trékyllisvík og síðan beygt upp á Eyrarháls við bæinn Mela. Þessi fyrsti kafli er alveg flatur og reynir því lítið á kálfana. Ég reyndi því að hlaupa þetta á þægilegum og áhyggjulausum upphitunarhraða, þ.e. u.þ.b. 5:30 mín/km. Við Birkir bóndi fylgdumst að þennan spöl – með tvo á undan okkur og 14 á eftir. Rétt fyrir ofan Mela skildu svo leiðir, því að strax og komið var í fyrstu brekkuna tók varfærna áætlunin mín gildi, þar sem allt snerist um að láta kálfann endast sem lengst. Þá fór líka hitt fólkið að streyma fram úr mér og um tíma var ég kominn niður í 12. sæti af þessum átján sem lögðu af stað. Ég er ekki vanur að vera svona aftarlega, en þennan dag var mér alveg sama. Þetta snerist ekki um verðlaunasæti, heldur bara um að komast á báðum fótum í mark.

Nýkomin framhjá Melum og búin að beygja inn á veginn upp á Eyrarháls. Trékyllisvíkin í baksýn og Reykjaneshyrnan til hægri.

Drykkjarstöð 1, norðan við Glissu, 13,18 km
Björgunarsveitin Strandasól í Árneshreppi sá um fyrstu drykkjarstöðina af þremur í þessu hlaupi. Hún var staðsett þar sem hæst ber norðvestan við fjallið Glissu. Þegar þarna var komið sögu var mér farið að miða ívið betur upp brekkurnar en í byrjun, kominn hugur í mig og ég orðinn bjartsýnn á að mér tækist að ljúka hlaupinu. Reyndi samt eftir megni að halda keppnisskapinu í skefjum til að hlífa kálfunum. Var svo sem farinn að finna aðeins til, en það ágerðist hægt. Um þetta leyti vorum við fjórir á svipuðu róli, við Gylfi aðeins á undan og Einar og Sigurður aðeins á eftir. Annað slagið sást í Ragnar og Tjörva sem voru næstir á undan okkur, en líklega voru þeir þó með hátt í kílómetra forskot. Þar á undan voru aðrir fjórir sem ég sá ekki aftur fyrr en í markinu. Við vorum sem sagt í 7.-10. sæti. Þarna bjó ég mér til það markmið að enda ekki neðar en í 9. sæti, því að þá gat ég alla vega sagst hafa verið fyrir framan miðju. Við drykkjarstöðina var tíminn kominn í 1:37:49 klst, sem sagði mér svo sem ekki neitt. En mesta hækkunin var alla vega að baki sem jók trú mína á farsælum endalokum þessa ferðalags. Best að nota þá 6 klst lokatíma fyrir markmið.

Syðst á Eyrarhálsi, inn af Eyrardal í Ingólfsfirði. Eyrarfell framundan, 7,70 km að baki, enn langt í drykkjarstöðina við Glissu og ég í 12. sæti í hlaupinu.

Frá Glissu að drykkjarstöð 2 við Búrfellsvatn
Mér leið vel þegar ég lagði af stað frá drykkjarstöðinni við Glissu. Framundan var það sem ég leit á sem 2. áfanga hlaupsins, þ.e.a.s. spölurinn að drykkjarstöð nr. 2 sem staðsett var við Búrfellsvatn, upp af Kjós í botni Reykjarfjarðar. Á fyrstu tveimur kílómetrunum eftir drykkjarstöð nr. 1 lækkaði leiðin um eina 170 m – og á svoleiðis köflum líður mér yfirleitt best, ekki bara vegna þess að ég geti stundum hlaupið hraðar en aðrir niður í móti, heldur líka vegna þess að niðurleiðin hentar lélegum kálfum betur en uppleiðin. Á þessum kafla seig ég líka talsvert fram úr hinum þremur sem höfðu verið á svipuðu róli við Glissu. Ég var sem sagt orðinn einn í 7. sæti, kálfinn nokkurn veginn til friðs og hlýindin orðin meiri en ég hafði búist við á þessum slóðum. Mér finnast hlýindi yfirleitt notaleg, en ég var samt þakklátur fyrir hverja flík sem ég hafði skilið eftir í töskunni minni um morguninn.

Eftir u.þ.b. 18 km var ég kominn að Reykjarfjarðarvatni, landið farið að hækka aftur, en samt leið mér vel. Á einni hæðinni sá ég að ég var farinn að draga verulega á Ragnar og Tjörva og svo náði ég þeim á 20. kílómetranum, einhvers staðar inn af Reykjarfirði. Og þá var ég allt í einu kominn í 5. sæti. Einhvern veginn grunaði mig að það myndi ekki haldast lengi, en fyrst um sinn varð ég þó ekkert var við mannaferðir. Þarna fann ég hins vegar fyrstu krampatilfinninguna í kálfunum, svipað og ég upplifði sunnarlega á söndunum í Laugavegshlaupinu. Þá var ég reyndar búinn með rúma 30 km, en núna voru ekki búnir nema 22 km eða svo. Þetta þurfti svo sem ekkert að vera neitt alvarlegt, því að stundum finn ég fyrir þessum ónotum án þess að þau þróist í almennilega krampa. En þetta ágerðist og mér fannst vera farið að hægjast á mér. Og ég var orðinn stirður í grjótinu og lækjarskorningunum sem einkenna þennan hluta leiðarinnar.

Horft ofan af Trékyllisheiði niður á Reykjarfjarðarbæinn og út Reykjarfjörð með Reykjarfjarðarkamb yst að sunnanverðu. 22,10 km og 2:36 klst að baki.

Mér fannst síðasti spölurinn langur að drykkjarstöðinni við Búrfellsvatn, sem Björgunarsveitin Björg á Drangsnesi annaðist. Þar sýndi úrið 25,56 km og 2:59:39 klst, hlaupið sem sagt rúmlega hálfnað, stærstur hluti hækkunarinnar búinn og ekki liðnir þrír tímar frá starti. Það væri því hreinlega klúður að ná ekki að komast í markið undir 6 klst.

Hálfur áfangi að Goðdalsá
Þegar ég lagði af stað frá Búrfellsvatni var mér hætt að líða eins vel og áður. Krampatilfinningin ágerðist en ég var samt glaður, því að ég var orðinn viss um að ég þyrfti ekkert að „déenneffa“ (hætta) í þessu hlaupi. Héðan af kæmist ég gangandi í markið innan tímamarka. Kálfinn var heldur ekkert orðinn svo slæmur. Krampatilfinningin var verri.

Ég hafði hlakkað til að hlaupa frá Búrfellsvatni suður að Goðdalsá, því að þrátt fyrir fjöldann allan af litlum hæðum á þessari leið er þetta heldur á undanhaldinu. En nú var þetta bara orðið virkilega erfitt og kramparnir ágerðust með hverri mínútu. Þetta ætlaði greinilega að verða „langi kaflinn“ í hlaupinu. Í flestum löngu utanvegahlaupunum mínum er nefnilega kafli sem er svo langur að kílómetratalan á úrinu breytist næstum ekkert hvernig sem maður reynir. Á þessum köflum er eitt mikilvægasta verkefnið að líta aldrei á úrið, alla vega ekki á kílómetratöluna. Þar að auki var hitinn orðinn óþægilegur. Mér varð hugsað til maraþonhlauparanna á Ólympíuleikunum í Japan viku fyrr, sem þurftu að þola 30 stiga hita og kældu sig með vatni og ísmolum við hvert tækifæri. Á Trékyllisheiðinni voru engir ísmolar, en nóg af lækjum sem ég gat ausið mig vatni úr.

Nú fóru hlaupararnir að tínast fram úr mér aftur, fyrst Gylfi og svo Sigurður, og mér fannst þeir hlaupa ótrúlega hratt! Við Goðdalsá sýndi úrið 34,22 km og 4:01:03 klst. Ég hafði sem sagt verið rúman klukkutíma að koma mér rúmlega 8,5 km frá Búrfellsvatni. Það gat nú ekki talist góð frammistaða. Og nú voru eitthvað um 14 km eftir. Jæja, ég hlaut að komast það á innan við 2 klst, þannig að 6 klst markmiðið héldi.

Horft suður Trékyllisheiði, niður að Goðdalsá. Hugsanlega má koma auga á brautarvarðarjeppann (á miðri mynd) sem beið við vaðið til öryggis. 33,75 km og 3:57 klst að baki.

Drykkjarstöð 3, inn af Sunndal, 40,25 km
Sex kílómetra kaflinn frá Goðdalsá að vegamótunum inn af Sunndal, þar sem Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var með drykkjarstöðina sína, ætlaði engan enda að taka. Þessi kafli er víða heldur á fótinn, og þó að maður taki varla eftir því á góðum degi fór það ekkert á milli mála þennan dag. Einhvers staðar þarna náði Einar mér og hvarf svo yfir næstu hæð – og þá sat ég einn eftir í 8. sæti. Markmiðið um 9. sætið gat þó alveg náðst.

Millitíminn á drykkjarstöðinni á vegamótunum var 4:48:35 klst. Þar breytti ég út af næringaráætluninni minni, staldraði við og fékk mér þrjá bananabita og einn súkkulaðimola. Annars voru bara orkugel á matseðlinum, svona rétt eins og venjulega. Einhverjar vonir hafði ég um að bananarnir myndu kannski slá á krampana í kálfunum. Það gekk reyndar ekki eftir, enda held ég að þessir krampar hafi hvorki stafað af skorti á vatni eða steinefnum, heldur einfaldlega af skorti á vöðvastyrk með tilheyrandi skammhlaupi í taugakerfinu.

Síðustu 8 kílómetrarnir
Millitíminn á síðustu drykkjarstöðinni þýddi að ég hafði 1:12 klst til að komast síðustu 8 kílómetrana, miðað við 6 klst markmiðið. Það samsvarar 9 mín/km, sem er bara rúmlega gönguhraði. Varla gat ég orðið lengur en það! Kramparnir í kálfunum voru reyndar orðnir mjög leiðinlegir, sérstaklega þar sem undirlagið var óslétt. Þarna er undirlagið víðast óslétt. En þetta var nú samt næstum því í lagi, svo lengi sem ég fengi ekki krampa í lærin. Ég hafði reyndar engar áhyggjur af því, enda leysa áhyggjur engan vanda. En svo, þegar úrið sýndi nákvæmlega 42 km, fékk ég allt í einu krampa aftan í vinstra lærið. Ég hef lent í þeirri stöðu áður og veit að þá eru skjót ráð vandfundin. Þarna hefði verið gaman að prófa súra gúrkusafann sem margt bendir til að komi að gagni í þessum aðstæðum, en ég var bara ekki með neitt svoleiðis með mér. Mér tókst að standast freistinguna að kasta mér til jarðar, enda getur verið snúið að standa upp aftur. Önnur helstu ráð eru t.d. að teygja á viðkomandi vöðva eða ganga spölkorn aftur á bak. Hvorugt virkaði í þetta skiptið. Þá leitaði hugurinn suður í Fauskatorfur þar sem ég var í svipuðu brasi í fyrsta Laugavegshlaupinu mínu sumarið 2007, stjórnlaus samdráttur í lærvöðva og langt í mark. Þá dugði mér að staulast ofur varlega nokkur hundruð metra – og síðan gat ég byrjað að skokka aðeins aftur. Þetta dugði líka núna, en skokkið varð jafnvel enn hægara en áður. Upp úr þessu fór Tjörvi framúr mér og þar með var ég dottinn niður í 9. sætið. Kannski myndi ég ná að halda því – og enn var möguleiki að ná 6 klst markmiðinu, þótt lítið mætti út af bera úr þessu.

Rúmir 43 km að baki, lærið orðið nokkurn veginn nothæft og tekið að halla niður í Steingrímsfjörð.

Og áfram staulaðist ég, niður hlíðina fyrir ofan Bólstað, niður á veg, fram með Selánni og yfir hana á vaðinu þar sem brúin var áður. Ég var reyndar búinn að kvíða fyrir Selánni, því að kramparnir mínir eiga það til að versna í köldu vatni. En Seláin breytti svo sem ekki öllu og á endanum komst ég inn á grasi gróna flötina við skíðaskálann þar sem endaspretturinn hafði verið laglega merktur með gulum veifum. Síðustu skrefin voru mjúk og full af þakklæti, í markið komst ég á 5:57:45 klst í 9. sæti og náði þar með báðum markmiðunum sem ég setti mér á leiðinni.

Eftirhlaupagleðin
Það var gott að koma í mark, enda var það eitt og sér aðalmarkmið dagsins. Eftirhlaupagleðin hafði því óheftan aðgang að mér. Mér leið vissulega illa í fótunum, en ég var samt kominn alla þessa leið, alheill og óskaddaður. Meira datt mér ekki í hug að biðja um eins og í pottinn var búið. Við þetta bættist svo allt sólskinið sem fylgdi mér þennan dag. Hitamælirinn í Selárdal sýndi 20°C og allt í kringum mig var fólk, bæði aðrir keppendur og starfsmenn, sem öll voru álíka glöð og ég. Á svona degi þarf enginn að kvarta!

Lokaorð
Þakkir dagsins, til viðbótar þessum hefðbundnu til fjölskyldunnar og forsjónarinnar, fær stjórn Skíðafélags Strandamanna fyrir að standa fyrir þessu skemmtilega hlaupi og leyfa mér að vera samferða, bæði í undirbúningnum og í hlaupinu sjálfu. Ég hlakka til að endurtaka leikinn að ári – með sterka kálfa.

Alsæll í markinu í Selárdal eftir erfiðan en sólríkan dag, fullan af gleði. (Ljósm. Salome Hallfreðsdóttir).

Eitt svar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: