Síðasta laugardag (27. júlí) hljóp ég 26 km Pósthlaup vestur í Dölum þriðja árið í röð. Ætlaði að reyna að stilla mig um að skrifa langan og sjálfhverfan hlaupapistil um þá upplifun, en eftir að hafa setið á mér í nokkra daga er mér ljóst að ég get ekki setið lengur. Ég er reyndar nýbúinn að segja frá hlaupagleðinni sem ég upplifði á Skálavíkurheiðinni fyrr í mánuðinum, en hlaupagleðin í Pósthlaupinu var engu minni. Ég hafði sett mér það metnaðarfulla markmið fyrir hlaupið að bæta tímann minn frá því í fyrra um 5,5 mínútur, en niðurstaðan var 11,5 mínútna bæting. Ég hreinlega man ekki hversu mörg ár eru síðan ég fór svona langt fram úr björtustu vonum mínum á hlaupum – og þess vegna þarf ég að viðra gleðina með pistlaskrifum.
Nokkur orð um markmið
Ég set mér alltaf markmið fyrir keppnishlaup, eða a.m.k. næstum því alltaf. Oftast er markmiðið samsett úr hámarksmarkmiði (sem ég kalla gjarnan „villtustu drauma“) og lágmarksmarkmiði, sem ég get eiginlega ekki hugsað mér að ná ekki. Þar á milli eru svo oft einhver millimarkmið. Villtastadraumamarkmiðinu næ ég eiginlega aldrei, eða kannski í besta falli á 10 ára fresti, en lágmarksmarkmiðið næst yfirleitt. Ég hef það nefnilega fyrir reglu að hafa lágmarksmarkmiðið svo viðráðanlegt að ég „búi mér ekki til vonbrigði“ með markmiðssetningunni.
Markmiðið fyrir Pósthlaupið var eiginlega markmið hinna villtu drauma. Mig langaði sem sagt að gera aðeins betur en í Skálavíkurhlaupinu, eða með öðrum orðum að fá fleiri ITRA-stig en þá. ITRA-stig eru auðvitað ekki algildur mælikvarði, en þau gera manni þó mögulegt að bera saman árangur í annars ólíkum utanvegahlaupum. Skálavíkurhlaupið gaf 546 ITRA-stig, sem var hæsta skorið mitt síðan á Laugaveginum 2021. Þess vegna miðaði ég markmiðið fyrir Pósthlaupið við 550 stig – og til að ná þeirri tölu sýndist mér ég þurfa að hlaupa þessa 26 km á u.þ.b. 2:24:30 klst. Í fyrra hljóp ég á 2:29:59 klst, þannig að markmiðið samsvaraði 5,5 mín. bætingu. Það fannst mér nokkuð bratt, þó að vissulega hafi æfingar gengið vel síðustu mánuði. En ég er auðvitað ári eldri en í fyrra – og allt það. Fólki á mínum aldri er kennt að búast ekki við framförum. Til vara setti ég mér það markmið að bæta alla vega tímann minn frá því í fyrra (sem var aðeins betri en tíminn í hitteðfyrra). Vissi að mér myndi finnast leiðinlegt að ná því ekki. Hins vegar hvarflaði ekki að mér að ég gæti gert eitthvað umfram „villtustu drauma“.
Til þess að gera leiðina að markmiðinu markvissari rýndi ég í millitímana mína frá því í fyrra og beitti hlutfallareikningi til að finna út hversu miklu hraðari ég þyrfti að vera á hverjum kafla í hlaupinu. Skekkti síðan þá stærðfræði svolítið með því að reikna með meiri framförum milli ára í seinni hluta hlaupsins en í fyrra hlutanum. Byggði það á því að núna er ég með talsvert fleiri „kílómetra í löppunum“ og því ólíklegra að ég þyrfti að skríða í mark eins og ég gerði eiginlega í fyrra (sjá þar til gerðan ársgamlan bloggpistil). Allt þetta setti ég svo upp í Exceltöflu, sem ég reyndi síðan að leggja á minnið. (Kona sem ég met mikils sagði mér einu sinni að svoleiðis nokkuð væri ekki endilega merki um taugaþroskaröskun, heldur gæti það bent til þess að ég væri svolítill „kassi“. Rengi það ekki).
Hlaupið sjálft
Langa hlaupasagan sem hér fer á eftir er gerð aðeins styttri með því að byggja hana á mörgum litlum bútum úr fyrrnefndri Exceltöflu, án þess að útskýra þá búta mikið. Hverjum búti fylgir svo upprifjun á því hvað ég var að hugsa á hverjum áfangastað um sig

Ég var svo sem ekki með neitt plan fyrir 5 km millitímann. Fannst ég samt vera óþarflega hægur af stað og varð því ekki mjög hissa þegar ég sá að ég var strax þarna orðinn rúmri mínútu lengur en í fyrra. Núna var líka mótvindur sem var ekki þá. Markmiðið var greinilega farið, en ekkert annað að gera en að halda bara áfram. Kannski myndi ég vinna þetta nógu mikið upp á seinnipartinum til að bæta mig alla vega um nokkrar sekúndur. „PB er PB og því ber að fagna“, eins og einhver sagði einhvern tímann.

Nú jæja, mér hafði alla vega tekist að halda nokkurn veginn í horfinu þrátt fyrir mótvindinn. Aldrei að vita nema ég gæti a.m.k. bætt mig aðeins. Að vísu brekkur framundan, en þær voru þarna líka í fyrra og ég var síst sterkari í brekkum þá en núna. Skálavíkurheiðin hafði auk þess gefið mér aukið sjálfstraust sem e.t.v. myndi nýtast mér.

Ég var svo sem ekkert að spá í þennan 15 km millitíma. Mundi ekki alveg töluna úr töflunni en sýndist ég mögulega vera innan við 1 mín hægari núna en í fyrra. Næsti millitími (16 km) myndi skipta meira máli, nefnilega millitíminn þar sem hlaupaleiðin fer yfir Vestfjarðaveg rétt eftir brúna yfir Haukadalsá. Þar eru alltaf ákveðin þáttaskil í þessu hlaupi.

Heyrðu, þessi millitími var bara upp á sekúndu sá sami og í fyrra, þrátt fyrir mótvindinn. Nú var ég allt í einu orðinn mjög bjartsýnn á að ég myndi bæta tímann minn frá því í fyrra. Seinniparturinn gat varla orðið verri en þá og ég var farinn að hlakka til að sjá millitímann við Þorbergsstaði (18,8 km) þar sem maður fer aftur yfir Vestfjarðaveginn.

Á þessum kafla fannst mér vera farið að hægjast á mér. Eitt merki um það var að tveir hlauparar fóru fram úr mér þarna á reiðveginum. Samt hafði ég á tilfinningunni að ég væri fljótari með þennan kafla en í fyrra. Það reyndist líka rétt, millitíminn orðinn um 1 mín betri en þá. Bæting greinilega í kortunum – og allt í lagi þótt aðalmarkmiðið næðist ekki. Maður getur ekki alltaf beðið um allt. Ákvað að skella í mig koffíngeli þegar ég væri kominn yfir veginn. Næsti millitími yrði tekinn við Laxárdalsvegamótin (22,65 km) þegar lausi reiðvegurinn yfir hæðina upp af Kambsnesi væri að baki.

Nei, heyrðu, mundi ég þetta rétt!? Gat verið að ég væri allt í einu kominn 5 mín. fram úr tímanum frá því í fyrra og heilar 3 mín fram úr villtasta draumnum!? Ég vissi alveg að mér hafði gengið vel á þessum 4 km kafla, hvort sem það var koffíngelinu að þakka eða Borghildi sem ég hitti þarna á reiðveginum. En svona óvæntar tölur hafði ég ekki séð í fjölmörg ár! Nú var staðan allt í einu gjörbreytt, villtasti draumurinn orðinn fyllilega raunhæft markmið! „Hella hratt“, sagði ég við konuna á drykkjarstöðinni sem hellti vatni í glasið mitt. Bara kílómetri í næsta millitíma undir veginum við Laxá.

Já! Þessi kílómetri bara á 4:30 mín eða eitthvað og ég kominn næstum 4 mín á undan villtasta draumnum. Svei mér þá ef 2:20 klst væri ekki orðinn raunhæfur lokatími. Bara 3 km eftir og ekkert nema gleði framundan. Engir fleiri millitímar, bara tilfinningin. Nú skyldi bara hlaupið eins hratt og fæturnir þyldu. Engir krampar farnir að gera vart við sig, ja nema kannski smá kitl á einum stað neðarlega utan á hægri sköflungnum. Hvenær leið mér síðast svona vel í keppnishlaupi!?

Hlaupið búið! Ég vissi alveg við Laxárbrúna að 2:20 væri orðið raunhæft markmið, þó að það væri langt umfram villtasta drauminn. Og síðasti kaflinn gekk vel þrátt fyrir að vera langtæknilegasti hluti hlaupsins. Mér tókst meira að segja að halda nokkuð góðum hraða á köflum þar sem ég þurfti nánast að skríða í fyrra, heltekinn af krömpum. Þess vegna var ég jafnvel farinn að hugsa um 2:19. En 2:18:eitthvað var eitthvað sem mér hafði aldrei dottið í hug! Og síðustu 3 km á rúmum 17 mín, samanborið við rúmar 22 mín í fyrra!
Hvers vegna?
Hvers vegna gekk þetta svona miklu betur en í fyrra, þrátt fyrir mótvindinn? Tja, ætli ég geti ekki nefnt alla vega þrjár skýringar, jafnvel fjórar:
- Lengra áfallalaust æfingatímabil
- Miklu fleiri kílómetrar í löppunum (tengist nr. 1)
- Meiri áhersla á vatn og næringu
- Meira sjálfstraust (eftir Skálavíkurhlaupið)
Þakklætið
Mér finnst einstaklega gott að ganga til náða að kvöldi svona daga. Þá er þakklætið fyrirferðamesta tilfinningin (alveg þangað til syfjan tekur yfir). Þetta tiltekna kvöld var ég fyrst og fremst þakklátur:
- Forsjóninni fyrir að leyfa mér að stunda þetta áhugamál enn, öllum þessum áratugum eftir að það gerði fyrst vart við sig. Þeir áratugir verða bráðum sex.
- Forsjóninni og fólkinu sem stendur mér næst fyrir að skapa mér aðstæður til að gera þetta.
- Ásdísi Káradóttur og félögum hennar hjá Póstinum fyrir að standa svona vel að þessum skemmtilega viðburði og láta mig finna að þátttaka mín skipti máli.
- Kiddó (Kristni Óskari Sigmundssyni) hlaupafélaga fyrir að koma með mér í þetta hlaup og þakklátur hinum bestu hlaupafélögunum fyrir að vera til staðar.
- Öllu hinu fólkinu sem jók gleði mína á leiðinni og að hlaupi loknu.
Lokaorð
Ég var í sjöunda himni að hlaupi loknu – og er það enn, enda langt síðan ég hef upplifað eitthvað svona! Með öðrum orðum er langt síðan ég hef náð hlaupaárangri sem er langt umfram villtustu drauma. Stundum hefur gengið vel, jafnvel oft, en oftast hef ég þurft að leiðrétta of villtu draumana sem vakna þá á leiðinni. Nú þurfti það ekki. Þeir urðu bara sífellt villtari og niðurstaðan betri en mér hafði nokkurn tímann dottið í hug, hvorki fyrir hlaup né í hlaupinu sjálfu.
Langt síðan ég hef upplifað eitthvað svona? Hm, ætli það hafi ekki bara verið síðast í Reykjavíkurmaraþoninu 2013 þegar ég hljóp besta maraþon lífs míns. Einu sinni á áratug? Jú, það lætur nærri. Síðan eru liðin næstum 11 ár.

(Uppfært 1. ágúst 2024 með minni háttar talnaleiðréttingu)
Filed under: Hlaup |


[…] Ellefu mínútna bæting í Pósthlaupinu […]