• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • ágúst 2013
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Sex mínútna bæting í 13. maraþoninu

orig-RYAB2877-200Í gær hljóp ég heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 5. árið í röð. Jafnframt var þetta 13. maraþonhlaupið mitt frá því að ég hóf þá iðju fyrir 17 árum. Hlaupið í gær gekk framar björtustu vonum og þegar upp var staðið (eða niður sest) hafði ég bætt besta árangur minn hingað til um hálfa sjöundu mínútu, án þess að hafa svo mikið sem velt þeim möguleika fyrir mér áður en lagt var af stað.

Hefði verið óhugsandi!
Reykjavíkurmaraþonið í gær var mikil hátíð, enda voru þátttakendur fleiri en nokkru sinni fyrr. Samtals hlupu rúmlega 14 þúsund manns einhverja af þeim vegalengdum sem boðið var upp á. Af þessum skara lauk 851 heilu maraþoni, þar af 162 Íslendingar. Þetta hefði ekki bara þótt ótrúlegt fyrir nokkrum árum, heldur gjörsamlega óhugsandi!

Undirbúningurinn
Þetta var þriðja maraþonhlaupið mitt á árinu, og er þá Laugavegurinn ekki meðtalinn. Þrátt fyrir að ég hefði svo sem ekki undirbúið þetta tiltekna hlaup neitt sérstaklega, var ástandið á skrokknum einkar gott eftir vel heppnuð og alveg áfallalaus hlaup síðustu mánuði. Vikurnar fyrir hlaupið hafði ég lagt að baki um 60-70 km á viku, sem telst ekki mikið á uppbyggingartímabili maraþonhlaupara, en alveg ágætt til viðhalds og jafnvel rúmlega það. Ástundunin hafði þó ekki verið neitt í líkingu við það sem var síðari hluta síðasta vetrar í aðdraganda Parísarmaraþonsins 7. apríl, þar sem ég náði mínum besta tíma til þessa, 3:14:44 klst. Ég vissi svo sem vel að ég byggi enn að þessum pakka, m.a. eftir vel heppnað Laugavegshlaup fyrir rúmum mánuði síðan og góða yfirferð í Hreppslaugarhlaupinu í síðustu viku, þar sem ég var nálægt því markmiði mínu að hlaupa 14,2 km á skemmri tíma en einni klukkustund. Aðalatriðið í þessu öllu var þó að ég kenndi mér hvergi nokkurs meins og hafði ekki gert síðustu mánuði.

Markmið dagsins
Ég fór ekki í hlaupið í gær til að slá nein met, hvorki persónuleg né önnur. Aðalmarkmiðið var að njóta dagsins og hafa gleðina með í för alla leið. Auðvitað er mér þó aldrei alveg sama á hvaða tíma ég hleyp. Þannig hefði ég orðið býsna vonsvikinn ef ég hefði ekki náð að hlaupa undir 3:20 klst. Raunhæft markmið var að ná mínum næstbesta tíma til þessa, þ.e. undir 3:17, en ég gerði mér engar grillur um að bæta Parísartímann. Þar var undirbúningurinn mun markvissari, en vissulega voru aðrar aðstæður hagstæðari nú, bæði heilsufar og annað. Því gat „metið“ frá París svo sem alveg fallið ef allt gengi upp, þó að það væri alls ekki sérstaklega á dagskrá.

Að hugsa rétt
Maraþonhlaup reynir ekki síður á hugann en líkamann. Það er t.d. ekki vænlegt til árangurs að hugsa of mikið um það á leiðinni hversu langt sé eftir og hversu erfitt þetta sé nú allt saman. Hugsunin um að eiga t.d. 39 km eftir þegar maður er orðinn þreyttur og samt ekki búinn með nema rúma 3 km er t.d. ekki mjög uppörvandi. Öllum slíkum hugsunum þarf að bægja frá en beina sjónum frekar að því hversu vel hafi gengið það sem af er, hversu veðrið sé gott og hversu mikil forréttindi það séu að geta átt svona áhugamál og stundað það án nokkurra vandræða um leið og maður nýtur samvista við stóran hóp annars forréttindafólks með svipaðar hugsanir.

Áfangaskipting
Ég hef þann hátt á í maraþonhlaupum, ekki síst til að temja hugann, að skipta hlaupinu í áfanga. Þannig verður hlaupið eiginlega aldrei lengra en 5 km. Á fyrstu kílómetrunum reyni ég að einblína ekki um of á klukkana, en láta mig þess í stað hlakka til að sjá millitímann eftir 5 km. Síðan tekur við nýtt tímabil fram að 10 km markinu, og svo koll af kolli. Það er líka góð tilfinning að komast fram yfir miðlínu, þ.e.a.s. að vera búinn með fyrra hálfa maraþonið. Eftir það styttist leiðin framundan jafnt og þétt og verður fljótt miklu styttri en sú sem búin er. Hálfmaraþontíminn gefur líka vísbendingu um líklegan lokatíma, með öllum þeim fyrirvörum sem þörf er á. Síðasta hluta hlaupsins skipti ég svo í enn styttri áfanga. Þar finnst mér 37 km markið skipta hvað mestu máli, því að þá eru ekki nema rétt rúmir 5 km eftir. Það er stutt.

Staðhættir, færð, veður og umferð
Veðrið í gærmorgun hentaði einstaklega vel til maraþonhlaupa; fremur hæg vestlæg átt, súld og 10 stiga hiti. Svona veður getur reyndar verið svolítið hráslagalegt á meðan maður er fáklæddur að bíða eftir því að hlaupið verði ræst, en eftir það er þetta með því betra sem gerist. Á sléttlendi er líka frekar auðvelt að klæða sig eftir aðstæðum, því að þar eru sveiflur í veðurfari minni en í fjöllum. Ég valdi hlýrabolinn og stuttbuxurnar í þetta sinn í þeirri vissu að úrkoman myndi ekki aukast að neinu ráði og ekki vindurinn heldur. Reyndar er mér nokkurn veginn sama þótt svolítið rigni á mig á hlaupum, en vindur er mun erfiðari viðfangs. Í þessu sambandi rifja ég oft upp eitt af mínum bestu maraþonhlaupum, sem ég hljóp í Reykjavík vorið 2011 í 0,5 stiga hita og slyddu. Þá var næstum logn og aðstæður eiginlega stórfínar, svona eftir á að hyggja, þó að hlýrabolurinn og stuttbuxurnar væru reyndar í fríi þann dag.

Ekki bara hlaup
Maraþonhlaup er ekki bara maraþonhlaup, sérstaklega þegar Reykjavíkurmaraþonið á í hlut. Að sumu leyti líkist þetta meira fjölskylduhátíð, niðjamóti eða útihátíð. Þarna hittir maður fólk sem maður hittir annars sjaldan –  og gefur og þiggur góð ráð og aðra andlega hressingu. Dagurinn í gær var dæmigerður Reykjavíkurmaraþondagur. Svoleiðis dagur hefst með því að maður vaknar 3 klst. fyrir hlaup, fær sér morgunverð, fer í hlaupafötin, kemur sér til Reykjavíkur, finnur stað til að skilja bílinn eftir á, ákveður örlög bíllyklanna og fer svo að hita upp þegar enn eru helst um það bil 40 mínútur í hlaup. Ég var kannski ekki alveg svo snemma í því í gær, en upphitunin gekk vel og mér fannst ég vera í meðallagi léttur, hvort sem litið var á andlegu eða líkamlegu hliðina. Hitti Ragnar bónda á Heydalsá í upphituninni og líka nokkra fleiri hlaupara af Ströndum og úr Grafarvogi. Fyrir neðan MR hitti ég fleiri góða kunningja og nágranna rétt áður en hlaupið hófst. Allt er þetta liður í undirbúningnum og í því að byggja upp góða skapið sem maður tekur síðan með sér í hlaupið.

Út á 4:30 mín/km
Hlaupið var ræst kl. 8:40. Í svona hlaupum lendir maður oftar en ekki í svolitlum þrengslum til að byrja með, en í þetta skipti fannst mér það litlu máli skipta. Nokkrar sekúndur til eða frá breyta heldur engu þegar upp er staðið. Það er ekki eins og maður sé að berjast um heimsmeistaratitil þar sem hvert sekúndubrot getur ráðið úrslitum. Mér leið vel á fyrstu metrunum og hlakkaði til að þess sem framundan var. Stefnan var sett á að ljúka hverjum km á u.þ.b. 4:30 mín. og sjá svo til. Þessi hraði gefur rétt um 3:10 klst. í maraþonhlaupi og honum hef ég hingað til aldrei náð að halda lengur en fram í mitt hlaup. Ég hef sem sagt áður lagt af stað með nákvæmlega sömu áætlun og gefist misvel. Í Reykjavíkurmaraþoninu 2011 var þessi hraði mér ofviða. Fyrri hluti hlaupsins gekk mjög vel, en síðari hlutinn reyndist ákaflega erfiður. Í París gekk ekki vel að halda þessum hraða framan af, en seinni hlutinn var bærilegur.

Fyrstu 5 kílómetrarnir
Fyrstu 5 kílómetrarnir voru tíðindalitlir. Ég reyndi að fylgjast sem minnst með klukkunni, enda á hún það til að valda mér óþörfum áhyggjum ef hún fær of mikla athygli. Á 5 km línunni sýndi hún 22:28 mín, sem var 2 sek betri tími en ég hafði stefnt að. Ég var sem sagt kominn með 2 sek í plús, sem var algjörlega innan skekkjumarka. Um þetta leyti hitti ég Guðmund Löve á brautinni. Hann var að hlaupa hálft maraþon og hafði sett sér sama markmið um hraðann fyrstu kílómetrana. Eftir þetta var hann ýmist rétt á undan mér eða rétt á eftir þar til leiðir skildu.

Áfangi nr. 2
Við 10 km markið sýndi klukkan 45:02 mín. Ég var sem sagt búinn að tapa þessum 2 sek sem ég átti inni og öðrum 2 sek til viðbótar. Ég var vel sáttur við þetta, leið vel og fann hvergi til þreytu eða óþæginda. Reyndar fannst mér ég eitthvað stífur í öðru lærinu þarna á fyrstu kílómetrunum, en svoleiðis smáóþægindi líða venjulega úr mér þegar ég er orðinn vel heitur. Sú varð og raunin í þessu tilviki.

15 km og allt í góðu lagi
Heldur fannst mér mér aukast ásmegin á næsta áfanga, en það þurfti þó ekki að þýða neitt sérstakt. Mér leið bara vel og var afslappaður, meira að segja svo afslappaður að ég missti af 15 km markinu inn við Sundahöfn. Með lítils háttar reiknikúnstum fann ég út að millitíminn þar hefði verið nákvæmlega 1:07:30 klst. sem var alveg upp á sekúndu samkvæmt áætlun. Mig minnti að þetta væri örlítið betri tími en í París, en svoleiðis tölfræði gefur ekki tilefni til mikilla ályktana svona snemma hlaups.

Hvatningarhróp af svölum og víðar
Af og til sá ég kunnugleg andlit meðfram brautinni. Ég hef lýst því áður hversu miklu máli það skiptir að sjá einhvern sem maður þekkir eða heyra einhvern kalla nafnið manns. Á Kleppsveginum var kallað til mín ofan af svölum fjölbýlishúss. Ég sá ekki neinn og vissi ekkert hver þetta var, nema hvað þetta var greinilega einhver sem ég þekkti. Öll hvatning léttir sporin.

Fyrri helmingur lofar góðu
Ég fann að það hægðist örlítið á mér á leiðinni frá Kirkjusandi upp Kringlumýrabrautina og upp á Suðurlandsbraut. Þetta þekki ég vel frá fyrri hlaupum og læt það ekki angra mig. Þessi spölur er heldur á fótinn, en sekúndur sem tapast þar koma sjálfsagt til baka annars staðar. Þessi tilfinning mín endurspeglaðist í 20 km millitímanum; 1:30:10 klst. Þarna var ég orðinn 10 sek. á eftir áætlun en leit engu að síður svo á að ég hefði náð að gera þetta nákvæmlega eins og ég ætlaði. Þetta frávik var vel að merkja ekki nema 0,2%. Ég var sem sagt hæstánægður með þetta. Og þegar hlaupið var hálfnað skömmu síðar sýndi klukkan 1:35:09 klst. Það var heilli mínútu betri tími en í París, en einhverjum sekúndum lakari en ég hafði best séð áður. Seinni hluti hlaupsins í París var eins og áður segir „bærilegur“, en ekkert umfram það. Með hliðsjón af því mat ég stöðu mála svo að nú ætti ég u.þ.b. 50% möguleika á að slá persónumetið mitt og að líkurnar á að þetta yrði að minnsta kosti næstbesta hlaupið mitt frá upphafi (undir 3:17) voru yfirgnæfandi. Svona niðurstöður eru hvetjandi, þó að maður þurfi líka að gæta þess að missa ekki hugann út í draumóra sem geta breyst í vonbrigði síðar í hlaupinu.

Aldur og reynsla á uppleið
Á leiðinni frá hálfmaraþonmarkinu í Laugardalnum og inn að Elliðaám hljóp ég fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum. Það benti annað hvort til þess að ég væri farinn að bæta í eða að hinir væru byrjaðir að þreytast. Þetta var reyndar ekkert nýtt fyrir mér, enda við því að búast að minna reyndir hlauparar láti heldur undan síga þegar líður á hlaupið, á sama tíma og þeir „gömlu og reyndu“ halda sínu striki. Ég tel mig eðlilega tilheyra síðarnefnda flokknum. Ég ákvað alla vega að láta allar vangaveltur um hlaupahraða bíða þar til 25 km markinu væri náð. Það er hægt að horfa á margt fallegra en skjáinn á klukkunni.

Með vaxandi hraða, alveg óvart
Tíminn við 25 km markið kom mér eiginlega alveg í opna skjöldu, því að þar sýndi klukkan 1:52:22 klst. Þarna var greinilega eitthvað að gerast. Ég mundi reyndar ekki nákvæmlega hver millitíminn hefði verið í síðustu hlaupum, en þetta þýddi að ég hafði hlaupið síðustu 5 km á 22:12 mín, sem var 18 sek. hraðara en ég hafði gert ráð fyrir. Eftir á að hyggja var þetta 1:43 mín betri tími en í París, en margt getur gerst á þeim 17 km sem eftir voru. Því var best að hrapa ekki að neinum ályktunum.

Vaxandi gleði þegar vel gengur
Nú kann einhver að skilja pistilinn svo, að ég hafi verið búinn að gleyma því göfuga markmiði að hlaupa mér til gleði í stað þess að streða við að bæta tímann minn. En þannig var það ekki. Gleðin var enn í fyrirrúmi, en eðlilega jókst hún þegar ég sá hversu vel hafði gengið. Maður slær ekkert hendinni á móti góðri bætingu þegar hún er í sjónmáli, hvort sem að henni var stefnt í upphafi eða ekki. Bæting er reyndar enn skemmtilegri en ella ef hún kemur manni á óvart.

30 km á 2:14:39!
Ég lít alltaf á 30 km markið sem ákeðin þáttaskil í maraþonhlaupum. Þá er ég oftast farinn að vita nokkurn veginn að hverju stefnir. Reynslan segir mér að mikið þurfi að bera út af til að ég ljúki ekki þessum 12,2 km sem þá eru eftir á 57-63 mínútum. Í þetta skipti kom millitíminn mér mjög verulega á óvart, svo verulega að ég fór að halda að ég hefði litið vitlaust á klukkuna. En líklega var þetta samt rétt. Í allra bestu maraþonhlaupunum mínum til þessa hefur 30 km tíminn verið um 2:17 klst., en núna var hann 2:14:39 klst. Þar með taldi ég alveg öruggt að lokatíminn yrði undir 3:17 og líkurnar á persónulega meti orðnar verulegar. Fræðilega séð var jafnvel mögulegt að lokatíminn yrði undir 3:10 klst, en það hafði mér aldrei dottið í hug. Setti þá hugsun í geymslu og ákvað að halda mig á jörðinni enn um sinn.

Óvænt ánægja á 5 km fresti
Næstu kílómetramerkingar birtust hver af annarri. Ég einbeitti mér að því að halda léttleikanum, bæði í sál og líkama, sem var reyndar auðvelt því að ég var svo sem ekkert farinn að þreytast. Fyrr en varði voru 35 km að baki og tíminn kominn enn lengra fram úr björtustu vonum en áður. Ég hafði hlaupið síðustu 5 km á 22:12 mín eins og ekkert væri og var kominn í 2:36:51 klst. samtals. Þetta var 39 sek. betri tími en svarar til 4:30 mín/km. Aldrei hafði mér dottið í hug að ég gæti haldið þeim hraða svona lengi, hvað þá aukið hann. Með sama áframhaldi voru 3:10 klst. innan seilingar. Ég ákvað samt að bíða með bjartsýnina þar til 37 km markinu væri náð. Þá yrði nokkuð ljóst að hverju stefndi.

Á leið fram úr björtustu vonum
Ekki minnkaði gleðin við 37 km línuna. Klukkan sýndi 2:45:32 klst sem þýddi að síðustu 2 km höfðu ekki tekið nema 8:41 mín í stað 9:00 mín sem mér hefði fundist eðlilegt. Svona hraða hef ég aldrei látið mig dreyma um svona seint í hlaupi. „Metið“ frá París hlaut að falla, nema eitthvað mikið færi úrskeiðis. Jafnvel minni háttar krampar í fótum á 39. kílómetranum myndu varla breyta því, en svoleiðis nokkuð hefur stundum hrjáð mig undir lokin. En kramparnir létu mig eiginlega alveg í friði að þessu sinni og hraðinn jókst bara ef eitthvað var. Gleðin var orðin svo allsráðandi að það var næstum því vandræðalegt. Þetta gat auðveldlega endað með 3:10 klst. eða þar um bil. Sú yrði alla vega raunin ef ég næði að klára 40 km á 3 klst. sléttum eins og allt stefndi í. Og viti menn, tíminn þar var ekki nema 2:58:55 klst., sem þýddi að síðustu 5 km voru á 22:04 mín. Ég skildi eiginlega ekki hvað var að gerast. Nú var bara að halda sínu striki til að komast undir 3:10. Það var allt í einu orðið fullkomlega raunhæft og jafnvel líklegt.

Algjör hátíð
Eftir þetta jókst gleðin með hverju skrefi, og ekki spillti fyrir að ég kom enn auga á kunnugleg andlit meðfram brautinni. Þetta var að verða algjör hátíð! Ég ákvað að gefa klukkunni frí og njóta augnabliksins. Fyrr en varði var ég kominn inn í Lækjargötuna og sá ekki betur en markklukkan sýndi 3:08:eitthvað. Ég vissi svo sem að 3:10 væri í höfn, en þetta hafði mér aldrei dottið í hug. Vel hvattur af vinum og kunningjum í áhorfendaskaranum kom ég í markið á 3:08:19 klst, öllu glaðari en góðu hófi gegnir. Þetta þýddi að ég hafði hlaupið síðari helminginn á 1:33:10 klst., en í allmörgum keppnishlaupum á hálfmaraþonvegalengdinni hef ég bara einu sinni náð betri tíma en það.

Að bæta tilgangi við hlaupin
Ég hef stundum haft á orði, að ef maður getur sjálfur losað tímatökuflöguna úr skóreimunum sínum, þá sé ástandið á manni eftir hlaup nokkuð gott. Þetta gekk ágætlega í þetta skiptið. Líkamlegt ástand virtist sem sagt prýðilegt, en hugurinn var í óvenjumiklu uppnámi eftir þetta vel heppnaða hlaup. Eftir hefðbundið ráf um marksvæðið, bananaát og tilheyrandi, fann ég fjölskylduna mína utan við girðinguna, meira að segja alla fjölskylduna. Það er ómetanlegt að einhver taki svona á móti manni að hlaupi loknu, því að þá hefur maður annað hvort brýna þörf fyrir að deila gleði sinni með öðrum eða þörf fyrir stuðning og umhyegggju. Ég þekki betur fyrrnefndu þörfina. Þarna var Inga Björk Bjarnadóttir líka mætt, en hún er ástæðan fyrir því að ég hef nokkur síðustu ár hlaupið fyrir FSMA á Íslandi, en FSMA er félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum (Spinal Muscular Atrophy). Fjársöfnunin fyrir FSMA hefur bætt tilgangi við hlaupin hjá mér, enda eðlilegt að á hlaupum verði manni hugsað til þeirra sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta sjálfir hlaupið eins og þá lystir.

Þakklæti
Það er ekki hægt annað en vera þakklátur að loknu svona hlaupi, þakklátur forsjóninni fyrir að leyfa manni að gera þetta, þakklátur fjölskyldunni fyrir að styðja mann í þessu, þakklátur hlaupafélögunum fyrir samveru og skemmtun, þakklátur FB-vinunum og blogglesendunum sem sýna áhugamálinu áhuga og umburðarlyndi, þakklátur fólki eins og Ingu Björk sem bætir tilgangi við hlaupin og þakklátur skipuleggjendum og starfsfólki sem leggja á sig mikla vinnu til að gera hlaupið að því sem það er. Þakklæti er góð tilfinning.

Lokaorð
Eftir hlaupið brá ég mér inn í MR til að bregða mér í föt sem ég átti þar í geymslu. Þegar ég var á leiðinni út aftur var Jónsi í svörtum fötum upp í sviði í Lækjargötunni að syngja lag sem hitti einkennilega vel í mark hjá mér á þessari stundu: „Ég er glaðasti hundur í heimi“.

13 svör

 1. Alltaf bestur og flottastur kæri minn, ég fyllist eldmóði að lesa þetta og ákveðin að mæta næsta ár, þó það verði nú bara í 10 km. Þú rokkar feitt.

 2. Hjartanlega til hamingju með gleðina og árangrinum !
  Skemmtileg og ítarleg lýsing hjá þér. Er ekki frá því að ég gæti nýtt skrífin sem innblástur og ráðgjöf 🙂

  ( Sjálfur var ég meðal sjálfboðaliða sem aðstoða við framkvæmd hlaupsins í ár eins og í nokkur skipti áður. Hjólaði á eftir þeim síðasta.
  Ein sem var um tíma síðust var að taka þátt í heilu maraþoni í hundrað-og-níunda sinn. Ætlar að fara sex maraþon í viðbót í ár. Hún var frá Kaliforníu, leit út fyrir að vera um 65 ára, með löngu gráu hári í tagli undir neongræna húfu, pínu yfir kjörþyngd, mjög létt í lundi og hefur haft þann háttinn á að hlaupa í mínútu og labba 30 sek, til skiptis. Er samt vön að taka fram úr fólki þegar á liður 🙂 Annars sá maður í ár enginn í maraþoninu sem ætlaði að labba meir en hlaupa, ólíkt fyrri árum. )

  • Takk Morten! Gott að sjá þetta dæmi um gráhærðu konuna frá Kaliforníu. Hún hefur greinilega verið með rétta hugarfarið. Þetta snýst einmitt um gleðina sem maður fær í laun! 🙂

 3. Til hamingju með frábært hlaup Stefán og skemmtilega frásögn. Ég fæ næst að spreyta mig á maraþoni í Mílanó í apríl, hlakka mikið til og á örugglega eftir að hugsa til þín 🙂

  Kv. Eva

  • Takk Eva! Ég er strax byrjaður að hlakka til Mílanó fyrir þína hönd – og til að fylgjast með undirbúningnum. Þetta verður gaman! 🙂

 4. Þetta kalla ég flottan árangur! Þó tíminn sé vitaskuld magnaður er það líka stór sigur að líða vel í endamarki og eitthvað sem margir fórna á leiðinni. Til hamingju!

 5. Skemmtileg lesning og frábær árangur. Ótrúlega vel gert að halda og auka hraðann eftir 35. km. Til hamingju.

 6. Vá Stefán, vá.
  Magnaður strákur.

 7. […] Sex mínútna bæting í 13. maraþoninu […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: