• Heimsóknir

    • 126.882 hits
  • ágúst 2024
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    25262728293031
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Slydda á Trékyllisheiði

Síðastliðinn laugardag tók ég þátt í „Trékyllisheiðin Ultra“, 48 km utanvegahlaupi á Ströndum, sem nú var haldið í fjórða sinn. Markmið dagsins var að bæta tímann minn frá 2021 um tæpan hálftíma (nánar tiltekið um 27:45 mín), þ.e.a.s. að ljúka hlaupinu á 5:30:00 klst. í stað 5:57:45 eins og raunin varð 2021. E.t.v. hljómar hálftímabæting sem nokkuð glannaleg áætlun (á „mínum aldri“). En ég taldi þetta samt alveg raunhæft, enda hefur margt jákvætt gerst á hlaupaferlinum síðustu þrjú ár. Markmiðið náðist reyndar ekki, því að lokatíminn var 5:38:17. En ég var samt alsáttur að dagsverkinu loknu.

Veðrið
Dagana fyrir hlaup hafði ég fylgst grannt með veðurspám. Hlaupið sem um ræðir er nefnilega ræst í Trékyllisvík og þar getur norðanáttin flutt með sér stærri skammt af kulda, þoku og úrkomu en mann langar til að hafa í nesti í svona löngu hlaupi. Spárnar bentu til að þannig yrði það einmitt þennan dag, en heldur bötnuðu þó horfurnar þegar hlaupadagurinn nálgaðist. Þegar hlaupið var ræst kl. 10 á laugardagsmorgni var samt allhvöss norðanátt, súld og 5 stiga hiti. Strax þá var vitað að fyrri hluti hlaupsins gæti orðið svolítill barningur, en svo yrði væntanlega meðvindur seinni hlutann og líklega minni úrkoma. Veðrinu breytir maður ekki og því ekkert annað í stöðunni en klæða sig almennilega og bíta á jaxlinn.

Markmið dagsins
Eins og ég hef margsagt í fyrri pistlum set ég mér alltaf markmið fyrir svona hlaup. Vissulega er ég enginn afrekshlaupari sem stefnir á verðlaunapall í öllum hlaupum, heldur bara síðmiðaldra skokkari sem á hlaup að áhugamáli og hleypur fyrir heilsuna og til að halda skrokknum og huganum í sæmilegu standi sem lengst. En samt set ég mér markmið, því að án þeirra finnst mér of auðvelt að leggja árar í bát og láta strauminn ráða örlögunum. Sumarið 2021 hljóp ég þessa sömu leið á 5:57:45 klst, frekar illa undirbúinn og meiddur í hné. Núna var undirbúningurinn betri að flestu leyti og hnéð í þokkalegu standi. Þess vegna fannst mér raunhæft að setja markið á 5:30 klst. Reiknaði þó með að fyrri hluti hlaupsins tæki svipað langan tíma og 2021, en svo myndi ég bæta um betur á seinni hlutanum. Árið 2021 urðu krampar og almenn bugun til þess að ég þurfti nánast að skríða síðustu kílómetrana.

ITRA-stigin
Þegar ég set mér markmið fyrir utanvegahlaup styðst ég gjarnan við stigagjöf Alþjóðautanvegahlaupasambandsins (ITRA), en hún geri manni mögulegt að bera saman árangur í hinum ólíkustu hlaupum. Allt hefur þetta auðvitað sínar takmarkanir, en markmiðið mitt um 5:30 klst. var m.a. byggt á ITRA-stigunum. Þessi tími gefur u.þ.b. 560 stig, sem er ekki fjarri því sem ég hafði fengið fyrir fyrri utanvegahlaup sumarsins. Tíminn minn 2021 gaf hins vegar aðeins 516 stig, sem mér finnst, eins og staðan er í dag, of lítið til að gleðja sálina.

Millitímar
Í Trékyllisheiðarhlaupinu (þ.e. í 48 km útgáfunni) eru fjórar drykkjarstöðvar. Sú fyrsta er norðan við fjallið Glissu (eftir u.þ.b. 13 km), sú næsta sunnan við Búrfellsvatn (25,5 km), sú þriðja við Goðdalsá (34 km) og sú fjórða inn af Bjarnarfjarðarhálsi (40 km). Ég skipti alltaf svona löngum hlaupum upp í áfanga og þá er hentugt að miða við drykkjarstöðvarnar. Ég átti (auðvitað) alla millitímana frá 2021, lagði þá á minnið og byggði áætlanir mínar á þeim.

Fyrri hlutinn
Við lögðum af stað í þetta hlaup 9 saman og norðanvindurinn lét vita af sér frá fyrsta skrefi. Fyrsta spölinn er hlaupið frá Árnesi norður með ströndinni að Melum og síðan upp á Eyrarháls og þaðan inn á heiðina. Vindurinn var í fangið lengst af og ljóst að fara þyrfti varlega til að eiga einhverja orku eftir í seinni hlutann. Þegar ég nálgaðist fyrstu drykkjarstöðina norðan við fjallið Glissu (eftir 13 km) sá ég líka að ég var aðeins hægari en 2021. Þá var hægviðri, sól og hiti (eins og lesa má um í pistlinum Sól á Trékyllisheiði sem ég skrifaði að því hlaupi loknu) og eðlilegt að hægar gengi í mótvindi, súld og kulda. Þegar ég kom að drykkjarstöðinni sýndi úrið 1:40:00 klst, sem var 2:11 mín. lakara en 2021. Það var svo sem svipað og ég bjóst við miðað við aðstæður og engin ástæða til að halda að hálftímamarkmiðið væri þar með úr augsýn.

Fljótlega eftir fyrstu drykkjarstöðina sveigir leiðin meira til suðurs, þannig að smám saman breyttist mótvindurinn í meðvind. En að sama skapi kólnaði og slydduél tóku við af súldinni. Allt var rennblaut, steinar sleipari en venjulega og sums staðar drullusvað þar sem steinunum sleppti. Ég mundi að ég var nokkuð hress á þessum kafla 2021 og fannst því vel ásættanlegt að ég myndi ekki ná að vinna upp þessar rúmu tvær mínútur fyrir næstu drykkjarstöð, hvað þá meira. Við drykkjarstöðina sunnan við Búrfellsvatn kom hins vegar í ljós að ég var búinn að tapa nokkrum mínútum í viðbót! Ég var sem sagt orðinn u.þ.b. 8 mín. á eftir sjálfum mér 2021 – og það gladdi mig ekkert sérstaklega mikið. Hugsanlega gæti ég unnið þessar 8 mín. upp á seinni partinum, en varla mikið umfram það. Líklega yrði ég að sætta mig við svipaðan lokatíma og síðast, jafnvel þótt það gæfi bara 516 ITRA-stig. Best að skrifa engan bloggpistil að hlaupi loknu.

Seinni hlutinn
Ég var ekkert sérstaklega sprækur á leiðinni frá Búrfellsvatni að Goðdalsá, en leið samt einhvern veginn betur en 2021, þ.e.a.s. ef minnið var ekki að svíkja mig. Ég hafði aðeins verið farinn að stífna í lærunum í kuldanum upp af Reykjarfirði, en það lagaðist heldur eftir því sem úrkoman minnkaði, vindurinn varð hagstæðari og landið lækkaði. Hins vegar var komin þreyta í fæturna og ég jafnvel farinn að reka tærnar í steina, sem annars hendir mig sjaldan á hlaupum. Ég hlaut samt að geta endurheimt eitthvað af þessum töpuðu 8 mínútum. Sú varð líka raunin, millitíminn við Goðdalsá var 4:05:40 klst., sem var bara 4 mín lakara en 2021. Þróunin var því í rétta átt, meðvindurinn góður og heilsan líka, svona almennt.

Fyrstu 1600 metrarnir sunnan við Goðdalsá eru á fótinn, en ég var búinn að hugsa mér gott til glóðarinnar að bæta í þegar þeir væru að baki. Ef mér tækist að éta upp þessar 4 mínútur áður en ég kæmi að síðustu drykkjarstöðinni taldi ég yfirgnæfandi líkur á að ég myndi alla vega bæta tímann frá 2021 eitthvað smávegis. Bæting er alltaf góð, þó að markið hafi verið sett hærra. Ég var því býsna kátur þegar 40 km drykkjarstöðinni var náð og klukkan sýndi 4:47:25 klst. Það var rúmri mínútu betra en 2021, sem þýddi að ég var ekki bara búinn að éta upp fjórar mínútur, heldur fimm! Nú gat ekkert nema óhapp komið í veg fyrir bætingu.

Kominn í markið við skíðaskálann í Selárdal í Steingrímsfirði – og allt í besta lagi.
(Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkar)

Áfanginn frá 40 km stöðinni í mark er hraðasti hluti hlaupsins, næstum allt á undanhaldinu og undirlagið mýkra og sléttara en norður á heiðinni. Þarna á að vera hægt að halda þokkalegum hraða ef allt er í lagi. Þetta gekk líka alveg sæmilega, þó að ég gæti ekki beitt mér almennilega vegna þreytu í fótunum og verks í vinstra hnénu, sem hefur stundum gert mér lífið leitt á síðustu árum. En þetta var samt allt annað líf en í sólinni 2021. Núna var ég nokkurn veginn laus við krampa og leið bara vel. Sá allt í einu fram á að geta klárað hlaupið undir 5:40 klst. (uppfært markmið) og jafnvel að ná 20 mín bætingu (5:37:45 = annað uppfært markmið). Síðarnefnda markmiðið gekk mér reyndar úr greipum í stífum mótvindi á tveimur síðustu kílómetrunum inn Selárdal, en hitt náðist. Lokatíminn var sem sagt 5:38:17 klst, þ.e. u.þ.b. 19,5 mín betri en 2021. Í ITRA-stigum er þetta nokkurn veginn á pari við Skálavíkurhlaupið fyrr í sumar, árangur sem var framar björtustu vonum á þeim tíma, bara fyrir mánuði síðan. Maður getur ekki kvartað yfir þessu, þó að ekki hafi allir draumar ræst.

Nokkur orð um næringu
Ég gerði óvenjunákvæmt næringarplan fyrir þetta hlaup, enda grunar mig að krampar síðustu ára, sem ég hef gjarnan skrifað alfarið á meint æfingaleysi, hafi stundum stafað af orkuskorti. Reyndur hlaupari eins og ég á náttúrulega ekki að klikka á svoleiðis löguðu. En það gerist nú samt. Fyrir þetta hlaup hljóðaði næringarplanið upp á 260 Kcal og 300 ml af vatni á klst. Nóg var af orkudufti og geli í farangrinum og auk þess bar ég með mér samtals 1,3 l af vatni. Reiknaði með að þurfa að bæta aðeins á vatnið á drykkjarstöðvum eða í lækjum þegar liði á hlaupið, en þegar til kom fann ég enga þörf hjá mér til þess enda kuldi og raki í aðalhlutverkum í umhverfinu. Kláraði vatnsbirgðirnar rétt undir lokin, sem þýðir að drykkjan var um 230 ml/klst. Og á leiðinni tókst mér að innbyrða u.þ.b. 1.100 Kcal, þ.e. rétt um 200 Kcal/klst. Það virtist alveg duga, enda ákefðin ekki mikil í svona hlaupi.

Í brekkunum upp úr Goðdalsánnni prófaði ég alveg nýjan rétt í tilefni af því að þá var komin svolítil krampatilfinning í vinstra lærið, líklega í framhaldi af kælingunni í ánni. Þessi nýi réttur var sérstaklega bragðvont gel sem ætlað er að slá á krampa. Krampatilfinningin leið að mestu hjá í framhaldi af þessari inntöku, en ég veit svo sem ekki hvort það var ógeðsgelinu að þakka eða því að ég labbaði upp þessar brekkur í stað þess að reyna að hlaupa þær. Ég mæli ekki með þessum rétti við nokkurn mann sem vill fá eitthvað gott í matinn, en ég ætla samt að taka annað svona gel með mér í næsta langa keppnishlaup. Ef það slær á krampa er það óbragðsins virði. Ef ekki, þá skilur þetta í það minnsta eftir fyndna minningu, þó að mér fyndist þetta reyndar ekkert fyndið á meðan ég var að reyna að kyngja.

Nokkur orð um keppinauta og björgunarsveitir
Ég á enga keppinauta í hlaupum að frátöldum sjálfum mér og klukkunni, heldur bara hlaupafélaga. Í þessu hlaupi var þó frekar lítið um svoleiðis, þ.e.a.s. á meðan á hlaupinu stóð. Sem fyrr segir lögðum við af stað úr Trékyllisvík níu saman þennan morgun. Þrír þeir fyrstu héldu sína leið strax í upphafi og komu lítið við (mína) sögu eftir það. Einn var lengi á svipuðu róli og ég, fyrst aðeins á undan og svo aðeins á eftir. Ég sá hann síðast tilsýndar á 26. kílómetranum, en aldrei eftir það. Hin fjögur voru einhvers staðar þar á eftir. Ég hljóp þetta því í rauninni aleinn síðustu 30 kílómetrana eða þar um bil, en það er bara hluti af upplifuninni. Maður er alltaf einn þegar á hólminn er komið. Þá er gott að vita af björgunarsveitarfólkinu, en í Trékyllisheiðarhlaupinu sjá björgunarsveitir á svæðinu um þrjár af fjórum drykkjarstöðvum, tilbúnar að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis. Þar við bætast svo eftirfarar á fjórhjólum eða sexhjólum, sem halda sig stutt á eftir síðasta hlauparanum. Maður er sem sagt aldrei alveg einn þó að maður sé einn.

Nokkur orð um félagsskap
Félagsskapurinn og vináttan eru tvær af helstu ástæðum þess að ég stunda hlaup mér til ánægju. En mér finnst félagsskapur í hlaupunum sjálfum ekki aðalatriðið, heldur félagsskapurinn í kringum þetta allt saman. Hlaupið sjálft er eins manns verk. Félagsskapurinn þennan dag var einstaklega góður, enda vinir mínir á Ströndum höfðingjar heim að sækja. Og í þokkabót fylgdi Jóhanna mín mér í þetta ferðalag, tók virkan þátt í framkvæmd hlaupsins og tók á móti mér í markinu. Betra gerist það ekki.

Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir. Besti stuðningsaðilinn!

Nokkur orð um gleðina
Ég var alsáttur að dagsverkinu loknu – og reyndar bara klökkur, Hvernig er líka annað hægt eftir 48 km utanvegahlaup í stórbrotnu landslagi á hjara veraldar við krefjandi aðstæður, umvafinn öllu þessu góða fólki. Þetta var upplifun sem er síður en svo sjálfsagt að maður eigi kost á að njóta 52 árum eftir fyrstu hlaupakeppnina sína.

Úrslit hlaupsins.

Eitt svar

Færðu inn athugasemd