• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • ágúst 2022
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

50 ára keppnisafmæli

Í dag á ég 50 ára keppnisafmæli sem hlaupari, því að í dag er liðin hálf öld frá fyrstu hlaupakeppninni minni. Frumraunin var þreytt á héraðsmóti HSS í Sævangi við Steingrímsfjörð laugardaginn 19. ágúst 1972. Í minningunni snerist þátttaka mín í mótinu nánast eingöngu um keppni í 800 m hlaupi, en reyndar var ég búinn að taka þátt í 100 m hlaupi, langstökki og þrístökki áður en röðin kom að 800 metrunum.

Það var svo sem ekkert nýtt fyrir mér að hlaupa 800 metra, því að það hafði ég oft gert heima í sveitinni. Einhvern tímann höfðum við bræðurnir smíðað forláta mælistiku úr þremur prikum og notað hana til að stika út hæfilegar hlaupavegalengdir á gamla bílveginum sem liggur milli túnanna heima. Þar náði 800 m brautin frá Grafargili og út að Folaldslaut. Hallinn á brautinni var hagstæður ef hlaupið var í þessa átt, en Fúsaræsisbrekkan vann það sjálfsagt upp að mestu. Hún var brött og hallaðist í öfuga átt. Þessa 800 m braut hafði ég hlaupið á 2:37,5 mín fyrr um sumarið, nánar tiltekið 3. júlí. Eftir á að hyggja hef ég reyndar vissar efasemdir um þessa hálfu sekúndu, því að í stað skeiðklukku notaðist ég við Pierpont fermingarúrið mitt, sem vissulega var með sekúnduvísi, en engu umfram það.

Hlaupabrautin á Sævangi var eins og títt var til sveita, málaður hringur á sæmilega sléttu túni sem var slegið einum eða tveimur dögum fyrir mót. Endarnir á vellinum voru eitthvað leiðinlegir, þannig að brautin var bara um 350 m að lengd en ekki 400 m. Það skipti svo sem engu máli í 800 metrunum. Maður hljóp þá bara aðeins meira en tvo hringi. Annað einkenni var kríuvarpið við norðurhorn vallarins. Kríunum var lítið gefið um knattspyrnuleiki og langhlaup og reyndu eftir megni að afstýra slíkum uppákomum. Líklega hefur nærvera þeirra hvatt hlaupara til dáða ef eitthvað var. Það sama gilti ekki um kalblettina sem höfðu lækkað lélegustu hluta brautarinnar um óþægilega marga sentimetra í tímanna rás. Það kom þó meira að sök í hraðari hlaupum, t.d. í 100 metrunum, enda sérstaklega slæmur kalblettur nálægt miðri beinu brautinni.

Þar sem þetta var fyrsta frjálsíþróttamótið sem ég tók þátt í – og lítið um íþróttafataverslanir á Ströndum, bjó ég heldur illa að hlaupafötum og skótaui sem hæfðu viðfangsefninu. En ég var þó búinn að vera á Reykjaskóla einn vetur og hafði þar eignast forláta körfuboltabúning. Buxurnar voru ekki eins síðar og nú tíðkast í NBA, en þeim mun víðari. Þegar ég var kominn í þær minntu þær fljótt á litið meira á stutt pils en stuttbuxur, jafnvel þótt ég væri þá þegar orðinn álíka stór og sver og ég er núna. Mér fundust þær því ekki viðeigandi keppnisbúningur. Hins vegar var bolurinn fínn, gulur hlírabolur með rauðri bryddingu á köntum, stöfunum RSK framan á og tölunni 10 aftaná. Sniðið á bolnum var auk heldur svo nútímalegt að það líktist í einu og öllu því sem enn tíðkast, enda e.t.v. ekki mikið svigrúm til tilrauna við hönnun á hlírabolum. En buxnavandamálið þurfti að leysa með einhverjum hætti. Ég mætti því til leiks í ágætum tweedbuxum sem mamma hefur sjálfsagt verið nýbúinn að kaupa á mig sem betribuxur. Skótauinu er ég búinn að gleyma, en ég hafði hvorki heyrt um ASICS né HOKA þegar þetta var og gaddaskó eignaðist ég ekki fyrr en ári síðar. Hins vegar átti ég örugglega ágæta strigaskó, því að svoleiðis skóbúnaður var ómissandi í sveitinni þegar unnið var í þurrheyi í góðu veðri eða hlaupið sér til skemmtunar á eftir heyvagninum.

Ég man svo sem ekki smáatriðin í hlaupinu sjálfu, nema hvað ég held að við höfum verið þrír sem lögðum af stað. Ég tók strax forystuna og sá aldrei til mannaferða eftir það. Eitthvað heyrði ég pískrað í áhorfendaskaranum um að þetta væri allt of hratt og að ég myndi springa. En mér var alveg sama um það. Hlaupinu lauk ég á 2:37,4 mín, sem mér fannst svo sem ekkert merkilegt, og hinir hlaupararnir voru um 100 metrum á eftir mér ef mig misminnir ekki.

Þetta var góður dagur í Sævangi og auðvitað var ég stoltur af verðlaunaskjölunum fjórum sem ég kom með heim um kvöldið. Skjalið fyrir 800 metrana skipti mig eðlilega langmestu máli. Það var hvítt á litinn eins og vera bar með skjöl sigurvegara. Hin voru bara blá, því að þar var ég í öðru sæti. En hvernig sem svona skjöl eru á litinn, þá eru þau töluvert persónulegri en allir þátttökupeningarnir sem hrúgast hafa upp á áratugunum sem liðnir eru síðan.

Ég velti því örugglega ekkert fyrir mér í ágúst 1972 hvort ég yrði enn að keppa í hlaupum 50 árum síðar. Líklega hefði mér þótt það fremur fjarstæðukennt ef einhver hefði spurt. Á þessum árum tíðkaðist heldur ekki að „gamalt fólk“ væri að spreyta sig í almenningshlaupum. Sjálfur var ég þó vanur því í sveitinni að fólk hlypi eins og fætur toguðu á meðan heilsan leyfði. Alla vega hélt pabbi heitinn áfram að hlaupa framundir andlátið, enda er sá ferðamáti fljótlegri en ganga. En hvað sem öðru líður er ég afskaplega þakklátur, bæði fyrir þessar gömlu minningar, fyrir að hafa lifað allar þær breytingar sem hafa átt sér stað síðan og fyrir að geta enn sinnt þessu áhugamáli mínu og haft gaman af!

Og verðlaunaskjalið fyrir 800 metrana geymi ég að sjálfsögðu!

Eftirmáli 1: Þessi pistill byggir í öllum aðalatriðum á sambærilegum pistli sem birtist á þessari sömu bloggsíðu 19. ágúst 2012.

Eftirmáli 2: Myndin efst í þessari færslu var tekin í nýjasta keppnishlaupinu mínu 13. ágúst sl. (Klippt út úr stærri mynd. Ljósmyndari: Jón H. Halldórsson á Hólmavík).

Eftirmáli 3: Ekki verður efnt til neinna hátíðarhalda í tilefni af 50 ára afmælinu.

Eitt svar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: