• Heimsóknir

  • 114.238 hits
 • október 2021
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
  31  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Teflon, goretex og feitar dætur

PFOS

Lífræn flúorsambönd skjóta síoftar upp kollinum í umræðu um umhverfi og heilsu í löndunum í kringum okkur. Hins vegar hef ég ekki orðið var við mikla umræðu um þessi efni hérlendis, þrátt fyrir að þau sé að finna í fjölmörgum neytendavörum, hafi tilhneigingu til að safnast upp í umhverfinu og eigi hugsanlega þátt í tilteknum heilsufarsvandamálum. Reyndar eru til vísbendingar um að mengun af völdum þessara efna sé minni hér en í nágrannalöndunum, en hér gildir „hið fornkveðna“ að „safnast þegar saman kemur“. Því finnst mér full ástæða til að ræða málið, kynna sér þessi efni og huga að því hvernig forðast megi óþarfa umgengni við þau. Um leið er upplagt að tileinka sér þá vitneskju að flúor og lífræn flúorsambönd er hreint ekki það sama. Þessi pistill er hugsaður sem ofurlítill fróðleiksmoli inn í þessa umræðu.

PFAA, einkum PFOS og PFOA
Lífrænu flúorsamböndin sem hér koma við sögu eru svonefndar perflúoralkýlsýrur (perfluoroalkyl acids), skammstafað PFAA. Fyrir þá sem gaman hafa af efnafræði má upplýsa að þetta eru kolefniskeðjur, 4-14 kolefnisfrumeindir að lengd, fullhlaðnar flúorfrumeindum með mismunandi efnahópa á endunum, t.d. súlfonat eða karboxílat. Af þessum efnum hafa PFOS (perflúoroktýlsúlfónat) og PFOA (perflúoroktansýra) helst verið í umræðunni, en þessar sameindir eiga það sameiginlegt að vera 8 kolefnisfrumeindir að lengd og vera notuð til að gera ýmsar vörur vatnsfráhrindandi. Teflon og goretex eru dæmi um efni af þessu tagi, en sitthvað fleira mætti nefna. PFOS og PFOA eru iðulega til staðar í blóði fólks í einhverjum styrk og eru býsna þrávirk. Útilokað er að segja til um hvernig efnin berast inn í blóðrásina í hverju einstöku tilviki, en hitt er víst að þau eiga uppruna sinn í manngerðum varningi. Helmingunartími þeirra er á bilinu 4-5 ár, en með helmingunartíma er átt við þann tíma sem það tekur styrk efnanna að minnka um helming miðað við að ekkert nýtt bætist við.

Á síðustu tveimur vikum hefur Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) sagt frá niðurstöðum tveggja rannsókna sem varða áhrif PFOS og PFOA á heilsu manna. Hér verður farið á hundavaði yfir þann fróðleik til að gefa örlitla hugmynd um viðfangsefnið:

Teflon, goretex og feitar dætur
Fyrirsögn þessa pistils vísar óbeint til rannsóknar sem sagt var frá á heimasíðu IMS 22. febrúar sl. Þar var að vísu hvorki minnst á teflon né goretex, enda engin leið að geta sér til um uppruna lífrænna flúorsambanda sem finnast í blóði fólks. En þarna var sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem Þórhallur Ingi Halldórsson og aðstoðarmenn hans unnu og sagt er frá í tímaritinu Environmental Health Perspectives. Þar kom fram að hár styrkur PFOA í blóði verðandi mæðra virðist auka líkur á offituvandamálum hjá dætrum þeirra 20 árum síðar. Hins vegar virðast sveinbörn ekki verða fyrir sams konar áhrifum. Vísbendingar um þetta samhengi höfðu áður komið fram í músatilraunum.

Efnasull í matarumbúðum
Í athugun sem Matvælastofnun Danmerkur lét gera nýlega kom í ljós að matarumbúðir utan af ýmiss konar skyndimat innihéldu flúoreraðar kolefniskeðjur í 35 tilvikum af 84. Þarna var m.a. um að ræða umbúðir utan af örbylgjupoppi, kökum, brauði og hraðréttum, svo eitthvað sé nefnt. Hlutverk efnanna er hér sem annars staðar að koma í veg fyrir að umbúðirnar dragi í sig raka, fitu eða óhreinindi. Líklegt er að efnin geti að einhverju marki borist úr umbúðunum í matinn, en það verður kannað nánar á næstu vikum. Niðurstaðna úr þeirri rannsókn er að vænta með vorinu, en frá öllu þessu var sagt á heimasíðu IMS 1. mars sl.

Hvatt til frekari lesturs
Hér verður ekki farið út í nein smáatriði, enda er tilgangur pistilsins sem fyrr segir að vekja athygli á þessum efnum, sem við ættum e.t.v. að umgangast af meiri varúð en okkur hefur verið tamt. Hægt er að lesa sér miklu meira til með því að kíkja á bak við tenglana hér fyrir neðan.

Tannkrem og álver eru allt annað mál!!!
Að lokum er rétt að minna á, að engin tengsl eru á milli hugsanlegrar skaðsemi lífrænna flúorsambanda á borð við PFOS og PFOA annars vegar og flúorsambanda í tannkremi eða í útblæstri álvera hins vegar. Þar er um að ræða allt öðru vísi og mun minni sameindir með allt aðra virkni. Varast ber að rugla þessu tvennu saman!

Slatti af tenglum
Hægt er að lesa miklu meira um þetta allt saman í umfjöllun IMS um PFOA og offitu 22. feb. sl., frásögn Berlinske um sama mál 24. feb., grein Þórhalls Inga og félaga í Environmental Health Perspectives (pdf-skjal birt á netinu í feb. 2012), umfjöllun IMS um lífræn flúorsambönd í matarumbúðum 1. mars sl.fréttatilkynningu frá Matvælastofnun Danmerkur um sama mál 10. feb. sl. og samþjappaðan fróðleik IMS um flúoreraðar kolefniskeðjur.(Svo væri líka hægt að vísa í skrif um PFOS og PFOA sem birtust á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi á sínum tíma (nánar tiltekið 28. júní 2005, 20. jan. 2006, 2. feb. 2009, 6. mars 2009 og 30. nóv. 2009), þ.e.a.s. ef þau skrif hefðu ekki horfið þegar Staðardagskrárverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytisins leið undir lok í ársbyrjun 2010. Eitthvað af þessum fróðleikspunktum er þó að finna á Náttúran.is).