• Heimsóknir

  • 116.253 hits
 • júní 2022
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  2627282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Að tilheyra hópi

SA Mind forsíðaMargt fólk sem ég þekki tekur þátt í einhvers konar hópstarfi. Viðfangsefni hópanna eru ólík og sum þeirra geta jafnvel virst fáfengileg við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð getur það skipt sköpum fyrir okkur sem einstaklinga að vera hluti af einhverjum hópi, alveg sama hvort það er brönugrasaklúbbur, Kiwanis, kvenfélag, kór aldraðra, leshringur eða hlaupahópur. Rannsóknir benda nefnilega til að þeir sem finnast þeir tilheyra hópi eigi síður vanda til að leggjast í þunglyndi með tilheyrandi hættu á neikvæðum hliðarverkunum, þ.m.t. sjálfsvígum. Í ljósi þessara rannsókna hefur orðið „hópmeðferð“ eiginlega öðlast nýja merkingu. Meðferðin þarf sem sagt alls ekki að beinast að sjúkdómnum sjálfum, heldur getur hún verið fólgin í nánast hvers konar hópstarfi sem verkast vill, allt eftir aðstæðum og áhuga þess sem í hlut á. Þessari nýju tegund hópmeðferðar eru gerð ágæt skil í grein eftir Tegan Cruwys og félaga sem birtist í tímaritinu Scientific American Mind (SA Mind) á síðasta hausti, en ég rakst á þetta hefti á biðstofu læknis á dögunum innan um snjáð tölublöð af Nýju lífi frá árinu 2004. Ég er alls enginn fræðimaður á þessu sviði, en í þessum pistli ætla ég samt að tína til nokkur atriði úr þessari grein, enda hygg ég að innihald hennar eigi erindi við fleiri en þá sem lesa SA Mind reglulega.

Í grein Cruwys og félaga eru raktar niðurstöður nokkurra nýlegra rannsókna á mikilvægi hópkenndar fyrir andlega líðan fólks. Í greininni kemur fram að við meðferð við þunglyndi sé alla jafna gengið út frá því að vandamálið eigi rætur í einstaklingnum sjálfum. Þess vegna sé meðferð annað hvort ætlað að breyta efnaskiptum í heila eða hafa áhrif á viðhorf einstaklingsins til lífsins og tilverunnar. Reynslan sýni hins vegar að það séu yfirleitt utanaðkomandi atvik sem hrindi atburðarásinni af stað. Þannig megi rekja 60-90% allra þunglyndistilfella til einhvers konar missis, svo sem atvinnumissis, tapaðrar vináttu eða ástarsorgar. Auk þess banki þunglyndi helst á dyrnar hjá þeim sem búa einir.

Eftir því sem þekking manna á þunglyndi eykst verður augljósara hversu mikinn þátt félagsleg einangrun á í vandanum. Því er rökrétt að draga þá ályktun að aukin samskipti við annað fólk hafi forvarnargildi. Rannsókn Fabio Sani og félaga við háskólann í Dundee í Skotlandi á 194 einstaklingum leiddi hins vegar í ljós að galdurinn felst ekki í samskiptunum sem slíkum, heldur í eðli samskiptanna. Þáttakendur í rannsókninni voru annars vegar spurðir hversu mikið þeir hittu og töluðu við nánustu fjölskyldumeðlimi og hins vegar hversu miklu máli þeir teldu þessa fjölskyldu skipta sig. Í ljós kom að tíðni samskipta hafði ekki mikil áhrif á þróun þunglyndis, en samkennd með fjölskyldunni hafði hins vegar mikið forvarnargildi. Í því sambandi skipti ekki máli hvers konar „fjölskyldu“ var um að ræða. Í tiltekinni austur-evrópskri herdeild hafði það t.d. miklu meira forvarnargildi að finna til sterkra tengsla við félagana en það eitt út af fyrir sig að verja miklum tíma með þeim.

En það er ekki nóg að ganga bara í einhvern hóp. Hópurinn verður að skipta einstaklinginn máli. Það eitt að mæta á staðinn og spila fótbolta með einhverjum, stunda listsköpun, sauma eða stunda jóga virðist ekki hafa marktæk jákvæð áhrif. Það er samkenndin með hópnum sem gerir útslagið, þ.e.a.s. tilfinningin að vera hluti af þessum hópi. Almennt talað skiptir engu máli hvert viðfangsefni hópsins er. Frá þessu eru þó undantekningar ef um er að ræða hópa sem myndast t.d. utan um eiturlyfjaneyslu eða andfélagslega hegðun.

Rannsóknirnar sem Cruwy og félagar vísa í leiða ekki einasta í ljós mikilvægi hóptilfinningarinnar til að vinna gegn þunglyndi, heldur virðist það eitt að hugsa um hópinn sinn draga úr líkum á að smitast af veirum sem maður hefur komist í tæri við, gera mann síður móttækilegan fyrir áreiti og auka sársaukaþol.

Ein af þeim ályktunum sem hægt er að draga af samantekt Cruwys og félaga er að hægt væri að ná miklum árangri í forvörnum og meðhöndlun þunglyndis með því einu að fá viðkomandi einstaklinga til að ganga í einn eða fleiri hópa. Og þá skiptir nánast engu máli hvers konar hóp er um að ræða, svo fremi sem eintaklingurinn upplifir sig sem hluta af hópnum. Meðferð af þessu tagi getur að sjálfsögðu ekki komið að öllu leyti í stað annarra dýrari úrræða, en hún getur í það minnsta bætt árangur án verulegs aukakostnaðar fyrir einstaklinginn eða samfélagið og án aukaverkana. Hún getur auk heldur nýst í aðstæðum eða á svæðum þar sem um fá önnur úrræði er að ræða.

(Þessi pistill er byggður á: Tegan Cruwys, S. Alexander Haslam og Genevieve A. Dingle, (2014): The New Group Therapy. Scientific American Mind, Sept.-okt. 2014, (60-63)).

Nokkur orð um lyfjaafganga

MedicineÁ flestum heimilum safnast upp eitthvað af lyfjum sem voru keypt á sínum tíma en ekki notuð þegar til kastanna kom. Flest lyf hafa einhver áhrif á heilsuna ef þau berast inn í líkama fólks, enda eru þau beinlínis til þess gerð. Á sama hátt er líklegt að flest lyf hafi einhver áhrif á umhverfið ef þau sleppa út í náttúruna. Þess vegna skiptir miklu máli hvað verður um ónotuð lyf.

Tveir flokkar ónotaðra lyfja
Í grófum dráttum má skipta ónotuðum lyfjum í tvo flokka eftir afdrifum þeirra, þ.e.a.s. annars vegar lyf sem skilað er til endurvinnslu eða förgunar og hins vegar lyf sem lenda í ruslafötunni. Þar ættu lyf reyndar aldrei að lenda, því að úr ruslafötunni liggur leiðin í flestum tilvikum á næsta urðunarstað, og þaðan geta efni úr lyfjunum borist út í náttúruna með tíð og tíma. Þar brotna þau seint niður, enda eru lyf yfirleitt gerð til að endast. Annars myndu þau líklega sjaldan komast óskemmd til þeirra líkamsparta sem þeim er ætlað að hafa áhrif á. En þó að ruslafatan sé slæm, þá er enn verra að sturta lyfjaafgöngum niður í klósettið eins og mér skilst að sumir geri. Úr klósettinu liggur leiðin nánast beint út í náttúruna, enda ráða hreinsistöðvar ekki við lyfjaleifar nema þá að mjög litlu leyti.

Skilið lyfjaafgöngunum!
Lyf geta gert mikinn usla úti í náttúruna, því að þegar þangað er komið halda þau áfram að sinna hlutverki sínu eins og ekkert hafi í skorist. Til að fyrirbyggja þetta er afskaplega mikilvægt að skila öllum lyfjaafgöngum í næsta apótek, sem sér um að koma þeim áfram í viðeigandi förgun. Þetta gildir jafnt um eina eða tvær töflur og um heilu lyfjapakkana. Öll apótek, lítil sem stór, hvar sem er á landinu, taka við lyfjaafgöngum og senda þau áfram til förgunar í viðurkenndri brennslustöð.

Umhverfisáhrif notaðra lyfja
Það eru ekki bara „lyf sem eru ekki notuð“ sem skipta máli frá umhverfislegu sjónarmiði. Lyf sem búið er að nota geta líka endað úti í náttúrunni. Lyfin verða nefnilega ekki að engu í líkamanum, heldur skilar drjúgur hluti þeirra sér út með þvagi. Víða í hinum vestræna heimi má finna mælanlegt magn af hinum ýmsu lyfjum í vötnum og setlögum. Sem dæmi má nefna að Ibuprofen hefur fundist í setlögum í norskum fjörðum og Diclofenac hefur líka víða greinst í fráveituvatni, en Diclofenac þekkja menn sjálfsagt best undir vöruheitinu Voltaren. Þau lyf sem oftast eru nefnd í þessu sambandi eru þó getnaðarvarnarpillur, eða nánar tiltekið ethynýlestradíól, sem er kjarninn í flestum tegundum pillunnar. Þetta efni skilar sér út í höf og vötn um allan heim jafnt og þétt alla daga ársins. Rannsóknir hafa sýnt fram á skaðleg áhrif þessa efnis á fiska sem halda til í grennd við útrásir fráveitukerfa. Einkennin birtast meðal annars í minnkandi sæðisframleiðslu og fjölgun tvíkynja einstaklinga. Innan Evrópusambandsins er rætt um að setja sérstök hámarksgildi fyrir ethynýlestradíól, Diclofenac og eitt algengt lyfjaefni til viðbótar inn í ákvæði um vatnsgæði í tengslum við vatnatilskipun sambandsins.

Lyf sem ekki eru keypt
Lítum loks aðeins á „lyf sem eru ekki keypt“. Þau hafa svo sem engin áhrif á umhverfið, nema náttúrulega þar sem þau eru framleidd. Það er sem sagt að öðru jöfnu góður kostur frá umhverfislegu sjónarmiði að sleppa því að kaupa lyf. En auðvitað er málið ekki alveg svo einfalt. Reyndar getur vel verið að við kaupum of mikið af lyfjum. Kannski hættir okkur til að líta á þau sem fyrsta valkost til meðhöndlunar á hvers konar kvillum, þó að stundum væri nærtækara að leita lækninga í bættu mataræði, útivist og hreyfingu. En það er efni í annan pistil.

Niðurstaðan
Og hver er þá niðurstaðan úr þessu öllu saman? Jú, henni má eiginlega skipta í tvö aðalatriði eða heilræði:

 • Annars vegar ættum við aldrei að kaupa lyf sem við þurfum ekki á að halda.
 • Hins vegar eigum við aldrei að henda lyfjaleifum í ruslið eða í klósettið, alveg sama hvaða lyf á í hlut og alveg sama hversu magnið er lítið.

Lokaorð um pilluna og Voltaren
Framangreindum heilræðum er auðvelt að fylgja. Þetta með getnaðarvarnarpilluna og áhrif hennar á umhverfið er hins vegar erfiðara viðfangs. Fyrsta skrefið er þó að vera meðvitaður um þessi áhrif og fylgjast vel með þróun mála, því að framleiðendur vinna stöðugt að því að þróa pillu sem gerir sem mest gagn og veldur sem minnstum skaða. Þeir sem vilja fræðast um gagnsemi og skaðsemi einstakra tegunda pillunnar ættu endilega að spyrja starfsfólk heilbrigðisstofnana og apóteka og fá þannig aðstoð við að velja besta kostinn. Ég ætla sem sagt alls ekki að leggja til að konur heimsins hætti að taka pilluna af umhverfisástæðum. Hins vegar má fólk alveg hætta að taka Voltaren mín vegna. Ef diclofenac hverfur úr skolprörunum er alla vega búið að fækka umhverfisvandamálunum um eitt.

(Þessi pistill er að mestu leyti samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 fimmtudaginn 2. maí 2013).

Flöskuvatn

TyrkjavatnLíklega er sumarið tíminn þegar fólk kaupir hvað mest af flöskuvatni, þó að reyndar sé mikið keypt af flöskuvatni allan ársins hring. Ég hef ekki séð tölur um söluna hérlendis, en einhvers staðar sá ég að salan á heimsvísu væri líklega um 200 milljarðar flaskna á ári, þar af um 25% í Bandaríkjunum þar sem búa þó aðeins um 4% mannkynsins. Heildarsalan á flöskuvatni á heimsvísu nemur líklega 50-100 milljörðum dollara á ári. Þetta gætu þá verið á bilinu 6 til 12 þúsund milljarðar íslenskra króna, sem lítur út fyrir að vera alveg þokkalega há upphæð.

Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna fólk kaupi yfirleitt vatn á flöskum, sérstaklega í löndum þar sem nóg er til af rennandi vatni sem alla jafna er litið á sem sameiginlega auðlind. Ef við lítum á þetta í íslensku samhengi, þá getur flöskuvatn vissulega verið handhægt, en það er að sama skapi alveg óþarft ef betur er að gáð. Auðvitað ræður fólk því sjálft í hvaða formi það innbyrðir vatnið sitt, en það er samt áhugavert að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að fá fólk til að kaupa vöru á allt að því 5.000 sinnum hærra verði en því býðst sama vara annars staðar. Hvað myndi okkur til dæmis finnast um það ef samloka sem við getum keypt á 500 kall myndi allt í kosta tvær og hálfa milljón. Er það ekki bara rosalega mikil verðhækkun?

Jæja, þetta er nú kannski ekki alveg svona einfalt. Til dæmis er flöskuvatn sem við kaupum úti í búð ekki alveg sama vara og kranavatnið sem við getum fengið heima hjá okkur og látið renna í sams konar flösku og við hefðum annars keypt í búðinni. Flaskan í búðinni sparar okkur til dæmis ómakið að skrúfa frá krananum, tappinn á henni er hugsanlega fastari á og innihaldið ef til vill kaldara. Já, og svo eru kannski aðeins fleiri bakteríur í henni líka, en ég kem nánar að því síðar.

Vorið 2009, nánar tiltekið þann 25. apríl, keypti ég hálfslítersflösku af tyrknesku vatni í Krónunni í Mosfellsbæ, ekki vegna þess að mig vantaði beinlínis þessa vöru, heldur vegna þess að mig langaði til að kynnast þeirri athyglisverðu viðskiptahugmynd að flytja flöskuvatn til Íslands frá Tyrklandi. Flaskan hafði reyndar millilent í Danmörku á þessu langa ferðalagi sínu. Þar hafði verið settur á hana miði með danskri áletrun, þar sem m.a kom fram að tappinn hefði verið settur á flöskuna í Izmir í Tyrklandi 29. apríl 2008. Þetta ágæta vatn átti sem sagt ársafmæli fjórum dögum eftir að ég keypti það. Mér finnst rétt að taka fram að ég drakk aldrei þetta vatn, enda trúði ég því ekki að í flöskunni væri að finna uppsprettuna að heilbrigði mínu, jafnvel þó að á danska miðanum stæði „Kilden til DIN sundhed“.

Eins og ég nefndi áðan er kranavatn augljóslega mun ódýrara en flöskuvatn. En þar með er ekki öll sagan sögð. Gæði kranavatnsins eru nefnilega víðast hvar líka meiri en gæði flöskuvatnsins. Á þessu hafa verið gerðar margar rannsóknir, sem ég hef að sjálfsögðu ekki kynnt mér nema að litlu leyti. Það sem ég hef séð bendir þó allt til þess að kranavatnið hafi vinninginn, nema þar sem vatnsból eru menguð um lengri eða skemmri tíma. Í einni rannsókninni reyndust bakteríur í flöskuvatni til dæmis vera 50 sinnum fleiri en leyft er í kranavatni.

Ef við lítum nú aðeins á umhverfisáhrif flöskuvatns, þá lítur dæmið enn verr út. Þannig er flöskuvatn að jafnaði um 1500-2000 sinnum orkufrekara en kranavatn þegar tekið hefur verið tillit til framleiðslu og flutnings umbúða. Til að framleiða einn lítra af flöskuvatni þarf að meðaltali um 3 lítra af vatni, olían sem fer í að framleiða flöskurnar myndi líklega duga til að knýja milljón bíla í heilt ár, og svo falla til kynstrin öll af tómum plastflöskum. Hérlendis fer sem betur fer stór hluti þeirra í endurvinnslu, en eitthvað er samt urðað og einhverju er kastað á glæ á víðavangi þar sem það síðan velkist um aldir. Plastflöskur brotna mjög seint niður í náttúrunni og ég hef jafnvel séð því haldið fram að allt að helmingur plastruslsins í hafinu séu plastflöskur, þ.á.m. undan vatni.

Haustið 2009 var efnt til sérstaks átaks í bænum Farum í Danmörku til að vekja athygli á því að kranavatn væri í flestum tilvikum hreinna, heilnæmara, ódýrara og umhverfisvænna en vatn sem keypt er á flöskum. Átakið fólst í því að þáverandi umhverfisráðherra og einn af forsvarsmönnum sveitarfélagsins stóðu á aðaltorgi bæjarins og gáfu vegfarendum 2.300 karöflur undir kranavatn. Á karöflurnar voru grafin kjörorð átaksins, nefnilega „Skift vane – drik vand fra hane“, eða „Droppaðu vananum – drekktu úr krananum“ eins og kjörorðin hljóma í afar lauslegri íslenskri þýðingu. Karöflurnar áttu að auðvelda fólki ódýra og umhverfisvæna vatnsneyslu á heimilunum, því að þær hentuðu einkar vel til geymslu á kranavatni í ísskápum.

Allt það sem hér hefur verið sagt gildir í aðalatriðum líka um vatn úr svokölluðum vatnsvélum sem víða eru í notkun á vinnustöðum. Eflaust er gæðum drykkjarvatns á vinnustöðum víða áfátt, en líklega væri því fjármagni sem fer í kaup á vatni betur varið í endurbætur á vatnslögnum.

Margir kannast við heimildarmyndir Annie Leonard undir yfirskriftinni „Story of Stuff“ – eða saga af dóti. Ein þessara mynda fjallar einmitt um flöskuvatn, það er að segja myndin „Story of bottled water“. Ástæða er til að hvetja þá sem hafa áhuga á umhverfismálum að kynna sér þessar myndir, en þetta eru stuttar teiknimyndir á einfaldri ensku. Hægt er að nálgast þær á síðunni www.storyofstuff.com.

Svona að lokum er rétt að taka fram að ég hef ekki í hyggju að banna fólki að kaupa flöskuvatn, enda hef ég ekki umboð til þess. Þegar þessi mál eru skoðuð er líka mikilvægt að íhuga hvað væri drukkið í staðinn. Ef fólk velur flöskuvatn í stað sætra gosdrykkja, þá er það náttúrulega hið besta mál, bæði fyrir heilsuna og umhverfið. Standi valið hins vegar á milli flöskuvatns og kranavatns, þá hefur kranavatnið næstum alltaf vinninginn, hvort sem litið er á málið í fjárhagslegu, umhverfislegu eða heilsufarslegu samhengi. Lykilatriðið í þessu máli, rétt eins og í flestum öðrum málum er:

Gagnrýnin hugsun!

Takið svo endilega tómar flöskur með ykkur í sumarfríið og fyllið þær af fersku vatni í þar til gerðum krönum eða í frískum fjallalækjum, frekar en að borga fullt af peningum fyrir innpakkaða skammta af þessari sameiginlegu auðlind.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 mánudaginn 1. júlí 2013).

Erfðabreytt umræða á villigötum

Síðustu daga hefur mikið verið rætt um erfðabreyttar lífverur í kjölfar greinar eftir Gilles-Eric Séralini og félaga í vísindatímaritinu Food and Chemical Toxicology, þar sem fram kom hækkuð sjúkdóma- og dánartíðni hjá rottum sem fengu erfðabreyttan maís sem gerður hafði verið ónæmur fyrir plöntueitrinu Roundup, hvort sem maísinn hafði verið meðhöndlaður með eitrinu eður ei. Ég fagna þessari umræðu, en mér finnst hún samt hafa verið á villigötum. Mér finnst umræðan hafa snúist allt of mikið um áreiðanleika Séralinis og kosti og galla þeirra aðferða sem hann og félagar hans beittu. Aðalatriði málsins hefur að mínu mati orðið útundan.

Aðalatriðið er þetta: Þessi eina rannsókn, hversu gölluð eða fullkomin sem hún er, sannar hvorki né afsannar staðhæfingar um skaðsemi eða skaðleysi erfðabreyttra lífvera. Hún undirstrikar fyrst og fremst þá staðreynd að skaðleysið hefur ekki verið sannað. Um leið undirstrikar hún að við þurfum að ráðast í mun meiri rannsóknir áður en lengra er haldið í nýtingu erfðabreyttra lífvera til fóðurs og manneldis. Í þessum rannsóknum er sérstaklega mikilvægt að huga að hugsanlegum langtímaáhrifum á heilsu manna. Það rannsóknarsvið er nánast óplægður akur!

Komandi kynslóðir eiga betra af okkur skilið en að við drepum á dreif málum sem geta skipt sköpum fyrir þær. Horfumst í augu við aðalatriðin og hættum að karpa um tölfræðileg álitamál og gáfnafar ritrýnenda!

Að lokum þykir mér rétt að minna á að áður en við tökum ákvarðanir um nýtingu erfðabreyttra lífvera til framtíðar þurfum við að rannsaka fleira en hugsanleg áhrif á heilsu manna. Vistfræðilegir og félagshagfræðilegir þættir eru ekki síður mikilvægir!

Út að hlaupa – eftir 12 daga hlé

Ég hljóp 5 km í gærkvöldi. Það telst ekki til stórtíðinda, en var samt svolítill áfangi fyrir sjálfan mig. Ég tognaði nefnilega fyrir tveimur vikum og hef tekið því rólega síðan. En hvers vegna tognar maður og hvernig kemur maður í veg fyrir svoleiðis?

Algengasta og næstum eina leiðin fyrir langhlaupara til að meiðast er að gera of mikið of fljótt. Það var einmitt það sem ég gerði. Orðin „mikið“ og „fljótt“ eru auðvitað afstæð. Merking þeirra er meira að segja breytileg frá degi til dags. Það er t.d. ekkert „of mikið“ fyrir mig að hlaupa 25-50 km í einum áfanga. Og það er heldur ekkert of mikið að endurtaka það daginn eftir. En það skiptir meginmáli hvernig það er gert og við hvaða aðstæður.

Mér er meinilla við að viðurkenna hvernig þessi umrædda tognun mín átti sér stað, en ég ætla samt að gera það, sjálfum mér og öðrum til viðvörunar – eða alla vega sjálfum mér, því að ég veit að fæstir læra mikið af reynslu annarra. En hvað um það, ég hljóp sem sagt yfir Ólafsskarð frá Litlu kaffistofunni til Þorlákshafnar 22. maí sl., 31 km leið í góðu veðri og enn betri félagsskap hátt í 20 hlaupara. Það var ekkert nema skemmtilegt, eins og ég mun greina frá síðar í löngu máli. En það var samt alveg sæmilega erfitt, undirlagið ójafnt og svona, langt frá því þó að vera eitt af mínum erfiðustu hlaupum, (þarf endilega að gera Excel-skrá yfir þau við tækifæri), en sæmilega erfitt samt. Daginn eftir var ég svolítið stirður í fótunum og datt ekki í hug að hlaupa neitt. Á öðrum degi var stirðleikinn svo sem horfinn, bara svolítil þreyta í skrokknum, alls staðar og hvergi. Á svoleiðis degi er ekkert „of fljótt“ að hlaupa, en það er ekki sama hvernig það er gert! Mig langaði til að hrista af mér slenið og í stað þess að njóta þess að skokka t.d. 12 km í rólegheitum, brá ég mér niður á íþróttavöll og tók nokkra hressandi 200 m spretti. Það á maður sem sagt ekki að gera ef maður er a) 55 ára, b) þreyttur í skrokknum eftir 30 km fjallahlaup tveimur dögum fyrr og c) búinn að hlaupa sér til ánægju í meira en 40 ár og á að vita betur. Þarna var ég búinn að koma mér upp kjöraðstæðum til tognunar – og þess vegna gerðist það.

Tveimur dögum eftir þessa tognun hljóp ég yfir Kerlingarskarð á Snæfellsnesi. Það var auðvitað bæði of mikið og of fljótt, en ég vissi það svo sem allan tímann. Ég ákvað bara að gera það samt, vitandi að það gæti varla skemmt neitt, heldur í versla falli seinkað batanum um einhverja daga. Það var rétt mat og þetta var ágætisferð, en hún skiptir ekki miklu máli í þessari sögu. Skrifa langt mál um hana síðar.

Tíminn læknar kannski ekki alveg öll sár, en hann er engu að síður eina góða lækningin við tognunum – og virkar vel sem slík. Það eina sem þarf að hafa í huga er að gera ekki of mikið of fljótt. Hins vegar er það afar slæm hugmynd að leggjast fyrir og bíða eftir að þetta lagist. Slíkt atferli nefnist KÖR101. Líkaminn þarf á hreyfingu að halda, því að til þess var hann frá upphafi ætlaður, og þannig helst blóðið á hreyfingu og batakerfið sem virkast. Þess vegna hef ég notað tímann til að ganga meira en venjulega, því að gangan reyndi ekki mikið á tognaða vöðvann. Eins gerði ég eitthvað af styrktaræfingum fyrir efri hluta líkamans. Það þarf nefnilega líka að hugsa um heildarmyndina í þessum efnum, alveg eins og í umhverfismálunum!

Það er gott að gera svona mistök, því að hverjum mistökum fylgir tækifæri til að læra eitthvað nýtt. Ég hef reyndar gert svipuð mistök áður, síðast fyrir rúmum tveimur árum. Það dugði greinilega ekki til að læra nógu mikið. Sjáum til hvernig það gengur í þetta sinn.

Fyrir áhugafólk um líffærafræði get ég upplýst að vöðvinn sem varð fyrir barðinu á þessum mistökum, sem voru vel að merkja byrjendamistök þrátt fyrir rúmlega 40 ára hlaupaferil, tilheyrir hópi vöðva sem í daglegu tali eru kallaðir „hip flexors“ og liggja framan á mjöðminni og niður á lærið.

Besta afgangauppskriftin

Samtökin Grønn Hverdag í Noregi efndu á dögunum til samkeppni á Fésbókarsíðu sinni um bestu afgangauppskriftina. Sigurlaunin komu í hlut Lisbeth Hauge, sem sendi inn uppskrift sem nýtir afganga af soðnu grænmeti og kartöflum.

Uppskriftin frá Lisbeth Hauge er einföld: „Maður tekur bara afganga af soðnu grænmeti og kartöflum, skellir því í blandara með svolitlu af rjóma/mjólk/vatni, smjöri og kryddi. Úr þessu verður stórfín grænmetis/kartöflustappa sem nýtist sem meðlæti daginn eftir. Tekur enga stund“.

Grønn Hverdag birtir nýja afgangauppskrift á Fésbókarsíðu sinni á hverjum fimmtudegi. Það er því vel þess virði að láta sér líka við síðuna þeirra (sjá https://www.facebook.com/#!/gronnhverdag).

(Innihald þessa pistils og myndin sem fylgir eru fengin að láni af heimasíðu Grønn Hverdag í Noregi).

Teflon, goretex og feitar dætur

PFOS

Lífræn flúorsambönd skjóta síoftar upp kollinum í umræðu um umhverfi og heilsu í löndunum í kringum okkur. Hins vegar hef ég ekki orðið var við mikla umræðu um þessi efni hérlendis, þrátt fyrir að þau sé að finna í fjölmörgum neytendavörum, hafi tilhneigingu til að safnast upp í umhverfinu og eigi hugsanlega þátt í tilteknum heilsufarsvandamálum. Reyndar eru til vísbendingar um að mengun af völdum þessara efna sé minni hér en í nágrannalöndunum, en hér gildir „hið fornkveðna“ að „safnast þegar saman kemur“. Því finnst mér full ástæða til að ræða málið, kynna sér þessi efni og huga að því hvernig forðast megi óþarfa umgengni við þau. Um leið er upplagt að tileinka sér þá vitneskju að flúor og lífræn flúorsambönd er hreint ekki það sama. Þessi pistill er hugsaður sem ofurlítill fróðleiksmoli inn í þessa umræðu.

PFAA, einkum PFOS og PFOA
Lífrænu flúorsamböndin sem hér koma við sögu eru svonefndar perflúoralkýlsýrur (perfluoroalkyl acids), skammstafað PFAA. Fyrir þá sem gaman hafa af efnafræði má upplýsa að þetta eru kolefniskeðjur, 4-14 kolefnisfrumeindir að lengd, fullhlaðnar flúorfrumeindum með mismunandi efnahópa á endunum, t.d. súlfonat eða karboxílat. Af þessum efnum hafa PFOS (perflúoroktýlsúlfónat) og PFOA (perflúoroktansýra) helst verið í umræðunni, en þessar sameindir eiga það sameiginlegt að vera 8 kolefnisfrumeindir að lengd og vera notuð til að gera ýmsar vörur vatnsfráhrindandi. Teflon og goretex eru dæmi um efni af þessu tagi, en sitthvað fleira mætti nefna. PFOS og PFOA eru iðulega til staðar í blóði fólks í einhverjum styrk og eru býsna þrávirk. Útilokað er að segja til um hvernig efnin berast inn í blóðrásina í hverju einstöku tilviki, en hitt er víst að þau eiga uppruna sinn í manngerðum varningi. Helmingunartími þeirra er á bilinu 4-5 ár, en með helmingunartíma er átt við þann tíma sem það tekur styrk efnanna að minnka um helming miðað við að ekkert nýtt bætist við.

Á síðustu tveimur vikum hefur Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) sagt frá niðurstöðum tveggja rannsókna sem varða áhrif PFOS og PFOA á heilsu manna. Hér verður farið á hundavaði yfir þann fróðleik til að gefa örlitla hugmynd um viðfangsefnið:

Teflon, goretex og feitar dætur
Fyrirsögn þessa pistils vísar óbeint til rannsóknar sem sagt var frá á heimasíðu IMS 22. febrúar sl. Þar var að vísu hvorki minnst á teflon né goretex, enda engin leið að geta sér til um uppruna lífrænna flúorsambanda sem finnast í blóði fólks. En þarna var sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem Þórhallur Ingi Halldórsson og aðstoðarmenn hans unnu og sagt er frá í tímaritinu Environmental Health Perspectives. Þar kom fram að hár styrkur PFOA í blóði verðandi mæðra virðist auka líkur á offituvandamálum hjá dætrum þeirra 20 árum síðar. Hins vegar virðast sveinbörn ekki verða fyrir sams konar áhrifum. Vísbendingar um þetta samhengi höfðu áður komið fram í músatilraunum.

Efnasull í matarumbúðum
Í athugun sem Matvælastofnun Danmerkur lét gera nýlega kom í ljós að matarumbúðir utan af ýmiss konar skyndimat innihéldu flúoreraðar kolefniskeðjur í 35 tilvikum af 84. Þarna var m.a. um að ræða umbúðir utan af örbylgjupoppi, kökum, brauði og hraðréttum, svo eitthvað sé nefnt. Hlutverk efnanna er hér sem annars staðar að koma í veg fyrir að umbúðirnar dragi í sig raka, fitu eða óhreinindi. Líklegt er að efnin geti að einhverju marki borist úr umbúðunum í matinn, en það verður kannað nánar á næstu vikum. Niðurstaðna úr þeirri rannsókn er að vænta með vorinu, en frá öllu þessu var sagt á heimasíðu IMS 1. mars sl.

Hvatt til frekari lesturs
Hér verður ekki farið út í nein smáatriði, enda er tilgangur pistilsins sem fyrr segir að vekja athygli á þessum efnum, sem við ættum e.t.v. að umgangast af meiri varúð en okkur hefur verið tamt. Hægt er að lesa sér miklu meira til með því að kíkja á bak við tenglana hér fyrir neðan.

Tannkrem og álver eru allt annað mál!!!
Að lokum er rétt að minna á, að engin tengsl eru á milli hugsanlegrar skaðsemi lífrænna flúorsambanda á borð við PFOS og PFOA annars vegar og flúorsambanda í tannkremi eða í útblæstri álvera hins vegar. Þar er um að ræða allt öðru vísi og mun minni sameindir með allt aðra virkni. Varast ber að rugla þessu tvennu saman!

Slatti af tenglum
Hægt er að lesa miklu meira um þetta allt saman í umfjöllun IMS um PFOA og offitu 22. feb. sl., frásögn Berlinske um sama mál 24. feb., grein Þórhalls Inga og félaga í Environmental Health Perspectives (pdf-skjal birt á netinu í feb. 2012), umfjöllun IMS um lífræn flúorsambönd í matarumbúðum 1. mars sl.fréttatilkynningu frá Matvælastofnun Danmerkur um sama mál 10. feb. sl. og samþjappaðan fróðleik IMS um flúoreraðar kolefniskeðjur.(Svo væri líka hægt að vísa í skrif um PFOS og PFOA sem birtust á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi á sínum tíma (nánar tiltekið 28. júní 2005, 20. jan. 2006, 2. feb. 2009, 6. mars 2009 og 30. nóv. 2009), þ.e.a.s. ef þau skrif hefðu ekki horfið þegar Staðardagskrárverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytisins leið undir lok í ársbyrjun 2010. Eitthvað af þessum fróðleikspunktum er þó að finna á Náttúran.is).

Rotvarin brjóst?

Parabenar sem notaðir eru sem rotvarnarefni í snyrtivörur o.fl., geta safnast fyrir í brjóstum kvenna. Þetta kom í ljós í breskri rannsókn sem sagt var frá í nýjasta tölublaði tímaritsins Journal of Applied Toxicology. Rannsóknin náði til 40 kvenna sem allar höfðu gengist undir skurðaðgerð vegna krabbameins í brjóstum. Ein eða fleiri tegund parabena fannst í brjóstum allra kvennanna.

Menn hafa lengi velt fyrir sér hugsanlegum skaðlegum heilsufarsáhrifum parabena. Líkur eru á að þessi efni trufli hormónastarfsemi líkamans, m.a. með því að líkja eftir áhrifum estrógena. Og þar sem estrógen eiga sinn þátt í sumum gerðum brjóstakrabbameina liggur beint við að ætla að parabenar hafi stuðlað að þessum 40 krabbameinstilfellum. Rannsóknin gefur þó ekki tilefni til slíkra ályktana, enda var henni ekki ætlað að kanna þetta samhengi. Niðurstaðan er bara sú að parabenar höfðu borist í líkama viðkomandi kvenna og sest fyrir í brjóstunum. Rannsóknin snerist ekki heldur um það hvernig parabenarnir hefðu komist í brjóstin, að öðru leyti en því að kannað var hvort samhengi væri á milli styrks parabena og notkunar svitalyktareyðis. Ekki tókst að sýna  fram á slíkt samhengi, enda finnast parabenar í fleiri vörum, bæði í öðrum snyrtivörum, matvælum og klæðnaði.

Þótt ekki þyki sannað að parabenar eigi þátt í brjóstakrabbameini hlýtur að vera ráðlegt að fara að öllu með gát, enda næsta víst að parabenar sem ekki berast inn í líkamann valda engum skaða þar. Því er þjóðráð að forðast vörur sem innihalda þessi efni.

En parabenar eru ekki einu varasömu efnin í neytendavörum. Einfaldasta leiðin til að forðast efni af þessu tagi í snyrtivörum er að velja vörur sem vottaðar eru með Norræna svaninum og áreiðanlegum astma- og ofnæmismerkjum. (Blái kransinn í Danmörku er dæmi um slíkt merki). Hvað matvæli varðar ætti að forðast vörur sem innihalda aukefnin E214, E215, E218 og E219, en þar er einnig um parabena að ræða.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að hafa í huga að öll efni sem borin eru á húðina eiga góða möguleika á að dreifast um líkamann fyrr en síðar.

(Byggt á frétt á heimasíðu Forbrugerkemi 15. febrúar sl).

Fyrsta kennslubókin um hreyfiseðla

Út er komin í Svíþjóð fyrsta kennslubókin um notkun hreyfiseðla. Hreyfiseðlar eru ávísanir lækna á hreyfingu, sem getur eftir atvikum komið í stað lyfja eða minnkað þörfina fyrir þau.

Hreyfingarleysi er vaxandi vandamál sem eykur líkur á margs konar kvillum, með tilheyrandi kostnaði bæði fyrir heilbrigðiskerfið og viðkomandi einstaklinga. Áætlað er að um helmingur Svía hreyfi sig of lítið, og að u.þ.b. 1 af hverjum 10 sé í mikilli heilsufarslegri áhættu af þeim sökum. Fátt bendir til að ástandið sé betra á Íslandi.

Útgáfa hreyfiseðla þrefaldaðist í Svíþjóð milli áranna 2007 og 2010, en það ár voru gefnir út samtals 49.000 hreyfiseðlar þarlendis. Engu að síður telja yfirvöld heilbrigðismála að þessi aðferð sé enn verulega vannýtt, enda benda tölurnar hér að framan til þess að hátt í 1 milljón Svía búi við verulega heilsufarsáhættu vegna hreyfingarleysis.

Hugmyndin um hreyfiseðla felur í sér að hreyfing er notuð til lækninga og í fyrirbyggjandi skyni með sama hætti og önnur meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Í Svíþjóð gerist þetta í grófum dráttum á eftirfarandi hátt:

 • Heilbrigðisstarfsfólk kannar hversu líkamlega virkur sjúklingurinn er, og ef hreyfingin er talin ófullnægjandi er viðkomandi tekinn í viðtal.
 • Í viðtalinu er farið yfir heilsufar sjúklingsins, áhættuþætti, hvers konar hreyfing væri æskilegust og félli sjúklingnum best í geð, og hversu tilbúinn sjúklingurinn sé til að breyta lífsháttum sínum.
 • Þegar náðst hefur samkomulag um hreyfinguna er hún skráð á hreyfiseðil, þar sem fram kemur hvers konar hreyfing skuli stunduð, hversu oft, hversu lengi í senn, hversu erfið hún skuli vera, og hvernig magnið skuli aukið jafnt og þétt.
 • Sjúklingur og heilbrigðisstarfsmaður koma sér saman um hvernig skuli fylgjast með framkvæmdinni og hversu oft.
 • Meðal algengra tegunda ávísaðrar hreyfingar má nefna gönguferðir, dans, hjólaferðir og garðvinnu, auk sérstakra æfinga einu sinni til tvisvar í viku til að auka styrk og þol.

Fyrirkomulagið er breytilegt eftir svæðum. Þannig hafa sum sveitarfélög stutt við verkefni af þessu tagi með ýmsum hætti, svo sem með niðurgreiðslum eða ríflegum afslætti af aðgangseyri líkamsræktarstöðva o.þ.h. Dæmi um þetta er að finna í bloggpistli mínum 11. febrúar 2011, þar sem sagt er frá fyrirkomulaginu í Landskrona.

Hreyfiseðlar hafa verið í umræðunni á Íslandi, en þó er ljóst að við erum langt á eftir frændum okkar hvað þetta varðar. Svo virðist sem íslenska heilbrigðiskerfið leggi aðaláherslu á að meðhöndla einkenni, en sinni lítt um orsakir þeirra.

(Þessi pistill er að langmestu leyti byggður á frétt á heimasíðu Lýðheilsustofnunar Svíþjóðar í gær. Myndin með pistlinum tengist honum hins vegar ekki beint. Hún er tekin í fjalla- og skemmtihlaupinu Þrístrendingi sl. sumar og gefur hugmynd um þau góðu áhrif sem útvist, hreyfing og góður félagsskapur hefur á geðheilsu og lífsgleði fólks).

Stóra saltmálið – Opinber rannsókn óskast

Ég á svolítið erfitt með að ná áttum í stóra saltmálinu. Þess vegna finnst mér gott að búa mér til lista yfir það sem ég veit um málið:

 1. Ölgerðin flutti inn iðnaðarsalt sem ekki var ætlað til matvælaframleiðslu.
 2. Ölgerðin seldi þetta salt til fjölmarga matvælaframleiðslufyrirtækja sem notuðu saltið í framleiðsluna sína.
 3. Ölgerðin komst upp með þetta árum saman – og hin fyrirtækin líka.
 4. Þetta salt var e.t.v. skaðlegra umhverfi og heilsu en annað salt.
 5. „Gert er gert og étið það sem étið er“. Sá skaði sem kann að hafa skeð verður ekki afturkallaður.

Það sem maður veit skiptir sjaldnast meginmáli. Það sem maður veit ekki er oftast mikilvægara. Svo er einmitt í þessu máli. Þess vegna finnst mér gott að búa mér til lista yfir það sem ég veit ekki um málið:

 1. Hverjir vissu að um væri að ræða salt sem ekki væri ætlað til matvælaframleiðslu?
 2. Hvenær vissu þeir það?

Málið er grafalvarlegt. Mesti alvarleikinn felst þó ekki í hugsanlegum heilsufarsáhrifum og heldur ekki í því að slagorðið „Egils salt og appelsín“ gæti orðið langlíft. Mesti alvarleikinn felst í því að við búum við ónýtt kerfi. Svona lagað á einfaldlega ekki að geta gerst. Hér birtist enn það grunnmein sem leiddi okkur inn í hrunið 2008.

Það er sjálfsögð krafa að gerð verði opinber rannsókn á þessu saltmáli með það að meginmarkmiði að fá svör við spurningunum tveimur hér að framan. Hafi einhverjir brugðist skyldum sínum með því að búa yfir þessari vitneskju en bregðast ekki við, þurfa þeir að sæta ábyrgð lögum samkvæmt. Þannig komum við í veg fyrir að svona „aulagangur“ endurtaki sig.

(Myndin með þessum pistli er tekin af heimasíðu RÚV).