• Heimsóknir

  • 118.148 hits
 • desember 2022
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Leiðtogastéttin og almúginn

Fyrir nokkrum árum heyrði ég orðið „stjórnmálastétt“ í fyrsta sinn. Þá vissi ég að okkur hafði borið af leið, því að um leið og stjórnmálamenn eru farnir að tilheyra annarri stétt en almenningur, þá er lýðræðið í hættu.

Forseti Íslands er ekki stjórnmálamaður, eða á alla vega ekki að vera það, í það minnsta ekki á meðan hann sinnir forsetaembættinu. Forseti Íslands er leiðtogi. En þar er sama hætta uppi og í stjórnmálunum, að um leið og til verður eitthvað sem hægt er að kalla „leiðtogastétt“, þá er lýðræðið í hættu.

Ég vil að Þóra Arnórsdóttir verði næsti forseti Íslands. Fyrir því eru margar ástæður, en ein sú mikilvægasta er að Þóra tilheyrir hvorki „stjórnmálastéttinni“ né „leiðtogastéttinni“. Hún er bara venjuleg móðir á venjulegu heimili í venjulegri lífsbaráttu. Sem slík hefur hún alla burði til að skilja aðstæður venjulegs fólks, njóta trausts þess og geta talað máli þess.

Kjósum Þóru Arnórsdóttur sem forseta okkar allra 30. júní nk.

 

Hlutdrægt hlutleysi?

Þóra Arnórsdóttir opnaði kosningamiðstöðina sína í dag. Fjöldi manns var þarna saman kominn í góða veðrinu og líklega varð enginn fyrir vonbrigðum með ræðu frambjóðandans. Þar komu margir áhugaverðir punktar fram. Fjölmiðlar gerðu þessu allgóð skil, í það minnsta mbl.is, visir.is og Stöð 2. Hins vegar vakti það athygli margra að ekkert var minnst á þennan viðburð í kvöldfréttum RÚV.

Eðlilega þarf RÚV að gæta fyllsta hlutleysis í umfjöllun sinni um forsetaframbjóðendur. Í þetta sinn er starfsmönnum þar á bæ þó sérstakur vandi á höndum, þar sem frambjóðandinn Þóra starfaði þar til skamms tíma eins og flestum er kunnugt. En þá vaknar sú spurning hvort hlutleysið geti gengið svo langt að jaðri við hlutdrægni, þ.e.a.s. hvort starfsfólk RÚV gæti þess sérstaklega að segja ekki frá viðburðum í kosningabaráttu Þóru, jafnvel þótt tíðindum sem tengjast meðframbjóðendum hennar séu gerð þokkaleg skil. Spurningin verður jafnvel enn áleitnari eftir innlit á forsetakosningasíðu RÚV, (sjá mynd neðst í þessum pistli).

Svona spurningum hlýtur náttúrulega hver að svara fyrir sig, því að það samræmist varla hlutleysisstefnu RÚV að standa í rökræðum um þetta. Sömuleiðis hlýt ég að svara þessari spurningu fyrir sjálfan mig. Svarið er tvíþætt:

 1. Ég hef engar áhyggjur af meintu hlutdrægu hlutleysi RÚV. Þar á bæ vinnur fagfólk sem gerir sitt besta í þessu máli sem öðrum.
 2. Auðvitað skiptir umfjöllun fjölmiðla um forsetaframbjóðendur einhverju máli. En Þóra kynnir sig best sjálf. Það mun hún m.a. gera í Landnámssetrinu í Borgarnesi annað kvöld, þriðjudagskvöldið 29. maí kl. 20:00. Það verður fyrsti fundur hennar með kjósendum eftir fæðingu dótturinnar og sá fyrsti eftir vel heppnaða opnun kosningamiðstöðvarinnar. Hvet fólk til að mæta snemma og ná góðum sætum á söguloftinu! Svo er líka upplagt að skoða kosningasíðunna hennar, www.thoraarnors.is.

Kannski vakna fleiri spurningar, t.d. hvers vegna ég sé einlægur stuðningsmaður Þóru Arnórsdóttur. Ástæðan er í stuttu máli sú, að af öllu því góða fólki sem gefið hefur kost á sér treysti ég henni best til að fá okkur til að rétta úr bakinu og horfa fram á veginn í stað þess að hjakka í sama farinu. Ég treysti henni best til að vera tákn sameiningar í stað sundrungar. Sjálfsagt skrifa ég meira um þetta síðar, t.d. eitthvað um leiðina yfir á fljótsbakka framtíðarinnar.

Skjámynd af kosningavef RÚV 28. maí 2012.