• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • mars 2023
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupaannáll 2022 og markmiðin 2023

Enn held ég uppteknum hætti að skrifa einhvers konar áramótauppgjör að nýliðnu hlaupaári, (eða að tiltölulega nýliðnu hlaupaári). Ég hef reyndar stundum verið spenntari fyrir þessu ritunarverkefni en núna, sem endurspeglar einfaldlega þá tilfinningu að nýliðið ár hafi verið erfitt hlaupaár og að talsverð óvissa ríki um hvað nýtt hlaupaár muni bera í skauti sér. Þessi hlaupaannáll er sá 16. í röðinni, þannig að bráðum fer þetta líklega að fylla heila bók. Sú bók yrði þó tilbreytingarlítil aflestrar, þar sem pistlarnir eru frekar líkir hver öðrum.

Í stuttu máli
Hlaupaárið 2022 byrjaði bara nokkuð vel. Ég hafði þá verið að stækka vikuskammtana smátt og smátt frá því seint í október og var kominn í 45 km/viku um áramót. Reiknaði með að halda áfram á svipuðum nótum og vera kominn í 70 km seint í febrúar. Það fór þó á annan veg, því að í byrjun febrúar fékk ég einhverja slæmsku í bakið sem sló mig talsvert út af laginu. Í byrjun mars fór ég svo að finna til innanvert í hægra hnénu og sá kvilli fylgdi mér nánast út árið og kom í veg fyrir markvissar æfingar og framfarir. Við tóku 8 mánuðir þar sem hlaupaæfingar lituðust af verkjum og takmarkaðri hlaupagetu. Ég komst þó í gegnum þrjú keppnishlaup um sumarið og átti nokkrar góðar stundir í fjallvegahlaupum, þó að líkamlegt form væri þá orðið það slakasta í áraraðir. Um haustið hélt ég uppteknum hætti, allt þar til ég áttaði mig á því í byrjun október að eitthvað þyrfti að breytast. Þá ákvað ég að taka mér 12 vikna frí frá hlaupum og setja allt mitt traust á styrktaræfingar. Það virkaði vel og einhvern tímann í byrjun desember var ég hættur að finna til í hnénu. Þann 29. desember voru 12 vikurnar liðnar og ég náði að ljúka hlaupaárinu með tveimur verkjalausum hlaupum, að vísu mjög hægum, og gat tekið bjartsýnn á móti nýju ári.

Æfingarnar 2022
Eins og fyrr segir byrjaði árið vel og janúar gekk áfallalaust fyrir sig. Ég náði m.a. að hlaupa þrjá Háfslækjarhringi í góðum félagsskap og náði tvisvar upp á topp á Hafnarfjallinu. Hafði aldrei áður heimsótt toppinn í janúar. Reyndar fannst mér ég alltaf heldur þungur, sérstaklega í brekkum. Samtals hljóp ég 208 km í mánuðinum – og þegar upp var staðið reyndist þetta lengsti mánuður árisns. Þann 9. febrúar byrjaði svo eitthvert vesen í bakinu á mér, sem leiddi niður í vinstri nára og niður framanvert vinstra lærið. Ég gat svo sem hlaupið eftir sem áður, en næstu þrjár vikur svaf ég lítið fyrir verkjum. Svoleiðis tekur sinn toll og þessar vikur hljóp ég lítið sem ekkert. Þann 1. mars skrifaði ég eftirfarandi á Strava eftir 8 km skokk um heimabyggðina á Hvanneyri:

Staðan er enn slæm. En ég get alveg hlaupið þegar bugunin víkur frá mér smástund. Þetta skokk var t.d. eintóm gleði, enda skein sólin til að byrja með og frosinn klaki brakaði undan nöglunum í skónum. Þessar þrjár vikur orsaka líklega 6-7 vikna seinkun í æfingaferlinu, en fregnir af andláti og útför komandi hlaupasumars eru stórlega ýktar.

Staðan versnaði svo enn frekar 12. mars í frekar löngu æfingarhlaupi. Reyndar leit þetta sakleysislega út til að byrja með:

Eitthvað slæmur innanvert í hægra hné líka, sem er óvenjulegt.

Þetta hnjávesen, sem virtist sakleysislegt í byrjun, átti eftir að fylgja mér næstum til áramóta og gerði það að verkum að ég náði aldrei að æfa almennilega og gat hvorki hlaupið langt né hratt, þrátt fyrir næstum óteljandi tíma hjá Halldóru sjúkraþjálfara og Guttormi naprapata. Þau voru bæði sammála um að vandamálið væri ekki í liðnum sjálfum, heldur hlyti það að liggja í aðliggjandi vöðvum og sinum. Halldóra taldi vandamálið vera þar sem liðbandið innan á hnénu festist á brjóskið. Guttormur sagði að orsökin lægi í bakinu. Segulómun hefði verið gagnleg til að greina vandann af meiri nákvæmni, en á þessum tíma var margra vikna bið eftir tíma hjá heilsugæslulækni og engin leið að komast í segulómum án þess að byrja þar.

Næstu tvær vikur hljóp ég næstum ekki neitt en lét mig svo hafa það eftir hvatningu frá Guttormi sem sagði að þetta væru „sterkir strúktúrar“ og að ég væri ekki að fara að skemma neitt. Enda skemmdist ekki neitt þótt ég hlypi, var bara „vont allan tímann, en gerlegt“, eins og ég skrifaði á Strava í lok mánaðarins. Apríl og maí voru svipaðir, ég var sæmilega duglegur að taka styrktaræfingar og fannst þær skila einhverju. En hnéð var samt alltaf svipað. Yfirskriftir hlaupaæfinganna minna á Strava bera vott um það, t.d. „Kvalræðisskokk“, „Já, neinei“, „Smávegis vonbrigðaskokk“, „Leitað að léttleika“ og „Einn af þessum dögum“. Seint í apríl tók ég mér algjört frí frá hlaupum í þrjár vikur. Þá var staðan orðin svo slæm að ég gat með harmkvælum skokkað á 7 mín/km. En hléið skilaði svo sem engu. Var kannski aðeins skárri á fyrstu æfingunni eftir hlé, en svo sótti allt í sama farið. Þegar þarna var komið sögu skráði ég mig úr Laugaveginum og einhverjum fleiri hlaupum sem ég hafði skráð mig í.

Seint í júní komst ég loks í segulómun. Niðurstöðurnar pössuðu vel við það sem áður hafði komið fram; liðurinn sjálfur var fínn, en smávegis bólga (tendinitis) í liðbandinu innan á hnénu.

Júlí og ágúst voru bestu hlaupamánuðir ársins. Hnéð var reyndar alltaf með vesen en mér tókst samt að renna nokkuð þægilega í gegnum fimm fjallvegahlaup, enda álagið þar oftast frekar lítið. Tók líka þátt í þremur keppnishlaupum utanvega; ekki af því að mér fyndist ég í standi til þess, heldur vegna þess að mér hafði verið boðið eða að ég hafði tekið einhvern þátt í undirbúningnum og fannst þess vegna tilheyra að vera með.

Um 20. ágúst var ég búinn að átta mig á að ekki yrðu unnin frekari afrek þetta sumarið. Því ákvað ég að byrja undirbúning fyrir frábært hlaupasumar 2023, sem fólst aðallega í að taka miklu fleiri styrktaræfingar en áður. Ofast tók ég þessar æfingar heima, þær byrjuðu yfirleit upp í rúmi um leið og ég var vaknaður á morgnana og tóku allt niður í 10 mínútur. Með þessu tók ég svo hlaupaæfingar annað slagið og reyndi m.a. að mæta á Flandraæfingar þegar þær voru byrjaðar í byrjun september.

Eftir góða en sársaukafulla Flandraæfingu 6. október varð mér loksins ljóst að tilgangslaust væri að halda áfram svona, hnéð var alltaf svipað – og stundum verra. Lengst af hafði ég gengið út frá því að hlaupin skemmdu ekki neitt, en samt var ég alltaf verstur daginn eftir hlaup sem voru meira en í meðallagi erfið. Ég tók því yfirvegaða ákvörðun um 12 vikna hlaupabann sem skyldi gilda til 29. desember. Bætti þess í stað enn í styrktaræfingarnar og frá og með 21. nóvember tók ég æfingu á hverjum einasta degi til áramóta. Fór líka smátt og smátt að taka örstuttar hlaupaæfingar á brettinu í bílskúrnum í mesta fáanlega halla og fann þá merkilegt nokk aldrei til í hnénu. Síðan fór ég líka að labba afturábak uppímóti á brettinu að ráði Þorkels frumburðar, sem hefur kynnst ýmsu í sambandi við íþróttameiðsli og hlaupaþjálfun.

Á Flandraæfingu 6. október. (Síðasta æfingin mín með öðru fólki þetta árið). (Ljósm. Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir)

Í byrjun nóvember datt Halldóru sjúkraþjálfara í hug að mæla styrkinn í vöðvunum framan (quadriceps) og aftan (hamstring) á lærunum til að leita að misræmi. Fyrsta mælingin var gerð 4. nóvember og sýndi afdráttarlausa niðurstöðu: Framlærisvöðvarnir hægra megin reyndust sem sagt 15% máttlausari en vinstra megin, en aftan á lærunum snerist dæmið við. Þar var vinstri 25% máttlausari en hægri. Þetta rímaði mjög vel við einkennin, þ.e.a.s. verk innan á hægra hné og stíft framlæri vinstra megin. Eftir þetta breytti ég styrktaræfingunum þannig að þar væri aðalaáherslan á að styrkja veikari svæðin (hægri fram og vinstri aftur) á meðan sterkari hlutarnir voru nánast í fríi. Sex vikum síðar höfðu veikari svæðin styrkst um 36-49% en hin nánast staðið í stað. Ég tók þetta sem sönnun á gagnsemi tíðu styrktaræfinganna minna, jafnvel þótt þær væru næstum allar gerðar heima og án þyngda. Um leið fylltist ég bjartsýni á framhaldið.

Einhvern tímann snemma í desember var hnéð alveg hætt að angra mig og þann 29. des. lauk 12 vikna hlaupabanninu. Þann dag hoppaði ég inn í hlaupaprógamm frá Jack Daniels með miklu hægari hlaupum en ég hef nokkurn tímann nennt að stunda, næstum allt miðað við að halda púlsinum undir ákveðnu marki, í mínu tilviki t.d. undir 130 slög/mínútu. Fyrsta æfingin var framkvæmd í 18 stiga frosti, en gleðin yfir því að vera byrjaður aftur gerði miklu meira en að vega upp á móti kuldanum. Fann ekkert til í hægra hnénu, en var stífur framanvert í vinstra lærinu. Sá stífleiki hafði fylgt mér nánast allt árið og var farinn að venjast. Eftir þessa æfingu skrifaði ég:

Formið náttúrulega alveg farið, en það kemur fljótt ef skrokkurinn gefur mér frið til að æfa. Stígandi næstu vikna verður hægur, en ef allt gengur vel ætti grunnurinn að vera orðinn nógu góður í byrjun maí til að ég geti byrjað að æfa af einhverju viti.

Og þar með lauk þessu ári. Samanlögð hlaupavegalengd varð ekki nema 1.150 km, sem er það stysta síðan 2006 að bakmeiðslaárinu 2018 frátöldu. En ætli leiðin liggi ekki bara upp á við héðan? Alla vega var ég bjartsýnn á framhaldið í lok árs og ánægður með að hafa fundið mér nýja nálgun fyrir hlaupaæfingarnar. Og styrktaræfingarnar halda áfram. Þar er enn misræmi sem ástæða er til að leiðrétta – og svo verður fróðlegt að mæla styrkinn í þriðja sinn, t.d. í febrúar.

Keppnishlaupin
Þegar leið að vori vissi ég að keppnishlaupin yrðu hlaupin meira af vilja en mætti þetta árið. Í samræmi við það tók ég bara þátt í þremur hlaupum, sem mér var annað hvort boðið í eða sem tengdust mér á annan hátt. Ég taldi mig fara í þessi hlaup með raunhæfar væntingar, en í hreinskilni sagt kom mér á óvart hversu lítil getan var orðin eftir langvarandi meiðslavesen og takmarkaðar æfingar. Árangurinn var sem sagt undir þessum „raunhæfu væntingum“, sem voru vonbrigði út af fyrir sig. Þakklætið fyrir að geta samt verið með í þessum hlaupum var samt alltaf ofar í huganum en vonbrigðin.

Líðanin í þessum hlaupum og eftir þau fékk mig til að hugsa enn meira en áður um þessa fínu línu á milli þess að sætta sig við alla uppskeru hversu lítil sem hún er og þess að finna til óánægju þegar uppskeran er undir væntingum. Kannski skrifa ég langan pistil um þessa fínu línu einhvern tímann seinna, en í stuttu máli finnst mér samfélagið gera einum of mikla kröfu um að fólk á mínum aldri hætti að setja sér markmið og sé bara endalaust þakklátt fyrir að geta eitthvað. Fólk á mínum aldri er orðið hálfsjötugt og þarf auðvitað að gera sér grein fyrir að það getur ekki náð sama árangri í líkamlegum kúnstum á borð við hlaup eins og það náði fyrir nokkrum árum eða áratugum. Vissulega er ég innilega þakklátur fyrir að geta enn, svona oftast nær, hlaupið allmarga kílómetra þegar mig langar til og verið fljótari að því en flestir á mínu reki. Og vissulega eru markmiðin mín orðin allt önnur en þau voru. En hvað sem „mínum aldri“ líður ætla ég að halda áfram að setja mér markmið og verða pínulítið svekktur ef ég næ þeim ekki, svona um leið og ég passa mig að vera „rólegur á vanþakklætinu“ eins og ég kýs að kalla það. Um leið og maður hættir að setja sér markmið og um leið og maður er óendanlega glaður yfir öllum árangri sem maður nær, bara vegna þess að maður er kominn á einhvern tiltekinn aldur, byrjar niðurleiðin að verða brött.

Það varð sem sagt ekkert úr því að ég „hefndi mín“ á Henglinum og Vörðuskeggja, eins og ég var staðráðinn í að gera eftir svaðilförina á þeim slóðum vorið 2021. Fyrsta keppnishlaupið mitt sumarið 2022 var Dyrfjallahlaupið (24 km) 9. júlí, en því gat ég einfaldlega ekki sleppt. Eins og ég skrifaði í bloggpistli eftir hlaup er náttúran þarna fyrir austan „einfaldlega of stórkostleg til að njóta hennar ekki – og yfirbragðið á hlaupinu […] líka einhvern veginn þannig að manni getur ekki annað en liðið vel í sálinni, þó að líkaminn sé kannski frekar þvældur„. Í stuttu máli varð þetta stórskemmtilegur dagur. Sjálfur aðdragandinn var líka skemmtilegur, m.a. vegna þess að þar slóst ég í för með Jósepi Magnússyni, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi, sem er „ekki bara einn af öflugustu og reyndustu langhlaupurum landsins, heldur […] líka talsvert lausari við áhyggjur og smámunasemi en annað fólk„. Ég slóst reyndar ekkert í för með honum í hlaupinu sjálfu, enda náði hann fjórða sæti, var rúmum klukkutíma á undan mér í mark og þegar hann sótti mig að hlaupi loknu var hann búinn að skokka 11 km lengst inn í sveit til að ná í bílinn sinn sem hann hafði skilið eftir hjá rásmarkinu. Fyrirfram hafði ég vonast til að geta klárað hlaupið á svo sem korteri lengri tíma en árið áður, en þegar upp var staðið höfðu 10 mínútur bæst þar ofan á. Lokatíminn var 3:10:54 klst, sem skilaði mér í 46. sæti af 115 manns sem luku hlaupinu. Einhver spurði mig hvort ég hefði ekki unnið minn aldursflokk. Það getur svo sem vel verið. Alla vega var ég langelsti þátttakandinn í hlaupinu. Og ég var bara hæstánægður með þetta allt saman – og enn ánægðari þegar Sara tengdadóttir kom í markið rétt á eftir mér. Þátttaka og nærvera fólks úr fjölskyldunni gerir allt betra!

(Myndina efst í þessum pistli tók Þorsteinn Roy Jóhannsson í Dyrfjallahlaupinu, þegar ég var að koma af Víknaheiði niður í Breiðuvík, sæmilega brattur).

Næsta keppnishlaup var Pósthlaupið vestur í Dölum 6. ágúst. Lengsta hlaupið var 50 km spotti frá Staðarskála að Búðardal – og auðvitað langaði mig til að geta hlaupið alla þá leið. En ég vissi að sú vegalengd var handan skynsemismarka og lét mér því nægja að taka síðustu 26 kílómetrana ofan úr Haukadal. Ég var staddur á Hólmavík helgina sem hlaupið fór fram og ók þaðan í Dalina með Birki bónda í Tröllatungu, sem hefur verið einn minn allra besti hlaupafélagi síðustu 15 árin. Sá félagsskapur bætti gleði við daginn, sem þó var gleðilegur fyrir. Fyrstu 16 km voru hlaupnir eftir vegi og á þeim kafla gekk mér bara vel og náði að halda meðalhraða upp á 5:19 mín/km, kannski aðeins hægar en ég ætlaði en samt allt í lagi. Síðustu 10 km voru hins vegar miklu erfiðari, bæði vegna þess að undirlagið var erfiðara og vegna þess að ég var eðlilega ekki í neinu formi fyrir löng hlaup. En þetta var samt gaman! Ég komst alheill og glaður í markið á 2:30:35 klst, í 11. sæti af 35 keppendum, á u.þ.b. 12 mínútum lengri tíma en ég hafði gert mér vonir um, en líkaminn skemmdist ekki neitt og veðrið var gott. Og aftur var ég elsti keppandinn. Er fullorðið fólk bara alveg hætt að mæta í svona hlaup, eða hvað!?

Ég get reyndar ekki sagt skilið við Pósthlaupið án þess að minnast á móttökurnar og gleðina við marklínuna í Búðardal. Þar var gleði, gestrisni og sólskin í hverju augnabliki.

Þriðja og síðasta keppnishlaup sumarsins var svo Trékyllisheiðin 13. ágúst. Þar langaði mig auðvitað að hlaupa alla leið úr Trékyllisvík til Steingrímsfjarðar (48 km) eins og árið áður, en eðlilega varð styttra hlaupið, 16,5 km af Bjarnarfjarðarhálsi niður í Selárdal, að duga. Reyndar fékk ég tækifæri til að skreppa norður í Trékyllisvík að morgni hlaupadags til að ræsa lengra hlaupið. Sú ferð gerði daginn bara eftirminnilegri og spillti á engan hátt fyrir. Styttra hlaupið var svo ræst á Bjarnarfjarðarhálsi kl. 13:00. Keppendurnir voru 32 talsins og ég átti von á að verða rétt framan við miðju. Lengi framan af var ég samt í 4. sæti í hlaupinu og þegar ég leit til baka eftir nokkra kílómetra sá ég ekkert til mannaferða. Það fannst mér alveg stórundarlegt.

Í þessu hlaupi var ég auðvitað með einhverja áætlun, eins og í öllum öðrum hlaupum. Mig langaði sem sagt að vera í mesta lagi 1:30 klst að klára hlaupið og til þess fannst mér líklegt að ég þyrfti að klára fyrri hlutann undir 50 mín. Þessi fyrri hluti voru 8,4 km að drykkjarstöð á vegamótunum við aðal-Trékyllisheiðarleiðina, inn af Sunndal. Þaðan voru svo 8,2 km í mark, sem ég taldi að ætti að taka u.þ.b. 10 mín styttri tíma.

Nokkru áður en ég kom að drykkjarstöðinni sá ég að ég var ekki lengur alveg einn því að Inga Dísa, ein af mínum bestu hlaupafélögunum, var farin að draga verulega á mig. Við drykkjarstöðina sýndi klukkan 52:03 mín og þá vissi ég að allt tal um „sub-1:30“ var orðið óraunhæft, þó að vissulega væri seinniparturinn undan fæti. Ég lét drykkina á stöðinni eiga sig, enda að mínu mati óþarft að nærast í hlaupi sem tekur langt innan við tvo tíma. Inga Dísa staldraði hins vegar eitthvað við og ég var aftur orðinn einn í 4. sætinu.

Ferðalagið niður af heiðinni gekk bara ágætlega, en meiðslin mín gerðu það samt að verkum að ég gat ekki beinlínis „bombað“ niður brekkurnar. Inga Dísa dró á mig smátt og smátt og skildi mig svo eftir þegar við komum upp úr Selánni og áttum 1200 m eftir í mark. Ég var ekki beinlínis þreyttur á þessum kafla, en annað hvort voru vöðvarnir í fótunum hættir að taka við taugaboðum eða skildu þau ekki. Allt varð blýþungt, en þetta hafðist nú samt og lokatíminn varð 1:36:04 klst. Það dugði í 3. sæti hjá körlum og 5. sæti alls.

Auðvitað langar mig til að geta hlaupið miklu hraðar en ég gerði þennan dag, en ég var samt hæstánægður með þetta allt saman. Og samveran og veitingarnar á marksvæðinu gerðu góðan dag enn betri.

Með Sigurjóni Svavarssyni og Guðbirni Einarssyni á palli í Selárdal eftir stutta Trékyllisheiðarhlaupið. (Ljósm. Viktoría Rán Ólafsdóttir)

ITRA-stigin
Ég hef tekið sérstöku ástfóstri við styrkleikalista Alþjóðautanvegahlaupasambandsins (ITRA (International Trail Running Association)), enda nýtist hann mér einkar vel til að setja mér markmið í utanvegahlaupum – og gerir um leið mögulegt að bera hlaupin saman hvert við annað. Í ársbyrjun var ég með 586 ITRA-stig, en stigafjöldinn reiknast út frá vegnu meðaltali fimm bestu ITRA-hlaupa síðustu 36 mánuði. Og helst vil ég náttúrulega ekki lækka mikið í stigum á milli ára. Keppnishlaup ársins hjálpuðu mér ekkert í þeirri viðleitni. Dyrfjallahlaupið gaf 502 stig, Pósthlaupið 521 stig og Trékyllisheiðin 510 stig, allt sem sagt býsna svipað. Það vill hins vegar svo vel til að besta hlaup síðustu 36 mánaða vegur þyngst í meðaltalinu og þess vegna lækkaði stigatalan mín bara niður í 583 stig þrátt fyrir risjótt gengi hvað þetta varðar. Í fyrra fékk ég 604 stig út úr Dyrfjallahlaupinu og „lifi“ á því enn. Árið 2024 má ég hins vegar búast við verulegri lækkun ef ekkert verður að gert, því að þá dettur þetta hlaup út af 36 mánaða listanum.

Skemmtihlaupin
Hið hér um bil árlega Uppstigningardagshlaup var hlaupið 26. maí, en síðan árið 2010 höfum við hjónin boðið í hálfmaraþon og mat á uppstigningardag ár hvert (að árinu 2021 frátöldu). Hingað til hefur hlaupaleiðin alltaf verið hinn sívinsæli Háfslækjarhringur með upphaf og endi í Borgarnesi, en nú lá leiðin um nágrenni Hvanneyrar þangað sem við hjónin fluttum haustið 2021. Nú var sem sagt hlaupið „niður í Land“ eins og heimamenn kalla það – og svo Andakílshringurinn upp að Skorradalsvatni. Við lögðum at stað 8 saman, en ég varð reyndar að láta mér nægja að skokka með fyrstu kílómetrana. Maí var ekki góður hnémánuður. Og hin hefðbundna heitapottsferð að hlaupi loknu féll niður, þar sem enginn pottur var til staðar. Það mál er í vinnslu.

Í garðinum heima eftir Uppstigningardagshlaupið 2022. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir)

Í fyrsta sinn var ég ekki með í Hamingjuhlaupinu á Hólmavík, sem jafnan er hlaupið í tengslum við Hamingjudagana þar í bæ. Að þessu sinni rákust þeir á við hátíðarhöld í fjölskyldunni minni.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2022 var sjötta sumar síðari hluta fjallvegahlaupaverkefnisins míns. Fyrstu fimm sumrin tókst mér að ljúka 18 hlaupum, sem var nokkuð undir pari því að meðaltali miða ég þetta við fimm hlaup á ári. Sumarið 2022 náði ég að halda í horfinu, en ekkert umfram það. Þetta sumar bættust fimm hlaup til viðbótar í safnið, þannig að nú er talan frá upphafi komin í 73 (50+23). Það þýðir að ég þarf að hlaupa næstum 7 fjallvegi að meðaltali næstu fjögur sumur.

Fjallvegahlaup sumarsins voru hlaupin í tveimur lotum. Fyrri lotuna tók ég á Austurlandi í byrjun júlí, þegar ég var þar staddur í sumarfríi með fjölskyldunni. Fyrsta hlaupadaginn, laugardaginn 2. júlí, ætlaði ég að leggja tvo fjallvegi að baki, þ.e.a.s. Kækjuskörð milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar og síðan Tó þaðan og yfir í Eiðaþinghá. Vegna þoku reyndist þetta ómögulegt, eða alla vega óskynsamlegt, þannig að þessar leiðir bíða betri tíma. Í staðinn tók ég skyndiákvörðun um að hlaupa Fjallsselsveg frá Skeggjastöðum í Jökuldal að Fjallsseli í Fellum, tæplega 19 km leið. Reyndar er Fjallsselsvegur eiginlega enginn vegur, fyrr en komið er upp á háheiðina í 660 m hæð. Þaðan liggur slóði til byggða í Fellum. Þegar á heildina er litið fer þessi fjallvegur ekki hátt á vinsældalistann. Til þess er undirlagið Jökuldalsmegin of erfitt. En það er alltaf gaman að hlaupa í góðum félagsskap. Þennan dag var það minn góði hlaupavinur Birkir bóndi sem sá um félagsskapinn og Birgitta mín sá um fólksflutningana. Þau hafa bæði komið mikið við sögu í fjallvegahlaupaverkefninu.

Með Birki við Fjallssel í Fellum að loknu hlaupi um Fjallsselsveg. (Ljósm. Birgitta Stefánsdóttir)

Næst lá leiðin um Aðalbólsveg frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal að Kleif í Fljótsdal, samtals um 23,5 km. Þetta hlupum við fimm saman 5. júlí – og svo bættust tvær við þegar komið var upp á Fljótsdalsheiðarveginn, eða Kárahnjúkaveg eins og hann er oftast kallaður. Hrafnkeli Freysgoða þótti Fljótsdalsheiði vera „yfirferðarill, grýtt mjög og blaut“, en leiðin sem við fórum var líklega sýnu þurrari en leið Freysgoðans. Í stuttu máli er samt leitun að blautari fjallvegum, en þarna eru stígar ógreinilegir á köflum og því kunna aðrir að hitta á þurrari leið en þá sem við fórum. Þrátt fyrir þetta er vel hægt að mæla með þessari leið fyrir þá sem þola vel að vökna. Þarna býr mikil saga og margt fallegt ber fyrir augu. Það sem stóð þó upp úr í þessari ferð var að við hittum fræðimanninn og sagnaþulinn Pál á Aðalbóli. Hann vísaði okkur á leið yfir ána Hrafnkelu, en eftir nokkrar vangaveltur var síðan ákveðið að hann myndi skutla okkur yfir ána á sexhjóli. Þegar það mál var í höfn sagði hann – og hló við – að við hefðum líklega drukknað ef við hefðum vaðið þar sem hann lagði upphaflega til. Ár eins og Hrafnkela eiga það til að breyta sér.

Á hjólinu með Páli á Aðalbóli. (Ljósm. Ragnhildur Aðalsteinsdóttir)

Þriðja og síðasta leiðin fyrir austan var svo Dalaskarð á milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, nánar tiltekið úr Austdal í Seyðisfirði yfir í Daladal í Mjóafirði. Þetta var sannkallað fjölskylduhlaup, því að við fórum það þrjú saman, ég, dóttirin Birgitta og tengdadóttirin Sara. Reyndar var þetta á köflum meira klifur en hlaup. Leiðin er nefnilega snarbrött, sérstaklega efst uppi. Og þegar við komumst á toppinn sáum við ekkert niður Mjóafjarðarmegin, nema þoku sem náði neðan úr Daladal og upp að tánum á okkur þar sem við stóðum á klettabrúninni og höfðum ekki hugmynd um hvar vaninn væri að klöngrast niður. Það tókst farsællega, en líklega hentar leiðin hvorki óvönum né lofthræddum. Og svo er örugglega best að vera þarna á ferð þegar ekki er þoka. Þetta var samt fullkominn dagur.

Sara og Gitta rétt ókomnar upp í Dalaskarð Seyðisfjarðarmegin. (Þokan lá í leyni hinum megin við skarðið).

Síðustu tvö fjallvegahlaup sumarsins hljóp ég með landsliðshlauparanum Rannveigu Oddsdóttur í einstakri veðurblíðu þriðjudaginn 16. ágúst, yfir Strjúgsskarð (13 km) og Gyltuskarð (18 km), þ.e.a.s. frá Strjúgsstöðum í Langadal innan við Blönduós, yfir Strjúgsskarð og Laxárdal fremri, um Litla-Vatnsskarð, yfir Víðidal í Staðarfjöllum og loks yfir Staðarfjöll niður að Reynistað í Skagafirði, skammt innan við Sauðárkrók. Þetta var besti hlaupadagurinn minn þetta árið, bæði mælt í kílómetrum og almennri líðan. Það að upplifa frelsið og náttúruna sem umlykur mann á svona degi er nóg ástæða til að þrauka í gegnum erfiðar æfingar og þráláta verki flesta hina dagana.

Með Rannveigu við Strjúgsstaði að morgni hlaupadags. Stjrúgsskarð í baksýn. (Ljósm. Þorkell Stefánsson).

Ferðasögurnar úr fjallavegahlaupunum og fróðleikur um leiðirnar tínist smám saman inn á vefsvæði Fjallvegahlaupaverkefnisins míns.

Persónumetin
Eftir því sem árin hlaðast á mann verður erfiðara að finna sér einhver persónuleg met til að bæta. Ef vel er leitað má þó lengi finna eitthvað. Eftirfarandi listi sýnir þau persónuleg met (PB) frá árinu 2022 sem mér tókst að grafa upp í fljótu bragði:

  1. Flestar styrktaræfingar á einu ári: 124 stk. Fyrra met 68 stk. 2018.
  2. Lengsta samfellda æfingalota: 71 dagur 21. okt. – 31. des. Fyrra met ekki skráð.

Náðust markmiðin?
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2022 og náði engu þeirra. Í fyrsta lagi ætlaði ég að bæta mig um klukkutíma í 53 km Hengilshlaupinu (6:34:09 klst). En ég mætti náttúrulega ekkert í hlaupið vegna meiðsla. Í öðru lagi ætlaði ég að hlaupa Laugaveginn undir 6 klst. Mætti ekki þar heldur. Í þriðja lagi ætlaði ég að ná 50.000 hæðarmetrum á árinu, en náði bara 23.819. Náði þó alla vega 12 sinnum upp á topp á Hafnarfjallinu og hef bara einu sinni farið fleiri ferðir á einu ári. Í fjórða lagi ætlaði ég að vera með 586 ITRA-stig í árslok, endaði í 583. Og í fimmta lagi var markmiðið að hafa gleðina með í öllum hlaupum. Ég tel mig hafa verið nálægt því að ná þessu markmiði, en þó man ég eftir æfingum síðla vetrar þar sem gleðin vék alfarið fyrir verkjum og almennri vesöld.

Markmiðin 2023
Í ljósi þess hvernig æfingar gengu fyrir sig á árinu 2022 ætla ég, svona rétt til tilbreytingar, að sleppa markmiðssetningum fyrir árið 2023 að mestu leyti. Eina markmiðið sem fær að halda sér er að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. En ef ég næ að mæta í einhver keppnishlaup mun ég hiklaust setja mér markmið fyrir viðkomandi hlaup, að teknu tilliti til stöðunnar eins og hún er þann daginn. Án markmiða verða hlaupin bragðlausari.

Hlaupadagskráin mín 2023
Þrátt fyrir allt er ég búinn að skrá mig í þrjú hlaup sumrið 2023, svo sem ráða má af eftirfarandi upptalningu. Í tveimur þeirra átti ég gamlar skráningar sem ég hafði fengið að færa á milli ára og svo er eiginlega skyldumæting í það þriðja. Og svo stefni ég auðvitað að einhverjum fjallvegahlaupum og er tilbúinn að nefna sjö þeirra nú þegar. Formleg fjallvegahlaupadagskrá fyrir sumarið 2023 hefur hins vegar ekki litið dagsins ljós.

  1. Vestmannaeyjahringurinn (Puffin Run) 6. maí
  2. Eitt fjallvegahlaup suðvestanlands um miðjan maí
  3. Hengillinn (26 km) 10. júní
  4. Fimm fjallvegahlaup á Hornströndum 4. og 5. júlí
  5. Trékyllisheiðarhlaupið (26 km, (ný vegalengd)) 12. ágúst
  6. Fjallvegahlaup um Mosa (Frá Neðri-Brekku í Saurbæ í Bitrufjarðarbotn) 11. september (þegar 115 ár verða liðin frá fæðingu pabba)

Svo þróast þetta bara einhvern veginn.

Ætli þessi mynd hafi ekki verið tekin á þriggja ára keppnis-afmælinu, sem sagt 1975. 🙂

Þakklætið
Þann 19. ágúst 2022 átti ég 50 ára keppnisafmæli sem hlaupari, því að þá var liðin hálf öld frá fyrstu hlaupakeppninni minni á Sævangsvelli við Steingrímsfjörð. Fyrsta keppnishlaupið var reyndar 100 m hlaup, sem er ekkert sérstaklega eftirminnilegt nema kannski fyrir holu á miðri leið þar sem túnið var illa kalið. Ég vil miklu frekar miða upphafið við 800 m hlaupið seinna sama dag. Þar fannst mér ég vera á réttri hillu, en var líklega lítið farinn að hugsa um landvinninga í miklu lengri hlaupum. Ég hef áður skrifað um þetta upphaf og ætla svo sem ekkert að endurtaka það hér. En vitneskjan um að ég hafi notið þess í 50 ár með litlum hléum að stunda þetta áhugamál kallar fram stóran þakklætisskammt í huganum. Mér finnast það algjör forréttindi að hafa mátt eiga svona langa hlaupaæfi og ég mun svo sannarlega gera það sem í mínu valdi stendur til að lengja hana enn frekar. Og það eru líka forréttindi að hafa fengið að vera samtíða fólki sem hefur gert mér þetta mögulegt.

Árafjöldinn gefur ekkert tilefni til uppgjafar og ég mun halda áfram að reyna að finna lausnir á þeim hlaupatengdu vandamálum sem steðja að og verða smátt og smátt tíðari. Til að standa sig í þeim leik þarf mikla útsjónarsemi, þolinmæði og jafnvel þekkingu. Ég mun hér eftir sem hingað til reyna að nýta mér þann skammt sem ég á af þessum verðmætum og gera mitt besta til að útvega meira þar sem núverandi birgðir þrýtur.

Að tilheyra hópi

SA Mind forsíðaMargt fólk sem ég þekki tekur þátt í einhvers konar hópstarfi. Viðfangsefni hópanna eru ólík og sum þeirra geta jafnvel virst fáfengileg við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð getur það skipt sköpum fyrir okkur sem einstaklinga að vera hluti af einhverjum hópi, alveg sama hvort það er brönugrasaklúbbur, Kiwanis, kvenfélag, kór aldraðra, leshringur eða hlaupahópur. Rannsóknir benda nefnilega til að þeir sem finnast þeir tilheyra hópi eigi síður vanda til að leggjast í þunglyndi með tilheyrandi hættu á neikvæðum hliðarverkunum, þ.m.t. sjálfsvígum. Í ljósi þessara rannsókna hefur orðið „hópmeðferð“ eiginlega öðlast nýja merkingu. Meðferðin þarf sem sagt alls ekki að beinast að sjúkdómnum sjálfum, heldur getur hún verið fólgin í nánast hvers konar hópstarfi sem verkast vill, allt eftir aðstæðum og áhuga þess sem í hlut á. Þessari nýju tegund hópmeðferðar eru gerð ágæt skil í grein eftir Tegan Cruwys og félaga sem birtist í tímaritinu Scientific American Mind (SA Mind) á síðasta hausti, en ég rakst á þetta hefti á biðstofu læknis á dögunum innan um snjáð tölublöð af Nýju lífi frá árinu 2004. Ég er alls enginn fræðimaður á þessu sviði, en í þessum pistli ætla ég samt að tína til nokkur atriði úr þessari grein, enda hygg ég að innihald hennar eigi erindi við fleiri en þá sem lesa SA Mind reglulega.

Í grein Cruwys og félaga eru raktar niðurstöður nokkurra nýlegra rannsókna á mikilvægi hópkenndar fyrir andlega líðan fólks. Í greininni kemur fram að við meðferð við þunglyndi sé alla jafna gengið út frá því að vandamálið eigi rætur í einstaklingnum sjálfum. Þess vegna sé meðferð annað hvort ætlað að breyta efnaskiptum í heila eða hafa áhrif á viðhorf einstaklingsins til lífsins og tilverunnar. Reynslan sýni hins vegar að það séu yfirleitt utanaðkomandi atvik sem hrindi atburðarásinni af stað. Þannig megi rekja 60-90% allra þunglyndistilfella til einhvers konar missis, svo sem atvinnumissis, tapaðrar vináttu eða ástarsorgar. Auk þess banki þunglyndi helst á dyrnar hjá þeim sem búa einir.

Eftir því sem þekking manna á þunglyndi eykst verður augljósara hversu mikinn þátt félagsleg einangrun á í vandanum. Því er rökrétt að draga þá ályktun að aukin samskipti við annað fólk hafi forvarnargildi. Rannsókn Fabio Sani og félaga við háskólann í Dundee í Skotlandi á 194 einstaklingum leiddi hins vegar í ljós að galdurinn felst ekki í samskiptunum sem slíkum, heldur í eðli samskiptanna. Þáttakendur í rannsókninni voru annars vegar spurðir hversu mikið þeir hittu og töluðu við nánustu fjölskyldumeðlimi og hins vegar hversu miklu máli þeir teldu þessa fjölskyldu skipta sig. Í ljós kom að tíðni samskipta hafði ekki mikil áhrif á þróun þunglyndis, en samkennd með fjölskyldunni hafði hins vegar mikið forvarnargildi. Í því sambandi skipti ekki máli hvers konar „fjölskyldu“ var um að ræða. Í tiltekinni austur-evrópskri herdeild hafði það t.d. miklu meira forvarnargildi að finna til sterkra tengsla við félagana en það eitt út af fyrir sig að verja miklum tíma með þeim.

En það er ekki nóg að ganga bara í einhvern hóp. Hópurinn verður að skipta einstaklinginn máli. Það eitt að mæta á staðinn og spila fótbolta með einhverjum, stunda listsköpun, sauma eða stunda jóga virðist ekki hafa marktæk jákvæð áhrif. Það er samkenndin með hópnum sem gerir útslagið, þ.e.a.s. tilfinningin að vera hluti af þessum hópi. Almennt talað skiptir engu máli hvert viðfangsefni hópsins er. Frá þessu eru þó undantekningar ef um er að ræða hópa sem myndast t.d. utan um eiturlyfjaneyslu eða andfélagslega hegðun.

Rannsóknirnar sem Cruwy og félagar vísa í leiða ekki einasta í ljós mikilvægi hóptilfinningarinnar til að vinna gegn þunglyndi, heldur virðist það eitt að hugsa um hópinn sinn draga úr líkum á að smitast af veirum sem maður hefur komist í tæri við, gera mann síður móttækilegan fyrir áreiti og auka sársaukaþol.

Ein af þeim ályktunum sem hægt er að draga af samantekt Cruwys og félaga er að hægt væri að ná miklum árangri í forvörnum og meðhöndlun þunglyndis með því einu að fá viðkomandi einstaklinga til að ganga í einn eða fleiri hópa. Og þá skiptir nánast engu máli hvers konar hóp er um að ræða, svo fremi sem eintaklingurinn upplifir sig sem hluta af hópnum. Meðferð af þessu tagi getur að sjálfsögðu ekki komið að öllu leyti í stað annarra dýrari úrræða, en hún getur í það minnsta bætt árangur án verulegs aukakostnaðar fyrir einstaklinginn eða samfélagið og án aukaverkana. Hún getur auk heldur nýst í aðstæðum eða á svæðum þar sem um fá önnur úrræði er að ræða.

(Þessi pistill er byggður á: Tegan Cruwys, S. Alexander Haslam og Genevieve A. Dingle, (2014): The New Group Therapy. Scientific American Mind, Sept.-okt. 2014, (60-63)).

Nýr texti við Hallelúja Leonards Cohen

Borgarneskirkja 160Fyrr í vetur var ég beðinn um íslenskan texta við lag Leonards Cohen, Hallelúja, til flutnings á Þorláksmessutónleikum í Borgarneskirkju. Tónleikarnir voru í kvöld og þar var þessi texti sunginn í fyrsta sinn af þeim Jóhönnu Stefánsdóttur, Birnu Karen Einarsdóttur, Bjarna Waage og Benedikt Birgissyni, við undirleik Steinunnar Árnadóttur og Hafsteins Þórissonar. Textinn fer hér á eftir:

Hallelúja
(Lag: Leonard Cohen)
(Íslenskur texti: Stefán Gíslason)

Nú hátíð fer að höndum ein,
sem hlýjar, bætir, læknar mein
í hverri sálu, sama hverju þær trúa.
Í hverju hjarta lifnar ljós,
í Líbanon og uppi í Kjós.
Við sameinumst í söngnum hallelúja.

Þó fyllum við í hasti hver
þau hagfræðinnar mæliker
sem fyrr en varir verða að ryði og fúa.
Samt megna engin krítarkort
að kaupa gæfu af þeirri sort,
sem býr í eigin hjörtum – hallelúja.

Við finnum strauma fortíðar.
Það flögra um hugann minningar
um bakgrunn okkar, bernskutímann ljúfa,
um lyng í haga, lygnan fjörð,
um lítil börn, um Móður Jörð,
um stjörnuskin á húsvegg, hallelúja.

Hver örsmá stund, hvert augnablik,
hver andardráttur, sérhvert hik
er fyrirheit um framtíð bjarta og ljúfa.
En gleymum ekki því sem þarf,
sem þjóðin fékk í móðurarf
af nægjusemi og nýtni – hallelúja.

Er skuggar leika um loft og þil
er ljúft að geta fundið til
og sinnt um þá sem þjást af sorg og lúa.
Eitt fallegt orð, eitt hugljúft hrós
í hjarta getur tendrað ljós
og yljað þungum huga – hallelúja.

Nú kætast börn í koti og höll.
Nú kætast álfar, menn og tröll.
Og hamingjan í hjörtum fær að búa.
Við eigum saman indæl jól.
Við eigum von um friðarsól,
sem lýsir öllum heimi – hallelúja.

Að búa til vonbrigði

Ég tók þátt í Vetrarhlaupi UFA á Akureyri í gær. Það er ekki í frásögur færandi. Þetta voru 10 km sem ég lauk á 45:02 mínútum í góðu veðri en frekar mikilli hálku. Það er heldur ekki í frásögur færandi. Ég var vonsvikinn að hlaupi loknu. Það er kannski ekki heldur í frásögur færandi, en samt er fróðlegt að velta ástæðunni fyrir sér. Þetta voru nefnilega heimasmíðuð vonbrigði. Vonbrigði eru það oft.

Ég hef stundað hlaup í nokkra áratugi og tel mig þekkja takmörk mín á því sviði allvel. Ég þóttist til dæmis vita, að miðað við líkamlegt ástand mitt og færðina á götum Akureyrar í gærmorgun ætti ég að geta klárað þetta vetrarhlaup á 45-46 mín. Þegar leið á hlaupið benti allt til þess að þetta mat hefði verið raunhæft. Mér virtist jafnvel stefna í að tíminn yrði mun nær 45 mínútum en 46, sem var náttúrulega gleðiefni.

Eftir 8 km sá ég að með góðum hraða á síðustu tveimur kílómetrunum ætti ég að komast undir 45 mín. Þar með var orðið til nýtt markmið, sem ég náði sem sagt ekki. Þar vantaði 3 sekúndur upp á. Eftir sem áður var ég innan þeirra marka sem ég taldi raunhæf í upphafi – og meira að segja næstum búinn að gera enn betur. Samt varð ég fyrir vonbrigðum. Þau vonbrigði bjó ég sjálfur til við 8 km markið.

Þetta var hvorki löng saga né flókin. En hún hefur samt boðskap. Boðskapurinn er sá að það er ástæðulaust að búa sér til vonbrigði, hvort sem það er á hlaupum eða í öðrum viðfangsefnum í lífinu. Þessar örstuttu þrjár sekúndur sem málið snerist um í þessu tiltekna tilviki skiptu engan neinu máli, hvorki mig né nokkurn annan. Ég missti t.d. hvorki af verðlaunum né landsliðssæti né neinu öðru sem þessar þrjár sekúndur hefðu getað fært mér. Að hlaupi loknu hefði ég átt að upplifa þá þægilegu sigurtilfinningu sem fylgir því að hafa gert sitt besta – og því að ég hafi heilsu, tíma og getu til að stunda þetta skemmtilega áhugamál mitt með öðru fólki með sama áhugamál, þrátt fyrir að ég sé orðinn hálfsextugur, eða hvað sem þessi aldur annars er kallaður. En í staðinn varð ég fyrir vonbrigðum. Mér tókst sem sagt að spilla eigin upplifun með því einu að afstilla hugann á leiðinni.

Hugur manns ræður mestu um það hvernig manni líður, a.m.k. á meðan allt er í himnalagi. Málið er nefnilega „ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det“, eins og amma norskrar vinkonu minnar sagði einu sinni.

Að henda tímanum sínum

Við eignumst alls konar hluti um dagana, sem er merkilegt vegna þess að þegar við fæðumst eigum við ekki neitt, í það minnsta ekki peninga. Og allir þessir alls konar hlutir kosta peninga. En þegar betur er að gáð fæðumst við ekki eins allslaus og okkur hættir til að halda. Þegar við fæðumst eigum við nefnilega tíma. Tíminn er eini gjaldmiðillinn okkar í lífinu, eins konar spilapeningar sem við fáum afhenta á byrjunareit þessa mikla spils. Þessa spilapeninga getum við ekki talið. Við vitum sem sagt aldrei hvað er mikið eftir af þeim. En flest okkar fá heilan helling af þessum dýrmæta gjaldmiðli í vöggugjöf, sjálfsagt ein 80 ár að meðaltali.

Tímanum sem við fengum úthlutað við fæðingu getum við skipt út fyrir næstum hvað sem er, þ.á.m. fyrir peninga, sem við getum svo aftur skipt út fyrir alls konar hluti. Þess vegna er bæði hollt og rökrétt að meta verðmæti hluta í klukkustundum frekar en krónum.

Kannski keypti ég mér farsíma fyrir þremur árum á 30 þúsund krónur. Kannski er hann enn í góðu lagi, en samt úreltur af því að vinir mínir eru allir búnir að kaupa sér nýrri og fullkomnari farsíma með „spennandi nýtingarmöguleikum“. Peningalega er síminn minn einskis virði, ég get ekki selt hann, þrjátíuþúsundkallinn sem ég keypti hann fyrir er orðinn að engu. Og fyrst síminn minn er einskis virði get ég kannski bara lagt honum og keypt mér nýjan eins og vinirnir.

Þrjátíuþúsundkallinn er afskrifaður. Þegar grannt er skoðað var þessi þrjátíuþúsundkall heldur ekki hið raunverulega verð sem ég galt fyrir símann. Hann var bara ávísun sem ég fékk í skiptum fyrir 20 klukkustundir af tímaskammtinum sem ég fékk í vöggugjöf, þ.e.a.s. ef ég gef mér að ég hafi unnið mér inn 1500 krónur á tímann eftir skatta. Þessar stundir get ég ekki endurheimt. En ég á val um það hvort ég vilji láta aðrar 20 klukkustundir, já eða kannski 40, af vöggugjöfinni fyrir nýjan síma, eða hvort ég vilji nota þann tíma í annað. Og þegar og ef ég horfi á eftir gamla símanum mínum í ruslið (sem má náttúrulega ekki) eða í endurvinnslukerið fyrir rafeindatækjaúrgang, þá er mér hollt að hafa í huga að þarna liggur hálf vika frá því í október 2009.

Hugsum áður en við hendum – tímanum okkar. Sóun efnislegra gæða fækkar gæðastundunum í lífinu.

(Þessi föstudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem byrjar á morgun – og með vísan í eina af uppáhaldsbókunum mínum, Tio tankar om tid eftir Bodil Jönsson).

Svarthvítir Íslendingar

Mér leiðist umræðuhefð Íslendinga. Held ég viti hvað þurfi til að breyta henni, en þær aðgerðir taka mörg ár. Ég býst sem sagt ekki við að geta breytt hefðinni með þessu eina bloggi. Skrifa það nú samt!

Það sem mér finnst einkenna umræðuhefðina er það almenna viðhorf að á hverju máli séu aðeins tvær hliðar. Komi upp hugmynd, hljóti hún annað hvort að vera góð eða slæm. Sama gildi um einstaklinga, fyrirtæki, stjórnmálaflokka – og bara hvað sem er. Kannski er þetta ekki séríslenskt fyrirbæri. Mig minnir t.d. að Georg Tvöfaltvaff Bush hafi einhvern tímann sagt að þeir sem ekki væru vinir hans, væru óvinir hans. Það er nokkurn veginn sama viðhorf og ég er að reyna að lýsa.

Í stuttu máli finnst mér umræðan yfirleitt fela í sér rifrildi um það hvort umræðuefnið sé hvítt eða svart. Slík umræða er bæði leiðinleg og gagnslaus. Þegar málin eru rædd er maður fljótlega krafinn svara um það hvort maður sé t.d. með eða á móti

  • ríkisstjórninni,
  • virkjunum,
  • lúpínu,
  • sauðkindum,
  • lausagöngu búfjár,
  • Huang Nubo,
  • LÍÚ,
  • o.s.frv.

En tilfellið er að öll þessi málefni hafa fleiri en tvær hliðar. Ekkert þeirra er svarthvítt. Kannski eru Íslendingar bara sjálfir svarthvítir.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að umræðuhefð samtímans ætti rætur í umræðuhefð Sturlungaaldar, þegar menn voru klofnir í herðar niður ef þeir höfðu rangar skoðanir. Sturlungar nenntu engu kjaftæði. Og enn í dag eru eðlilegar rökræður kallaðar kjaftæði af þeim sem sjá heiminn í svarthvítu. Það er bara komið úr tísku að höggva menn út af því. Í staðinn eru þeir kallaðir hálfvitar í Fésbókarfærslum og í athugasemdakerfum fréttamiðla.

Já, mér leiðist sem sagt þessi svarthvíta umræðuhefð Íslendinga. Reyndar skiptir minnstu máli þótt mér leiðist hún. Verra er að hún stendur okkur fyrir þrifum og stendur í vegi fyrir eðlilegri og nauðsynlegri lýðræðisþróun. Eina leiðin til að breyta umræðuhefðinni til betri vegar, er að kenna börnum að sjá hlutina frá mismunandi hliðum og gefa þeim tækifæri til að tjá sig um þessi ólíku sjónarhorn. Þetta höfum við vanrækt, ekki bara skólakerfið heldur líka við sem erum feður og mæður og afar og ömmur.

Við þurfum að taka okkur á!

Leiðtogastéttin og almúginn

Fyrir nokkrum árum heyrði ég orðið „stjórnmálastétt“ í fyrsta sinn. Þá vissi ég að okkur hafði borið af leið, því að um leið og stjórnmálamenn eru farnir að tilheyra annarri stétt en almenningur, þá er lýðræðið í hættu.

Forseti Íslands er ekki stjórnmálamaður, eða á alla vega ekki að vera það, í það minnsta ekki á meðan hann sinnir forsetaembættinu. Forseti Íslands er leiðtogi. En þar er sama hætta uppi og í stjórnmálunum, að um leið og til verður eitthvað sem hægt er að kalla „leiðtogastétt“, þá er lýðræðið í hættu.

Ég vil að Þóra Arnórsdóttir verði næsti forseti Íslands. Fyrir því eru margar ástæður, en ein sú mikilvægasta er að Þóra tilheyrir hvorki „stjórnmálastéttinni“ né „leiðtogastéttinni“. Hún er bara venjuleg móðir á venjulegu heimili í venjulegri lífsbaráttu. Sem slík hefur hún alla burði til að skilja aðstæður venjulegs fólks, njóta trausts þess og geta talað máli þess.

Kjósum Þóru Arnórsdóttur sem forseta okkar allra 30. júní nk.

 

Útskriftarræða 2011

Fyrir tæpu ári hélt ég ræðu við útskrift stúdenta í Menntaskóla Borgarfjarðar. Einhverjar hugmyndir voru uppi um að birta ræðuna kannski einhvers staðar, en það fórst fyrir. En í tilefni af því að þessa dagana er einmitt verið að útskrifa stúdenta út um allt land, datt mér í hug að birta þessa ársgömlu ræðu bara núna. Hún fer hér á eftir:

Ágætu útskriftarnemar/nýstúdentar, skólameistari, kennarar og gestir,

Núna fyrir nokkrum dögum gleymdi ég að halda upp á að þá voru liðin 35 ár síðan ég ústkrifaðist sjálfur sem stúdent. Og nú gæti ég sem best notað næstu mínútur til að segja ykkur frá því hvernig lífið var á þeim árum, ég gæti sagt ykkur frá því hvaða tækifæri biðu nýútskrifaðra stúdenta vorið 1976, ég gæti hvort heldur sem er haldið því fram að allt hefði verið betra í gamla daga, eða talað um hvað ég hafi nú verið óheppinn að útskrifast fyrir daga æpoda, æpada, æfóna og æcláda, sem sagt hvað ég hafi verið óheppinn að útskrifast allt of snemma til að geta notið allra tækifæranna sem bíða ykkar eftir daginn í dag, (án þess að ég ætli nú að halda því fram að þau tækifæri byggist öll á þessum tilteknu græjum sem ég var að enda við að nefna).

En ég ætla ekkert að tala um hvernig allt var fyrir 35 árum og hvernig allt er núna. „Gert er gert og étið það sem étið er“, eins og segir í heimsbókmenntunum. Á degi eins og í dag þurfum við ekki að gleyma okkur í samanburði við fortíðina. Við þurfum bara að njóta stundarinnar sem ER og hugsa svo um viðfangsefnin sem bíða okkar í framtíðinni. Og þá segi ég okkar en ekki ykkar, vegna þess að það skiptir engu máli hver útskrifaðist 35 árum á undan einhverjum öðrum. Það sem skiptir máli er að á morgun byrjar framtíð okkar allra – og hana þurfum við að móta í sameiningu?

Nú er von að spurt sé: Af hverju þurfum við að móta framtíðina? Kemur hún ekki bara hvort sem er? Og ráðum við einhverjum um það hvernig hún verður? Svörin við þessu eru einföld: Við þurfum að móta framtíðina, af því að við viljum að hún verði góð, bæði fyrir okkur sjálf og þá sem á eftir okkur koma. Og, jú, vissulega kemur framtíðin hvort sem er, það er að segja hvort sem við tökum þátt í að móta hana eða ekki. En tilfellið er að við ráðum miklu um það hvernig þessi framtíð verður. Og þess vegna eigum við að taka virkan þátt í að móta hana, í staðinn fyrir að láta öðrum það eftir á meðan við sýslum við eitthvað annað!

Og þá er von að spurt sé aftur: Hverju ráðum við svo sem um þessa framtíð? Hvert okkar um sig er jú bara einn einstaklingur af þessum 7.000 milljón einstaklingum sem búa á þessari jörð. Hvert okkar um sig er bara dropi í stóru hafi. En gleymum því ekki að án dropanna væri ekkert haf.

Ef okkur líkar ekki hvernig heimurinn er, þá eigum við að breyta honum. Það er einmitt verkefnið sem bíður okkar á morgun, og alla dagana, vikurnar, mánuðina og árin sem í hönd fara. Ef ég hefði fylgt útskriftarræðuformúlunni, þá hefði ég náttúrulega sagt að þið ættuð að breyta heiminum, af því að þið eigið að erfa landið. Útskriftarræðuformúlan er nefnilega skrifuð fyrir miðaldra hvíta karlmenn eins og mig, sem vilja vera stikkfrí, þykjast vera orðnir gamlir hundar sem er erfitt að kenna að sitja og þykjast mega liggja á meltunni á meðan unga fólkið reynir að bæta fyrir það sem þessir sömu miðaldra hvítu karlmenn hafa klúðrað. En, nei, ég er sem sagt ekki stikkfrí þó að ég sé búinn að halda upp á 35 ára stúdentsafmælið mitt, eða hafi öllu heldur gleymt að halda upp á það. Ef okkur líkar ekki hvernig heimurinn er, þá er það sameiginlegt verkefni okkar allra að breyta honum. Og það er mér mikið gleðiefni að fá tækifæri til að bjóða ykkur velkomin í hópinn. Þið verðið góðir liðsmenn – og verkefnin eru næg.

Og þá er von að enn sé spurt: Hverju getum við svo sem breytt, svona fá og smá í svona stórum heimi? Svarið við þessari spurningu er fólgið í kínverskum málshætti sem ég rakst einhvers staðar á: „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“.

Ég þekki þrjá bræður sem heita Einhver, Sérhver og Hversemer. Þegar eitthvað þarf að gera eða einhverju þarf að breyta, þá fáum við þá gjarnan í verkið. En reynslan hefur sýnt að það er ekkert á þessa þrjá bræður að treysta. Einhver, Sérhver og Hversemer gera nefnilega sjaldnast nokkuð af því sem við viljum að þeir geri. Þá er það fjórði bróðirinn sem gengur í verkið – án þess að hika – og án þess að kvarta. Þessi fjórði bróðir heitir Enginn.

Sagan af bræðrunum fjórum minnir okkur á það, að ef við viljum að eitthvað breytist, þá verðum við sjálf að gera eitthvað í því. Þannig höfum við áhrif. Ef við viljum að eitthvað breytist þýðir ekkert að liggja í fýlu heima og bíða eftir að Einhver, Sérhver eða Hversemer gangi í verkið. Ef við viljum að eitthvað breytist, þá verðum við sjálf að vera breytingin, eins og Mahatma Gandhi orðaði það á sínum tíma.

Við getum breytt, vegna þess að við ráðum, vegna þess að við erum kjósendur. Við kjósum ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Í hverri svona ákvörðun felast skilaboð okkar um það hvernig heimi við viljum búa í. Með hverri svona ákvörðun tökum við þátt í að móta framtíðina!

Við getum líka breytt vegna þess að við erum fyrirmyndir, því að öll erum við fyrirmyndir einhverra, þó að við vitum það ekkert endilega sjálf. Til að útskýra þetta aðeins langar mig að segja ykkur sögu úr Háskólanum í Santa Cruz í Kaliforníu. Þar ákváðu skólayfirvöld að ráðast í orkusparnaðarátak til að minnka rekstrarútgjöldin. Liður í þessu átaki var að fá alla stúdenta til að skrúfa fyrir vatnið í sturtunni á meðan þeir bæru á sig sápu. Í Santa Cruz er nefnilega enginn Deildartunguhver með ódýru hitaveituvatni. Þar þarf að hita vatnið upp með tilheyrandi kostnaði. En alla vega. Það voru sem sagt sett upp skilti í sturtuklefanum sem á stóð „Orkusparnaðarátak! Vinsamlega skrúfið fyrir vatnið á meðan þið sápið ykkur“. En árangurinn olli vonbrigðum. Aðeins 6% stúdentanna fóru nefnilega að þessum tilmælum. Og hvað var þá til ráða? Jú, skólayfirvöld ákváðu að semja við heitasta gaurinn í skólanum um að hann myndi alltaf skrúfa fyrir á meðan hann bæri á sig sápuna. Engu öðru var breytt, ekkert var sagt, og skiltið hélt áfram að hanga þar sem það hafði hangið. Og viti menn, við það eitt að heitasti gaurinn sýndi gott fordæmi, steinþegjandi og hljóðalaust, hækkaði hlutfall þeirra sem skrúfuðu fyrir úr 6% í 49%. Og þegar líka var búið að semja við næstheitasta gaurinn, þá hækkaði hlutfallið í 66%! Þessi litla saga minnir okkur á mikilvægi fyrirmyndanna. Og eins og ég sagði áðan, þá erum við öll fyrirmyndir einhverra! Við höldum kannski að við séum ein um að pæla í hlutunum, en tilfellið er að þarna úti er fullt af fólki sem er að hugsa nákvæmlega það sama. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stoppa.

En af hverju er ég aftur að tala um þetta? Jú, ég er að tala um þetta vegna þess að á morgun byrjar nýtt tímabil í lífi ykkar – og líka í mínu lífi, vegna þess að á morgun byrjar framtíðin. Mikilvægustu skilaboðin sem þið getið farið með út úr þessu húsi eru þau að þið getið haft raunveruleg áhrif á þessa framtíð. Allt sem þið gerið eða gerið ekki skiptir máli. „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“. Og þá er ekki endilega verið að tala um annað lítið fólk. „Við verðum að vera breytingin“!

Mig langar að enda þetta á orðum Edmunds Burke sem sagði: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.

Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að spjalla við ykkur á þessum fallega degi. Til hamingju með daginn og gangi okkur sem allra allra best að skapa góða framtíð, sem er gerð til að endast.

Minna en það hefði verið ef það hefði verið meira

Ég er talsmaður þess að fólk horfi á björtu hliðarnar. Stundum getur slík bjartsýni þó gengið of langt, t.d. í umhverfismálum þegar talsmönnum fyrirtækja eða stjórnvalda tekst að rökstyðja að frammistaða þeirra í umhverfismálum sé frábær og áformin metnaðarfull, enda þótt þar sé fátt að finna sem ekki hefði gerst hvort sem var. Þannig á orkumálaráðherra Svíþjóðar að hafa sagt á dögunum að það væri mikilvægt að spara orku, en það þyrfti bara að gerast með réttum hætti. Þetta túlkar umhverfisráðgjafinn og ofurbloggarinn Hans Nilsson, sem oft hefur verið vitnað í á þessum vettvangi, þannig að málið snúist ekki um að „nota minna, heldur um að nota minna en við hefðum gert ef við hefðum notað meira“.

Skyldum vér Íslendingar stundum hugsa svona líka? Sannfærum við okkur sjálf stundum um að það dugi að gera áætlanir (sem ekki endilega standast) um að nota minna af einhverju í framtíðinni en við myndum gera að óbreyttu, og það jafnvel þótt brýna nauðsyn beri til að draga úr notkuninni strax frá því sem nú er?

PS: Hans Nilsson veltir því líka fyrir sér í sama pistli hvort Vasagangan 2062 muni fara fram á sjóskíðum…..

Klæðskiptadagur

Laugardaginn 21. apríl nk. verður haldinn sérstakur klæðskiptadagur í rúmlega 60 bæjum og borgum í Svíþjóð. Þennan dag getur fólk mætt á tiltekin stað með nýleg föt sem það er orðið leitt á, fengið greitt fyrir þau í sérstakri klæðskiptamynt, og notað svo myntina til að greiða fyrir nýleg föt sem einhver annar er orðinn leiður á. Með þessu móti getur þetta sama fólk aukið lífsgæði sín meira en ella með þeim peningum sem það vinnur sér inn. Ef grannt er skoðað eykur það nefnilega ekki lífsgæði fólks að kaupa föt eða annan varning og grafa í jörð það sem það er orðið leitt á.

(Þessi pistill er byggður á frétt dagsins á heimasíðu sænsku náttúruverndarsamtakanna Naturskyddsföreningen, eftir ábendingu félaga Hans Nilsson. Myndin sem fylgir er hins vegar tekin beint úr íslenskum veruleika).

Hversu munu komandi kynslóðir þakka oss gjafir þær er vér þeim færum?