• Heimsóknir

  • 118.148 hits
 • desember 2022
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Að tilheyra hópi

SA Mind forsíðaMargt fólk sem ég þekki tekur þátt í einhvers konar hópstarfi. Viðfangsefni hópanna eru ólík og sum þeirra geta jafnvel virst fáfengileg við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð getur það skipt sköpum fyrir okkur sem einstaklinga að vera hluti af einhverjum hópi, alveg sama hvort það er brönugrasaklúbbur, Kiwanis, kvenfélag, kór aldraðra, leshringur eða hlaupahópur. Rannsóknir benda nefnilega til að þeir sem finnast þeir tilheyra hópi eigi síður vanda til að leggjast í þunglyndi með tilheyrandi hættu á neikvæðum hliðarverkunum, þ.m.t. sjálfsvígum. Í ljósi þessara rannsókna hefur orðið „hópmeðferð“ eiginlega öðlast nýja merkingu. Meðferðin þarf sem sagt alls ekki að beinast að sjúkdómnum sjálfum, heldur getur hún verið fólgin í nánast hvers konar hópstarfi sem verkast vill, allt eftir aðstæðum og áhuga þess sem í hlut á. Þessari nýju tegund hópmeðferðar eru gerð ágæt skil í grein eftir Tegan Cruwys og félaga sem birtist í tímaritinu Scientific American Mind (SA Mind) á síðasta hausti, en ég rakst á þetta hefti á biðstofu læknis á dögunum innan um snjáð tölublöð af Nýju lífi frá árinu 2004. Ég er alls enginn fræðimaður á þessu sviði, en í þessum pistli ætla ég samt að tína til nokkur atriði úr þessari grein, enda hygg ég að innihald hennar eigi erindi við fleiri en þá sem lesa SA Mind reglulega.

Í grein Cruwys og félaga eru raktar niðurstöður nokkurra nýlegra rannsókna á mikilvægi hópkenndar fyrir andlega líðan fólks. Í greininni kemur fram að við meðferð við þunglyndi sé alla jafna gengið út frá því að vandamálið eigi rætur í einstaklingnum sjálfum. Þess vegna sé meðferð annað hvort ætlað að breyta efnaskiptum í heila eða hafa áhrif á viðhorf einstaklingsins til lífsins og tilverunnar. Reynslan sýni hins vegar að það séu yfirleitt utanaðkomandi atvik sem hrindi atburðarásinni af stað. Þannig megi rekja 60-90% allra þunglyndistilfella til einhvers konar missis, svo sem atvinnumissis, tapaðrar vináttu eða ástarsorgar. Auk þess banki þunglyndi helst á dyrnar hjá þeim sem búa einir.

Eftir því sem þekking manna á þunglyndi eykst verður augljósara hversu mikinn þátt félagsleg einangrun á í vandanum. Því er rökrétt að draga þá ályktun að aukin samskipti við annað fólk hafi forvarnargildi. Rannsókn Fabio Sani og félaga við háskólann í Dundee í Skotlandi á 194 einstaklingum leiddi hins vegar í ljós að galdurinn felst ekki í samskiptunum sem slíkum, heldur í eðli samskiptanna. Þáttakendur í rannsókninni voru annars vegar spurðir hversu mikið þeir hittu og töluðu við nánustu fjölskyldumeðlimi og hins vegar hversu miklu máli þeir teldu þessa fjölskyldu skipta sig. Í ljós kom að tíðni samskipta hafði ekki mikil áhrif á þróun þunglyndis, en samkennd með fjölskyldunni hafði hins vegar mikið forvarnargildi. Í því sambandi skipti ekki máli hvers konar „fjölskyldu“ var um að ræða. Í tiltekinni austur-evrópskri herdeild hafði það t.d. miklu meira forvarnargildi að finna til sterkra tengsla við félagana en það eitt út af fyrir sig að verja miklum tíma með þeim.

En það er ekki nóg að ganga bara í einhvern hóp. Hópurinn verður að skipta einstaklinginn máli. Það eitt að mæta á staðinn og spila fótbolta með einhverjum, stunda listsköpun, sauma eða stunda jóga virðist ekki hafa marktæk jákvæð áhrif. Það er samkenndin með hópnum sem gerir útslagið, þ.e.a.s. tilfinningin að vera hluti af þessum hópi. Almennt talað skiptir engu máli hvert viðfangsefni hópsins er. Frá þessu eru þó undantekningar ef um er að ræða hópa sem myndast t.d. utan um eiturlyfjaneyslu eða andfélagslega hegðun.

Rannsóknirnar sem Cruwy og félagar vísa í leiða ekki einasta í ljós mikilvægi hóptilfinningarinnar til að vinna gegn þunglyndi, heldur virðist það eitt að hugsa um hópinn sinn draga úr líkum á að smitast af veirum sem maður hefur komist í tæri við, gera mann síður móttækilegan fyrir áreiti og auka sársaukaþol.

Ein af þeim ályktunum sem hægt er að draga af samantekt Cruwys og félaga er að hægt væri að ná miklum árangri í forvörnum og meðhöndlun þunglyndis með því einu að fá viðkomandi einstaklinga til að ganga í einn eða fleiri hópa. Og þá skiptir nánast engu máli hvers konar hóp er um að ræða, svo fremi sem eintaklingurinn upplifir sig sem hluta af hópnum. Meðferð af þessu tagi getur að sjálfsögðu ekki komið að öllu leyti í stað annarra dýrari úrræða, en hún getur í það minnsta bætt árangur án verulegs aukakostnaðar fyrir einstaklinginn eða samfélagið og án aukaverkana. Hún getur auk heldur nýst í aðstæðum eða á svæðum þar sem um fá önnur úrræði er að ræða.

(Þessi pistill er byggður á: Tegan Cruwys, S. Alexander Haslam og Genevieve A. Dingle, (2014): The New Group Therapy. Scientific American Mind, Sept.-okt. 2014, (60-63)).

Nýr texti við Hallelúja Leonards Cohen

Borgarneskirkja 160Fyrr í vetur var ég beðinn um íslenskan texta við lag Leonards Cohen, Hallelúja, til flutnings á Þorláksmessutónleikum í Borgarneskirkju. Tónleikarnir voru í kvöld og þar var þessi texti sunginn í fyrsta sinn af þeim Jóhönnu Stefánsdóttur, Birnu Karen Einarsdóttur, Bjarna Waage og Benedikt Birgissyni, við undirleik Steinunnar Árnadóttur og Hafsteins Þórissonar. Textinn fer hér á eftir:

Hallelúja
(Lag: Leonard Cohen)
(Íslenskur texti: Stefán Gíslason)

Nú hátíð fer að höndum ein,
sem hlýjar, bætir, læknar mein
í hverri sálu, sama hverju þær trúa.
Í hverju hjarta lifnar ljós,
í Líbanon og uppi í Kjós.
Við sameinumst í söngnum hallelúja.

Þó fyllum við í hasti hver
þau hagfræðinnar mæliker
sem fyrr en varir verða að ryði og fúa.
Samt megna engin krítarkort
að kaupa gæfu af þeirri sort,
sem býr í eigin hjörtum – hallelúja.

Við finnum strauma fortíðar.
Það flögra um hugann minningar
um bakgrunn okkar, bernskutímann ljúfa,
um lyng í haga, lygnan fjörð,
um lítil börn, um Móður Jörð,
um stjörnuskin á húsvegg, hallelúja.

Hver örsmá stund, hvert augnablik,
hver andardráttur, sérhvert hik
er fyrirheit um framtíð bjarta og ljúfa.
En gleymum ekki því sem þarf,
sem þjóðin fékk í móðurarf
af nægjusemi og nýtni – hallelúja.

Er skuggar leika um loft og þil
er ljúft að geta fundið til
og sinnt um þá sem þjást af sorg og lúa.
Eitt fallegt orð, eitt hugljúft hrós
í hjarta getur tendrað ljós
og yljað þungum huga – hallelúja.

Nú kætast börn í koti og höll.
Nú kætast álfar, menn og tröll.
Og hamingjan í hjörtum fær að búa.
Við eigum saman indæl jól.
Við eigum von um friðarsól,
sem lýsir öllum heimi – hallelúja.

Að búa til vonbrigði

Ég tók þátt í Vetrarhlaupi UFA á Akureyri í gær. Það er ekki í frásögur færandi. Þetta voru 10 km sem ég lauk á 45:02 mínútum í góðu veðri en frekar mikilli hálku. Það er heldur ekki í frásögur færandi. Ég var vonsvikinn að hlaupi loknu. Það er kannski ekki heldur í frásögur færandi, en samt er fróðlegt að velta ástæðunni fyrir sér. Þetta voru nefnilega heimasmíðuð vonbrigði. Vonbrigði eru það oft.

Ég hef stundað hlaup í nokkra áratugi og tel mig þekkja takmörk mín á því sviði allvel. Ég þóttist til dæmis vita, að miðað við líkamlegt ástand mitt og færðina á götum Akureyrar í gærmorgun ætti ég að geta klárað þetta vetrarhlaup á 45-46 mín. Þegar leið á hlaupið benti allt til þess að þetta mat hefði verið raunhæft. Mér virtist jafnvel stefna í að tíminn yrði mun nær 45 mínútum en 46, sem var náttúrulega gleðiefni.

Eftir 8 km sá ég að með góðum hraða á síðustu tveimur kílómetrunum ætti ég að komast undir 45 mín. Þar með var orðið til nýtt markmið, sem ég náði sem sagt ekki. Þar vantaði 3 sekúndur upp á. Eftir sem áður var ég innan þeirra marka sem ég taldi raunhæf í upphafi – og meira að segja næstum búinn að gera enn betur. Samt varð ég fyrir vonbrigðum. Þau vonbrigði bjó ég sjálfur til við 8 km markið.

Þetta var hvorki löng saga né flókin. En hún hefur samt boðskap. Boðskapurinn er sá að það er ástæðulaust að búa sér til vonbrigði, hvort sem það er á hlaupum eða í öðrum viðfangsefnum í lífinu. Þessar örstuttu þrjár sekúndur sem málið snerist um í þessu tiltekna tilviki skiptu engan neinu máli, hvorki mig né nokkurn annan. Ég missti t.d. hvorki af verðlaunum né landsliðssæti né neinu öðru sem þessar þrjár sekúndur hefðu getað fært mér. Að hlaupi loknu hefði ég átt að upplifa þá þægilegu sigurtilfinningu sem fylgir því að hafa gert sitt besta – og því að ég hafi heilsu, tíma og getu til að stunda þetta skemmtilega áhugamál mitt með öðru fólki með sama áhugamál, þrátt fyrir að ég sé orðinn hálfsextugur, eða hvað sem þessi aldur annars er kallaður. En í staðinn varð ég fyrir vonbrigðum. Mér tókst sem sagt að spilla eigin upplifun með því einu að afstilla hugann á leiðinni.

Hugur manns ræður mestu um það hvernig manni líður, a.m.k. á meðan allt er í himnalagi. Málið er nefnilega „ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det“, eins og amma norskrar vinkonu minnar sagði einu sinni.

Að henda tímanum sínum

Við eignumst alls konar hluti um dagana, sem er merkilegt vegna þess að þegar við fæðumst eigum við ekki neitt, í það minnsta ekki peninga. Og allir þessir alls konar hlutir kosta peninga. En þegar betur er að gáð fæðumst við ekki eins allslaus og okkur hættir til að halda. Þegar við fæðumst eigum við nefnilega tíma. Tíminn er eini gjaldmiðillinn okkar í lífinu, eins konar spilapeningar sem við fáum afhenta á byrjunareit þessa mikla spils. Þessa spilapeninga getum við ekki talið. Við vitum sem sagt aldrei hvað er mikið eftir af þeim. En flest okkar fá heilan helling af þessum dýrmæta gjaldmiðli í vöggugjöf, sjálfsagt ein 80 ár að meðaltali.

Tímanum sem við fengum úthlutað við fæðingu getum við skipt út fyrir næstum hvað sem er, þ.á.m. fyrir peninga, sem við getum svo aftur skipt út fyrir alls konar hluti. Þess vegna er bæði hollt og rökrétt að meta verðmæti hluta í klukkustundum frekar en krónum.

Kannski keypti ég mér farsíma fyrir þremur árum á 30 þúsund krónur. Kannski er hann enn í góðu lagi, en samt úreltur af því að vinir mínir eru allir búnir að kaupa sér nýrri og fullkomnari farsíma með „spennandi nýtingarmöguleikum“. Peningalega er síminn minn einskis virði, ég get ekki selt hann, þrjátíuþúsundkallinn sem ég keypti hann fyrir er orðinn að engu. Og fyrst síminn minn er einskis virði get ég kannski bara lagt honum og keypt mér nýjan eins og vinirnir.

Þrjátíuþúsundkallinn er afskrifaður. Þegar grannt er skoðað var þessi þrjátíuþúsundkall heldur ekki hið raunverulega verð sem ég galt fyrir símann. Hann var bara ávísun sem ég fékk í skiptum fyrir 20 klukkustundir af tímaskammtinum sem ég fékk í vöggugjöf, þ.e.a.s. ef ég gef mér að ég hafi unnið mér inn 1500 krónur á tímann eftir skatta. Þessar stundir get ég ekki endurheimt. En ég á val um það hvort ég vilji láta aðrar 20 klukkustundir, já eða kannski 40, af vöggugjöfinni fyrir nýjan síma, eða hvort ég vilji nota þann tíma í annað. Og þegar og ef ég horfi á eftir gamla símanum mínum í ruslið (sem má náttúrulega ekki) eða í endurvinnslukerið fyrir rafeindatækjaúrgang, þá er mér hollt að hafa í huga að þarna liggur hálf vika frá því í október 2009.

Hugsum áður en við hendum – tímanum okkar. Sóun efnislegra gæða fækkar gæðastundunum í lífinu.

(Þessi föstudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem byrjar á morgun – og með vísan í eina af uppáhaldsbókunum mínum, Tio tankar om tid eftir Bodil Jönsson).

Svarthvítir Íslendingar

Mér leiðist umræðuhefð Íslendinga. Held ég viti hvað þurfi til að breyta henni, en þær aðgerðir taka mörg ár. Ég býst sem sagt ekki við að geta breytt hefðinni með þessu eina bloggi. Skrifa það nú samt!

Það sem mér finnst einkenna umræðuhefðina er það almenna viðhorf að á hverju máli séu aðeins tvær hliðar. Komi upp hugmynd, hljóti hún annað hvort að vera góð eða slæm. Sama gildi um einstaklinga, fyrirtæki, stjórnmálaflokka – og bara hvað sem er. Kannski er þetta ekki séríslenskt fyrirbæri. Mig minnir t.d. að Georg Tvöfaltvaff Bush hafi einhvern tímann sagt að þeir sem ekki væru vinir hans, væru óvinir hans. Það er nokkurn veginn sama viðhorf og ég er að reyna að lýsa.

Í stuttu máli finnst mér umræðan yfirleitt fela í sér rifrildi um það hvort umræðuefnið sé hvítt eða svart. Slík umræða er bæði leiðinleg og gagnslaus. Þegar málin eru rædd er maður fljótlega krafinn svara um það hvort maður sé t.d. með eða á móti

 • ríkisstjórninni,
 • virkjunum,
 • lúpínu,
 • sauðkindum,
 • lausagöngu búfjár,
 • Huang Nubo,
 • LÍÚ,
 • o.s.frv.

En tilfellið er að öll þessi málefni hafa fleiri en tvær hliðar. Ekkert þeirra er svarthvítt. Kannski eru Íslendingar bara sjálfir svarthvítir.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að umræðuhefð samtímans ætti rætur í umræðuhefð Sturlungaaldar, þegar menn voru klofnir í herðar niður ef þeir höfðu rangar skoðanir. Sturlungar nenntu engu kjaftæði. Og enn í dag eru eðlilegar rökræður kallaðar kjaftæði af þeim sem sjá heiminn í svarthvítu. Það er bara komið úr tísku að höggva menn út af því. Í staðinn eru þeir kallaðir hálfvitar í Fésbókarfærslum og í athugasemdakerfum fréttamiðla.

Já, mér leiðist sem sagt þessi svarthvíta umræðuhefð Íslendinga. Reyndar skiptir minnstu máli þótt mér leiðist hún. Verra er að hún stendur okkur fyrir þrifum og stendur í vegi fyrir eðlilegri og nauðsynlegri lýðræðisþróun. Eina leiðin til að breyta umræðuhefðinni til betri vegar, er að kenna börnum að sjá hlutina frá mismunandi hliðum og gefa þeim tækifæri til að tjá sig um þessi ólíku sjónarhorn. Þetta höfum við vanrækt, ekki bara skólakerfið heldur líka við sem erum feður og mæður og afar og ömmur.

Við þurfum að taka okkur á!

Leiðtogastéttin og almúginn

Fyrir nokkrum árum heyrði ég orðið „stjórnmálastétt“ í fyrsta sinn. Þá vissi ég að okkur hafði borið af leið, því að um leið og stjórnmálamenn eru farnir að tilheyra annarri stétt en almenningur, þá er lýðræðið í hættu.

Forseti Íslands er ekki stjórnmálamaður, eða á alla vega ekki að vera það, í það minnsta ekki á meðan hann sinnir forsetaembættinu. Forseti Íslands er leiðtogi. En þar er sama hætta uppi og í stjórnmálunum, að um leið og til verður eitthvað sem hægt er að kalla „leiðtogastétt“, þá er lýðræðið í hættu.

Ég vil að Þóra Arnórsdóttir verði næsti forseti Íslands. Fyrir því eru margar ástæður, en ein sú mikilvægasta er að Þóra tilheyrir hvorki „stjórnmálastéttinni“ né „leiðtogastéttinni“. Hún er bara venjuleg móðir á venjulegu heimili í venjulegri lífsbaráttu. Sem slík hefur hún alla burði til að skilja aðstæður venjulegs fólks, njóta trausts þess og geta talað máli þess.

Kjósum Þóru Arnórsdóttur sem forseta okkar allra 30. júní nk.

 

Útskriftarræða 2011

Fyrir tæpu ári hélt ég ræðu við útskrift stúdenta í Menntaskóla Borgarfjarðar. Einhverjar hugmyndir voru uppi um að birta ræðuna kannski einhvers staðar, en það fórst fyrir. En í tilefni af því að þessa dagana er einmitt verið að útskrifa stúdenta út um allt land, datt mér í hug að birta þessa ársgömlu ræðu bara núna. Hún fer hér á eftir:

Ágætu útskriftarnemar/nýstúdentar, skólameistari, kennarar og gestir,

Núna fyrir nokkrum dögum gleymdi ég að halda upp á að þá voru liðin 35 ár síðan ég ústkrifaðist sjálfur sem stúdent. Og nú gæti ég sem best notað næstu mínútur til að segja ykkur frá því hvernig lífið var á þeim árum, ég gæti sagt ykkur frá því hvaða tækifæri biðu nýútskrifaðra stúdenta vorið 1976, ég gæti hvort heldur sem er haldið því fram að allt hefði verið betra í gamla daga, eða talað um hvað ég hafi nú verið óheppinn að útskrifast fyrir daga æpoda, æpada, æfóna og æcláda, sem sagt hvað ég hafi verið óheppinn að útskrifast allt of snemma til að geta notið allra tækifæranna sem bíða ykkar eftir daginn í dag, (án þess að ég ætli nú að halda því fram að þau tækifæri byggist öll á þessum tilteknu græjum sem ég var að enda við að nefna).

En ég ætla ekkert að tala um hvernig allt var fyrir 35 árum og hvernig allt er núna. „Gert er gert og étið það sem étið er“, eins og segir í heimsbókmenntunum. Á degi eins og í dag þurfum við ekki að gleyma okkur í samanburði við fortíðina. Við þurfum bara að njóta stundarinnar sem ER og hugsa svo um viðfangsefnin sem bíða okkar í framtíðinni. Og þá segi ég okkar en ekki ykkar, vegna þess að það skiptir engu máli hver útskrifaðist 35 árum á undan einhverjum öðrum. Það sem skiptir máli er að á morgun byrjar framtíð okkar allra – og hana þurfum við að móta í sameiningu?

Nú er von að spurt sé: Af hverju þurfum við að móta framtíðina? Kemur hún ekki bara hvort sem er? Og ráðum við einhverjum um það hvernig hún verður? Svörin við þessu eru einföld: Við þurfum að móta framtíðina, af því að við viljum að hún verði góð, bæði fyrir okkur sjálf og þá sem á eftir okkur koma. Og, jú, vissulega kemur framtíðin hvort sem er, það er að segja hvort sem við tökum þátt í að móta hana eða ekki. En tilfellið er að við ráðum miklu um það hvernig þessi framtíð verður. Og þess vegna eigum við að taka virkan þátt í að móta hana, í staðinn fyrir að láta öðrum það eftir á meðan við sýslum við eitthvað annað!

Og þá er von að spurt sé aftur: Hverju ráðum við svo sem um þessa framtíð? Hvert okkar um sig er jú bara einn einstaklingur af þessum 7.000 milljón einstaklingum sem búa á þessari jörð. Hvert okkar um sig er bara dropi í stóru hafi. En gleymum því ekki að án dropanna væri ekkert haf.

Ef okkur líkar ekki hvernig heimurinn er, þá eigum við að breyta honum. Það er einmitt verkefnið sem bíður okkar á morgun, og alla dagana, vikurnar, mánuðina og árin sem í hönd fara. Ef ég hefði fylgt útskriftarræðuformúlunni, þá hefði ég náttúrulega sagt að þið ættuð að breyta heiminum, af því að þið eigið að erfa landið. Útskriftarræðuformúlan er nefnilega skrifuð fyrir miðaldra hvíta karlmenn eins og mig, sem vilja vera stikkfrí, þykjast vera orðnir gamlir hundar sem er erfitt að kenna að sitja og þykjast mega liggja á meltunni á meðan unga fólkið reynir að bæta fyrir það sem þessir sömu miðaldra hvítu karlmenn hafa klúðrað. En, nei, ég er sem sagt ekki stikkfrí þó að ég sé búinn að halda upp á 35 ára stúdentsafmælið mitt, eða hafi öllu heldur gleymt að halda upp á það. Ef okkur líkar ekki hvernig heimurinn er, þá er það sameiginlegt verkefni okkar allra að breyta honum. Og það er mér mikið gleðiefni að fá tækifæri til að bjóða ykkur velkomin í hópinn. Þið verðið góðir liðsmenn – og verkefnin eru næg.

Og þá er von að enn sé spurt: Hverju getum við svo sem breytt, svona fá og smá í svona stórum heimi? Svarið við þessari spurningu er fólgið í kínverskum málshætti sem ég rakst einhvers staðar á: „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“.

Ég þekki þrjá bræður sem heita Einhver, Sérhver og Hversemer. Þegar eitthvað þarf að gera eða einhverju þarf að breyta, þá fáum við þá gjarnan í verkið. En reynslan hefur sýnt að það er ekkert á þessa þrjá bræður að treysta. Einhver, Sérhver og Hversemer gera nefnilega sjaldnast nokkuð af því sem við viljum að þeir geri. Þá er það fjórði bróðirinn sem gengur í verkið – án þess að hika – og án þess að kvarta. Þessi fjórði bróðir heitir Enginn.

Sagan af bræðrunum fjórum minnir okkur á það, að ef við viljum að eitthvað breytist, þá verðum við sjálf að gera eitthvað í því. Þannig höfum við áhrif. Ef við viljum að eitthvað breytist þýðir ekkert að liggja í fýlu heima og bíða eftir að Einhver, Sérhver eða Hversemer gangi í verkið. Ef við viljum að eitthvað breytist, þá verðum við sjálf að vera breytingin, eins og Mahatma Gandhi orðaði það á sínum tíma.

Við getum breytt, vegna þess að við ráðum, vegna þess að við erum kjósendur. Við kjósum ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Í hverri svona ákvörðun felast skilaboð okkar um það hvernig heimi við viljum búa í. Með hverri svona ákvörðun tökum við þátt í að móta framtíðina!

Við getum líka breytt vegna þess að við erum fyrirmyndir, því að öll erum við fyrirmyndir einhverra, þó að við vitum það ekkert endilega sjálf. Til að útskýra þetta aðeins langar mig að segja ykkur sögu úr Háskólanum í Santa Cruz í Kaliforníu. Þar ákváðu skólayfirvöld að ráðast í orkusparnaðarátak til að minnka rekstrarútgjöldin. Liður í þessu átaki var að fá alla stúdenta til að skrúfa fyrir vatnið í sturtunni á meðan þeir bæru á sig sápu. Í Santa Cruz er nefnilega enginn Deildartunguhver með ódýru hitaveituvatni. Þar þarf að hita vatnið upp með tilheyrandi kostnaði. En alla vega. Það voru sem sagt sett upp skilti í sturtuklefanum sem á stóð „Orkusparnaðarátak! Vinsamlega skrúfið fyrir vatnið á meðan þið sápið ykkur“. En árangurinn olli vonbrigðum. Aðeins 6% stúdentanna fóru nefnilega að þessum tilmælum. Og hvað var þá til ráða? Jú, skólayfirvöld ákváðu að semja við heitasta gaurinn í skólanum um að hann myndi alltaf skrúfa fyrir á meðan hann bæri á sig sápuna. Engu öðru var breytt, ekkert var sagt, og skiltið hélt áfram að hanga þar sem það hafði hangið. Og viti menn, við það eitt að heitasti gaurinn sýndi gott fordæmi, steinþegjandi og hljóðalaust, hækkaði hlutfall þeirra sem skrúfuðu fyrir úr 6% í 49%. Og þegar líka var búið að semja við næstheitasta gaurinn, þá hækkaði hlutfallið í 66%! Þessi litla saga minnir okkur á mikilvægi fyrirmyndanna. Og eins og ég sagði áðan, þá erum við öll fyrirmyndir einhverra! Við höldum kannski að við séum ein um að pæla í hlutunum, en tilfellið er að þarna úti er fullt af fólki sem er að hugsa nákvæmlega það sama. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stoppa.

En af hverju er ég aftur að tala um þetta? Jú, ég er að tala um þetta vegna þess að á morgun byrjar nýtt tímabil í lífi ykkar – og líka í mínu lífi, vegna þess að á morgun byrjar framtíðin. Mikilvægustu skilaboðin sem þið getið farið með út úr þessu húsi eru þau að þið getið haft raunveruleg áhrif á þessa framtíð. Allt sem þið gerið eða gerið ekki skiptir máli. „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“. Og þá er ekki endilega verið að tala um annað lítið fólk. „Við verðum að vera breytingin“!

Mig langar að enda þetta á orðum Edmunds Burke sem sagði: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.

Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að spjalla við ykkur á þessum fallega degi. Til hamingju með daginn og gangi okkur sem allra allra best að skapa góða framtíð, sem er gerð til að endast.

Minna en það hefði verið ef það hefði verið meira

Ég er talsmaður þess að fólk horfi á björtu hliðarnar. Stundum getur slík bjartsýni þó gengið of langt, t.d. í umhverfismálum þegar talsmönnum fyrirtækja eða stjórnvalda tekst að rökstyðja að frammistaða þeirra í umhverfismálum sé frábær og áformin metnaðarfull, enda þótt þar sé fátt að finna sem ekki hefði gerst hvort sem var. Þannig á orkumálaráðherra Svíþjóðar að hafa sagt á dögunum að það væri mikilvægt að spara orku, en það þyrfti bara að gerast með réttum hætti. Þetta túlkar umhverfisráðgjafinn og ofurbloggarinn Hans Nilsson, sem oft hefur verið vitnað í á þessum vettvangi, þannig að málið snúist ekki um að „nota minna, heldur um að nota minna en við hefðum gert ef við hefðum notað meira“.

Skyldum vér Íslendingar stundum hugsa svona líka? Sannfærum við okkur sjálf stundum um að það dugi að gera áætlanir (sem ekki endilega standast) um að nota minna af einhverju í framtíðinni en við myndum gera að óbreyttu, og það jafnvel þótt brýna nauðsyn beri til að draga úr notkuninni strax frá því sem nú er?

PS: Hans Nilsson veltir því líka fyrir sér í sama pistli hvort Vasagangan 2062 muni fara fram á sjóskíðum…..

Klæðskiptadagur

Laugardaginn 21. apríl nk. verður haldinn sérstakur klæðskiptadagur í rúmlega 60 bæjum og borgum í Svíþjóð. Þennan dag getur fólk mætt á tiltekin stað með nýleg föt sem það er orðið leitt á, fengið greitt fyrir þau í sérstakri klæðskiptamynt, og notað svo myntina til að greiða fyrir nýleg föt sem einhver annar er orðinn leiður á. Með þessu móti getur þetta sama fólk aukið lífsgæði sín meira en ella með þeim peningum sem það vinnur sér inn. Ef grannt er skoðað eykur það nefnilega ekki lífsgæði fólks að kaupa föt eða annan varning og grafa í jörð það sem það er orðið leitt á.

(Þessi pistill er byggður á frétt dagsins á heimasíðu sænsku náttúruverndarsamtakanna Naturskyddsföreningen, eftir ábendingu félaga Hans Nilsson. Myndin sem fylgir er hins vegar tekin beint úr íslenskum veruleika).

Hversu munu komandi kynslóðir þakka oss gjafir þær er vér þeim færum?

Veturinn er búinn

Ég er stundum svolítið hissa á tilætlunarsemi vina og kunningja, sem geta ómögulega sætt sig við vetrarveður á veturna og finnst einhvern veginn sjálfsagt að vorið byrji í janúar. Að vísu held ég að ég hafi einhvern tímann verið svona líka, a.m.k. fram til ársins 1964 eða þar um bil, en þá kom mamma með pottþétt rök gegn tilætlunarseminni. Ég spurði hana nefnilega til hvers allt þetta vonda veður væri. Og hún sagði mér að vonda veðrið væri gert til þess að við kynnum að meta góða veðrið þegar það kæmi.

En af því að það er mánudagsmorgun og ég í frekar góðu skapi, þá hef ég ákveðið að létta tilætlunarsemisfarginu af umræddum vinum og kunningjum með því að setja fram eftirfarandi veðurspá fyrir næstu vikur:

 1. Veturinn er búinn. Vonda veðrið sem sumir tóku eftir sunnan- og vestanlands í gærkvöldi var síðasta vetrarveðrið að sinni, ef vetrarveður skyldi kalla.
 2. Næstu daga fer veður hægt hlýnandi. Rigning verður algeng.
 3. Páskahret verður ekki þetta árið svo orð sé á gerandi, ef frá er talinn einhver slydduhryssingur á skírdag og föstudaginn langa.
 4. Síðari hluti aprílmánaðar verður óvenjuhlýr.
 5. Um miðjan maí gerir kuldakast sem stendur fram undir 10. júní. Nokkrir vinir og kunningjar munu hafa á orði að það „hausti snemma þetta vor“.
 6. Veðurblíðan síðari hluta júnímánaðar verður með eindæmum.
 7. Síðar í sumar gerir mikla rigningu. Ég veit bara ekki alveg hvenær, líklega í ágúst.
 8. Töluverð frávik geta orðið frá þessari spá í einstökum landshlutum, einkum norðaustanlands.

Jæja, þá er það komið á hreint. Ég spái því að þessi spá rætist, en tek fram að þeir sem taka mark á henni gera það samt á eigin ábyrgð.