• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • mars 2023
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Er hagvöxtur góður mælikvarði á velgengni þjóðar?

Styrjaldir auka hagvöxt. (Mynd: Johannes Jansson/ Norden.org)

Styrjaldir auka hagvöxt. (Mynd: Johannes Jansson/ Norden.org)

Hagvöxtur er alls ekkert náttúrulögmál á borð við þyngdarlögmálið eða snúning jarðar. Þvert á móti er hagvöxtur ekkert annað en manngert mælitæki til að sýna hversu mikið landsframleiðslan hefur aukist frá árinu áður. Það þýðir hins vegar ekki að hagvöxtur sé góður mælikvarði á velgengni þjóðar, eins og sumir virðast þó halda.

Og hvað er þá landsframleiðsla? Jú, landsframleiðsla, eða öllu heldur „verg landsframleiðsla“ eins og fyrirbærið heitir á íslensku stofnanamáli, er samanlagt söluverð allrar vöru og allrar þjónustu sem framleidd er í landinu á ákveðnu tímabili, og þá er oftast talað um eitt ár. Stundum er skammstöfunin VLF notuð fyrir „verga landsframleiðslu“, en hér ætla ég að leyfa mér að nota frekar skammstöfunina GDP, þó að hún sé reyndar enskusletta (Gross Domestic Product).

Upphaflega var GDP-stuðullinn þróaður fyrir um það bil 70 árum til að gefa vísbendingu um efnahagslegar framfarir. Þá stóð aldrei til að þessi mælikvarði yrði notaður til annars, en engu að síður er hann býsna almennt notaður til að meta og bera saman velgengni þjóða.

Helsti gallinn á landsframleiðslustuðlinum GDP sem „velgengnismæli“ er annars vegar sá að inn í hann reiknast allar tekjur, óháð því hvernig þær hafa orðið til – og hins vegar sá að inn í hann reiknast engin önnur verðmæti en þau sem ganga kaupum og sölum. Þegar rýnt er nánar í þetta sést að GDP dugar skammt til að segja fyrir um efnahagslega hagsæld, hvað þá aðra sæld. Til að útskýra þetta má notast við einfalt dæmi úr heimilisbókhaldinu:

Hugsum okkur að ég þurfi 5 milljónir á ári til framfærslu. Ef ráðstöfunartekjurnar mínar eru ekki nema 4 milljónir á ári, þá þarf ekki flókna útreikninga til að sjá að endar ná ekki saman. Þar vantar milljónkall á ári uppá. Setjum nú svo að ég eigi 5 milljónir í banka, sem ég erfði til dæmis eftir ömmu mína. Með því að taka eina milljón úr þessum sjóði árlega er ég búinn að loka þessu persónulega fjárlagagati mínu. En þessi aðferð dugar mér bara í 5 ár að óbreyttu, því að eftir 5 ár verð ég búinn að eyða öllum arfinum frá ömmu.

Ég er enginn atvinnumaður í bókhaldi, en mér myndi samt aldrei detta í hug að telja milljónina frá ömmu til tekna. Árstekjurnar eru eftir sem áður bara 4 milljónir. Aukamilljónin frá ömmu eru ekki tekjur, heldur lækkun á eignum. GDP-ið fyrir heimilið, ef hægt væri að reikna svoleiðis, væri samt sem áður 5 milljónir á ári, því að þar teljast öll verðmætin með. Í GDP-inu felst með öðrum orðum engin áminning um að arfurinn, eða auðlindin sem ég hef byggt hluta af velferð minni á, sé um það bil að ganga til þurrðar.

Auðvitað felur þetta dæmi um mig og ömmu í sér mikla einföldun, en þjóð sem byggir afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu auðlinda sem ekki endurnýja sig er samt í býsna svipaðri stöðu. GDP helst hátt á meðan auðlindinni er eytt, en dettur svo niður fyrirvaralaust þegar auðlindin gengur til þurrðar.

Páskaeyja er oft nefnd sem dæmi um það sem gerist þegar maður lifir hátt á arðinum frá ömmu eða með öðrum orðum þegar þjóð byggir afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda. Páskaeyja var numin af Pólýnesum fyrir um það bil 2.500 árum. Á öldunum þar á eftir byggðist þar upp merkileg menning og mikil velsæld sem byggðist á afurðum pálmatrjáa og annars hitabeltisgróðurs sem þar var gnótt af. Í byrjun 17. aldar er talið að þarna hafi 10-15 þúsund manns lifað í vellystingum praktuglega á þess tíma mælikvarða. Þegar hollenskir landkönnuðir komu fyrst til eyjarinnar á páskadag 1722 voru þar hins vegar ekki eftir nema um 2.000 íbúar, sem bjuggu við frumstæð skilyrði á gróðurlitlu skeri. Þarna hafði velsældin verið byggð á einni óendurnýjanlegri auðlind, og þó að einhver hefði verið búinn að finna GDP upp, hefði það ekki hjálpað til að vara við hruninu sem varð þarna í lok 17. aldar eða í byrjun þeirrar átjándu.

Niðurstaðan er þessi: GDP er ekki nothæfur mælikvarði á raunverulega velsæld þjóðar, enda stóð það aldrei til, ekki frekar en það stóð til að hægt væri að fljúga farþegaþotu eftir hraðamælinum einum saman. Til að bregðast við þessum takmörkunum þessa annars nytsama tækis, hafa menn keppst við að þróa aðra mælikvarða sem gefa betri mynd af stöðu og horfum. Einn þessara mælikvarða er svonefndur Framfarastuðull eða GPI (Genuine Progress Indicator), svo ég sletti nú aðeins meiri ensku. GPI hefur það að markmiði að leiðrétta GDP, annars vegar með því að draga frá þær tekjur sem byggjast á skerðingu náttúrulegra og samfélagslegra auðlinda – og hins vegar með því að bæta við þáttum sem auka velferð þó að þeir gangi ekki kaupum og sölum. Í þessum útreikningum eru t.d. tekjur vegna slysa og glæpa dregnar frá, en slysum og glæpum fylgja ýmis umsvif sem hækka landsframleiðsluna, til dæmis vegna björgunaraðgerða, endurbyggingar, kostnaðarsamra fyrirbyggjandi aðgerða o.s.frv. Af öðrum þáttum sem koma til frádráttar þegar GPI er reiknaður má nefna tekjur vegna mengunar og eyðingar náttúruauðlinda, svo sem jarðvegs, fiskistofna eða pálmatrjáa. Hins vegar koma ólaunuð heimilisstörf og sjálfboðavinna til hækkunar í þessum útreikningum, svo eitthvað sé nefnt.

Í upphafi þessa pistils var talað um hagvöxt, og eins og þar kom fram er hagvöxtur ekkert annað en mælikvarði á það hversu mikið landsframleiðslan hefur aukist frá árinu áður. Þess vegna hefur hagvöxtur nákvæmlega sömu takmarkanir og GDP sem mælikvarði á velgengni þjóða. Auðvelt er að halda hagvextinum uppi meðan stórslysum og glæpum fjölgar ár frá ári og meðan hratt er gengið á náttúruauðlindir. En þegar allt kemur til alls er Jörðin bara eyja, rétt eins og Páskaeyja, nema vissulega miklu stærri. Hagvöxtur sem byggir á eyðingu náttúruauðlinda getur ekki gengið endalaust, hvorki á eyjunni Jörð né á nokkurri annarri eyju.

Ef við lítum á þetta í íslensku samhengi, þá er ljóst að við getum ekki til lengdar stýrt þjóðarskútunni eftir hagvaxtarmælinum eingöngu. Við erum líka sem betur fer byrjuð að skoða önnur tæki í mælaborðinu. Þannig fól Alþingi forsætisráðherra fyrir tæpum þremur árum að vinna að því að framfarastuðull (GPI) fyrir Ísland verði reiknaður og birtur samhliða vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta er svo sannarlega skref í rétta átt – og nú bíður maður bara spenntur eftir fyrstu niðurstöðum. Skyldum við vera á grænni grein, eða erum við kannski að endurtaka mistökin sem íbúar Páskaeyju gerðu á meðan allt lék þar í lyndi?

(Þessi pistill er að mestu leyti samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í þættinum Sjónmál á Rás 1 12. júní 2013. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).

Þú átt valið

Stundum fallast okkur hendur þegar talið berst að umhverfismálum, einfaldlega vegna þess að okkur þykja viðfangsefnin yfirþyrmandi og erum þess fullviss að við getum engu breytt. Hvert okkar um sig er jú bara örlítill dropi í mannhafinu, nánar tiltekið bara einn einasti dropi af rúmlega sjöþúsund milljón dropum samtals. Það er því út af fyrir sig ekkert einkennilegt að okkur finnist við vera fá og smá – og reyndar gildir það sama hvort sem við lítum í eigin barm eða hugsum fyrir íslensku þjóðina alla. Þjóðin öll er jú heldur ekki ýkja margir dropar þegar á heildina er litið.

Ég hef einhvern tímann orðað það svo að stærsta umhverfisvandamál heimsins sé, þegar allt kemur til alls, hvorki loftslagsbreytingar, eyðimerkurmyndun né mengun vatns og jarðvegs, heldur sú trú eða skoðun einstaklingsins að það sem hann gerir eða gerir ekki hafi engin áhrif á heildina. Öll hin vandamálin eru eiginlega bara afleiðing af þessu vandamáli. Sú trú að við fáum engu breytt er að mínu mati beinlínis hættuleg. Hún er eiginlega fyrsta skrefið í algjörri uppgjöf, sem væri sjálfsagt kölluð UPPGJÖF 101 ef hún væri kennd í framhaldsskólum. Við getum nefnilega vel haft áhrif – og ef við getum það ekki getur það enginn. Allir hinir milljón skrilljón droparnir eru jú bara dropar eins og við þegar allt kemur til alls.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvernig í ósköpunum við getum beitt þessari getu til áhrifa sem ég held fram að við búum yfir. Svarið við þessari spurningu er ekki einfalt, enda er auðvitað ekki til neitt eitt rétt svar hér frekar en annars staðar. En þrennt af því sem við getum gert til að hafa áhrif er alla vega að kjósa, að spyrja og að sýna. Þessi pistill fjallar um þessar þrjár mögnuðu en vanmetnu aðferðir.

Við getum sem sagt í fyrsta lagi breytt með því að kjósa. Það gerum við ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Með hverri svona ákvörðun höfum við áhrif.

Í öðru lagi getum við breytt með því að spyrja. Hér hentar aftur vel að taka Nettó og Bónus sem dæmi, já eða bara hvaða verslun sem er. Ef okkur er ekki sama um það hvaðan varan sem við kaupum kemur, hvað hún inniheldur og hvernig hún er framleidd – og ef við getum ekki fengið að vita nægju okkar um það með því að skoða merkin á umbúðunum eða lesa innihaldslýsinguna, þá eigum við að spyrja. Allar spurningar hafa að minnsta kosti tvíþættan tilgang. Tilgangurinn með því að spyrja er nefnilega ekki bara sá að fá svar, heldur líka að láta vita að manni sé ekki sama. Ef okkur vantar að vita eitthvað en spyrjum ekki, þá er okkur sama. Þá erum við með öðrum orðum að afsala okkur því valdi sem við höfum til að hafa áhrif. Nú halda kannski sumir að það sé tilgangslaust að spyrja einhverra svona spurninga í búðum, til dæmis spurninga um það hvort varnarefni hafi verið notuð við ræktun á vínberjunum eða hvort gallabuxurnar hafi verið bleiktar með nonýlfenólethoxýlötum. Fólk sem vinnur í búðum viti nefnilega ekkert um svoleiðis hluti. Þetta getur svo sem alveg verið rétt, en það er þá örugglega vegna þess að enginn hefur spurt um þetta áður. Allir hinir hafa líkast til líka haldið að það þýddi ekki neitt. Hér er vert að hafa í huga það sem almennt gildir í viðskiptum, að eftirspurn er ekki eftirspurn nema þeir sem sjá um framboðið frétti af henni.

Þriðja einfalda leiðin til að hafa áhrif er að sýna, nánar tiltekið að sýna gott fordæmi. Rannsóknir benda reyndar til að fátt eða jafnvel ekkert sé líklegra til að hafa áhrif að hegðun fólks en einmitt það hvernig fyrirmyndir þess hegða sér. Og öll erum við fyrirmyndir einhverra. Við erum til dæmis fyrirmyndir barnanna okkar, annarra í fjölskyldunni, vinnufélaganna, nemendanna og sjálfsagt margra annarra sem við vitum ekki einu sinni að líta upp til okkar og taka eftir því sem við gerum. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stöðva.

Reyndar geymir sagan ótal mörg dæmi sem ættu að duga til að sýna okkur fram á að það sem einstaklingurinn gerir eða gerir ekki getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir heildina. Hver hefur til dæmis ekki heyrt um eldhugann sem reif upp íþróttastarfið í smábænum þar sem flest hafði legið í láginni árum saman og hver hefur til dæmis ekki heyrt talað um Nelson Mandela. Allt í kringum okkur sjáum við dæmi um fólk sem tók ástfóstri við tiltekið viðfangsefni og hreif aðra með sér. Og fyrr en varði var þetta litla frumkvæði orðið að fjöldahreyfingu. Með tilkomu samfélagsmiðla gerist þetta jafnvel margfalt hraðar nú en nokkru sinni fyrr.

Niðurstaðan er í stuttu máli þessi: Hvert okkar sem er getur haft veruleg áhrif, bæði í umhverfismálum og á öðrum sviðum. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti, meðal annars með því að vera meðvitaður um að allar ákvarðanir sem við tökum fela í sér kosningu með eða á móti einhverju, með því að spyrja um allt sem við viljum vita, ekki bara til að fá svarið heldur líka til að láta vita að okkur sé ekki sama og með því að sýna öðrum gott fordæmi, því að þessir aðrir eru miklu fleiri en maður heldur. Niðurstaðan í enn styttra máli felst í orðum Edmunds Burke sem sagði á sínum tíma: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 mánudaginn 21. júlí 2014).

Í minningu vonar um betra stjórnarfar

IgnorantNú eru liðin þrjú ár frá því að íslenska þjóðin gerði tilraun til að kjósa sér stjórnlagaþing. Sú tilraun mistókst, í fyrsta lagi vegna þess að afturhaldsöflum tókst að fá niðurstöður kosningarinnar ógiltar, þrátt fyrir að ekkert benti til að ágallarnir hefðu haft áhrif á niðurstöðuna og í öðru lagi vegna þess að Alþingi skorti kjark til að þoka málinu áleiðis eftir að fulltrúar í stjórnlagaráði höfðu lagt á sig mikla og aðdáunarverða vinnu við að semja drög að þessu grunnskjali íslensks stjórnkerfis.

Þegar horft er til baka yfir þessi þrjú ár blasir við döpur mynd: Við sitjum enn uppi með úrelta stjórnarskrá sem að grunni til var samin í Danmörku á 5. áratug þarsíðustu aldar (árið átjánhundruðfjörutíuogeitthvað), stjórnarskrá sem okkur hefur allan þennan tíma skort víðsýni og samstöðu til að breyta, ef frá eru taldar nokkrar takmarkaðar leiðréttingar. Enn eru mörkin milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds svo óskýr að hætta stafar af, enn er verksvið forseta Íslands svo óljóst að sá sem gegnir því embætti getur túlkað hlutverk sitt nánast að vild og yfirtekið að hluta það vald sem aðrir eru kosnir til að fara með, enn eru úrræði til þess að leita álits þjóðarinnar á álitamálum sem upp koma í starfi löggjafans svo takmörkuð að meirihluti Alþingis á hverjum tíma getur farið fram eins og honum sýnist svo lengi sem forsetinn grípur ekki í taumana upp á sitt einsdæmi og enn leyfist mönnum að einkavæða gróða af nýtingu náttúruauðlinda og þjóðnýta tapið þegar illa fer.

Fyrir þremur árum var ég einn þeirra sem gaf kost á mér til setu á stjórnlagaþingi. Úrslit kosninga voru mér mikil vonbrigði á þeim tíma, því að 25 einstaklingar náðu kjöri og ég lenti í 27. sæti af 522 frambjóðendum. Ég var með öðrum orðum „næststigahæsta tapliðið“. Minnstu munaði að ég yrði eftir sem áður kvaddur til starfa í stjórnlagaráði eftir að einn fulltrúinn dró sig í hlé. Þar með var „stigahæsta tapliðið tekið inn í mótið“ og ég var fremstur í flokki þeirra sem stóðu fyrir utan. Eftir á að hyggja var þetta besta niðurstaða sem ég get hugsað mér, því að ég hefði ómögulega viljað leggja mig allan fram mánuðum saman til þess eins að láta hafa alla þá vinnu að engu.

Nú hefur Alþingi skipað enn eina stjórnarskrárnefndina. Hún er skipuð mætasta fólki, en samt er augljóst að þar verður engin ný nóta slegin. Enn er þar reynd sú aðferð sem hefur verið margreynd áður og ávallt mistekist.

Vonin um betra stjórnarfar lifði góðu lífi haustið 2010. Nú er sú von minningin ein. Framtíðin kemur, en þeir sem ráða ferðinni telja hag sínum betur borgið með því að sniðganga tækifærin sem gefast til að móta hana. Viðhorf fortíðar munu ráða ferðinni enn um sinn.

Einblínt á afleiðingar í stað orsaka

endofpipe160Á morgun verður kosið til Alþingis og því hafa síðustu dagar einkennst mjög af umræðum um stefnumál framboða. Einhver glöggur maður benti á það um daginn að þessar umræður hefðu að miklu leyti snúist um viðbrögð við afleiðingum hrunsins, en að lítið hefði farið fyrir umræðum um orsakir þess. Getur verið að Íslendingum hætti til að einblína um of á afleiðingar en gleymi að huga að orsökum? Getur verið að orð Duritu Brattaberg frá 1997 eigi enn við um okkur, þ.e.a.s. að „vit sløkkva bál alla tíðina heldur enn at forða fyri, at eldurin ongantíð kyknar“?

Síðustu ár hafa umhverfismál verið töluvert í umræðunni. Í þeirri umræðu hefur afleiðingum líka verið gert hærra undir höfði en orsökum. Ég hef til dæmis heyrt miklu meira talað um flokkun úrgangs en um tilurð hans. Hvar sem ég kem er fólk óþreytandi að segja mér frá góðri frammistöðu sinni við að flokka tómar umbúðir, en ég heyri örsjaldan minnst á að þessar umbúðir hafi kannski verið óþarfar frá byrjun, eða að það sem í umbúðunum var hefði betur hvorki verið framleitt né keypt. Á sama hátt hættir mönnum til að hafa meiri áhuga á tækni til að gera mengun skaðlausa, en á betri stjórnun sem leiðir til þess að uppspretta mengunarinnar hverfi. Þetta er það sem stundum er kallað rörendaviðhorf og er lýst á myndinni sem fylgir þessum pistli. Þar er einblínt á endann á rörinu en lítið hugsað um það hvaðan innihaldið í rörinu hafi komið.

Ég sé ekki betur en sama þrönga sýn á afleiðingar sé býsna ráðandi í heilbrigðiskerfinu. Þar virðist pilluboxið oft vera nærtækara en heilbrigt líferni, hreyfing og útivist sem lausn á lífsstílstengdum heilsuvanda. Áherslan er á að lækna einkennin í stað þess að kafa í orsakir vandans.

Í stjórnun landsins gildir það sama og í umhverfismálum og í heilbrigðismálum: Ef brunavarnir snúast bara um slökkvistarf, þá mun slökkviliðið hafa í nógu að snúast! Nýir eldar kvikna nefnilega jafnauðveldlega og þeir gömlu ef maður gerir ekkert til að „forða fyri, at eldurin ongantíð kyknar“!

Svarthvítt frumvarp um búfjárbeit

Í dag var dreift á Alþingi frumvarpi til laga um búfjárbeit. Flutningsmenn eru þingmennirnir Mörður Árnason og Birgitta Jónsdóttir. Markmið frumvarpsins er að „efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit“ og til þess að ná því markmiði skal búfé „aðeins beitt innan girðingar“. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023.

Neikvæðar aukaverkanir
Fáum blandast hugur um mikilvægi þess að „efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit“. Hins vegar er hætt við að sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu stuðli síður en svo að „sjálfbærri búfjárbeit“. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að taka tillit til ólíkrar stöðu landshlutanna. Þannig myndi algjört lausagöngubann líklega leiða til þess að sauðfjárrækt legðist að mestu leyti af á Vestfjörðum, víða á Austurlandi og á fleiri svæðum þar sem sauðfé er einmitt beitt í mestri sátt við náttúruna og þar sem sauðfjárrækt vegur þyngst í atvinnusköpun og viðhaldi byggðar. Um leið myndi sú kjötframleiðsla sem eftir væri færast nær því að vera verksmiðjubúskapur með öllum þeim neikvæðu aukaverkunum sem honum fylgja, svo sem aukinni áburðarnotkun og hækkandi hlutfalli korns í fóðri á kostnað gróffóðurs.

Vestfirðir sem dæmi
Tökum Vestfirði sem dæmi. Þar er byggð mjög dreifð og gróður- og jarðvegseyðing í lágmarki, ef nokkur. Búin er flest lítil og rúmt í högum, enda hefur bæði jörðum og sauðfé fækkað til muna á síðustu árum og áratugum. Ræktunarland er víðast af skornum skammti og því byggir afkoma búanna á skynsamlegri nýtingu þess mikla beitilands sem til staðar er. Þetta beitiland tilheyrir í mörgum tilvikum öðrum jörðum, sem komnar eru í eyði. Nýting þeirra kallar á gott samkomulag bænda og annarra jarðeigenda, en það er út af fyrir sig annað mál. Aðalmálið er að landrými á svæðinu er yfirdrifið þegar á heildina er litið og fátt sem bendir til að það sé ofnýtt. Þrátt fyrir að þarna fáist hvað mestar afurðir eftir hvern grip eiga búin mjög erfitt með að mæta auknum rekstrarkostnaði, smæðar sinnar vegna. Ófrávíkjanlegar lagakröfur um uppsetningu girðinga útiloka líklega áframhaldandi rekstur margra þeirra.

Lækningin verri en sjúkdómurinn?
Sá fjárhagslegi baggi sem krafan um girðingar myndi binda vestfirskum búum og öðrum búum af svipuðu tagi, er aðeins hluti ástæðunnar fyrir því að „sjálfbærasta búfjárbeitin“ myndi líklega leggjast af að mestu. Þau bú sem hefðu fjárhagslega burði til að setja upp girðingar myndu óhjákvæmilega nýta mun minna land til beitar eftir breytinguna, sem þýðir einfaldlega að gengið yrði nær þeim hluta landsins en áður. Hér þarf einnig að taka umhverfisleg áhrif girðinganna sjálfra með í reikninginn. Sums staðar hagar reyndar þannig til að uppsetning girðinga er óframkvæmanleg, en annars staðar yrði gróðureyðing og landrask vegna framkvæmdanna sjálfra vafalítið langt umfram það sem sjálf beitin getur valdið. Þetta á í það minnsta við þar sem rásir eru ristar í ósnortið land til að búa til gott undirlag fyrir girðingar, eins og nú má víða sjá í sveitum landsins.

Svolítill útúrdúr
Reyndar er hægt að hugsa sér einfalda lausn hvað Vestfirði varðar. Þetta er bara spurning um þann skilning sem lagður er í orðin „innan girðingar“. Það vill nefnilega svo vel til að Vestfirðir eru lokaðir frá öðrum landshlutum með varnargirðingu milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Kannski er þá hægt að líta á að öllu búfé á Vestfjörðum sé beitt „innan“ þeirrar girðingar. Ég geri þó frekar ráð fyrir að þessi skilningur þyki fela i í sér útúrsnúning á orðum frumvarpsins.

111. meðferð á landi og búfé!
Sums staðar á landinu eru svæði þar sem varla er eftir stingandi strá, en þar sem búfé er engu að síður beitt. Sjálfur hef ég t.d. bæði séð kindur á beit á Mývatnsöræfum og uppi undir Veiðivötnum, þrátt fyrir að þar væri varla meira en ein gróin þúfa eða einn grasbrúskur. Slíka meðferð á landi og búfé hefði átt að stöðva fyrir löngu. Reyndar gafst kjörið tækifæri til þess fyrir svo sem 30 árum þegar ljóst var að draga þyrfti úr lambakjötsframleiðslunni. En í stað þess að skoða í alvöru hvar væri forsvaranlegt að halda fé til beitar og hvar ekki, var farin sú leið að beita flötum niðurskurði og gera í engu upp á milli þeirra sem beittu fé sínu í sátt við náttúruna og hinna sem níddust á landinu. Þarna brást menn kjark, ekki bara stjórnmálamenn, heldur einnig og ekki síður forystu bændahreyfingarinnar.

Betri tillaga:
Með hliðsjón af framanskráðu legg ég til að þingmennirnir dragi frumvarp sitt til baka og leggi þess í stað fram tillögu til þingsályktunar um gerð markvissrar áætlunar um nýtingu beitilands á Íslandi, þar sem raunverulegt tillit væri tekið til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í slíkri áætlun þarf að sjálfsögðu að taka áhrif allra grasbíta með í reikninginn. Líklegt má telja að í framhaldinu yrðu lögð fram frumvörp sem gera það mögulegt að banna alfarið beit á viðkvæmum svæðum og beita sektum ef út af er brugðið. Þarna hlýtur krafan um upprunamerkingu búfjárafurða einnig að koma við sögu. Það er hreinlega kjánalegt að neytendum skuli ekki gert kleift að sjá hvort lambinu sem þeir hyggjast leggja sér til munns hafi verið beitt á Hornstrandir eða Mývatnsöræfi.

Til vara
Lítist þingmönnunum ekki á að draga frumvarp sitt til baka, legg ég til að þeir striki út úr því allar tilvísanir í sjálfbærni. Því hugtaki er gáleysislega beitt í frumvarpinu.

Lokaorð í lit
Ég fagna umræðunni um nýtingu beitilands. Það er löngu kominn tími til að taka alvarlega til í þeim málum. En sé horft á viðfangsefnið í svarthvítu er hætt við að lausnin verði jafnvel verri en vandamálið.

Svarthvítir Íslendingar

Mér leiðist umræðuhefð Íslendinga. Held ég viti hvað þurfi til að breyta henni, en þær aðgerðir taka mörg ár. Ég býst sem sagt ekki við að geta breytt hefðinni með þessu eina bloggi. Skrifa það nú samt!

Það sem mér finnst einkenna umræðuhefðina er það almenna viðhorf að á hverju máli séu aðeins tvær hliðar. Komi upp hugmynd, hljóti hún annað hvort að vera góð eða slæm. Sama gildi um einstaklinga, fyrirtæki, stjórnmálaflokka – og bara hvað sem er. Kannski er þetta ekki séríslenskt fyrirbæri. Mig minnir t.d. að Georg Tvöfaltvaff Bush hafi einhvern tímann sagt að þeir sem ekki væru vinir hans, væru óvinir hans. Það er nokkurn veginn sama viðhorf og ég er að reyna að lýsa.

Í stuttu máli finnst mér umræðan yfirleitt fela í sér rifrildi um það hvort umræðuefnið sé hvítt eða svart. Slík umræða er bæði leiðinleg og gagnslaus. Þegar málin eru rædd er maður fljótlega krafinn svara um það hvort maður sé t.d. með eða á móti

 • ríkisstjórninni,
 • virkjunum,
 • lúpínu,
 • sauðkindum,
 • lausagöngu búfjár,
 • Huang Nubo,
 • LÍÚ,
 • o.s.frv.

En tilfellið er að öll þessi málefni hafa fleiri en tvær hliðar. Ekkert þeirra er svarthvítt. Kannski eru Íslendingar bara sjálfir svarthvítir.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að umræðuhefð samtímans ætti rætur í umræðuhefð Sturlungaaldar, þegar menn voru klofnir í herðar niður ef þeir höfðu rangar skoðanir. Sturlungar nenntu engu kjaftæði. Og enn í dag eru eðlilegar rökræður kallaðar kjaftæði af þeim sem sjá heiminn í svarthvítu. Það er bara komið úr tísku að höggva menn út af því. Í staðinn eru þeir kallaðir hálfvitar í Fésbókarfærslum og í athugasemdakerfum fréttamiðla.

Já, mér leiðist sem sagt þessi svarthvíta umræðuhefð Íslendinga. Reyndar skiptir minnstu máli þótt mér leiðist hún. Verra er að hún stendur okkur fyrir þrifum og stendur í vegi fyrir eðlilegri og nauðsynlegri lýðræðisþróun. Eina leiðin til að breyta umræðuhefðinni til betri vegar, er að kenna börnum að sjá hlutina frá mismunandi hliðum og gefa þeim tækifæri til að tjá sig um þessi ólíku sjónarhorn. Þetta höfum við vanrækt, ekki bara skólakerfið heldur líka við sem erum feður og mæður og afar og ömmur.

Við þurfum að taka okkur á!

Forsetinn og umhverfismálin

Mér finnst skipta miklu máli að forseti Íslands sé umhverfissinni. Forsetinn á að vera málsvari sjálfbærrar þróunar og hann á vera þjóðinni gott fordæmi í daglegum athöfnum. Hins vegar á forsetinn ekki að taka afstöðu í umhverfismálum sem eru til umfjöllunar á Alþingi eða í vinnslu hjá ráðuneytum og stofnunum þeirra. Vissulega er freistandi að láta sig dreyma um að á Bessastöðum sitji forseti sem hefur vit fyrir stjórnvöldum á sviði umhverfismála þegar þau eru í þann veginn að taka óheppilegar ákvarðanir, en slíkt gengur gegn stjórnskipan landsins. Forsetinn á ekki að fara út fyrir valdsvið sitt, hvert sem málefnið er.

Málsvari sjálfbærrar þróunar
Forseti Íslands fær mörg tækifæri til að vera málsvari sjálfbærrar þróunar, jafnt innanlands sem utan. Þessi tækifæri á hann að nýta. Forsetinn á stöðugt að minna á mikilvægi þess að hagsmunir komandi kynslóða séu hafðir að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku, að þjóðir heims hafi grunnreglur Ríósáttmálans í heiðri, svo sem mengunarbótaregluna og varúðarregluna, og að Íslendingar og aðrar þjóðir geri allt sem í þeirra valdi stendur til að ná Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og til að sammælast um metnaðarfull sjálfbærnimarkmið á allsherjarþinginu haustið 2013, eins og samkomulag varð um á ráðstefnunni Ríó+20 á dögunum. Sömuleiðis ætti forsetinn að vera ötull talsmaður þess að leiðtogar heimsins komi sér saman um markvissar aðgerðir í loftslagsmálum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Samræmi orða og gjörða
Sem talsmaður umhverfisins og komandi kynslóða þarf forsetinn ætíð að gæta þess að samræmi sé milli orða hans og gjörða. Sem dæmi um hið gagnstæða má nefna þátttöku núverandi forseta Íslands og eiginkonu hans í ferð til Suðurskautslandið um mánaðarmótin janúar/febrúar 2012, sem farin var í þeim tilgangi að „kanna hina hröðu bráðnun íss og ræða hvernig unnt er að fá þjóðir heims til að sameinast í raunhæfum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum“, eins og það var orðað í fréttatilkynningu forsetaembættisins. Vandséð er hvernig gagnsemin af þátttöku ráðamanna í slíkri ferð, með öllu því sem slíkri þátttöku fylgir, geti nokkurn tímann vegið upp á móti þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem ferðin veldur. Vel sögð orð forseta um mikilvægi aðgerða gegn loftslagsbreytingum eru fljót að breytast í öfugmæli ef þeim er fylgt eftir með þessum hætti.

Forsetinn sem fyrirmynd
Rannsóknir á sviði umhverfissálarfræði og félagslegrar markaðsfærslu benda til að fátt eða ekkert sé líklegra til að hafa áhrif á hegðun fólks en hegðun fyrirmyndanna. Gott dæmi um þetta er reynslusaga úr sturtunum í háskólanum í Santa Cruz í Kaliforníu, sem ég hef iðulega vitnað til í ræðu og riti, m.a. í bloggpistli 29. október 2010. Í þessu liggur líklega stærsta tækifærið sem forseta Íslands gefst til að koma góðu til leiðar í umhverfismálum. Með því að sýna gott fordæmi í daglegum athöfnum getur fjölskyldan á Bessastöðum haft meiri áhrif á lífsstíl fólksins í landinu en flest okkar órar fyrir. En til þess að svo megi verða þarf að sýna þetta góða fordæmi allan daginn og alla daga, en ekki eingöngu á hátíðis- og tyllidögum þegar kastljós fjölmiðla beinist að Bessastöðum. Það er nefnilega grundvallaratriði að sá sem sendir út skilaboðin sé sjálfum sér samkvæmur.

Gott dæmi
Gott dæmi um það hvernig forsetinn getur haft áhrif til góðs með hegðun sinni er val núverandi forseta Íslands á embættisbifreið. Þegar komið var að endurnýjun sumarið 2007 ákvað forsetinn að taka tvinnbíl af Lexus-gerð fram yfir algengari en mun eyðslufrekari bíla. Bílar eru auðvitað ekki umhverfisvænir sem slíkir, en forseti Íslands verður óhjákvæmilega að hafa sómasamlega embættisbifreið til umráða. Ákvörðun um val á slíkri bifreið ræður miklu um áhrif embættisins á umhverfið næstu ár þar á eftir, því að í bílakaupum er sjaldnast tjaldað til einnar nætur.

Innkaupin mikilvægust
Val á bifreiðum er að sjálfsögðu aðeins eitt atriði af mörgum þar sem forseti Íslands getur gengið á undan með góðu fordæmi. Í raun eru öll smáu og daglegu atriðin mikilvægari, m.a. vegna þess að þau standa venjulegum fjölskyldum nær og því eru meiri líkur á að fjöldinn fylgi í fótsporin. Innkaup skipta líklega einna mestu máli í þessu sambandi. Með því að gæta hófs í innkaupum, kaupa umhverfismerktar eða lífrænt vottaðar vörur, taka siðgæðisvottaðar vörur (e. fairtrade) fram yfir aðrar þegar kostur er – og þar fram eftir götunum, getur forsetinn gefið fordæmi sem skiptir miklu máli þegar á heildina er litið. Sama áhersla þyrfti þá jafnframt að endurspeglast m.a. í viðhaldi bygginga á Bessastöðum, umhirðu opinna svæða og kaupum á þjónustu. Stjórnun úrgangsmála er líka gríðarlega mikilvæg, ekki síst vegna þess að í hugum margra eru úrgangsmálin kjarninn í umhverfisstarfi heimilanna. Forseti Íslands getur komið miklu til leiðar með því að ganga á undan með góðu fordæmi  varðandi endurnotkun, flokkun úrgangs til endurvinnslu og jarðgerð á lífrænum úrgangi, svo eitthvað sé nefnt. En í öllu þessu skiptir meginmáli að gjörðir fylgi orðum. Það er gagnslítið að tala um þessi mál í nýársávarpi ef talinu er ekki fylgt eftir í hinu daglega amstri.

Það sem forsetinn má ekki
Hér hefur verið stiklað á stóru yfir sitthvað sem forseti Íslands getur gert til að koma góðu til leiðar í umhverfismálum. Það sem hann getur ekki gert, eða ætti ekki að gera, er hins vegar að taka afstöðu í umhverfismálum sem eru til umfjöllunar á Alþingi eða í vinnslu hjá ráðuneytum og stofnunum þeirra. Þannig á forseti Íslands ekki að gefa út yfirlýsingar eða beita áhrifum sínum með beinum hætti til að hafa áhrif á ákvarðanir um einstakar virkjanir eða álver, um afgreiðslu rammaáætlunar eða önnur slík viðfangsefni. Þar verður hann að þekkja takmörk sín. Hann á ekki að taka til baka það vald sem hann hefur falið Alþingi og ráðuneytum að framkvæma, hvorki að hluta né í heild, hver sem málaflokkurinn er.

Grænir Bessastaðir?
Orð Þóru Arnórsdóttur, forsetaframbjóðanda, um að hún vilji gera Bessastaði græna, vekja vonir um að framundan geti verið áhugaverðir tímar þar sem forsetaembættinu verði beitt í þágu umhverfisins og komandi kynslóða með þeim hætti að það hafi áhrif á daglegt líf og hegðun á öðrum íslenskum heimilum.

Leiðtogastéttin og almúginn

Fyrir nokkrum árum heyrði ég orðið „stjórnmálastétt“ í fyrsta sinn. Þá vissi ég að okkur hafði borið af leið, því að um leið og stjórnmálamenn eru farnir að tilheyra annarri stétt en almenningur, þá er lýðræðið í hættu.

Forseti Íslands er ekki stjórnmálamaður, eða á alla vega ekki að vera það, í það minnsta ekki á meðan hann sinnir forsetaembættinu. Forseti Íslands er leiðtogi. En þar er sama hætta uppi og í stjórnmálunum, að um leið og til verður eitthvað sem hægt er að kalla „leiðtogastétt“, þá er lýðræðið í hættu.

Ég vil að Þóra Arnórsdóttir verði næsti forseti Íslands. Fyrir því eru margar ástæður, en ein sú mikilvægasta er að Þóra tilheyrir hvorki „stjórnmálastéttinni“ né „leiðtogastéttinni“. Hún er bara venjuleg móðir á venjulegu heimili í venjulegri lífsbaráttu. Sem slík hefur hún alla burði til að skilja aðstæður venjulegs fólks, njóta trausts þess og geta talað máli þess.

Kjósum Þóru Arnórsdóttur sem forseta okkar allra 30. júní nk.

 

Hlutdrægt hlutleysi?

Þóra Arnórsdóttir opnaði kosningamiðstöðina sína í dag. Fjöldi manns var þarna saman kominn í góða veðrinu og líklega varð enginn fyrir vonbrigðum með ræðu frambjóðandans. Þar komu margir áhugaverðir punktar fram. Fjölmiðlar gerðu þessu allgóð skil, í það minnsta mbl.is, visir.is og Stöð 2. Hins vegar vakti það athygli margra að ekkert var minnst á þennan viðburð í kvöldfréttum RÚV.

Eðlilega þarf RÚV að gæta fyllsta hlutleysis í umfjöllun sinni um forsetaframbjóðendur. Í þetta sinn er starfsmönnum þar á bæ þó sérstakur vandi á höndum, þar sem frambjóðandinn Þóra starfaði þar til skamms tíma eins og flestum er kunnugt. En þá vaknar sú spurning hvort hlutleysið geti gengið svo langt að jaðri við hlutdrægni, þ.e.a.s. hvort starfsfólk RÚV gæti þess sérstaklega að segja ekki frá viðburðum í kosningabaráttu Þóru, jafnvel þótt tíðindum sem tengjast meðframbjóðendum hennar séu gerð þokkaleg skil. Spurningin verður jafnvel enn áleitnari eftir innlit á forsetakosningasíðu RÚV, (sjá mynd neðst í þessum pistli).

Svona spurningum hlýtur náttúrulega hver að svara fyrir sig, því að það samræmist varla hlutleysisstefnu RÚV að standa í rökræðum um þetta. Sömuleiðis hlýt ég að svara þessari spurningu fyrir sjálfan mig. Svarið er tvíþætt:

 1. Ég hef engar áhyggjur af meintu hlutdrægu hlutleysi RÚV. Þar á bæ vinnur fagfólk sem gerir sitt besta í þessu máli sem öðrum.
 2. Auðvitað skiptir umfjöllun fjölmiðla um forsetaframbjóðendur einhverju máli. En Þóra kynnir sig best sjálf. Það mun hún m.a. gera í Landnámssetrinu í Borgarnesi annað kvöld, þriðjudagskvöldið 29. maí kl. 20:00. Það verður fyrsti fundur hennar með kjósendum eftir fæðingu dótturinnar og sá fyrsti eftir vel heppnaða opnun kosningamiðstöðvarinnar. Hvet fólk til að mæta snemma og ná góðum sætum á söguloftinu! Svo er líka upplagt að skoða kosningasíðunna hennar, www.thoraarnors.is.

Kannski vakna fleiri spurningar, t.d. hvers vegna ég sé einlægur stuðningsmaður Þóru Arnórsdóttur. Ástæðan er í stuttu máli sú, að af öllu því góða fólki sem gefið hefur kost á sér treysti ég henni best til að fá okkur til að rétta úr bakinu og horfa fram á veginn í stað þess að hjakka í sama farinu. Ég treysti henni best til að vera tákn sameiningar í stað sundrungar. Sjálfsagt skrifa ég meira um þetta síðar, t.d. eitthvað um leiðina yfir á fljótsbakka framtíðarinnar.

Skjámynd af kosningavef RÚV 28. maí 2012.

Þurfa Kópavogsbúar meirihluta?

Bæjarstjórnarfólk í Kópavogi leggur mikið á sig þessa dagana við að koma saman nýjum meirihluta eftir að meirihluti bæjarstjórnar „sprakk“ fyrir nokkru síðan. En er allt þetta erfiði nauðsynlegt? Ég held ekki. Kópavogsbúar geta að mínu mati vel lifað án þess að formlegur meirihluti sé starfandi í bæjarstjórn. Og tíma bæjarstjórnarfólks væri betur varið í margt annað en meirihlutaviðræður. Sjálfsagt bíða mörg mál afgreiðslu – og ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða þau bara strax.

Stórlega ofmetið fyrirbæri
Ég er almennt þeirrar skoðunar að formlegur meirihluti í sveitarstjórnum sé stórlega ofmetið fyrirbæri. Í sveitarstjórnarlögum er hvergi minnst á þetta fyrirbæri, þannig að ekki kemur krafan um meirihlutaviðræður þaðan. Mér er næst að halda að sú trú að nauðsynlegt sé að mynda meirihluta eigi annað hvort rætur í einhvers konar minnimáttarkennd sem fær menn til að reyna að líkja eftir stóra bróður, þ.e.a.s. Alþingi, eða þá í tiltölulega ómeðvitaðri viðleitni til að taka umræðu um það sem máli skiptir út úr sviðsljósinu. Þá er hægt að ná niðurstöðu í helstu mál á „sellufundum“ bak við luktar dyr, en gera sveitarstjórnarfundina að málfundum þar sem menn geta sýnt almenningi mælsku sína.

Lýðræðishalli
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum gildir einfaldur meirihluti við afgreiðslu velflestra mála á sveitarstjórnarfundum. Þar stendur hins vegar hvergi að menn þurfi að vera búnir að afgreiða mál áður en fundirnir hefjast með því að ákveða fyrirfram og jafnvel til langs tíma hvernig atkvæði skuli falla. Auðvitað er ekkert í lögunum heldur sem bannar formlegt meirihlutasamstarf. Mér finnst bara ástæða til að gjalda varhug við þeim lýðræðishalla og skorti á gagnsæi sem getur falist í ákvörðunum meirihluta utan sveitarstjórnarfunda.

Hvernig rekur maður þá bæjarstjóra?
Nú, en hvernig eiga menn þá að koma sér saman um hvort eða hvernig eigi að ráða eða reka bæjarstjóra, en það skilst mér að hafi sett þessa meirihlutahringekju af stað í Kópavogi? Svarið við þessu er ekkert flókið, enda stendur það nokkuð skýrum stöfum í sveitarstjórnarlögunum. Sveitarstjórn ræður einfaldlega framkvæmdastjóra – og rekur hann þá væntanlega líka ef ástæða þykir til. (Það stendur hvergi að meirihlutinn eigi að gera það, hvað þá einstakir sveitarstjórnarmenn)! Þetta þýðir að ef einhvern í bæjarstjórninni langar til að bæjarstjórinn verði rekinn, þá ber sá hinn sami bara upp tillögu um það. Tillagan er rædd á fundi og síðan tekið fyrir í atkvæðagreiðslu þar sem meirihluti atkvæða ræður. Ef tillagan er felld, þá situr bæjarstjórinn áfram og einhverjir bæjarstjórnarmenn verða að játa sig sigraða, rétt eins og gerist eftir flestar atkvæðagreiðslur. Sé tillagan hins vegar samþykkt eru tillögur um það hvernig skuli staðið að ráðningu nýs bæjarstjóra og síðan um það hver skuli ráðinn afgreiddar á sama hátt.

Við hvað eru menn hræddir?
Ég hef aldrei skilið hvers vegna fólk þarf að vera svona hrætt við að ræða og afgreiða mál fyrir opnum tjöldum án þess að vita niðurstöðuna fyrirfram. Þetta minnir á orð sem ónefndur oddviti austur á landi á að hafa látið falla þegar honum fundust menn vera orðnir heldur langorðir á hreppsnefndarfundi: „Eigum við ekki að fara að koma okkur að því að samþykkja það sem búið var að samþykkja að samþykkja hér í kvöld“?

(Sjá einnig bloggpistil frá 21. júní 2010).