Hagvöxtur er alls ekkert náttúrulögmál á borð við þyngdarlögmálið eða snúning jarðar. Þvert á móti er hagvöxtur ekkert annað en manngert mælitæki til að sýna hversu mikið landsframleiðslan hefur aukist frá árinu áður. Það þýðir hins vegar ekki að hagvöxtur sé góður mælikvarði á velgengni þjóðar, eins og sumir virðast þó halda.
Og hvað er þá landsframleiðsla? Jú, landsframleiðsla, eða öllu heldur „verg landsframleiðsla“ eins og fyrirbærið heitir á íslensku stofnanamáli, er samanlagt söluverð allrar vöru og allrar þjónustu sem framleidd er í landinu á ákveðnu tímabili, og þá er oftast talað um eitt ár. Stundum er skammstöfunin VLF notuð fyrir „verga landsframleiðslu“, en hér ætla ég að leyfa mér að nota frekar skammstöfunina GDP, þó að hún sé reyndar enskusletta (Gross Domestic Product).
Upphaflega var GDP-stuðullinn þróaður fyrir um það bil 70 árum til að gefa vísbendingu um efnahagslegar framfarir. Þá stóð aldrei til að þessi mælikvarði yrði notaður til annars, en engu að síður er hann býsna almennt notaður til að meta og bera saman velgengni þjóða.
Helsti gallinn á landsframleiðslustuðlinum GDP sem „velgengnismæli“ er annars vegar sá að inn í hann reiknast allar tekjur, óháð því hvernig þær hafa orðið til – og hins vegar sá að inn í hann reiknast engin önnur verðmæti en þau sem ganga kaupum og sölum. Þegar rýnt er nánar í þetta sést að GDP dugar skammt til að segja fyrir um efnahagslega hagsæld, hvað þá aðra sæld. Til að útskýra þetta má notast við einfalt dæmi úr heimilisbókhaldinu:
Hugsum okkur að ég þurfi 5 milljónir á ári til framfærslu. Ef ráðstöfunartekjurnar mínar eru ekki nema 4 milljónir á ári, þá þarf ekki flókna útreikninga til að sjá að endar ná ekki saman. Þar vantar milljónkall á ári uppá. Setjum nú svo að ég eigi 5 milljónir í banka, sem ég erfði til dæmis eftir ömmu mína. Með því að taka eina milljón úr þessum sjóði árlega er ég búinn að loka þessu persónulega fjárlagagati mínu. En þessi aðferð dugar mér bara í 5 ár að óbreyttu, því að eftir 5 ár verð ég búinn að eyða öllum arfinum frá ömmu.
Ég er enginn atvinnumaður í bókhaldi, en mér myndi samt aldrei detta í hug að telja milljónina frá ömmu til tekna. Árstekjurnar eru eftir sem áður bara 4 milljónir. Aukamilljónin frá ömmu eru ekki tekjur, heldur lækkun á eignum. GDP-ið fyrir heimilið, ef hægt væri að reikna svoleiðis, væri samt sem áður 5 milljónir á ári, því að þar teljast öll verðmætin með. Í GDP-inu felst með öðrum orðum engin áminning um að arfurinn, eða auðlindin sem ég hef byggt hluta af velferð minni á, sé um það bil að ganga til þurrðar.
Auðvitað felur þetta dæmi um mig og ömmu í sér mikla einföldun, en þjóð sem byggir afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu auðlinda sem ekki endurnýja sig er samt í býsna svipaðri stöðu. GDP helst hátt á meðan auðlindinni er eytt, en dettur svo niður fyrirvaralaust þegar auðlindin gengur til þurrðar.
Páskaeyja er oft nefnd sem dæmi um það sem gerist þegar maður lifir hátt á arðinum frá ömmu eða með öðrum orðum þegar þjóð byggir afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda. Páskaeyja var numin af Pólýnesum fyrir um það bil 2.500 árum. Á öldunum þar á eftir byggðist þar upp merkileg menning og mikil velsæld sem byggðist á afurðum pálmatrjáa og annars hitabeltisgróðurs sem þar var gnótt af. Í byrjun 17. aldar er talið að þarna hafi 10-15 þúsund manns lifað í vellystingum praktuglega á þess tíma mælikvarða. Þegar hollenskir landkönnuðir komu fyrst til eyjarinnar á páskadag 1722 voru þar hins vegar ekki eftir nema um 2.000 íbúar, sem bjuggu við frumstæð skilyrði á gróðurlitlu skeri. Þarna hafði velsældin verið byggð á einni óendurnýjanlegri auðlind, og þó að einhver hefði verið búinn að finna GDP upp, hefði það ekki hjálpað til að vara við hruninu sem varð þarna í lok 17. aldar eða í byrjun þeirrar átjándu.
Niðurstaðan er þessi: GDP er ekki nothæfur mælikvarði á raunverulega velsæld þjóðar, enda stóð það aldrei til, ekki frekar en það stóð til að hægt væri að fljúga farþegaþotu eftir hraðamælinum einum saman. Til að bregðast við þessum takmörkunum þessa annars nytsama tækis, hafa menn keppst við að þróa aðra mælikvarða sem gefa betri mynd af stöðu og horfum. Einn þessara mælikvarða er svonefndur Framfarastuðull eða GPI (Genuine Progress Indicator), svo ég sletti nú aðeins meiri ensku. GPI hefur það að markmiði að leiðrétta GDP, annars vegar með því að draga frá þær tekjur sem byggjast á skerðingu náttúrulegra og samfélagslegra auðlinda – og hins vegar með því að bæta við þáttum sem auka velferð þó að þeir gangi ekki kaupum og sölum. Í þessum útreikningum eru t.d. tekjur vegna slysa og glæpa dregnar frá, en slysum og glæpum fylgja ýmis umsvif sem hækka landsframleiðsluna, til dæmis vegna björgunaraðgerða, endurbyggingar, kostnaðarsamra fyrirbyggjandi aðgerða o.s.frv. Af öðrum þáttum sem koma til frádráttar þegar GPI er reiknaður má nefna tekjur vegna mengunar og eyðingar náttúruauðlinda, svo sem jarðvegs, fiskistofna eða pálmatrjáa. Hins vegar koma ólaunuð heimilisstörf og sjálfboðavinna til hækkunar í þessum útreikningum, svo eitthvað sé nefnt.
Í upphafi þessa pistils var talað um hagvöxt, og eins og þar kom fram er hagvöxtur ekkert annað en mælikvarði á það hversu mikið landsframleiðslan hefur aukist frá árinu áður. Þess vegna hefur hagvöxtur nákvæmlega sömu takmarkanir og GDP sem mælikvarði á velgengni þjóða. Auðvelt er að halda hagvextinum uppi meðan stórslysum og glæpum fjölgar ár frá ári og meðan hratt er gengið á náttúruauðlindir. En þegar allt kemur til alls er Jörðin bara eyja, rétt eins og Páskaeyja, nema vissulega miklu stærri. Hagvöxtur sem byggir á eyðingu náttúruauðlinda getur ekki gengið endalaust, hvorki á eyjunni Jörð né á nokkurri annarri eyju.
Ef við lítum á þetta í íslensku samhengi, þá er ljóst að við getum ekki til lengdar stýrt þjóðarskútunni eftir hagvaxtarmælinum eingöngu. Við erum líka sem betur fer byrjuð að skoða önnur tæki í mælaborðinu. Þannig fól Alþingi forsætisráðherra fyrir tæpum þremur árum að vinna að því að framfarastuðull (GPI) fyrir Ísland verði reiknaður og birtur samhliða vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta er svo sannarlega skref í rétta átt – og nú bíður maður bara spenntur eftir fyrstu niðurstöðum. Skyldum við vera á grænni grein, eða erum við kannski að endurtaka mistökin sem íbúar Páskaeyju gerðu á meðan allt lék þar í lyndi?
(Þessi pistill er að mestu leyti samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í þættinum Sjónmál á Rás 1 12. júní 2013. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).
Filed under: Sjálfbær þróun, Stjórnmál, Umhverfismál | Tagged: GDP, GPI, Hagvöxtur, VLF | 1 Comment »