• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • mars 2011
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  2728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Auðvitað hækkar olían

Ég er hissa á að nokkur skuli vera hissa á hækkandi olíuverði. Eins og bent er á í ítarlegri umfjöllun The Economist 3. mars sl. ráða tveir þættir olíuverði á heimsmarkaði; annars vegar lögmálið um framboð og eftirspurn og hins vegar óttinn. Þessir áhrifaþættir eru báðir til staðar þessa dagana.

Þegar ég tala um „þessa dagana“ er ég aðallega að vísa til ástandsins í Líbýu, eða öllu heldur ástandsins í Norður-Afríku og í Mið-Austurlöndum, því að Líbýa ein og sér hefur engin afgerandi áhrif á olíumarkaðinn. „Þessir dagar“ líða fyrr en varir, en í þeirra stað koma nýir dagar sem lúta sömu lögmálum framboðs, eftirspurnar og ótta. Þegar rýnt er í framtíðina er næsta augljóst að olíuverð mun hækka jafnt og þétt, með tímabundnum sveiflum upp og niður. Þetta höfum við vitað lengi, en þykjumst samt enn vera hissa!

Ef við lítum á framboðið, þá fer því fjarri að olíulindir heimsins tæmist á næstunni. Það verður sem sagt nægt framboð á olíu enn um sinn. Hins vegar hækkar vinnslukostnaðurinn jafnt og þétt eftir því sem fara þarf lengra út á haf, bora dýpra o.s.frv. Samtímis minnkar nettóávinningurinn. Það þarf með öðrum orðum smám saman fleiri lítra af olíu til að sækja hvern lítra. Þegar þetta hlutfall nálgast 1:1 er olíuvinnslu sjálfhætt, þó að enn séu til ríkulegar olíulindir. Þetta gerist ekki á næstu árum, en sá dagur mun engu að síður koma. Framboðið ræðst auðvitað líka af stjórnmálaástandi og duttlungum olíuframleiðsluríkja, en það eru skammtímamál.

Eftirspurnin eykst jafnt og þétt, bæði vegna þess að hagvöxtur í ríkustu löndum heims byggir enn að miklu leyti á aukinni orkunotkun – og vegna hins að hagkerfi annarra landa vaxa nú sem óðast. Í því sambandi nægir að nefna Kína. Gott ef ég heyrði ekki einhvers staðar á dögunum að Kínverjar stefni að því að tvöfalda þjóðarframleiðslu sína fyrir árið 2020 (sel það samt ekki dýrara en ég keypti). Flest bendir til að þetta hafi í för með sér gríðarlega aukningu á eftirspurn eftir olíu, því að jafnvel þótt Kínverjar (svo ég taki þá aftur sem dæmi) leggi mikið upp úr því að verða fremstir meðal jafningja í nýtingu endurnýjanlegrar orku, þá nota þeir enn um 50% meiri olíu á framleiðslueiningu en t.d. Bandaríkjamenn, (sbr. greinina í The Economist).

Og óttinn er alltaf samur við sig. Þar er ég ekki bara að tala um ótta við ótryggt stjórnmálaástand í Norður-Afríku og í Mið-Austurlöndum, heldur líka óttann við skort. Þannig mun óttinn við minnkandi framboð á olíu hafa áhrif til hækkunar á olíuverði löngu áður en framboðið tekur í raun og veru að minnka. Óttinn við skort getur verið erfiðari viðfangs en skorturinn sjálfur, rétt eins og Khalil Gibran segir í Spámanninum; („Er ekki ótti við þorsta, þegar brunnur þinn er fullur, sá þorsti, sem ekkert fær svalað?“).

Við þurfum sem sagt ekkert að vera hissa. Og við þurfum heldur ekki að óttast neitt, eða við þyrftum öllu heldur ekki að óttast neitt ef við hefðum horfst í augu við það augljósa og byrjað fyrir löngu venja okkur af olíunni! Það þarf engan sérfræðing til að spá fyrir um þróun olíuverðs til lengri tíma litið! Og ef okkur Íslendingum dytti í hug að líta í eigin barm, þá myndum við sjá að við höfum stórkostlega möguleika til að losna undan olíufíkninni. Við erum nefnilega svo rík að orku! Gallinn er bara sá að við getum bara notað hverja kílówattstund einu sinni. Ef við seljum hér um bil alla orkuna okkar fyrir smápeninga til hráefnisframleiðslu fyrir erlend stórfyrirtæki – og sendum svo afganginn óunninn úr landi um sæstreng, þá er of snemmt að afboða óttann! 

(Auk greinarinnar í The Economist var innblástur í þennan pistil sóttur til Hans Nilsson hjá Fourfact í Svíþjóð).