• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • febrúar 2011
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Ágengar tegundir: Þörf á aukinni varúð!

Spánarsnigill (Arion lusitanicus). Ljósmynd http://www.nobanis.org, Hans Erik Svart

Á síðustu vikum hefur verið togast dálítið á um drög að frumvarpi til laga um breytingar á náttúruverndarlögum, sérstaklega þær greinar sem lagt er til að komi í stað 41. greinar núgildandi laga. Í þessum nýju greinum eru settar fram skýrari reglur en áður um innflutning lifandi framandi lífvera og um dreifingu lifandi lífvera. Tilgangurinn er að draga úr hættu á tjóni á lífríki Íslands af völdum framandi lífvera.

Ég hef ekki haft tök á að fylgjast nákvæmlega með umræðunni um frumvarpsdrögin, en tilsýndar sýnast mér þeir sem tekið hafa til máls skiptast í tvær fylkingar; annars vegar hóp skógræktar- og garðræktarfólks sem telur of langt gengið í takmörkun og eftirliti með innflutningi og dreifingu lífvera – og hins vegar vistfræðinga sem leggja áherslu á varúðina, enda hafi ágengar lífverur víða valdið miklu tjóni.

Ég er talsmaður varúðarinnar, enda er varúðin hornsteinninn í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, þeirrar hugmyndafræði sem vill að látið sé af “hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður er stór skaði öldum og óbornum”, svo vitnað sé í orð Þorvaldar Thoroddsen frá 1894. Þess vegna tek ég undir orð vistfræðinga sem hvetja til þess að varúðarákvæðin í náttúruverndarlögunum séu styrkt.

Máli sínu til stuðnings benda vistfræðingarnir á útreikninga sem gerðir hafa verið á tjóni af völdum ágengra tegunda. Mér finnst þörf á að hnykkja enn frekar á þessu atriði, því að tjón af þessu tagi kemur oftast fram löngu eftir að flutningur lífverunnar á sér stað. Þannig er líklegt að á síðustu áratugum höfum við í ógáti (varúðarleysi) stofnað til skuldar sem er hvergi skráð og kemur ekki á gjalddaga fyrr en að okkur gengnum. Þekkt tjón af völdum ágengra tegunda stafar líklega fyrst og fremst af flutningi tegunda á fyrri hluta 20. aldar, en áhrif af flutningum síðari tíma eiga að miklu leyti eftir að koma fram. Endanlegt tjón af því sem þegar hefur gerst gæti því orðið langt umfram þau 5% af landsframleiðslu, sem nefnd hafa verið í þessu sambandi.

Vangaveltur mínar hér að framan um skuldina sem enn hefur ekki verið bókuð, eru byggðar á grein eftir Franz Essl, Stefan Dullinger, Wolfgang Rabitscha og 10 aðra vísindamenn, sem birtist 4. janúar sl. í Proceedings of the National Academy of Sciences. Meginniðurstaða greinarinnar er að áhrif ágengra tegunda í Evrópu nú um stundir séu fremur afleiðing mannlegra athafna á árunum kringum 1900, en athafna um nýliðin aldamót. Innflutningur framandi tegunda hafi aukist mjög á síðustu 50-60 árum, og líklega muni áhrif þeirra flutninga ekki koma fram að fullu fyrr en að nokkrum áratugum liðnum. Þannig sé í raun þegar búið að stofna til skuldar sem kynslóðir framtíðar munu þurfa að kljást við.

Umrædd grein felur í sér áminningu til þeirra sem fjalla um flutning framandi tegunda um að gæta enn betur að sér en gert hefur verið. Líklega er ástæða til að skerpa varnarákvæðin í frumvarpsdrögunum enn frekar ef eitthvað er, enda hvetja greinarhöfundar einmitt til breytinga í þá átt í ljósi niðurstaðna sinna.

(Aðalheimild: Franz Essl, Stefan Dullinger, Wolfgang Rabitscha, et al. (2011). Socioeconomic legacy yields an invasion debt. Proceedings of the National Academy of Sciences. 108:203-207).

Þjóðaratkvæðagreiðslur – upprifjun

Síðustu daga hefur mönnum orðið tíðrætt um 26. grein stjórnarskrárinnar, þar sem fjallað er um heimild forseta Íslands til að synja lagafrumvarpi staðfestingar. Mér finnst gott að þessi grein sé rædd, því að ég tel brýnt að henni verði breytt í þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar sem hefst vonandi bráðum. Hins vegar finnst mér vont að menn finni hjá sér skyndilega þörf til að breyta henni einmitt núna, af því að þeim líkar ekki hvernig forsetinn beitti henni sl. sunnudag.

Hér á eftir ætla ég að rifja upp skrif mín um 26. greinina í aðdraganda kosninga til Stjórnlagaþings, bara svona til að stytta mönnum leiðina í umræðunni. 🙂 Viðfangsefnið er nefnilega ekki nýtt, og það eru til nægar fyrirmyndir að breyttri tilhögun.

Ég tel mikilvægt að fólkið í landinu geti haft meiri áhrif á ákvarðanir stjórnvalda en gert er ráð fyrir í núverandi stjórnkerfi, m.a. með því að tiltekinn hluti kjósenda og tiltekinn fjöldi Alþingismanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Útfærslan á þessu getur verið með ýmsu móti, en eftir að hafa skoðað stjórnarskrár nágrannalandanna hallast ég helst að eftirfarandi fyrirkomulagi:

  1. Minnihluti Alþingis (t.d. þriðjungur þingmanna) geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög.
  2. Tiltekinn hluti kjósenda (10% eða e.t.v. meira) geti gert slíkt hið sama.
  3. Forseti Íslands hafi ekki málskotsrétt.

Hverjum datt þetta í hug?
Hugmyndin um að þriðjungur þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög er fengin að láni úr dönsku stjórnarskránni. Þar eru þó undanskilin lög sem varða fjárhag ríkisins o.fl. Málskotsheimildinni verður að beita áður en þrír sólarhringar eru liðnir frá samþykkt umræddra laga, og til að lög séu felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf einfaldan meirihluta kjósenda, þó að lágmarki 30% atkvæðisbærra manna. Allt þetta mætti nýta sem efnivið í stjórnarskrárgerðinni hér.

Hugmyndin um að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög hefur oft skotið upp kollinum, og á sér einnig stað í stjórnarskrám erlendis. Í frönsku stjórnarskránni er málskotsréttur þings og þjóðar tengdur saman með þeim hætti, að þar geta 20% þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, enda hafi þeir til þess stuðning tíunda hvers kjósanda í landinu. Þarlendis á þó Stjórnlagadómstóll (Conseil Constitutionnel) mestan þátt í að veita þinginu aðhald. Stjórnlagadómstóllinn kveður upp úr um það hvort nýsamþykkt lög standist stjórnarskrá, og er um leið leiðandi í túlkun á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Um störf dómstólsins hefur skapast rík hefð, sem í raun dregur úr þörfinni fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslur?
Þjóðaratkvæðagreiðslur veita aðhald. Þjóðþing sem getur átt von á að gjörðir þess verði bornar undir þjóðina jafnharðan, sýnir að öllum líkindum meiri gætni en ella. Svo virðist sem þetta hafi virkilega verið raunin í Danmörku. Þar hefur í öllu falli skapast hefð fyrir mun meira samráði milli stjórnar og stjórnarandstöðu en hér tíðkast. Ríkisstjórnin sem situr á hverjum tíma vill augljóslega komast hjá því að lagafrumvörp hennar verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslum, og því borgar sig að haga málatilbúnaði þannig að stjórnarandstaðan geti nokkurn veginn sætt sig við hann. Að sama skapi er það stjórnarandstöðunni ekki í hag að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu í því skyni að fella nýsamþykkt lög, nema þingmenn andstöðunnar telji stjórnina hafa farið verulega yfir strikið með lagasetningunni og séu nokkuð vissir um að þjóðin sé þeim sammála. Svona á málskotsrétturinn einmitt að virka. Tækið þarf annars vegar að vera nógu auðvelt í notkun til að beiting þess sé raunverulegur valkostur þegar „gjá myndast milli þings og þjóðar“, og hins vegar nógu erfitt í notkun til að því sé ekki beitt í tíma og ótíma. Reyndar skilst mér að danska þingið hafi nær aldrei gripið til þessa verkfæris. Það segir manni eitthvað um mikilvægi samráðs innan þingsins!

Er núverandi ákvæði um málskotsrétt ekki nógu gott?
Með 26. grein íslensku stjórnarskrárinnar er forseta Íslands færð heimild til að synja lagafrumvarpi staðfestingar, enda sé það þá borið „svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu“. Á þessu fyrirkomulagi eru að mínu mati tveir megingallar.

  • Annars vegar tel ég óheppilegt að nokkrum einum manni sé falið vald sem þetta. Það eykur líkur á ómarkvissri eða jafnvel nokkuð tilviljanakenndri beitingu málskotsréttarins, enda hlýtur ákvörðun forseta um málskot jafnan að vera tekin á miklum álagstímum, auk þess sem forsetinn hefur takmarkaða möguleika á að ráðfæra sig við samstarfsmenn áður en ákvörðun er tekin.
  • Hins vegar tel ég að forsetinn eigi að vera æðsti yfirmaður framkvæmdarvaldsins en eigi ekki að hafa neitt yfir löggjafarvaldinu að segja. Það felur í sér að hann getur ekki staðfest eða ómerkt gjörðir þess.

Svolítil útskýring
Rétt er að taka fram að hér hefur aðeins verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur um nýsamþykkt lög, sem minnihluti þings eða verulegur hluti þjóðar er verulega ósáttur við. Þjóðaratkvæðagreiðslur um tilteknar mikilvægar ákvarðanir, svo sem um framsal valds til alþjóðastofnana, eru annars eðlis. Eðlilegt er að í stjórnarskrá séu ákvæði sem skylda þingið til að bera slík mál undir þjóðina, sem þá hefur endanlegt ákvörðunarvald.

(Þessi pistill er að mestu samhljóða pistli mínum 18. nóvember 2010)

10 ráð til að útrýma svörtum svönum

Í óbeinu framhaldi af pistli mínum fyrr í dag um áhættu vegna útiræktunar erfðabreyttra lífvera finnst mér ekki úr vegi að benda lesendum á stutta grein sem Nassim Nicholas Taleb skrifaði í Financial Times í apríl 2009 undir yfirskriftinni “Ten principles for a Black Swan-proof world”. Þar setur hann fram 10 hollráð til að koma í veg fyrir að svartir svanir geri vart við sig. Með svörtum svönum er hér átt við atburði sem eiga ekki að geta gerst en gerast samt, eða með orðum atburði með afar lágar líkur en gríðarlegar afleiðingar. Hollráð Talebs geta nýst okkur, hvort sem við viljum fyrirbyggja annað efnahagshrun, tjón af völdum erfðabreyttra lífvera eða aðra svarta svani með uppruna í manngerðum útungunarvélum.

Hollráð Talebs eru í stuttu máli þessi – í lauslegri þýðingu og endursögn:

  1. Látið það sem er brothætt brotna áður en það verður of stórt.
  2. Látið samfélagið ekki taka tapið á sig, á sama tíma og þið einkavæðið gróðann.
  3. Látið ekki fólk sem ekið hefur skólabíl blindandi (og klesst hann) fá nýjan bíl.
  4. Látið ekki mann með árangurstengdan kaupauka reka kjarnorkuver eða annast áhættustýringu.
  5. Finnið jafnvægi milli flækjustigs og einfaldleika.
  6. Gefið ekki börnum dýnamitstúbu, jafnvel þótt notkunarleiðbeiningar fylgi.
  7. Ríkisstjórnir eiga aldrei að þurfa að “endurvekja traust”.
  8. Gefið ekki fíkli dóp til að lækna fráhvarfseinkenni.
  9. Markaðsvæðið ekki ellilífeyrinn.
  10. Búið til eggjaköku úr brotnu eggjunum.

Hollráð Talebs hefur áður borið á góma  í umræðunni hérlendis, en mér finnst allt í lagi að rifja þau upp annað slagið. Þess vegna hvet ég lesendur líka til þess að lesa greinina alla. Þeir sem ekki hafa aðgang að Financial Times á netinu geta skráð sig frítt til að lesa nýlegar greinar.

Ég hef áður skrifað svolítið um svarta svani, en þeir sem vilja kynna sér hugtakið nánar geta fundið fjöldann allan af heimildum á netinu. Svo má auðvitað benda á bók Talebs, “The Black Swan: The Impact of the Highly Improbable”, sem víða hefur verið vitnað til í fjármálaumræðunni.

EBL: Líkur og áhætta er ekki það sama

Í umræðu síðustu daga um útiræktun erfðabreyttra lífvera hefur mönnum orðið tíðrætt um áhættuna, enda eðlilegt að menn velti henni fyrir sér. Ég fæ hins vegar ekki betur séð (eða heyrt) en að þarna séu menn í raun og veru að tala um líkur en ekki áhættu. Þetta er ekki það sama, a.m.k. ekki þegar rætt er um áhættumat.

Þegar meta á áhættu sem fylgir einhverri tiltekinni aðgerð eða ástandi, þarf að skoða tvennt; annars vegar líkurnar á að tjón verði og hins vegar stærð (fjárhæð) tjónsins. Margfeldi þessara tveggja þátta segir til um áhættuna. Mjög ólíklegur atburður getur þannig falið í sér verulega áhættu ef afleiðingar atburðarins eru gríðarlegar. Setja má þetta fram í einfaldri jöfnu:

Á = L x T

þar sem Á stendur fyrir áhættu, L fyrir líkur og T fyrir tjón. (Á ensku lítur þetta svona út: R(risk) = p(probability) x L(loss)).

Í umræðu síðustu daga hafa menn rætt töluvert um líkurnar á tjóni, og flestir eru sammála um að þær séu mjög litlar, en samt ekki engar. Hins vegar hef ég ekki heyrt minnst orði á mögulega stærð (fjárhæð) tjóns. Það er marklaust að tala um áhættu nema hafa hugmynd um hversu stórt tjónið kynni að verða. Það er með öðrum orðum marklaust að tala bara um líkurnar.

Tryggingafélög byggja tilveru sína á áhættumati. Það þarf því ekki að koma á óvart að eftir því sem ég best veit hefur ekkert tryggingarfélag í heiminum treyst sér til að selja tryggingu gegn tjóni sem kann að verða vegna útiræktunar erfðabreyttra lífvera. Menn geta hugsanlega komist að einhverri niðurstöðu um núll komma eitthvað prósent líkur, en óvissan um stærð tjónsins kemur í veg fyrir að hægt sé að meta áhættuna með nægri vissu til að tryggingarfélög hafi áhuga á viðskiptunum.

Tölum um allan pakkann, ekki bara líkurnar!

Hugsað um hreyfiseðla

Það gladdi mig mjög að lesa um það í Fréttablaðinu sl. þriðjudag, að nú hillti undir það að jafnvel á Íslandi muni hreyfiseðlar í ákveðnum tilvikum taka við af lyfseðlum. Gaman væri að heyra meira af þessu, hvar málið sé statt í kerfinu, hvenær búast megi við að hreyfiseðlar verði orðnir almennur valkostur og hvernig ætlunin sé að standa að þessu.

Mitt í þessum þönkum mínum rakst ég sem oftar inn á heimasíðu sveitarfélagsins Landskrona í Svíþjóð, og þar fann ég einmitt eitt dæmi um það hvernig svona nokkuð gæti litið út í framkvæmd. Í Landskrona hefur verið unnið með hreyfiseðla síðustu 5 ár, og á síðasta ári var kerfið orðið nokkurn veginn tilbúið til notkunar. Kerfið í Landskrona byggir á samstarfi margra aðila, þ.á.m. sveitarfélagsins, sjúkrahússins, heilsugæslustöðva, íþróttafélaga og líkamsræktarstöðva. Hreyfiseðlar sem gefnir eru út af læknum gilda þá sem afsláttarmiðar í tilteknar íþrótta- og líkamsræktarstöðvar og á tiltekin námskeið, allt samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins.

Unnið hefur verið með hreyfiseðla árum saman í Svíþjóð, og reyndar líka í Noregi og Danmörku. Í Svíþjóð er í þessu sambandi talað um „Fysisk aktivitet på recept“ eða „FaR“, sem er skrásett vörumerki þar í landi. Norðmenn hafa reyndar farið örlítið aðra leið, eða öllu heldur útvíkkað hugtakið. Þar er talað um „græna lyfseðla“ („Grønn resept“) og litið á aðstoð til að breyta reykingavenjum og lífsstíl sem hluta af pakkanum. Íslendingar hafa verið skrefinu á eftir frændum sínum í þessum efnum, en þó eru nokkur ár síðan fyrst var farið að ræða hugmyndir af þessu tagi, m.a. í kynningum Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 á meðan hún var starfrækt. Flest bendir til að hér leynist stórkostleg tækifæri til úrbóta hvað varðar meðferð þunglyndis og annarra geðrænna vandamála. Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur bendir t.d. á það í grein sinni í Fréttablaðinu í gær, að á síðustu 20 árum hefur tíðni örorku vegna geð- og atferlisraskana nánast tvöfaldast hérlendis, á sama tíma og ávísun þunglyndislyfja og annarra geðlyfja hefur aukist upp í það að vera með því mesta sem þekkist í heiminum. Í grein sem þrír íslenskir læknar birtu í tímaritinu British Journal of Psychiatry 2004 kom fram að ekkert benti til að gríðarleg aukning í notkun þunglyndislyfja á Íslandi hefði leitt til bættrar geðheilsu þegar á heildina er litið. Því væri þörf á að leita annarra og betri úrræða. Dr. Vilhjálmur Ari Arason gerir þetta sama mál að umtalsefni í ágætu bloggi sínu á Eyjunni í gær.

Ég bíð spenntur eftir næstu fréttum af íslenskum hreyfiseðlum.

Hanastélsáhrifin vanmetin

Við umgöngumst daglega fjöldann allan af tilbúnum efnum á heimilum okkar og vinnustöðum. Sum þessara efna eru skaðleg umhverfi og heilsu, en sem betur fer hittum við þau sjaldan fyrir í nógu miklum styrk til að hin skaðlegu áhrif komi fram. Til að vernda okkur enn frekar hafa opinberir aðilar gefið út leiðbeiningar um hámarksstyrk margra þessara efna í tilteknum neytendavörum og/eða heilsufarsmörk sem segja til um hámarksstyrk efnanna í umhverfi okkar. Helsti veikleikinn í þessu ágæta kerfi er sá, að heilsufarsmörkin gilda alla jafna um hvert efni fyrir sig, en taka ekki tillit til þeirra samanlögðu áhrifa sem við verðum hugsanlega fyrir þegar við umgöngumst fleiri efni á sama tíma. Þetta er það sem gjarnan er kallað „cocktail effect“ á erlendum málum eða „hanastélsáhrif“ í hrárri þýðingu.

Á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu (IMS) eru hanastélsáhrif skilgreind sem „samanlögð áhrif sem fólk verður fyrir þegar það umgengst fleiri en eitt varasamt efni samtímis, þar sem hvert efni um sig er ekki til staðar í nægum styrk til að hafa áhrif

Lítið hefur verið fjallað um hanastélsáhrif hérlendis. Þó var þetta fyrirbæri nefnt lauslega í „Orðum dagsins” á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi á sínum tíma, t.d. þann 21. febrúar 2008. Þar var vísað í fréttatilkynningu frá Tækniháskóla Danmerkur DTU, þar sem fram hafði komið að „hormónatruflandi efni, sem hvert um sig er óskaðlegt í litlum skömmtum, geta í sameiningu valdið hættulegum „hanastélsáhrifum“ (e: Cocktail effects) sem m.a. geta endurspeglast í vansköpuðum kynfærum nýfæddra karldýra“. Því væri „nauðsynlegt að taka meira tillit til „hanastélsáhrifa“ við áhættumat á efnavörum“. Þá hefur Neytendablaðið fjallað um þessi mál, m.a. í 1. tbl. 2010, bls. 14-15.

Það er hollt að rifja þetta upp núna þegar hugsanleg áhrif díoxíns á heilsu fólks eru til umræðu. Kannski er styrkur þess alls staðar innan heilsufarsmarka, en dæmið gæti litið öðru vísi út ef líka væri hægt að skoða í hve miklum mæli fólk umgengst önnur efni samtímis. Af nógu er að taka – og þarf ekki díoxín til. Þar má nefna parabena, BPA, þalöt, brómeruð eldvarnarefni, PFOA, PFOS, azo-liti, resorcinol eða jafnvel PCB, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta hljómar sjálfsagt allt sem hálfgerð „latína, sem hjálpar venjulegu fólki ekki neitt“. Öll erum við frekar venjulegt fólk, og flest eigum við það sameiginlegt að nota helling af efnum dags daglega, m.a. í snyrtivörum, án þess að velta fyrir okkur hugsanlegum neikvæðum samlegðaráhrifum efnanna á heilsu okkar. Framleiðendur keppast við að nota ólíklegustu efni í vörurnar sínar til að gefa þeim rétta virkni, lykt eða áferð. Og allt á þetta að gera okkur fallegri, hraustari og hamingjusamari. Skuggahliðarnar eru sjaldnar nefndar.

Og hvað er þá til ráða? Hvernig á að hegða sér í þessum flókna efnaheimi, þar sem sjaldnast er til neitt eitt rétt svar, og því síður að einhver geti eða vilji segja manni hvert það er. Hér sem víðar er varúðin aðalatriði. Besta leiðin er að draga úr notkun tilbúinna efna í daglegu lífi, og næstbest að velja alltaf umhverfismerkt eða lífræn vottuð efni, ef efni eru keypt á annað borð.