• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • apríl 2011
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

4×15 km

Eitt af því sem einkennt hefur páskafríið mitt þetta árið eru 15 km morgunhlaup. Tók 4 slík síðustu 4 morgna. Það er reyndar ekki alveg eftir bókinni að hlaupa sömu vegalengdina dag eftir dag, en hvað sem öllum bókum líður hefur þessi aðferð reynst mér vel sem undirbúningur fyrir keppni sem ég er ekkert allt of vel tilbúinn í. Betra væri þó ef endurtekningarnar væru fleiri en fjórar. Ég gerði þetta fyrst þegar ég var að æfa fyrir Landsmótið á Akranesi 1975 og aftur síðsumars 2008 í viðleitni minni til að bæta eigið fimmtugsmet í 10 km hlaupi. Í báðum tilvikum náði ég því sem að var stefnt, þó að staðan væri ekki nógu góð nokkrum dögum fyrr. Núna snýst málið um Vormaraþon Félags maraþonhlaupara nk. laugardag. Þar ætla ég reyndar ekki að slá nein met, en þætti samt verra ef hlaupið tæki meira en þrjá og hálfan tíma, (miðað við að veðrið verði skikkanlegt).

Fimmtán km eru reyndar heldur stuttir til að passa inn í þetta sérhannaða undirbúningsferli. Ég hef nefnilega einhvern veginn á tilfinningunni að svona síendurtekin vegalengd þurfi að vera u.þ.b. 70% af keppnisvegalengdinni. Þetta hefðu samkvæmt því átt að vera 4×30 km. Held bara að það sé of stór skammtur þegar svona skammur tími er til stefnu. Málið snýst um að hræra aðeins upp í skrokknum án þess að þreytast um of.

Hlakka til laugardagsins.

Mataræði helsta orsök ADHD

Mataræði á stóran þátt í ofvirkni og athyglisbresti (ADHD) meðal 4-8 ára barna. Þetta kom fram í viðamikilli rannsókn sem sagt var frá í grein í febrúarhefti læknatímaritsins Lancet. Niðurstöðurnar benda til að í 63% tilvika megi rekja ADHD beint til mataræðis.

Eins og fram kom í bloggpistli mínum 16. mars sl. hafa ýmsar vísbendingar komið fram um að tiltekin litarefni stuðli að ofvirkni og öðrum hegðunarvandkvæðum meðal barna. Rannsóknin sem sagt er frá í Lancet tekur litarefni ekki sérstaklega til umfjöllunar, heldur var þar kannað hvort neysla unninna matvæla hefði mælanleg áhrif á ADHD. Rannsóknin var í stuttu máli framkvæmd þannig að 100 börnum sem greinst höfðu með ADHD var skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn (viðmiðunarhópur) fékk almennar ráðleggingar um heilbrigt mataræði en hinn hópurinn (sérfæðishópur) var settur á sérfæði þar sem unnin matvæli voru útilokuð („restricted elimination diet“). Að 5 vikum liðnum voru ADHD-einkenni borin saman milli hópa út frá algengum ADHD-mælikvörðum (annars vegar ARS og hins vegar ACS). ADHD-einkennin höfðu þá lækkað marktækt meira í sérfæðishópnum, hvort sem litið var á ARS eða ACS. Þau 30 börn í sérfæðishópnum sem sýnt höfðu mestar framfarir (a.m.k. 40% lækkun ARS) voru þá sett á almennt fæði í 4 vikur, að teknu vissu tilliti til IgG-gilda (immúnóglóbúlín) í blóði. Eftir þennan síðari hluta tilraunarinnar voru bæði ARS- og ACS-gildi 19 barna af þessum 30 (63%) komin í nokkurn veginn sama horf og áður en tilraunin hófst, óháð IgG-gildum.

Kristin Wartman gerir niðurstöður umræddrar rannsóknar að umtalsefni í pistli á heimasíðu GRIST-Magazine 28. mars sl. og vitnar þar m.a. í viðtal við aðalhöfund greinarinnar í Lancet, Dr. Lidy M Pelsser, sem starfar við ADHD-rannsóknarstöðina í Hollandi. Dr. Pelsser gengur svo langt að segja að mataræði sé aðalorsök ADHD, og að þörf sé að viðhorfsbreytingu hvað varðar umræðu og meðhöndlun þessara einkenna. ADHD sé nefnilega ekki sjúkdómur, heldur samsafn einkenna. Þegar barn greinist með ADHD ætti því að segja: „OK, hér höfum við þessi einkenni, nú er að leita að orsökunum“.

Þrátt fyrir þessar eindregnu niðurstöður Dr. Pelssers og félaga telur Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) ekki tilefni til aðgerða varðandi litarefni og önnur aukefni í unnum matvörum, meðan ekki liggja fyrir frekari sannanir um skaðsemi þessara efna. Evrópusambandið hefur hins vegar þegar gert ráðstafanir til að vara við notkun þeirra 6 litarefna sem helst eru talin stuðla að ofvirkni og öðrum hegðunarvandkvæðum meðal barna, eins og fram kom í bloggpistlinum 16. mars sl. Þær ráðstafanir voru reyndar gerðar löngu áður en umrædd grein birtist í Lancet, enda má telja nokkuð augljóst að beita beri Varúðarreglunni í málum sem þessu, þar sem nægar vísbendingar eru um skaðsemi, jafnvel þótt menn geti rökrætt hvort um „vísindalega fullvissu“ sé að ræða. Málið snýst jú um velferð barna!

Leiðrétting á nammibarapistli

Í bloggpistli mínum um nammibari 16. mars sl. kom fram að seljendum væri skylt að merkja nammibarina með innihaldslýsingu. Eftir að pistillinn birtist í Mogganum á dögunum fékk ég ábendingu um að þarna hefði ég ekki farið með rétt mál. Í reglugerð um merkingu matvæla nr. 503/2005 stendur nefnilega í 28. grein: „Þegar vöru er dreift án umbúða, eða pakkað á sölustað eða sett í umbúðir til beinnar sölu til neytenda, skal seljandi vörunnar geta veitt kaupanda upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í 6. gr. þessarar reglugerðar, sbr. einnig ákvæði 27. gr„. Seljandinn þarf með öðrum orðum ekki að merkja nammibarinn með innihaldslýsingu, en er skyldugur til að upplýsa um innihaldið ef einhver spyr.

Um leið og ég kem þessari leiðréttingu á framfæri og þakka fyrir ábendinguna, biðst ég velvirðingar á mistökunum. Ég byggði þetta á munnlegri heimild, sem annað hvort var ekki nógu nákvæm, eða þá að mig misminnti um innihald hennar. Almennt fylgi ég þeirri reglu að leita frumheimildar, en þarna fórst það sem sagt fyrir.

Hins vegar breytir þetta ekki meginniðurstöðunni, þ.e.a.s. að í sælgæti á nammibörum og í fleiri matvælum sé að finna litarefni sem grunuð eru um að stuðla að ofvirkni eða annarri hegðunarröskun – og að í löndum Evrópusambandsins sé skylt að setja sérstaka varúðarmerkingu á matvæli sem innihalda þessi tilteknu litarefni. Þangað til sú regla hefur verið innleidd á Íslandi er ástæða til að hvetja foreldra til að spyrja um efnainnihald sælgætis á nammibörum, þ.e.a.s. ef þau ætla að kaupa svoleiðis fyrir börnin sín og langar ekki til að fóðra þau á efnum sem gætu stuðlað að ofvirkni eða annarri hegðunarröskun.

Að loknu kökuhlaupi

Í gær tók ég þátt í árlegu kökuhlaupi í Flóanum annað árið í röð, en um leið var þetta upphafið af keppnistímabili ársins hvað mig varðar. Reyndar má velta því fyrir sér hversu rétt sé að tala um keppni í þessu sambandi, því að ég er fyrir nokkru vaxinn upp úr því að hlaupa til að vinna. Nú er það Olympíuhugsunin sem gildir, en þó aðallega gleðin.

Kökuhlaupið í Flóanum heitir reyndar réttu nafni Flóahlaup Ungmennafélagsins Samhygðar. Hins vegar er hlaupið gjarnan nefnt kökuhlaup, því að hlaupi loknu er þátttakendnum jafnan boðið í glæsilega kökuveislu að íslenskum sveitasið í félagsheimilinu Félagslundi í Gaulverjabæ. Þetta hefur skapað hlaupinu sérstöðu og vinsældir, enda viðmót allt og viðurgerningur slíkur að unun er að njóta.

Flóahlaupið er eitt af elstu almenningshlaupum landsins, en í gær var það einmitt þreytt í 33. sinn. Fyrir hlaupafólk eins og mig, sem ekki nennir að taka mikinn þátt í almenningshlaupum að vetri til, er Flóahlaupið tilvalið og hátíðlegt upphaf á hlaupavertíð sumarsins. Ég er hins vegar nýbúinn að uppgötva þetta ágæta hlaup. Í gær var ég sem sagt bara með í annað sinn.

Flóahlaupið í gær var að mörgu leyti eins og endurtekning á Flóahlaupinu í fyrra. Heildarfjöldi þátttakenda var svipaður, svona hátt í 100 manns, og svo var veðrið líka hér um bil alveg eins, hvöss suðlæg átt og kannski pínulítil súld með köflum. Aðalvegalengdin í hlaupinu er 10 km, þar sem hlaupinn er dálítill hringur um sveitina í grennd við Félagslund. Í hvassri sunnanátt eru fyrstu 2 kílómetrarnir eða rúmlega það hlaupnir í sterkum meðvindi, en eftir það tekur við hliðarvindur og síðan stífur mótvindur, sérstaklega á kílómetrum nr. 6-8. Síðustu tveir kílómetrarnir eru svo hlaupnir í vindi aftan á vinstri öxlina.

Fyrir mér snúast hlaup ekki bara um holla hreyfingu og útivist, heldur líka um leik að tölum. Tölur hafa reyndar verið mín uppáhaldsleikföng allt frá æsku, þ.á.m. tölur um metra, mínútur og meðalhraða. Hvað tölurnar varðar var hlaupið í gær líka endurtekning frá hlaupinu í fyrra, sérstaklega fyrstu 8 kílómetrana. Reyndar var meðalhraðinn heldur jafnari þetta árið og baslið á móti vindinum ánægjulegra. En fyrstu 8 kílómetrarnir voru nokkurn veginn jafntímafrekir; tóku 36:13 mín í fyrra en 36:09 mín í gær. Síðasti spölurinn var hins vegar miklu léttari þetta árið. Lokatíminn varð þannig 35 sek. betri en í fyrra, þ.e.a.s. 44:29 mín í stað 45:04 mín. Og það sem var enn betra: Mér leið miklu betur að hlaupi loknu í gær en í fyrra, var eiginlega alveg óþreyttur og naut dýrðlegra veitinga Flóamanna í mun ríkari mæli.

Þar sem ég hef jú bæði gaman að hlaupum og tölum, gefur hver atburður á þessu sviði mér gullið tækifæri til naflaskoðunar. Hvers vegna var t.d. árangurinn og líðanin betri í gær en í fyrra, þrátt fyrir að aðstæður væru allar mjög svipaðar – og ég jafnvel ári eldri? Skýringuna er e.t.v. að einhverju leyti að finna í örlítið mismunandi æfingum vikurnar á undan, en önnur skýring er þó mun augljósari og líklegri. Í fyrra var ég nefnilega að berjast við óraunhæft markmið og fannst þess vegna hver kílómetri taka of langan tíma, fæturnir vera of þungir, mótvindurinn of erfiður og leiðin í mark of löng. Núna var lagt af stað með það eina markmið að njóta hlaupsins og hafa gleðina með í för alla leið. Það tókst algjörlega, og meira að segja mótvindurinn varð að skemmtilegu viðfangsefni. Hver kílómetrinn af öðrum leið hjá, og síðasti spölurinn var stuttur.

Í hlaupum gildir nefnilega sama regla og í lífinu; “Det er ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det”, eins og gömul norsk kona sagði einhvern tímann. Þessa reglu er ágætt að rifja upp annað slagið. Þannig verður lífið skemmtilegra.