Nú styttist í næstu fjallvegahlaup. Þau verða á Norðausturlandi, en þar stefni ég á Jökulsárhlaupið á laugardag. Skrái það sem fjallvegahlaup nr. 25 þar til annað verður ákveðið. Í framhaldinu er röðin svo komin að tveimur þægilegum heiðum nyrðra, þ.e. Tunguheiði milli Skjálfandaflóa og Öxarfjarðar – og Helkunduheiði milli Þistilfjarðar og Bakkaflóa.
Mánudaginn 8. ágúst ætla ég að hlaupa austur yfir Tunguheiði frá Syðri-Tungu á Tjörnesi (um 10 km fyrir utan Húsavík) að Fjöllum í Kelduhverfi. Þetta eru um 15 km með u.þ.b. 500 m hækkun. Svoleiðis hlaup gæti tekið hátt í 3 klst. Ég stefni að því að leggja af stað af þjóðveginum neðan við Syðri-Tungu (við brúsapallinn eða þannig) kl. 14:00. Einhver fróðleikur um leiðina er kominn inn á fjallvegahlaup.is.
Daginn eftir, þriðjudaginn 9. ágúst, er röðin svo komin að Helkunduheiðinni. Þá ætla ég líka að leggja af stað kl. 14:00, nú frá þjóðveginum í botni Þistilfjarðar (eða öllu heldur Lónafjarðar), rétt fyrir neðan Brúarás. Leiðin er rétt um 12 km og hækkunin ekki nema 200 m, þannig að þetta ætti varla að taka meira en 1:30 klst. Endamarkið er á þjóðveginum við Finnafjarðará í Bakkaflóa (eða öllu heldur Finnafirði). Einhver fróðleikur um þessa leið er líka kominn inn á fjallvegahlaup.is.
Gaman væri að fá fylgd sem flestra á þessum ferðalögum. En þeir sem slást í hópinn gera það á eigin ábyrgð.

Yfirlitsmynd af norðausturhorninu, þar sem heiðarnar tvær sjást ef vel er gáð. Ásbyrgi er líka merkt á kortið, því að þar endar Jökulsárhlaupið á laugardaginn.
Filed under: Hlaup | Leave a comment »