• Heimsóknir

    • 119.040 hits
  • júlí 2011
    S M F V F F S
     12
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
    31  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Saga af Trékyllisheiði

Síðastliðinn mánudag hljóp ég norður Trékyllisheiði við þriðja mann. Biðinni eftir bloggi um þann viðburð er hér með aflýst.

Trékyllisheiðin var fjallvegur nr. 24 í fjallvegahlaupaverkefninu mínu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf á útmánuðum 2007. Alls verða fjallvegirnir 50, þannig að senn er verkefnið hálfnað, rétt eins og 6. áratugur lífs míns.

Ferðin norður Trékyllisheiði hófst eiginlega á Hólmavík að morgni mánudagsins 18. júlí þegar bændurnir Birkir Stefánsson í Tröllatungu og Ragnar Bragason á Heydalsá renndu í hlað hjá Jóhanni tengdaföður mínum á fjallabíl þess fyrstnefnda. Eftir myndatöku (svokallaða fyrirmynd) úti í garði var ekið sem leið lá inn í botn Steingrímsfjarðar, nánar tiltekið að eyðibýlinu Bólstað við mynni Selárdals. Þangað eru rétt um 16 km frá Hólmavík, (sem getur komið sér vel að vita þegar sú leið verður farin á tveimur jafnfljótum við hentugleika).

Í garðinum hjá tengdapabba að morgni dags, tilbúnir að leggja á Trékyllisheiðina. (Ljósm. Björk Jóhannsd).

Við Bólstað var fjallabílnum lagt, drykkjarbeltum og bakbokum hagrætt, skeiðklukkur settar af stað og tekið á rás áleiðis upp brekkurnar fyrir ofan bæinn. Hlaupið var hafið, klukkan gengin réttar 12 mínútur í 11 og veðurútlit hið besta, norðangola í fangið, þurrt veður og skýjað, og svo sem 11-12 stiga hiti á láglendi.

Gróft yfirlitskort af Trékyllisheiðinni, þ.e.a.s. leiðinni sem við fórum þennan dag.

Þó að fjallvegahlaupin mín heiti fjallvegahlaup, þá fela þau í sér talsverða göngu, því að enda þótt þátttakendur séu jafnan þrekmenn með afburðum, þá hefur enn enginn lagt í að hlaupa upp allar brekkur sem í boði hafa verið á þessum leiðum. En við þrír vorum samt fljótir upp brekkurnar, enda fullir tilhlökkunar. Framundan voru 5-7 klukkutímar af hreinu fjallalofti, frelsi og hressandi áreynslu. Þá er gaman.

Fótfráu bændurnir úr Tungusveitinni nýlagðir af stað frá Bólstað í Steingrímsfirði, áleiðis upp á Trékyllisheiði. Í baksýn grillir í brúna yfir Selá.

Eftir 5,76 km hlaup (og göngu) upp aflíðandi og þokkalega grónar brekkur, komum við á fyrsta GPS-punktinn sem ég hafði sett inn í hlaupaúrið mitt fyrir ferðalagið. Á langri leið sem maður þekkir ekki af reynslu er gott að eiga nokkra GPS-punkta, sérstaklega þar sem búast má við þoku. Trékyllisheiðin er einmitt svoleiðis staður, en á móti kemur að heiðin er ágætlega vörðuð og víðast hvar hægt að fylgja greinilegum reiðgötum og jeppaslóðum. Umræddur punktur var þar sem hlaupaleiðin frá Bólstað kemur inn á jeppaslóða sem liggur inn á heiðina af Bjarnarfjarðarhálsi. Þarna vorum við komnir í um 350 hæð yfir sjó, og í raun og veru búnir með næstu hækkunina. Samt voru bara liðnar rúmar 53 mínútur frá því við lögðum upp frá Bólstað, en þessi yfirferð samsvarar röskum gönguhraða á jafnsléttu.

Sunnarlega á Trékyllisheiðinni er sæluhús. Þangað kom ég einu sinni að vetri til fyrir ótalmörgum árum, en að þessu sinni sáum við húsið bara tilsýndar, þar sem þangað er talsverður krókur til vesturs frá göngu- og reiðleiðinni sem við fylgdum á þessum kafla. Nokkru norðar tókum við örstutt nestishlé; Ragnar tók um samloku og ég orkugel sem oftast er eina fæðan mín á ferðalögum sem þessu. Misjafnt er hvað hentar hverjum, og eina leiðin til að komast að því er að prófa.

Nestishlé á Trékyllisheiði. Ragnar Bragason.

Áfram var haldið um gamlar niðurgrafnar reiðgötur og rudda jeppaslóða, þar til komið var að Goðdalsánni sem á upptök sín lengst inni á heiðinni, nánar tiltekið í sunnanverðum Búrfellshæðum inn af Reykjarfirði. Áin er langstærsta vatnsfallið á heiðinni, og þegar nær dróg var augljóst að yfir hana yrði ekki stiklað þurrum fótum. Við höfðum mismunandi hátt á, eftir fótabúnaði og venjum hvers og eins. Hér verður ekki farið út í smáatriði hvað þetta varðar, nema hvað haft er fyrir satt að áin hafi náð Ragnari í ökkla en okkur Birki í hné. Í ám er gott að vera í grófum utanvegahlaupaskóm sem hleypa vatni jafnauðveldlega út og inn, og í hlaupasokkum úr gerviefni, sem gleyma fljótt að þeir hafi vöknað. Við Goðdalsá voru 11,6 km að baki og 1:43 klst. liðnar af hlaupinu. Meðalhraðinn hafði sem sagt farið heldur vaxandi, en var enn vel innan við 7 km/klst. Það var sá hraði sem ég hafði reiknað með að halda yfir heiðina.

Birkir og Ragnar á sprettinum á Trékyllisheiði. Tæpir 12 kílómetrar búnir og Goðdalsá framundan, langstærsta vatnsfallið á heiðinni. Enn var talsverður snjór á heiðinni þótt komið væri fram yfir miðjan júlí.

Norðan við Goðdalsá greinast leiðir, þó að vegamótin séu reyndar ógreinileg. Þarna beygir jeppaslóðinn til vesturs (til vinstri) og heldur áfram sína leið áleiðis til Ingólfsfjarðar. Honum fylgdum við enn um sinn. Hins vegar liggja göngu- og reiðleiðir í Kúvíkur og til Djúpuvíkur beint áfram eftir að komið er yfir ána.

Ragnar kominn yfir Goðdalsána.

Við Goðdalsána sýndi hæðarmælirinn 280 m, en norðan við hana fór landið hækkandi á ný. Þarna breyttist líka landslagið og gróðurinn, og allt varð grófara og berangurslegra en fyrr. Þarna tóku sem sagt við „úfnust hrjóstra höf, og hvergi strá á margra rasta skeiði“, eins og Jakob Thorarensen (1886-1972) skáld frá Gjögri orðaði það á sínum tíma í kvæði um heiðina, sem birtist í Sunnanfara 1914 og er sko alls enginn lofsöngur. Þarna lágu víða snjóskaflar yfir veginum, sem fólu í sér ágæta tilbreytingu frá harðara undirlagi. Ég sá ekki betur en heldur lifnaði yfir Birki og Ragnari í hverjum skafli, enda eru þeir báðir skíðagöngumenn í fremstu röð og snjór því kjörlendi þeirra beggja.

Trékyllisheiði: Hæðarferill úr hlaupaúrinu. Goðdalsáin rennur eftir dýpstu lautinni.

Við þrír vorum vissulega einir á ferð á heiðinni þennan dag, en við sáum samt merki um nýlegar mannaferðir. Annað slagið sáum við tvenn nýleg fótspor sem lágu hlið við hlið í suðurátt, líklega alla leið úr Trékyllisvík að Bólstað. Svo hafði bíl líka greinilega verið ekið yfir heiðina ekki alls fyrir löngu, alla vega syðri hluta hennar. Það er oft svolítið gaman að finnast maður vera einn í heiminum, en um leið er gott að vita að maður er það ekki.

Okkur sóttist heldur seint ferðin um „hrjóstrahöfin“ norðan Goðdalsár, en það skipti engu máli, því að við vorum jú ekki að keppa við neitt. Þarna hækkar heiðin líka töluvert, sem fyrr segir, og fer upp í rúmlega 400 m hæð svo sem 3,5 km norðan við ána. Þarna var útsýnið farið að gleðja augað, enda mörg tíguleg fjöll innan seilingar. Þarna var Háafellið (791 m) okkur á hægri hönd, en reyndar sáum við það aldrei almennilega fyrir þoku. Þokan gerðist þó aldrei nærgöngul við okkur, heldur lék hún um fjallatinda og hopaði heldur þegar við nálguðumst. Þarna vorum við líka farnir að sjá út á Reykjarfjörð, og framundan var Búrfell (716 m).

Á þessum kafla fylgir vegslóðinn raflínunni að mestu. Þetta angraði mig svolítið, því að ég vissi að raflínan liggur niður í Kjós í botni Reykjarfjarðar, en leið okkar átti að liggja vestan við alla dali inn af þeim ágæta firði. Það hvarflaði því að mér að við hefðum misst af einhverjum vegslóða sem lægi enn vestar, en þar voru „hrjóstrahöfin“ sýnilega enn hrjóstrugri og tæpast gott um vegstæði. Auk þess vísaði Búrfellið veginn. Stefnan átti að vera austanvert við það, og þangað stefndum við líka greinilega. GPS-tækið var líka sátt við stefnuna – í hánorður. Það endaði líka með því að raflínan gafst upp á að fylgja okkur og sveigði til austurs áleiðis niður Kjósarhjalla.

Við áðum á brattri hæð austan við Búrfellsvatn, tókum upp nesti og virtum fyrir okkur útsýnið. Þarna var gaman að vera, hátt til lofts og vítt til veggja – og gott ef sólin var ekki um það bil að fara að kíkja á okkur.

Tekið á rás norður með Búrfellsvatni. Í baksýn er Búrfellið, 716 m hátt. Eins og sjá má liggur greinileg jeppaslóð yfir heiðina.

Eftir stuttan stans þarna í skjóli Búrfells var haldið áfram sem leið lá að næsta GPS-punkti við Óveiðisá (eða Óveðursá. Hef séð bæði nöfnin og veit ekki hvort er rétt). Þarna voru 21,3 km að baki og 200 mínútur liðnar frá Bólstað. Meðalhraðinn hafði heldur sigið, var kominn rétt niður fyrir 6,5 km/klst. En við höfðum nógan tíma. Þarna var mig farið að gruna að ég hefði ofmetið heildarvegalengdina, því að áætlanir mínar gerðu ráð fyrir að vegalengdin frá Bólstað að Óveiðisá væri 22,5 km. Samkvæmt þessu gat ég átt von á að heildarvegalengd dagsins yrði í kringum 40 km, en ekki 42 km eins og ég hafði reiknað með. (Ég hef svolítið gaman af tölum, bara svona ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því þegar hér er komið sögu).

Norðan við Óveiðisá sveigði jeppaslóðinn til vesturs, enda næsta verkefni að krækja inn fyrir Reykjafjarðardal. Þarna var skollin á okkur þvílík veðurblíða að tímabært var að fækka fötum. Áfram var skokkað með Búrfell á vinstri hönd, yfir vatnslausa Breiðadalsá og vatnsmikla Mjóadalsá, en allar falla þessar ár til sjávar innst í Reykjarfirði.

Stoltir fjallvegahlauparar inn af botni Reykjarfjarðar, nánar tiltekið við Breiðadalsá, (sem var alveg vatnslaus þennan dag).

Þegar við vorum komnir rétt norður fyrir læk sem rennur úr norðanverðum Náttmálahæðum í Reykjarfjarðarvatn, stöldruðum við við til að meta aðstæður. Þarna voru rétt um 27,7 km að baki og ljóst að senn yrðum við að yfirgefa jeppaslóðann og kanna nýja og fáfarna stigu af heiðinni niður í Árnesdal inn af Trékyllisvík. Þangað var jú ferðinni heitið, enda líklegt að þar hafi leiðin yfir heiðina upphaflega endað (eða hafist). Sú leið er nú týnd að mér skilst, en svo sem ekkert flókið að finna út hvar hún hljóti að hafa legið. Þarna ákváðum við að taka stefnuna stystu leið upp á hjalla nokkurn sunnan við fjallið Glissu (718 m). Hjallinn var augljós valkostur, því að yfir honum gnæfir Glissa snarbrött, en neðan við hjallann eru brekkur niður í Reykjarfjarðardal. Þangað ætluðum við ekki.

Þarna, eftir 27,7 km og 4:36 klst, var ákveðið að yfirgefa jeppaslóðann og taka stefnuna á hjallann sunnan við Glissu, þ.e.a.s. hjallann sem hefst þar sem höfuð Ragnars endar (ef marka má myndina). Myndin er tekin á holti vestsuðvestan við Reykjarfjarðarvatn, sem sést einmitt á myndinni.

Leiðin meðfram Glissu reyndist hrjóstrug og afar seinfarin. Einhver ummerki sáum við þarna eftir tilraunir til bílferða, en vélknúin farartæki eiga annars ekkert erindi á þennan stað. Þarna er stórgrýtt og engar greinilegar götur.

Á hjallanum sunnan við Glissu 18. júlí 2011 kl. 15:27. U.þ.b. 30,8 km að baki og ekki þreytumerki á nokkrum manni! 🙂

Við uppsprettu undir hlíðum Glissu var bætt á vatnsbirgðir. Þarna voru sporin tekin að léttast, enda farið að hilla undir ferðalok, varla meira en 9 km eftir. Enginn var þó léttari í spori en Birkir. Hann hafði fundið eitthvað til í fæti framan af ferðinni, en þarna var verkurinn horfinn, og til að sannreyna það tók hann nokkra létta spretti um skafla og hlíðar. Ég fann hvergi til, en fann ekki hjá mér neina sérstaka þörf til að athuga það nánar. Held að það sama hafi gilt um Ragnar. Menn eru misléttir á fæti.

Birkir bætir á vatnsbirgðirnar við uppsprettu sunnan í Glissu.

Við héldum nokkuð beinni stefnu eftir að hjallanum við Glissu sleppti. Sveigðum þó heldur til norðurs og hittum á þokkalegan stað til niðurgöngu í Árnesdal. Á þessum slóðum er heiðin hæst, rúmir 500 m ef marka má hlaupaúrið mitt. Leiðin niður í dalinn er snarbrött á köflum, sem sést m.a. á því að á fyrstu 800 metrunum lækkuðum við okkur um 160 metra. Sums staðar var hægt að láta gamminn geysa niður brattar fannir, en annars staðar var brattinn svo mikill að við völdum frekar að taka á okkur svolítinn krók. Ég held reyndar að maður geti farið þarna niður svo sem hvar sem er, og ekkert víst að við höfum endilega hitt á besta staðinn.

Ragnar á sprettinum niður Árnesdal - og hugar að kindum og tófum í leiðinni. Framundan eru bæirnir í Trékyllisvík og Reykjaneshyrnan yst til hægri.

Við héldum okkur norðan við Árnesána á leiðinni niður dalinn. Dalurinn er afar vel gróinn með mikil engjalönd sem gaman er að hlaupa um í góðu veðri eins og þennan dag. Þarna var því bætt í hraðann og ekki linnt látum fyrr en í hlaðinu á handverkshúsinu Kört í Árnesi, þar sem hlaupinu lauk. Mælirinn sýndi nákvæmlega 39,5 km og skeiðklukkan stóð í 6:32:41 klst. Meðalhraðinn samkvæmt þessu hafði verið 6,04 km/klst., sem telst góður gönguhraði á jafnsléttu og skynsamlegur hlaupahraði á langri og hrjóstrugri leið sem þessari.

Við Birkir á endasprettinum ofan við fjárhúsin í Árnesi. (Ljósm. Jóhanna Stefáns).

Móttökurnar við Kört voru eins og best verður á kosið. Konan mín og yngsta dóttir (Björk og Jóhanna) höfðu keyrt alla leið þangað norður til að taka á móti mér, og sama gilti um fjölskyldu Ragnars. Hrefna húsfreyja í Árnesi 2 bauð okkur líka upp á kaffi og te í Kört, og um leið gat ég virt fyrir mér glæsilega sýningu um Þorstein langafa minn frá Kjörvogi, sem sett var þarna upp í fyrravor og stendur enn.

Við Kört að hlaupi loknu, (eftirmynd). 🙂 (Ljósm. Jóhanna Stefáns).

Eftir endurfundi og viðdvöl í Kört lá leiðin í sundlaugina í Krossnesi og þaðan í kvöldverð á Kaffi Norðurfjörður. Eftir það héldu hlaupafélagarnir heimleiðis, en við þrjú kvöddum dyra hjá Gunnsteini og Margréti í Bergistanga, þar sem við gistum um nóttina í góðu yfirlæti.

Skemmtilegum degi í góðum félagsskap var lokið. En á tepokanum sem ég fékk hjá Hrefnu í Kört stóðu þessi orð Johns Milton, sem gætu sem best verið einkunnarorð ferðarinnar: „But what is strength without a double share of wisdom?“ Kannski þarf ekki mikinn vísdóm til að hlaupa yfir svona heiðar, en þó er ljóst að þær verða ekki hlaupnar á líkamlegum styrk einum saman. Andlegir og félagslegir þættir skipta ekki minna máli; undirbúningur hugans, svo og samvera og aðstoð þeirra sem hjálpa til við að láta drauminn verða að veruleika!

Hamingjan sanna á hlaupum

Um nýliðna helgi voru Hamingjudagar haldnir hátíðlegir á Hólmavík 7. árið í röð, og af því tilefni fór Hamingjuhlaupið fram í 3. sinn. Í þetta skipti var hlaupið frá æskuheimili mínu í Gröf í Bitru sem leið liggur um fjöll, dali, strendur, vegleysur og vegi til Hólmavíkur. Fyrri hluti leiðarinnar er fáfarin nú til dags, enda eru menn talsvert fljótari að aka bílveginn, þótt hann sé lengri. Þegar pabbi heitinn var upp á sitt besta rölti hann hins vegar nokkurn veginn þennan sama hlaupastíg með verkfærin sín á bakinu á leið í smíðavinnu á Hólmavík. Ég veit ekki hversu margar þær ferðir voru. Hef bara heyrt um eina slíka, en þá á hann að hafa náð heimilisfólkinu á Kirkjubóli í rúmi og mætt í morgunkaffið á Hólmavík. Ég býst við að þessi frásögn eigi við rök að styðjast, því að ekki mótmælti hann henni sjálfur á meðan hann hafði aðstöðu til.

Hamingjuhlaupaleiðin 2011, (hnuplað frá Hafþóri).

Lagt af stað
Við lögðum upp frá hlaðinu í Gröf sjö saman síðastliðinn laugardag upp úr kl. 4 síðdegis, nánar tiltekið kl. 16:13. Í hópnum var meðal annarra ofurhlauparinn Gunnlaugur Júlíusson. Ég komst að því á leiðinni að hann hafði einmitt tekið 20 km hlaupaæfingu um morguninn áður en hann brá sér norður. 

Ég hafði áætlað að spölurinn til Hólmavíkur væri 35,5 km og að ferðalagið tæki í mesta lagi 4 klst. og 25 mínútur. Í öllu falli var að því stefnt að við yrðum komnir á leiðarenda kl. 20:25, rétt í þann mund sem gestum væri hleypt að hinu margrómaða tertuhlaðborði Hamingjudaga. Annars er alltaf svolítið snúið að áætla tíma í svona hlaupum þar sem farið er um fjöll og vegleysur.

Við gamla bæinn í Gröf í Bitru við upphaf Hamingjuhlaupsins 2011. Þaðan lögðu þessir hraustu hlauparar af stað upp úr kl. 16 laugardaginn 2. júlí áleiðis til Hólmavíkur, þar sem Hamingjudagar Á Hólmavík stóðu sem hæst. F.v. Gunnlaugur Júlíusson, Stefán Gíslason, Finnur Dagsson, Hafþór Benediktsson, Birkir Þór Stefánsson, Ingimundur Grétarsson og Guðmann Elísson. (Rögnvaldur Gíslason tók myndina).

Veðrið lék við okkur þennan dag. Svolítil gola blés úr austri eða norðaustri, bjart yfir og hitinn 11-14 stig. Golan var heldur í fangið á leiðinni upp Bitruhálsinn eftir gamla hestaveginum upp frá Gröf, en það var ekkert nema þægilegt. Þessi leið yfir Bitruháls var á sínum tíma aðalleiðin milli Bitrufjarðar og Kollafjarðar og lengi póstleið. Meðfram henni lá líka landsíminn og liggur enn þótt símastaurarnir séu horfnir. Hægt er að fræðast örlítið meira um leiðina á fjallvegahlaup.is.

Hlaupið yfir hálsinn gekk vel og bar fátt til tíðinda. Reyndar hleypur maður ekki upp allar brekkur á svona ferðum, enda vinnst lítið við það. Oftast er látið duga að ganga rösklega upp bröttustu brekkurnar, en taka á léttan sprett þegar sléttara er undir. Leiðin yfir hálsinn fer mest í 400 m. hæð í svonefndum Skörðum. Skammt þar fyrir neðan lá svolítill skafl enn yfir götunni í skjóli vorkuldans, nánar tiltekið við upptök Broddár, sem reyndar heitir Broddadalsá þegar hún kemur til byggða og rennur í sjóinn við samnefndan bæ.

Hafþór fremstur í flokki við upptök Broddár á Bitruhálsi. Þarna var eini skaflinn á leiðinni.

Ísland allt er undraland
Fyrsta áfanga hlaupsins lauk við Stóra-Fjarðarhorn í Kollafirði. Þangað eru um 9,5 km frá Gröf, og enn var allt á áætlun, klukkan orðin rétt rúmlega hálfsex. Við Stóra-Fjarðarhorn bættust tveir hlauparar í hópinn, og eftir skamma viðdvöl hélt þessi vaski 9 manna hópur áfram eftir veginum fyrir botni Kollafjarðar, hvattir áfram af gestum í sumarhúsi í landi Undralands. Eiginlega er allt Ísland undraland á svona degi, með nægu plássi til að hreyfa sig í, hreinu lofti til að anda að sér og frelsi til að njóta hvors tveggja.

Við Stóra-Fjarðarhorn í Kollafirði. Bitruháls að baki. Þarna bættust tveir hlauparar í hópinn, þeir Ragnar Bragason og Kristinn Schram. Þeir eru lengst til hægri á myndinni. (Ljósm. Bragi Guðbrandsson).

Úr alfaraleið – inn í þokuna
Eftir að komið var út fyrir Litla-Fjarðarhorn var sveigt út af veginum, skáhallt upp lyngmóa og börð, áleiðis upp í Deildarskarð. Ragnar bóndi og skíðagöngukappi á Heydalsá leiddi hópinn þarna upp, enda á heimavelli. Handan við skarðið beið Hvalsárdalur og þrír hlauparar til viðbótar sem ætluðu að spreyta sig á næsta áfanga. Þetta var fólk úr Þorpafjölskyldunni, þau Jónína og Vignir Pálsbörn og Hadda Borg Björnsdóttir. Þar með vorum við orðin 12, rétt eins og lærisveinarnir. Við héldum hópinn að mestu, þó að sumir væru kannski léttari á fæti en aðrir, eins og gengur. Leiðin lá þvert norðuryfir dalinn, svo innarlega að varla er hægt að tala um dal, heldur frekar daldrög. Þarna var sólin löngu hætt að skína, og fyrr en varði vorum við komin inn í þokubakka, sem Húnaflóinn hafði greinilega verið aflögufær með, þrátt fyrir sólskinið fyrri part dagsins. Við tók erfiðasti kafli leiðarinnar um vegalausar þúfur og holt. Einn úr hópnum týndist meira að segja í þokunni um tíma, og þó að slíkt sé svo sem ekkert hættulegt á þessum árstíma þótti okkur vissast að hinkra um stund og safna öllum í þéttan hóp áður en haldið var áfram, upp í 300 m hæð utan í Spákonufelli og síðan áleiðis niður að bænum Heydalsá í Steingrímsfirði. Þar var áð um stund og litið á klukku. Hún var orðin 20 mínútur yfir 7, eða u.þ.b. 25 mínútum meira en að var stefnt. Þokan og þúfurnar höfðu tekið sinn toll, og naumast öruggt lengur að við næðum í fyrstu tertusneiðarnar eins og ætlunin var.

Í þokunni á Hvalsárdal. Á myndinni eru Ingimundur Grétarsson, Jónína Pálsdóttir, Kristinn Schram og Hadda Borg Björnsdóttir.

Við Heydalsá bættust þau Kolbrún Unnarsdóttir og Rósmundur Númason í hópinn, en einhverjir aðrir drógu sig í hlé. Upphaflegu sjömenningarnir voru þó enn allir í fullu fjöri, eða því sem næst, þótt að baki væri hálft maraþonhlaup um fjöll og firnindi. Samtals vorum við því 10 talsins sem lögðum af stað hlaupandi eftir veginum áleiðis til Hólmavíkur. Framundan var nákvæmlega 14,6 km endasprettur, sem ætlunin var að taka á 10 km meðalhraða.

Hafþór þiggur hressingu við Heydalsá fyrir lokasprettinn til Hólmavíkur; 21 km fjallahlaup að baki og bara eftir að hlaupa 14,6 km eftir þjóðvegi nr. 68.

Vaxandi hamingja
Þarna dreifðist hópurinn. Ungu mennirnir Hafþór og Finnur sprettu úr spori og hurfu okkur hinum fljótlega sjónum, enda báðir að æfa fyrir Laugavegshlaup eftir tvær vikur – og um að gera að nota daginn vel til styrkingar fyrir þau átök. Við Gunnlaugur ofurhlaupari fylgdumst að, nokkru hægari, og síðan komu þau hin hvert af öðru, Rósmundur, Kolbrún, Kristinn, Birkir, Ingimundur og Guðmann. Ferðalagið til Hólmavíkur gekk eins og í sögu. Fámennt var í sveitinni þetta kvöld, en þó hittum við skemmtilegt fólk við veginn, sem hvatti okkur áfram. Gunnlaugur hafði orð á því að Hamingjuhlaupið stæði greinilega undir nafni, því að það leyndi sér ekki að hamingjan jókst með hverju skrefi sem hlaupið var.

Stækkandi hópur
Á Kálfanesskeiðinu var hinkrað  þar til allur hópurinn var sameinaður á ný. Þar á meðal voru þær Helena og Ingibjörg, sem höfðu hlaupið á undan okkur síðustu 6 kílómetrana frá Hrófá. Einhverjir fleiri voru þarna líka, en ef aðeins eru taldir þeir sem fengu 5 km hamingjuskammt eða meira, þá var þátttakendafjöldinn kominn í 16 manns. Það eru talsvert stærri hópur en árin á undan, sem bendir til þess að sífellt fleiri uppgötvi hamingjuna á hlaupum.

Og þarna var bara eftir að skeiða inn á hátíðarsvæði Hamingjudaga á Hólmavík. F.v. Ingibjörg Emilsdóttir, Helena Jónsdóttir, Rósmundur Númason, Finnur Dagsson, Gunnlaugur Júlíusson, Ingimundur Grétarsson, Hafþór Benediktsson, Stefán Gíslason, Kolbrún Unnarsdóttir og Kristinn Schram. Birkir Stefánsson var rétt ókominn. (Ljósm. Jóhann Guðmundsson).

Hlaupið inn í hamingjugöngin
Síðasti spölurinn niður Sýslumannshallann og inneftir Hafnarbrautinni var einstaklega léttur og ljúfur. Talsvert af fólki hafði safnast saman og myndað hamingjugöng sem náðu frá Vitabrautinni, niður með vélsmiðjunni og alla leið að dyrum fiskmarkaðarins þar sem tertuhlaðborðið beið enn. Viðtökurnar voru stórkostlegar og hamingjan í hverju horni. Þarna fann ég virkilega, sem ég fann ekki að sama skapi árin á undan, að Hamingjuhlaupið var orðið raunverulegur hluti af Hamingjudögunum. Ég fékk að skera fyrstu sneiðina af hlaðborðinu, og þó að tertur séu kannski ekki það fyrsta sem maður hugsar um á hlaupum, þá runnu þessar einstaklega ljúflega niður innan um allt þetta góðlega og hamingjusama fólk.

TAKK
Eftir að hafa hlaupið hálfan daginn í svona góðum félagsskap og eftir að hafa fengið þessar ljúfu móttökur í formi hvatningarorða, lófataks, faðmlaga og heimabaksturs, er ekki hægt annað en vera klökkur af hamingju og þakklæti. Takk Hólmvíkingar fyrir að leyfa mér og okkur öllum að njóta hamingjunnar með ykkur, takk Arnar Snæberg fyrir frábæra skipulagningu, takk Ingibjörg sveitarstjóri og sveitarstjórnin öll fyrir að þora að vera hlý og öðruvísi – og takk Björk fyrir að elda svona frábæra gúllassúpu fyrir þreytta hlaupara í lok dags.

Hamingjuhlaupararnir Ingimundur, Gunnlaugur og Stefán gæða sér á gúllassúpu að hætti Bjarkar að loknu skemmtilegu dagsverki. (Ljósm. Kári Þórsson).

Hvar hittumst við að ári?
Hamingjuhlaupið er komið til að vera. Ég get alla vega ekki hugsað mér að missa af því að upplifa þessi notalegheit a.m.k. einu sinni á ári. Spurningin er bara hvaðan eigi að hlaupa næsta ár. Kannski er röðin komin að Trékyllisheiðinni með rásmark á hlaðinu í Árnesi í Trékyllisvík. Er ekki stemming fyrir því?

Eftirmáli – eða kannski bara formáli
Eins og fram kom í upphafi þessa pistils var þetta 3. formlega Hamingjuhlaupið. Reyndar átti þessi hugmynd svolítinn aðdraganda, þótt sjálfhverfur væri framan af. Kannski byrjaði fræið að spíra í júlíbyrjun 2006 á Hamingjudögum nr. 2. Þá vaknaði ég snemma tvo morgna í röð til að hlaupa Óshringinn í kyrrð og ró. Árið 2007 ákvað ég að hlaupa Óshringinn fjórum sinnum sama morguninn, enda var ég þá að safna kílómetrum fyrir Laugavegshlaupið skömmu síðar. Í þetta skipti stofnaði ég meira að segja spjallþráð á Strandir.is, þar sem ég bauð fólki að slást í för með mér. Enginn þáði að vísu boðið, en hlaupið jók samt hamingju mína töluvert. Og ég bloggaði meira að segja um hlaupið (í nokkru styttra máli en hér). Á Hamingjudögum 2008 hlupum við Birkir í Tungu og Ingimundur Grétarsson norður Laxárdalsheiði frá Reykhólasveit til Skeljavíkur í norðan kalsaveðri og slyddu. Sumarið 2009 var þetta svo orðið að formlegum viðburði. Þá var hlaupið frá Drangsnesi með uppvafin skilaboð frá hreppsnefnd Kaldrananeshrepps sem bauð öllum Hólmvíkingum á Bryggjuhátíð. Í fyrra voru það svo Gautsdalur, Þröskuldar og Arnkötludalur. Já, og nú var hlaupið formlegt Hamingjuhlaup í þriðja sinn. Hér sannast ekki hið fornkveðna, að allt sé þegar þrennt er…