• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • nóvember 2011
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    27282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Olía niðurgreidd um þúsundir milljarða

Flestir halda líklega að verslun með bensín og olíu sé öll á viðskiptalegum grunni, þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar ríkja ótrufluð. Og þessir sömu flestir halda líklega að þessu sé öfugt farið með vistvænni orkugjafa, sem njóti verulegra styrkja sem dugi þó varla til að gera þá samkeppnishæfa. En svona er þetta ekki. Þjóðir heims verja nefnilega fimm sinnum hærri fjárhæðum til að niðurgreiða jarðefnaeldsneyti, en sem nemur samanlögðum styrkjum vegna nýrra orkugjafa.

Samkvæmt tölum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (International Energy Agency (IEA)) námu niðurgreiðslur vegna jarðefnaeldsneytis um 300 milljörðum Bandaríkjadala (USD) (um 35 þúsund milljörðum íslenskra króna) á árinu 2009 á sama tíma og styrkir til nýrra orkugjafa voru tæpir 60 milljarðar USD. Árið 2010 voru niðurgreiðslurnar enn hærri, eða um 409 milljarðar USD. Með sama áframhaldi munu þjóðir heims nota 660 milljarða USD til að niðurgreiða kol, olíu og gas árið 2020.

Upphaflega var sjálfsagt bara góður hugur á bak við þessar niðurgreiðslur. Með þeim töldu menn sig geta lækkað olíuverð og þannig dregið úr fátækt og stutt við efnahagslegan vöxt. Í reynd hafa niðurgreiðslurnar þó oftar en ekki leitt til óhóflegrar neyslu, gert þjóðir háðari innflutningi og komið í veg fyrir fjárfestingar í vistvænni orkulausnum, auk þess að hafa augljóslega leitt til eyðingar auðlinda og aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda.

Stuðningur við notkun endurnýjanlegrar orku (svo sem vatnsorku, jarðvarma, vindorku, sólarorku og lífmassa) er ekki aðeins til þess fallinn að draga úr mengun, heldur er um leið stuðlað að staðbundinni framleiðslu, atvinnusköpun og auknum tekjum á dreifbýlum svæðum. Aukin notkun endurnýjanlegrar orku dregur líka úr miðstýringu í orkukerfinu, stuðlar að aukinni tekjudreifingu, eykur orkuöryggi og gerir einstök svæði og þjóðlönd minna háð innflutningi.

Góðu fréttirnar í þessu öllu saman eru að hér eru stórfengleg tækifæri til úrbóta!

(Þessi pistill er að mestu byggður á grein á heimasíðu ráðstefnunnar World Bioenergy 2012. Sjá einnig World Energy Outlook á heimasíðu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA)).