• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • apríl 2013
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Undir tuttugu

Í dag náði ég þeim langþráða áfanga að hlaupa 5 km á skemmri tíma en 20 mínútum, nánar tiltekið á 19:59 mín. Ég hef reyndar gert þetta nokkrum sinnum áður, en það var aðeins byrjað að fenna í þau spor. Hljóp síðast undir 20 í sýslukeppni á Blönduósi 18. ágúst 1980. Hlaup eru svo sem ekki lífið sjálft, en gleðina úr hlaupunum getur maður tekið með sér þegar gengið er til annarra verka. Sérhvert takmark sem næst er fóður fyrir gleðina.

Ég brá mér sem sagt til Reykjavíkur í dag til að taka þátt í Víðavangshlaupi ÍR, elsta hlaupi Íslandssögunnar. Víðavangshlaup ÍR var fyrst haldið 1916 og hefur síðan verið árviss viðburður Sumardaginn fyrsta. Ég missti af nokkrum fyrstu hlaupunum. Mætti reyndar ekki fyrr en vorið 1974, nánar tiltekið fimmtudaginn 25, apríl. Þá var hlaupið bara um 3,5 km. Líklega þóttu 5 km heldur langir á þeim árum. Ég man svo sem ekkert eftir þessu hlaupi, að frátöldum einhverjum spaugilegum atvikum í búningsklefunum við gamla Melavöllinn þar sem Þjóðarbókhlaðan stendur nú. Mig rámar reyndar líka í að ég hafi ekki verið mjög sáttur við eigin frammistöðu. Úrslitin eru löngu týnd, en í æfingadagbókinni minni stendur þetta: „Víðavangshlaup ÍR (um 3,5 km). Ég varð 9. á 13:12 mín“. Frásagnir mínar af hlaupum voru styttri í þá daga en síðar varð.

Úr hlaupadagbókinni fimmtudaginn 25. apríl 1974.

Úr hlaupadagbókinni fimmtudaginn 25. apríl 1974.

Réttum 39 árum síðar mætti ég öðru sinni til leiks. Ætli ég geri það ekki bara að reglu hér eftir að mæta í þetta hlaup á 39 ára fresti? Nú voru þátttakendur miklu fleiri en 1974 og í hópnum kom ég auga á a.m.k. þrjá auk mín, sem hlupu líka þá, þeirra á meðal Jón Guðlaugsson. Ég sé ekki að hann hafi elst mikið síðan og þótti mér hann þó háaldraður þá. Og núna varð ég ekki níundi, heldur kannski nr. 50. Veit það ekki alveg. Alla vega gekk allt að óskum og ég kom alsæll í mark, miklu sælli en þarna um árið.

Áætlun mín fyrir hlaupið var einföld. Ætlaði að reyna að hlaupa hvern km á því sem næst 4 mín. Það gekk algjörlega upp. Kílómetrarnir voru á 3:59, 3:56, 4:05, 4:01 og 3:58. Norðan kæla blés í gegnum Kvosina og hitastigið var í lægra lagi til að henta sumardegi, kannski svona 3 gráður. En það var bara fínt. Og niðurstaðan gat ekki verið betri. Tíminn 19:59 mín er eiginlega miklu skemmtilegri en t.d. 19:58, svo ekki sé nú talað um 20:00.

Ég kann sífellt betur að meta lífið eftir því sem ég sé meira af því. Ekkert í þessum heimi er sjálfsagt og hlaupin minna mig á að vera þakklátur. Þakklátastur er ég forsjóninni og fólkinu sem hefur notið lífsins með mér. Í dag er ég líka þakklátur Hauki hlaupafélaga sem fylgdi mér í þessu ferðalagi, Evu Skarpaas og Friðriki Ármanni sem voru mér hvatning í hlaupinu sjálfu öðrum fremur, og svo öllu hinu skemmtilega fólkinu sem ég hitti í dag. Mér finnst gaman að geta tekið þátt í svona ævintýrum.