• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • maí 2013
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Notuð og ónotuð föt

cover_normalÍ framhaldi af umræðum síðustu vikna um aðstæður verkafólks í fataframleiðslu er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað verður um öll þessi föt, já og bara föt yfirleitt. Það fyrsta sem manni dettur í hug er sjálfsagt að einhver kaupi þau, noti þau og hendi þeim svo þegar þau eru orðin ónýt. En saga fatanna er ekki alltaf svona einföld.

Norræn skýrsla
Á síðasta ári kom út skýrsla sem Norræna ráðherranefndin lét vinna til að fá fram tillögur um aðgerðir til að lágmarka fataúrgang. Í þessari skýrslu er reynt að draga upp mynd af ástandinu, þ.e.a.s. af því hversu mikið af fatnaði er sett á markað á hverju ári og hvað verður svo um þennan fatnað. Úttektin náði til Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, en sambærilegar tölur fyrir Noreg og Ísland voru ekki eins aðgengilegar. Reyndar er hvergi til áreiðanlegt talnaefni um innkaup, notkun og afdrif fatnaðar, þannig að víða þarf að geta í eyðurnar. Í skýrslunni er það gert fyrir hvert land um sig – og niðurstöðurnar eru alls staðar nokkuð svipaðar. Auðvitað er erfitt að fullyrða um hvort hægt sé að heimfæra þessar tölur upp á Ísland, en líklega kaupum við a.m.k. jafn mikið af fötum og nágrannaþjóðirnar og hendum a.m.k. jafn miklu.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að þegar talað er um fatnað í þessu samhengi, þá er líka átt við handklæði, rúmföt, borðdúka, teppi og fleira, þ.e.a.s. hvers konar laus klæði eða textílefni sem notuð eru á heimilum og ekki eru hluti af öðrum vörum. Þetta gætu verið svona 20% af heildarmagninu, sem skiptir ekki öllu máli í niðurstöðunni, að minnsta kosti ekki á meðan hún er svona lauslega reiknuð.

15 kíló á mann á ári
Svo við lítum nú fyrst á innkaupin, þá virðast Danir, Svíar og Finnar kaupa 13-16 kíló af fatnaði á hvert mannsbarn á ári. Ef við gefum okkur töluna 15 kíló fyrir Ísland, þá má geta sér þess til að við kaupum samanlagt um það bil 4.800 tonn af fatnaði á ári. Miðað við tölur frá hinum löndunum fara 40-70% af þessu í ruslið. Ef við gerum ráð fyrir að við séum í hærri kantinum, þá gætu þetta verið 10 kíló á hvert mannsbarn á ári eða samtals um 3.200 tonn á landinu öllu, sem fara þá í urðun. Talsvert magn er endurnotað með einum eða öðrum hætti, þar með talið það sem Rauði krossinn og önnur samtök safna. Þetta gætu verið um það bil 1.400 tonn á ári eða um það bil 4,5 kíló á hvert mannsbarn. Þá vantar um það bil 200 tonn eða um það bil hálft kíló á mannsbarn til þess að dæmið gangi upp. Miðað við tölur frá Danmörku og Finnlandi gæti þetta einmitt verið það magn sem safnast árlega upp í fataskápum, háaloftum og kjöllurum landsmanna umfram það sem rutt er þaðan út í tiltektum.

Í margumræddri skýrslu kemur fleira áhugavert fram. Það lítur meðal annars út fyrir að fatainnkaup Norðurlandabúa vaxi jafnt og þétt, langt umfram fólksfjölgun. Þannig jókst magn fatnaðar sem settur var á markað í Svíþjóð um 40% milli áranna 2000 og 2009. Hins vegar virðist áhugi á endurnotkun líka fara ört vaxandi. Sífellt fleiri selja og kaupa notuð föt á netinu og verslanir með notuð föt blómstra. Þetta er auðvitað jákvætt þar sem það bætir nýtingu auðlinda. Í skýrslunni er líka bent á aðferðir sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr sóun fatnaðar. Í Frakklandi er til dæmis að einhverju leyti búið að innleiða framlengda framleiðendaábyrgð á fötum, sem þýðir að framleiðendur eru skyldaðir til að taka notuð föt til baka. Og í Japan eru kröfur um hlutfall endurunninna efna í nýjum fötum orðnar hluti af innkaupareglum hins opinbera. Loks er bent á þann möguleika að lækka eða endurgreiða virðisaukaskatt af fataviðgerðum og fræða fólk jafnframt um slíka möguleika og um það hvar og hvernig sé hægt að skila af sér notuðum fötum. Allt myndi þetta stuðla að betri nýtingu fatnaðar og minni sóun.

Milljarður á ári í ónotuð föt?
Ef við drögum þetta nú aðeins saman, þá má getum að því leiða að við kaupum hátt í 5.000 tonn af fötum á hverju ári og að rúmlega 3.000 tonn af fötum séu urðuð á hverju ári. Þarna hlýtur að mega spara eitthvað, bæði fjárútlát vegna innkaupa og úrgangsmeðhöndlunar – og auðlindir sem kastað er á glæ í hvert sinn sem klæði er urðað. Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp tölur úr rannsókn sem Einar Mar Þórðarson og félagar hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerðu skömmu fyrir hrun á neysluvenjum Íslendinga og viðhorfum til endurvinnslu. Þar kom fram að nær helmingur aðspurðra hafði keypt föt eða skó á útsölu sem höfðu svo bara verið notuð einu sinni eða tvisvar, eða jafnvel aldrei. Og 19% höfðu keypt sér föt sem voru aldrei notuð vegna þess að kaupandanum tókst ekki að grennast nógu mikið til að passa í þau. Í þessari sömu rannsókn var reiknað út að á hverju ári eyddu Íslendingar 1,3 milljörðum króna í föt sem ekki voru notuð.

Til umhugsunar
Það er örugglega gaman að ganga í fínum fötum, en það væri líka hægt að kaupa sér margt skemmtilegt fyrir þennan eina eða eina og hálfa milljarð sem hent er með ónotuðum fötum. Það eykur nefnilega ekki lífsgæði manns að eiga föt til að henda, og líklega ekki heldur að safna fötum í skápa, kjallara og háaloft. Þaðan af síður aukast lífsgæðin þegar við hið fjárhagslega tjón bætist samviskubitið yfir því að fólk hafi þurft að deyja í fjarlægum löndum til að framleiða þessi föt fyrir okkur. Kannski hefði það skapað meiri lífsgæði, já eða vellíðan, að kaupa færri flíkur, borga aðeins meira fyrir hverja þeirra, nýta tiltækar aðferðir til að tryggja sómasamleg lífsskilyrði þeirra sem vinna verkin – og nota svo afganginn af peningunum í eitthvað skemmtilegt.

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 fimmtudaginn 23. maí 2013).

Uppruni fatnaðar og réttlætismerking

Bangladess verksmiðja 2Í bloggpistli 10.maí sl. velti ég fyrir mér nokkrum spurningum sem vöknuðu í framhaldi af hruni fataverksmiðjunnar í Dakka í Bangladess síðasta vetrardag. Sá skelfilegi atburður hefur svo sannarlega vakið fólk til umhugsunar. Samt voru þetta eiginlega ekki alveg nýjar fréttir. Mörg svipuð mál hafa komið upp á yfirborðið síðustu árin, þó að sjaldan eða aldrei hafi svona margir misst lífið í einum slíkum atburði. Hörmungarnar í Dakka eru „hávær vekjaraklukka“, sem hlýtur að verða til þess að allir leggist á eitt um að tryggja að viðlíka atburðir endurtaki sig ekki. Hér sem víðar eru engar skyndilausnir í boði, en við eigum þó tæki sem okkur er í lófa lagið að nota til að stuðla að bættu ástandi. Þessi pistill fjallar m.a. um slík tæki.

Eigin siðareglur duga skammt
Margar þekktar fatakeðjur á Vesturlöndum, og þar með talið á Norðurlöndunum, hafa orðið uppvísar af því að láta framleiða fyrir sig föt í verksmiðjum þar sem vinnuaðstæður eru með öllu óboðlegar. Nokkrar slíkar hafa fengið á baukinn í úttektum rannsóknarblaðamanna og nægir þar að nefna sænsku fataverslunarkeðjuna Indiska, sem lenti í slíkri úttekt hjá fréttaskýringaþættinum Granskning í sænska sjónvarpinu haustið 2006. Þar kom m.a. í ljós að eigin siðareglur fyrirtækisins dugðu skammt, þar sem þeim var ekki fylgt eftir á framleiðslustaðnum. Nöfn H&M og IKEA hafa líka verið nefnd í svipuðu samhengi, auk til dæmis Walmart, Gap og Tommy Hilfiger, svo litið sé út fyrir Norðurlöndin. Líklega eru fá stórfyrirtæki alveg undanskilin ef út í það væri farið.

Spyrjum!!!
Fyrstu viðbrögð neytenda eru oft þau að hætta, eða segjast ætla að hætta, að kaupa föt frá viðkomandi fyrirtækjum. Það eitt út af fyrir sig er þó ekki líklegt til að breyta miklu, öðru en því að fólkið í verksmiðjunum missir þá litlu og illa launuðu vinnu sem það hafði. Mun betri aðferð, og reyndar eina aðferðin sem er líkleg til að skila árangri, er að spyrja hvar viðkomandi vara hafi verið framleidd og hvað hafi verið gert til að tryggja fólkinu sem þar vann mannsæmandi laun og réttindi. Fáist ekki fullnægjandi svör við því er sjálfsagt að snúa sér annað.

Eftirspurn sem ekki heyrist er ekki eftirspurn!
Nú kann einhver að segja sem svo, að það þýði lítið að spyrja svona spurninga í búðum. Þar vinni bara einhverjir krakkar sem viti ekki neitt um svona lagað. Við þetta hef ég tvennt að athuga: Annars vegar er alveg óþarfi að vanmeta þekkingu afgreiðslufólks í verslunum, því að yfirleitt veit þetta fólk heilan helling um vöruna sem það er að selja. Hins vegar er alveg öruggt að þetta fólk veit ekkert um að okkur sé ekki sama ef við spyrjum aldrei! Ef okkur er ekki sama, þá eigum við að spyrja, því að um leið og nokkrir hafa spurt er alveg öruggt að eigendur verslunarinnar frétta af áhuganum og fara að leita sér upplýsinga um uppruna vörunnar, hafi þær upplýsingar ekki legið fyrir allan tímann. Því að um leið og kaupendum er hætt að standa á sama, þá er líklegt að salan minnki ef ekki er brugðist við þessari nýju eftirspurn eftir upplýsingum. Það er nefnilega ekki hægt að selja vöru sem neytendur vilja ekki kaupa.

Réttlætismerking = eitt besta tækið
Það er ekki auðvelt verk, hvorki fyrir venjulegan neytanda eða venjulegan verslunareiganda að komast að því hvar og hvernig venjuleg flík í venjulegri búðarhillu er framleidd, hvað þá að ganga úr skugga um hvort fólkið sem vann við framleiðsluna hafi fengið mannsæmandi laun og aðbúnað, hvort það hafi fengið að ganga í verkalýðsfélög og þar fram eftir götunum. Sem betur fer eru þó til nokkur tæki sem geta hjálpað til við þessa upplýsingaöflun. Réttlætismerking, öðru nafni fairtradevottun, er eitt þessara tækja.

Hvað er réttlætismerking?
FairtradeRéttlætismerking felur það í sér að varan ber ákveðinn stimpil sem vottar siðræn viðskipti með fatnað og fleiri vörur frá þróunarlöndunum. Merkið tryggir m.a. að þeir sem unnu við framleiðslu vörunnar hafi notið lágmarksréttinda hvað varðar laun og aðbúnað og að barnaþrælkun hafi ekki verið stunduð við framleiðsluna. Þar að auki felur merkið í sér staðfestingu á því að inni í verði vörunnar sé dálítið aukagjald, sem framleiðandanum er skylt að verja í félagsleg verkefni í viðkomandi landi, t.d. til skólabygginga. Samt er verð þessarar vöru ekkert endilega miklu hærra en verð annarrar vöru til sömu nota. Ástæðan er sú, að réttlætismerktu vörurnar fara að jafnaði í gegnum mun færri milliliði en hinar vörurnar. Samtökin Fairtrade International, öðru nafni FLO, halda utan um þetta kerfi á heimsvísu og hafa meðal annars milligöngu um beina samninga við framleiðendur. Um leið fá þau yfirsýn yfir alla vörukeðjuna og geta fylgst með að hvergi sé svindlað á skilmálunum sem fylgja þessari vottun.

Þróunaraðstoð sem virkar
Með því að kaupa réttlætismerkt föt eða aðrar vörur leggur maður sitt af mörkum til þróunaraðstoðar. Maður getur líka treyst því að sú aðstoð komist til skila og nýtist þar sem hún á að nýtast. Kaup á réttlætismerktum vörum er ekki bara eitthvað sem einstaklingar geta gert til að bæta eigin samvisku og minnka líkurnar á að harmleikurinn í Dakka endurtaki sig, heldur felst einnig í þessu kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki og stofnanir til að styðja við þróunarstarfið og bæta eigin ímynd um leið.

Svanurinn og GOTS
SvanurinnGOTSSéu viðkomandi vörur merktar með Norræna umhverfismerkinu Svaninum má líka treysta því að réttindi verkafólks hafi verið virt. Sama gildir þegar keypt eru föt með svonefnda GOTS-vottun, en GOTS stendur fyrir Global Organic Textile Standard. Til að flík megi bera merki GOTS þurfa allir aðilar í virðiskeðjunni að uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði um félagslegt réttlæti, a.m.k. 70% af þráðunum í flíkinni verða að vera með lífræna vottun, og öll litarefni og hjálparefni verða að uppfylla tilteknar kröfur um áhrif á heilsu og umhverfi. Auðvitað felur engin vottun í sér 100% tryggingu fyrir einu né neinu, en vottunarkerfin eru þó alla vega bestu tækin sem við höfum. Þau hafa það m.a. fram yfir eigin yfirlýsingar seljenda að þau eru óháð.

VIÐ getum breytt þessu!
Okkur finnst við kannski standa ráðþrota gagnvart atburðum eins og þeim sem varð í Dakka síðasta vetrardag. Það er rétt að því leyti að við getum ekki afturkallað það sem gerðist. En að öðru leyti er það rangt. Við þurfum ekki að standa ráðþrota. Ef okkur er ekki sama, þá eigum við að spyrja. Og við höfum tæki á borð við fairtradevottun, Norræna svaninnn, GOTS-vottun og aðrar vottanir til að hjálpa okkur í viðleitninni við að bæta ástandið.

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 miðvikudaginn 14. maí 2013).

Hinn árlegi Háfslækjarhringur, 4. útgáfa

Uppstigningardagur er hátíðisdagur, því að þá hópast að mér skemmilegt fólk til að hlaupa með mér Háfslækjarhringinn. Þessi hefð komst á vorið 2010 og hefur staðið óslitið allar götur síðan. Á dögunum var hringurinn því hlaupinn í 4. sinn – með viðhöfn.

Hver er þessi hringur?
Háfslækjarhringurinn er 17,9 km göngu-, hlaupa- og reiðleið í nágrenni Borgarness. Reyndar hef ég hann svolítið lengri, því að með því að fara heiman að frá mér og heim aftur er hringurinn 21,3 km miðað við að farin sé stysta leið. Það er sú leið sem jafnan er hlaupin á uppstigningardag.

Veðrið klukkan níu
Það er óhætt að segja að þessi uppstigningardagur hafi runnið upp (eða stigið upp) bjartur og fagur. Sólin tók daginn snemma og byrjaði að skína fyrir allar aldir og þegar fólk kom á stjá var hitinn kominn vel yfir 5 stig og héla næturinnar á undanhaldi. Vindur var svo lítill að jaðraði við logn. Og þegar leið á daginn átti hitastigið eftir að ná tveggja stafa tölu. Þetta var með öðrum orðum einhver besti dagur ársins það sem af var.

Fallegt fólk
Um 9-leytið um morguninn hafði hópur af fallegu fólki safnast saman fyrir utan dyrnar hjá okkur hjónunum. Reyndar fréttist af enn fleira fallegu fólki sem hafði lagt í hann klukkutíma fyrr til að geta tekið hringinn á sínum hraða. Það er skynsamlegt að sníða sér stakk eftir vexti. Samtals voru það 9 manns og einn hundur sem stilltu sér upp til myndatöku  í morgunsólinni – og svo var lagt af stað sem leið liggur í átt til Akureyrar.

Fallegt fólk að morgni dags. F.v. SG, Hrafnhildur, Haukur, Bragi, Bjarni, Sigurjón, Haukur, Einar og Þuríður, að ógleymdum hundinum Gretti frá Rauðanesi. (Björk tók myndina).

Fallegt fólk að morgni dags. F.v. SG, Hrafnhildur, Haukur, Bragi, Bjarni, Sigurjón, Kristinn, Einar og Þuríður, að ógleymdum hundinum Gretti frá Rauðanesi. (Björk tók myndina).

Leiðarlýsing
Háfslækjarhringurinn nær ekki til Akureyrar. Þangað liggur annar hringvegur. Hins vegar liggur leiðin um fólkvanginn Einkunnir fyrir ofan Borgarnes, í gegnum fólkvanginn eftir vegarslóða sem núorðið er einkum ætlaður fyrir útreiðartúra, vestur undir Langá, niður með ánni austanverðri og loks meðfram aðalveginum frá Langá aftur til Borgarness.

Fyrsti kílómetrinn að baki, allt í lukkunnar velstandi, himinninn blár og Haukur fremstur.

Fyrsti kílómetrinn að baki, allt í lukkunnar velstandi, himinninn blár og Haukur fremstur.

Létt spor
Fólk var almennt létt í lund og létt í spori þennan morgun. Við héldum hópinn framanaf, en smám saman dreifist úr. Sumir höfðu það að meginmarkmiði að komast alla leið, aðrir vildu ljúka hlaupinu á örlítið styttri tíma en síðast og enn aðrir lögðu aðaláherslu á að njóta félagsskaparins og góða veðursins. Hópurinn grisjaðist þannig eitthvað þegar á leið hlaupið.

8 km að baki og gleðin tekin að ágerast. Hér er hlaupið norðureftir austurbakka Háfslækjar, sem er aðallækurinn í þessari sögu.

8 km að baki og gleðin tekin að ágerast. Hér er hlaupið norðureftir austurbakka Háfslækjar, sem er aðallækurinn í þessari sögu.

Eldhúsrútan
Ólíkt því sem verið hefur síðustu vor var ekkert vélknúið ökutæki með í för í þetta sinn, en slík ökutæki hafa gjarnan verið notuð til að flytja nesti og örþreytta hlaupara. Þetta kom þó ekki að sök því að Þuríður hafði pláss fyrir nokkrar vatnsflöskur og því um líkt á bögglaberanum á hjólinu sínu, og enginn hlaupari varð svo þreyttur að hann þyrfti aðstoð við að komast til byggða.

Þurý með vistir á hjólinu. Auður tók myndina við 9 km markið vestan við Skilklett.

Þurý með vistir á hjólinu. Auður tók myndina við 9 km markið vestan við Skilklett.

Met falla
Eins og við mátti búast voru slegin met í hlaupinu. Við Kristinn nágranni náðum að hrista hlaupafélagana af okkur á síðustu kílómetrunum og vorum mættir í hlað á Þórðargötunni 1 klst 58 mín og 21 sek eftir að við lögðum í hann. Þetta var um mínútu betri tími en fyrstu menn náðu í fyrra. Reyndar er þetta árlega Háfslækjarhringshlaup engin keppni, nema þá í því að sigrast á nýjum markmiðum og auka gleði sína sem mest. Veit ekki annað en allir hafi náð tilætluðum árangri hvað þetta varðar.

Hópurinn einkar vel á sig kominn að hlaupi loknu. F.v. Kristinn, Þuríður, Sigurjón, Haukur, SG, Kristín, Bragi, Hrafnhildur, Berta, Sigga Júlla, Veronika og Auður. Á myndina vantar Bjarna og Einar. (Ljósm. Guffa).

Hópurinn einkar vel á sig kominn að hlaupi loknu. F.v. Kristinn, Þuríður, Sigurjón, Haukur, SG, Kristín, Bragi, Hrafnhildur, Berta, Sigga Júlla, Veronika og Auður. Á myndina vantar Bjarna og Einar. (Ljósm. Guffa).

Sigurvegararnir
Ég lít svo á að í svona hlaupi séu allir sigurvegarar. Aðalsigurvegararnir eru þó þeir sem leggja hringinn að baki í fyrsta sinn. Því takmarki náðu fimm hlauparar á uppstigningardag.

Sigurvegararnir Sigga Júlla, Bragi, Veronika, Berta og Kristín.

Sigurvegararnir Sigga Júlla, Bragi, Veronika, Berta og Kristín.

Hápunkturinn
Mikilvægur hluti af hinni áralöngu hefð að hlaupa Háfslækjarhringinn á hverjum uppstigningardegi, er kjötsúpan sem Björk eldar jafnan á meðan á hlaupinu stendur, úr lambakjöti frá búgarði bróður míns á Ströndum. Á þessu varð engin breyting að þessu sinni – og kjötsúpan með albesta móti og er þá mikið sagt.

Svipmynd úr kjötsúpuveislu Bjarkar.

Svipmynd úr kjötsúpuveislu Bjarkar.

Lokaorð
Hér lýkur að segja frá hinum árlega Háfslækjarhring 2013. Að vísu má bæta því við að eftir súpuna fóru sumir til síns heima en aðrir funduðu í heita pottinum og þar í kring og gerðu upp atburði dagsins.

PS1
Já, ég gleymdi að geta þess, að þetta árið hlupu 10 manns allan hringinn. Þetta mun vera um 11% fjölgun frá fyrra ári, sem verður að teljast afar góð ávöxtun, þó að stærðfræðileg reikningsdæmi frá því á síðasta ári hafi ekki gengið alveg upp. Flest bendir til áframhaldandi fjölgunar.

PS2
Hér fyrir neðan má finna tengla á frásagnir af þremur síðustu árlegu Háfslækjarhringjum. Þetta er gert til að auðvelda sagnfræðingum vinnuna.
Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2010
Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2011
Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2012

Bangladess, föt og siðferði

Bangladess verksmiðja hrunNú hafa á annað þúsund manns fundist látnir í rústum fataverksmiðjunnar sem hrundi í Dakka í Bangladess síðasta vetrardag. Þessi atburður hefur vakið mikla umræðu um aðstæður í verksmiðjum í Suðaustur-Asíu, þar sem fjöldi verkafólks framleiðir föt og annan varning fyrir Vesturlandabúa við afar slæm skilyrði. Ýmsar spurningar hafa komið upp í þessari umræðu, svo sem:

  1. Getur verið að fötin mín hafi verið framleidd þarna?
  2. Skyldu vera til fleiri svona verksmiðjur sem gætu bara hrunið einn daginn?
  3. Hvernig gat þetta gerst?
  4. Getur þetta gerst aftur?

Fötin mín!?
Lítum á þessar spurningar hverja fyrir sig. Ég veit til dæmis, fyrir það fyrsta, ekkert um það hvort fötin mín hafi verið framleidd þarna, já nema náttúrulega ullarvettlingarnir sem mamma prjónaði. Á þessari fáfræði minni eru aðallega tvær skýringar. Annars vegar virðast vestrænar fataverslanakeðjur ekkert áfjáðar í að upplýsa viðskiptavini sína um ævi og uppruna vörunnar sem þau selja, að minnsta kosti ef marka má tregðu þeirra til að upplýsa um viðskipti sín við þessa tilteknu verksmiðju. Hin skýringin á fáfræði minni – og jafnframt líklega sú mikilvægari – er einfaldlega sú að ég hef ekki spurt. Ég og aðrir velklæddir neytendur á Vesturlöndum kaupa oftar en ekki ódýrustu vöruna án þess að skeyta neitt um uppruna hennar. Þess vegna getum við heldur ekki búist við að fataverslanakeðjurnar vilji óðar og uppvægar selja okkur eitthvað annað. Þegar allt kemur til alls erum það við sem ráðum! Ef við viljum ekki kaupa einhverja vöru, þá er einfaldlega ekki hægt að selja hana. Ekkert fyrirtæki er sterkara en viðskiptavinir þess!

Einstakt dæmi?
Þá er það næsta spurning – um það hvort hugsanlega séu til fleiri svona verksmiðjur sem gætu bara hrunið einn daginn. Ég veit svo sem ekkert um það heldur, því að ég hef ekki spurt. En ef ég reyni að beita rökhugsun í svolitla stund, þá hlýt ég að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið tilviljun að það var einmitt þessi verksmiðja sem hrundi. Auðvitað hljóta að vera til margar svona verksmiðjur. Og málið snýst ekki bara um það hvort þær hrynji eða hrynji ekki. Á síðustu árum hafa margoft heyrst fréttir að slæmum aðbúnaði verkafólks, svo sem af ungum börnum sem eru tekin út af heimilum sínum og látin búa í einhvers konar gámum á verksmiðjulóðum og vinna erfiðisvinnu við bág skilyrði og smánarlaun frá morgni til kvölds, allt til þess að við getum keypt föt eða aðrar vörur á sem lægstu verði.

Hvernig gat þetta gerst?
Þriðja spurningin sem ég varpaði fram í upphafi var sú hvernig þetta gat gerst. Þessari spurningu væri hægt að svara í löngu máli – um lélegar byggingarreglugerðir, ónýtt byggingar- og heilbrigðiseftirlit, glæpsamlega stjórnendur fyrirtækja, spillingu í stjórnsýslu – og ég veit ekki hvað og hvað, eða eins og Megas segir: „Ég veit að við öllum þessum spurningum er til eitt og annað loðið svar“. Á bak við öll þessi loðnu svör er sá óþægilegi sannleikur að við leyfðum þessu að gerast, vegna þess að við spurðum ekki neins. Við sveifluðum bara VISA-kortinu og glöddumst yfir því að stuttermabolurinn, skórnir eða leikfangið skyldi ekki kosta meira en þetta, eins og þjóðfélagið er orðið, allt svo dýrt og maður skuldugur upp fyrir haus.

Getur þetta gerst aftur?
Fjórða spurningin var hvort þetta gæti endurtekið sig. Hér þarf engin loðin svör. Svarið er bara „“. Tölfræðilegar líkur á því að svona stórt hús hrynji á næstu dögum, vikum eða mánuðum með svona skelfilegum afleiðingum í mannslífum talið eru að vísu afskaplega litlar. En að óbreyttu heldur verkafólk í Asíu, eða hvar sem það er statt, áfram að þjást til að við getum fengið ódýran varning.

En fólkið þarf að hafa EINHVERJA vinnu!
Þegar þessi mál eru til umræðu kemur oftar en ekki upp ein spurning til viðbótar, nefnilega spurningin um það hvort það sé samt ekki samt skárra fyrir þetta fólk að hafa alla vega einhverja vinnu þótt launin séu lág, en að vera kannski bara atvinnulaust. Þessari spurningu er svo sem hægt að svara á ýmsa vegu, jafnvel með jái ef maður horfir nógu þröngt á málið og skoðar nógu stutt tímabil í einu. En valkostirnir eru ekki bara þessir tveir, þ.e.a.s. þrælabúðir eða atvinnuleysi. Þetta minnir mig á frétt frá árinu 2004 – um börn sem unnu frá morgni til kvölds í verksmiðju í Pakistan við að framleiða fótbolta fyrir Vesturlandabúa. Stór kaupandi í Svíþjóð ákvað að gera þá kröfu að umræddir fótboltar væru réttlætismerktir eða siðgæðisvottaðir, eða fengju með öðrum orðum það sem kallað er fairtradevottun á erlendum málum. Þetta kallaði á algjöra uppstokkun í virðiskeðjunni. Verð til vestrænna fótboltasparkara hækkaði örlítið, milliliðum fækkaði og verksmiðjan fékk meira í sinn hlut gegn því að bæta kjör og aðbúnað verkafólks og samþykkja að tiltekinn hluti af peningunum færi til samfélagslegra verkefna í heimabyggðinni. Þar með gátu foreldrarnir séð fyrir fjölskyldunum sínum og börnin gátu hætt að vinna í verksmiðjunni og farið í skóla af því að þau þurftu ekki lengur að taka þátt í daglegri tekjuöflun fyrir heimilið.

Niðurstaðan
Hver er þá niðurstaðan? Jú, hún er sú að við ráðum þessu. Og þegar ég tala um okkur á ég við neytendur á Vesturlöndum. Við eigum að spyrja spurninga og gera kröfur. Krafan um fairtradevottun er eitt af tækjunum sem við höfum til þess. Fataverslanakeðjur geta ekki selt eina einustu flík sem neytendur vilja ekki kaupa! Við eigum ekki að sætta okkur við að velferð okkar sé byggð á eymd annarra. Hættum að halda að við getum ekki haft áhrif. Verum minnug þess að mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum!

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 miðvikudaginn 8. maí 2013).