Yfirleitt þykir ekki ráðlegt að hlaupa meira en 1.000 km í sömu hlaupaskónum. Ég tek svona ráðleggingar hins vegar hóflega alvarlega, sérstaklega nú í seinni tíð. Hvort tveggja er að hlaupaskór eru frekar dýrir og eins hitt að það er „eðli mannsins að forvitna“ eins og mig minnir að standi í einhverri bók, jafnvel í því merka riti Speculum regale. Þess vegna geri ég mér það stundum að leik að nota skóna örlítið lengur en ráðlegt þykir. Ég er auk heldur fremur efnislítill og stíg því létt til jarðar.
Fyrir tveimur árum skrifaði ég innblásið blogg um eitt af mínum ágætu skópörum, sem ég hafði þá pínt með mér yfir þúsund mílna mörkin (1.609 km). Nú er ég hins vegar búinn að bæta um betur, því að lífsreyndustu hlaupaskórnir mínir hafa nú lagt 2.310 km að baki (eða undir hæl). Þetta eru skór af gerðinni Asics GT Trainer, sem keyptir voru á netinu 4. dag aprílmánaðar 2010 fyrir 13.067 kr. Síðan þá eru þeir m.a. búnir að þola 3 maraþonhlaup, nokkra Hvanneyrarhringi, nokkra tugi Háfslækjarhringja og margar ferðir um flestar götur Borgarness, svo eitthvað sé nefnt. Nú er komið á þá dálítið stórt gat og botninn orðinn misþunnur. Býst ekki við að þeir verði notaðir meira.
Sem fyrr segir tek ég ráðleggingum um hóflega notkun á skóm með hóflegri alvöru. Samt hvet ég fólk til að gæta hófs í því að fylgja fordæmi mínu á þessu sviði. Ég þekki alveg tilfinninguna þegar maður veit að hlaupaskór eiga ekki lengur samleið með manni. Því er um að gera að vera gætinn, sérstaklega ef maður slítur skónum sínum skakkt. Sjálfsagt getur maður leyft sér meira kæruleysi eftir því sem hlaupaárunum fjölgar. Mín eru orðin mörg.
En svona almennt talað held ég að hlaupaskór séu ofmetin fyrirbæri. Margt bendir til þess að maðurinn hafi lifað af sem tegund árþúsundum saman, einmitt vegna þess að hann gat hlaupið lengur en önnur kvikindi. Að viðbættum örlitlum klókindum dugði það langt í lífsbaráttunni. Þessir forfeður okkar áttu ekki skó en hlupu samt svo klukkutímum og jafnvel dögum skipti á misgóðu undirlagi. Þetta þýðir þó ekki að vér kyrrsetumenn getum hent af okkur blankskónum og hlaupið berfættir út um allar trissur. Við höfum aðlagast því að ganga í skóm og venjum okkur ekkert af því á einum degi þó að innst í 0kkur búi berfættur hlaupari.
Mér finnst við hæfi að ljúka þessu óábyrga skóspjalli með því að segja frá tilraun sem Davíð nokkur Smyntek, hlaupari og sjúkraþjálfari, gerði á sjálfum sér fyrir nokkrum árum, hugsi yfir því að þeir sem segja fólki að skipta oft um hlaupaskó eru yfirleitt þeir sömu og selja fólkinu skóna. Davíð lét sér ekki nægja að gjörslíta skónum, heldur víxlaði hann þeim og hljóp í krummafót þegar ekki var með nokkru móti hægt að druslast lengur með skóna á réttum fótum. Þannig gat hann látið skóna endast í nokkur ár þrátt fyrir mikil hlaup.
Ég ætla ekki að hlaupa í fótspor Davíðs Smyntek með hægri skóinn á vinstri fætinum og öfugt. En ég ætla að halda áfram að taka sem flestu af því sem mér er sagt með fyrirvara, hvort sem það snýst um hlaupaskó eða eitthvað annað. Ekki er allt sem sýnist.
(Nánar er sagt frá skótilraun Davíðs Smyntek („Crazy Foot Experiment“) í bók Christophers McDougall, „Born to Run“, (Profile Books, London, 2009). Mæli eindregið með lestri hennar)!
Filed under: Hlaup | Tagged: born to run, hlaupaskór |
Færðu inn athugasemd