• Heimsóknir

  • 117.209 hits
 • janúar 2014
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Stóra tækifærið á Drekasvæðinu

Dreki„Þetta land á ærinn auð, ef menn kunna‘ að nota‘ hann“, orti Jón Ólafsson fyrir margt löngu. Þessi orð eiga vel við um Drekasvæðið norðaustur af Íslandi. Þar liggur ærinn auður, sem fátt bendir að vísu til að menn kunni að nota.

Ég gæti skrifað langt mál um umhverfisþætti sem tengjast olíuvinnslu á Drekasvæðinu, langt mál um áhættuna fyrir vistkerfi þessa viðkvæma hafsvæðis, langt mál um fáránleika þess að dæla enn meiri olíu úr iðrum jarðar á sama tíma og mönnum er fullljóst að það jarðefnaeldsneyti sem þegar er tiltækt dugar til að breyta loftslagi á jörðinni svo mikið að ekki verður aftur snúið, eða langt mál um tvöfalt siðgæði þjóðar sem þykist vilja vera í fararbroddi í umhverfismálum á 21. öldinni. En það hafa aðrir gert. Og þessi grein fjallar heldur ekki um umhverfismál. Hún fjallar um efnahagsmál. Hún fjallar einfaldlega um það hvernig Íslendingar geti grætt sem mest á Drekasvæðinu og á sem stystum tíma.

„Stóra tækifærið á Drekasvæðinu“ liggur ekki í því að vinna olíu. Það liggur í því að vinna hana ekki. Það eitt að mikil líkindi séu á því að olía finnist á svæðinu er nóg til þess að skapa Íslendingum tækifæri sem er einstætt á heimsvísu. Þetta tækifæri veitist bara þjóð sem á miklar eldsneytisauðlindir í jörðu, en er ekki byrjuð að nýta þær. Og rétti tíminn er núna!

Til að nýta stóra tækifærið á Drekasvæðinu þurfa Íslendingar að lýsa því yfir í samfélagi þjóðanna að þarna sé olía sem Íslendingar ætli aldrei að nýta eða leyfa nýtingu á. Þess í stað hafi stjórnvöld ákveðið að ganga í fararbroddi til móts við nýja og bjartari framtíð án jarðefnaeldsneytis. Í ljósi þessarar ákvörðunar bjóðist Íslendingar til að gegna lykilhlutverki í samstarfi þjóða heims á sviði loftslagsmála.

Í framhaldi af ákvörðuninni um að nýta ekki olíuna á Drekasvæðinu munu opnast ný og óvænt tækifæri í rannsóknum og ferðaþjónustu, tækifæri til að byggja upp aðstöðu fyrir norðurslóðarannsóknir og tækifæri til að fá hingað alþjóðlegar ráðstefnur um loftslagsmál og um verndun hafsins, svo eitthvað sé nefnt. Um leið opnast ný tækifæri í markaðssetningu á íslenskum vörum, íslenskri þjónustu, íslenskri þekkingu og íslenskri menningu, jafnvel þótt hún tengist Drekasvæðinu ekki neitt.
Tekjurnar sem af þessu leiða verða mun fljótari að skila sér en tekjur af hugsanlegri olíuvinnslu síðar meir. Og það þarf varla að reikna lengi til að fá það út að nettótekjurnar af þessum auði verði miklu hærri en af hugsanlegri olíu. Og þetta verður ekki bara skammtímagróði fyrir mína kynslóð, heldur langtímagróði, bæði fyrir mína kynslóð og þær kynslóðir sem á eftir koma, bæði á Íslandi og í öðrum hlutum heimsþorpsins.

Ef við kunnum að nota auðinn á Drekasvæðinu mun kastljós heimsins beinast að þessari huguðu smáþjóð í norðri sem varð fyrst til þess að segja það sem allir vissu og sýna jafnframt í verki að henni væri alvara.

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu og á visir.is 17. desember 2013, en er endurbirt hér og nú í tilefni af því að í dag mun Orkustofnun gefa út þriðja sérleyfið til olíuleitar á Drekasvæðinu. Útgáfa þess leyfis er enn ein staðfesting þess að þeir sem stjórna þessu landi kunni ekki að nýta þann auð sem það á).

Fjallvegahlaupadagskrá 2014

???????????????????????????????Ég geri ráð fyrir að landsmenn allir hafi nú um nokkurt skeið beðið þess í ofvæni að fjallvegahlaupadagskrá ársins 2014 liti dagsins ljós. Nú er biðinni lokið, eða alla vega næstum því.

Sumarið 2014 verður 8. sumarið af 10 í stóra fjallvegahlaupaverkefninu mínu, enda verð ég þá á 58. aldursári. Allt byrjaði þetta á fimmtugsafmælinu mínu og síðan þá hef ég afgreitt u.þ.b. 5 fjallvegi á ári. Þeir ættu því að réttu lagi að vera orðnir 35, en eru bara 34. Í lok næsta sumars verða þeir hins vegar orðnir 40 ef áform ganga eftir. Þar með verður þetta allt á réttu róli og bara 10 stykki eftir fyrir tvö síðustu sumur verkefnisins.

Drög að fjallvegahlaupadagskránni 2014 fara hér á eftir, þó að vísu séu þar enn lausir endar sem verða bundnir áður en mjög langt um líður. Í upptalningunni er reyndar líka að finna einhver önnur hlaupaáform, þótt þau teljist ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu.

1. Leggjabrjótur, laugardag 24. maí (#35)
Ég held að Leggjabrjótur sé ágætis byrjun á vertíðinni, rétt eins og Selvogsgatan í fyrra og Ólafsskarð í hitteðfyrra. Nú ætla ég hins vegar að hlaupa þetta fyrsta hlaup ársins á helgi en ekki á virkum degi eins og tvö síðustu ár. Ég reikna með að leggja af stað frá Botnsskála eða þar í grennd kl. 10:00 og vera kominn að Svartagili í Þingvallasveit í síðasta lagi kl. 13:00. Býst við að þetta séu alveg um 20 km, þó að í bráðabirgðasamantekt á fjallvegahlaup.is sé talað um 17 km. Þetta fer allt eftir því hvaðan er mælt.

2. Þrístrendingur, laugardag 21. júní
Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í fimmta sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasöguna frá liðnu sumri er að finna á vísum stað á bloggsíðunni minni.

3. Hamingjuhlaupið, laugardag 28. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 6. sinn. Það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur, enda ekki keppt við tímann. Sagt er að hamingja þátttakenda margfaldist á leiðinni, hver sem leiðin annars er. Það er nefnilega breytilegt frá ári til árs. Hamingjuleiðin 2014 hefur ekki verið ákveðin, en heyrst hefur að hlaupið verði sunnan úr Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur, sömu leið og bræður mömmu fóru á böllin einhvern tímann eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þessi leið gæti verið svo sem 33 km og auðvelt að skipta henni í áfanga. Þetta verður betur kynnt áður en langt um líður, en frásögn af Hamingjuhlaupinu á liðnu sumri er auðvitað á sínum stað á blogginu.

4. Grárófa eða Skálavíkurheiði, fimmtudag 17. júlí (#36)
Hlaupahátíð á Vestfjörðum fer fram dagana 18.-20. júlí. Þar ætla ég að vera, og þá er náttúrulega upplagt að taka einn léttan fjallveg í sömu ferð. Upphaflega var ætlunin að hlaupa yfir Skálavíkurheiði sem er býsna viðráðanlegur og bílfær fjallvegur milli Bolungarvíkur og Skálavíkur, rétt um 12 km að lengd. En svo frétti ég af Grárófu eða Grárófuheiði milli Bolungarvíkur og Selárdals í Súgandafirði. Sú leið er álíka löng en öllu hrjóstrugri – og nafnið er forvitnilegt. Hún er því efst á listanum sem stendur. Aðrar heiðar á svipuðum slóðum gætu einnig komið til greina, en málið snýst þó bara um eina heiði í þessari ferð. Geri ráð fyrir að taka þátt í Óshlíðarhlaupinu á föstudagskvöldi og tvöfaldri Vesturgötu á sunnudegi. Hygg að þá verði ráðlögðum helgarskammti náð.

5. Hjaltadalsheiði, þriðjudag 5. ágúst (#37)
Vikuna eftir verslunarmannahelgi ætla ég að vera á ferð um miðbik Norðurlands og hlaupa þar þrjá vel valda fjallvegi. Hjaltadalsheiðin er sá eini þeirra sem ég er alveg búinn að ákveða, en hún liggur frá Reykjum í Hjaltadal að Staðarbakka í Hörgárdal. Þetta er vafalítið einn af erfiðari fjallvegunum, enda farið upp í 1.000 m hæð og yfir jökul. Leiðin er 29 km að lengd ef mér skjátlast ekki.

6. Leirdalsheiði, miðvikudag 6. ágúst (#38)
Daginn eftir Hjaltadalsheiðina langar mig að hlaupa annað hvort Leirdalsheiði frá Grýtubakka norður í Fjörður, nánar tiltekið Hvalvatnsfjörð, eða þá Flateyjardalsheiði frá Þverá í Dalsmynni að Brettingsstöðum í Flateyjardal. Býst frekar við að Leirdalsheiðin verði fyrir valinu að þessu sinni. Sú leið kvað vera 28 km að lengd. Ég hef aldrei komið í Fjörður og hlakka til að líta það svæði augum í fyrsta sinn.

7. Reykjaheiði, fimmtudag 7. ágúst (#39)
Á fimmtudeginum vil ég gjarnan taka því rólega og hlaupa einhvern stuttan fjallveg nyrðra. Þar er Reykjaheiði milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur efst á óskalistanum, en til vara kemur til greina að hlaupa um Gönguskarð ytra frá Ytra-Hóli í Fnjóskadal að Hálsi í Kinn. Reykjaheiðin er um 13 km og Gönguskarð ytra um 15. Með þessari uppröðun heiðanna fyrir norðan held ég opnum möguleikanum á að skella mér í Jökulsárhlaupið laugardaginn 9. ágúst. Sjáum til með það.

8. Skálmardalsheiði, laugardag 16. ágúst (#40)
Upphaflega ætlaði ég að hlaupa Skálmardalsheiðina frá Skálmardal í Reykhólahreppi að Gervidal við Ísafjörð síðasta haust, en hætti við það vegna leiðinlegs veðurútlits. Nú skal úr því bætt. Leiðin er um 19 km.

Þetta læt ég nægja í bili og hlakka til að heyra og sjá viðbrögðin. Ég er að sjálfsögðu opinn fyrir öllum góðum tillögum, þ.m.t. tilraunum til að sannfæra mig um að velja fleiri heiðar, eða aðrar og betri heiðar en hér hafa verið taldar upp. Sömuleiðis er fróðleikur um fjallvegi alltaf vel þeginn, bæði þá sem ég er með á lista og alla hina.

Sem fyrr vonast ég til að sjá sem flest ykkar á þessum hlaupum. Samkvæmt lauslegri talningu hafa samtals 42 manns fylgt mér til þessa í a.m.k. einu fjallvegahlaupi. Á þessum ferðalögum hafa skapast kynni sem skipta mig miklu máli og eru á einhvern hátt öðru vísi en flest önnur kynni. Og þau endast vel!

Þessa mynd tók Sævar Skaptason af Pjetri St. Arasyni, mér og Bryndísi Óladóttur norðanvert í Reindalsheiði sl. sumar í einu af eftirminnilegastu fjallvegahlaupunum.

Þessa mynd tók Sævar Skaptason af Pjetri St. Arasyni, mér og Bryndísi Óladóttur norðanvert í Reindalsheiði sl. sumar í einu af eftirminnilegustu fjallvegahlaupunum.