Veðrið hefur áhrif á hamingjuna. Eða hefur hamingjan kannski áhrif á veðrið? Hvernig sem þessu er háttað var hamingjan með allra mesta móti í Hamingjuhlaupinu á síðustu helgi – og veðrið eins og best varð á kosið. Þetta var fimmta formlega Hamingjuhlaup sögunnar og rétt eins og í fyrra lá leiðin frá Árnesi í Trékyllisvík til Hólmavíkur um Naustvíkurskarð og Trékyllisheiði, samtals rúmlega 53 km leið, já eða líklega 53,57 km svo hæfilegrar nákvæmni sé gætt.
Hamingjuhlaupið hefur verið fastur liður í Hamingjudögum á Hólmavík frá því á árinu 2009. Allt á þetta sér sína sögu, en hana rakti ég m.a. í samsvarandi bloggpistli á síðasta ári. Fyrsta árið var hlaupið frá Drangsnesi, næsta ár yfir Þröskulda, þriðja árið frá Gröf í Bitru og í fyrra norðan úr Trékyllisvík. Hlaupin hafa sem sagt átt sér mismunandi upphöf, en endamarkið hefur alltaf verið á Hólmavík. Að þessu sinni var hlaupaleiðin frá síðasta ári endurnotuð, meðal annars vegna þess að þá lánaðist engum að hlaupa alla leiðina. Nú skyldi úr því bætt.
Það er óhætt að segja að laugardagurinn 29. júní 2013 hafi runnið upp bjartur og fagur. Þennan morgun vaknaði ég á Hólmavík eins og marga aðra blíðviðrismorgna. Úti blés hægur vindur, og þó að hitastigið væri ekki komið í tveggja stafa tölu benti allt til þess að þetta yrði góður dagur með þurru veðri og jafnvel sólskini. Sú varð og raunin. Um 10-leytið var allt tilbúið, þar með talið nesti og nýlegir skór, og þá var haldið af stað akandi norður Strandir með Björk undir stýri. Við hjónin vorum þó ekki ein á ferð. Birkir, skíðagöngukappi, stórhlaupari og bóndi í Tröllatungu var með í liðinu, svo og Ingimundur lyftingamaður Ingimundarson yngsti frá Svanshóli. Við Selá innst í Steingrímsfirði bættist Ragnar á Heydalsá í hópinn, en hann er rétt eins og Birkir margreyndur í erfiðum skíðagöngum og fjallahlaupum. Ferðin norður í Trékyllisvík gekk eins og í sögu og segir fátt af henni. Dagurinn lagðist vel í okkur öll. Við Birkir vorum staðráðnir í að hlaupa alla leiðina og Ragnar ætlaði að fylgja okkur úr Trékyllisvík að Selá. Björk og Ingimundur hugðu hins vegar á göngu á Reykjaneshyrnu.
Rétt um hádegisbil vorum við stigin út úr bílnum við handverkshúsið Kört í Trékyllisvík. Þar hittum við fyrir þrjá hlaupara til viðbótar, þ.e.a.s. hjónin Hauk Þórðarson og Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, Skagfirðinga úr Borgarnesi – og Hólmvíkinginn Ingibjörgu Emilsdóttur. Eftir hefðbundna (fyrir)myndatöku var svo lagt af stað í blíðunni á slaginu 12:07, 7 mínútum á eftir áætlun. Framundan voru 53 kílómetrar og 8 klukkutímar af náttúrufegurð og hamingju.

Klukkan 12:07 við handverkshúsið Kört Í Trékyllisvík. Mikil hamingja framundan. F.v.: Ragnar Bragason, Haukur Þórðarson, Birkir Þór Stefánsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Stefán Gíslason. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).
Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur er þar miðað við fyrirfram ákveðna tímaáætlun, sem líkist áætlun strætisvagna að því leyti að í henni eru gefnir upp komu- og brottfarartímar á ákveðnum „stoppistöðvum“. Síðasta stöðin er jafnan á hátíðarsvæðinu á Hólmavík, þar sem óþolinmóðir en afskaplega hamingjusamir hátíðargestir bíða þess að hlaupararnir skeri fyrstu sneiðina af árlegu tertuhlaðborði. Að þessu sinni var nákvæm tímasetning tertuskurðarins svolítið á reiki, en hann átti alla vega að eiga sér stað á tímabilinu 19:50-20:30 um kvöldið.
Við vorum 5 sem lögðum af stað frá Árnesi, þ.e.a.s. ég, Birkir, Ragnar, Ingibjörg og Haukur. Kríurnar í Trékyllisvíkinni fylgdu okkur úr hlaði og virtust frekar mótfallnar þessu ferðalagi. Ein þeirra gekk meira að segja svo langt að rugla hárgreiðslunni hjá mér. Eins gott að myndatakan var búin!
Eftir að hafa fylgt þjóðveginum stuttan spöl beygðum við til hægri, hlupum um hlaðið í Bæ og áfram eins og leið liggur áleiðis upp í Naustvíkurskarð. Tíminn leið fljótt við spjall um alla heima og geima, og jafnvel þótt við gengjum upp allar bröttustu brekkurnar var hæstu hæðinni náð fyrr en varði. Í ljósi reynslunnar frá því í fyrra hafði ég áætlað að fyrsti áfanginn frá Árnesi að Naustvík tæki 50 mínútur, en sú reynsla var reyndar mörkuð af heldur lélegu ástandi mínu í það skiptið. Var nýtognaður og fór yfir Naustvíkurskarð aðallega til að sýnast – og tafði auðvitað fyrir hinum. Núna voru hins vegar allir í toppstandi, og þegar við komum niður á veginn við Naustvík voru ekki liðnar nema rétt rúmar 43 mín. Þarna vorum við sem sagt strax búin að vinna upp mínúturnar 7 sem töpuðust í startinu.
Í Naustvík höfðu hjónin Haukur og Sigga Júlla hlutverkaskipti, en þau höfðu þann háttinn á að meðan annað hljóp ferjaði hitt bílinn á næsta áfangastað. Við vorum því enn 5 talsins á leiðinni frá Naustvík inn í Djúpavík. Sjálfur slóraði ég reyndar svolítið við Naustvík og dróst aftur úr hinum, en með því að bæta aðeins í hraðann gekk vel að vinna forskotið upp. Notaði líka tækifærið til að fækka fötum og koma umframflíkum í geymslu í bílnum hjá Hauki.
Spölurinn frá Naustvík að Djúpavík er rúmir 10 km eftir veginum. Það ferðalag tók okkur u.þ.b. klukkustund og á leiðarenda var klukkan orðin nákvæmlega 13:55, sem var upp á mínútu sá tími sem ég hafði áætlað. Þarna var gert ráð fyrir 10 mínútna hvíld, en hún fékk óáreitt að lengjast í 20 mín, því að ég þóttist vita að tertuskurðurinn hæfist seinna en upphaflega var ráðgert. Okkur lá sem sagt ekkert á. Gerðum góðan stans í fjörunni framan við hótelið, kíktum í nestið og hagræddum fatnaði. Framundan var lengsti og hrjóstrugasti áfanginn, þ.e.a.s. Trékyllisheiðin. Leiðin fer að vísu hvergi í meira en rúmlega 400 m hæð yfir sjó, en engu að síður getur veðurfarið þar uppi verið allt annað og kaldara en við sjóinn. Í þetta sinn bjuggum við líka svo vel að hafa trússbíl, því að Sigga Júlla gat tekið allan þann farangur sem við vildum ekki bera yfir heiðina.

Klukkan. 14:08 í veðurblíðunni í Djúpavík. Allt að verða tilbúið fyrir Trékyllisheiðina. F.v.: Ragnar, Birkir, Sigríður Júlía, Ingibjörg, Kolbrún, Stefán og Haukur. (Ljósm. Arnar Barði Daðason).
Klukkan 14:15 héldum við af stað frá Djúpavík, áleiðis inn dalinn fyrir aftan byggðina. Þar er greið gönguleið inn á Trékyllisheiði. Þennan spöl hafði ég reyndar aldrei farið og hafði því sett GPS-punkta af korti inn í Garminúrið mitt til öryggis. Þessa punkti þurfti ég svo sem ekkert að nota þegar til kom, enda leiðin auðrötuð í bjartviðri eins og því sem var þennan hamingjusama dag. En í stuttu máli má lýsa leiðinni inn á heiðina þannig að hún sveigi fljótlega upp í hjalla utan í fjallinu sunnan við dalinn sem þarna opnast. Þessum hjöllum er fylgt áfram í svipaða stefnu þar til komið er að Kjósará. Þegar yfir hana er komið tekur við greinilegur slóði sem auðvelt er að fylgja áfram inn á heiðina þar sem enn greinilegri slóði tekur við.
Enn vorum við 5 sem lögðum af stað frá Djúpavík. Ingibjörg sleppti reyndar heiðinni, enda var markmið hennar að ná 30 km hlaupum út úr deginum. Heiðinni var ofaukið í þeirri áætlun. Í hennar stað slóst Kolbrún Unnarsdóttir Hólmvíkingur og fjallahlaupari úr Mosfellsbænum í för með okkur. Og nú var Haukur aftur tekinn við í hjónaboðhlaupinu.
Rétt fyrir ofan Djúpavík sat svört þyrla á hóli. Við höfðum séð hana koma á leiðinni inn Reykjarfjörðinn frá Naustvík og töldum líklegt að leit væri hafin að einhverju okkar. Þar kom ég sjálfur hvað sterklegast til greina, því að ég hafði einmitt verið að upplýsa ferðafélagana um björgunarsveitar-„appið“ í nýja símanum mínum. Kannski hafði ég rekið mig í rauða 112-hnappinn á „appinu“ og þannig ræst þyrluna út. En þegar betur var að gáð var þetta greinilega ekki björgunarþyrla heldur miklu fremur vísbending um það sem sum okkar hafði grunað, að árið 2007 væri um það bil að bresta á á nýjan leik. Þá töldust þyrlur nánast til nauðþurfta hjá fólki sem var sæmilega sjálfbjarga.
Leiðin inn hjallana innan við Djúpavík er ekki fljótfarin, en kl. 3 vorum við samt komin að Kjósaránni. Þangað eru rétt um 3,5 km frá Djúpavík og hækkunin eitthvað um 230 m. Þessi spölur hafði tekið okkur um 45 mín., sem telst ágætis yfirferð í landslagi eins og þarna er. Samkvæmt GPS-punktunum mínum virtist ráð fyrir því gert að við færum yfir ána neðst í svolitlu gili sem þarna er, þ.e.a.s. þar sem áin byrjar að dreifa úr sér. Þar hefði þó ekki verið hægt að komast yfir þurrum fótum, því að ár voru vatnsmiklar þennan dag. Því tókum við á það ráð að fara yfir ána á snjóbrú nokkru ofar.
Eftir örstutta áningu á nyrðri árbakkanum héldum við ferð okkar áfram inn á heiðina. Þarna var víða mikil aurbleyta í holtum, enda mikið af landinu nýkomið undan snjó og enn fannir í öllum lautum. Þau okkar sem voru í nýlegum skóm urðu því að sætta sig við að óhreinka þá verulega.

Klukkan 16:03: Kolla ein í snjónum. Aurbleyta í lágmarki þessa stundina. (Munið að myndin er tekin 29. júní).
Þegar inn á heiðina kom blöstu við enn meiri fannir. Ragnar bóndi kom strax auga á Goðdalsána, sem var vatnsmikil þar sem til sást en undir snjó þess á milli. Slóðin suður yfir heiðina, sem við sáum reyndar lítið af vegna fanna, liggur suður með ánni austanverðri og síðan yfir hana á vaði eftir að hún beygir til austurs áleiðis niður í Bjarnarfjörð. Ragnar hvatti til að við færum ofar til að nýta snjóbrýrnar sem þar var nóg af. Við fylgdum ráðum hans að nokkru leyti, fundum trausta snjóbrú um það bil 800 metrum ofan við vaðið og skelltum okkur þar yfir. Brúin hélt og enginn hvarf niður í sprungur. Ég var reyndar búinn að kvíða Goðdalsánni svolítið. Hún getur verið býsna vatnsmikil á dögum eins og þessum þegar hlýtt er og mikil snjóbráð á heiðinni. Þetta er langstærsta vatnsfallið á þessari leið. Reyndar þarf líka að fara yfir Sunndalsá. Þar var engin snjóbrú, svo við stukkum bara yfir hana.

Klukkan 16:37: Haukur í lausu lofti yfir Sunndalsá. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.
Sunnar á heiðinni lá tófa sofandi í vegkantinum. Það er til marks um það hversu lítið er um mannaferðir á þessum slóðum að ekki rumskaði lágfóta þótt Birkir hlypi fram hjá henni í seilingarfjarlægð. Birkir er reyndar ákaflega léttstígur að jafnaði. Sama gilti ekki þegar við Ragnar nálguðumst í hrókasamræðum. Þá vaknaði tófan við vondan draum, líklega um nefndan Ragnar sem vinnur sem grenjaskytta í hjáverkum. Hún yfirgaf svæðið í snatri.
Segir nú fátt af okkur fimmmenningunum, nema hvað heldur fækkuðum við fötum eftir því sem á leið heiðina og eftir því sem sólin skein skærar. Fyrir ofan brúnir Selárdals hittum við fyrir þær frænkur frá Þorpum á Gálmaströnd, Jónínu og Höddu. Þar með vorum við orðin að 7 manna hópi sem skilaði sér niður á láglendið í botni Steingrímsfjarðar stundvíslega kl. 17:54, einni mínútu fyrr en strætisvagnaáætlunin góða gerði ráð fyrir. Við vorum sem sagt óvart búin að vinna upp tímann sem við höfðum viljandi tapað í Djúpavík, þrátt fyrir að hafa heldur haldið aftur af okkur á heiðinni.
Við gömlu brúna yfir Selá beið okkar nokkur fjöldi fólks. Þar voru um 38,5 km búnir og rétt um 15 eftir. Sú vegalengd er mun alþýðlegri en leiðin öll, auk þess sem heiðar voru að baki og ekkert nema bílvegir eftir.
Eftir nákvæmlega 13 mínútna spjall og nestishlé við Selá var lagt upp í fjórða áfangann, rétt um 4 km leið að brúnni yfir Staðará. Þarna vorum við Birkir orðnir einir eftir af upphaflega hópnum, enda engir aðrir með nein áform um að hlaupa alla leiðina. Ragnar var kominn í frí, en Ingibjörg búin að reima á sig hlaupaskóna á nýjan leik. Á þessum kafla undi ég mér helst við spjall við frænda minn Guðmund Magna, sem slóst í hópinn við Selá ásamt Lilju eiginkonu sinni. Guðmundur Magni er enginn byrjandi í hlaupum, enda félagi nr. 13 í Félagi 100 km hlaupara á Íslandi. Menn geta auðveldlega getið sér til um inntökuskilyrðin í þeim félagsskap.

Klukkan 18:30 við Grænanes. Þorsteinn Newton og Jóhanna Guðbrandsóttir eru fremst á myndinni en þar fyrir aftan Ingibjörg Emilsdóttir og Sigríður Drífa Þórhallsdóttir.
Við Staðará bættist enn fleira fólk við. Þarna var klukkan orðin 18:36, 11 km eftir til Hólmavíkur og nógur tími til stefnu þrátt fyrir að frávikið frá upphaflegri áætlun væri komið í 9 mínútur. Hópurinn var tekinn að dreifast töluvert og ég tók ákvörðun um að fylgja fyrstu mönnum til að geta betur haft stjórn á ástandinu.

Klukkan 18:36 á brúnni yfir Staðará. Hér má m.a. sjá Hrafnhildi Þorsteinsdóttur, Rósmund Númason, Jóhönnu Rósmundsdóttur og Maríu Mjöll Guðmundsdóttur. Stakkanes í baksýn. Og enn er himinninn blár.
Á Fellabökum var gerður stuttur stans og lagt á ráðin um hvernig best væri að ljúka verkefninu. Klukkan var 19:12 sem þýddi að við vorum ekki nema 5 mínútum á eftir áætlun. Flest benti til að við þyrftum að seinka áætlaðri innkomu um allt að því hálftíma. Ég brá því á það ráð að drífa mig síðasta spölinn og stilla mér upp á grasflötinni vestan við Lögreglustöðina út við Hólmavíkurvegamótin, en þar skein sólin glatt og gott skjól var fyrir vindi. Þar skyldi öllum þátttakendum safnað saman og beðið eftir merki um að okkur væri óhætt að fjölmenna inn á hátíðarsvæðið. Ég var mættur þarna kl. 19:42 og á næstu 10 mínútum skiluðu allir hinir hlaupararnir sér á svæðið. Þarna var Jóhann tengdafaðir minn líka mættur með myndavélina eins og jafnan við lok Hamingjuhlaups.

Klukkan 20:00: Hamingjusamir hlauparar í kvöldsólinni við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði. Ef vel er talið má sjá þarna 29 andlit. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).
Um það bil 10 mínútum eftir kl. 8 kom símtalið sem beðið var eftir. Þá lagði öll hersingin, líklega um 30 manns, af stað áleiðis niður á hátíðarsvæðið, sem að þessu sinni var ekki niður við höfnina heldur við gafl félagsheimilisins. Hlaupið þangað frá lögreglustöðinni tók ekki nema 3 mínútur. Að vanda höfðu gestir Hamingjudaganna myndað göng sem við hlupum í gegnum síðasta spölinn. Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari hafði orð á því eftir Hamingjuhlaupið 2011 að hann hefði hvergi fengið þvílíkar viðtökur að hlaupi loknu. Það segir sitt, þar sem Gunnlaugur hefur farið víða á hlaupum sínum.
Eftir stutta móttökuathöfn gafst hlaupurunum ráðrúm til að skola af sér mesta svitann og leirinn í sundlauginni á Hólmavík, og að því loknu var komið að tertuhlaðborðinu. Þar fékk ég að vanda að skera fyrstu sneiðina, sem eru vafalítið einhver mestu forréttindi sem mér hafa hlotnast á lífsleiðinni. Þar með var Hamingjuhlaupinu formlega lokið. Og það eru hreint engar ýkjur að segja að þátttakendur hafi undantekningarlaust verið einstaklega hamingjusamir þessa kvöldstund. Öll höfðum við fundið gleðina sem fylgir því að hlaupa úti í náttúrunni í svona góðum félagsskap í svona góðu veðri. Þennan dag höfðu líka ýmis markmið náðst og margir sigrar verið unnir. Okkur Birki hafði til dæmis tekist ætlunarverkið að hlaupa alla leið frá Trékyllisvík til Hólmavíkur, Ingibjörg og Haukur höfðu bæði lokið sinni fyrstu 30 kílómetra dagleið, sumir voru að hlaupa 15 km í fyrsta sinn, aðrir 11 km – og svo mætti lengi telja. Dönsk kona sem var einn af gestum Hamingjudaganna kom til mín þarna við félagsheimilið og óskaði mér til hamingju með sigurinn. Ég þakkaði auðvitað fyrir og gerði enga tilraun til að útskýra að þetta hefði ekki verið keppni. Ég var vissulega sigurvegari. Við vorum það öll.
Filed under: Hlaup | Tagged: Djúpavík, Hamingjudagar, Hamingjuhlaup, Hólmavík, Naustvíkurskarð, Trékyllisheiði, Trékyllisvík |
[…] Hlaupið sér til hamingju […]
[…] tíma og mikið lagt upp úr því að koma hvorki of seint né of snemma á leiðarenda. Hlaupið var nú þreytt 5. árið í röð og fór fram laugardaginn 29. júní. Lagt var upp frá Árnesi í Trékyllisvík um hádegisbil og komið til Hólmavíkur um 8-leytið […]
[…] 3. Hamingjuhlaupið, laugardag 28. júní Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 6. sinn. Það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur, enda ekki keppt við tímann. Sagt er að hamingja þátttakenda margfaldist á leiðinni, hver sem leiðin annars er. Það er nefnilega breytilegt frá ári til árs. Hamingjuleiðin 2014 hefur ekki verið ákveðin, en heyrst hefur að hlaupið verði sunnan úr Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur, sömu leið og bræður mömmu fóru á böllin einhvern tímann eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þessi leið gæti verið svo sem 33 km og auðvelt að skipta henni í áfanga. Þetta verður betur kynnt áður en langt um líður, en frásögn af Hamingjuhlaupinu á liðnu sumri er auðvitað á sínum stað á blogginu. […]
[…] 2013. Afskaplega hamingjusamir hlauparar í fjörunni í […]