Í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár frá því að ég vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn minn, já og reyndar þann eina það sem af er. Þetta var í drengjaflokki í Víðavangshlaupi Íslands sem fram fór í Vatnsmýrinni í Reykjavík 24. mars 1974. Ég var þá á fyrsta árinu mínu í menntaskóla fyrir sunnan og hafði mætt reglulega á frjálsíþróttaæfingar hjá ÍR frá því í byrjun nóvember. Var sem sagt óskrifað blað úr sveitinni.
Mér hafði aldrei dottið í hug að ég gæti unnið þetta hlaup, enda voru þarna aðrir og miklu betri hlauparar meðal þátttakenda. Langfremstur þeirra var Sigurður P. Sigmundsson, jafnaldri minn, sem þá þegar var nánast ósigrandi í sínum aldursflokki. Seinna setti hann Íslandsmet í maraþonhlaupi sem stóð í 26 ár, þ.e.a.s. alveg þangað til Kári Steinn kom til sögunnar. En það er nú önnur saga. Alla vega vissi ég að ég ætti enga möguleika á að vinna Sigga P.
Þennan vetur æfði ég oft með Gunnari Páli Jóakimssyni, sem var þá orðinn einn af bestu millivegalengdahlaupurum landsins, en er núna best þekktur sem hlaupaþjálfari. Ég held reyndar að hann hafi fæðst inn í það hlutverk! Hann tók sér það af einhverjum ástæðum fyrir hendur að telja mér trú um að ég gæti sko víst unnið þetta hlaup. Það eina sem ég þyrfti að gera væri að hanga í Sigga P. hér um bil alla leiðina og taka svo snöggt fram úr honum í blálokin. Þetta fannst mér fráleit hugmynd, en eftir að hafa heyrt hana nógu oft sá ég að það gerði náttúrulega ekkert til að prófa þetta. Ég var líka í þeirri ákjósanlegu stöðu að vera hinn óþekkti áskorandi. Þess vegna myndi enginn taka eftir því þótt áætlunin mistækist.
Svo byrjaði hlaupið. Það var ekki langt, ekki frekar en önnur víðavangshlaup á þessum tíma, þ.e.a.s. ekki nema 2.660 metrar. Framan af hlaupi vorum við nokkrir saman í hnapp, en smám saman þróaðist það þannig að við Siggi P. vorum einir í forystunni – og hann alltaf rétt á undan. Ég man að mér fannst þetta ógeðslega erfitt, því að hraðinn var eiginlega allt of mikill. Mér tókst þó að hanga nógu lengi til að fara að ráðum Gunnars Páls og taka snöggt framúr þegar einhverjir 150 metrar voru eftir í mark. Og viti menn, þetta virkaði.
Nokkrum vikum seinna, nánar tiltekið 14. maí, birtist frétt um þetta hlaup í Mogganum. (Líklega gefur dagsetning fréttarinnar vísbendingu um hversu gríðarlega stór viðburður þetta var)! Í fréttinni stendur m.a.: „Keppni í drengjaflokki var hin skemmtilegasta og var ekki séð fyrr en á síðustu metrunum hver yrði sigurvegari. Nýtt nafn í hlaupum, Stefán Gíslason úr Héraðssambandi Strandamanna, hreppti sigurinn, en þarna er á ferðinni bráðefnilegur piltur, sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni, haldi hann áfram æfingum og keppni“. Mogginn varð reyndar af þeirri skemmtun, því að lítið varð vart við piltinn á hlaupabrautinni næstu árin.
Þetta hlaup fyrir 40 árum er mér ekki bara minnisstætt vegna sigursins, heldur líka vegna þess að þann sama dag átti Guðmundur heitinn Þórarinsson 50 ára afmæli. Guðmundur var þjálfarinn minn þennnan vetur og sinnti mér afskaplega vel, þrátt fyrir að ég væri aðskotadýr úr allt öðru félagi.
Minningin um Víðavangshlaup Íslands 1974 skiptir mig talsverðu máli, ekki þó aðallega vegna þess að ég krækti mér í þennan eina Íslandsmeistarapening, heldur öllu frekar vegna þess að þarna lærði ég hversu miklu máli það skiptir að setja sér markmið og hvika ekki frá þeim. Og svo skiptir það mig líka afar miklu máli að þennan vetur eignaðist ég áhugamál sem ég get enn stundað mér til ómældrar gleði 40 árum seinna, jafnvel þótt æfingar og keppni hafi verið slitrótt nokkra áratugi í millitíðinni. Og nú bíð ég rólegur eftir Íslandsmeistaratitli númer tvö. 🙂
Filed under: Ævisagan, Hlaup | Leave a comment »