• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2023
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

50 ára keppnisafmæli

Í dag á ég 50 ára keppnisafmæli sem hlaupari, því að í dag er liðin hálf öld frá fyrstu hlaupakeppninni minni. Frumraunin var þreytt á héraðsmóti HSS í Sævangi við Steingrímsfjörð laugardaginn 19. ágúst 1972. Í minningunni snerist þátttaka mín í mótinu nánast eingöngu um keppni í 800 m hlaupi, en reyndar var ég búinn að taka þátt í 100 m hlaupi, langstökki og þrístökki áður en röðin kom að 800 metrunum.

Það var svo sem ekkert nýtt fyrir mér að hlaupa 800 metra, því að það hafði ég oft gert heima í sveitinni. Einhvern tímann höfðum við bræðurnir smíðað forláta mælistiku úr þremur prikum og notað hana til að stika út hæfilegar hlaupavegalengdir á gamla bílveginum sem liggur milli túnanna heima. Þar náði 800 m brautin frá Grafargili og út að Folaldslaut. Hallinn á brautinni var hagstæður ef hlaupið var í þessa átt, en Fúsaræsisbrekkan vann það sjálfsagt upp að mestu. Hún var brött og hallaðist í öfuga átt. Þessa 800 m braut hafði ég hlaupið á 2:37,5 mín fyrr um sumarið, nánar tiltekið 3. júlí. Eftir á að hyggja hef ég reyndar vissar efasemdir um þessa hálfu sekúndu, því að í stað skeiðklukku notaðist ég við Pierpont fermingarúrið mitt, sem vissulega var með sekúnduvísi, en engu umfram það.

Hlaupabrautin á Sævangi var eins og títt var til sveita, málaður hringur á sæmilega sléttu túni sem var slegið einum eða tveimur dögum fyrir mót. Endarnir á vellinum voru eitthvað leiðinlegir, þannig að brautin var bara um 350 m að lengd en ekki 400 m. Það skipti svo sem engu máli í 800 metrunum. Maður hljóp þá bara aðeins meira en tvo hringi. Annað einkenni var kríuvarpið við norðurhorn vallarins. Kríunum var lítið gefið um knattspyrnuleiki og langhlaup og reyndu eftir megni að afstýra slíkum uppákomum. Líklega hefur nærvera þeirra hvatt hlaupara til dáða ef eitthvað var. Það sama gilti ekki um kalblettina sem höfðu lækkað lélegustu hluta brautarinnar um óþægilega marga sentimetra í tímanna rás. Það kom þó meira að sök í hraðari hlaupum, t.d. í 100 metrunum, enda sérstaklega slæmur kalblettur nálægt miðri beinu brautinni.

Þar sem þetta var fyrsta frjálsíþróttamótið sem ég tók þátt í – og lítið um íþróttafataverslanir á Ströndum, bjó ég heldur illa að hlaupafötum og skótaui sem hæfðu viðfangsefninu. En ég var þó búinn að vera á Reykjaskóla einn vetur og hafði þar eignast forláta körfuboltabúning. Buxurnar voru ekki eins síðar og nú tíðkast í NBA, en þeim mun víðari. Þegar ég var kominn í þær minntu þær fljótt á litið meira á stutt pils en stuttbuxur, jafnvel þótt ég væri þá þegar orðinn álíka stór og sver og ég er núna. Mér fundust þær því ekki viðeigandi keppnisbúningur. Hins vegar var bolurinn fínn, gulur hlírabolur með rauðri bryddingu á köntum, stöfunum RSK framan á og tölunni 10 aftaná. Sniðið á bolnum var auk heldur svo nútímalegt að það líktist í einu og öllu því sem enn tíðkast, enda e.t.v. ekki mikið svigrúm til tilrauna við hönnun á hlírabolum. En buxnavandamálið þurfti að leysa með einhverjum hætti. Ég mætti því til leiks í ágætum tweedbuxum sem mamma hefur sjálfsagt verið nýbúinn að kaupa á mig sem betribuxur. Skótauinu er ég búinn að gleyma, en ég hafði hvorki heyrt um ASICS né HOKA þegar þetta var og gaddaskó eignaðist ég ekki fyrr en ári síðar. Hins vegar átti ég örugglega ágæta strigaskó, því að svoleiðis skóbúnaður var ómissandi í sveitinni þegar unnið var í þurrheyi í góðu veðri eða hlaupið sér til skemmtunar á eftir heyvagninum.

Ég man svo sem ekki smáatriðin í hlaupinu sjálfu, nema hvað ég held að við höfum verið þrír sem lögðum af stað. Ég tók strax forystuna og sá aldrei til mannaferða eftir það. Eitthvað heyrði ég pískrað í áhorfendaskaranum um að þetta væri allt of hratt og að ég myndi springa. En mér var alveg sama um það. Hlaupinu lauk ég á 2:37,4 mín, sem mér fannst svo sem ekkert merkilegt, og hinir hlaupararnir voru um 100 metrum á eftir mér ef mig misminnir ekki.

Þetta var góður dagur í Sævangi og auðvitað var ég stoltur af verðlaunaskjölunum fjórum sem ég kom með heim um kvöldið. Skjalið fyrir 800 metrana skipti mig eðlilega langmestu máli. Það var hvítt á litinn eins og vera bar með skjöl sigurvegara. Hin voru bara blá, því að þar var ég í öðru sæti. En hvernig sem svona skjöl eru á litinn, þá eru þau töluvert persónulegri en allir þátttökupeningarnir sem hrúgast hafa upp á áratugunum sem liðnir eru síðan.

Ég velti því örugglega ekkert fyrir mér í ágúst 1972 hvort ég yrði enn að keppa í hlaupum 50 árum síðar. Líklega hefði mér þótt það fremur fjarstæðukennt ef einhver hefði spurt. Á þessum árum tíðkaðist heldur ekki að „gamalt fólk“ væri að spreyta sig í almenningshlaupum. Sjálfur var ég þó vanur því í sveitinni að fólk hlypi eins og fætur toguðu á meðan heilsan leyfði. Alla vega hélt pabbi heitinn áfram að hlaupa framundir andlátið, enda er sá ferðamáti fljótlegri en ganga. En hvað sem öðru líður er ég afskaplega þakklátur, bæði fyrir þessar gömlu minningar, fyrir að hafa lifað allar þær breytingar sem hafa átt sér stað síðan og fyrir að geta enn sinnt þessu áhugamáli mínu og haft gaman af!

Og verðlaunaskjalið fyrir 800 metrana geymi ég að sjálfsögðu!

Eftirmáli 1: Þessi pistill byggir í öllum aðalatriðum á sambærilegum pistli sem birtist á þessari sömu bloggsíðu 19. ágúst 2012.

Eftirmáli 2: Myndin efst í þessari færslu var tekin í nýjasta keppnishlaupinu mínu 13. ágúst sl. (Klippt út úr stærri mynd. Ljósmyndari: Jón H. Halldórsson á Hólmavík).

Eftirmáli 3: Ekki verður efnt til neinna hátíðarhalda í tilefni af 50 ára afmælinu.

Í minningu pabba

Pabbi á göngudegi fjölskyldunnar í Bitrunni, líklega sumarið 1984.
(Ljósm. Sigrún Magnúsdóttir).

Í fyrradag voru liðin 20 ár frá því að pabbi kvaddi þennan heim. Þess vegna finnst mér ekki úr vegi að rifja upp hver hann var, þó að ég sjái auðvitað bara mína takmörkuðu hlið á því máli. Ég þekkti pabba t.d. bara tæpan helming af þeim tíma sem hann var á lífi, þ.e.a.s. frá því að hann var um fimmtugt og þangað til dagsverki hans lauk upp úr níræðu.

Pabbi, eða Gísli Þórður Gíslason eins og hann hét fullu nafni, fæddist á Brunngili í Bitru 11. september 1908. Hann var yngstur af sex alsystkinum sem komust á legg og eini strákurinn í þeim hópi. Pabbi átti sem sagt fimm alsystur, auk hálfsystur sem ólst upp annars staðar og uppeldisbróður sem afi og amma á Brunngili tóku að sér þegar pabbi var 5 ára eða þar um bil.

Setið yfir ánum
Bærinn á Brunngili stendur í Brunngilsdal. Þar er votlent, tiltölulega lítið undirlendi og brattar hlíðar á báða vegu. Ég held að lífsbaráttan þar hafi verið frekar hörð, án þess þó að heimilisfólkið byggi við sára fátækt. Um átta ára aldur var pabbi farinn að sitja einn yfir ánum einhvers staðar lengst frammi á dal og ég held að hann hafi eiginlega unnið fulla vinnu eftir það, þ.e.a.s. næstu 80 árin. Sjálfsagt átti hefðbundin verkaskipting kynjanna þátt í að hann þurfti að standa sig í útivinnu svona ungur – og ég held að einveran á dalnum hafi mótað hann, bæði andlega og líkamlega. Þrennt hef ég til marks um það. Hann var í fyrsta lagi einstaklega brattgengur, fimur í klettum og skriðum og laus við lofthræðslu, já og reyndar flesta aðra hræðslu líka. Í öðru lagi var hann mjög harður af sér, kvartaði helst aldrei og var yfirmáta vinnusamur. Og í þriðja lagi var hann óvenjuléttur á fæti og hljóp reyndar oftast við fót frekar en að ganga rólega skref fyrir skref. Hlaupastíllinn bar þess líka merki af hlaupaskórnir hans mörg fyrstu árin voru sauðskinnsskór sem veittu litla vörn á hörðu undirlagi.

Sautján ára í fyrstu stígvélunum sínum fyrir framan gamla bæinn á Brunngili.

Skófatnaður og hlaupastíll
Svo ég skýri þetta með hlaupastílinn aðeins nánar, þá tók pabbi stutt og hröð skref, hljóp með lítið eitt bogin hné og lenti framarlega á fætinum, líklega ekki ósvipað þeim sem alast upp við að hlaupa berfættir. Þetta hélst alla tíð, þó að skófatnaðurinn breyttist. Reyndar er erfitt fyrir nútímamanninn að ímynda sér hvernig það er að vera allan daginn á göngu eða hlaupum í sauðskinnsskóm og alltaf votur í fætur í þokkabót. Ég held að pabbi hefði líka tekið undir það sem einhver sagði að mesta tækniframförin á 20. öldinni hafi verið gúmmístígvélin. Til er mynd af pabba í fyrstu gúmmístígvélunum sínum, líklega tekin árið 1925 þegar pabbi var 17 ára. Jakkafötin sem hann er í á myndinni segja sína sögu um mikilvægi þessa augnabliks.

90 ára gamall hefilbekkur
Um það leyti sem stígvélamyndin var tekin hleypti pabbi heimdraganum og fór að læra trésmíði hjá Guðjóni snikkara á Hólmavík. Þar var hann árin 1926-1930. Það ár tók hann sveinsprófið eftir því sem ég best veit. Sveinsstykkið var hefilbekkur sem hann notaði síðan alla tíð og er enn vel nothæfur 90 árum síðar.

Ég veit frekar lítið um viðfangsefni pabba á árunum 1930-1940. Veit þó að hann var eitthvað á sjó og eitthvað við bústörf, en aðallega vann hann þó við smíðar. Hann smíðaði m.a. íbúðarhúsið í Gröf í Bitru, líklega árið 1933. Hann og mamma keyptu þá jörð einmitt 25 árum síðar og í því húsi fæddist ég og ólst upp. Af öðrum smiðsverkum má nefna kirkjuna á Óspakseyri, sem var vígð sumarið 1940.

Ferðalög um atvinnusvæðið
Smíðavinnunni hans pabba fylgdu mikil ferðalög, bæði á fyrsta áratugnum eftir sveinsprófið og síðar. Atvinnusvæðið var þó ekki stærra en svo að vel mætti fara um það fótgangandi, eða hlaupandi, því að þannig fór pabbi oftast á milli staða. Að vísu var sjálfsagt stundum farið á báti, en vegasamgöngur voru stopular framan af starfsævinni og bílar fátíðir. Pabbi var enginn hestamaður – og tók reyndar heldur ekki bílpróf fyrr en í námunda við sextugsafmælið 1968. Þá var reyndar dráttarvélin búin að koma í góðar þarfir sem samgöngutæki í nokkur ár.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.

Stærð þess svæðis sem hægt er fara um fótgangandi eða hlaupandi ræðst auðvitað af því hver á í hlut. Þannig held ég að vinnusvæði pabba hafi náð um allar Strandir, vestur á Ísafjörð og suður í Breiðafjörð. Verkfærin bar hann á bakinu í þar til gerðu kofforti og mér skilst að hann hafi frekar farið stystu leiðirnar en þær greiðfærustu. Þá þurfti hann kannski að henda koffortinu yfir gil og sprungur og stökkva svo sjálfur á eftir. Sú saga var alla vega sögð. Þessar ferðir hófust gjarnan svo snemma að morgni að hann náði fólki á áfangastað í rúmi þótt leiðin í vinnuna mældist jafnvel í tugum kílómetra.

Lokuð inni í hlöðu
Pabbi og mamma kynntust á Óspakseyri, líklega sumarið 1939 þegar mamma var búin með kennaranámið og var ráðskona hjá Ástu systur sinni og Þorkeli mági sínum. Ég tel mig hafa traustar heimildir fyrir því að Þorkell hafi lokað þau inni í hlöðu þangað til þau voru orðin par. Alla vega entist þetta samband þar til dauðinn aðskildi þau um aldamótin.

Pabbi og mamma giftu sig vorið 1944 og byrjuðu búskap hjá Sigríði systur pabba og Magnúsi eiginmanni hennar í Hvítarhlíð. Árið 1956 keyptu þau svo næstu jörð, Gröf, og bjuggu þar alla tíð síðan á meðan pabbi lifði. Þessa síðustu áratugi var búskapurinn aðalstarf pabba, en smíðarnar urðu aukavinna sem hann sinnti eftir föngum fram á níræðisaldurinn.

Steinsteypa og rekaviður
Í Gröf var lítil ræktun og útihús að niðurlotum komin. Þetta byggði pabbi allt saman upp smátt og smátt með lítilli aðstoð annarra en okkar hinna í fjölskyldunni. Fyrst var steypt upp hlaða árið 1958, svo komu ný fjárhús 1959 og eftir það voru nánast alltaf einhverjar byggingarframkvæmdir í gangi hvert einasta sumar. Mamma sagði mér einhvern tímann að pabbi hefði oft látið nægja að sofa þrjá tíma eða svo á hverri nóttu þegar mest var um að vera. Eitthvað reyndum við krakkarnir að hjálpa til, nágrannarnir komu og hjálpuðu til í steypuvinnu og svo vann pabbi fyrir þá í staðinn. Og á veturna var heldur ekki slegið slöku við. Þá stóð pabbi oft tímunum saman eftir seinni gjöfina í fjárhúsunum og sagaði rekavið með stórri handsög. Gröf á ekki land að sjó, en rekaviðinn fékk hann að launum fyrir vinnu á rekabæjum. Og raftarnir sem hann sagaði breyttust í sperrur, bökin í þakklæðningar og þar fram eftir götunum. Fyrri búskaparárin voru allir burðarviðir í útihúsin fengnir á þennan hátt. Trjábolir sem ekki voru sagaðir voru notaðir í stoðir og dregara og aðrir ýmist rifnir eða sagaðir í girðingarstaura. Bestur var rauðaviðurinn, sem ég held að hafi verið Oregon-fura. Hann var m.a. notaður í húsgögn.

Í stuttu máli var pabbi alltaf að vinna, en fyrir honum var vinnan ekki vinna, heldur bara lífið sjálft. Ég veit ekki hvort Magnús Gunnlaugsson á Ytri-Ósi var með pabba í huga í þessum ljóðlínum:

„Þreyttur að kvöldi þráir hann næsta dag
og þá á að vinna framundir sólarlag“.

Reyndar leit pabbi ekki á sólarlagið sem endahnútinn á vinnudeginum. En það var náttúrulega erfitt að vinna í miklu myrkri.

Einstaklingshyggja eða félagshyggja?
Pabbi var einstaklingshyggjumaður fyrir sjálfan sig en félagshyggjumaður fyrir aðra. Með þessu á ég við að hann vildi alltaf vera sjálfum sér nægur um allt og var lítið fyrir að biðja aðra um aðstoð. Hins vegar var hann alltaf boðinn og búinn að hjálpa öðrum og fannst skortur á hjálpsemi mikill ljóður á ráði fólks. Reyndar setti hann sjaldan út á aðra. Stundum fékk hann lítið eða ekkert borgað fyrir vinnuna sína og ég veit að honum fannst það hallærislegt. Menn áttu að vera borgunarmenn og láta ekki eiga hjá sér. En hann setti ekkert út á þetta, heldur hló hann bara. Kannski lækkuðu menn í áliti, en voru örugglega aldrei látnir líða fyrir það.

Áttræður í friðarhlaupi Cri Sinmoy 16. júní 1989. (Ljósm. Ólafía Jónsdóttir).

Rollur eru ekki langhlauparar
Pabbi var tæplega fimmtugur þegar ég fæddist og ég man eiginlega ekki eftir honum nema sem dálítið gömlum manni. Hann var samt alltaf hlaupandi, hvort sem það var á jafnsléttu, í bröttum giljum eða á langböndum á þaki hárra bygginga. Hann þurfti heldur ekki hesta eða hunda í smalamennskum, fundust svoleiðis dýr óþörf og líklega heldur til trafala. Karlarnir í sveitinni höfðu eftir honum að það væri ekkert mál að hlaupa uppi rollur, þær gæfust alltaf upp eftir tvo þrjá tíma. Þetta þótti sérstakt, en mér skilst að hinir bændurnir hafi ekki reynt að ganga úr skugga um hvort þetta væri rétt.

Það er líka hægt að vinna of mikið
Um sextugt var pabbi orðinn frekar slitinn af vinnu. Um það leyti hætti hann líka að hafa við yngsta barninu sínu á hlaupum. Það fannst honum verra, en svo vandist það. Einhvern tímann um þetta leyti, líklega á útmánuðum 1969, barst skæður inflúensufaraldur í sveitina, svonefnd Hong Kong inflúensa. Hún lagðist þungt á pabba, enda litlir möguleikar á að liggja í rólegheitum og láta sér batna. Reyndar veiktist fólkið á bæjunum í kring á undan okkur og þá fór pabbi á milli bæja að gefa fénu þar. En svo lögðumst við auðvitað líka. Í minningunni finnst mér að þarna hafi orðið einhver þáttaskil. Þetta voru líka erfið ár í búskapnum, hafísvor og lélegur heyskapur sumar eftir sumar.

Sumarið 1971 veiktist pabbi aftur, var um tíma á sjúkrahúsi og kom heim sem gamall maður, eða það fannst mér alla vega þá. Svo kom lungnabólga í kjölfarið á þessu um haustið. Pabbi náði sér svo sem alveg eftir þetta allt saman og lifði 30 ár í viðbót. En ég held að þrekið hafi aldrei náð fyrri hæðum.

Heyskapur á Miðtúninu í júlí 1994, tæplega 86 ára.

Maður á að fara vel með dótið sitt
Pabbi var einstaklega nýtinn maður, eins og títt var með hans kynslóð. Þá var fólk ekki búið að læra að sóa. Um það leyti sem hann tók sveinsprófið keypti hann öll verkfæri sem smiðir þess tíma þurftu að eiga – og nánast öll þessi verkfæri entust þau 70 ár sem hann átti eftir ólifuð. Í þessum verkfærakassa voru auðvitað engin rafmagnsverkfæri, en þau fóru smátt og smátt að bætast í safnið eftir 1970. Ég man vel eftir mörgum þessara verkfæra. Hann átti t.d. þrjá hamra alla tíð, þar af einn sterklegan klaufhamar sem stundum þurfti að skipta um skaft á, annan svolítið minni – og svo vélahamarinn sem var ekki með klauf og hentaði vel til að berja á járni. Og svo átti hann líka þrjá vasahnífa, sem hver hafði sitt nafn. Þetta voru þeir Kátur, Jólfur og Miðlungur.

Nýtninni fylgdi nytjahyggja og viss andúð á óþarfa. Pabba fannst gaman að hitta fólk og spjalla, en honum fannst samt óþarfi að fara af bæ í erindisleysu. Sjálfsagt gilti það um fleiri af þeim sem fæddust í byrjun 20. aldar. Þessi áhersla endurspeglaðist m.a. í því að ég hitti aldrei eina af fimm systrum pabba, þó að hún næði frekar háum aldri eins og þau systkinin öll, og byggi lengst af inni í Miðfirði. Þangað er varla meira en 90 mín. akstur frá Gröf. Elstu systurina hitti ég fyrst í 100 ára afmælinu hennar. Hún bjó í álíka fjarlægð.

Fjölnota krossviðarspjöld
Pabbi var ekki langskólagenginn á nútímamælikvarða, en hann fylgdist mjög vel með, las mikið og kenndi okkur krökkunum margt um gang himintunglanna og annað það sem helst hafði áhrif á daglegt líf. Og svo var hann óvenju talnaglöggur. Hann hélt líka gott bókhald yfir allt í búskapnum, hvort sem það var vigtin á lömbunum eða vetrarfóðrunin. Í fjárhúsunum voru tölur gjarnan skráðar með blýanti á rúðustrikað krossviðarspjald – og þegar búið var að færa upplýsingar af spjaldinu í þar til gerðar bækur var hægt að bregða sandpappír á spjaldið og nota það aftur í næstu skráningu. Sama regla var á bókhaldi Óspakseyrarhrepps þau ár sem hann var oddviti hreppsnefndar. Hann sóttist ekki eftir því embætti frekar en öðrum, en einhver varð að gera þetta.

Níræður í fjárhúsunum í desember 1998.

Dagsverkinu lokið
Þegar ellin fór að segja til sín tók Valdi bróðir smám saman við búinu í Gröf og það gerði pabba mögulegt að halda áfram við bústörfin fram undir það síðasta. Þegar hann var um áttrætt voru verkin orðin erfiðari og afköstin minni. En ég held að hann hafi samt náð að vinna nokkurn veginn fulla vinnu til 88 ára aldurs. Um það leyti var heilsan farin að gefa meira eftir. Síðustu tvö árin voru örugglega mjög erfið, því að hjá pabba var vinnan lífið. Hann var því vafalaust tilbúinn að kveðja þennan heim þegar kallið kom. Pabbi dó í hógværri einsemd eftir stutta legu á Sjúkrahúsinu á Hólmavík 10. janúar árið 2000, rúmlega 91 árs að aldri. Eftir situr þakklæti fyrir gildin sem hann kenndi mér, án þess að nefna þau nokkurn tímann beint, og þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast andblæ tímans sem hann lifði löngu fyrir mína daga. Pabbi var vandaður maður sem skildi eftir sig margt fleira en vel smíðuð hús.

Aldarminning mömmu

Mamma á sínum yngri árum.

Mamma á sínum yngri árum.

Í dag eru liðin 100 ár frá því að mamma (Birgitta Stefánsdóttir eldri) fæddist, en það gerðist vestur á Kleifum í Gilsfirði mánudaginn 4. janúar 1915. Mamma var yngst 10 systkina, en þar af náðu 9 fullorðinsárum.

Heimilið á Kleifum var mannmargt og líklega þokkalega efnað á þess tíma mælikvarða. Þar var alltaf eitthvað um vinnufólk og mamma naut góðs af því í æsku. Anna móðir mömmu hafði nefnilega veikst af sullaveiki og barðist lengi við þann sjúkdóm áður en hann dró hana til dauða árið 1924 þegar mamma var 9 ára. En þarna voru „barnfóstrur“ sem sáu um að yngstu börnin skorti ekki neitt – og leystu það verk með prýði.

Jafnvel þótt Kleifaheimilið hafi verið talið vel efnum búið var ekki mögulegt að kosta allan barnaskarann til náms. Eftir því sem mamma sagði mér þótti Sigurkarl bróðir hennar (f. 1902) sérlega efnilegur og því lögðu foreldrarnir talsvert á sig til að stuðla að menntun hans. Seinna launaði hann greiðann með því að aðstoða yngstu systurnar tvær á mennabrautinni. Þetta varð til þess að mamma fór í Héraðsskólanum á Laugarvatni þar sem hún stundaði nám 1934-1936. Þaðan lá svo leiðin í Kennaraskólann þar sem hún lauk kennararaprófi vorið 1939. Meðan á því námi stóð bjó hún einmitt heima hjá Sigurkarli og fjölskyldu hans að Barónstíg 24 í Reykjavík.

Þá, rétt eins og nú, skipti máli fyrir námsmenn að komast í góða sumarvinnu til að eiga eitthvert skotsilfur fyrir veturinn. Hins vegar voru atvinnutækifærin á millistríðsárunum hvorki fjölbreytt né laus við kynjahalla. Strákarnir fóru í vegavinnu og stelpurnar í kaupavinnu. Mamma var kaupakona í sveit í þrjú sumur. Kaupið var 20 krónur á viku og þótti bara gott, en karlmenn fengu 40 krónur á viku.

Mamma fimmtug. Svona man ég fyrst eftir henni.

Mamma fimmtug. Svona man ég fyrst eftir henni.

Fyrst var mamma kaupakona í Hvítárholti í Hrunamannahreppi sumarið 1935. Skólasystir hennar á Laugarvatni var frá þessum bæ og útvegaði vinnuna. Þarna fannst mömmu best að vera af þessum þremur stöðum, en því miður var ekki hægt að ráða hana aftur sumarið eftir. Þá var hún í Norðtungu í Þverárhlíð ásamt Margréti systur sinni. Þarna fannst mömmu bara í meðallagi gott að vera. Hún sagði mér einu sinni að húsfreyjan í Norðtungu hefði verið ágæt, en hún hefði stundum notað tvenns konar klukkur, nefnilega búklukku á morgnana en símaklukku á kvöldin. Búklukkan var sumarklukka, því að á þessum tíma var klukkunni flýtt á vorin. Símaklukkan var alltaf á vetrartíma, sem kom sér vel fyrir vinnuveitendur síðdegis. Síðast var hún svo á Hárlaugsstöðum í Holtum, líklega sumarið 1938. Þarna sagði mamma að sér hefði svo sem þótt ágætt að vera og þetta var eini staðurinn þar sem borgað var aukalega ef unnið var á næturnar. Það var nefnilega þannig að þegar var góður þurrkur, þá var heyið oft bundið á næturnar. Vikulaunin, þ.e.a.s. 20 krónurnar, miðuðust við 10 tíma vinnu á dag 6 daga vikunnar, og venjulega var ekki um neinar aukagreiðslur að ræða þótt unnið væri á nóttunni.

Sumarið 1939 var mamma ráðskona hjá Ástu systur sinni og Þorkeli mági sínum á Óspakseyri í Bitru og hélt áfram þeim starfa eftir að hafa kennt handavinnu á Húsmæðraskólanum á Laugarvatni veturinn 1939-1940. Á Eyri kynntist hún pabba. Gamla fólkið í sveitinni sagði að Þorkell hefði lokað þau inni í hlöðu þangað til þau voru orðin par. Hvort sem það var nákvæmlega rétt eða ekki entist þetta samband þar til dauðinn aðskildi þau um aldamótin.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.

Mamma og pabbi giftu sig vorið 1944 og byrjuðu búskap hjá Sigríði systur pabba og Magnúsi eiginmanni hennar í Hvítarhlíð í Bitru. Vorið 1956 fluttust þau svo að Gröf, sem þau höfðu þá fest kaup á. Pabbi hafði reyndar sjálfur smíðað íbúðarhúsið í Gröf á fyrstu árum sínum sem húsasmiður upp úr 1930. Verkkaupinn var líklega ekki stórhuga, því að honum þótti nóg að gera ráð fyrir 180 cm lofthæð í húsinu. Pabbi náði að smygla þessu upp í 215 cm, sem kom sér vel seinna þó að ekkert okkar í fjölskyldunni hafi nokkurn tímann talist hávaxið.

Þegar mamma og pabbi settust að í Gröf áttu þau þrjú börn og fjórða og síðasta barnið, ég, bættist við ári síðar. Þessi flutningur markaði líka þau tímamót að búskapurinn varð aðalstarf pabba, en áður hafði hann aðallega unnið við smíðar víða um sveitir. Því hélt hann reyndar áfram næstu áratugi, en í minna mæli.

Ég held að mamma hafi aldrei ætlað sér að verða sveitakona að ævistarfi. Hún sagði þetta kannski aldrei berum orðum, enda fannst henni ekki borga sig að tala mikið um svoleiðis lagað, sérstaklega ekki ef það var viðkvæmt. En þetta var svo sem ekki bara eitthvert einkenni mömmu. Hennar kynslóð hafði einfaldlega ekki vanist því að tjá sig mikið um tilfinningar sínar og langanir. Mamma reyndi auk heldur yfirleitt að sneiða hjá snörpum orðaskiptum og afdráttarlausu tali. Ef einhverjum fannst eitthvað algjörlega frábært, þá reyndi hún heldur að draga úr, og sama gilti um það sem þótti algjörlega ómögulegt. Það var heldur ekki alslæmt.

Alnöfnur á fermingardegi þeirrar yngri í Óspakseyrarkirkju vorið 2001.

Birgitta Stefánsdóttir yngri með ömmu sinni og alnöfnu á fermingardegi þeirrar fyrrnefndu í Óspakseyrarkirkju vorið 2001.

Mamma hafði alltaf nógan tíma, eða þannig orðaði hún það að minnsta kosti. Pabba fannst hún hins vegar frekar seinlát þegar þau voru að fara eitthvað, sem var að vísu ekki oft. „Sjaldan skyldi seinn maður flýta sér“ var eitt af þeim orðatiltækjum sem mamma hélt hvað mest upp á. Samt var hún afskaplega afkastamikil kona, sérstaklega í hannyrðum. Þar liggur eftir hana gríðarmikið ævistarf, allt frá fínustu prjónadúkum og sjölum upp í heilu gólfteppin sem hún saumaði úr ullarbandi með góbelínsaum í strigapoka undan sykri.

Eftir að pabbi dó í ársbyrjun 2000 flutti mamma á Dvalarheimilið í Borgarnesi og dvaldist þar það sem eftir var. Þegar leið á þann tíma var getan til handavinnu upp urin og ættfræðin, sem hafði verið eitt af hennar helstu áhugamálum, var horfin til feðranna langt á undan henni. Þetta voru erfið ár og fátt eftir ógert þegar lífinu lauk 26. apríl 2008.

Hundrað ár eru einkennilega fljót að líða og ég er þakklátur fyrir að hafa náð að eiga helming af þessum tíma með mömmu. Hún hefði alveg getað verið ákveðnari í uppeldinu, en í þeim efnum verður hver að gera sitt besta miðað við þau spil sem hann eða hún hefur á hendinni. Þannig gengur þetta fyrir sig, kynslóð eftir kynslóð.

Mamma kenndi mér afskaplega margt. Sumt af því hef ég náð að tileinka mér en á öðrum sviðum hefur námið sjálfsagt ekki verið eins árangursríkt. En hún gerði alla vega sitt besta, og hennar besta var heilmikið. Þolinmæði og umburðarlyndi voru meðal þeirra grunngilda sem hún hafði í heiðri og kynnti fyrir börnunum sínum.

Takk mamma!

Sýnishorn af handavinnu mömmu. Gráa gólfteppið saumaði hún í strigapoka á árunum í kringum 1965. (Ljósm. Hallgrímur Gíslason 2002).

Sýnishorn af handavinnu mömmu. Gráa gólfteppið saumaði hún í strigapoka á árunum í kringum 1965. (Ljósm. Hallgrímur Gíslason 2002).

Maraþons notið í München

Að hlaupi loknu. (Ljósm. Inga Dís).

Að hlaupi loknu. (Ljósm. Inga Dís Karlsd.).

Síðastliðinn sunnudag hljóp ég maraþon í München og náði næstbesta tímanum mínum frá upphafi. Markmiðið var reyndar að bæta þann tíma um eina sekúndu í það minnsta, en þegar upp var staðið vantaði 12 sekúndur upp á. En maraþonhlaup er ekki bara hlaup, heldur viðburður sem á sér margar hliðar. Þetta er ekki bara líkamlegt viðfangsefni, heldur ekki síður andlegt, já og reyndar líka félagslegt því að enda þótt maður hlaupi vissulega á eigin fótum en ekki annarra, þá er maður háður mörgum öðrum um framkvæmdina og ferlið allt. Þess vegna fjallar þessi pistill ekki bara um kílómetra, mínútur, meðalhraða og svita, heldur líka um svolítið brot af öllu hinu.

Hugmyndin
Núna er liðið um það bil ár síðan ég fékk þá flugu í höfuðið að skreppa til München til að hlaupa maraþon. Ég hef kynnst nokkrum svipuðum flugum um dagana. Sumar þeirra hafa lifað en flestar hafa horfið sporlaust þegar veruleikinn bankaði á dyrnar. Þessi umrædda fluga fæddist þegar ég heyrði af hópferð Bændaferða í Münchenmaraþonið í fyrra. Hvort tveggja var að ég hafði ekki farið í þess konar hópferð áður, og eins hitt að þarna var boðið upp á 10 km hlaup og hálfmaraþon, auk heila maraþonsins. Það fól í sér tækifæri til að gera þetta jafnframt að hópferð fyrir félaga í hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi. Þegar þarna var komið sögu átti hópurinn sér aðeins eins árs sögu og fáir í hópnum höfðu látið sér detta í hug að hlaupa heilt maraþon á næstu mánuðum. Hugmyndin fékk góðar undirtektir og nokkrum dögum síðar voru nokkrir af harðsnúnustu hlaupurunum búnir að skrá sig í ferðina, enda ekki seinna vænna því að flugan hafði greinilega átt greiða leið að kollum margra annarra, bæði norðan heiða og sunnan.

Undirbúningurinn
Undirbúningur fyrir svona ferð er í raun og veru alveg tvískiptur. Annars vegar þurfti að ganga frá lausum endum varðandi ferðalagið sjálft, þ.m.t. flugi og gistingu. Þetta var auðveldi hlutinn, því að Bændaferðir sáu um allt sem að þessu sneri. Þar var allt á hreinu frá upphafi, og ef einhver vandamál komu upp voru þau leyst jafnharðan með glöðu geði. Það var greinilegt á öllu að hjá Bændaferðum vinnur fólk sem finnst gaman í vinnunni og skortir aldrei vilja til að aðstoða þá sem til þeirra leita. Hins vegar þurfti að æfa sig eitthvað fyrir hlaupið.

Maður æfir svo sem ekki í heilt ár fyrir maraþonhlaup, eða það geri ég í það minnsta ekki. Engu að síður finnst mér skynsamlegt að sjá ár fram í tímann á hlaupabrautinni, er svo má að orði komast. Þarna var sem sagt búið að taka ákvörðun um að maraþonið í München yrði aðalhlaupaverkefni ársins 2014, sem þýddi að önnur verkefni hlutu að taka mið af því eftir því sem nauðsyn krafði. Í mínu tilviki þýddi þetta að ég lagði frekar litla áherslu á löng hlaup yfir vetrarmánuðina og reyndi þess í stað að byggja upp vöðvastyrk og hraða. Aðgerðir í þá veru hefðu svo sem getað verið markvissari, en allt ræðst þetta jú að hluta til af öðrum aðstæðum, þ.m.t. heimafyrir og í vinnunni. Eina nýjungin sem ég bætti við fyrri æfingar voru 10 hnébeygjur með 12 kg ketilbjöllu inni á baðherbergi á hverjum einasta morgni, allt frá því að Þorkell sonur minn gaf mér umrædda bjöllu á jólunum 2013. Svo hljóp ég bara þessa venjulega 40-50 km á viku, ýmist með félögum mínum í Flandra eða einn míns liðs, svona rétt til viðhalds. Þetta virtist virka ágætlega. Alla vega kom ég vel undan vetri, sem endurspeglaðist í persónulegum metum (hér eftir nefnd „PB“) í 5 km og hálfu maraþoni seint í apríl. Í maí féll svo persónulega metið í 10 km (41:00 mín) sem hafði staðið sem fastast í 18 ár. Ég hlaut sem sagt að vera á réttri leið, alla vega að einhverju leyti.

Fyrirfram hafði ég gert ráð fyrir því að hlaupa þrjú maraþon á þessu ári eins og í fyrra. Það finnst mér ekkert tiltökumál, enda reyni ég yfirleitt að vera í nógu góðu standi til að geta skellt mér í svoleiðis hlaup með tveggja eða þriggja vikna fyrirvara. Ætlunin var sem sagt að taka Mývatnsmaraþonið í byrjun júní, Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og svo München í október. Eftir hálfa vormaraþonið í lok apríl, þar sem ég náði sem sagt mínum besta tíma frá upphafi (1:29:25 klst.), hitti ég jafnaldra minn Sigurð P., sem státar af meiri reynslu á þessu sviði en flestir aðrir, enda handhafi Íslandsmetsins í maraþoni í áratugi. Honum leist miðlungi vel á hugmyndina um að hlaupa maraþon bæði í ágúst og október. Ef ég liti á októberhlaupið sem aðalhlaup ársins væri skynsamlegra að taka hálft maraþon á góðum tíma í Reykjavíkurmaraþoninu. Ef ég gæti klárað það dæmi undir 1:28 klst. yrði ég í miklu betri málum fyrir München en ef ég myndi hlaupa heilt maraþon með tilheyrandi bakslagi í æfingum dagana eða vikurnar þar á eftir. Ég setti þessa ábendingu bak við eyrað og sannfærðist smám saman um að þetta væri rétta leiðin. Ég vissi vel að ég gæti hlaupið tvö maraþon með nokkurra vikna millibili, enda hef ég gert svoleiðis áður. En maraþon og gott maraþon er sitt hvað.

Sumarið leið með rysjóttu tíðarfari en mörgum og fjölbreyttum hlaupum og hlaupaæfingum. Mývatnsmaraþonið var reyndar eitt af mínum lakari hlaupum, en þar setti óvenjuhátt hitastig sjálfsagt strik í reikninginn. En ég var fyrstur allra í mark, sem var auðvitað mjög skemmtilegt. Annar sigur bættist í safnið í löngu Vesturgötunni í júlí, en þar var keppendahópurinn reyndar í fámennara lagi. Þessu til viðbótar hljóp ég nokkur götuhlaup og náði að bæta 10 km tímann minn enn frekar, eða niður í 40:09 mín. Þá eru ótalin 6 fjallvegahlaup, Þrístrendingur, Hamingjuhlaup um Vatnadal og sitthvað fleira skemmtilegt. Ég setti mér svo það markmið fyrir Reykjavíkurmaraþonið að hlaupa hálft maraþon á 1:27:55 klst., og þó að þar vantaði 18 sek. uppá þegar á hólminn var komið var ég sýnilega kominn í betra hlaupaform en nokkru sinni fyrr, ef frá eru talin nokkur unggæðingsleg millivegalengdahlaup á árunum upp úr 1970.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið voru 7 vikur til stefnu fram að hlaupinu í München. Allar mælingar bentu til að ég ætti vel að geta náð markmiðinu mínu þar, þ.e.a.s. að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en ég hafði best gert áður. Umrætt PB var 3:08:19 klst. frá því í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. Það eina sem ég taldi vanta voru nokkrar langar hlaupaæfingar. Hraðinn var sem sagt nógur en spurning hversu lengi ég gæti haldið honum.

Æfingar haustsins gengu svo sem ágætlega, en vinna og aðrar ástæður gerðu það að verkum að eilítið minna varð úr en stefnt var að. Ég hafði þó ekki yfir neinu að kvarta, því að yfirleitt gekk allt upp sem ég reyndi og líkamleg heilsa var eins og best gerist, engin meiðsli höfðu gert vart við sig í rúm tvö ár og í raun lék allt í lyndi. Ég náði bara ekki alveg að skapa rými fyrir þessar löngu æfingar sem ég taldi vanta í safnið. Meðalvikan átta síðustu vikurnar varð þannig ekki nema 64 km, sem þykir sjálfsagt heldur naumt í þessu samhengi.

Ferðalagið til München

Nýja ráðhúsið við Maríutorgið í München.

Nýja ráðhúsið við Maríutorgið í München.

Hið eiginlega ferðalag til München hófst í Borgarnesi að kvöldi miðvikudagsins 8. október 2014. Það kvöld ókum við hjónin suður á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll, þar sem við gistum í góðu yfirlæti nóttina fyrir brottför á Start Hosteli hjá heiðurshjúunum Ragnheiði og Binna. Þau voru að vísu fjarverandi þessa nótt, en það fór engu að síður ágætlega um okkur. Í bítið morguninn eftir var svo lagt af stað í loftið, burt frá kulda og gosmóðu, áleiðis í sól og yl suður í Bæjaralandi. Og auðvitað sá Sævar Skaptason, fararstjóri og framkvæmdastjóri Bændaferða, um að ekkert færi úrskeiðis, allt frá þeirri stundu er við komum í flugstöðina og til ferðaloka tæpri viku síðar.

Flugferðin til München gekk að flestu leyti eins og í sögu og ástæðulaust að fjölyrða meira um hana. Bæjaraland tók á móti okkur með sólskini og 20 stiga hita. Þá tilfinningu var gott að upplifa eftir heldur snautlegt sumar suðvestanlands, a.m.k. í sólskinsstundum talið. Og fyrr en varði var hópurinn allur kominn heilu og höldnu inn á hótel Ibis við lengstu götuna í München, (Dachauer Strasse, 11,2 km. (Ath.: Þetta eru náttúrulega gagnslausar upplýsingar, enda er þeim eingöngu ætlað að krydda frásögnina)). Og þetta var enginn smáhópur. Eitthvað um 50 manns höfðu þegið boð Bændaferða um að skipuleggja þessa maraþonferð og þar af voru hvorki meira né minna en 7 á vegum hlaupahópsins Flandra.

Dagarnir fram að hlaupi
Við komum til München síðdegis á fimmtudegi og hlaupið var ekki fyrr en á sunnudag. Því gafst góður tími til að hrista úr sér flugþreytuna og hverja þá þreytu aðra sem ef til vill hafði fylgt með í farangrinum að heiman. Tíminn var notaður til að skoða sig um í miðborginni, en þangað var um stundarfjórðungsgangur frá hótelinu. Við hjónin röltum um með félögum okkar úr Borgarnesi, horfðum á klukknaspilið framan á turninum á „nýja ráðhúsinu“, leituðum uppi nokkrar skóbúðir, litum inn í gamlar kirkjur og gerðum þokkalega við okkur í mat og drykk. Föstudagurinn hófst með mjúku morgunskokki í blíðunni og svo var tekinn sporvagn á maraþonsýninguna í einni af byggingunum frá Ólympíuleikunum 1972. Þar voru hlaupanúmerin afhent og gengið frá öllum lausum endum fyrir hlaupið, ef einhverjir voru, auk þess sem fjölmörg fyrirtæki kynntu vöru sína og þjónustu og skiptu á varningi og fáeinum evrum við þá sem áhuga höfðu. Á laugardeginum hélt Sævar fararstjóri fund með öllum hópnum og gaf nokkur góð ráð sem ég veit að nýttust mörgum, þar á meðal ráðið um að eyða ekki alltof mikilli orku á fyrstu metrum hlaupsins í að troðast fram fyrir aðra sem höfðu af einhverjum ástæðum staðsett sig helst til framarlega miðað við getu.

Beðið eftir grænu ljósi í mjúku morgunskokki í München.

Beðið eftir grænu ljósi á mjúku morgunskokki í München.

Allt tilbúið kvöldið fyrir hlaup.

Allt tilbúið kvöldið fyrir hlaup.

Að morgni hlaupadags
Sunnudagurinn 12. október rann upp bjartur og fagur. Að vísu er þessi staðhæfing ekki alveg sönn ef fyllstu nákvæmni er gætt, því að snemma um morguninn lá svolítil þoka yfir München og hitastigið var ekki nema rétt um 10°C. Þeir sem voru skráðir í heilt maraþon söfnuðust saman í anddyri hótelsins um 8-leytið, og á slaginu 8:07 var lagt af stað með sporvagninum áleiðis á Ólympíuleikvanginn þar sem hlaupið átti að hefjast kl. 10:00 og ljúka tiltölulega skömmu síðar. Við Gunnar Viðar héldum uppi merki Flandra og Borgarfjarðar í þessum hópi. Þrjú hinna stefndu á hálfa maraþonið sem átti að hefjast 4 klst. síðar og lífsförunautarnir Björk og Kristín hugðust taka sporvagn að endamarkinu í tæka tíð til að taka á móti okkur. Þetta síðastnefnda er reyndar ekki auðvelt verk í hlaupum eins og þessum þar sem maður er ókunnugur marksvæðinu og þar sem erfitt getur reynst að finna hvert annað í mannmergðinni.

Við vorum komin á leikvanginn upp úr kl. 8:30. Mér finnst afar þægilegt að vera mættur svona tímanlega. Þegar maður er á annað borð kominn á staðinn er erfitt að finna sér nokkuð til að hafa áhyggjur af. Og tíminn leið líka hratt við spjall og vangaveltur um áform dagsins. Sólin var farin að gægjast fram og hitastigið hækkaði jafnt og þétt. Kannski var hægt að búa sér til svolitlar áhyggjur af því að hitinn yrði til trafala þegar á liði hlaupið, en áhyggjur eru reyndar síst til þess fallnar að bæta árangur og upplifun í lífinu.

Um hálftíma fyrir hlaup lögðum við af stað gangandi að rásmarkinu sem var á að giska 2 km sunnan við Ólympíuleikvanginn. Þeir sem vildu voru þá búnir að skila af sér yfirhöfnum og öðrum varningi í þar til gerðum pokum í geymslu undir stúku vallarins. Ég ákvað að skilja símann minn eftir í slíkum poka til að auðveldara yrði að ná sambandi við Björk og Kristínu að hlaupi loknu.

Við rásmarkið stilltu hlauparar sér upp í þremur aðskildum hólfum eftir líklegum lokatíma. Við Gunnar fylgdumst að fram í fremsta hólfið, sem ætlað var þeim sem töldu sig geta lokið hlaupinu á skemmri tíma en 3:30 klst. Aftarlega í því hólfi skildu leiðir og ég slóst í för með Gísla Einari Árnasyni fram eftir hólfinu þar sem við stilltum okkur upp á að giska 20 metrum aftan við ráslínuna. Áform beggja voru svipuð, þ.e. að hlaupa af stað á 4:20 mín/km og sjá svo til hvað yrði í framhaldinu.

Fyrstu 5 kílómetrarnir
Hlaupið var ræst með látum stundvíslega kl. 10:00. Ég fylgdi straumnum til að byrja með og Gísli var skrefi á undan til að byrja með. Fljótlega greiddist úr hópnum og þar með var hlaupið hafið fyrir alvöru. Gísli seig fram úr og hvarf mér smám saman sjónum en ég hafði það samt á tilfinningunni að upphafið væri nokkurn veginn eins og ég hafði ætlað. Reyndar var erfitt að átta sig á hraðanum því að Garminúrið sló úr og í, ef svo má að orði komast, sýndi stundum 3:30 mín/km og stundum 4:50. Ég vissi að hvorugt var rétt, enda var Sævar búinn að vara okkur við því að gervihnattasambandið gæti verið óstöðugt inni í borginni, inni á milli húsa og inni á milli trjáa.

Ég sá fá kunnugleg andlit á fyrstu kílómetrunum, enda varla við því að búast. Þarna voru jú 6 eða 7 þúsund manns að hlaupa og flestir Íslendingarnir höfðu hógværari markmið en ég í mínútum talið. Auk Gísla vissi ég af Óskari Jakobssyni einhvers staðar á undan mér og svo hitti ég Geir Jóhannsson rétt sem snöggvast stuttu eftir að hlaupið hófst.

Snúið á punktinum á Ludvigstraße eftir 4 km. (Ljósm. Marathon Photos).

Snúið á punktinum á Ludvigstraße eftir 4 km. (Ljósm. Marathon Photos).

Fyrstu 5 kílómetrarnir áttu að taka 21:40 mín. ef ég héldi mig við 4:20 mín/km. Þegar þangað var komið sýndi klukkan 21:46 mín sem var algjörlega innan skekkjumarka og reyndar hraðasti 5 km kaflinn minn í maraþonhlaupi til þessa. Mér fannst samt einhvern veginn að ég hefði átt að vera enn fljótari miðað við það hvernig ég skynjaði álagið í líkamanum. En maður dregur engar ályktanir á þessum stað í maraþonhlaupi. Úrslitin ráðast löngu síðar. Kannski var hraðinn jafnvel óþarflega mikill.

5-10 km
Eins og ég hef lýst einhvern tímann áður, skipti ég maraþonhlaupum yfirleitt upp í 5 km kafla. Slík skipting léttir álagi af huganum og gefur líka færi á ýmsum skemmtilegum útreikningum til að glíma við á leiðinni. Ég sá fljótt að þessi 5 km kafli sóttist mér heldur betur en sá fyrsti. Ég ákvað reyndar að taka ekkert mark á kílómetratalningunni í hlaupaúrinu, því að stopult gsm-samband getur spillt mælingunni. En klukkan heldur sínu striki og eins var hver kílómetri greinilega merktur með skiltum við hlaupaleiðina. Ég gerði mér það til dundurs að reikna út eftir hvern kílómetra hversu langt ég væri frá markmiðinu um 4:20 mín/km. Sekúndurnar sex sem upp á vantaði eftir 5 km voru fljótar að skila sér til baka og fyrr en varði var ég kominn nokkrar sekúndur í plús. Það var svo sem hvorki skynsamlegt né nauðsynlegt, enda samsvara 4:20 mín/km lokatíma upp á 3:03 klst. eða þar um bil. Slíkan tíma lét ég mig ekki dreyma um, enda var markmiðið að hlaupa á 3:08:18 klst. eins og fyrr segir. Reyndar taldi ég mig geta hlaupið á 3:06:30 á góðum degi, en þá þarf maður að afgreiða hvern km á 4:25 mín. að meðaltali. Geymdi þá tölu á bak við eyrað.

Hlaupaleiðin í München er tiltölulega flöt og víðast hvar slétt malbik undir fótum. Léttari brautir eru til, en þetta var samt með því betra. Og veðrið lék við okkur enn sem komið var. Sólin var reyndar farin að skína býsna ákveðið, en lengst af gat maður hlaupið í skuggum trjáa eða húsa og fann þá ekki mikið fyrir hitanum.

Hver kílómetrinn af öðrum leið hjá á 4:20 mín eða tæplega það. Reyndar fannst mér óvenju stutt á milli kílómetramerkinga, sem þýddi náttúrulega bara að mér leið vel og að hraðinn var þokkalegur. Eftir um 7,5 km kom ég að drykkjarstöð þar sem ætlunin var að sporðrenna fyrsta orkugelinu. Slíka fæðu gleypi ég jafnan í mig í maraþonhlaupum á 5-7 km fresti og drekk svo sem 150 ml. af vatni með. Á þessari stöð ætlaði ég líka að taka inn eitt steinefnahylki, en það reyndi ég fyrst í Vesturgötunni í sumar með góðum árangri. Steinefnin eiga að draga úr líkum á krömpum á síðustu kílómetrunum, en ég hef nokkuð oft lent í þess háttar hremmingum. Nú vildi hins vegar ekki betur til en svo að ég missti tvö hylki í götuna og varð því að breyta steinefnaáætluninni dálítið til að láta lagerinn duga alla leið. Hvort þetta óhapp hafði áhrif á lokaniðurstöðuna skal ósagt látið. Held samt varla.

Eftir 10 km sýndi klukkan 43:05 mín. Að baki var langhraðasti 10 km kaflinn minn í maraþonhlaupi frá upphafi og reyndar líka hröðustu 5 km (21:19 mín). Meðaltíminn á hvern km hafði verið um 4:18 mín. þegar þarna var komið sögu og ég kominn 15 sek. í plús miðað við 4:20 áætlunina. Þessi hraði var rétt yfir skynsemismörkum, þannig að ég ákvað að reyna heldur að halda aftur af mér á næsta kafla.

10-15 km
Líðanin var áfram góð á næsta 5 km kafla og sekúnduinnistæðan breyttist frekar lítið. Fátt minnisvert bar til tíðinda, nema hvað þarna lá leiðinn í gegnum Enska garðinn og þegar ég kom að 15 km markinu sýndi klukkan 1:04:57 klst. Síðustu 5 km hafði ég lagt að baki á 21:52 og enn átti ég 3 sek. til góða miðað við 4:20 áætlunina.

15-20 km
Þetta gekk eiginlega allt eins og í sögu, en ég vissi svo sem alveg að seinni hlutinn yrði erfiðari, bæði vegna þess að seinni hlutinn er alltaf erfiðari og vegna þess að ég taldi mig vanta fleiri langar æfingar, eins og áður var getið. Á þessum kafla átti ég von að sjá Evu Skarpaas og manninn hennar hann Þórólf á hliðarlínunni. Eva var að fara að hlaupa hálft maraþon og hafði sagst myndi verða einhvers staðar ekki alllangt frá rásmarki þess hlaups, nánar tiltekið nálægt 17 km markinu í maraþonhlaupinu. Þarna var ég kannski aðeins farinn að þreytast og þá er gott að eiga eitthvert tilhlökkunarefni í pokahorninu. Það þarf heldur ekki neina stórviðburði til að lífga upp á tilveruna á hlaupum. Þetta gekk eftir. Allt í einu kom ég auga á Evu með myndavélina á lofti og handfylli af brosi og hvatningarorðum. Nokkru seinna hljóp ég fram hjá Þórólfi og sagan endurtók sig. Næstu skref voru hálfu léttari fyrir bragðið.

17 km búnir og Eva mætt með myndavélina. (Ljósm. Eva Skarpaas).

17 km búnir og Eva mætt með myndavélina. (Ljósm. Eva Skarpaas).

Þegar hér var komið sögu var fyrrnefndur sekúnduforði á þrotum og mínussekúndur farnar að safnast upp hægt og bítandi. Það skipti mig þó engu máli enda mátti ég tapa 5 sekúndum á hverjum kílómetra hlaupsins miðað við 4:20 áætlunina, án þess að meðaltíminn á km færi niður fyrir 4:25 mín. Enn væri þá draumurinn um 3:06:30 innan seilingar og bæting vissulega í kortunum þótt þetta gengi ekki eftir.

Eftir 20 km var millitíminn 1:27:17 klst., síðustu 5 km á 22:20 mín. og síðustu 10 km á 44:12 mín. Þar með var ég allt í einu kominn 37 sek. í mínus miðað við margumræddar 4:20 mín, en svo sem enn í góðum málum miðað við 4:25.

20-25 km
Hálfmaraþonmarkið er alltaf tilhlökkunarefni í maraþonhlaupum, því að þar gefst nýtt tækifæri til uppbyggjandi útreikninga. Í þessu tilviki gat ég líka hlakkað til að sjá eitthvað af hálfmaraþonhlaupurunum, sem voru sjálfsagt mættir á svæðið þótt enn væru meira en 2 klst. í að hlaupið þeirra yrði ræst. Ég kom reyndar ekki auga á marga sem ég kannaðist við, en Gunnar Atli var þó alla vega þarna á kantinum að hvetja samferðamennina. Hálfmaraþontíminn var 1:32:21 klst., sem var meira en 2 mín. betri tími en ég hafði áður náð í maraþonhlaupi. Samkvæmt því mátti halda að auðvelt yrði að bæta PB-ið, en ég bæði vissi og fann að það væri alveg á mörkunum. Reynslan sagði mér að seinni helmingurinn gæti sem best tekið um 3 mín. lengri tími en sá fyrri. Þar með væri lokatíminn kominn í 3:08 klst., sem þýddi að ekkert mátti út af bera til að markmiðið næðist. Í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra var ég reyndar talsvert fljótari með seinni helminginn en þann fyrri, hljóp á „negatívu splitti“ sem sagt, en svoleiðis gerist bara á hátíðis- og tyllidögum. Nú voru líkurnar á slíku nær engar að teknu tilliti til æfinga undanfarinna mánuða og þess hvernig hlaupið hafði þróast.

Áfram hélt ég að tapa sekúndum, enda þreytan aðeins farin að segja til sín. Mér fannst líka óþarflega heitt þar sem sólin náði að skína óhindrað. Held samt að hitastigið hafi ekki verið komið nema í 16°C þegar þarna var komið sögu. Millitíminn eftir 25 km var 1:49:37 klst., sem var eftir á að hyggja næstum 3 mín. betri tími en í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. En ég mundi það ekki svo glöggt þarna á götunni í München. Hitt vissi ég að ég var kominn 1:17 mín í mínus miðað við 4:20 og hraðinn fór minnkandi ef eitthvað var. Auðvitað hefði ég getað bætt eitthvað í til skamms tíma, en í maraþonhlaupi er slíkt varla í boði fyrr en þá í blálokin. Best er að halda svipuðu álagi í gegnum allt hlaupið og það taldi ég mig einmitt hafa gert.

25-30 km
Mér finnst 30 km markið einkar mikilvægur áfangi í maraþonhlaupi. Sumir segja að þar byrji hlaupið fyrir alvöru og ég get svo sem alveg tekið undir það. En hvað sem því líður þykist ég yfirleitt viss um að geta klárað það sem eftir er af hlaupinu á 1 klst. hvernig sem allt velkist, jafnvel þótt einhverjir krampar geri vart við sig. En maður á svo sem ekkert víst í þessum efnum. Alla vega var millitíminn þarna 2:12:10 klst., sem ég vissi að var um 2 mín. betra en í fyrra. Meðalhraðinn frá upphafi samsvaraði 4:24 mín/km og síðustu 5 km höfðu verið á 22:33 mín (4:31 mín/km). Lokatíminn í hlaupinu gat varla orðið verri en 3:12 klst., sem var náttúrulega vel ásættanlegt og PB-ið var svo sem enn raunhæfur möguleiki.

30-35 km
Rétt eftir 30 km markið hljóp ég inn í gamla miðbæinn þar sem við höfðum verið á röltinu dagana á undan. Það var gaman, sérstaklega að koma inn á Maríutorgið þar sem nýja ráðhúsið með klukkuspilinu blasti við. Þarna var líka fullt af fólki meðfram brautinni að hvetja hlauparana.

Ég fann að nú var farið að hægjast svolítið á mér en ég lét það ekki angra mig neitt sérstaklega. Einbeitti mér þess í stað að því að halda sem jöfnustu álagi. Eftir u.þ.b. 32,5 km lá leiðin inn á háskólasvæðið þar sem tekin var 4 km slaufa, að hluta til fram og til baka eftir sömu götunni. Þetta var bæði dálítið leiðinlegt og dálítið skemmtilegt, kannski aðallega skemmtilegt því að þarna mætti maður fyrst þeim sem voru talsvert fljótari í förum en maður sjálfur og síðan þeim sem voru ívíð seinni. Í þeim hópi var Gunnar Viðar. Hann leit vel út en ég gat ekki reiknað út hversu langt hann var kominn í hlaupinu. Í þessari slaufu hljóp ég líka fram úr Gísla, líklega á 34. kílómetranum. Honum hafði gengið ágætlega framan af hlaupinu en þarna sagðist hann vera „alveg búinn á því“. Seinni parturinn í maraþoni leikur marga grátt. Sjálfur var ég orðinn býsna þreyttur og farinn að hlakka mikið til að ljúka hlaupinu. En mér leið nú samt bara ágætlega.

Ég held að þessi mynd sé tekin á háskólasvæðinu. Maðurinn í græna bolnum var lengi rétt á undan mér. Ég á einmitt líka svona bol. Hann er úr Parísarmaraþoninu í fyrra. (Ljósm. Marathon Photos).

Ég held að þessi mynd sé tekin á háskólasvæðinu. Maðurinn í græna bolnum var lengi rétt á undan mér. Ég á einmitt líka svona bol. Hann er úr Parísarmaraþoninu í fyrra. (Ljósm. Marathon Photos).

Eftir 35 km sýndi klukkan 2:34:59 mín. Ég mundi ekki 35 km tímann frá „methlaupinu“ mínu í fyrra, en eftir á að hyggja var ég enn 2 mín á undan þeirri áætlun. Síðustu 5 km höfðu verið á 22:49 mín (4:34 mín/km). Vissulega var farið að hægjast á mér, en þetta var alls ekkert hrun og möguleikinn á bætingu enn til staðar. Ég hugsaði með mér að ég gæti hreinlega ekki þurft meira en 36 mín. til að klára hlaupið. Þá yrði lokatíminn 3:11. Ákvað að það væri versta mögulega niðurstaða og að líklega yrði ég alla vega undir 3:10.

35-37 km
Ég hef svolítið dálæti á 37 km markinu í maraþonhlaupi, af því að þá eru bara 5 km eftir. Millitíminn þarna var 2:44:18 klst., sem mig minnti að væri alla vega um mínútu betri tími en í fyrra. Það var rétt munað, ég var enn með 1:14 mín í plús miðað við „methlaupið“. Það gat varla verið mikið mál að ljúka þessum 5,2 km sem eftir voru á 26 mín. Ég myndi þá enda á rúmlega 3:10 hvernig sem allt slægist. Það var bara fínt.

37-40 km
Kílómetramerkin liðu enn furðu fljótt hjá. Ég tók ekki mikið eftir umhverfinu, en sums staðar var fólk meðfram brautinni og jafnvel ein og ein trommusveit. Mig minnti að tíminn minn eftir 40 km í fyrra hefði verið rúmlega 2:58 klst. Núna reyndist hann vera 2:58:21 klst. Síðust 5 km höfðu liðið á 23:22 mín (4:40 mín/km) og síðustu 10 á 46:11. Ég dró þá ályktun að til þess að bæta mig þyrfti ég að hlaupa síðasta spölinn a.m.k. jafnhratt og í fyrra. Taldi það ólíklegt eða næstum ómögulegt, því að þá var einhver óskiljanlegur léttleiki með í för sem ég fann ekki núna. Eftirá sá ég reyndar að þarna var ég enn með 34 sek. í plús. Þá tölu hefði verið gott að hafa í kollinum síðasta spölinn. Málið snýst nefnilega býsna mikið um að telja hausnum trú um að það sé vel þess virði að erfiða svolítið í stað þess að slaka á og sætta sig við orðinn hlut.

40-42,2 km
Það er ótrúlega gaman að eiga bara stuttan spöl eftir, en þessi stutti spölur getur oft reynst lengri en maður ætlar. Rétt eftir 40 km markið fékk ég smávegis krampa aftan í vinstra lærið, eitthvað sem ég hafði hreinlega ekki búist við. Þetta sló mig dálítið út af laginu, bæði andlega og líkamlega. Alla vega neyddist ég til að labba nokkur skref og eftir að krampar hafa gert vart við sig getur maður varla leyft sér miklar rósir. Hraðabreytingar eru til dæmis varasamar. Þarna fannst mér möguleikinn á bætingu gufa upp, en ég var samt bara nokkuð sáttur. Hvernig sem allt veltist myndi þetta verða næstbesta maraþonið mitt frá upphafi og lokatíminn varla langt frá 3:09 klst. Það er bara vanþakklæti að vera óánægður með það.

Ég á Excel-skjal í fórum mínum þar sem ég held m.a. utan um tímana á síðustu 2,2 kílómetrunum í öllum mínum maraþonhlaupum. Ég veit að bestu tímarnir liggja nálægt 10 mínútum, en smáatriðin mundi ég ekki þarna á götunni í München. Hvað sem því leið ákvað ég að njóta síðustu stundarinnar til hins ýtrasta. Framundan voru undirgöngin inn á Ólympíuleikvanginn og tilhlökkunin að hlaupa þar inn hafði glatt hugann allan daginn.

Hlaupið inn á Ólympíuleikvanginn í einlægri gleði og diskóljósum., (Ljósm. Marathon Photos).

Hlaupið inn á Ólympíuleikvanginn í einlægri gleði og diskóljósum., (Ljósm. Marathon Photos).

Og allt í einu var stundin runnin upp. Völlurinn opnaðist í allri sinni dýrð með háværri tónlist og fagnaðarópum. Síðustu 300 metrarnir liðu eins og í draumi og ég átti nóga orku eftir í góðan endasprett. Hræðslan við að krampinn tæki sig upp var gleymd og tilfinningin í fótunum bara eins og á góðri sprettæfingu hjá Flandra á mánudegi, enda var ég ekki nema rétt um eina mínútu að skeiða síðustu 300 metrana. Veifaði auðvitað svolítið til áhorfenda og svona, enda þess fullviss að þeir væru allir að fagna mér. Vissi að Björk sæti þarna einhvers staðar uppi í stúkunni, en mannfjöldinn og hávaðinn var miklu meiri en svo að ég kæmi auga á hana eða heyrði hvatningarhrópin. En það var svo sem aukaatriði. Aðalatriðið var að vita af henni þarna.

Kominn inn á völlinn. Um 250 m eftir í mark. Gaman hjá mér. (Ljósm. Marathon Photos).

Kominn inn á völlinn. Um 250 m eftir í mark. Gaman hjá mér. (Ljósm. Marathon Photos).

Horft yfir Ólympíuleikvanginn þar sem hlauparar hvíldu sig á (gervi)grasinu. Eitt skref eftir inn á beinu rauðu brautina. (Ljósm. Björk Jóhannsd).

Horft yfir Ólympíuleikvanginn þar sem hlauparar hvíldu sig á (gervi)grasinu. Eitt skref eftir inn á beinu rauðu brautina. (Ljósm. Björk Jóhannsd.).

Síðustu metrarnir! (Ljósm. Marathon Photos).

Síðustu metrarnir! (Ljósm. Marathon Photos).

Þegar ég kom inn á beinu brautina sá ég á markklukkunni að bæting var ekki lengur í spilunum. En þetta var samt ótrúlega gaman, algjör sigurstund barasta. Kom í markið á 3:08:30 mín, þ.e. ekki nema 11 sek frá besta tímanum mínum. Síðustu 2,2 kílómetrarnir höfðu sem sagt verið 45 sek. hægari en í fyrra, en hverjum var ekki sama. Hlaupið var búið og mér leið vel, bæði í sál og líkama.

Á Ólympíuleikvanginum
Inni á Ólympíuleikvanginum var allt fullt af hlaupurum sem ráfuðum um gervigrasið, misvel á sig komnir, að ógleymdu öllu starfsliðinu sem var boðið og búið að rétta manni hjálparhönd. Veitingaborðin biðu í röðum með vatni, léttöli, saltkringlum, ávöxtum og kökum og veðrið var eins og á besta sumardegi heima á Íslandi. Fljótlega rakst ég á Óskar Jakobsson, sem var nýkominn í mark, fyrstur Íslendinga. Hann hafði lent í erfiðleikum í síðari hluta hlaupsins rétt eins og Gísli sem kom til okkar nokkrum mínútum síðar. Líklega var hitastigið orðið aðeins of hátt fyrir Íslendingana, enda stóð mælirinn í 18-20 gráðum.

Við Óskar og Gísli komum okkur vel fyrir á gervigrasinu og smátt og smátt tíndust fleiri Íslendingar inn á blettinn sem við höfðum helgað okkur. Fæstir höfðu náð markmiðum sínum í hitanum, en á því voru þó einstaka undantekningar. Gunnar Viðar skilaði sér áður en langt um leið. Hann bætti sig um 12 mínútur og kláraði hlaupið á 3:35:33 klst. Hafði reyndar stefnt á enn meiri bætingu, en árangurinn var samt framúrskarandi miðað við aðstæður allar.

Ég vissi það ekki þá en ég veit það núna að ég endaði í 381. sæti af 4.950 körlum sem tóku þátt í hlaupinu, en í 407. sæti af 6.227 ef konurnar eru taldar með. Í flokki 55-59 ára karla var ég í 9. sæti af 324.

Endurfundir!

Endurfundir! (Ljósm. Kristín Ólafsd.).

Eftir hlaupið
Eftir að hafa notið samvistanna við hina Íslendingana á vellinum, góða veðursins og veitinganna, röltum við Gunnar af stað yfir brúna neðan af gervigrasinu út fyrir áhorfendapallana. Næsta verkefni var að finna fatapokann minn og símann sem þar var geymdur. Það gekk vel og skömmu síðar vorum við búnir að hafa upp á Björk og Kristínu sem biðu okkar á grasbala þarna rétt fyrir utan. Þar urðu fagnaðarfundir, enda ekkert sjálfsagt að maður njóti þeirra forréttinda að manns nánustu geti fylgt manni í hlaup og stutt mann á alla lund. Og þá var ekkert annað eftir en að rölta út á sporvagnastöðina og koma sér niður á hótel í sturtu og almenna slökun.

Ferðalok
Münchenferðinni lauk ekki í markinu á Ólympíuleikvanginum. Um kvöldið safnaðist hópurinn sem var þarna á vegum Bændaferða saman á veitingastað eigi alllangt frá hótelinu til að fagna góðum árangri og snæða góðan mat. Mánudagurinn var svo notaður í borgarrölt og slökun og á þriðjudagsmorgni var haldið heim á leið. Að baki var einstaklega vel heppnuð ferð. Auðvitað voru hlaupararnir eitthvað missáttir við eigin árangur eins og gengur, en allir voru þó örugglega sáttir við framkvæmdina, bæði á hlaupinu sjálfu sem var í afar styrkum höndum Þjóðverjanna og ekki síður á ferðalaginu í heild. Þar fá Bændaferðir og Sævar fararstjóri hæstu einkunn sem völ er á. Það er talsvert auðveldara að fara í svona ferð og þurfa ekki að hugsa um neitt annað en að hlaupa, heldur en að þurfa líka að vasast í að leysa öll þau mál sem upp kunna að koma og fást við öll þau óvæntu atvik sem geta angrað mann á ferðalögum um ókunnar slóðir. Sævar létti þessu öllu af okkur hinum í þessu ferðalagi.

Ketilbjalla og þolinmæði
Ég náði ekki takmarkinu mínu í þessu hlaupi, en 12 sekúndna frávik er minna en svo að það spilli gleðinni. Auðvitað getur maður alltaf valið hvort glasið sé hálffullt eða hálftómt. Mitt glas var augljóslega hálffullt, eða kannski meira. Þessar 12 sekúndur voru alla vega ekki nema 0,1% af heildartímanum í maraþoninu. Þetta gekk með öðrum orðum eins og í sögu. Og þá er eðlilegt að spurt sé hver hafi verið lykillinn að velgengninni. Vissulega vantaði mig nokkrar langar æfingar í undirbúninginn, en á móti komu ketilbjölluæfingarnar sem eflaust skiluðu sínu þrátt fyrir allan sinn einfaldleika. Og ætli þolinmæðin eigi ekki líka sinn stóra þátt í þessu. Mér liggur nefnilega ekkert á. Fyrst ég bætti mig ekki í þessu hlaupi, þá geri ég það bara seinna. Ég hef nógan tíma. Í langhlaupum er hvergi hægt að stytta sér leið, hvorki á brautinni sjálfri né í undirbúningsferlinu. Óþolinmæði kallar á meiðsli og þá frestast gamanið enn um sinn. Meira er ekki alltaf betra.

Skemmtilegt fjölskylduhálfmaraþon

RM2014 basno bakhliðÁ laugardaginn hljóp ég hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var afskaplega skemmtilegt hlaup, aðallega af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi bætti ég mig töluvert (náði sem sagt að bæta „pébéið“). Í öðru lagi voru veðrið og aðstæður allar með því besta sem gerist. Og síðast en ekki síst tóku eldri börnin mín tvö bæði þátt í hlaupinu. Það gerðist síðast árið 1994, fyrir 20 árum.

Markmið okkar þriggja voru ólík eins og gengur. Ég var búinn að lýsa því yfir að ég ætlaði að ljúka hlaupinu á 1:27:55 klst., Þorkell ætlaði að fara álíka hratt og ég af stað og sjá svo til hvað hann myndi endast og Gitta stefndi að því að hlaupa á 2:10:00 klst. Í stuttu máli var ég sá eini sem náði ekki markmiðinu. Þar vantaði 18 sekúndur upp á. Þorkell lagði af stað um leið og ég og allir hinir, en ég sá hann lítið eftir það, nema þá tilsýndar. Og hann entist alla leið á stöðugum hraða sem var talsvert meiri en hraðinn minn. Og hjá Gittu skakkaði þetta ekki svo mikið sem sekúndu. Þetta var sem sagt einkar vel heppnað hlaup hjá okkur öllum, (þrátt fyrir þetta með 18 sekúndurnar).

Fyrir þetta hlaup átti ég best 1:29:25 klst. í hálfmaraþoni síðan í vor. Markmiðið var sem sagt að bæta þann tíma um eina og hálfa mínútu. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að hlaupa hvern kílómetra á 4:10 mín. að meðaltali, þ.e.a.s. hverja 5 km á 20:50 mín. Ef ég gæti það var ég nokkuð viss um að geta klárað heilt maraþon í München 12. október á meðalhraðanum 4:25 mín/km, sem jafngildir lokatímanum 3:06:30 eða þar um bil.

Fyrir hlaupið á laugardaginn var ég viss um að geta bætt tímann frá því í vor ef ekkert óvænt kæmi upp á, en ein og hálf mínúta var kannski í bjartsýnna lagi. Oftast finn ég nokkurn veginn á fyrstu kílómetrunum hvernig horfurnar eru. Eftir þrjá kílómetra var meðalhraðinn rétt um 4:02 mín/km, sem var náttúrulega í góðu lagi. Þorkell hafði farið örlítið hraðar af stað, en ég sá hann alltaf svo sem 50 m á undan mér. Langhlaup eru formlega séð ekki hans grein. Síðustu árin hefur hann aðallega keppt í 400 m hlaupi og í samræmi við það lagt mikla áherslu á styrkæfingar og lóðalyftingar. Lengri hlaup hafa beðið betri tíma.

Þorkell (lengst til vinstri) á sprettinum eins og ekkert sé. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Þorkell spretthlaupari (lengst til vinstri) á fullri ferð með langhlaupurunum. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Á 4. kílómetranum hægðist á mér og Þorkell fjarlægðist. Enn var þó allt mögulegt. Millitíminn eftir 5 km var 20:34 mín (4:07 mín/km). Svoleiðis millitíma hef ég ekki séð áður í hálfu maraþoni, enda hefði þetta verið persónulegt met í 5 km götuhlaupi fyrir bara tveimur árum. Þarna var ég með 16 sek. í plús miðað við áætlun, en hafði samt á tilfinningunni að aðalmarkmið dagsins myndi ekki nást. Oftast hægist eitthvað á mér seinni partinn og þá er auðvelt að tapa 16 sek. forskoti.

Næstu 5 km hélt ég nokkurn veginn sama hraða. Millitíminn eftir 10 km var 41:28 mín (4:09 mín/km). Þetta var u.þ.b. 30 sek. betra en í hlaupinu í vor og enn 12 sek. undir viðmiðunartímanum. Og eftir 15 km var tíminn 1:02:21 klst., sem þýddi að ég var enn með 9 sek. í plús. Þetta var svo sem alveg mögulegt.

Á kaflanum milli 5 og 15 km bar annars margt til tíðinda. Á þessum kafla fylgdist ég lengst af með Tate nokkrum Cantrell, sem bæði hefur drjúga reynslu af hlaupum og atvinnurekstri. Hann var með svipuð markmið í hlaupinu og ég, þannig að eðlilega rökræddum við möguleikana á að ná þessum markmiðum. Þeir voru enn til staðar. Á sömu slóðum var líka annar reyndur hlaupari sem ég vissi ekki fyrr en eftir á hver var. Hann hélt sama hraða og við Tate, þrátt fyrir að vera með gervifót fyrir neðan hné vinstra megin. Við höfðum einmitt orð á því hvor við annan hvílíkur innblástur þessi maður væri okkur sem hefðum  báða fætur jafnlanga. Eftir að heim var komið um kvöldið sá ég að einmitt þessi maður, Belginn Kim de Roy, hafði sett heimsmet í sínum fötlunarflokki í hlaupinu þegar hann kláraði heila maraþonið á 2:57:09 klst. Slíkan árangur hef ég aldrei látið mig dreyma um. Á þessum sama kafla bar það líka til tíðinda að Þorkell fjarlægðist smám saman meir og meir – og einhvers staðar í kringum 13. kílómetrann var ég alveg hættur að sjá hann. Ég var auðvitað hæstánægður með það, enda gleður fátt meira en gott gengi afkvæmanna.

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Þegar ég leit á Garminúrið mitt eftir 15 km áttaði ég mig á því að ég hafði stillt það óskynsamlega fyrir þetta hlaup, því að eftir að klukkustundinni var náð hætti úrið að sýna sekúndur. Þarna stóð sem sagt bara 1:02 en ekki 1:02:21. Þetta truflaði mig dálítið það sem eftir var hlaupsins. Ég uni mér einmitt við það í svona hlaupum að reikna eitt og annað út frá millitímum, og nú var ljóst að þessir útreikningar yrðu helst til ónákvæmir. En við því var ekkert að gera. Óskynsamlegar stillingar Garminúra hljóta líka að flokkast sem lúxusvandamál, a.m.k. þegar maður hleypur við hliðina á manni með gervifót. Frómt frá sagt var sá góði maður reyndar búinn að ná dálitlu forskoti á mig þegar þarna var komið sögu, og það sama gilti um Tate Cantrell. En ég var samt alls ekki einmana. Alls staðar var fólk meðfram brautinni að hvetja hlauparana, og í þeim hópi voru furðu margir sem ég þekkti. Það var kannski ekki að undra þótt erlendir samferðamenn mínir spyrðu hvort ég þekkti alla í Reykjavík. Þetta er sjálfsagt öðruvísi í flestum borgarhlaupum erlendis.

Ég bjóst við að illa stillta Garminúrið mitt myndi sýna 1:15 klst. eftir 18 km og vissi að ef það gengi eftir myndi líklegasti lokatíminn vera á bilinu 1:28 og 1:29 klst. Þessi varð líka raunin. Þegar aðstæður eru góðar og næg reynsla með í för kemur sjaldnast margt á óvart á síðustu kílómetrunum. Þar snýst málið um nokkrar sekúndur til eða frá en mínútur eru frekar fyrirsjáanlegar. Að sama skapi er hugarreikningur í mínútum ekki sérlega spennandi eða hvetjandi tómstundaiðja.

Átján kílómetra markið í Reykjavíkurmaraþoni er í næsta nágrenni við Kirkjusand. Þá er maður búinn að hlaupa inn í Vatnagarða og hálfmaraþonhlauparar eiga  ekkert eftir nema Sæbrautina niður í bæ. Á þessu svæði mætir maður hlaupurum sem hafa farið sér ívið hægar og eru um þetta leyti búnir með 13 km eða svo. Í þeim hópi voru margir sem ég þekkti, þ.á.m. eitthvað af hlaupafélögum mínum úr Flandra og svo hún Gitta mín. Þarna var gaman að hvetja og fá hvatningu.

Síðustu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, enda sjálfsagt ekkert óeðlilegt að þá sé maður farinn að þreytast. Skemmtilegra er samt að vera í standi til að halda nokkurn veginn sama hraða á leiðarenda. Á þessum kafla létti Gottskálk Friðgeirsson, gamall skólafélagi og vinur, mér lífið um stund en hann var þarna á hjóli. Fáir Íslendingar hafa hlaupið fleiri maraþon en hann, en aldrei þessu vant gat hann ekki verið með þetta árið.

Millitíminn eftir 20 km var 1:23:43 klst. en á úrinu mínu stóð náttúrulega bara 1:23. Með einföldum útreikningi sá ég að líkurnar á því að enda undir 1:28 voru hverfandi en þó ekki alveg úr sögunni. Það færi auðvitað eftir því hvaða sekúndum úrið þegði yfir. Eftir á að hyggja missti ég einmitt af markmiðinu á kílómetrum 15-20. Sá 5 km kafli var sá langhægasti í hlaupinu (21:22 mín). En hvað um það. Ég hljóp bara eins hratt og ég gat þann spöl sem eftir var og kom í mark á 1:28:13 klst., langbesta tímanum mínum til þessa. Ég var reyndar alsæll með þann tíma „þótt mig hrakið hafi frá / hæsta takmarkinu“ eins og segir í vísunni.

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Þorkell var einn af þeim fyrstu sem ég hitti á marksvæðinu. Hann hafði haldið sama hraða í gegnum allt hlaupið, þrátt fyrir algjöran skort á langhlauparaæfingum síðustu árin. Lokatíminn hans var 1:24:48 klst. (4:01 mín/km). Ég þóttist reyndar vita að hann yrði á undan mér ef ekkert kæmi upp á, en þessi tími var enn betri en ég hafði reiknað með.

Næsta hálftímann notaði ég til að spjalla við ótrúlega margt og ótrúlega vinsamlegt fólk sem ég kannaðist við á marksvæðinu, þar með talda hlaupafélaga mína úr Flandra, þá Gunnar og Kristin sem báðir voru að enda við að stórbæta hálfmaraþontímana sína. Ætli ég sjái ekki undir hælana á þeim næsta sumar? Marksvæðið er annars heill heimur út af fyrir sig. Reykjavíkurmaraþon er nefnilega ekki bara hlaup, heldur einnig og ekki síður uppskeruhátíð og góðra vina fundur. Fátt er nú glaðara en það. Gleði dagsins var svo fullkomnuð þegar Gitta skilaði sér í markið á 2:10:00 klst. Það kallar maður að setja sér markmið og ná því! Og með þessu var hún líka að stórbæta tímann sinn frá því fyrr í sumar.

Það eru forréttindi að geta hlaupið sér til gamans. Og enn meiri forréttindi felast í því að geta hlaupið með börnunum sínum. Þetta var reyndar ekki alveg í fyrsta sinn sem við þrjú lögðum saman upp í Reykjavíkurmaraþon, því að eins og ég nefndi í upphafi gerðum við þetta líka sumarið 1994. Þá vorum við reyndar öll fimm saman í för. Við Björk og dæturnar röltum þá 3 km, enda þær ekki nema tveggja og sjö ára gamlar. Þorkell var hins vegar orðinn 9 ára og hljóp á undan okkur. Lokatíminn hans þá var 15:42 mín. (5:14 mín/km). Er ekki sagt að snemma beygist krókurinn?

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994.

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994. (Þetta var í lok Don Cano tímabilsins í tískusögunni).

Fimmta pébé sumarsins

Í markinu. Ljósm. Gunnlaugur Júl.

Í markinu. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Þegar ég var ungur drengur í sveitinni héldum við bræðurnir okkar eigin „einkafrjálsíþróttamót“ og að sjálfsögðu voru öll úrslit vandlega skráð í bækur. Þar kemur víða fyrir skammstöfunin „pm“ sem stendur fyrir „persónumet“. Löngu seinna litaðist tilvera mín af erlendum áhrifum og skammstöfunin í bókunum breyttist í „PB“ eða „personal best“. Hvað sem segja má um þessa málfarsþróun er ég búinn að setja 5 pébé það sem af er sumri. Þessi pistill fjallar um það fimmta, sem sett var í Ármannshlaupinu síðasta miðvikudagskvöld.

Ég bjóst ekki við neinu sérstöku í þessu Ármannshlaupi, nema því að þetta yrði skemmtilegt og að ég myndi koma glaður í mark. Vegalengdin var 10 km eins og jafnan í Ármannshlaupum og á þeirri vegalengd hafði ég einmitt sett PB í líffæragjafahlaupinu í Fossvogi í maí, 40:46 mín. Síðan þá hafði ég ekki æft sérlega vel, misst margar æfingar úr vegna vinnu og jafnvel bara tekið 2-3 æfingar í viku. Það er of lítið. Samt var ég svo sem í ágætu standi og heilsufar almennt prýðilegt.

Þetta var sjötta Ármannshlaupið mitt. Hef mætt í þessi hlaup annað slagið síðustu ár, já eða kannski áratugi. Tók fyrst þátt árið 1996 og setti þá PB (41:00 mín) sem stóð í tæp 18 ár, þ.e. þangað til í Fossvoginum í vor. Reyndar hljóp ég 10 km á braut haustið 1974 á 36:55 mín, nánar tiltekið vestur á Melavelli, en brautarhlaup teljast sem betur fer ekki með þegar talað er um árangur í götuhlaupum. Þess vegna byrjaði ég með „hreint borð“ þegar götuhlaupaferillinn hófst sumarið 1985.

Haustið 1974 var ég 17 ára og hlaupið á Melavellinum var sögulegt. Þetta tiltekna hlaup varð nefnilega til þess að árið 1974 luku hvorki meira né minna en 11 Íslendingar 10 km hlaupi. Það var „einsdæmi í íslenskri íþróttasögu“, eins og ég skrifaði í æfingadagbókina mína þá um kvöldið. Síðan eru liðin mörg ár. Í Ármannshlaupinu á miðvikudaginn skiluðu 444 hlauparar sér í mark.

Fyrir hlaup. Á leið að rásmarkinu með Gunnari Viðari (í gulum bol) og Gittu (hinum megin við Gunnar). (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Fyrir hlaup. Á leið að rásmarkinu með Gunnari Viðari (í gulum bol) og Gittu (hinum megin við Gunnar). (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hlaupið á miðvikudaginn, nema hvað þá var hlaupið frá Vöruhóteli Eimskips við Sundahöfn, að Hörpunni, snúið þar við, og sama leið hlaupin til baka. Þetta er ein besta 10 km braut sem maður kemst á á götum úti. Og veðrið var prýðilegt, dálítil gola úr óljósri átt, líklega humátt, súldarvottur um tíma og rétt rúmlega 10 stiga hiti. Birgitta dóttir mín og Borgnesingurinn Gunnar Viðar fylgdu mér á vettvang og tóku þátt í hlaupinu. Það er alltaf skemmtilegra að vera ekki einn í svona verkefnum. Reyndar hitti ég líka margt fleira fólk, enda hlýtur maður jú að rekast á nokkra kunningja í hópi 444 manna sem allir hafa sama áhugamál. Þarna var einvalalið á borð við Evu Skarpaas, Trausta hrausta og Friðrik í Melabúðinni, svo einhverjir séu nefndir, en allt þetta fólk er á svipuðu róli og ég í hlaupunum í mínútum talið. Svona almenningshlaup er ekki bara hlaup, þetta er líka góðra vina fundur.

Ég fór frekar hratt af stað að vanda. Gunnar Viðar fylgdi mér fyrsta spölinn en seig svo framúr. Hann hefur sýnt ótrúlegar framfarir á skömmum tíma og ég er alveg hættur að hafa við honum. Mér finnst gaman að fylgjast með svona þróun. Ég er heldur ekki í þessu til að vera á undan einhverjum öðrum, heldur til að sigrast á sjálfum mér og klukkunni.

Á snúningspunktinum eftir 5 km sýndi klukkan 20:28 mín. Ég bjóst við að bakaleiðin yrði ögn erfiðari og að líklegur lokatími yrði því eitthvað um 41:30 mín. Var vel sáttur við það. Tími umfram 42 mín. hefði hins vegar valdið mér vonbrigðum. En bakaleiðin var einhvern veginn léttari. Eftir 8 km var tíminn 32:36 mín og þá áttaði ég mig fyrst á því að ég gæti svo sem alveg slegið pébéið frá því í vor, þrátt fyrir allt. Með því að hlaupa þessa síðustu 2 km á sama hraða og fyrstu 8 km myndi þetta ekki taka nema 8:09 mín og það myndi duga. Og af því að mér finnast pébé svo skemmtileg bætti ég heldur í, enda lítið um þreytu í skrokknum. Kláraði þessa síðustu tvo á 7:51 mín og pébéið var í höfn, 40:27 mín.

Eftir hlaup. Félagi Gunnar Viðar í móttökunefndinni. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Eftir hlaup. Félagi Gunnar Viðar í móttökunefndinni. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Ég man ekki til þess að ég velti því mikið fyrir mér haustið 1974 hvaða tíma ég myndi ná í 10 km hlaupi 40 árum síðar. Ég er eðlilega svolítið lengur að þessu núna en þá, en hraðasti kílómetrinn minn á miðvikudaginn (3:53 mín á síðasta km) var samt hraðari en sá hægasti haustið 74 (3:56 mín á 6. km). Þetta er samanburður sem ég get glatt mig svolítið við.

Götuhlaup eru kannski hvert öðru lík og því takmörk fyrir því um hversu mörg þeirra sé hægt að skrifa langa bloggpistla án þess að endurtaka nánast orðrétt það sem sagt var í síðasta pistli. Ég afréð nú samt að skrifa enn einn pistilinn af þessu tagi til að tíunda árangur miðvikudagsins. Stundum efast ég um tilgang þessara skrifa, en fyrir og eftir hlaupið á miðvikudaginn hitti ég ókunnugt fólk sem sagðist lesa pistlana og hafa af þeim bæði gagn og gaman. Þetta fólk er mér innblástur og þessi pistill er tileinkaður því. Hann verður ekki sá síðasti.

PS: Af því að Ármannshlaupið á miðvikudaginn var þrítugasta 10 km götuhlaupið mitt frá upphafi ákvað ég að búa til einfalda mynd með ágripi af sögu allra þeirra hlaupa. Eigum við ekki að segja að þetta sé þroskasaga? Myndin er alla vega hér fyrir neðan og verður líklega læsileg ef smellt er á hana.

Þroskasaga þrjátíu 10 km götuhlaupa. (Myndin stækkar ef smellt er á hana).

Þroskasaga þrjátíu 10 km götuhlaupa. (Myndin stækkar ef smellt er á hana).

40 ára Íslandsmeistaratitill

IMG_2409cr160Í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár frá því að ég vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn minn, já og reyndar þann eina það sem af er. Þetta var í drengjaflokki í Víðavangshlaupi Íslands sem fram fór í Vatnsmýrinni í Reykjavík 24. mars 1974. Ég var þá á fyrsta árinu mínu í menntaskóla fyrir sunnan og hafði mætt reglulega á frjálsíþróttaæfingar hjá ÍR frá því í byrjun nóvember. Var sem sagt óskrifað blað úr sveitinni.

Mér hafði aldrei dottið í hug að ég gæti unnið þetta hlaup, enda voru þarna aðrir og miklu betri hlauparar meðal þátttakenda. Langfremstur þeirra var Sigurður P. Sigmundsson, jafnaldri minn, sem þá þegar var nánast ósigrandi í sínum aldursflokki. Seinna setti hann Íslandsmet í maraþonhlaupi sem stóð í 26 ár, þ.e.a.s. alveg þangað til Kári Steinn kom til sögunnar. En það er nú önnur saga. Alla vega vissi ég að ég ætti enga möguleika á að vinna Sigga P.

Þennan vetur æfði ég oft með Gunnari Páli Jóakimssyni, sem var þá orðinn einn af bestu millivegalengdahlaupurum landsins, en er núna best þekktur sem hlaupaþjálfari. Ég held reyndar að hann hafi fæðst inn í það hlutverk! Hann tók sér það af einhverjum ástæðum fyrir hendur að telja mér trú um að ég gæti sko víst unnið þetta hlaup. Það eina sem ég þyrfti að gera væri að hanga í Sigga P. hér um bil alla leiðina og taka svo snöggt fram úr honum í blálokin. Þetta fannst mér fráleit hugmynd, en eftir að hafa heyrt hana nógu oft sá ég að það gerði náttúrulega ekkert til að prófa þetta. Ég var líka í þeirri ákjósanlegu stöðu að vera hinn óþekkti áskorandi. Þess vegna myndi enginn taka eftir því þótt áætlunin mistækist.

Svo byrjaði hlaupið. Það var ekki langt, ekki frekar en önnur víðavangshlaup á þessum tíma, þ.e.a.s. ekki nema 2.660 metrar. Framan af hlaupi vorum við nokkrir saman í hnapp, en smám saman þróaðist það þannig að við Siggi P. vorum einir í forystunni – og hann alltaf rétt á undan. Ég  man að mér fannst þetta ógeðslega erfitt, því að hraðinn var eiginlega allt of mikill. Mér tókst þó að hanga nógu lengi til að fara að ráðum Gunnars Páls og taka snöggt framúr þegar einhverjir 150 metrar voru eftir í mark. Og viti menn, þetta virkaði.

IMG_2413cr160Nokkrum vikum seinna, nánar tiltekið 14. maí, birtist frétt um þetta hlaup í Mogganum. (Líklega gefur dagsetning fréttarinnar vísbendingu um hversu gríðarlega stór viðburður þetta var)! Í fréttinni stendur m.a.: „Keppni í drengjaflokki var hin skemmtilegasta og var ekki séð fyrr en á síðustu metrunum hver yrði sigurvegari. Nýtt nafn í hlaupum, Stefán Gíslason úr Héraðssambandi Strandamanna, hreppti sigurinn, en þarna er á ferðinni bráðefnilegur piltur, sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni, haldi hann áfram æfingum og keppni“. Mogginn varð reyndar af þeirri skemmtun, því að lítið varð vart við piltinn á hlaupabrautinni næstu árin.

Þetta hlaup fyrir 40 árum er mér ekki bara minnisstætt vegna sigursins, heldur líka vegna þess að þann sama dag átti Guðmundur heitinn Þórarinsson 50 ára afmæli. Guðmundur var þjálfarinn minn þennnan vetur og sinnti mér afskaplega vel, þrátt fyrir að ég væri aðskotadýr úr allt öðru félagi.

Minningin um Víðavangshlaup Íslands 1974 skiptir mig talsverðu máli, ekki þó aðallega vegna þess að ég krækti mér í þennan eina Íslandsmeistarapening, heldur öllu frekar vegna þess að þarna lærði ég hversu miklu máli það skiptir að setja sér markmið og hvika ekki frá þeim. Og svo skiptir það mig líka afar miklu máli að þennan vetur eignaðist ég áhugamál sem ég get enn stundað mér til ómældrar gleði 40 árum seinna, jafnvel þótt æfingar og keppni hafi verið slitrótt nokkra áratugi í millitíðinni. Og nú bíð ég rólegur eftir Íslandsmeistaratitli númer tvö. 🙂

Víðavangshlaup ÍR: Svolítil viðbót frá 1974

Í pistli um þátttöku mína í Víðavangshlaupi ÍR sl. fimmtudag minntist ég aðeins á „hitt skiptið“ sem ég hef tekið þátt í þessu hlaupi, þ.e.a.s. á sumardaginn fyrsta 1974. Í pistlinum sagði ég m.a. að úrslitin frá 1974 væru löngu týnd, sem var reyndar alveg rétt á þeirri stundu sem ég skrifaði pistilinn. En viti menn, í gær rak ég augun í lítinn blaðabunka í bílskúrnum (rétt vestan við hlaupabrettið) – og út úr honum dró ég það gagnmerka rit „Þess skal getið sem gert er. Nr. 1, 6. maí 1974. Fréttir frá Frjálsíþróttadeild Íþróttafélags Reykjavíkur“. Í þessu blaði voru ýmsar upplýsingar um umrætt hlaup, þ.á.m. öll úrslitin! (Þetta var fyrir daga www.hlaup.is og reyndar líka áður en tölvueign varð almenn, enda blaðið vélritað á stensla og fjölritað).

Í umræddu riti kemur m.a. fram að 73 þátttakendur hafi verið skráðir í hlaupið, þar af 18 konur. Af þessum fjölda hlupu þó bara 47 af stað og „luku allir hlaupinu að einni stúlku undanskilinni“ eins og það er orðað í ritinu. Þarna kemur líka fram að ÍR-ingar lögðu mikið á sig til að vinna sigur í stigakeppni hlaupsins. Það tókst og þar með vann ÍR í fyrsta sinn bikar til eignar fyrir þriggja manna sveit. „En þetta var því aðeins hægt að okkar beztu menn, Ágúst og Sigfús yrðu teknir heim frá Englandi gagngert til að hlaupa og var það gert með talsverðum tilkostnaði. Þeir brugðust ekki vonum okkar en háðu grimmilegt einvígi um sigurinn í hlaupinu langt á undan keppinautunum“. Þarna er að sjálfsögðu átt við ÍR-ingana Ágúst Ásgeirsson og Sigfús Jónsson sem voru fremstu langhlauparar Íslands á þessum tíma. Ragnhildur Pálsdóttir UMSK sigraði í kvennaflokki eins og venjan var á þessum tíma. Af öðrum kunnum köppum sem reyndu með sér þennan dag má nefna Sigurð P. Sigmundsson og bræðurna Magnús og Sigurð Haraldssyni úr FH, Gunnar Snorrason og Erling Þorsteinsson úr UMSK, Jón Diðriksson UMSB, Högna Óskarsson KR, Pétur Pétursson HSS og ÍR-ingana Gunnar Pál Jóakimsson, Óskar Thorarensen, Friðrik Þór Óskarsson, Elías Sveinsson og Sigvalda heitinn Ingimundarson. Elsti þátttakandinn „var Jón Guðlaugsson HSK 48 ára og vann til eignar bikar gefinn af Brunabótafélagi Íslands“. Þetta þótti mjög hár aldur fyrir hlaupara á þessum tíma og sjálfsagt grunaði engan að hann myndi verða meðal þátttakenda í sama hlaupi 39 árum síðar!!!

Því er við að bæta, að með nákvæmum samanburði á nöfnum þeirra 46 sem luku hlaupinu 1974 við nöfn þeirra 335 sem luku hlaupinu sl. fimmtudag komst ég að því að við Jón Guðlaugsson erum einu mennirnir sem mættu til leiks bæði árin. Gaman að því!!! 🙂

Fyrstu menn og konur í Víðavangshlaupi ÍR 1974. (Úr ritinu "Þess skal getið sem gert er").

Fyrstu menn og konur í Víðavangshlaupi ÍR 1974. (Úr ritinu „Þess skal getið sem gert er“).

40 ára hlaupaafmæli

Í dag eru liðin 40 ár síðan ég keppti í hlaupum í fyrsta sinn. Frumraunin var þreytt á héraðsmóti HSS í Sævangi við Steingrímsfjörð laugardaginn 19. ágúst 1972. Í minningunni snerist þátttaka mín í mótinu nánast eingöngu um keppni í 800 m hlaupi, en reyndar var ég búinn að taka þátt í 100 m hlaupi, langstökki og þrístökki áður en röðin kom að 800 metrunum.

Það var svo sem ekkert nýtt fyrir mér að hlaupa 800 metra, því að það hafði ég oft gert heima í sveitinni. Einhvern tímann höfðum við bræðurnir smíðað forláta mælistiku úr þremur prikum og notað hana til að stika út hæfilegar hlaupavegalengdir á gamla bílveginum sem liggur milli túnanna heima. Þar náði 800 m brautin frá Grafargili og út að Folaldslaut. Hallinn á brautinni er hagstæður ef hlaupið er í þessa átt, en ein brött brekka á leiðinni vinnur það sjálfsagt upp að mestu. Þessa braut hafði ég hlaupið á 2:37,5 mín fyrr um sumarið, nánar tiltekið 3. júlí. Eftir á að hyggja hef ég reyndar vissar efasemdir um þessa hálfu sekúndu, því að í stað skeiðklukku notaðist ég við Pierpont fermingarúrið mitt, sem vissulega var með sekúnduvísi, en engu umfram það.

Hlaupabrautin á Sævangi var eins og títt var til sveita, málaður hringur á sæmilega sléttu túni sem var slegið einum eða tveimur dögum fyrir mót. Endarnir á vellinum voru eitthvað leiðinlegir, þannig að brautin var bara um 350 m að lengd en ekki 400 m. Það skipti svo sem engu máli í 800 metrunum. Annað einkenni var kríuvarpið við norðurhorn vallarins. Kríunum var lítið gefið um knattspyrnuleiki og langhlaup og reyndu eftir megni að afstýra slíkum uppákomum. Líklega hefur nærvera þeirra hvatt hlaupara til dáða ef eitthvað var. Það sama gilti ekki um kalblettina sem höfðu lækkað lélegustu hluta brautarinnar um óþægilega marga sentimetra í tímanna rás. Það kom þó meira að sök í 100 metrunum, enda sérstaklega slæmur kalblettur nálægt miðri beinu brautinni.

Þar sem þetta var fyrsta frjálsíþróttamótið sem ég tók þátt í – og lítið um íþróttafataverslanir á Ströndum, bjó ég heldur illa að hlaupafötum og skótaui sem hæfðu viðfangsefninu. En ég var þó búinn að vera á Reykjaskóla einn vetur og hafði þar eignast forláta körfuboltabúning. Buxurnar voru ekki eins síðar og nú tíðkast í NBA, en þeim mun víðari. Þegar ég var kominn í þær minntu þær fljótt á litið meira á stutt pils en stuttbuxur, jafnvel þótt ég væri þá þegar orðinn álíka stór og sver og ég er núna. Mér fundust þær því ekki viðeigandi keppnisbúningur. Hins vegar var bolurinn fínn, gulur hlírabolur með rauðri bryddingu á köntum, stöfunum RSK framan á og tölunni 10 aftaná. Sniðið á bolnum var auk heldur svo nútímalegt að það líktist í einu og öllu því sem enn tíðkast, enda e.t.v. ekki mikið svigrúm til tilrauna við hönnun á hlírabolum. En buxnavandamálið þurfti að leysa með einhverjum hætti. Ég mætti því til leiks í ágætum tweedbuxum sem mamma hefur sjálfsagt verið nýbúinn að kaupa á mig sem betribuxur. Skótauinu er ég búinn að gleyma, en ég hafði ekki heyrt um ASICS þegar þetta var og gaddaskór komu ekki við sögu fyrr en ári síðar. Hins vegar átti ég örugglega ágæta strigaskó, því að svoleiðis skóbúnaður var ómissandi í sveitinni þegar unnið var í þurrheyi í góðu veðri eða hlaupið sér til skemmtunar á eftir heyvagninum.

Ég man svo sem ekki smáatriðin í hlaupinu sjálfu, nema hvað ég held að við höfum verið þrír sem lögðum af stað. Ég tók strax forystuna og sá aldrei til mannaferða eftir það. Eitthvað heyrði ég pískrað í áhorfendaskaranum um að þetta væri allt of hratt og að ég myndi springa. En mér var alveg sama um það. Hlaupinu lauk ég á 2:37,4 mín, sem mér fannst svo sem ekkert merkilegt, og hinir hlaupararnir voru um 100 metrum á eftir mér ef mig misminnir ekki.

Þetta var góður dagur í Sævangi og auðvitað var ég stoltur af verðlaunaskjölunum fjórum sem ég kom með heim um kvöldið. Skjalið fyrir 800 metrana skipti mig eðlilega langmestu máli. Það var hvítt á litinn eins og vera bar með skjöl sigurvegara. Hin voru bara blá, því að þar var ég í öðru sæti. En hvernig sem svona skjöl eru á litinn, þá eru þau töluvert persónulegri en allir þátttökupeningarnir sem hrúgast hafa upp á áratugunum sem liðnir eru síðan.

Ég velti því örugglega ekkert fyrir mér í ágúst 1972 hvort ég yrði enn að keppa í hlaupum 40 árum síðar. Líklega hefði mér þótt það fremur fjarstæðukennt ef einhver hefði spurt. Á þessum árum tíðkaðist heldur ekki að „gamalt fólk“ væri að spreyta sig í almenningshlaupum. Sjálfur var ég þó vanur því í sveitinni að fólk hlypi eins og fætur toguðu á meðan heilsan leyfði. Alla vega hélt pabbi heitinn áfram að hlaupa framundir andlátið, enda er sá ferðamáti fljótlegri en ganga. En hvað sem öðru líður er ég afskaplega þakklátur, bæði fyrir þessar gömlu minningar, fyrir að hafa lifað allar þær breytingar sem hafa átt sér stað síðan og fyrir að geta enn sinnt þessu áhugamáli mínu og haft gaman af!

Og verðlaunaskjalið fyrir 800 metrana geymi ég að sjálfsögðu!

Kalmansmaraþon

Jólafríið er tími til að gera eitthvað annað en alla hina dagana, til dæmis eitthvað annað en að sitja við tölvuna. Fyrir mig táknar þetta eitthvað annað til dæmis lestur, þ.e.a.s. bóklestur. Ég les nefnilega sjaldan bækur, en þess meira af rafrænum stöfum sem birtast á skjánum mínum, bæði í vinnutíma og utan hans.

Fyrir þessi jól kom út þriðja bókin í þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar um strákinn, sem átti vin sem gleymdi stakki, sem gekk fram dal og yfir hásléttu, las Óþelló fyrir blindan skipstjóra, horfði á axlir úr tunglskini, gekk í löngu liðnum aprílmánuði með stórum landpósti yfir heiðar sem voru mislangt frá himninum og rann niður brekku með kalda hangikjötslykt í vitum.

Af því að það er jólafrí og af því að þessi bók kom út, ákvað ég að fara í Kalmansmaraþon, sem er náttúrulega ekki hlaup, heldur lestur, þ.e.a.s. bóklestur og að miklu leyti endurlestur. Mér fannst sem sagt ekki nóg að leggjast með þriðju og nýjustu bókina, Hjarta mannsins, heldur fannst mér nauðsynlegt að endurlesa hinar tvær fyrst til að rifja upp söguþráð og skynja norðanáttina, bæði í Himnaríki og helvíti og Harmi englanna. Byrjaði í gær og er búinn með þessar tvær, vitandi allan tímann að þær myndu færa mig hálfa leið inn í löngu liðinn aprílmánuð sem er svo óskaplega framandi nútímamanninum, en samt svo nálægt honum, eða alla vega nálægt mér, ekki bara vegna þess að ég hef lesið bróðurpartinn af Söguþáttum landpóstanna, heldur líka vegna þess að pabbi og mamma voru um það bil að fæðast þegar þessi aprílmánuður rann upp og vegna þess að ég ólst upp í einangrun á mælikvarða nútímans, þar sem norðanhríð boðaði margra daga einangrun og rafljósin dugðu ekki til að lýsa út í öll horn, sérstaklega ekki veturinn sem Listerinn var bilaður og steinolíulampar og kerti einu birtugjafarnir í skammdeginu.

Mér finnst Jón Kalman bera af öðrum höfundum samtímans, einmitt vegna þess að bækurnar hans færa mig hálfa leið inn í heim sem er svo fjarlægur en samt svo nálægur, einmitt vegna þess að á meðan ég les finnst mér ég sjálfur vera inni í sögunni, sjálfur að brjótast yfir Snæfjallaheiði með norðanhríð í andlitinu, hálfvegis meðvitaður um að leiðin til baka verði kannski aldrei farin.

Þangað til ég stend upp frá lestrinum og kveiki á uppþvottavélinni.