• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • júlí 2015
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

39:59

Svona leit Garminúrið út í markinu.

Svona leit Garminúrið út í markinu.

Á miðvikudagskvöldið (29. júlí) náði ég óvænt langþráðu takmarki, þ.e. að hlaupa 10 km á styttri tíma en 40 mín. Þetta hef ég aldrei gert áður ef frá er talið eitt keppnishlaup á gamla Melavellinum haustið 1974. Síðan ég byrjaði að taka þátt í götuhlaupum hef ég séð þetta markmið í hillingum. Og nú bara náðist það allt í einu án þess að ég hefði svo mikið sem íhugað möguleikann.

Ég hljóp fyrsta götuhlaupið mitt sumarið 1985 og fyrsta 10 km hlaupið 1993. Þá var tíminn 45:33 mín. Á næstu tólf árum hljóp ég tólf 10 km hlaup til viðbótar, oftast í kringum 45 mín. Náði reyndar einu óvenjugóðu hlaupi sumarið 1996 í miðjum undirbúningi fyrir fyrsta maraþonið mitt. Komst þá niður á 41:00 og bjóst ekki við að bæta þann árangur nokkurn tímann. Hin hlaupin voru öll á bilinu 43:14-46:38 mín.

Sumarið 2007 þegar ég var nýorðinn fimmtugur hitti ég gamlan vin að norðan, Pétur Pétursson þrístökkvara. Leiðir okkar lágu oft saman á 8. og 9. áratug síðustu aldar, bæði í íþróttum og á öðrum vettvangi. Pétur hefur alltaf haft lag á að hvetja mig til dáða og í þetta skiptið sagði hann að ég hlyti að geta hlaupið 10 km undir 43:27 mín, því að þeim tíma hefði hann sjálfur náð eftir fimmtugt. Þar með var ég kominn með nýtt markmið!

Markmiðið um 43:27 mín náðist í annarri tilraun haustið 2008. Hljóp þá á 42:32 mín. Var vel sáttur við það en gamla „metið“ frá 1996 stóð óhaggað. Næstu ár mjakaðist ég þó smátt og smátt nær því og vorið 2013 hljóp ég á 41:03 mín eftir gríðarlega góða æfingartörn fyrir Parísarmaraþonið fyrr um vorið. Þegar þarna var komið sögu var ég eiginlega „kominn í nýtt borð“ í hlaupunum og búinn að átta mig á að árangurinn mætti auðveldlega bæta með meiri og betri æfingum.

Sumarið 2014 komst ég loks undir 41 mín og var meira að segja farinn að trúa að ég gæti rofið 40 mínútna múrinn þrátt fyrir „háan aldur“. Gerði nokkrar alvarlegar tilraunir til þess og náði best 40:09 mín í lok ágústmánaðar. Eftir misjafnt gengi á æfingum síðasta vetur sló ég hins vegar áformum um frekari bætingar á frest og ákvað að hugsa ekki meira um 40 mínútna múrinn í bili. Æfingar sumarsins miðuðust fyrst og fremst við að ná góðum tíma á Laugaveginum og þar reynir að hluta til á aðra þætti en í styttri götuhlaupum.

Laugavegurinn gekk eins og í sögu og einhvern veginn hafa skrefin orðið léttari eftir því sem liðið hefur á sumarið. En þegar ég lagði af stað í Adidashlaupið á miðvikudagskvöldið datt mér samt ekki í hug að ég myndi fara nálægt 40 mínútna múrnum. Markmiðið var að hlaupa undir 41 mín til að finna að ég væri að nálgast sama form og í fyrra.

Fyrstu kílómetrarnir í hlaupinu voru frekar venjulegir, en mér ós ásmegin eftir því sem leið á hlaupið. Eftir 9 km var tíminn 35:50 mín og þar með ljóst að 40 mínúturnar væru innan seilingar. Síðasti spölurinn var erfiður enda heldur á fótinn, og í markinu sýndi klukkan 40:00. Þetta var þá bara spurning um sekúndubrot til eða frá. Og viti menn, þetta lenti réttu megin við strikið. Lokatíminn var 39:59 mín. Hefði ekki viljað neinn annan tíma frekar.

Þetta var gaman! Það er alltaf gaman að bæta sig og ekki minnkar gleðin þegar aldurinn færist yfir. Ætli maður verði þá ekki enn meðvitaðri um að ekkert gerist af sjálfu sér. Svo er þetta líka enn skemmtilegra þegar maður á ekki von á því.

Þetta var Adidas Boost hlaup. Þess vegna fannst mér viðeigandi að mæta í Adidas Boost skónum mínum sem Adidasumboðið var svo vinsamlegt að gefa mér í vor í samvinnu við Borgarsport í Borgarnesi. Við fyrstu kynni fundust mér þessir skór helst til mjúkir, enda er ég vanur að nota þynnri og léttari skó í keppnishlaupum. Ég ætla ekkert að fullyrða um þátt skónna í árangrinum, en þeir spilltu örugglega ekki fyrir. Mýktin í botninum gerir það að verkum að maður verður óragari að láta vaða þar sem hallar undan fæti, þó að undirlagið sé hart.

Hvað er svo framundan? Jú, Barðsneshlaupið í fyrramálið og einhver fjallvegahlaup og Jökulsárhlaupið í framhaldinu. Svo er það Reykjavíkurmaraþonið. Ég hef engin áform um að bæta 10 km tímann á næstu dögum og vikum, en finnst líklegt að ég sneiði eitthvað af honum sumarið 2016. Þegar markmiði er náð setur maður sér ný.

2 svör

 1. Sæll frændi.

  Ég er nú það slakur í þessum blessuðu hlaupum að ég hafði ekki hugmynd um að þú værir að hlaupa Barðsnesið. Hefði nú kannski getað sagt mér það fyrirfram en það er ekki nógu grunnt á þessum „fötturum“ mínum þegar kemur að sjálfskaparvítishlaupi (að sjálfsögðu á að lesa þetta á léttu nótunum).

  En samt sem áður, ef ég hefði nú vitað af þér í hlaupinu hefði ég mætt með stuðningslið (fjölskylduna) og reynt að sparka aðeins í þig þannig að þú gætir hlaupið aðeins hraðar (ekki það, ég hefði trúlega ekki náð þér…).

  Vona að þú hafir haft gott af og þú lætur kannski vita af þér á næsta ári.

  kv.
  Sindri

 2. Sæll frændi og takk fyrir innleggið,

  Það var nú ekkert sjálfgefið að ég myndi mæta í Barðsneshlaupið. Þetta var nefnilega í fyrsta sinn. Og „fattarinn“ í mér er nú heldur ekkert alltaf í gangi. Ég hugsaði t.d. ekkert út í að ég ætti frændfólk á Norðfirði. Það hefði auðvitað verið gaman að sjá ykkur og fá aukreitis hvatningu. En, já, það verður bara næst, hvort sem næst er á næsta ári eða síðar.

  Hlaupið var annars dásamlega skemmtilegt. 🙂

  Bestu kv,
  SG

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: