
Á hlaupaæfingu með meistara Birki 9. mars í 7 stiga frosti – við Sævang, þar sem keppnisferillinn minn í hlaupum hófst fyrir tæpum 47 árum.
Þessa dagana eru fimm mánuðir liðnir frá því að ég byrjaði að hlaupa markvisst á nýjan leik eftir að hafa verið í hlaupalegum lamasessi nánast allt síðasta ár. Alla þessa fimm mánuði hafa hlaupaæfingar gengið eins og í sögu, að því leyti að ég hef nánast aldrei fundið fyrir verkjunum sem hrjáðu mig áður. Hins vegar hefur sagan ekki gengið eins og hélt að hún myndi ganga, að því leyti að framfarirnar hafa verið hægari en ég bjóst við. Í bloggpistli sem ég skrifaði á aðfangadag sagðist ég hafa „enga ástæðu til að ætla annað en að með vorinu verði ég kominn á nokkurn veginn sama stað og ég var áður en allt þetta vesen byrjaði fyrir alvöru“. Ég bjóst sem sagt við að þurfa u.þ.b. hálft ár til að koma mér í fyrra form. Nú veit ég að þetta var ekki raunhæf áætlun. Segjum eitt og og hálft ár. Ég verð þá orðinn alsprækur í apríl 2020. Ég hef nógan tíma. Þolinmæði er dyggð. Vanþakklæti er löstur.
Æfingarnar síðustu 5 mánuði
Frá því í lok október 2018 hef ég aukið æfingaálagið smátt og smátt. Lengstu hlaupin eru ekki lengur 7-10 km, heldur rúmlega 25 km. Og vikurnar hafa lengst úr því að vera um 20 km í að vera allt upp í 75 km. Það er hreint ekki svo lítið. Stólparit yfir vikuskammtana í nóvember til mars segir sína sögu.

Hlaupnir km í hverri viku nóv 2018 – mars 2019 ásamt aðhvarfslínu sem sýnir þróunina. (Stærri mynd birtist sé smellt á þessa).
Eins og sjá má á stólparitinu hefur þróunin verkið skrykkjótt, en þannig á það líka að vera. Stundum er skrykkirnir áformaðir og stundum tengjast þeir mislöngum vinnutíma. Aðalaatriðið er að aukið æfingaálag hefur ekki haft nein líkamleg vandamál í för með sér. Já, og andlega hliðin hefur yfirleitt talsvert góða fylgni við fjölda og lengd hlaupaæfinga.
Gengur þá ekki bara allt eins og í sögu?
Jú, í rauninni gengur þetta allt eins og í sögu. Það er bara hraðinn sem lætur bíða eftir sér. Löngu hlaupin eru ekki hlaupin á 5:00 mín/km eins og tíðkaðist oft fyrrum. Nú þykist ég góður ef ég get klárað þau á 5:30 mín/km. Ég verð sem sagt ekki kominn í mitt besta form í apríl og markmiðið sem ég var búinn að setja mér fyrir Víðvangshlaup ÍR í vor mun ekki nást. En það er allt í lagi. Ég var hvort sem er ekki búinn að segja neinum frá þessu markmiði, (já, eða alla vega ekki nema einum eða tveimur). Víðavangshlaup ÍR 2020 er skammt undan og þá verður tekið á því.
Auðvitað ætla ég að mæta í Víðavangshlaup ÍR í vor hvað sem hraðanum líður. Ég er meira að segja löngu búinn að ákveða í hvaða skóm ég ætla að hlaupa. Þeir hafa beðið í eitt og hálft ár eftir þessum stóra degi, ónotaðir inni í fataskáp, alla daga síðan þeir voru keyptir í Bregenz í október 2017. Í Bregenz hljóp ég mitt síðasta keppnishlaup til þessa og ég viðurkenni fúslega að ég hlakka mikið til að taka til við þá iðju á nýjan leik eftir eins og hálfs árs hlé. Já, og svo get ég svo sem alveg upplýst um markmiðið fyrir ÍR-hlaupið: Ég stefni að því að hlaupa þessa 5 km undir 22:00 mín. Besti tíminn minn á þessari vegalengd hingað til (í götuhlaupi) er 19:39 mín frá því í Víðavangshlaupi ÍR 2014. Og í eitt skipti var ég lengur en 22 mín. Þá var ófærð og hríð.
Næsta hlaupaverkefni
Næsta hlaupaverkefnið mitt er reyndar ekki Víðavangshlaup ÍR, heldur svokallað Kielder Ultra hlaup í Bretlandi sem fer fram um næstu helgi (laugardaginn 6. apríl). Þangað fer ég sem sérlegur stuðningsmaður og fjölmiðlafulltrúi hlaupafélaga minna, Gunnars og Birkis, sem eru að fara að hlaupa sitt fyrsta 100 km hlaup, af því að nú eru þeir samtals 100 ára. Og svo verður Úlfhildur þarna líka, en hún er miklu yngri og þarf þess vegna ekki að hlaupa „nema“ 50 km. Ég sé um vatnsbrúsana og að setja myndir á Facebook.
Hvað segir fólk?
Ég fer yfirleitt ekkert sérstaklega leynt með áhuga minn á hlaupum og hvar sem ég kem eru hlaup eitt helsta umræðuefnið. Í þeim umræðum fæ ég margar gagnlegar ábendingar og auðvitað aðrar minna gagnlegar, eins og gengur. Stundum er ég minntur á að ég sé náttúrulega maður á sjötugsaldri og að kannski sé bara kominn tími til að taka því aðeins rólega. Ég geti örugglega haldið áfram að hlaupa ef ég endilega vil, en það sé kannski skynsamlegt að hætta að hlaupa svona oft, svona langt, svona hratt eða svona … eitthvað. Auðvitað þigg ég allar ábendingar með þökkum, enda felst umhyggja í þeim öllum. Og auðvitað veit ég að menn á sjötugsaldri geta búist við að eitthvað hægist á þeim á hlaupum. En þrátt fyrir það finnst mér sjálfsagt að stefna að því að komast aftur á þann stað sem ég var á fyrir meiðsli. Þau fræði sem ég hef lesið segja að gera megi ráð fyrir u.þ.b. 0,7% afturför á hverju ári. Þess vegna er engin ástæða til að sætta sig við 5% eða 10% á tveimur árum. Það eina sem þarf að gera til að halda sér nálægt fyrri getu er að æfa aðeins betur – á meðan maður getur. Vissulega mun mér fara aftur með aldrinum. Ég ætla bara ekki að hafa frumkvæði að þeirri þróun.
Lokaorð
Sjáumst sumardaginn fyrsta í Víðavangshlaupi ÍR í miðborg Reykjavíkur. Og ef eitthvað markvert gerist í hlaupaævisögunni minni fyrir þann tíma mun ég örugglega ekki þegja yfir því.
Filed under: Hlaup | Tagged: endurhæfing, Kielder, meiðsli, sjötugsaldurinn, Víðavangshlaup ÍR |
Færðu inn athugasemd