Þann 23. september sl. skrifaði ég afskaplega langan bloggpistil um þrálát meiðsli sem þá höfðu haldið mér frá hlaupum allar götur frá 20. janúar, þ.e.a.s. hlaupum „í eðlilegri merkingu þess orðs“ eins og það var orðað í pistlinum. Núna, þremur mánuðum síðar, er ekki úr vegi að birta nýtt yfirlit yfir stöðu mála. Meginniðurstaða þessa nýja yfirlits er að staðan er orðin miklu betri en hún var í september. Lausnin sem ég leitaði að er sem sagt að öllum líkindum fundin. Ég á bara eftir að vinna aðeins meira með hana.
Tímabilin fimm
Í septemberpistlinum skipti ég meiðslasögunni minni í 5 tímabil:
- Undirbúningstímabilið frá því fyrir löngu og fram í desember 2016
Þetta var tímabilið þegar ég kom mér upp margnefndum vandræðum og þróaði þau. - Piriformistímabilið desember 2016 – 20. febrúar 2018
Þetta var tímabilið þegar lélegur piriformisvöðvi (peruvöðvi) utanvert á vinstri mjöðm var talinn helsti sökudólgurinn. - Brjósklostímabilið 20. febrúar – 30. apríl 2018
Þetta var tímabilið frá því að segulómun leiddi í ljós brjósklos á milli neðsta lendarliðar (L5) og efsta spjaldliðar (S1) og þangað til ég var hættur að trúa því að brjósklosið væri aðalástæðan. - Festumeinstímabilið 1. maí – 7. júní 2018
Þetta var tímabilið þegar ég var viss um að vandamálið lægi í úr sér gengnum sinafestum á efri enda aftanlærisvöðvans. - Spjaldliðartímabilið 7. júní – 25. september 2018
Þetta var tímabilið þegar takmarkaður hreyfanleiki spjaldliðar var talin helsta orsök vandans.
Aðgerðarleysistímabilið
Þann 25. september hófst nýr kafli í sjúkrasögunni. Og þó að sá kafli einkenndist af meiri svartsýni en öll hin tímabilin, þá leyndist lausnin eftir á að hyggja á milli línanna í honum. Það var þarna sem Írinn David McGettigan kom til sögunnar. David er sjúkraþjálfari sem beitir nýstárlegri nálgun, m.a. því sem kallast P-DTR (Proprioceptive – Deep Tendon Reflex). Hægt er að fræðast meira um það allt saman á heimasíðunni hans (https://www.davidmcgettiganclinic.com).
Ég heyrði David McGettigan fyrst nefndan í íþróttavöruverslun í Mora í Svíþjóð í ágúst þegar ég var að fylgja hlaupafélögunum í Ultravasan-90. Þetta var hlaupið sem ég hafði stefnt á sem toppinn á vel heppnuðu hlaupaári, en þátttaka mín í hlaupinu var löngu afskrifuð þegar þetta var. Ég var sem sagt bara þarna að leita mér að merktum bol til að eiga til minningar um hlaupið sem ég fór ekki í – og þá birtist þarna sænskur afgreiðslumaður, sem reyndist vera sjúkraþjálfari að aðalstarfi. Og til að gera langa sögu stutta var það hann sem kom mér í samband við David. Þetta var of góð byrjun á sögu til að láta hana ekki eignast framhald.
Þann 25. september hitti ég sem sagt David McGettigan í Reykjavík. Eftir ítarlega skoðun og greiningu lét hann í ljós það álit sitt að líkurnar á að vandamálið mitt stafaði af skemmdum í stoðkerfinu væru í mesta lagi 5%. Vissulega væri ég með brjósklos, en hann fann engin merki um að verkurinn tengdist því. Hann minnti líka á, sem ég vissi reyndar fyrir, að mjög hátt hlutfall fólks á mínum aldri er með einhverjar einkennalausar skemmdir í hrygg. Þetta var í góðu samræmi við það sem ónefndur sjúkraþjálfari hafði sagt við mig um vorið þegar hann líkti því sem sást á segulómunarmyndinni við grá hár.
David taldi sem sagt 95% líkur á að málið snerist um oftúlkun heilans á boðum um tiltölulega saklaust áreiti á einhvern vöðva eða líkamspart. Verkurinn sem var að angra mig gæti hugsanlega verið afleiðing áverka, uppskurða eða annarra áfalla, líkamlegra eða andlegra, jafnvel þótt löngu virtist gróið um heilt.
Eftir greininguna hófst sjálf meðferðin og að henni lokinni sagði David að hann væri hugsanlega búinn að lagfæra villuna sem leiddi til verksins, en það ætti þá að vera komið í ljós innan fjögurra daga eða svo. Sú varð þó ekki raunin og ástandið á mér tók engum stakkaskiptum við þetta. En þrátt fyrir það var þarna búið að sá fræi sem hefur spírað vel síðan.
Eftir fundinn með David vissi ég hreint ekki hvernig ég ætti að snúa mér í málinu. Ég sá eiginlega engan tilgang í að reyna að halda áfram að hlaupa, því að það var alltaf álíka vont og sama mátti segja um flestar þær æfingar sem ég hafði verið að reyna að gera. Ekkert af þessu skilaði heldur neinum merkjanlegum árangri. Það var ekki fyrr en undir lok októbermánaðar sem ég fann leið út úr aðgerðarleysinu.
Naprapattímabilið
Þann 31. október fór ég í fyrsta tímann af mörgum til Guttorms Brynjólfssonar naprapats. Naprapati er ein af stærstu heilbrigðisstéttum Norðurlandanna i háþróaðri stoðkerfismeðhöndlun og greinin hefur verið löggilt starfsgrein í Svíþjóð og hluti af sænska heilbrigðiskerfinu allar götur síðan 1994. Hins vegar virðast fáir Íslendingar kannast við fyrirbærið, ef marka má samtöl mín síðustu vikur við fólk á förnum vegi.
Ég frétti fyrst af Guttormi og aðferðum hans í Fréttablaðinu einhvern tímann í haust og eftir að ég birti sjúkrasögubloggpistilinn minn 23. september fékk ég ábendingar frá þremur hlaupavinum um að þetta væri kannski eitthvað sem ég ætti að skoða betur. Mig skortir þekkingu til að lýsa þessum fræðum af neinu viti, en þau ganga m.a. út á að skoða virkni miðtaugakerfisins og hvernig það stýrir því sem vöðvarnir gera. Nálgunin er ekki sú sama og í P-DTR, en grunnhugmyndin er engu að síður svipuð eins og ég skil hana, þ.e.a.s. að verkur í vöðva stafi ekkert endilega af einhverjum áverka á vöðvanum, heldur geti hann allt eins stafað af einhverju allt öðru sem hefur frekar með taugaboð en eiginlega áverka að gera.
Til að gera langa sögu stutta er ég búinn að fara 11 sinnum til Guttorms þegar þetta er skrifað og þess á milli hef ég gert fáeinar einfaldar og fljótlegar æfingar sem snúast miklu meira um jafnvægi og einbeitingu en um leiðleika og styrk. Á þessu tímabili er ég líka búinn að heimsækja David McGettigan öðru sinni. Í samráði við þessa kappa hef ég tekið til við hlaupin á nýjan leik, enda ekkert sem bendir til að þau hafi bein áhrif til hins verra á verkina. Þvert á móti er hreyfingin nauðsynlegri en flest eða allt annað í þessari stöðu. Og fyrst vöðvarnir sem verkirnir virðast búa í eru óskemmdir, þá er afar ólíklegt að þeir versni neitt við skynsamlega notkun.
Ég byrjaði sem sagt að hlaupa reglulega í lok október og hef síðan hlaupið reglulega þrisvar í viku. Nú eru liðnar 8 vikur af því tagi. Til að byrja með voru lengstu hlaupin 5-6 km og hraðinn oftast um eða rétt innan við 6 mín/km. En svo hefur þetta lengst smátt og smátt. Nú er vikuskammturinn kominn í rúma 30 km, lengsta hlaupið í tæpa 17 km og venjulegur hraði 5:30-5:45 mín/km. Og öll þessi 8×3 hlaup hafa verið verkjalaus eða því sem næst. Mér líður eins og ég hafi verið leystur úr álögum og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að með vorinu verði ég kominn á nokkurn veginn sama stað og ég var áður en allt þetta vesen byrjaði fyrir alvöru fyrir tæpu ári síðan. Á næstunni bæti ég væntanlega fjórðu æfingunni við vikuna og fer að leggja aukna áherslu á styrk og hraða. Mjög löng hlaup fá að bíða eitthvað lengur en gætu farið að koma meira inn í áætlunina þegar vorar. Og auðvitað halda jafnvægis- og einbeitingaræfingarnar áfram enn um sinn. Þetta snýst m.a. um að kenna vöðvum og miðtaugakerfi nýtt samspil og það verður ekki gert á einni nóttu.
Lærdómurinn
Allt þetta ferli hefur verið afskaplega lærdómsríkt og ég tel mig vera mun betur staddan en ég var áður en það hófst. Auðvitað langar hvorki mig né aðra hlaupara til að missa marga mánuði úr, en ég er samt þakklátur fyrir þetta óumbeðna tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn.
Eitt af því sem ég hef lært er að líkamanum dugar yfirleitt hálft ár til að lagfæra nánast hvað sem er, nema ef eitthvað er beinlínis ónýtt eða farið í sundur. Ef verkur er enn til staðar eftir að hálft ár er liðið frá því að vandræðin byrjuðu, þrátt fyrir markvissa sjúkraþjálfun og alls konar skynsamlegar styrktar- og liðleikaæfingar, á verkurinn sér líklega flóknari skýringar, sem geta sem best átt lögheimili í miðtaugakerfinu frekar en í vöðvanum sjálfum. Hvorki meiri æfingar, verkjalyf eða sprautur eru líklegar til að vinna bug á svoleiðis verk, nema þá í stutta stund.
Annað sem ég lærði snemma í þessu ferli er að myndgreiningar leiða ekkert endilega í ljós ástæður tiltekins verkjar. Þær gefa bara vísbendingar um hugsanlegar ástæður. Tengsl orsakar og afleiðingar eru oft miklu flóknari en fólk langar til að trúa. Flestir karlar á sjötugsaldri eru t.d. með einhverja einkennalausa missmíði í hryggnum. Einkenni sem menn finna fyrir geta allt eins stafað af einhverju allt öðru. Missmíði sem birtist á mynd er kannski bara eins og hvert annað grátt hár, sem sagt vissulega vísbending um að æskan sé að baki en alls ekki vísbending um sjúklegt ástand. Ástandið á manni batnar ekkert þótt reynt sé „að lækna myndina“.
Langvarandi verkir eru ekki eðlilegt ástand, hvort sem maður er á þrítugsaldri eða sjötugsaldri. Suma verki er sjálfsagt engin leið að losna við, en líkurnar á að verkirnir sem maður finnur fyrir séu af því taginu eru litlar. Maður má aldrei gefast upp í leitinni að betra lífi, jafnvel þótt leiðin þangað bjóði ekki upp á neinar skyndilausnir. Lífið er langhlaup og mikið þolinmæðisverk.
[…] (Brjósklos til batnaðar? 11. mars 2018, Sjúkrasaga Stefáns jan-sept 23. september og Sjúkrasaga Stefáns sept-des 4. desember). Í stuttu máli hélt ég stundum að ég væri búinn að finna lausnina og byrjaði […]
[…] að hún myndi ganga, að því leyti að framfarirnar hafa verið hægari en ég bjóst við. Í bloggpistli sem ég skrifaði á aðfangadag sagðist ég hafa „enga ástæðu til að ætla annað en að með vorinu verði ég kominn á […]
mjög fínt… mér líkar bloggið þitt virkilega…